141. löggjafarþing — 90. fundur
 6. mars 2013.
heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar, fyrri umræða.
þáltill. ÁPÁ o.fl., 642. mál. — Þskj. 1140.

[21:29]
Flm. (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vildi fylgja þessari tillögu til þingsályktunar úr hlaði og játa á mig sem flutningsmaður þau glöp að hafa í fyrri ræðu minni í dag þegar ég mælti fyrir því frumvarpi sem umræðu var að ljúka um, frumvarpi um breytingu á stjórnarskrá, staðið í þeirri meiningu að ég væri að mæla fyrir báðum málum í einu og getur þessi framsöguræða því verið afskaplega stutt. Ég vísa til þess sem ég sagði fyrr í dag og hef litlu við það að bæta. Um er að ræða tillögu til þingsályktunar sem fylgir frumvarpinu sem 1. umr. fór fram um áðan. Hún gerir ráð fyrir heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar þannig að tryggt sé að starfið sem hefur verið unnið í stjórnarskrárumbótum á þessu kjörtímabili glatist ekki við lok þess heldur verði hægt að vinna áfram með efnið á næsta þingi. Búið verði þannig um að sérstök nefnd verði kjörin af Alþingi sem fær það hlutverk að vinna málið áfram í sumar og fella það í þann búning sem hún telur eðlilegast. Nefndin færir málið svo í hendur nýs þings á hausti komanda með það að markmiði að heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar geti verið lokið fyrir 70 ára afmæli lýðveldisins árið 2014.



[21:30]
Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Það mál sem liggur fyrir er að mínu mati sérkennilegt eins og það sem var til umræðu áðan. Ég verð þó að segja að mér finnst málið sem liggur fyrir eiginlega enn þá óskiljanlegra en það sem áður var rætt.

Það er rétt sem kom fram í máli hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra að samþykkt frumvarpsins, hins fyrra máls, mundi með vissum hætti gera breytingar á stjórnarskrá á næsta kjörtímabili léttari. En hvaða gildi felst í þingsályktunartillögunni sem liggur fyrir hér, hvert er gildi hennar? Inn í hana eru skrifaðar ótal forsendur sem tillöguflytjendum má vera ljóst að stór hluti þingmanna getur ekki skrifað upp á. Það eru skrifaðar inn í tillögutextann sjálfan forsendur sem snerta umdeildustu atriði stjórnarskrármálsins á þessu kjörtímabili þannig að ég velti fyrir mér hvaða gildi tillagan á að hafa umfram það að vera yfirlýsing af hálfu ágætra formanna flokka um vilja þeirra í því sambandi. Það er alla vega ljóst að þingsályktunartillagan hefur engin áhrif umfram það sem pólitísk viljayfirlýsing tiltekinna þingmanna eða tiltekinna formanna stjórnmálaflokka hefði.

Það er líka alveg ljóst að ef nýr þingmeirihluti myndast í maí (Gripið fram í.) munu menn nálgast málin með ólíkum hætti. (Utanrrh.: Af hverju ekki í apríl?) Eða í lok apríl. Það verður að öllum líkindum kosið 27. apríl, kannski fyrr. Ég held að jafnvel þótt tillaga hv. þm. Þórs Saaris næði fram að ganga yrði erfitt að koma við kosningum fyrir þann tíma. Ég held að það mundi hugsanlega frá tæknilegu sjónarmiði geta flýtt kosningum um viku en ég er ekki viss um að nokkrum þyki það skynsamleg niðurstaða úr því sem komið er.

Hvað sem má segja um það er alla vega ljóst að ekkert gerist sem máli skiptir fyrr en að loknum kosningum hvort sem er, ekki fyrr en kominn er nýr þingmeirihluti hvernig svo sem hann verður saman settur. Ekki veit ég það, ekki hv. þingmenn og ekki tillöguflytjendur.

Þess vegna spyr ég: Hvaða tilgangi ætti það hugsanlega að þjóna að álykta eins og er kveðið á um hér? Vissulega mætti hugsa sér að tillaga væri samþykkt sem eingöngu fælist í upphafi síðari málsgreinarinnar í tillögutextanum, þ.e. að kjósa fimm manna nefnd til að vinna að frekari stjórnarskrárbreytingum. Það gæti hugsanlega orðið sátt um einhverja slíka niðurstöðu ef búið væri að strika út þær forsendur sem byggja á pólitískum viðhorfum flokkanna sem standa að baki tillögunni.

