142. löggjafarþing — 4. fundur
 12. júní 2013.
störf þingsins.

[15:01]
Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Sem þingflokksformaður Samfylkingarinnar hef ég lýst því yfir að við munum greiða fyrir þeim málum sem lúta hér á sumarþinginu að verðtryggingu og lækkun á verðtryggðum skuldum heimilanna. Sem fyrrverandi formaður efnahags- og viðskiptanefndar lagði ég mikla áherslu á að gengið væri lengra í átt að afnámi verðtryggingar og í lækkun á skuldum heimilanna og taldi það því sjálfsagt.

Þetta eru þess vegna vonbrigði. Ríkisstjórnin kemur tómhent til sumarþings með ekkert frumvarp um afnám verðtryggingar eða lækkun á verðtryggðum skuldum heimilanna. Aðeins þingsályktun um nefnd sem á að skila af sér í nóvember sem þýðir að þegar við komum til haustþings verða hér heldur ekki nein frumvörp um þessi efni, sem þýðir væntanlega að búið er að fresta aðgerðum fram til ársins 2014, fyrst hinar mögulegu leiðir eiga fyrst að liggja fyrir í nóvember.

Nú spyr ég nýjan formann efnahags- og viðskiptanefndar hvað fulltrúa löggjafarvaldsins finnist um þessa tímaáætlun framkvæmdarvaldsins, hvort þetta gangi ekki allt of hægt fram. Hvort það sé ekki mikilvægt að við fáum aðgerðir strax eins og hv. þm. Bjarni Benediktsson sagði, engar nefndir eða starfshópa. Eða sagði hv. þingmaður ekki sjálfur fyrir kosningar að hægt væri að grípa til þessara aðgerða núna strax?

Ég minni hv. þingmann á að fyrir þinginu liggur til dæmis frumvarp sem hefur verið samið og flutt af fyrrverandi þingmanni, Lilju Mósesdóttur, fjórum sinnum, lyklafrumvarpið, síðast á þingskjali 23, mál 23, á þinginu í vetur leið. Það er lyklafrumvarpið sem báðir flokkarnir lofuðu. Hvers vegna er það ekki bara ljósritað og gert að lögum hér í næstu viku? Ögmundur Jónasson er að flytja tillögu um nauðungarsölu. Er það Sjálfstæðisflokkurinn sem stendur í vegi Framsóknarflokksins fyrir því að gengið sé í að grípa til þeirra aðgerða strax sem lofað var. Og mun ekki formaður efnahags- og viðskiptanefndar kalla eftir því að þessum málum verði ekki frestað til ársins 2014? Telur hann ekki óviðunandi að fólk búi við þá óvissu á fasteignamarkaði í lánamálum sínum sem leiðir til þess að fólk tekst ekki á við fjárhagsvanda sinn af því að það liggur ekki (Forseti hringir.) fyrir hver staða þess er?



[15:04]
Frosti Sigurjónsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Helga Hjörvar fyrir spurninguna og lýsa ánægju minni með að gera einmitt þetta mál að fyrstu framsögu minni hér á þinginu. Ég vil líka fagna áhuga hv. þingmanns á skjótri leiðréttingu lána heimilanna og afnámi verðtryggingar. Það eru okkar sameiginlegu áhugamál.

Ég þarf trúlega að byrja á því að leiðrétta útbreiddan misskilning þar sem sagt er og haft eftir mér í Morgunblaðinu 23. apríl 2013 í fyrirsögn, með leyfi forseta:

„Segir heimilin fá leiðréttingu strax.“

Það er haft eftir mér en tekið úr samhengi. Ég ætla að lesa fyrir ykkur samhengið, það er örstutt, með leyfi forseta:

„Frosti Sigurjónsson, frambjóðandi Framsóknarflokksins, í Reykjavík segir að þær krónueignir kröfuhafa í þrotabúum bankanna, sem framsóknarmenn vilja að notaðir verði til að lækka skuldir heimilanna, megi greiða til bankanna á 15–20 árum. Höfuðstóll lána einstaklinga lækki hins vegar strax þegar“ — þegar — „aðgerðin komi til framkvæmda.“

Það er mikilvægt að samhengi týnist ekki, en allt í lagi. Að því hvenær er hægt að koma þessu öllu í verk, öllum þeim leiðréttingum sem við viljum vinna að. Það hefur verið lögð fram áætlun í tíu liðum með aðgerðum sem eru bæði markvissar og tímasettar og tímasetningar flestar á þessu ári. Allt það sem við getum gert núna á sumarþinginu verður gert en ný ríkisstjórn vill vanda til verka, vill vinna þær rannsóknir og greina áhrif sem þarf að greina og líka vinna að víðtækri sátt um þær aðgerðir sem verður farið í. Ég bind vonir við að þetta muni ekki ganga hægar en það þarf að ganga. Þakka ykkur fyrir.



