141. löggjafarþing — 92. fundur
 8. mars 2013.
tollalög o.fl., frh. 2. umræðu.
stjfrv., 608. mál (dreifing gjalddaga). — Þskj. 1037, nál. 1135.

[14:00]
Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér um breytingu á lögum um vörugjald, nr. 97/1987, og tollalögum, nr. 88/2005, með síðari breytingum. Fyrirgefið, ég er með rangt mál, forseti nefndi hér áðan númerin, sem er kannski ekki einkennilegt í ljósi þess að það var verið að breyta dagskránni áðan. Þetta frumvarp snýst um að gefa fyrirtækjum tækifæri á því að fresta greiðslum á vörugjöldum og varðar einnig virðisaukaskatt.

Sambærilegar breytingar hafa verið gerðar áður og ástæðan fyrir því á sínum tíma að slík bráðabirgðaákvæði voru sett var sú að menn þurftu náttúrlega að horfast í augu við að eftir hrun voru um 60% af íslenskum fyrirtækjum tæknilega gjaldþrota, fyrst og fremst vegna þess að mikill fjöldi þeirra hafði tekið gengistryggð lán og við hrun krónunnar urðu skuldirnar langt umfram eignir.

Eitt af þeim úrræðum sem gripið var til var að gefa fyrirtækjum tækifæri á að fresta eða dreifa greiðslum á þessum opinberu gjöldum. Ég hef verið sammála því að rétt hafi verið að gera þetta og er það líka núna.

Við höfum heyrt það í fréttum og samtölum við forráðamenn ríkisstjórnar Vinstri grænna og Samfylkingarinnar að nú sé allt bjartara fram undan, nú séu svo sannarlega tækifærin til staðar og landið farið að rísa á nýjan leik, eins og hæstv. fyrrverandi fjármálaráðherra talaði um í frægum greinabálki í blöðum. En staðreyndir dagsins í dag tala öðru máli. Nú hefur komið í ljós að spár og áætlanir um hagvöxt í fyrra voru nánast eins rangar og þær mögulega gátu verið. Þegar upphafleg spá kom fram, með fjárlagafrumvarpinu, var gert ráð fyrir hagvexti upp á 2,6–2,7%. Það var síðan leiðrétt og hagvaxtarspáin lækkuð en meira að segja sú breyting náði ekki utan um það sem við horfum fram á í dag. Þetta endurspeglast að sjálfsögðu í því að við þurfum enn á ný að framlengja bráðabirgðaákvæði um dreifingu á gjalddögum fyrirtækja.

Það er einfaldlega staðreynd að atvinnulífið hefur ekki tekið við sér eins og það þarf að gera og liggja örugglega margar skýringar þar að baki. Eitt af því sem ég hef til dæmis verið mjög ósátt við er að ekki skyldi strax vera farið í það á skipulegan máta að vinna með fyrirtækjum í fjárhagslegri endurskipulagningu þeirra, að það skyldi taka mjög langan tíma fyrir stjórnvöld að horfast í augu við hversu stór vandinn væri og hversu mikilvægt væri að hjálpa fyrirtækjum í greiðsluerfiðleikum og það þyrfti að gera skipulega, það væri ekki hægt að treysta fyrst og fremst fjármálafyrirtækjunum fyrir því verkefni.

Sú tillaga sem ég hef lagt fram hvað oftast frá því að ég tók sæti á Alþingi er um ráðgjafarstofu fyrirtækja í greiðsluerfiðleikum. Mér reiknast svo til, virðulegi forseti, að ég sé búin að leggja hana fram sex sinnum. Þessi hugmynd kviknaði í raun og veru fyrir hrun. Ég hafði starfað sem atvinnuráðgjafi og ég hafði líka starfað hjá fyrirtæki sem fór í gegnum greiðsluerfiðleika og gjaldþrot. Sú reynsla kenndi mér að við verðum ekki bara að hvetja einstaklinga til að stofna fyrirtæki með alls konar námskeiðum og ráðgjöf heldur þurfum við líka að horfast í augu við að sum fyrirtæki sem verða til deyja eða hætta rekstri. Kostnaður samfélagsins og kostnaður einstaklinga, kostnaður birgja og allra þeirra sem koma nálægt þessum fyrirtækjum getur verið mjög mikill. Með því að veita fyrirtækjaeigendum ráðgjöf og upplýsingar um viðvörunarmerki sem koma upp í rekstri er hægt að draga mjög úr þeim kostnaði.

Ef menn hefðu samþykkt þessa tillögu eða þáverandi iðnaðarráðherra eða núverandi atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra hefði gert hana að sinni hefði maður talið að mjög skynsamlegt, sem dæmi, að fyrirtæki sem hefðu óskað eftir dreifingu á gjalddögum og nýtt sér það mundu fá ábendingar um að gott væri að leita til ráðgjafarstofu fyrir fyrirtæki í greiðsluerfiðleikum. Þá er hægt að fara í gegnum það hvort einhver viðvörunarmerki eru í rekstrinum sem hægt er að hjálpa mönnum með eða jafnvel, sem getur í sumum tilvikum verið betra, að ráðleggja viðkomandi fyrirtækjum að hætta einfaldlega rekstri áður en kostnaðurinn verður enn meiri og áður en fyrirtækin fara í þrot.

Ég hafði meira að segja náð þeim árangri með tillöguna að hún náðist í eitt skipti út úr nefnd og hafði þá bent á leið til þess að fjármagna hana. Þegar fyrirtæki eru stofnuð er tekið ákveðið gjald fyrir það og það hefði verið möguleiki á að hækka það gjald og nýta það til að fjármagna rekstur ráðgjafarstofunnar.

Ég sá líka fyrir mér að hún hefði getað fallið mjög vel að starfsemi Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands þar sem þegar er veitt ráðgjöf auk þess sem ábendingar komu fram um að þetta gæti líka hentað ágætlega starfsemi atvinnuþróunarfélaganna sem starfa hringinn í kringum landið. Byggðastofnun benti líka á í umsögn um málið að þeir hefðu mjög mikla reynslu af því að aðstoða fyrirtæki sem höfðu lent í rekstrarörðugleikum.

Ég tel því að ekki hafi verið nóg að gera eins og hér er gert, að bjóða upp á fresti og ýta málinu á undan sér, heldur hefðu menn átt að horfa til þess að þarna væri í raun og veru tækifæri til að gera hlutina betur og aðstoða menn betur við reksturinn.

Önnur hugmynd sem hefur verið rædd hvað skattamálin varðar í efnahags- og viðskiptanefnd er um aukna ráðgjöf. Ég hef bent á að í staðinn fyrir að við séum sífellt að hækka sektir og viðurlög í lögum, t.d. við því að skila seint, væri eðlilegt samhliða því að gera aukna kröfu um að forráðamenn fyrirtækja sætu námskeið þannig að ekki væri hægt að segja að fyrirtækin hefðu ekki fengið þær upplýsingar sem þau þyrftu um kröfur hins opinbera til fyrirtækjareksturs. Þau ættu að sama skapi auðveldara með að átta sig á þeim merkjum sem geta komið upp í rekstri þegar fyrirtæki lendir í örðugleikum.

Hugmyndin um ráðgjafarstofuna á sér hliðstæður, eins og kannski margt í okkar lögum, og ég rakst á sambærileg fyrirbæri eða stofnanir innan Evrópusambandsins. Þar var einmitt lögð áhersla á að mikilvægt væri að ráðleggja fyrirtækjaeigendum meðan þeir væru í rekstri en horfa líka til þess að það að hafa rekið fyrirtæki, þó að það hafi ekki gengið eins og væntingar stóðu til, væri ástæða til að aðstoða menn til að vinna sig út úr því og nýta þá reynslu og þekkingu sem myndast við fyrirtækjarekstur til að fara aftur af stað og ekki væri settur einhver stimpill á fólk tengt þessu. Þá var fyrst og fremst verið að horfa til þess að í langflestum tilvikum þegar fyrirtæki lenda í örðugleikum er það vegna ytri aðstæðna. Það getur verið að lykilviðskiptavinur lendi í vandræðum, það getur verið svo einfaldur hlutur eins og þegar verið var að færa rúllustigann í Kringlunni, þá lentu fyrirtækin sem voru staðsett nálægt þeim rúllustiga í miklum örðugleikum. Annað dæmi varðandi verslunarrekstur var þegar verið var að helluleggja á Laugaveginum og viðgerðin stóð yfir í marga mánuði. Þá lentu ýmis fyrirtæki í örðugleikum bara vegna þess. Og svo áfram sé talið má nefna framkvæmdir hjá hinu opinbera, það að vegur sé færður til getur haft veruleg áhrif á rekstrargrundvöll fyrirtækis. Einnig má nefna veikindi, lykilstarfsmaður verður veikur eða eigandinn verður veikur.

Rannsóknir segja að í langflestum tilvikum séu þetta ástæður fyrir því að rekstur fyrirtækja gangi ekki upp. Viðskiptahugmyndin getur líka einfaldlega ekki gengið upp. Að sama skapi er náttúrlega mikilvægt að við komum í veg fyrir að menn misnoti kerfið vísvitandi á sviksamlegan hátt, með því sem við tölum kannski um sem kennitöluflakk. En við megum ekki stimpla fólk sem er búið að taka áhættu og leggja allt sitt undir fyrir sig og sitt samfélag í því að búa til störf. Starfsumhverfið á Íslandi verður að vera þannig að við styðjum við stofnun og rekstur fyrirtækja því að þaðan koma verðmætin, þar sköpum við störfin og þar að sjálfsögðu, sem er það sem okkur stjórnmálamönnum finnst einstaklega skemmtilegt, verða líka skatttekjurnar til sem við getum síðan ráðstafað í velferðarmálin sem við viljum svo gjarnan sinna. (Gripið fram í: Ekki þessari ríkisstjórn.)

Það sem er áhugavert að skoða varðandi vörugjöldin sérstaklega er að ég hefði einmitt talið að núverandi stjórnvöld, ekki hvað síst Samfylkingin, hefðu gjarnan viljað sjá víðtækari breytingar á þeim lögum frekar en bjóða bara upp á frestun á greiðslum. Það hefur verið aðeins skrifað um það í fjölmiðlum eins og við höfum kannski kynnt okkur og ég minni á grein sem þingmaður Samfylkingarinnar Magnús Orri Schram, fyrrverandi þingflokksformaður, skrifaði um breytingar á vörugjöldum. Annar samfylkingarmaður, Margrét Kristmannsdóttir, hefur líka töluvert talað fyrir því fyrir hönd verslunar og þjónustu. Og á árinu 2012 var skipaður starfshópur um heildarendurskoðun á vörugjaldakerfinu. Miðað við þetta hefði maður getað ímyndað sér að menn hefðu áhuga á því að gera ýmsar breytingar á vörugjaldakerfinu.

Bent hefur verið á að vörugjöld, eða það sem hefur verið kallað á ensku „excise tax“, hafa yfirleitt í flestum þeim löndum sem við berum okkur saman við verið bundin við tiltölulega fáa vöruflokka. Þar má nefna vöruflokka eins og olíu, tóbak, áfengi, sykur og jafnvel bifreiðar. Helsti munurinn á því hvernig við höfum þetta á Íslandi og hvernig vörugjöldin eru í þeim löndum sem við berum okkur saman við er að hér leggjast vörugjöld á mun fleiri vörutegundir. Í skýrslu Samtaka atvinnulífsins þar sem fjallað er einmitt um vörugjaldakerfið má sjá sýn samtakanna á það hvernig fyrirkomulagið þurfi að breytast og þau benda á tvennt sem þau eru sérstaklega ósátt við.

Í fyrsta lagi sé enginn fyrirsjáanleiki í því hvernig vörur eru flokkaðar innan vörugjaldakerfisins og í öðru lagi, og það sem ég stoppaði sérstaklega við, er að samtökin telja að núverandi fyrirkomulag leggist þyngra á ungt fólk og barnafjölskyldur en aðra hópa. Lögð eru vörugjöld á ýmsar byggingarvörur og það er náttúrlega oft ungt fólk sem er að kaupa sér húsnæði eða byggja húsnæði. Síðan er það unga fólkið og barnafjölskyldurnar sem eru að stofna heimili og þarf þá náttúrlega að kaupa sér ýmis heimilistæki til að geta stofnað eigið heimili. Þetta eru þeir flokkar sem eru sérstaklega áberandi innan vörugjaldakerfisins og gjöldin leggjast þar með enn frekar á ungt fólk.

Menn hafa líka bent á að vörugjaldakerfið mætti vera skynsamlegra og rökvísara að ýmsu leyti en líka að það geti stjórnað neysluhegðun eða jafnvel byggingarmynstri á Íslandi og leitt þar með til hærri byggingarvísitölu. Ég nefni til dæmis þá staðreynd að sagplötur og gifsplötur eru í mismunandi vörugjaldaflokkum. Þetta getur leitt til þess að menn velji vörutegundina sem er ódýrari og ber lægri vörugjöld.

Hvað varðar áherslur okkar framsóknarmanna fyrir næsta kjörtímabil, þegar við getum vonandi haft meira um skattkerfi og tekjuöflunarkerfi ríkissjóðs að segja, höfum við lagt áherslu á mikilvægi þess að einfalda kerfið og gera það skilvirkara. Langflest fyrirtæki á Íslandi eru lítil og meðalstór og það á ekki að vera þannig að atvinnurekendur, þurfi að eyða sífellt fleiri klukkustundum í að sinna skilum á skatti eða skilum á skýrslum til hins opinbera eða þurfi að velta alvarlega fyrir sér hvort fyrirtækið hafi efni á því að ráða starfsmann, hvort sem er í hlutastarf eða fullt starf. Það er grundvöllur þeirra gjalda sem er verið að borga í sameiginlega sjóði okkar. Við hljótum að eiga frekar að leggja áherslu á lykilkerfi okkar varðandi tekjuöflunina. Það er annars vegar virðisaukaskattskerfið og síðan staðgreiðslan, það eru þau kerfi sem skila ríkissjóði langstærstum hluta af tekjum sínum. Það er eitthvað sem ég held að þurfi að skoða, hvernig við getum gert þetta einfaldara og hvatt fyrirtæki til að skila auknum verðmætum til samfélagsins og ráða fleira fólk. Vinna, vöxtur, velferð — það er kjarninn í því sem við framsóknarmenn viljum tala fyrir, auk samvinnu og skynsemi.

Þó að þetta mál sé í sjálfu sér tiltölulega einfalt, framlenging á bráðabirgðaákvæðum sem hefur verið tiltölulega mikil samstaða um hér á þingi að veita fyrirtækjum, er svo mikilvægt að horfa á ástæðuna fyrir því að við bjóðum upp á þetta á annað borð og hvort ekki séu til betri, skilvirkari og einfaldari leiðir en endalaust að fresta vandanum og ýta honum á undan sér.



[14:18]
Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Mér fannst hann ramma málið ágætlega inn, þ.e. mikilvægi þess að starfsumhverfi fyrirtækjanna væri þannig að ekki þyrfti að grípa til þeirra ráðstafana sem hér er verið að gera. Mér þótti athyglisvert það sem hv. þingmaður kom inn á í sambandi við ráðgjöf fyrir fyrirtækin því að auðvitað þarf að vera mikill hvati fyrir hendi, það þarf að hvetja fólk til að stofna fyrirtæki.

Mig langar að biðja hv. þingmann að fara aðeins betur yfir þessi mál. Oft er það ekki metið hversu mikils virði litlu og meðalstóru fyrirtækin eru. Hv. þingmaður kom inn á að þau fyrirtæki hafa jafnvel ekki efni á því að leita sér þeirrar ráðgjafar sem nauðsynleg er þegar þau eru að hefja rekstur og eins þegar þau lenda í ákveðnum aðstæðum o.s.frv. Allir vita að atvinnuuppbygging og atvinnusköpun eru undirstaða alls, hvort heldur sem það er velferðarkerfið eða menntakerfið eða hvað sem er og ekki vantar hugmyndir hjá stjórnmálamönnum um að eyða peningunum. En þeir hafa hins vegar oft minni áhyggjur af því hvernig á að afla þeirra. Það eru bara einhverjir aðrir sem eiga að sjá um það. Síðan geta þeir tekið ákvarðanir um að hækka skatta eða gert hvað sem þeir vilja, en það vantar mun meiri hvatningu til þess að einstaklingar stofni fyrirtæki. Það er grunnurinn að stofnun fyrirtækja.

Mig langar að spyrja hv. þingmann betur út í hvort hún hafi fyrst og fremst verið að hugsa um lítil og meðalstór fyrirtæki, þ.e. að koma þeim af stað, því að þau eru auðvitað mjög mikilvæg í öllu samhenginu.



[14:20]
Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Ásbirni Óttarssyni fyrir andsvarið. Skilningurinn á því hvernig verðmætin verða til er einmitt það sem mér hefur fundist skorta mjög mikið á á þessu kjörtímabili.

Við búum ekki til verðmæti með því að hækka skatta. Við hljótum að búa þau til með því að tryggja að atvinnulífið sé öflugt. Umræðan hefur oft snúist um hin fáu, stóru fyrirtæki í staðinn fyrir að við horfum til þess að langflest íslensk fyrirtæki eru kannski með tíu starfsmenn að hámarki. Þeim er yfirleitt stjórnað af eiganda sínum sem er þá framkvæmdastjóri fyrirtækisins og starfar í fyrirtækinu sjálfu. Mér fannst það til dæmis sláandi þegar ég tók fyrst sæti á Alþingi þegar lítið frumvarp, sem virtist nú vera frekar skaðlaust, kom fyrir þingið. En þegar gestir komu fyrir nefndina rak ég augun í að gert var ráð fyrir að ákveðnar upplýsingar yrðu birtar á vefsíðu fyrirtækisins. Ef það hefði orðið að lögum hefðum við verið að skylda öll fyrirtæki á Íslandi til þess að vera með vefsíðu.

Ég benti á það við vinnu málsins að það gæti ekki komið til greina vegna þess að fjöldi fyrirtækja á Íslandi hefði ekkert með vefsíðu að gera og þyrfti þá að hafa aðrar leiðir til þess að koma upplýsingum á framfæri. Það virtist koma svolítið á embættismennina. Þessu höfum við líka tekið eftir við vinnu efnahags- og viðskiptanefndar; þegar við höfum komið að ýmsum málum varðandi skattinnheimtu höfum við spurt: Hafið þið sjálfir starfað við fyrirtækjarekstur? (Forseti hringir.) Svarið hefur yfirleitt verið nei.



[14:22]
Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svörin. Það er alveg hárrétt sem hv. þingmaður bendir á, það vantar miklu meiri skilning á umhverfi og rekstrarumhverfi fyrirtækjanna og það getur haft miklar afleiðingar fyrir lagasetningu hér á landi. Ég held að óhætt sé að fullyrða að ef maður tekur saman alla þá eftirlitsaðila sem þurfa að koma að úttekt á fyrirtæki, til dæmis fiskvinnslufyrirtæki, eru það ekki einn til fjórir menn, nei, þeir eru mjög margir og oft og tíðum skoða þeir mjög sambærilega hluti. Það mætti einfalda til mikilla muna og beina kröftunum í rétta átt. Hv. þingmaður nefnir hér dæmi um slíkar kröfur, þ.e. um vefsíður. Það er auðvitað dæmi um skilningsleysi stjórnmálamanna sem setja fram reglurnar. Æskilegra væri að mínu mati að fleiri hv. þingmenn hefðu starfað við atvinnurekstur og kynnst því hvernig það er að vera í þeirri stöðu, því að það er mikill munur á því að vera áskrifandi að laununum sínum, fá þau bara send heim, eða því að þurfa að hafa áhyggjur af því hvort maður geti staðið við að borga fólki launin sín á réttum tíma. Það er dálítið annað umhverfi. Ég hef mjög lengi verið sjálfstætt starfandi. Nú er ég búinn að vera á þingi í fjögur ár og það er voðalega þægilegt að vera hér í notalegri innivinnu, eins og sagt er, og fá bara alltaf launaumslagið heim. Það er voðalega þægilegt. Hitt gat oft verið mjög taugatrekkjandi.

Mig langar líka að spyrja hv. þingmann um mikilvægi þess að einfalda til dæmis tollaflokkana. Búið er að tala um það í mörg ár og jafnvel áratugi. Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hún telji það ekki mjög mikilvægt í upphafi næsta kjörtímabils að menn einfaldi kerfið með það að markmiði að reyna að búa til hvata til þess að geta (Forseti hringir.) farið að versla meira við fyrirtækin hér heima.



[14:24]
Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, ég tel mjög mikilvægt að fara í þá heildarendurskoðun sem ég ræddi í ræðu minni, ekki bara á tollkerfinu heldur einnig á stærsta tekjuöflunarkerfi ríkisins. Nýlega var haldinn mjög áhugaverður fundur á vegum Framsóknarfélags Kópavogs þar sem sýnt var kökurit yfir tekjuskiptinguna hjá ríkinu. Ég hjó eftir því þar að við eyðum oft óskaplega miklum tíma í að ræða tekjustofna, eins og til dæmis auðlegðarskattinn eða eignarskattinn, sem eru samt ekki svo stór hluti af heildartekjum ríkissjóðs. Eins getum við eytt heilmiklum tíma í að ræða um vörugjöldin eða tollana en við eyðum mun minni tíma í ræða stóru kerfin sem skila mestum tekjum. Við ættum að geta gert þau einfaldari og skilvirkari og jafnvel tryggt í einhverjum tilvikum með einfölduninni að létta skattbyrðina, alla vega að gera það að losa okkur við hina og þessa skatta eða gjöld sem nú eru í kerfinu.

Ég tel því tvímælalaust að horfa þurfi til þess. Ég held að flestir Íslendingar séu sammála um mikilvægi þess að við borgum í sameiginlega sjóði en við eigum að gera það þannig að það styðji við störfin. Annað dæmi sem menn hafa velt hér upp er tryggingagjaldið. Nú liggur fyrir tillaga um skattaívilnanir til kísilvers á Bakka. Ég fagna því að verið sé að fara í atvinnuuppbyggingu þar en maður stoppar samt svolítið við að það skuli vera hægt að koma til móts með tryggingagjaldið gagnvart því stóra fyrirtæki sem ætlar í uppbyggingu þarna, en við erum ekki að gera (Forseti hringir.) það sama gagnvart meginþorra íslenskra fyrirtækja sem eru með flesta starfsmenn í vinnu.



[14:27]
Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Eygló Harðardóttur fyrir athyglisverða ræðu þar sem hún kom inn á mjög þörf mál. Spurningar mínar til hv. þingmanns eru tvær. Þar sem allt bendir nú til þess að hv. þingmaður muni vera hér á Alþingi á næsta kjörtímabili er mikilvægt að heyra framtíðarsýn hennar að því er varðar málefni lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Hv. þingmaður fór svo sem að hluta til yfir stefnu Framsóknarflokksins í því efni varðandi einföldunina vegna þess hvað þetta er allt orðið svifaseint og flókið. Nærtækt er að nefna tollskrárnúmer og þann frumskóg sem vörugjöldin eru. Ef maður ætlar t.d. að setja á fót sjoppu hér á Íslandi held ég að þurfi 15 leyfi til þess og það tekur venjulegan mann fleiri daga að hefja rekstur af því að hann þarf að fást við kerfið.

Sér hv. þingmaður fyrir hönd Framsóknarflokksins að einfalda megi það kerfi eitthvað frekar?

Í öðru lagi vil ég spyrja hv. þingmann um unga fólkið og þá áherslu sem hv. þingmaður benti á, hvernig vörugjöldin virðast fara með ungt fólk. Ég og hv. þingmaður þekkjum bæði nokkuð til þegar kemur að því að kaupa barnaföt, hversu dýrt það er. Nú höfum við séð þá þróun að undanförnu að verslun með barnaföt hefur flust úr landi vegna þess að virðisaukaskattur á barnaföt er hæstur hér í heiminum. Með því flytjum við verslunarstörf úr landi. Ég fagna því að hv. þingmaður vill að við förum að endurskoða þá hluti, m.a. með hagsmuni ungs fólks í huga. Sér hv. þingmaður það sem hluta af verkefnum næsta kjörtímabils að skoða málefni barnafjölskyldna sérstaklega í því samhengi?



