141. löggjafarþing — 112. fundur
 27. mars 2013.
tekjuskattur, frh. 3. umræðu.
stjfrv., 680. mál (vaxtabætur vegna lánsveða). — Þskj. 1355.

ATKVÆÐAGREIÐSLA

[23:00]

[22:50]
fjármála- og efnahagsráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Ég greiði hér atkvæði um mikilvægt mál, en ríkisstjórnin hefur allt þetta kjörtímabil verið í glímu við lífeyrissjóðina um að færa þeim sem eru með svokölluð lánsveð sömu úrræði og þeim sem ekki eru með slík veð. Það hefur reynst þrautin þyngri. Við erum engu að síður ekki hætt. Ég og þessi ríkisstjórn munum berjast fram á okkar síðasta dag fyrir réttarbótum og varanlegum úrbótum fyrir þennan hóp. En þangað til finnst okkur mikilvægt að nýta það tækifæri og það svigrúm sem skapast á fjárlagalið vaxtabótanna til að færa honum auknar vaxtabætur vegna ársins 2012. Það skiptir máli vegna þess að þessi hópur er með hærri og þyngri greiðslubyrði vegna þess að hann hefur ekki getað nýtt sér sömu úrræði og aðrir lánþegar í landinu. Þess vegna, frú forseti, er mikilvægt að um þetta ríki samstaða þannig að við getum mætt þessum hópi sem þarf svo sannarlega á þessum fjármunum að halda.



[22:51]
Eygló Harðardóttir (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég get ekki stutt þetta mál. Þetta er enn einn plásturinn frá stjórnvöldum, en þannig hefur aðferðafræði stjórnvalda verið við að taka á skuldavanda heimilanna. Eins og kom fram í máli hæstv. fjármálaráðherra er þetta ekki varanleg lausn á vanda þeirra sem eru með lánsveð heldur einskiptisaðgerð sem mun hugsanlega hjálpa ungum barnafjölskyldum að kaupa barnavagn eða bleiu í staðinn fyrir að taka á vanda þeirra á varanlegan máta.

Ég vil líka fá að nota tækifærið og lýsa yfir miklum áhyggjum okkar framsóknarmanna á því að hæstv. fjármálaráðherra sé mögulega komin langt fram úr sér hvað varðar hugsanlega samninga við kröfuhafa vegna uppgjörs föllnu bankanna. Árangurinn af þeim samningaviðræðum sem stjórnvöld hafa staðið í á kjörtímabilinu hefur ekki verið mikill og hér þurfa menn að gæta sín.



[22:53]
Lilja Mósesdóttir (U) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það er við hæfi að síðasta ræða mín á þingi fjalli um skuldaúrræði ríkisstjórnarinnar. Hér erum við að koma til móts við þann hóp sem kom verst út úr hruninu og að samþykkja sérstakar vaxtabætur til hans. Bæturnar munu hins vegar ekki leysa vanda lánsveðshópsins og þær fela í sér uppgjöf gagnvart lífeyrissjóðunum sem neita að taka á sig tapaðar lánveitingar eins og allir aðrir fjárfestingarsjóðir verða að gera. Lánsveðin hvíla á eignum foreldra sem eiga á hættu að missa eignir sínar vegna þess að börn þeirra geta ekki lengur staðið í skilum af lánum sínum. Margir foreldrar sitja líka fastir í eignum vegna þess að ekki er hægt að losa lánsveðin vegna (Forseti hringir.) mikillar skuldsetningar barnanna.

Frú forseti. Á þessum vanda er ekki tekið. Það er orðið afar brýnt að taka á honum. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)



[22:54]
Pétur H. Blöndal (S) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Í fyrsta lagi: Þetta gerir mjög lítið. Þetta er lítið mál, aðeins 2% af vandanum.

Í öðru lagi: Það að ætla sér að skattleggja lífeyrissjóðina með einhverjum hætti sýnir mér að hv. þingmenn vita ekki hvernig lífeyrissjóðirnir eru uppbyggðir. Sumir eru opinberir, þar eru réttindin tryggð. Aðrir eru almennir, þar verða peningarnir að standa undir réttindunum. Ef við leggjum álögur á lífeyrissjóðina erum við að skattleggja verkamenn og iðnaðarmenn og sjómenn og aðra sem ekki eru í opinberu sjóðunum, en ekki opinbera starfsmenn. Það gengur ekki upp.

En ég ætla að vera jákvæður. Þetta frumvarp er það áttunda í röð sem við samþykkjum sem lög frá hv. efnahags- og viðskiptanefnd. Í góðri samvinnu nefndarinnar hefur náðst niðurstaða í átta málum og ég þakka fyrir samstarfið.

Næsta mál á dagskrá er virðisaukaskattur, líka frá þessari hv. nefnd, líka unnið í samstöðu, þannig að ég þakka fyrir mjög gott samstarf.