[15:06]
Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Á undanförnum dögum og vikum síðan núverandi ríkisstjórn var mynduð hefur töluverð umræða orðið um stöðu umhverfismála í stjórnkerfinu og stjórnsýslunni hjá okkur vegna þess að ríkisstjórnin ákvað að setja ekki sérstakan umhverfisráðherra heldur gera umhverfisráðuneytið að skúffu í ráðuneyti hjá ráðherra sem fer með málefni tveggja atvinnuvega. Margir hafa orðið til þess að gagnrýna það fyrirkomulag og undir þá gagnrýni hef ég tekið því að ég tel mjög mikilvægt fyrir þjóð sem byggir afkomu sína á nýtingu náttúruauðlinda eins og við gerum — við byggjum afkomu okkar á nýtingu sjávarafurða, við byggjum afkomu okkar á ferðamönnum sem koma hingað til að leita í ósnortna og óspjallaða náttúru og við erum þekkt um allan heim fyrir skynsamlega nýtingu á orkuauðlindunum. Þess vegna tel ég að það skipti líka miklu máli fyrir okkur og fyrir vörumerkið Ísland og allan okkar útflutning að við séum trúverðug í umhverfismálum alla leið, þannig að þetta vörumerki sé óspjallað. Ég hef því haft áhyggjur af því að vera ekki með sérstakan ráðherra umhverfis- og auðlindamála eins og var í tíð fyrri ríkisstjórnar og reyndar í tíð ríkisstjórna meira og minna síðastliðin 20 ár.

Þess vegna langar mig að spyrja nýjan formann umhverfis- og samgöngunefndar, hv. þm. Höskuld Þórhallsson, hvort hann geti ekki tekið undir það með okkur í þingflokki Samfylkingarinnar og öðrum þeim sem hafa gagnrýnt þetta fyrirkomulag, þá hvatningu til nýrrar ríkisstjórnar að vinda sér í það að skipa sérstakan ráðherra fyrir umhverfis- og auðlindamál á Íslandi svo að þeirri óvissu sem þessum mikilvæga málaflokki hefur verið sköpuð verði eytt.



[15:08]
Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina og hlakka til samstarfsins í nefndinni. Við héldum fyrsta fundinn — reyndar var það sameiginlegur fundur með atvinnuveganefnd en það var ágætisfundur.

Það voru einungis praktísk atriði sem gerðu það að verkum að ekki var hægt að skipa sérstakan umhverfisráðherra. Það þarf að samþætta störf eins og gengur. Eins og stjórnarliðar og stjórnarandstæðingar núna vita mjög vel þá stendur til að breyta ráðuneytum eitthvað. Ég veit vel að þeir vildu leggja mikla áherslu á heilbrigðismálin jafnvel þó að heilbrigðis- og tryggingamál hafi verið sameinuð undir velferðarráðuneyti.

Ég held að mjög mikilvægt sé í umhverfismálum, vegna þess að við ætlum svo sannarlega að gera þeim hátt undir höfði, að við skiljum hismið frá kjarnanum. Þess vegna varð ég vel við þeirri bón að halda sameiginlegan fund um málefni Hellisheiðarvirkjunar. En ég vil samt benda á eitt að á fundinum í morgun töluðu nefndarmenn lengur en gestir fundarins. Það eru vinnubrögð sem ég held að við verðum að breyta. Við verðum að vanda okkur í umræðunni þannig að allar upplýsingar komist til skila. Því miður náðist ekki að klára fundinn en við ætlum að klára hann í næstu viku og það verður að sjálfsögðu gert í fullri sátt og samlyndi við stjórnarandstæðinga sama í hvaða flokki þeir eru. (Gripið fram í: En svarið við spurningunni?)



