142. löggjafarþing — 4. fundur
 12. júní 2013.
stjórnarskipunarlög, 1. umræða.
frv. ÁPÁ o.fl., 5. mál (tímabundið ákvæði um breytingu á stjórnarskrá). — Þskj. 5.

[16:12]
Flm. (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til stjórnarskipunarlaga um breytingu á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, sem er frumvarp sama efnis og frumvarp sem samþykkt var á síðasta þingi og var síðasta mál liðins þings. Flutningsmenn eru auk mín þeir sömu og voru á síðasta þingi, hv. þingmenn Katrín Jakobsdóttir og Guðmundur Steingrímsson.

Í frumvarpinu felst að sett verði nýtt tímabundið breytingarákvæði við stjórnarskrá Íslands sem geri okkur kleift að breyta stjórnarskránni með þeim nýja hætti að Alþingi verði ekki lengur einrátt um stjórnarskrárbreytingar eins og verið hefur hingað til þegar þurft hefur samþykki tveggja þinga með alþingiskosningar á milli til að breyta stjórnarskránni, heldur verði opnað fyrir þann möguleika að 2/3 hlutar þings geti samþykkt breytingar á stjórnarskrá sem síðan þurfi staðfestingu einfalds meiri hluta í þjóðaratkvæðagreiðslu, en þó þannig að minnst 40 af hundraði allra kosningarbærra manna samþykki breytinguna.

Með þeirri breytingu, ef hún verður staðfest á Alþingi, værum við að opna nýja leið fyrir framgang stjórnarskrárbreytinga á þessu þingi. Þetta væru tímamót því að hingað til hefur þingið verið einrátt. Við værum þá að færa þjóðinni þátttöku í stjórnskipunarbreytingarvaldinu og búa okkur til tæki til þess að gera breytingar sem ég held að væri auðveldara að gera í almennri samstöðu í þinginu með góðum undirbúningi, með langan tíma fram undan, þ.e. allt kjörtímabilið, og við gætum náð saman um. Margt hefur verið nefnt í því efni. Í stjórnarsáttmála er talað um auðlindaákvæði og beint lýðræði. Ég er sammála því.

Ég nefndi í umræðu um stefnuræðu hæstv. forsætisráðherra hvort við gætum mögulega tengt starfsháttabreytingar hér í þinginu við heimild minni hluta þings, eins og í Danmörku, þar sem þriðjungur þingmanna getur vísað málum til þjóðarinnar og þar með bundið enda á málþófið sem hefur verið leiður fylgifiskur þingræðis á Íslandi undanfarna áratugi. Það eru því mörg tækifæri sem við höfum til þess að nýta þennan glugga ef við kjósum að opna hann. Ég tala fyrir því núna að við sameinumst um að opna þann glugga, skapa okkur það svigrúm á þessu kjörtímabili.

Ákvæðið er samkvæmt efni sínu tímabundið. Það rennur út árið 2017. Ég held að miklu máli skipti að við grípum þetta tækifæri og við höfum þá — sumir hafa efasemdir um þetta breytingarákvæði vegna samþykkisþröskuldarins og það verði snúið að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu þannig að 40% kosningarbærra manna samþykki frumvarp til stjórnarskipunarlaga.

Því er ekki að neita að þessi samþykkisþröskuldur var niðurstaða samningaviðræðna við formenn þáverandi stjórnarandstöðuflokka, sem nú eru formenn stjórnarflokkanna, á síðasta þingi og endurspeglaði áhyggjur þeirra af því að of auðvelt yrði að breyta stjórnarskrá. En við flutningsmenn töldum þetta færa leið vegna þess að þrátt fyrir allt er þetta nú ekki erfiðara en svo að 90 þúsund manns þarf til að samþykkja stjórnarskrárbreytingu.

Fyrir liggja, til dæmis á þessu kjörtímabili sem þetta frumvarp tekur til, óháð öllu öðru tvennar almennar kosningar. Sveitarstjórnarkosningar verða árið 2014 og ólíklegt er annað en að forsetakosningar verði háðar 2016. Það þýðir að alla vega eru tvö tækifæri til stjórnarskrárbreytinga fyrir okkur þar sem við gætum nýtt þennan glugga og komið breytingum að.

Ég tel það ókost allrar umræðu um stjórnskipunarbreytingar á Íslandi frá lýðveldisstofnun að þetta fyrirkomulag hafi verið með þeim hætti sem það er, þ.e. bundið við þingið og að þessi fortakslausa skylda skuli vera að frumvarp til stjórnarskipunarlaga sé síðasta mál sem afgreitt sé í þinginu og að fara þurfi til Bessastaða og ná í forsetabréf um þingrof ef svona mál kemur fram. Þinglausnir voru með öðrum hætti en venjulega hér í vor út af þessu vegna þess að það þurfti að rjúfa þing, það var ekki hægt að ljúka þingi.