[14:29]
Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Birki Jóni Jónssyni fyrir andsvarið. Það er algjörlega á hreinu að forgangsröðun framsóknarmanna á næsta kjörtímabili verður að sjálfsögðu heimilin og atvinnulífið. Það er lykilatriði. Þegar kemur að því er fátt sem skiptir okkur meira máli en að tryggja að skattumhverfi og lagaramma hins opinbera sé með þeim hætti að við styðjum við atvinnustarfsemi á Íslandi. Hv. þm. Ásbjörn Óttarsson nefndi í fyrra andsvari sínu dæmi um fiskvinnslur og hversu margir væru jafnvel að vinna sömu verkin. Það er eitt af því sem ég tel alveg tvímælalaust að við þurfum að fara yfir. Með einföldun erum við ekki að segja að við ætlum að draga úr gæðakröfunum heldur að tveir eða þrír menn þurfi ekki að að vinna sömu verkin, t.d. að sjá um eftirlit. Lengi hefur verið rætt innan Framsóknarflokksins hvort möguleiki sé á því að vera með það sem við getum kallað eina sjoppu, „one shop“, þar sem maður stoppar bara á einum stað og getur gengið frá þeim plöggum og umsóknum sem maður þarf að ganga frá þegar maður stofnar nýtt fyrirtæki. Maður þurfi þá ekki að eiga í samskiptum við marga opinbera eftirlitsaðila eða jafnvel mörg ráðuneyti.

Áður en ég settist á Alþingi kynntist ég því aðeins hvernig málum er háttað varðandi fiskeldi. Þar var alveg sláandi hversu margir snertifletir virtust vera við hið opinbera ef maður vildi fara af stað með fiskeldi. Sama hefur verið nefnt t.d. varðandi umhverfismat. Það er enginn að segja að við eigum ekki að fara með verkefni í umhverfismat, en það (Forseti hringir.) á að vera skýr tímarammi þannig að fyrirtæki geti gert sínar áætlanir.



[14:31]
Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður hefur sjálf reynslu af fyrirtækjarekstri lítilla og meðalstórra fyrirtækja þannig að ég fagna því sem hún segir hér. Maður heyrir það hjá þeim sem reyna að reka lítil og meðalstór fyrirtæki, sem er undirstaða atvinnu í landinu — jú, jú, við erum með eitt og eitt stórfyrirtæki en megnið af störfunum er hjá litlum og meðalstórum fyrirtækjum. Þess vegna fagna ég því að hv. þingmaður vilji einfalda regluverkið í kringum starfsemi þessara mikilvægu fyrirtækja. Síðan sýnir það í hvaða stöðu fyrirtækin í landinu eru almennt að í frumvarpinu er verið að ívilna fyrirtækjum með því að fresta ákveðnum gjalddögum. Stóra verkefnið sem við eigum að einbeita okkur að er að hlúa að atvinnulífinu í landinu og búa því þannig umhverfi að það geti eflst til mikilla muna vegna þess að við þurfum á því að halda.

En hv. þingmaður hafði ekki tíma til að bregðast við seinni spurningu minni sem snýr að málefnum barnafólks. Ég nefndi sem dæmi að verslun með barnaföt hafi leitað út úr landinu af því að við erum með 25,5% virðisaukaskatt þeim vörum, sem er hæsti virðisaukaskattur í heimi. Fólk fer jafnvel í utanlandsferðir til þess eins að versla föt á börnin sín í stórum stíl. Það þýðir að störfum í íslenskum verslunum hefur verið að fækka, sérstaklega á síðustu fjórum til fimm árum. Samtök verslunar og þjónustu hafa ítrekað bent á það en samt viðhöldum við því með því að hafa hér hæstu skattlagningu á þær nauðsynjar sem barnaföt eru.

Hvernig sér hv. þingmaður það fyrir sér á næstunni? Finnst henni það koma til greina að létta álögur á barnafólki og bæta þannig möguleika verslunarinnar til að auka umsvif sín með því að þjónusta barnafólk í landinu? Hver er framtíðarsýn hv. þingmanns þegar kemur að þessu máli, sem verið hefur mér nokkuð hugleikið á þessu kjörtímabili?



[14:33]
Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka enn á ný fyrir andsvarið. Ég hafði ekki tækifæri til þess að svara seinni spurningunni. Það er nokkuð sem lengi hefur verið í umræðunni. Það er algjörlega sláandi að sjá hversu hátt hlutfall af verslun með fatnað og aðrar vörur fyrir börn fer fram utan landsteinanna. Ég las einhvers staðar að stærsta einstaka barnafataverslunin á Íslandi væri Hennes & Mauritz, sem er ekki einu sinni á Íslandi. Það segir kannski allt sem segja þarf. En í skýrslu McKinseys, sem þeir kynntu ekki fyrir löngu, var lagt upp hvernig við gætum tryggt hagvöxt, verðmætasköpun og störf á Íslandi til framtíðar. Þeir bentu sérstaklega á verslunar- og þjónustugeirann á Íslandi og sögðu að forsenda væri til þess að við gætum tryggt raunverulegan hagvöxt hérna með því að auka framlegðina og verðmætasköpunina í þessum greinum.

Þá fóru þeir í gegnum almenna verslun og fjölluðu um fjármálastarfsemi. Þeir fjölluðu einnig um heildsöluna hjá okkur og hið opinbera, þar væru fjölmörg tækifæri. Þeir töldu að jafnvel væri hægt að losa um allt að því 13 þúsund manns með því að auka framlegðina og arðsemina í greininni, fólk sem gæti síðan farið í aðrar atvinnugreinar og búið til meiri verðmæti þar. Eitt af því sem þeir nefndu í skýrslunni var að endurskoða þyrfti að vöru- og tollakerfi hjá okkur, að tryggja þyrfti meiri samkeppni.

Ég hef talað mjög mikið fyrir því að horfa til þeirra tillagna sem komið hafa frá Samkeppniseftirlitinu um það hvernig við tryggjum aukna samkeppni. Bent hefur verið á að við séum með mjög dýrt og stórt fjármálakerfi sem leiði til aukins vaxtamunar og meiri kostnaðar fyrir öll fyrirtæki, þá ekki bara í þeim atvinnugreinum sem ég nefndi. Að sjálfsögðu þarf að horfa til þess vegna þess að þannig tryggjum (Forseti hringir.) við best hagsmuni barnafjölskyldna að við getum borgað hærri laun fyrir betri störf og komið með verslunina heim.



[14:36]
Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Mig langar að halda áfram að ræða það sem hv. þingmenn sem voru í andsvörum hér á undan mér voru að ræða, þ.e. að benda á hið augljósa skilningsleysi stjórnmálamanna, þeirra sem setja lög og ákveða skattlagningu, á áhrifum viðkomandi skattlagningar. Hægt er að fara yfir mörg dæmi þess. Hv. þingmenn fóru yfir þann frumskóg sem tollalöggjöfin er sem er nánast ekki nokkur einasta leið að skilja. Við vitum til dæmis að það mál sem er næst á dagskránni, sem snýr að tollnúmerum eða tollflokkum, það eru ákveðin númer á bak við hvern flokk, var unnið í hendingskasti í haust. Ég sagði reyndar þá í ræðum að ég kenndi í brjósti um hv. þingmenn sem sætu í efnahags- og viðskiptanefnd því að verið var að taka málið inn og út og gera breytingartillögur ofan á breytingartillögur o.s.frv. Einhvern veginn lærist þetta nú seint því miður.

Ég man eftir því að á fyrstu þingum sem ég sat, þau eru nú ekki mörg sem ég hef setið, var einmitt verið að breyta sykurskatti. Menn sögðu: Jú, það er lýðheilsumarkmið að skattleggja þessa vöru á þennan hátt. Síðan kom hið gagnstæða í ljóss og í umsögnum frá Lýðheilsustöð og fleiri aðilum sem fjölluðu um þessi mál var bent á hið augljósa, að þetta mundi ekki ná þeim markmiðum sem gert hafði verið ráð fyrir. Við erum því alltaf á þessum slóðum og umhverfið sem verið er að vinna í er alveg með ólíkindum, að við skulum þurfa að taka upp tveimur mánuðum seinna löggjöf sem var unnin á þann veg að flokkar duttu á milli skips og bryggju, eins og stundum er sagt, sem áttu ekki að vera með og aðrir sem áttu að vera með voru það ekki. Þetta er hreint með ólíkindum.

Ég ætla að nefna eitt dæmi sem gerðist, held ég, haustið 2009. Þegar verið var að breyta sykurskattinum — stjórnmálamenn eru mjög flinkir í að finna ástæðurnar og réttlæta gjörðirnar — sat hv. þm. Pétur H. Blöndal, sem sat í efnahags- og skattanefnd eins og hún hét þá, niðri í þingflokksherbergi og var að fara yfir þessi tollnúmer. Þá komst hann að því að inni í breytingum á tollnúmerum voru nagladekk, þ.e. gúmmí, hjólbarðar hækkuðu við breytingar á skattalöggjöfinni, við sykurskattinn. Þetta er alvarleg áminning til okkar og til framkvæmdarvaldsins og undirstrikar mikilvægi þess að fara í gagngera vinnu til að breyta þessum hlutum og koma þeim þannig fyrir að það geti talist vitrænt.

Förum yfir skattana og hvaða áhrif þeir hafa. Menn rífast um það hvort hærri skattprósenta skili meira eða minna og þar þekkjum við deilurnar á milli fulltrúa Sjálfstæðisflokksins og vinstri manna. Vinstri menn líta svo á að ef skattprósentuna er hækkuð fáist sjálfkrafa hærri skatttekjur. En það merkilega er að þegar skattprósentan var sem lægst héldu margir vinstri sinnaðir stjórnarandstæðingar því fram, það sér maður þegar maður skoðar gamlar ræður, að þrátt fyrir að skattprósentan væri lækkuð væri í raun um skattahækkun að ræða vegna þess að skatttekjurnar ykjust. Þá lögðu menn það þannig upp og það segir okkur hversu flinkir stjórnmálamennirnir eru við að reyna að snúa stöðunni sér í hag og túlka það hver með sínu nefi.

Í andsvörum áðan — ég ætla að koma aðeins inn á það því ég náði ekki að klára þá umræðu — hjá hv. þm. Eygló Harðardóttur komu fram þessir hvatar sem eru í löggjöfinni, afleiðingar af löggjöfinni og svokallað eftirlitskerfi allt saman. Það er alveg með ólíkindum og það er í sjálfu sér ekkert að byrja og það er hlutur sem við verðum að taka til gagngerrar endurskoðunar. Verið er að íþyngja fyrirtækjunum með allt of miklu eftirliti. Í mörgum tilfellum er nánast um sama eftirlit að ræða. Það kemur einn og skoðar tvo hluti og svo kemur annar og skoðar tvo hluti og hann skoðar annan af þeim sem hinn skoðaði og svo koll af kolli. Þetta kostar fyrirtækin óhemjupeninga og dregur úr getu þeirra til að gera skynsamlegri hluti og snúa sér að því sem skiptir mestu máli að reyna að auka umsvif fyrirtækisins og skapa frekari störf og hagsæld inn í þjóðarbúið. Það stendur eins og við vitum undir allri velmegun þjóðarinnar, atvinnusköpunin. Þetta er hins vegar ekkert nýtt.

Ég er ekki að tala fyrir því að eftirlitið sé minnkað eða að við slökum á kröfum, það felst ekkert í því. Nærtækasta dæmið er útþensla Fjármálaeftirlitsins. Eftir hrunið fóru menn að auka útgjöldin og ugglaust var þörf fyrir hluta af því og jafnvel allt, ég ætla ekki að fullyrða neitt um það. En það kom klárlega fram í umræðunni, og gerir það svo oft, af því að þetta er skattur sem er markaður tekjustofn — og ég gæti svo sem haldið mjög langa ræðu um markaða tekjustofna en af því að sumir líta svo á, ég er ekki að halda því fram að allir hafi lítinn skilning á því, að af því að skatturinn er lagður á fyrirtækið og fer til þeirra stofnana sem sinna eftirlitinu og hefur ekki í för með sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð þá sé þetta bara allt í lagi, menn hafa ekki svo miklar áhyggjur af því. Hið augljósa er að þegar farið er í þessa vegferð þá dregur það úr getu fyrirtækjanna til að skapa fleiri störf og skapa hagsæld.

Eitt skýrasta dæmið var þegar setja átti fjársýsluskattinn á fjármálastofnanirnar, þá töluðu allir um þessi vondu fjármálafyrirtæki, eða misgóðu eða hvaða orð menn notuðu um það, auðvitað var óhætt að setja fjársýsluskatt á þau. En þegar hið augljósa kom í ljós, þ.e. að þetta yrði til þess að fækka þyrfti starfsfólki, þar sem þetta var launaskattur, gerðu menn ákveðnar breytingar á fyrirkomulaginu. Skattlagning og hvernig skattar eru settir fram hefur áhrif á fyrirtæki og getu þeirra til að standa undir öðrum kostnaði.

Við vitum líka að stjórnmálamenn, sama hvar þeir eru í flokki, reyndar ekki allir stjórnmálamenn en mjög margir, að minnsta kosti af þeim sem ég hef kynnst á þeim tíma sem ég hef verið hér og fylgst með í áranna rás, hafa mikið hugmyndaflug í að réttlæta það hvernig beri að eyða fjármununum. Þeir hafa miklar skoðanir á því hver og einn hvernig skynsamlegast sé að ráðstafa þeim og allt í góðu lagi með það. En oft virðast sömu stjórnmálamenn hafa minni áhyggjur af því hverjir eigi að afla peninganna. Það er einhverra annarra að sjá um að skaffa í ríkissjóðinn þannig að stjórnmálamenn geti eytt peningunum. Það sjáum við í öllum þeim frumvörpum og tillögum sem liggja fyrir þinginu á síðustu klukkutímunum, um útgjaldaaukningu upp á tugi milljarða. Ekki er verið að ræða um 1 eða 2 eða 3 milljarða, það eru komnir tugir milljarða inn á næsta kjörtímabil. Við sjáum því að það er mikilvægt að breyta þessu.

Það má segja um þetta frumvarp að það sé kannski ekkert stórt í sniðum og að ekki sé mikill pólitískur ágreiningur um það hvað beri að gera. En það er hins vegar mjög mikilvægt að fara yfir ástæður þess af hverju bregðast þarf við með þessum hætti. Enn og aftur er verið að gera breytingar sem áttu að vera tímabundnar til að koma til móts við fyrirtæki sem lentu í miklum erfiðleikum eftir hrunið. Þá voru það eðlileg viðbrögð stjórnvalda að létta þeim róðurinn en síðan höldum við alltaf áfram á sömu braut. Nú erum við enn og aftur að endurnýja ákvæði um að dreifa gjalddögum, hvort heldur sem það er á virðisaukaskatti eða tollflokkum og vörugjöldum. Þetta minnir okkur á hversu mikilvægt er að laga umhverfi fyrirtækjanna þannig að þau geti starfað eins og þau hafa gert í áratugi.

Fyrirtækin hafa starfað eftir þessum lögum, sem nú er verið að gera tímabundnar breytingar á, í áratugi, og staðið skil á sínum gjöldum, hvort sem það eru tollgjöld, vörugjöld eða virðisaukaskattur. Þau hafa staðið skil í áratugi en aðstæður eru erfiðar núna og það er umhugsunarefni fyrir okkur hér inni að það skuli ekki hafa breyst á þessum fjórum árum. Það er margt sem spilar þar inn í, bæði hefur gengið illa að greiða úr málefnum sumra fyrirtækja, lagðar hafa verið mjög þungar skattalegar álögur á önnur þannig að þetta hjálpast allt að. Þess vegna er svo mikilvægt að við gerum okkur grein fyrir því og tökum inn í þessa umræðu það umhverfi sem við erum að vinna með.

Mikilvægast er að búa fyrirtækjunum þannig umhverfi að ekki þurfi að fara í breytingar eins og hér er gert enda er það sagt berum orðum í frumvarpinu að verið sé að bregðast tímabundið við áframhaldandi greiðsluerfiðleikum fyrirtækja. Svona hljóðaði það líka síðast. Það er verið að bregðast tímabundið við áframhaldandi greiðsluerfiðleikum fyrirtækja og það er mjög bagalegt og í raun og veru ekkert annað að gera í þeirri stöðu sem við erum en æskilegra hefði verið að umhverfi fyrirtækjanna væri þannig að ekki þyrfti að bregðast við á þennan hátt.

Það er líka mikið áhyggjuefni — sérstaklega ef maður talar um þau fyrirtæki sem hér eru og auðvitað öll fyrirtæki af því að hagkerfið okkar er allt eitt samspil og ein heild — það sem kom fram í morgun um minnkun á hagvexti. Við fórum inn í árið 2012 með miklar væntingar um 2,5–2,7% hagvöxt, inn í grunninn í fjárlagagerðinni, tekjuhluta fjárlaga. Við endurskoðunina við gerð fjáraukalaga síðasta haust voru þær væntingar lækkaðar niður í 2,5%, jafnvel 2,3% en menn stöldruðu við 2,5%. Hæstv. forsætisráðherra hefur margoft í máli sínu bent á þá staðreynd að hagvöxtur hér sé þó 2,5% og það sé betra en í mörgum öðrum ríkjum Evrópusambandsins eða í Evrópu. En síðan kemur dómurinn í dag sem segir okkur að hagvöxturinn er ekki 2,5%, hann verður 1,6%.

Það er grafalvarleg staða og hefur gríðarlega miklar afleiðingar og það þekkjum við. Staðreyndirnar eru þessar. Við getum síðan komið upp í pólitískar kappræður um það hvort ríkisstjórnin hafi staðið sig vel og illa. Allir vita mína skoðun á því, hún hefur algerlega brugðist í atvinnuuppbyggingu og líka í sambandi við skuldavanda heimilanna, það hangir hvort við annað. En það er hins vegar algerlega ljóst í þeim málum að það eru niðurstöðutölurnar sem tala og yfir því verður maður að lýsa miklum vonbrigðum. Maður hafði reyndar miklar áhyggjur af þessu og hugsum það aðeins rökrétt.

Við höfum verið að ganga á framtíðarsparnaðinn með því að taka út séreignarsparnaðinn til að milda það sem gerðist hjá fólki við hrunið, bæði lækkuðu tekjur fólks, fólk missti vinnuna, starfshlutfallið var lækkað og allt sem þar hangir saman. Þá var sú leið farin að leyfa úttekt á séreignarsparnaði. Og hver hefur sú braut verið hjá okkur? Fyrst var það sett tímabundið og svo aftur tímabundið og svo í þriðja skipti tímabundið og svo var því hætt. En í fjárlögum 2013 var það sett inn aftur, tekið upp aftur. Þá erum við að ganga á framtíðarsparnaðinn sem þýðir að við verðum af tekjum í framtíðinni þegar sá séreignarsparnaður átti að koma til útgreiðslu. Það sem hefur verið að drífa áfram hagvöxtinn, oft verið kallað froðan, er einkaneyslan sem er að draga hann áfram, ekki atvinnusköpunin sem er í sögulegu lágmarki, atvinnuvegafjárfestingin er í sögulegu lágmarki. Það eru rosalega mörg dökk ský á himni þannig að menn verða að fara varlega.

Ég hélt reyndar að menn mundu skipta um gír, hugsun eða bregðast öðruvísi við ábendingum annarra eftir hrunið, að menn hefðu þó lært það af hruninu. Mér er mjög minnisstætt þegar aðalhagfræðingur Seðlabankans kom fram, þegar nýbúið var að gera kjarasamningana, og benti á þær hættur sem fólust í gerð þeirra. Ég upplifði það í viðbrögðum í fjölmiðlum, ég veit ekki hvort það var algerlega réttmætt hjá mér, að sá ágæti maður væri að tala í tómarúmi. Það var túlkað þannig af sumum að hann væri á móti launahækkunum. Hann fjallaði ekki um það, það eru allir mjög hlynntir því að hækka laun til fólks ef hægt er þannig að fólk hafi meiri ráðstöfunartekjur. Það er enginn á móti því, ekki einn einasti maður, sama hvar hann stendur í flokki eða við hvað hann vinnur. En þessi ágæti maður var einfaldlega að benda á að farið gæti af stað víxlverkun sem við þekkjum frá gamalli tíð.

Við bjuggum í áratugi við þær aðstæður, allt þar til þjóðarsáttarsamningarnir voru gerðir fyrir rúmum 20 árum, og við erum að detta inn í þann feril aftur. Við sjáum nýjustu tölur um verðbólguna, hún er að hækka mjög mikið, og það var bent á hið augljósa sem blasir við okkur. Það sem kemur fram í þessu frumvarpi um frestun gjalddaga er hið augljósa, það sem þessi ágæti maður var að benda á. Ef menn fara í of miklar launahækkanir — ekki standa deilur um að allir vilja bæta hag heimilanna og fólksins í landinu — og ekki er innstæða fyrir þeim þá væri það fyrir séð að eitthvað annað þyrfti að koma á móti. Sá sem rekur verslun og hækkar laun starfsfólksins verður að auka umsvifin eða hækka vöruverðið. Það gefur augaleið. Það er ekki um nema tvennt að ræða í því. Annaðhvort aukast umsvifin eða það verður að hækka vöruverðið. Ef vöruverð hækkar lendir það í vítahring og þá minnkar verslunin hægt og bítandi og þá fækkar starfsfólki þannig að þetta hangir allt á sömu spýtunni. Það var varað við, menn voru hvattir til að fara varlega, en ekki var að neinu ráði tekið undir ábendingar eða gagnrýni — ég veit ekki hvaða orð ég á að nota yfir það — þessa ágæta manns, við komumst einhvern veginn ekki lengra í umræðunni.

Það er líka gríðarlega alvarlegt vegna þess að kjarasamningarnir — ef við setjum það í samhengi við það sem er að gerast hjá okkur núna, þær fréttir sem við vorum að fá — voru mjög framhlaðnir, þ.e. það voru eingreiðslur í upphafi þeirra sem skiluðu mjög skarpt tekjum inn í ríkissjóð og til sveitarfélaga, gerði það að verkum að tekjur ríkissjóðs fóru upp, reyndar útgjöld líka en nettóniðurstaðan varð sú að ríkissjóður hafði meiri tekjur en útgjöld af samningunum. Við sjáum það í fjáraukalagagerðinni á því ári sem þeir voru gerðir hvaða áhrif það hafði á stöðu ríkissjóðs. Það er því mjög mikilvægt að menn vandi sig við að skapa fyrirtækjunum það rekstrarumhverfi sem þarf að vera.

Það þarf að vera þessi hvati, eins og hv. þm. Eygló Harðardóttir kom inn á, í kringum stofnun fyrirtækis, þ.e. að menn fari af stað með meðalstór fyrirtæki. Eins og við vitum eru fyrirtæki yfirleitt stofnuð í kringum einn, tvo eða þrjá aðila og yfirleitt er fólkið sem stofnar þau að vinna í þeim og það er gríðarlega mikilvægt að skapa þær aðstæður að fyrirtækin geti þrifist og gengið vel. Þannig verður verðmætasköpunin til. Ekki hefur vantað hugmyndaflugið hjá stjórnmálamönnum um auknar álögur og ekki skortir þá sömu hv. stjórnmálamenn hugmyndirnar um það í hvað eigi að eyða peningunum. Þeir líta oft og tíðum á það sem sjálfgefið að aðrir afli peninga en þeir eyði þeim.



[14:56]
Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu sem endurspeglaði í hvers lags erfiðleikum íslenskt atvinnulíf á. Verið er að endurflytja mál um dreifingu á gjalddögum á vörugjaldi og virðisaukaskatti, sem hafa hækkað allverulega á þessu kjörtímabili þrátt fyrir aðvörunarorð okkar margra um hvaða áhrif þessi endalausa gjaldahækkana- og skattstefna núverandi ríkisstjórnar hefur haft í för með sér.

