141. löggjafarþing — 104. fundur
 15. mars 2013.
störf þingsins.

[10:32]
Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Ég hafði hugsað mér að taka til máls um störf þingsins og fyrst og fremst vil ég fagna því að hér fór fram í gær umræða um frumvarp til laga um náttúruvernd. Kvartað hefur verið yfir því að undanförnu að ýmis mál komi seint fram. Það frumvarp sem var til umræðu í gær um náttúruvernd kom inn í þingið í nóvembermánuði. Síðan beitti stjórnarandstaðan þeim ráðum sem hún hefur til að koma í veg fyrir að það kæmist á dagskrá fyrir jól, eins og kunnugt er og menn muna. Hún kom í veg fyrir að það yrði rætt, það þekki ég mætavel. Síðan var frumvarpið fyrsta mál eftir áramót og hefur verið hér í umræðunni og kemur svo loks í þessari viku til mikillar umræðu. Það er í sjálfu sér ágætt og fínt að geta tekist á um þau álitamál sem frumvarpið býður upp á, t.d. eins og varúðarregluna í umhverfisrétti sem það gerir ráð fyrir að sé innleidd í íslensk lög. En það er eins og við manninn mælt að stjórnarandstaðan, bæði Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur, berjast harkalega gegn því. Þeir vilja auðvitað ekki varúðarregluna í umhverfismálum í íslenska löggjöf, þeir vilja geta haldið áfram þar sem frá var horfið við Kárahnjúkavirkjun og Lagarfljót. Það er það sem þeir vilja, draga rammaáætlunina til baka. Það er það sem þeir vilja. Það er ágætt að vita það og fá fram í aðdraganda kosninga sem fram undan eru.

Það er líka sérkennilegt þegar hv. 1. þm. Norðvesturkjördæmis fer mikinn í umræðu í gær og segir að hér sé verið að setja lög sem skuldbinda ríkissjóð einhver ár fram í tímann. Ætli það sé í fyrsta skipti? Svo vísar hann á ungmennin á þingpöllunum og segir að þau muni bera byrðarnar. Þetta segir þingmaður Sjálfstæðisflokksins. Byrðarnar sem íslensk þjóð ber nú eru einkum og sér í lagi þær sem Sjálfstæðisflokkurinn skildi við í árslok 2008. Svo leyfir hann sér að koma hingað og tala um að verið sé að setja skuldbindingar fram í tímann. (Forseti hringir.) Er það ekki alltaf í fjárlögum? (Gripið fram í.) Að sjálfsögðu. Það er gert með löggjöf dag eftir dag, en svo kemur 1. þm. Norðvesturkjördæmis og býsnast yfir þessu. Hann ætti bara — ég ætla ekki að segja það sem ég vildi segja, en það er honum ekki til sóma.



[10:34]
Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Frú forseti. Enn bætist í hóp þeirra fulltrúa atvinnulífsins sem hafa uppi hávært ákall til Alþingis um að ljúka aðildarviðræðunum við Evrópusambandið. Svana Helen Björnsdóttir var endurkjörin formaður Samtaka iðnaðarins nú í vikunni og sagði við það tækifæri að það væri glapræði að hætta aðildarviðræðum við Evrópusambandið. Hún benti á að í dag væri Ísland með aðra höndina bundna fyrir aftan bak með gjaldeyrishöft, miklu hærra vaxtastig og gjaldmiðil sem lítið mark væri tekið á. Hún benti á að Ísland gæti ekki verið einangrað, það sé háð utanríkisviðskiptum og jafnvel landbúnaðurinn geti ekki afhent þjóðinni afurðir án þeirra. Þannig liggi margrætt matvælaöryggi í utanríkisviðskiptum en ekki í innflutningshöftum.

Formaður Samtaka atvinnulífsins benti á að í kjölfar EES-samnings hafi fylgt uppgangstímar sem áttu sér fá fordæmi í Íslandssögunni og það er óhætt að taka undir það. Samningurinn sé kominn vel á aldur og ólíklegt að hann nái að fylgja þróun tímans og líklega muni samningurinn smám saman hætta að þjóna hlutverki sínu.

