141. löggjafarþing — 91. fundur
 7. mars 2013.
kísilver í landi Bakka, 1. umræða.
stjfrv., 632. mál (fjárfestingarsamningur og ívilnanir). — Þskj. 1108.

og 

uppbygging innviða vegna atvinnustarfsemi í landi Bakka, 1. umræða.
stjfrv., 633. mál (stækkun hafnar og vegtenging). — Þskj. 1109.

[20:01]
atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka fyrir að fallist var á að ræða þessi mál saman því að þau eru mjög samhangandi. Það hefði auðvitað komið til greina að fara fram með þetta í einu frumvarpi þó að annars vegar sé um sjálfstæð heimildarlög að ræða og hins vegar lög sem hafa meiri tengingu við lög um ívilnanastarfsemi.

Þá vík ég fyrst að frumvarpi á þskj. 1108 sem er 632. mál. Í því frumvarpi er lagt til að þeim ráðherra sem fer með atvinnumál verði heimilt að undirrita fjárfestingarsamning fyrir hönd ríkisins við þýska félagið PCC SE og íslenskt dótturfélag þess, PCC BakkiSilicon hf., um sérstakar ívilnanir vegna byggingar og reksturs kísilvers í landi Bakka í Norðurþingi. Í frumvarpinu er gengið út frá því að starfsemi félagsins skuli að öðru leyti vera í samræmi við íslensk lög og stjórnvaldsfyrirmæli. Kveðið er á um að uppbygging, túlkun og framkvæmd þessa samnings sem gerður var innan ramma laganna skuli lúta lögsögu íslenskra laga.

Fyrirhuguð fjárfesting vegna byggingar kísilvers á Bakka er áætluð um 170 milljónir evra eða sem nemur um 28 milljörðum íslenskra króna og er áætlað að sú fjárfesting dreifist yfir þrjú ár. Eru þá að sjálfsögðu ótaldar fjárfestingar í virkjunum, í flutningskerfi, innviðum og ýmiss konar smærri fjárfestingum sem fylgja munu í kjölfarið þannig að samanlagt umfang þessara framkvæmda verður umtalsvert.

Miðað er við að fyrsti áfangi kísilversins taki til starfa á árinu 2016 með 33 þús. tonna framleiðslugetu á ári. Kísilverið mun þurfa í þann áfanga um það bil 52 megavött af orku og nota um það bil 456 gígavattstundir á ári. Veruleg umsvif fylgja rekstri kísilversins. Ef miðað er við 33 þús. tonna framleiðslu þarf um 180 þús. tonn af hráefni árlega. Flutningur hráefnis og afurða verður með skipum til og frá Húsavíkurhöfn og síðan áætlar félagið að tvöfalda framleiðslugetu kísilversins fyrir árið 2020. Fjöldi starfsmanna við fyrsta áfanga kísilversins verður í kringum 127 manns en verður nálægt 200 þegar kísilverið yrði fullbyggt með 66 þús. tonna framleiðslu.

Þessi áform eru að sjálfsögðu háð og ráðast af ýmsum öðrum þáttum en fjárfestingarsamningi einum við ríkið. Þyngst vegur þar fjármögnun og fjárfestingarkostnaður félagsins en jafnframt þurfa aðrir samningar að ná fram að ganga. Hér er meðal annars átt við lokafrágang og samning við Landsvirkjun um raforku, Landsnet um orkuflutning, lóðarsamning við Norðurþing og hafnarsamning við hafnarsjóð Norðurþings. Að auki verður fjárfestingarsamningurinn gerður með þeim fyrirvara að framleiðslan uppfylli umhverfismat Skipulagsstofnunar og að samþykki Eftirlitsstofnunar EFTA, ESA, liggi fyrir um lögmæti þess stuðnings sem verkefnið fær.

Skýrsla um mat á umhverfisáhrifum verksmiðjunnar liggur fyrir og er að fara í opið kynningarferli á næstu dögum. Um nokkurt skeið hefur legið fyrir áhugi á því að byggja upp fjölþætta starfsemi á Bakka fremur en að leggja áherslu á eitt stórt, sérhæft iðnaðarverkefni. Fjölþættari iðnaðarstarfsemi kemur með nýja þekkingu inn í landið og dreifir betur áhættunni af orkusölunni og fellur betur að orkuöflunarmöguleikum svæðisins. Til að opna fyrir slíkan möguleika á uppbyggingu á Bakka var ljóst að einkum og sér í lagi þyrfti til að koma stuðningur við fyrsta verkefnið þannig að það gæti farið af stað. Í þeim skilningi má segja að fyrsta fjárfestingarverkefnið sé nokkurs konar ísbrjótur sem greiði götu fyrir síðari verkefni og frekari uppbyggingu. Þar af leiðandi er eðlilegt og nauðsynlegt að það njóti stuðnings enda er framganga þess forsenda frekari uppbyggingar.

Stjórnvöld hafa unnið þétt með sveitarfélögum á svæðinu til að stuðla að því að opna þetta fyrsta verkefni. Fyrirhuguð uppbygging innviða á Bakka sem lögð er til með frumvarpi sem ég mæli fyrir á eftir mun ekki einungis nýtast fyrirtækinu PCC SE og frekari stækkunarmöguleikum þess heldur öllum öðrum fyrirtækjum sem líkleg eru til að koma á eftir.

Í viðræðum fulltrúa ríkisins og Norðurþings við PCC SE kom skýrt fram að tilteknar ívilnanir væru ein af nauðsynlegum forsendum þess að fyrirtækið mundi ráðast í uppbyggingu kísilvers á Bakka sem og hefur lengi legið fyrir að tilteknar fjárfestingar í innviðum þyrftu að koma til. Miðað er við að félagið eigi rétt á almennum ívilnunum í samræmi við rammalöggjöf um ívilnanir vegna nýfjárfestinga á Íslandi, samanber lög nr. 99/2010, en rétt er að taka fram að þau lög eru nú til meðferðar á Alþingi og bíður 3. umr. frumvarp sem breytir nokkuð innihaldi þeirra laga tímabundið þar sem felldar eru út úr lögunum heimildir til að greiða svonefnda stofnstyrki en í staðinn er rýmkaður nokkuð ramminn til að veita skattalegar ívilnanir á upphafstíma starfseminnar.

Í frumvarpi þessu er auk þess lagt til að félaginu verði veittar tilteknar sérstakar ívilnanir samkvæmt sérákvæðum sem er þá að finna í þessu frumvarpi. Eru þær í samræmi við sameiginlega viljayfirlýsingu PCC SE, ríkisstjórnarinnar, Norðurþings og hafnarsjóð Norðurþings sem undirrituð var þann 15. febrúar sl. Mun ég gera betur grein fyrir þeim frávikum frá sköttum og gjöldum sem ríkið hyggst veita félaginu, og sömuleiðis sveitarfélagið, verði frumvarp þetta að lögum. Eru þau frávik á hinn bóginn verulega minni ef borið er saman við lögfestingu samninga vegna fyrri verkefna, t.d. samanber lög um álver í Helguvík, á Grundartanga og Reyðarfirði.

Með frumvarpinu er lagt til að félagið njóti tryggingar fyrir 15% tekjuskattshlutfalli í stað 18% eða 20% eins og verið hefur í flestum fyrri ívilnunarsamningum. Þó er rétt að taka fram að einir þrír samningar eru til staðar með 15% tekjuskattshámarki. Með frumvarpinu er jafnframt lagt til að félagið greiði engin gjöld af stimpilskyldum skjölum sem félagið gefur út eða stofnar til í tengslum við uppbyggingu viðkomandi fjárfestingarverkefnis, að félagið geti notið allt að 50% afsláttar af fasteignagjöldum og verði undanþegið almennu tryggingagjaldi.

Vegna misskilnings sem virðist hafa gætt er rétt að leggja áherslu á að hér er eingöngu um að ræða hinn almenna þátt tryggingagjaldsins en ekki atvinnutryggingagjaldið eða gjald í Ábyrgðasjóð launa. Þetta fyrirkomulag hefur engin áhrif á réttarstöðu starfsmanna eða tryggingar þeirra þar sem um er að ræða afslátt af þeim hluta tekjustofnsins sem rennur beint til ríkisins. Þessi frávik frá sköttum og gjöldum geta gilt að hámarki í 14 ár frá undirritun fjárfestingarsamnings en þó aldrei lengur en í tíu ár frá því að skattskylda eða gjaldskylda myndast hjá félaginu þannig að hér er um að ræða stuðning á uppbyggingartíma verkefnisins en ekki til langs tíma, eins og var tíðkað í eldri lögum, sérlögum um fjárfestingarumhverfi stóriðju. Í gildi eru samningar sem voru upphaflega til 20 ára og jafnvel með framlengingu í önnur 20 ár þannig að slíkir ívilnunarsamningar gátu þá tekið til jafnvel 40 ára starfrækslu iðjuversins.

Það er áætlað að ríkissjóður veiti með þessu afslátt upp á um 100–150 millj. kr. að meðaltali á ári hverju meðan ívilnana nýtur við. Á móti myndast að sjálfsögðu umtalsverður ábati fyrir ríkissjóð á uppbyggingartímanum og eftir að rekstur kísilversins hefst, m.a. vegna mikilla umsvifa sem fylgja fyrirtækinu á ýmsum sviðum og skattgreiðslna starfsmanna. Er enginn vafi á því að útkoman úr dæminu er ríkinu verulega hagstæð þegar allt er lagt saman.

Í öðru lagi er lagt til í frumvarpinu að ríkissjóður veiti félaginu PCC BakkiSilicon hf. fjárstuðning, að fenginni heimild í fjárlögum. Það er annars vegar vegna undirbúnings iðnaðarlóðar félagsins í landi Bakka þar sem hún er á þeim hluta sem félagið mun staðsetja sig í umtalsverðum bratta, er ójöfn og þarf grófjöfnunar við áður en hún kemst í byggingarhæft ástand. Hins vegar verða nýttar heimildir gildandi laga til að greiða tiltekna styrki vegna þjálfunar starfsfólks. Samtals getur þessi stuðningur numið að hámarki um 760 millj. kr.

Efnahagsskrifstofa fjármála- og efnahagsráðuneytisins hefur metið þjóðhagsleg áhrif fyrirhugaðra framkvæmda við kísilver í landi Bakka og eru niðurstöður greiningarinnar að framkvæmdirnar muni hafa jákvæð áhrif á þjóðarbúið þótt um sé að ræða fremur smáa fjárfestingu samanborið við stóriðju á borð við álver. Mestu jákvæðu áhrifin verða þó að sjálfsögðu fyrir samfélagið á norðaustanverðu landinu, en Byggðastofnun telur að fyrirhugaðar fjárfestingar vegna uppbyggingar iðnaðarsvæðisins hafi mikil og jákvæð áhrif á samfélagið sem tilheyrir Þingeyjarsýslum, sérstaklega með tilliti til íbúaþróunar á svæðinu og samsetningar íbúa. Þannig er gert ráð fyrir því að án iðjuvera yrði íbúafjöldinn á norðausturhorninu kominn niður í 4.522 íbúa árið 2022 ef ekkert sérstakt gerðist í atvinnumálum svæðisins. Ef fyrsti áfangi álversins kemst til framkvæmda er íbúafjöldinn árið 2022 áætlaður 5.275 sem er fjölgun um 753 íbúa, þ.e. um 16,7%. Fyrirhugaðar framkvæmdir og íbúafjölgun þeim tengd er sveitarfélaginu afar mikilvægt til að styrkja tekjugrunn þess og framtíðarhorfur, bæði í formi skatttekna og þjónustugjalda. Með bættri afkomu verður sveitarfélagið í annarri og betri stöðu til að halda uppi góðri þjónustu við íbúana o.s.frv.

Þær ívilnanir sem hér eru taldar upp ber að skilgreina sem ríkisaðstoð í samræmi við 61. gr. EES-samningsins og verður Eftirlitsstofnun EFTA því tilkynnt um þá ríkisaðstoð sem telja megi að felist í fjárfestingarsamningnum með sama hætti og gert var til dæmis vegna álveranna á Grundartanga og Reyðarfirði.

Virðulegi forseti. Að þessu sögðu leyfi ég mér að leggja til að þessu frumvarpi verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. atvinnuveganefndar.

Þá mæli ég fyrir frumvarpi til laga um heimild til handa ráðherra, fyrir hönd ríkissjóðs, til að fjármagna uppbyggingu innviða vegna atvinnustarfsemi í landi Bakka í Norðurþingi. Þetta er á þskj. 1109, mál nr. 633.

Í frumvarpinu er lagt til að ráðherra sem fer með atvinnumál verði veitt tímabundin heimild, fyrir hönd ríkissjóðs, til að fjármagna og þar með undirrita samninga um þátttöku ríkisins vegna uppbyggingar á nauðsynlegum innviðum til að iðnaðarsvæði geti risið í landi Bakka í Norðurþingi. Í því felst annars vegar að semja við Vegagerðina um fjármögnun á vegtengingu milli Húsavíkurhafnar og iðnaðarsvæðisins á Bakka að fjárhæð allt að 1.800 millj. kr. og hins vegar að semja við hafnarsjóð Húsavíkur um fjármögnun á stækkun og dýpkun hafnar að fjárhæð 819 millj. kr. Samkvæmt frumvarpinu er því heildarframlag ríkissjóðs til framkvæmdanna um 2,6 milljarðar kr. miðað við verðlag í lok árs 2012. Framlagið til hafnarframkvæmdanna verður í formi víkjandi láns sem að sjálfsögðu kemur til endurgreiðslu þegar tekjur hafnarinnar gera henni kleift að hefja endurgreiðslu lánsins.

Heimildin er að sjálfsögðu bundin þeirri forsendu að vinna hefjist ekki við umræddar framkvæmdir fyrr en undirritaðir hafa verið nauðsynlegir samningar, svo sem fjárfestingarsamningur, og eftir atvikum að fyrir liggi að undirritaðir samningar milli fyrirtækisins sem hyggst reisa og reka atvinnustarfsemi á Bakka og Landsvirkjunar og Landsnets og að fyrirvarar séu brott fallnir. Hafi uppbygging samkvæmt framansögðu ekki hafist fyrir 1. janúar 2015 fellur niður heimild samkvæmt frumvarpi þessu.

Eins og kunnugt er hefur lengi verið til athugunar að nýta jarðhitaauðlindirnar í Þingeyjarsýslum til atvinnuuppbyggingar og sporna þannig meðal annars gegn viðvarandi fækkun starfa og tilheyrandi fólksfækkun í héraðinu. Þá hefur Landsvirkjun kynnt opinberlega að helsta áhersla fyrirtækisins í orkusölumálum sé að selja orku af háhitasvæðum í Þingeyjarsýslum til iðnaðarfyrirtækja sem vilja byggja upp framleiðslustarfsemi á svæðinu. Þær athuganir sem liggja til grundvallar frumvarpinu sýna að fjárfestingin hefur bæði jákvæð áhrif á hagvöxt og velferð samfélagsins á Húsavík og í nágrenni þess. Þá kemur fjárfestingin til með að nýtast öllum fyrirtækjum sem hafa áhuga á að koma upp starfsemi á Bakka eða þjóna þeirri atvinnustarfsemi sem þar getur orðið til í framtíðinni.

Þá verður hagsmuna almennings gætt þar sem áfram verður tryggt aðgengi að útivist og náttúruminjum á Bakkahöfða samkvæmt deiliskipulagi sem kynnt verður íbúum á næstu dögum. Forsaga fyrirhugaðrar iðnaðaruppbyggingar í Þingeyjarsýslum á sér langa sögu og margir hafa komið þar að málum. Rekja má söguna að minnsta kosti aftur til níunda áratugar síðustu aldar þegar fyrstu hagkvæmnisathuganir voru gerðir um kosti þess að reisa verksmiðju með nýtingu jarðhita frá Þeistareykjum.

Á árinu 1998 hófst formlegt samstarf milli Þingeyinga og Eyfirðinga um að kanna orkugetu svæðisins til atvinnuuppbyggingar í héraðinu. Samstarfið leiddi til þess að iðnaðarráðuneytið, Húsavíkurbær og Atvinnuþróunarfélag Þingeyinga undirrituðu á árinu 2002 samkomulag um gerð frummats um staðsetningu orkufreks iðnaðar. Niðurstöður frummatsins sem kynnt var á árinu 2003 sýndu að Bakki við Húsavík væri hagkvæmasti kosturinn. Við ákvörðunina var horft til jarðfræði, vistfræði umræddra svæða, landfræðilegra aðstæðna, hugsanlegra fornleifa, veðurfars, siglingaleiða, hafnaraðstæðna svo og, og ekki síst, orkuframleiðslu, orkuflutningsmöguleika og almennra samgangna. Enn fremur var lagt mat á samfélagsleg og efnahagsleg áhrif, svo sem íbúasamsetningu viðkomandi sveitarfélaga, vinnumarkaðar og áhuga íbúa á hugsanlegum framkvæmdum.

Á grundvelli frummatsins gengu iðnaðarráðuneytið, Húsavíkurbær og Alcoa frá sameiginlegri viljayfirlýsingu um uppbyggingu álvers í landi Bakka í maí árið 2006. Áform Alcoa um álver gengu hins vegar ekki eftir en viðræður um uppbyggingu á svæðinu fyrir orkufrekan iðnað héldu þó áfram. Í október 2009 undirrituðu iðnaðarráðherra og fulltrúar Skútustaðahrepps, Þingeyjarsveitar og Norðurþings viljayfirlýsingu um að vinna að því að leita að fjárfestum til að byggja upp atvinnustarfsemi á Bakka. Við þá vinnu komu fleiri að borðinu og hafa nú viðræður staðið yfir við þrjá líklega fjárfesta um iðnframleiðslu sem er minni í sniðum en fyrri áform um byggingu álvers. Slík minni verkefni eru þó ekki síður áhugaverð til að skapa fjölbreytileika í atvinnustarfsemi hér á landi auk þess sem þau falla mun betur að núverandi afstöðu orkufyrirtækisins um að taka í notkun í áföngum jarðvarmavirkjanir á háhitasvæðunum í Þingeyjarsýslum.

