141. löggjafarþing — 96. fundur
 9. mars 2013.
Lánasjóður íslenskra námsmanna, frh. 1. umræðu.
stjfrv., 630. mál (heildarlög). — Þskj. 1096.

[14:19]
Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Eins og ég kom að í andsvari mínu við hæstv. menntamálaráðherra við upphaf umræðunnar er margt í sambandi við þetta frumvarp sem ástæða er til að skoða með jákvæðum huga. Ég held að það sé jákvætt að frumvarpið er komið fram og mikilvægt að það fari nú til meðferðar hjá þingnefnd og hjá aðilum sem um það geta fjallað, hagsmunaaðilum og eins sérfróðum aðilum sem hugsanlega geta aðstoðað okkur við að átta okkur á afleiðingum þess, fjármögnun og öðrum þáttum, sem enn eru nokkuð umdeildir. Við höfum að minnsta kosti í höndunum mismunandi sjónarmið. Það er í sjálfu sér ágætt að það gerðist fyrir þinglok þó að það hve seint málið kemur inn í þingið geri að verkum að maður verður fyrir fram að lýsa því raunsæislega mati að kannski sé ólíklegt að okkur takist að klára það fyrir þinglok.

Í því sambandi ber auðvitað að athuga að gildistími frumvarpsins er ákveðinn fram í tímann. Það er ekki gert ráð fyrir að það taki gildi fyrr en 1. september 2014 þannig að hvort sem er er ekki um að ræða beina tímapressu í því sambandi þó að auðvitað sé gott að þoka málinu áleiðis og fá botn í það eins fljótt og kostur er. Tímapressan á þessu máli er hins vegar ekki meiri en svo að gildistakan er ekki ákveðin fyrr en eftir 15 mánuði þannig að þótt ekki takist að ljúka þessu á þeim fáu dögum sem eftir eru af þessu þingi er ekki hundrað í hættunni, ef svo má að orði komast.

Ég nefndi það að tilefni þessarar lagasetningar væri vissulega fyrir hendi. Þarna er um að ræða endurskoðun á lögum um Lánasjóð íslenskra námsmanna sem að stofni til eru frá 1992. Í greinargerð með frumvarpinu er vísað til þess að margt í umhverfi námslánakerfisins, í menntakerfinu, hafi breyst á þeim tíma, ekki síst á vettvangi háskólastarfs í landinu. Það sem blasir við í því sambandi er bæði fjölgun háskólanna og sú mikla fjölgun stúdenta á háskólastigi sem átt hefur sér stað á þessum tíma. Sá fjöldi sem stundar háskólanám í landinu hefur margfaldast á ekki lengri tíma þannig að það eitt og sér breytir töluvert umhverfinu að þessu leyti. Það eru miklu fleiri sem í dag sækja í lánshæft nám en var þegar núgildandi lög um lánasjóðinn voru sett. Það kallar á skoðun á kerfinu.

Það er líka vísað til þess að Ríkisendurskoðun hefur gert athugasemdir við núgildandi fyrirkomulag. Það er atriði sem meðal annars hefur komið til umræðu á vettvangi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar á síðustu mánuðum. Í fljótu bragði virðist frumvarpshöfundum takast að koma til móts við athugasemdir sem rekja má til athugasemda Ríkisendurskoðunar, þó að hugleiðingar Ríkisendurskoðunar um framtíðarfyrirkomulag námslánakerfisins speglist ekki endilega í þessu frumvarpi. Ríkisendurskoðun lét í ljósi ákveðin sjónarmið eða viðhorf í skýrslum sínum sem nálgast frekar pólitíska stefnumörkun en stjórnsýsluúttekt eða annað þess háttar sem undir þá stofnun heyrir. En það er önnur saga.

