141. löggjafarþing — 109. fundur
 22. mars 2013.
um fundarstjórn.

umræða um dagskrármál og störf þingsins.

[11:09]
Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég vildi nota þetta tækifæri við upphaf dagskrár að vekja athygli hæstv. forseta á því að í umræðunum áðan kom fram mikill áhugi hjá þingmönnum á því að ræða mál nr. 19 og 20 á dagskránni í dag, varðandi kísilver í landi Bakka og uppbyggingu innviða vegna atvinnustarfsemi í landi Bakka. Þetta eru mál sem atvinnuveganefnd hefur lokið og eftir því sem ég best veit var allgóð samstaða um þessi mál þar. Það er hins vegar ljóst að í þingsalnum eru mjög skiptar skoðanir um þau. Þetta tengist auðvitað máli sem hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson og fleiri hafa vakið máls á varðandi ívilnanir vegna Helguvíkur og ég held að þarna sé um að ræða mál sem áríðandi er að þingið taki afstöðu til, áríðandi er að fá fram þingviljann.

Eins og hæstv. forseti veit fagna ég hverju tækifæri sem ég fæ til að tala um málefni stjórnarskrárinnar. En ég held hins vegar að brýnna sé að fá fram afstöðu þingsins til þessarar mikilvægu atvinnuuppbyggingar, bæði norður í Þingeyjarsýslu og eins suður með sjó. Ég mæli þess vegna með því að þessi mál verði flutt framar í dagskrána þannig að þingmönnum gefist kostur á að reifa ólíkar skoðanir um þessi efni.



[11:10]
Forseti (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Forseti vill geta þess, eins og fram hefur komið, að hann hyggst reyna til þrautar að ná samkomulagi um að ná sátt um þinglokin og mun ræða það við þingflokksformenn síðar í dag hvort menn séu tilbúnir að ræða önnur mál á dagskránni og leiða þau til lykta, en það verður þá að vera í samkomulagi. Forseti mun ræða við þingflokksformenn hvern og einn eða kalla til fundar um það hvort samkomulag geti náðst um að ræða önnur mál á dagskránni til lykta.



[11:11]
Illugi Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil gera að umtalsefni fundarstjórn forseta þegar við ræddum um störf þingsins áðan. Það er hefð fyrir því að þingmenn geti spurt hver annan, beint fyrirspurn til annarra þingmanna og tryggt að viðkomandi þingmaður viti af því og geti brugðist við með viðeigandi hætti og það sé pláss fyrir viðkomandi hv. þingmann á mælendaskrá.

Nú bar svo við að hér var umræða um afstöðu eins af hv. þingmönnum Framsóknarflokksins varðandi þróunarhjálp okkar Íslendinga. Ég hefði talið eðlilegra að fyrirspurninni hefði verið beint til þess þingmanns sem um var rætt þannig að þeim þingmanni hefði verið gefið tækifæri til að svara fyrir sig og sína stefnu og þær ástæður sem lágu að baki því að hann tók þá afstöðu sem hann gerði í þingsalnum. (Forseti hringir.) Mér er ekki kunnugt um að fylgt hafi atkvæðaskýring þegar þingmaðurinn greiddi atkvæði í þinginu (Forseti hringir.) þannig að við hæfi hefði verið að leyfa þingmanninum sjálfum að svara en ekki beina fyrirspurninni til hv. þm. Björns Vals Gíslasonar (Forseti hringir.) sem ekkert hafði um það mál að segja.



[11:12]
Forseti (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Þetta varðaði ekkert fundarstjórn forseta en voru skilaboð til þeirra þingmanna sem taka til máls og beina fyrirspurnum eða máli sínu til annarra þingmanna undir þessum lið. Forseti vonast til að þingmenn taki þetta til sín.



