141. löggjafarþing — 109. fundur
 22. mars 2013.
stjórnarskipunarlög, frh. 2. umræðu.
frv. ÁPÁ o.fl., 641. mál (tímabundið ákvæði um breytingu á stjórnarskrá). — Þskj. 1139, nál. 1269, brtt. 1244, 1270 og 1278.

[16:01]
Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Við ræðum enn tillögu þriggja þingmanna um breytingar á stjórnarskrá, sem þeir lögðu til að yrði breyting á 79. gr. og það yrði sett í ákvæði til bráðabirgða. Þetta eru hv. þm. Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, hæstv. ráðherra Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, og hv. þm. Guðmundur Steingrímsson, formaður Bjartrar framtíðar. Þau sáu lausn á þeim vanda sem við stöndum frammi fyrir í dag. Við höfum rætt mikið um breytingar á stjórnarskrá en það mál hefur ekki fengist fyllilega útrætt. Það er reyndar mín skoðun, ekki er víst að það sé skoðun allra.

Ég ætla rétt aðeins að fara í gegnum það hve auðvelt er að breyta stjórnarskránni í dag.

Samkvæmt 79. gr. skal þing samþykkja breytingar á stjórnarskrá og það fer eftir venjulegum reglum á Alþingi. Það þýðir að ef 32 þingmenn eru mættir í þingsal, 31 situr hjá og einn er með getur sá eini þingmaður ákveðið nýja stjórnarskrá. Þetta er svo ótrúlega auðvelt að það er eiginlega með ólíkindum að við skulum hafa ákvæðið svona.

Síðan eru almennar kosningar, rjúfa þarf þing reyndar, þar sem menn kjósa um eitthvað allt annað en stjórnarskrá. Svo kemur nýtt þing saman og eftir sömu reglu getur meiri hlutinn í þingsal, meiri hluti hv. þingmanna, greitt atkvæði með og svo og svo margir setið hjá.

Þetta hefur ekki verið til baga. Vegna hvers, frú forseti? Vegna þess að menn hafa borið það mikla virðingu fyrir stjórnarskránni að þeir hafa ekki viljað nota sér það hversu auðvelt er að breyta henni þar til nú, eins og ég hef sagt.

Við stöndum frammi fyrir því að búið er að ræða stjórnarskrána hérna fram og til baka í nærri tvö ár frá því stjórnlagaráð skilaði tillögum sínum í júlí 2011. Og þrátt fyrir alla þá miklu umræðu hefur í reynd ekki verið rætt mikið efnislega um stjórnarskrána. Ég man til dæmis ekki eftir neinni umræðu um Lögréttu, sem er mjög áhugavert fyrirbæri og ég var með ákveðnar hugmyndir um.

Nú er spurningin, frú forseti, af því að nú líður að þingkosningum og þá þarf að rjúfa þing og svo eru páskar að koma, hvað hægt sé að gera. Hv. þm. Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, sá eða taldi sig sjá að ekki næðist að afgreiða stjórnarskrána nú fyrir kosningar og því skyldum við einungis breyta 79. gr. Það er reyndar hugmynd sem ég hef lagt fram í tvígang sem frumvarp til stjórnarskipunarlaga, að breyta eingöngu 79. gr. Af hverju skyldi það nú vera? Við skulum hugsa okkur að vegna ósamkomulags eða vegna ýmissa atvika fari þingið heim fljótlega og þessi tillaga sem við ræðum hér í dag verði ekki samþykkt. Þá þyrfti samkvæmt núgildandi stjórnarskrá, sem gilti þá eftir kosningar — ef maður kæmi þá með breytingar á stjórnarskránni þyrfti að rjúfa þing. Það gera menn yfirleitt aldrei nema í lok kjörtímabils. Það þýddi að allt það starf sem menn hafa unnið í sambandi við stjórnarskrána félli niður og hættan yrði sú að allar þær góðu hugmyndir sem þar eru inni féllu niður líka og einnig öll sú vinna sem hefur verið lögð í það að vara við öðrum ákvæðum. Hættan er því sú að öll sú vinna fari fyrir bí.

Þess vegna er ég dálítið upptekinn af því að þessi hugmynd hv. þingmanna Árna Páls Árnasonar, Katrínar Jakobsdóttur og Guðmundar Steingrímssonar verði samþykkt. Ég vil ekki sjá hana eins og hún var, enda er nefndin sjálf búin að breyta hugmyndinni úr því að vera ákvæði til bráðabirgða við hliðina á núgildandi ákvæði í það að það skuli vera sérákvæði til hliðar við núgildandi ákvæði. Þannig að þingmenn geti valið um hvort tillaga til stjórnarskipunarlaga falli undir það að tvö þing skuli fjalla um málið, eða þing og þjóðaratkvæðagreiðsla taki ákvörðun. Ég er mjög lítið hrifinn af slíku.

Svo setti nefndin auk þess inn í dæmið að 2/3 þingmanna þurfi að standa að tillögunni, en það er líka mjög opið, vegna þess að ef 32 þingmenn eru mættir í þingsal duga 20 eða 22 þingmenn til að ná fram 2/3. Það nægir að 22 þingmenn greiði stjórnarskránni atkvæði. Mér finnst það ekki vera nægilega mikil sátt eða trúverðugt.

Ég vil því að menn skoði þetta enn frekar. Ég hef reyndar viðrað hérna hugmynd að því hvernig hægt er að leysa þetta. Það sem menn óttast er að þjóðaratkvæðagreiðslan verði mjög fámenn og ekki verði eins mikill áhugi á stjórnarskránni og sumir vilja vera láta.

Ég hef orðið var við það af viðtölum mínum við kjósendur að það er nú bara ósköp lítill áhugi á stjórnarskránni. Ég skil það ekki af því ég hef ógurlega mikinn áhuga á henni sjálfur. En þegar ég tala við fólk er hún ekki númer eitt, tvö og þrjú. Það fólk vill sjá hvernig það ræður við útgjöldin í hverjum mánuði, hvernig það fær meiri tekjur og hvernig það kemst hjá því að borga alla þessa skatta. Ég held að stjórnarskráin sé nú ekki eins ofarlega í hugum almennings og hún er í hugum hv. þingmanna.

Ég hef lagt inn tillögu um að ef þjóðin mætir ekki nægilega vel, ef 50% þjóðarinnar samþykkir ekki tillögu til stjórnarskrárbreytingar sem Alþingi er búið að samþykkja með 40 þingmönnum, miklum meiri hluta, fari málið til næsta þings. Ef þjóðin klikkar á því að veita nýrri stjórnarskrá almennilegt brautargengi, þ.e. helmingur þjóðarinnar, ef helmingur atkvæðisbærra kjósenda greiðir ekki atkvæði með því að mæta ekki á kjörstað eða eitthvað slíkt, fari það til næsta þings eftir næstu kosningar, þá höfum við sama kerfi og núna að það eru fulltrúarnir á Alþingi sem greiða þessu atkvæði.

Ég get ekki séð að neinn ætti að vera á móti þessu vegna þess að þetta þvingar menn til sátta. 40 þingmenn þurfa að greiða tillögunni atkvæði og þjóðin fær tækifæri til að greiða atkvæði. Ef mætingin verður góð, við skulum segja að 60%, 70% mæti eins og venjan hefur verið á Íslandi og 90% eru sáttir við nýju stjórnarskrána, þá næst það markmið að meira en helmingur atkvæðisbærra manna greiði tillögunni atkvæði sitt. Þá fyndist mér, frú forseti, stjórnarskráin orðin nokkuð skotheld og mjög góð sátt um hana, bæði hjá þingi og þjóð.

Ef þetta er mál sem menn hafa ekki mikinn áhuga á og ekki næst að fá kjósendur á kjörstað eða menn eru hreinlega á móti stjórnarskránni, þannig að það næst ekki að helmingur kjósenda greiði henni atkvæði, segjum að það verði 49:51, eitthvað slíkt, sem greiði atkvæði, þá er það bara ekki nægilega mikil sátt um tillöguna hjá þjóðinni. Þá þarf það að fara til þingsins sem þarf þá að samþykkja það í mikilli sátt.

Ég hugsa nú að ef þjóðin er mjög ósátt við tillöguna mundi þingið ekki samþykkja hana í kjölfarið. Það mundi skoða hvað það væri sem þjóðin væri ósátt við.

Ef við samþykkjum ekki þessa tillögu og ef þessar miklu ræður hérna gera það að verkum að þingið fari bara heim og ekkert gerist tökum við þá áhættu að allt málið frestist um fjögur ár. Þetta ættu þeir að hafa í huga sem hafa flutt breytingartillögur við málið, sem eru merkilegt nokk þingflokksformennirnir í Vinstri grænum og Samfylkingunni. Þingflokksformennirnir flytja tillögu um auðlindaákvæði, auðvitað til að klekkja á Sjálfstæðisflokknum, til að geta sagt að hann hafi staðið gegn því því að það er víst einhver mýta eða einhver trú, þjóðsaga, að Sjálfstæðisflokkurinn sé á móti auðlindaákvæði, sem er ekki rétt, en það vilja menn geta sagt í kosningabaráttunni.

Svo þessi makalausa tillaga frá hv. þm. Margréti Tryggvadóttur um að setja heila stjórnarskrá sem breytingartillögu, ég held að hún sé bara stórvarasöm.



[16:11]
Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef komið hingað í ræðustólinn og sagt að ég væri nú frekar íhaldssamur á að breyta 79. gr., þ.e. breytingarákvæðisgreininni, og hef í huga mér haft þá vissu að menn hefðu hingað til notað það sem samstöðugrein til að tryggja það að víðtæk sátt væri áður en menn færu í breytingar. Það væri ástæðan fyrir því meðal annars að menn hefðu ekki breytt og þetta væri erfiður þröskuldur.

Ég skal viðurkenna að í þessari umræðu, umræðan skilar alltaf einhverju, hefur mér orðið ljóst að það er rétt hjá hv. þm. Pétri H. Blöndal að það er nokkuð auðvelt að breyta, sérstaklega þegar stjórnarflokkar halda áfram samstarfi yfir meira en eitt kjörtímabil. Nú störfuðu Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur saman í þrjú kjörtímabil og hv. þingmaður var á þingi allan þann tíma.

Því vil ég spyrja hv. þingmann hvort það hafi aldrei komið til tals að klára auðlindaákvæðið, til dæmis árið 2003 þegar afrakstur auðlindanefndar var sá að allir stærstu flokkarnir voru orðnir sammála, þar á meðal Samfylkingin, um slíkt ákvæði. Og hvað hafi valdið því að menn á þeim tíma kláruðu ekki hreinlega málið og yfir þær kosningar með einföldum meiri hluta óháð því hvort Samfylkingin stæði við þær yfirlýsingar sem hún hafði gert í auðlindanefndinni. Voru menn að bíða eftir því á þeim tíma að allir flokkar á þinginu sameinuðust um þetta, því að ljóst er að Vinstri grænir hafa ekki verið sammála þeirri útfærslu sem þar náðist sátt um? Það hefði alla vega verið möguleiki. Spurningin er: Af hverju hefur hún ekki verið notuð?



[16:14]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurninguna. Ég held að það sé vegna þess að menn beri svo mikla virðingu fyrir stjórnarskránni. Ég held að það sé ekkert annað en það sem hafi stöðvað menn í því að koma með sínar hugmyndir og keyra þær í gegn eins og Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur hefðu getað gert. Ég held að menn hafi borið svo mikla virðingu fyrir stjórnarskránni að þeir hafi talið að um það þyrfti að vera góð samstaða. Stjórnarskráin segir það ekki. Þess vegna er hún nokkuð hættuleg.

Núna kemur í ljós að menn eru ekki lengur að leita að samstöðu eða sátt heldur leita svona frekar að ófriði, ef það gefst, það hefur verið þannig allt þetta kjörtímabil, finnst mér. Menn eru núna að reyna að keyra í gegn ákveðna breytingu sem þeir geta náð fram, meira að segja heilli nýrri stjórnarskrá gætu menn náð fram ef stjórnarandstaðan stæði ekki hérna og reyndi að verjast með því að tala aftur og aftur. Mér finnst þetta vera mjög neikvætt af því að stjórnarskrá á að vera undirstöðuplagg fyrir alla þjóðina, ekki bara meiri hlutann. Hún á að vera stjórnarskrá sem öll þjóðin getur sætt sig við, ekki bara Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn eða bara Samfylkingin og Vinstri grænir.

Þess vegna tel ég að við þurfum að finna leið sem þvingar menn til þess að vinna saman í mikilli sátt. Þær hugmyndir sem ég hef rætt gera það einmitt. Þær þvinga menn til að ná fram mikilli sátt þannig að sú stjórnarskrá sem verður til út úr því sé stjórnarskrá allra Íslendinga en ekki bara sumra.



[16:16]
Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er sammála hv. þingmanni í því atriði. Mér hefur fundist í ljósi umræðunnar síðustu daga — það var nú hv. þm. Magnús Orri Schram sem benti einmitt á það að Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki hefði verið í lófa lagið að breyta stjórnarskránni á því tímabili í anda þess sem þeir tveir flokkar höfðu verið sammála um. En það voru ekki bara þeir tveir. Samfylkingin var aðili að auðlindaákvæðinu á sínum tíma í auðlindanefndinni árið 2000. Þegar maður lítur til baka finnst manni mjög sérkennilegt að það hafi ekki verið klárað, ekki síst í ljósi þess að nú kemur Samfylkingin fram með allt aðra útgáfu og finnst alveg sjálfsagt að hún verði keyrð hér í gegn, á þessu ákvæði.

Ég vil spyrja hv. þingmann út í breytingarákvæði í seinna andsvari mínu. Það er rétt, frú forseti, að hv. þingmaður hefur verið mjög duglegur og haft mikinn áhuga á stjórnarskránni og hann hefur lagt fram margar tillögur meðal annars til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar á liðnu missiri. Er þingmanninum kunnugt um að þær tillögur hafi verið teknar til efnislegrar umræðu? Með þær hugmyndir sem hv. þingmaður hefur haft, meðal annars um breytingar á 79. gr., breytingarákvæðisgreininni, og með þær hugmyndir sem hann kynnti í síðustu ræðu — hefur verið óskað eftir að taka þá tillögu til umfjöllunar til að reyna að ná sátt í þinginu til að reyna að finna leiðir út úr því ófremdarástandi sem hér er? Ég vil spyrja hv. þingmann hvort leitað hafi verið til hans um viðræður eða hvort hann þekki til þess að formenn flokkanna hafi tekið slíka tillögu til formlegrar umræðu til að reyna að leita sátta.