[15:10]
Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Töluverð umræða hefur orðið um skipan í nefndir á Alþingi og þá með hvaða hætti kynjahlutfall birtist í einstökum nefndum. Það er alveg ljóst að á meðan konur eru innan við 40% þingmanna mun skiptingin verða áþekk í nefndum þingsins. Þannig er það og því þarf kannski fyrst og síðast að hefja sókn kvenna til að jafnt vægi kvenna og karla verði á Alþingi því að vart munum við binda það í lög.

Hins vegar finnst mér við í umræðunni og orðræðan úti í samfélaginu um mikilvægi nefnda vera svolítið sérstök. Mér þykir merkilegt ef það þykir sérkennilegt að í efnahags- og viðskiptanefnd sitji eingöngu karlar af því að það sé svo áhrifamikil og þung nefnd. Síðan kemur velferðarnefnd til tals þar sem sitja fleiri konur og það sé skrýtið vegna þess að hún sé svona og svona. Ég held að við þurfum pínulítið sjálf að ákveða orðræðuna um mikilvægi nefnda á þingi. Í mínum huga endurspeglar þessi umræða nákvæmlega hvernig launakjör eru í þessum stéttum. Þeir sem starfa í viðskiptum hafa hærri laun en þeir sem starfa í velferðarmálum. Ef við hér á Alþingi ætlum að láta þessa orðræðu líka birtast í því með hvaða hætti við lítum til þeirra nefnda sem hér eru og teljum sjálf sumar nefndir mikilvægari en aðrar þá breytum við hvorki viðhorfum né skoðunum til karla og kvenna eða til jafnréttis.

Mér finnst ástæða til að við sem þingmenn veltum þessum málum aðeins fyrir okkur samhliða því að við reynum eins og hægt er að hafa jöfn kynjahlutföll í nefndum. Hins vegar verður áhugi, hæfni og reynsla líka að fá að ráða för.



[15:12]
Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Internetið býður upp á mikla möguleika við öflun upplýsinga og til lýðræðislegra vinnubragða. Möguleikarnir eru óþrjótandi hvernig sem á málið er litið, fyrir alla. Það er vandinn. Lýðræðistækinu má hæglega snúa upp í andhverfu sína og í Bandaríkjunum hafa nú komið fram ásakanir um að Þjóðaröryggisstofnun Bandaríkjanna, NSA (National Security Agency), og alríkislögreglan FBI hafi um langt skeið safnað og samkeyrt upplýsingar um fólk, bæði frá símafyrirtækjum og þekktum vefsíðum, Yahoo, Facebook, Skype o.fl., og rekið sameiginlega sérstaka leynilega stofnun, kölluð Prism, sem annist verkefni af þessu tagi.

Sá sem kom upplýsingum um þetta á framfæri við heiminn heitir Edward Snowden og var starfandi hjá Prism eða fyrirtæki sem því tengist. Hann er nú kominn til Hong Kong og heyrst hefur að hann gæti hugsað sér að fá hæli eða búsetu á Íslandi. Engin slík beiðni hefur komið en mér finnst sjálfsagt að Íslendingar séu opnir fyrir því að taka við þessum manni og veita honum húsaskjól berist beiðni um slíkt. Við eigum alla vega að fylgjast vel með þessum málum og fara hugsanlega að dæmi Evrópusambandsins en Viviane Reding, dómsmálastjóri Evrópusambandsins, hefur sent Eric Holder, dómsmálaráðherra Bandaríkjanna, bréf þar sem hún fer fram á upplýsingar um net- og símanjósnir Bandaríkjamanna. Hún segir að svör Holders geti haft áhrif á samskipti Evrópusambandsins og Bandaríkjanna.

Ég beini því til allsherjarnefndar Alþingis að (Forseti hringir.) taka þetta mál upp og fylgjast með því og einnig til utanríkismálanefndar þingsins. (Forseti hringir.) Þetta mál á heima í þinginu fremur en í ráðuneytum að mínum dómi.



[15:14]
Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Eitt meginmarkmið síðustu ríkisstjórnar var að minnka skuldsetningu og gera ríkisfjármálin sjálfbær. Enginn deilir um að töluverður árangur hefur náðst hvað það varðar. Það er því ekki að ósekju að maður velti fyrir sér hver fyrstu spor þessarar ríkisstjórnar eru.

