141. löggjafarþing — 106. fundur
 18. mars 2013.
um fundarstjórn.

skýrsla fjármálaráðherra um hagvöxt og dagskrá fundarins.

[10:34]
Illugi Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég held að það hafi verið á fimmtudaginn í þarsíðustu viku sem ég og hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson, þingflokksformaður Framsóknarflokksins, sendum bréf til forseta þess efnis að við færum fram á að í þinginu yrði flutt skýrsla af hálfu fjármála- og efnahagsráðherra þar sem gerð yrði grein fyrir afstöðu ráðherrans til þeirra frétta sem bárust frá Hagstofu Íslands um að hagvöxtur ársins 2012 yrði einungis helmingur af því sem áætlað hafði verið.

Það var vel tekið í þetta og fram hefur komið hjá hæstv. ráðherra að hún er tilbúin til að koma til þeirrar umræðu og flytja þinginu skýrslu. Nú er búið að ákveða að hér verði kvöldfundur. Ég spyr því: Hvenær ætlar virðulegur forseti sér að koma þessu mikilvæga máli á dagskrána þannig að við getum rætt um hverju það sætir að hagvöxtur ársins 2012, sem átti að verða a.m.k. 3%, reyndist síðan verða bara 1,6% (Gripið fram í: Eða minni.) eða minni, með skelfilegum afleiðingum fyrir heimilin í landinu, fyrirtækin og ríkissjóð.

Það er ástæða til að ræða málið í þinginu. Við höfum reynt að taka það fyrir undir liðnum um störf þingsins og í fyrirspurnatímum ráðherra en við verðum að fá að heyra afstöðu hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra til málsins þannig að við getum átt umræðu um það. Það dugar ekki að taka það bara upp í störfum þingsins eða með fyrirspurnum á ráðherra. (Forseti hringir.)

Virðulegi forseti. Ég fer fram á að þetta mál komi sem fyrst á dagskrá þingsins.



[10:36]
Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Það var sérstakt að heyra það áðan að forseti tilkynnti að gert yrði klukkutímahlé fyrir nefndafundi og einnig þingflokksfundi. Ég viðurkenni að ég hélt að gefinn yrði hefðbundinn tími fyrir þingflokksfundi á þessum degi en það er líklega fátt hefðbundið við þennan dag og þá stjórn sem virðist vera hér á málum þegar þingi átti að ljúka á föstudaginn var. Þegar við komum svo til fundar í dag sjáum við að hér eru 41 þingmál á dagskránni. 41 þingmál sem forseti virðist telja að unnt sé að ljúka í dag eða á næstu dögum miðað við hvaða orð hafa verið uppi um stjórn þingsins undanfarið og hvað hægt er að gera.

Ég verð að segja að það er mjög undarlegt að verða vitni að því hvernig haldið er á málum. Ég vil líka minna á að ef hér eiga að vera venjubundin þingstörf áfram þá eru þingflokksfundir á mánudögum og miðvikudögum. (Forseti hringir.) Einnig liggja fyrir fjölmargar beiðnir um sérstakar umræður sem ég óska eftir að forseti hleypi að á dagskrá.



[10:37]
Birgitta Jónsdóttir (Hr):

Forseti. Mér finnst ótrúlega furðulegt að hér hafi ekki verið haldinn þingflokksformannafundur áður en þessi dagskrá kom í pósti til þingmanna í gærkvöldi. Ég veit ekki betur en að á síðasta fundi sem ég átti með forseta og formönnum flokkanna að forseti hafi sagt skýrt og skilmerkilega að hún mundi ekki setja á fund fyrr en búið væri að ná samkomulagi. Því óska ég eftir að haldinn verði fundur þingflokksformanna þar sem við fáum að heyra um þetta samkomulag, því eitthvert samkomulag hlýtur að hafa verið gert fyrst við erum hér með dagskrá með 41 máli. Ég óska eftir að fundi verði frestað nú þegar þannig að við getum farið yfir þessi mál í sameiningu. Ég óska eftir svari.



[10:38]
Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Vegna athugasemda sem hér komu fram um dagskrá fundarins í dag vil ég lýsa þeirri skoðun minni að ég er mjög ánægður með að sjá þau mál sem fyrir þinginu liggja komin á dagskrá þessa fundar. Kallað hefur verið eftir því að fram kæmi hvaða mál ríkisstjórnin og ríkisstjórnarflokkarnir leggja kapp á að fá afgreidd.

Þingflokksformönnum stjórnarandstöðuflokkanna hefur verið gert það ljóst og þeir hafa fengið lista yfir mál sem ríkisstjórnin telur mikilvæg en vegna umræðu hér, og það sem ég vil kalla málþóf í mörgum málum að undanförnu tel ég mikilvægt að þjóðin sjái það svart á hvítu í dagskrá fundarins í dag hvaða mál það eru sem við leggjum kapp á að fáist afgreidd og hvaða mál er verið að koma í veg fyrir með málþófi að komist til afgreiðslu, svo sem eins og mál um opinbera háskóla, um almenn hegningarlög þar sem taka á á kynferðisbrotum gegn börnum innan fjölskyldu, (Forseti hringir.) niðurgreiðslu húshitunar, náttúruvernd, velferð dýra o.fl. Það er mikilvægt að þjóðin sjái að með málþófi er verið að koma í veg fyrir (Forseti hringir.) að mál af þessum toga hljóti afgreiðslu.