Ef ég fer yfir tillögutextann segir í upphafi, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að mikilvægt sé að leiða til lykta það ferli stjórnskipunarumbóta sem hófst í aðdraganda kosninga 2009 og hélt áfram með þjóðfundi, starfi stjórnlaganefndar og stjórnlagaráðs og tillögu ráðsins til nýrrar stjórnarskrár 2011, ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu 2012, þar sem fram kom stuðningur við smíði nýrrar stjórnarskrár, og þinglegri meðferð frumvarps á þeim grunni.“

Allt eru þetta meira og minna umdeildir þættir ef undan er skilið þar sem vísað er til þjóðfundar og starfs stjórnlaganefndar sem byggði á vissri málamiðlun í þinginu 2010, aðrir þættir eru mjög umdeildir. Ég þarf ekki að fara mörgum orðum um að mjög skiptar skoðanir eru um hvort yfir höfuð sé um að ræða einhverjar umbætur eða óvissuleiðangur. Þegar talað er um það sem gerðist í aðdraganda kosninga 2009 er það að mínu mati hreint hneyksli sem þáverandi ríkisstjórn og hennar fylgiflokkar reyndu að gera á síðustu vikum þingsins það ár. (Utanrrh.: Það var Framsóknarflokkurinn líka.) Hreint hneyksli hjá Framsóknarflokknum sem hefur sem betur fer snúið til betri vegar í þeim málum eins og ráða má af ágætum ræðum sem talsmenn þess flokks hafa flutt í þessari umræðu. Það hefur líkað skilaði sér í fylgisaukningu. Þegar Framsóknarflokkurinn hætti að vera villuráfandi sauður skilaði það sér í auknu fylgi til flokksins. (Utanrrh.: Ekki hjá Sjálfstæðisflokknum.) Nei, við erum nokkuð stabílir.

Þegar horft er til annarra þátta sem eru nefndir þarna er alveg augljóst að ætlunin er ekki að ná samkomulagi um niðurstöðuna. Síðan má auðvitað velta fyrir sér seinni lið tillögunnar um að kosin verði fimm manna stjórnarskrárnefnd sem fái það hlutverk að vinna að farsælli niðurstöðu á næsta kjörtímabili. Það er vel hugsanlegt að menn gætu komið sér saman um það. Hins vegar er nauðsynlegt að það komi fram í umræðunni að ekkert samkomulag er um það og það verður ekkert samkomulag um að slík stjórnarskrárnefnd verði bundin af þeim forsendum sem gefnar eru í þeirri tillögu um að unnið verði á grundvelli tillagna stjórnlagaráðs. Ég held að öllum megi vera ljóst af umræðum sem hafa farið fram um þau mál að um það er ekkert samkomulag, hvorki innan þessara veggja né í samfélaginu. Það er ekkert samkomulag, þetta er stórpólitískt umdeilt mál þannig að ályktun þingsins í þá veru er auðvitað undir það sett að verða endurskoðuð þegar nýtt þing kemur saman innan fárra vikna. Því spyr ég enn: Hvaða tilgangi á þetta að þjóna?

Fyrir utan það er auðvitað viss ósvífni fólgin í því að ætla að binda hendur næsta þings eins og er gert hér. Auðvitað mun það ekki hafa raunveruleg áhrif vegna þess að nýtt þing getur að sjálfsögðu tekið nýja ákvörðun, þess vegna í fullkominni andstöðu við það sem stendur hér ef meiri hlutinn á næsta þingi verður öðruvísi samsettur en sá sem nú situr. Það er meira að segja nokkuð líklegt miðað við hvernig straumar eru í dag þótt ég segi það auðvitað með þeim fyrirvara að enginn veit sín örlög í pólitík. Við vitum ekki hver útkoma einstakra flokka verður eða hverjir sitja í þessum sal að loknum kosningum, við vitum ekkert um það.

Ég verð að segja að mér finnst þau rök, sem þó eru fyrir fyrra málinu, að það hafi einhver raunveruleg áhrif ekki eiga við um þetta mál með nokkrum hætti. Ef formenn ríkisstjórnarflokkanna og formaður Bjartrar framtíðar hefðu viljað leggja til einhverja málsmeðferð, einhverja nefnd sem ætti að vinna að einhverju tilteknu á næstu vikum — af því að nýtt þing mun hvort sem er koma saman kannski eftir átta vikur — ef þeir hefðu viljað kjósa einhverja nefnd, sem er það sem gæti verið áþreifanlegt í þessari tillögu, hefði auðvitað átt að bera það þannig fram að aðrir í þinginu gætu hugsanlega skrifað upp á það en ekki með því að hafa inni í því forsendur af því tagi sem er að finna hér og aldrei verður samkomulag um.