Síðan þekkjum við þingmenn það auðvitað að hagsmunaaðilar, ekki síst úr hópi námsmanna, hafa ítrekað gert athugasemdir við fyrirkomulagið. Það er með sínum hætti reynt að koma til móts við það. Það sem fyrst og fremst vekur spurningar í mínum huga á þessum tímapunkti og hæstv. ráðherra hefur þegar komið inn á, bæði í ræðu sinni og í andsvörum, varðar mismunandi mat á fjármagnsþörf kerfisins verði þessar breytingar að veruleika. Eins og fjallað hefur verið um í þessari umræðu er verulegur munur á mati annars vegar fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins og hins vegar menntamálaráðuneytisins og þeirra sem hafa unnið að þessu í samstarfi við það ráðuneyti. Eins og fram hefur komið hlýtur það atriði að verða skoðað vel í nefndinni. Ráðherra hefur boðað að minnisblað um það efni verði sent nefndinni.

Í umræðunni hefur líka komið fram að ráðherra hyggst leita til Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands um að meta þessa þætti ásamt og með þjóðhagslegum áhrifum sem er gríðarlega mikilvægt vegna þess að þarna er um að ræða kerfi sem hægt er að líta á bæði sem útgjaldaþátt og fjárfestingu fyrir samfélagið sem slíkt. Kostnaður fylgir námslánakerfi, ég tala nú ekki um ef styrkjaþátturinn í því verður aukinn eins og hér er gert ráð fyrir því að þá eru það auðvitað útgjöld. Að sama skapi er að sjálfsögðu um að ræða fjárfestingu í menntun sem ætla má að skili sér til samfélagsins, auk þess sem það blasir við að ef frumvarpið nær því markmiði að hvetja fleiri til þess að ljúka lánshæfu námi á tilsettum tíma er þetta til þess fallið að draga úr kostnaði. Það má segja að þarna séu bæði kostnaðaraukandi þættir en líka þættir sem geta horft til sparnaðar. Það er mikilvægt að fá mat í þessu sambandi.

Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu, hæstv. forseti, á þessu stigi. Hér er um 1. umr. að ræða og málið fer nú til umfjöllunar í hv. allsherjar- og menntamálanefnd og fær þar skoðun. Það ber að fagna þessu máli, það ber að fagna tillögum í frumvarpinu og vonandi næst við málsmeðferð í þinginu meiri samhljómur í mati manna á því hvaða kostnaður muni fylgja málinu. Vonandi verður unnt að leiða þetta mál til lykta.

Eins og ég segi er ekki raunhæft að ætla að málið klárist fyrir föstudag í næstu viku, en þá á þinginu að ljúka miðað við starfsáætlun. Þótt það gerist ekki er engum sérstökum hagsmunum fórnað, enda er gildistakan hvort sem er sett á 1. september 2014.



[14:27]
Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að mæla fyrir þessu máli. Um nokkuð stórt og mikið mál er að ræða, það segir sig sjálft þegar verið er að fara í töluverðar breytingar á því kerfi námslána sem við höfum haft hér um árabil. Nokkur meginmarkmið eru lögð hér til og þeim skipt í nokkra liði. Það er að sjálfsögðu eðlilegt að einhver þróun eigi sér stað í þessu kerfi eins og öllu öðru. Það er ekkert athugavert við það. Stjórnmálaflokkarnir hafa í gegnum tíðina haft ýmsar skoðanir á Lánasjóði íslenskra námsmanna og því kerfi sem við erum með til að styðja við þá sem eru í námi. Eins og kemur fram hér er verið að bregðast við breytingum sem hafa orðið á íslenska háskólakerfinu og síðan er verið að bregðast við skýrslum Ríkisendurskoðunar og ábendingum hagsmunaaðila og annarra sem hafa áhuga á og gera athugasemdir við það kerfi sem verið hefur við lýði.