Viðræður eru nú mjög langt komnar við þýska félagið PCC SE um uppbyggingu á kísilveri eins og rakið er í athugasemdum með frumvarpi því sem ég mælti fyrir áðan og er lagt fram samhliða þessu. Ljóst er að ekki verður úr þeirri atvinnuuppbyggingu eða af annarri sambærilegri atvinnustarfsemi á svæðinu nema stjórnvöld tryggi fyrirtækjum og rekstraraðilum fullnægjandi vega- og hafnasamgöngur og þjónustu. Er það í sjálfu sér óháð stærð og fjölda fyrirtækja. Norðurþing hefur ekki fjárhagslega burði til að standa eitt undir fjárfrekum fjárfestingum eins og hér um ræðir og er því óhjákvæmilegt að ríkissjóður taki nokkurn þátt í að fjármagna verkefnin.

Eins og að framan greinir er því lagt til í frumvarpinu að ráðherra verði veitt heimild að fengnu samþykki í fjárlögum til að semja fyrir hönd ríkissjóðs um þátttöku ríkisins í innviðaframkvæmdum tengdum uppbyggingu iðnaðarsvæðisins á Bakka að fjárhæð allt að 2,6 milljarðar kr.

Mikilvægt er að fram komi og lögð sé áhersla á að fjárfestingin mun að sjálfsögðu ekki aðeins nýtast þessum framkvæmdum, heldur er hún frumforsenda þess að þetta verkefni geti, sem önnur, orðið að veruleika á svæðinu og að fjárfest sé þar með í atvinnuskapandi og arðvænlegum verkefnum. Hér er því um fjárfestingu í innviðum til framtíðar að ræða og er nauðsynleg forsenda þess að brjótast út úr þeirri stöðnun sem við höfum staðið frammi fyrir í fjárfestingum að þessu leyti.

Verði frumvarpið að lögum og samþykki fæst á fjárlögum er um tvær aðskildar framkvæmdir að ræða. Í fyrsta lagi þarf að koma upp vegtengingu milli hafnar og iðnaðarsvæðisins í landi Bakka. Vegagerðin lagði mat á kosti og galla nokkurra vegaleiða að iðnaðarsvæðinu. Niðurstaðan varð sú að helst komi til greina að byggja göng í gegnum Húsavíkurhöfðann til að tryggja viðunandi veghalla og til að lágmarka umhverfisáhrif og hljóðmengun. Þá tók Vegagerðin mið af því að hægt væri að nýta áfram höfðann til uppbyggingar, svo sem í ferðaþjónustu, sem ekki yrði með sama hætti mögulegt ef farin yrði sú leið að skera veg í gegnum utanverðan höfðann. Áætlað er að framkvæmdin kosti um 1,8 milljarða kr. samkvæmt frummati Vegagerðarinnar. Gert er þá ráð fyrir að framkvæmdir hefjist á árinu 2014 og ljúki á árinu 2016, samanber það sem áður sagði um upphafsár starfsemi verksmiðjunnar. Þar af er gert ráð fyrir að kostnaður vegna rannsókna og útboðsgagna að fjárhæð allt að 100 millj. kr. gæti fallið til á síðustu mánuðum þessa árs, að því tilskildu að takist hafi að semja um fjárfestinguna og ljóst sé að af framkvæmdum verði.

Í öðru lagi þarf að stækka og dýpka Húsavíkurhöfn svo hún geti tekið við flutningaskipum af þeirri stærð sem krafist er vegna framleiðslu á kísilmálmi. Áætlað er að framkvæmdir við höfnina kosti nálægt 1,4 milljörðum kr. með fjárfestingarkostnaði. Í frumvarpinu er lagt til að ríkissjóði verði veitt heimild til að gefa út víkjandi skuldabréf án vaxta til hafnarsjóðs Húsavíkur sem nemi um 60% af heildarkostnaði framkvæmdarinnar, þ.e. rúmlega 800 millj. kr. Hafnarsjóður mun hefja greiðslur á láninu þegar sjóðurinn hefur myndað nægilegar tekjur til að standa undir rekstri sjóðsins. Ræðst það fyrst og fremst af því hversu fljótt fyrirtækið PCC SE hefur stækkun kísilversins og eftir atvikum hvort fljótlega bætast við fleiri verkefni með samningum við fjárfesta á svæðinu.

Virðulegi forseti. Eins og að framan er rakið er hugmyndin um nýtingu á háhitaorkunni í Þingeyjarsýslum gamalkunnug og á sér langa sögu. Nú liggur hins vegar fyrir að ætla má að meiri líkur séu á því en nokkru sinni fyrr að af því verði og hefjist uppbygging með iðnaðarstarfsemi á svæðinu sem kennt er við Bakka og tilheyrandi virkjunarframkvæmdir verði það á háhitasvæðunum í Suður-Þingeyjarsýslu.

Nauðsynlegt er að leggja enn og aftur áherslu á að hér er um stofnkostnað að ræða, innviðafjárfestingu sem ríkið hefur jafnan tekið þátt í við sambærileg tilvik. Má þar nefna umtalsverðar vegaframkvæmdir sem tengdust uppbyggingu álversins á Reyðarfirði þar sem byggð var hjáleið fram hjá bænum um hafnarsvæðið á Reyðarfirði og vegur þaðan út að verksmiðjulóðinni. Sömuleiðis var byggður nýr vegur yfir Hólmaháls og umtalsverðar vegaframkvæmdir fóru einnig fram á Jökuldal með fjármögnun frá Landsvirkjun og endurgreiðslu frá ríkinu. En að sjálfsögðu verður ekki ráðist í þessar fjárfestingar fyrr en búið er að tryggja að allir nauðsynlegir samningar liggi fyrir og ljóst að af framkvæmdunum verði. Þannig er ekki verið að skuldbinda ríkissjóð eða sveitarfélagið Norðurþing til að ráðast í fjárfrekar fjárfestingar nema ljóst sé að þeirra verði þörf. Sömuleiðis er að sjálfsögðu samþykki Eftirlitsstofnunar EFTA nauðsynlegt til að sá hluti málsins nái fram að ganga.

Að þessu sögðu, herra forseti, legg ég til að málunum báðum, eins og ég hafði reyndar áður mælt fyrir í hinu fyrra tilviki, verði vísað til hv. atvinnuveganefndar sem eftir atvikum á svo samstarf við aðrar þingnefndir um þá þætti málsins sem eðlilegt má telja að gangi til skoðunar þar. Auðvitað má færa fyrir því rök að vissir hlutar málsins tengist viðfangsefnum tveggja, jafnvel þriggja, annarra þingnefnda eins og ræðst af eðli máls.



[20:24]
Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir ræðuna og fagna þeirri stefnubreytingu sem orðið hefur hjá ríkisstjórn Íslands og þeirri atvinnuuppbyggingu sem boðuð er í orkufrekum iðnaði og skattalækkunaráformum ríkisstjórnarinnar. Það er sérstök ástæða til að fagna því.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra varðandi það sem hann nefndi, að þetta væri sambærilegt öðrum framkvæmdum, hann nefndi þar álverið á Reyðarfirði og framkvæmdir við vegalagningu og annað í því samhengi: Er ekki örugglega von á sambærilegu frumvarpi inn í þingið von bráðar vegna framkvæmda vegna álversins í Helguvík? Lengi hefur verið kallað eftir ríkisþátttöku í hafnargerð og framkvæmd innviðafjárfestingar sem þar er. Nú hefur ríkisstjórnin hafið viðræður. (Forseti hringir.) Er ekki örugglega frumvarp á leiðinni, hæstv. forseti?



[20:25]
atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Mér barst bréf frá bæjarstjóra Reykjanesbæjar sem ég brást strax við og upplýsti hann um að við mundum taka saman ýmis gögn í málinu af því tilefni sem og var gert. Síðan var það mál rætt í ríkisstjórn og fjármálaráðherra tók að sér, eðli málsins samkvæmt eins og það mál var vaxið, að fara í viðræður við bæjaryfirvöld í Reykjanesbæ um erindi þeirra. Ég veit ekki betur en að fyrsti fundur þeirra hafi þegar farið fram. Ef til fellur þörf fyrir fjárfestingu í innviðum sem heita mega á einhvern hátt sambærileg, tengt einhverjum raunverulegum fjárfestingaráformum sem fara þá af stað, verður það að sjálfsögðu skoðað og rætt. Það er bæði rétt og skylt.

Auðvitað eru aðstæður mismunandi og er rétt að leggja áherslu á að í þessu tilviki er auðvitað um nýtt iðnaðarsvæði að ræða sem verið er (Forseti hringir.) að leggja í stofnkostnað til að gera að möguleika. Að því leyti er það ósambærilegt við aðstæður á svæðum eins og Grundartanga í dag þar sem öll (Forseti hringir.) slík fjárfesting hefur þegar farið fram.



[20:26]
Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég get fullvissað hæstv. ráðherra um að það eru raunveruleg fjárfestingaráform á ferðinni í Helguvík þannig að hann þarf ekki að hafa áhyggjur af því.

Stofnkostnaður hefur verið mikill og hefur lent á sveitarfélögunum sem borið hafa þann kostnað þannig að að því leytinu til er það alveg sambærilegt. Fram kom í blaðagrein frá hv. þm. Oddnýju Harðardóttur í dag að hópur hafi verið settur á stofn fyrir ári til að fara yfir málin varðandi Helguvík með sambærilegum hætti og unnið var að verkefnum fyrir norðan. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort það sé þá eftir nokkru að bíða. Í öðru lagi: Hver er afstaða hæstv. ráðherra til þess? Mun hann beita sér fyrir því að fram komi sambærileg frumvörp (Forseti hringir.) og sambærileg aðstoð vegna þeirra verkefna sem ég nefndi?



[20:27]
atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það sem snýr að atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu í svona tilvikum er fyrst og fremst það að undir það ráðuneyti heyra lög um ívilnanasamninga og það er af þeim ástæðum sem ég flyt þessi mál hér af því að sameinaðir voru í einum pakka hlutir sem eðli málsins samkvæmt liggja hjá öðrum ráðuneytum út af fyrir sig, eins og hreinar lánveitingar úr ríkissjóði eða annað slíkt, sem er að sjálfsögðu viðfangsefni fjármálaráðuneytisins. Þess vegna varð það niðurstaðan þar sem beiðni forsvarsmanna Reykjanesbæjar, í þessu tilviki, tengdist ekki óskum um að gera nýjan fjárfestingarsamning eða annað slíkt, að eðlilegast væri að fjármálaráðuneytið færi með forsvar í slíkum viðræðum. (Gripið fram í.)

Ég ætla ekki að lofa niðurstöðunni úr því fyrir fram fyrir hönd fjármálaráðuneytisins en veit ekki betur en að það fari fram í góðri trú beggja aðila. Ég mun að sjálfsögðu ekki leggja stein í götu þess að staðið verði að málum við sambærilegar aðstæður með einhverjum sambærilegum hætti, en sá þáttur málsins er í raun og veru ekki á okkar könnu. (Forseti hringir.) Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, áður iðnaðarráðuneytið, hefur gert allmarga fjárfestingarsamninga vegna áforma um uppbyggingu á Suðurnesjum. Sumt hefur orðið að veruleika, annað ekki, a.m.k. enn sem komið er. Þannig stendur það.



[20:29]
Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir ræðuna. Mig langar að leita viðbragða hjá hæstv. ráðherra við þeirri gagnrýni sem kemur fram í umsögn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins þar sem dregnar eru í efa heimildir hæstv. atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra, annars vegar til að semja við Vegagerðina um innviðauppbygginguna sem er klárlega málefni innanríkisráðuneytisins og hins vegar að gera lánasamning við hafnarsjóð Norðurþings sem er klárlega á hendi fjármálaráðherra. Það kemur fram í greinargerðinni að vandséð sé hvernig það samræmist skiptingu Stjórnarráðsins samkvæmt forsetaúrskurði.

Mig langar að fá viðbrögð hæstv. ráðherra við þeirri gagnrýni sem kemur fram í umsögn fjárlagaskrifstofunnar.



[20:30]
atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að þetta sé ekki stórfellt áhyggjuefni vegna þess að málið hefur verið undirbúið með viðkomandi stofnunum, Siglingastofnun og Vegagerð, og fulltrúar innanríkisráðuneytisins hafa að sjálfsögðu fylgst með því. Hér er verið að afla á einum stað í einum heimildarlögum heimildar fyrir þessum framkvæmdum í heild sinni. Að sjálfsögðu hefði ekki verið til hægðarauka að dreifa því í mörg frumvörp sem hefðu verið flutt af mörgum ráðherrum. Ég tel þetta hina eðlilegu nálgun enda er þetta allt samhangandi. Það reynir ekki á heimildirnar nema allur pakkinn gangi upp, að viðkomandi samningar falli á sinn stað, fyrirvörum aflétt o.s.frv. Ég held að það sé alveg augljóst að það sé hægt að afla heimildanna í sjálfstæðum lögum af þessu tagi og þær eru jafngildar, óháð því hvaða ráðherra flytur málið. Það er ákvörðun Alþingis í þeim efnum sem gildir.

Ef heimildin er samþykkt er hún heimiluð og þá hefur ríkið heimild til þess að reiða greiðslurnar af hendi til að standa straum af þessum fjárfestingum í þessum innviðum. (Forseti hringir.) Ég tel ekki ástæðu til að hafa áhyggjur af þessum athugasemdum, eða þessum vangaveltum ef ég má leyfa mér að kalla það svo, (Forseti hringir.) frá mínum góðu vinum í fjármálaráðuneytinu.



[20:31]
Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Ég hefði samt haldið að það væri eðlilegra, sérstaklega í ljósi gagnrýninnar, að menn hefðu flutt frumvörp um ívilnanir. Það er ekki verið að taka ákvarðanir um fjárveitingar fyrr en á árinu 2014. Hvað er því til fyrirstöðu, ef gengið er til samninga, að hæstv. fjármálaráðherra og hæstv. innanríkisráðherra geri samkomulag í haust? Það liggur fyrir að það eru engar fjárveitingar í verkefnið og við getum ekki skuldbundið næsta þing sem tekur við þannig að það hefði flækt málið að samþykkja þetta frumvarp um ívilnanir sem er klárlega á hendi hæstv. atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra. Ef samningar ganga síðan eftir er farvegurinn sá að í fjárlögum 2014, þar sem reynir á heimildir og fjárveitingavald þingsins, flækir það ekki málið þó að hæstv. fjármálaráðherra og hæstv. innanríkisráðherra á þeim tíma hefðu gengið frá því. Ég geri þess vegna athugasemdir við þetta.



[20:33]
atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Hér er verið að sameina á einum stað nauðsynlegar heimildir og gera nauðsynlegar ráðstafanir, m.a. með lagabreytingum, til að einn heildstæður pakki gangi upp. Hér er til dæmis verið að færa inn í lög heimildir til að sveitarfélagið megi veita þær ívilnanir sem það hefur tekið að sér að gera og hefur samþykkt með samkomulaginu.

Hér er um að ræða fjórhliða samkomulag stjórnvalda, fyrirtækisins, sveitarfélagsins Norðurþings og hafnarsjóðs Norðurþings. Það þarf að vera hægt að ná utan um málið þannig í heild sinni að ljóst sé að öll púsluspilin falli á réttan stað. Það eru forsendur þess að menn geti tekið ákvarðanir og ráðist í framkvæmdir. Þær eru tryggingar fyrir því að allt gangi upp, að af innviðafjárfestingunum verði, að lög heimili þær ívilnanir sem boðið er upp á o.s.frv. Þess vegna er erfitt að sjá að hægt sé að gera þetta öðruvísi en að sameina það á einum stað í einu heildstæðu eða tveimur heildstæðum frumvörpum eins og hér hefur orðið niðurstaðan og lögfræðingar hafa fullvissað (Forseti hringir.) okkur um að það sé, a.m.k. af hálfu þeirra sem undirbjuggu þessi mál, fullkomlega (Forseti hringir.) fær leið og eðlileg miðað við þessar aðstæður.



[20:34]
Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að fagna því að slík frumvörp liggi á borðunum. Ég hefði kosið að sjá þau allnokkru fyrr en mig langar að þakka hæstv. ráðherra innganginn og spyrja þriggja spurninga.

Í fyrra andsvari mínu ætla ég reyndar að halda mig aðeins við þær spurningar sem hv. þm. Ragnheiður Elín Árnadóttir bar upp um fordæmi og fyrirmynd er varðar til að mynda Helguvík. Ég heyrði svör hæstv. ráðherra um að ef fyrir lægju sambærileg fjárfestingarverkefni eða sambærilegar aðstæður væri því auðvitað ekkert til fyrirstöðu að slíkt frumvarp kæmi fram. Er þá ekki ráðherrann að meina frumvarp um innviðabygginguna, þ.e. víkjandi lán varðandi hafnargerð? (Forseti hringir.) Ég veit ekki hvort ég misskildi það eitthvað og spyr hvort iðnaðarlóðir kæmu eitthvað þar við sögu eða hvort þær kæmu ekki við sögu þar sem þær lægju fyrir.