Með stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarflokkanna er búið að setja skulda- og lánamál heimilanna ásamt ríkisfjármálaáætluninni í fullkomið uppnám. Það er búið lofa stórkostlegum aðgerðum í skuldamálum upp á mörg hundruð milljarða. Horfurnar eru þó ekki verri en svo að í stefnuræðu hæstv. forsætisráðherra kemur fram samdráttur í tekjum ríkissjóðs upp á tugi milljarða króna á næsta eina og hálfa árinu.

Ríkisstjórnin talar stöðugt um skynsamlegt skattkerfi. Hvað er það? Að skattkerfið verði aftur eins og áður? Að ekki megi breyta sköttum á almenning eða fyrirtæki? Að lækka skatta á tekjur, vörur og þjónustu — er það ekki lækkun á virðisaukaskatti? Hver prósenta kostar milljarða.

Breyting á tekjuskatti. Lækkun tekjuskatts þýðir lækkun skatta á ríkari hluta þjóðarinnar og þá allra ríkustu því að þar hækkuðu þeir ásamt sköttum á fjármagnstekjur og fyrirtæki. Þeir hækkuðu ekki annars staðar.

Á fyrsta fundi fjárlaganefndar í morgun var ákveðið að kalla eftir veikleikagreiningu á fyrsta frumvarpi ríkisstjórnarinnar sem felur í sér tekjufall upp á rúman hálfan milljarð á þessu ári — fyrsta frumvarpi ríkisstjórnarinnar.

Í Hagsjá í dag kemur fram að samneysla hafi aukist að raungildi um 0,9% á sl. ári og er gert ráð fyrir að hún aukist áfram næstu þrjú árin. Þessar tölur koma engum á óvart og eru staðfesting á því aðhaldi sem hefur ríkt í opinberum rekstri á undanförnum árum. Þar er einnig áréttað mikilvægi þess að slaka ekki á þeim markmiðum sem unnið hefur verið að og halda áfram verulegu aðhaldi í ríkisrekstrinum. Vakin er athygli á að tilslakanir í aðhaldi ríkisfjármálanna, t.d. með afléttingu skatta, geti haft neikvæðar afleiðingar í för með sér.

Á þessu virðast núverandi ríkisstjórnarflokkar ekki átta sig enda koma þeir algerlega óundirbúnir til þessa þings. Það sem þjóðinni er boðið upp á er þingsályktunartillaga um aðgerðir vegna skuldavanda heimila á Íslandi sem hefur þann stóra galla að í henni felast engar aðgerðir. (Forseti hringir.) Ríkisstjórnin er í rauninni að biðja þingið um að biðja sig að setja á fót nefndir.



[15:17]
Kristján L. Möller (Sf):

Virðulegi forseti. Ég hafði sett mig hér inn á mælendaskrá til að spyrja hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur, nýkjörinn formann fjárlaganefndar, sem ég óska henni til hamingju með, út í mál málanna, kosningaloforðið stóra, stærsta loforð Íslandssögunnar sem Framsóknarflokkurinn gaf um skuldamálin og aðgerðir strax.

Ég vitna í hv. 2. þm. Reykjavíkurkjördæmis norður, Frosta Sigurjónsson, frambjóðanda flokksins í Reykjavík, sem sagði á vefsíðu sinni að ráðist yrði í niðurfellingar strax er Framsóknarflokkurinn fengi til þess umboð. Nú efast ég ekki um að framsóknarmenn hafi samræmt sig vel og að hv. þingmaður geti tekið undir þetta, en mér virðist, eins og hefur komið fram á fyrstu dögum þingsins og var rætt hér um, að það eigi að fresta þessu.

Spurning mín til formanns fjárlaganefndar er einfaldlega hvort hún geti komið með einhver ný svör vegna þess að í blöðum í dag og undanfarna daga hafa verið viðtöl við fasteignasala, formann fasteignasala, framkvæmdastjóra fasteignasala og fleiri sem segja einfaldlega að markaðurinn sé frosinn vegna loforða framsóknarmanna og það sé mjög brýnt að óvissunni verði aflétt sem fyrst og brýnt að stjórnvöld tali hreint út, eins og segir í viðtali við þessa aðila.

