141. löggjafarþing — 98. fundur
 11. mars 2013.
skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, 1. umræða.
stjfrv., 625. mál (fjárfestingarheimildir). — Þskj. 1089.

[17:12]
fjármála- og efnahagsráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Í fyrsta lagi eru lagðar til tvær breytingar á fjárfestingarheimildum lífeyrissjóða. Tillögur þessar eru byggðar á niðurstöðu nefndar sem fékk það hlutverk að endurskoða fjárfestingarheimildir sjóðanna í bráð og lengd, en það er mat hennar að rétt sé, með vísan til aðstæðna á markaði, að auka svigrúm sjóðanna til fjárfestinga á meðan unnið er að heildarendurskoðun á fjárfestingarheimildum til lengri tíma.

Annars vegar er lagt til að lífeyrissjóðum verði heimilt að fjárfesta fyrir allt að 25% af hreinni eign sjóðsins í óskráðum verðbréfum. Gert er ráð fyrir að heimildin verði tímabundin. Gert er ráð fyrir að framboð skráðra hlutabréfa muni aukast lítillega á komandi mánuðum, hins vegar er ekki útlit fyrir mikla útgáfu nýrra skráðra skuldabréfa næstu missirin, m.a. vegna minni lánsfjárþarfar ríkissjóðs, sem er ánægjuefni í sjálfu sér. Aðrir fjárfestingarkostir sem ekki teljast til óskráðra verðbréfa eru einkum sjóðfélagalán og innstæður. Ekki er útlit fyrir mikla aukningu sjóðfélagalána og innstæður lífeyrissjóða eru þegar orðnar mjög háar og er æskilegra að þær minnki frekar en aukist. Því er fyrirsjáanlegt að framboð af skráðum fjárfestingarkostum muni ekki duga til þess að anna eftirspurn lífeyrissjóðanna á næstunni, en fyrir liggur að fjárfestingarþörf nemur um 100–130 milljörðum króna árlega. Í ljósi þess er lagt til að heimilt verði að fjárfesta aukið hlutfall hreinnar eignar í óskráðum verðbréfum eða sem nemur fjórðungi eins og áður sagði.

Hins vegar er lagt til að heimild lífeyrissjóða til þess að eiga allt að 20% hlutafé í samlagshlutafélögum verði framlengd um eitt ár, til 31. desember 2014, en auðveldara er fyrir lífeyrissjóði að standa að samlagshlutafélagi ef hlutdeild hvers og eins má vera allt að 20%.

Í öðru lagi er lagt til að mælt verði fyrir um að greiði launagreiðandi inn á skuldbindingu sína við lífeyrissjóð sem nýtur bakábyrgðar ríkis eða sveitarfélaga með óskráðum skuldabréfum verði sjóðnum heimilt að eiga slík skuldabréf óháð fjárfestingartakmörkunum 36. gr. laganna. Er breytingunni ætlað að greiða fyrir samningum milli lífeyrissjóða sem njóta bakábyrgðar ríkis eða sveitarfélags og launagreiðenda sem tryggðu starfsmenn í sjóðunum og ábyrgjast greiðslur til þeirra úr sjóðunum. Ákvæðið sem hér er lagt til hefur ekki áhrif á stöðu bakábyrgðaraðila.

Á næstu árum er ljóst að við þurfum að auka verðmætasköpun í hagkerfinu og afla meira en við eyðum. Til að tryggja það markmið er mikilvægast að auka atvinnuvegafjárfestingu. Lítil og meðalstór fyrirtæki í vexti þurfa fjármagn til að geta aukið framleiðslu sína, sinnt þróunarstarfi og nýsköpun og fjölgað starfsmönnum. Mörg þessara fyrirtækja eru ekki tilbúin til að taka það stóra skref sem full skráning á markað felur í sér en engu að síður munu þessi fyrirtæki fjölga störfum hvað mest á næstunni og auka útflutningsverðmæti þjóðarbúsins, sem við þurfum svo sannarlega á að halda.

Vegna þessa hafa talsmenn tækni- og hugverkageirans talað ötullega fyrir því að lífeyrissjóðirnir fái tímabundnar heimildir til að eiga hærra hlutfall af óskráðum bréfum. Bara sú breyting getur falið í sér allt 100 milljarða innspýtingu í vaxandi íslensk fyrirtæki á næstu missirum. Atvinnulíf okkar munar um minna.

Af hálfu fjármála- og efnahagsráðuneytisins var engu að síður lögð áhersla á að fara að öllu með gát. Því var nefnd um endurskoðun á fjárfestingarheimildum lífeyrissjóða falið að meta tímabundna rýmkun þá sem hér er lögð til til að eiga óskráð bréf. Nefndin starfar undir formennsku Gylfa Magnússonar, dósents við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands, og er einnig skipuð fulltrúum Fjármálaeftirlitsins, Seðlabanka Íslands, Landssamtaka lífeyrissjóða, fjármála- og efnahagsráðuneytis og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis.

Einhugur var í nefndinni um að leggja til framangreinda breytingu og fagna ég því. Nefndin mun starfa áfram að ítarlegri endurskoðun á fjárfestingarheimildum lífeyrissjóðanna og skila lokaskýrslu sinni fyrir lok maímánaðar. Það kom líka skýrt fram á tækni- og hugverkaþingi, sem margir þingmenn sátu, að töluverður áhugi var á þessu vegna þess að þessi fyrirtæki þurfa svo sannarlega á innspýtingu að halda.

Virðulegi forseti. Að þessu sögðu legg ég til að frumvarpi þessu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar og til 2. umr. að aflokinni þessari umræðu.



[17:17]
Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir ræðuna og yfirferðina á frumvarpinu þar sem í raun er verið að bregðast við þeim aðstæðum sem eru á markaðnum með því að rýmka heimildir lífeyrissjóðanna til að fara í þessar breytingar á fjárfestingarheimildum.

Mig langar aðeins að inna hæstv. ráðherra eftir einu, sérstaklega í ljósi þess að við samþykktum lög á laugardaginn sem sneru að gjaldeyrishöftum. Á meðan gjaldeyrishöftin eru, telur hæstv. ráðherra að fjárfestingarumhverfi lífeyrissjóðanna við þau skilyrði, þó að þessi rýmkun hér eigi sér stað, sé nægjanlegt til að lífeyrissjóðirnir geti í raun og veru farið — ég veit ekki hvort ég á að orða það svona — í eðlilegar fjárfestingar? Hvort þessi heimild sé nægilega rúm og geri það að verkum að lífeyrissjóðirnir geti farið í þær fjárfestingar sem þeir nauðsynlega þurfa til að fjárfesta fyrir þær inngreiðslur á lífeyri sem koma inn í sjóðina?



[17:18]
fjármála- og efnahagsráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef áður sagt að mér finnast gjaldeyrishöftin eða fjármagnshöftin sem við búum við hér á landi í dag illu heilli til þess fallin að skekkja alla stöðu á markaði. Þau gera það að verkum að í raun og veru verður ekkert eðlilegt í gangi. Þess vegna höfum við lagt svona mikla áherslu á að finna leið út úr þeim og það er sú vegferð sem við lögðum upp í á laugardaginn. Ég fagna því sérstaklega að svo góð samstaða hafi náðst um það. Ég held að kosningar í þessu sambandi eigi ekki að skipta neinu máli heldur eigum við að stíga samhent inn í það verk vegna þess að það snýst fyrst og fremst um að verja íslenska hagsmuni alla leið og standa saman um það.

Ég tel fjármagnshöftin okkur til vansa og öllu fjárfestingarumhverfi á Íslandi, sama hvort það eru lífeyrissjóðir eða aðrir. Þau hamla því líka að erlendir aðilar komi hingað til að fjárfesta og þess vegna verðum við að leggja í þann leiðangur að afnema þau.



[17:19]
Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Ég er alveg sammála hæstv. ráðherra um það að ákveðið skref var stigið hér að taka tímasetningarnar úr sambandi til að veita aukinn þrýsting og um það er ekki pólitísk deila. Ég er líka þeirrar skoðunar að mikilvægt sé að breið samstaða ríki um þetta á Alþingi því að öðruvísi getur það ekki farið nægilega vel að mínu mati, þannig að þetta verði ekki eitthvert pólitískt flopp. Það verður náttúrlega að vera samstaða um þessa hluti.

Mig langar að ítreka aðra spurninguna til hæstv. ráðherra áðan, sem hún hafði ekki tíma til að svara í stuttu andsvari, sem snýr að því umhverfi sem lífeyrissjóðirnir eru í ef gjaldeyrishöftin verða í einhvern tíma, sem ég er auðvitað sammála hæstv. ráðherra um að eru mjög slæm. Telur hún að lífeyrissjóðirnir eða markaðirnir — verið er að opna þarna á frekari heimildir, telur hún að það sé nægjanlegt í kannski eitt eða tvö ár eða guð má vita hvað? Hver er skoðun hæstv. ráðherra á því?



[17:21]
fjármála- og efnahagsráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Forseti. Talið er að fjárfestingarþörf lífeyrissjóðanna sé á bilinu 100–130 milljarðar árlega. Þarna opnast að minnsta kosti svigrúm fyrir fjárfestingar upp á 100 milljarða. Þá er ekki þar með sagt að þeir muni nota það allt saman þó að það svigrúm sé gefið vegna þess að þeir vilja auðvitað fara varlega og sérstaklega þegar um er að ræða óskráð bréf. Þarna er að minnsta kosti opnað fyrir auknar fjárfestingar lífeyrissjóðanna upp á 100 milljarða. Svo verðum við bara að sjá hvernig menn nýta það.

Þetta er kannski ekki neitt úrræði sem dugar lengi, sérstaklega í ljósi þess að við erum hreinlega í þeirri stöðu að vera með ákveðna hættu á töluverðum skekkjum í markaðsbúskap okkar hér á landi á meðan við erum með gjaldeyrishöftin eða fjármagnshöftin, eins og þau eru nú kölluð, við lýði.



[17:22]
Lilja Mósesdóttir (U) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta frumvarp er vissulega vonbrigði. Með því á að gera lífeyrissjóðunum kleift að stunda áhættufjárfestingar. Í frumvarpinu er ákvæði um að lífeyrissjóðir geti fjárfest í óskráðum verðbréfum. Samkvæmt rannsóknarnefnd lífeyrissjóðanna má rekja hluta af bókfærðu tapi lífeyrissjóðanna, sem núna er komið upp í 520 milljarða, til þess að þeir fjárfestu í óskráðum verðbréfum.

Virðulegi forseti. Ég vil spyrja hæstv. fjármálaráðherra af hverju verið er að veita þessa heimild í ljósi reynslunnar af hruninu. Ég vil líka fá að vita hvers vegna lærdómur er ekki dreginn af hruninu og hvers vegna ekki er farið í kerfisbreytingu á lífeyrissjóðakerfinu þegar það liggur ljóst fyrir að við töpuðum á því kerfi í hruninu og að það er allt of stórt fyrir íslenskt hagkerfi.



[17:23]
fjármála- og efnahagsráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Forseti. Í fyrsta lagi þetta. Það varð alveg gríðarlegt hrun líka í skráðum hlutabréfum og á verðgildi þeirra í hruninu. Það var því ekkert gefið með það að þó að lífeyrissjóðirnir fjárfestu á sínum tíma í skráðum hlutabréfum að það færi eitthvað betur, þeir töpuðu heilum hellingi á því líka, þannig að það er nú eitt.

Ég tel að með þessu séum við að gera gott að því leytinu til að það er orðin gríðarlega mikil fjárfestingarþörf af hálfu lífeyrissjóðanna og það er líka gríðarlega mikil þörf úti í atvinnulífinu fyrir aukna atvinnuvegafjárfestingu. Það er orðin gríðarleg þörf fyrir fjármuni inn í lítil og meðalstór fyrirtæki sem ekki hafa tök á að fara inn í skráningarferli strax. Þess vegna tel ég að sú niðurstaða sem nefndin kemst að, sem m.a. Fjármálaeftirlitið á sæti í, sé til góðs.

Heildarendurskoðun á lífeyrissjóðakerfinu er í gangi eins og ég hef áður átt samtal við hv. þingmann um.



[17:24]
Lilja Mósesdóttir (U) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil minna á tillögur rannsóknarnefndar lífeyrissjóðanna. Ein af þeim tillögum er einmitt um að fella úr gildi heimildina til að lífeyrissjóðir geti fjárfest í óskráðum bréfum vegna þess að hlutfallslega töpuðu þeir mest á óskráðum hlutabréfum. Þeir fjárfestu auðvitað mest í skráðum hlutabréfum enda hafa verið mörk á því hvað þeir geta fjárfest mikið í óskráðum verðbréfum.