[16:18]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Þann 21. febrúar 2012 skilaði ég umsögn um drög stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Þegar ég sé svo vinnuna sem kemur frá þeirri nefnd er mér efst í huga að þeir hafi bara ekkert lesið þá umsögn sem er upp á 40 síður. Ég gerði athugasemdir þar við nánast hverja einustu grein, sumar litlar og aðrar miklar. Ekkert tillit hefur verið tekið til þess eða mið tekið af því, samt tel ég að hugmyndir mínar til dæmis um Lögréttu séu á margan hátt miklu skynsamlegri en hugmyndir stjórnlagaráðs þar sem Alþingi átti að kjósa einhverja fimm menn. Engin skilyrði voru um menntun eða að þeir kynnu lögfræði eða nokkurn skapaðan hlut, jafnvel hefðu þingmenn getað verið í Lögréttu sem ættu að fara yfir frumvörp á Alþingi samkvæmt beiðni ákveðins fjölda þingmanna.

Ég vildi að fullskipaður Hæstiréttur myndaði Lögréttu. Í fyrsta lagi vantar alveg ákvæði um Hæstarétt í núgildandi stjórnarskrá, það finnst mér nú eiginlega brýnast að setja inn. Ekki var hlustað á þetta. Ég hef ekki fengið nein viðbrögð við því hvort þetta sé gott eða slæmt, ekki nokkurn skapaðan hlut. Ég vona að vinnubrögðin hafi ekki alls staðar verið svona.

En ég benti líka á það í fjölda atriða, 80 greinum, að krafist er atbeina Alþingis, með lögum skal tryggja þetta og hitt. Ef Alþingi gerir ekki neitt sýnist mér að stjórnarskráin sé að því leyti ekki gild, ekki virk. Ég benti í þeim tilvikum á miklu einfaldara orðalag í flestum tilfellum, en það var heldur ekki tekið upp, bara orðalagsbreyting. Til dæmis „frelsi fjölmiðla skal tryggt með lögum“ þá þarf Alþingi að gera eitthvað, í staðinn fyrir að segja „fjölmiðlar eru frjálsir“ sem er þá atriði sem stjórnarskráin segir nákvæmlega til um.



[16:20]
Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Við erum hér enn þá að ræða breytingartillögu formanna stjórnarflokkanna og óháðs þingmanns, hv. þm. Guðmundar Steingrímssonar, þess efnis að gera breytingar á 79. gr. núgildandi stjórnarskrár til að tryggja framhald á endurskoðun stjórnarskrárinnar.

Eins og ég hef áður sagt erum við framsóknarmenn fylgismenn þess að stjórnarskráin verði endurskoðuð. Þar höfum við lagt mesta áherslu á að setja inn í núgildandi stjórnarskrá auðlindaákvæði. Í því skyni lögðum við fram fyrir um tveimur vikum tillögu til umræðu milli flokkanna sem var meira og minna samhljóða niðurstöðu auðlindanefndar árið 2000, að viðbættu ákvæði sem tryggir að fullveldisyfirráðum Íslands yfir auðlindunum verði aldrei hnekkt, ekki verði hægt að framselja þau til alþjóðlegra stofnana.

Við höfum lagt áherslu á að gengið verði lengra í átt að beinu lýðræði, þ.e. teknar upp þjóðaratkvæðagreiðslur í meiri mæli, og við höfum líka bent á nokkra kafla í stjórnarskránni sem þurfi að endurskoða. Hv. þm. Pétur H. Blöndal benti meðal annars á að ekkert ákvæði væri um Hæstarétt í dómstólakaflanum. Þá hefur auðvitað forsetakaflinn svokallaði, þ.e. um samskipti og tengsl forsetaembættisins við löggjafarvaldið og framkvæmdarvaldið, verið talsvert til umræðu.

Okkur var það ljóst, frú forseti, þegar í byrjun janúar og jafnvel fyrir jól að ekki mundi takast að ljúka þessari heildarendurskoðun með þeim hætti sem stjórnarflokkarnir hafa lagt upp með af ýmsum ástæðum, enda hefur það aldrei verið meginmarkmið okkar framsóknarmanna að skrifa nýja stjórnarskrá þó að það eigi að endurskoða stjórnarskrána, m.a. þá þætti sem ég nefndi hér. Við sáum að málið væri komið í óefni og buðum til viðræðna strax í janúar um ákveðna þætti eða kafla stjórnarskrárinnar. Á það var ekkert hlustað. Þegar við vorum að nálgast lok þings og það var aðeins ein vika eða tíu dagar til áætlaðra starfsloka þingsins sendi þingflokkurinn frá sér málamiðlunartillögu, niðurstöðu auðlindanefndar frá árinu 2000, að viðbættu ákvæði um fullveldisyfirráð til að tryggja að auðlindum í eigu íslenskrar þjóðar væri ekki hægt að afsala með nokkrum hætti til yfirþjóðlegra stofnana.

Það verður að segjast eins og er að á þessar tillögur okkar hefur ekki verið mikið hlustað, ekki hefur verið mikið um formlegar viðræður. Hv. þm. Pétur H. Blöndal staðfesti það áðan að þrátt fyrir að hann sé kannski sá þingmaður í þingsal sem hefur sýnt stjórnarskránni á liðnum árum hvað mestan áhuga og lagt fram fjöldann allan af tillögum hafa tillögur hans heldur ekki verið teknar til formlegra viðræðna milli flokkanna. Það hefur einmitt gerst það sem ekki var áður uppi á borði þegar menn fjölluðu um stjórnarskrána. Það hefur komið fram og kom fram í máli hv. þm. Magnúsar Orra Schrams fyrir nokkrum dögum, að á því tímabili sem Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur voru saman í stjórn hefði þeim flokkum verið í lófa lagið, þar sem þeir störfuðu saman í þrjú kjörtímabil, að breyta stjórnarskránni með einföldum meiri hluta í þingi og yfir kosningar í það minnsta tvisvar og jafnvel þrisvar. En það var ekki gert, eins og hv. þm. Pétur H. Blöndal staðfesti áðan, vegna þess að menn lögðu gríðarlega mikið upp úr því að um þær breytingar væri almenn sátt í þinginu milli allra stjórnmálaflokka.

Aftur á móti hefur vinna núverandi stjórnarflokka byggst á því og miðast að því að þeir væru að breyta stjórnarskránni og enga aðra þyrfti til. Menn hafa farið út í ýmsar æfingar og túlkað niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar 20. október, sem sumir hafa kallað skoðanakönnun, á ævintýralegan hátt. Margir hafa gengið í þá gildru að túlka 74% stuðning þjóðarinnar við það að setja ákvæði um náttúruauðlindir í eigu þjóðar í stjórnarskrá þannig að sama hlutfall hefði samþykkt óbreytta tillögu sem kom frá stjórnlagaráði og meiri hluti samþykkti að ætti að hafa til grundvallar, sem er náttúrlega stór munur á. Ég hef útskýrt það í nokkru máli hvernig margir sem komið hafa að máli við mig, bæði þeir sem sögðu já við þeirri spurningu og einnig sem sögðu nei, túlkuðu orðalagið „til grundvallar“.

Síðan hefur það gerst í þessu máli að meiri hluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar hefur lagt einar fjórar tillögur á borð þingsins eða til umfjöllunar í nefndinni um auðlindaákvæði. Að lokum gerðist það um daginn, síðasta sunnudag, að formaður Samfylkingarinnar lagði til eitt ákvæði og morguninn eftir kom síðan önnur tillaga, sem er breytingartillaga við 79. gr. frá þingflokksformönnum Samfylkingarinnar og Vinstri grænna auk tveggja annarra þingmanna, sem var á engan hátt í samræmi við tillögu formanns Samfylkingarinnar, hv. þm. Árna Páls Árnasonar.

Það verður að segjast eins og er að það vekur verulega furðu samskiptaleysið sem virðist vera á milli þingflokksformannsins og formannsins, án þess að ég ætli að skipta mér af innanhússmálum í Samfylkingunni. En þetta gerir að verkum, frú forseti, að trúverðugleiki þess að menn séu í raun að reyna að ná breiðri sátt milli ólíkra stjórnmálaflokka er enginn. Það virðist ekki einu sinni vera hægt að ná sátt innan einstakra stjórnarflokka um hvaða leið eigi að fara.

Mér varð það á í umræðu fyrir nokkrum dögum að lýsa stefnu einstakra flokka þannig að þar væru sósíalistar. Það hvarflaði ekki að mér á þeirri stundu að þeir sem aðhylltust slíkar stjórnmálaskoðanir litu á það sem skammaryrði og ég geri það ekki. Þetta er einfaldlega lýsing á ákveðinni pólitískri skoðun. Ég var annars vegar að fjalla um þetta nýja ákvæði sem þingflokksformennirnir lögðu fram og hins vegar þær breytingar á vatnalögunum sem þá stóðu yfir í atvinnuveganefnd. Þau vinnubrögð eru nú efni í langa ræðu og ég mun bíða með það. En í stuttu máli kom málið inn undir fölsku yfirskini, það átti að vera samræmingar- og tæknilegs eðlis, var keyrt í gegn á stuttum tíma, sent út til umsagnar í fimm daga, þar af yfir helgi, þannig að engir sérfræðingar, óháðir lögfræðingar treystu sér til að skila inn umsögn á þeim tíma.

En þar var alls ekki um að ræða neina samræmingu. Þar var verið að gjörbreyta núverandi réttindastöðu þeirra sem búa á landi, eiga land, og hafa aðgang að grunnvatni, hvort sem er heitu eða köldu. Það var í því ljósi sem ég minntist á þessa pólitísku stefnu Vinstri grænna, sem ég hélt að þeir skömmuðust sín nú ekki fyrir, og furðaði mig á að Samfylkingin, sem er jafnaðarmannaflokkur, sósíaldemókrataflokkur, væri komin á sömu línu og Vinstri grænir.

Ég get ekki fallist á þær söguskýringar, eftirásöguskýringar hv. þm. Helga Hjörvar að 13 ára umræður og umfjöllun um auðlindaákvæðið frá því að niðurstöður auðlindanefndar, þar sem þrír þingmenn Samfylkingarinnar samþykktu það ákvæði sem þar var, hafi skilað nægilega miklu til að það ákvæði sem þingflokksformenn Vinstri grænna og Samfylkingar leggja fram núna sé nægilega rætt og því megi samþykkja þá tillögu. Ég sé ekkert samhengi í því vegna þess að í þeirri tillögu sýnist mér vera, án þess auðvitað að það hafi fengist nægilega rætt af sérfræðingum, tilvitnun í það sama fyrirkomulag sem menn eru að gera breytingu á í vatnalögunum. Menn eru að gjörbreyta réttindum landsmanna sem verið hafa við lýði í 1100 ár og eru vel að merkja þau sömu og á Norðurlöndunum og í Kanada, í löndum sem við berum okkur saman við. Mér finnst það alls ekki rökrétt niðurstaða, frú forseti, að þetta sé allt í einu orðin hin ásættanlega niðurstaða og allir þingflokkar sem sæti eiga á þingi eigi að samþykkja hana. Ég sé alls ekki neitt rökrétt í því. Ég verð að segja eins og er að ég furða mig á því að menn komi hér upp í ræðustól dag eftir dag og haldi slíku fram án þess að hafa gert minnstu tilraun til að setjast formlega niður og reyna að ná sáttum um þessi ákvæði.

Ég held, frú forseti, að sá tími sé liðinn og að menn ættu að einbeita sér að því hvort hægt sé að ná sáttum um breytingu á 79. gr., sem ég hef þó ítrekað sagt að ég sé efins um að skynsamlegt sé að gera. En eins og kom fram í andsvörum við hv. þm. Pétur H. Blöndal hefur mér þó orðið ljóst að leið okkar að breyta stjórnarskránni, sem hefur verið talin þung og erfið, er auðveldari en víða annars staðar og stjórnarskrá okkar er sú sem er auðveldast af öllum stjórnarskrám Norðurlandanna að breyta. Það getur því vel verið að það sé skynsamlegt að setjast yfir það ákvæði. Mér finnst áhugavert að koma því inn að þjóðin greiði atkvæði að lokum um slíka breytingu til þess að hún fái staðfestu. En ég verð að segja eins og er að þeir dagar sem hér hafa liðið frá því að þingi átti að ljúka hafa liðið án þess að menn hafi boðað til formlegra funda til að setjast yfir það og fjalla um það með skýrum hætti. Ég veit ekki hvort maður á að halda að hér sé um einhvers konar leikrit að ræða en ég vona ekki.

Varðandi það auðlindaákvæði sem við framsóknarmenn lögðum fram, til umræðu vel að merkja, byggði það á niðurstöðu auðlindanefndar frá árinu 2000, auk þess sem við settum inn eina setningu þess efnis að óheimilt væri að framselja ríkisvald vegna slíkra auðlinda til alþjóðlegra stofnana. Þessi tillaga hefur ekki fengist rædd. Eina sem hér hefur gerst er að þó nokkrir þingmenn úr Vinstri grænum og einstaka þingmenn úr Samfylkingunni hafa hreinlega hálftryllst yfir því að þarna standi inni setning sem fjallar um óbein eignarréttindi. Er þá verið að fjalla um leiguréttindi og nýtingarsamninga og annað í þeim dúr, að slík heimild njóti verndar sem óbein eignarréttindi.

Frá hendi okkar framsóknarmanna er það að sjálfsögðu til umræðu og algjörlega opið hvort sú setning á að fara út. Hún var hins vegar sett inn af auðlindanefndinni til að undirstrika að slík réttindi nytu aldrei verndar sem bein eignarréttindi, aldrei. Um hvað eru menn þá að fjalla? Jú, þetta er meinlegur misskilningur um óbein eignarréttindi sem hér hefur valdið titringi meðal þeirra sem aðhyllast aðrar stjórnmálaskoðanir en jafnaðarmennsku að ég hélt, eða miðjumennsku eða hvað það er nú annað sem menn aðhyllast.