[20:35]
atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég get ekki mikið annað gert en að endurtaka fyrra svar mitt. Ef upp kemur í tengslum við áform sem eru að verða að veruleika þörf fyrir aðkomu ríkisvaldsins að einhverjum innviðafjárfestingum er að sjálfsögðu rétt og skylt að fara yfir það. Fordæmin eru frá fyrri verkefnum af þessu tagi, allt frá Straumsvík á sínum tíma, Grundartanga og síðan Reyðaráli. Að vísu var þar dálítið öðru til að dreifa því að þá voru sett sérlög. Það voru engin rammalög í gildi og þá var auðvitað gengið miklu lengra því að þá voru ívilnanir veittar í sumum tilvikum til allt að 40 ára. Hér erum við eingöngu að tala um stuðning á upphafstímabilinu, fyrsta tíu ára tímabilinu, og þá nauðsynlegu fjárfestingu í innviðum, samgöngumannvirkjum og hafnargerð sem þarf til þess að svæðið sem slíkt opnist upp og sé nothæft.

Almennt er það ríkið sem stendur straum af uppbyggingu samgöngumannvirkja. Það má deila um hvort yfir höfuð eigi að blanda því inn í þetta mál. (Forseti hringir.) Hafnarframkvæmdir eru hins vegar á vegum sveitarfélaganna og þar hefur ríkið á fyrri tíð komið að verkefnum eins og fordæmi eru fyrir um, (Forseti hringir.) en það hefur þá verið á grundvelli einhverra samninga sem fyrir lágu um þátttöku í þeim.



[20:37]
Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Herra forseti. Tíminn er knappur. Ég held að það sé búið að eyða einum 10 milljörðum í þá fjárfestingu sem er í gangi í Helguvík þannig að þar er sannarlega fjárfesting fyrir hendi.

Mig langar að spyrja um undanþágu frá almennu tryggingagjaldi í frumvarpinu á þskj. 1108. Við erum með mál nr. 502, ívilnanir vegna nýfjárfestinga á Íslandi, og þar hefur það komið upp að ríkisskattstjóri telur það annmörkum háð að gefa aukinn afslátt af einungis þessu almenna tryggingagjaldi vegna einhverra tæknilegra þátta. Hafa menn eitthvað velt þessu fyrir sér varðandi þetta verkefni?

Einnig spyr ég hæstv. ráðherra um 4. gr., lóðarframkvæmdir. Hefur slík heimild áður komið við sögu vegna fyrri ívilnana um að ríkið hafi komið að því að taka þátt í undirbúningi (Forseti hringir.) á iðnaðarlóðum?



[20:38]
atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Ef ég byrja fyrst á hinu seinna held ég að ég fari rétt með það að í tilviki Grundartanga hafi ríkið aðstoðað við undirbúning lóða. Það kann að hafa verið í formi víkjandi láns sem var veitt til að standa straum af hluta af lóðarframkvæmdunum og ég þykist muna að í því tilviki hafi þátttaka á lóðarsvæðinu komið til sögunnar.

Varðandi tryggingagjaldið hefur verið farið yfir það. Eins og ég segi er hér veittur afsláttur af hinu almenna tryggingagjaldi, þ.e. í raun hinum ómerkta tekjuhluta ríkisins í tryggingagjaldinu sem að uppistöðu til fer í að mæta einhverjum hluta af kostnaði ríkisins vegna almannatrygginga. Mér skilst að í framkvæmd sé þetta þannig hugsað að félagið greiði tryggingagjaldið en fái síðan í tengslum við skattalegt uppgjör sitt endurgreiddan afsláttinn af hinu almenna tryggingagjaldi. Þar af leiðandi hefur þetta engin áhrif gagnvart starfsmönnum og það á ekki að vera mjög flókið í sjálfu sér að framkvæma þennan endurreikning og endurgreiðslu eða afslátt á móti öðrum sköttum þegar skattskil fyrirtækisins liggja fyrir árlega. Eftir því sem okkar sérfræðingar segja (Forseti hringir.) á þetta ekki að valda vandræðum.



[20:39]
Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Margt vekur athygli við þau tvö frumvörp sem hér er fjallað um, ekki síst það að flutt er frumvarp um ívilnun til fyrirtækis meðan í gildi eru lög, sem eru að verða þriggja ára gömul, nr. 99/2010, sem einmitt fjalla um ívilnanir til fyrirtækja af þessu tagi.

Forseti. Er ekki ráð að ráðherrann svari því — mér heyrðist hann ekki gera það í framsöguræðu sinni — af hverju grípa þarf til þessara ráða með þetta eina fyrirtæki? Gat það ekki sætt sig við að hlíta hinum almennu lögum á Íslandi um þetta sem sett voru með töluverðum lúðrablæstri árið 2010? Eru þau lög ef til vill ekki nógu góð?

Þá spyr maður að sjálfsögðu: Ef þau voru ekki nógu góð, koma þá ekki þau sex fyrirtæki sem hefur verið samið við samkvæmt þeim lögum, þar af þrjú virk, (Forseti hringir.) og reyna að fá samninga á borð við þessa? Hvað ætlar hæstv. atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra að gera þá?



[20:41]
atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Annars vegar er nauðsynlegt að minna á að fyrir þinginu liggur breyting á þessum nefndu ívilnanalögum. Meginbreytingin er sú að tekin er út heimildin til að greiða beina stofnstyrki, svonefnda „cash grand“ styrki. Í staðinn eru rammarnir til að veita ívilnanir á upphafstímanum færðir nokkuð út. Verði það frumvarp samþykkt, sem ég geri frekar ráð fyrir, er frávikið í þessu frumvarpi aðeins í tveimur tilvikum út fyrir ramma þeirra laga, það er 15% tekjuskattsþakið og full niðurfelling á hinum almenna þætti tryggingagjaldsins. Að öllu öðru leyti dugar ramminn sem fyrir liggur í því frumvarpi sem hér bíður 3. umr.

Ástæðurnar fyrir því að hér er í tveimur tilvikum gengið nokkru lengra eru einfaldar og hafa lengi legið fyrir. Hér er um svokallað kalt svæði að ræða. Það má flokka þetta undir „green field“ stuðning við uppbyggingu á svæði sem liggur langt frá suðvesturhorninu og í öðru lagi er hér verið að ryðja nýja braut. Það er verið að opna upp nýjan staðsetningarvalkost fyrir iðnaðaruppbyggingu í landinu. (Forseti hringir.) Það kallar á meiri stuðning til fyrsta fyrirtækisins og gefur ekki fordæmi gagnvart öðrum svæðum eða öðrum fyrirtækjum sem á eftir koma og njóta góðs af því sem þá hefur (Forseti hringir.) verið gert í formi innviðafjárfestinga og ívilnana.



[20:42]
Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég hlýt að spyrja aftur vegna þess að þetta var ekki nægilega gott svar: Hvers vegna reyndi ráðherrann þá ekki að láta breyta ívilnanalögunum á þann hátt að þau fælu í sér það sem hann nú nefnir?

Ég hef athugað þær breytingar sem nú er verið að flytja. Breytingafrumvarpið er á dagskrá þessa fundar, þ.e. tvö ívilnanafrumvörp eru á dagskrá þessa fundar, og það er munur á þeim í verulegum atriðum. Það getur vel verið að þau séu ekki nema tvö en þau eru mikils verð. Það er töluverð lækkun á tekjuskatti fyrirtækisins frá því sem í breytingunum er gert ráð fyrir og það er algjör niðurfelling á hinu almenna tryggingagjaldi sem ég ætla að fjalla aðeins um á eftir.

Ég spyr þá aftur og bið forseta að fyrirgefa mér að vera svona leiðinlegur: Ef þetta er svona sérstakt mál fyrir þau svæði sem hæstv. ráðherra nefndi, hvers vegna er það þá ekki skrifað í ívilnanalögin? Hvers vegna erum við með lög (Forseti hringir.) sem sniðgengin eru með öðrum lögum á meðan verið er að breyta lögunum á sama þingfundi? Þetta er hvorki (Forseti hringir.) göfug lagasetning né göfug stjórnsýsla.



[20:43]
atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Þessi breyting er til eins árs vegna þess að þetta regluverk sætir endurskoðun. Það var einfaldlega metið að tiltekin rýmkun á afsláttum sem væru heimilir samkvæmt hinum almennu rammalögum væri eðlileg til að mæta því að heimildir til greiðslu beinna stofnstyrkja hyrfu út úr lögunum.

Í mörgum tilvikum er verið að keppa við lönd sem bjóða allt að 25% í beina styrki til stofnkostnaðaruppbygginga í fjárfestingarverkefnum af þessu tagi. Það gera mörg lönd Austur-Evrópu og það gerir Noregur. Á vissum svæðum Noregs er um mjög háa styrki að ræða þar sem ríkið eða sveitarfélög og ríki greiða peninga beint inn í uppbygginguna. Það er ekki gert hér en í staðinn er ramminn færður nokkuð út til að heimila ívilnanir á fyrstu tíu árum starfseminnar. Þessi lög munu síðan sæta endurskoðun á síðari hluta ársins í tengslum við endurskoðun Evrópusambandsins sjálfs á bæði sínu ríkisstyrkjaregluverki og byggðakortinu sem kemur einnig við sögu í þessum efnum.



[20:45]Útbýting:

[20:46]
Kristján Þór Júlíusson (S):

Forseti. Það var mikið, af einhverju tilefni hefði líka verið hægt að segja loksins, loksins þokast mál aðeins lengra á veg við Bakka á Húsavík en áður hefur verið. Ég fagna því mjög að svo er komið að íslensk stjórnvöld eru farin að leggja fram tillögur í frumvarpsformi sem miða að því að sú uppbygging sem unnið hefur verið að um alllanga tíð geti hafist á þessu svæði þannig að menn hætti að bakka með Bakka.

Þetta mál á sér langa sögu. Það má rekja það allt aftur fyrir 1980 þegar menn fóru að huga að iðnaðaruppbyggingu í Þingeyjarsýslum þar sem menn voru með þær hugmyndir um nýtingu jarðvarma að hægt væri að nýta hann til atvinnuuppbyggingar og voru ýmsar hugmyndir þar uppi.

Það má í rauninni segja um það mál sem við erum að ræða hér í kvöld að ákveðin kaflaskil hafi orðið árið 1998 þegar samstarf tókst með Þingeyingum og Eyfirðingum um stofnun Þeistareykja hf. sem var fyrirtæki sem ætlað var að kanna til hlítar möguleika á orkunýtingu og atvinnuuppbyggingu í Þingeyjarsýslum. Í framhaldi af því samstarfi fóru alþjóðlegir fjárfestar að sýna svæðinu áhuga. Það leiddi til þess að árið 2002 gerði Fjárfestingarstofa, Húsavíkurbær og Atvinnuþróunarfélag Þingeyinga samkomulag um frummat á staðsetningu orkufreks iðnaðar við Húsavík. Það komu raunar fleiri að þessu verki en niðurstaðan varð sú að þetta frummat var unnið og á grunni þeirra niðurstaðna sem út úr því komu gengu Húsavíkurbær og Alcoa frá sameiginlegri viljayfirlýsingu um uppbyggingu álvers á Bakka. Þetta var árið 2006. Þegar sú yfirlýsing var gerð voru áætlanir Alcoa um umfang framleiðslunnar slíkar og af þeirri stærðargráðu að talið var að þær gætu staðið undir allri uppbyggingu nauðsynlegra innviða, svo sem nýjum hafnarmannvirkjum og vegtengingu á milli hafnar og stóriðjusvæðisins eða iðnaðarlóðarinnar við Bakka. Í framhaldi þessa verks var unnið áfram að málinu og iðnaðarráðuneytið og Alcoa gerðu og gengu frá viljayfirlýsingu um áframhaldandi hagkvæmniathugun og að því komu síðan Landsvirkjun og Landsnet sem leiddi til þess að í júní 2008 var samið um framlengingu á viljayfirlýsingu Alcoa, Landsnets, Norðurþings og ríkisstjórnar Íslands. Það var vissulega áfangi.

Á grunni þess góða samstarfs sem hafði náðst var hafist handa við mat á umhverfisáhrifum. Það hófst í júní 2008. Þá bar svo við að 31. júlí það sama ár úrskurðaði þáverandi umhverfisráðherra, sem má geta í stuttu innskoti að er aðstoðarmaður núverandi formanns Samfylkingarinnar, að þessar framkvæmdir á Bakka skyldu fara í sameiginlegt mat á umhverfisáhrifum. Um þetta stóðu miklar deilur og standa raunar enn, en úrskurðurinn leiddi til þess að andstaða tiltekins stjórnmálaafls við þetta verkefni varð til þess að verkefnið gekk ekki eftir þó svo að Alcoa, Landsvirkjun og Landsnet hafi haldið fund 10. febrúar 2009 í samráði við fulltrúa Landverndar á Húsavík þar sem kynnt voru ákveðin stig í verkferlum við það að hefja svokallað sjálfbærniverkefni fyrir þetta verk í Þingeyjarsýslum með sama hætti og Alcoa hafði gert og unnið á Austurlandi í tengslum við Reyðarál.

Það næsta sem gerist síðan er að í október 2009 rann út viljayfirlýsing ríkisstjórnar Íslands og Norðurþings og þáverandi ríkisstjórn hafnaði beiðni Alcoa um framlengingu. Þetta er forsaga þess máls sem við erum að ræða hér í kvöld þar sem þessi niðurstaða varð, þ.e. þáverandi og núverandi stjórnvöld vildu ekki ganga til þess verks með Alcoa að byggja álverksmiðju við Bakka á Húsavík eins og í rauninni hafði verið heimilað á grunni umhverfismats sem unnið var. Upp kom sú staða að menn vildu leita annarra leiða og ríkisstjórn Íslands tók þá ákvörðun að beina sjónum sínum í samstarfi við Þingeyinga í aðrar áttir. Strax við þá ákvörðun varð ljóst að umfang fjárfestingarinnar yrði minna en gert var ráð fyrir við byggingu álvers Alcoa. Þá varð sömuleiðis ljóst að tekjur af iðnaðaruppbyggingu á Bakka mundu skila sér til muna hægar og tæpast standa undir þeim kostnaði sem leiddi af nauðsynlegri uppbyggingu innviða við höfn og vegagerð. Á grunni þeirrar niðurstöðu sem þarna hafði fengist hófst vinna við uppbyggingu á Bakka í samstarfi Norðurþings, sveitarfélaga á Norðurlandi og ríkisstjórnar Íslands. Strax frá upphafi var ljóst að nauðsynlegt var, ef af þessu átti að verða, að íslensk stjórnvöld kæmu að þessu verki því að svokallaðir innviðir, höfn og vegagerð, yrðu að koma til óháð stærð eða fjölda þeirra fyrirtækja sem hugsanlega kynnu að koma sér fyrir á þeirri lóð sem um er rætt.

Það er á allan hátt ljóst að það verkefni sem hér er verið að setja af stað mun hafa gríðarleg áhrif á það samfélag sem í Þingeyjarsýslum er og nærsveitir þeirra. Mat Byggðastofnunar á verkefninu ásamt mati heimamanna leiðir til þess að einboðið er að álykta með þeim hætti að vörn og skjöldur verði settur fyrir þann fólksflótta sem úr Þingeyjarsýslum hefur verið á undanförnum árum. Fram kemur í greinargerðinni með frumvarpinu að innviðir samfélagsins á Húsavík eru ágætlega undir það búnir að taka við íbúafjölgun. Nægt framboð er af byggingarlóðum á Húsavík og skipulögð íbúðarsvæði en jafnframt er ljóst, eins og upplýsingar liggja fyrir um, að sveitarsjóður Norðurþings er ekki ýkja burðugur til stórra verka og má það öllum ljóst vera að sú uppbygging sem af þessu verki leiðir mun skjóta styrkari stoðum undir hinn sameiginlega sjóð íbúa Norðurþings. Það er mat Byggðastofnunar eins og hér kom fram í máli hæstv. ráðherra að að óbreyttu mundi íbúum í Þingeyjarsýslum fækka um 330 manns á næstu tíu árum, en verði af þeirri iðnaðaruppbyggingu sem menn gera sér vonir um má gera ráð fyrir fólksfjölgun þar á bilinu 750–1.200 manns. Það hangir að vísu saman við hversu mikil uppbyggingin verður.

Þessu verki er ekki lokið. Það kemur líka fram að ýmsir samningar varðandi þetta eru ekki komnir í höfn. Á það er meðal annars bent í athugasemdum með frumvarpinu að í 7. gr. frumvarpsins liggi fyrir að gera þurfi samninga um þetta verkefni sem bera þarf undir Eftirlitsstofnun EFTA, ESA. Hún þarf að veita samþykki sitt fyrir ívilnunarsamningi og þar til afstaða ESA liggur fyrir hvílir kvöð um biðstöðu á framkvæmdinni, sem þýðir að óheimilt er að hrinda henni í framkvæmd fyrr en að fengnu slíku samþykki. Eins og segir í greinargerðinni má gera ráð fyrir því að það geti tekið allt að sex mánuðum og á meðan verður væntanlega unnið að öðrum samningum sem tengjast þessu verki. Af því leiðir að þær fjárhagsskuldbindingar sem hér er rætt um og eru vissulega miklar koma ekki af neinum þunga fyrr en á árinu 2014 þannig að gera má ráð fyrir því að inn í fjárlög þess árs muni koma til kostnaður af þeim áformum sem nú eru uppi.