Virðulegi forseti. Ég held að kominn sé tími á það að ræða hérna af alvöru nauðsynlegar breytingar á lífeyrissjóðakerfinu, aðrar breytingar en þær að skerða þurfi lífeyrisréttindi vegna taps sjóðanna og hækka iðgjaldagreiðslur úr 12% í 15,5%. Það þarf að breyta kerfinu þannig að vægi almannatryggingakerfisins verði meira og sjóðmyndunarkerfisins minna.



[17:25]
Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að fara í gegnum frumvarpið sem snýst jú fyrst og fremst um fjárfestingarheimildir lífeyrissjóðanna en fjallar lítið um skyldutryggingar lífeyrisréttinda, eins og frumvarpið heitir og gæti kannski misskilist.

Á áðurnefndu tækni- og hugverkaþingi, þar sem hæstv. ráðherra var ásamt þeim sem hér stendur og nokkrum fleiri þingmönnum, var rædd tillaga frá frambjóðanda Framsóknarflokksins í Reykjavík, Frosta Sigurjónssyni, um að heimila lífeyrissjóðunum að kaupa bréf á svokölluðum First North markaði sem gæti að einhverju leyti opnað fyrir lífeyrissjóðina að taka þátt í fjárfestingum sem væru svona aðeins víðari og heimila fyrirtækjum að skrá sig þar og minnka þar af leiðandi áhættuna á þessari innanlandsbólu sem ellegar er fyrir hendi. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort aðrar leiðir hafi verið skoðaðar en það einungis að hækka þakið úr 20% í 25%.



[17:27]
fjármála- og efnahagsráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég lýsti því á áðurnefndu tækni- og hugverkaþingi að ég væri mjög hlynnt því að skoða þá tillögu alvarlega. Mér finnst þetta góð hugmynd frá fulltrúa Framsóknarflokksins. Ég held að það sé sjálfsagt að skoða það sem næsta skref í þessu efni og mun óska eftir því að nefndin skoði það mál sérstaklega.



[17:27]
Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Ég þakka jákvæð viðbrögð hæstv. ráðherra gagnvart þessari ágætistillögu og vil jafnframt fylgja því þá eftir og spyrja hvort ráðuneytið og hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra hafi ekki vaxandi áhyggjur af því bóluhagkerfi sem er að myndast hér innan lands með gríðarlegri fjárfestingarþörf lífeyrissjóðanna á innanlandsmarkaði, allt að 130 milljörðum árlega. Og hvort sú leið sem hér er opnuð, um að geta fjárfest fyrir 100 milljarða til viðbótar í óskráðum félögum, geti ekki hugsanlega leitt til skorts á raunverulegum fjárfestingartilfellum og að menn taki óvarlegar ákvarðanir í þessu efni. Og hvort í frumvarpinu, hvort það standi einhvers staðar, ég hef ekki séð það alla vega, sé reynt að feta varlega þessa braut, eins og hæstv. ráðherra kom inn á áðan. Er einhvers staðar í frumvarpinu tekið á því að (Forseti hringir.) þessi hætta geti vaxið?



[17:29]
fjármála- og efnahagsráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Samkvæmt lögum um lífeyrissjóði hvílir mjög þung og rík skylda á stjórnarmönnum í lífeyrissjóðum að sinna skyldu sinni, þ.e. að hámarka arðsemi sjóðanna. Ég held að sú skylda sé orðin ríkari nú og ríkari kröfur eru gerðar til stjórnarmanna. Hún á auðvitað að vera sá öryggisventill sem til þarf svo að menn fari að öllu með gát í þessu efni. Þeir hafa gert það hingað til, þ.e. eftir hrun, í þeim óskráðu bréfum sem þeir hafa verið að fjárfesta í. Ég er alveg sannfærð um að þetta geti orðið gríðarlega mikilvægt fyrir atvinnulífið vegna þess að við eigum mjög mikið af sterkum, stöndugum og vel stöddum fyrirtækjum sem þurfa sárlega á innspýtingu að halda. Ég á von á að þetta gæti orðið verkfæri til þess að svo geti orðið og þannig aukið nauðsynlega innlenda atvinnuvegafjárfestingu.



[17:30]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil í fyrsta lagi spyrja hæstv. ráðherra hvort það sé hugleitt í alvörunni að frumvarpið verði samþykkt, það eru þrír starfsdagar eftir hjá Alþingi.

Í öðru lagi vil ég spyrja: Nú hefur raunávöxtun á markaði lækkað úr 4% niður í 2%, jafnvel 1,9%. Lífeyrissjóðirnir eiga sífellt erfiðara innan gjaldeyrishafta að fá fjárfestingartækifæri. Getur það ekki leitt til þess að bólumyndun verði, t.d. í hlutabréfum sem hafa hækkað mjög mikið frá hruni, mjög mikið? Og ekki er búið að laga það sem var meinið hérna fyrir hrun, sem var raðeignarhald og krosseignarhald og olli miklum og gífurlegum afskriftum, milljarðatugum, því að ekki reyndist vera raunveruleg eign inni í félögunum. Stendur ekki til að laga þetta yfirleitt?

Síðan er spurningin hvort heppilegt sé í þessari stöðu að slaka á kröfu með litlu hlutafélögin, hvort þurfi þá ekki að herða mikið á því að menn stundi þá áhættudreifingu að vera að fjárfesta í mörgum félögum, og eins það að menn fari mjög varlega í fjárfestingar.



[17:31]
fjármála- og efnahagsráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Eins og ég sagði áðan eru mjög ríkar kröfur gerðar til þeirra stjórnarmanna sem í lífeyrissjóðunum sitja, settar eru mjög þröngar skorður utan um lífeyrissjóðina og í lögum. Ég held að eðlilegt sé að nefndin fari vandlega í gegnum það og þá þær vangaveltur sem hv. þingmaður er með og lesi og fari í gegnum þau lög samhliða skoðun á þessu.

Varðandi það hvort málið verði samþykkt eða ekki þá hefur það verið á dagskrá hér í þó nokkurn tíma. Það er eitthvað síðan það var lagt fram og er núna að koma til 1. umr. Ég hefði gjarnan viljað fá það inn fyrr en það voru öfl hér innan húss sem ákváðu að tala mikið og eyða drjúgum tíma í ýmis mál í þinginu sem hefur valdið því að málið kemur hingað inn nokkrum dögum seinna en ég vænti. Ég vona að nefndin líti svo á að málið sé það mikilvægt að það geti komist til nefndar og í gegnum þingið.

Varðandi bólumyndunina, ég hef ekki áhyggjur af því að þetta mál eitt og sér muni valda slíku. Ég hef hins vegar áhyggjur af því ef okkur tekst ekki að vinna okkur út úr fjármagnshöftunum á næstu árum. Þess vegna erum við lögð af stað í þann leiðangur að taka fast utan um það mál til að ná árangri á því sviði.



[17:33]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ljóst er að það er snjóhengjan sem heldur raunvöxtum niðri eða þrýstir þeim niður og eykur auk þess samkeppni um þá litlu fjárfestingarkosti sem eru í boði fyrir utan það að fjárfesting er í lágmarki þrátt fyrir lækkun vaxta, sem er dálítið merkilegt. Sem sýnir það að mjög mikil vantrú og lítið traust er á markaðnum. Mér fannst hæstv. ráðherra ekki svara því með áhættuna, það er verið að slaka á kröfum, verið er að auka heimildir til að fjárfesta. Nú er það þannig að mjög fáir stjórnarmenn í lífeyrissjóðunum hafa sagt af sér eða hætt þrátt fyrir mikið tap lífeyrissjóðanna í hruninu. Hvað veldur því eiginlega að það gerist ekki? Það ber enginn ábyrgð.

Varðandi það sem er í 1. gr., að launagreiðendur fái að greiða sína skuld. Þarf ekki að setja á það takmörk í lengd, hvað skuldabréfið má vera til langs tíma?



[17:34]
fjármála- og efnahagsráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að eðlilegt sé að hv. þingmaður fari enn og aftur yfir þessi atriði, þá tengd lögunum um lífeyrissjóðina. Ég hef trú á því að Fjármálaeftirlitið og Seðlabankinn, sem sitja í þeirri nefnd sem komst að þeirri niðurstöðu að heimila þetta, telji varnaglana nægjanlega þannig að menn fari varlega í þessum efnum.

Ég veit hins vegar að gríðarleg þörf er á fjárfestingum inn í íslensk fyrirtæki í dag. Menn eru, eins og hv. þingmaður kom inn á, enn þá ragir við að fjárfesta í litlu og meðalstóru fyrirtækjunum en það er von okkar að með þessu máli takist að koma fjármunum þar sem á þarf að halda inn í fyrirtæki sem eru með litlar skuldir, eru með sterka stöðu en þurfa ákveðna innspýtingu til að taka næstu skref í sínum vexti. Það er markmiðið með frumvarpinu og ég vona svo sannarlega að það leiði til þessa.

Næsta skref er síðan að reyna að örva fjárfestingu í litlum og meðalstórum fyrirtækjum með því að veita fjárfestum eða sjóðum ákveðnar ívilnanir í gegnum skattkerfið til að gera það. Og vonandi náum við líka samstöðu á næsta þingi um slíkt verkefni.



[17:35]
Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, með síðari breytingum, þ.e. fjárfestingarheimildir. Hér erum við að fara í ákveðnar tímabundnar aðgerðir til að rýmka þær heimildir sem lífeyrissjóðirnir hafa til fjárfestingar. Við gerum okkur auðvitað öll grein fyrir því hvers vegna það er gert. Við erum í lokuðu hagkerfi með gjaldeyrishöft og fjárfestingarmöguleikar lífeyrissjóðanna eru því miður ekki miklir. Það liggur síðan fyrir að ríkið mun draga verulega úr útgáfu á ríkisskuldabréfum og við þekkjum stöðuna hjá Íbúðalánasjóði þar sem ekki er þörf fyrir að fara í frekari útboð því helsta vandamál hans er auðvitað uppgreiðsla lána. Það er margt sem spilar hér inn í.

Það er nauðsynlegt að taka undir það sem hefur komið fram í andsvörum að hér verði að fara varlega. Þó svo að það megi kannski líta á þetta þannig að hér sé verið að rýmka tímabundið heimild til lífeyrissjóðanna að fjárfesta í óskráðum bréfum er mikilvægt að fara varlega með þessa heimild og ég geng út frá því sem vísu að lífeyrissjóðirnir muni gera það.

Við vitum að ný fjárfestingarþörf lífeyrissjóðanna er í kringum 120–130 milljarðar á ári. Samkvæmt þessu frumvarpi geta þeir farið að hámarki upp í 100 milljarða eða svo, en það er auðvitað ekki sjálfgefið að þeir muni nýta allar þær heimildir sem hér um ræðir.

Við verðum að átta okkur á því í hvaða umhverfi lífeyrissjóðirnir eru. Gjaldeyrishöftin, sem við erum öll sammála um að eru mjög óæskileg og ekki góð, brengla í raun og veru alla samkeppnisstöðu, hvort heldur lífeyrissjóðanna eða annarra. Það er staðreynd. Því fyrr sem við komumst út úr þeim því betra. Það er hins vegar hægara um að tala en úr að leysa, það verður bara að viðurkennast, en við höfum ýmsar leiðir til að vinna úr þessu og mikilvægt að sú breiða pólitíska samstaða sem hefur verið um það mál og hvernig beri að leysa það haldist. Maður fær nánast á hverri einustu viku frásagnir af því hvernig menn eru farnir að ganga um gjaldeyrishöftin, misnota þau eða kannski er réttara að segja nýta sér þau. Það er gríðarlega mikilvægt að nálgast hlutina út frá þessum þáttum.

Ég vil líka koma aðeins inn á það sem mér hefur stundum fundist vanta í umræðuna og snýr að því þegar lífeyrissjóðirnir selja erlendar eignir úti og koma inn með erlendan gjaldeyri til að taka þátt í því að losa svokallaða snjóhengju. Frægasta dæmið er kannski svokallað Avens-samkomulag sem var gert fyrir tilstuðlan Seðlabankans sem lífeyrissjóðirnir tóku þátt í þegar jöklabréfin voru keypt af seðlabankanum í Lúxemborg. Ég held að við verðum að setja þetta í aðeins stærra samhengi. Ég hef haldið því fram og mér finnst það blasa við að þegar lífeyrissjóðirnir koma inn með ákveðnar upphæðir, segjum bara 100 milljarða til að losa um snjóhengjuna, þá megum við ekki líta þannig á að öll upphæðin fari til þess verkefnis að losa um hengjuna, hún sé þetta stór hluti af því, vegna þess að um leið og gjaldeyrishöftin verða afnumin verða lífeyrissjóðirnir að fara og fjárfesta erlendis í mjög ríkum mæli. Ég hef því sett spurningarmerki við þetta og sagt: Ef sjóðirnir koma inn með 100 milljarða þá má líta svo á að við séum að tala um í kringum 10% af því vegna þess að þörfin hjá lífeyrissjóðunum til fjárfestingar eftir að gjaldeyrishöftin hverfa liggur út. Við erum að flytja inn gjaldeyri og skipta á svokölluðu skiptiverði Seðlabankans sem er auðvitað mjög brenglað en síðan þurfa þessar krónur að fara aftur út í gjaldeyri. Ég hef stundum lagt þetta upp þannig að lífeyrissjóðirnir komi með fjárhæðir inn í landið til að taka þátt í að leysa snjóhengjuna og það megi ræða um þær upphæðir sem kannski 15–20% af því sem þær eru vegna þess að þegar búið er að skipta gjaldeyrinum yfir í krónur þarf að skipta krónunum aftur yfir í gjaldeyri þegar búið er að afnema gjaldeyrishöftin.