[10:40]
Þór Saari (Hr):

Frú forseti. Ég get ekki annað en komið hér upp og gert athugasemd við fundarstjórn þingsins þessa dagana. Búið er að lýsa því yfir vikum saman að starfsáætlun þingsins haldi og þess vegna þurfi að stöðva stjórnarskrármálið og taka það af dagskrá. Formaður Samfylkingarinnar hefur lýst því yfir, formaður Vinstri grænna hefur lýst því yfir, forseti þingsins hefur lýst því yfir að starfsáætlun þingsins sé heilög og þess vegna sé ekki hægt að afgreiða stjórnarskrá sem meiri hluti þjóðarinnar vill samkvæmt þjóðaratkvæðagreiðslu fá sem sína.

Hér er aftur á móti verið að setja á fund með 41 máli sem ekkert samkomulag er um. Það er búið að framlengja starfsáætlun þingsins.

Forseti. Alþingi Íslendinga er eitthvert óskipulegasta fyrirbæri sem til er og starfsáætlun og starfsaðferðir á þinginu eru til háborinnar skammar. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) Þeir sem stýra hér málum eiga að líta í eigin barm og láta af svona stjórn eða hætta störfum ella. Það er komið alveg nóg. Ég er búinn að vera hér í fjögur ár og þingstörf eru óskipulögð. Löggjafarsamkundan á Íslandi (Forseti hringir.) getur ekki afgreitt þingmál. Það er algerum tilviljunum háð hvaða frumvörp verða hér að lögum. (Forseti hringir.) Þingið er orðið að einhverjum óskapnaði sem gert er grín að út um allan heim.

Forseti. (Forseti hringir.) Ég óska eftir að þessum fundi verði frestað og komið verði skipulagi á dagskrá þingsins.



[10:41]
Forseti (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Forseti biður hv. þingmenn um að gæta hófs í orðavali og virða ræðutíma.



[10:42]
Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Það er sérkennilegt ef hv. formenn stjórnarandstöðuflokkanna eru hissa á þeim mikla fjölda mála sem liggur óafgreiddur fyrir þessu þingi. (Gripið fram í.) Þetta eru sömu menn sem hafa sett hér upp hverja stífluna á fætur annarri og hertekið hvert málið á fætur öðru (Gripið fram í.) til að koma í veg fyrir að þingmenn og þingið skiluðu sinni vinnu.

Þetta er langur listi, það er rétt. Þessi listi hefur legið fyrir hjá þessum hv. þingmönnum í tíu daga, þeir hafa ekki verið tilbúnir til að ræða hann, þeir vilja ræða eitthvað allt annað. Hér í þingsal hafa þeir aðallega rætt um opinbera háskóla, núna í sex og hálfan klukkutíma í framhaldi 2. umr. og umræðunni er langt í frá lokið. Þetta er mál sem var tilbúið löngu fyrir jól til að afgreiða í þessum sal en þá settu menn upp stoppmerkið og gera það aftur núna. Það er eðlilegt að þjóðin fái að sjá hvaða mál það eru sem (Forseti hringir.) þessir flokkar eru að stoppa. Það er nauðsynlegt og það er eðlilegt.



[10:43]
Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Í fyrsta lagi hjó ég eftir því hjá hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni og ráða mátti það líka af orðum hv. þm. Álfheiðar Ingadóttur að sá listi sem hér liggur fyrir sem dagskrá dagsins í dag sé með einhverjum hætti tæmandi listi yfir þau mál sem ríkisstjórnin vill klára. (Gripið fram í.) Ef svo er ekki þá eru það mjög athyglisverðar upplýsingar miðað við þau ummæli sem hér hafa fallið.

Þá spyr ég líka: Hefur ekki hvarflað að hv. þingmönnum að það gæti þvælst fyrir þingstörfum þegar hér koma inn ný þingmál, 1. umr. um mál, alveg fram á síðasta dag? Halda menn að það geti ekki þvælst fyrir? Halda menn að það hafi ekki áhrif á störf þingsins þegar reynt er að keyra áfram með mál sem eru umdeildustu mál þessa þings á síðustu dögunum? Halda menn að það hafi engin áhrif? Eru menn algerlega blindir á þá stöðu sem hérna er uppi? Gera menn sér enga grein fyrir því að það er hægt (Forseti hringir.) að afgreiða fjöldann allan af málum sem gott samkomulag getur verið um og er meðal annars að finna á þessum lista ef menn leggja til hliðar ágreiningsmálin?