Virðulegi forseti. Það er þess vegna sem mig fýsir að heyra í formanni fjárlaganefndar, hvort hún geti haft eitthvað nýtt fram að færa hér um engin loforð heldur aðgerðir. Geta þær farið að koma? Getur hv. þingmaður sagt okkur eitthvað hér sem afléttir þessari óvissu og leysir það frost sem er á markaðnum sem er eingöngu út af þessu mikla kosningaloforði sem Framsóknarflokkurinn gaf og sigraði kosningarnar út á á glæsilegan hátt?



[15:19]
Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Kristjáni L. Möller fyrir fyrirspurn hans. Það er fagnaðarefni að hann skuli fagna því með okkur framsóknarmönnum að við skyldum hafa unnið kosningasigur. Ég þakka fyrir það.

Það er alveg dæmalaus þessi söngur í samfylkingarfólki eftir að þing kom saman. Raunverulega var sá söngur byrjaður fyrir kosningar að Framsóknarflokkurinn væri að setja Íslandsmet í kosningaloforðum. Ég bið fólk um að fara fjögur ár aftur í tímann í huga sínum og hugsa til þeirra orða sem glumdu í eyrum landsmanna: Skjaldborg um heimilin; velferðarbrú. Hvað voru þau annað en risastór kosningaloforð sem voru svo aldrei efnd á kjörtímabilinu, hvað þá heldur nokkru fyrir kosningar eins og maður hélt að mundi stefna í?

Virðulegi forseti. Ég minni nefnilega á það að Samfylkingin hefur setið sex ár í ríkisstjórn — sex ár í ríkisstjórn. Svo sprikla þingmenn Samfylkingarinnar hér í þingsal þegar ný ríkisstjórn hefur tekið við, einum og hálfum mánuði eftir kosningar, og ætla að fara af hjörunum yfir því að verið sé að svíkja einhver kosningaloforð.

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður spurði hér hvers vegna fasteignamarkaðurinn væri hruninn og hvers vegna hann væri í frosti. Það er ekki Framsóknarflokknum að kenna ef það er eitthvert smáhlé á viðskiptum á fasteignamarkaði. Ég minni á það að Samfylkingin fór með það ráðuneyti sem stýrði Íbúðalánasjóði síðastliðin fjögur ár, síðastliðin sex ár líklega, þannig að við vitum nú öll í hvaða vandræðum Íbúðalánasjóður er, sem dæmi, því ekki tínir fólk peninga af trjánum.

Við verðum að gefa nýrri ríkisstjórn tíma til þess að koma fram með frumvörp sem standast stjórnarskrá. Það er meira en hægt er að segja um Samfylkinguna á síðasta kjörtímabili, Árna Páls-lögin til dæmis sem leiddu af sér lögsókn. Við skulum gefa ríkisstjórninni tíma fram á haust því að nú þegar (Forseti hringir.) hefur verið lögð fram þingsályktunartillaga í þinginu (Forseti hringir.) með aðgerðaáætlun sem nær (Forseti hringir.) fram á haust.



[15:21]
Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Mig langar að byrja á að óska samþingmönnum mínum til hamingju með kjörið og ég hlakka til samstarfsins á þessu kjörtímabili.

Ég hef heyrt það af hálfu stjórnarandstæðinga að þeir hafa miklar áhyggjur af því að ekki hafi verið skipaður sérstakur umhverfisráðherra. Mig langar aðeins að fjalla um það mál. Í tilefni orða hv. þm. Katrínar Júlíusdóttur áðan vil ég lýsa því yfir að ég hef engar sérstakar áhyggjur af því vegna þess að ég tel að ríkisstjórnin og þeir flokkar sem skipa hana hafi mikinn áhuga á umhverfismálum og leggi áherslu á umhverfismál eins og sést á stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarflokkanna. Með þeim orðum tel ég að hv. þm. Katrín Júlíusdóttir hafi ekki verið að lýsa því yfir að fyrrverandi ríkisstjórn hafi ekki lagt áherslu á heilbrigðismál, menntamál eða sveitarstjórnarmálin þrátt fyrir að þau hafi verið að færa til verkefni innan ráðuneyta og í sumum tilvikum að sameina ráðuneyti. Ég tel því að þessi umræða sé á villigötum. Þegar við tölum um umhverfismál eigum við að einbeita okkur meira að málefnunum heldur en einstaka mönnum. Ég tel að það sé einfaldlega heppilegra og málaflokknum til framdráttar.