Í ágætri grein eftir Þorstein Magnússon, lögfræðing og frambjóðanda Framsóknarflokksins í Reykjavík, sem hann birti í síðustu viku, útskýrir hann í mjög góðu og einföldu máli um hvað þetta fjallar. Sú setning sem menn hnutu um, að slík heimild nyti verndar sem óbein eignarréttindi — sá skilningur að þar með væri verið að gefa henni eitthvert aukið vægi er einfaldlega ekki réttur. Eða eins og Þorsteinn Magnússon segir, með leyfi forseta:

„Þvert á móti væri þjóðareign á auðlindum fest í sessi með umræddu ákvæði þó svo að hinn takmarkaði nýtingarréttur nyti einnig verndar.“

Hann ræðir síðan hvort þessi setning sé nauðsynleg og kemst að því að hún sé það ekki, tekið sé á þessu í núgildandi stjórnarskrá. Hann fjallar síðan um það hvernig líkja megi óbeinum eignarréttindum saman við leiguréttindi. Ég ætla aðeins að fara ofan í það á nokkrum mínútum, frú forseti:

„Eignarréttindi eru tvenns konar í lagalegum skilningi, þ.e. annars vegar bein eignarréttindi og hins vegar óbein. Óbein eignarréttindi kallast það þegar einhver nýtur tiltekinna afmarkaðra réttinda yfir eign annars manns. Dæmi um slíkt eru afnotaréttindi. Sá sem leigir íbúð nýtur til dæmis samningsbundinna afnotaréttinda yfir íbúðinni. Þau réttindi teljast óbein eignarréttindi og njóta verndar sem slík. Enginn vafi er þó á því að það er leigusalinn en ekki leigjandinn sem er eigandi eignarinnar. Leigusalinn er þannig handhafi hins beina eignarréttar á íbúðinni en leigjandinn nýtur þar óbeinna eignarréttinda. Annað dæmi um afnotaréttindi er réttur þess sem samkvæmt samningi eða sérstöku leyfi frá eiganda auðlindar fær að nýta auðlindina í tiltekinn tíma gegn gjaldi. Það er einmitt slíkt fyrirkomulag sem umrædd tillaga gengur út á.“

Þetta snertir meðal annars nýtingarsamninga vegna fiskveiðistjórnar, vegna orkumála, vegna olíuvinnslu, vegna ýmissa annarra þátta þar sem ríkið fyrir hönd þjóðarinnar leyfir nýtingu á auðlind sem þjóðin á en aðrir fá nýtingarrétt tímabundið, nýtingarrétt gegn gjaldi fyrir.

Þannig er þetta, frú forseti. Og það væri ágætt að þeir sem hæst blása mundu kynna sér þessa grein og aðrar sem tengjast málinu áður en þeir byrja að gagnrýna. Ég hef fulla trú á því að menn vitkist þá og átti sig á um hvað málið fjallar og verði tilbúnir að setjast niður með okkur öllum í þinginu og ræða þetta. En ég efast um að við höfum nægjanlegan tíma til þess, menn hafa eytt honum í tóm upphlaup og vitleysu.

Við leggjum hins vegar ríka áherslu á setninguna sem við bættum inn í niðurstöðu auðlindanefndar frá árinu 2000, þess efnis að óheimilt sé að framselja ríkisvald vegna slíkra auðlinda til alþjóðlegra stofnana. Þessi niðurstaða auðlindanefndar frá árinu 2000 var niðurstaða sem sérfræðingar á þessu sviði höfðu legið yfir í langan tíma og orðalagið haft nákvæmt þannig að það væri algjörlega skýrt hvað stæði þarna og hvað ekki. En menn hafa síðan verið að leika sér að því í umræðunni um heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar að hræra í ákvæðum eftir eigin geðþótta, liggur mér við að segja, án þess að átta sig á því að hvert og eitt orð getur haft gríðarlegt mikilvægi.

Þannig er til að mynda í breytingartillögu hv. þingflokksformanna stjórnarflokkanna fjallað heilmikið um réttindi yfir vatni, jarðhita og öðrum hlutum. Maður verður að spyrja hvort með þessu eigi til að mynda að koma í veg fyrir að garðyrkjubóndi á jörð geti borað eftir heitu vatni vegna þess að hann eigi ekki vatnið, sem hann hefur þó haft þá tilfinningu fyrir í gegnum aldirnar að hann hafi. Í þessari tillögu er líka talað um tiltekna dýpt frá yfirborði jarðar. Um þetta hefur verið fjallað í áratugi. Ólafur Jóhannesson, fyrrverandi forsætisráðherra og formaður Framsóknarflokksins og einn okkar helsti sérfræðingur í lögum í gegnum tíðina, fjallaði heilmikið um þetta og reyndi að setja fram lög þar sem þetta væri skilgreint.

En tækninni fleygir einfaldlega fram. Þar sem menn gátu einu sinni borað 10 eða 20 metra ofan í jörðina eftir köldu vatni eða heitu vatni gátu menn síðan nokkrum árum síðar borað 100 eða 200 metra. Nú eru orkufyrirtækin farin að stefna að djúpborunum sem ekki eru aðeins 1,5 eða 2 kílómetrar heldur 3 kílómetrar. Og það er ekkert útilokað að einstakur jarðeigandi geti borað slíka holu. Er það þá ekki eðlileg nýting? Ef viðkomandi er að leita að heitu vatni til þess að knýja fjölskyldugróðrarstöðina sína, er það ekki venjuleg nýting? Á það allt í einu að vera skilgreint af einhverjum þingmönnum hvað sé „tiltekin dýpt“?

Ástæðan fyrir því að menn hurfu frá þessari leið var að þeir sáu að illmögulegt væri að skilgreina þetta nægilega vel, sem þeir höfðu þó reynt í þó nokkuð langan tíma. En hér dúkkar þetta upp í tillögum þingflokksformannanna eins og ekkert sé, án þess að því fylgi greinargerð sérfræðinga sem hafa þó fjallað um málið í mjög langan tíma, frú forseti.

Svona er ekki hægt að hafa vinnubrögð við endurskoðun á stjórnarskránni. Þess vegna eigum við, ef hægt er, að einbeita okkur að því að tryggja að við getum haldið málinu áfram því að tíminn er auðvitað löngu runninn út. Ég sé, frú forseti, að tími minn í þessari ræðu er því miður að renna út og átti ég þó eftir að fara yfir umhverfi vatnalaga í Danmörku þar sem til að mynda 2/3 af vatnsveitum eru í einkaeigu, litlum og meðalstórum vatnsveitum, og vatnið sem þeir nýta er það líka, en það er hægt að setja eignarréttinum takmarkanir og hægt er að setja hinum óbeina eignarrétti mun meiri takmarkanir. Það er hægt að setja alls konar reglur sem danska ríkið hefur sett til að tryggja almannagæði og almenningsrétt. Og þá leið hljótum við að vilja (Forseti hringir.) fara líka, því að við viljum búa í vestrænu hagkerfi með vestræn lög sem sanna og sýna fyrir okkur að blandað hagkerfi er það sem hefur skilað þessum þjóðum mestum ávinningi á liðnum öldum.



[16:40]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og alveg sérstaklega það sem hann kom inn á varðandi auðlindaákvæðið; hann fór í gegnum þá sögu alla eða kannski svona snerti hana.

Fyrir liggur breytingartillaga frá hv. þm. Oddnýju G. Harðardóttur og Álfheiði Ingadóttur, sem eru þingflokksformenn Samfylkingarinnar og Vinstri grænna, ásamt með hv. þingmönnum Árna Þór Sigurðssyni og Skúla Helgasyni, við tillögu formanna flokkanna. Hvernig skilur hv. þingmaður þetta yfirleitt? Hvers vegna voru formennirnir ekki með á þessari breytingartillögu? Er þetta ekki rætt í þessum þingflokkum? Eru þessir þingflokkar klofnir? (MÁ: Spurðu formennina.) Já, ég hef reynt að komast að því, ég vildi heyra álit hv. þingmanns.

Síðan er það spurningin með þetta auðlindaákvæði (Gripið fram í.) — ég veit að þetta er truflandi fyrir hv. samfylkingarþingmenn. Menn hafa reynt að klína því á Sjálfstæðisflokkinn að hann sé á móti auðlindaákvæðinu yfirleitt, að hann sé handbendi LÍÚ o.s.frv., það heyrum við. Nú er það þannig að þetta auðlindaákvæði er dálítið sérstakt, ég hugsa að það gagnist LÍÚ mjög mikið. Telur hv. þingmaður að það geti verið að þessi tillaga um breytingar á stjórnarskránni, um að setja auðlindaákvæði inn, geti helgast af því að við erum að fara í kosningabaráttu og menn vilji gjarnan geta sagt að Sjálfstæðisflokkurinn hafi komið í veg fyrir að samþykkt yrði breyting á auðlindaákvæði? Og gleymi að geta þess að þetta sé auðlindaákvæði sem hv. þingmenn Samfylkingarinnar lögðu fram.



[16:42]
Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nú skal varast það að túlka hugsanir annarra og ekki ætla ég að gera það. Ég veit þess vegna ekki hvort það er rétt að þetta hafi verið sett fram til þess. Í umræðum í morgun spurði einn hv. þingmaður Samfylkingarinnar hv. varaformann Vinstri grænna um afstöðu eins þingmanns Framsóknarflokksins og er rétt að geta þess að á mánudaginn var kom fram í umræðu um stjórnarskrána, í ræðu í þessum stól, frá formanni Samfylkingarinnar og frá þingflokksformanni Samfylkingarinnar, að þessar tvær tillögur sem komu á sama sólarhringnum frá þessum tveimur forustumönnum Samfylkingarinnar, voru óræddar á milli þessara aðila, hvorugur vissi af hinum. Ég get sagt það hér, vegna þess að ég hlýddi á mál þeirra á mánudaginn.

Það vekur furðu að hægt sé að leggja fram af tveimur forustumönnum sama flokks, sama stjórnarflokks, tvær tillögur. Önnur var þó fyrst og fremst send til umræðu, til að kanna hvort það væri umræðugrundvöllur, en hin var lögð fram sem breytingartillaga.

Það er rétt hjá hv. þingmanni að í þessari tillögu — síðasta setningin hljómar til að mynda svona:

„Slík leyfi skal veita á jafnræðisgrundvelli og þau leiða aldrei til eignar eða óafturkallanlegs forræðis.“

Í tillögu stjórnlagaráðs var talað um fullt gjald og annað í þeim dúr. Þá komu til að mynda fyrir atvinnuveganefnd ýmsir sérfræðingar, þeirra á meðal Magnús Thoroddsen. Þeir sérfræðingar sögðu að á grundvelli þeirrar greinar væri útilokað að úthluta kvóta með félagslegum hætti — byggðakvóti, strandveiðar, línuívilnun, allt mundi fara út af borðinu. Og það er spurning hvort þessi setning um jafnræði geri ekki nákvæmlega það sama, og það hlýtur að kalla á sérfræðiálit áður en menn setja eitthvað slíkt inn sem kollvarpar þeim kerfum sem við höfum verið með.



[16:45]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Þetta er eiginlega sú sama niðurstaða og ég komst að þegar ég fór að skoða þetta ákvæði, þetta orð „jafnræðisgrundvöllur“ segir mér að ekki megi úthluta mönnum leyfi til strandveiða nema þeir borgi sama gjald og til dæmis Grandi, og línuívilnun, það má ekki veita það nema það sé fyrir sama gjald, þannig að allir þessar pottar, pönnur og ívilnanir og ég veit ekki hvað sem menn hafa byggt upp — sumt hvert til að kaupa sér atkvæði — að það yrði allt saman að leggja niður. Mér sýnist að þá yrði ríkissjóður, ef hann ætlaði sér að vera með svona kerfi áfram, að kaupa veiðiheimildirnar á markaði og þá gæti hann alveg eins sett pening í eitthvað annað eins og til dæmis ræktun skóga eð eitthvað slíkt eða ferðaþjónustu eða eitthvað slíkt. Ég hugsa því að þessi breytingartillaga ein sér kunni að kollvarpa þeim félagslega þætti úthlutunar á kvóta sem við höfum byggt upp hér á landi, og það er mjög athyglisvert.

Mér finnst að menn geti ekki sett svona í stjórnarskrá án þess að vita þó alla vega hverjar afleiðingarnar eru og þess vegna finnst mér þetta vera mjög varasöm tillaga. Fyrir utan það, frú forseti, að ef breytingar á 79. gr. yrðu samþykktar mundu allar breytingar á stjórnarskránni verða að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu nema þessi. Þessi færi með ef hún yrði samþykkt, hún færi með og það mundi þá vera næsta þing sem mundi samþykkja hana en ekki þjóðin. Ég skil því ekki þá hugsun að taka kvótaúthlutunina eða auðlindaákvæðið út úr þeim ramma að þjóðin geti greitt um það atkvæði.



[16:47]
Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Því miður hefur umræðan um náttúruauðlindaákvæðið snúist allt of mikið um sjávarauðlindina, um kvótann, en ekki um auðlindir almennt, sem slíkt ákvæði hlýtur að taka tillit til. Ég hef sömu áhyggjur og hv. þingmaður af því að sú breytingartillaga við 79. gr., við breytingarákvæðið, þar sem fella á inn nýtt ákvæði um auðlindir í þjóðareigu frá þingflokksformönnum Vinstri grænna og Samfylkingar sé vanhugsuð, það sé ekki nægilega útpælt, að í því geti verið pyttir sem menn lenda í. Í þeim pyttum mundu menn ekki lenda ef þeir tækju upp niðurstöðu auðlindanefndar frá árinu 2000, ef ég má lesa hana, með leyfi forseta:

„Náttúruauðlindir og landsréttindi, sem ekki eru háð einkaeignarrétti, eru þjóðareign eftir því sem nánar er ákveðið í lögum. Handhafar löggjafar- og framkvæmdarvalds fara með forsjá, vörslu og ráðstöfunarrétt þessara auðlinda og réttinda í umboði þjóðarinnar.

Náttúruauðlindir og landsréttindi í þjóðareign má ekki selja eða láta varanlega af hendi til einstaklinga eða lögaðila. Þó má veita þeim heimild til afnota eða hagnýtingar á þessum auðlindum og réttindum gegn gjaldi, að því tilskildu að hún sé tímabundin eða henni megi breyta með hæfilegum fyrirvara eftir því sem nánar er ákveðið í lögum.“

Hér er aftur á móti möguleiki á því — eins og við framsóknarmenn viljum gjarnan gera og kemur fram í stefnu okkar, til að mynda í stjórn fiskveiða — að tryggja með einhverjum hætti að hægt sé að taka á þeim vanda sem kvótakerfið hefur skapað í byggðalegu tilliti. Við erum mjög efins um að þær aðferðir sem notaðar eru í dag séu nægilega góðar en þetta auðlindaákvæði mundi ekki banna slíkt, enda er þetta útpælt, úthugsað, legið hefur verið yfir því í langan tíma af bæði þingmönnum og þar til bærum sérfræðingum. En það er ekki hægt að segja um tillöguna sem dettur hér liggur við af himni ofan á mánudagsmorgni sem er önnur en formaður Samfylkingarinnar leggur fram á sunnudegi.



