141. löggjafarþing — 113. fundur
 28. mars 2013.
uppbygging innviða vegna atvinnustarfsemi í landi Bakka, frh. 3. umræðu.
stjfrv., 633. mál (stækkun hafnar og vegtenging). — Þskj. 1109.

ATKVÆÐAGREIÐSLA

[01:15]

[01:13]
Höskuldur Þórhallsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég ætla að ítreka hamingjuóskir til allra þeirra sem hafa lagt mikið á sig í mörg ár til að þetta verkefni verði að veruleika. Heimamenn hafa sýnt mikla samstöðu og barist fyrir því, verið sanngjarnir, málefnalegir, kannað öll þau áhrif í mörg ár og hafa þurft að sætta sig við að meira að segja hafi verið gengið lengra en eðlilegt var í þeim efnum. Það er í raun ekki hægt að rannsaka málið meira.

Mig langar til að segja: Ef menn eru ekki reiðubúnir til að ráðast í þetta verkefni til að byggja upp atvinnu með þá umhverfisvænu orku sem er til staðar er ég bara ekki viss um að hægt verði að ráðast í neins konar atvinnuuppbyggingu í framtíðinni. Ef þetta gengur ekki er nánast allt út af borðinu. Að sjálfsögðu þurfum við að finna eðlilegan farveg (Forseti hringir.) fyrir slík verkefni en mér finnst heldur langt gengið hjá hv. þm. Jóni Bjarnasyni.



Frv.  samþ. með 33:5 atkv. og sögðu

  já:  ÁI,  ÁPÁ,  ÁÞS,  ÁsbÓ,  ÁRJ,  BJJ,  BjG,  BjarnB,  BjörgvS,  BVG,  EyH,  GuðbH,  GÞÞ,  GBS,  HHj,  HöskÞ,  IllG,  JóhS,  JRG,  KJak,  KaJúl,  KÞJ,  KLM,  LGeir,  OH,  REÁ,  SDG,  SF,  SJS,  TÞH,  UBK,  VBj,  ÞKG.
nei:  AtlG,  BirgJ,  LMós,  MT,  MÁ.
9 þm. (GStein,  JBjarn,  ÓGunn,  PHB,  RM,  SÁA,  SII,  SSv,  ÖJ) greiddu ekki atkv.
16 þm. (ÁJ,  ÁsmD,  BÁ,  EKG,  JónG,  LRM,  MSch,  ÓÞ,  RR,  SER,  SIJ,  SkH,  VigH,  ÞSa,  ÞrB,  ÖS) fjarstaddir.
1 þm. gerði svofellda grein fyrir atkvæði sínu:

[01:14]
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Ég styð þetta mál eins og fyrra málið. Ég tel mikilvægt að loks fari að hilla undir það að við sjáum fjárfestingar fara af stað í landinu og framkvæmdir tengdar atvinnumálum og atvinnuuppbyggingu, hvort sem það er fyrir norðan eða sunnan heiðar. Ég tel mikilvægt eins og í fyrra málinu að ívilnanir sem við erum að sjá varðandi innviðauppbyggingu í málinu verði almennari, að þetta verði almenn regla en ekki sértæk regla og tel mikilvægt að þetta gildi um aðrar framkvæmdir annars staðar á landinu eins og til að mynda á Suðurnesjum sem hafa algjörlega verið látin afskipt af hálfu núverandi ríkisstjórnar. Það er til skammar.

Þetta mál er til bóta fyrir samfélagið og þess vegna styð ég það.