Ég held að við þurfum að ræða þetta út frá þeim grunni vegna þess að mér hefur fundist þetta oft vanta inn í umræðuna þegar menn hafa sagt að verið sé að leysa snjóhengjuvandann með tilstuðlan lífeyrissjóðanna. Menn verða að átta sig á því að um leið og gjaldeyrishöftin hverfa þurfa lífeyrissjóðirnir að fjárfesta enn frekar erlendis.

Síðan er það þessi mikilvæga spurning sem við þurfum að taka inn í umræðuna: Hverjir eru eiginlega möguleikarnir fyrir lífeyrissjóðina að þrífast í þessu lokaða hagkerfi með gjaldeyrishöftin? Það er nánast algerlega útilokað. Það kemur af stað ákveðinni eignabólu í fasteignaverði, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu. Það hafa margir miklar efasemdir um hver innstæðan sé í raun og veru fyrir þeim hækkunum á hlutabréfum sem eru á skráðum markaði. Við þurfum að átta okkur á þessu, hvort við séum að fara í svipað far og var fyrir árið 2008. Ég held að það sé gríðarlega mikilvægt að við áttum okkur á umfanginu.

Síðan komum við líka að afkomubata lífeyrissjóðanna og hvað er að gerast í rekstri þeirra, það er mikilvægt að reyna að átta sig á því, það hef ég reyndar ekki alveg getað gert sjálfur. En við sjáum hvað er að gerast núna, menn eru að færa inn mikinn hagnað á árinu 2011 og 2012, annars vegar vegna þess að seldar eru erlendar eignir og koma með gjaldeyri inn til landsins á mjög skökku gengi og hins vegar hefur verðtryggingin áhrif á eignastöðu lífeyrissjóðanna. Þess vegna verður maður að setja ákveðin spurningarmerki við það hver afkomubati lífeyrissjóðanna er í raun og veru, við verðum að horfa á þetta í hinu stóra samhengi. Það gefur augaleið að þegar menn létta á rekstrinum með því að skipta erlendum eignum koma þeir fjármunir inn á allt öðru gengi sem brenglar heildarmyndina að mínu mati. Það er mikilvægt að menn átti sig á því hvernig þetta á sér stað.

Við megum heldur ekki gleyma því að við erum annars vegar með opinberu sjóðina og hins vegar með almennu sjóðina. Öll vitum við af ríkisábyrgðinni sem snýr að opinberu sjóðunum og gríðarlega mikilvægt að menn átti sig á hvað það þýðir og ræði hvernig megi leysa þetta. Það eru gríðarlega háar tölur í opinberu sjóðunum í skuldbindingum, í B-deildina er búið að færa inn tæplega 400 milljarða skuldbindingar. Það er reyndar bara minnst á A-deildina í skýringum með ríkisreikningi. Það er ekki búið að færa skuldbindingarnar inn. Hv. fjárlaganefnd hefur gert athugasemdir við það og við unnum skýrslu fyrir lokafjárlög 2011 þar sem bent er á að það verði að fara að taka ákvörðun um það hvort færa eigi þetta sem skuldbindingu inn í ríkisreikning. Okkar mat er að svo þurfi að gera, það sé ekki nægilegt að hafa þetta bara sem skýringar í ríkisreikningnum. Það beri að fara með hlutdeildina eða skuldbindingarnar hjá A-deildinni með sama hætti og gert hefur verið með skuldbindingar B-deildarinnar og færa inn í ríkisreikninginn. Það er gríðarlega mikilvægt að það verði gert.

Síðast en ekki síst, af því að ég nefni A-deildina, ætla ég að segja það úr þessum stóli að það er gríðarlega mikilvægt að við tökum hreinskipta umræðu — og ég hvet hæstv. ráðherra til þess og hef reyndar sagt það við hann á nefndarfundi — um það sem snýr að því ágæta fólki sem situr í stjórn A-deildar eða opinberu lífeyrissjóðanna fyrir hönd fjármálaráðuneytisins. Af hverju segi ég þetta? Það er vegna þess að skuldbindingin í A-deildinni er alltaf að aukast og það er vitað að hækka þarf iðgjaldsgreiðslur um 4% á ári til að standa undir lífeyrisskuldbindingum í A-deild. Þetta þýðir í kringum 4 milljarða á ári. En ég hef haldið því fram að með því að gera þetta ekki svona sýnum við ekki raunrekstur ríkissjóðs. En af hverju set ég þetta í þetta samhengi? Og af hverju skyldi ég nefna þetta ágæta starfsfólk sem þarna situr? Vegna þess að það hefur komið fram á fundum fjárlaganefndar í opinberum gögnum, og ég hef sagt þetta hér áður og ætla að gera það einu sinni enn, að fulltrúar launþegahreyfinganna hafa borið fram tillögu um að hækka útgjöld eða hækka iðgjaldið um 4%. Það var fellt af fulltrúum fjármálaráðuneytisins sem eiga sæti í sjóðnum. Af hverju var þetta gert? Það var þráspurt um þetta á fjárlaganefndarfundi og það var í raun ekkert erfitt að fá svörin, ég fékk meira að segja í hendurnar afrit af fundargerð. Fulltrúar launþegahreyfinganna sem báru upp þessa tillögu nánast vissu að hún yrði felld en lögðu hana fram bara út af sinni persónulegu stöðu sem fulltrúar í stjórn sjóðsins. Það er mikilvægt að hafa í huga ef þetta kemur upp aftur seinna. Það er mjög skýrt kveðið á um það í lögum um A-deildina, þegar hún var stofnuð, að hún ætti að vera sjálfbær og hækka þyrfti iðgjöldin eða, eins og Fjármálaeftirlitið heldur fram og deilur standa um, skerða réttindi. Það eru deilur um það.

Meiri hlutinn á Alþingi hefur brugðist við með því að hækka svokölluð vikmörk, þ.e. það má fara undir ákveðið hlutfall án þess að þurfa að hækka iðgjaldið. En þetta þurfum við að hafa á hreinu og sérstaklega í gögnum þingsins því það getur auðvitað komið upp sú staða — við skulum ekki útiloka það, maður útilokar ekki neitt, alla vega ekki ég — að vísað verði til þess að þær upplýsingar hafi komið fram á fundi fjárlaganefndar um að fulltrúar launþegahreyfinganna hafi lagt fram þessa tillögu, eftir að hafa fengið lögfræðilegt álit, vegna sinnar persónulegu stöðu sem stjórnarmenn í sjóðnum. Þess vegna er mikilvægt að þetta komi hér fram ef vísað verður til þessa einhvern tíma seinna.

Síðan vil ég líka tala um annað sem snertir lífeyrissjóðina. Við eigum að taka heiðarlega umræðu til að mynda um svokallaðan Framtakssjóð sem sjóðirnir tóku sig saman um og fóru í miklar fjárfestingar og keyptu upp fyrirtæki. Ég er hér um bil sannfærður um að ákveðin íslensk fisksölukeðja sem þeir eignuðust og seldu svo aftur — þ.e. Landsbankinn var búinn að selja hana, tekur hana aftur inn og Framtakssjóður tekur hana og síðan er hún seld og haldið eftir ákveðnum hlutum, til að innleysa töluverðan hagnað. Þeir leystu út töluverðan hagnað, en ég held að þetta geti haft mjög slæm áhrif inn í framtíðina út af aðgengi að fiskafurðum og sölu þeirra. Sú staða getur klárlega komið upp. Við sáum það bara í fréttum fyrir ekki svo mörgum vikum síðan þar sem fram kom að menn eru enn með íslenska vörumerkið, Icelandic-merkið, og síðan kom það upp á markaðnum í Bandaríkjunum að það var verið að pakka inn kínverskum fiski og flytja inn undir því vörumerki.

Það verður að horfa á þessar fjárfestingar og meta heildstætt fyrir þjóðfélagið. Það má ekki vera þannig að lífeyrissjóðirnir, svo ágætir sem þeir eru eflaust margir hverjir, geti bara vegna einhverra stundarhagsmuna farið í fjárfestingar, tekið þær eignir og síðan selt kannski með miklum hagnaði vegna þess að það getur auðvitað enginn keppt við lífeyrissjóðina í fjárfestingum. Þeir eru eins og stundum er sagt ríki í ríkinu, sérstaklega núna þegar aðgangur að fjármagni er eins og hann er. Þeir stjórna að langstærstu leyti, ef ekki öllu leyti, því sem snýr að fjárfestingum og fjárfestingargetu í íslenska hagkerfinu. Við verðum að átta okkur að því að ef verið er að rétta af reksturinn hjá þeim með þeim hætti að þeir innleysi mikinn hagnað á stuttum tíma — ég nefndi áðan þegar þeir koma inn með gjaldeyri og skipta honum yfir í íslenskar krónur myndast mikill hagnaður, sérstaklega eins og í því tilfelli sem ég nefndi áðan með Avens-samkomulagið. Í því tilliti verðum við að átta okkur á því að fjárfestingarþörf lífeyrissjóðanna eftir að gjaldeyrishöftunum verður aflétt mun liggja út úr landinu vegna þeirrar skekkju sem komin er í eignasafnið. Það er því mikilvægt að hafa þetta allt í huga, sérstaklega í ljósi stöðu opinberu sjóðanna. Við erum með ríkisábyrgðir á skuldbindingum sjóðanna sem eru núna komnar vel á fimmta hundrað milljarða kr. og árið 2024 förum við fram af hengifluginu.



[17:50]
Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Hann fór töluvert yfir almennt umhverfi lífeyrissjóðanna til fjárfestingar og nefndi Framtakssjóðinn og fleira til.

Vonandi eru flestir alþingismenn sammála því að það var mjög bagalegt að við skyldum tapa vörumerkinu sem hv. þingmaður ræddi hér um, tapa því í hendur aðila sem geta í rauninni pakkað vöru sem á ekkert skylt við Ísland og selt undir merkinu Icelandic, væntanlega, ef ég man þetta allt saman rétt. Ég velti fyrir mér hvort við höfum látið nóg í okkur heyra varðandi þá ákvörðun á sínum tíma að láta þetta ganga okkur úr greipum. Hugsanlega höfum við gert mistök með því að grípa ekki inn í með einhverjum hætti, ekki að ég viti hvernig það hefði verið hægt.

Mig langar að biðja þingmanninn að fara nánar yfir það sem hann nefndi í ræðu sinni. Ég verð að viðurkenna að ég kom inn í salinn síðar og náði því ekki alveg byrjuninni á því sem þingmaðurinn talaði um þegar hann talaði um persónulega stöðu þeirra sem voru í stjórn lífeyrissjóðs, væntanlega opinbera sjóðsins, ef ég heyrði rétt. Gæti hann útskýrt það aðeins nánar fyrir mér hver áhættan var eða fyrir hvað menn voru að girða, ef ég hef skilið hv. þingmann? Það væri gott að fá útskýringar á því.

Einnig langar mig að spyrja þingmanninn hvort hann taki undir þau orð sem féllu hér áðan um að það gæti verið varhugavert að auka eða leyfa meiri fjárfestingar í óskráðum bréfum í ljósi þess hve lífeyrissjóðirnir töpuðu gríðarlega miklu fjármagni, væntanlega einhverju af slíkum bréfum, í bankahruninu. Það verður líka að viðurkennast að kostir sjóðanna eru ekki mjög margir í dag.



[17:53]
Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Aðeins að fyrstu spurningu hv. þingmanns sem snýr að lífeyrissjóðunum og sölumerkinu sem ég hef fjallað um, þá held ég að þetta sé gríðarlega mikilvægt í stöðu lífeyrissjóðanna á fjárfestingarmarkaði því að það er enginn með neitt sambærilegt — það hefur í raun og veru enginn neitt í þá að gera, þeir hafa 120–130 milljarða og rúma 10 milljarða í hverjum einasta mánuði til þess að fjárfesta til viðbótar við það sem þeir eru með. Við þekkjum auðvitað stöðuna á Íbúðalánasjóði, við þekkjum stöðuna í sambandi við ríkissjóð, það er verið að draga úr, þannig að möguleikarnir eru mjög litlir. Það sem ég vil meina með þessu er að lífeyrissjóðirnir sjálfir verða og stjórnendur þeirra — og ég er ekki að halda því fram að það sé ekki þannig — og hæstv. ríkisstjórn eða fjármálaráðherra að eiga samtal um þá miklu ábyrgð sem snýr að þessum hlutum þegar menn yfirtaka fyrirtæki eins og þetta. Mín persónulega skoðun er að þarna hafi verið gerð stór mistök sem muni bitna á okkur í markaðssetningu á íslenskum fiski.