[16:49]
Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég vil nú byrja á að biðjast afsökunar á því að ryðjast skyndilega og óvænt inn í málþófsumræður hv. þingmanna sem auðvitað hafa hér vernd þingskapa og þeir hafa ánægju af hvor við annan, þessir tveir, og síðan aðrir á eftir.

En mér leikur forvitni á að fá að vita frá hv. þingmanni, varaformanni Framsóknarflokksins, hvað það er nákvæmlega sem greinir hann og Framsóknarflokkinn, sem meðal annars auglýsir núna að sameign þjóðarinnar á náttúruauðlindum verði tryggð, frá því ákvæði sem við erum að ræða um. Þegar ég les stefnu Framsóknarflokksins sé ég ekki betur en að hún speglist nokkurn veginn nákvæmlega í því ákvæði sem við erum að tala um.

Ég heyri að þingmaðurinn telur að jafnræðisprinsippið í ákvæðinu sé svo hættulegt að ekki verði skilgreindir þeir brýnu almannahagsmunir sem hægt sé að nota til að úthluta byggðakvóta. Er það það sem hann er hræddur um? Er eitthvað annað sem hann er hræddur um í því? Ég get fullvissað þingmanninn um að þetta er ekki svona hugsað og þetta leiðir það ekki af sér.

Þingmaðurinn talar um venjulega hagnýtingu. Hann nefndi það að vísu einhverju öðru orði en það var það sem hann átti við, hina venjulegu hagnýtingu. Þingmaðurinn veit alveg eins og ég að þessi orð eru tekin beint úr hæstaréttardómi um 1998-lögin. Við hvað er þingmaðurinn hræddur þar? Það er átt við að eignarráð manna á jörðum dugi til hinnar hefðbundnu hagnýtingar og ekki til einhverrar annarrar hagnýtingar. Í dómnum er fjallað, eins og þingmaðurinn auðvitað veit, um það hvort landeigandi hafi átt rétt á jarðvegi úr göngum sem boruð voru í landi hans. Hæstiréttur komst að því að það væri ekki venjuleg hagnýting og dæmdi honum það ekki sem hann sóttist eftir.

Hvað telur þingmaðurinn svona hættulegt við þetta orðalag?



[16:52]
Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég býst við að það sé rétt hjá hv. þingmanni að hann hafi ekki náð að hlýða á alla ræðu mína og kannski eru einhverjar spurninga hans sprottnar upp úr því. Ég get hins vegar fullyrt við hv. þingmann að ef við ætlum að nota þennan stól til að ná saman um þetta mál voru þau andsvör sem við hv. þm. Pétur H. Blöndal áttum hér saman einmitt til þess fallin því að þau skiluðu talsverðum árangri. Það skiptir máli. Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn eru ekki sammála um allt, ekki frekar en Vinstri grænir og Samfylkingin, að ég hélt. Ég hélt til dæmis að Samfylkingin væri jafnaðarmannaflokkur þannig að það hefur komið mér á óvart að samfylkingarmenn hafa gengið nokkuð á svig við það sem ég hélt að væri eðlileg jafnaðarmennska og gengið mun lengra í þá átt.

Ég ætla að nefna ástæðuna fyrir því. Hér er komið í dularbúningi inn í þingið frumvarp um breytingar á vatnalögum, það sem hefur verið kölluð samræming (Gripið fram í: Já.) en snýr að grundvallarbreytingum á eignarrétti. Einn okkar helsti sérfræðingur í landinu hefur sagt: Það er klárlega stjórnarskrárbrot og það er klárlega grundvallarbreyting sem hér á að eiga sér stað með litlu frumvarpi sem átti að lauma í gegn. Það vill svo til að þegar ég les, ólögfróður maðurinn, breytingartillögu þingflokksformannanna sé ég ákveðin líkindi á milli þeirra hugmynda sem eru í þessu samræmingarfrumvarpi til vatnalaga og þess náttúruauðlindaákvæðis í þjóðareign sem hér er lagt fram af þingflokksformönnum Vinstri grænna og Samfylkingarinnar. Það er öðruvísi en það ákvæði sem formaður Samfylkingarinnar lagði fram sem umræðugrundvöll deginum áður.

Það vakti mig til umhugsunar um hvort hér séu menn komnir á hálan ís á stuttum tíma án þess að hafa haft samráð við sérfræðinga, m.a. að taka hér inn tiltekna dýpt sem menn hafa gefist upp á, m.a. um þetta jafnræðissjónarmið sem ég heyri — á það að duga mér og þingmönnum öllum að hv. þm. Mörður Árnason segi að það sé í góðu lagi? Þurfum við ekki meiri yfirlegu áður en við setjum slíkt ákvæði (Forseti hringir.) inn í stjórnarskrá?



[16:54]
Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir þetta svar, meira að segja það að á síðari hluta ræðutíma síns komst hann út úr málþófsstellingunum. Svarið virðist vera það að honum er svo annt um að tryggja einkaeignarrétt á grunnvatni að þess vegna geti hann ekki fallist á orðalag eins og þarna er viðhaft upp úr hæstaréttardómnum, um venjulega hagnýtingu jarðar. Það er sérkennilegt og þingmaðurinn þarf þá að rökstyðja það fyrir okkur. Sumir hafa talið að 1998-lögin tryggðu þennan einkaeignarrétt. Það er ekki. Hæstiréttur komst að því — ég get ekki nefnt árið en ég skal sækja það fyrir hv. þingmann og sýna honum það — í sérstökum dómi sem ég nefndi áðan að svona væri þetta ekki, heldur næðu eignarráð landeigandans til hinnar venjulegu hagnýtingar, þar með ekki þeirrar hagnýtingar sem er óvenjuleg, t.d. djúpborunarhagnýtingar, ekki til þeirrar hagnýtingar jarðvegs sem felst í því að bora göng og taka jarðveginn út úr þeim.

Þetta er túlkun Hæstaréttar og með tillögu þingflokksformannanna og fleiru er meiningin að festa þá túlkun laganna í stjórnarskrá til að firra því að menn geti í krafti venjulegs eignarréttar á landi tekið sér eignarráð sem varða hagsmuni þjóðarinnar með miklu afdrifaríkari hætti en nokkuð það annað sem hægt er að gera ef maður á jörð. Það hygg ég að hv. þm. Sigurður Ingi Jóhannsson þekki ágætlega.

Nei, það er ekki svo, forseti, að ég sé garantíið fyrir því hvernig þetta lítur út. Það getur hv. þm. Sigurður Ingi Jóhannsson hins vegar sótt sér í þá umfjöllun sem þegar hefur verið um þetta ákvæði frá stjórnlaganefndinni til stjórnlagaráðsins og til hinnar miklu vinnu í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. (Forseti hringir.) Þar liggja fyrir svörin við þeim spurningum sem hv. þingmaður spyr mig.



[16:56]
Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nú má vel vera að í þeim leik að setja hér upp eitthvert málþófsleikrit hafi hv. þingmaður ruglast. Það er hv. þingmaður sem er að spyrja mig, en sá sem hér stendur ekki að spyrja hv. þingmann. Ég vona að hv. þingmaður líti ekki á þessi andsvör okkar sem málþóf, (MÁ: Alls ekki.) ekki frekar en andsvör okkar hv. þm. Péturs H. Blöndals. Hér erum við að skiptast á skoðunum um eitthvað sem skiptir máli.

Við hv. þingmaður erum sannarlega ósammála um margt. Það sem kemur mér á óvart, þar sem hann er í jafnaðarmannaflokki sósíaldemókrata, er að hann skuli ekki geta sætt sig við að hér á landi gildi sömu réttindi um vatn og til að mynda í hinu norræna ríki Danmörku, eins og ég nefndi í ræðu minni. Mér kemur á óvart að við getum ekki sætt okkur við að setja almennar leikreglur um hvernig á að tryggja almannarétt og almannagæði. Það kemur mér á óvart að ekki sé hægt að gera það.

Um almenn hagnýt not af landi, vatni (MÁ: Venjulega hagnýtingu.) eða eitthvað slíkt hef ég það að segja að ef viðkomandi hefði fengið bor og borað til að selja efnið hefði það sennilega talist hagnýting en vegna þess að það var afrakstur einhvers annars aðila að bora göng þótti það ekki eðlileg hagnýting. Ég tek undir það.

Ég veit að hv. þingmaður getur ekki svarað mér en ég varpa þessu þá bara fram í umræðuna: Það eru til aðilar sem þurfa að bora 10 metra niður í jörðina eftir köldu vatni eða heitu. Það eru til aðilar sem þurfa að bora 100 metra ofan í jörðina eftir heitu eða köldu. Það eru til borholur á Íslandi hjá einkaaðilum sem eru 1.000 metra djúpar og þær hafa jafnvel ekki skilað neinu vatni og þeir velta fyrir sér að bora 500 metra til viðbótar. Hvað þýðir þetta ákvæði þingflokksformannanna ef þeir bora 1.500 metra? Er það þá komið yfir tiltekna dýpt til venjulegra hagnýtra nota á þessari bújörð? Hver er skilgreining hv. þingflokksformanna og hv. þingmanns á tiltekinni dýpt? Ég held að þarna séum við komin út á hálan ís. (MÁ: Hver er skilgreiningin á mjólk?) (Gripið fram í.)



[16:59]
Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég held að í þessum andsvörum sem fóru hér á undan hafi kristallast sá hugmyndafræðilegi vandi sem við erum í hér í þinginu, við höfum ekki farið í þá vinnu að setjast í sameiningu yfir það með hvaða hætti eigi að breyta stjórnarskránni, heldur höfum við unnið það á allt annan hátt en gert hefur verið hingað til. Síðan hefur verið reynt að keyra mál í gegnum þingið án þess að reyna að ná samstöðu um það innan þessara veggja og þess vegna er málið allt í hnút, búið að vera í hnút og verður áfram í hnút. Sú umræða sem fór fram um skilgreininguna á því hver eru almenn not eða hefðbundin not, eins og hv. þingmenn fóru yfir varðandi réttindi yfir vatni, er dæmi um hnútinn. Þetta eru engin smámál sem er hægt að tala um á léttvægan hátt eins og mér þótti hv. þm. Mörður Árnason gera áðan. Eignarrétturinn er friðhelgur og við eigum að bera virðingu fyrir honum.

Frú forseti. Við ræðum frumvarp til stjórnarskipunarlaga og við erum að ræða nýja stjórnarskipunarlagafrumvarpið, þ.e. hið minna sem er flutt af hv. þm. Árna Páli Árnasyni og hæstv. ráðherra Katrínu Jakobsdóttur ásamt hv. þm. Guðmundi Steingrímssyni, þar sem fjallað er um að bara verði gerðar breytingar á breytingarákvæði stjórnarskrárinnar. Það er rökstutt með þeim hætti að þetta verði ákvæði um stundarsakir og þetta frumvarp sé flutt í þeim tilgangi að ná sem víðtækastri sátt á Alþingi um framhald og lyktir þeirrar víðtæku endurskoðunar stjórnarskrárinnar sem staðið hefur undanfarin ár. Þess vegna telja tillöguflytjendur nauðsynlegt að setja nýtt bráðabirgðaákvæði inn í stjórnarskrána um að hægt sé að breyta henni á einhvern sérstakan hátt fram til 30. apríl 2017. Það er hugsunin á bak við frumvarpið eins og það kemur frá tillöguflytjendum og ég kaupi ekki alveg þann rökstuðning, frú forseti, að það þurfi eitthvert sérstakt breytingarákvæði inn í stjórnarskrána, eitthvert bráðabirgðabreytingarákvæði. Ég skil ekki alveg rökstuðninginn fyrir því vegna þess að breytingarákvæði stjórnarskrárinnar eins og það er hefur nýst okkur hingað til. Þrátt fyrir að ég hafi eingöngu fengið að halda eina ræðu í þessu þingi um stóra málið um breytingar á stjórnarskránni valdi ég mér við það tilefni að tala nær eingöngu um breytingarákvæði stjórnarskrárinnar vegna þess að ég tel að það sé eitt mikilvægasta ákvæði núverandi stjórnarskrár.

Mig langar í stuttu máli að fara aðeins yfir það hvers vegna ég tel það vera. Núverandi ákvæði stjórnarskrárinnar um það hvernig á að breyta stjórnarskrá er á þann veg að tvö þing þurfa að samþykkja stjórnarskrárbreytingar. Meginhugsunin á bak við það er að það er erfitt að breyta stjórnarskránni. Ástæðan fyrir því að menn, sem byggja lýðræðisríki þar sem er í gildi stjórnarskrá, telja að það sé heppilegt að það sé erfitt að breyta stjórnarskránni, þ.e. rökin á bak við það eru þau að þær kenningar hafa verið ríkjandi í stjórnskipunarrétti að það eigi ekki að vera auðvelt að breyta stjórnarskrá. Ég er sammála því grundvallarsjónarmiði.

Þau ríki sem búa við stjórnarskrárbundið lýðræði og hafa skráða stjórnarskrá eru jafnan með þannig reglur að það er mjög vandað til þess með hvaða hætti menn breyta stjórnarskrá. Ákvæðin eru stíf og það er sjaldgæft að miklar breytingar séu gerðar í einu á stjórnarskránni. Rökin að baki því að hafa ákvæðin svona stíf eru þau að reglunum er ætlað að stuðla að því að það náist samstaða og sátt meðal þjóðarinnar og löggjafans um þær breytingar sem ætlunin er að gera á stjórnarskrá. Þetta er gert vegna þess að stjórnarskrá hvers ríkis er grundvöllur undir allt annað, grundvöllurinn undir samfélaginu og grundvöllurinn undir annarri löggjöf sem sett er. Þess vegna er mikilvægt að stjórnarskrá sé stöðug þannig að fólk viti hvar það stendur, það viti að minnsta kosti hvar grunnurinn er þó að almenn löggjöf geti breyst í takt við tímana. Þetta er ástæðan fyrir því að lýðræðisríki sem hafa skráða stjórnarskrá eru jafnan með þannig reglur að það er erfitt að breyta henni. Þess vegna tel ég rétt að það eigi að vera erfitt að breyta stjórnarskránni og er mjög íhaldssöm þegar kemur að því að ræða það að breyta breytingarákvæði stjórnarskrárinnar.

