141. löggjafarþing — 108. fundur
 21. mars 2013.
Þjóðminjasafn Íslands, frh. 2. umræðu.
stjfrv., 583. mál (samstarf við Háskóla Íslands). — Þskj. 996, nál. m. brtt. 1275.

ATKVÆÐAGREIÐSLA

[11:26]

[11:24]
Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Með þessum breytingum verður rannsóknarhlutverk Þjóðminjasafnsins styrkt og það tilgreint sem háskólastofnun, sérstakar rannsóknarstöður við safnið lögfestar og akademískir starfsmenn þess tengdir með beinum hætti við rannsóknir og kennslu Háskóla Íslands.

Við umfjöllun nefndarinnar vöknuðu að sjálfsögðu spurningar um þýðingu þess að Þjóðminjasafnið verði skilgreint sem háskólastofnun og í minnisblaði sem menntamálaráðuneytið tók saman kemur fram að hugtakið háskólastofnun sé lögverndað heiti fyrir sjálfstæða menntastofnun en með þessu sé fyrst og fremst verið að tryggja það að Þjóðminjasafn Íslands fái sambærilega stöðu gagnvart Háskóla Íslands og Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, þ.e. að sú rannsóknarstarfsemi sem stunduð er hjá Þjóðminjasafninu nýtist beint í samstarfi við Háskóla Íslands og aðra viðurkennda háskóla til eflingar á þekkingu innan fræðasamfélagsins.

Um þessar breytingar náðist góð samstaða í nefndinni og undir nefndarálitið rita fulltrúar allra flokka sem voru viðstaddir úttekt málsins.



[11:25]
Siv Friðleifsdóttir (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Ég styð þetta mál. Ég var ekki á nefndarfundinum þegar það var tekið út og vil að það komi hér sérstaklega fram að um það náðist góð samstaða í nefndinni. Það bar hins vegar þannig að að þegar það kom inn var svolítil pressa að skoða hvort hægt væri að klára það í tilefni af afmæli Þjóðminjasafnsins. Við gáfum okkur samt sæmilegan tíma þannig að við gátum farið yfir málið og ég tel að með því að gera Þjóðminjasafnið að háskólastofnun muni það efla rannsóknarstarf, bæði innan Þjóðminjasafnsins og háskólans, á þeim fræðasviðum sem þar er helst til að taka, og efla háskólann almennt. Ég tel að þetta sé gott mál og eftir skoðun í nefndinni styð ég það og tel þetta framfaramál.



 1. gr. samþ. með 39 shlj. atkv.

 2.–3. gr. samþ. með 38 shlj. atkv.

Brtt. í nál. 1275 (ný 4. gr.) samþ. með 39 shlj. atkv.

Fyrirsögn samþ. án atkvgr.

Frumvarpið gengur til 3. umr.