141. löggjafarþing — 103. fundur
 14. mars 2013.
kennaranám.

[10:55]
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Á sínum tíma var farið út í mjög víðtækt samstarf við heimilin, skólana og ekki síst kennarasamfélagið við það að móta heildstæða menntastefnu sem leiddi m.a. til heildarendurskoðunar á löggjöf um öll skólastigin. Það var mjög markviss vinna og menn voru samhentir í því að endurskoða kennaranámið. Við mátum það svo á sínum tíma að auka þyrfti bæði veg og virðingu kennarastarfsins en ekki síður að setja aukinn metnað og slagkraft í sjálft námið. Sérstaklega var litið til Finnlands í þeim efnum. Við sammæltumst um að lengja kennaranámið í fimm ár en stór hluti af því, eins og það var hugsað, var að auka starfsnám kennara. Í Finnlandi er mikil áhersla lögð á starfsnámið sem slíkt innan fimm ára námsins.

Hér hefur þróunin hins vegar orðið sú að þessi lenging hefur í rauninni eingöngu falið í sér aukningu á fræðilegum hluta kennaranáms. Ég vil því spyrja hæstv. menntamálaráðherra, sem ég veit að hefur verið mjög umhugað um að efla og styrkja kennaranámið, hvaða áform eru uppi um kennaranámið og hvað hefur verið gert til að eiga samtal við sveitarfélögin sem hafa mjög ákveðnar skoðanir á þessu máli og vilja helst stytta kennaranámið á ný. Ég vil lýsa því yfir að ég held að það væri rangur vegur að fara, við eigum miklu frekar að ræða um innihald kennaranámsins á þessum fimm árum og hvernig við getum laðað að fólk í námið. Það er viðfangsefnið. Of fáir sækja um kennaranám í dag. Þá verðum við að hugsa um það hvernig við byggjum upp námið, m.a. í gegnum starfsnámið, í samvinnu við sveitarfélögin en ekki síður háskólana sem sjá um kennaranámið.

Þess vegna spyr ég hæstv. ráðherra: Hvað hefur verið gert til að efla og styrkja umgjörðina í kringum kennaranámið? Við höfum rætt það áður, bæði innan þingsins við hæstv. menntamálaráðherra en líka innan allsherjar- og menntamálanefndar, að taka þurfi kennaranámið fastari tökum en nú er (Forseti hringir.) til að efla kennarastarfið sem slíkt, efla gæði námsins þannig að við förum með enn betri kennara út í samfélagið og í skólana okkar.



[10:57]
mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Því er til að svara að heilmikil umræða eins og hv. þm. Þorgerður K. Gunnarsdóttir nefndi réttilega hefur farið fram um inntak kennaranámsins eftir að Alþingi samþykkti með lögum að lengja það í fimm ár fyrir öll skólastig. Í framhaldi af þeirri umræðu hefur menntamálaráðuneytið átt í óformlegu samtali við þær háskólastofnanir sem sinna kennaranámi, þ.e. Háskóla Íslands, Háskólann á Akureyri og Listaháskólann. Þá fundi hef ég reynt að sitja.

Eitt af því sem hefur verið þar til umræðu er til að mynda sú krafa sem hefur komið upp að allir kennaranemar fái ákveðinn grunn í grunnfögum. Þar hafa verið nefnd íslenska, stærðfræði og hugsanlega einhver þáttur raungreina.

Annað sem hefur verið til umræðu er hvernig unnt er að innleiða nýja menntastefnu og allt sem henni fylgir; skóla án aðgreiningar, grunnþætti í aðalnámskrám og annað, inn í kennaranámið. Þriðja hugmyndin er um sjálfa uppbygginguna á kennaranáminu, þ.e. hvernig við getum látið hugmyndina um sveigjanleg mörk skólastiga endurspeglast í kennaranáminu. Einnig hefur verið rætt um það sem hv. þm. nefndi líka, aukinn þátt vettvangsnáms eða starfsnáms í náminu.