Að því leytinu til mætti hafa þau orð um þetta frumvarp — ekki síst í ljósi þeirra athugasemda sem ég og hv. þm. Ásbjörn Óttarsson settum fram í fjárlagavinnunni sl. haust um að við gerðum kröfu til þess að kostnaður yrði áætlaður og heimildir settar í fjárlög — að kalla það því sama og ég kallaði frumvarp hæstv. velferðarráðherra í dag um almannatryggingar, óskalög, þ.e. ósk um að Alþingi setji lög á grunni þess að vilji manna standi til þess að fara til verka án þess að fyrir liggi fjármögnun. Hér er ekki um slíkt að ræða vegna þess að við höfum svigrúm þegar fram í sækir, í fjárlagagerð 2014, að koma þeim fjárveitingum inn.

Með sama hætti má nefna að gert er ráð fyrir því í þjóðhagsspá Hagstofunnar að þetta verkefni fari að stöfnum þó svo við sjáum fram á að því seinki örlítið frá þeim áætlunum sem voru uppi.

Ég vil þó segja það, ekki síst í ljósi þeirra orða sem hv. þm. Mörður Árnason hafði uppi hér áðan þegar hann var í andsvari við hæstv. ráðherra og spurði hvers vegna þyrfti að koma til móts við þetta fyrirtæki með þessum hætti, að í mínum huga er nokkuð ljóst hvers vegna svo er komið. Það liggur fyrir að gríðarlegur samdráttur hefur verið í atvinnuvegafjárfestingu á Íslandi og ekki síst erlendri fjárfestingu, m.a. af þeim ástæðum að við höfum séð hér skattumhverfið breytast og að mínu mati á það stóran þátt í því, við höfum líka séð ákveðin atriði sem ég vænti að hv. þm. Mörður Árnason hafi frekar stutt en talað gegn, sem lutu að því að leggja sérstakan skatt á stóriðjufyrirtækin í landinu. Hvoru tveggja sem ég nefndi leiðir ekki til þess að við fáum mikla eftirspurn eftir erlendri stóriðju eða erlendri uppbyggingu hér á landi heldur þvert á móti hamlar gegn henni sem leiðir aftur á móti til þess að Íslendingar og íslensk stjórnvöld verða að leggja töluvert af mörkum til að fá og greiða fyrir því að erlendir aðilar komi hingað til lands og fjárfesti. Það væri æskilegra að menn beittu sér fyrir því að gangast fyrir breytingum á skattumhverfi fyrirtækja á þann veg að það yrði hagfelldara fyrir þau að fjárfesta hér á landi. Ef hv. þingmaður hefur þá afstöðu að hér sé of í lagt treysti ég því að hann beiti sér fyrir því að varpa af herðum okkar skattkerfi sem kæfir eða fælir frá okkur erlenda fjárfestingu.

Eins og ég sagði væri æskilegt að öll fyrirtæki gætu búið við það umhverfi sem hér liggur fyrir. Þetta er dýru verði keypt, það skal alveg viðurkennt, en ég held að það sé morgunljóst að það er gert í ljósi þeirrar stöðu sem við erum að glíma við, ekki síst þar sem löng saga liggur að baki verkefninu. Miklar væntingar hafa verið skapaðar til þessa verkefnis í Þingeyjarsýslum. Ég minni á yfirlýsingu hæstv. þáverandi iðnaðarráðherra, Katrínar Júlíusdóttur, sem hvatti til þess á árinu 2010 að Þingeyingar færu að búa sig undir gríðarlega atvinnuuppbyggingu. Nú sér maður hilla undir það sem betur fer og ég hvet alla alþingismenn til að standa saman um það að koma þessum verkum til framkvæmda. Ég er ekki í vafa um að þau munu leiða til þess að við sjáum fleiri slík verkefni sækja til landsins, ekki er vanþörf á. Í mínum huga er það fagnaðarefni að þessi frumvörp eru komin fram. Ég hvet menn til að standa vörð um þau og koma þeim til framkvæmda.



[21:01]
Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum tvö frumvörp hæstv. atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra varðandi annars vegar heimild ráðherra til að fjármagna uppbyggingu innviða vegna atvinnustarfsemi í landi Bakka í Norðurþingi og hins vegar frumvarp til laga um heimild til samninga um kísilver í landi Bakka í Norðurþingi.

Mig langar aðeins í ljósi þeirrar umræðu sem hófst með andsvari hv. þm. Marðar Árnasonar varðandi ívilnunarfrumvarpið, fjárfestingarsamninginn, en ég átti orðastað við hæstv. ráðherra um það í fyrirspurnatíma um daginn, að benda á að vakin er athygli á því á bls. 16 í umsögn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins að, með leyfi forseta:

„Varðandi þær viðbótarskattaívilnanir sem lagðar eru til í þessu frumvarpi, umfram þær sem er að finna í almennu ívilnunarlögunum, þá vekja þær upp spurningar um hvort með þeim verði skapað fordæmi fyrir þá umsóknaraðila sem á eftir kunna að koma með samskonar fjárfestingarverkefni og kynnu að vera mun stærri í sniðum. Með þessum ívilnunum virðist sem verið væri að hverfa frá þeirri stefnu sem mörkuð var með lögum nr. 99/2010.“

Þetta er það sem hv. þm. Mörður Árnason var að benda á áðan. Ég vil því rifja upp frumvarpið sem varð að lögum nr. 99/2010 og ræðu hæstv. þáverandi iðnaðarráðherra. Það má ekki gleyma því að mörg stór orð voru höfð uppi um að ná ætti fjárfestingu til Íslands með því að gera þennan ívilnunarpakka gagnsæjan og verið væri að gera það sambærilegt því sem er annars staðar. Katrín Júlíusdóttir, hæstv. þáverandi iðnaðarráðherra, segir í framsöguræðu sinni, með leyfi forseta:

„Með frumvarpinu er verið að leggja til að horfið verði frá því fyrirkomulagi sem hefur tíðkast hér á landi að gera sértæka fjárfestingarsamninga vegna einstakra verkefna á grundvelli sérstakra heimildarlaga frá Alþingi, eins og við þekkjum orðið nokkuð vel, og síðan samþykkis Eftirlitsstofnunar EFTA eftir því sem þörf hefur verið metin á í hvert skipti. Hefur það fyrirkomulag reynst þungt í vöfum og ómarkvisst og með því formi er ekki boðið upp á nægilegan sveigjanleika til að mæta ólíkum fjárfestingarverkefnum“

Vakin hefur verið athygli á því hér og í umsögn ráðuneytisins að verið sé að hverfa frá þessu. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra eina ferðina enn af hverju svo er. Ég kaupi ekki alveg þær skýringar sem hann nefndi áðan vegna þess að mér finnst klárlega verið að hverfa til baka til þess tíma sem vinstri stjórn Steingríms J. Sigfússonar og félagar lögðu upp með og voru með mikinn lúðrablástur út af.

Í frumvörpunum er verið að skuldbinda ríkissjóð til að taka þátt í verkefninu með talsverðum fjármunum. Verið er að leggja samtals 5,4 milljarða í fjárfestinguna, hafnargerð, vegagerð og ívilnanir vegna skattamála og því ekki nema eðlilegt að upp komi samanburður við önnur verkefni. Hæstv. ráðherra sagði í andsvari áðan að ef upp kæmu sambærilegar aðstæður vegna áforma sem væru að verða að veruleika væri sjálfsagt að skoða það. Þegar um ræðir samanburðinn við álverið í Helguvík finnst mér ótrúlegt að heyra slík svör og ég fellst ekki á þau. Hæstv. ráðherra er fullkunnugt um að í Helguvík stendur hálfgert álver sem um 10 milljarðar hafa verið lagðir í og hefur allt þetta kjörtímabil verið rekið á eftir og rætt um og menn geta haft skiptar skoðanir á því af hverju það er ekki í fullum gangi akkúrat núna. Hæstv. ráðherra hlýtur að viðurkenna að það er verkefni sem er komið af stað og hlýtur að vera að fullu sambærilegt miðað við orð ráðherrans áðan. Hafnargerðin getur sérstaklega ekki komið hæstv. ráðherra á óvart vegna þess að lagt hefur verið fram frumvarp í þrí- eða fjórgang til að tryggja ríkisframlög vegna hafnargerðar í Helguvík og hefur frumvarpið ekki náð fram að ganga. Það hlýtur að vera sjálfsögð krafa og viðræður eru, eins og kom fram áðan, hafnar við Reykjanesbæ og merkilegt nokk hófust þær í morgun, sama dag og þetta frumvarp er tekið til 1. umr. Þá hlýtur maður að fara eitt ár til baka en í grein Oddnýjar G. Harðardóttur í blaðinu Reykjanes, sem ég vitnaði til áðan, upplýsir hún að þann 9. mars 2012 hafi verið samþykkt tillaga í ríkisstjórn um að komið yrði á samstarfshópi ráðuneyta sem fjallaði um höfnina í Helguvík og legði mat á aðstæður og kostnað.

Ári síðar er lagt til að viðræður hefjist við Reykjanesbæ en eftir því sem mér skilst var það sami hópurinn og hefur farið í gegnum áformin á Bakka þar sem við erum komin með fullbúið frumvarp sem áform eru um að klára fyrir þinglok. Maður veltir fyrir sér þeim tímasetningum og líka því að við fáum frumvarpið til umræðu sjö dögum fyrir þinglok, sjö dögum fyrir seinasta þingið á kjörtímabilinu. Hvað tefur sams konar meðferð á Helguvík? Ég bið um önnur svör en þau að þegar eitthvað sambærilegt fer í gang sé sjálfsagt að skoða það vegna þess að verkefnin eru farin í gang. Lóðirnar hafa verið fjármagnaðar, annars vegar af fyrirtækjunum og hins vegar af sveitarfélaginu. Vegirnir hafa verið lagðir með aðkomu sveitarfélaganna og höfnin var fjármögnuð af sveitarfélaginu án þátttöku ríkisins. Það hlýtur að vera sjálfsögð krafa að farið verði í sambærilega uppbyggingu í Helguvík og að frumvarp komi fram fyrir þinglok. Ég óska alla vega eftir því að fá svör við því.

Ég vil líka spyrja hæstv. ráðherra í framhaldi af orðum hv. þm. Kristjáns Þórs Júlíussonar um fjárhagslegu skuldbindinguna. Það segir í kostnaðarmatinu að engin áform séu uppi í frumvörpunum um hvernig eigi að fjármagna útgjöldin, ekki sé gert ráð fyrir því í langtímaáætlunum og að ef það verði að veruleika sé sjálfsagt að finna aðra staði til að draga úr framkvæmdum eða koma með auknar tekjur í ríkissjóð með öðrum hætti. Hvaða áform hefur hæstv. ráðherra um það?

Það gleðilega er, svo ég endi á jákvæðum nótum, að hæstv. ríkisstjórn virðist átta sig á því rétt á lokasprettinum að leiðin til að efla atvinnu og stuðla að uppbyggingu og fjárfestingu er ekki sú leið sem þeir hafa farið í þrjú og hálft ár, að hækka skatta og herða öll skilyrði fyrir slíkum framkvæmdum heldur einmitt að lækka skatta og koma á samvinnu við fyrirtæki sem hafa hug á að koma hingað. Það er líka skemmtilegt að það skuli vera í orkufrekum iðnaði sem mengar reyndar meira en áliðnaðurinn sem hefur mikið verið til umræðu hér. Það er merkilegt að hæstv. ríkisstjórn skuli sjá ljósið korteri fyrir kosningar og það er merkilegt að ríkisstjórnin skuli sjá ljósið á Bakka þegar ljósin hafa verið slökkt hvað varðar verkefni mikið nær okkur. Ég vona svo sannarlega að það sé vísbending um að við taki betri tímar. Ég ítreka spurningu mína til hæstv. ráðherra um hvort ekki sé örugglega von á sambærilegum frumvörpum varðandi uppbyggingu í Helguvík vegna þess að málin eru svo sannarlega sambærileg og verkefnin eru svo sannarlega farin af stað og verða að veruleika.



[21:13]
Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi míns máls gleðjast yfir því að það skuli loksins vera komið fram sem lengi hefur verið beðið eftir, frumvörp um ívilnanir til handa uppbyggingu á orkufrekum iðnaði á Bakka við Húsavík. Ég vil óska Þingeyingum, norðausturhorninu og Íslendingum öllum til hamingju með það. Þar sem ég sit í atvinnuveganefnd get ég sagt að þrátt fyrir að málið komi seint fram mun ég gera mitt til að koma því í gegn í nefndinni og í gegnum þingið og er ákaflega glaður yfir því að það sé komið fram.

Það hefur auðvitað verið fjallað talsvert um slíka ívilnunarstyrki. Í atvinnuveganefnd hefur verið fjallað um mál 502, ívilnanir vegna nýfjárfestinga, þar sem einmitt er hugað að því að auka styrki eða fyrst og fremst skattafslætti. Það kom fram hjá fulltrúa ráðuneytisins að ívilnunin næmi kannski 2–3% af stofnframkvæmdinni á meðan heimildir innan ESA, þessa rammasamnings, gætu í sumum tilvikum orðið allt að 15%. Við göngum því sannarlega ekki mjög langt þrátt fyrir að kannski hljómi svo í eyrum einhverra. Í samkeppni við önnur lönd þurfum við án efa að gera betur í framtíðinni. Það byggir auðvitað á því að við höfum ekki nýtt stofnstyrki sem nokkru nemur, við höfum ekki efni á því og höfum þess vegna ekki gert það til þessa.

Það er að sjálfsögðu ámælisvert að málið skuli koma svona seint inn í þingið og fyrir uppbyggingu atvinnulífs á landinu hefði það þurft að koma miklu fyrr. Nú er það komið og við skulum gleðjast yfir því og reyna að klára það sem hægt er.

Ég ætla í sjálfu sér ekki að fara djúpt í efnisatriði frumvarpanna, við gerum það í nefndinni. Ég ætla að nefna nokkra þætti sem ég tel mikilvægt að koma inn á. Það kom fram í ræðu hæstv. ráðherra, og ekki síst í andsvörum við hann, að til að mynda hvað varðar rammasamninga eða rammalög sem voru sett fyrir tveimur árum, og menn stærðu sig gríðarlega af, væri sá tími liðinn að menn legðu fram sérstök frumvörp um ívilnanir handa einstökum fjárfestingarverkefnum. Sá tími sem menn í ríkisstjórninni gátu glaðst yfir því var ekki mjög langur þar sem slíkt frumvarp hefur komið fram. Það er auðvitað átakanlegt að horfa á hvernig ríkisstjórnin hefur komið í veg fyrir atvinnuuppbyggingu, til að mynda hvað varðar álverið í Helguvík. Það er augljós fyrirmynd, fordæmi til að ganga hratt til sambærilegra verka og koma með hliðstæð frumvörp, ekki síst varðandi innviðina og hafnarmannvirkin, um að veita Helguvíkurhöfn víkjandi lán á svipaðan hátt. Það hlýtur að verða gert og ég trúi ekki öðru þrátt fyrir að maður hafi upplifað ýmislegt hér síðastliðin fjögur ár.

Ég vil nefna að fyrir margt löngu þegar hugmyndir voru uppi um álver á Bakka átti uppbyggingin sem þar yrði að vera innviðauppbyggingin, þ.e. hafnargerðin, vegagerðin og lóðaframkvæmdirnar mjög lítill hluti af heildarfjárfestingunni eins og við þekkjum bæði á Reyðarfirði, Grundartanga og reyndar að hluta til í Helguvík. Þess vegna mundi verkefnið í raun og veru standa undir eða dekka þann kostnað sem félli til. Ég sagði strax, og margir fleiri, um leið og það gerðist að ríkisstjórnin hafnaði því í raun og veru að álver risi á Bakka — og ég vil nota tækifærið og segja að við framsóknarmenn höfum glaðst yfir því og haft þá stefnu að við eigum að hafa sem flest egg í körfunni og ekki eingöngu að byggja álver — að augljóst væri að um leið og menn færu þá leið að koma með minni verkefni mundu þau aldrei standa undir innviðauppbyggingunni og augljóst að ríkisvaldið þyrfti að koma að þeim. Það hefur til að mynda staðið orkufrekri uppbyggingu í Þorlákshöfn fyrir þrifum alla tíð. Ríkisvaldið verður að hafa einhverja stefnu í uppbyggingu hafnarmannvirkja þar sem menn vilja að orkufrekur iðnaður verði uppbyggður, sem krefst mikils landrýmis og góðra hafna. Ríkið verður að ganga á undan með einhverja áætlun og lofa fjármunum til að slík uppbygging geti orðið að veruleika. Nú er hún að verða að veruleika á Bakka og ég gleðst yfir því. Ég tel að þar sé komin fyrirmynd og fordæmi fyrir sambærilegri uppbyggingu til að mynda í Þorlákshöfn og augljóslega í Helguvík. Ég hvet hæstv. ríkisstjórn til að ganga fljótt og vel til slíkra verka.

Ég heyrði líka að hæstv. ráðherra sagði í andsvörum sínum að á Grundartanga og að hluta til í Helguvík væri fjárfestingin tilbúin til að taka við verkefnum og þess vegna mætti halda því fram að ekki þyrfti neina ívilnun og ríkið þyrfti ekki að koma að því. Ég tel það sérkennilega túlkun á jafnræðisreglu og vil hvetja ríkisstjórnina til að endurskoða hug sinn. Þrátt fyrir að vera bæði orðinn miðaldra og talsvert þroskaður býr í mér smástrákur og ég get ekki sleppt því tækifæri sem hefur skapast og velti því fyrir mér af hverju í ósköpunum Vinstri grænir og hæstv. ráðherra Steingrímur J. Sigfússon hafa alla tíð barist gegn álverum og orkufrekri uppbyggingu sem hefði í tilviki Bakka þýtt minni fjárútlát fyrir ríkisvaldið, minni koltvísýringsmengun fyrir andrúmsloftið og hraðari uppbyggingu atvinnu á Íslandi. (Gripið fram í: Og fleiri störf.) Og fleiri störf. Ég get ekki sleppt tækifærinu.