Það er óhætt að fullyrða að farsæl lúkning viðræðna við Evrópusambandið sé brýnasta kosningamál vorsins og ánægjulegt að þeim flokkum hefur fjölgað á undanförnum vikum sem vilja ljúka aðildarviðræðum við Evrópusambandið. Því vekur það sérstaka athygli og áhyggjur að sá flokkur sem boðar römmustu harðlínuna gegn aðild og aðildarviðræðum er Sjálfstæðisflokkurinn, sá flokkur sem lengst af taldist einn helsti málsvari atvinnulífsins á vettvangi stjórnmálanna. En nú er hún Snorrabúð stekkur því um leið og samstillt og ákaft ákall berst frá atvinnulífinu, Samtökum atvinnulífsins, Samtökum iðnaðarins, um að ljúka aðildarviðræðum við Evrópusambandið er flokkurinn sá eini sem vill hætta viðræðunum og skella í lás. Því er full ástæða til að spyrja fulltrúa flokksins á þingi hverju sæti. Hvað er að óttast í dómi kjósenda? Af hverju að rjúfa það lýðræðislega ferli sem nú er á lokametrunum? Af hverju má þjóðin sjálf ekki taka ákvörðun út frá (Forseti hringir.) endanlegum samningi hvort landið skuli gerast aðili að Evrópusambandinu eða ekki?



[10:37]
Ólína Þorvarðardóttir (Sf):

Frú forseti. Mig langar til að ræða framtíð ungra bænda og nýliðunarmöguleika í íslenskum landbúnaði. Ungir bændur efndu til fundar á Hvanneyri í gærkvöldi þar sem umræðuefnið var einmitt framtíðarmöguleikar þeirra og nýliðunarmöguleikar í íslenskum landbúnaði. Þetta var fjölmennur fundur, mjög góðar umræður og margt sem bar á góma.

Ungir bændur hafa eðlilega áhyggjur af framtíð sinni því að í íslensku landbúnaðarkerfi er ekki allt sem skyldi. Íslenskur landbúnaður býr við mikla vernd samanborið við aðrar atvinnugreinar, mikla styrkjavernd, en engu að síður hefur OECD í skýrslum ítrekað gagnrýnt hvernig sú styrkjavernd á sér stað. Helmingur af tekjum íslenskra bænda er í gegnum opinbera styrki og þeir eru helmingi hærri en í öðrum OECD-ríkjum. Það er mikil miðstýring í þessu kerfi og óskilvirkni á kostnað eðlilegs markaðs- og viðskiptaumhverfis sem er auðvitað umhugsunarefni fyrir þá sem vilja hasla sér völl í greininni.

Ég vil varpa upp þeirri spurningu í fullri alvöru, í tengslum við umræðuna um Evrópusambandið, hvort ekki sé tími til kominn að breyta styrkjaumhverfi íslensks landbúnaðar, færa það frekar í átt til byggðatenginga, í átt að rannsóknum, nýsköpun og tækniþróun, því að fjölbreytni og hagkvæmni í landbúnaði veltur auðvitað á nýsköpun og markaðssókn. Bændur þurfa að geta keppt með afurðir sínar innan lands og utan á forsendum sérstöðu og gæða. Ég tel að landbúnaðarstefnan og byggðastefnan (Forseti hringir.) verði í framtíðinni að haldast í hendur og ég vildi óska þess að við gætum rætt framtíð íslensks landbúnaðar á þeim forsendum í ríkara mæli en við höfum gert hér í þinginu.



[10:39]
Kristján Þór Júlíusson (S):

Forseti. Í gær sáu landsmenn staðfestingu einbeitts vilja Samfylkingarinnar til að skerða lífsafkomu og möguleika landsmanna víðast hvar um land með því að skerða möguleika þeirra til greiðra samgangna við höfuðborg Íslands. Á Reykjavíkurflugvelli af öllum stöðum á landinu og í flugstöðinni sjálfri sáu staðgengill borgarstjóra, Dagur B. Eggertsson og fjármálaráðherra Íslands Katrín Júlíusdóttir ástæðu til að ganga frá skriflegu samkomulagi sem miðar að því að leggja flugvöllinn í Reykjavík í Vatnsmýri niður. Mér hefði þótt betur hæfa að gera það á skrifstofum borgarstjórnar Reykjavíkur heldur en úti á miðjunni sjálfri, úti á flugstöð.