[22:55]
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Það er alvarleg staða þegar fólk á í skuldavanda. Lánsveðshópurinn hefur verið í þeirri erfiðu aðstöðu að njóta ekki 110%-leiðarinnar á við önnur heimili í sambærilegri stöðu. Þetta frumvarp hæstv. fjármálaráðherra er til þess að koma tímabundið til móts við þennan hóp á meðan leitað er varanlegra lausna. Að gera lítið úr 500 millj. kr. framlagi til þessara fjölskyldna sýnir hvers konar loftbóla pólitísk framlög Framsóknarflokksins eru. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)



Frv.  samþ. með 31 shlj. atkv. og sögðu

  já:  ÁI,  ÁPÁ,  ÁÞS,  ÁsbÓ,  ÁRJ,  BirgJ,  BjG,  BjörgvS,  BVG,  GuðbH,  GÞÞ,  HHj,  IllG,  JóhS,  JBjarn,  JRG,  KJak,  KaJúl,  KÞJ,  LGeir,  MÁ,  OH,  ÓGunn,  PHB,  REÁ,  SII,  SJS,  SSv,  UBK,  VBj,  ÖJ.
6 þm. (AtlG,  EyH,  GBS,  LMós,  MT,  SF) greiddu ekki atkv.
26 þm. (ÁJ,  ÁsmD,  BÁ,  BJJ,  BjarnB,  EKG,  GStein,  HöskÞ,  JónG,  KLM,  LRM,  MSch,  ÓÞ,  RR,  RM,  SDG,  SER,  SÁA,  SIJ,  SkH,  TÞH,  VigH,  ÞKG,  ÞSa,  ÞrB,  ÖS) fjarstaddir.
4 þm. gerðu svofellda grein fyrir atkvæði sínu:

[22:56]
atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég styð að sjálfsögðu þetta mál. Það eru vissulega vonbrigði hversu torsótt hefur orðið að tryggja lánsveðshópnum sambærilega úrlausn og til dæmis aðrir fengu á grundvelli samkomulags í desember 2010 um svokallaða 110%-leið. Við horfumst í augu við að orðið hefur dráttur á því og frumvarpið er til þess að mæta þessum hópi og koma til móts við þyngri greiðslubyrði sem hann hefur haft, borið saman við aðra sem gátu nýtt sér þau úrræði sem í boði voru.

Það hefur enginn haldið því fram að hér sé varanleg lausn á ferðum, en ég verð að segja alveg eins og er að ég er forundrandi að sjá það fólk sem hæst talar þessa dagana og vikurnar um umhyggju sína fyrir skuldugu fólki geta ekki stutt það að lánsveðshópurinn fái 500 millj. kr. til að mæta þyngri greiðslubyrði sinni undanfarin missiri. Ég skil ekki að fólk skuli vera uppi með tvískinnung af því tagi (Gripið fram í.) að það slái eign sinn á það að bera eitt hina einu sönnu umhyggju fyrir skuldugum fjölskyldum í landinu en getur ekki (Forseti hringir.) stutt að þessi hópur, sem sannanlega hefur setið eftir, verði studdur með 500 millj. kr. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)



[22:57]
Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Eins og ég sagði í umræðunni um þetta mál fagna ég því að hér sé reynt að koma til móts við þennan hóp, en auðvitað eru það vonbrigði að ekki hafi náðst að klára að koma með úrræði til handa þeim sem eru í þessari stöðu varðandi lánsveðin.

Mig langar að vekja athygli á því að við sjálfstæðismenn höfum reynt eftir bestu getu að fylgja þeirri stefnu okkar á kjörtímabilinu að vinna að góðum málum er varða lausn á skuldavanda heimilanna í samstarfi við aðra flokka. Við höfum lagt okkur fram um það, enda höfum við alltaf sagt að lausn á skuldavanda heimilanna fæst með því að við setjumst saman yfir vandamálið. Við höfum kjark til að styðja mál sem koma til móts við heimilin þrátt fyrir að þau stafi ekki frá okkar flokki og okkar flokksmönnum. Mig langaði til að vekja athygli á því í þessu máli. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)



[22:58]
Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Forseti. Ég hef tekið þátt í því á vettvangi efnahags- og viðskiptanefndar að fjalla um þetta mál. Ég tel að hér sé mjög gott mál á ferðinni. Eins og hér hefur komið fram í umræðunni hefur mikill tími farið í að reyna að tryggja þeim hópi sem hér er verið að mæta úrlausn sinna mála, úrlausn sem hann hefur ekki fengið með öðrum aðgerðum. Þess vegna er það skref sem hér er stigið ákaflega þýðingarmikið. Það er líka rétt að halda því til haga að þetta er ekki endanleg lausn hvað þennan hóp varðar.

Ég segi líka eins og ýmsir aðrir í umræðunni hér: Það er ekki trúverðugur málflutningur að tala hátt og snjallt um það sem gera þarf fyrir fjölskyldurnar í landinu en ljá þessu máli ekki stuðning. Það er þegar farið að molna undan kosningaloforðum Framsóknarflokksins.



[22:59]
Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegur forseti. Það er alveg ljóst að ríkisstjórnarflokkarnir sérstaklega eru nú í miklum ham út af bjargarleysi þeirra við að bjarga og koma til móts við íslensk heimili. Nú á að rétta fram einhverja dúsu sem er hvergi nærri nóg, sem mun hvergi gera það sem gera þarf. (Gripið fram í: Hvað er nóg?) Á sama tíma er hv. ríkisstjórn eða virðist vera, nú segi ég bara virðist vera, að stuðla að því að hjálpa svokölluðum hrægammasjóðum út úr landinu með litlum afslætti. [Frammíköll í þingsal.] Hvað á að gera? Þetta er með ólíkindum, virðulegi forseti. Ríkisstjórnin þarf að svara fyrir það hvað hún ætlar að gera fyrir heimilin [Frammíköll í þingsal.] til frambúðar og varanlega, það er það sem hún á að gera. Þetta er blekking og það trúir þessu enginn, virðulegi forseti. (SII: Hæst bylur í tómri tunnu.) (Forseti hringir.)