Í fyrsta lagi vil ég spyrja hv. þingmann að því hvort hann viti til þess að lagt hafi verið mat á hverju það hafi skilað sér í hækkuðum skuldum verðtryggðra lána að ríkisstjórnin skuli hafa hækkað virðisaukaskatt og vörugjöld almennt svo mikið sem raun ber vitni. Nú horfum við upp á það, miðað við ástandið í samfélaginu, að með því að hækka skatta og gjöld hefur það þau óæskilegu áhrif að verðtryggð lán heimilanna sem eru um 1.400 milljarðar í dag hækka samhliða því. Fyrri spurning mín er hvort ríkisstjórnin hafi með þessum aðgerðum verið að vinna að hagsmunum heimilanna í landinu.

Ríkisstjórnin beitti sér sérstaklega fyrir því að hækka vörugjöld af stærri bílum, jepplingum. (Gripið fram í.) Nú höfum við orðið vör á þessum óblíða vetri, dæmigerða íslenska vetri, að fólk á landsbyggðinni verður einfaldlega að geta verið á stærri bílum til þess að komast á milli staða. (Gripið fram í.) Nú hefur ríkisstjórnin hækkað álögur sérstaklega á vörugjöld þessa bílaflota. Telur hv. þingmaður að ríkisstjórnin sé með stefnu sinni virkilega að huga að hagsmunum landsbyggðarinnar?



[14:58]
Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Hv. þingmaður spurði mig í fyrsta lagi hvort ég vissi til að lagt hefði verið mat á það hvaða áhrif inn í vísitöluna og þar af leiðandi á lán heimilanna óbeinu skattahækkanirnar hefðu. Þær skiptu milljörðum bara síðasta haust. Ágætt er að rifja upp að þegar lagður var fram tekjugrunnur fyrir fjárlagafrumvarpið fyrir árið 2011 stóð ég hér seint að kvöldi eða nóttu og var að ræða við þáverandi hæstv. fjármálaráðherra. Honum fannst ég frekar óbilgjarn í umræðunni, og vildi meina einungis væri um uppsóp í skattahækkununum að ræða, allur meginþunginn hefði verið árið 2009, fyrir utan fjárlög ársins 2010. Hverju var þá gert ráð fyrir? Það var gert ráð fyrir því að tekjuauki ríkissjóðs af tekjuhlutanum yrði 11,2 milljarðar. Tekjuskerðing heimilanna, sem blasti auðvitað við, var 8,7 milljarðar. Það versta var að lán heimilanna hækkuðu við þessar aðgerðir um 14 milljarða. Ráðstöfunartekjurnar minnkuðu um tæpa 9 milljarða, lán heimilanna hækkuðu um 14 milljarða, en tekjuaukningin fyrir ríkissjóð átti ekki að vera nema 11 milljarðar. Menn geta síðan haft efasemdir um að hún hafi nokkurn tíma skilað sér.

Þarna greindi okkur mjög á. Ég hélt því fram að aðgerðirnar mundu draga úr getu heimilanna, bæði minnka tekjurnar og eins auka klafann í sambandi við húsnæðislánin, þær mundu einnig hafa neikvæð áhrif inn í hagkerfið og niðurstaðan yrði sú að tekjur ríkissjóðs mundu minnka við þessar aðgerðir en ekki aukast.



[15:00]
Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er akkúrat það sem hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Framsóknarflokksins hefur bent á varðandi verðtrygginguna. Þegar ríkið hækkar skatta og gjöld er það að bæta tekjum í ríkissjóð, en hver greiðir fyrir það? Hvaða áhrif hafa slíkar hækkanir á gjöldum og sköttum? Jú, þær fara út í verðlagið sem hækkar verðtryggðar skuldir heimilanna í landinu. Þetta er hvati sem á ekki að eiga sér stað og við þurfum að vinda ofan af honum, eins og við framsóknarmenn höfum lagt til.

Hv. þingmaður hafði ekki tök á því í sínu stutta andsvari að bregðast við því sem ríkisstjórnin hefur beitt sér fyrir, sem er að stórhækka vörugjöld af stærri bílum. Ég benti á hvernig ástandið er vítt og breitt um landið, sérstaklega yfir vetrarmánuðina, þar ekur fólk einfaldlega ekkert um á Yaris. Staðreyndin er sú að með stefnu ríkisstjórnarinnar og stórhækkuðum vörugjöldum á stærri bíla, sem eru lífsnauðsynlegir í hinum dreifðu byggðum, hefur skattlagning og álögur á fólk í hinum dreifðu byggðum aukist stórlega. Samfara þessu mun verð á bílum hækka og hvaða áhrif hefur það? Jú, það hefur líka áhrif á vísitölu neysluverðs sem fer út í hinar verðtryggðu skuldir.

Við erum alltaf að bíta í skottið á okkur sjálfum og mig langar að spyrja hv. þingmann að því hvað honum finnist um að menn skuli hafa svona takmarkaðan skilning á aðstæðum hinna dreifðu byggða og hafa aukið álögur á bifreiðar sem fólk þarf að nota í þeim byggðarlögum, eins og ríkisstjórnin hefur beitt sér fyrir á undanförnum árum. Ég greiddi atkvæði gegn því og ég tel að þar sé verið að vega að hagsmunum einstakra byggðarlaga og sjálfsögðum mannréttindum fólks við að komast á milli staða.



[15:02]
Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég náði ekki að svara seinni spurningu hv. þingmanns og ætla að gera það núna. Ég vil byrja á að segja að ég greiddi atkvæði á móti þessari skattlagningu eins og hv. þingmaður á sínum tíma.

Það er alveg rétt sem hv. þingmaður kemur hér inn á, bent var á í þessari umræðu að það hljómar vel að lækka skatta á bíla sem menga minna og eru umhverfisvænni en hækka á þessa stóru, en það hefur afleiðingar á sumum stöðum. Því miður búa ekki allir landsmenn við sömu aðstæður. Svörin voru oft á tíðum: Ja, menn geta þá bara farið í strætó. Gott og vel, það hentar sums staðar og það er bara í góðu lagi. Eins og hv. þingmaður þekkir jafn vel og ég þá þarf fólk sem býr fyrir utan þéttbýlisstaðina því miður oft að sækja vinnu um langa leið, kannski tugi kílómetra á hverjum degi. Það keyrir í aðstæðum sem eru ekki sambærilegar við að keyra hér í Reykjavík á uppbyggðum, malbikuðum vegum í stórborginni. Þetta fólk þarf auðvitað að hafa betur útbúna bíla, hvort sem það er með fjórhjóladrifi, jafnvel jeppa eða hvernig sem það er. Bein afleiðing af því er að skattlagningin kemur harðar niður á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu.

Eins líka þær hækkanir sem voru á eldsneytið, kolefnisgjaldið og allt það. Þar sögðu menn að draga yrði úr mengun. Allir eru sammála um að reyna að gera það sem mest, en hvað hafði það í för með sér? Það fór auðvitað inn á flutningabílana sem keyra út vörur, þá hækkar flutningsgjaldið út á landsbyggðina, það segir sig alveg sjálft. Frægt dæmi var þegar ágætur fjörður var þveraður vestur á fjörðum. Það stytti vegalengdina mikið og menn voru fegnir því. En bara skattahækkanir ríkisstjórnarinnar í næstu viku á eftir gerðu það að verkum að gjöldin á flutninginn lækkuðu ekki neitt, vegna þess að þótt færri kílómetrar væru keyrðir var búið að hækka eldsneytisverðið þannig að það fór sjálfkrafa inn í verðið. Það er talandi dæmi um hvaða áhrif þetta hefur.



[15:05]
Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Við ræðum um frumvarp til laga um breytingu á tollalögum, lögum um vörugjald og lögum um virðisaukaskatt, sem felst í því að framlengja áfram bráðabirgðaráðstafanir sem teknar voru í gildi stuttu eftir hrun, í kjölfar þess mikla atburðar. Það er framlengt áfram vegna þess að ekki er búið að laga stöðuna sem varð til eftir hrun.

Núna — fjórum og hálfu ári eftir hrun og fjórum árum og einum mánuði eftir að núverandi ríkisstjórn tók við völdum, fyrst með stuðningi Framsóknarflokksins en síðan hefur hæstv. ríkisstjórn staðið ein með sínum stuðningsmönnum — hefur hún gripið til ráða sem hafa ekki leyst vandann að mínu mati. Hún fylgir þeirri stefnu margra vinstri manna að auka skatta og auka niðurskurð sem lausn á því að bæta stöðu ríkissjóðs. Þetta eru lausnir beint af augum í huga þeirra sem átta sig ekki alveg á því hvernig atvinnulífið og efnahagslífið bregst við. Það að hækka skatta þýðir ekki endilega að tekjur ríkissjóðs hækki. Það að lækka skatta þýðir heldur ekki að tekjur ríkissjóðs lækki. Þetta hefur meira að segja valdið því að sumir hagfræðiprófessorar geta deilt um það endalaust hvort skattar hafi verið lækkaðir eða hækkaðir í tíð ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokksins, sem hann ber víst ábyrgð á einn, þegar skattprósentur voru lækkaðar í mörgum skattflokkum, þar á meðal á tekjum fólks, en skatttekjurnar stórjukust. Þá sögðu menn: Skattarnir hafa hækkað. En gleymdu að segja að það voru skatttekjurnar sem hækkuðu en skattarnir voru lækkaðir. Það getur nefnilega gerst.

Þetta er það sem margir eiga erfitt með að átta sig á, að viðbrögð atvinnulífsins eru háð því hvað skattprósentan er há. Þetta eru augljós sannindi sem bandarískur prófessor komst að einhvern tímann, Laffer, sem kom í heimsókn hingað til Íslands. Ég hef bent á að skattstofninn væri mjög háður skattprósentunni, mismunandi mikið þó, lítið í eignarskatti, en mikið í til dæmis tekjuskatti og alveg sérstaklega mikið í hagnaði fyrirtækja þar sem forráðamenn fyrirtækja geta ráðið því nánast kannski á síðustu vikum ársins hvort fyrirtækið skili hagnaði eða tapi. Ef hagnaðurinn er skattlagður of mikið getur hvatinn verið sá að eyða honum rétt fyrir áramót, eyða hagnaðinum til að þurfa ekki að borga stórar fúlgur í ríkissjóð í skatta. Skatttekjur ríkissjóðs eru því mjög háðar skattprósentunni. Sú mótsögn getur myndast að hækkun á skattprósentunni getur þýtt lægri skatttekjur.

Við erum að sjá þetta núna til dæmis í áfengisgjaldinu þar sem tekjur ríkisins af áfengisgjaldinu lækka þrátt fyrir skattahækkanir. Síðan spyrja menn sig: Hvað verður um skattstofninn? Stundum deyr hann út, hann verður hreinlega ekki lengur til. Sú starfsemi sem gaf áður tekjur verður ekki lengur til. Stundum hverfur hann undir yfirborðið, eins og ég hef nú grun um að sé að gerast með áfengið, þ.e. menn fari að brugga, því miður, sem veldur ákveðnu siðrofi. Mikill innflutningur á sykri bendir til þess þrátt fyrir hækkun skatta á sykur, herra forseti. Það hefur sést mjög víða að hækkun á sköttum getur lækkað skatttekjurnar.

Þetta var ein af ráðstöfunum hæstv. ríkisstjórnar, að skattleggja og skattleggja og skattleggja. En það sem hún gerði líka var að hún fór í einhvers konar draumastöðu vinstri manna, ég leyfi mér að segja það, að flækja skattkerfið til að gera það réttlátara og sanngjarnara og taka tillit til fleiri þátta. Til dæmis tók hún upp fleiri þrep í tekjuskatti sem hefur leitt til mikillar vinnu bæði hjá skattyfirvöldum og alveg sérstaklega á fyrirtækjunum sem þurfa að reikna út núna miklu flóknari skatta en áður. (BJJ: Eru það ekki fjögur þrep?) Fjögur þrep, jú. Núllþrepið, það er nefnilega líka með.

Svo hafa menn flækt virðisaukaskattinn. Ég ætla ekki að nefna öll þau ókjör og ósköp sem hafa dunið yfir, aðallega fyrirtæki landsins. Svo eru alls konar nýir skattar sem menn hafa tekið upp varðandi mengunarskatta, sturtuskattinn og fleiri. Ég ætla ekki að þreyta herra forseta með því að telja upp allar þær skattahækkanir sem menn hafa tekið upp. Flækjustigið hefur aukist og flækjustigið kostar. Og flækjustigið kemur niður á lífskjörum þjóðarinnar.

En menn gerðu ekki bara þetta sem er svona beint af augum án þess að átta sig á því hvernig skattstofnar og skattprósentur hegða sér. Nei, menn fóru líka í niðurskurð, í mjög sterkan niðurskurð.

Nú er það þannig, herra forseti, að ég er ekki voðalega hrifinn af mjög stóru opinberu kerfi. Ég vildi heldur sjá það minna en stærra. Ég held reyndar að stærstu mistök Sjálfstæðisflokksins þegar hann var við völd í 18 ár hafi verið þau að láta velferðarkerfið blása of mikið út. Það má með sanni segja að Sjálfstæðisflokkurinn sé velferðarflokkur þegar þau afrek eru skoðuð. Þetta tel ég hafa verið mistök hans. Nú erum við að súpa seyðið af því að einhverju leyti.

Það sem núverandi hæstv. ríkisstjórn gerði var að skera niður þegar engin störf var að hafa. Það eru mistökin. Mistökin eru þau að þegar menn skera niður og ætla að minnka velferðarkerfið kemur það yfirleitt alltaf niður á því að segja þarf upp fólki. Þegar velferðarkerfið vex og blæs út er fólk ráðið til starfa, 70% af kostnaði opinberra stofnana og fyrirtækja eru yfirleitt laun. Og þegar þarf að skera niður verða menn að segja upp. Þá er mikilvægt, herra forseti, að fólk hafi möguleika á að fá vinnu, fólk geti fengið vinnu einhvers staðar.

Þau mistök að skattleggja og beita niðurskurðarhnífnum í þeim mæli sem gert var eru mikil mistök. Ef fólk fær ekki vinnu, hvað gerist þá? Það fer á atvinnuleysisbætur, þ.e. fer á framfærslu ríkisins. Það fer í háskóla, sem er jákvætt, en kostar líka lán frá Lánasjóði íslenskra námsmanna, frá ríkinu, eða fer til útlanda sem er eiginlega sýnu verst, herra forseti, vegna þess að þá hættir það að borga skatta og skyldur á Íslandi og við njótum þá ekki lengur þess mannauðs sem þar er.

Það var því brugðist við á rangan hátt og afleiðing þess er það frumvarp sem við erum hér að glíma við. Þetta er bráðabirgðaráðstöfun sem var tekin upp til að hjálpa fyrirtækjum sem voru í vandræðum eftir hrun og eru enn í vandræðum eftir hrun. Þess vegna er verið að framlengja þetta.

Af hverju geta fyrirtækin ekki bara tekið lán? Það er vegna þess að bankarnir veita ekki lán til fyrirtækja sem eru í einhverjum vandræðum. Áhættufælni fjármagnsins hefur vaxið mjög mikið. Bankarnir lána eingöngu til mjög tryggra fjárfestinga eða fjárráðstafana og leggja peningana frekar inn í Seðlabankann en að lána til atvinnulífsins. Þess vegna erum við að glíma við þetta frumvarp sem er eins konar bráðabirgðaráðstöfun við afleiðingu hrunsins.

Ég var að glugga um daginn í skýrslu fjármálaráðherra um samkomulagið við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn frá því í júlí 2009. Ég leyfði mér að fara svo langt aftur, kíkti á skýrsluna sem tók til áranna 2009–2013. Í ár er akkúrat 2013. Hvað skyldi hafa staðið í þeirri skýrslu, herra forseti, um til dæmis hagvöxt? Jú, hann átti að vera 3,1% á árinu 2013 og 4% á árinu 2012 og 4% árið 2011. Þetta hefur mistekist hrapallega. Það hefur mistekist hrapallega að byggja upp þann hagvöxt sem gert var ráð fyrir eftir hrun. Það er nefnilega þannig að þegar mikið hrun verður er eiginlega óhjákvæmilegt að hagvöxtur verði, það er óhjákvæmilegt. En hann hefur verið svo dapur, herra forseti, að við vorum að fá fréttir um það í morgun að árið 2012 var hann ekki nema 1,6%. Sú áætlun hefur farið sílækkandi með hverri nýrri áætlun, þannig að nú er hagvöxtur metinn 1,6%, sem er miklu, miklu minna en þjóðin þarf til að byggja upp atvinnulíf og koma velsæld aftur á fyrir þegnana. Það hefur brugðist.

Það frumvarp sem við ræðum var einmitt neyðarráðstöfun sem tekin var upp vegna þess að fyrirtækin voru löskuð eftir hrun og gátu ekki fengið fjármagn. Það er bara nákvæmlega sama staða, herra forseti, í dag. Auðvitað getur maður ekki verið á móti þessu. Auðvitað getur maður ekki verið á móti því að hjálpa fyrirtækjum í þeirri stöðu sem er í dag. En ég vil gjarnan gera athugasemdir við stöðuna, að staðan skuli vera svona fjórum og hálfu ári eftir hrun. Hæstv. ríkisstjórn hefur algjörlega brugðist.

Við erum að tala um breytingar á þrennum lögum, þ.e. tollalögum, lögum um vörugjald og lögum um virðisaukaskatt. Ég hefði viljað sjá, herra forseti, aðrar breytingar á þessum lögum. Ég hefði viljað sjá til dæmis að einhver nennti að fara í gegnum vörugjaldafrumskóginn og grisja hann. Fram hafa komið mörg frumvörp, sérstaklega varðandi sykurskattinn sem er á dagskrá á eftir, var tekið af dagskrá og síðan frestað, til dæmis um virðisaukaskattinn á sykur þar sem flækjustig er orðið þvílíkt að menn gera aftur og aftur mistök við lagasetningu. Verið var að leiðrétta lagasetningu sem gerð var í desember sl., það er ekki voðalega langt síðan, herra forseti, daginn er ekki einu sinni farið að lengja almennilega. Verið var að gera breytingar á lögum um vörugjöld til að ná fram skattlagningu á sykur.

Vörugjaldafrumskógurinn er svo flókinn að jafnvel þeir sem sýsla með þetta alla daga, eins og fjármálaráðuneytið, gera mistök. Ég mundi vilja að menn færu í það verkefni, og ég vonast til að það verði verkefni næsta kjörtímabils, að einhver nennti að fara í það að skera upp þennan frumskóg og gera þetta miklu einfaldara, fella niður vörugjöld og fjöldann allan af gjöldum. Ég mundi vilja fella þetta nánast allt saman niður. Þetta gefur ríkissjóði litlar tekjur, veldur óskaplegri vinnu og misskilningi í atvinnulífinu, skekkir samkeppnisstöðu og því um líkt. Ég hef margoft sagt að þarna þurfi menn að taka sér tak og fara í það að breyta öllum vörugjaldafrumskóginum og gera hann einfaldari. Í mínum huga ættu vörugjöld einungis að vera á stærstu vörum eins og bílum, en jafnvel ekki þar, herra forseti, jafnvel ekki þar.

Svo er verið að gera breytingar á tollalögum og ekki veitir af að fara í gegnum þann frumskóg. Það væri góðverk að fara í gegnum frumskóginn um tollana og grisja þar og einfalda.

Ég held að verkefni ríkisstjórnar næsta kjörtímabils ætti að vera að einfalda, einfalda, einfalda. Eftir að núverandi hæstv. ríkisstjórn er búin að flækja, flækja, flækja. Flækjustigið er orðið þvílíkt að hætta er á því að atvinnulífið stöðvist út af flækjustiginu.

Verið er að tala um breytingu á lögum um virðisaukaskatt. Þar hefði ég gjarnan viljað sjá aðra breytingu, sem er hreinlega að lækka þann skatt. Þetta er heimsmet, 25,5%. Mig langar ekki til að eiga það heimsmet, herra forseti. Ég vil lækka þann skatt. Ég vil einfalda hann. Ég vil taka undanþágur í burtu. Vita menn almennt að allt menntakerfið er undanþegið virðisaukaskatti? Hvers vegna í ósköpunum? Og allt heilbrigðiskerfið er undanþegið virðisaukaskatti. Hvers vegna? Þetta gerir allt kerfið miklu, miklu flóknara. Ef spítali kaupir sér bókhaldsaðstoð og þarf að borga virðisaukaskatt þá getur hann ekki dregið innskattinn frá. Þetta er því ekki samkeppnishæft. Það skekkir allt kerfið að vera með slíkar undanþágur. Ég mundi vilja sjá virðisaukaskattskerfið án nokkurrar undanþágu. Þá væri hugsanlegt að lækka prósentuna töluvert, ég lofa ekki hve mikið.

Nú skyldi maður halda að þegar menn eru búnir að skattleggja svona mikið og skera svona mikið niður — niðurskurðurinn hefur verið heiftarlegur, herra forseti, á mörgum sviðum, á öðrum sviðum hafa menn ekki skorið neitt niður, ekki neitt. Á sumum stöðum eins og í heilbrigðiskerfinu hafa menn skorið mjög mikið niður og þá kynni maður að halda að staða ríkissjóðs væri góð. Ó, nei, hún er ekki góð, herra forseti. Hún er ekki góð þrátt fyrir stórhækkun skatta og mikinn niðurskurð.

Ég hef lýst því af hverju skatttekjurnar hækkuðu ekki. Það er vegna þess að hækkun á prósentu getur valdið því að tekjur ríkissjóðs minnki. Það er ein skýringin. En hvernig stendur á því að niðurskurður virkar ekki? Og maður veltir fyrir sér: Hvernig stendur á því að staða ríkissjóðs er svona slæm? Ég hef sagt það mörgum sinnum, herra forseti, hún er ekki bara slæm á pappírnum, því að samkvæmt áætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem ég var að glugga í átti ríkissjóður að vera með afgangi árið 2013, og mig minnir árið 2012 líka. Nei, það er heilmikið af götum í fjárlögunum. Það vantar risastórar tölur sem menn hafa falið. Ég nefni til dæmis skuldbindingu vegna A-deildar LSR sem átti að vera búið að ganga frá, og á að vera búið að leiðrétta. Það er ekki búið að því.

Ég nefni skuldbindingu vegna Íbúðalánasjóðs. Það vita allir að þar vantar tugi milljarða en ekki er tekið á því. Ég nefni Hörpu, hún er hvergi nokkurs staðar færð á fjárlögum. Eða Vaðlaheiðargöng, þetta er allt saman falið einhvern veginn. Framlag ríkissjóðs í Íbúðalánasjóð var ekki fært á fjárlögum sem gjöld, nei, nei, það var framlag. Þeir voru að kaupa sér góða eign í staðinn. Þetta eru náttúrlega bara fáránleg vinnubrögð. Mér finnst að íbúar landsins eigi meira og betra skilið. Mér finnst að fjárlögin eigi að sýna raunverulega stöðu ríkissjóðs þannig að skattgreiðendur næstu framtíðar, næstu fjögurra, fimm ára, viti hvað bíði þeirra. Mér finnst líka að börnin okkar eigi að vita hvað bíður þeirra. Það á ekki að dylja skuldbindingar eins og gert er með núverandi fjárlögum.

Þetta er allt saman umræða sem snýst út af því að við erum að ræða um sjálfsagða framlengingu á lögum, að fyrirtæki geti dreift gjalddögum, sem eiga að vera í virðisaukaskatti annan hvern mánuð, á næsta mánuð líka, helmingnum af því. Eins með tollalögin og vörugjöldin. Sjálfsagður hlutur, segi ég, í ljósi þess hver staða fyrirtækjanna er döpur.

En auðvitað eiga fyrirtæki að borga sinn virðisaukaskatt. Þau eru búin að innheimta hann. Auðvitað eiga þau ekki að vera í þeirri stöðu fjórum og hálfu ári eftir hrun að grípa þurfi til svona ráðstafana, að fyrirtæki sem búin eru að innheimta virðisaukaskatt fái gjaldfrest. Eða þeir sem flytja inn og eiga að borga tolla og vörugjöld, að þeir borgi þau. Hvað er annað eðlilegra, herra forseti?