Framsóknarflokkurinn skipaði fyrir nokkru, ætli það sé ekki að minnsta kosti komið ár, hóp sem átti að fara yfir menntamál og móta grunninn að menntastefnu flokksins. Hún var samþykkt á síðasta flokksþingi. Þar kemur meðal annars fram að flokksþingið tekur undir og segir að það vilji fylgja eftir tillögum Sambands ungra framsóknarmanna um að hluti af námslánum breytist í styrk ljúki nemandi námi á tilskildum tíma. Það er hins vegar ekki farið í nánari útfærslu á þessu og þar af leiðandi er afar forvitnilegt að sjá hvernig þetta er útfært í fyrirliggjandi frumvarpi.

Ýmislegt kemur fram í athugasemdum fjárlagaskrifstofu við frumvarpið þar sem menn hafa aðeins hnýtt í það og eru að velta vöngum yfir kostnaði. Ég held að það sé mjög mikilvægt að áður en málið er klárað liggi fyrir áætlaður kostnaður og þá að sjálfsögðu líka hvernig hann verður fjármagnaður. Að sjálfsögðu þarf að tryggja að rekstur sjóðsins sé eðlilegur. Ég hef nokkrar áhyggjur af því hvernig það muni ganga að tryggja fjármagnið í ljósi þeirra upplýsinga sem við höfum aðeins minnst á í dag um hagvaxtarspár og hvernig ríkissjóði muni ganga að afla sér tekna á næstunni. Það er fyrirkvíðanlegt ef við sjáum ekki til lands heldur sjáum þvert á móti fram á þrengri stöðu en menn gerðu ráð fyrir þegar til dæmis fjárlög fyrir þetta ár voru samþykkt.

Ég fagna því að þetta mál er komið fram. Ég treysti því að það fái vandaða og góða umræðu í nefndinni og að leitað verði álits, það kostnaðarmetið o.s.frv.

Ég vil þó koma einu enn á framfæri um þetta. Í stefnu framsóknarmanna um menntamál er fjallað um skólastigin og ýmislegt minnst á þar eins og nýja tækni og möguleika í námi. Ég ítreka þó að það er mikilvægt að við bregðumst við ákalli úr atvinnulífinu á næstu árum og gerum allt sem við getum til þess að fjölga iðn- og tæknimenntuðu fólki. Þar með er ekki verið að gera lítið úr annarri menntun, heldur er alveg ljóst að það er mikil eftirspurn hjá íslenskum fyrirtækjum eftir fólki með þessa menntun og þar af leiðandi þurfum við einhvern veginn að búa til hvata, hugsanlega í samstarfi við atvinnulífið, til að ýta fleirum af stað í það nám sem ég nefndi áðan.

Frú forseti. Ég hef þetta ekki lengra að sinni. Ég lýsi ánægju minni með málið og að grunnhugmyndin í því fellur að því sem framsóknarmenn ályktuðu á flokksþingi sínu, þ.e. að hluti námslána breyttist í styrk, en að sjálfsögðu þurfum við svo að koma okkur saman um eða ræða útfærsluna á því máli.



[14:32]
Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Eins og fram hefur komið erum við að ræða frumvarp til heildarlaga um Lánasjóð íslenskra námsmanna sem starfshópur hefur unnið að fyrir hönd ráðuneytisins. Eins og einnig hefur komið fram, m.a. hjá hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni, hefur margt í þessu frumvarpi skýra skírskotun til stefnu okkar framsóknarmanna. Til að mynda er hér fjallað um að lögin eigi að veita fólki tækifæri til náms án tillits til efnahags. Við framsóknarmenn höfum bætt við búsetu og höfum gjarnan staðið vörð um sjóðinn í gegnum tíðina.