[10:44]
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Ekki alls fyrir löngu beindi ég til forseta að reyna að gera ráð fyrir þó ekki væri nema klukkutímaumræðu um stöðu lögreglunnar í landinu. Þverpólitískur hópur hefur nú skilað skýrslu til innanríkisráðherra sem dregur fram grafalvarlega stöðu lögreglunnar um allt land, ekki síst á landsbyggðinni. Ég sé þess hvergi stað að við getum fengið að ræða þessa mikilvægu þverpólitísku skýrslu. Það endurspeglar líka forgangsröðun ríkisstjórnarinnar að í þeirri nefnd sem ég sit í, allsherjar- og menntamálanefnd, er alveg ljóst af hálfu innanríkisráðherra að forgangsraða á í þágu Happdrættisstofu, sem er 25. mál á dagskrá, og í þágu áfengislaga eða skýrara banns við auglýsingum. Þetta var sú forgangsröðun af hálfu innanríkisráðherra sem beint var til nefndarinnar en önnur mál, mikilvæg mál eins og skipting í lögregluumdæmi og lög um útlendinga, hafa ekki fengist rædd í þaula í nefndinni.

Ég vil draga fram þessa forgangsröðun ríkisstjórnarinnar um leið og ég undirstrika ósk mína (Forseti hringir.) um að við fáum svigrúm, þó það væri ekki nema klukkutími, til að ræða mikilvæga skýrslu um stöðu lögreglunnar.



[10:46]
Birgitta Jónsdóttir (Hr):

Forseti. Það er greinilegt að haldinn hefur verið þingflokksformannafundur með forseta og þingflokksformönnum meiri hlutans um að sýna fram á — (Gripið fram í: Ert þú ekki í honum?) Ég er greinilega ekki í honum, ég er ekki neinna nema sjálfrar mín og þingmanna Hreyfingarinnar. Gott og vel, það er fínt að sjá á plaggi hvaða mál ríkisstjórnin leggur áherslu á að klára, þar á meðal Happdrættisstofu sem er greinilega þjóðþrifamál.

Mig langar að spyrja forseta hvort við getum ekki fundað. Síðan langar mig að fara fram á að ný þingsköp verði kláruð og að við setjum frumvarp til nýrra stjórnarskipunarlaga á dagskrá fyrst við ætlum að flagga öllu því besta sem ríkisstjórnin býður upp á.



[10:47]
Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Mér finnst sjálfsagt að upplýsa hv. þm. Birgittu Jónsdóttur um að enginn fundur hefur verið haldinn með þingflokksformönnum um þessa dagskrá. Ég man ekki einu sinni hvenær við ræddum síðast saman, frú forseti, ég verð bara að viðurkenna það, það er að verða svolítið síðan. (Gripið fram í.) Það hefur ekki verið samið um eitt eða neitt, en það er ágætt að hv. þm. Árni Þór Sigurðsson og fleiri skuli lýsa því yfir að þetta séu áherslumál ríkisstjórnarinnar, þetta séu þau mál sem hún leggur mest kapp á að klára.

Ég vek athygli á því að hér er ekki eitt einasta mál er varðar til dæmis stöðu heimilanna, ekki eitt einasta mál. Það skiptir greinilega engu máli hjá þessari ríkisstjórn að klára einhver mál er varða þak á verðtryggingu eða eitthvað slíkt. Hér á að klára Happdrættisstofu, (Gripið fram í.) áfengislög, starfsmannaleigur, einhver EES-mál og eitthvað slíkt. Það er með ólíkindum að horfa upp á þetta, en hér kemur þetta berlega í ljós. Ríkisstjórnin hefur allt aðrar hugmyndir en allir aðrir úti í samfélaginu um hvað er mikilvægast í landinu en það er að bæta stöðu heimilanna og atvinnulífsins. Hér eru tvö mál er varða stöðu atvinnulífsins, ágæt mál er varða uppbyggingu á Bakka. Ekkert annað er að finna á dagskránni.



[10:48]
Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Vegna ummæla hv. þm. Birgis Ármannssonar vil ég láta það koma fram að ekkert í máli mínu áðan gaf til kynna að hér væri endilega um tæmandi lista að ræða. Ég sagði að þetta væru þau mál sem ríkisstjórnin legði mest kapp á, og mikið kapp á, að fá afgreidd. (Gripið fram í.)

Mjög mörg önnur mál eru í vinnslu í þinginu sem einnig væri sómi að því að afgreiða. (Gripið fram í: Af hverju …?) Hv. þm. Birgir Ármannsson sagði líka að það væri ekkert vandamál að afgreiða mál sem samstaða væri um ef menn ýttu ágreiningsmálunum til hliðar. Alþingi er pólitískur vettvangur. Alþingi er vettvangur þar sem er fullkomlega eðlilegt að tekist sé á um pólitískar áherslur og leiðir og það séu þá greidd atkvæði um þau mál sem ágreiningur er um, að þau fái líka að komast til afgreiðslu.

Svo er ánægjulegt til þess að hugsa að í þessari viku eru vorjafndægur og þá verður dagurinn lengri þannig að það gefur okkur tilefni til að vera bjartsýn á það að fundir geti staðið lengi í björtu. (Forseti hringir.) Alþingismönnum á ekki að vera neitt að vanbúnaði að afgreiða þau mál sem hér liggja fyrir. [Kliður í þingsal.]