Nei, við erum að framlengja þessa frestun sem tekin var upp í neyðarástandi eftir hrun. Það segir mér að enn þá sé neyðarástand. Ríkisstjórnin hefur ekki náð tökum á þeim afleiðingum sem hrunið olli hér á landi og öll þjóðin þarf að líða fyrir það fjórum og hálfu ári eftir hrun.



[15:24]
Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil leiðrétta hv. þingmann en hann sagði að Sjálfstæðisflokkurinn hefði verið einn við völd um áratugaskeið. Það vill að minnsta kosti enginn kannast við slíkt og við skulum rifja það upp. Ég held að árin 1991–1995 hafði það verið Alþýðuflokkurinn með Sjálfstæðisflokknum, Framsóknarflokkurinn eftir það og svo Samfylkingin 2007–2009. Ég get svo sem skilið ef hv. þingmaður vill gleyma því samstarfi því að ég man árið 2007 þegar ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar kom fram með fjárlög þar sem útgjaldaramminn var hækkaður um heil 20% og þá sérstaklega í ráðuneyti hæstv. þáverandi félagsmálaráðherra, Jóhönnu Sigurðardóttur. Ég veit að hv. þingmaður er ekki ánægður með þá arfleifð, enda var ekki hyggilegt að hækka útgjaldarammann um svo margar prósentur á þeim tíma.

Ég er hjartanlega sammála hv. þingmanni, og við þingmenn Framsóknarflokksins sem höfum tekið þátt í umræðunni, um að nauðsynlegt sé að einfalda þann frumskóg sem vörugjöldin, tollarnir og virðisaukaskattskerfið er vegna þess að eins hv. þingmaður segir hefur ríkisstjórnin því miður flækt skattkerfið í allt of miklum mæli. Ég er ekki stoltur af því að tilheyra þjóð þar sem er meðal annars hæsti skattur á barnafötum í heimi. Það er arfleifð þessarar ríkisstjórnar. Við horfum upp á að skattkerfinu hefur verið breytt þannig að það bitnar hvað harðast á ungu barnafólki hér á landi sem hefur kannski orðið hvað verst fyrir afleiðingum hrunsins vegna þess að verðtryggðar skuldir lána þeirra, heimila ungs fólks, hafa stórhækkað frá hruni.

Ég vil því spyrja hv. þingmann hvort hann muni líka vilja beita sér fyrir því eftir næstu kosningar að gerðar verði einhverjar endurbætur á skattumhverfi, sérstaklega barnafjölskyldnanna í landinu.



[15:26]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Þegar ég talaði um að Sjálfstæðisflokkurinn hefði verið einn við völd í 18 ár er víðtekin venja hjá mörgum hv. stjórnarliðum að kenna Sjálfstæðisflokknum um allt sem gerðist, þar á meðal hrunið, eins og flokkurinn hafi verið einn við völd. Auðvitað var hann ekki einn við völd. Auðvitað voru aðrir flokkar með eins og Framsóknarflokkurinn og Samfylkingin síðustu tvö árin af þeim 18 þegar útgjaldaaukningin var mjög mikil. Ég var kannski ekki alltaf voðalega sáttur við hana, ég átti ekki von á hruni en gerði ráð fyrir því að einhvern tíma þyrfti að borga og nú er komið að gjalddögunum.

Að sjálfsögðu voru aðrir flokkar með Sjálfstæðisflokknum og þess vegna finnst mér ósanngjarnt að kenna Sjálfstæðisflokknum einum um hrunið eins og Samfylkingin hafi ekkert komið nálægt því. Það vill svo til að hún átti þau ráðuneyti á þeim tíma, tveim árum fyrir hrun, sem kannski höfðu mest um það að segja að standa gegn því, eins og viðskiptaráðuneytið og bankamálaráðuneytið o.s.frv.

Varðandi hitt að gera eitthvað fyrir unga fólkið er ungt fólk á ýmsum aldri. Ég geri ráð fyrir því að þeir sem eru undir þrítugu í dag hafi ekki fundið mikið fyrir afleiðingum hrunsins af því að þeir voru ekki byrjaðir að kaupa sér íbúðir. Það er fólk sem er 30–45 ára í dag sem lenti kannski verst í gengistryggðum lánum. Sjálfstæðisflokkurinn ályktaði einmitt um það á landsfundi sínum, hann mun aðstoða fólkið þannig að það geti dregið afborganir af húsnæðisskuldum og greiðslur af húsnæðisskuldum frá skatti og vil ég sérstaklega horfa til þeirra sem lentu í eignabólunni.



[15:28]
Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Hann bendir réttilega á að munur er á stefnu flokkanna þegar kemur að skuldamálum heimilanna sem við framsóknarmenn teljum að þurfi að lagfæra enn frekar en hefur verið gert. Það hefur verið gengið mjög skammt í þeim efnum og í raun og veru hafa einu leiðréttingarnar að einhverju marki komið frá dómstólum landsins sem dæmdu stjórnvöld og gengisbundin lán ólögleg, en hvað um það.

Mig langar að spyrja hv. þingmann um þann hvata sem hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, hefur oftsinnis bent á. Finnst honum eðlilegt að ríkisstjórn á hverjum tíma geri rétt eins og þessi ríkisstjórn undanfarin fjögur ár, hún hefur náð í auknar tekjur í ríkissjóð en hún hefur hækkað vörugjöld, tolla, virðisaukaskatt og jafnvel skattprósentur til að ná auknum peningum inn í ríkissjóð, jafnvel 10 milljörðum kr. við hver fjárlög? Þær hækkanir, m.a. á virðisaukaskatti, gjöldum og tollum, hafa hækkað verðlag í landinu sem leiðir til þess að verðtryggðar skuldir heimilanna, sem eru 1.400 milljarðar í dag, hækka margfalt á við þær tekjur. Er ekki eitthvað öfugsnúið við þann hvata, þegar ríkið nær sér í auknar tekjur, með tilliti til áhrifanna sem það hefur á verðtryggð lán heimilanna í landinu?

Þurfum við ekki að hugsa hlutina upp á nýtt, eins og Framsóknarflokkurinn hefur ályktað um? Við erum eins og hundur sem reynir endalaust að bíta í skottið á sér þegar gjöld og tollar eru hækkuð sem leiðir til enn frekari hækkunar skulda heimilanna. Er það ekki eitthvað sem við þurfum að breyta?



[15:30]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst menn stundum rugla saman verðtryggingu og verðbólgu. Verðbólga þýðir að gjaldmiðillinn minnkar, rýrnar og er minna virði en áður. Þegar verðtryggðar skuldir heimilanna hækka er það ekki vegna þess að þær séu verðmeiri heldur vegna þess að gjaldmiðillinn sem þær eru mældar í er verðminni.

Það sem bítur hjá fólki eru náttúrlega greiðslurnar á hverjum tíma. Þær hækka á verðtryggðum lánum og hækka eins og allt annað sem fjölskyldan kaupir, barnableiur, epli, mjólk eða hvað það er. Þegar öll framfærslan hækkar í verði kemur það niður á fjölskyldunni og þá ekki síður útgjöldin. Það er gert ráð fyrir því að menn eyði um 20–30% af tekjunum í húsnæði, og flestir gera það, og restin er önnur framfærsla sem hækkar ekki síður en lánin og greiðslur af lánunum eða hlutfallslega jafnmikið.

Lausnin á því held ég að sé að bjóða því fólk sem vill að taka óverðtryggð lán. Það hefur verið mjög hörð stefna hjá Íbúðalánasjóði mjög lengi að hafa öll lán verðtryggð, öll lán eins, öll lán til 25 eða 40 ára, hið svokallaða Íslandslán, og þar er ekki boðið upp á neitt annað, jafnvel ekki í dag eftir að Íbúðalánasjóður hefur heimild til þess. Ég held því að þurfi að gefa fólki heimild til að taka bæði verðtryggð og óverðtryggð lán.

Herra forseti. Verðtryggðu lánin hafa kosti. Það má færa rök fyrir því að verðtryggð lán geri tekjulágu fólki yfirleitt kleift að kaupa sér húsnæði sem það gæti ekki ella í þeirri sveiflukenndu og miklu verðbólgu sem er hér á landi. Það er hættulegt fyrir menn að taka óverðtryggð lán við þær aðstæður. Auðvitað er verðbólgan vandinn en ekki verðtryggingin.



[15:32]
Birkir Jón Jónsson (F):

Herra forseti. Við ræðum um frumvarp til laga um breytingu á tollalögum, lögum um vörugjald og lögum um virðisaukaskatt sem er ívilnandi fyrir fyrirtækin í landinu þannig að þau geti dreift enn frekar þeim gjöldum sem þau þurfa að borga til hins opinbera og voru innleidd í kjölfar hrunsins til að koma til móts við erfiða stöðu fyrirtækjanna þá. Við munum hvernig ástandið var og átti þetta að vera einskiptisákvörðun.

Nú er þetta mál endurflutt hér trúlega í fjórða eða fimmta sinn sem sýnir ástand atvinnulífsins á Íslandi í dag, ekki hvað síst stöðu lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Í raun og veru er það frumvarp sem við ræðum hér dómur um að lítið hafi áunnist þegar kemur að skuldamálum atvinnulífsins og umsvifum og velmegun íslenskra fyrirtækja. Við höfum því miður nánast staðið í stað hvað þessi mál varðar. Þetta mál er vitnisburður um það. Á þessu kjörtímabili hefur ríkisstjórnin gengið harkalega fram gagnvart litlum og meðalstórum fyrirtækjum. Það er búið að flækja skattkerfið allverulega og auka álögur á atvinnulífið. Við framsóknarmenn höfum ályktað um það og talað fyrir því að nú sé mál að linni, það sé tími til kominn að einfalda umhverfi íslensks atvinnulífs, einfalda kerfið og lækka þær álögur sem atvinnulífið hefur þurft að búa við.

Vissulega var það svo í kjölfar hrunsins að eitthvað þurfti að gera. Það þurfti að auka tekjur ríkissjóðs með einhverjum hætti og var þá dálítið langt seilst, að mér fannst, í vasa almennings og fyrirtækja í landinu og í raun og veru allt of langt gengið hvað þau mál áhrærir.

Nú er mikilvægt að horfa til framtíðar og til stefnu stjórnmálaflokkanna þegar kemur að málefnum atvinnulífsins. Framsókn hefur ályktað í þá veru að nú sé kominn tími til að huga að atvinnulífinu í landinu og heimilunum. Ég ætla að setja málefni heimilanna til hliðar í þessari umræðu vegna þess að þetta mál snertir atvinnulífið beint, en að sjálfsögðu tengjast þessir þættir nánum böndum eins og við þekkjum.

Varðandi tolla og vörugjöld, þá átti ég sæti í efnahags- og viðskiptanefnd þingsins framan af þessu kjörtímabili (Utanrrh.: Varst góður þar.) og var góður þar, segir hæstv. utanríkisráðherra sem sat reyndar ekki með mér í þeirri nefnd en virðist hafa fylgst vel með störfum nefndarinnar. Þar ræddum við mikið um þann frumskóg sem vörugjöld og tollar eru. Það var þinginu til vansa, og við ræddum það oft í efnahags- og viðskiptanefnd þingsins, þegar verið var að breyta ýmsum tollum og vörugjaldsnúmerum því að þá vissu menn í raun og veru ekkert um hvað var verið að tala. Þetta voru einhver númer á blaði. Síðan hefur ítrekað komið í ljós á þessu kjörtímabili að menn hafa gert mistök við setningu laga á Alþingi vegna þess að þeir fóru ekki ofan í þann frumskóg sem vörugjöld og tollar innihalda. Ég tel að það ætti að vera forgangsmál nýrrar ríkisstjórnar að ráðast í endurskoðun á frumskógi vörugjalda og tolla vegna þess að þar er ýmislegt sem ég tel að megi laga.

Við ræddum það meðal annars fyrr í dag, ég og hv. þm. Eygló Harðardóttir, hvaða áhrif vörugjöld og tollar hafa á ungt fólk. Það eru mjög háir tollar af byggingarvörum og af heimilistækjum, svo að dæmi séu tekin. Barnaföt lenda í þessum flokki líka en eins og við þekkjum þá hefur á þessu kjörtímabili stór hluti verslunar með barnaföt flust úr landi. Ég held að H&M sé stærsta barnafataverslun landsins, þ.e. við verslum mest við hana, en staðreyndin er að sú verslun er ekki með starfsemi hér á landi. Ungt fólk hefur í miklum mæli þurft að leita utan til að kaupa nauðsynjavörur á börn sín vegna þess að hér á landi er hæsti virðisaukaskattur á barnafötum í heimi. Þetta er nokkuð sem við framsóknarmenn höfum talað fyrir á þessu kjörtímabili að þurfi að leiðrétta. Tækifærin eru svo sannarlega til staðar vegna þess að með svo háum sköttum og háum álögum á nauðsynjavörur höfum við verið að flytja störf úr landi, með því að fólk skuli þurfa að fara utan til að kaupa þessar nauðsynjavörur hefur afgreiðslufólk á Íslandi ekki jafnmikið að gera við það að afgreiða íslenska kúnna þar sem þeir eru í Glasgow eða einhvers staðar annars staðar í Evrópu eða í Bandaríkjunum að versla þessar nauðsynjavörur. Við erum líka að sóa gjaldeyri þegar kemur að þessu vegna þess að margir fara utan einungis í þeim tilgangi til að versla þessar nauðsynjavörur.

Við þurfum líka að einfalda skattkerfið, eins og við framsóknarmenn höfum lagt til. Núverandi ríkisstjórn hefur því miður farið í mjög langa skógargöngu þegar kemur að breytingum á skattkerfinu. Gríðarlega umfangsmiklar breytingar hafa átt sér stað á umhverfi fyrirtækja í landinu. Skyldi það vera ástæða þess að við ræðum það hér í dag að ívilna atvinnulífinu með því að fresta gjaldtöku á vörugjöldum, tollum og virðisaukaskatti eins og við erum ítrekað að gera? Þetta átti í raun og veru að vera einskiptisaðgerð, en því miður er staða íslensks atvinnulífs og þá sérstaklega lítilla og meðalstórra fyrirtækja slík að þetta er nauðsynlegt.

Það er líka mjög há skattlagning á atvinnu í landinu með háu tryggingagjaldi sem atvinnulífið hefur þurft að borga, nokkuð sem er ekki æskilegt. Við höfum horft upp á að fólki á atvinnuleysisskrá hefur fjölgað mjög mikið og fólki í tímabundnum verkefnum á vegum sveitarfélaga líka þannig að atvinnuþátttaka almennt í landinu hefur minnkað á þessu tímabili samhliða því að fólk hefur flutt úr landi og náð í störf við sitt hæfi í öðrum löndum. Allt er þetta verkefni sem næsta ríkisstjórn þarf að takast á við að vinda ofan af. Tækifærin eru svo sannarlega fyrir hendi. Við höfum fengið margar skýrslur og úttektir í hendur að undanförnu sem hafa sýnt okkur sanninn um það að hægt er að breyta þeirri slæmu þróun sem hefur verið á þessu kjörtímabili.

Varðandi einföldunina gagnvart litlum og meðalstórum fyrirtækjum þá nefndi ég það í stuttu andsvari við Eygló Harðardóttur, þingmann Framsóknarflokksins, fyrr í dag að til að setja á fót sjoppu hér á landi þyrfti um 15 leyfi. Það tekur þvílíkan tíma fyrir einstakling sem vill hefja lítinn atvinnurekstur að fara í gegnum þann frumskóg sem íslenska stjórnkerfið er. Allt þetta þurfum við að einfalda vegna þess að það útheimtir verulegan tíma hjá einyrkjum og þeim sem reka lítil fyrirtæki að fara í gegnum þann frumskóg sem þessar leyfisveitingar eru. Upp hafa komið hugmyndir um það að hafa einhvern einn stað í kerfinu sem hægt er að leita til þar sem þessara leyfa er aflað í stað þess að þurfa að fara á milli mismunandi aðila í kerfinu. Allt eru þetta málefni sem ég tel að ný og kraftmikil ríkisstjórn með fólki sem hefur skýra framtíðarsýn eigi að ráðast í.

Það er líka ákveðið áhyggjuefni að horfa upp á þann hvata sem mér finnst einkenna íslenskt efnahagslíf og við höfum séð í kjölfar hrunsins og reyndar fyrir hrun. Ríkisstjórnin hefur hækkað virðisaukaskatt, vörugjöld og tolla á mismunandi vörur, sem ég ætla að koma hér inn á á eftir. Hún hefur ráðist í slíkt til að afla meiri tekna fyrir ríkissjóð. Þær aðgerðir hafa þau áhrif að verðlag í landinu hækkar vegna þess að með hærri virðisaukaskatti hækkar verð á ýmsum nauðsynjavörum sem fer út í vísitöluna og eykur verðbólguna sem hefur áhrif á verðtryggð lán heimilanna. Um leið og ríkissjóður aflar sér einhverra tekna, segjum 10 milljarða sem dæmi, þá geta afleidd áhrif þeirra ákvarðana orðið margfalt hærri upphæð fyrir skuldug íslensk heimili vegna þess að verðtryggðar skuldir heimilanna eru um 1.400 milljarðar kr., að mig minnir, samkvæmt nýlegu svari sem hv. þm. Margrét Tryggvadóttir fékk í þinginu.

Þetta er heildarsamhengi hlutanna. Ég tel að við þurfum að hugsa hlutina upp á nýtt rétt eins og Framsóknarflokkurinn ályktaði á flokksþingi sínu nýlega. Ég finn heilmikinn hljómgrunn fyrir því í samfélaginu. Við horfðum nefnilega upp á það í kjölfar hrunsins að ríkisstjórnin sló skjaldborg um fjármagnið í landinu, fjármagnseigendur og kröfuhafa. Skjaldborgin var slegin um viðkomandi starfsemi en eftir sátu skuldug íslensk heimili með sárt ennið og hafa fengið sáralitla leiðréttingu sinna mála allt þetta kjörtímabil. Ljóst er að ný ríkisstjórn verður að ráðast í það verk ef við eigum að ná einhverri raunverulegri sátt í samfélaginu.

Af því að við erum að ræða hér um breytingar á tollum og vörugjöldum finnst mér vert að rifja upp ýmislegt sem þessi ríkisstjórn hefur beitt sér fyrir á kjörtímabilinu sem mér finnst sýna að hún sé ekki alveg í tengslum við raunveruleikann, a.m.k. sums staðar á landinu. Ég man eftir því að hafa staðið hér í ræðupúlti Alþingis og mótmælt því harðlega þegar þáverandi fjármálaráðherra, Steingrímur J. Sigfússon — ég held að hann hafi verið fjármálaráðherra þá, það er búið að breyta þessum ráðuneytum svo oft, en mig minnir að hann hafi svarað fyrir málið — hækkaði álögur á stærri bíla, þ.e. vörugjöld og tollar voru hækkaðir á innflutning á þeim bílum, sem leiddi það af sér að fólk víða um land, á norðausturhorni landsins, Vestfjörðum og suðausturhorni landsins, sem þarf að eiga fjórhjóladrifinn bíl til að komast á milli staða, þarf í fyrirliggjandi framtíð og um ókomna tíð, ef þessu verður ekki breytt, að greiða miklu hærri álögur til að eignast slík nauðsynjatæki. Ég vil kalla þetta nauðsynjatæki því að tíðarfar og samgöngur eru þannig hér á landi að í hinum dreifðu byggðum ekur fólk ekkert um á litlum Yaris yfir hávetur til að komast til vinnu eða aka börnum í skóla. Það er einfaldlega veruleikinn. Þessi ríkisstjórn beitti sér fyrir því að hækka álögur sérstaklega á hinar dreifðu byggðir hvað þessi mál áhrærir. Svo við tölum nú ekki um álögur á eldsneyti sem eru í sögulegu hámarki í dag og trúlega hefur ríkið aldrei fengið jafnháa krónutölu í ríkissjóð af eldsneytisverði og í dag. Hvað er lítrinn kominn í, 260–270 kr.? Það er orðið verulega mikið spursmál fyrir margan Íslendinginn ef hann ætlar að leggja land undir fót hvort hann hafi hreinlega efni á því að ráðast í ferðalag vegna þess að það kostar í einhverjum tilvikum, eins og að keyra austur á land, tugi þúsunda. Fyrir einn einstakling eru það heilmiklir fjármunir. Opinberar tölur hafa sýnt okkur að fólk hefur dregið saman í akstri vegna þess að opinberar álögur eru svo háar, sem hefur þýtt að tekjur ríkissjóðs hafa minnkað til muna. Það gengur einfaldlega ekki endalaust að hækka skatta út í hið óendanlega. Það kemur einhvers staðar niður á eftirspurninni. Í þessu tilfelli hefur fólk einfaldlega ekki efni á eða vilja til að nýta eldsneyti.

Allt hefur þetta haft mjög slæm áhrif á aðstæður, sérstaklega á landsbyggðinni, svo við tölum nú ekki um flutningskostnaðinn sem er að sliga margar byggðir. Ég man eftir því, það er orðið langt síðan, fyrir fjórum árum þegar margir af forvígismönnum ríkisstjórnarinnar komu eiginlega með það eina kosningamál að ráðast í að lækka flutningskostnað á landsbyggðinni. Á sama tíma horfum við upp á að álögur á eldsneyti hafa farið fram úr öllu hófi og verðlag þar af leiðandi líka.

Allt er þetta í samhengi við það sem við ræðum hér, um breytingu á tollalögum og lögum um vörugjald, vegna þess að þessar hækkuðu álögur hafa reynst atvinnulífinu mjög erfiðar á þeim tæpum fimm árum sem eru liðin frá hruni, þ.e. eftir að stjórnvöld fóru að breyta ýmsu er snertir tolla og vörugjöld, að ónefndum öllum breytingunum á skattkerfinu sem núverandi ríkisstjórn hefur ráðist í.

Bent hefur verið á að áfengisgjaldið, sem hefur hækkað ár frá ári, hafi leitt til þess að tekjur ríkisins af áfengissölu lækkuðu. Allt sýnir þetta okkur að við erum komin að endimörkum þess hversu langt er að ganga áfram í því að hækka álögur á heimilin og fyrirtækin í landinu.

Ég tek fram að við framsóknarmenn munum styðja það frumvarp sem við ræðum hér og ívilnar atvinnulífinu, sérstaklega litlum og meðalstórum fyrirtækjum sem hafa verið í heilmiklum erfiðleikum á undanförnum árum. Við styðjum frumvarpið rétt eins og í kjölfar hrunsins, en það á að koma til móts við erfiða stöðu fyrirtækjanna í landinu nú þegar hátt í fimm ár eru liðin frá hruni. Þetta sýnir okkur að sú stefna sem ríkisstjórnin hefur haldið fram í málefnum atvinnulífsins í landinu og reyndar heimilanna líka hefur beðið algert skipbrot. Nýrrar ríkisstjórnar bíður það verkefni að einfalda skattkerfið, lækka álögur á ákveðna vöruflokka til að koma hjólum atvinnulífsins aftur af stað. Það er nauðsynlegt og í raun og veru hafa flestir, til að mynda aðilar vinnumarkaðarins, bent á þá augljósu staðreynd. Það er þess vegna sem ég legg áherslu á þann málflutning sem við framsóknarmenn höfum viðhaft þegar kemur að málefnum atvinnulífsins og heimilanna í landinu.

Á komandi vikum og í lok aprílmánaðar mun þjóðin greiða atkvæði um hvaða stefnu hún vill meðal annars taka í efnahagsmálum, málum er snerta atvinnulífið í landinu og heimilin. Ég trúi því ekki að umboð þeirra flokka sem hafa haldið utan um stjórnartaumana þegar kemur að málefnum atvinnulífsins og heimilanna í landinu verði endurnýjað. Við höfum horft upp á aðgerðaleysi og þegar stjórnin hefur farið í aðgerðir hafa þær því miður leitt til þess að skattkerfið hefur verið flækt og álögur verið auknar til mikilla muna, mun meira en atvinnulíf og heimili hafa þolað. Þess vegna hlakka ég til, og horfi á félaga Mörð Árnason í hliðarsal, sem er reyndar farinn núna, að sjá aðrar áherslur þegar kemur að efnahagsmálum landsins á næsta kjörtímabili.