Stjórnarskrár eru einnig að mínu mati oft betri eftir því sem þær eru styttri. Stjórnarskráin sem er í gildi í landinu, og ég hef ásamt öllum öðrum þingmönnum undirritað drengskaparheit að, er ekki löng. Hún er tiltölulega stutt og skýr að flestu leyti. Ég tel að hún hafi gefist okkur ágætlega og ég tel engin efnisleg rök fyrir þeim fullyrðingum að stjórnarskráin hafi að einhverju leyti orðið til þess að hér féllu íslensku bankarnir. Ég tel ekki neitt samhengi þar á milli og hafna því þess vegna að það sé brýn nauðsyn á því að endurskoða stjórnarskrána frá grunni.

Stutt og skýr stjórnarskrá hefur þann kost að hún er skiljanleg flestöllum og hefur þann ótvíræða kost að það er auðvelt að fletta upp í henni og auðvelt að hafa hana með sér hvert sem maður fer, eins og fjölmargir þingmenn gera. Maður hefur orðið vitni að því að þeir eru með litla stjórnarskrárkverið með sér. Í þessari umræðu hefur verið fullyrt, í fjölmiðlum og víðast hvar, að ekki hafi tekist í gegnum tíðina að breyta stjórnarskránni á nokkurn hátt og það sé vegna þess að þingið sé svo íhaldssamt og sjálfstæðismenn alltaf svo erfiðir þegar kemur að því að ræða um breytingar á stjórnarskránni. Ef það er rétt að sjálfstæðismenn séu þungir í spori þegar á að fara að breyta stjórnarskránni er ég bara ánægð með það vegna þess að það er þá í samræmi við þau gildi sem almennt eru ríkjandi í stjórnskipunarrétti, að það eigi ekki að vera auðvelt að breyta stjórnarskrá. Þá er ég stolt af því að vera íhaldssöm hvað þetta varðar vegna þess að stjórnarskráin er grunnur og kjölfestan í því sem við gerum í þinginu.

Afleiðingarnar af því að hafa breytingarákvæðið jafnstíft og það er í okkar stjórnarskrá hafa verið þær að menn hafa þurft að setjast niður saman, finna sameiginlegar leiðir og lausn á því með hvaða hætti góð stjórnarskrá getur orðið betri. Það hefur skilað árangri, það vinnulag tel ég miklum mun betra en það vinnulag sem menn hafa tíðkað hér á þessu kjörtímabili og skilað meiri árangri vegna þess að stjórnarskrá á ekki að taka kollsteypur varðandi breytingar í einu lagi.

Það að það þurfi að boða til kosninga á milli þess sem málið er tekið fyrir og síðan samþykkt í síðari umræðu hefur veitt Alþingi aðhald. Það aðhald hefur þýtt það hingað til að alþingismenn hafa ekki hlaupið til eftir því hvaða stemning er í samfélaginu þann daginn, hvernig skoðanakannanir mæla að menn hafi viðhorf til ákveðinna hluta þann daginn, heldur hafa menn tekið yfirvegaðar ákvarðanir um breytingar.

Þegar ég hlusta á umræðuna hér í dag og þau andsvör sem birtust okkur rétt í þessu sé ég að umræðan er alls ekki yfirveguð. Umræða um auðlindaákvæði í stjórnarskrá er ekki yfirveguð. Menn í salnum töluðu um vatnsréttindi og hv. þm. Sigurður Ingi Jóhannsson kallaði eftir því að menn skilgreindu hvað átt væri við með þeim og hvað menn sem flyttu þetta breytingarákvæði við það frumvarp sem við ræðum ættu við. Hvað þýðir það gagnvart nýtanleika vatns, hve djúpt mætti bora? Þeirri áskorun var varpað fram hér að það þyrfti að skilgreina þetta. Þá kallaði hv. þm. Mörður Árnason fram í: Hver er skilgreiningin á mjólk? Ég sé ekki, frú forseti, að þetta sé yfirveguð umræða og ég sé ekki að svona umræða skili nokkrum sköpuðum hlut. Hún skilar íslensku þjóðinni varla nokkrum árangri og þetta sýnir mér enn og aftur á hve miklum villigötum málsmeðferðin um þetta allt saman hér er. Þetta er sjálf stjórnarskráin sem við erum að tala um og þegar af þeirri ástæðu eiga menn að vanda sig sérstaklega vel.

Frú forseti. Ég held að mér sé óhætt að segja að það séu tvö ár síðan ég byrjaði að kalla eftir því í forsætisnefnd að við fengjum tímasetta áætlun um það með hvaða hætti þeir sem fara með verkstjórnina, og höfðu mikið fyrir því að komast yfir hana, sæju fyrir sér framgang málsins í þinginu. Það var orðið ljóst að stjórnarskrármálið kæmi inn í þingið áður en kjörtímabilið yrði á enda vegna yfirlýsinga frá ríkisstjórnarflokkunum. Lengi framan af kjörtímabili kölluðum við eftir því og veltum fyrir okkur hvenær Alþingi fengi málið til umræðu, hvenær alþingismenn sem fara með stjórnskipunarvaldið fengju að segja sínar skoðanir á stjórnarskránni. Við þekkjum hversu seint málið kom inn í þingið og hversu lítill tími hefur verið gefinn til umræðu um þetta mál eins og ég vitnaði til áðan. Ég hef áður haldið eina ræðu um stóra málið. Ég kallaði eftir því að eitthvert slíkt plan yrði lagt fram. Það var aldrei gert. Ég kallaði eftir því í forsætisnefnd og það var kallað eftir því frá stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd en það plan kom aldrei.

Síðan gerist það eftir áramótin að málið er sent til umsagnar í Feneyjanefndinni og ef það hefði legið fyrr fyrir hefði hugsanlega verið hægt að tímasetja betur og halda betur utan um þetta verkefni. Hefðu menn vitað að þeir ætluðu til dæmis að senda þetta inn í Feneyjanefndina hefði kannski verið hægt að áætla hvenær málið yrði síðan tækt til umræðu í þinginu. Í staðinn erum við með það hér á þeim handahlaupum sem það hefur verið frá því að það kom fram. Þetta eru vinnubrögð sem ég skil einfaldlega ekki. Ég held að menn hafi ekki áttað sig á því út í hvað þeir voru að fara, það er mín tilfinning, fyrst það kom aldrei nein áætlun um það hvað menn ætluðu að gera, hvernig þeir ætluðu að gera það og í hvaða röð. Þá birtist það mér þannig að þetta hafi einfaldlega verið tilviljunum háð. Af því hef ég enn meiri áhyggjur, að menn skuli fara þannig með breytingar á stjórnarskránni, að menn skuli fara þannig með svo miklar breytingar á stjórnarskránni að það má kalla það allsherjarendurskoðun. Það að koma þannig fram í þessu stóra máli finnst mér ekki góð vinnubrögð.

Frú forseti. Stóra málið er ekki undir hér í þessu frumvarpi sem flutt er en hins vegar kemur allt stóra málið inn í þó nokkuð breyttri mynd með breytingartillögu frá hv. þm. Margréti Tryggvadóttur sem ég ætla að ræða aðeins á eftir ef tími vinnst til.

Frú forseti. Það varð talsverð umfjöllun um breytingarákvæðið og hvernig það leit allt öðruvísi út í stóra málinu sem lagt var fram. Það bárust margar athugasemdir sem gefur að líta yfirlit yfir meðal annars í nefndaráliti meiri hlutans. Þar komu fram vangaveltur frá meiri hlutanum um það hvernig breytingarákvæðið ætti hugsanlega að vera. Þar komu fram hugmyndir um að það ættu að vera tvær aðferðir við að breyta stjórnarskrám, önnur hvað varðar stjórnarskrána að undanskildum mannréttindakaflanum og hin aðferðin varðandi mannréttindakaflann sérstaklega. Það er sem betur fer ekki tillagan sem er lögð fram í þessu frumvarpi sem við ræðum en engu að síður, ef það verður samþykkt að búa til bráðabirgðaákvæði um stjórnarskrárbreytingar, erum við samt komin með tvær aðferðir til að breyta stjórnarskrá. Og mér finnst það miður. Þó að sú tillaga sem hér liggur fyrir sé skárri en það að vera með varanlega tvær aðferðir við að breyta stjórnarskrá, þar sem köflum stjórnarskrárinnar er mismunað þannig að draga megi þá ályktun að það sé a-hluti stjórnarskrár og b-hluti stjórnarskrár þar sem annar hlutinn er merkilegri en hinn, er hún þó ekki meira en það. Því ber auðvitað að fagna að sú hugsun hafi ekki ratað inn í það frumvarp sem við hér ræðum en auðvitað gæti það alveg komið inn í stærra máli sem þá væri hægt að fara með í gegn í krafti bráðabirgðaákvæðisins sem hér er lagt til að verði samþykkt. Það getur sem sagt orðið einfalt að breyta breytingarákvæði stjórnarskrárinnar varanlega með aðferðafræði bráðabirgðaákvæðisins.

Það er ýmislegt sem þarf að hafa í huga við umræðuna á þessu máli en margir ágætir þingmenn hafa blandað sér í umræðuna og við sjáum að meiri hluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar leggur fram breytingartillögu á frumvarpinu á þskj. 1270. Þar er gert ráð fyrir því að í staðinn fyrir að hér verði til nýtt ákvæði um stundarsakir á þann veg sem hv. þingmenn Árni Páll Árnason, Katrín Jakobsdóttir og Guðmundur Steingrímsson leggja til komi inn ákvæði þar sem gert er ráð fyrir að 2/3 hlutar Alþingis samþykki frumvarp til stjórnarskipunarlaga og þá fari það í þjóðaratkvæðagreiðslu og hún skuli fara fram innan tiltekins tíma. Það er tekið fram að til þess að frumvarpið teljist samþykkt þurfi það að hafa hlotið meiri hluta gildra atkvæða í þjóðaratkvæðagreiðslu en ekki 2/3 eins og gert er ráð fyrir í frumvarpinu sem þrír forustumenn flokka leggja fram. Í breytingartillögunni er jafnframt gert ráð fyrir lágmarksþátttöku í kosningunum, að það séu 25 af hundraði allra kosningarbærra manna sem taka þátt. Lágmarkinu, að hafa bara 25 af hundraði, sem þátttökuþröskuldi er mótmælt í nefndarálitinu af einum nefndarmanni þar sem hún gerir fyrirvara við það sérstaklega. Hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir gerir athugasemd við það að tillögunni frá forustumönnunum þrem sé breytt á þennan hátt. Ég skil þá ekki hvernig sá þingmaður getur stutt þessa breytingartillögu af því að þetta er að því er mér sýnist megininntakið í frumvarpinu sem lagt er fram. Þar kemur fram varðandi þjóðaratkvæðagreiðsluna að það þurfi 3/5 hluta greiddra atkvæða í þjóðaratkvæðagreiðslunni til að það teljist samþykkt og síðan skal það staðfest af forseta Íslands innan tveggja vikna. Í breytingartillögu meiri hluta nefndarinnar er ekki gert ráð fyrir slíku, heldur því að til þess að frumvarpið teljist samþykkt þurfi það að hafa hlotið meiri hluta gildra atkvæða í þjóðaratkvæðagreiðslunni, þó minnst atkvæði 25 af hundraði allra kosningarbærra manna.

Þarna er þó verið að reyna að setja inn þröskuld, þarna er sýnd viðleitni í þá átt að það sé stíf regla um að það sé þó einhver lágmarksþátttaka í þessari þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég fagna þeirri hugsun en skil ekki hvernig einstakir nefndarmenn skrifa upp á nefndarálitið þegar þeir eru ósammála megininntaki breytinganna sem lagðar eru til og eru flutningsmenn breytingartillögunnar.

Þetta er afskaplega sérkennilegt, frú forseti.

Aðrir þingmenn hafa jafnframt fleygt fram hugmyndum um breytingarákvæði. Hv. þm. Pétur H. Blöndal hefur velt því upp í umræðunni hvort það eigi að hafa þröskuldana þannig að samþykki Alþingi frumvarp til stjórnarskipunarlaga með minnst 40 atkvæðum alþingismanna verði gengið til þjóðaratkvæðagreiðslu, hún fari fram innan ákveðins tíma og það þurfi 5/10 allra kosningarbærra manna til að samþykkja slíka breytingu. Þá telst hún gild stjórnarskipunarlög þegar forseti Íslands hefur undirritað, en ef ekki skuli nýtt Alþingi að loknum næstu almennu alþingiskosningum taka breytinguna til atkvæða. Við heyrum að það er talsverður munur á kröfunum gagnvart þátttöku í kosningunum og jafnframt gagnvart stuðningi við málið á þingi. Hér erum við því að tala um umtalsvert stífari kröfur og stífara breytingarákvæði en við sjáum bæði í frumvarpinu og breytingartillögu meiri hluta nefndarinnar. Það er hugmynd sem þingmenn gætu sest yfir og rætt en mér skilst að engar slíkar umræður standi yfir.

Það er mjög mikilvægt að gera þær athugasemdir við tillögu nefndarinnar að ekki sé krafist ákveðinnar viðveru og ákveðins atkvæðafjölda í þinginu. Það verður að vera innbyggt í tillögu sem á að vera hægt að ræða um, ef maður er þess fylgjandi að ræða breytingartillögu við breytingarákvæði stjórnarskrár á annað borð. Svo er það hitt, að þessi breytingartillaga frá nefndinni þýðir jafnframt að það er hægt að velja á milli tveggja aðferða við það að breyta stjórnarskránni.

Nú er ég alveg hætt að skilja hugmyndafræðina að baki þessum tillöguflutningi öllum vegna þess að hér erum við aftur komin í það sem ég talaði um fyrr í ræðu minni þar sem ég gagnrýndi stóra frumvarpið og breytingartillöguna sem kom fram við breytingarákvæðið um að það ættu að vera tvær deildir í stjórnarskránni eftir því hvaða kafla væri verið að breyta. Hér er sú hugsun komin inn án þess að skilgreina hvenær hvor aðferð á að vera í notkun. Það er ekki til að einfalda hlutina.