Með þessu samkomulagi á að vinna að framgangi 800 íbúða byggðar við Skerjafjörðinn á grundvelli gildandi skipulags. Það skipulag var unnið og miðaði við það að flugvöllurinn yrði lagður niður. Það hefur hins vegar aldrei verið unnið skipulag að þessu svæði sem miðar að því að flugvöllurinn verði áfram. Ég treysti því að innanríkisráðherra sem á að vera aðili að þessu samkomulagi, þ.e. innanríkisráðuneytið, standi vörð um þá sýn innanríkisráðherra sem hann hefur boðað, en hann berst fyrir því að flugvöllurinn verði áfram í Vatnsmýrinni. Ég hlýt að óska eftir því við hæstv. ráðherra að hann gefi á næstu dögum skýra yfirlýsingu um að hann geri kröfu til þess að þannig verði að málinu unnið. Mér finnst alveg með ólíkindum að velja þetta tækifæri og þennan stað fyrir athöfnina því í mínum hug er þetta fyrst og fremst yfirlýsing um einbeittan vilja Samfylkingarinnar (Forseti hringir.) til að leggja flugvöllinn í Vatnsmýrinni af.



[10:41]
Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Það er ástæða til þess fyrst ég lendi í því að tala á eftir hv. þm. Björgvini G. Sigurðssyni nefna að það er ekkert nýtt í því að talsmenn Samtaka iðnaðarins vilji ganga í Evrópusambandið, það eru engar nýjar fréttir. (BjörgvS: Glapræði að hætta viðræðunum.)

Síðan langar mig að benda á grein sem var í Fréttablaðinu í gær. Það er viðtal við Hjört Gíslason, stjórnarformann Ögurvíkur, þar sem hann fer yfir hvernig veiðigjaldið sem var sett á útgerðina er að leika það fyrirtæki og hvernig það kemur við mörg fyrirtæki. Það er líka vitnað í framkvæmdastjóra fyrirtækisins Valafells í Ólafsvík sem fór ágætlega yfir stöðuna á aðalfundi Samtaka atvinnulífsins. Það er alveg einsýnt, frú forseti, að haldi þetta áfram, verði þessum vitleysisgangi með veiðigjaldið, sem stjórnarflokkarnir samþykktu að setja á greinina, ekki breytt munu mörg fyrirtæki í útgerð, aðallega lítil og meðalstór, hætta rekstri. Nú er það þannig að þau eru mörg hver þegar farin að kanna hvort stærri fyrirtækin sem standa betur geti keypt þau.

Einnig hefur komið fram, sem hlýtur líka að vera umhugsunarefni, að þeir útgerðarflokkar og þær útgerðir sem hafa sem mest upp úr veiðum í dag, uppsjávarskipin, borga hlutfallslega lægra veiðigjald en þeir sem eru í annars konar útgerð. Þetta getur ekki heldur talist réttlátt og miðað við hugsanaganginn í frumvarpinu ætti hæsta veiðigjaldið að vera greitt þar sem framleiðni er mest. En þetta segir okkur bara eitt, veiðigjaldabix ríkisstjórnarinnar þarf að taka algerlega upp frá grunni. Þetta getur ekki gengið eins og það er og mun á endanum verða til þess að örfáar útgerðir verða eftir á Íslandi.



[10:44]
Sigfús Karlsson (F):

Frú forseti. Ég tek heils hugar undir þau orð hv. þm. Kristjáns Þórs Júlíussonar um þetta skaðræðis — ég veit ekki hvað skal segja, þessa undirskrift og sölu á landi í Vatnsmýrinni. Mér finnst hreint með ólíkindum að Samfylkingin í ríkisstjórn skuli hafa selt Samfylkingunni í borgarstjórn þetta land með því … (Gripið fram í: Sjálfstæðisflokkurinn líka.) Nei, það var ekki þannig, hv. þm. Helgi Hjörvar.

(Forseti (ÁRJ): Ekki samtöl við ræðumann.)

Ég tel að þessi gjörningur í gær úti á flugvelli, mjög smekklaus að mínu mati, sé sorgargjörningur fyrir landsbyggðarfólk.