Mig langar að benda á að umhverfismálin og umræðan um þau á undanförnum árum hefur að mjög miklu leyti snúist eingöngu um virkjanir, um vernd og nýtingu og vissulega er það mikilvægt mál. Hins vegar er stærsta verkefni okkar á líðandi stundu í umhverfismálum það að taka til við að græða betur upp landið okkar. Það þekkja allir sem ferðast um hálendið og þeir sem vinna á hálendinu og búa til dæmis á Suðurlandi hvað blæs mikið ofan af hálendinu.

Þetta er risastórt mál og mig langar að lýsa því yfir að ég fagna sérstaklega þeirri yfirlýsingu sem fram kemur í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um að stórauka eigi landgræðslu, skógrækt og aðra eflingu gróðurlenda. Þetta er stóra verkefnið. Við skulum einbeita okkur að málefnunum en ekki einstaka mönnum varðandi umhverfismál.



[15:24]
Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegi forseti. Mig langaði til að benda ykkur, hv. þingmenn, á afgerandi niðurstöður úr umfangsmikilli rannsóknarvinnu rannsóknar- og þróunarstofnunar bandaríska dómsmálaráðuneytisins á rafbyssum. Sú rannsóknarvinna samanstóð af tveimur rannsóknum um notkun taser-rafbyssna. Önnur sneri að læknisfræðilegum áhrifum tækjanna og hin að notkun þeirra við lögreglustörf. Tugir vísindamanna komu að þessum rannsóknum.

Helstu niðurstöður sýna að taser er ekki hættulegt tæki ef það er notað rétt og það dregur úr meiðslum lögreglumanna sem og brotamanna.

Allar niðurstöður benda til þess að notkun taser sé jafn hættulítil eða hættuminni en aðrir valkostir við valdbeitingu.

Engar læknisfræðilegar rannsóknir benda til þess að eðlileg notkun taser valdi sérstakri hættu á hjartsláttartruflunum, jafnvel þótt rafpúlsinn frá tækjunum fari í brjóstkassa einstaklinga.

Öryggismörk eru mjög há ef tækjunum er beitt í samræmi við ábendingar framleiðandans og frá læknisfræðilegu sjónarmiði er engin ástæða fyrir lögregluembætti að forðast notkun taser til að yfirbuga einstaklinga sem sýna mótþróa eða berjast á móti handtöku.

Embætti ríkislögreglustjóra á nú þegar til taser. Ég tel mikilvægt að sérsveit ríkislögreglustjóra taki þau tæki í notkun við almenna löggæslu sem fyrst, en þeir hafa nú þegar fengið þjálfun í því skyni. Þá skapast mikilvæg reynsla sem hægt verður að nýta við innleiðingu taser fyrir almenna löggæslu í landinu. Það er mikilvægt og áríðandi að lögreglan taki upp notkun taser, það mun stórauka öryggi lögreglumanna sem og brotamanna og um leið spara umtalsverða fjármuni.

Mörg dæmi eru um að lögreglumenn hafi þurft að fara í löng veikindaleyfi vegna slysa við handtöku. Núverandi valdbeitingartæki hafa ekki dugað við allar aðstæður og eru dæmi um örorku eftir slíkt og ég þekki sjálfur mörg slík dæmi.



[15:26]
Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil vekja athygli hv. þingmanna á því að Hagsjá hagfræðideildar Landsbankans fjallar um stöðu ríkisfjármála en þar koma fram áhyggjur af stöðunni enda skiptir hún verulegu máli fyrir þróun íslensks efnahagslífs. Þar er minnt á að bæði ávöxtunarkrafa og álag fyrir Ísland hafi farið lækkandi og að ætla mætti að mikill agi í fjármálum ríkisins á síðustu árum hafi aukið tiltrú á íslenskt efnahagslíf. (SII: Heyr, heyr.) Bent er á að öll merki um tilslökun í fjármálum ríkisins geti stuðlað að lakari kjörum á erlendum lánsfjármörkuðum, en kjör ríkisins á erlendum mörkuðum setja grunnkjör fyrir erlendar lántökur annarra innlendra aðila og hafa því víðtæk áhrif á stöðu, framkvæmdir og endurfjármögnun lána hjá íslenskum fyrirtækjum.