Hitt sem hv. þingmaður spurði um snýr að stöðu þeirra einstaklinga sem sitja í stjórn opinberu sjóðanna. Það er klárt að annaðhvort þarf að hækka iðgjöldin um 4% eða skerða lífeyrisréttindin. Það standa hins vegar ákveðnar deilur um hvort það sé heimilt innan A-deildarinnar. Fjármálaeftirlitið var á þeirri skoðun að það væri heimilt, en látum það liggja á milli hluta.

Ég var bara að draga þá einstaklinga sem sitja í stjórn fyrir ríkisvaldið, eða fyrir hönd hæstv. fjármálaráðherra, inn í umræðuna því að þetta er mjög mikilvægt og þess vegna segi ég það úr þessum ræðustóli til þess að setja það í þingtíðindin: Af hverju skyldu fulltrúar launþegahreyfingarinnar fá lögfræðilegt álit um að leggja fram tillögu sem er felld af fulltrúum fjármálaráðuneytisins? Til þess að hugsa um persónulega stöðu sína sem einstaklingar, ekki neitt annað. Þess vegna er mikilvægt að þetta komi hér fram að mínu mati. Mér hefði ekki liðið vel ef ég hefði ekki komið þessum upplýsingum til þingsins.



[17:55]
Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að viðurkenna að þetta hljómar allsérstakt fyrir mér. Mér sýnist að þarna sé í það minnsta verið að koma á framfæri einhverjum upplýsingum eða girða fyrir að menn verði ásakaðir fyrir einhver mistök eða einhverjar afleiðingar síðar.

Það er vitanlega ljóst að mikla fjármuni vantar í opinberu sjóðina líkt og hina almennu. Þegar öllu er á botninn hvolft þá er það bara þannig. Einhver hundruð milljarða vantar, ef ég man rétt, inn í hvort apparat — ég ætla bara að orða það á þann hátt. Það er hins vegar alveg ljóst að lífeyrissjóðunum sem og öðrum fjárfestum er býsna þröngt sniðinn stakkur á Íslandi í dag þegar hægt virðist ganga að koma Kauphöllinni af stað, alla vega þannig að hægt sé að fjárfesta þar. Lífeyrissjóðirnir liggja á miklum peningum sem þeir þurfa að koma í fjárfestingar til að standa undir því hlutverki sem þeim er ætlað. Þá veltir maður fyrir sér hvort það sé einhvers konar neyðarráðstöfun af hálfu ríkisstjórnarinnar að grípa til þess að hækka prósentuna sem sjóðirnir geta fjárfest fyrir í óskráðum bréfum og einnig breytingar varðandi samlagsfélög, hvort það sé ekki bara staðfesting á því sem mörg okkar hafa haldið fram, að hér þurfi að verða til umhverfi þar sem lífeyrissjóðir og aðrir fjárfestar geti komið fé sínu í framkvæmd eða vinnu, ef ég má orða það svo.

Það er líka spurning hvort hv. þingmaður hafi einhverja skoðun á því, þar sem mér skilst að nú sé bundið í lög að lágmarksávöxtunarkrafa lífeyrissjóðanna skuli vera 3,5%, hvort það standi í vegi fyrir því að lífeyrissjóðir fjármagni eða geti komið að verkefnum með ríkisvaldinu, þ.e. sú prósentutala sem nefnd er í lögum.



[17:57]
Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst að því síðasta sem hv. þingmaður nefndi, ávöxtunarkröfu upp á 3,5% sem er á lífeyrissjóðunum. Það hefur auðvitað margoft verið rætt en við í hv. fjárlaganefnd höfum til að mynda aldrei tekið það til efnislegrar skoðunar. Ég treysti mér því ekki til þess að vera með neinar yfirlýsingar um það eða upplýsingar fyrir hv. þingmann. Ég held hins vegar að það sé mjög mikilvægt að menn skoði þetta umhverfi í heild sinni. Þetta er góð ábending hjá hv. þingmanni og ég tek undir hana.

Ef við höldum okkur við A- og B-deildina er B-deildin með þeim hætti að búið er að færa tæpa 400 milljarða sem skuldbindingu á ríkissjóð. Við munum eftir því 1998 þegar A-deildin var stofnuð að sú ákvörðun var tekin út frá því að menn voru með þetta mikla fjall fyrir aftan sig, það hafði safnast upp, og þeirri vitleysu skyldi hætt eða þeirri stefnu. Þá var sagt: Nú skulum við stofna A-deild og loka B-deildinni til þess að við munum geta rekið lífeyrissjóðakerfið og gjöld launagreiðenda á núvirði. Við settum þetta fram í minnihlutaálit okkar í hv. fjárlaganefnd og bentum á að það þyrftu að vera 4 milljarðar til viðbótar í útgjöldum ríkissjóðs á gjalddagahliðinni fyrir árið 2013 til að standa undir þessum hluta skuldbindingarinnar.

Ég hef oft varað við þessu. Skuldbindinga vegna A-deildarinnar er getið í skýringum í ríkisreikningi og um þær hefur komið sú ábending frá hv. fjárlaganefnd, sem engar deilur eru um, að taka þurfi ákvörðun um — og það er ætlast til að það verði gert í síðasta lagi fyrir lokafjárlög fyrir árið 2012 sem er í meðförum núna — með hvaða hætti beri að færa þetta, hvort það sé nóg að geta þess í skýringum eða hvort þurfi að færa þetta inn sem skuldbindingu. Það er auðvitað mikilvægt því að upprunalega þegar A-deildin var stofnuð ætluðu menn að hætta að safna skuldbindingum. Svo getum við auðvitað tekið langa umræðu um það umhverfi sem við búum við og aðstæður akkúrat á þessum tíma en ég get ekki séð annað en að við séum á nákvæmlega sömu leið með A-deildina og (Forseti hringir.) B-deildin endaði.



[18:00]
Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Ásbirni Óttarssyni fyrir innlegg hans við þessa umræðu. Þar sem hv. þingmaður situr í fjárlaganefnd býr hann oft yfir upplýsingum sem aðrir óbreyttir þingmenn hafa ekki aðgang að. Því vildi ég spyrja hv. þingmann meðal annars út í það sem kom fram í andsvörum við hæstv. ráðherra áðan, um hættuna á því að hér gæti eða sé jafnvel að skapast bóluhagkerfi þar sem lífeyrissjóðirnir hafa sannarlega úr miklum fjármunum að spila og geta ekkert farið með þá nema á innlendan hlutabréfamarkað eða skuldabréfamarkað. Hefur eitthvað verið fjallað í fjárlaganefnd um þá hættu sem margir hafa bent á að sé nú þegar fyrir hendi?

Hér hefur líka verið rætt að við séum nokkuð jákvæð gagnvart því að auka möguleika margra óskráðra félaga. Það hefur ekki verið virkur hlutabréfamarkaður hér á landi fyrir skráð félög. Menn hafa kannski ekki treyst sér til að fara í það ferli þar sem mörg fyrirtæki á Íslandi eru lítil eða frekar smá. Þarna mundi þá vissulega koma möguleiki fyrir slík fyrirtæki að sækja sér fjárfestingarfé og þá um leið tækifæri fyrir lífeyrissjóðina.

Hefur sú hætta sem menn hafa bent á og kemur fram í skýrslu lífeyrissjóðanna, að menn hafi tapað fjármunum á óskráðum félögum, eitthvað verið metin í fjárlaganefnd? Hefur þessi umræða komið upp í tengslum við einhver önnur mál áður en þetta frumvarp kom hingað inn? Að öðrum kosti er augljóst að þetta mál þarf að fara til gagngerrar skoðunar hvað þennan þátt varðar.



[18:02]
Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Hv. þingmaður spyr hvort við höfum tekið mikla, djúpa, efnislega umræðu í hv. fjárlaganefnd sem snúi að fjárfestingarþörf lífeyrissjóðanna. Við höfum ekki gert það. Við áttum hins vegar fundi með fulltrúum opinberu lífeyrissjóðanna því að opinberu sjóðirnir falla undir ríkið en ekki almennu sjóðirnir. Við vitum alveg hvernig það virkar, ef þeir tapa eða geta ekki staðið undir greiðslum þá skerða þeir bara réttindin, við þekkjum það. Hins vegar höfum við oft rætt það sem snýr að opinberu sjóðunum. Síðasti fundur sem við áttum með þeim var einmitt núna í vetur þegar gengið var frá svokölluðum gjaldmiðlasamningum við tvo banka þar sem þeir lokuðu þeim samningum. Þá var farið lauslega yfir þetta. Ég spurði forsvarsmenn lífeyrissjóðanna þá um þann þátt sem ég kom inn á í ræðu minni, hve mikils það væri metið þegar þeir koma inn með erlendar eignir og skipta yfir í krónur. Á svo háu gengi myndast mikill hagnaður hjá lífeyrissjóðunum en auðvitað er fjárfestingarþörf þeirra fyrst og fremst erlendis. Hún er þegar orðin röng og þarf að réttast, þ.e. þeir þurfa að fjárfesta mun meira erlendis en þeir hafa gert nú þegar. Þörfin er uppsöfnuð. Ég spurði og þeir tóku undir og samþykktu það sem ég sagði, þ.e. að ekki væri hægt að líta á það þannig að verið væri að minnka snjóhengjuna um nákvæmlega sömu upphæð og komið var með inn vegna þess að fjárfestingarþörfin beinist út þegar þeir losna.

Það er kannski einn af þeim þáttum sem ég get svo sem sagt við hv. þingmann í lok andsvarsins. Mér hefur oft fundist, til dæmis í nefndastörfum þó að það sé mjög fínt í hv. fjárlaganefnd, vanta mun meiri tíma til að taka svona umræður og eiga góðan tíma til að spá og spekúlera, hvort sem það er um þetta eða eitthvað annað, en því miður höfum við ekki náð að þróa það nægilega mikið á þessu kjörtímabili.



[18:04]
Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum svarið. Annað atriði sem mig langar að koma inn á og hann ræddi nokkuð í ræðu sinni varðar Framtakssjóð lífeyrissjóðanna. Um leið og við erum með væntingar um að þessi hækkun á þakinu veiti nýjum sprotafyrirtækjum, vaxandi fyrirtækjum aukna möguleika á að sækja sér fjárfestingarfé þá höfðu menn nákvæmlega sömu væntingar þegar Framtakssjóður Íslands var stofnaður. Þá var einmitt talað um að hann mundi fjárfesta í nýjum og vaxandi fyrirtækjum. Nú hefur því miður reynslan verið sú, held ég að megi segja, alla vega hvað mig varðar, að Framtakssjóðurinn hefur meira eða minna keypt fyrirtæki út úr hinum föllnu bönkum og endurfjármagnað þau og selt síðan aftur. Og eins og hv. þingmaður kom inn á held ég að menn hafi gert hrapalleg mistök með því að selja Icelandic-merkið.

Telur hv. þingmaður að falskar væntingar gætu falist í því að hækka þetta þak í 25%, að þarna séu möguleikar á að fara inn með aukið fjármagn á nákvæmlega sama hátt og Framtakssjóðurinn átti að gera? En hann valdi síðan að koma ekki að nýjum fyrirtækjum heldur kaupa fyrst og fremst gömul fyrirtæki, sem voru komin í gjörgæslu bankakerfisins, oft og tíðum með mismunandi og stundum alvarlegum afleiðingum á samkeppnismarkaði. Er ekki hættan einfaldlega sú að vegna þröngra ákvæða sem lífeyrissjóðirnir hafa, þrátt fyrir að þetta hljómi vel, sé þetta takmarkandi þáttur og verði kannski ekki nýttur eins og menn sjá möguleika á þegar þeir setja tölurnar á blað?



[18:07]
Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held að það sé rétt sem hv. þingmaður nefnir hérna, að þó svo að menn hækki þessi mörk og séu að reyna að bregðast við ástandinu þá átta þeir sig ekki á því, eins og kom fram í máli hæstv. ráðherra áðan, hvort menn mundu nýta allar þær heimildir sem fyrir lægju. Það verður bara að skýrast í framtíðinni. Ég held hins vegar að það sé mjög mikilvægt að átta sig á því að þetta mál er í 1. umr. og á eftir að fara til nefndar og þá skoða menn það auðvitað mun betur en kannski er hér í 1. umr. þar sem er bara verið að kalla eftir viðhorfum og athugasemdum.