[10:49]
Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Ég vil segja það um fundarstjórn virðulegs forseta að ég er ánægð með að forseti skuli hafa sett á dagskrá þau mál sem eru tilbúin til umræðu í þinginu. Það er mikilvægt að við sjáum hvað liggur hér fyrir þannig að við getum skipulagt vinnu okkar samkvæmt því. Ég hvet hæstv. forseta til að drífa dagskrána áfram. Það er ljóst að mikið liggur fyrir, mörg mjög mikilvæg mál sem varða hagsmuni margra. Einnig vitum við sem hér erum að mörg ákaflega mikilvæg mál sem varða meðal annars skuldir heimilanna liggja fyrir í nefndum og beðið eftir að komi til umræðu. Við skulum ekki eyða tímanum lengur í að ræða fundarstjórn forseta sem mér finnst ákaflega góð. Ég þakka fyrir hana og legg til að við drífum þingstörfin áfram.



[10:50]
Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Það er upplýsandi að það komi fram að það 41 mál sem hér er á listanum er ekki tæmandi talning yfir þau mál sem ríkisstjórnin leggur áherslu á að koma í gegnum þingið. Það væri forvitnilegt að sjá hvaða mál til viðbótar um er að ræða, hvort það eru 10 mál, 20 mál, 30 mál, 40 mál eða 50 mál í viðbót sem ríkisstjórnin ætlar að leggja áherslu á að koma í gegnum þingið þegar nokkrir dagar eru liðnir síðan störfum þingsins átti að ljúka miðað við starfsáætlun.

Það er dálítið sérstakt að ríkisstjórnarflokkarnir láta eins og þessi dagsetning, 15. mars, lokadagur þingsins, komi þeim á óvart. Hún hefur legið fyrir frá því í haust, frá því að starfsáætlun þingsins var gefin út. Það hefur legið fyrir í allan vetur að kosningar yrðu 27. apríl. Menn geta ekki látið það koma sér á óvart.

Þegar horft er á þessa dagskrá sést að hér eru fjöldamörg mál sem ágætt samkomulag getur náðst um. Á lokadögum þingsins fyrir kosningar er skynsamlegast að einbeita sér að slíkum málum, málum sem samkomulag getur náðst um, málum (Forseti hringir.) sem raunverulega hafa í sér einhverjar dagsetningar eða einhverja tímafresti sem mikilvægt er að standist — en eigum við ekki að láta (Forseti hringir.) kjósendur og næsta þing takast á um átakamálin?



[10:52]
Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Það er rétt, þetta er ekki tæmandi listi yfir þau mál sem bíða afgreiðslu í þinginu. Mörg mál eru enn í nefndum, þar á meðal mál til að laga stöðu lánsveðshópsins sem ég ætla að vona að stjórnarandstaðan fari ekki að stoppa hér eins og allt annað. Ég vil líka nefna rannsókn á lífeyrissjóðunum og lög sem vernda grunnvatnið.

Þessi listi sýnir hins vegar hversu ósvífinn minni hlutinn í þinginu er, hvernig hann móast við samkvæmt dagskipun ofan úr Hádegismóum. (ÓN: Hvers konar dónaskapur er þetta?) Dagskipunin er einfaldlega sú að samþykkja helst ekki neitt og alls ekki mál sem gott samkomulag er um. Þetta hefur verið viðtekin (Gripið fram í.) regla árum saman og við þekkjum alveg hreint hvaðan hún kemur. Og kalli menn það ósvífni verða menn bara að gjöra svo vel og líta í eigin barm. (ÓN: Dónaskapur.) [Kliður í þingsal.]

(Forseti (ÁRJ): Forseti biður menn um að gæta hófs í tali.)



[10:53]
Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Manni fallast eiginlega hendur að koma upp í pontu á eftir friðardúfunni sjálfri, Álfheiði Ingadóttur, sem talar hér eins og við í stjórnarandstöðunni vinnum aldrei með stjórnarliðinu í nokkrum málum. Þetta er rangt. Ég hef setið í velferðarnefnd í nokkur ár þar sem er mikið og gott samkomulag og við höfum í sameiningu komið í gegnum þetta þing mörgum góðum málum. En ef þetta er yfirlýsing af hálfu ríkisstjórnarflokkanna um að nú skuli sá friður rofinn getum við alveg talað þannig saman ef menn vilja það, en það er þá undir forustu stjórnarflokkanna sem eru leiddir hér af Álfheiði Ingadóttur.



[10:54]
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Ég vek athygli virðulegs forseta sem stjórnar fundum Alþingis á því að hv. þm. Árni Þór Sigurðsson lýsti því hvað til stæði að gera, hér væri verið að leggja fram þessa dagskrá eins og hún lítur út til að sýna þjóðinni, eins og hv. þingmaður orðar það, að verið væri að stöðva mál með málþófi. Með öðrum orðum á að setja á svið eitthvert leikrit til að halda því svo fram að verið sé að stöðva hin ýmsu góðu mál sem ríkisstjórninni hefur ekki tekist að klára, „góðu málin“, með málþófi.

