141. löggjafarþing — 100. fundur
 13. mars 2013.
boðuð gjaldskrárhækkun Íslandspósts.
fsp. JBjarn, 612. mál. — Þskj. 1050.

[11:06]
Fyrirspyrjandi (Jón Bjarnason) (U):

Frú forseti. Ég beini fyrirspurn minni til hæstv. innanríkisráðherra sem fer með forræði Íslandspósts. Þannig er að Íslandspóstur hefur boðað verulegar breytingar á gjaldskrá frá og með 1. apríl næstkomandi. Sú breyting veldur hækkun á dreifikostnaði blaða og tímarita sem eru í áskrift og er sú hækkun talin vera um nærri 30% hjá héraðsfréttablöðunum. Sú gríðarlega hækkun getur haft alvarlegar afleiðingar fyrir útgáfu héraðsfréttablaða og dreifingu annars áskriftarefnis í dreifbýli og leiðir til mjög aukins misréttis fyrir íbúa landsbyggðarinnar.

Ritstjóri Skessuhorns vakti rækilega athygli á þessu fyrir nokkru síðan í blaði sínu þar sem hann talaði um að um 230% hækkun hefði orðið á dreifikostnaði Skessuhorns á síðastliðnum 12 árum. Stjórn Blaðamannafélags Íslands hefur lýst áhyggjum sínum af fyrirhugaðri hækkun Íslandspósts á póstburðargjöldum og leggur áherslu á að slík hækkun muni koma sér mjög illa fyrir fréttablöð á landsbyggðinni og í sumum tilfellum höggva nærri starfsgrundvelli þeirra, eins og segir í ályktun stjórnarinnar.

Öðru máli gegnir um blöð sem dreift er sem dreifiblöðum og eru ekki merkt áskrifendum, póstburðargjöld á þeim lúta þar allt öðrum lögmálum. Fréttablöð sem gefin eru út á höfuðborgarsvæðinu eru borin í hús án sérstaks kostnaðar. Alla vega er ekki hægt að jafna því saman við þá gífurlegu hækkun sem verður á dreifikostnaði á héraðsfréttablöðunum.

Ég spyr hæstv. ráðherra hvort hann geri sér grein fyrir því hversu alvarlegt það er fyrir prentfrelsi í landinu, fyrir fréttamiðlun, fyrir upplýsingagjöf og fyrir jafnrétti fólks óháð búsetu hvað þessa þjónustu varðar, því að þarna er beinlínis verið að vega að henni.

Ég vil líka vekja athygli á að Íslandspóstur heldur jafnframt þessu áfram að skera niður þjónustu við dreifbýli. Nú þessa dagana er verið að færa alla póstkassa í Borgarfirði, að ég tel, frá heimilunum, frá húsunum, þar sem þeir eru staðsettir, út að vegi. Fólk þarf því oft að fara margra kílómetra leið til þess að sækja póst sinn. Það er svipað og ef við settum bara upp röð af póstkössum (Forseti hringir.) í Ártúnsbrekkunni og segðum öllum Reykjavíkurbúum að sækja póst sinn þangað. (Forseti hringir.)

Frú forseti. Ég ítreka spurningar mínar um hvort ráðherra hyggist grípa inn í þessi mál (Forseti hringir.) og það þá mjög skjótt.



[11:10]
innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Jóni Bjarnasyni fyrir að taka þetta mál upp. Það hafa aðrir þingmenn einnig gert, ég nefni þar hv. þm. Ásmund Einar Daðason.

Hv. þingmaður beinir tveimur spurningum til mín. Í fyrsta lagi: Hvaða afleiðingar telur ráðherra að boðuð gjaldskrárhækkun Íslandspósts frá og með 1. apríl næstkomandi, sem bitnar einkum á útgáfu og dreifingu héraðsfréttablaða og tímarita í áskrift, kunni að hafa á prentfrelsi og almennan fréttaflutning á landsbyggðinni?