Það nýmæli sem hér er lagt til, að taka upp tiltekna styrki standist menn námshraða til þess að lækka höfuðstól, er samhljóma tillögum sem meðal annars ungir framsóknarmenn hafa komið fram með og eru í stefnuskrá síðasta flokksþings. Út af fyrir sig ætla ég því ekki að setja út á frumvarpið sem slíkt hvað þetta varðar, þó er verulegur ágalli á að það skortir kostnaðarmat í þessu frumvarpi. Fjárlagaskrifstofa fjármálaráðuneytisins fjallar sérstaklega talsvert um þetta mál á mörgum síðum án þess að segjast geta komist að nákvæmri niðurstöðu vegna skorts á forsendum frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu. Þó segir hún að styrkjaleiðin gæti, þegar lögin yrðu komin til fullra framkvæmda vorið 2017, numið um 3 milljörðum og strax vorið 2016 um 700 milljónum miðað við gefnar forsendur. Fjárlagaskrifstofan bendir á að við undirbúning frumvarpsins hjá ráðuneyti mennta- og menningarmála hafi ekki verið gerður útreikningur á kostnaðaráhrifum miðað við gagnasöfn sjóðsins um lánþega og framreikniforsendur og að ráðuneytið hafi litlar upplýsingar getað veitt um þann talnagrundvöll sem nauðsynlegur er til að meta fjárhagsleg áhrif frumvarpsins.

Hér á göngunum hefur heyrst að menn hafi verið að tala um ólíka nálgun að þessu, jafnvel talað um allt að 4 milljörðum hjá fjármálaráðuneytinu, en ef ég hef heyrt rétt nefndi hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra 2 milljarða. Það er auðvitað frumforsenda til að hægt sé að fjalla um málið af einhverju viti að þetta liggi fyrir.

Fjárlagaskrifstofan fjallar líka um að þetta muni koma nokkuð ójafnt niður hjá ólíkum námsmannahópum. Þannig er til að mynda bent á að námsmenn sem búa í foreldrahúsum og hafa þar af leiðandi fengið um 50% framfærslulán fá jafnmikinn styrk og hinir sem hafa tekið 100% lán. Styrkurinn getur í einstaka tilfellum numið 70% af heildarnámsláni og farið niður í 10–11% hjá öðrum. Það þarf sannarlega að skoða.

Þegar við erum sérstaklega að tala um takmörkuð fjárráð ríkisins á næstu árum velti ég fyrir mér hvort þetta sé besta leiðin til að örva þann hvata að fólk fari hraðar í gegnum háskólanám. Eru ef til vill aðrar leiðir færar og getum við fjármagnað þetta öðruvísi? Það má til dæmis nefna að þeir sem kannski mest þurfa á styrk að halda, þá á félagslegum forsendum, ekki sem hvata til að klára nám, eru þeir sem verða fyrir seinkun í námi vegna veikinda, barnsburðarleyfa eða einhvers slíks. Það má segja að þá þyrftu einhver önnur kerfi að taka á því og það er félagsleg aðstoð en ekki þessi hugsunarhvati.

Hér er vísað til fordæma á Norðurlöndunum og þar sem ég lærði í Danmörku upplifði ég það kerfi hjá félögum mínum þar, þar sem menn fengu um 40% af framfærslunni sem styrk, að þeir sem ekki nutu styrkja og lögðu fyrir og áttu eigið fé til þess að lifa af þennan tíma eða áttu efnaða foreldra sem studdu þá fóru út á vinnumarkaðinn og voru í 50% vinnu. Afleiðingin varð sú að náminu seinkaði. Í námi eins og ég var í, sem tekur fimm og hálft til sex ár, voru til þess að gera fáir sem kláruðu á réttum tíma. Margir seinkuðu námi sínu um eitt til tvö, jafnvel þrjú eða fjögur ár, og útskrifuðust 28 og 29 ára gamlir þrátt fyrir að þeir kæmu inn í háskóla á nítjánda aldursári. Þeir kláruðu fimm eða sex ára nám á átta, níu eða jafnvel tíu árum. Þá höfðu þeir aldrei unnið fullan vinnudag, heldur einungis hálfan, og áttu sumir erfitt með að fóta sig á vinnumarkaði, sérstaklega í krefjandi störfum, eins og dýralækningum, þar sem eru miklar vaktir og bakvaktir. Þeim fannst það hreinlega of mikið álag.