Gallinn við þessa hugmynd er bara sá að tíminn er útrunninn. Það er ekki einu sinni tími fyrir málþóf svoleiðis að sú leið að reyna að setja á svið málþófsleikrit hér gengur ekki upp. Það er bara ekki tími fyrir slíkt leikrit svo ég hvet virðulegan forseta til að leiðréttar þessar fullyrðingar hv. þm. Árna Þórs Sigurðssonar, enda er dagskráin lögð fram með fulltingi forseta þingsins. (Forseti hringir.) Ég treysti því að virðulegur forseti leiðrétti þessa kenningu um að hér eigi að setja þessi mál á dagskrá eingöngu til að sýna fram á eitthvert ímyndað málþóf (Forseti hringir.) sem er ekki tími fyrir.



[10:56]
utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Ég tek undir með hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, ekki hefur nokkrum manni komið til hugar að hann eða stjórnarandstaðan hafi staðið í nokkru málþófi hér síðustu mánuði. [Hlátur í þingsal.] Allra síst hefur þjóðinni komið það til hugar svo það sé bara sagt.

Ég lýsi hins vegar mikilli ánægju með það hvernig hæstv. forseti keyrir þetta mál áfram. Auðvitað get ég líka tekið undir óánægju hv. þm. Gunnars Braga Sveinssonar, að hér skuli ekki vera undir mikilvæg mál eins og verðtryggingarmál Framsóknarflokksins. Bíddu, frú forseti, áttu þau nokkuð að vera hér? Áttu þau ekki að vera í einhverri nefnd? En hvernig var það, var það ekki hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson sem sagði hér í fyrri viku að það væri allt í plati og var eiginlega búinn að draga það til baka? Mér heyrðist það. Í öllu falli heyrist mér sem stjórnarandstaðan vilji fá að vera hér svolítið lengur. Hún er búin að biðja um tvöfalda umræðu í stjórnarskrármálinu. Hún er búin að biðja um langa umræðu um hagvöxt á Íslandi. Hún er búin að biðja um sérstaka umræðu um lögreglumálin — og hvað er að því að vera (Forseti hringir.) hér langt inn í apríl? Ég held að við eigum bara að gera það og þá getur Framsóknarflokkurinn haldið áfram í friði að tæta fylgið af Sjálfstæðisflokknum. Ég gleðst yfir því.



[10:57]
innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég ætlaði einmitt að tala um fundarstjórn hæstv. forseta og verkstjórn forsetans í þinginu sem ég tel mjög góða og til mikillar fyrirmyndar mitt í allri þessari miklu jákvæðni, eða hitt þó heldur.

Ég velti fyrir mér hverjum það eiginlega þjónar að tala Alþingi niður með þeim hætti sem hér er gert dag eftir dag. Menn virðast gleyma því að við höfum á þessu ári og undanförnum árum komið miklum þjóðþrifamálum í lög. Stundum höfum við gert það í ágreiningi, stundum í fullri samstöðu. Þetta er einkennandi fyrir störf Alþingis og við skulum ekki gleyma því.

Hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir harmar það að við getum ekki rætt lögregluskýrslu. Ég tek undir það. En það eru vísbendingar í þeirri skýrslu sem vísa inn í næsta fjárlagaár þannig að okkur mun gefast tími til að ræða hana. Hinu vil ég mótmæla, því að tala niður (Forseti hringir.) Happdrættisstofu og því að það mál sé yfirleitt á dagskrá. Á Íslandi búum við við verstu löggjöf á Norðurlöndum í happdrættismálum, og (Forseti hringir.) þótt víðar væri leitað, og hér er verið að reyna að finna farveg til að koma þessum málum í skaplegra horf og beina fjármunum til þeirra sem hafa ánetjast spilafíkninni. (Gripið fram í: … fíkn …) Þetta er ábyrgt mál og óábyrg frammíköll hv. þm. Birgittu Jónsdóttur (Gripið fram í.) sem hefur ekki kynnt sér málið breyta engu um það. (BirgJ: Jú, ég hef kynnt mér það en ráðherra er greinilega á villigötum.)

(Forseti (ÁRJ): Forseti biður þingmenn um að virða tímamörk og gefa ræðumönnum hljóð til að flytja mál sitt (Gripið fram í.) í ræðustóli. Gefa hljóð í þingsalnum. )



[10:59]
Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Ég get tekið undir það að yfirleitt er fundarstjórn forseta nokkuð óaðfinnanleg. Ég ætla þó að gera athugasemdir við þá dagskrá sem hér liggur fyrir upp á 41 mál. Það hefur líka verið rætt um að hér eigi að koma á dagskrá þingmannamál sem ekki hafa sést og ríkisstjórnin hefur lagt fram allt að tíu fyrstuumræðumál sem hún segist líka vilja leggja áherslu á að koma hérna í gegn.

Frú forseti. Umræðan núna um fundarstjórn forseta er lýsing á þeirri umræðu sem verður út alla þessa viku. Starfsáætluninni er lokið. Við hvaða veruleikafirringu búa þingmenn og hæstv. ráðherrar þegar þeir koma hér með útúrsnúninga og spuna um kosningastefnuskrár flokka? Á þetta að fara að snúast um það? Ætlum við ekki að reyna að klára eitthvað af einhverjum skynsamlegum málum? Hér er ekkert mál um skuldamál heimilanna, ekki neitt. (Utanrrh.: Ég setti …) Það eru tvö mál um atvinnumál og þau eru mjög aftarlega á dagskránni. Þetta er til háborinnar skammar (Forseti hringir.) og það gengur ekki að við komum hingað upp og látum eins og ég veit ekki hvað í ræðustól (Forseti hringir.) í staðinn fyrir að setjast yfir þau mál sem skynsamlegust eru, klára þau og hætta svona kjánagangi. [Kliður í þingsal.]