Það er af mörgu að taka og tækifærin eru svo sannarlega til staðar. Þetta er spurning um að nýta þau tækifæri sem eru fyrir hendi. Þau höfum við í ferðaþjónustu, orkuiðnaði, sjávarútvegi, landbúnaði og mannauðnum sem við búum að. Öll þau tækifæri sem 300 þús. manna samfélag hefur skulum við nýta á næsta kjörtímabili. Þess vegna samþykkjum við að þessu sinni að ívilna fyrirtækjum sem eru í miklum vandræðum með því að fresta gjalddögum af opinberum gjöldum. Vonandi verður þetta í síðasta skipti sem við þurfum að leggja slíkar tillögur fram vegna þess að með almennum aðgerðum í efnahagsmálum, í atvinnumálum munum við snúa þessari þróun við, fjölga störfum, bæta hag fyrirtækjanna í landinu sem þannig geta vonandi farið að greiða hærri laun til fólksins og gert Ísland að því fyrirmyndarþjóðfélagi sem það á að vera og þannig munum við vonandi líka geta stuðlað að því að styðja við heilbrigðiskerfið, velferðarkerfið sem við viljum vera stolt af. Það er verkefni nýrrar ríkisstjórnar. Ég vona svo sannarlega að mitt fólk í Framsóknarflokknum fái aðkomu að þeim verkefnum sem fram undan eru vegna þess að vinstri flokkarnir hafa því miður ekki séð ljósið þegar kemur að uppbyggingu atvinnumála í landinu. Það er því mikilvægt að þeir flokkar sem leggja áherslu á þau mál komist að og verði í meiri hluta á næsta kjörtímabili, alla vega er það mín von að svo verði.

Ég get ekki lýst yfir ánægju með þetta frumvarp vegna þess að hér er verið að bregðast við óviðunandi stöðu hjá atvinnulífinu í landinu. Ég vona að þetta sé í síðasta skipti sem slíkt frumvarp verður lagt fram því að vonandi mun bjartari tíð taka við í íslensku efnahagslífi.



[15:52]
Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Hann kom inn á það sem blasir við öllum sem skilja og vilja skilja en það er mikilvægi atvinnuuppbyggingar og atvinnusköpunar til að hægt sé að standa undir velferðarkerfinu í landinu.

Hv. þingmaður kom í ræðu sinni inn á skattahækkanir sem snúa að vörugjöldum og tollum á bíla og áhrif þeirra. Því langar mig að spyrja hv. þingmann hvort hann hafi ekki áhyggjur af því að ríkisstjórnin hefur í raun og veru hefur gert atlögu að öllum undirstöðuatvinnuvegum þjóðarinnar. Það endurspeglast í nánast engri atvinnuvegafjárfestingu sem kemur fram í hagspá og þær tölur staðfesta afleiðingarnar af þessari stefnu ríkisstjórnarinnar.

Nú var varað mjög við því að fella niður þær ívilnanir sem bílaleigurnar t.d. höfðu. Þær gerðu mönnum kleift að endurnýja bílana hraðar og ekki þurfti að setja svona hámarksgjald eins og var hér í eina tíð. Menn sögðu: Ef þessar ívilnanir falla niður þurfum við að setja hámark vegna þess að við getum ekki endurnýjað bílana eins hratt. Þá komu fram miklar áhyggjur um að þetta hefði mjög skaðleg áhrif á ferðaþjónustuna og uppbyggingu hennar á svæðum sem eru lengst frá höfuðborgarsvæðinu vegna þess að menn mundu setja ákveðinn hámarksfjölda kílómetra á dag. Útlendir ferðamenn mundu halda sig innan þeirra marka og keyra kannski bara í kringum Stór-Reykjavíkursvæðið, nánasta svæðið í kringum það, en færu ekki til að mynda á norðausturhornið, þar sem hv. þingmaður þekkir mjög vel til. Hefur hv. þingmaður áhyggjur af því að þetta verði reyndin eins og búið er að vara við? Þetta mun auðvitað torvelda þá atvinnuuppbyggingu sem einmitt sárvantar í hinum dreifðu byggðum á ystu stöðum úti á landsbyggðinni, eins og á Norðausturlandi.



[15:54]
Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég deili þessum áhyggjum með hv. þingmanni, kannski ekki hvað síst út af náttúrunni og náttúruvernd því að við horfum upp á það að þessi gullni hringur í kringum höfuðborgarsvæðið er löngu sprunginn. Það er þvílík ásókn ferðamanna í þær náttúruperlur að sumar hverjar liggja jafnvel undir skemmdum eins og við þekkjum. Þess vegna hefur það verið áherslumál margra, m.a. okkar framsóknarmanna, að efla ferðaþjónustu um allt land, dreifa ferðamönnum um landið.

Eins og hv. þingmaður bendir á getur breytingin gagnvart bílaleigunum leitt til þess að það verði minni straumur en ella til hinna dreifðustu byggða landsins sem eru hvað fjærst höfuðborgarsvæðinu, sem er kannski þvert á það sem ég hélt að við hefðum ætlað að stefna að. Það er eitt sem kemur mér mjög á óvart þegar við ræðum um atvinnumál vítt og breitt um landið. Ég tilheyri þeim flokki sem hefur viljað nýta orkuauðlindir landsins með skynsamlegum hætti til að byggja upp atvinnu og þá kannski sérstaklega að leyfa þeim svæðum sem búa að orkuauðlindum að fjölga störfum heima í héraði. Þá hafa ýmsir til vinstri, sérstaklega í Vinstri grænum, sagt: Við skulum nú ekki gera þetta, við skulum gera eitthvað annað. Og menn hafa spurt: Hvað er þetta annað? Þá hafa menn til að mynda sagt: Ja, ferðaþjónustan, horfið á þessa glæsilegu ferðaþjónustu.

Aðgerðir þessarar ríkisstjórnar, eins og hv. þingmaður benti réttilega á, gagnvart ferðaþjónustunni, kannski sérstaklega á síðustu mánuðum, hafa verið með þeim hætti að ekki er beinlínis verið að styrkja tilverugrundvöll eða uppbyggingu í ferðaþjónustu á landsbyggðinni. Við höfum heyrt að nýlegar aðgerðir ríkisstjórnarinnar hafi leitt til þess að menn hafi hætt við hótelbyggingar vítt og breitt um landið, sem leiðir til enn minni uppbyggingar en ella hefði getað orðið. Maður veltir því fyrir sér hvað sé orðið eftir af atvinnustefnu þessara stjórnmálaflokka.



[15:57]
Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svörin. Það er auðvitað mjög athyglisvert sem hv. þingmaður bendir réttilega á, þetta skilningsleysi stjórnvalda til atvinnuuppbyggingar og atvinnusköpunar og þar með atvinnuvegafjárfestingar og þar fram eftir götunum. Við getum tekið sjávarútveginn, stóriðjuna, ferðaþjónustuna — það er búið að gera atlögu að öllu.

Það sem er þó verst að mínu mati er þessi framkoma. Við munum alveg hvernig hefur verið komið fram við stóriðjuna, menn halda því fram að samningar hafi verið sviknir og ætla að fara í málaferli. Við þekkjum öll sjávarútvegsfrumvörpin sem ekkert samráð er um og fá alltaf falleinkunn, við þekkjum það allt saman.

Síðan virðast þessi stjórnvöld ekki læra neitt af reynslunni. Sjáum bara hvernig var komið fram við ferðaþjónustuna, hækkunum var bara skellt fram. Aðferðafræðin er alltaf sú sama, það er sett fram einhver risastór tala um alveg svakalega skattlagningu og svo er bakkað og sagt: Eruð þið enn að röfla yfir þessu? Þetta er ekki nema svo og svo mikið af því að við erum búin að lækka töluna frá þeirri sem við lögðum fyrst fram. Það er þetta viðhorf ríkisstjórnarinnar til atvinnuuppbyggingarinnar sem er auðvitað mjög slæmt.

Síðan sér maður fréttir erlendis frá þar sem þjóðhöfðingjar á Norðurlöndunum til að mynda koma fram á aðalfundum hjá atvinnulífinu og ávarpa þær samkomur og tala um hversu mikilvægt sé að atvinnulífið blómstri og dafni til að hægt sé að standa undir velferðarkerfinu, velferðarþjónustunni, hægt að greiða ellilífeyrisþegum, öryrkjum og allt sem því fylgir. Þetta er allt annað viðhorf.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann sé sammála mér um þetta skeytingarleysi. Núverandi stjórnvöld sem ráða ríkjum í landinu líta bara þannig á að það sé annarra að skaffa þeim tekjur, tekjur sem þau hafa vit á að þeirra mati til að ráðstafa. Það skiptir engu máli hvaða umhverfi þau eru að búa til, það er bara annarra að skaffa þeim tekjur.



[15:59]
Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður kemur í umræðu sinni um atvinnumál í landinu akkúrat að kjarna málsins, þ.e. hvernig ríkisstjórnin hefur komið fram gagnvart undirstöðuatvinnugreinum í landinu eins og sjávarútvegi, ferðaþjónustu, stóriðjunni, og kannski sérstaklega gagnvart sjávarútveginum og stóriðjunni. Mér finnst eins og þegar kemur fram skoðanakönnun með slæmri útkomu fyrir ákveðna stjórnmálaflokka þá komi forustumenn þeirra flokka fram og segi: Heyrðu, ég er hér í stríði. Ég er í stríði gagnvart einhverjum vondum útgerðarmönnum og vondri stóriðju.

Það er verið að ala á sundrungu og það af forustumönnum ríkisstjórnarinnar á tímum þar sem við ættum að vera með ríkisstjórn sem ætti að reyna að auka samheldnina í samfélaginu og segja: Við getum gert þetta saman. Nei, þess í stað, þegar stefna stjórnarinnar er komin í öngstræti, er komið fram og sagt: Við munum ekkert gefa eftir gagnvart þessum aðilum.

Hver er staðan eftir stefnubreytingu stjórnvalda í sjávarútveginum og skattlagningu þar? Hverjir eru það helst sem eru að hverfa út úr atvinnugreininni? Jú, það eru meðalstór fjölskyldufyrirtæki sem eru núna að selja kvóta sinn til stærri aðila innan kerfisins. Var það markmiðið með frumvörpum ríkisstjórnarinnar um kvótamálin að smærri og meðalstór fyrirtæki hrökklist út úr greininni? Var það markmiðið með stefnu ríkisstjórnarinnar gagnvart ferðaþjónustunni að koma í veg fyrir að heilu hótelin yrðu byggð upp vítt og breitt um landið?

Mér er stundum alveg fyrirmunað að skilja hvernig ríkisstjórnin hefur komið fram gagnvart atvinnulífinu í landinu. Það erum ekki bara við í minni hlutanum á Alþingi sem getum dæmt um þetta. Alþýðusamband Íslands hefur sagt sig úr lögum við þessa ríkisstjórn, vill ekki tala við hana, vill ekki eiga oftar orðastað við hana, og eins er með Samtök atvinnulífsins. Það erum því ekki bara við sem höldum þessu fram. Það er mér óskiljanlegt hvernig ríkisstjórnin hefur (Forseti hringir.) haldið á málum er snerta atvinnulífið í landinu.



[16:01]
Illugi Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Það mál sem hér er til umræðu um breytingu á tollalögum, lögum um vörugjald og lögum um virðisaukaskatt er jákvætt mál hvað það varðar að verið er að bregðast við erfiðri stöðu íslenskra fyrirtækja, erfiðleikum þeirra við að standa skil á sköttum og skyldum og reyna að gera þeim það auðveldara í framkvæmd. Það er rétt að hafa í huga að í raun og veru verður sami vandi áfram uppi þótt búið sé að dreifa gjalddögunum, vandamálin eru áfram hin sömu. Svona frumvarp er einungis leið til þess að lifa við vandamál, en leysir þau ekki. Þó við getum öll verið sammála um efni þess, enda sé ég ekki betur en að þingmenn úr öllum flokkum hafi skrifað upp á nefndarálitið, breytir það því ekki að þetta er plástur. Þetta er ekki lækning heldur leið til að lifa með vandamálunum. Það er auðvitað stóri vandinn í allri umræðunni að í stað þess að ráðast að rótum vandans með lagasetningu, of lítill hagvöxtur er vandinn sem við er að etja, þá reynum við að finna leið til að lifa með honum.

Ég vil reyndar taka undir þau sjónarmið og þær spurningar sem fram hafa komið hér í umræðunni um hvort ekki sé rétt að hafa fyrirkomulagið sem verið er að leggja til varanlegt, hvort nauðsynlegt sé að gera þetta á hverju ári. Það er skynsamlegt að reyna að hafa þetta sem hentugast og þénugast fyrir fyrirtækin. Ég sé ekki annað en að álit fjármála- og efnahagsráðuneytisins sé að þetta sé að kostnaðarlausu fyrir ríkissjóð, þá er um að gera að reyna að hafa kerfið og fyrirkomulagið eins liðlegt og hægt er, úr því það kostar ekki ríkissjóð í útgjöldum.

Aftur að stöðu efnahagsmála. Fyrirtækin eiga erfitt með að standa í skilum vegna þess að það eru gjaldþrot og samdráttur. Viðskiptavinir draga úr pöntunum sínum. Það verður minna umleikis, umsvifin eru minni. Þar með vex ekki kaupmáttur almennings. Hætta er á að þetta verði að einhvers konar vítahring sem er keyrður áfram af víxlverkan verðlags og launa. Því miður, virðulegi forseti, bendir margt til þess að við séum á leið inn í slíkt. Sá forni fjandi þessa lands, þessi margfræga víxlverkan, er farin að láta á sér kræla. Ég verð að segja, virðulegi forseti, að oft finnst mér eins og menn hafi gleymt hvað það var sem keyrði áfram þá þróun hér á árum áður.

Hvað var það, virðulegi forseti? Jú, menn lentu í því að launin hækkuðu umfram framleiðniaukninguna, það var ekki verðmætasköpun að baki launahækkunum sem keyrði fram verðhækkanir, sem kölluðu á gengislækkun, sem knúði fram verðhækkanir, sem kölluðu á launahækkanir, sem kölluðu á verðhækkanir, sem kölluðu á gengishækkun, svo gengisfellingu og svona gekk þetta hring eftir hring. Launin hækkuðu um hundruð ef ekki þúsundir prósenta en kaupmátturinn hreyfðist varla.

Það er það sem vofir yfir okkur, það er vandinn. Við erum að sigla inn í það, því miður.

Við þessu hefur ítrekað verið varað hér á Alþingi. Aftur og aftur hefur verið bent á að ef við breytum ekki um kúrs mun þetta fara svona og almenningur er löngu orðinn uppgefinn á þeim samdrætti sem verið hefur. Menn krefjast auðvitað hærri launa, bera sig saman við aðra, við þekkjum hinar frægu samanburðarstéttir þar sem menn skoða þær kjarabætur sem öðrum hefur tekist að vinna sér inn og gera kröfu um hið sama og jafnvel meira. Allt eru þetta þekkt stef. Eina leiðin út úr þessu er að breyta um kúrs og miða allt okkar starf við að auka framleiðsluna og auka framleiðnina þannig að hver klukkustund sem unnin er skili meiru en áður. Þannig getum við hækkað launin án þess að verðbólga hljótist af.

Ég get ekki orða bundist, virðulegur forseti, því mér finnst nákvæmlega enginn áhugi vera á stjórn efnahagsmála nú á lokadögum þessarar ríkisstjórnar. Það er eins og menn séu búnir að gefa þetta frá sér. Það er eins og menn hafi gefist upp á þessu verkefni og ætli sér bara að bíða kosninga. Virðulegi forseti, hver mánuður skiptir máli. Fram undan eru kjarasamningar á almennum markaði. Það þarf að undirbyggja þá. Áætlanir sem aðilar vinnumarkaðarins geta stuðst við þegar þeir setjast niður og semja um kaup og kjör þurfa að liggja fyrir. Áætlanir þurfa að vera til um það hvernig við ætlum að halda ríkisútgjöldunum innan þess ramma sem langtímaáætlun í ríkisfjármálum gerir ráð fyrir þannig að aðilar vinnumarkaðarins og allir aðrir geti séð hvernig menn ætla sér að fara með ríkissjóð. Ekki síður áætlanir um hvernig okkur mun takast það sem skiptir mestu máli, að láta hagkerfið vaxa og draga úr skuldsetningu ríkissjóðs um leið. Þetta er algjört lykilatriði.

Virðulegi forseti. Þótt ég sé afskaplega ánægður með að niðurstaða skuli vera komin varðandi fjárfestingar á Bakka, eftir henni hefur verið beðið mjög lengi, þá er það mál allt nokkuð til umhugsunar.

Virðulegi forseti. Langan tíma hefur tekið að fá fjárfesta til að koma þar inn. Nú hefur það loksins tekist, þá er áhugavert að skoða á hvaða forsendum og hvað þurfti til til þess að sá fjárfestir sem um ræðir tók slíka ákvörðun og var viljugur til að festa fé sitt í atvinnurekstri norður í landi. Það þurfti að fella niður tryggingagjaldið. Það þurfti að lækka tekjuskattinn niður fyrir þann ramma sem var lagt upp með varðandi ívilnanir í fjárfestingum.

Virðulegi forseti. Ég hjó eftir því að sérstaklega var tekið fram að menn gætu treyst því að 15% af þeirri prósentu sem lagt var upp með yrði ekki hnikað og ekki breytt. Menn hafa gefið nokkurs konar tryggingu fyrir breytingum á hinu pólitíska sviði, fyrir pólitískri áhættu.

Ríkisstjórnin ákvað að gera þetta. Hún ákvað að mæta þessu einstaka fyrirtæki með þessum aðgerðum. Hún ákvað að fella niður tryggingagjaldið og að lækka tekjuskattinn. Innan ríkisstjórnarinnar hefur myndast skilningur á því að til þess að fyrirtæki fjárfesti skiptir gríðarlega miklu máli hverjar álögurnar eru og hvert skattumhverfið er. Fyrir fyrirtæki sem þarf að ráða margt fólk í vinnu skiptir gríðarlega miklu máli hvert tryggingagjaldið er.

Um það hafði verið samið við aðila vinnumarkaðarins að tryggingagjaldið á almenn fyrirtæki á Íslandi yrði lækkað frá því sem nú er. Það er mjög mikilvæg aðgerð, þar með yrði kostnaður á hvern starfsmann lægri og þar með yrði auðveldara fyrir fyrirtæki að ráða fólk. Á þetta hefur margsinnis verið bent, en því miður var þetta ekki gert nema í tilfelli þessa eina fyrirtækis. Mér er skapi næst að halda að ástæðan fyrir því sé sú að forustumenn úr ríkisstjórninni settu sig inn í rekstrarforsendur þessa tiltekna fyrirtækis og áttuðu sig á því að til að þessi fjárfesting gæti átt sér stað þyrfti að koma til lækkun á sköttum og skyldum sem á fyrirtækin og fjárfestingarnar yrði lagt.

Virðulegi forseti. Málið er að það á ekki bara við um þetta fyrirtæki. Um leið og menn kynna sér málin, hefja sig upp úr átakastjórnmálunum, hefja sig upp úr einhvers konar hreintrúarstefnu um að það sé fyrirtækjunum hollt að borga sem hæsta skatta, það sé einhvers konar dyggð, átta þeir sig á því að það þarf að lækka álögurnar, rétt eins og menn áttuðu sig á því norður á Bakka.

Ég á mér þá ósk að ríkisstjórnin setjist niður með sem flestum fyrirtækjum á þeim dögum sem hún á ólifað og setji sig inn í fjárfestingaráætlanir þeirra. Þá er ég viss um að þar muni hún sjá nákvæmlega sömu mynd og blasti við á Bakka. Kannski er ekki nauðsynlegt að fella alveg út tryggingagjaldið eins og gert var í tilfelli Bakka, en með því að lækka það eins og um var samið og stefnt var að og með því að lækka álögur á fyrirtækin munum við fá aukna fjárfestingu. Þegar við fáum auknar fjárfestingar fáum við aukinn hagvöxt, aukna verðmætasköpun og þá getum við staðið undir hækkun launa. Þá þurfum við ekki lengur að ræða í þinginu um aðgerðir til þess að bregðast við fyrir fyrirtæki sem geta ekki staðið í skilum, sem eiga erfitt vegna þess að ekki er nægur hagvöxtur og vegna þess að samdrátturinn er á leiðinni.

Virðulegi forseti. Það er það sem við ættum að vera að ræða hér. Ekki plástra heldur lækningu, ekki að reyna að lifa með heldur að breyta.

Virðulegi forseti. Ég vil vekja athygli á tölum sem bárust frá Hagstofu Íslands í dag. Það sækir að mér sú hugsun að ríkisstjórnin hafi gefið frá sér alla stjórn efnahagsmála. Engra aðgerða er að vænta þaðan. Á sama tíma fáum við tölur um að hagvöxturinn á árinu 2012, sem við héldum að ætti að verða á bilinu 2,5–3% og lögðum til grundvallar í okkar áætlunum og okkar umræðu, var samkvæmt niðurstöðu Hagstofunnar 1,6%. Það er langur vegur á milli. Þegar maður skoðar tölurnar og horfir til baka og horfir á atvinnuleysistölurnar sést auðvitað að hagvaxtarhorfurnar voru ofmetnar, þær gátu ekki staðist.

Ég vek athygli á og rifja upp ummæli í Peningamálum Seðlabankans, þar sem því var velt upp hvort kerfisbundið ofmat á hagvexti gæti verið hér, meðal annars vegna þess að til þess að standa undir þeim hagvexti sem menn töldu að væri í pípunum þyrfti að vera um að ræða alveg gríðarlega mikla aukningu á framleiðni og engar sérstakar forsendur voru til að ætla að það væri framleiðniaukning á leiðinni.

Það reyndist rétt. Hagvöxturinn varð miklu minni en menn höfðu áætlað. Gríðarlegur munur er á því að hagvöxturinn sé 3% og hann sé 1,6%. Ef 1,6% hagvöxtur heldur áfram þá munum við sjá enn fleiri frumvörp um það hvernig við eigum að lifa með vandanum. Þá dugar ekki bara þetta, margt meira þarf til að hjálpa fyrirtækjunum að lifa með vandanum.

Virðulegi forseti. Hversu oft skyldi vera búið að tala um þetta hér úr þessum ræðustóli? Hversu oft skyldi vera búið að vara við þessu? Hversu oft skyldi vera búið að lýsa áhyggjum af því að atvinnuvegafjárfestingin er ekki að ná sér upp? Hún er allt of lág.

Auðvitað á maður ekki að draga stórar ályktanir út frá tölu fyrir einstaka ársfjórðunga. Það er hættulegt, virðulegi forseti, menn geta ekki dregið of miklar ályktanir út frá slíku. Þó er þess virði að nefna að í frétt Hagstofunnar frá því í morgun kemur fram að fjárfestingin hafi dregist saman um 23% á 4. ársfjórðungi ársins 2012. Enn og aftur. Ekki er ástæða til að draga um of ályktanir af slíkum tölum. Það segi ég, virðulegi forseti, að ég vildi að þetta hefði snúið akkúrat öfugt og við værum að ræða að það sé ekki ástæða til að vera of bjartsýnn út af slíkri tölu. En hér er það öfugt, virðulegi forseti, svo það er áhyggjuefni hver fjárfestingin hefur verið undanfarin missiri. Þetta er ekki að ganga.

Virðulegi forseti. Þetta er einfalt mál. Ef fjárfesting atvinnuveganna fer ekki upp, ef hún eykst ekki að hundraðstölu miðað við þjóðarframleiðsluna, munum við ekki ná þeim hagvexti sem við þurfum. Þá mun þetta smám saman dragast saman, verða minna og minna og vandamálin í ríkisrekstrinum munu hrannast upp. Þetta verður erfiðara og þyngra með hverju missiri sem líður.