Svo er enn ein tillaga um stjórnarskrárbreytingar, breytingartillaga hv. þm. Margrétar Tryggvadóttur. Miðað við tillögu þingmannsins ætti það þá að verða 115. gr. Hér kemur fram að þingmaðurinn telur best að hafa þetta þannig að þegar Alþingi hafi samþykkt frumvarp til laga um breytingu á stjórnarskrá með 3/5 hlutum greiddra atkvæða skuli það borið undir atkvæði allra manna í landinu til samþykktar eða synjunar, þ.e. sama hlutfall og í tillögu hv. þm. Árna Páls Árnasonar og félaga. Engin krafa er um lágmark atkvæðagreiðenda í þingsalnum. Svo er sama tímasetning á þjóðaratkvæðagreiðslunni en síðan er gert ráð fyrir því í tillögu Margrétar Tryggvadóttur að verði frumvarpið samþykkt með 3/5 hlutum greiddra atkvæða í þjóðaratkvæðagreiðslunni skuli það staðfest af forseta Íslands innan tveggja vikna og teljist þá gild stjórnarskipunarlög. Hér er ekki gerð nein krafa um lágmarksþátttöku í þjóðaratkvæðagreiðslunni.

Þegar ég flutti ræðu mína um stóra málið um stjórnarskipunarlögin, heildarbreytingarnar, og eyddi lunganum af ræðu minni í að ræða um breytingarákvæðið man ég að hv. téður þingmaður, Margrét Tryggvadóttir, sem flytur þessa tillögu kom í andsvar við mig og var að velta fyrir sér þessum hugmyndum og hugarfari sem ég hef gagnvart breytingartillögum. Mér þótti hv. þingmaður skilja mjög vel að það þyrfti að vera þröskuldur og að það ætti að vera erfitt að breyta stjórnarskránni. Þess vegna kemur mér svolítið á óvart að sjá í breytingartillögu frá þeim hv. þingmanni að breytingarákvæði skuli í hennar hugmyndafræði vera með þessum hætti. Það veldur mér ákveðnum vonbrigðum, frú forseti.

Tíminn styttist og það er erfitt að velja hvað ég næ að tala um. Varðandi breytingartillögu hv. þm. Margrétar Tryggvadóttur að öðru leyti verður að segja, frú forseti, að komi hún til atkvæða í þinginu og verði hún samþykkt erum við allt í einu í þeirri stöðu að búið verður að samþykkja heildarbreytingar á stjórnarskránni. Svo munu fara fram alþingiskosningar og nýtt þing koma saman sem þarf þá að taka afstöðu til þess hvort það vilji staðfesta þær breytingar. Verði það raunin sitjum við uppi með stjórnarskrá án nokkurrar greinargerðar og án þess að nokkur útskýring sé á því hvað þessi stjórnarskrá þýðir. Ég verð að segja að þrátt fyrir að það megi hrósa hv. þingmanni fyrir hugvitssemina, að leggja þetta mál fram í heild sinni sem breytingartillögu, finnst mér það ekki fara saman við það að hv. þm. Margrét Tryggvadóttir hefur haft mikinn áhuga á því að breyta stjórnarskránni og hefur sagt í ræðustól að hún hafi mikla löngun til þess að vanda til verka o.s.frv. Mér finnst þessi breytingartillaga þingmannsins ganga algerlega í berhögg við þau orð. Við þekkjum það að í þessum heildarbreytingum eru fjölmargar tillögur og stóra málinu var skipt. Þó að það sé ekki efnislega að öllu leyti sambærilegt breytingartillögu hv. þm. Margrétar Tryggvadóttur var stóra málinu skipt upp á milli nefnda Alþingis. Nefndirnar fjölluðu um þau ákvæði er vörðuðu starfssvið nefndarinnar á að giska.

Ég sit í velferðarnefnd og þar var fjallað um ýmis ákvæði, sérstaklega þau er varða félagsleg réttindi. Mannréttindi hafa verið skilgreind að tvennu leyti, annars vegar sem réttindi sem eru eldri og við þekkjum vel og hafa verið í stjórnarskrám ríkja í lengri tíma og hins vegar félagsleg réttindi sem eru ekki jafn vel skilgreind og hefur í rauninni ekki verið látið reyna á í nægjanlega miklum mæli. Þess vegna er enn mikilvægara að skilgreiningar á borgaralegu réttindunum, slíkum ákvæðum í stjórnarskrá, séu til.

Af lestri mannréttindakafla breytingartillögu Margrétar Tryggvadóttur við stjórnarskipunarlögin er erfitt að átta sig á því hvernig á að túlka ýmis ákvæði sem þar koma fram. Kaflinn inniheldur ýmis réttindi, félagsleg réttindi, efnahagsleg réttindi og svokölluð þriðju kynslóðar réttindi sem hafa í raun ekki skýra merkingu vegna þess að löggjöf og dómstólar eiga eftir að gefa þá merkingu. Í kaflanum eins og hann liggur fyrir í breytingartillögu hv. þm. Margrétar Tryggvadóttur er ekki gerður nægilega skýr greinarmunur á þessum flokkum mannréttinda, þ.e. hinum hefðbundnu, borgaralegu og stjórnmálalegu réttindum annars vegar og hins vegar þessum þriðju kynslóðar réttindum. Þess vegna hefði verið, og er, algjörlega nauðsynlegt að stjórnarskrá sem á að fela í sér slík ákvæði hafi greinargerð þannig að allir landsmenn geti áttað sig á því hvað stjórnarskráin þýðir í raun.

Síðan sé ég að í 37. gr. í breytingartillögu þingmannsins, í mannréttindakaflanum sýnist mér, er ákvæði um dýravernd. Mér finnst það afskaplega sérkennilegt. Mér þykir vænt um dýr, ég á rætur í samfélagi þar sem dýr voru hluti af daglegu lífi en ég hefði aldrei haft hugmyndaflug í að setja ákvæði eins og þetta í stjórnarskrána, í mannréttindakaflann. Ég átta mig ekki alveg á hvernig það á að fara saman við almenna hugsun.

Það er hægt að fjalla í löngu máli um þær breytingar sem hv. þm. Margrét Tryggvadóttir leggur fram, en það er kannski efni í aðra ræðu vegna þess að hér er svo margt undir, svo margt sem þarf að koma fram. Ég óska eftir því, herra forseti, að vera þegar sett á mælendaskrá aftur og þegar ég hef lokið ræðu minni ætla ég að taka það sérstaklega í seinni ræðu minni í stað þess að eyða tíma mínum hér í það.

Nú er ein breytingartillaga sem ég á eftir að fjalla um, breytingartillaga frá hv. þingmönnum Oddnýju G. Harðardóttur, Álfheiði Ingadóttur, Árna Þór Sigurðssyni og Skúla Helgasyni. Hér er sett fram tillaga að auðlindaákvæði og það er rétt að það komi fram að allir flokkar hafa lýst því yfir að þeir telji rétt að setja ákvæði um þetta í stjórnarskrána. Það þýðir hins vegar ekki að menn samþykki bara þá útfærslu sem fram kemur af hálfu einhverra tilviljunarkenndra fjögurra þingmanna sem setjast saman niður, skrifa upp einhvern texta og skilja svo ekkert í því af hverju aðrir þingmenn samþykki þetta ekki, augljóslega, þar sem hér er komin fram tillaga að auðlindaákvæði. En þetta er ekki eina tillagan sem liggur fyrir. Það er önnur í breytingartillögunni frá hv. þm. Margréti Tryggvadóttur og svo skilst mér að framsóknarmenn hafi jafnframt á einhverjum tímapunkti fjallað um þetta málefni. Svo höfum við sjálfstæðismenn lýst því yfir í langan tíma að við séum tilbúin að setjast yfir það með fulltrúum annarra flokka að búa til slíkt ákvæði.

Hins vegar hefur ekki verið valin sú leið að setjast niður og reyna að sætta þessi sjónarmið, því miður, heldur sú leið að skella einhverju fram og skilja síðan ekkert í því að menn skuli ekki gleypa tillöguna hráa. Ég tel að miðað við það í hvaða málum við erum hér og hvar málið er statt akkúrat þessa stundina hljótum við að geta dregið þann lærdóm af þessu ferli og þeirri stöðu sem þetta mál er komið í hér í þinginu að fyrri aðferðin, gamla góða aðferðin við að setjast saman í rólegheitunum á yfirvegaðan hátt yfir stjórnarskrárbreytingar og velta upp hugmyndum sé vænlegri til árangurs.

Halda menn virkilega að það verði til góðs að knýja fram atkvæðagreiðslu um þessa breytingartillögu frá þessum fjórum hv. þingmönnum? Telja menn virkilega að það verði til góðs að sú breytingartillaga verði hugsanlega samþykkt með eins atkvæðis mun í þingsalnum? Telja menn virkilega að það sé gott að samþykkja þessa tillögu vitandi það að ekki sé sátt um hana? Telja menn að það sé gott í ljósi þess að menn vita að fram undan eru alþingiskosningar og að nýtt þing muni síðan taka afstöðu til þessarar breytingartillögu? Á meðan nýtt þing hefur ekki gert það ríkir stjórnskipuleg óvissa um hvort þetta ákvæði sé í gildi og verði í gildi í framtíðinni eða ekki. Telja menn virkilega að þetta sé góð aðferð? Ég tel það ekki. Ég tel að menn eigi frekar að fara gömlu góðu leiðina, leið sátta, setjast niður og reyna að finna sameiginlega útfærslu á því með hvaða hætti megi skrifa slíkt ákvæði inn í stjórnarskrá.

Frú forseti. Í meginatriðum vil ég segja um þetta frumvarp og síðan breytingartillöguna við það, sem felur í raun í sér allsherjarbreytingu á málinu, að ég tel farsælla að viðhafa áfram það verklag að það sé erfitt að breyta stjórnarskrá. Ég sé engin rök sem standa til þess að breyta út frá þeirri hugmyndafræði og þeirri íhaldssemi sem gildir og hefur gilt í stjórnskipunarrétti víðast hvar í lýðræðisríkjum þar sem eru skrifaðar stjórnarskrár sem felst í því að það á að vera erfitt að breyta stjórnarskrá. Breytingarákvæði hverrar stjórnarskrár er eitt mikilvægasta ákvæðið, ef ekki það almikilvægasta.

Ég tel að það fari betur á því að menn gefi sér tíma, setjist saman yfir efnislegar breytingar á efnislegum ákvæðum stjórnarskrárinnar en að menn fari á handahlaupum að samþykkja handahófskenndar tillögur sem lagðar eru fram á síðustu stundum þessa kjörtímabils. Ég tel það verklag ekki til fyrirmyndar og ég tel það sýna — vanvirðing er kannski aðeins of sterkt orð en það er eina orðið sem ég held að nái yfir það gagnvart stjórnarskránni okkar sem er í gildi og við hér höfum undirritað drengskapareið að.



[17:39]
Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Það er að sjálfsögðu margt sem þarf að hafa í huga og margt sem ber að varast þegar stjórnarskrá, grundvallarlögskýringargagni landsins er breytt og þarf eðlilega að gera kröfu um að vandað sé til verka. Í andsvari fyrr í dag benti hv. þm. Sigurður Ingi Jóhannsson á ákveðna hluti í breytingartillögu hv. þm. Oddnýjar G. Harðardóttur, Álfheiðar Ingadóttur, Árna Þórs Sigurðssonar og Skúla Helgasonar. Þar segir, með leyfi forseta:

„Með lögum má kveða á um þjóðareign á auðlindum undir tiltekinni dýpt frá yfirborði jarðar.“

Með lögum má kveða á um. Þegar um svona ræðir þarf löggjafinn þá ekki að hafa skýrari fyrirmæli eða skýrari mynd af því hvað þeir sem semja slíka tillögu hafa í huga? Tiltekin dýpt undir yfirborði jarðar getur væntanlega verið nokkrir tugir sentimetra, metri eða hundruð metra. Hvað er nákvæmlega átt við með því? Ég spyr því þingmanninn hvort hún sé á þeirri skoðun að orðalagið dugi til dæmis til að skýra hvað og hvenær má kveða á um þjóðareign í lögum og hvort eðlilegt sé að leggja það í hendur löggjafans að ákveða hvort það eru 50 sentimetrar undir yfirborði jarðar eða 500 metrar. Það er eitt af því sem hefur verið bent á og það hefur verið bent á annað í þeirri tillögu en ég ætla að láta þetta duga í fyrra andsvari.



[17:41]
Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það hefur verið litið svo á í eignarréttinum að hann takmarkist af því hvernig er hægt að nýta land. Það hefur þróast þannig í gegnum tíðina að með aukinni tækni, auknu hugviti og framtaki einstaklinganna hefur eignarrétturinn auðvitað breyst. Ég tel að tillagan sé óskýr og tek undir það sem kom fram í máli hv. þm. Sigurðar Inga Jóhannssonar í dag að hana þyrfti að skoða betur, sérstaklega í ljósi frammíkalla hv. þm. Marðar Árnasonar sem kallaði fram í, þegar hv. þm. Sigurður Ingi Jóhannsson kallaði eftir því að eignarrétturinn yrði skilgreindur og sérstaklega hvað varðar vatnið, og spurði hver skilgreiningin væri á mjólk og líkti því tvennu saman, eignarréttinum gagnvart vatnsréttindum annars vegar og hins vegar á framleiðsluvöru sem við þekkjum úr landbúnaði og er tiltölulega einfalt að skilgreina. Ég tel að í því litla en áhrifaríka frammíkalli birtist okkur sú staðreynd að hv. þingmaður ber ekki meiri virðingu fyrir eða hefur ekki skilning á því hvað eignarréttur á auðlindum er.



[17:43]
Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að viðurkenna að ég missti af frammíkallinu sem hv. þingmaður nefndi. Það sem stendur nokkuð upp úr í viðbrögðum þingmanna við hugmyndum sem hafa komið fram í ræðum um eignarrétt og óbeinan eignarrétt er að einhver allverulegur misskilningur virðist vera á ferðinni um þau hugtök. Ef hv. þingmenn ætla sér að skilgreina mjólkurframleiðslu sem náttúruauðlind og þjóðareign verða þeir væntanlega að svara því hvort sá sem nyti þess réttar að framleiða mjólk nyti þá óbeins eignarréttar á þeim heimildum sem hann hefur til að framleiða mjólkina eða hvort viðkomandi nýtur, eftir kannski margra alda framleiðslu á mjólk á viðkomandi búi, ekki þó sami maður náttúrlega, einhvers konar annarra réttinda en óbeins eignarréttar.

