141. löggjafarþing — 98. fundur
 11. mars 2013.
endurbætur björgunarskipa, frh. síðari umræðu.
þáltill. JónG o.fl., 471. mál. — Þskj. 605, nál. 1122.

ATKVÆÐAGREIÐSLA

[17:10]

[17:07]
Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Hérna greiðum við atkvæði um mikla prýðistillögu sem flutt var af nokkrum hv. þingmönnum, Jóni Gunnarssyni og fleirum, þar sem innanríkisráðherra er falið að gera samkomulag við Slysavarnafélagið Landsbjörgu um endurbætur og viðhald björgunarskipa árunum 2014–2021. Nefndin telur einsýnt að þörfin fyrir björgunarskip sé mikil og fari vaxandi og að áríðandi sé að leita til vel búinna björgunarskipa. Brýnt sé að allur útbúnaður til björgunar- og slysavarna sé ávallt í fullkomnu ásigkomulagi enda sé réttur tækjabúnaður nauðsynlegur hluti af hverri björgunaraðgerð.

Í allsherjar- og menntamálanefnd var mikil samstaða um að þetta væri eitt af þeim þingmannamálum, sem svo eru kölluð, sem væri mjög áríðandi að afgreiða úr nefndinni áður en þingveturinn væri úti og gæti gengið til atkvæða í þingsal, sem nú er að gerast, og fagna ég því mjög. Þetta er eitt af mörgum góðum þingmannamálum sem komu úr flokkunum í allri sinni fjölbreytni og er ánægjulegt að það sé komið á leiðarenda til atkvæða í Alþingi.



[17:08]
innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Ég tek undir með formanni allsherjar- og menntamálanefndar, hv. þm. Björgvini G. Sigurðssyni, hér er á ferðinni mikið framfaramál sem allsherjarnefnd hefur sameinast um. Það er ánægjulegt, en samkvæmt tillögunni er innanríkisráðherra falið að gera samkomulag við Slysavarnafélagið Landsbjörgu um endurbætur og viðhald björgunarskipa á árunum 2014–2021.

Hér er á ferðinni mikið nauðsynja- og framfaramál. Ég sé ástæðu til að þakka hv. þm. Jóni Gunnarssyni sérstaklega fyrir að hafa haft forgöngu um þetta mál. Ég þekki það á eigin skinni að hann hefur margoft bankað upp á í mínum ranni og hvatt til þess að við huguðum að þessum úrbótum. Síðan hafa þingmenn úr öllum flokkum komið að málinu, bæði með hv. þm. Jóni Gunnarssyni og síðan allsherjarnefnd núna, þannig að sýnt er að það verður að veruleika og því ber að fagna.



[17:09]
Jón Gunnarsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Slysavarnafélagið Landsbjörg rekur 14 stór björgunarskip hringinn í kringum landið ásamt fjölda smærri báta. Þrátt fyrir að áhafnir þessara skipa vinni starf sitt allt í sjálfboðavinnu er rekstur þeirra einn dýrasti þátturinn í starfsemi félagsins. Þessi skip komu flest til landsins á síðasta áratug og er komið að því að fara í viðhaldsátak til þess að lengja líftíma þeirra. Félaginu er ofviða að gera það án aðkomu hins opinbera og því fagna ég mjög að Alþingi skuli stíga þetta skref í dag.

Ég þakka meðflutningsmönnum mínum úr öðrum flokkum fyrir stuðning þeirra við málið, hæstv. innanríkisráðherra fyrir hans stuðning og nefndinni fyrir vel unnin störf. Ég fagna því að Alþingi skuli sýna sjálfboðaliðastarfinu í landinu þann stuðning sem raun ber vitni í dag.



Fyrirsögn samþ. án atkvgr.

Till.  samþ. með 39 shlj. atkv. og sögðu

  já:  ÁÞS,  ÁsbÓ,  ÁRJ,  BÁ,  BirgJ,  BjarnB,  BjörgvS,  BVG,  EKG,  GuðbH,  GBS,  IllG,  JóhS,  JónG,  JRG,  KaJúl,  KÞJ,  KLM,  LRM,  LMós,  LGeir,  MSch,  MT,  OH,  ÓGunn,  ÓÞ,  ÓN,  PHB,  RR,  SigfK,  SII,  SIJ,  SkH,  SJS,  SSv,  UBK,  VBj,  ÞBack,  ÖJ.
24 þm. (AtlG,  ÁI,  ÁPÁ,  ÁJ,  ÁsmD,  BJJ,  EyH,  GÞÞ,  GStein,  HHj,  JBjarn,  KJak,  MÁ,  REÁ,  RM,  SDG,  SER,  SF,  TÞH,  VigH,  ÞKG,  ÞSa,  ÞrB,  ÖS) fjarstaddir.