Ég verð að segja alveg eins og er að það er líka sérstakt að lesa umsögn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins þar sem bent er á að innviðafrumvarpið hefði auðvitað átt að vera á hendi innanríkisráðherra og ívilnunarfrumvarpið á hendi fjármálaráðherra, að engum í ríkisstjórninni skyldi hafa verið treyst til þess öðrum en ráðherra allsherjar, sem í þessu tilviki er hæstv. atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra. Það er svolítið sérkennilegt eða kannski spaugilegt, eða kannski ekki, að þetta skuli gerast sjö vikum fyrir kosningar. Á síðustu dögum þingsins, á síðustu dögum þessa kjörtímabils kemur hæstv. atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra, sem vel að merkja hefur verið þingmaður þessa kjördæmis um langan aldur, með þau ágætu frumvörp sem ég vil hrósa honum fyrir og munu verða til þess að atvinnuuppbygging fer af stað, sem betur fer þótt allt of seint sé en þau fara af stað. Ég tel að við hljótum að gleðjast yfir því í þinginu og gera það sem við getum til að koma þeim í gagnið.

Með þeim orðum ætla ég að ljúka máli mínu og hvetja jafnframt til þess að jafnræðis verði gætt við atvinnuuppbyggingu annars staðar á landinu.



[21:21]
Jón Gunnarsson (S):

Virðulegur forseti. Hér eiga sér stað merkileg tímamót á kjörtímabilinu. Eftir að þessi ríkisstjórn hefur fátt aðhafst í uppbyggingu atvinnumála í landinu, eins og dæmin sanna og ég fer aðeins yfir, þá lítur hér dagsins ljós frumvarp til að greiða fyrir framkvæmdum við stóriðju, orkufrekar framkvæmdir á Bakka við Húsavík og því ber að fagna. En auðvitað er þetta kjörtímabil sorgarsaga þegar kemur að þessari hlið mála og vissulega gæti þjóðarbúið staðið undir velferðarkerfi og menntakerfi, löggæslu og öðru, svo dæmi séu tekin, með miklu öflugri hætti en raun ber vitni ef farnar hefðu verið aðrar leiðir. Það síðasta sem við sáum til þessarar ríkisstjórnar á þeim vettvangi, þ.e. þar sem hún dró úr áherslum á þennan þátt, var við samþykkt rammaáætlunar fyrr á þessu ári þar sem í raun var lokað fyrir allar frekari virkjunarframkvæmdir í landinu á næstu fjórum til fimm árum nema þær sem komnar eru af stað. Enginn virkjunarkostur var settur í nýtingarflokk sem er í undirbúningi og er kominn nægilega langt heldur er þar eingöngu um að ræða virkjunarkosti sem eiga eftir að fara í gegnum langar og viðamiklar undirbúningsframkvæmdir.

Ef við horfum á framkvæmdaáætlun Landsvirkjunar sem kynnt var á vordögum 2011 og lítum á hvar við gætum verið ef þeirri framkvæmdaáætlun hefði verið fylgt, ef ákvarðanir hefðu verið teknar um frekari virkjanir, t.d. í neðri Þjórsá þar sem undirbúningur væri mjög langt kominn, þá sjáum við að framkvæmdir við þær virkjanir og uppbyggingu iðnaðar samhliða því væru komnar af fullum krafti inn í efnahagsumhverfi okkar með tilheyrandi áhrifum.

Það er sennilega ekki ofsögum sagt að á síðustu þremur árum eða á þessu kjörtímabili höfum við með þeirri óvissu sem íslenskum sjávarútvegi hefur verið haldið í og þeirri stefnu sem rekin hefur verið í orkufrekum iðnaði, séð á bak allt að 200 milljarða fjárfestingu í landinu, (BVG: 400–600.) jafnvel meira. (Gripið fram í.) Ég heyri að hv. þm. Björn Valur Gíslason býður betur og vill hafa það jafnvel 400 eða 600 milljarða. En við getum öll ímyndað okkur hvernig þetta liti út í dag ef þessi beina erlenda fjárfesting auk innlendrar fjárfestingar hefði átt sér stað á þessu tímabili, hvað við værum mikið betur í stakk búin til að efla heilbrigðisþjónustu í landinu og menntakerfið og standa við öll þau fögru fyrirheit sem ríkisstjórnin kýs að fara fram með þessa dagana, nokkrum dögum fyrir kosningar í einhverjum loforðapökkum. Þeir koma fram í frumvarpsformi sem aldrei verður hægt að standa við með stefnu vinstri manna sem hér hafa farið fram síðustu fjögur ár. Því miður er það staðreyndin.

Spurt hefur verið um Helguvík. Hvar er samningurinn þar? Hvar er stuðningurinn við það verkefni? (Utanrrh.: Hér.) Hvar er stuðningurinn við hann í raun? Hæstv. utanríkisráðherra er eins og sprellikarl og veifar hér höndum (Gripið fram í.) og segist styðja það mál. (Gripið fram í.) En hvað hefur hæstv. utanríkisráðherra sýnt í raun? Hvað hefur hæstv. atvinnuvega- og auðlindaráðherra í raun sýnt í stuðningi við það verkefni? (Utanrrh.: Fjárfestingarsamninginn.) Hvað hafa menn staðið við? Hvar hefur þessi ríkisstjórn verið til að ýta á eftir því verkefni sem komið er svo langt sem raun ber vitni? Hún hefur farið í felur í því verkefni eins og svo mörgum öðrum, vegna þess að álver má ekki nefna. (REÁ: Alls ekki á Suðurnesjum.) Alls ekki á Suðurnesjum, nei, þar sem öllu fögru var lofað eins og herminjasafni og einhverjum fleiri slíkum bröndurum, liggur mér við að orða það. Það er ekki hægt að kalla þann leik hæstv. ríkisstjórnar annað en brandara, þ.e. það sem þeir fóru fram með á þeim vettvangi.

Á vordögum 2011, held ég frekar en 2010, sagði hæstv. þáverandi iðnaðarráðherra Katrín Júlíusdóttir Þingeyingum og þingheimi að nú skyldu menn undirbúa sig á næstu missirum undir stórkostlegar framkvæmdir á svæðinu. Ég held að það hafi verið 2011, það má hafa verið 2010. Það er alla vega liðinn langur tími. Þá var undirrituð viljayfirlýsing milli ríkisstjórnar Íslands og sveitarfélaganna fyrir norðan um að takast á við umfangsmikla atvinnuuppbyggingu í Þingeyjarsýslu. Og núna — öðruvísi mér áður brá — er það hæstv. atvinnu- og auðlindaráðherra Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður Norðausturkjördæmis, sem mælir hér fyrir frumvörpum um stóriðju, orkufrekan iðnað á svæðinu. Ég ítreka að þó að ég sé að fara yfir gagnrýni á ríkisstjórnina í þessum málum fagna ég virkilega með Þingeyingum á þessum tímamótum. (Gripið fram í.)

Saga Bakka er í þessu tilliti sorgarsaga. Stórfyrirtæki, sem hefur sýnt af sér mikinn metnað um að vera með trausta starfsemi, öruggt umhverfi fyrir starfsfólk sitt, hefur öryggismál í heiðri, hefur sýnt mikinn vilja til að efla framleiðslu sína austur á Reyðarfirði, Alcoa, var ýtt í burtu. Í október 2009 rann út beiðni Alcoa um framlengingu á viljayfirlýsingu ríkisstjórnar Íslands, Norðurþings og Alcoa og var beiðni þeirra hafnað. Ríkisstjórnin hafnaði því. Eftir að forustumenn Alcoa, stjórnarformaður eða forstjóri og stjórnarmenn komu hingað til að leggja áherslu á það við ríkisstjórn Íslands að það mikil alvara væri á ferðum hjá fyrirtækjum að byggja þar upp alvöruiðnað, sáu þeir að það var eins og að tala við ljósastaur sem slökkt væri á að tala við hæstv. ríkisstjórn. Það var ekkert annað.

Í dag er verið að semja við fyrirtæki sem er með margfalt minni fjárfestingu á prjónunum. Ætli hún sé nema fimmtungur af því sem fyrirhugað var? Útflutningsverðmætin verða margfalt minni, gjaldeyririnn sem við fáum fyrir framleiðsluna verður margfalt minni en við hefðum fengið í formi hins umhverfisvæna málms, áls, sem annars hefði verið fluttur út frá Bakka, margfalt minni.

Það er mjög sérstakt að þessi ríkisstjórnarflokkur, Vinstri grænir, sem segist vera umhverfisvænn, sé nú að skrifa undir samning um verksmiðju þar sem mengun af framleiðslunni er fimm sinnum meiri á hvert framleitt tonn en í álveri, fimm sinnum meiri. Staðreyndin er nefnilega sú að álið er umhverfisvænt og þessi umhverfissinnaði flokkur, Vinstri grænir, ætti í raun að hafa forgöngu um og berjast fyrir því að slíkar verksmiðjur risu hér og við flyttum út þann málm sem er í umhverfislegu tilliti það besta sem hægt er að framleiða, það er margsýnt. Nærtækast er að taka dæmi um gosdósirnar sem fara í endurvinnslu í Evrópu og eru tveim mánuðum seinna komnar fullar af gosi í hillur stórmarkaðanna aftur þar sem yfir 80% af þeim málmi hefur verið endurunninn frá því að framleiðsla hófst í kringum 1880. En sú blinda afstaða og andstaða sem hv. þingmenn sem þessum flokki og fleirum tilheyra hafa haft gegn stóriðju í álframleiðslu, hefur byrgt sýn. Menn hafa ekki horft á þetta réttum augum.

Ríkið verður í þessu tilliti af gríðarlega miklum fjármunum sem annars hefðu getað verið farnir að skila sér að miklu leyti inn í íslenskt efnahagsumhverfi, ef rétt hefði verið að málum staðið, uppbyggingin væri sennilega á fullum skriði. Þannig er áætlað að ríkissjóður verði að greiða rúmlega 3 milljarða í innviðauppbyggingu. Einhvers staðar var þetta nú allt sundurliðað, það væri gaman að geta talið það upp en það skiptir kannski ekki öllu máli. Alla vega verður ríkissjóður af stórkostlegum fjármunum og hefði verið nær að nota þá fjármuni í að byggja upp eitthvað annað. Ef við hefðum farið í framkvæmdir með Alcoa eða öðrum sambærilegum á Bakka hefði framkvæmdaraðilinn og þeir líklega borgað fyrir það allt saman fyrir utan það að tekjurnar á höfninni hefðu orðið miklu meiri. En hér er reiknað með að víkjandi lán vegna hafnarframkvæmdanna frá ríkissjóði verði um 820 millj. kr. Samkvæmt úttekt sem gerð var af Páli Jenssyni prófessor er ekki gert ráð fyrir að sjóðurinn greiði af því láni þar sem höfnin verði rekin með tapi, a.m.k. á meðan frekari starfsemi kemur á staðinn, þannig að þetta mun kosta á 4. milljarð og það kemur frá ríkissjóði.

Það er í sjálfu sér ekkert óeðlilegt að um verkefni sem þetta séu gerðir sérstakir ívilnanasamningar. (Gripið fram í.) Það er vel þekkt hjá þjóðum sem við keppum við þegar við reynum að laða hingað til lands beina erlenda fjárfestingu. Við verðum að standa okkur í þeirri samkeppni. Við eigum endurnýjanlega raforku sem framleidd er á mjög umhverfisvænan hátt, hún er eftirsóknarverð. Því er starfsemi þessara fyrirtækja grænni en ella ef fyrirtækin nýta t.d. raforku frá orkuverum sem kynt eru með kolum, olíu eða gasi. Þarna höfum við ákveðið forskot til að bjóða fyrirtækjum en auðvitað verðum við í skattalegu og gjaldalegu tilliti og umhverfi að spila með aðilum og vera samkeppnishæf. Ég fagna þeirri stefnubreytingu sem er að verða hjá núverandi ríkisstjórn í þessum efnum. Ég tek undir með þeim hv. þingmönnum sem kallað hafa eftir svörum frá hæstv. ráðherra um hvar samningar t.d. gagnvart Helguvík séu, hver áhuginn sé á því verkefni. Það er mjög mikilvægt að við fáum svör við því hvort hér er um eitthvert kosningaútspil til heimabrúks að ræða eða hvort hér er einhver raunveruleg stefnubreytingu á ferðinni, að menn hafi loksins séð ljósið, séu loksins farnir að hlusta á okkur sjálfstæðismenn vegna þess að svona erum við búnir að tala fyrir allt kjörtímabilið. Allt kjörtímabilið höfum við talað fyrir því. Nú eru Vinstri grænir búnir að viðurkenna nauðsynlega aðkomu ríkisvaldsins til að hvetja til slíkrar fjárfestingar.

Virðulegur forseti. Ég vil á þessum tímamótum óska Þingeyingum alveg sérstaklega til hamingju. Það er auðvitað gríðarlega mikill áfangi í þeirri sveit og fyrir okkur öll í landinu (Forseti hringir.) að við skulum þó vera komin hingað með næsta samning um orkufrekan iðnað til uppbyggingar á þessu landi. (Forseti hringir.) Ég get lofað þjóðinni því að verði Sjálfstæðisflokkur við völd á næsta kjörtímabili munu þeir fleiri sjá dagsins ljós strax á þessu ári.



[21:37]
Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Hér stendur yfir 1. umr. um tvö frumvörp, skyld, tvíburafrumvörp eins konar, og í þingsköpum stendur að í 1. umr. eigi að tala almennt um frumvörpin, síðan skoði þingnefnd málin og leggi niðurstöðu sína fyrir þingið. Ég ætla hér að tala almennt um þessi frumvörp þó að ég fari jafnframt í nokkur atriði í þeim.

Fyrst vil ég segja: Síðan stóriðja hófst hér á Íslandi, sú stóriðja sem ég tel, og flokkur minn Samfylkingin, í ályktun á landsfundi sínum, að sé að renna sitt skeið — ekki með þeim hætti að stóriðjufyrirtæki séu að líða undir lok, hvorki þau sem eru né einhver ný, en að stóriðjuöldin, einblíning á stóriðjukostina sem atvinnuuppbyggingu á Íslandi, sé að hnigna af ýmsum ástæðum sem ég hef því miður ekki tíma til að fara út í hér en skal gera síðar — þá hefur uppbyggingin fram á síðustu ár farið þannig fram að Íslendingar hafa tekið þátt í eins konar kapphlaupi, eins konar öfugu uppboði þar sem fyrirtækin sitja eins og heimasætur og bíða eftir bestu tilboðum — fræg er auglýsingin Lowest Energy Prices sem hér var gefin út sem fyrirsögn á bæklingi frá iðnaðarráðuneytinu — og síðan eru samningarnir gerðir við orkusalann, við ríkið, við sveitarfélagið og hafnirnar.

Þegar sköpuð voru lögin sem eru nr. 99/2010, og eru um ívilnanir til erlendra fyrirtækja, var í gangi viðleitni til að breyta þessu. Menn viðurkenndu fúslega og vissulega að þegar erlendir menn eða íslenskir koma með mikla peninga og eru tilbúnir að setja þá í atvinnurekstur á Íslandi þá er sjálfsagt að tryggja mönnum ákveðið svigrúm, taka með einhverjum hætti þátt í áhættu þeirra. En menn sögðu líka með þessum lögum, og það er hægt að lesa upp úr umræðum um þau og framsöguræðum, nefndarálitum, blaðagreinum, eins og gert var fyrr í þessari umræðu: Það verður að vera jafnræði. Fyrirtækin verða að geta stólað á það að eitt sé ekki sett hærra en hitt og almenningur á Íslandi verður líka að geta stólað á það að stjórnmálamennirnir, að forustumenn í ríki og sveit, og forustumenn orkufyrirtækjanna, sem eru að 95 hundraðshlutum í eigu almennings, að þeir stilli sig, að þeir fari að vissum leikreglum, að þeir sýni það sem við Samfylkingarmenn höfum kallað stjórnfestu í þessum efnum.

Þegar lögin nr. 99/2010, voru sett var talað um, eins og hér var rifjað upp áðan, það gerði hv. þm. Ragnheiður Elín Árnadóttir, að tími hinna sérstöku samninga væri liðinn. Það má taka til marks um það að einmitt þegar þessi lög voru samþykkt var í gangi hér samningur við fyrirtæki sem heitir Verne Holdings, held ég, upp á ensku, og samþykkt um það sérstök lög sem eru nr. 57/2010, en það sem gerðist síðan var það að samningurinn við það fyrirtæki var lagaður að lögunum nr. 99/2010, sem var jákvætt. Það var sem sé reynt að renna í það far. Ég held að samningurinn við Becromal hafi með einhverjum hætti líka verið lagaður að þessum lögum en með því frumvarpi sem hér er á dagskrá, 1. umr. er á dagskrá á sama tíma og 2. umr., um breytingarfrumvarp á ívilnunarlögunum, er brotið í blað. Það hlýtur að vekja spurningar sem svör hæstv. ráðherra áðan dugðu ekki til að svara og nefndin hlýtur að leita eftir skýrari svörum við þeim spurningum.