Skuldastaða ríkisins er alvarleg eftir efnahagshrunið og er sannarlega ástæða til að koma fram með tillögu til að bæta þá stöðu. Það er mikið hagsmunamál að vinna áfram markvisst að stöðvun skuldasöfnunar eins og gert hefur verið síðastliðin ár og gera síðan áætlun um að greiða niður skuldir. Jöfnuður í ríkisfjármálum skiptir einnig máli í baráttunni við að ná verðbólgumarkmiðum Seðlabankans og það skiptir máli fyrir kjör almennings í landinu.

Það er því til mikils að vinna en forgangsröðun hæstv. ríkisstjórnar um aðgerðir í ríkisfjármálum gefa því miður ekki tilefni til bjartsýni þegar í fyrsta frumvarpinu sem hún leggur fram á kjörtímabilinu er lögð til umtalsverð tekjuskerðing fyrir ríkissjóð, væntanlega með skuldasöfnun sem henni nemur nema áform séu uppi um að skera niður í velferðar- og menntakerfi á móti tekjuskerðingunni. Því hafa stjórnarliðar ekki svarað en æ fleiri hafa vaxandi áhyggjur af afkomu ríkissjóðs og afleiðingum slakrar stjórnunar ríkisfjármála fyrir kjör fólksins í landinu (Forseti hringir.) af hálfu hægri stjórnarinnar sem nú nýlega hefur tekið við völdum.



[15:28]
Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Það hefur talsvert verið gert með það nú þegar ný ríkisstjórn hefur tekið við völdum að við stjórnvölinn sitji yngsti forsætisráðherra sem Ísland hefur átt um áratugaskeið og það sé lægsti meðalaldur ráðherra í ríkisstjórn sem sögur fara af hér á landi. Þá bregður svo við að þessi unga ríkisstjórn ætlar heldur betur að setja í bakkgírinn og hverfa til gamalla tíma. Þar er ég kannski að þessu sinni með í huga frumvarp sem hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra hefur lagt fram um breytingar á lögum um Ríkisútvarpið sem voru samþykkt hér síðastliðið vor.

Í þeim breytingum sem samþykktar voru á lögum um Ríkisútvarpið í vor var ákveðið að breyta skipan útvarpsráðs þannig að fleiri kæmu þar að og fleiri raddir heyrðust. Það var ákveðið að setja á fót sérstaka valnefnd til þess að velja fólk í útvarpsráð, fyrir utan formann útvarpsráðs sem gert var ráð fyrir að ráðherra skipaði, og fulltrúa starfsmanna. Nú vill hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra hverfa til hins gamla fyrirkomulags, að það sé pólitískt kjörið útvarpsráð. Ég verð að segja fyrir mína parta ég tel að sú þróun sé ekki góð. Ég vil líka lýsa undrun og vonbrigðum með það að hv. þingmenn Framsóknarflokksins hafi samþykkt að þetta mál yrði lagt fram sem stjórnarfrumvarp og minna í því sambandi á að við afgreiðslu málsins í vor samþykkti þingflokkur Framsóknarflokksins það, meðal annars þrír þingmenn sem enn sitja á þingi, hv. þm. Ásmundur Einar Daðason, Gunnar Bragi Sveinsson og Sigurður Ingi Jóhannsson.

Þannig að Framsóknarflokkurinn stóð að breytingum á frumvarpinu í vor og sjálfstæðismenn flestir hverjir sátu hjá, einhverjir voru að vísu á móti en flestir hverjir sátu hjá, meðal annars hæstv. núverandi mennta- og menningarmálaráðherra. Þá var þetta ekki (Forseti hringir.) mikilvægt mál í huga ráðherrans en núna ætlar hann sem sagt að skrúfa til baka (Forseti hringir.) og fara aftur í hið gamla og pólitíska skipaða útvarpsráð. Ég verð að harma það og lýsa (Forseti hringir.) því að við í Vinstri hreyfingunni — grænu framboði erum (Forseti hringir.) ekki hrifin af þessum ákvörðunum.