[11:12]
Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Það eru tvö mál sem mig langar til að gera athugasemd við, en þó vil ég segja að hæstv. forseti Alþingis hefur staðið sig ágætlega að undanförnu. Það er í fyrsta lagi ótrúlegt að mál er snertir kísilver á landi Bakka skuli ekki vera tekið fram fyrir og rætt. Þetta er kannski eina málið sem getur eflt hagvöxtinn í landinu og við höfum séð að undanförnu á þeim tölum sem hafa birst að hann er töluvert minni en gert var ráð fyrir. Þetta er gríðarlega mikilvægt mál fyrir Norðausturkjördæmi og er ágætissamstaða um það meðal þeirra þingmanna sem þar eru. Ég vil líka gagnrýna þau sjónarmið sem hafa komið fram um að þetta séu einhvers konar óeðlilegar ívilnanir en svo er ekki.

(Forseti hringir.) Ég vil taka undir með hv. þm. Illuga Gunnarssyni. Hæstv. forseti á að beina þeim fyrirspurnum sem hér koma að þeim þingmönnum (Forseti hringir.) sem málið snýst um en ekki að einhverjum óviðkomandi úti í sal.



[11:14]
Forseti (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Forseti vill biðja þingmenn um að kynna sér þær reglur sem gilda um störf þingsins. Þingmönnum er heimilt að beina orðum sínum til annarra þingmanna og geta þess þá í leiðinni. (Gripið fram í.) Þegar þeir biðja um orðið tekur forseti undir það, vissulega, að þeir ræði um málefni þess þingmanns sem þeir beina orði sínu að en ræði ekki um aðra þingmenn sem ekki hafa tök á að svara fyrir sig.



[11:14]
Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Ég hafði satt að segja alls ekki hugsað mér að tala um fundarstjórn forseta þangað til ég hlustaði á ræðurnar sem fóru fram í morgun. Ég hef miklar áhyggjur af fundarstjórn forseta sem lýtur að röðun mála á dagskránni. Það er ekki hægt að túlka niðurstöðu umræðunnar í morgun öðruvísi en svo að mikil óvissa sé núna um það mál sem lýtur að uppbyggingunni á Bakka.

Ég hafði talið fyrir fram að mikill og ríkur þingvilji væri fyrir því að afgreiða þetta mál. En nú komu stjórnarliðarnir upp hverjir á fætur öðrum og töluðu mjög gegn því að beitt yrði nokkurs konar ívilnunum vegna uppbyggingar af þessu taginu, til dæmis hv. þm. Björn Valur Gíslason sem skrifar m.a. undir nefndarálit meiri hluta atvinnuveganefndar í þessum efnum. Hann talaði þannig að ég er farinn að hafa dálitlar áhyggjur af því hvort málið muni ná fram að ganga.

Það skiptir mjög miklu máli að eyða þessari óvissu. Við vitum að það hefur áður gerst vegna pólitískrar óvissu að fyrirtæki hafi hrokkið undan, horfið frá því að fara í fjárfestingar. Þess vegna þurfum við að eyða óvissunni, (Forseti hringir.) bæði vegna þessa verkefnis sérstaklega og vegna hagsmunanna í Þingeyjarsýslu og ég hvet mjög til þess að við reynum (Forseti hringir.) að gera það með því að taka þetta mál á dagskrá.



[11:16]
Skúli Helgason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil koma hingað upp og lýsa yfir fullum stuðningi við forseta í þeirri forgangsröðun sem kemur fram í dagskrá þingsins í dag og reyndar síðustu daga. Það er alveg morgunljóst að við þurfum bara að klára eitt mál í þinginu áður en við förum heim fyrir kosningar. Það er að virða þann þjóðarvilja sem kom fram í þjóðaratkvæðagreiðslunni 20. október og tryggja framgang stjórnarskrármálsins yfir á næsta þing og að sjálfsögðu að samþykkja auðlindaákvæðið sem allir stjórnmálaflokkar á Alþingi hafa ítrekað lýst yfir vilja til að samþykkja á síðustu vikum og síðustu mánuðum, allir flokkar, landsfundir Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks svo ekki sé talað um okkur í stjórnarmeirihlutanum. Það er stórmálið sem við verðum að klára og okkur er ekkert að vanbúnaði. Við erum með auðlindaákvæði sem hefur verið 13 ár í mótun. Það er hápunkturinn á þróun sem hefur staðið allar götur frá árinu 2000 og kemur til móts við meginatriði í þeim ályktunum sem hafa komið fram frá öllum flokkum.