Í öðru lagi: Kemur til greina af hálfu ráðherra að grípa inn í atburðarásina svo gjaldskrárbreytingin nái ekki fram að ganga?

Hvað fyrsta atriðið varðar ítreka ég að ég tel mjög gott að taka upp þetta umræðuefni hér á vettvangi löggjafans og fjárveitingavaldsins og ég legg áherslu á það.

Umræðan hefur verið talsvert fyrirferðarmikil í fjölmiðlum að undanförnu, ekki síst í fjölmiðlum á landsbyggðinni. Ég hygg að flestir séu sammála um hvert mikilvægi héraðsfréttablaða er við að miðla fréttum og frásögnum af landsbyggðinni og á landsbyggðinni. Það er erfitt að meta hvort fyrirhuguð hækkun hafi bein áhrif á prentfrelsi og almennan fréttaflutning, eins og spurt er um.

Málið er ekki nýtt af nálinni. Rétt upp úr aldamótum, árið 2002, var gerð skýrsla um hvernig mætti bregðast við. Þar voru ýmsir valkostir reifaðir, m.a. þeir að greiða beint til Íslandspósts, en sú leið hefur verið farin í Danmörku. Kostirnir við það eru þeir að það er einfalt í framkvæmd. Greiða þyrfti til eins aðila og umsýsla og stjórnsýslukostnaður væri í lágmarki. Gallarnir eru hins vegar þeir að það gæti skapað veruleg höft á samkeppnismarkaði og gæfi Íslandspósti einokunarstöðu á dreifingu blaða og tímarita, nokkuð sem ég harmaði í sjálfu sér ekki en ýmsir á samkeppnismarkaði mundu eflaust horfa til.

Annar kostur er að gefa öðrum dreifingaraðilum kost á niðurgreiðslum. Það mundi örva þá og starfsemi þeirra. Þriðji kosturinn er sá að greiða beint til þeirra héraðsfréttablaða sem gætu átt rétt á niðurgreiddum burðargjöldum. Það er einfalt í framkvæmd. Dagblöðin og tímaritin mundu ráða því sjálf hvernig þau höguðu dreifingunni. Niðurgreiðslan væri ákveðin á fjárlögum og reglur settar um þau skilyrði sem uppfylla þyrfti til að eiga rétt á greiðslum.

Hér er þó vert að benda á að stjórnvöld væru með þessu hugsanlega komin í þá aðstöðu að meta efni blaða og tímarita út frá efnisinnihaldi varðandi réttinn á niðurgreiðslu. Það geta hins vegar verið menningarlegar og svæðisbundnar ástæður fyrir því að styrkja héraðsfréttablöð með beinum hætti, en það verður alltaf sérstök sjálfstæð ákvörðun stjórnvalda.

Það eru þeir kostir sem reifaðir hafa verið og er að finna m.a. í skýrslu sem var gefin út árið 2002.

Þá er hin stóra spurningin, sem er síðari spurning hv. þingmanns: Kemur til greina af hálfu ráðherra að grípa inn í atburðarásina svo gjaldskrárbreytingin nái ekki fram að ganga? Hér vísa ég í lög, en samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 19/2002, um póstþjónustu, skulu gjaldskrár fyrir alþjónustu, þar með talið póstþjónusta vegna bréfa, dagblaða, vikublaða og tímarita og fleira, taka mikið af raunkostnaði við að veita þjónustuna að viðbættum hæfilegum hagnaði. Það felur í sér að Íslandspósti er skylt að tryggja að verðskrá endurspegli raunkostnað við þjónustuna. Aukinheldur ber að líta til þess að Íslandspósti er óheimilt að nota aðra starfsemi sína til að niðurgreiða ákveðna þjónustu. Samkvæmt því er fyrirtækinu ekki heimilt að lækka dreifingargjöld á blöð og tímarit sem lúta samkeppnisreglum á póstdreifingu á markaði.