Einnig má nefna það, af því að við höfum líka talað um að stytta nám til stúdentsprófs og fá fólk fyrr inn í háskólana, að mjög margir hófu háskólanám og þegar þeir höfðu verið þar um tveggja ára skeið tóku þeir eins árs hlé, ferðuðust út í heim til þess að ná þeim aukna þroska sem fólk á þessum aldri gjarnan vill gera og það varð auðvitað heldur ekki til þess að flýta náminu. Þetta er nokkuð sem þarf að vega og meta og skoða. Ég tek undir að það sé jákvætt að undirbúningsnám fyrir háskóla og ýmislegt sérnám fái lagastoð í því að veitt verði lán, en lánasjóðurinn hefur veitt lán á þessum vettvangi umfram lagaskyldu og það er nauðsynlegt, ekki síst á þessum tímum erfiðleika í atvinnuástandinu. Eins er brýnt að koma þeim sem duttu út úr skólakerfinu aftur inn í það. Þeir geta átt erfitt með það ef þeir eiga ekki aðgang að fjármagni, til að mynda lánum.

Þá er líka rétt að nefna eitt sem starfshópurinn hafnaði eða ráðuneytið leggur ekki hér fram og það er að skoða hvort það sé eðlilegt þegar menn hafa náð lífeyrisþegaaldri, 67 árum eða hvort hann verður 70 ár, að menn séu þá enn að greiða af námslánum og hvort það eigi að skoða aftur að lánin falli niður eftir 40 ár eða að endurgreiðslan verði létt með einhverjum hætti, sérstaklega nú og á allra næstu árum á meðan lífeyrissjóðakerfið stendur ekki undir meiri launum en raun ber vitni þessi missirin.

Ég ætla svo sem ekki að lengja þetta frekar, frú forseti, heldur ítreka að margt í þessu frumvarpi er jákvætt og í samræmi við stefnu okkar framsóknarmanna. Það kemur dálítið seint fram og væntanlega dettur engum í hug að það klárist á þessu þingi. Það þarf að skoða ýmsa þætti þess vel og þá kannski nokkra af þeim sem ég nefndi hér og ekki eru í frumvarpinu.



[14:41]
mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmönnum sem hér hafa talað um þetta frumvarp og ætla að leitast við að svara nokkrum af þeim spurningum sem hér var varpað fram, síðast hjá hv. þm. Sigurði Inga Jóhannssyni sem nefndi einmitt þann möguleika að öll námslán mundu falla niður við 67 ára aldur. Það kom fram í framsöguræðu minni að sú breyting mundi hafa í för með sér mjög mikinn einskiptiskostnað, u.þ.b. 17 milljarða kr. Þess vegna er hún ekki lögð til hér og ég held að það skýri sig í sjálfu sér sjálft ef við lítum til stöðu ríkissjóðs.

Margir hafa rætt um kostnaðarmatið og það er ósköp eðlilegt þegar fyrir liggur að það er misræmi milli kostnaðarmats fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins og þess kostnaðarmats sem mennta- og menningarmálaráðuneytið vann í samráði við lánasjóðinn og Ríkisendurskoðun. Þess vegna hef ég óskað eftir úttekt frá Hagfræðistofnun Háskóla Íslands, bæði til að meta kostnaðinn en líka hin þjóðhagslegu áhrif sem væntanlega eru nokkur af þessu frumvarpi.

Mig langar til að fara í nokkrar einstakar greinar sem hv. þingmenn hafa spurt hér um.