[11:17]
Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil koma hingað upp og lýsa yfir stuðningi við fundarstjórn forseta sem hefur yfirleitt verið án nokkurra athugasemda. Það er þó tvennt sem ég vil gera athugasemdir við eftir umræðuna í dag og annað lýtur að því sem hv. þm. Illugi Gunnarsson kom inn á. Þegar þingmenn beina fyrirspurnum um aðra þingmenn til þingmanna í allt öðrum flokkum tel ég að við séum komin á hálan ís og ég tel að það þurfi að ræða í forsætisnefnd. Ég mun óska eftir því og geri það hér með.

Varðandi þá umræðu sem hefur orðið um atvinnumál og mál nr. 19 og 20 á dagskránni sem varða Bakka tek ég undir að mikilvægt er að koma þeim á dagskrá. Varðandi þau ummæli sem hv. þm. Björn Valur Gíslason kom með held ég að mikilvægt sé að þau mál komist á dagskrá ef það þarf að ræða þau svona mikið. Í hinum vestræna heimi, og reyndar um allan heim, er það stórt vandamál að Starbucks og IKEA og önnur stórfyrirtæki heimsins komist undan skattgreiðslum. Það er vandamál sem hefur ekki verið tekið á í íslenskri stjórnsýslu, ekki síðastliðin fjögur ár heldur, og það getur verið gott tækifæri til að taka þá umræðu hér.



[11:18]
Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Frú forseti. Hvað varðar umræðu um fundarstjórn forseta út af fyrirspurn minni til hv. þm. Björns Vals Gíslasonar um hvert væri viðhorf hans og flokks hans til þess hvort við Íslendingar ættum að ná settum markmiðum í framlögum til þróunaraðstoðar, er meistaraleg útúrsnúningsumræða í gangi. Tilefnið var atkvæðagreiðsla í gær þar sem kom fram sjónarmið þingmanns um það sem sætti miklum tíðindum. Þingmaðurinn útskýrði sitt sjónarmið alveg prýðilega í kvöldfréttum í gær, allt í góðu. Ég vildi spyrja hv. þingmann og varaformann annars flokks um sjónarmið þess flokks.

Svíður sjálfstæðismönnunum í salnum að ég spyrji þingmenn Vinstri grænna um stefnu þeirra í þróunarmálum að gefnu tilefni? Ég var ekki að gera lítið úr sjónarmiðum þingmannsins. Hann var alveg afdráttarlaus í þeim og greiddi atkvæði á móti. Mér hefði þótt fínt að geta einnig tekið umræðu við hv. þingmann, það var alveg sjálfsagt mál, en það sjónarmið kom vel fram í gær og allt í góðu með það. Ég er í fullum rétti hér, þrátt fyrir andúð Sjálfstæðisflokksins á því, (Forseti hringir.) að spyrja þingmenn annarra flokka um stefnu þeirra flokka í þróunarmálum þótt það sé viðkvæmt mál fyrir suma í salnum að ræða þróunarsamvinnustefnu.