[11:00]
Forseti (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Forseti biður um ró í salnum.



[11:00]
Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég ætla að ræða fundarstjórn forseta, ég hef ekki gert það áður. Ég spyr: Af hverju ná menn ekki samkomulagi um þau mál sem menn ætla að ná fram (ÁI: Spurðu þingflokksformanninn.) fyrir lok kjörtímabils?

Ég tek undir með hv. þm. Unni Brá Konráðsdóttur um gott samkomulag. Til dæmis er samkomulag um fjögur síðustu málin á dagskrá þingsins í dag, úr efnahags- og viðskiptanefnd, sem allir þingmenn í þeirri nefnd standa að. Það er heilmikið gott samkomulag í nefndum og ég skil ekki af hverju menn geta ekki náð samkomulagi við þingflokksformenn sem mér skilst að sé ekki einu sinni rætt við. Ég skora á frú forseta að ræða við þingflokksformenn fyrr en seinna um það hvaða mál eigi að taka fyrir. Ég sé til dæmis á dagskránni fyrir daginn í dag að það vantar frumvarpið um kvótann og fleiri mál sem ríkisstjórnin hefur verið áfram um. Ég held að menn þurfi að fara að taka á þessu og komast (Forseti hringir.) að samkomulagi.



[11:02]
Þór Saari (Hr):

Frú forseti. Ég kem upp aftur til að lýsa furðu minni á þessum þingfundi og þeirri dagskrá sem liggur fyrir. Mér virðist í gangi einhver veruleikafirring um störf þingsins og afgreiðslu þingmála almennt. Það er algjörum tilviljunum háð hvaða frumvörp verða að lögum á Íslandi. Starfsemi þingsins gengur fyrir sig eins og einhvers konar vitlausraspítali þar sem hver höndin er upp á móti annarri árum saman. Það er reynt að keyra mál í gegn með ofbeldi og önnur mál eru tekin á dagskrá á fölskum forsendum. Hvað á að segja um Alþingi sem starfar á þeim nótum?

Því var lýst yfir vikum saman að ekki væri tími til að afgreiða stjórnarskrármálið vegna þess að starfsáætlun þingsins dygði ekki til. Svo er verið að ræða hér einhver allt önnur mál langt inn í framtíðina. Þing sem starfar á þessum nótum er ekki túskildings virði.

Eftir þessi ár mín (Forseti hringir.) á Alþingi Íslendinga virðist mér sem hefðbundnir þingflokkar og þingmenn valdi einfaldlega (Forseti hringir.) ekki lýðræðinu. Þeir vita ekkert til hvers þeir eru hérna inni.



[11:03]
Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Það dylst engum að forseti Alþingis hefur dagskrárvaldið. Það er hvorki hjá ríkisstjórn né einstaka þingmönnum. Það er forseti þingsins sem hefur dagskrárvaldið. Það er ákvörðun forseta þingsins að hafa þetta 41 mál á dagskrá í dag. Ég set einfaldlega út á það vegna þess að það er borðleggjandi að sú dagskrá gengur ekki eftir.

Þetta sýnir okkur betur en margt annað í hvaða ógöngur Alþingi Íslendinga er komið á lokadögum þessa kjörtímabils. Það er dapurlegt að okkur skuli ekki takast betur á þessum síðustu dögum að ljúka þessu kjörtímabili en raun ber vitni, og eilíft karp og tog um það hver segir hvað um hvað mun ekki leysa neitt. Það er ljóst að þessi 40 mál munu aldrei fara öll í gegn. Það vita allir í þessum sal.

Setjist nú niður, þið sem ráðið, farið yfir málið og klárið þetta. Hættið köpuryrðum gagnvart fólki í flokkum um að það (Forseti hringir.) lúti einhverjum stjórnum úti í bæ. Hv. þingmaður, hæstv. forseti, Álfheiður Ingadóttir, það er þér til skammar.



[11:04]
Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að taka undir með hæstv. innanríkisráðherra um það hversu ósæmilegt það er að þingmenn hér í þessum sal séu sýknt og heilagt að tala Alþingi niður. Við eigum að leggjast saman á árarnar um að auka virðingu og vegsemd þessarar mikilvægu stofnunar.

Ég las það í blöðunum um helgina að hæstv. forseti ætlaði ekki endilega að boða til þingfundar í dag nema að búið væri að koma á viðræðum og samtali milli flokkanna og farið væri að nálgast samkomulagsátt um þinglokin. Það þótti mér afar skynsamlegt, hæstv. forseti. Ég held að ef það hefði verið gert værum við einhverju nær um það hvernig við ætluðum að ljúka þingstörfunum.