Fyrst er þar til að nefna að hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir óskaði nánari skýringa á 18. gr. Eins og ég gerði að umræðuefni í framsögu minni er þessi grein nýmæli og er nauðsynlegt að ræða hana. Þar er kveðið á um að ráðherra hafi heimild til þess að kveða í reglugerð á um sérstakar ívilnanir til námsmanna sem hefja nám í tiltekinni námsgrein á tilteknu tímabili sem fremi þeir uppfylli skilyrði 12. gr. um námsframvindu. Þar er til að mynda vitnað til námsgreina eða faga þar sem er skortur á menntuðu fólki til starfa. Ástæða þess að þetta er eindregið lagt til í nýrri skýrslu um eflingu leikskólastigsins er að verulegur skortur á menntuðum leikskólakennurum er fyrirsjáanlegur. Mér finnst rétt að nefndin ræði þessa grein út frá því hvort þá sé ástæða til að hafa slíkt heimildarákvæði. Ég vil líka segja að það er mjög nauðsynlegt að fara sparlega með slík heimildarákvæði þannig að þau gildi ekki um allt námsval. Í sjálfu sér er hægt að rökstyðja að það sé skortur á fólki í ýmsum greinum og þá þurfa að vera mjög knýjandi rök fyrir því að gefa sérstakar heimildir fyrir slíkum ívilnunum.

Hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir óskaði líka eftir umræðu um þær breytingar sem gerðar eru á 21. gr. Því er til að svara að þarna er verið að uppfæra, getum við sagt, ákvæði laganna til þess sem almennt gerist í lagasafninu um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins og forstöðumenn ríkisstofnana en þessi grein er mjög stutt í gildandi lögum þar sem eingöngu er kveðið á um að framkvæmdastjórinn skuli skipaður og að hann skuli ráða annað starfsfólk. Þetta þykir eðlilegra miðað við lagasafnið eins og það er nú.

Líka var spurt um 8. gr. og sérstaklega um skipan lánshæfismatsnefndar því að þarna er ekki kveðið á um að fulltrúar í henni skuli tilnefndir af tilteknum aðilum. Það er rétt. Við lítum svo á eftir að hafa skoðað þetta mál að þarna sé fremur rétt að gera ráð fyrir ákveðnu hæfi sem felist þá í sérþekkingu á uppbyggingu háskólanáms eða lögfræðiþekkingu. Enn fremur er gert ráð fyrir að nefndin geti leitað aðstoðar hjá ENIC/NARIC á Íslandi þegar kemur að mati á námi erlendis, þ.e. þeirri stofnun sem fæst við að meta nám á milli landa. Þetta er í sjálfu sér svipað og málskotsnefndin, ef við viljum bera það saman, þar er ekki gert ráð fyrir að einstaklingar séu tilnefndir í nefndina heldur eingöngu að það sé leitað til einstaklinga sem uppfylla tilteknar hæfiskröfur.

Hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir spurði einnig um skoðun mína á því að teknar væru upp skattaívilnanir til fyrirtækja sem taka nema í doktorsnám. Það kann að vera mjög góð umræða en ég tel ekki að hún tengist þessu frumvarpi, hún á þá frekar við umræðu um skattalöggjöfina sem heyrir undir fjármála- og efnahagsráðherra. Það er þó rétt að heilmikil umræða hefur verið um það í vísindasamfélaginu að byggja megi fleiri hvata inn í skattkerfið til að styðja við rannsóknir og vísindi. Þetta væri þá angi af þeirri umræðu og ég er opin fyrir slíkri umræðu þó að hún eigi ekki heima í þessu frumvarpi.

Spurt var einnig út í þær spurningar sem eru uppi um framkvæmd verðtryggðra lána. Þær snúa kannski einkum núna að framkvæmd tilskipunar um neytendalán þar sem undir heyra íbúðalán, en þegar spurt var hvort unnt væri að veita óverðtryggð námslán líkt og rætt hefur verið um að Íbúðalánasjóður veiti óverðtryggð íbúðalán sem valkost við verðtryggð íbúðalán er það nokkuð sem er eðlilegt að skoða. Við ræddum þetta nokkuð en fórum ekki út í tillögur um breytingar á þessu nú þar sem Lánasjóður íslenskra námsmanna fjármagnar sig verðtryggt með 5,5% vöxtum. Hann lánar út með 1% vöxtum. Það er ágætt að það komi fram líka því að hv. þm. Pétur H. Blöndal ræddi vaxtaprósentu sjóðsins sem er í lögum. Það er óbreytt frá gildandi lögum, að hámarki 3%, en hún hefur hins vegar verið 1% allmörg undanfarin ár. Ætli hún hafi hreinlega ekki verið það allt frá 1992. Það þýðir að það þarf að endurskoða algjörlega fjármögnun sjóðsins ef sjóðurinn á einhliða að fara að bjóða upp á óverðtryggð lán og við töldum ekki tímabært að skoða það. Þar þarf líka að hafa í huga að ólíkt íbúðalánum eru endurgreiðslur námslána tekjutengdar og á bak við það er félagsleg hugsun þannig að þá þyrfti væntanlega að endurskoða endurgreiðslurnar í samhengi við þetta. Þess vegna fórum við ekki út í slíkar breytingar þó að þær hafi lauslega verið skoðaðar í aðdraganda þessa frumvarps.