Mig langar aðeins til að segja frá tölunum um þá fólksflutninga sem fara á milli flugvalla Akureyrar og Reykjavíkur. Heildarfólksflutningar á síðasta ári á þjóðvegi 1 og með flugi voru tæplega 450 þús. farþegar, bara á milli þessara tveggja sveitarfélaga. Rétt rúmlega 40% þeirra ferðuðust með flugi eða um 188 þús. farþegar milli Akureyrar og Reykjavíkur á síðasta ári. Þessar tölur hefur Njáll Trausti Friðbertsson, varabæjarfulltrúi Akureyrar, fengið gefnar upp og hann skrifaði um þetta ágæta grein í Vikudag í gær. Ég ætla að fá að vitna í hana, með leyfi forseta:

„Því má öllum vera það fullljóst að mikilvægi flugvallarins í Vatnsmýrinni er Akureyringum, Eyfirðingum, Norðlendingum, landsbyggðarfólki og að mínu viti öllum Íslendingum mikilvægur. Ef flugvöllurinn í Vatnsmýri yrði lagður niður og innanlandsflugið eða það sem væri eftir af því flutt til Keflavíkurflugvallar (Forseti hringir.) mundi það stuðla að enn frekari einangrun stórra landsbyggðarsvæða, skapa öryggisleysi með tilliti til verra aðgengis að stærsta og best búna sjúkrahúsi landsins.“



[10:46]
Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Stjórnarandstaðan hefur verið ansi dugleg þetta kjörtímabil við að mála svörtum litum allt það sem gerst hefur í endurreisn efnahagslífs landsins. Hún segir að ekkert hafi verið gert í tíð þessarar ríkisstjórnar, að allt hafi verið ómögulegt, engin atvinnuuppbygging og allt á vonarvöl þótt allir hagvísar gefi allt aðra vísbendingu. Hagvöxtur er að aukast, fjárfestingar eru að aukast í sjávarútvegi, ferðaþjónustu og fleiri greinum og þróttur og bjartsýni ríkir í samfélaginu. Maður má vera blindur og heyrnarlaus ef maður verður ekki var við það. Samt halda sjálfstæðismenn og framsóknarmenn áfram að tala á þessum nótum.

Nýjasta dæmið um bjartsýni og dugnað er vestur á fjörðum þar sem norska fiskeldis- og matvinnslufyrirtækið Salmus ætlar að flytja alla starfsemi sína til Bíldudals. Það mun skapa um 130 störf í framtíðinni með laxaslátrun, laxeldi og fiskræktarverksmiðju. Mikil uppbygging er líka í ferðaþjónustu og byggja á hótel á Patreksfirði. Við það mun svæðið styrkjast sem og allir Vestfirðir í framtíðinni. Stjórnvöld eiga að halda áfram á þeirri braut að efla innviði samfélagsins varðandi afhendingaröryggi rafmagns, háhraðatengingu, alla uppbyggingu í samfélaginu og samgöngur því að þessi uppgangur á Vestfjörðum er til fyrirmyndar. Við þurfum að styðja við þá uppbyggingu.

Þetta er bara eitt dæmi um það sem er að gerast og menn láta eins og þeir sjái það ekki. Að mati sumra er ekkert að gerast hér á landi, allt er steindautt. En sem betur fer er mikil uppbygging vítt og breitt um landið á ótrúlegustu stöðum sem áður hafa barist við að halda uppi atvinnu og mannlífi.

Ég segi: Leyfum okkur að vera bjartsýn og horfum björtum augum fram á vorið því að það er (Forseti hringir.) margt gott að gerast og það hefur margt gott gerst og þessi stjórnvöld eiga sinn þátt í því.



[10:48]
Magnús Orri Schram (Sf):

Virðulegi forseti. Nú líður senn að kosningum og stjórnmálaflokkarnir birta stefnuskrár sínar. Loforðalistinn er langur og þá sérstaklega hjá stjórnmálaflokkum stjórnarandstöðunnar. En eru slík stjórnmál ábyrg? Höfum við efni á dýrum kosningaloforðum?

Ríki og sveitarfélög skulda samtals 2.250 milljarða kr. og íslenska ríkið, skattgreiðendur í landinu, greiddu á síðasta ári 91 milljarð kr. í vaxtagreiðslur af skuldum ríkisins. Gríðarlegt fjárlagagat hefur verið brúað á þessu kjörtímabili en verkefnið fram undan er ærið. Nú þarf að gæta áframhaldandi aðhalds í ríkisrekstri og helst að skila hagnaði til að hægt sé að borga niður skuldir og nota áðurnefnda 90 milljarða í eitthvað annað en að borga vexti af því sem við skuldum.