Virðulegi forseti. Það er hægt að breyta þessu. Þetta er ekkert lögmál. Þetta er ekki eitthvað sjálfgefið.

Á fundi Samtaka atvinnulífsins hér fyrir skömmu kom fram hjá forustumanni í atvinnulífinu að það væri tvennt sem virkilega væri vandamál hér hvað varðaði fjárfestingu. Annars vegar gjaldeyrishöftin — og ég fullyrði, virðulegi forseti, það er hægt að leysa það mál — og í öðru lagi pólitísk óvissa — það er alveg öruggt að hægt er að leysa það vandamál. Menn vita ekki og geta ekki treyst því hvaða rammi verður um efnahagsstefnuna og um skattamálin. Við höfum verið að rífast um alla stjórnarskrána undanfarin missiri og undanfarin ár, ekki bara einstaka þætti hennar, heldur alla stjórnarskrána. Það er og hefur verið hörð deila um auðlindaákvæðin sem eru grundvallaratriði fyrir allri efnahagsstarfsemi hér í landinu.

Til dæmis hefur verið lagt til, og hefur staðið hér lengi og er nýbúið að breyta þar út á, að taka ætti, eins og kallað var, fullt gjald fyrir öll afnot af auðlindum. Hvaða skilaboð eru það til þeirra sem fjárfesta í nýtingu auðlindanna ef löggjafinn er að hugsa um það í alvörunni að setja í stjórnarskrá að fullt gjald verði tekið? Án þess að útskýra það nákvæmlega, þannig að menn geta lesið að það þýði að allur arður af slíkri starfsemi verði innheimtur í ríkissjóð. Ætli menn verði viljugir til þess að fjárfesta til dæmis í skipum við slíkar aðstæður? Ætli menn hugsi sig ekki tvisvar um áður en þeir fjárfesta í nýjum vinnslulínum þegar þeir vita að annað eins geti hangið yfir þeim? Það er akkúrat þetta, virðulegi forseti, enn og aftur.

Hér erum við með frumvarp sem snýr að því hvernig við ætlum að lifa við vandann. Væri ekki meiri bragur að því að þessi ríkisstjórn notaði síðustu daga þingsins til þess að ræða við okkur um aðgerðir í efnahagsmálum, meðal annars í kjölfar þessarar niðurstöðu frá Hagstofunni? Ég og hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson, þingflokksformaður Framsóknarflokksins, höfum beðið um að hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra komi til þingsins og flytji skýrslu svo fljótt sem auðið má verða um þá niðurstöðu sem blasir við í tölum Hagstofunnar.

Það verður að bregðast við, virðulegi forseti. Það er ekki hægt, þó stuttur tími sé eftir af þinginu og þó stutt sé til kosninga, að segja: Við ætlum ekki að gera neitt. Við ætlum ekki að móta okkur neina stefnu við þessu, nein svör við þessu, við ætlum bara að láta reka á reiðanum. Það er ekki hægt að gera það, virðulegi forseti, því enn og aftur, fram undan eru kjarasamningar. Við vitum um þann óróa sem hefur verið hjá hinu opinbera hvað varðar kjaramálin. Við vitum að ef atvinnulífið getur ekki farið að treysta því að breytt verði um stjórnarstefnu og menn geti farið að vinna eftir fyrir fram settum leikreglum sem menn vita og geta treyst að standa, þá mun þessi vandi sem við er að etja magnast og aukast stig af stigi. Hagspár sem áður sögðu 3% rætast í 1,6%. Hagspár sem áður sögðu tvö komma eitthvað prósent munu rætast í einu prósenti. Svona gengur koll af kolli þangað til við sitjum alveg pikkföst og verðbólgan er á uppleið.

Þetta þarf ekki að vera svona, virðulegi forseti. Ísland á nefnilega heilmikil tækifæri. Það eru gríðarleg tækifæri og sóknarfæri í atvinnumálum þjóðarinnar, en þessi ríkisstjórn, virðulegi forseti, verður að fara. Ríkisstjórn sem byggir allt sitt á plástrum verður að fara.



[16:22]
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður kom raunar að nokkru leyti inn á það sem ég ætlaði að spyrja hann út í en ég hef þó áhuga á að fá ítarlegri skýringar á afstöðu hv. þingmanns. Spurning mín varðar þær nýju tölur sem birtust í gær, að mig minnir, um enduráætlaðan hagvöxt á síðasta ári. Þar var engin smáræðisskekkja, í stað þess að vera 2,5% reyndist hagvöxtur hafa verið 1,6%. Ríkisstjórnin státaði sig fyrst af því að hér yrði og síðan af því að hér hefði verið hagvöxtur upp á hátt í 3% á árinu 2012. Það reyndist alrangt.

Ég vil gjarnan fá hv. þingmann til að fara aðeins nánar í, þótt hann hafi komið inn á það eftir að ég bað um andsvar, hvort það kalli ekki í fyrsta lagi á viðbrögð og í öðru lagi endurmat á núverandi áætlunum. Þegar ég spyr um viðbrögð, hvaða viðbrögð kalla þau tilteknu tíðindi á?

Ég er sammála því sem hv. þingmaður hefur farið yfir í grófum dráttum, um mikilvægi þess að bæta aðstæður íslensks atvinnulífs. Ég ætla að fara betur yfir það í ræðu hér á eftir. Hvaða viðbrögð ætti þessi ríkisstjórn að sýna akkúrat núna á síðustu dögum þingsins við þeim alvarlegu tíðindum um að hagvöxtur hafi verið miklum mun minni á síðasta ári en gengið var út frá? Getur ríkisstjórnin brugðist við því með einhverjum hætti á þeim tíma sem hún á eftir? Hvernig ætti hún að bregðast við?



[16:24]
Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Best þætti mér auðvitað að ríkisstjórnin færi frá, kosningum yrði flýtt og ný ríkisstjórn kæmist til valda. Það sem slík stjórn þyrfti að gera strax er að kalla saman alla þá sem mestu skipta í efnahagslífi okkar og sannfæra menn um að þeir tímar séu liðnir að hringlað verði með skattkerfið, að stórkostlegur vafi verði uppi um hvernig staðið verði að nýtingu auðlinda og að öfgasjónarmið um margt muni ráða þar för. Sá tími sé liðinn þar sem allt verður endalaust í uppnámi í sjávarútvegi þjóðarinnar, hinum höfuðatvinnuvegi okkar Íslendinga, að á þingi verði á hverju einasta missiri fram lagt frumvarp til að kollsteypa allri umgjörð þess reksturs. Það muni ekki gerast aftur, og ekki á kjörtímabili nýrrar ríkisstjórnar, að fjármálaráðherra þjóðarinnar segi á fundi þar sem er verið að ræða skattamál, aðspurður hvort menn megi vænta frekari breytinga á skattkerfinu, með leyfi virðulegs forseta: „You ain't seen nothing yet“. Hann sagði það á enskri tungu til að tryggja að erlendir fjárfestar skildu alveg örugglega (Utanrrh.: Og er frægur fyrir.) að það væri þannig að menn gætu ekki treyst því að skattumhverfið á Íslandi sem þeir sæju yrði það sama áður en þeir fjárfestu og eftir að þeir fjárfestu.

Það eru svona hlutir sem skipta miklu máli, að menn treysti því að við stjórnvölinn séu stjórnmálaflokkar og ríkisstjórn sem byggja á festu, en reyna ekki og leggja ekki (Forseti hringir.) kapp á að hleypa öllu upp í loft og gera atvinnulífinu ómögulegt að stunda sínar fjárfestingar.



[16:26]
Forseti (Sigurður Ingi Jóhannsson):

Forseti vill beina því til þingmanna að tali þeir erlend tungumál eru þeir vinsamlega beðnir um að snara því jafnharðan yfir á íslensku. (IllG: Ég geri það ef ég fæ annað andsvar.)



[16:26]
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Líklega er það rétt mat hjá hv. þingmanni að einu skynsamlegu viðbrögðin, einu viðbrögðin sem eru líkleg til að koma að einhverju gagni andspænis nýjustu tölum um hagvöxt, séu þau að ríkisstjórnin fari frá og við fáum nýja ríkisstjórn fyrr en stefnir í.

Sem betur fer er ekkert mjög langt í að ríkisstjórninni verði skipt út á einn eða annan hátt, hvort sem hún fer sjálfviljug eða með kosningum. Það er vissulega rétt sem hv. þingmaður rakti ágætlega, bæði í ræðu sinni og ítrekaði svo í andsvarinu, að mikilvægt er að skapa stöðugleika fyrir íslenskt efnahagslíf.

Það má líka taka undir það sem hv. þingmaður benti á að í stað þess að skapa stöðugleika, sem á að vera eitt af meginhlutverkum stjórnvalda, hafa þessi stjórnvöld gert hið gagnstæða og skapað óvissu. Ég hef áhuga á að heyra álit hv. þingmanns á því. Óvissa og óstöðugleiki hafa verið sköpuð umfram það sem tilefni er til varðandi gjaldmiðilinn, krónuna. Finnst hv. þingmanni ásættanlegt fyrir íslenskt atvinnulíf að seðlabankastjóri landsins og fjármálaráðherra skuli ítrekað í viðtölum við erlenda fjölmiðla, og ekki hvað síst þá fjölmiðla sem skipta mestu máli í fjármálaheiminum, lýsa því yfir að krónan verði í höftum um ókomna tíð, gjaldmiðill landsins, sem það fólk vinnur við að vernda, sé ónýtur og enginn muni vilja fjárfesta hér á meðan gjaldmiðillinn er við lýði? Hvaða áhrif telur hv. þingmaður að það hafi þegar fólk í þeirri stöðu heldur slíku fram í viðtölum (Forseti hringir.) við fjölmiðla?



[16:29]
Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst að þýðingu orða hæstv. fjármálaráðherra sem hann lét falla á ráðstefnu um skattamál sem voru á enskri tungu, með leyfi virðulegs forseta: „You ain't seen nothing yet“. Efnislega mundi það kannski þýða: Þetta var ekkert, bíðið bara. (Gripið fram í: You ain't seen nothing yet.) Svona efnislega.

Hvað varðar spurningar hv. þingmanns til mín um yfirlýsingar hæstv. ráðherra og seðlabankastjóra vil ég taka fram að ég sá ekki betur en að alla vega hvað varðar eina frétt, þ.e. ummæli seðlabankastjóra á Bloomberg fréttaveitunni, hafi komið fram af hálfu seðlabankastjóra að ekki hafi verið haft rétt eftir honum (Gripið fram í.) í þeirri frétt. Ég reikna með að hv. þingmaður hafi verið að velta því fyrir sér.

Ég get alveg tekið undir það með hv. þingmanni að ummæli hæstv. ráðherra margra hverra, einkum og sér í lagi úr Samfylkingunni, hvað varðar stöðu íslensku krónunnar og framtíðarmöguleika okkar með þá mynt í farteskinu hafa ekki verið heppilegar og þá er ekki fast að orði kveðið.

Það er mjög nauðsynlegt að ráðamenn þjóðarinnar sýni að þeir hafi trú á framtíð þjóðarinnar, að þeir hafi trú á því að við getum byggt upp efnahagslífið með okkar eigin mynt. Öll umræðan um ESB strandar á þeirri einföldu staðreynd að þjóðin vill ekkert ganga í bandalagið. Það liggur alveg fyrir. Þá er það svo að við munum búa við íslenska krónu. Ég tel það reyndar heppilegast þegar allt er saman virkt, hún er ekki gallalaus en það eru minni gallar á henni en á því sem ég tel felast í því að ganga í myntsamstarfið innan ESB. Ég veit ekki einu sinni hvernig ESB mun þróast á næstu missirum og árum, ég hef ekki hugmynd um það. Það væri ábyrgðarhlutur að ganga í samband sem ég veit ekkert hvar endar.

Það (Forseti hringir.) er ekki bara að ég telji að koma þurfi á ró og stöðugleika heldur vísa ég líka til áherslu okkar sjálfstæðismanna í efnahagsmálum og efnahagstillagna sem við höfum (Forseti hringir.) sett fram um stöðu lítilla og millistórra fyrirtækja og nauðsyn þess að lækka álögur hér. Ég vil alveg sérstaklega segja (Forseti hringir.) að tryggingagjaldið sem var búið að lofa að lækka og hefur ekki verið staðið við þýðir (Forseti hringir.) áframhaldandi atvinnuleysi.

Virðulegi forseti. Ég biðst velvirðingar á tímanum sem ég hef farið fram úr.

(Forseti (SIJ): Forseti biður þingmenn um að virða ræðutíma.)



[16:32]
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér mál sem er nokkurs konar bráðabirgðaredding vegna þeirrar stöðu sem íslensk fyrirtæki eru enn í meira en fjórum árum eftir efnahagshrunið. Eins og hv. þm. Birkir Jón Jónsson benti á hér áðan er þetta líklega í fjórða eða fimmta sinn sem slíkt frumvarp er lagt fram. Hvað gefur það okkur til kynna? Jú, það er áminning um að þetta var í fyrstu hugsað sem bráðabirgðaráðstöfun til að bregðast við ástandi sem mundi lagast, þ.e. að menn þyrftu að fá dálítið svigrúm á meðan mestu erfiðleikarnir gengju yfir, svigrúm þangað til aðgerðir stjórnvalda færu að bera árangur og þess vegna var þetta sett á til skamms tíma. Sú staðreynd að menn skuli hafa þurft að setja þetta á aftur og aftur er sönnun þess að áformin og áætlanirnar um aukna hagsæld og meiri stöðugleika hafi ekki gengið eftir. Þær hafa brugðist aftur og aftur. Enda sjáum við, ef við rifjum upp áætlanir þessarar ríkisstjórnar og samstarfsmanna hennar hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum frá því í byrjun kjörtímabilsins, að áform um efnahagsuppbyggingu og stöðugleika hafa ekki gengið eftir þó að menn reyni enn þann dag í dag að halda því fram að árangur Íslendinga í efnahagsmálum, eða þessarar ríkisstjórnar, sé meiri en víðast hvar annars staðar.

Það er nú svolítil kaldhæðni í því að það er helst gert með því að bera Ísland saman við evrulöndin og þann vandræðagang sem þau eru föst í og sér ekki fyrir endann á. Ríkisstjórnin, sem er að reyna að komast inn í Evrópusambandið og evruna, réttlætir sjálfa sig með því að hér sé efnahagsástandið þó skárra en á evrusvæðinu. Það er svolítið kostulegt, virðulegur forseti. En í þessari umræðu gleymist hins vegar iðulega hvers vegna hagvöxtur er til að mynda þó heldur hærri hér en annars staðar. Reyndar sáum við í gær að jafnvel þær áætlanir sem fyrst var stefnt að, að jafnvel hinar uppfærðu áætlanir, gengu ekki eftir. Það sama á við með fjárlögin.

Því er haldið fram á hverju ári við gerð fjárlaga að stórkostlegur árangur sé að nást, en svo reynist hallinn á fjárlögum iðulega verða margfalt meiri, aftur og aftur á þessu kjörtímabili, en stjórnvöld höfðu haldið fram þegar þau fengu fjárlögin samþykkt. Svipað virðist vera uppi á teningnum varðandi hagvöxtinn. Það var ekki nema 1,6% hagvöxtur á síðasta ári, það eru ekki góð tíðindi fyrir fyrirtækin sem verið er að reyna að koma til móts við með þessu frumvarpi — koma til móts við að því leyti að verið er að gera þeim betur kleift að dreifa því að fást við vandann yfir lengri tíma, en það er ekki verið að leysa málin til langframa eða gera þeim mögulegt að ráða fleira fólk eða skapa meiri verðmæti. Þetta er enn ein frestunaraðgerðin.

Hvað þýðir 1,6% hagvöxtur? Hann endurspeglar í fyrsta lagi það sem við höfum reyndar séð nú þegar að fjárfesting hefur haldist í sögulegu lágmarki á Íslandi allt þetta kjörtímabil. Hann endurspeglar líka að hér hefur ekki náðst nokkur efnahagslegur árangur sem orð er á gerandi fyrir aðgerðir ríkisstjórnarinnar, heldur þvert á móti. Sá árangur sem þó hefur náðst, sá hagvöxtur sem þó hefur náðst, er til kominn vegna þess að makríll tók upp á því að fara að halda sig meira í íslenskri lögsögu en áður og gengi gjaldmiðilsins féll með þeim afleiðingum að útflutningur hefur styrkst til muna og birtist meðal annars í mikilli fjölgun erlendra ferðamanna. Jafnframt hafa stjórnvöld hvatt fólk og jafnvel sett fólk í þá stöðu að það neyddist til að nýta séreignarsparnað sinn. Sá hagvöxtur sem þó hefur náðst í landinu á undanförnum árum er því ekki til kominn vegna skynsamlegra aðgerða í efnahagsmálum eða skynsamlegrar stefnu, heldur þrátt fyrir þá stefnu sem hér hefur verið rekin, vegna ytri náttúrulegra áhrifa og vegna gjaldmiðilsins sem ríkisstjórnin talar svo illa um og reynir hvað hún getur að farga, þó það liggi reyndar ljóst fyrir, og hafi verið viðurkennt af Samtökum atvinnulífsins, Alþýðusambandinu og fulltrúum Samfylkingarinnar, í nefnd sem fór yfir framtíðarskipan gjaldmiðilsmála, að við mundum þurfa að styðjast við krónuna næstu árin að minnsta kosti.

Ef sú er raunin að við þurfum að styðjast við krónuna hlýtur það eiginlega að segja sig sjálft að menn muni þurfa að nota þann tíma til að renna traustari stoðum undir gjaldmiðilinn, skapa aukinn stöðugleika, svoleiðis að við þurfum ekki eina ferðina enn að greiða atkvæði um frumvarp eins og þetta, frumvarp sem er til þess ætlað að fresta vandanum.

Hv. þm. Pétur H. Blöndal nefndi í ræðu sinni áðan atriði sem er okkur hugleikið, það eru hin miklu földu útgjöld ríkisins. Það er mjög alvarlegt mál hvernig stjórnvöld hafa gengið fram í því að fela útgjöld sem í sumum tilvikum hafa fallið til, en eru í öðrum tilvikum fyrirsjáanleg í framtíðinni. Þau eru falin í fjárlögum og í langtímaáætlanagerð ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum. Ástæðan fyrir því að ég nefni þetta hér í tengslum við stöðu íslenskra fyrirtækja er sú að þegar menn neyðast til að horfast í augu við að þessi földu útgjöld séu staðreynd skerðir það enn svigrúmið til þess að stjórnvöld geti komið á eðlilegu ástandi, til dæmis hvað varðar opinbera fjárfestingu. Þau fyrirtæki sem hafa reitt sig á opinbera fjárfestingu — ég nefni sem dæmi úrbætur í samgöngumálum — hin ýmsu verktakafyrirtæki, í mörgum tilvikum tiltölulega lítil verktakafyrirtæki á landsbyggðinni, hafa átt mjög erfitt með að þrauka undanfarin ár vegna þess hversu lítil fjárfesting ríkisins hefur verið, en sú litla fjárfesting er afleiðing annars vegar af þeirri stefnu sem stjórnvöld reka, hins vegar af efnahagslegri stöðu ríkisins. Það er því mikilvægt að menn horfist í augu við útgjöldin og viðurkenni þau svo hægt sé að gera áætlanir í samræmi við það, líka til þess að menn skynji mikilvægi þess að fara að skapa meiri verðmæti og breyta um stefnu, að menn átti sig á því hversu skaðleg sú stefna sem hér hefur verið rekin undanfarin ár hefur verið og hversu dýr hún hefur verið.

Hér vorum við til dæmis í gær að ræða frumvarp um almannatryggingar og lífeyrisgreiðslur. Þar kom í ljós í frumvarpinu sjálfu, í ábendingum frá fjármálaráðuneytinu, að þau áform sem þar voru kynnt og hafa lengi verið í bígerð og vilji verið fyrir, mundu þýða að áætlanir ríkisstjórnarinnar í ríkisfjármálum til næstu ára mundu ekki ganga eftir, stæðust ekki, væru rangar. Það sama á við um ýmis frumvörp sem hafa verið lögð fram hér að undanförnu og fela í sér útgjöld sem menn hafa ekki reiknað með í fjárlögum og annaðhvort falið eða ekki haft hugmynd um að þeir ætluðu sjálfir skömmu síðar að leggja fram í aðdraganda kosninga hin ýmsu útgjaldafrumvörp. Þetta er alvarlegt mál þegar fyrirtæki landsins búa við þá aðstöðu sem þetta frumvarp lýsir, aðstöðu sem kallar á reddingar ár eftir ár.

Það er ekki eins og ríkisvaldið hafi gert mikið annað fyrir fyrirtækin til að gera þeim kleift að starfa eðlilega, ráða fólk til vinnu og framleiða verðmæti en aðgerðir á borð við þessa, frestunaraðgerðir — því miður í þessu tilviki nauðsynleg frestunaraðgerð, en auðvitað hefðu menn átt að leggja meiri áherslu á að hugsa til framtíðar og búa til jákvæða hvata þannig að fyrirtæki gætu ráðið fleira fólk til starfa, gætu ráðist í fjárfestinguna sem er nauðsynleg til þess að skapa þau verðmæti sem ríkisvaldið mun þurfa að taka af til að geta staðið undir þeim skuldum sem ég kom inn á hér áðan.

Sú stefna sem hér hefur verið rekin leiðir til neikvæðrar keðjuverkunar og þetta frumvarp er afleiðing af því; nauðsyn þessa frumvarps er afleiðing af því, skulum við segja. Þetta er því miður ekki eina dæmið um frestunarnálgun ríkisstjórnarinnar þegar kemur að því að taka á vandanum. Þetta birtist okkur á öllum sviðum. Álframleiðendur voru til dæmis látnir greiða skatta fyrir fram mörg ár fram í tímann. Einhvern tímann hefðu það nú þótt tíðindi, virðulegur forseti, ef ríkisstjórn sem Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefði ekki átt aðild að hefði tekið upp á því að semja við álframleiðendur um að þeir greiddu skatta mörg ár fram í tímann, vel inn á næsta kjörtímabil. Skattar sem áttu að falla til á næsta kjörtímabili — að sú ríkisstjórn sem nú situr, eða situr á tilteknum tíma, skuli taka þá skatta, eitthvað hefðu þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs sagt ef ríkisstjórn sem þeir hefðu ekki átt aðild að hefði gert slíkt.

Menn létu ekki þar við sitja, gengu lengra, gengu á lagið og sviku þá samninga sem gerðir höfðu verið, þau loforð sem voru ástæðan fyrir því að stóriðjufyrirtækin féllust á greiða þessa skatta alla fyrir fram. Þetta er í fyrsta lagi mjög ósvífið, virðulegur forseti, en þetta er líka mjög efnahagslega skaðlegt, vegna þess að það ýtir undir þessa óvissu sem við höfum rætt töluvert í dag í tengslum við þetta mál, þessa pólitísku óvissu sem er ein helsta hindrunin þegar kemur að því hvort ráðast eigi í fjárfestingar eða ekki. Það er hin pólitíska óvissa og reyndar líka óvissa um orku í sumum tilvikum, orkuöflun, sem veldur því að menn hafa ekki verið reiðubúnir að ráðast hér í fjárfestingu og ráða nýtt fólk til starfa til viðbótar við þetta óhagstæða skattumhverfi sem ég ætla að koma aðeins inn á á eftir. Því er svo haldið fram að þetta sé allt vegna gjaldmiðilsins, þess vegna hafi fjárfesting verið þetta lítil.

Ef við lítum á staðreyndirnar sjáum við að þetta er ekki rétt. Fjöldinn allur af raunhæfum, litlum, meðalstórum og stórum fjárfestingarverkefnum hefur verið til skoðunar hér undanfarin ár, en hvað eftir annað hafa menn hætt við, annars vegar vegna óvissunnar um orkuöflun og hins vegar vegna pólitísku óvissunnar, sem birtist ekki hvað síst í endalausu hringli með skattkerfið og jafnvel tali um þjóðnýtingu — tali um þjóðnýtingu sem hvergi annars staðar í Evrópu væri rædd í stjórnmálum nú til dags. Það dytti engum það í hug.