Á það skal einnig bent að afkoma Íslandspósts hefur farið versnandi á undanförnum missirum, en hingað til hefur einkaréttur fyrirtækisins á bréfum undir 50 gr staðið undir þeim kostnaði sem Íslandspóstur ber vegna alþjónustu á sviði póstþjónustu. Vegna minnkandi póstmagns getur það þó breyst og lítur út fyrir að Íslandspóstur muni skila tapi á árinu vegna alþjónustunnar.

Þar vísa ég í lög sem Alþingi hefur sett. Við getum haft okkar skoðanir á þeim lögum en þannig eru þau. (Forseti hringir.)

Ég hygg að ef við ætlum að grípa inn í atburðarásina þurfi það að gerast (Forseti hringir.) eftir einhverjum þeim ferlum sem ég reifaði í upphafi máls míns sem svar við fyrri spurningunni.



[11:15]
Ásmundur Einar Daðason (F):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Jóni Bjarnasyni fyrir að taka þetta mál upp. Það er gríðarlega mikilvægt. Strax þegar fregnir bárust af málinu bað ég um fund í umhverfis- og samgöngunefnd um það þar sem m.a. fulltrúi innanríkisráðuneytisins, fulltrúi Íslandspósts og fulltrúi héraðsfréttablaða mættu. Það er hárrétt að dreifikostnaðurinn hefur hækkað um 230% á 10 árum.

Á fundinum var m.a. rætt um starfsemi Íslandspósts og fór fulltrúi Íslandspósts yfir reiknilíkön hvað varðar þann raunkostnað sem hæstv. ráðherra bendir á hér. Það hlýtur að vera full ástæða til þess að fara ofan í starfsemi Íslandspósts, hvað er að gerast þar, þegar forsvarsmenn einstakra héraðsfréttamiðla eru farnir að velta því fyrir sér að gera út sérstakan bíl sem keyrir á eftir póstbílnum um sveitir landsins eingöngu til þess að dreifa héraðsmiðlunum með engan annan póst. Þeir telja að það sé hagkvæmara en að dreifa þeim með Íslandspósti. Ráðherra á auðvitað að setja gjaldskrárhækkunina í bið og kafa ofan í (Forseti hringir.) starfsemi Íslandspósts og raunverðið. Ef það (Forseti hringir.) reynist svo ekki vera niðurstaðan að það sé hagkvæmara þá eigum við að spá í niðurgreiðslur til héraðsfréttamiðla, ekki fyrr. Ég hvet (Forseti hringir.) ráðherrann til þess að beita sér í þá veru.

(Forseti (ÞBack): Stutt athugasemd er ein mínúta.)



[11:16]
Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með hv. þm. Ásmundi Einari Daðasyni. Það er mjög mikilvægt að ráðherra stígi fram og reyni að leysa málið með framtíðarhagsmuni í húfi, ekki síst vegna þess að héraðsfréttamiðlarnir hafa mjög miklu hlutverki að gegna á landsbyggðinni og til þess að dreifa fréttum af landsbyggðinni til höfuðborgarinnar. Það er ekki síst hlutverk þeirra að draga fram það jákvæða og athyglisverða sem er að gerast á landsbyggðinni, þjappa fólki saman o.s.frv.

Það er því fáránlegt að hugsa til þess að opinbert fyrirtæki fari í hækkanir sem verða til þess að þessir fjölmiðlar munu eiga erfitt með að reka sig. Það er mjög mikilvægt að ríkisvaldið komi í veg fyrir að slíkt verði að veruleika ef einhver möguleiki er á því. Þar af leiðandi tek ég undir orð hv. þm. Ásmundar Einars Daðasonar, sem ég veit að hefur verið í sambandi við hæstv. innanríkisráðherra um málið.



