142. löggjafarþing — 1. fundur
 6. júní 2013.
kosning í fastanefndir og alþjóðanefndir skv. 13., 14. og 35. gr. þingskapa.

[16:40]
Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég fæ að nota tækifærið og árna nýkjörnum forseta velfarnaðar í veigamiklu starfi.

Á síðasta kjörtímabili voru gerðar breytingar á þingsköpum til þess að greiða fyrir því að í forustu nefnda væru fulltrúar bæði frá stjórn og stjórnarandstöðu. Við höfum sóst eftir því að koma að forustu nefndanna og ólíkt fyrri stjórnarandstöðu tekið að okkur þau verkefni sem þar eru nú í boði. Þetta skref undirstrikar að þó að okkur hér í þinginu kunni að greina á um einstök málefni er starfið í nefndunum sameiginlegt verkefni okkar. Það er von mín að þetta verði til þess að stjórn og stjórnarandstaða auki samvinnu sína og bæti starfshætti á Alþingi en eftir nýlokið kjörtímabil er ekki vanþörf á hvoru tveggja.