Það var spurt út í breytingar á ákvæðum 22. gr. þar sem rætt er um málskotsnefndina og úrskurði hennar. Þar eru gerðar ákveðnar breytingar fyrir utan að þar er því bætt inn að ákvarðanir lánshæfismatsnefndarinnar, sem er að sjálfsögðu ný samkvæmt þessu frumvarpi, eru líka kæranlegar til málskotsnefndar, það er eðlileg breyting, og frestur stjórnar er lengdur. Það er gert að ósk stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna sem telur núgildandi fresti of stutta og það var mat okkar að þau færðu málefnaleg rök fyrir þeim sjónarmiðum sínum.

Hv. þm. Pétur Blöndal velti því upp hvort einhverjir færu að skrifa upp á ábyrgðir við 65 ára aldur ef ábyrgðir falla niður við 67 ára aldur eins og hér er lagt til, en þá er rétt að minna á að árið 2009 samþykkti Alþingi að fella niður kröfu um ábyrgðarmenn á ný námslán þannig að það er ekki í boði fyrir neinn 65 ára að fara að skrifa upp á ábyrgð. Það er hreinlega ekki gerð krafa um það lengur.

Það hefur verið rætt um að frumvarpið hafi tekið tíma. Það er rétt, það hefur tekið tíma af því að mikið samráð hefur verið haft við ýmsa aðila sem mér finnst eðlilegt við slíka vinnu. Eins og hér er gerð ítarleg grein fyrir í I. kafla í athugasemdum við lagafrumvarpið var farið yfir þær umsagnir þannig að þessi vinna hefur staðið frá árinu 2011. Ég tel að mjög hafi verið til hennar vandað og það er að heyra af umræðunum hér í dag að þessi mikla vinna hafi líka að einhverju leyti skilað sér. Mér heyrast hv. þingmenn jákvæðir fyrir efnisatriðum frumvarpsins og ég fagna því að sjálfsögðu mjög.

Það er rétt sem hér hefur verið bent á, ef frumvarpið verður samþykkt er gert ráð fyrir að lögin öðlist gildi 1. september 2014. Það er til að hafa hreinar línur í því að um þá sem hefja nám eftir gildistíma gilda ný lög. Það þýðir hins vegar að sjálfsögðu að kostnaðaráhrif falla að fullu til á árinu 2017 og síðar og mér finnst það mikilvægt, af því að hér höfum við rætt talsvert um kostnað og ýmis önnur mál hafa auðvitað líka verið nefnd í því samhengi, að benda á að núverandi ríkisfjármálaáætlun nær til 2016 og það er því ljóst að við endurskoðun hennar verður gert ráð fyrir kostnaðaráhrifum þessa frumvarps. Væntanlega tekur ný og endurskoðuð áætlun gildi árið 2016.

Ég hef hér leitast við að svara þeim spurningum sem til mín var beint í umræðunni og vil að lokum þakka hv. þingmönnum fyrir málefnalegar og jákvæðar umræður. Ég vonast til þess að þær beri þann ávöxt að við eigum eftir að sjá ganga í gegn þessar breytingar á Lánasjóði íslenskra námsmanna.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til allsh.- og menntmn.