Það þarf að leita miklu lengra til að finna lönd þar sem umræðan hefur verið á því stigi sem hún hefur stundum verið hér af hálfu þessarar ríkisstjórnar þegar kemur að atvinnulífinu og atvinnuuppbyggingu. Við sáum það nú síðast þegar nokkrir þingmenn stjórnarliðsins sáu ástæðu til að snúa gjörsamlega út úr tilraun framsóknarmanna til þess að leggja til skynsamlegt ákvæði um þjóðareign í stjórnarskrá, til þess einmitt að hámarka ávinning þjóðarinnar af náttúruauðlindum sínum, því var snúið algjörlega á hvolf. En mér skilst reyndar, sem betur fer, að þessir stjórnarliðar hafi fengið skýringar á því hjá lögfróðu fólki úr eigin flokkum að upphlaupið hafi verið algjörlega á röngum forsendum og að tillagan væri nú kannski ekki svo slæm. Þetta er bara nýjasta dæmið af endalausri röð uppákoma þar sem menn rjúka upp til handa og fóta með ofsafengnu orðavali og öfgakenndum skoðunum og fæla burt alla þá sem hugsanlega hefðu áhuga á að fjárfesta hér í því að auka framleiðslu og fjölga störfum. Stöðugleikinn er grundvallaratriði til að snúa þessari þróun við.

Reyndar kveður nú svo rammt að tilhneigingu stjórnvalda til að ýta undir óvissu frekar en stöðugleika að jafnvel undirstöðuatvinnugreinar þjóðarinnar, þær greinar sem hafa þó verið að halda uppi verðmætasköpuninni í gegnum efnahagsþrengingarnar, verðmætasköpuninni sem nauðsynlegt er að byggja nýsköpunina á, hafa ekki aðeins orðið skotspónn stjórnvalda, heldur í sumum tilvikum beinlínis verið lagðar í einelti. Stefnan hefur ekki verið til þess fallin að auka verðmæti, augljóslega ekki, en ekki heldur til þess fallin að ná fram auknum fjölbreytileika í atvinnulífinu, eða félagslegu réttlæti. Þvert á móti.

Tökum sem dæmi nálgunina í veiðigjaldinu. Þar var notast við fyrirkomulag sem hefur leitt til þess að minni fyrirtæki í sjávarútvegi, lítil fjölskyldufyrirtæki til dæmis, eru sett í vonlausa stöðu þar sem þau þurfa að borga hærri gjöld út af þessu nýja veiðigjaldi en nemur hagnaðinum, þau eru sett í þá stöðu að þurfa að borga með sér, það er ódýrara að hætta rekstri. Þannig eru slík fyrirtæki sett í þá stöðu að neyðast til þess að selja eða að minnsta kosti er skapaður mikill þrýstingur á að þau verði seld stærri fyrirtækjunum. Afleiðingin verður sú, ef fram heldur sem horfir eins og stefnan hefur verið, ef hún héldi áfram, að sjávarútvegsfyrirtæki á Íslandi yrðu örfá og stór. Það er afleiðingin af hinni miklu stefnubreytingu þessarar ríkisstjórnar í sjávarútvegsmálum. Birtingarmyndin er hér: Enn og aftur nauðsyn að gefa fyrirtækjum svigrúm til þess að fresta greiðslu opinberra gjalda.

Annar mikilvægur þáttur í þessu með stjórnmálalegan stöðugleika er, eins og ég kom nú aðeins inn á, skattkerfið. Þar er nú varla hægt að tala um mikinn stöðugleika, þegar á einu kjörtímabili hafa verið gerðar, síðast þegar var talið, yfir 200 breytingar á skattkerfinu og auðvitað fyrst og fremst til hækkunar skatta og aukins flækjustigs. Bara það að finna út úr því hvernig skattkerfið virkar til að geta staðið í skilum með alla hina nýju og háu skatta — bara sú vinna er orðin mjög stór útgjaldaliður hjá mörgum fyrirtækjum, sérstaklega þeim minni og meðalstóru sem þurfa að ráða til sín sérfræðinga eða láta starfsmenn sína vera meira og minna upptekna í vinnu við að finna út úr því hvernig í ósköpunum þeir eigi að standa í skilum samkvæmt nýjustu breytingum á kerfinu, fyrirtæki sem gætu ella verið að vinna við að búa til verðmæti sem hægt væri að skattleggja á tiltölulega einfaldan og skynsamlegan hátt.

Það er ekki bara skattkerfisflækjurnar sem hafa sett okkur í þessa stöðu og leitt fram þetta frumvarp í enn eitt skiptið, það eru líka aðrar flækjur sem fyrirtæki þurfa að fást við. Mér sýnist, virðulegur forseti, að ég verði að taka þann þátt fyrir í næstu ræðu, vegna þess að allt í einu er tími minn svo gott sem á þrotum. Þess vegna bið ég virðulegan forseta um að setja mig aftur á mælendaskrá, því að ég er nú rétt búinn að komast í gegnum innganginn og á eftir að fjalla um fjölmörg atriði önnur sem varða þetta frumvarp og ástæðurnar fyrir því að menn neyðast til að leggja það fram hér — ástæðurnar fyrir því að menn eru enn í frestunaraðgerðum í stað þess að vera komnir í sóknaraðgerðir.



[16:52]
Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Hann minntist einmitt á hversu mikilvægt er að skilaboð stjórnvalda séu skýr og að þessi pólitíska óvissa væri ný hjá stjórnarflokkunum og margir hæstv. ráðherrar gerðu sér ekki grein fyrir hvað hún þýðir.

Hv. þingmaður nefndi nokkuð mjög athyglisvert sem var þegar hæstv. ráðherra stóð í tröppum Stjórnarráðsins og sagði: Jú, það er reyndar rétt að þegar Geysir Green Energy keypti hlut í Orkuveitunni á Suðurnesjum var það niðurstaða sérstakrar nefndar sem var lögskipuð um það að kaupin hafi verið gerð á réttan hátt. Þá kom setningin: Við erum að spá í að skoða þjóðnýtingu.

Það hefur engin smá áhrif út á við. Ég man að ég heyrði í kunningja mínum sem þekkti mann sem starfar við að kynna erlendar fjárfestingar í Kanada. Hann spurði mig hvor við værum orðin endanlega brjáluð að senda svona skilaboð. Það er náttúrlega alveg grafalvarlegur hlutur að hæstv. forsætisráðherrann skyldi standa á tröppum Stjórnarráðsins árið 2013 og tala um þjóðnýtingu.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann sé mér ekki sammála um hversu mikilvægt er að þeir sem stýra landinu á hverjum tíma skynji mikilvægi þess að reyna að hlúa að atvinnuuppbyggingunni, atvinnulífinu, alveg sama hvort það eru lítil fyrirtæki, stór eða meðalstór, í staðinn fyrir að vera alltaf í þessu stríði. Getur hv. þingmaður tekið undir það?

Við sjáum í endurskoðuninni á hagvaxtarspánum að gert var ráð fyrir 2,5% hagvexti á árinu 2012 og hæstv. forsætisráðherra er margbúinn að tyggja í þessum sal að við stöndum okkur svo vel að hagvöxturinn sé þessi. Niðurstaðan er komin og hagvöxturinn er 1,6%. Gæti það ekki verið hluti af skýringunni að auðvitað vantar alla atvinnuvegafjárfestingu, eins og svo margt annað?



[16:54]
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er ekki aðeins hluti af skýringunni heldur mjög stór hluti af henni. Svo rammt kveður að þeirri pólitísku óvissu sem er orðin að atriði á Íslandi að þegar erlendir fjárfestar taka ákvörðun um hvort þeir eigi að ráðast í verkefni hér reikna þeir sumir hverjir sérstakt pólitískt álag inn í, óvissuálag sem þýðir að þeir ætlast til þess að fá meira. Þeir þurfa að fá þeim mun meira út úr fjárfestingu sinni, þurfa að ná þeim mun meiri ávöxtun út úr landinu til að réttlætanlegt sé að ráðast í framkvæmdina vegna þess að pólitíkin er þannig að þeir geta lent í því að tapa öllu fyrir tilstilli stjórnvalda. Þau geta tekið upp á einhverri alveg nýrri stefnu sem gerir fjárfestinguna miklu óarðbærari eða jafnvel setur hana í þrot. Því krefjast fjárfestarnir þeim mun meiri ávöxtunar og nú er það komið á það stig að svo mikla ávöxtun þarf til að menn treysti sér til að taka áhættuna að fjárfesting er, eins og við sjáum, í sögulegu lágmarki, menn ráðast ekki í hana.

Á þessu kjörtímabili hefur Ísland fikrað sig upp lista yfir slíka pólitíska áhættu vegna þess að hún er mæld. Það eru stofnanir sem mæla og meta pólitíska áhættu fyrir fjárfesta í löndum um allan heim og nú hefur Ísland verið sett í hóp með löndum eins og Egyptalandi, þar sem er nýbúið að vera uppreisnarástand, Rússlandi og fjölmörgum Afríkuríkjum og Suður-Ameríkuríkjum. Það er eitthvað sem hefði verið óhugsandi á Íslandi fyrir ekki svo löngu. Vel að merkja er það ekki fyrst og fremst afleiðing af efnahagshruninu og tapinu sem hlaust af því heldur afleiðing af pólitíkinni sem hefur verið rekin (Forseti hringir.) síðan.



[16:56]
Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svörin. Mig langar að spyrja hann um skoðun hans á því hvort hæstv. ráðherrar og ríkisstjórn skilji í raun og veru ástandið sem er hér á landi. Við sjáum nýjustu tölurnar hagvaxtarspárinnar. Hér liggja fyrir frumvörp með kostnaðarmat inn í næsta kjörtímabil sem er ekki upp á milljarða heldur tugi milljarða þrátt fyrir að skuldsetning ríkissjóðs sé eins og hún er. Það er bent á í hverju frumvarpinu á fætur öðru, sem allir vita auðvitað, að ríkisstjórnin hefur ákveðna ríkisfjármálastefnu. Frumvörpin passa ekkert inn í hana sem þýðir að skuldastaða ríkissjóðs getur orðið ósjálfbær. Við vitum báðir að ríkissjóður greiðir um 90 milljarða í vexti á þessu ári og áætlað er að á næsta kjörtímabili verði þeir um 400 milljarðar, vaxtagjöld í skjóli gjaldeyrishafta og ef þau væru ekki fyrir hendi væru þeir miklu hærri. Samt eru þessar tölur lagðar fram.

Hv. þingmaður nefndi samninginn sem stjórnvöld gerðu við stóriðjuna á Íslandi um að greiða 1.200 milljónir á ári þrjú ár fram í tímann og greiða síðan til baka þessa 3,6 milljarða þegar næsta kjörtímabil hefst. Við erum að taka út séreignarsparnaðinn og svona mætti lengi telja. Við erum alltaf að velta byrðunum af þeim ákvörðunum sem er verið að taka yfir á næsta kjörtímabil og þarnæsta, í raun og veru á næstu ríkisstjórn og næstu kynslóðir.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann telji að hæstv. ríkisstjórn geri sér almennt grein fyrir því efnahagsástandi sem er hér á landi og þær hættur sem eru á mörkuðum, bæði erlendis og annars staðar, sem geta dregið úr því að hagvöxtur fari af stað? Getur verið að hæstv. ríkisstjórnin sé haldin svo miklu þekkingarleysi gagnvart uppbyggingu og þeirri stefnu sem er í efnahagsmálum að hún geri sér akkúrat enga grein fyrir því hver staðan er?



[16:58]
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta voru mjög áhugaverðar spurningar. Ég er feginn að hv. þingmaður skyldi spyrja mig vegna þess að þetta eru hlutir sem ég hef velt mikið fyrir mér upp á síðkastið og reyndar alllengi á þessu kjörtímabili.

Þegar maður horfir upp á ástand eins og það sem er ríkjandi í efnahagsmálum og þá stefnu sem stjórnvöld reka getur maður ekki annað en velt því fyrir sér hvort þau geri sér grein fyrir vandanum sjálf og eins hvort þau séu meðvitað að fresta honum, taka ekki á honum. Hvað seinni hlutann varðar, þ.e. frestunina, er það alveg rétt sem hv. þingmaður bendir á að stöðugt er verið að ýta vandanum á undan sér. Þar með stækkar hann fyrir framtíðina og margt verður erfiðara við upphaf næsta kjörtímabils en var í upphafi þessa kjörtímabils vegna þess að þá voru öll tækifærin til að taka á málum enn þá til staðar. Skuldir ríkisins hafa hrannast upp síðan.

Hvað það varðar held ég að það sé mjög meðvituð stefna hjá stjórnvöldum, þótt hún sé ekki yfirlýst, að fresta vandanum og láta einhverja aðra um að taka á honum, eins og birtist á fjölmörgum sviðum.

Hvað hitt varðar, skilning stjórnvalda á efnahagsástandinu almennt og hvað þurfi til til að laga það, hef ég komist að þeirri niðurstöðu að skilningsleysið sé alveg yfirþyrmandi. Maður sér svo oft í rökstuðningi stjórnvalda og þeim tillögum sem þau leggja fram að þau átta sig ekki á því hvernig hlutirnir virka. Ég tel jafnvel, og ég er komin á þá skoðun eftir langa umhugsun eins og ég nefndi í byrjun, að í stjórnarliðinu sé fólk sem haldi að verðmæti verði til með skattlagningu, að skattar búi (Forseti hringir.) til verðmæti.



[17:01]
Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breytingu á tollalögum, lögum um vörugjöld og lögum um virðisaukaskatt, með síðari breytingum. Við fyrstu sýn er þetta nú saklaust frumvarp. Þegar nefndarálitið er lesið sannfærist maður um að svo er. Fulltrúar allra flokka sem sitja í hv. efnahags- og viðskiptanefnd skrifa upp á það án fyrirvara.

Þegar maður síðan les frumvarpið og sérstaklega athugasemdir við það, sem stundum eru kallaðar greinargerðir, verður það svolítið áhugavert og gefur manni tilefni til að halda hér allnokkra ræðu þótt frumvarpið sé í sjálfu sér ívilnandi og jákvætt.

Það kemur hér fram, frú forseti, að tilgangur frumvarpsins sé að dreifa gjalddögum uppgjörstímabila á tvo gjalddaga í hvert sinn. Hér segir, með leyfi forseta:

„Lagt er til að síðari helmingi aðflutningsgjalda skuli skila eigi síðar en á 5. degi annars mánaðar eftir lok uppgjörstímabils. Einnig er lagt til að þetta fyrirkomulag skerði ekki heimild til að færa til innskatts allan virðisaukaskatt viðkomandi tímabils þótt einungis hluti hans hafi verið greiddur. Samhljóða breytingar hafa nokkrum sinnum áður verið lagðar til og var sambærileg breyting lögfest síðast með lögum nr. 18/2012.“

Hér kom fram í máli hv. þm. Birkis Jóns Jónssonar og reyndar einnig í máli hv. þm. Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar að trúlega væri þetta í fjórða ef ekki fimmta sinn sem þessi breyting er gerð.

Það er síðasta setningin í þessari athugasemd sem gefur manni tilefni til að fjalla um mál með almennum hætti. Með leyfi forseta, stendur þar:

„Frumvarpinu er ætlað að bregðast tímabundið við áframhaldandi greiðsluerfiðleikum fyrirtækja.“

Tímabundið. Í fjórða eða fimmta sinn. Það verður að segjast eins og er að metnaður ríkisstjórnarinnar til að koma til móts við fyrirtæki og heimili í greiðsluerfiðleikum er ekki mikill og hefur það reyndar verið staðfest í ýmsum verkum hennar á liðnum missirum og einnig í orðum og forgangsröðun verkefna nú þegar komið er að lokum kjörtímabilsins. Við erum komin að lokum kjörtímabilsins. Það eru örfáir dagar eftir og það eina sem ríkisstjórninni dettur í hug til að bregðast við áframhaldandi greiðsluerfiðleikum fyrirtækja er að dreifa gjalddögum á tvo.

Við framsóknarmenn lögðum í upphafi þessa kjörtímabils fram tillögur til að bregðast við greiðsluvanda fyrirtækja og heimila með því að leiðrétta lán þessara aðila um 20%, svokölluð 20% leið. Hún var ekki útfærð í öllum smáatriðum og fékk strax mjög léleg viðbrögð og döpur frá stjórnarflokkunum. Því miður, frú forseti, var sú leið ekki nýtt því að eftir á hafa margir sannfærst um að þetta hefði einmitt verið leiðin sem skynsamlegast hefði verið að fara. En hvaða leið fer ríkisstjórnin? Jú, hún leggur til tímabundna frestun í lok kjörtímabilsins. Viku áður en þingið er sent heim á að fresta gjalddögum tolla og vörugjalda. Það er leið ríkisstjórnarinnar.

Það hefur komið fram í umræðu á þinginu hjá okkur framsóknarmönnum að við höfum á hverju ári lagt fram tillögur til aðgerða í þágu ofskuldsettra heimila og ofskuldsettra fyrirtækja. Við höfum lagt fram á hverju ári tillögur sem lúta að því, því tíminn hefur auðvitað breytt aðstæðum. Við höfum lagt fram tillögur um að koma til móts við skuldsett heimili og fyrirtæki, meðal annars með því að nýta skattkerfið til að hvetja til hraðari niðurgreiðslu höfuðstóls. Við höfum lagt fram tillögur um að setja þak á verðbólguna sem er auðvitað hinn undirliggjandi vandi í efnahagskerfinu og veldur því að fyrirtækin komast ekki út úr erfiðleikunum. Verðbólgan er eitt af vandamálunum í efnahagskerfinu, ég kem inn á fleiri á eftir.

Við höfum lagt fram nú í aðdraganda kosninga hugmyndir um að við viljum afnema verðtryggingu á neytendalán og koma með ýmsum hætti inn í atvinnulífið til þess að örva það. Spurt hefur verið: Er þetta hægt? Ég segi: Já, það er hægt. Við treystum okkur til þess. Við höfum viljann til þess og við höfum staðfestuna. En hvað leggur ríkisstjórnin til? Hún leggur fram frumvarp um að fresta gjalddögum á tollum, aðflutningsgjalda og vörugjalda til að koma tímabundið til móts við áframhaldandi greiðsluerfiðleika fyrirtækja. Ekki er metnaðurinn mikill.

Hv. þm. Ásbjörn Óttarsson upplýsti í ræðu í gær að á síðastliðnum tveimur árum hefði verið á fjárlögum heimild ríkisstjórnarinnar til að nýta fjármuni til að kanna greiðslustöðu og skuldastöðu heimila og fyrirtækja. Hvorugt árið hefur ríkisstjórnin nýtt eina einustu krónu til að kanna þessar grundvallarstærðir sem gætu gefið til kynna hver staðan væri og hvað þyrfti að gera. Metnaðurinn var ekki meiri en svo.

Herra forseti. Hér leggur ríkisstjórnin til að fresta gjalddögum til að koma tímabundið til móts við greiðsluerfiðleika fyrirtækja.

Við framsóknarmenn höfum talað um að skynsamlegt sé að einfalda regluverkið og skattkerfið, þar á meðal þau vörugjöld sem við ætlum að fresta gjalddögum á. Ég held að við verðum að horfast í augu við að mjög mikilvægt er að einfalda regluverk í kringum lítil og meðalstór fyrirtæki, sem eru nú allflest fyrirtæki á Íslandi, sennilega 90%. Það þarf að einfalda regluverkið til að hjálpa nýjum fyrirtækjum að fara af stað og þegar fyrirtæki eru að hefja nýjar framleiðslulínur eða stækka. Við erum búin að byggja upp ótrúlega flókið regluverk í kringum litla hluti. Og við höfum líka talað um að nauðsynlegt sé að einfalda skattkerfið og höfum horft í því sambandi sérstaklega á tryggingagjaldið, með tilliti til lítilla og meðalstórra fyrirtækja.

Eftir fjögurra ára setu Vinstri grænna og Samfylkingar í ríkisstjórn sjáum við ekkert af þessu. Aftur á móti hafa þeir breytt skattkerfinu 200 sinnum, nánast alltaf til hækkunar. Það er mjög mikil óvissa og skattkerfið og regluverkið er orðið mjög flókið. Í lok þessa þings er eini metnaðurinn sá að breyta gjalddögum á aðflutningsgjöldum og vörugjöldum úr einum í tvo. Metnaðurinn er ekki meiri eða getan.

Við framsóknarmenn höfum talað um að hér þurfi að stokka upp, það þurfi nýja stefnu. Snúa verði frá því stefnuleysi og þeirri andstöðu við atvinnuuppbyggingu sem hefur ríkt á síðastliðnum fjórum árum. Hér þurfi að koma stöðugleiki í efnahagsmálin og líka í pólitíkina, því pólitísk óvissa hefur m.a. valdið því, frú forseti, að fyrirtæki hafa hætt við að koma hingað til lands og fjárfesta. Þau hafa hætt við að koma og það er kannski ekki skrýtið með 200 breytingar á skattkerfi á fjórum árum og alls kyns yfirlýsingar þar að lútandi.

Við höfum líka talað um að nauðsynlegt sé að efnahagsástandið verði stöðugra. Við þurfum að ná tökum á verðbólgunni, hinum undirliggjandi vanda í efnahag Íslendinga. Hvernig gerum við það? Það gerum við auðvitað með því að sýna aðhald og aga í rekstri.

En hvernig gerði Samfylkingin og Sjálfstæðisflokkurinn það á árunum 2007 eða 2008 þegar stofnuð var ný ríkisstjórn? Jú, meiningin var þá, í lok bóluhagkerfisins og samkvæmt kröfu Samfylkingarinnar eins og upplýst hefur verið, að stóru bankarnir yrðu áfram staðsettir á Íslandi og þeir ættu að halda áfram að stækka með tilheyrandi hruni sem við þekkjum.

Í útgjöldum ríkisins og því algera agaleysi í fjárlögum vegna ársins 2008, sem framsóknarmenn á þingi beittu sér hart gegn, jukust ríkisútgjöld um 20%. Í ráðuneytum Samfylkingarinnar um 38%. Þetta er agaleysi, frú forseti. Þetta er ólíklegt til að skapa stöðugt efnahagsástand enda höfum við séð afleiðingarnar af þessu nú þegar Samfylkingin hefur verið í stjórn í sex ár, með Vinstri grænum síðastliðin fjögur. Ástandið er litlu skárra. Nú erum við að fara í kosningar eftir fjögurra ára setu þessara flokka á ríkisstjórnarstóli og hvað hefur komið fram?

Á síðustu mánuðum hefur verið kynnt með miklum lúðrablæstri fjárfestingarstefna ríkisstjórnarinnar. Hver er hún? Jú, hún á að koma til útgjalda einhvern tímann seinna. Það á að standa undir þeirri fjárfestingu að stærstu leyti með veiðigjöldum sem eru lögð á sjávarútveginn og eru að leggja sjávarútveginn í rúst. Þannig á að færa peninga á milli, leggja eina atvinnugrein í rúst og færa peninga yfir í aðra. Það væri langt mál að útskýra hvernig staðan er þar.

Ég ætla að fara hraðar yfir sögu. Í gær eða fyrradag kom inn í þingið til 1. umr. frumvarp um almannatryggingar, lög sem er búið að vinna að sameiginlega í ein þrjú ár með mjög góðum markmiðum. En hvernig dettur ríkisstjórninni í hug að koma með þetta mál inn í þingið þegar hálfur mánuður er eftir af þinginu án þess að setja fram nokkra hugmynd um það hvernig á að standa undir gríðarlegum útgjöldum sem þar koma fram? Það er bara ávísun fram í tímann.