Það hryggir mig að sjá þá umræðu sem hér fer fram vegna þess að hún gerir ekkert til þess að leysa þetta mál. Við erum komin þrjá daga fram yfir starfsáætlun, við erum hvergi nálægt því að vita hvaða mál eigi að klára og hvaða mál eigi ekki að klára. Ríkisstjórnin hefur (Forseti hringir.) ekkert plan. Hún er búin að gefast upp á verkefninu og það er kominn tími til að hún viðurkenni það, setjist niður með stjórnarandstöðunni og klári að fara yfir þau mál sem við getum náð (Forseti hringir.) samkomulagi um og klárað í friði og spekt (Gripið fram í.) á þessu þingi.



[11:06]
Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég held að það sé einsýnt í ljósi þeirrar hörðu umræðu og að mörgu leyti ómálefnalegu athugasemda sem þingflokksformaður Vinstri grænna hefur látið falla að það sé ekkert annað að gera en að fresta þessum fundi, halda fund með þingflokksformönnum og athuga hvort vinstri grænir geti hugsað sér að sýna samstarfsfélögunum í þinginu aðeins meiri virðingu og tala ekki með þeim hætti sem hér birtist. Það er ekki líklegt til árangurs. Ég hvet aðra hv. þingmenn Vinstri grænna til að reyna að ná einhverjum sönsum inn í þessa umræðu í þeim þingflokki.



[11:07]
Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Við erum í hefðbundinni stöðu að vori. Svona verður staðan þangað til búið verður að breyta þingsköpum þannig að við getum ekki rætt neitt mál hér út í hið óendanlega. Svona verður staðan þangað til við tökum upp bætt vinnubrögð varðandi samstarf milli flokka almennt, milli stjórnar og stjórnarandstöðu, og tökum mið af því sem menn gera annars staðar á Norðurlöndunum. Þangað til verður staðan sú sem við erum í, því miður.

Ég er komin hingað upp til að taka undir orð hæstv. innanríkisráðherra Ögmundar Jónassonar um að það væri mjög æskilegt að ræða hina nýju skýrslu sem komin er fram um stöðu lögreglunnar. Þessi skýrsla var unnin vegna þingsályktunartillögu sem hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson flutti. Að mínu mati er ekki nóg að ræða hana á næsta kjörtímabili af því að það kemur fram í inngangsorðum skýrslunnar að allir stjórnmálaflokkar hafi átt fulltrúa í þessari nefnd og rætt við embættismenn um þetta mál og telji að við gerð næsta stjórnarsáttmála næstu ríkisstjórnar (Forseti hringir.) eigi að taka mið af þessari skýrslu. Það er því gríðarlega æskilegt að ræða hana strax á þessu þingi, taka stuttan tíma í það en taka umræðuna.



[11:08]
Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf):

Virðulegur forseti. Það er á svona stundum sem manni finnst það sérstök refsing að sitja á Alþingi. (IllG: Því léttir bráðum.) Væntanlega léttir þeirri refsingu brátt, það er rétt hjá hv. þm. Illuga Gunnarssyni. Auðvitað eiga menn í pólitík að gera gagn. Við sem hér sitjum inni eigum að reyna að bæta samfélagið. Þá er með ólíkindum að fjöldi mála sem liggur fyrir, sem mikil og góð sátt er um, komist ekki á dagskrá til að fá lýðræðislega niðurstöðu. Hér inni eigum við að virða lýðræðið, augljósan vilja. Hann er augljós í hverju málinu af öðru, en þeim málum er ekki hleypt að.

Úti á hinum almenna vinnumarkaði, hvar ég starfaði í aldarfjórðung áður en ég kom á þing, vinna menn af viti, tala saman og komast að niðurstöðu. Hvernig væri að Alþingi tæki upp álíka vinnubrögð og þrífast úti í hinu almenna venjulega samfélagi?



[11:10]
Ólína Þorvarðardóttir (Sf):

Frú forseti. Það er alltaf jafnsorgleg stund þegar líður að þinglokum. Við höfum upplifað þetta áður þegar stjórnarandstaðan byrjar að beita áhrifum sínum og yfirgangi, (Gripið fram í: Já.) þæfa mál með málþófi og koma í veg fyrir að þingræðið fái að hafa sinn gang í þessum sal. Hvar er planið? spyrja sjálfstæðismenn. Planið liggur í formi dagskrár á borðum þingmanna. Þar eru 41 mál sem við ætluðum að klára hér, (Gripið fram í.) 41 mál sem eru í forgangi, dagskrá liggur á borðum þingmanna og menn sjá hvað það er sem við þurfum að klára.

Sú krafa að það sé samið við stjórnarandstöðuna og henni fært dagskrárvaldið er í fullkomnu ósamræmi við heilbrigð og eðlileg vinnubrögð. Ég segi bara: Í guðanna bænum, hættið þessu þjarki og þrefi og tafapólitík frammi fyrir alþjóð og hættið að vera eins og ódæll (Forseti hringir.) skólabekkur. Göngum til dagskrár og förum að vinna. Þetta er ekki flóknara en það.



[11:11]
Illugi Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Það er margt búið að segja hér sem jafnvel kallar á lengingu þessarar umræðu en satt best að segja nenni ég því ekki.