[21:39]
Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Hér kemur annar tvílembingur þessarar nýju samsteypu Samfylkingar, litlu Samfylkingar og Vinstri grænna, formanna þeirra sem kynntu til sögunnar fyrr í kvöld breytingar á samstöðuákvæðinu í stjórnarskránni. Samstöðuákvæðinu sem ég kalla svo og er vissulega breytingarákvæði en er nokkuð stíft í íslenskum rétti þótt vissulega séu til stífari ákvæði á Norðurlöndunum, eins og til að mynda í Danmörku þar sem slíkt breytingarákvæði eða breytingar á stjórnarskrá þurfa að fara í gegnum tvennar kosningar og síðan í þjóðaratkvæðagreiðslu áður en breytingin á stjórnarskránni er samþykkt. Hún er auðvitað gerð svona stíf þar og hér og víðar til að tryggja að menn reyni af öllum mætti að ná sem breiðastri samstöðu um breytingar á grundvallarlöggjöf hverrar þjóðar, löggjafarsáttmálanum. Því er það að mati okkar framsóknarmanna illráðið að fara fram með breytinguna sem var kynnt af þessu þríeyki.

Hér er til þingsályktunar tillaga sem hljóðar þannig með miklum fagurgalatexta að heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar verði lokið á 70 ára afmæli lýðveldisins og tillagan hljómar í sjálfu sér ljómandi vel. Ég hef heyrt frá mörgum þingmönnum sem eru talsmenn þessa nýja frumvarps að stjórnskipunarrétti, og reyndar nokkrum þingmönnum sem hafa einfaldlega fjallað um það í löggjöfinni, að þeir leggja mikið upp úr því að textinn sé fagur. Vissulega þurfum við að passa upp á að nýta alla möguleika íslenskunnar til að fagur texti sé í löggjöf en þegar menn fara að breyta texta sem er útpældur af til þess bærum sérfræðingum á svipstundu á endamörkum mála vegna þess að þeim finnst það hljóma betur, án þess að kafa kannað til hlítar hvað það þýðir, geta menn lent í pyttum.

Ég held til að mynda að hausinn á þessari þingsályktunartillögu geti lent í þeim pytti. Hér er fagurgali um að heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar verði lokið á 70 ára afmæli lýðveldisins. Í lokasetningu greinargerðarinnar kemur fram, með leyfi forseta, að:

„Hljóti það frumvarp brautargengi verður unnt að ljúka heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar með viðeigandi hætti í bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu á 70 ára afmæli lýðveldisins árið 2014.“

Ég er ekki viss um að það muni ganga vel fyrir sig ef menn ætla sér að lenda í tímahraki að nýju og stefna málinu aftur með það hangandi yfir sér að einfaldur meiri hluti á þingi geti breytt stjórnarskránni. Ég held að það sé óskynsamlegt og rjúfi akkúrat þá hugmynd um samstöðuákvæðið sem þeir sem settu stjórnarskrána á sínum tíma hafa væntanlega haft í huga, að ákvæðið væri til að tryggja að menn reyndu af fremsta megni að ná sem breiðastri samstöðu um málið. Það ættum við auðvitað að vera að gera hér.

Í forsendum þingsályktunartillögunnar á að liggja til grundvallar vinna þessarar fimm manna nefndar. Tillögur stjórnlagaráðs eiga að liggja til grundvallar og miða að því að útfæra nánar frumvarpið, nýja stjórnarskrá sem liggur nú fyrir þinginu. Þá væru jafnframt hafðar til hliðsjónar þær breytingartillögur sem meiri hluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar hefur lagt fram.

Ég hef heyrt tvo nefndarmenn hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, hv. þm Lúðvík Geirsson og Álfheiði Ingadóttur, halda því fram í ræðustól að engar tillögur hafi komið frá öðrum en þeim sem sitja í meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, engar frá stjórnarandstöðunni. Ég vil rifja upp, frú forseti, að í umsögn atvinnuveganefndar var ég með fyrirvara við það álit og skilaði inn texta — við höfðum þrjár greinar til umfjöllunar — þar sem ég gerði þrjár breytingartillögur og skilaði í umsögn til nefndarinnar. Eins var með mjög margar aðrar nefndir. Ég skil þetta ekki. Hér er hugmyndafræðin sú að einungis eigi að taka tillögur frá meiri hlutanum. Næsta þing, sem enginn veit hvernig verður samansett, á einungis að hafa tillögur meiri hlutans til hliðsjónar. Það á ekki að taka tillögur sem hafa verið til umfjöllunar hjá öllum nefndum þingsins og væntanlega síðan í stjórnskipunar- og eftirlitsnefndinni sem er afar sérkennilegt.