[11:18]
Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir umræðuna. Það er mjög mikið áhyggjuefni sem hér er um að ræða. Boðuð gjaldskrárhækkun Íslandspósts sem mun sérstaklega bitna á héraðsfréttablöðunum er mjög alvarlegt mál. Við vitum að héraðsfréttablöðin gegna mjög mikilvægu hlutverki og hækkun á þessum kostnaðarlið getur þess vegna haft mikil áhrif á rekstrarmöguleika þeirra. Það er hins vegar ljóst mál að á síðustu árum hefur dregið mjög mikið úr magni pósts hjá Íslandspósti. Samdrátturinn nemur á fáeinum árum tugum prósenta. Á sama tíma og tekjur fyrirtækisins dragast saman heldur ríkisstjórnin áfram þeirri stefnu sinni að innheimta arð alveg fram undir það síðasta, að minnsta kosti af þessu fyrirtæki, sem gerir því nánast útilokað að bregðast við með séraðgerðum til að mynda gagnvart héraðsfréttablöðunum. Þess vegna verðum við í fyrsta lagi að gera þá kröfu til hæstv. ríkisstjórnar að hún láti af þessu athæfi sínu og í öðru lagi verður ríkisstjórnin með einhverjum hætti að bregðast við. (Forseti hringir.) Hér er um að ræða sértækt vandamál sem við verðum að taka á, því að eins og sakir standa (Forseti hringir.) skipta héraðsfréttablöðin mjög miklu máli til að miðla upplýsingum frá landsbyggðinni (Forseti hringir.) og til landsbyggðarinnar.



[11:19]
Sigfús Karlsson (F):

Frú forseti. Ég deili áhyggjum mínum með hv. þingmönnum sem talað hafa hér og þakka fyrirspyrjanda fyrir spurningarnar.

Í raun er verið að höggva í sama knérunn hvað varðar fréttaflutning af landsbyggðinni með þessari hækkun og þegar farið var í gífurlegan niðurskurð á svæðisstöðvum RÚV. Ég hef verulegar áhyggjur af því, eins og hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson sagði hér áðan, ef þetta hækkar og hækkar þannig að ekki verði hægt að gefa út þessi blöð víðs vegar um landið, til að mynda blöð í mínu kjördæmi; Vikudag á Akureyri, Skarpa á Húsavík og Héraðsfréttir á Héraði. Þá verður engin fréttaflutningur af landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins og alls ekki innan kjördæmisins sjálfs eða kjördæmanna allra á landsbyggðinni. Það er mikið áhyggjuefni að mínu mati þannig að ég tek heils hugar (Forseti hringir.) undir með hv. þingmönnum.



[11:20]
Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessa þörfu umræðu sem ég held að skipti mjög miklu máli. Við þurfum að láta þær raddir heyrast sem minna á minnkaða þjónustu Íslandspósts: Pósthúsum hefur verið lokað. Þá hefur starfsemi svæðisútvarpsstöðva verið minnkuð og nú er ákveðin hætta á því að héraðsfréttablöðin verði það dýr að útgáfa þeirra sé í hættu. Það skiptir mjög miklu máli að bregðast við því.

Mig langar til þess að koma með nýjan vinkil inn í umræðuna. Víða í hinum dreifðu byggjum þar sem þessir miðlar eru afar mikilvægir er netsamband mjög lélegt. Oft hefur verið bent á það. Nú höfum við þetta allt saman á netinu, en staðan er þannig að mjög víða þar sem þessi fréttablöð eru að netsamband er annaðhvort ekki fyrir hendi eða mjög lélegt þannig að það er ekki hægt að nota það.

Mig langar að nota tækifærið og minna á að hvergi er eins mikilvægt að hafa öflugt og gott netsamband og í (Forseti hringir.) dreifðustu byggðum landsins.



