141. löggjafarþing — 112. fundur
 27. mars 2013.
uppbygging innviða vegna atvinnustarfsemi í landi Bakka, frh. 2. umræðu.
stjfrv., 633. mál (stækkun hafnar og vegtenging). — Þskj. 1109, nál. 1228 og 1243.

ATKVÆÐAGREIÐSLA

[22:13]

[22:08]
fjármála- og efnahagsráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Það mál sem við greiðum hér atkvæði um er síður en svo að detta af himnum ofan. Síðan ljóst varð að ekki yrði byggt stórt álver í landi Bakka hjá Húsavík fór þessi ríkisstjórn á fullt með sveitarfélögunum fyrir norðan í að vinna að því að hefja atvinnuuppbyggingu byggða á orkuöfluninni sem þar var að fara af stað.

Við erum að sjá árangurinn hér, ljóst er að af þessu verður. Það er gott fyrir Ísland allt, en það er líka gott fyrir þetta svæði. Það er ekki góð þróun í atvinnuuppbyggingu að landið er að sporðreisast og mikilvægt er fyrir okkur öll að styðja við atvinnuuppbyggingu víðar um land en eingöngu hér á suðvesturhorninu.

Virðulegi forseti, þess vegna styð ég þetta mál af heilum hug. Mikilvægt er að koma með stuðning til uppbyggingar innviða vegna þess að þarna er verið að brjóta og nema nýtt land til iðnaðaruppbyggingar. Þess vegna er þetta gert með þessum hætti og mikilvægt að styðja vel við það. Þetta er (Forseti hringir.) fagnaðardagur og það gleður mig mjög sem fyrrverandi iðnaðarráðherra, sem vann lengi að þessu verkefni með norðanmönnum, að sjá þennan dag renna upp þar sem við fáum að greiða með þessu atkvæði.



[22:09]
atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Við greiðum atkvæði hér á eftir um þátttöku ríkisins í uppbyggingu tiltekinna innviða í þágu atvinnuuppbyggingar á norðaustanverðu landinu. Ég trúi því að þegar allt er saman metið sé um framfaramál að ræða. Með þessu kemur ný tegund iðnaðar inn í landið og nýr valkostur skapast fyrir staðsetningu lítilla og meðalstórra iðnfyrirtækja. Byggða- og þjóðhagsáhrif þessarar fjárfestingar eru tvímælalaust jákvæð og margt fleira mætti til nefna.

Í ljósi þess að ég hef þá sannfæringu að hér sé um gott mál að ræða þá mæli ég að sjálfsögðu með því að menn styðji það og það gerir mér létt að leiða hjá mér ódýr ummæli í minn garð.



[22:10]
Jón Bjarnason (U) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Í sjálfu sér er erfitt að vera á móti uppbyggingu á samgöngumannvirkjum en það sem hér er verið að leggja til er að ríkið ráðist í sérstaka stækkun hafnar í Húsavík og vegtengingar í tengslum við stóriðjuáform sem þar eru. Þetta eru samgöngumannvirki sem eru á vegáætlun en ekki á samgönguáætlun. Þarna er aftur verið að taka stór samgöngumannvirki út úr þeirri samgönguáætlun sem Alþingi almennt samþykkir fyrir þessar framkvæmdir í landinu.

Hvað mega Vestfirðingar segja? Hvað mega þeir sem bíða eftir stórum samgöngumannvirkjum segja þegar í annað skipti eru tekin út úr samgöngu- og vegáætlun og hafnaráætlun stór verkefni sem í þessu tilviki eru hluti af stóriðjuuppbyggingu þarna?

Mér finnast þetta forkastanleg vinnubrögð gagnvart Alþingi.



[22:11]
Róbert Marshall (U) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Ég vil bara segja nokkur orð um þessi mál sem hér eru til umfjöllunar. Hvenær hafa almennir þingmenn haft tækifæri til þess að koma að umfjöllun þessa máls? Hvernig stendur á því að ekki hefur verið gefið tóm til þess að taka umræðu hérna í þingsal af einhverju viti til að menn geti fengið svör við spurningum? Og hvaða grænu flokkar í veröldinni mundu afgreiða svona mál með þeim flýti sem hér er verið að gera? Hvar er græni liturinn í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði? Hvar er græni liturinn í Samfylkingunni í þessu máli? Hv. þm. Mörður Árnason virðist standa einn og óstuddur í þessu.

Áhyggjuefni er að menn skuli vera að koma fram með þessum hætti í máli sem skiptir auðvitað máli fyrir það svæði sem hér um ræðir. En að ekki skuli vera hægt að taka almennilega umræðu hér í þingsal um það er skammarlegt.



 1. gr. samþ. með 31:5 atkv. og sögðu

  já:  ÁI,  ÁÞS,  ÁsbÓ,  ÁRJ,  BÁ,  BJJ,  BjG,  BjarnB,  BjörgvS,  BVG,  EyH,  GuðbH,  GÞÞ,  GBS,  HHj,  IllG,  JóhS,  JRG,  KJak,  KaJúl,  KÞJ,  KLM,  LGeir,  OH,  REÁ,  SDG,  SF,  SJS,  TÞH,  UBK,  VBj.
nei:  AtlG,  BirgJ,  LMós,  MT,  MÁ.
9 þm. (GStein,  JBjarn,  ÓGunn,  PHB,  RM,  SÁA,  SII,  SSv,  ÖJ) greiddu ekki atkv.
18 þm. (ÁPÁ,  ÁJ,  ÁsmD,  EKG,  HöskÞ,  JónG,  LRM,  MSch,  ÓÞ,  RR,  SER,  SIJ,  SkH,  VigH,  ÞKG,  ÞSa,  ÞrB,  ÖS) fjarstaddir.

 2.–3. gr. samþ. með 32:5 atkv. og sögðu

  já:  ÁI,  ÁPÁ,  ÁÞS,  ÁsbÓ,  ÁRJ,  BÁ,  BJJ,  BjG,  BjarnB,  BjörgvS,  BVG,  EyH,  GuðbH,  GÞÞ,  GBS,  HHj,  IllG,  JóhS,  JRG,  KJak,  KaJúl,  KÞJ,  KLM,  LGeir,  OH,  REÁ,  SDG,  SF,  SJS,  TÞH,  UBK,  VBj.
nei:  AtlG,  BirgJ,  LMós,  MT,  MÁ.
9 þm. (GStein,  JBjarn,  ÓGunn,  PHB,  RM,  SÁA,  SII,  SSv,  ÖJ) greiddu ekki atkv.
17 þm. (ÁJ,  ÁsmD,  EKG,  HöskÞ,  JónG,  LRM,  MSch,  ÓÞ,  RR,  SER,  SIJ,  SkH,  VigH,  ÞKG,  ÞSa,  ÞrB,  ÖS) fjarstaddir.

Fyrirsögn samþ. án atkvgr.

Frumvarpið gengur til 3. umr.