141. löggjafarþing — 92. fundur
 8. mars 2013.
uppgjör þrotabúa gömlu bankanna.

[10:39]
Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég beini eftirfarandi fyrirspurn til hæstv. forsætisráðherra: Eru einhverjar viðræður, óformlegar eða formlegar, á milli stjórnvalda, Seðlabankans, kröfuhafa og/eða slitastjórna um uppgjör þrotabúanna? Hafa verið fengnir færustu sérfræðingar heims til að tryggja hagsmuni þjóðarinnar í þessu stærsta einstaka máli hennar eða eru embættismenn Seðlabankans og ráðherrar í þessum hugsanlegu viðræðum, eða kannski ekki í neinum viðræðum? Þegar að þessu kemur, mun ráðherrann tryggja að allir hennar ráðherrar og embættismenn standi með þjóð sinni og gæti hagsmuna hennar?



[10:40]
forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Allir mínir ráðherrar hafa í þau rúmlega fjögur ár sem við höfum setið staðið með hagsmunum þjóðarinnar og gætt þeirra hagsmuna eins og best verður á kosið. Á því verður engin breyting.

Varðandi það tiltekna mál sem hv. þingmaður nefnir hefur ríkisstjórnin, undir forustu fjármálaráðherra, lagt sig mjög fram um að hafa alla aðila upplýsta, líka stjórnarandstöðuna. Sérstök stýrinefnd fjallar um höftin sem eru líka nátengd nauðasamningum og hvernig með þá verður farið og reyndar fleiri mál þannig að við þurfum að hafa undir heildarmyndina af þessu. Sérstök stýrinefnd undir forustu fjármálaráðherra ræðir það mál reglulega og í þeirri nefnd á líka sæti atvinnuvegaráðherra og Fjármálaeftirlitið og Seðlabankinn þannig að það er alveg fullt kontról á þessu máli. Það verður ekki farið út í neinar aðgerðir sem varða uppgjör á bönkunum eða höftunum nema það sé fulltryggt að mati allra aðila að fjármálastöðugleiki í landinu verði tryggður. Fjármálaráðherra hefur gert sér far um að hafa samráð og samband við formenn flokkanna, bæði um höftin og meðferð þeirra og eins um uppgjör á nauðasamningum. Ég á ekki von á öðru en að það verði áfram fullkomin samvinna við stjórnarandstöðuna í þessu stóra máli. Það er eðlilegt að það sé samvinna allra aðila um það hvernig hagsmuna þjóðarinnar verði best gætt.



[10:42]
Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég ítreka spurningu mína: Eru einhverjar viðræður, óformlegar eða formlegar, í gangi á milli þeirra aðila sem ég taldi upp? Hyggst ráðherrann klára þessar formlegu eða óformlegu viðræður fyrir kosningar?

Afstaða mín er sú að þau stjórnvöld sem vinna að þessu þurfi að vera búin að sækja endurnýjað umboð til þjóðarinnar áður en gengið verður frá þessu stærsta einstaka hagsmunamáli þjóðarinnar. Ég ítreka því spurningu mína til hæstv. forsætisráðherra.



[10:42]
forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Ég ítreka það sem ég sagði áðan. Ég hélt að það hefði verið fullskýrt að viðræður eru í gangi milli stjórnar og stjórnarandstöðu í þessu máli undir forustu fjármálaráðherra sem hefur staðið mjög vel að því. (Gripið fram í.) Það er unnið að ýmsum sviðsmyndum í þessu máli um hvaða afleiðingar hitt og þetta hefur. Við munum fara mjög varlega í öll þessi mál og ég á ekki von á því að þau séu komin það langt að það verði gengið frá nauðasamningum fyrir kosningar.

Ég held að það liggi ekkert endilega á í því efni og ég get alveg tekið undir það með hv. þingmanni að það er nauðsynlegt að hafa fullt samráð við stjórnarandstöðuna um framgang þessara mála. Mér þykir líklegt að ný ríkisstjórn og nýr meiri hluti gangi frá þeim og vonandi hefur hann þá sama háttinn á og þessi ríkisstjórn og hefur samráð við stjórnarandstöðuna þannig að allir hinir pólitísku flokkar komi að lausn þessara mála.