Það er bara verið að reyna að bregðast við því umhverfi sem er fyrir hendi, hvort þetta er akkúrat rétta leiðin eða besta ætla ég ekki að fullyrða neitt um, en meðan við erum í lokuðu hagkerfi með gjaldeyrishöft og í raun með svo mikla þörf lífeyrissjóðanna til fjárfestingar þá held ég að við þurfum að fara yfir málið þannig að allir fylgist að. Þess vegna nefndi ég ábyrgð lífeyrissjóðanna. Ég held ekki að þeir hafi misnotað heimildina en hins vegar er dæmið sem ég tel að þyrfti að skoða betur, sem sneri að Framtakssjóðnum þegar hann seldi Icelandic-merkið eða hluta af því, sláandi. Þá er mjög mikilvægt að stjórnvöld og hæstv. ráðherra séu í nánu samstarfi við þessa aðila um það hvernig menn sjái markaðinn þróast þannig að ekki sé verið að búa til eignabólur sem geta svo komið í bakið á okkur.

Það er gríðarlega mikilvægt að farið verði vel yfir þetta mál fyrir 2. umr. til að menn átti sig á því hvort einhverjar hættur séu fyrir hendi. Maður sér það ekki í fljótu bragði en það getur auðvitað verið og þó að verið sé að slaka á kröfunum væntir maður þess að lífeyrissjóðirnir muni ekki fara yfir strikið. Það eru auðvitað mjög strangar reglur um hvernig þetta skuli gert en það er nokkuð sem verður að skýrast.



[18:09]
Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum í 1. umr. frumvarp til laga um breytingu á lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Þar er um að ræða breytingar sérstaklega varðandi fjárfestingarheimildir lífeyrissjóðanna. Þetta er mál sem ég veit að kemur til vegna beiðni eða alla vega í samvinnu við fyrirtækin hér í landinu, lítil og meðalstór, sem kalla eftir aukinni fjárfestingu. Við þekkjum það og það er jákvætt að verið sé að leita leiða til þess að auka möguleika fyrirtækjanna í landinu til að sækja sér fjármagn til fjárfestingar. Við höfum talað um það hér í þessum stóli, talað okkur hás síðastliðin fjögur ár yfir því að ekki séu nægileg tækifæri til þess.

Að því leytinu til er það jákvætt en ég hlýt að spyrja, virðulegur forseti, af hverju hæstv. fjármálaráðherra leggur þetta mál svona seint fram? Núna er 11. mars, það er mánudagur og við eigum að ljúka þingstörfum á föstudaginn samkvæmt starfsáætlun. Þetta mál er í 1. umr. og nú er ekki hægt að kenna stjórnarandstöðunni um að hafa verið í málþófi um þetta mál þar sem við erum í 1. umr. Er virkilega ætlast til þess að málið verði klárað á fjórum þingdögum? Að það eigi að fara til nefndar, umsagna verði leitað, gestir verði kallaðir til og málið verði afgreitt á þeim örfáu, (Gripið fram í: Þremur.) þremur þingdögum sem hér eru til stefnu?

Þetta er kannski ekki stærsta málið og þó, það lætur lítið yfir sér, er ekki nema fjórar greinar, en þarna er um talsvert háar fjárhæðir að ræða. Við vitum að lífeyrissjóðirnir í landinu eiga fleiri þúsund milljarða til ráðstöfunar og aftan á umslagi er reikningur hv. þm. Péturs Blöndal hér í hliðarsal fyrir mig, ég treysti hv. þingmanni betur að reikna aftan á umslag heldur en sjálfri mér, sem segir mér að þetta gætu verið 120 milljarðar í ársráðstöfun sem bætist við hjá lífeyrissjóðunum þegar er hækkað úr 20% í 25%. Þarna er um umtalsverða fjármuni að ræða af því sem mætti kalla skyldusparnaði þjóðarinnar.

Nú er ég ekki að ætla að allir þessir 120 milljarðar tapist, þvert á móti, í þessum bransa er það sem betur fer þannig að sum viðskiptatækifæri eru heppilegri en önnur. En við hljótum að gera ráð fyrir því að eitthvað af þessum fjármunum tapist þannig að fara þarf ákaflega vel yfir þetta og ég vil nota tækifærið og hvetja lífeyrissjóðina til þess að sýna ákveðna varúð. Hægt er að setja þetta í samhengi við annað stórmál sem við ræðum hér nánast upp á hvern einasta dag og við höfum verið að gagnrýna hæstv. ríkisstjórn fyrir að taka ekki nægilega vel á og það er úrlausn í skuldavanda heimilanna.

Lífeyrissjóðirnir töpuðu miklum fjármunum í hruninu, ætli það hafi ekki verið í kringum 600 milljarðar sem töpuðust. Ég leyfi mér að fullyrða að ekki hafi mikill hluti þess fjár sem tapaðist verið vegna húsnæðislána eða lána til heimilanna í landinu. Þar eru lífeyrissjóðirnir nefnilega með belti og axlabönd og hafa ekki þurft að afskrifa. Þeir hafa í raun ekki tekið í mál að afskrifa á heimilin eða greiða úr þeim vanda sem heimilin urðu fyrir við hrunið eða eftir hrun. Ef maður setur málið í þetta samhengi, hér gæti verið um að ræða 120 milljarða króna sem eru ætlaðir til fjárfestinga í óskráðum fyrirtækjum sem menn vita ekki hvernig reiðir af. Það getur leitt til mikillar eftirspurnar eftir lánsfé og ég er ekki að ætla mönnum að það hafi í för með sér óvarkárni, en menn verða að gera ráð fyrir því. Þá er spurningin, væri hægt að nýta þessa fjármuni lífeyrissjóðanna, eða hliðra til reglum þeirra líka, til þess að koma með einhverjum hætti til móts við þann vanda sem þeir sem eru með lán hjá lífeyrissjóðunum og hafa lent í vanskilum búa við. Er hægt að nota tækifærið og finna einhverjar leiðir til þess að auka þær heimildir?

Það eru fyrirtæki í landinu sem kalla eftir fjárfestingu. Það eru tækifæri hér vítt og breitt og ég held að mjög mikilvægt sé að við förum vel yfir hvaða áhrif það getur haft þegar við opnum fyrir svona heimildir. Hvers konar árangri hafa lífeyrissjóðirnir náð í fjárfestingum sínum af þessum 20% sem þeim er heimilað núna? Ég kalla eftir því að í nefndinni liggi upplýsingar fyrir, eða kallað verði eftir þeim, um hvaða kröfur er ætlað að gera á móti, gegn þeirri heimild sem er hér.

Mig að spyrja varðandi annað atriði sem einnig er verið að breyta varðandi skuldbindingar launagreiðenda. Í kostnaðarumsögn fjárlagaskrifstofunnar segir, með leyfi forseta:

„Breytingar sem koma fram í þessu frumvarpi geta liðkað fyrir samningum lífeyrissjóða við launagreiðendur sem vilja standa við skuldbindingar gagnvart lífeyrissjóðum og því haft þær afleiðingar að slíkar skuldbindingar innheimtist betur en ella.“

Ég vil spyrja í framhaldi af þessu: Er mikið um vanskil af hálfu launagreiðenda til lífeyrissjóðanna? Er það almennur vandi sem verið er að girða fyrir með þessari breytingu? Er þetta eitthvað nýtt, er þetta eitthvað sem er til komið núna eftir hrunið eða er þetta eitthvað sem hefur verið almennur vandi? Mér þykir athyglisvert að verið sé að leggja til breytingar með þeim hætti að launagreiðandi geti greitt inn á skuldbindinguna með útgáfu skuldabréfa sem ekki eru skráð á skipulögðum markaði og að þeir aðilar sem tryggðu starfsmenn í sjóðum með bakábyrgð ríkis- eða sveitarfélaga ábyrgist í einhverjum mæli hver fyrir sinn hóp greiðslur úr þeim. Ég spyr hvort þetta sé viðvarandi vandamál og hvort þetta sé eitthvað sem er nýtilkomið.

Virðulegi forseti. Þó að málið láti ekki mikið yfir sér er það ekki eins lítið og það lítur út fyrir að vera. Því hlýt ég að ítreka spurningar mínar til hæstv. fjármálaráðherra um hvort ætlunin sé að klára málið á þessu þingi, af hverju í ósköpunum það er svona seint fram komið og hvort það sé lagt fram í samráði við lífeyrissjóðina, í samráði við fyrirtækin eða hvort það sé að undirlagi hæstv. fjármálaráðherra. Er þetta sambærilegt við það sem er að gerast annars staðar eða er þetta vandi sem við erum að glíma við á Íslandi vegna gjaldeyrishaftanna? Ef ég fæ ekki svör við þeim hér hjá hæstv. fjármálaráðherra þá óska ég eftir því að þeim verði svarað í nefndinni. Síðan vil ég ítreka spurningu sem ég var með, hæstv. fjármálaráðherra brá sér úr salnum, um hvort að mikil vanskil séu af hálfu launagreiðenda vegna iðgjalda starfsfólks síns til lífeyrissjóðanna, vegna þess að hér er verið að gera breytingar á lögunum í þeim tilgangi að auðvelda launagreiðendum að standa við skuldbindingar sínar.

Virðulegur forseti. Ég hef nefnt hér nokkur atriði sem vöktu athygli mína við fyrstu sýn í þessu máli og hvet hv. nefnd til þess að fara vel yfir það og trúi því varla að það eigi að klárast á þessu þingi, en hlakka til að heyra svör hæstv. fjármálaráðherra.



[18:21]
fjármála- og efnahagsráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Í fyrsta lagi kom málið í þingið fyrir tveimur vikum og er búið að vera nokkrum sinnum á dagskrá. Það er eitt þeirra mála sem ekki hefur náðst að mæla fyrir hér sökum þess að stjórnarandstaðan taldi sig þurfa að ræða hér einstaka mál mjög ítarlega, eins og sagt er. Ég hefði gjarnan viljað að málið hefði farið í nefnd fyrir tveimur vikum en þetta er staðan í þinginu og þess vegna er ekki mælt fyrir málinu fyrr en nú. Þannig er það nú.

Málið er afar brýnt, ekki aðeins vegna lífeyrissjóðanna, þeir þurfa auðvitað að fjárfesta og hafa óskað eftir því að fá aukið svigrúm til þess, en ekki síður vegna ákalls fyrirtækjanna í landinu. Ég óskaði eftir því að nefnd skoðaði málið þar sem í eiga sæti fulltrúar Fjármálaeftirlitsins, Seðlabanka Íslands, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins og fjármála- og efnahagsráðuneytisins. Þeir fulltrúar fara nú í gegnum allar fjárfestingarheimildir lífeyrissjóðanna. Var það gert vegna þess þrýstings sem skapast hefur af hálfu lítilla og meðalstórra fyrirtækja sem ekki munu strax fara í það ferli að skrá sig á markað, enda það eru ekki mörg fyrirtæki þar enn þá, því miður. Það er auðvitað æskilegt að sem flest skrái sig þar. Þessi fyrirtæki óskuðu eftir þessu og því bað ég nefndina um að skoða málið þar sem ég vildi fara að öllu með gát.

Nefndin komst að þeirri niðurstöðu að það væri æskilegt tímabundið vegna þess að á meðan við erum með fjármagnshöft ríkti hér óeðlilegt ástand. Ég taldi eðlilegt og sjálfsagt að verða við þessu vegna þess að það er gríðarleg þörf fyrir atvinnuvegafjárfestingu. Við erum með sterk fyrirtæki þó að þau séu ekki skráð á markað. Örfá íslensk fyrirtæki eru skráð á markað og hin eru mörg hver mjög sterk og stöndug og þurfa bara örlitla innspýtingu í gegnum fjárfestingu frá ábyrgum aðila sem getur stutt viðkomandi til lengri tíma til þess að taka næstu skref í starfsemi sinni. Þess vegna er þetta mál lagt fram.



[18:24]
Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og get alveg tekið undir síðustu orð í ræðu hennar um að mikilvægt sé að íslensk fyrirtæki, sem eru svo fá skráð á markaði, hafi tækifæri og leiðir til þess að sækja sér fjármagn frá jafntraustum aðilum og lífeyrisjóðunum. En það höfum við vitað um dálitla hríð og verð ég að lýsa vonbrigðum mínum með svör hæstv. ráðherra. Mér fannst það vera mjög léleg afsökun hjá henni fyrir því að við værum að ræða þetta mál í seinustu þingvikunni að það hefði verið lagt fram fyrir tveimur vikum og ekki komist til umfjöllunar.