Samlíkingin er nokkuð langsótt hjá hv. þingmanni sem kallaði fram í. Við hljótum hins vegar að þurfa að velta því fyrir okkur hvort þeir einstaklingar eða aðilar í íslensku samfélagi sem taka að sér að nýta auðlindir, t.d. heita vatnið, hafi leyfi til þess frá ríkisvaldinu, hvort þeir hafi ekki einhver réttindi meðan þeir fylgja reglum eða sjá um þá framleiðslu sem þeir hafa óskað eftir og lagt kostnað í. Við hljótum líka að spyrja okkur hvaða líkur eru á miklum framförum af hálfu einstaklinga ef óbeinn eignarréttur þeirra á einhvers konar nýtingu — ekki auðlindinni, ég tel að allir séu sammála um að enginn slíkur eignarréttur myndast á auðlind heldur fyrst og fremst nýtingarréttur, að hann sé varinn óbeinum eignarrétti. (Forseti hringir.) Þá hljótum við að velta fyrir okkur hversu djúpt hv. þingmenn sem flytja tillöguna ætla að fara undir yfirborð jarðar til að afnema þann rétt.



[17:45]
Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að í grunninn sé það svo að breytingartillaga sem er komin fram frá hv. þm. Oddnýju G. Harðardóttur og fleirum vekur einfaldlega fleiri spurningar en hún svarar og þannig á ákvæði í stjórnarskrá ekki að vera. Stjórnarskrá á að vera stutt, skýr og hnitmiðuð. Sú tillaga sem liggur frammi er ekkert af því. Auk þess ber hún þann annmarka, sem breytingartillaga hv. þm. Margrétar Tryggvadóttur gerir auðvitað í heild sinni, að engin greinargerð liggur að baki þannig að ómögulegt er fyrir þá sem ætla að reyna að glöggva sig á því hvernig eignarréttur er varinn, verði tillagan samþykkt, að reyna að átta sig á því hvað ákvæðið þýðir. Það er þá ekki nema lesa allar þær ræður sem hafa verið fluttar til að átta sig á því hvað menn voru að hugsa, en miðað við umræðuna sem ég hlustaði á er enginn sammála um hvað ákvæðið þýðir. Í ljósi þess að menn líta á vatnsréttindi, jarðhitaréttindi og fleira sem svipaðan hlut og mjólk held ég að mjög erfitt verði að botna þá umræðu.



[17:47]
Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég hefði viljað biðja hæstv. forseta um að gera hv. þm. Oddnýju G. Harðardóttur viðvart. Ef hún getur verið hér og hlustað á ræðu mína hugðist ég beina til hennar spurningum. Ég vænti þess að hún komi í andsvör við mig ef hún hefur tök á því.

(Forseti (SIJ): Forseti mun gera gangskör að því að láta hv. þingmann vita en vill jafnframt geta þess að klukkan í borði er biluð og forseti mun mæla tíma á forsetastóli.)

Takk fyrir það. Það væri mjög æskilegt ef hv. þingmaður hefði tök á því að koma hingað í andsvör við mig og væri viðstödd vegna þess að ég vildi beina til hennar fjórum spurningum. Ég er orðinn þeirrar skoðunar eftir umræðuna að tillaga fjórmenninganna sem hv. þm. Oddný G. Harðardóttir er 1. flutningsmaður að sé í raun og veru úthugsuð til að eyðileggja málið og setja það í pólitíska upplausn.

Af hverju skyldi ég segja það? Ástæðan fyrir því er mjög einföld. Frumvarpið sem við ræðum og er flutt af hv. þm. Árna Páli Árnasyni, hv. þm. Guðmundi Steingrímssyni og hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra er mjög einfalt, það er tvær greinar. Í fyrsta lagi ein grein um að breyta 79. gr. stjórnarskrárinnar sem er breytingarákvæði stjórnarskrárinnar.

2. gr. frumvarpsins er fimm orð. Lög þessi öðlast þegar gildi. Markmið frumvarpsins er alveg skýrt og klárt og þegar mælt var fyrir frumvarpinu, bæði af hæstv. menntamálaráðherra og hv. þm. Árna Páli Árnasyni, var mjög skýrt hver áætlun þeirra hv. þingmanna var. Hún var sú að gera breytingar á 79. gr. stjórnarskrárinnar og ekkert annað. Þess vegna held ég, og er sífellt að færast nær þeirri skoðun minni, að í raun og veru eigi sér stað ákveðið uppgjör innan þingflokks Samfylkingarinnar með það að markmiði að reyna að eyðileggja tillöguna fyrir hv. þm. Árna Páli Árnasyni, formanni Samfylkingarinnar. Það er ekkert skylt tillögunni sem er flutt af þeim hv. þingmönnum við það frumvarp sem um ræðir. Markmið frumvarpsins og hugmyndin á bak við það var mjög einföld, þ.e. að reyna að koma þeirri vinnu sem hefur verið unnin í allan þennan tíma í þann farveg að hún glatist ekki og hægt sé að gera breytingar á stjórnarskránni án þess að boða til þingkosninga eins og er í núverandi stjórnarskrá. Það var hugsunin og það var markmiðið, skýrt markmið frumvarpsins.

Síðan kemur tillagan frá hv. þingmönnunum fjórum, og þar á meðal formönnum þingflokka beggja stjórnarflokkanna, og ég er auðvitað mjög hugsi yfir því hvernig sambandið er eiginlega í þeim stjórnarflokkum, ég tala nú ekki um í Samfylkingunni. Eina markmiðið er í raun og veru að eyðileggja frumvarp formanns Samfylkingarinnar og ekkert annað. Það styður þá skoðun mína, sem ég er alltaf að komast betur og betur á, að áður en frumvarpið er lagt fram sendir hv. þm. Árni Páll Árnason texta til formanna stjórnarandstöðuflokkanna, sem þingmenn Framsóknarflokksins hafa greint frá hér, með hugmyndum um hvort hægt sé að nálgast það að koma auðlindaákvæðinu inn til viðbótar. Með því að leggja síðan fram tillögu þvert á þann texta degi seinna eða tveimur dögum seinna er ekki verið að gera annað en að gera málflutning hans ótrúverðugan. Ég hallast að því að verið sé að reyna að færa þau innanflokksmein sem eru í Samfylkingunni inn í þingsal og stilla þeim upp í stríði við stjórnarandstöðuna. Það er mjög dapurlegt.

Ég hef nálgast umræðuna og gerði það strax þegar mælt var fyrir frumvarpinu. Ég tók mjög jákvætt í það og vildi skoða hlutina því að mér finnst margir hv. þingmenn hafa gert of mikið úr því hversu erfitt er að breyta stjórnarskránni. Það er í raun og veru ekki mjög erfitt. Það þarf aukinn meiri hluta eða meiri hluta þingmanna og síðan er boðað til kosninga og það staðfest á næsta þingi. Þröskuldurinn er ekkert hærri en það. Mér fannst mjög athyglisverð hugmynd að gera kannski ekki stjórnarskrárbreytingar í krampakasti við lok kjörtímabils heldur á miðju kjörtímabili, þá eru menn ekkert uppteknir við það, og að taka eigi ákveðna kafla til að laga málið.

Síðast en ekki síst fannst mér tilraun hv. þingmanna og flutningsmanna frumvarpsins sem við ræðum mjög áhugaverð, sérstaklega í ljósi stöðunnar sem málið var í. Það fór í raun og veru ekkert á milli mála þegar var mælt fyrir því að málið var komið í algert öngstræti. Þess vegna var verið að reyna að skera á hnútinn og þess vegna finnst mér tillaga hv. þingmanna sem flytja hana mjög vafasöm og í rauninni til þess fallin að eyðileggja málið. Það ríkir mikil tortryggni í þinginu og það er auðvitað ekkert sem segir að ekki komi frekari breytingartillögur á milli 2. og 3. umr. Við höfum ekkert í hendi um það og ef átti að koma þeim málum í höfn sem forustumenn stjórnarflokkanna lögðu til hefðu menn eingöngu átt að taka umræðu um frumvarpið sem þeir lögðu fram. Reyndar tel ég þá þingsályktun sem var lögð fram samhliða um hvernig ferlið gæti verið inn í næsta kjörtímabil í raun og veru órjúfanlegan hluta af ferlinu. Það er í mínum huga nánast órjúfanlegur hluti af því.

Svo fer þetta til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar og ég verð að segja að mér fannst sú hugmynd sem til að mynda kemur um það sem er gert, breytingin á þingsályktunartillögunni, vera fín og til mikilla bóta. Ég hins vegar staldraði við þegar ég sá að þröskuldurinn í þjóðaratkvæðagreiðslunni hafði verið lækkaður. Það sló mig ekki vel fyrst en eftir að ég hlustaði á ræðu hv. þingmanna stjórnarliðsins verð ég að viðurkenna að ég mildaðist í þeirri afstöðu minni vegna þess að ef við förum að gera breytingar á stjórnarskránni með 2/3 atkvæða þingmanna í þingsal eru kannski ekki nein átök eða lítil átök. Það er ekki sjálfgefið að það verði átök, það er gert í sátt og ekki þar með sagt að endilega verði mikil þátttaka í þjóðaratkvæðagreiðslunni.

Það kom auðvitað fram í máli þeirra hv. þingmanna sem fluttu nefndarálitið og meira að segja einn hv. þm., Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, hafði fyrirvara á því vegna þess að hún taldi að nánast enginn þröskuldur ætti að vera svo fólk hefði ekki neitunarvald með því að sitja heima. Það voru ákveðin rök í málinu. Ég gat alveg fallist á að skoða það út frá því. En að leggja fram í ferlinu þessa vitlausu tillögu, eins og ég kalla hana, um auðlindaákvæðið er að mínu mati nánast dauðadómur fyrir málið. Ég er ekki að tala um efnisinnihald tillögunnar sem slíkrar, það skiptir engu máli, en að þingflokksformaður Samfylkingarinnar skuli vera 1. flutningsmaður að tillögu sem gengur í raun og veru þvert á markmiðið með frumvarpi að lögum sem hv. þm. Árni Páll Árnason og forustumenn stjórnarflokkanna fluttu er auðvitað alveg hreint með ólíkindum. Ég ætlaði mér að spyrja hv. þm. Oddnýju G. Harðardóttur um það en geri mér grein fyrir því að hún hefur ekki tök á því að koma hingað vegna annarra starfa sem ég geri engar athugasemdir við. Spurningin er hvort þetta sé gert í samráði við formann Samfylkingarinnar og við þingmenn Bjartrar framtíðar sem standa að málinu. Ég veit ekki hvort svo er og ég hefði viljað fá svör við því hvort það hafi verið gert. Þetta er mjög gagnrýnisvert.

Hv. þm. Magnús Orri Schram lýsti því sem eins konar tundurskeyti, og ég get alveg verið þingmanninum sammála um það, þegar breytingartillagan kom frá hv. þm. Margréti Tryggvadóttur um að setja heila stjórnarskrá inn sem breytingartillögu við málið. Mér finnst alveg fráleit hugmynd að gera það en hv. þingmaður vill leggja tillöguna fram svona. Mín skoðun er að ef á að koma málinu í höfn þurfi í fyrsta lagi að draga tillögu fjórmenninganna til baka og ná því trausti sem þarf til að menn geti farið að ræða málið á þeim grunni hvernig sé hægt að nálgast verkefnið og frumvarpið og þingsályktunartillöguna sem forustumenn stjórnarflokkanna ásamt hv. þm. Guðmundi Steingrímssyni lögðu fram. Öðruvísi mun málið stranda. Það er mín persónulega skoðun og ég ítreka að það er mín persónulega skoðun. Ég tel að verið sé að færa átökin inn í þingsal sem eru í raun og veru eru innan þingflokks Samfylkingarinnar, þá óeiningu sem er þar innan dyra í málinu, og reynt að teikna málið upp svona, reynt að stranda því til að geta sagt í kosningabaráttunni: Það voru einhverjir vondir menn sem vildu ekki breyta þessum hlutum eða hinum. Það held ég og hræðist að sé hinn blákaldi veruleiki.



[17:58]
Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Fyrst vil ég segja að mér finnst svolítið undarlegt að enginn af flutningsmönnum frumvarpsins er í húsinu og hefur ekki verið við umræðuna hér í dag. Mér finnst það mjög undarlegt og tel eðlilegt að einhver af þessum þremur aðilum sitji hér og skrái hjá sér athugasemdir og taki þátt í umræðunni. Ég mun gera athugasemd við það þegar að minni ræðu kemur hér á eftir.

Hv. þingmaður talar um breytingartillögu fjögurra þingmanna. Mig langar í fyrsta lagi að spyrja hv. þingmann hvort hann telji yfirleitt að þessi breytingartillaga passi og hafi átt að koma hingað sem breytingartillaga við það frumvarp sem við ræðum. Frumvarpið gengur út á að bæta við nýju ákvæði er varðar breytingar á stjórnarskrá, en breytingartillagan fjallar um nýtt auðlindaákvæði. Ég velti fyrir mér, virðulegi forseti, hvaða skoðun hv. þingmaður hefur á þessu og hvort það sé ekki frekar langsótt að breytingartillaga sem er úr allt annarri átt geti átt heima við frumvarpið sem er á dagskránni.

Síðan ræddi þingmaðurinn töluvert um ástæður þess að breytingartillagan er komin fram. Ég verð að taka undir það með hv. þingmanni að svolítið sérstakt var að sjá þessar breytingartillögur koma fram á mánudagsmorgni frá þingflokksformönnum stjórnarflokkanna ásamt tveimur öðrum þingmönnum þegar formaður Samfylkingar hafði um helgina sent formönnum stjórnarandstöðuflokkanna umræðugrundvöll að auðlindaákvæði sem átti að reyna að athuga hvort einhver sátt væri um (Forseti hringir.) að færi hér í gegn eða yrði rætt. Þess vegna er mjög undarlegt hvernig málið allt ber hér að.