En af því að hér hefur verið sagt að ekkert sé gert og stjórnarandstaðan standi gegn öllu skulum við bara líta á síðustu daga í þinginu. Þá var hér gerð að lögum veiting ríkisborgararéttar, þingsályktun samþykkt um Norðurlandasamning um almannatryggingar, síðan lög um Ábyrgðasjóð launa, breytingar á sveitarstjórnarlögunum voru samþykktar, vörugjöld og tollalög, leiðréttingalög. Það voru samþykkt önnur lög um tolla.

Þetta hefur allt gerst hér á síðustu dögum. Lög um ívilnanir vegna nýfjárfestinga á Íslandi voru samþykkt, heildarlög um Ríkisútvarpið, gengið frá virðisaukaskatti vegna breytinga um gagnaver og eins var reyndar mjög ánægjulegt að samþykkja þingsályktunartillögu vegna 100 ára afmælis kosningarréttar íslenskra kvenna. Þetta gerðist í þinginu á miðvikudag og föstudag, þetta eru mál sem við gengum frá í góðri sátt.

Ég ætla að biðja um það, virðulegi forseti, að menn reyni í það minnsta að halda sig (Forseti hringir.) við raunveruleikann. Þetta er það sem við höfum verið að gera og það er vel hægt að ná góðum árangri í að koma málum í gegn. En það er augljóst að miklu fleiri mál eru á dagskrá en komast í gegn. Eigum við ekki að reyna að einbeita okkur að þeim málum sem hægt er að ná samstöðu um og eru mikilvæg og vera ekki að þrefa um mál sem við vitum öll að er ekki hægt (Forseti hringir.) að klára? Er það ekki skynsamlegra verklag?



[11:12]
Ólöf Nordal (S):

Virðulegi forseti. Ég hef hlustað hér á kennslustund meiri hlutans um hvernig lýðræðið fari fram, að meiri hlutinn skuli ráða og mál þurfi að komast til atkvæða. Það liggur við að það skipti meira máli að þau komist til atkvæða strax án þess að þau séu rædd. Á dagskrá þingsins í dag er frumvarp til stjórnarskipunarlaga og við það alls konar breytingartillögur. Ein felur til dæmis í sér heilt stjórnarskipunarfrumvarp. Eflaust þarf ekkert að ræða þetta, sennilega þarf þetta bara að komast til atkvæða. Meiri hlutinn þarf að fá sitt fram. Eins og hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir sagði er augljóst að við í minni hlutanum hljótum að virða meiri hlutann. En, fyrirgefðu, virðulegi forseti, er meirihlutastjórn í þessu landi? Það er öllum á Íslandi alveg ljóst að hér er minnihlutastjórn sem að sjálfsögðu þarf að sýna þeim sem eru í minni hluta lágmarkskurteisi. En það fólk sem hér situr og kemur með gífuryrði í pontu hefur enga slíka kurteisi til að bera.



[11:14]
Björn Valur Gíslason (Vg):

Virðulegur forseti. Ef einhver velkist í vafa um það hvort hér sé meirihlutastjórn eða ekki má minna á að þessi ríkisstjórn hefur staðið af sér tvær vantrauststillögur á þessu kjörtímabili, kannski meira að segja tvær og hálfa. Geri aðrir betur. Það er rétt um vika síðan þingið lýsti yfir trausti á ríkisstjórnina í þessum þingsal.

Virðulegur forseti. Ég velti fyrir mér hvers vegna í ósköpunum ekki sé hægt að ganga til dagskrár, hvers vegna stjórnarandstaðan vill ekki saxa á þennan lista. Gegn hvaða máli ætlar hún að berjast? Hvað á þessum lista stendur svona í stjórnarandstöðunni? Eru það opinberir háskólar? Ætlar stjórnarandstaðan að stoppa það mál? Er henni illa við að hafa það á dagskránni? Eru það almenn hegningarlög? Eru það niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar? Er það stjórn fiskveiða? Er það bygging nýs Landspítala?

Hvað af þessari dagskrá er þess eðlis að stjórnarandstaðan treystir sér ekki til að ganga til verka?

Ég vek athygli á því að þrátt fyrir þau 40 mál sem eru á dagskránni í dag (Forseti hringir.) í þinginu hefur stjórnarandstaðan lagt til þrjú ný mál til umfjöllunar, þ.e. skýrslu um stöðu (Forseti hringir.) lögreglumála í landinu, umræðu um hagtölur síðasta árs og ný þingsköp. Ég held að við ættum að fara að ganga til þessara verka og sjá hvaða mál stjórnarandstaðan ætlar að stoppa. Hvað af dagskránni vill stjórnarandstaðan að ekki verði (Forseti hringir.) rætt hér í dag?



[11:15]
Forseti (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Áður en forseti hefur atkvæðagreiðslur vill hann geta þess að starfsáætlun er lokið. Það ætti öllum að vera ljóst. Hér verða fundir þingflokka í hádegishléi eða kvöldverðarhléi og forseti mun gera hlé á fundum meðan þeir fundir standa yfir. Engin starfsáætlun kveður á um neina slíka fundi lengur og forseti mun biðja þingflokksformenn og formenn flokka að vera viðbúnir því að forseti kalli þá til fundar síðar í dag til að reyna að ræða lok þessa þinghalds.