[11:21]
Fyrirspyrjandi (Jón Bjarnason) (U):

Frú forseti. Ég þakka umræðuna sem sýnir að þessi mál eru ekki í lagi og sérstaklega ekki af hálfu stjórnvalda og stjórnsýslunnar. Ég hugsa að ég hafi oftast manna á undanförnum áratug tekið upp málefni póstþjónustunnar á hv. Alþingi. Ég átti mér þann draum þegar ég settist í ríkisstjórn að Íslandspóstur yrði tekinn til fullkominnar endurskoðunar, bæði starfsemi hans og áherslur. Það hefur ekki orðið. Ég tel þó að það sé mjög brýnt.

Hæstv. ráðherra minntist á leiðir sem fara mætti til að nálgast málið. Það er gott og blessað, en alverst er að gera ekki neitt, bara benda á leiðirnar og láta þær liggja fyrir en hafa engin önnur afskipti af málinu. Ég tel að þegar Íslandspóstur grípur til svona alvarlegra aðgerða gagnvart þjónustu í dreifbýlinu eigi það að fara til ráðherra og vera metið þar. Hann á ekki að hafa eitthvert sjálfsvald í þeim efnum vegna þess að á honum sé arðsemiskrafa og hann þurfi að skila eigendum sínum arði, þess vegna þurfi að reka fyrirtækið með þessum hætti.

Taka þarf forgangsröðun og starfsemi Íslandspósts til grundvallarendurskoðunar. Við horfum jafnframt á að vera að skera niður Íslandspóst, loka póststöðvum, bankaþjónustuútibúum og búið er að loka svæðismiðstöðvum Ríkisútvarpsins út um land. Það gengur alltaf þann veg án þess að gripið sé inn í og spurt: Þarf ekki að taka þetta upp og gera það með öðrum hætti?

Ég skora á hæstv. ráðherra, þó að stutt sé eftir af ráðherratímanum, að fresta gjaldskrárhækkuninni og láta fara fram grundvallarendurskoðun á starfsemi Íslandspósts og forgangsröðun á þeim verkefnum sem hann sinnir og því hvernig kostnaðurinn verður (Forseti hringir.) til í einstaka tilvikum. Ég hvet til þess að við verjum þessa grunnþjónustu.



[11:24]
innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Það er ekki um það að ræða að Íslandspóstur skili arði. Ég gat um það í fyrra svari mínu að allt benti til þess að tap yrði á starfsemi Íslandspósts, á alþjónustunni á þessu ári. Ekki mundi það bæta úr skák ef honum yrði ekki heimilað að fara í þær gjaldskrárhækkanir sem honum er gert að gera. Það sem taka þarf til endurskoðun er lagaramminn. Ég held að alþingismenn, sérstaklega úr Framsóknarflokki og Sjálfstæðisflokki, þurfi að horfast í augu við afleiðingar eigin gjörða.

Sú var tíðin, eins og hv. fyrirspyrjandi minnti á, að póstur og sími voru rekin saman í einu búi. Það var ágætisfyrirkomulag. Það skilaði okkur lægstu símgjöldum á byggðu bóli og jafnframt í ríkissjóð á þeim tíma, um miðjan 10. áratuginn, milli 2 og 3 milljörðum kr. á hverju ári. Síðan var það einkavætt og pósturinn og síminn, bæði fyrirtækin, voru færð undir samkeppnislög. Þeim var gert skylt að starfa samkvæmt tilteknum lögum sem um þá starfsemi gilda. Ég vísaði í þær lagagreinar.

Ég hef enga heimild samkvæmt duttlungavaldi til að fara gegn þeim lögum. Ef við ætlum að fara í endurskoðum eigum við að endurskoða lögin. Þá þurfum við að gera það og koma með tillögur þar að lútandi.

Ég lagði áherslu á að þetta væri verðugt umræðuefni á löggjafarsamkundunni þar sem einnig er fjárveitingavaldið. Fjárveitingavaldið getur gripið inn í þessa þróun með fjármagni til þess að fjármagna þessi héraðsfréttablöð. (Forseti hringir.) Það er umræðan sem við eigum að taka vegna þess að hún getur leitt til einhverrar raunhæfrar niðurstöðu.