[15:31]
Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég óska hv. þm. Frosta Sigurjónssyni til hamingju með jómfrúrræðu sína og hlakka til að halda áfram umræðum við hann um skuldamálin á morgun. En ég fagna sérstaklega yfirlýsingu formanns fjárlaganefndar um að ríkisstjórnin hafi tíma til haustsins til að koma hér inn með tilbúin frumvörp varðandi skuldamálin og verðtrygginguna. Ég hafði nefnilega áhyggjur af því að nefndin á ekki að skila af sér fyrr en í nóvember og að við fengjum þess vegna ekki mál inn fyrr en á næsta ári. Ég held að við hljótum öll að vera sammála um að það er allt of langt að fresta málunum til 2014 þannig að ég fagna því að formaður fjárlaganefndar hafi sett þau tímamörk (VigH: Það er haustþing.) að málin ættu að vera komin í þingið í haust. (VigH: Það er haustþing.)

Ég er hins vegar ekki jafn ánægður með þær yfirlýsingar sem komu frá hv. þingmönnum Ragnheiði Ríkharðsdóttur, Unni Brá Konráðsdóttur og Höskuldi Þórhallssyni. (Gripið fram í.) Mér finnst ekki ástæða fyrir stjórnarandstöðuþingmenn að gagnrýna allt. Mér finnst heldur ekki ástæða fyrir stjórnarþingmenn að verja allt. Það hversu dregið hefur úr áherslunni á umhverfismál á að vera okkur umhugsunarefni. Okkur hefði aldrei dottið í hug að fara svona með fjármálaráðuneytið, að láta það bara dingla sem aukaráðuneyti hjá einhverjum. Ef okkur finnst að umhverfismál séu jafn mikilvæg og fjármál þá eigum við að fara eins með þau.

Sama er með hlut kvenna. Auðvitað er hlutur kvenna í ríkisstjórn Íslands nú áhyggjuefni því að hann er langtum lakari en hann var í síðustu ríkisstjórn. Það er aðeins eitt óskipt ráðuneyti sem kemur í hlut kvenna og það sem gerðist í þinginu eykur bara þá áherslu. Við eigum að hafa það sem umhugsunarefni og við eigum líka að gera það í stjórnarandstöðunni. Við skipuðum einu sinni bara karlmenn í fjárlaganefnd á síðasta kjörtímabili í Samfylkingunni en við hlupum til og við löguðum það. Ég held að við þurfum að ræða þá hluti og reyna að vinda ofan af þeim mistökum hratt og vel sem menn gera og það gildir líka um nefndaskipunina á Alþingi. Við höfum rætt það, þingflokksformenn, og ég vona að mönnum takist að laga eitthvað (Forseti hringir.) kynjahallann í nefndum þingsins (Forseti hringir.) nú þegar á sumarþinginu. (Forseti hringir.) Mér finnst enginn bragur á öðru.



[15:33]
Brynjar Níelsson (S):

Hæstv. forseti. Ég hafði nú hugsað mér að vera jómfrú örlítið lengur en það er eins og það er. Ég er ekki mjög útgjaldaglaður maður og ég hef oft hugsað, þegar ég hef hlustað á umræður hér sem leikmaður úti í bæ, um öll þessi útgjöld, en við verðum samt að hugsa um grunnstoðir íslensks samfélags. Alls staðar vantar peninga, alls staðar getur þetta nýst vel og allt er þetta mikilvægt, en það eru samt grunnstoðirnar sem verða að vera í lagi því að ef þær eru ekki í lagi er allt annað ónýtt. Það er ekki flóknara en það.

Ég vil því í þessari stuttu ræðu minni nú minna á mikilvægi þess að við förum í aðgerðir til að bæta stöðu íslenskra dómstóla og ákæruvalds í landinu því að — og ég ætla að nota vinsælt orð — ástandið í þeim málum er komið að þolmörkum. Ég held að í raun og veru séu þetta afskaplega lítil útgjöld þegar búið er að koma á millidómstiginu, búið að fækka í Hæstarétti í eina deild, þá eru þetta ekki miklir peningar. Við höfum raunverulega alltaf vanrækt þetta dómstólakerfi og ákæruvald vegna þess að það hefur fúnkerað þrátt fyrir allt. Við höfum ekki haft áhyggjur af því, meðan þeir ná að dæma einhverja misindismenn í fangelsi þá erum við sátt, en þetta er miklu flóknara en það. Takk fyrir.