[11:20]
Björn Valur Gíslason (Vg):

Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að gera athugasemd við fundarstjórn forseta en skil ég rétt að verið sé að gera athugasemd við fundarstjórn forseta í þá veru að þingmaður á Alþingi Íslendinga hafi spurt mig spurninga í stað þess að spyrja einhvern annan? Mér finnst það satt best að segja ótrúleg athugasemd. Ef hún kemur frá stjórnarandstöðuflokkunum tveimur saman, Framsóknarflokki og Sjálfstæðisflokki, því nýja bandalagi, silfurskeiðabandalaginu sem hefur verið myndað á Alþingi í undirbúningi fyrir kosningar, tek ég í kjölfarið á því undir það með hv. þm. varaformanni Framsóknarflokksins að ræða eigi sérstaklega hvort yfirleitt sé heimilt að spyrja spurninga, hvort eigi að taka fyrir sérstaklega til hverra spurninga er beint, hvor eigi að taka fyrir hvernig svörin verða eða hvort á að heimila umræður (Forseti hringir.) um störf þingsins almennt.

Ég er ekki að gera athugasemdir við fundarstjórn forseta. Mér finnst hún ágæt og legg til að dagskránni verði haldið áfram eins og hún liggur fyrir hér.



[11:21]
Forseti (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Forseti vill minna á að það er málfrelsi í ræðustóli Alþingis, gæti menn hófs.



[11:21]
Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég tek eindregið undir með hæstv. forseta. Það er málfrelsi á Alþingi og þingmenn velja sér umfjöllunarefni og viðmælendur að vild sinni, enda gæti þeir virðingar þingsins í orðum sínum. Þyki einhverjum að sér vegið hefur hann auðvitað fulla heimild til að taka til máls og bera af sér sakir og eru mörg dæmi þess að menn hafi nýtt þann sjálfsagða rétt.

Það var auðvitað ekki bara einn þingmaður sem var á móti málinu í gær. Það var líka annar þingmaður sem samþykkti það með alveg sérstökum fyrirvara og það er kannski eitt af tilefnunum til að vera í þessari umræðu.

Ég vil hins vegar taka undir með þeim sem vilja hvetja til þess að dagskrárliðir nr. 19 og 20, um Bakka, verði teknir á dagskrá. Þess vegna er auðvitað mikilvægt að við göngum strax til atkvæða um stjórnarskrármálið og auðlindaákvæðin sem eru algerlega fullrædd, þannig að við getum haldið áfram niður eftir dagskránni, eytt þessari óvissu í eitt skipti fyrir öll og lokið þessu þingi með sæmilegum sóma fyrir alla þá stjórnmálaflokka sem eru hér inni, hafa rætt auðlindaákvæðið samfleytt í 13 ár og eiga ekki eftir að bæta neinu orði í þá umræðu.



[11:22]
Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Það er auðvitað svolítið sérkennilegt að Íslandsmeistarar í málþófi og uppgötvunarmenn sýndarandsvarsins skuli gera athugasemd við að aðrir fari eftir þingsköpum. Ég kom aðallega hingað upp til að hrósa forseta fyrir fundarstjórn sína og niðurröðun á dagskrá. Það mikilvægasta á dagskránni, ég tek undir það með hv. þm. Skúla Helgasyni, er liður nr. 2, þ.e. stjórnarskráin og auðlindaákvæðið. Ég sé ekki betur. Ég bíð eftir því að Framsóknarflokkurinn gangi í lið með okkur hinum í því efni að klára það mál og koma hér reistu höfði til þjóðarinnar fyrir kosningar.

Um Bakka er það að segja að ég er reiðubúinn að tala um Bakka og tala mikið um Bakka. Ég vil líka segja að mér þætti einkennileg forgangsröðun að afgreiða frumvörpin um Bakka með einhverjum hætti án þess að klára viðamikið og merkilegt frumvarp um náttúruvernd og ég gæti ekki sætt mig við að það yrði gert.



[11:23]
Ólína Þorvarðardóttir (Sf):

Frú forseti. Það er athyglisvert að heyra þessar umkvartanir um fyrirspurnir þingmanna hver til annars, sérstaklega í ljósi þess að hv. þm. Vigdís Hauksdóttir hefur gengið manna lengst í því að ræða við aðra þingmenn í þessari pontu um aðra þingmenn, bæði fjarstadda og viðstadda. Á það ekki síst við um samræður manna hér um hæstv. forsætisráðherra, fleiri ráðherra og þingmenn stjórnarliðsins.

