142. löggjafarþing — 3. fundur
 11. júní 2013.
breytingar á stjórnarskrá.

[13:38]
Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Nú hefur verið útbýtt á þinginu frumvarpi til stjórnarskipunarlaga sem flutt er af hv. þingmönnum Árna Páli Árnasyni, Guðmundi Steingrímssyni og þeirri sem hér stendur. Það snýst um að staðfesta þá breytingu á stjórnarskrá sem samþykkt var á síðasta þingi og breyta breytingarákvæði stjórnarskrárinnar þannig að unnt sé að samþykkja breytingar, samþykki Alþingi þær með 2/3 hluta þingmanna, og að 40% þjóðarinnar geti síðan samþykkt þær í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Fyrir liggur að hv. þingmenn Framsóknarflokksins sátu hjá við afgreiðslu frumvarpsins síðast þegar það kom fyrir þingið, en mig langar að inna hæstv. forsætisráðherra í fyrsta lagi eftir afstöðu hans til málsins nú þegar það kemur hér til staðfestingar. Mig langar líka að inna hæstv. ráðherra sem höfuð meiri hlutans hér á þingi eftir því hvort ekki liggi ljóst fyrir að meiri hlutinn muni greiða götu málsins á þinginu þannig að það muni koma hér til atkvæða að lokinni hefðbundinni umfjöllun í nefnd. Hvernig sér hæstv. forsætisráðherra fyrir sér framhald vinnu við stjórnarskrárbreytingar á því kjörtímabili sem nú er að hefjast?

Fyrir liggur að stjórnlagaráð og stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd unnu afskaplega mikið verk á síðasta kjörtímabili með endurskoðun stjórnarskrárinnar. Hvernig sér hæstv. forsætisráðherra fyrir sér fyrir sér vinnuna í framhaldinu? Mun hann beita sér fyrir því að hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd taki upp málið og vinni að stjórnarskrárbreytingum áfram, til að mynda þannig að unnt verði að nýta það breytingarákvæði sem liggur hér til staðfestingar, verði það samþykkt, og samþykkja breytingar á stjórnarskrá á kjörtímabilinu? Hvaða breytingar sér hæstv. forsætisráðherra fyrir sér í þeim efnum?



[13:41]
forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Þegar þeir flokkar sem nú eru í stjórnarmeirihluta voru í stjórnarandstöðu, fyrir ekki svo löngu, reyndu þingmenn þeirra flokka mikið að spyrja ráðherra í fyrirspurnatíma út í afstöðu þeirra til frumvarpa fyrir fram. Það má segja að hv. þm. Össur Skarphéðinsson, fyrrverandi ráðherra, hafi í raun lagt línuna fyrir ríkisstjórnina hvað það varðaði með afdráttarlausum svörum hvað eftir annað um það að menn skyldu ekki svara svona „hypotetiskum“ spurningum, eins og hv. þingmaður orðaði það; menn svöruðu ekki spurningum um afstöðu til frumvarpa fyrir fram (ÖS: Þetta var Margrét Thatcher.) — og vitnaði þar í Margréti Thatcher. Hvort sem menn hafa orð Margrétar Thatcher fyrir því eða hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar þá held ég að þetta sé skynsamleg stefna. Ég mun reyna að tileinka mér hana og ekki svara spurningum um afstöðu mína til tiltekinna frumvarpa fyrr en við umræðu um frumvörpin og svo að sjálfsögðu við atkvæðagreiðslu.

Ég hyggst einmitt fylgjast vel með umræðu um það frumvarp sem hv. þingmaður spurði út í. Ég hlakka til dæmis sérstaklega til að heyra mat þingmanna Pírata á því vegna þess að þeir hafa verið óþreytandi við að tala fyrir stjórnarskrárbreytingum. Að minnsta kosti einn þingmanna þeirra, hv. þm. Birgitta Jónsdóttir, hafði þó verulegar efasemdir um að þetta frumvarp væri til þess fallið að liðka fyrir breytingum á stjórnarskrá, að það væri til bóta. Ég mun ekki bara fylgjast með afstöðu Pírata til þessa máls en mér finnst innlegg þeirra í þetta mál, eins og mörg önnur, vera fróðlegt og veita nýja sýn, sýn sem hefur kannski vantað í hefðbundnu stjórnmálaflokkana í sumum tilvikum. Ég mun því fylgjast með afstöðu þeirra og annarra og taka síðan afstöðu til málsins í framhaldi af því.



[13:43]
Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Fyrir utan þá staðreynd sem kom fram hér, að hæstv. forsætisráðherra lýtur leiðsögn Margrétar Thatcher og hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar, (Gripið fram í.) — sem eru auðvitað áhugaverðar upplýsingar fyrir þingheim, vænti ég — þá kaus hann samt að svara nánast engum þeim spurningum sem ég lagði fram sem snerust ekki eingöngu um afstöðu hæstv. forsætisráðherra til þess frumvarps sem hefur verið dreift hér heldur um það hvort hann hyggist sem formaður annars stjórnarflokksins og þess meiri hluta sem er í þinginu greiða götu málsins þannig að það fái að koma til atkvæða. Og hins vegar hvernig hæstv. forsætisráðherra — og þetta er mjög eðlileg spurning, í ljósi þeirrar umræðu sem hefur verið í samfélaginu, til hæstv. forsætisráðherra — sér fyrir sér vinnu við stjórnarskrárbreytingar á því kjörtímabili sem nú er að hefjast. Hér er um stórmál að ræða og það hlýtur að vera eðlilegt þar sem ekki er bara um einstakt frumvarp að ræða að við fáum að vita hver afstaða hæstv. forsætisráðherra er til þess og hvernig hann sér fyrir sér þá vinnu. Ég trúi ekki öðru en hæstv. forsætisráðherra hafi mótaða skoðun á því máli.



[13:44]
forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Það er alveg hárrétt sem hv. þingmaður bendir á, ég náði ekki að svara öllum spurningum hv. þingmanns áðan og reyni að bæta úr því nú.

Fyrst að spurningunni um hvort ég muni greiða götu málsins, þá er það nú svo, og ég veit að hugsanlega eru þetta viðbrigði frá fyrri ríkisstjórn, að forsætisráðherra ræður því ekki hver framgangur ákveðinna mála er hér í þinginu. Þingið ræður því og að sjálfsögðu heldur forseti þingsins utan um dagskrárvaldið. (Gripið fram í.) Ég þakka samt það traust sem mér finnst birtast í þeirri hvatningu sem ég fæ hér til þess að stýra ekki aðeins flokknum heldur þinginu líka í krafti formennsku í Framsóknarflokknum og þess að vera forsætisráðherra. Ég hef hugmynd um hvaðan fyrirmyndin er komin.

Þá að framhaldi stjórnarskrármálsins almennt, því er lýst í stjórnarsáttmála. Við erum eindregið þeirrar skoðunar, báðir stjórnarflokkar, að ástæða sé til þess að halda áfram vinnu við endurskoðun stjórnarskrárinnar, nýta þá vinnu sem hefur verið unnin undanfarin ár og halda áfram að bæta við hana bæði í þinginu og með aðkomu almennings.