Það er heldur ekki minnst á þá vinnu sem hefur farið fram á síðasta áratug eða tveimur við breytingar til að mynda á náttúruauðlindaákvæðinu. Við framsóknarmenn teljum reyndar að hægt sé að setjast yfir það á þeim dögum sem eftir eru og finna samstöðu í þinginu, ná breiðri sátt um ákvæðið. Við settum þess vegna fram tillögu í dag sem miðar að því að reyna að sætta bæði þá sem eru til vinstri og hægri og fá þá til að reyna að klára ákvæðið í þessari lotu. Ég held að það yrði áferðarfallegra að gera það í stað þess að fresta málinu sisvona til næsta kjörtímabils.

Frú forseti. Ég held að menn stefni í blindgötu með málið. Það hefur komið til umræðu hvaða gildi þingsályktun hefði sem er þingsályktun til næsta þings. Við þekkjum auðvitað þingsályktanir sem þing samþykkja og senda til framkvæmdarvaldsins og það er fullkomlega eðlilegt að þær haldi áfram á næsta kjörtímabili eða þarnæsta ef þær eru með tilvísun til lengri tíma. En þingsályktun sem vísar til þess að binda hendur næsta þings rétt fyrir kosningar, alveg óháð því hvernig þær kosningar fara og hvaða fólk sest á þing, hlýtur að vera umdeilanleg sem og hvaða gildi slík þingsályktun hefur.

Það kom fram hjá hv. þm. Birgi Ármannssyni rétt áðan að ef samsetning þingsins verður með allt öðrum hætti gæti nýja þingið í sjálfu sér sett fram nýja þingsályktun og fellt þessa úr gildi í heild sinni án þess að hugsa sig mikið meira um. Það væri alveg hægt af því að ekki hefur verið gerð ein einasta tilraun til að reyna að ná samstöðu. Sú hugmynd kom fram í gærkvöldi að fara þessa leið og við erum að tala um hana einum sólarhring síðar og án þess að tilraun hafi verið gerð til að reyna að ná breiðari samstöðu.

Frú forseti. Ég held því miður að verið sé að fara með málið í blindgötu. Hvort þetta er hlutur af einhverju stærra sjónarspili veit ég ekki, ég vona ekki því að stjórnarskráin á betra skilið. Það er búið að vinna heilmikið í stjórnarskrárbreytingum á þessu kjörtímabili. Sumt hefur gengið vel, náðst hefur að skapa nokkuð breiða samstöðu um sumt en í öðrum tilvikum hefur það mistekist hrapallega. Málið í heild sinni er komið í öngstræti eins og við þekkjum. Það er ekki meiri hluti innan stjórnarflokkanna til að fara fram með það í þinginu, enda óskynsamlegt að fara fram í miklu ósætti við stjórnarandstöðuna með lítinn meiri hluta af sömu ástæðu og ég nefndi um þingsályktunartillöguna, að næsta þing eða kosningarnar fari að snúast um hvort menn ætli að fjalla um stjórnarskrána og hún verði eitthvert pólitískt bitbein. Hún á ekki að vera það.

Við eigum að geta hafið okkur yfir það í málinu þegar við fjöllum um stjórnarskrána, geta sest niður, reynt að ná sem víðtækastri sátt um hverja einustu grein og breyta þeim sem við höfum síðan náð sátt um. Þess vegna getur hugmynd um fimm manna nefnd sérfræðinga eða þingmanna sem færu í slíka vinnu vel verið ásættanleg. Ég bendi líka á tillögu okkar framsóknarmanna um að formenn flokkanna gefi út yfirlýsingu, þess vegna sameiginlega, og muni síðan beita sér í sínum flokkum fyrir því. Það er ekki 100% heldur því að auðvitað geta komið fram ný framboð sem við þekkjum ekki í dag og náð umtalsverðu fylgi og væru algjörlega á móti því á næsta þingi.