Í leiðara Fréttablaðsins í dag er ágæt samantekt á dýrum kosningaloforðum. Þar er tekið saman að áætlaðar skattalækkanir Sjálfstæðisflokksins munu kosta 60 milljarða á ári. Er þá ótalið afnám þrepaskipts tekjuskatts sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur einnig lagt áherslu á, en það þýðir í raun og veru ekkert annað en að skattar á þá ríkustu, þá efnuðustu munu lækka og skattar á þá sem hafa lægstu tekjurnar munu hækka — nema hvað? Reyndar hefur Sjálfstæðisflokkurinn ekki skýrt það nánar út fyrir okkur með hvaða hætti hann hyggst afnema þrepaskiptan tekjuskatt. Kannski ætlar hann að lækka tekjuskattinn svo gríðarlega að 60 milljarða talan sem kosningaloforð hans kosta í dag verður margföld, ekki einungis þessir áðurnefndu 60 milljarðar. Hér er á ferð óábyrg nálgun stjórnmálaflokks í aðdraganda kosninga. Það eru engir aðrir en kjósendur þessa lands sem munu þurfa að borga reikninginn af óábyrgri nálgun í aðdraganda kosninga. Ég vona svo innilega að kjósendur sjái í gegnum slíka nálgun á ögurstund (Forseti hringir.) í fjárlögum íslenska ríkisins.



[10:51]
Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Í tilefni af orðum síðasta ræðumanns get ég tekið undir það með honum að vandinn í ríkisfjármálum er þess eðlis að hann verður ekki leystur með einu pennastriki eða einhverjum töfralausnum, ég tek eindregið undir það. Ég held að það sé eins gott fyrir okkur þingmenn að átta okkur á því að verkefnin fram undan, á næsta kjörtímabili eru ekki endilega auðveld, ekki endilega þægileg og eru ekki endilega skemmtileg. Það eru gríðarlega mikilvæg verkefni sem bíða okkar.

Þá veltum við fyrir okkur: Hvernig getum við stuðlað að því að meiri verðmætasköpun verði í samfélaginu? Getum við hugsanlega gert það með skattalækkunum? Getum við hugsanlega lækkað skatta til að örva hagkerfið til að koma hlutunum á hreyfingu? Það er því miður ekki alveg rétt sem hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir benti á áðan, að allir hagvísar væru jákvæðir og upp á við. Því miður er það nú svo að ef leitað er í gögn t.d. Hagstofunnar en ekki gögn hæstv. atvinnuvegaráðherra kemur í ljós að staðan er því miður miklu verri en menn héldu, miklu verri en allar hagspár gerðu ráð fyrir á síðasta ári, miklu verri en áætlanir þessarar ríkisstjórnar byggðu á, því miður. (LRM: Samt upp á við.) Ja, það má segja að mælirinn hreyfist aðeins upp á við eftir allt það hrun sem við höfum séð, en allir eru sammála um að sá hagvöxtur sem við sjáum hér stendur ekki með nokkru móti undir auknum útgjöldum ríkisins, auknum kaupmætti í landinu eða neinu slíku. Það er ekki nein fjárfesting hér að neinu marki og það skilar sér ekki inn í atvinnulífið sem það þyrfti að gera til að við næðum að stækka kökuna þannig að við hefðum meira til ráðstöfunar hjá hinu opinbera, meira til ráðstöfunar hjá heimilunum og meira til ráðstöfunar hjá atvinnulífinu. Það þarf einfaldlega að setja hlutina (Forseti hringir.) í það samhengi að til að gera það sem við viljum gera á næsta kjörtímabili þurfum við að koma hjólum atvinnulífsins á stað svo um munar.