Ég tek undir það sem hefur komið fram að auðvitað er mjög mikilvægt að við göngum strax til umræðu um stjórnarskrána og við þurfum aðallega að afgreiða það mál fljótt og vel og helst í heild sinni. Hins vegar sáum við merki þess í umræðunum í gær að stjórnarskrármálið er komið í málþóf og það er mjög sorglegt.

Það sem ekki er nefnt upphátt hér, en mér finnst ástæða til að nefna í ljósi þess að taka á málið í málþófsgíslingu, er 71. gr. (Forseti hringir.) gildandi þingskapa sem mér finnst tímabært að forseti skoði af fullri alvöru.



[11:25]
Illugi Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Vegna þessarar umræðu um hver spyr hvern er það fyrirkomulag sem við höfum hér þannig að menn senda fyrir fram til þess þingmanns sem þeir ætla að eiga orðastað við hvert efnið er, hafa samband, senda tölvupóst eða hringja til að þeir viti um hvað er að ræða. Sú ræða sem hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson flutti sneri alfarið að, og var reyndar nokkuð harkaleg, afstöðu hv. þm. Vigdísar Hauksdóttur. Þannig var það og þeir sem hlýddu á heyrðu það.

Ég hefði talið alveg eðlilegt miðað við til hvers þessi liður er og hvernig hann er hugsaður að fyrirspurninni væri beint til þess þingmanns sem var til umræðu og öll ræðan sneri að. Það sem gerist er að hv. þingmaður beinir spurningunni til hv. þm. Björns Vals Gíslasonar sem hafði með engum hætti verið til umræðu í ræðu hv. þingmanns. Það er þess vegna sem ég geri athugasemdir við það. Þetta býður þeirri hættu heim að menn fari að nota það form til að ráðast (Forseti hringir.) á einstaka þingmenn og í staðinn fyrir að gefa þeim tækifæri til að svara snúi þeir sér til pólitískra samherja sinna (Forseti hringir.) og bjóði þeim að svara þeim árásum sem eru fluttar fram.



[11:26]
Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Ég hef setið í sex ár á Alþingi. Ég man ekki eftir því að tveir þingmenn úr sama liði hafi komið hingað undir þessum lið og rætt sérstaklega afstöðu einhvers annars þingmanns sem situr úti í sal. Ég vil bara spyrja stjórnarliða hvort þetta sé það sem koma skal í þessum þingsal. Er ekki fullkomlega eðlilegt að við spyrjum viðkomandi þingmann út í afstöðu hans ef við höfum eitthvað út á hann að setja? Ég held að mönnum finnist það fullkomlega eðlilegt.

Hér var öllu snúið á hvolf og talað um að þetta væri fullkomlega eðlilegt, einungis væri verið að spyrja út í afstöðu Vinstri grænna. Liggur hún ekki fyrir? Liggur ekki afstaða allra flokka fyrir, fyrir utan afstöðu eins þingmanns sem er bara að fylgja sannfæringu sinni? Ég held að það þurfi að taka upp í forsætisnefnd og ræða.



[11:28]
Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil lýsa yfir ánægju minni með fundarstjórn forseta og hvernig hæstv. forseti hefur tekið á málum, raðað upp dagskrá og eins boðað fundi með þingflokksformönnum til að ræða frekari þingstörf og hugsanlega sættir í málum. Ég er afskaplega ánægð með þá ætlan frú forseta.

Ég vil líka minna á orð hæstv. forseta áðan. Hún minnti á málfrelsi hv. þingmanna í þessari pontu og ég skora á þingmenn að hlusta aftur á fyrirspurn hv. þm. Björgvins G. Sigurðssonar þar sem hann spurði út í stefnu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og beindi auðvitað spurningum sínum til varaformanns þess flokks.