[18:00]
Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef haldið því fram og hélt því fram í ræðu minni að mér finnst að hv. þingmenn og sérstaklega hv. þingmenn Samfylkingarinnar, sem flytja þessa breytingartillögu sem snýr að auðlindaákvæði, hafi komið í bakið á formanni sínum og gert hann í raun og veru ótrúverðugan. Eins og hv. þingmaður upplýsir hafði hv. þm. Árni Páll Árnason sent einhvern texta sem hugsanlegan umræðugrundvöll um hvort menn næðu saman um málið.

Það dettur engum heilvita manni í hug að menn geti tekið umræðuna um auðlindaákvæði, eða hvaða annað ákvæði sem er, hér í þingsal úr ræðustól. Sú vinna verður að fara fram inni í nefndinni. Hún gerist ekki hér, það er algjörlega útilokað mál. Tortryggnin er sú að ekki er hægt að tryggja að milli 2. og 3. umr. komi ekki heilu breytingartillögurnar um að færa bara heilu bálkana inn til viðbótar. Það er ekkert sem getur tryggt að svo verði.

Ég er ekki að tala um að taka tillögurétt af þingmönnum en það verður að ná þessum trúnaði ef menn ætla að klára þetta mál eins og lagt er upp með. Ég sé enga samleið með þessu frumvarpi hér og breytingartillögunni, af því að hv. þingmaður spurði mig að því. Fram hefur komið í ræðum hv. þingmanna að þeir segja: Ja, við mundum frekar vilja hafa mannréttindakaflann eða einhvern annan kafla en þennan. Það eru bara mismunandi skoðanir á því.

Ég var töluvert ánægður með vinnuna hjá meiri hlutanum í hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd sem sneri að umfjöllun um þetta mál. Ég set spurningar við til dæmis „greiddra atkvæða“, hvort það þurfi að vera lágmarksfjöldi þingmanna þannig að í raun og veru geti ekki verið mjög fáir þingmenn sem samþykki breytingar á stjórnarskránni. Það eru svona atriði sem ekkert vandamál er að leysa ef menn (Forseti hringir.) vilja ræða þau efnislega, en ekki einhver önnur atriði sem koma þessu frumvarpi að mínu viti nánast ekkert við.



[18:02]
Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að flestum megi vera ljóst að þær tillögur og tilraunir sem verið er að gera hér með því að leggja fram breytingar á breytingarákvæði, eða einhver viðbótarákvæði eða hvað menn kalla þetta, séu að sjálfsögðu til þess fallnar að reyna að halda áfram þeirri vinnu sem fór af stað og er búin að eiga sér stað þetta kjörtímabil. Maður veltir þó fyrir sér ákveðnum hlutum í orðalaginu og þeim þröskuldum sem er verið að setja.

Hv. þm. Pétur H. Blöndal benti á það í dag í ræðu sinni að útlit væri fyrir að ekki þyrfti nema rúmlega 20 þingmenn til þess að samþykkja breytingu á stjórnarskrá í þinginu miðað við þá þröskulda sem hér eru settir inn. Þá velti ég fyrir mér hvort eðlilegt sé að vera með svo lága þröskulda eða gera svo litlar kröfur til þess að samstaða eða sátt náist um breytingar.

Við hljótum að spyrja og því spyr ég hv. þingmann hvort ekki sé búið að láta á það reyna núna á þessu kjörtímabili að ekki sé gott og ekki sé unnt að breyta stjórnarskrá í svo miklu ósætti og svo miklum deilum sem verið hafa um ferlið, um málið, um einstakar greinar, um breytingartillögur og allt þetta. Hvort ekki sé farsælla að ýta vinnunni yfir á næsta kjörtímabil í von um að menn vinni þetta eins og fólk, að einhvers konar sátt sé þá í það minnsta um ferlið og síðan muni menn taka umræðu um það sem kemur út úr því. Það á að klára ákvæði núna á einhverjum ofsahraða líkt og til dæmis auðlindaákvæðið sem hér er til umfjöllunar. Það kallar einfaldlega á margra daga vinnu að mínu viti. Mér finnst það og spyr þingmanninn hvort hann sé sammála um að það sé nokkuð bratt. Í tillögunni sem hér er lögð fram er til dæmis talað um tiltekna dýpt frá yfirborði jarðar. Það er ekki reynt að rökstyðja eða útskýra hvað þingmennirnir eiga við þegar þeir orða tillögur sínar með þeim hætti.



[18:04]
Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er þeirrar skoðunar að ef við hefðum ætlað að leysa þetta mál þá þýddi ekki að koma með breytingartillögur og hluta úr þeim tillögum sem liggja inni í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd eða frá meiri hlutanum þar. Ég segi fyrir mitt leyti, ég nálgaðist það í 1. umr. um málið, að ég tók mjög jákvætt í það og mér fannst það mjög athyglisvert. Við erum búin að vera í krampakasti allt þetta kjörtímabil og við þekkjum allar deilurnar í kringum þetta ferli eins og það hefur verið.

Mér fannst þetta áhugaverð hugmynd. Ég get auðvitað staldrað við og sagt: Bíddu við, við erum búin að kalla eftir þessu allt kjörtímabilið. Til dæmis hefur þingflokkur Sjálfstæðisflokksins sagt: Bíddu við, tökum minni afmarkaðri kafla. Það var ekki viljinn. En ég hef sagt: Reynum að horfa þá fram á veginn. Hvernig getum við nýtt þá vinnu sem best og reynt að setja þetta í farveg?

Það sem er líka merkilegt er að frumvarpið sem um ræðir sem er flutt af forustumönnum stjórnarflokkanna gengur út á að menn ætla að hafa 2/3 þingmanna, eða 3/5 er í frumvarpinu og meiri hluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar leggur til 2/3 í breytingunum og lækkar síðan þröskuldinn í þjóðaratkvæðagreiðslunni. Gott og vel, ég get tekið undir það að sumu leyti og skil þau rök sem koma fram gagnvart því.

Síðan ætla sumir aðrir hv. þingmenn að fara með málið í gegn kannski á einu eða tveimur atkvæðum, eða mjög litlum meiri hluta. Það gengur þvert gegn því sem lagt er upp með inn í framtíðina í frumvarpi forustumanna stjórnarflokkanna. Ég held að mikilvægt sé að við breytum vinnubrögðum í þá átt að breyta umræðunni um það hvernig við viljum breyta stjórnarskrá.

Ég segi því fyrir mína parta: Ef það á að nálgast þetta verkefni eins og lagt var upp með af hálfu þeirra sem fluttu málið, það var skýrt hvert markmiðið var, þá finnst mér breytingartillagan frá þessum fjórum hv. þingmönnum algjörlega út úr korti og bara til þess að reyna að eyðileggja málið og auka enn frekar á tortryggni.



[18:07]
Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Ásbjörn Óttarsson gleymir einu atriði í þeirri atburðarás sem hann hefur verið að lýsa hér því að eftir að tillaga formanna stjórnarflokkanna kom fram var henni hafnað og í þeirri stöðu kemur tillaga hv. þingmanna Oddnýjar G. Harðardóttur og fleiri inn í málið. Þar að auki er undarlegt að amast við því að þingmenn geti flutt tillögur og lagt sitt til mála í jafnstóru máli og stjórnarskrármálið er þar sem öllum má ljóst vera að mikill þungi er í stjórnarflokkunum báðum á að tryggja nýtt auðlindaákvæði í stjórnarskrána. Það er kannski helgidómurinn sem hvað mest áhersla liggur á.

Hv. þingmaður talar mikið um málsmeðferð og pólitíska taktík og að þessu hafi öllu verið siglt í strand með því að nokkrir þingmenn flytja hér tillögu um auðlindaákvæði og endurspegla þar með vilja stórs hluta þingsins. Ég vil þá spyrja hv. þingmann, af því að hann talaði um að það þyrfti að sigla þessu máli í höfn: Hvaða höfn er það? Hvernig lítur hún út? Hvaða málalok vill hv. þm. Ásbjörn Óttarsson sjá á þessu máli?



[18:08]
Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Svo ég svari síðustu spurningunni fyrst þá lá það alveg ljóst fyrir, ég hafði gert mér grein fyrir því og var þeirrar skoðunar og búinn að vera það í töluvert langan tíma, að málið var gjörsamlega strand, að taka heildarendurskoðun á stjórnarskránni á þeim dögum sem eftir eru af þinginu. Það er mín persónulega skoðun. Mér fannst virðingarvert af hv. þingmönnum, forustumönnum stjórnarflokkanna, að stíga þá þetta skref.

Ég ítrekaði það hérna í ræðu minni að ég er ekki að leggja til að taka tillögurétt af þingmönnum, alls ekki. Það þarf hins vegar að skapa það traust sem þarf til að menn fari ekki að smygla heilu bálkunum inn í 3. umr. ef menn vilja klára málið á þeim grunni sem frumvarpið liggur á. Frumvarpið er tvær greinar. Í fyrsta lagi á að gera breytingu á 79. gr. Í öðru lagi segir í 2. gr.: „Lög þessi öðlast þegar gildi.“ Það kom mjög skýrt fram í ræðu hv. þm. Árna Páls Árnasonar og hæstv. menntamálaráðherra þegar mælt var fyrir málinu hver ásetningur og tilgangur þeirra var með því að flytja frumvarpið og þingsályktunartillöguna sem ég tel að sé órjúfanlegur hluti af því. Það var mjög skýrt hvert tilefnið var. Þess vegna segi ég að þegar komið er með svona breytingartillögur inn í málið sé það bara til þess að skapa tortryggni og skemma málið. Það er mín skoðun. Ef hv. þingmenn stjórnarliðsins sjá það ekki held ég að þeir þurfi aðeins að fara betur yfir málið, nema við séum bara ósammála.

Mig langar að velta þessu upp við hv. þingmann: Telur hv. þingmaður það eðlilegt að við tökum bara umræðu úr ræðustól um að setja inn auðlindaákvæði í stjórnarskrána? Við erum búin að kalla eftir því allt heila kjörtímabilið að setjast niður og skrifa auðlindaákvæði. (Forseti hringir.) Því hefur ekkert verið sinnt, akkúrat ekki neitt.



[18:11]
Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er erfitt að átta sig á samhenginu í máli hv. þingmanns þegar hann talar um og kallar eftir því að menn setjist niður og skrifi auðlindaákvæði. Þau skrif hafa staðið yfir allt þetta kjörtímabil. Sú vinna er búin að standa í fjögur ár, hún er reyndar búin að standa í 13 ár frá því að fyrstu tillögur að nýju auðlindaákvæði komu frá auðlindanefndinni árið 2000.

Við erum ekki að fara að taka hér heildarendurskoðun á stjórnarskránni á örfáum dögum eins og þingmaðurinn lætur að liggja. Sú vinna er búin að standa allt þetta kjörtímabil í öllum nefndum þingsins og í hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Svo er náttúrlega af og frá að halda því fram að hér sé verið að smygla einhverjum atriðum inn í málið á lokaspretti. Málið liggur allt undir til umræðu, að sjálfsögðu. Við erum að ræða stjórnarskrána. Það er ekki verið að smygla neinu inn.

Þegar þingmaðurinn talar um að hér sé verið að skemma málið — bíddu, í hverju er skemmdin fólgin? Hv. þingmaður vill ekki nýja stjórnarskrá, vill ekki nýtt auðlindaákvæði, það er bara kjarni málsins. Og þegar þeir þingmenn stjórnarflokkanna sem láta sér annt um nýja stjórnarskrá og mikilvægustu ákvæðin í þeim tillögum sem liggja fyrir, m.a. auðlindaákvæðið, þá amast hv. þingmaður við því og talar um að það sé eyðilegging á málinu. Það er náttúrlega ekki hægt að ná nokkrum botni í þennan málflutning.

Þingmaðurinn hefur ekki svarað mér enn þá: Í hvaða höfn vildi hann sigla málinu? Vill hann nýja stjórnarskrá eða vill hann hana ekki? Vill hann nýtt auðlindaákvæði eða vill hann það ekki? Einfaldar spurningar.



[18:13]
Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er nokkuð athyglisvert að hv. þingmaður skyldi segja: Stjórnarskráin er hér öll undir. Ég hlustaði á hv. þingmann í dag undir liðnum fundarstjórn forseta þar sem hún taldi því ekkert til fyrirstöðu að taka hér fyrir heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar og afgreiða og beita 71. gr. þingskapalaga. Erum við virkilega á þeim stað, hv. þingmaður? (ÓÞ: Fyrir löngu.) Fyrir löngu, það er mjög athyglisverð yfirlýsing hjá hv. þingmanni og gengur þvert gegn því sem formaður hennar eigin flokks hefur sagt. Hann sagði að það væri algjörlega óraunhæft að gera þetta með þessum hætti. Þess vegna leggur hann fram þetta frumvarp. Og hann hefur líka sagt hér í þessum stól, og það væri hollt fyrir hv. þingmann að hlusta betur á það, að efnisleg rök væru til að ræða enn frekar marga þá þætti sem eru í stjórnarskránni og í tillögum stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. En hv. þingmaður segir hér: Það er bara ekkert því til fyrirstöðu að beita 71. gr. þingskapalaganna og afgreiða eitt stykki stjórnarskrá. Hv. þingmaður mun væntanlega styðja tillögu hv. þm. Margrétar Tryggvadóttur því að hún gengur út á það. Þess vegna segi ég, virðulegi forseti, að það er alveg hreint með ólíkindum að við skulum vera að ræða þetta og að sumir hv. þingmenn skuli vera á þeim stað að finnast ekkert mál að afgreiða eitt stykki stjórnarskrá. Ég er algjörlega ósammála því og hef verið lengi.

Hv. þingmaður segir: Hv. þingmaður sem hér stendur vill ekki nýtt auðlindaákvæði. Ég vil bara minna hv. þingmann á eitt: Forustumenn stjórnarandstöðuflokkanna hafa sagt það allt heila kjörtímabilið að taka eigi smærri efnisleg atriði úr stjórnarskránni og reyna að ganga frá þeim, atriði sem menn eru frekar sáttir um að þurfi að breyta. Það hefur aldrei verið hlustað á það, aldrei nokkurn tíma, bara heildarendurskoðun á stjórnarskránni, allan tímann og allt þar til að hv. þm. Árni Páll Árnason, sem er 1. flutningsmaður að þessu frumvarpi frá forustumönnum stjórnarflokkanna, lagði þetta mál inn. Það hefur aldrei verið flötur á að ræða neitt annað en heildarendurskipulagningu á stjórnarskránni fyrr en þetta frumvarp kom frá hv. þm. Árna Páli Árnasyni.