Í gærkvöldi átti að ræða frumvarp mennta- og menningarmálaráðherra um LÍN, Lánasjóð íslenskra námsmanna. Í því kemur fram, samkvæmt ráðuneyti mennta- og menningarmála, að kostnaðurinn við það sé rúmir 2 milljarðar. En að mati fjárlagaskrifstofu fjármála- og efnahagsráðuneytisins er kostnaðurinn 4 milljarðar. Hverju eigum við að trúa, óbreyttir þingmenn hér í salnum?

Þetta er eins og með hin málin, þau áttu að koma til framkvæmda seinna, útgjöldin áttu að koma einhvern tímann seinna.

Í gærkvöldi ræddum við mjög jákvætt mál. Loksins fjárfesting. Loksins fjárfesting í orkufrekum iðnaði úti á landsbyggðinni á norðausturhorninu sem menn hafa beðið mjög lengi eftir. En hvernig var það? Jú, öll útgjöldin koma til eftir að ríkisstjórnin er farin frá. Í haust eða á næsta ári og þarnæsta ári. Það er búið að bíða eftir þessu allt kjörtímabilið. Og var nú nokkur þörf á.

Hér hefur verið söguleg lægð í fjárfestingum, herra forseti. Hæstv. forsætisráðherra fór í umræðu við hv. þm. Sigmund Davíð Gunnlaugsson um vöxt fyrirtækja, ekki síst lítilla og meðalstórra, og stærði sig af því að fjárfestingar hefðu aukist um 25%, frá því að vera nánast ekki neitt í að vera 25% meiri. Engu að síður eru þær undir 50% að meðaltali síðastliðin mörg ár. Fjárfesting er sem sagt allt of lítil. Enda hefur komið í ljós að sá hagvöxtur sem metinn var upp á 2,5% hefur nú reynst vera 1,6%. Þær spár sem hingað til hafa verið lagðar fram hafa ævinlega verið leiðréttar og lækkaðar og lækkaðar. Þegar menn líta síðan í baksýnisspegilinn og skoða hinar raunverulegu tölur er ekki aðeins að sjá smáskekkju heldur ber næstum því heilt prósent á milli. Það skýrir margt um þá stöðu sem íbúar á Íslandi hafa upplifað, sem heimilin og fyrirtækin hafa upplifað sem hina raunverulegu stöðu, að hér væri ekkert að gerast, þrátt fyrir fagurgala ríkisstjórnarflokkanna, stjórnarþingmanna og hvað þá ráðherra.

Þetta veltir upp annarri spurningu, herra forseti. Við höfum talað fyrir því síðan þingmannaskýrslan kom fram, þingsályktunartillagan sem samþykkt var hér 63:0, að það þyrfti að vera einhver stofnun með hagfræðiþekkingu til starfa fyrir þingið, að við hefðum möguleika á að fá hagfræðilegar úttektir í anda þeirra sem við þekktum þegar hér var Þjóðhagsstofnun, af því að það virðist ekki vera hægt að treysta þeim spám sem koma frá Seðlabankanum eða fjármálaráðuneytinu. Það er rúmlega skekkja, það er stórkostlegur mismunur. Maður veltir því fyrir sér hvort þær hafi verið notaðar í pólitískum tilgangi. Þó getur það vart verið, því að sannleikurinn kemur að lokum fram og hann er dapur.

Þetta frumvarp, herra forseti, er sönnun þess að hér þarf að snúa við blaðinu. Við þurfum að auka hagvöxt mjög mikið, mun meira en við héldum og setja miklu fleiri verkefni í gang. En það jákvæða við stöðuna á Íslandi er að tækifærin eru alls staðar. Þau eru hringinn í kringum landið. Í sjávarútveginum er til að mynda gríðarleg nýsköpunargeta og geta til framleiðniaukningar ef greinin hefur möguleika á að nýta þá fjármuni sem hún skapar til að fara í nýsköpunarverkefni og framleiðniaukningu sem mun skila þjóðinni verulegum fjármunum, atvinnu og gjaldeyri.

Það sama má segja um landbúnað og orkufrekan iðnað. Það merkilega er að í atvinnugrein eins og loðdýrarækt, sem hefur nú verið talað illa um í langan tíma, skiluðu 21 eða 22 bú með loðdýr rúmlega milljarði í gjaldeyristekjur fyrir nokkrum árum. Núna tveimur, þremur árum síðar hefur búunum fjölgað um eitt eða tvö, en gjaldeyristekjurnar eru orðnar meiri en 2 milljarðar. Fiskeldi stórvex á sunnanverðum Vestfjörðum. Verið er að byggja talsvert stóra fiskeldisstöð á Reykjanesi sem er mjög áhugavert verkefni og ýmis önnur fiskeldisfyrirtæki, Íslensk matorka og fleiri hafa haft mikil jákvæð áform uppi um það hvernig má byggja upp glæsilega atvinnugrein sem mun skila okkur miklu í framtíðinni.

Hvað hefur ríkisstjórnin gert í því á þessum fjórum árum? Lítið. Og hvað lesum við hér? Það eina sem ríkisstjórninni dettur í hug til að bregðast við áframhaldandi greiðsluerfiðleikum fyrirtækja — og það er ekki skrýtið að það séu áframhaldandi greiðsluerfiðleikar, það hefur aldrei verið tekið á þeim. Fjárfestingu hefur verið haldið niðri. Hér hefur verið óstöðugleiki í efnahagsmálum, óstöðugleiki í hinu pólitíska ástandi. Búið er að flækja regluverk og skattkerfið sem allt hefur gert það að verkum að staða fyrirtækja hefur orðið sífellt erfiðari. Nei, það eina sem ríkisstjórninni dettur í hug er að fjölga gjalddögum úr einum í tvo á aðflutningsgjöldum og vörugjöldum. Þetta er auðvitað ekki gott.

Sóknarfæri okkar á Íslandi eru gríðarlega mörg. (Gripið fram í: Rétt.) Það hefur verið dapurt að hlusta á varaþingmann Samfylkingarinnar, forstöðumanneskju Samtaka verslunar og þjónustu, Margréti Kristmannsdóttur, þegar hún hefur komið fram aftur og aftur og hamrað á því að við eigum að versla í heimabyggð, við eigum ekki að fara til útlanda og versla — sem er eðlilegt — en síðan vilja sömu samtök fá að flytja allt inn og selja í íslenskum verslunum með íslensku starfsfólki erlendar afurðir. Það er með ólíkindum að við í þessu landi getum ekki sammælst um að besta leiðin til að komast út úr þeim vanda sem við erum í er að auka framleiðni, auka framleiðslu, auka gjaldeyristekjur og gera allt sem við getum til að spara þær og moka ekki þeim tekjum út aftur í óþarfainnflutning ef við getum framleitt vöruna á skynsamlegan og hagkvæman hátt innan lands.

En frestunarvandi ríkisstjórnarinnar er ærinn eins og ég hef farið yfir. Gripið hefur verið til alls kyns undarlegra ráða til að fela fjármuni í fjárlagafrumvörpum eða í fjárlagagerðinni, í ársreikningum ríkisins. Má þar benda á lífeyrissjóðina, A-deildina, Íbúðalánasjóð, Hörpuna, Sparisjóð Keflavíkur og Byr. En staðreyndin er sú, herra forseti, að þetta mál er jákvætt en það er bara agnarlítið hænuskref í því sem þarf að gera til að koma til móts við fyrirtæki í greiðsluvanda.



[17:21]
Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breytingar á tollalögum, lögum um vörugjald og lögum um virðisaukaskatt, með síðari breytingum. Í stuttu máli er verið að bregðast tímabundið — það er kunnuglegt orð, tímabundið, það hefur verið gert áður — við áframhaldandi greiðsluerfiðleikum fyrirtækjanna. Allir höfðu auðvitað skilning á því í kjölfar efnahagshrunsins að fyrirtækin lentu í miklum vandræðum. Þá var flutt sambærilegt frumvarp og svo þarf að bregðast við því aftur með þessum hætti. Það kallar á þá umræðu sem farið hefur fram um hversu mikilvægt er að skapa betra umhverfi fyrir fyrirtæki þannig að þau geti dafnað og vaxið í staðinn fyrir að það þurfi trekk í trekk að bregðast við greiðsluerfiðleikum fyrirtækja þegar við höfum öll tækifæri til þess að skapa umhverfi sem þau geta dafnað í.

Hv. þingmaður sem talaði á undan mér gerði það að umtalsefni undir lok ræðu sinnar og nefndi þar varaþingmann Samfylkingarinnar, Margréti Kristmannsdóttur, sem er í forustu fyrir Samtök verslunar og þjónustu. Ég vil byrja á því að taka upp hanskann fyrir þá ágætu konu vegna þess að hún hefur í málflutningi sínum fyrir Samtök verslunar og þjónustu bent á mikilvægi þess að taka til í vörugjaldaflokkunum og tollaflokkunum með það að markmiði að fyrirtæki sem eru í verslun og þjónustu geti dafnað og vaxið. Við þekkjum auðvitað mörg dæmi um hversu vitlaus tollalöggjöfin hefur verið. Í raun er hún heill frumskógur og verður að setjast yfir þá hluti strax í upphafi næsta kjörtímabils til að einfalda þá og hafa það líka að markmiði að fækka þeim tollaflokkum til að verslunin geti blómstrað. Við erum með hæsta virðisaukaskatt í heimi á barnaföt og við vitum alveg að fólk fer til útlanda til að kaupa barnaföt. Það hefur meira að segja fyrir flugfargjöldunum bara með því að kaupa barnaföt í töluverðu magni. Ákall hefur komið frá því ágæta fólki sem er í forustu fyrir verslun og þjónustu um að einfalda tollakerfið af því að það muni á endanum skila okkur versluninni heim. Það mun fjölga störfum í verslunum og að hægt verður að greiða hærri laun þar, sem hefur strax efnahagsleg áhrif. Okkur ber að hlusta á þetta ágæta fólk og bregðast við þeim ábendingum sem þaðan koma.

Fyrir nokkrum mánuðum var umræða um fyrirtæki sem flutti inn iPhone og hvað það heitir allt saman. Bent var á að það væri nánast engin verslun með þær vörur hér heima heldur keypti fólk þær í útlöndum. Síðan var því breytt og reyndar held ég að gengið hafi einhver kærumál áður en því var breytt. Fólk fór þá að geta keypt þessa hluti á sambærilegu verði hér á landi. Það leiddi af sér fleiri störf, betri afkomu verslunarinnar og þeirra sem störfuðu þar. Það þýddi meiri hagvöxt og hagsæld fyrir þjóðarbúið og landið í heild.

Ef við rifjum upp hvað gerðist síðasta haust við breytingarnar á tollalöggjöfinni var þá það auðvitað mjög dapurlegt og aðstæður erfiðar. Hv. þingmenn í efnahags- og viðskiptanefnd áttu samúð mína alla að þurfa að standa í þessum hlutum við þær aðstæður sem þar voru til að halda fundi, taka málin til umfjöllunar, gera breytingartillögur, taka málin aftur til meðferðar án þess að fara í umræður og gera aftur breytingartillögur við breytingartillögurnar því að frumskógurinn var svo mikill. Menn reyndu að meta áhrifin af breytingunum og gera sér grein fyrir því hvaða áhrif þær hefðu á vísitöluna og þar fram eftir götunum. Það er auðvitað alveg ömurlegt umhverfi og sannast það best á næsta máli sem er á dagskrá þar sem leiðrétta á mistök sem gerð hafa verið. Þau voru eflaust gerð vegna tímaskorts og vitleysu. Við verðum að passa núna á síðasta þinginu á þessu kjörtímabili að vera ekki með störukeppni hér allt of lengi heldur setjast niður og reyna að komast að samkomulagi um hvaða mál á að klára og ljúka þeim með eðlilegum hætti. Það er fullt af málum sem allir eru sammála um að klára og sem mikilvægt er að klára og það eru þau mál sem við eigum að snúa okkur að.

Síðan er það hreint með ólíkindum það umhverfi sem fyrirtækin og fjölskyldurnar búa við. Í tíð þessarar ríkisstjórnar hafa verið gerðar endalausar skattkerfisbreytingar. Búið er að breyta skattkerfinu upp undir 200 sinnum, eða ég veit ekki hver talan er orðin, vegna þess hringlandaháttar og vitleysu sem hér er. En ég held hins vegar að það væri mjög mikilvægt og gott að greina vöruflokkana og skoða hvernig við getum einfaldað þá.

Ég sé að hv. þm. Einar K. Guðfinnsson er kominn í salinn. Það er ágætt að rifja upp svokallað smokka- og dömubindafrumvarp sem var til umræðu í haust og alla vitleysuna í kringum það, sem var alveg hreint með ólíkindum. Hv. þm. Einar K. Guðfinnsson var búinn að tala um þetta frumvarp við mig í margar vikur áður en hæstv. velferðarráðherra uppgötvaði hversu vitlaust það var þó svo að komið hefðu fram ábendingar um það frá nefndinni í velferðarráðuneytið og er nú búið að fara yfir þær. En síðan þegar fjölmiðlar komust í málið var það dregið til baka. Það var ekki fyrr. Hv. þm. Einar K. Guðfinnsson var búinn að benda margsinnis á það en á það var ekki hlustað. Þegar fjölmiðlar komust loks í málið og bentu á alla vitleysuna og ruglið kipptu menn frumvarpinu allt í einu til baka og virtust ekki hafa hugmynd um hvað stóð í því, sem segir okkur auðvitað allt um þau vinnubrögð sem hér eru viðhöfð.

Síðan er það auðvitað spurning þegar menn gera aðför að fyrirtækjunum og hækka endalaust skatta á þau að þá lenda fyrirtækin auðvitað í erfiðleikum sem verið er að bregðast við hér, þ.e. áframhaldandi greiðsluerfiðleikum. Það er vegna þess að ekki eru nægileg umsvif í fyrirtækjunum til að standa undir greiðslum. Við verðum líka að átta okkur á að þau fyrirtæki sem hér er verið að hjálpa með því að fjölga gjalddögum, eru fyrirtæki sem starfað hafa í þessu lagaumhverfi áratugum saman en aldrei hefur þurft að bregðast við með þessum hætti fyrr en núna. Þó að ég hafi skilning á því að þurft hafi að gera það árið 2009 er auðvitað mjög ámælisvert að þess skuli enn þurfa árið 2013. Það ætti að bæta rekstrarumhverfi fyrirtækjanna þannig að ekki þurfi að breyta gjalddögum eins og hér er verið að gera. Það hefði auðvitað verið best ef ekki hefði ekki þurft að koma til þess og vonandi er það í síðasta sinn sem bregðast þarf við með þessum hætti.

Svo hef ég auðvitað mjög miklar áhyggjur af heildarmyndinni. Skilningsleysi ríkisstjórnarinnar er algert, það blasir við. Hæstv. forsætisráðherra hefur margsinnis komið fram og sagt: Ja, við höfum náð prýðilegum árangri í ríkisfjármálunum. Hagvöxtur er 2,5%, sem er mun meira en í mörgum löndum sem við berum okkur saman við. En síðan, þegar árið 2012 er gert upp, kemur í ljós að hagvöxturinn, sem spáð var í upphafi 2,5–2,7% og var lækkaður í 2,3% í fjáraukalögunum, er aðeins 1,6% þegar uppgjörið kemur. Það ferli minnir mig á það að þegar fjárlagafrumvarp er lagt fram er gert ráð fyrir ákveðinni niðurstöðu. Svo koma fjáraukalögin, þá kemur ákveðin niðurstaða og svo kemur ríkisreikningur, sem er uppgjör á rekstri ríkisins fyrir viðkomandi ár. Þá kemur þriðja niðurstaðan. Það verður sífellt verra og verra þannig að þetta lýsir með táknrænum hætti hver staðan er.

Lokaorð mín eru þessi: Það er mikilvægt að hlusta á fólkið sem er í forustu fyrir Samtök verslunar og þjónustu og þær ábendingar sem þaðan hafa komið um hvernig hægt væri að einfalda tollalöggjöfina og lækka tolla á sumum vörum til þess að auka umsvifin. Það gefur fólkinu sem við þetta starfar tækifæri til að ráða til sín fleira starfsfólk, greiða hærri laun og fara í uppbyggingu, sem er auðvitað mjög mikilvæg fyrir heildarumhverfi efnahagsmála í landinu.



[17:31]
Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Við erum að ræða mál um gjaldfrest á tollkrítinni, þ.e. tollum, vörugjöldum og virðisaukaskatti hjá innflutningsfyrirtækjum. Ég kom inn á það áðan í ræðu minni um málið að í raun væri verið að fara illa með tímann í þinginu, sem er dæmigert fyrir vinnubrögð hæstv. ríkisstjórnar og þá flokka að undirbúa þingið ekki betur en það að hér væri hægt að vinna markvisst að því ljúka þingstörfum á þeim fáu dögum sem eftir eru og einbeita kröftum okkar að mikilvægum málum.

Ekki má skilja orð mín svo að hér sé ekki um að ræða mikilvægt mál. Ég tel að málið sé mjög mikilvægt. Það hefur komið áður á borð okkar, árlega, þar sem við höfum þurft að endurnýja þau lög sem sett voru í kjölfar hrunsins til að liðka fyrir þeim fyrirtækjum sem flytja vörur til landsins í þeim erfiðleikum sem almennt einkenndu ástand hjá fyrirtækjum og heimilum í landinu. En ég tel að það hefði mátt horfa á málið miklu fyrr og í raun þurfi að horfa á það til lengri tíma. Eins og ég kom inn á í ræðu minni fyrr í dag um þetta sama mál skiptir þetta miklu fyrir ekki bara þau fyrirtæki sem standa í innflutningi heldur getur þetta haft mikil áhrif á verðmyndun innfluttra vara í landinu. Þetta er þáttur í því.

Auðvitað búum við við ákveðinn frumskóg þegar kemur að sköttum, tollum og vörugjöldum. Það er orðið mjög mikilvægt að fram fari endurskoðun á þeim þætti til að efla samkeppnisstöðu íslenskrar verslunar og ekki síður til að reyna að mæta óskum og kröfum neytenda um samkeppnishæfi íslenskrar verslunar gagnvart verslun í okkar helstu samanburðarlöndum. Við búum við ansi skerta stöðu í því sambandi. Þetta þekkir hæstv. forseti vel sem lengi var í verslunarrekstri á Siglufirði og reyndar viðskiptavinur minn til margra ára þar þegar ég var með öfluga innflutningsverslun. Ég man eftir að við áttum nokkur samtöl þar sem hann kvartaði yfir verðlagningu minni á vöru og krafði mig reyndar nokkuð ítrekað um lengri greiðslufrest hjá sínu fyrirtæki. Það var svo sem ekkert óeðlilegt af kaupmanninum á Siglufirði á þeim tíma. Þetta voru viðræður sem við tókum við kaupmenn úti um allt land.

Þegar við flytjum vörur til landsins — og eins og við vorum sérstaklega í viðskiptum um fatnað þá er það nefnilega þannig að vegna smæðar markaðarins á Íslandi lendum við mikið í því að tvöföld tollun verður á þeim vörum. Fyrst eru vörurnar, sem framleiddar eru mikið í Austurlöndum, tollaðar í Evrópu og vegna smæðar markaðarins treysta birgjar sér þar ekki til að setja vörurnar inn á frílager. Við þurfum því að borga þann toll og sá tollur er gjarnan um 8–12%, jafnvel upp í 15% í Evrópu, en síðan er þetta tollað aftur á Íslandi um 15%. Þetta skekkir auðvitað mjög samkeppnisstöðu íslenskrar verslunar.

Síðan er hitt að þeir sem standa í innflutningi reyna að safna saman stærri sendingum af því að flutningskostnaður hefur mikil áhrif á verðlag á innfluttum vörum á Íslandi. Flutningskostnaður er tiltölulega hár í margvíslegri neysluvöru, ekki er óalgengt að hann sé jafnvel um 10% af vöruverðinu. Þetta hefur náttúrlega allt saman bein áhrif á verðlagningu á vörunni og takmarkar í raun getu verslunarinnar til að standast þá samkeppni sem hún á í við sambærilegar verslanir og vöruverð, til dæmis í Evrópu. Það er því mjög tímabært og nauðsynlegt að fara í endurskoðun á tollalöggjöfinni og grisja þennan vörugjalda- og tollafrumskóg. Ég er þess sannfærður að jafnvel þótt við mundum fella niður mjög mikið af þessu og einfalda kerfið mundi það á endanum klárlega leiða til betra vöruverðs á Íslandi, aukinnar samkeppnishæfi íslenskrar verslunar og um leið aukinnar neyslu hér heima. Ég er alveg klár á því að þetta mundi leiða til aukinna tekna af til dæmis virðisaukaskatti fyrir ríkissjóð. Það er því allra hagur í raun að hraða þeirri vinnu sem mest verða má.

Gjaldfrestur er öllum sem standa í viðskiptum mikilvægur. Þegar íslensk innflutningsverslun er almennt að kaupa vörur af birgjum erlendis þá veita birgjarnir greiðslufrest. Hann getur verið mismunandi, almennt er hann kannski frá 30 upp í 60 daga gagnvart bankaábyrgð eða gagnkvæmu trausti þar sem viðskiptasambönd eiga sér kannski einhverja sögu. Síðan þegar innflutningsverslunin dreifir vörunni um landið — hún sinnir mikilvægu hlutverki í því að dreifa nauðsynjavöru um landið — þá þurfa þær verslanir sem kaupa inn vöruna að fá sinn greiðslufrest. Það íþyngir mjög íslenskri innflutningsverslun að þurfa að greiða aðflutningsgjöld, tolla, vörugjöld og virðisaukaskatt mjög fljótlega eftir að varan kemur. Það bindur mikið fé, menn reyna að taka inn stærri sendingar þannig að lagermyndun verður ansi dýr og er þessum fyrirtækjum oft mjög þungbær í rekstri. Ég tel þess vegna að nauðsynlegt sé að endurskoða þennan þátt til lengri tíma og aðlaga hann meira að þörfum innflutningsverslunar og dreifa jafnvel gjalddögum á lengri tíma en við erum jafnvel að horfa á hér. Hann væri svona meira til samræmis við það hvernig flæðið í viðskiptum gengur fyrir sig á markaði. Það mundi hjálpa íslenskri verslun, innflutningsfyrirtækjum og þeim verslunum sem kaupa vörur beint erlendis frá og búa við sömu íþyngjandi þætti í rekstri sínum eins og hin almenna innflutningsverslun eða heildsalar, eins og við köllum það.

Það er erfitt fyrir verslanir, ef við höldum okkur áfram í þessum fatageira, sem taka jafnvel vörur beint frá birgjum erlendis, þær panta þá vöru á haustmánuðum, ágúst, september, og varan er að koma núna í verslanir. Varan kemur kannski í janúar, febrúar og fram í mars og eitthvað kannski lengra fram á vorið. Þetta eru vörur sem eru að seljast alveg fram á sumar og fara ekki á útsölu fyrr en kemur fram í lok júní eða júlí.

Það gefur augaleið að sú fjárbinding sem þetta tollaumhverfi skapar leiðir einfaldlega til hærra vöruverðs. Þetta þýðir að fjármagnskostnaður og rekstrarkostnaður þessara fyrirtækja verður miklu meiri en ella. Á endanum er það neytandinn, hinn almenni neytandi á Íslandi sem borgar brúsann.

Það er mjög mikilvægt fyrir íslenskt samfélag að íslensk verslunarfyrirtæki nái að dafna og til að þau megi dafna þarf að skapa þeim það samkeppnisumhverfi sem getur orðið til að efla þau í samkeppni við erlenda verslun, þá á ég við það sem Íslendingar eru að kaupa í útlöndum. Við þurfum að standast þá samkeppni til að íslenskir neytendur sjái hag sínum borgið í því að kaupa vörur frekar hér heima en fara í þessar svokölluðu verslunarferðir. Fólk á kannski frekar að njóta menningar og annarra hluta í ferðum til útlanda en að þramma upp að hnjám við að versla í búðum. Ég held að ef þetta tækist þá værum við að tala um miklar breytingar sem gætu orðið öllum til góðs, ekki síst neytendum og ekki síður ríkissjóði.