Frú forseti. Ég held að þessi aðferð sé dæmd til að mistakast. Hún er blindgata og mun ekki leiða okkur áfram af neinni skynsemi í málinu.



[21:49]
Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum hér tillögu til þingsályktunar um heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar.

Þannig er með þetta kjörtímabil, og ég er nú búinn að upplifa þau nokkur, að sjaldan hefur verið eins mikill ágreiningur milli flokka og milli einstakra þingmanna. Mér finnst þessi þingsályktunartillaga bera þess vitni. Eins og í því máli sem var hér á dagskrá á undan eru það formenn þriggja flokka, hv. þingmenn Árni Páll Árnason, Katrín Jakobsdóttir og Guðmundur Steingrímsson, sem leggja fram tillöguna. Ég er nærri viss um að ef menn hefðu gefið sér einhvern tíma, segjum bara einn dag eða tvo, til að fara í gegnum þetta með öðrum formönnum flokka, Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Hreyfingarinnar, hefði örugglega náðst betri niðurstaða, eitthvað sem allir væru sammála um, eitthvað sem menn gætu fallist á um svona breytingu á stjórnarskránni. Hugsanlega varanlega breytingu, hugsanlega með yfirlýsingu allra formannanna um að þeir mundu halda þessu starfi áfram eða eitthvað slíkt gegn því að þessari umræðu yrði hætt. En það var ekki fyrr en í gær eða fyrradag sem þessi kúvending kom upp. Það er alveg ótrúleg kúvending á ekki lengri tíma þar sem menn hætta allt í einu við eitt stykki stjórnarskrá og fara yfir í það að breyta eingöngu ákvæðinu um 79. gr. Ég hef reyndar lagt fram frumvarp um slíkt í þrígang og bent einmitt á það að vilji menn að þjóðin eða kjósendur greiði bindandi atkvæði um stjórnarskrá sína verði að gera eitthvað svona.

Eins og bent hefur verið á í umræðunni um þetta mál er það fullt af pólitískum agnúum. Það eru ekki allir sáttir við það ferli sem hefur verið í gangi og þess vegna finnst mér rangt að vísa til þess. Hv. þm. Birgir Ármannsson benti á að fyrsta málsgreinin er eiginlega full af ágreiningsatriðum, eins og menn séu að leita að ágreiningi. Hún er alveg óþörf, hún gerir ekkert fyrir málið. Það hefði alveg mátt láta seinni málsgreinina standa eingöngu eftir og þar stæði einfaldlega að kjósa ætti fimm manna stjórnarskrárnefnd sem mundi vinna úr þeim hugmyndum sem hafa komið fram og endurbæta þær. Þá er hugsanlegt að samstaða hefði náðst um þetta og formenn allra flokka verið með. Það getur vel verið að það takist enn, frú forseti. Menn eru kannski ekki alveg svona ágreiningsfúsir og vel má vera að það takist að ná fram málamiðlun á þeim örfáu dögum sem eftir eru. Þetta fer jú til nefndar og það er yfirlýst að þar verði málið rætt og hugsanlega gerðar á því breytingar.

Ég hefði viljað sjá hærri þröskuld í þessari tillögu, t.d. að að minnsta kosti 40% þjóðarinnar þurfi að greiða atkvæði með stjórnarskrárbreytingu. Svo er náttúrlega spurning hvort menn vilji gera þá breytingu sem lögð var fram í málinu hér á undan, að þetta verði bráðabirgðaákvæði.

Það er náttúrlega tómt mál að Alþingi fari að álykta fyrir næsta Alþingi vegna þess að sérhvert Alþingi er sjálfstætt og getur afnumið þær þingsályktanir sem hafa verið samþykktar áður eða unnið eftir því sem því dettur í hug. Nýtt þing fer eftir sannfæringu sinni samkvæmt núgildandi stjórnarskrá, sem er einnig í samræmi við þær hugmyndir sem við höfum verið að ræða hérna mjög lengi.

Ég skora því á alla aðila að reyna að finna einhvern flöt á sameiginlegri þingsályktunartillögu og sameiginlegri breytingu á stjórnarskránni þannig að allir séu nokkurn veginn sáttir og gefi sér kannski tvo, þrjá daga í það eða fram að helgi, fram á mánudag. Það yrði skemmtilegri bragur á því, frú forseti, ef stjórnarskránni yrði breytt í sæmilegri samstöðu.



Till. gengur til síðari umr. 

Till. gengur til stjórnsk.- og eftirln.