[10:53]
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson, Samfylkingunni, minntist á afar góða ræðu Svönu Helenu Björnsdóttur, formanns Samtaka iðnaðarins, á iðnþingi í gær. Ég hef sagt það áður í þessum ræðustól að það er mikilvægt að Íslendingar fái tækifæri til þess að taka afstöðu til aðildarsamnings við ESB og segja skoðun sína í þeim efnum. Hins vegar verður að draga það fram að það eru ákveðnar þversagnir í málflutningi Samfylkingarinnar hvað þetta varðar. Þversagnirnar varða einmitt stærstu málaflokkana, sem eru sjávarútvegs- og landbúnaðarmál. Hvað hefur gerst í sjávarútvegsmálum? Þar hefur Samfylkingin ekki stuðlað að því að sjávarútvegurinn geti borið sig á grundvelli markaðslausna heldur hefur hún reynt að stýra sjávarútveginum inn í félagslegt kerfi sem þýðir að sveiflujöfnunin sem sjávarútvegurinn hefur sjálfur séð um varðandi gjaldmiðilinn sem við erum með, krónuna — þá væri sjávarútvegurinn í afar erfiðri stöðu innan Evrópusambandsins, þannig að Samfylkingin ætti fyrst að taka til heima hjá sér hvað þetta atriði varðar.

Síðan eru það eru landbúnaðarmálin. Já, ég er alveg sammála því, ég hefði viljað sjá minn flokk, Framsóknarflokkinn og Samfylkinguna, þegar við vorum saman í ríkisstjórn á sínum tíma, taka stærri skref varðandi það að opna á innflutning á landbúnaðarafurðum. Reyndar voru tekin mikilvæg skref eins og t.d. í tengslum við grænmetið. Það hefur sýnt sig að framleiðsla á innlendu grænmeti hefur stóraukist eftir að við breyttum kerfinu. En hvað hefur Samfylkingin gert í ríkisstjórn? Hún hefur einmitt unnið þvert gegn því. Hún hefur verið í ríkisstjórn sem hefur niðurnjörvað landbúnaðarkerfið, hún hefur stutt þá ráðherra Vinstri grænna sem reynt hafa að loka kerfinu, reynt að setja á skömmtunarpólitík og haftapólitík. Þess vegna segi ég að það er miklu betra fyrir þingmenn Samfylkingarinnar að byrja á að taka til heima hjá sér í þessum málum í staðinn fyrir að vera að agnúast hér í þingsal út í aðra flokka og skoðanir þeirra í þessum málum. Þingmenn Samfylkingarinnar ættu að taka til heima hjá sér áður en þeir fara að gagnrýna aðra.



[10:55]
Illugi Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Vegna orða hv. þm. Magnúsar Orra Schrams vil ég benda á að hv. þingmaður hefur fylgt ríkisstjórninni að málum, sömu ríkisstjórn og sent hefur til þingsins fjöldann allan af frumvörpum sem langflest eiga það sammerkt að stuðla að mikilli aukningu útgjalda ríkissjóðs á næstu árum og jafnvel áratugum, langt út fyrir þau mörk sem sett eru fram í ríkisfjármálastefnu, svo dæmi séu tekin. Það er því holur hljómur í þeirri gagnrýni sem fram kom hjá hv. þingmanni. En það er rétt að Sjálfstæðisflokkurinn stefnir að því að létta byrðar heimilanna. Þegar menn ræða um ríkisfjármálin og um þær skattahækkanir sem á þjóðinni hafa dunið er rétt að spyrja sig einnar spurningar: Hversu miklar álögur þola heimilin í landinu? Það er lykilspurningin og við eigum að spyrja þeirrar spurningar fyrst.

Skuldsetning íslenskra heimila er slík að skattahækkanir þær sem dunið hafa á heimilum landsins gera fólkinu í landinu erfiðara að standa í skilum varðandi lánagreiðslur sínar og að hafa í sig og á. (Gripið fram í.) Á sama tíma streyma inn þingfrumvörp ríkisstjórnarinnar um aukin útgjöld.

Hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir sagði að menn þyrftu að vera blindir til að sjá ekki árangur ríkisstjórnarinnar. Það má vel vera. En menn mega vera gersamlega, algerlega staurblindir ef þeir sjá ekki hvaða afleiðingar það hefur ef fjárfesting atvinnuveganna verður sú sem nú er spáð. Það þýðir það, sama hvað hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir segir, að ef fjárfestingin verður sú sem nú er spáð mun hagvöxtur ekki taka við sér og við munum sjá endurtekningu á þeirri atburðarás (Forseti hringir.) sem var þegar því var spáð að hagvöxturinn yrði 3,1% á árinu 2012. Hann varð 1,6% og sennilega eru rök fyrir því að hann hafi verið jafnvel lægri. (LRM: Það er ekki góður … hagvöxtur eins og …)



[10:58]
Helgi Hjörvar (Sf):

[11:00]
Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Helga Hjörvar fyrir þessa spurningu. Það þarf enginn að velkjast í vafa um það að framsóknarmenn hafa lagt mikla áherslu á það að reyna að koma til móts við heimilin allt þetta kjörtímabil og munu reyna það á næsta kjörtímabili líka. Það þarf enginn að velkjast í vafa um það. Við höfum lagt fram fjölmargar tillögur um hvernig megi gera það.

Í efnahags- og viðskiptanefnd þar sem hv. þm. Helgi Hjörvar er formaður er einmitt tillaga sem lýtur að því að reyna að koma böndum á verðtrygginguna, setja á hana þak, takmarka möguleika bankanna á því að eiga verðtryggð lán, hætta að tengja gjaldahækkanir ríkissjóðs við vísitölu o.s.frv., allt til þess að reyna að ná tökum á verðtryggingunni, setja á hana þak þannig að hún hafi ekki þau áhrif sem hún hefur í íslensku samfélagi í dag.

En, jú, við ætlum að afnema verðtryggingu, við samþykktum það á landsfundinum okkar. Niðurstaðan varð að setja það fram eins áberandi og við gerðum og við teljum ekki lengur hægt að horfa upp á það að þegar einstaklingar koma í viðskiptabankana og taka lán er þeim beint, eða var, inn í það að taka verðtryggð lán. Það hefur reyndar aðeins breyst eftir að óverðtryggðu lánin urðu svona stór. Meðan bankarnir leika sér að þessu græða þeir þegar verðbólgan eykst. Þetta er það sem við leggjum áherslu á og segjum í ályktun okkar þannig að það sé alveg á hreinu að við ætlum að fela starfshópi að útfæra hvernig þetta er gert. Af hverju segjum við að það sé? Við erum í fjögur ár búin að berjast fyrir því að sá óskapnaður sem verðtryggingin er í íslenskum lánum hjá neytendum verði sett aftur fyrir, að við hættum að trúa á þetta fyrirbæri.

Það höfum við ekki getað gert vegna þess að alls staðar eru einhverjir varðmenn fyrir verðtrygginguna, þar á meðal á þingi og inni í helstu stofnunum sem stýra þessu samfélagi. Eina ráðið er að fara þessa leið og ekki (Forseti hringir.) leita til þessara sérfræðinga — (Gripið fram í: Þið vilduð ekki svara …) Við höfum líka lagt fram tillögur (Forseti hringir.) um að það verði að leiðrétta lánin afturvirkt en er hægt að afnema (Forseti hringir.) verðtrygginguna afturvirkt án einhverra skaðabóta? Það er búið að gera verðtryggða samninga sem hafa gengið kaupum og sölum sem hafa kannski eignarrétt o.s.frv. (Gripið fram í.) Er það hægt? (Gripið fram í.) Það er nákvæmlega það sem við verðum að skoða. Það (Forseti hringir.) er ekki hægt að fara fram með óábyrg loforð í því, [Hlátur í þingsal.] það er bara ekki hægt, það er bara ekki hægt, (Forseti hringir.) enda hefur enginn sagt að það eigi að (Forseti hringir.) afnema verðtryggingu af lánum afturvirkt. (Gripið fram í.) (Gripið fram í: … forsætisráðherra.)



[11:03]
Forseti (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Forseti minnir hv. þingmenn á að virða ræðutímann og gefa ræðumönnum hljóð.



[11:03]
Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Árni Þór Sigurðsson gerði athugasemdir við það að í umræðunni um náttúruverndarlögin í gær hefði ég gert athugasemdir við að enn á ný væri verið að boða til útgjalda sem ekki væri gert ráð fyrir í fjárlögum ríkisins. Ég hef gert það að umtalsefni á undanförnum dögum og reyndar undanförnum mánuðum og árum hversu óábyrg ríkisfjármálin eru og hvernig umgengnin um þau er.