Ráðherrann sagði að þetta væri svona í meira samræmi við það frumvarp sem núna er flutt til breytinga á ívilnunarlögunum heldur en við lögin sjálf og verður að virða honum það til vorkunnar að það er rétt hjá honum að í vissum atriðum er það svo, í öðrum ekki. Það má halda hér langa ræðu um tryggingagjald og ég geri það kannski síðar í umræðunni en það er auðvitað svo að það að veita fyrirtæki 100% afslátt, að afnema tryggingagjald hjá fyrirtæki, er nokkuð stórt skref. Lögin tala um 20% tryggingagjald, ég veit það ekki en mig grunar að þetta sé í raun og veru ekki farið að ganga og það sést best á því að ríkisskattstjóri veit ekki enn þá hvernig þetta á að funkera, hvernig skatturinn á að greiðast vegna þess að tryggingagjaldið er samsett en litið á það í skattalegu tilliti sem eitt gjald. Í frumvarpinu er stigið stórt skref í þessu, upp í 50%. En hér á eitt fyrirtæki á landinu, fyrir utan erlend sendiráð, sem er sérstakt mál samkvæmt Vínarsamningnum, sem hæstv. utanríkisráðherra þekkir manna best, sem hér situr, að fyrir utan erlendu sendiráðin er eitt fyrirtæki á landinu sem á ekki að greiða tryggingagjald.

Hverjir greiða þá tryggingagjaldið? Því að tryggingagjaldið er greitt, það hefur komið fram hjá hæstv. fjármálaráðherra í fyrirspurn hér í gær eða fyrradag og hjá hæstv. fjármálaráðherra. Það erum við hin, það eru hin fyrirtækin og við starfsmenn þeirra, þetta er auðvitað með ákveðnum hætti hluti af okkar launum, sem greiðum tryggingagjaldið fyrir starfsmenn þessa fyrirtækis. Hver er skýringin á þessu í greinargerðinni? Jú, hún er sú að spekingar hafa fundið það út að fyrirtækjunum sé illa við of há laun, það sé eitt af því sem hindri fyrirtækin í að gera samning, það séu of há laun og þá sé hægt að losa um þau með þessum hætti. En talsmenn — nú vantar hv. þm. Jón Gunnarsson sem ég lít alltaf framan í þegar ég ræði um stóriðju hér í salnum — stóriðjunnar hafa einmitt sagt: Þetta hækkar svo launin hjá okkur og það gerði það vissulega. Þegar Ísal varð til og fór að reka verksmiðjuna þá hækkuðu laun, launin hjá Ísal voru hærri en hjá samsvarandi starfsstéttum annars staðar. Það hefur gert það en núna á sem sé að lækka launin. Þetta er undarlegt og gengur mjög illa upp og þegar maður veit um sögu tryggingagjaldsins þá vekur þetta líka spurningar.

Einu sinni var tryggingagjaldið þannig skattur að góði atvinnureksturinn borgaði lítið tryggingagjald — og nú horfi ég framan í Ásbjörn Óttarsson sem einmitt var góður atvinnurekandi á þeim tíma; sjávarútvegurinn borgaði lítið tryggingagjald — en vondur atvinnurekstur, verslun og þjónusta og alls konar siðspilling, borgaði hátt tryggingagjald og við virðumst vera farin að renna í þetta aftur. Ég hef talað of mikið um þetta en ég hvet nefndina til að athuga þetta mál og leita álits hjá hv. efnahags- og viðskiptanefnd.

Ég verð að segja það með lögin nr. 99/2010 að þegar ég veitti andspyrnu sérlögunum um álverið í Helguvík, sem reis nú ekki þó að ég tapaði þeirri orustu hér á þinginu, þá taldi ég það kannski fyrstu og fremstu ástæðuna, látum vera með Helguvík í sjálfu sér, alveg eins og ég er hér ekki að ræða í prinsippinu kísilmálmverksmiðju á Húsavík, að ekki væru til almenn lög um þetta og áður en þau yrðu til væri ekki hægt að gera slíka samninga. Við töpuðum þessari deilu, ég og hv. þingmaður, sem þá var, Steingrímur J. Sigfússon og sjö þingmenn í viðbót sem allir voru í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði, nema sá sem hér stendur, en við höfðum rétt fyrir okkur. Það á ekki að gera svona samninga nema almenna þannig að fyrirtækin njóti jafnræðis þannig að almenningur geti verið viss um hvað er í gangi.

Það sem hér þarf að svara, það sem nefndin þarf að finna út, er auðvitað það sem ég var að reyna að spyrja um áðan: Hvað gera þau sex fyrirtæki sem þegar hefur verið samið við? Þar af eru þrír samningar virkir. Þau hljóta að koma og vilja fá samninga sína endurskoðaða þegar þessi samningur hefur verið gerður við þetta fyrirtæki sem er að setjast að á Húsavík. Hvað gerist í Helguvík? Hér kalla þingmenn, eins og háttur er og venja á þinginu, eftir því að það sama gerist hjá þeim og gerist í Helguvík, hv. þingmenn Suðurkjördæmis kalla að sjálfsögðu eftir því að það sama gerist og þau fyrirtæki sem setjast að í Helguvík kalla sjálfsagt eftir því að fá sömu samninga.

Getur verið að þegar hæstv. atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra segir nei, þetta er alveg sérstakt svæði á Húsavík, getur verið að þessi fyrirtæki fari í mál? Að það frumvarp sem hér á að samþykkja skapi bótaskyldu? Að þessi fyrirtæki geti sótt bætur til íslenska ríkisins, þannig að kostnaðurinn við Húsavíkur-uppbygginguna verði enn þá meiri? Ég veit það ekki. Ég vonast til þess að nefndin leiti svara við þessu. Hér situr formaður hennar, hv. þm. Kristján L. Möller, og er nákvæmur og samviskusamur og getur svarað þessu strax í 2. umr. um málið.

Seinna frumvarpið er líka nokkuð veglegt. Þar ætlar hæstv. atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra að taka þátt í því fyrir okkar hönd að byggja höfnina og hann ætlar meðal annars að lána til þess 819 millj. kr. Það er víkjandi lán en ekki þarf að greiða það nema höfnin standi undir sér á tilteknu árabili og í arðsemismati, sem gert hefur verið, er höfnin í halla allan þann tíma ef ekkert meira gerist þannig að við erum að taka þar þátt í — með réttu eða röngu, nefndin finnur það út — ákveðnu happdrætti. Ef það gengur að fá fleiri fyrirtæki inn í þessa iðngarða, eins og sumir hafa kallað þá, verður hugsanlega eitthvað af láninu greitt, ef ekki þá kostar þetta 819 milljónir, vaxtalausar eiga þær reyndar að vera þannig að lánið verður auðvitað ekki greitt að fullu á neinu markaðsverði.

Það er líka spurt um það, í umsögn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins, með hvaða hætti þetta komi við sögu í fjárlögum. Það er eðlileg spurning og það verður þess vegna mjög mikilvægt fyrir fjárhag ríkisins að laða að frekari fjárfestingar á Bakka í framtíðinni. Það þýðir auðvitað að ríkið þarf að leggja sig fram við að veita enn frekari afslátt, að veita þau kjör hinum nýju fyrirtækjum að þau sjái sér sérstakan hag í því að taka þátt í að koma á Bakka. Þannig að ríkið er að setja sig í afar slæma samningsstöðu, ég sé ekki betur en að það sé þannig.

Þar að auki stendur í greinargerðinni að óvissa sé um fjárhagsstöðu Norðurþings og getu sveitarfélagsins til að fjármagna og standa undir rekstrarkostnaði á uppbyggingartímanum án frekari aðstoðar frá ríkinu. Ég sé ekki betur, forseti, en að þarna sé hæstv. ráðherra að segja okkur að jafnvel sé von á frekari frumvörpum og þingmálum vegna þess að við þurfum að hjálpa Norðurþingi að reka höfnina á uppbyggingartímanum. Þetta stendur í athugasemdunum við frumvarpið og ég spyr um þetta: Hvað merkir það?

Við þurfum sannarlega erlenda fjárfestingu. Ég vonaðist og vonast eftir einhverju nýrra og skærra en nýrri járnblendiverksmiðju en ég er ekki að tala efnislega um það hér. Ég er hins vegar að segja að nefndin þarf að skoða mjög vel þessi frumvörp. Hún þarf að athuga hver er hin þjóðhagslega hagkvæmni af þessu máli einu saman. Hún þarf að vega það, eins og fjárlagaskrifstofa fjármálaráðuneytisins leggur til, eða gerir kröfu um, saman við þau miklu útgjöld sem ríkið verður hér fyrir. Hún þarf að taka tillit til þess að hér er mikil óvissa. Það er sex mánaða óvissa um svar frá ESA. Mat á umhverfisáhrifum er í gangi, lög um ívilnanir eru að breytast. Það er óljóst um afstöðu annarra fyrirtækja sem þegar hafa samning og algjörlega óljóst hvaða kjör næstu fyrirtækjum þurfa að bjóðast. Það er óljóst um, eins og ég nefndi áðan, frekari stuðning ríkisins við rekstur þeirrar hafnar sem hér er að koma upp og ekki er heldur ljóst hvernig fjármögnun þessara verkefna er nákvæmlega háttað. Ég sé ekki betur en þetta eigi að koma út sem aukinn hallarekstur á næstu árum og sá hallarekstur hefur ekki verið kynntur hér inn í áætlanir í ríkisfjármálum.

Ég fagna því ef nú verða til 127 störf í Þingeyjarsýslum og á Húsavík en við eigum ekki að kaupa þau störf. Hv. þm. Kristján Þór Júlíusson sagði hér áðan, í miðri lofræðu sinni um þetta verkefni, að það væri vissulega, með leyfi forseta, dýru verði keypt. Mín lokaorð hér verða þau að ég tel í þessari 1. umr. að svo mikil óvissa sé í gangi um þessi mál bæði að ég tel að nefndin eigi að íhuga alveg sérstaklega (Forseti hringir.) hvort ekki er rétt að bíða með þessi frumvörp fram á næsta þing, fram á þingið í sumar eða öllu heldur þingið í haust.



[21:52]
Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér tvö frumvörp til ívilnunar vegna uppbyggingar stóriðju á Bakka. Ég vil segja í upphafi ræðu minnar að þó að ég og hv. þm. Mörður Árnason, sem var að ljúka máli sínu hér áðan, verðum kannski seint sammála hvað varðar atvinnuuppbyggingu þá bar hann fram nokkuð margar spurningar sem mér fannst vera réttlátar. Það snýr aðallega að því hvernig staðið er að gerð ívilnunarsamninga eða laga um ívilnanir en það er mjög æskilegt að ekki þurfi að setja sérlög um hvert og eitt verkefni. Það er réttmæt spurning.

Við þekkjum umræðuna um það í gegnum tíðina þegar verið var að gera sérstaka fjárfestingarsamninga sem ekki mátti gefa nema takmarkaðar upplýsingar um vegna þess að um var að ræða viðskiptaleyndarmál fyrirtækisins, að gæta skyldi hagsmuna og þar fram eftir götunum, þannig að mér finnst margt sem sneri að þessum hlutum hjá hv. þingmanni bara eðlilegar og sanngjarnar spurningar.

Ég vil líka segja að það er mikið fagnaðarefni fyrir íbúa Norðurþings eða Norðausturlands að þetta mál skuli loksins vera komið fram, því að þetta hefur verið afskaplega löng og mikil þrautaganga hvað varðar atvinnuuppbyggingu í Þingeyjarsveitum. Sveitarfélagið hefur lagt út í mjög mikinn kostnað til undirbúnings þessa verkefnis og ég þarf ekki að telja upp í ræðu minni alla þá steina sem lagðir hafa verið í götu verkefnisins.

Það er hins vegar umhugsunarvert að þetta mál skuli koma fram nánast á síðustu klukkutímum þessa þings, ekki á síðustu dögum heldur á síðustu klukkustundum, því að ég hefði talið að þetta mál hefði getað komið mikið fyrr fram. Það kemur fram í frumvarpinu, þar sem sagan er rakin, og hana þekkjum við, að til stóð að fara í uppbyggingu á álveri þar sem Alcoa kom að málum. Sú atvinnuuppbygging hefði í fyrsta lagi orðið miklu meiri, og starfsemin í kringum það, og fyrirtækið sjálft hefði getað staðið undir innviðauppbyggingu vegna verkefnisins. Það hefði líka verið mun meiri fjárfesting sem hefði skilað sér sem auknar tekjur í ríkissjóð og mun fleiri störf. Eins og hv. þm. Sigurður Ingi Jóhannsson sagði hér áðan, hæstv. forseti, er það kannski grátbroslegt að það hefði líka orðið þetta miklu minni mengun af því að fara í þá framkvæmd. Ég veit ekki hvort maður á að segja að það sé hlægilegt eða hjákátlegt, það skiptir ekki öllu máli, en það er merkilegt í sögu þess hver sá hæstv. ráðherra er sem mælir fyrir málinu. Það er líka ágætt að rifja það upp hér að á árinu 2009, þegar hæstv. ríkisstjórn hafnaði því að framlengja viljayfirlýsingu um uppbyggingu álvers, klöppuðu sumir hv. þingmenn hér í þingsal, þeir hljóta þá að koma og klappa fyrir þessu máli, væntanlega. En svona gerast nú hlutirnir.

Ég var að hugsa það áðan, þegar hæstv. atvinnuvegaráðherra mælti fyrir málinu, að annað yfirbragð hefði verið á hæstv. ráðherra ef hann hefði verið í stjórnarandstöðu og einhver annar þingmaður hefði mælt fyrir þessu máli um atvinnuuppbyggingu á öðrum stað. Ég hugsa að það hefði verið annar bragur á honum. Og hv. þm. Mörður Árnason kom einmitt inn á það í ræðu sinni þegar hann, ásamt hv. þingmönnum Vinstri grænna, tapaði orustunni um uppbyggingu í Helguvík, það hefði verið gaman að rifja þær ræður upp. En það er nú kannski ekki aðalatriði þessa máls. Við þurfum að horfa til framtíðar og þeirra tækifæra sem felast í þessari atvinnuuppbyggingu fyrir íbúa á Norðausturlandi. Þeir hafa beðið eftir þessari atvinnuuppbyggingu í áraraðir eða áratugi.

Ég vil þó aðeins rifja það upp að þegar þáverandi iðnaðarráðherra mælti fyrir lögunum um ívilnanir árið 2010, sem þannig vill til að eru í endurskoðun og í meðförum í hæstv. atvinnuveganefnd, voru stór orð látin falla um að nú væri tími svokallaðra sérlaga, sérlausna, sérsamninga, liðinn. Það væri allt uppi á borðum og allir gætu gengið að því vísu hvernig að hlutunum væri staðið. Svo kemur þetta fyrsta mál um atvinnuuppbyggingu — og hvað er þá gert? Þá eru flutt um það sérlög. Það væri mjög æskilegt, eins og ég sagði í upphafi, og tók undir þær spurningar sem hv. þm. Mörður Árnason kom inn á í ræðu sinni, að við hefðum lögin um það hvernig staðið væri að málum algjörlega skýr. Hér er reyndar ekki verið að gera fjárfestingarsamninga þannig að ekki er hægt að kvarta yfir því að verið sé að halda upplýsingum leyndum, það ber að koma því á framfæri, sem var viðloðandi hér áður fyrr og var auðvitað ekki ásættanlegt, það ber vissulega að fagna því.

Þau tvenn lög sem eru hér til umræðu bæði í einu og hæstv. ráðherra mælti fyrir — ég geri engar athugasemdir við það — fjalla um þær ívilnanir sem þetta verkefni, atvinnuuppbyggingin á Bakka, mun njóta. Það er annars vegar ívilnun af hendi ríkissjóðs, þar sem ríkissjóður kemur að málum, og hins vegar sveitarfélagsins. Svo að ég hlaupi á helstu staðreyndum málsins er gert ráð fyrir að fyrirtækið verði með 15% tekjuskattshlutfall í staðinn fyrir 20%, eins og gert er ráð fyrir í núverandi lögum; að félagið greiði engin gjöld af stimpilskyldum skjölum sem það hefur gefið út eða stofnanir í tengslum við uppbyggingu viðkomandi fjárfestingarverkefnis í stað þess að greiða um 0,15%; að félagið fái 50% afslátt af fasteignagjöldum í stað 30% afsláttar sem er í lögunum frá 2010; og að félagið verði undanþegið almenna tryggingagjaldinu í stað þess að fá 20% afslátt af gjöldunum. Einnig er félaginu heimilaður frádráttur frá sköttum og gjöldum í 14 ár í stað 13 ára frá undirritun samnings eins og gert er ráð fyrir í 3. mgr. laganna frá 2010, en þó aldrei lengur en í 10 ár frá því skattskylda eða gjaldskylda myndast hjá félaginu.

Ef þetta er aðeins sett í samhengi eru ívilnanir sem ríkið veitir til verkefnisins vegna frávika frá sköttum og gjöldum, þ.e. lægra tekjuskattshlutfall og undanþága frá almennu tryggingagjaldi og stimpilgjaldi, áætlaðar um 1–1,5 milljarður kr. á öllu tímabilinu. Hvað varðar sveitarfélögin er áætlaður tekjumissir annars vegar, miðað við að engar undanþágur væru veittar, 500 til 550 milljónir og það sem snýr að höfninni er 400 til 450 milljónir. Þetta eru í grófum dráttum þær útlínur sem snúa að þeim ívilnunum sem þetta fyrirtæki fær.

Ég vil staldra aðeins við það sem ég kom inn á í andsvari við hæstv. atvinnuvegaráðherra áðan og ég set spurningarmerki við það vegna þess að ekki er gert ráð fyrir neinum fjármunum í fjárlögum ársins 2013 í þetta verkefni. Við gagnrýndum það töluvert í umræðum um fjárlögin fyrir árið 2013 þar sem í hagvaxtarspánni var gert ráð fyrir — það kom mjög skýrt fram þegar Hagstofan kynnti hagspána fyrir árið 2013 sem er grunnurinn að tekjuhluta fjárlaganna — þeirri atvinnuuppbyggingu sem færi af stað á Bakka og þeirri innviðauppbyggingu sem því fylgdi á seinni hluta ársins. Þá gerðum við harðar athugasemdir við að gera þyrfti ráð fyrir útgjaldaliðnum á móti þannig að fjárlögin væru ballanseruð, ef ég má nota það orð, þ.e. að líka væri gert ráð fyrir þeim útgjöldum sem búast mátti við.

