142. löggjafarþing — 3. fundur
 11. júní 2013.
staða aðildarviðræðna við ESB.

[13:58]
Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Forseti. Mig langar til þess að eiga orðastað við hæstv. utanríkisráðherra um svipað málefni og hann hefur þegar verið spurður út í og varðar stöðu aðildarviðræðna við Evrópusambandið. En spurningar mínar eru þó þess eðlis að hæstv. ráðherra mun ekki þurfa að leggja á sig ferð til Brussel til þess að leita svara eða undirbúa svörin.

Í stefnuræðu hæstv. forsætisráðherra í gær fjallaði hann talsvert um samstarf og samvinnu stjórnmálaflokka og lagði áherslu á að auka það frá því sem verið hefur. Ég fagna því. Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er sagt, með leyfi forseta:

„Gert verður hlé á aðildarviðræðum Íslands við Evrópusambandið og úttekt gerð á stöðu viðræðnanna og þróun mála innan sambandsins. Úttektin verður lögð fyrir Alþingi til umfjöllunar og kynnt fyrir þjóðinni.“

Þær spurningar sem ég vil leggja fyrir hæstv. ráðherra eru að sjálfsögðu settar fram í því ljósi og í ljósi þeirra orða sem fallið hafa af hálfu ríkisstjórnarinnar um aukna samvinnu og samstarf milli stjórnmálaflokka. Ég vil þess vegna spyrja hæstv. utanríkisráðherra:

1. Hvernig hyggst ríkisstjórnin standa að téðri úttekt?

2. Hverjir munu vinna þá úttekt?

3. Verður skýrsla um stöðu aðildarviðræðnanna frá því í apríl síðastliðnum, upp á 77 blaðsíður eða þar um bil, höfð með í þeirri vinnu?

4. Munu stjórnmálaflokkarnir eiga aðkomu að vinnunni í samræmi við fyrirheit um aukið samstarf?

5. Hyggst ráðherra gera utanríkismálanefnd grein fyrir áformum ríkisstjórnarinnar í þessu efni?

6. Hver verður hlutdeild utanríkismálanefndar í þeirri vinnu sem fyrirhuguð er, sbr. 24. gr. þingskapalaga um samráð ríkisstjórnarinnar við nefndina í mikilvægum utanríkismálum?



[14:01]
utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessar fjölmörgu spurningar. Þetta minnir mig á manninn sem sagt var við að hann mætti bera fram eina spurningu, en þá sagði hann að hún væri í 20 liðum. Ég ætla að reyna að fara í gegnum þetta.

Kannski er bara einfaldast að svara þessu á þann veg að ég geri ekki ráð fyrir að nefndin sem mun vinna þessa úttekt verði skipuð pólitískum fulltrúum. Ég hyggst leita eftir sérfræðingum á ýmsum sviðum til að fara í gegnum þetta, er jafnvel að skoða hvort erlendar stofnanir geta að einhverju leyti komið að þessu, fræðistofnanir eða eitthvað slíkt. Það er sú hugsun sem er í gangi. Ég vil ítreka að ekki hefur verið tekin endanleg ákvörðun um þetta, verið er að vega þetta og meta. Það er mikilvægt að vanda til verka.

Skýrslan frá því í apríl er að sjálfsögðu til. Hún lýsir stöðunni eins og hún er varðandi viðræðurnar. Það kann að vera að við yfirferð viljum við fá frekari útlistanir á ákveðnum köflum í henni. Þetta erum við að skanna í dag, hvort eitthvað er þannig vaxið í því.

Ég get hins vegar fullvissað hv. þingmann um að vandað verður til verka varðandi það mat sem við ætlum að leggja á þróun Evrópusambandsins og framtíð þess. Það er nákvæmlega það sem stendur í stjórnarsáttmálanum að eigi að gera, þ.e. að reyna að átta sig á því hvernig þetta samband geti litið út í framtíðinni og setja á blað hver þróun þess hefur verið frá því að við sóttum um.

Við vitum það öll sem erum hér í þessum sal að Evrópusambandið er í dag allt annars konar samband en það var þegar ferlið hófst. Miklir efnahagsörðugleikar hafa verið þarna og gagnrýni í mörgum ríkjum varðandi lýðræðisþróun og ýmislegt annað sem tekið hefur miklum breytingum frá því farið var af stað í þetta ferli.



[14:03]
Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þessi svör. Þau eru gagnleg svo langt sem þau ná. Ég skil það þannig að hæstv. ráðherra hyggist leita til sérstakra fræðimanna eða stofnana, innlendra eða erlendra, til að vinna þessa úttekt. Ég legg hins vegar mikla áherslu á, eins og gert var á liðnu kjörtímabili, að mikið samráð verði milli stjórnmálaflokkanna um allt er lýtur að tengslum okkar við Evrópusambandið og viðræðunum. Þau mál voru ítrekað tekin til umfjöllunar á vettvangi hv. utanríkismálanefndar. Ráðherra kom þar reglubundið og þingmenn allra flokka sem þar áttu sæti áttu aðkomu að því og gátu spurt starfsmenn ráðuneytisins og ráðherra út í einstaka liði og þætti í þeirri vinnu.

Ég ítreka spurningu mína til hæstv. ráðherra, sem hann komst ekki yfir að svara á stuttum tíma hér áðan, þ.e. hvort ráðherrann hyggist koma fyrir utanríkismálanefnd á þessu þingi og gera nefndinni nánar grein fyrir áformum sínum í þessu efni. Ég spyr líka hvort utanríkismálanefnd muni eiga einhverja hlutdeild í þeirri vinnu þó það sé ekki með beinum hætti í samræmi við 24. gr. þingskapalaga — og með hvaða hætti?



[14:04]
utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegur forseti. Það er alveg ljóst að í meiri háttar utanríkismálum og slíku mun utanríkisráðherra upplýsa utanríkismálanefnd og vera í nánu samstarfi við hana. Ég geri hins vegar ekki ráð fyrir að nefndin sem slík komi að þeirri vinnu sem ég lýsti áðan, en að sjálfsögðu er sjálfsagt að koma hvenær sem er og ræða við utanríkismálanefnd um þetta sem og öll önnur utanríkismál. Hv. þingmaður spurði hér áðan um hlutverk utanríkismálanefndar. Ég er að reyna að svara því með þessu svari.

Mig langar hins vegar aðeins að nefna það hér að þegar talað er um mikið samráð er það rétt að utanríkismálanefnd var vel upplýst um gang viðræðna og þess háttar, en pólitískt samráð við utanríkismálanefnd var með öðrum hætti en hér er kannski gefið til kynna. Það var alla vega ekki þannig að stjórnarandstaðan ætti mikla aðkomu að þeim viðræðum eða öðru slíku sem fór fram um aðild að Evrópusambandinu, pólitískt samráð átti sér fyrst og fremst stað í formi upplýsingafunda í utanríkismálanefnd.