Ákall fyrirtækjanna, skýrslan og nefndin sem hæstv. ráðherra nefndi er væntanlega ekki nýr vandi. Það er ekki nýtt. Var það að gerast fyrir tveimur vikum? Ég held ekki. Málið kemur hingað inn allt of seint. Jafnvel þótt það hafi komið 28. febrúar, fyrir tveimur vikum, er það að sjálfsögðu allt of seint þegar um er að ræða mál sem lætur lítið yfir sér en er stórmál. Ég er ekki að segja að þetta sé vont mál en við verðum að vinna það vel. Ég leyfi mér að halda því fram, einmitt vegna þess að hæstv. ráðherra sagði að hún vildi fara að öllu með gát, að það sé ábyrgðarleysi að ætla þinginu svo skamman tíma í að fjalla um þetta mál. Mér finnst það einkar sorglegt þegar um er að ræða mál sem við gætum öll náð samkomulagi um ef rétt væri að því staðið vegna þess að ég sé jákvæðar hliðar á því að íslensk fyrirtæki fái tækifæri til þess að leita sér fjármagns. En það er ekki sanngjarnt af hæstv. (Forseti hringir.) ráðherra að segja að ástandið í þinginu sé (Forseti hringir.) þess valdandi að við ræðum málið allt of seint.



[18:26]
fjármála- og efnahagsráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. En það er einfaldlega þannig. Málið var til dæmis á dagskrá í síðustu viku ásamt öðrum málum sem komu seinna inn en þetta, til dæmis Bakki. Þá samdi stjórnarandstaðan um það hvaða málum henni var þóknanlegt að hleypa hér í gegn. Þetta mál var því miður ekki eitt af þeim þó að ég hefði gjarnan viljað að svo væri. Þessa dagana búum við við slíkt ofríki stjórnarandstöðunnar að mál eru tekin hér í gíslingu. Síðan fara þau mál til nefnda sem henni eru þóknanleg. Svo einfalt er það. Menn sáu það allir í síðustu viku þegar málið á var á dagskrá ásamt fleiri góðum málum.

Þegar þessi ósk kom til mín taldi ég það ábyrgðarfyllstu leiðina að óska eftir því að nefnd, sem sér um heildarendurskoðun á fjárfestingarheimildum lífeyrissjóðanna og sem í eiga m.a. sæti fulltrúar Seðlabankans og líka fulltrúar Fjármálaeftirlitsins, færi yfir málið. Það skiptir miklu máli að þessir aðilar séu sammála því að það sé gert, það er ábyrg niðurstaða þannig að málið kemur gríðarlega vel undirbúið hingað til þings þar sem þeir hafa nú þegar fjallað um það. Ef þingið treystir sér ekki til þess að fara með málið í gegn verður svo að vera. En ég legg málið engu að síður fram þó að ég hefði gjarnan viljað gera það fyrr og þó að það hafi ekki hlotið náð fyrir augum stjórnarandstöðunnar í samningum fyrir helgi. Ég tel það brýnt og ef þingið treystir sér ekki til að samþykkja það þá er það bara þannig. En hér legg ég málið inn vel tilbúið og vel rökstutt og vona að þingheimur sjái sér fært að samþykkja það af því að (Forseti hringir.) það skiptir miklu máli fyrir atvinnuvegafjárfestingu í þessu landi.



[18:28]
Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er algjörlega forkastanlegt af hálfu ráðherrans, sem ég veit að gengur gott eitt til með þessu máli, að bjóða upp á svona málflutning, að málið hafi ekki verið rætt vegna þess að stjórnarandstaðan hafi hér eitthvert dagskrárvald. Hér er að störfum ríkisstjórn, alla vega að nafninu til, sem hefur með forgangsröðun verkefna í landinu að gera. Við höfum alveg séð hvaða mál eru í forgangi af þeim sem koma inn í þingið. Það eru breytingar á stjórnarskránni sem keyrðar hafa verið á dagskrá og tíma sóað, leyfi ég mér að segja — sóað. Ef hæstv. ráðherra vill ekki að málið lendi í einhverju endatafli á þinginu á hún að sjálfsögðu að koma fram með það í tíma þannig að hægt sé að vinna það vel.

Það var það sem ég var að gagnrýna áðan. Ég kaupi alveg skýringar hæstv. ráðherra um að samstarfið á milli nefndarinnar sem vinnur að breytingum á lögum um heimildirnar og þeirra sem þar eiga í hlut hafi verið gott og að menn leggi málið inn vel undirbúið, en það er samt allt of seint. Hvenær skilaði nefndin af sér? Er það eitthvað nýtt? Af hverju kom málið ekki fyrr inn? Hæstv. ráðherra, sem hefur setið á þingi og er að verða þingreyndasta konan eftir kosningar, ætti að vita að það er ekki boðlegt að láta góð mál eins og þessi, sem við getum svo sannarlega náð samkomulagi um, fara í þá hít (Forseti hringir.) og það ástand sem skapast alltaf í lokin þegar forgangsraða þarf málum. (Forseti hringir.) Þetta mál er skýrt dæmi um ranga forgangsröðun ríkisstjórnarinnar.



[18:31]
Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu. Mig langar að spyrja hana út í þá staðreynd, sem blasir við og ég hygg að sé eina ástæða þess að þetta frumvarp er komið til þingsins, að möguleikar lífeyrissjóðanna á fjárfestingum eru mjög takmarkaðir þessa dagana, meðal annars vegna gjaldeyrishaftanna, sem við erum reyndar erum nýbúin að afreka að gera nánast óendanleg. Við lýstum því alla vega yfir nú í vikunni að þeim málum ætti að breyta. Hvað sem okkur finnst um að taka út eitthvert ákvæði um gjaldeyrishöft þá gerðum við það nú.

Mig langar að spyrja hv. þingmann: Ef aukin fjárfesting hefði átt sér stað þetta kjörtímabil þegar fjárfestingin hefur verið í algjöru lágmarki, hefði það ekki flýtt fyrir og hafa áhrif á afnám gjaldeyrishaftanna og um leið auka möguleika lífeyrissjóðanna á því að fjárfesta? Við vitum að einhver fjárfestingarverkefni hafa ekki gengið eftir sem menn ætluðu sér að fara í á kjörtímabilinu. Því spyr ég hvort það sé ekki afleiðing af höftunum að lífeyrissjóðirnir skuli þurfa að bjóða fjárfestum upp á að auka heimildir til þess að fjárfesta í óskráðum bréfum og svo framvegis.

Það er alveg ljóst að þörf lífeyrissjóðanna til þess að fjárfesta á næstu árum er upp á mörg hundruð milljarða til þess að standa undir þeim lögum og skyldum sem um þá gilda. Eins og fram kemur í frumvarpinu er um að ræða (Forseti hringir.) 130–150 milljarða eða eitthvað svoleiðis, bara á árinu 2013, er það ekki rétt?



[18:33]
Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég get alveg tekið undir með hv. þingmanni að innra með mér bærðust blendnar tilfinningar á laugardaginn þegar við sameinuðumst um það hér, þingheimur, að gera gjaldeyrishöftin ótímabundin. Þeirri ákvörðun fylgdi hnútur í maganum, en mikilvægu skilaboðin þar voru þau að þingheimur stendur saman í þessu stærsta hagsmunamáli sem þjóðin stendur frammi fyrir í samningum við erlenda kröfuhafa. Það voru skilaboðin sem verið var að senda með því, en ég vona svo sannarlega að við berum gæfu til þess að afnema þau fyrr en síðar. Frá þeirri stefnu hefur þingflokkur Sjálfstæðisflokkurinn að minnsta kosti ekki hvikað.

Hv. þingmaður spyr um hvort lítil fjárfesting hér á landi síðastliðin ár sé kannski ástæða þess að við stöndum enn þá í þeim sporum að glíma við umrædd gjaldeyrishöft. Ég tel það. Ég tel að síðustu fjögur ár séu ár hinna glötuðu tækifæra. Það er alveg sama hversu oft hæstv. ríkisstjórn segist ekki hafa með neinum hætti komið í veg fyrir atvinnusköpun og fjárfestingu innlendra eða erlendra aðila, við vitum að það er ekki rétt. Við vitum til dæmis að fyrir tveimur til þremur árum leituðu hér fjölmargir aðilar eftir fjárfestingu. Skilaboðin sem komu frá stjórnvöldum voru hins vegar þessi: Við viljum ekkert með ykkur hafa. Það var alltaf eitthvað að þannig að sá gluggi lokaðist. (Fjmrh.: Níu fjárfestingarsamningar …) Jafnvel (Fjmrh.: Níu.) þó að hæstv. fjármálaráðherra (Forseti hringir.) kalli hér fram í um að það séu níu fjárfestingarsamningar vil ég taka það sérstaklega fram (Forseti hringir.) að fjárfesting er í sögulegu lágmarki, hún hefur ekki verið minni á lýðveldistímanum (Forseti hringir.) eða á öldinni þannig að það er ekki nóg að gera fjárfestingarsamning, herra forseti.

(Forseti (ÁÞS): Forseti biður hv. þingmann að virða tímamörk í andsvörum.)

Og hæstv. ráðherra að hætta að gjamma fram í og (Forseti hringir.) ...

(Forseti (ÁÞS): Forseti biður hv. þingmann að halda ró sinni.) (Gripið fram í.)



[18:36]
Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fullvissa forseta um að hv. þm. Ragnheiður Elín Árnadóttir er pollróleg. (REÁ: … Takk.) Það þekki ég.

Við ræðum þetta stórmerkilega mál. Því er skipt í þrjá meginliði og er eðlilegt að menn velti fyrir sér þeirri tillögu um að auka svigrúm lífeyrissjóðanna. Það er einnig eðlilegt að menn hafi aðeins varann á og sýni því skilning vegna þeirra aðstæðna sem uppi eru varðandi möguleika á fjárfestingum. Það sem mig langar aðeins að spyrja hv. þingmann út í er hvort þingmaðurinn hafi velt fyrir sér lagarammanum sem lífeyrissjóðunum er settur varðandi fjárfestingar; þeir þurfa að skila að lágmarki 3,5% ávöxtun til þess að standa undir þeim ábyrgðum sem þeir hafa.

Er ástæða til þess í fullri alvöru að endurskoða lögin? Mér sýnist að lífeyrissjóðirnir hafi ekki treyst sér til þess að koma að verkefnum af hálfu ríkisins þar sem þessi ávöxtunarkrafa hefur staðið í veginum. Það kann að vera mjög einfölduð mynd hjá mér en eins og ég hef skilið þessi mál, eins og þau hafa verið skýrð hér í þinginu, til dæmis vegna fjárfestinga í vegamálum og Vaðlaheiðargöngum og öðru slíku, er þetta eitt af málunum sem komið hafa í veg fyrir að lífeyrissjóðirnir hafi treyst sér í slík verkefni. Því hljótum við eðlilega að spyrja hvort ástæða sé til að fara yfir lagaumgjörðina sem kallar þessa prósentutölu fram.



[18:38]
Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég get tekið undir með hv. þingmanni að það er sjálfsagt ástæða til þess að fara vel yfir þessi mál og auðvitað þurfa þau alltaf að vera til skoðunar í samræmi við þær aðstæður sem uppi eru á hverjum tíma. Þetta frumvarp er til komið vegna þeirra aðstæðna sem eru á fjármálamarkaði núna og vegna þess að við erum með gjaldeyrishöft og vegna þess að lífeyrissjóðirnir hafa mikið fjármagn sem þeir vilja nú nota til að fjárfesta. Þess vegna er ég ekki með nokkrum hætti að sópa málinu út af borðinu. Það sem ég var að gagnrýna hæstv. ráðherra fyrir var hversu seint málið er fram komið.

Varðandi fjárfestingarnar og í framhaldi af því sem hv. þingmaður spurði um í fyrra andsvari og varðandi frammíkall hæstv. ráðherra um að hér hafi verið gerðir níu fjárfestingarsamningar á kjörtímabilinu, vil ég segja að það er ekki nóg fyrir hæstv. ríkisstjórn að gera fjárfestingarsamning. Við vitum til dæmis alveg nákvæmlega hvernig fjárfestingarsamningurinn vegna álversins í Helguvík fór í gegnum þingið. Ráðherrabekkurinn var í öllum litum á atkvæðatöflunni. Við vitum líka að ráðherrar í ríkisstjórninni — ég undanskil hæstv. fjármálaráðherra þó sérstaklega — hafa ekki allir meint eitthvað með þeim fjárfestingarsamningi og hafa ekki farið eftir honum eða staðið við hann frekar en svo marga aðra samninga sem hér hafa verið gerðir. Það merkilega er að nú, nokkrum dögum fyrir þinglok, sér hæstv. ríkisstjórn allt í einu ljósið. Hæstv. atvinnu-allsherjar-nýsköpunarráðherra kemur hér með 3,4 milljarða króna ívilnunarpakka fyrir eitt fjárfestingarverkefni norður (Forseti hringir.) í landi. Þá er allt í einu sú staða uppi að við eigum að lækka skatta og veita ívilnanir (Forseti hringir.) og gera alls konar góða hluti að til þess að glæða fjárfestingu hér á landi. Það hefði verið betra ef það hefði verið gert fyrr.