Það er umhugsunarvert hvort gert hafi verið ráð fyrir meiri framkvæmdum í hagvaxtarspánni hjá Hagstofunni en hér um ræðir, ég ætla ekki að fullyrða neitt um það. En útgjöldin sem reiknað er með að verði á þessu ári eru um 100 millj. kr. Það fer aðallega í undirbúning, síðan eru fjárfestingin og útgjöldin á árinu 2014, 2015 og 2016, þ.e. ekki á því fjárlagaári sem nú er um að ræða. Það er því þess virði að það sé athugað hvernig það hefði verið reiknað í hagspánni sem er tekjuhluti fjárlaga.

Ég staldra líka við það sem fram kemur í athugasemdum og ábendingum frá fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins og það er eiginlega hálfgerð fullyrðing. Svo að ég noti rétt orðalag, virðulegi forseti, þá stendur hér:

„Vandséð er að sú fyrirætlan frumvarpsins að annar ráðherra en fjármála- og efnahagsráðherra veiti lán úr ríkissjóði samrýmist forsetaúrskurði um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta.“

Þetta snýr líka að uppbyggingunni gagnvart innviðunum sem við vitum að er á hendi innanríkisráðuneytisins, það sem snýr að vegagerð og hafnargerð.

Samþykkt þessa frumvarps, þó málið hangi í raun allt saman, felur í sér samþykkt þeirra ívilnana sem ríkið ætlar að fara út í og hins vegar nauðsynlegar breytingar á lögum sem snúa að sveitarfélaginu, þannig að sveitarfélagið megi líka gera þær ráðstafanir sem hér um ræðir til að geta uppfyllt samninga hvað varðar þessa atvinnuuppbyggingu.

Ég hefði ekki séð þörf á því að flytja nema frumvarpið sem snýr að þessum hluta og geyma það sem snýr að innviðauppbyggingunni og framkvæmdunum plús það sem snýr að ríkjandi láni til hafnarsjóðs. Að mínu viti hefði það ekki verið neitt mál að geyma það fram á haustið vegna þess að ekki er verið að veita fjármagn, fjárheimildir, inn í það nema 100 milljónir sem þá er spurning hvernig eigi að gera. Það hlýtur þá að koma inn í fjáraukalög í haust, þær 100 milljónir sem reiknað er með á árinu 2013. Ég hefði því ekki séð neitt því til fyrirstöðu að menn flyttu í framhaldinu inn í fjárlagagerðina 2014 þessa hluti hér.

Í framhaldi af því veltir maður því fyrir sér — þó að ég ætli ekki að gera ágreining um það, þá er það auðvitað umhugsunarvert fyrir okkur — að hæstv. atvinnuvegaráðherra lagði til í lok ræðu sinnar að málið gengi til atvinnuveganefndar. Það er eðlilegt, það sem snýr að ívilnunum og þeim hlutum sem þar eru, en þá vaknar líka sú spurning ef menn líta þannig á að þeir séu að klára allt málið, sem ég er reyndar ekki alveg sammála. Það gefur augaleið að ekki er hægt að taka ákvörðun fyrr en á næsta þingi, fjárlagaárið 2014, og strax hefði vaknað upp sú spurning hvort atvinnuveganefnd mundi senda málið til umsagnar til hv. fjárlaganefndar og hv. umhverfis- og samgöngunefndar, það sem snýr að þeim tveimur þáttum sem klárlega heyra undir þau fagráðuneyti sem þessar nefndir fjalla um — umhverfis- og samgöngunefnd fjallar í flestum tilfellum um þau málefni sem snúa að innanríkisráðuneytinu og fjárlagaþættir málsins snúa að hv. fjárlaganefnd. Við þurfum að hugsa þetta, en eins og ég sagði geri ég ekki efnislegar athugasemdir við það. Ég hefði ekkert séð því til fyrirstöðu gagnvart málinu að það yrði gert með þessum hætti að þetta frumvarp kæmi um ívilnanir og síðan hefði málið komið inn í haust og tekin ákvörðun um hvernig hægt væri að gera þetta.

Það byggir kannski líka undir þessa hugsun að við þurfum að bíða. Af því að fram kemur að þetta víkjandi lán til hafnarinnar er í raun og veru styrkur þurfum við að bíða álits frá ESA um það hvort þetta geti fallið undir víkjandi lán eða styrk. Þannig að þessi spurning kallar líka á það.

Ég ætla ekki að gera ágreining um þá hluti hér, vil bara nota síðustu sekúndurnar til að fagna því að þetta mál hafi komið fram. Það hefði mátt koma fram miklu fyrr en við skulum horfa til framtíðar en ekki festast í fortíðinni þó að það geri oft æði margir. Þetta gefur von eftir langa bið íbúa á Norðausturlandi eftir atvinnuuppbyggingu, veitir von inn á það svæði og ég fagna því að það sé gert með þessum hætti. Ég vil að lokum segja að það er mín skoðun að ræða þurfi það mjög alvarlega að hér gildi almenn löggjöf um það hvernig staðið er að ívilnunum til uppbyggingar.



[22:08]
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Virðulegur forseti. Ég kem hingað upp til að fagna því að loksins skuli hafa orðið af langþráðri atvinnuuppbyggingu á Bakka við Húsavík, að minnsta kosti stefnir í það. Fram að þessu hefur töluvert mikið vantað upp á það, skulum við segja, svo að við tökum vægt til orða, að stjórnvöld hafi gert það sem eðlilegt og æskilegt hefði verið til að ýta undir atvinnuuppbyggingu á svæðinu og hafa ýmis tækifæri farið forgörðum í þeim efnum. En ég ætla ekki að eyða tímanum í að rekja þá sögu alla heldur fyrst og fremst að fagna því að nú skuli loksins stefna í að breyting verði þar á og jafnframt fagna þeirri viðurkenningu sem í þessu felst á gildi uppbyggingar á sviði iðnaðar á Íslandi. Umræða um iðnað og fjölgun starfa í þeirri grein hefur verið furðu neikvæð um nokkurra ára skeið úr ýmsum áttum. Með þeim málum sem við ræðum hér er að eiga sér stað algjör viðsnúningur hvað það varðar.

Jafnframt felst í þessu viðurkenning á því að það sé ásættanlegt og æskilegt að ríkisvaldið beiti sér sérstaklega til að koma á verkefnum sem skapa störf. Þetta er annað atriði sem hefur verið umdeilt lengi og menn hafa reyndar deilt um á ýmsum forsendum. En flestar þær forsendur eða flest þau rök sem notuð hafa verið til að andmæla aðkomu ríkisins að því að greiða fyrir atvinnuuppbyggingu eru í raun fallin með þessu máli. Það er fagnaðarefni líka.

Sérstaklega á þetta við um það hlutverk ríkisvaldsins að skapa eðlilega innviði, nauðsynlegar forsendur, til þess að atvinnuuppbygging geti átt sér stað. En hér er líka um það að ræða að menn fallist á þau rök að það geti þurft að skapa jákvæða hvata, meðal annars með skattalækkunum eða eftirgjöf skatta, til þess að koma fjárfestingarverkefnum af stað. Það er löngu tímabært fordæmi.

Við höfum reyndar séð önnur dæmi um slíkt, t.d. í átakinu sem kallað var Allir vinna og fólst í endurgreiðslu virðisaukaskatts einkum og sér í lagi vegna viðhaldsverkefna og var að mati ríkisstjórnarinnar til þess fallið að auka tekjur ríkisins og fjölga störfum, þ.e. skattalækkunin eða skattaeftirgjöfin var á endanum hagkvæm og jákvæð fyrir ríkið. Það sama á við þegar kemur að því að skapa verðmæt störf og auka útflutning, þá getur verið réttlætanlegt að ríkið ráðist í sértækar aðgerðir til að skapa nauðsynlega hvata.

Það er því margt mjög jákvætt við þetta verkefni, en fyrst og fremst er það fagnaðarefni að nú stefnir í að viðsnúningur verði í þeirri þróun sem verið hefur ríkjandi allt of lengi í Þingeyjarsýslum, þ.e. að fólk flytjist þaðan í burtu og störfum fækki. Nú stefnir í að störfum fjölgi og vonandi mun það leiða til fjölgunar íbúa, ekki bara á næstu árum heldur til langrar framtíðar og áframhaldandi atvinnuuppbyggingar á svæðinu.



[22:12]
Kristján L. Möller (Sf):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa langt mál um þetta afar jákvæða mál eða þau frumvörp sem hér eru. Ég vil fagna því alveg sérstaklega að þau skuli vera komin fram og þakka hæstv. ráðherra fyrir að flytja þau hér. Þetta er annars vegar frumvarp til laga um heimild til samninga um kísilver í landi Bakka og hins vegar um að fjármagna uppbyggingu innviða vegna þeirrar atvinnustarfsemi í landi Bakka í Norðurþingi.

Það er sérstakt ánægjuefni að brátt sjái fyrir endann á samningum við fyrirtækið PCC um byggingu kísilvers á Íslandi sem staðsett verður fyrir norðan, enda telur Landsvirkjun þetta svæðið sem virkjað verður á næstunni og er fjárfestum bent á það. Þegar þeir koma til að fá orku hjá Landsvirkjun er bent á orkusvæðið á Norðausturlandi sem er að mestu leyti óvirkjað og er mikil auðlind sem þar er. Við vitum ekki nákvæmlega hve mikil orka verður virkjuð þar en mikið er af henni. Verður það notað á jákvæðan hátt til atvinnuuppbyggingar á svæðinu, á Norðausturlandi, til að styrkja innviði þar og sveitarfélögin og byggð á þessu svæði, sem er afar jákvætt.

Ég vil sérstaklega þakka fyrir þá umræðu sem hér hefur verið, hún hefur verið á mjög jákvæðum nótum. Það má hiklaust segja að hér hafi komið fram mjög víðtæk samstaða um þetta verkefni frá fulltrúum allra þeirra flokka sem hér hafa talað. (Gripið fram í: … og önnur verkefni líka.) Það er mikið fagnaðarefni.

Það er ánægjulegt að vera kominn aftur til þings þegar þetta mál er flutt. Ég tek eftir því að frá því hæstv. ráðherra flutti málið hér í kvöld hafa mjög margir fulltrúar í atvinnuveganefnd setið hér og hlustað á þessa umræðu, enda er það nauðsynlegt. Þannig vinnum við líka tíma vegna þess að ekki er langur tími eftir af þinginu til að vinna og klára þetta mál í nefndinni. Fyrir það vil ég líka þakka, það er ákaflega mikilvægt þegar menn reifa málin við 1. umr. Fram hafa komið nokkur atriði fram sem ég hef punktað hjá mér sem full ástæða er til að nefndin taki til athugunar og skoðunar nú næstu daga þegar við förum að vinna þetta mál.

Hér eru sem sagt, eins og komið hefur fram, mjög jákvæð frumvörp á ferð með jákvæðar framkvæmdir sem kallað hefur verið eftir allt frá hruni. Við vitum að erfiðleikar hafa verið út um alla Evrópu, það hefur ekki bara verið efnahagskrísa hér á Íslandi heldur út um alla Evrópu og það kann að kosta sitt. En hér erum við að fá erlenda fjárfestingu sem mikið hefur verið kallað eftir og þar að auki nýja atvinnustarfsemi, kísilver, sem mun hefja starfsemi á þessu svæði og vonandi er það bara það fyrsta.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu en kem hér aðallega til að fagna þessum frumvörpum og lýsa því yfir að við í atvinnuveganefnd munum reyna að vinna þetta eins fljótt og við getum en líka vel og markvisst. Það má óska Þingeyingum til hamingju með að þetta skuli þó vera komið svona langt. Vonandi löndum við þessu núna svo að það samfellda efnahags- og uppbyggingarskeið sem fram undan er á þessu svæði, á Norðausturlandi, hefjist á sumri komanda og standi í mörg ár ef ekki áratugi. Það er mjög jákvætt og ekki bara fyrir íbúa á þessu svæði heldur fyrir landið allt.



[22:16]
atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þá ágætu og málefnalegu umræðu sem hér hefur farið fram og vil aðeins bregðast við því sem til mín var beint í þeim efnum og koma inn á nokkur atriði.

Varðandi forsöguna sem nokkrir gerðu að umtalsefni og af hvaða ástæðum ekki varð af áformum um byggingu álvers mætti auðvitað ýmislegt um það segja og fara yfir það mál en ég held að það hafi verið orðið ljóst undir lokin að það var að fjara undan því verkefni. Meðal annars og ekki síst eftir að Landsvirkjun yfirtók virkjunarréttindi á svæðinu af Þeistareykjum ehf. gaf Landsvirkjun fljótlega út þá stefnu sína varðandi aðkomu að nýtingu háhitasvæðanna að fyrirtækið hefði þá afstöðu til þeirra hluta að vinna sig inn á þau í áföngum og mundi ekki skuldbinda sig til að lofa mjög mikilli orku á einu bretti af svæðunum. Þetta er í anda aðferðafræði sem oft hefur verið talað fyrir varðandi háhitasvæðin og við Íslendingar höfum reynslu af að hefur gefist vel, þ.e. að vinna þau undir orkuvinnslu í áföngum, taka eitt skref, öðlast meiri þekkingu á svæðinu og byggja síðan frekari fjárfestingar og uppbyggingu á þeirri vitneskju. Ég tel að þetta hafi verið og sé hárrétt aðferð og Landsvirkjun hafi í raun tekið í notkun þá aðferð sem við Íslendingar höfum þegar reynslu af að er vænleg þegar menn glíma við óvissuna sem er háð því að fara inn á ný háhitasvæði til orkuöflunar.

Í öðru lagi varðandi þann þáttinn sem snýr að Eftirlitsstofnun Evrópska efnahagssvæðisins, ESA, er það bara venjan og er alltaf gert að tilkynna um hluti af því tagi sem flokkast geta undir ríkisaðstoð. Það verður vitaskuld gert í þessu tilviki. Þá vil ég um leið minna á að við höfum ekki ástæðu til að ætla að það verði fyrirstaða við að samþykkja að þetta sé heimilt, einfaldlega vegna þess að þetta er svo langt innan rammans sem reglurnar heimila um stuðning og ívilnanir. Samkvæmt reglunum er heimilt að greiða allt að 25% af heildarstofnkostnaði verkefna af þessu tagi þegar um ný fjárfestingarverkefni er að ræða og því til viðbótar getur komið stuðningur sem tengist köldum svæðum sem þannig eru staðsett á byggðakortinu.

Þótt við tækjum þær ívilnanir sem hér hafa verið til umræðu og uppreiknuðum þær yfir allt tíu ára tímabilið sem þær geta tekið til er það langt innan þessara marka, sennilega innan við helmingur af því sem 25% stofnfjárkostnaðarframlag væri inn í þetta verkefni. Það er í öllu falli algjörlega hafið yfir vafa að stuðningurinn er langt innan þeirra marka og þess þaks sem regluverkið setur.

Varðandi það af hverju frumvarpið hafi ekki komið fyrr fram er einfalt að svara því, samkomulag lá ekki fyrir eða menn voru ekki orðnir sammála um grundvöll verkefnisins, þeir fjórir aðilar sem að því samkomulagi koma, fyrr en nú á dögunum. Það var mikilvægur áfangi, kannski ekki síður stór en sá sem hér er nú til umræðu, að stjórnvöld fái nauðsynlegar heimildir, þ.e. að það liggur fyrir samkomulag milli stjórnvalda, fyrirtækisins, sveitarfélagsins og hafnarsamlagsins þar sem aðilar fallast á að fullnægjandi grundvöllur til fjárfestingarinnar sé til staðar og að ekki verði farið fram á frekari ívilnanir eða stuðning.

Það samkomulag er undirritað á löggiltan skjalapappír og þar með fellst fyrirtækið fyrir sitt leyti sem fjárfestir á að forsendurnar séu uppfylltar af hálfu stjórnvalda, sveitarfélagsins og hafnarsjóðs. Þetta samkomulag lá ekki fyrir fyrr en á dögunum og þar af leiðandi var ekki hægt að koma fyrr fram með málið. Ýmislegt hefur auðvitað haft áhrif á það hvernig þetta hefur gengið til og því er ekkert að leyna að það hefur þyngt fyrir fæti með fjárfestingarverkefni af þessu tagi vegna efnahagsástandsins í Evrópu og eftirspurnar eftir þessum vörum. Ég er vonandi ekki að brjóta neinn trúnað þó að ég upplýsi það til dæmis, enda eru það opinberar upplýsingar á heimsmarkaði, að verð afurðanna hefur lækkað um á að giska 100 dollara á tonnið frá því að menn lögðu af stað í fyrstu hagkvæmnisathuganir á þessari fjárfestingu. Auðvitað hefur það ekki létt róðurinn fyrir fyrirtækið sem er að selja bönkum fjármögnun verkefnisins og svo framvegis. Það hefur í og með haft þau áhrif að menn hafa þurft að teygja sig heldur lengra en hitt til að ná pakkanum saman.