[11:29]
Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Það er reynt að gera mikið úr því af hálfu hv. stjórnarliða að verið sé að beita einhverju málþófi í stjórnarskrármálinu. Á sama tíma endurspeglast í umræðunni sú óeining sem er innan stjórnarliðsins um hvernig á að ljúka þessu þingi. Það þarf ekki annað en að vitna í orð Skúla Helgasonar sem talar um stjórnarskrármálið sem eina málið sem þurfi að ljúka á þinginu. Ólína Þorvarðardóttir talar um að ljúki þurfi stjórnarskránni með algerri breytingu, með því að ljúka málinu í heild. Hv. þm. Mörður Árnason talar um að málefnum Bakka verði ekki lokið nema náttúruverndarfrumvarpið fari í gegn og hv. þm. Björn Valur Gíslason og Álfheiður Ingadóttir töluðu gegn Bakka í morgun. Það var ekki hægt að skilja öðruvísi. Hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson og hæstv. ráðherra Katrín Júlíusdóttir tala um að verið sé að gera sambærilega samninga fyrir álverið í Helguvík á meðan hæstv. ráðherra Katrín Jakobsdóttir segir að málið sé ekki til umræðu.

Í því endurspeglast sú óeining sem er innan stjórnarliðsins (Forseti hringir.) um hvernig á að ljúka þingstörfum. Það hefur ekkert með stjórnarandstöðuna að gera. (Forseti hringir.) Ég endaði ræðu mína í gær á því að segja að nauðsynlegt væri að forseti varpaði (Forseti hringir.) þeirri ábyrgð á forustumenn stjórnarliðsins að þeir komi sér saman um hvernig þeir ætla að ljúka málum hér.



[11:31]
Forseti (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Forseti minnir hv. þingmenn enn á að virða ræðutíma og telur ástæðu til að minna á ávarpsorð sem ber að nota í þingsal.



[11:31]
Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu mikið. Ég vil bara ítreka við hæstv. forseta að mjög gagnlegt væri ef dagskrá þingsins tæki mið af því að komið er viku fram yfir áætlaðan starfstíma Alþingis og þar af leiðandi væri sett niður samkomulag um að klára þau mál sem raunverulegt samkomulag er um í þinginu eða þau mál þar sem raunverulegar dagsetningar knýja á um að málin verði kláruð. Nýtt þing sem kemur saman eftir rétt rúmar 5 vikur getur síðan tekist á um átakamálin á grundvelli kosningaúrslita 27. apríl.



[11:32]
Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Frú forseti. Til lúkningar umræðunni um fundarstjórn forseta er varðar fyrirspurnatímann áðan er alveg rétt að umræðan um þróunaraðstoð er tilfinningaþrungin umræða. Ég viðurkenni að mér mislíkaði mjög í gær þegar ég heyrði hv. þingmann tala, sem var rætt um í fréttunum í gær, um sín sjónarmið og mér fannst stórmál að þingmaður á Alþingi Íslendinga greiddi atkvæði gegn þeirri aðstoð, fullkomlega löggilt sjónarmið af hennar hálfu. Mér mislíkaði það mjög og vildi spyrja þingmenn út í stefnu þeirra flokka. Hins vegar þykir mér leitt að þingmanninum hafi ekki gefist tækifæri til að svara því aftur hér ef þingmaðurinn hafði áhuga á. Það var fullt svigrúm til að gera grein fyrir þeim sjónarmiðum í atkvæðaskýringum í gær o.fl. enda stóð ekkert í vegi fyrir þingmanninum að fara í fréttirnar og gera ítarlega grein fyrir þeim sjónarmiðum í einum af fyrstu fréttum Stöðvar 2 í gær. Það var fullkomið (Forseti hringir.) tilefni til að ræða almennt um stefnu flokkanna í þróunarmálum í tilefni af því (Forseti hringir.) að þingmenn greiða atkvæði gegn því í þingsal.