[18:40]
Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breytingu á lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, með síðari breytingum, sem er nú heilmikið nafn. Frumvarpið snýr að stærstum hluta að fjárfestingarheimildum lífeyrissjóðanna en það er í þremur liðum. Eins og fram kemur í umsögn fjárlagaskrifstofu fjármála- og efnahagsráðuneytisins fjallar 1. gr. um að auðvelda launagreiðendum að standa við skuldbindingar sínar gagnvart lífeyrissjóðum með þeim hætti að gefa út skuldabréf sem ekki eru skráð á skipulegum markaði og lífeyrissjóðunum skal þá heimilt að eiga slík skuldabréf, óháð takmörkum greinarinnar.

Þetta er gert til þess að þau fyrirtæki sem hafa greitt vegna starfsmanna sinna í lífeyrissjóð opinberra starfsmanna geti greitt þarna inn á skuldbindingar sínar það sem þau hafa þurft að gera, til að mynda verðtryggða hluta þess. Í öðru lagi er hér bráðabirgðaákvæði, framhaldsákvæði, sem heimilar lífeyrissjóðunum að fjárfesta í samlagsfélögum umfram mörk, það er framlengt frá árslokum 2013 til ársloka 2014. Í þriðja lagi eru takmörk lífeyrissjóðanna til að fjárfesta í verðbréfum, sem ekki eru skráð á skipulegum markaði, hækkuð til bráðabirgða, úr 20% í 25%, og á sú heimild einnig að renna út í árslok 2014. Ég mun aðallega fjalla um síðasta hluta frumvarpsins hér.

Ég vil þó í upphafi hafa orð á því hversu seint þetta mál kemur hér inn. Ég hlustaði á ræður hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra og andsvör við hv. þm. Ragnheiði Elínu Árnadóttur þess efnis að það sé stjórnarandstaðan sem stjórni dagskrá þingsins. Ég verð að segja að ég hef nú sjaldan heyrt aðra eins vitleysu. Til að mynda vitum við í stjórnarandstöðunni ekkert um það hvernig á að ljúka þessu þingi á þeim örfáu dögum sem eftir eru. Við vitum ekki einu sinni neitt um dagskrá morgundagsins, hvað þá meir. Vissulega höfum við hér dagskrá í dag og ég held að stjórnarliðum, ekki síst ráðherrum, hefði verið nær að hlusta á okkur framsóknarmenn þegar við bentum á að tíminn liði hratt og brátt yrði stutt til þingloka — við höfum bent á þetta í hvert sinn sem þingfundi lýkur, honum er frestað eða annað í þeim dúr — og því þyrftu menn að setjast niður í tíma og ákveða hvaða mál væru forgangsmál.

Einstakir þingmenn í ýmsum nefndum hafa haldið sínum málum á lofti og reynt að yfirtaka nefndirnar. Ég nefni sem dæmi atvinnuveganefnd, þar sem ég á sæti, þar sem hálfum mánuði var eytt í risastórt frumvarp hæstv. atvinnuvegaráðherra um breytingar á stjórn fiskveiða, mál sem ekki er enn komið á dagskrá og ég sé ekki að verði klárað frekar en mörg önnur á þeim skamma tíma sem eftir er til þingloka. Ef menn hefðu nú sest yfir það og ríkisstjórnin hefði komið sér saman um forgangsmálin hefði það létt mönnum róðurinn að geta undirbúið sig undir þær umræður sem þurfa að fara fram og taka þau mál á dagskrá sem allir eru sammála um að skynsamlegt sé að ljúka. Það eru fjölmörg mál, herra forseti, sem þingmenn eru sammála um að horfi til heilla fyrir land og þjóð.

Það mál sem við ræðum hér er vissulega jákvætt á mjög margan hátt. Ég nefndi áðan helstu atriði þess og í flestum tilvikum er málið ívilnandi. Það á annars vegar að hjálpa fyrirtækjum til að standa við skuldbindingar sínar svo að betri skil verði á greiðslum og hins vegar fá lífeyrissjóðirnir auknar heimildir til fjárfestinga. Við þekkjum það að í því ástandi sem er hér á Íslandi með gjaldeyrishöft þá er geta lífeyrissjóðanna eða þörf fyrir fjárfestingar alveg gríðarleg. Margir hafa bent á að nú þegar séu farin að sjást merki um svokallað bóluhagkerfi þar sem lífeyrissjóður A kaupir hlutabréf og selur síðan lífeyrissjóði B sem hækkar verðið og svo kemur lífeyrissjóður C og hækkar verðið enn frekar; og hækkanir á hlutabréfum hafa verið grunsamlega miklar, skulum við segja, á liðnum mánuðum.

Þannig að það að veita lífeyrissjóðunum heimild til þess að hækka þakið hvað það varðar að kaupa í óskráðum félögum, úr 20% í 25%, mun án efa vera hvetjandi í þetta bóluhagkerfi en um leið er þetta jákvætt gagnvart fjölmörgum fyrirtækjum sem ekki hafa burði, vöxt eða stærð á þessum tímapunkti til að vera skráð á markað, að geta sótt sér fjárfestingarfé til lífeyrissjóðanna. Þeir hafa úr að spila allt að 130 milljörðum á ári. Þessi aukning gæti skilað um 100 milljarða aukinni fjárfestingu og ekki veitir af, herra forseti.

Eins og fram hefur komið í ræðum á undanförnum dögum — og ég tók það nú til umræðu í dag við vantraustsumræðuna — hefur fjárfesting verið í sögulegu lágmarki í mjög langan tíma og allt þetta kjörtímabil. Hún hrundi við hrunið og fór mjög langt niður, var um 12% eða 10% af landsframleiðslu, 12–13%. Í opinberum spám, eftir þær framkvæmdir sem fyrirhugaðar eru á Bakka við Húsavík, er gert ráð fyrir að fjárfesting verði um 16% af landsframleiðslu. Þá benda aðilar vinnumarkaðarins á, hvort sem það eru launþegahreyfingarnar eða samtök atvinnurekenda, að það sé engan veginn nóg, að það skorti um 100 milljarða fjárfestingu á ári til að hún geti orðið ásættanleg, hún þurfi að vera yfir 20% á hverju ári í allnokkurn tíma til að koma almennilega fótum undir efnahagslífið, til að tryggja öllum þeim sem eru atvinnulausir í dag og nýjum árgöngum sem eru að koma inn á vinnumarkaðinn atvinnutækifæri við hæfi.

Herra forseti. Ég verða að segja að ég er nokkuð jákvæður gagnvart þessari breytingu, þ.e. að auka heimildir lífeyrissjóðanna, þó svo að ég sé með nokkra fyrirvara, eins og ég hef sagt, um að skoða þurfi hvort þetta muni stuðla að bóluhagkerfi og einnig hvort, eins og ég nefndi í andsvari við hv. þm. Ásbjörn Óttarsson, verið sé að skapa væntingar á síðustu dögum þingsins, rétt fyrir kosningar, um að möguleiki sé á 100 milljarða fjárfestingu á ári. Þær væntingar munu aldrei standast vegna þess að lífeyrissjóðirnir munu aldrei ganga svo langt, tækifærin eru of óljós, þessir fjárfestingarmöguleikar eru ekki nægilega tryggðir og menn munu ekki þora að fara út í þessar fjárfestingar. Ég spyr hvort verið sé að vekja væntingar sem síðan verði ekki að veruleika.

Herra forseti. Ég bendi á fordæmið með Framtakssjóðinn sem lífeyrissjóðirnir stofnuðu ásamt Landsbankanum. Þá voru miklar væntingar um að sá sjóður væri að fara inn á atvinnumarkaðinn til að taka þátt í uppbyggingu á nýjum fyrirtækjum, á nýjum atvinnutækifærum, og fjölga störfum. Reyndin varð sú að Framtakssjóðurinn fór meira og minna í að kaupa eldri fyrirtæki, sem voru komin í gjörgæslu bankanna eða gjaldþrota inn í eignarhaldsfélög bankanna, endurskipuleggja þau og selja aftur. Þar af leiðandi sköpuðust engin ný störf, þetta hafði vægast sagt vafasöm áhrif á samkeppni í sumum tilvikum, alla vega settu margir spurningarmerki við þá samkeppni sem menn þurftu að búa við, þeir sem voru áfram að berjast á markaði á eigin fótum með stökkbreyttar skuldir, að keppa við fyrirtæki sem höfðu farið þarna í gegn og voru með lífeyrissjóðina og Landsbankann á bak við sig.

Þessi tillaga, sem hér er kynnt sem 3. gr., þessi hugmynd, var meðal annars kynnt sem hugmynd Samfylkingarinnar á síðastliðnu tækni- og hugverkaþingi og fékk þar fyrstu einkunn, skoraði hæst í atkvæðagreiðslu meðal þeirra sem sátu þingið. Margir voru mjög jákvæðir gagnvart þessu vegna væntinga um að þarna gætu skapast góðir möguleikar fyrir fyrirtæki að sækja sér fé til fjárfestinga. Á þessu þingi, eins og ég nefndi í andsvari við hæstv. ráðherra, vorum við framsóknarmenn einnig með nokkrar tillögur og ég nefndi eina tillöguna og spurði hæstv. ráðherra út í hana. Það er tillaga sem ég ætla aðeins að fjalla um undir lok míns máls, þ.e. að lífeyrissjóðirnir megi kaupa í félögum á svokölluðum First North markaði.

Flutningsmaður þeirrar tillögu á umræddu tækni- og hugverkaþingi var Frosti Sigurjónsson, frambjóðandi Framsóknarflokksins í 1. sæti í Reykjavíkurkjördæmi norður, og gengur hún út á það að rýmka þurfi heimildir lífeyrissjóðanna til að kaupa í smáum og meðalstórum félögum. Skref í þá átt er að hlutabréf á First North flokkist sem skráð verðbréf. Það kom fram í greinargerð, sem Frosti kynnti á áðurnefndu þingi, að smá og meðalstór fyrirtæki eru lykillinn að atvinnusköpun í landinu og að nauðsynlegt sé að auðvelda þeim aðkomu að virkum hlutabréfamarkaði svo að þau geti betur nýtt tækifæri sín og dafnað af krafti og einnig sé mikilvægt að lífeyrissjóðunum verði auðveldað að fjárfesta í smáum og meðalstórum fyrirtækjum, en þau skapa, eins og flestir vita, flest störf og hafa mikla vaxtarmöguleika. Allt eru þetta góð markmið.

Kauphöll Íslands starfar samkvæmt reglum sem sniðnar hafa verið að þörfum milljónaþjóða þar sem fyrirtæki geta almennt orðið stærri en hér og hægt að gera meiri kröfur til þeirra varðandi skráningu en mjög fá íslensk fyrirtæki hafa því miður skráð sig í Kauphöllina. Þau fyrirtæki sem eru orðin nægilega öflug til að geta uppfyllt kröfur um skráningu sjá ef til vill ekki mikinn hag í því að þiggja skráningu á svo litlum markaði og skrá sig frekar erlendis. First North markaðurinn er aftur á móti sniðinn að smærri fyrirtækjum og hann gerir ívið minni kröfur til fyrirtækja þó að vissulega séu þær ríflegar fyrir smá fyrirtæki. Afar fá fyrirtæki hafa þó ráðist í skráningu á First North markaðnum og nærtækasta skýringin er sú að kaupendur vanti og hlutafélög sem skrá sig á First North teljast nefnilega ekki vera skráð, eins og áður hefur verið komið inn á, og lífeyrissjóðunum eru settar miklar skorður um kaup á óskráðum félögum.

Ég vil þakka hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra fyrir að taka jákvætt í þetta og það hefði vissulega verið jákvætt ef þessi tillaga hefði jafnframt ratað hér inn í frumvarpið. En eins og ég kom inn á í upphafi máls míns veit ég ekki hvort þessi vika muni duga okkur til að klára þetta mál sem á margan hátt er jákvætt og rennir stoðum undir atvinnulífið í heild sinni. Eins og við þekkjum eru um 90% fyrirtækja á Íslandi lítil eða smá og meðalfyrirtæki langsamlega stærsti hluti í fyrirtækjaflóru landsins.

Það var reyndar ein spurning sem ég ætlaði að spyrja hæstv. ráðherra en gafst ekki tækifæri á þeim skamma tíma sem gafst til andsvara, en það er mál sem ekki er í þessu frumvarpi og ekki heldur í ívilnunarfrumvarpinu, í máli nr. 502, en hefur ítrekað komið fram á tækni- og hugverkaþinginu um það hvort — og var reyndar í frumvarpi um ívilnanir en Eftirlitsstofnun EFTA kippti því út sem ólöglegum ríkisstuðningi, sem ég hef nú ekki alveg skilið, en það er sem sagt skattafsláttur vegna hlutabréfakaupa í nýsköpunarfyrirtækjum. Ég sakna þess að ríkisstjórnin hafi ekki nýtt sér tímann í vetur til að koma því góða máli hér inn í frumvarpsformi til að við getum lokið því.