Ég hef minnt á að ríkisstjórnin hefur ákveðna stefnu í ríkisfjármálum sem heitir ríkisfjármálastefna. Frumvörpin sem eru hér lögð fram í bunkum ganga gegn stefnu ríkisstjórnarinnar í ríkisfjármálum. Það kemur oft og ítrekað fram í umsögn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins að þau auknu útgjöld sem gert er ráð fyrir í viðkomandi frumvörpum gangi gegn stefnu ríkisstjórnarinnar í ríkisfjármálastefnunni. Það er ekki flóknara en það.

Skýrasta dæmið um þetta sem hefur blasað við okkur undanfarna daga er þegar hæstv. menntamálaráðherra tók skóflustungu að Húsi íslenskra fræða. Förum aðeins yfir það. Þar er gert ráð fyrir heildarkostnaði upp á 3,4 milljarða kr. sem átti að greiðast á þremur árum. Í upphaflegum tillögum frá menntamálaráðuneytinu var gert ráð fyrir að greiddar yrðu 800 millj. kr. úr ríkissjóði fyrir framkvæmdina. (Gripið fram í.)

Hvað gerðist síðan í meðförum hv. fjárlaganefndar og með tillögum frá menntamálaráðuneytinu? Jú, því var breytt í það að ríkissjóður muni einungis á árinu 2013 greiða 150 millj. kr. af þeim 3,4 milljörðum á næstu þremur árum og happdrættið látið borga megnið af sínum hlut þar inn í. Síðan stendur það eftir fyrir þá sem hér taka við að á næstu tveimur árum, þ.e. 2014 og 2015, þarf að standa skil á 2.250 millj. kr. Þetta kalla ég óvarlega gengið um (Forseti hringir.) ríkisfjármálin, frú forseti. (Gripið fram í: Hvað kostaði hrunið?)



[11:05]
Björn Valur Gíslason (Vg):

Forseti. Það er oft erfitt að ræða í fullri alvöru um efnahagsmál við Sjálfstæðisflokkinn og fulltrúa hans í þinginu. Hér fyrr í dag kallaði þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, Illugi Gunnarsson, eftir hagvextinum, það vantaði svo miklu meiri hagvöxt til að knýja landið áfram. Var skortur á hagvexti í aðdraganda hrunsins, var virkilega skortur á hagvexti þá sem mældist hér 4%, 5% og 6%, vel umfram það sem gerðist í öllum öðrum löndum í Evrópu? Hvers vegna hélt þá ekki góðærið áfram? (Gripið fram í.) Hvernig kallaði það fram hrun? Af því að það var innantómur hagvöxtur, það var ekkert undir honum, engar stoðir þegar á hann reyndi og reynt var að stíga til jarðar undan því áfalli sem skall á okkur, m.a. vegna þess að hagvöxturinn var á röngum rökum reistur. Hann var byggður á falsi, þar undir var engin verðmætasköpun, það voru falskir og ónýtir peningar og hugmyndafræðin sömuleiðis sem hagvöxturinn reis upp frá.

Það eru fjögur ár þessa dagana síðan komst upp um eina mestu pólitísku spillingu á Íslandi þegar styrkjamálið svokallaða hjá Sjálfstæðisflokknum opinberaðist og komst upp um þá í kjölfar skýrslu ríkisendurskoðanda þar um, upp á 55 millj. kr. sem bornar voru inn í fjárhirslur Valhallar árið 2007. Það vildi þannig til að enginn kannaðist við að hafa tekið við þessu. Það kannaðist enginn við að hafa beðið um þetta. Það var eins og það hefði verið skrúfað frá krana og allt í einu duttu 55 milljónir inn á gólfið. Þetta varð til þess að framkvæmdastjóri flokksins sagði sig frá starfinu. Þetta hefur margoft verið rætt í þingsal, flokkurinn ákvað að endurgreiða þetta vaxtalaust og án verðbóta til sjö ára — en er hann að því? Hvar hefur það komið fram að Sjálfstæðisflokkurinn (Forseti hringir.) sé að endurgreiða þessa peninga? Er ekki rétt að kalla eftir því núna fyrir kosningar þannig að við vitum að minnsta kosti hver útgerðin er (Forseti hringir.) sem borgar kostnaðinn af því að koma þingmönnum flokksins á þing við næstu kosningar? (Gripið fram í.)