Eitt af því sem hefur komið fram í þessum umræðum er að sú reglugerð sem hefur verið sett um kennaramenntun er umdeild á vettvangi þeirra sem annast kennaranámið. Þeir telja jafnvel að hún sé of bindandi fyrir háskólana. Niðurstaða okkar hefur hins vegar verið sú að breyta þeirri reglugerð ekki að sinni heldur hefur verið ákveðið að stofna formlegan samráðsvettvang háskólanna og menntamálaráðuneytisins því við teljum mjög mikilvægt að við eigum í þessu virka samtali. Það hefur þegar skilað ákveðnum árangri inn í námið við að styrkja umgjörðina og vega og meta hvort reglugerðarformið sé hið rétta til að áherslurnar sem koma fram í nýrri menntastefnu skili sér yfir í kennaranámið. Þar tel ég eðlilegt að sveitarfélögin komi að, af því að hv. þingmaður nefnir þau.

Ég vil líka nota tækifærið og segja að ég er sammála henni um að ekki eigi að stytta kennaranámið. Hins vegar er ég hlynnt því að við horfum til þess að hafa útgönguleiðir úr kennaranáminu, eins og eðlilegt er ef við horfum almennt á háskólanám, að það sé útgönguleið úr kennaranámi eftir þriggja ára nám. (Forseti hringir.) Síðan sé hægt að ljúka því til fullnustu eftir tvö til viðbótar. Þar er eðlilegt að sveitarfélögin komi aftur til samræðu af því að hv. þingmaður nefndi þau sérstaklega.



[11:00]
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra kærlega fyrir svörin. Það er mikilvægt að vita að samtal á sér stað á milli þessara aðila, sem eru ráðuneytið, skólarnir, Kennarasambandið og ekki síst sveitarfélögin. Ég vil líka sérstaklega fagna síðustu orðum ráðherrans sem tengjast uppbyggingu námsins og ég er ánægð að heyra að við erum sammála um að umgjörðin eigi að vera áfram og við eigum að gera þessar kröfur. Við verðum engu að síður að huga að því, til þess að laða að fleira fólk — og auðvitað spila aðrir þættir inn í það að fólk sækir ekki í jafnríkum mæli í kennaranám og áður, sérstaklega í leikskólakennaranámið, og það eru meðal annars launakjörin en það er önnur umræða.

Ég tel mikilvægt að í þessu samtali reynum við að stuðla að auknum sveigjanleika í náminu og þar spila sveitarfélögin líka stórt hlutverk. Ég tel til að mynda mikilvægt að hugað verði að því, án þess að slaka á kröfum til kennara, að menn fái hugsanlega starfsleyfi eftir þrjú ár og haldi síðan áfram í meistaranámið og (Forseti hringir.) klári þá fimm ára námið eins og stefnt hefur verið að. Mikilvægt er að við sendum út þau skýru skilaboð að við ætlum ekki að slaka á kröfum hvað varðar kennaranámið, við ætlum að efla það að gæðum og innihaldi og við ætlum að stuðla að fjölbreytni. Það verði meðal annars gert í gegnum aukið starfsnám og aukna samvinnu (Forseti hringir.) á milli allra sem að málum koma.

(Forseti (ÁRJ): Forseti biður hv. þingmenn um að virða tímamörkin.)



[11:01]
mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Já, það sem við höfum rætt við háskólana er að skipuleggja námið út frá Bologna-ferlinu þannig að það sé eðlileg útgönguleið að þremur árum liðnum og það er það sem þegar er gert. Það sem þarf að gera til að fullnusta það er að velta því upp hvað það þýðir þegar maður er búinn með þrjú ár í kennaranámi, hvort það skilar einhverjum titli sem er þá ekki kennaratitill heldur einhver annar titill, sú vinna stendur líka yfir á þeim vettvangi.

Talsvert hefur verið deilt um lengingu kennaranáms í ljósi þess að umsóknum hefur farið fækkandi, ekki síst í leikskólakennaranámi, en við verðum líka að horfa á það út frá heildarsamhenginu. Ef við skoðum sögu menntapólitíkur á Íslandi sjáum við að ákveðinn skortur hefur verið á menntarannsóknum til að undirbyggja stefnumótun stjórnvalda og vinna úr þeim gögnum sem við höfum. Ég hef þá bjargföstu trú að með því að efla kennaranámið á þennan hátt og standa að meistaranámi þá eigum við eftir að efla þessar rannsóknir og það eigi eftir að gera stjórnvöldum framtíðarinnar auðveldara með að taka skynsamlegar ákvarðanir byggðar á rökum. Ég hef því trú á því að þessi ákvörðun (Forseti hringir.) eigi eftir að skila sér til frambúðar með betri ákvörðunum á sviði menntamála.