Herra forseti. Eins og ég sagði er ég frekar jákvæður gagnvart þessu frumvarpi. Það þarf augljóslega að skoða það, sérstaklega með tilliti til þess hvort væntingavísitalan fari of hátt, en kannski verði ekki eins margir sem muni nýta sér þessi úrræði meðal annars vegna hættu á bóluhagkerfi eða hættu á að fjárfestingarnar séu ekki nægilega tryggar.



[18:56]
Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir það með hv. þingmanni að ástæða sé til taka málinu almennt jákvætt þótt það veki sannarlega upp ýmsar spurningar. Mér er alveg ljóst að málið er þannig vaxið að við því er að búast að efnahags- og viðskiptanefnd, sem ég geri ráð fyrir að fái það til meðhöndlunar, þurfi að leggjast dálítið yfir það.

Það sem mér finnst athyglisvert er að skoða hvað er í rauninni verið að gera hérna. Annars vegar er verið að opna eða reyna að auðvelda fyrirtækjum, eins og segir í greinargerð með frumvarpinu, að standa skil á greiðslum sínum til lífeyrissjóða. Það vekur aftur upp hugrenningatengsl við málið sem við ræddum nokkuð fyrir helgina og fól í sér aukna greiðslufresti fyrir fyrirtæki að standa skil á opinberum gjöldum sem undirstrikar auðvitað þá rekstrarlegu stöðu sem atvinnulífið á Íslandi er almennt talað í. Í raun og veru er þetta viðbragð við því, enn eitt viðbragðið. Í stað þess að reyna að búa til almennrar leikreglur fyrir fyrirtækin er verið að reyna að búa til útgönguleiðir fyrir þau með auknum gjaldfrestum, með því auðvelda fyrirtækjum að standa skil á greiðslu til lífeyrissjóða o.s.frv.

Á hinn veginn er verið að bregðast við því óeðlilega ástandi sem er uppi í þjóðfélaginu í dag með gjaldeyrishöftum. Gjaldeyrishöftin voru rædd á laugardaginn, eins og við munum, og var reynt að setja þau inn í ákveðinn ramma sem þingið sameinaðist um. Í þessu frumvarpi er í rauninni verið að bregðast við þeim veruleika sem fyrirtækin standa frammi fyrir, gjaldeyrishöftunum. Þau gera það að verkum að fyrirtækin, eða lífeyrissjóðirnir öllu heldur, eiga mjög fáa fjárfestingarkosti innan lands og geta ekki sinnt möguleikum sínum á ávöxtun með því að fara með hluta af fjármunum sínum til útlanda, sem væri mjög æskilegt, til að geta haldið uppi ávöxtuninni. Þess vegna er verið að opna slíkar leiðir, til að auðvelda fyrirtækjunum að taka þátt í því að kaupa (Forseti hringir.) verðbréf sem eru ekki á skráðum markaði.

Ég vil því spyrja hv. þingmann hvort hann telji ekki eins og ég að þarna birtist okkur í raun og veru (Forseti hringir.) birtingarmynd þess óeðlilega ástands sem er í fyrirtækjaumhverfinu í dag.



[18:58]
Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni. Það að vera í atvinnurekstri í gjaldeyrishöftum, þar sem sérstaklega lífeyrissjóðirnir hafa orðið verulega umframgetu til fjárfestinga en takmarkaða fjárfestingarkosti, eru mjög óheppilegar aðstæður, ekki hollar neinu samfélagi og alls ekki til lengri tíma. Það er brýnt að við finnum einhverja leið til að komast út úr þeim.

Ein leið væri auðvitað að heimila lífeyrissjóðunum með einum eða öðrum hætti að taka þátt í fjárfestingum erlendis, heimild sem þeir hafa ekki almennilega í dag. Ég held að rétt sé að þörf þeirra, bara miðað við löggjöf eins og hún var, til að fjárfesta erlendis til þess að dreifa áhættunni sé orðin verulega brýn.

Annar kostur væri auðvitað að taka umræðu um hvort lífeyrissjóðirnir ættu að eiga möguleika á að eiga hluti í grunnþjónustufyrirtækjum á Íslandi og þá um alla tíð, vera ekki að kaupa og selja eins og til að mynda Landsnet. Ég hef stundum talað fyrir því að ef stofnað væri eitt hlutafélag um dreifihluta raforkukerfisins væri lífeyrissjóðunum gert kleift að kaupa í því af því að þær tekjur eru „regúleraðar“ og 3,5% ávöxtun væri tryggð. Þá gætu lífeyrissjóðirnir sannarlega ávaxtað pund sitt nægilega samkvæmt lögum til að tryggja landsmönnum lífeyri en um leið tekið þátt í því að byggja upp grunnþjónustuna. Þá umræðu þarf vissulega að taka og verður þörf á ef ástandið varir áfram.



[19:00]
Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er stundum talað um kostnað okkar af gjaldeyrishöftunum. Kannski hefur það verið svolítið óljóst í huga okkar í hverju slíkur kostnaður getur falist. Eins og hann birtist gagnvart lífeyrissjóðunum er enginn vafi á því að kostnaðurinn við gjaldeyrishöftin felst m.a. í því að lífeyrissjóðirnir verða af mögulegum fjárfestingartækifærum erlendis sem gætu gefið þeim aukna arðsemi til að standa undir þeim greiðsluskuldbindingum sem þeir takast á hendur þegar við greiðum peningana okkar í lífeyrissjóðina.

Það er annars vegar og hins vegar er auðvitað hitt, sem skiptir mjög miklu máli, að lífeyrissjóðirnir geti vegna eðlis síns dreift áhættu sinni. Út af fyrir sig get ég því líka alveg tekið undir að ekki sé óskynsamlegt að opna heimildir til að þeir taki þátt í að kaupa verðbréf, hlutabréf sem er ekki á skráðum markaði, m.a. líka til að dreifa áhættu sinni og hafa ekki öll eggin í sömu körfunni.

Það sem maður veltir hins vegar fyrir sér, og er auðvitað hlutur sem þarf að fá svarað, er að þegar lífeyrissjóðirnir fara af stað og kaupa í óskráðum bréfum, hvort sem það eru verðbréf, skuldabréf, hlutabréf eða eitthvað af þeim toganum, þekkjum við líka að lífeyrissjóðirnir gera ávöxtunarkröfu, þeir þurfa að hafa drjúga ávöxtun til að standa undir greiðsluskuldbindingum sínum af miklu fé eins og allir vita. Þegar um er að ræða óskráð bréf er því að minnsta kosti sú áhætta til staðar að arðsemiskrafan geti orðið meiri vegna þess að meiri áhætta kann að vera fólgin í því að kaupa óskráð bréf en skráð. Það er þó ekki einhlítt eins og ég ætla að fara aðeins yfir í ræðu minni á eftir.

Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hann óttist ekki að við þær aðstæður þegar mjög er kallað eftir fjármunum inn í atvinnulífið geti niðurstaðan orðið sú að ávöxtunarkrafa lífeyrissjóðanna verði býsna há, þeir muni þá eingöngu fara í fyrirtæki sem sýna mjög góða arðsemi og (Forseti hringir.) þannig geti orðið takmarkað gagn af því, a.m.k. fyrir sprotafyrirtæki sem eru rétt að hefja starfsemi sína.



[19:02]
Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Eins og ég kom inn á í ræðu minni held ég jafnvel að væntingarnar geti verið mun meiri en niðurstaðan, einfaldlega vegna þess að lífeyrissjóðirnir verða að fara varlega og eiga að fara varlega. Ég minni á umræðu þar sem hv. þm. Lilja Mósesdóttir talaði um skýrslu um lífeyrissjóðina og að tap lífeyrissjóðanna á fjárfestingum í óskráðum félögum hefði verið umtalsvert. Ég held að það muni meðal annars verða til þess að menn vilji ganga nokkuð varlegar.

Það er líka, eins og kom fram hjá hv. þingmanni, augljós kostnaður af gjaldeyrishöftunum. Annars vegar er verið að missa af tækifærum erlendis þótt vissulega megi segja að þau séu ekki alls staðar svakaleg þar sem lægð er í efnahagslífi um allan heim eða mestan hluta þess heims sem liggur okkur næst, ekki síst í Evrópu og að hluta til í Bandaríkjunum líka. Hins vegar er það sá kostnaður sem er erfitt að meta því að ef þeir gríðarlegu fjármunir sem lífeyrissjóðirnir eru lokaðir með inni í landinu búa til nýtt bóluhagkerfi með tilheyrandi vandræðum sem síðan hrynur er það auðvitað kostnaður sem við viljum aldrei sjá aftur.



[19:04]
fjármála- og efnahagsráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er nú eiginlega ekki andsvar, þetta er meira svar, vegna þess að hv. þingmaður spurði mig spurningar sem snerist um skattaívilnanir vegna fjárfestinga í litlum og meðalstórum fyrirtækjum. Það hefur lengi verið mikið áhugamál okkar og núverandi ríkisstjórnar að koma því áfram. Hv. þingmaður veit hvernig það fór á sínum tíma. Við lentum í ákveðnum mótbyr hjá ESA. En við höfum í vetur verið í samráði við þá og farið mjög vel yfir málið. Við erum komin með ákveðna lendingu sem ég tel að sé afar góður kostur. En svo var það einfaldlega þannig að það átti eftir að skrifa frumvarpið. Við sáum ekki fram á að koma því í gegn á þessu þingi, því miður. Frumvarpið verður þá tilbúið fyrir nýja ríkisstjórn til að taka í gegn. Ég er alveg viss um að ég og hv. þingmaður, eða hver svo sem þar mun sitja, ættum að geta sameinast í því á nýju þingi að styðja þann sem það flytur ötullega í að koma því í gegn.



[19:05]
Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að nýta tækifærið og svara mér. Ég tek undir að þetta er mjög jákvætt verkefni sem mun skila miklu fyrir þennan hluta fyrirtækjanna, sprotafyrirtækjanna og nýsköpunarfyrirtækjanna, sem munu að ég held eiga erfitt með að sækja sér fé samkvæmt þessari leið, að auka heimild lífeyrissjóðanna til fjárfestinga, þar sem ég held að þeir muni ganga mjög varlega þar um.

En ég verð að segja eins og er að ég undrast það að þetta hafi tekið þennan tíma vegna þess að eftir þeim upplýsingum sem ég hef eru sambærileg kerfi til bæði í Hollandi og Svíþjóð. Eiginlega er merkilegt að okkar frumvarp sem kom fram hjá ríkisstjórninni fyrir tveimur árum hafi ekki verið sniðið betur að þeim fyrirmyndum. Og að ESA hafi verið að setja hornin í okkur þar sem sambærilegir hlutir eru til í þeim tveimur ESB-löndum.



[19:06]
fjármála- og efnahagsráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég held að í því tilfelli hafi það einfaldlega verið svo að kappið var mikið af okkar hálfu. Við töldum þetta vera þannig mál að við vildum svo gjarnan ganga ef til vill lengra og menn gengu þarna aðeins og langt. Núna erum við komin að niðurstöðu sem ég tel að eigi eftir að gagnast vel. Við verðum svo að vona, ég og hv. þingmaður, að í fjármálaráðuneytinu verið ráðherra sem er sömu skoðunar og við og leggi málið þá fram. Ef ekki, ættum við kannski að geta sameinast um að gera slíkt saman á næsta þingi vegna þess að ég held að mikilvægt sé að gera það. Við þurfum að koma af stað fjárfestingu. Mörg fyrirtæki eru í góðri stöðu í dag en þurfa innspýtingu til að taka næstu skref í starfsemi sinni og þurfa þar af leiðandi fjármagn. Ég held að þetta mál muni skipta gríðarlega miklu, alveg eins og það sem við hv. þingmaður erum að tala um núna. En ég held að það sé rétt sem hv. þingmaður segir að hugsanlega muni smærri fyrirtækin ekki hagnast á þessari leið en þau munu svo sannarlega gera það á hinni, þ.e. skattaívilnunum. Þetta tvennt ætti því að geta gefið fyrirtækjum í landinu töluverða innspýtingu og það er gott að við getum reynt að sameinast um það.

Ég vona svo sannarlega að efnahags- og viðskiptanefnd sjái sér fært að afgreiða málið á þessu þingi þannig að lífeyrissjóðirnir geti farið að setja þessa 100 milljarða inn til verka í atvinnulífinu og stuðlað þannig að vexti í samfélaginu, sem við þurfum sárlega á að halda.



[19:08]
Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að skýra málið en ég sakna þess að ekki skuli hafa tekist að koma því hingað inn á þessum tíma. Ég get lýst því yfir um leið að það hefur verið á stefnuskrá okkar framsóknarmanna um langan tíma að þetta úrræði yrði sett inn í þann hluta sem snýr að hinu opinbera, að hvetja til fjárfestingar í nýsköpunarfyrirtækjum og tryggja þar með fjölbreytt atvinnulíf í landinu. Ég get lofað stuðningi við það, hver sem verður ráðherra og hver sem þarf að ýta við viðkomandi ráðherra á þeim tíma. Sjáum til með það, herra forseti.