Nokkrir aðilar hafa minnt á rammalögin og spurt af hverju frávik frá þeim sé nauðsynlegt í þessum efnum. Ja, það er af þeim ástæðum sem ég var meðal annars að tala um áðan en fyrst og fremst er það þó það að hér er um að ræða það sem oft er kallað kalt svæði, þar sem þarf oft meira til að ná hlutunum saman en endranær. Í sjálfu sér er það þannig að ef allir erlendir fjárfestar mættu ráða hvar þeir staðsettu sig á landinu og þeim yrði bara færð orkan hvaðanæva að sem væri, með tilheyrandi flutningsmannvirkjum og töpum í flutningskerfinu, mundu þeir vilja vera í hálftímafjarlægð frá Keflavíkurflugvelli. (Gripið fram í: Í Keflavík.) Eða bara í jaðri höfuðborgarinnar. Væntanlega mundu menn vilja það af því að það væri þægilegast fyrir þá. Erlendir aðilar koma um millilandaflugvöll og þá væri gott að það væri stutt að skreppa í verksmiðjuna. Þar með værum við að taka ákvörðun um að öll slík uppbygging í landinu þjappaðist saman á einn stað. Það hefur hins vegar gríðarlega ókosti í för með sér af öðrum ástæðum, af umhverfisástæðum, vegna flutnings mannvirkjanna sem þá þurfa að koma til og vegna tapanna í orkukerfinu. Það hefði líka enn þá frekari byggðaáhrif í öfuga átt við það sem við vonandi erum sammála um að við viljum sjá, að allt landið eigi sér þróunarmöguleika í þessum efnum.

Ramminn dugar hins vegar með tveimur frávikum og þess vegna vil ég meina að það sé ekki á nokkurn hátt í þessu fólgið fráhvarf frá því að almennt viljum við byggja á rammalöggjöf um ívilnanir og stuðning við nýfjárfestingar af þessu tagi.

Þá er rétt að leggja áherslu á eitt sem kannski hefur gætt viss misskilnings um hér í umræðunni, að þetta eru heimildarlög og þetta er rammi. Hvert eitt einstakt verkefni er metið. Það er lagt mat á það hvaða forsendur séu uppfylltar til þess að veita ívilnanir og þær eru mismiklar í hverju tilviki. Þeir fjárfestingarsamningar sem liggja fyrir endurspegla þetta. Þeir hafa verið misríkulegir og þeir verða það áfram, einfaldlega vegna þess að það er lagt mat á þörfina í hverju tilviki og hvað stjórnvöld telja efnislegar forsendur til að bjóða í formi ívilnana. Þetta eru heimildarlög, það er í höndum stjórnvalda að skilgreina og meta og ákveða hvað í boði er þannig að það er, held ég, algjör misskilningur að kröfuréttur annarra geti skapast þó að stjórnvöld þurfi að ryðja brautina með fyrsta verkefninu við tilteknar aðstæður eins og hér, þar sem verið er að opna upp nýtt iðnaðarsvæði langt frá suðvesturhorninu, á köldu svæði. Það getur ekki skapað fordæmi fyrir aðra. Það er ekki okkar mat að svo sé og þetta er alveg viðurkennt í þessum fræðum. Allir sem þekkja þessa aðferðafræði og hafa unnið við hana eru því kunnugir að svona er þetta. Það er lagt mat á það hvað þarf til, hver markmið stjórnvalda eru, hvort það sé eftirsóknarvert af sérstökum ástæðum, byggðaástæðum, umhverfisástæðum, efnahagsástæðum eða öðrum, að teygja sig lengra í þessu tilviki en öðrum. Ég er til dæmis með eitt spánnýtt dæmi um ívilnunarsamning þar sem ívilnunin var í raun bara lágmarkið sem gert er ráð fyrir í rammanum, einfaldlega vegna þess að ekki stóðu efnisleg rök til að bjóða meira. Viðkomandi aðili sem samninginn fékk var ánægður og sáttur af því að hann fékk þó tiltekna ívilnun enda uppfyllti hann lágmarksskilyrðin, má segja, til að eiga rétt á henni. Hér þarf meira til og þurfti meira til og það eru gild og góð rök fyrir því að gera það.

Varðandi áhrifin á útgjöld hjá ríkinu er auðvitað einfalt mál að ræða það mál bara eins og það er. Verði ekki af verkefninu verða útgjöld ríkisins engin, núll. Við getum alveg gefið okkur það og ef einhverjir vilja ræða málið á þeim forsendum er hægt að spyrja: Á að standa í þessu?

Ég tel það réttlætanlegt og skynsamlegt. Með því að ráðast í verkefnið skapast heilmiklar tekjur, heilmikil umsvif og umtalsverður hagvöxtur í landinu því að þótt hér sé aðeins um meðalstórt fjárfestingarverkefni að ræða er það engu að síður þannig að bein erlend fjárfesting upp á 170 milljónir evra og að viðbættum fjárfestingum í virkjunum, línuframkvæmdum og öðru slíku sem hér er haldið fyrir utan leiða til talsverðra þjóðhagslegra áhrifa sem skila umtalsverðum tekjum. Það er tiltölulega einfalt að reikna út að ríkið verður sennilega búið að fá sitt til baka að uppistöðu til vegna ívilnana tíu ár inn í framtíðina, strax í lok byggingartímans. (Gripið fram í.) Vegna tekna af vinnulaunum og öðru slíku sem þá falla til. Stundum er það þannig að það kostar svolitla peninga að búa til peninga og ég held að þetta geti verið ágætt dæmi um það.

Varðandi mengunarþáttinn sem hér hefur verið nefndur vara ég menn við að fara út í þennan einfalda samanburð á áli og hreinkísilframleiðslu. Þar held ég að ekki sé hægt að leggja tonn á móti tonni. Þetta er dálítið ólík starfsemi og önnur efnahvörf sem þarna eiga sér stað og endaafurðin er talsvert önnur. Hreinkísill sem er hráefni í sólarrafhlöður og annað því um líkt er allt önnur vara en tonn af áli. Kemur þar líka á móti að í öðru samhengi er þetta miklu ábatasamari starfsemi, þ.e. að störfin per orkueiningu, kílóvattstund eða megavattstund, eru 2,5–3 sinnum fleiri eins og við sjáum strax af því að 52 megavatta áfangi upp á 33 þús. tonna framleiðslu skapar um 130 störf. Það er fljótt reiknað að ef sambærilegur starfafjöldi væri til dæmis í meðalstóru álveri þyrftu að vinna þar um það bil 1.500 manns til að starfafjöldinn væri sambærilegur per orkueiningu. Þarna hefur þetta mikinn vinning hvað varðar til dæmis störf per orkueiningu.

Annars ætla ég ekki lengra út í það á þessu stigi mála. Þetta er meðalstór iðnaður, þetta er ný iðngrein inn í landið. Mat flestra er að kísiliðnaðurinn eigi sér bjarta framtíð og að eftirspurn eftir þessum vörum muni vaxa mjög á komandi árum, m.a. vegna þess að þær eru hráefni í ýmiss konar framleiðslu sem aukin eftirspurn er eftir. Þess vegna er það áhugavert fyrir Ísland að gerast þátttakandi í þessari uppbyggingu. Við færum út kvíarnar, fáum nýja tegund iðnaðarstarfsemi inn í landið, það eykur fjölbreytnina, hér er um meðalstóran kost að ræða sem er mjög viðráðanlegur fyrir hagkerfið, ég tala nú ekki um þegar í því er slaki eins og núna. Þetta er líka af viðráðanlegri stærð fyrir viðkomandi atvinnusvæði þannig að margt mætti um það segja.

Varðandi það sem hér hefur verið nefnt í sambandi við Reykjanes eða Helguvíkurhöfn hef ég svo sem ekki miklu við það að bæta sem ég áður sagði. Það eru komnar af stað viðræður um það mál og það var rétt sem nefnt var að þetta mál var skoðað á síðasta ári í framhaldi af því að hópur embættismanna fór yfir það samhliða undirbúningi undir þetta mál. Þau gögn hafa nú verið dregin fram, þau liggja fyrir um áfallinn kostnað þarna syðra, en þar er hins vegar veruleikinn sá að það liggur ekki fyrir og lá ekki fyrir og var ekki gerður á sínum tíma neinn samningur. Það var ekki tengt við tiltekinn fjárfestingarsamning þannig að auðvitað þarf að fara yfir stöðuna hvað það varðar. Að því leyti bar það mál öðruvísi að en hér er um að ræða, en fjármálaráðherra hefur forræði á þeim viðræðum og ég held að við verðum að láta eftir okkur að ætla að þar verði farið eðlilega yfir það mál, hvað sé rétt að gera við þær aðstæður sem þar kunna að vera eða verða uppi.

Herra forseti. Þá held ég að ég hafi náð að hlaupa yfir það helsta sem hér hefur borið á góma. Ég vil þó segja vegna þess sem hv. þm. Jón Gunnarsson sagði, hann talaði eins og hér væri um mikil tímamót að ræða og eitthvað alveg nýtt, að það er ekki svo. Staðreyndin er sú að á undanförnum tveimur til þremur árum hafa verið gerðir allmargir ívilnunarsamningar, að mestu leyti núna frá 2010 á grundvelli laganna. Ég hef komið að nokkrum þeirra. Við gerðum til dæmis að verulegu leyti mjög sambærilegan ívilnunarsamning um ívilnanirnar sem slíkar til áformaðs kísilvers í Helguvík og við vorum mörg viðstödd undirritun. Við vorum bjartsýn á að það verkefni væri að fara af stað, en því miður dró erlendur samstarfsaðili sig út úr því verkefni. Þess vegna hefur ekki orðið af því enn þá nema kannski ef einhverjar vonir eru til þess að áhugi annarra sé að kvikna á því að koma inn í það á nýjan leik. Það var gerður fjárfestingarsamningur við gagnaver syðra sem margir muna eftir. Reyndar var svo langt af Alþingi gengið þar að við höfum að hluta verið rekin til baka með það mál af Eftirlitsstofnuninni ESA. Nokkrir fleiri ívilnunarsamningar fyrir lítil og meðalstór verkefni hafa litið dagsins ljós og að minnsta kosti þrjú þeirra eru þegar komin af stað, fjögur líklega ef við tökum Becromal þar með í dæmið. Ef við tökum járnendurvinnslu á Grundartanga og hátæknifiskiðjuver í Sandgerði eru þessi lög þegar að skila sér í verkefnum af því tagi eða hafa að minnsta kosti hjálpað til við að nokkur slík fjárfestingarverkefni hafa farið af stað.

Það er sem betur fer ekki rétt hjá hv. þm. Jóni Gunnarssyni að þetta sé fyrsta málið af þessu tagi. Þau eru þegar orðin allmörg og nokkur þeirra komin í fullan gang eða eru í byggingu og því ber (Forseti hringir.) að sjálfsögðu að fagna.



[22:31]
Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að koma hér og svara þeim atriðum sem spurt var um í umræðunni. Ég vil taka undir með öðrum hér að þetta hefur verið ágæt umræða, málefnaleg og góð. Mér fannst til dæmis mjög fróðlegt að heyra hæstv. ráðherra fara yfir efnahagslegu áhrifin af þessari framkvæmd, arðinn sem ríkissjóður fær af auknum umsvifum, af fjárfestingu og uppbyggingu orkumannvirkja og lína og allt það — því höfum við ekki oft heyrt hann fagna á þessu kjörtímabili. Mig langar bara, og ég hljóma nú kannski eins og rispuð plata, að spyrja hæstv. ráðherra beint út hvort hann telji Bakka vera fordæmi fyrir Helguvík. Mér finnst þetta hafa farið dálítið fram og til baka.

Við á Suðurnesjunum höfum heyrt mikið af þessu núna. Samfylkingin hefur mikið verið að fjalla um þetta á vettvangi bæjarmálanna í Reykjanesbæ og formaður Samfylkingarinnar hefur látið hafa það eftir sér að þetta sé fordæmi, hv. þm. Oddný Harðardóttir var með fyrrnefnda grein í blaði þar syðra í dag, þar sem mátti skilja að þetta væri fordæmi. Samfylkingin í Reykjanesbæ lét bóka það sérstaklega á bæjarstjórnarfundi þannig að ég vildi bara heyra afstöðu hæstv. ráðherra og ítreka spurninguna: Telur ráðherra Bakka vera fordæmi fyrir Helguvík?



[22:33]
atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég hefði haft gaman af því að ræða betur um atvinnuuppbyggingu almennt og hvernig þetta verkefni samrýmist þeim áherslum sem ég að minnsta kosti hef staðið fyrir og að ég tel minn flokkur. Við höfum verið talsmenn aukinnar fjölbreytni í atvinnumálum, við höfum lagt mikla áherslu á það að menn stuðluðu ekki síður að uppbyggingu lítilla og meðalstórra fyrirtækja heldur en fárra og risastórra verkefna og þetta rímar ákaflega vel við það. Þannig að ég á ekki í erfiðleikum með að standa keikur með því. Hér er verið að virkja orku á svæðum sem þegar eru komin í nýtingarflokk og að því tilskildu að umhverfismat og annað slíkt leiði í ljós að þetta sé innan ásættanlegra marka þá tel ég að við getum verið sæmilega sátt við það.

Varðandi losunina, sem vissulega er til staðar og er talsverð á hverja framleidda einingu í þessum iðnaði en er alls ekki sambærileg við áliðnað að því leyti til að hér er um allt aðra endaafurð að ræða, þá fer með það eins og aðrar slíkar losunarheimildir í því regluverki sem við erum bundin af að menn verða að kaupa sér heimildir fyrir losuninni. Það er innan þess regluverks sem við erum nú aðilar að.

Varðandi síðan Helguvíkurhöfn vil ég orða þetta svona: Að mínu mati er það alveg ljóst að ef þörf er á aðkomu ríkisins að uppbyggingu innviða á Suðurnesjum eða annars staðar þar sem leggja má aðstæður að jöfnu, að þar þurfi þá að koma til og sé réttlætanlegt að ríkið komið að málum — já, þá verður það að sjálfsögðu skoðað með hliðsjón af þessu. En ekki er hægt að segja að öll mál séu sambærileg í þeim efnum einfaldlega vegna þess að aðstæðurnar eru metnar í hverju fjárfestingarverkefni fyrir sig og þannig hlýtur það að verða.

Mér finnst til dæmis augljóst að þetta mál skapar ekki á nokkurn hátt fordæmi fyrir iðnfyrirtæki sem kynnu að koma núna og vilja staðsetja sig á Grundartanga eða þess vegna á Reyðarfirði því að þar er allt um garð gengið sem tengist aðkomu stjórnvalda (Forseti hringir.) að upphafskostnaði við svæði og verkefni af þessu tagi.



[22:35]
Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þarna kom hæstv. ráðherra inn á mikilvægan punkt. Hann nefndi Reyðarfjörð í framsöguræðu sinni áðan sem fordæmi fyrir því sem verið er að gera núna á Bakka, nefnir svo að ekki væri hægt að fara fram á hið sama á Grundartanga eða Reyðarfirði vegna þess að þar hefði uppbyggingin átt sér stað. Þar sker Helguvík sig úr. Höfnin hefur verið byggð upp en á kostnað sveitarfélagsins, lóðirnar hafa verið byggðar upp á kostnað fyrirtækjanna og sveitarfélagsins. Uppbyggingin hefur jú sannarlega átt sér stað en ekki með þátttöku ríkisins í fjármögnun eins og þau fordæmi sem hæstv. ráðherra nefndi; Bakki með þessu frumvarpi, Reyðarfjörður og Grundartangi.

Þar sker Helguvík sig úr sem eina svæðið af þessum fjórum sem hefur ekki fengið sams konar fyrirgreiðslu og hin svæðin. Varðandi atvinnuuppbyggingu þá erum við sjálfstæðismenn ekki, til að taka af allan vafa, að tala fyrir einni lausn og hæstv. ráðherra hlýtur að taka undir það í allri sanngirni að við höfum talað fyrir mjög margvíslegri atvinnuuppbyggingu allt kjörtímabilið og áður. Ef ég tala bara um Suðurnesin get ég nefnt fjölmörg verkefni sem því miður hafa ekki orðið að veruleika, þar má nefna uppbyggingu heilsutengdrar ferðaþjónustu á Ásbrú, flugverkefni sem veita átti flugvirkjum og verkfræðingum góð störf. Það mátti ekki. Ég er að tala um uppbyggingu í menntamálum við ferðaþjónustu, við höfum talað fyrir þessu öllu þannig að það sé sagt.

Punkturinn er þessi: (Forseti hringir.) Fordæmin — það er ekki bara hægt að nota þau þegar það hentar — sem ég les úr máli (Forseti hringir.) hæstv. ráðherra er einmitt það að Helguvík sker sig úr miðað við önnur svæði sem hann (Forseti hringir.) hefur notað sem dæmi í málflutningi sínum.



[22:38]
atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég veit ekki hvað við bætum miklu við með því að fara aftur í söguna. Ég held að öllum sé orðið ljóst að það sem hefur stöðvað áform um uppbyggingu álvers í Helguvík er sú staðreynd að viðræðuaðilar hafa ekki orðið ásáttir um raforkuverð og þannig hefur málið staðið núna þó að öll tilskilin leyfi hafi verið til staðar í ein tvö ár. Það þýðir ekki lengur að kenna einhverju öðru um en því sem þar er raunverulega á ferðinni.

Ég legg svo áherslu á það að lokum, sem ég minnti á áðan, að þegar kemur að ívilnuninni og þátttöku ríkisins í gegnum slíkt þá er hvert svæði og hvert verkefni metið fyrir sig. Þetta eru heimildarlög og rammalög og það ber að forðast alhæfingar út frá því. Þannig að það þarf að skoða hvert einstakt svæði, hvert einstakt verkefni og leggja mat á það og komast svo að niðurstöðu um til hvers efnisleg rök standi að stjórnvöld geri eða leggi af mörkum í hverju tilviki.



Frumvörpin ganga til 2. umr. 

Frumvörpin ganga til atvinnuvn.