Þetta veldur því auðvitað að stjórnarskrárbreytingar hafa allt frá lýðveldisstofnun verið unnar í einhvers konar tímahraki og samningastappi á síðustu mánuðum þings áður en kemur að alþingiskosningum með örfáum undantekningum. Ég held að það sé stjórnskipun Íslands ekki til góðs, ég held að það sé ekki gott fyrir umræðu í þingsal um stjórnarskrárbreytingar.

Þess vegna skiptir miklu máli fyrir okkur að sameinast um að opna þennan glugga núna þannig að við eigum hann á þessu kjörtímabili. Það þarf hvort eð er 2/3 hluta þingmanna til að nýta hann, þannig að það verður nú ekki gert nema með atbeina núverandi stjórnarflokka að breyta stjórnarskránni. En við höfum þá þennan glugga opinn ef við kjósum að nýta hann. Mér þykir margt benda til þess að efnisleg rök séu til að ná fram ákveðnum breytingum á stjórnarskránni.

Síðan er búið að vinna mikla grunnvinnu sem nýtist auðvitað áfram. Lagt var fram frumvarp stjórnlagaráðs. Fyrir þjóðina var spurningin lögð hvort þjóðin vildi fá frumvarp byggt á þeirri vinnu. Það var lagt hér fram í þinginu í kjölfar þess að niðurstaða meiri hluta landsmanna, þeirra sem tóku þátt í þeirri þjóðaratkvæðagreiðslu, var að menn vildu fá slíkt frumvarp. Áfram er auðvitað hægt að vinna með þær hugmyndir líka til viðbótar öllu því sem ég rakti hér áðan.

Ég tel þess vegna mikilvægt fyrir okkur að nýta þetta tækifæri, opna þennan glugga, sjá hvert við komumst í þverpólitískri samstöðu í þinginu og sköpum okkur tækifæri til frekari stjórnarskrárbreytinga á kjörtímabilinu.



[16:19]
Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Því hefur stundum verið haldið fram að krafan um nýja stjórnarskrá eða frumsamda stjórnarskrá fyrir lýðveldið Ísland hafi komið fram eftir hrun efnahagslífsins. Það er alls ekki svo. Krafan um nýja stjórnarskrá hefur verið á lofti alveg frá því að við öðluðumst sjálfstæði 1944 en það hefur gengið brösuglega að semja þjóðinni stjórnarskrá. Sú stjórnarskrá sem við búum við á rætur að rekja til dönsku stjórnarskrárinnar sem við bjuggum við áður. Það hefur því verið langt ferli og langvarandi viðleitni að reyna að setja þjóðinni frumsamda stjórnarskrá, að segja má, saminni af íslensku fólki.

Við komumst ansi langt með þetta verkefni á síðasta kjörtímabili. Það höfðu verið hugmyndir á kreiki löngu fyrir hrun um að koma á fót sérstöku stjórnlagaþingi vegna þess að þinginu sjálfu, Alþingi, sem er stjórnarskrárgjafinn, hafði gengið brösuglega að endursemja stjórnarskrána. Þetta var gert. Það var farið af stað í ferli sem var samkomulag um á síðasta kjörtímabili. Það var byrjað á þjóðfundi sem var vel heppnaður þótt einhverjir hafi fengið stöðumælasekt fyrir utan Laugardalshöll. Þar var rætt um öll helstu gildin sem áttu að vera í nýrri stjórnarskrá. Þetta var í rauninni mjög merkilegt. Fólkið á fundinum var að hluta til fengið með slembiúrtaki og að hluta til valið. Svo tók stjórnlaganefnd við niðurstöðu fundarins og gerði ítarlega skýrslu og síðan var kosið til stjórnlagaþings sem varð síðan stjórnlagaráð. Um flest allt, nema náttúrlega það sem gerðist þegar stjórnlagaþing varð stjórnlagaráð, var mikil sátt.

Niðurstaðan úr þessu öllu saman voru mjög framsækin og góð drög að nýrri stjórnarskrá — ekki endilega fullkomin drög, í þeim er mjög margt sem þarf að ræða. Við fórum í þjóðaratkvæðagreiðslu um drögin og niðurstaða hennar, með yfirgnæfandi meiri hluta, var að setja ætti þjóðinni nýja stjórnarskrá á grunni tillagna stjórnlagaráðs.

Svo ég tali fyrir mitt leyti þá finnst mér að við eigum, og það ætti að vera leiðarljós í starfi okkar á Alþingi, að klára ferlið. Mér finnst að sú hugsun eigi að ráða för í málinu. Þetta ferli var hafið og ekki að ástæðulausu, það var rík ástæða fyrir því að fara með drögin í þjóðaratkvæðagreiðslu. Núna þurfum við á þessu þingi að klára þetta. Því miður gafst ekki tími til þess á síðasta þingi, það var hugsanlega að mörgu leyti fyrirsjáanlegt, en alla vega var það staðreynd sem blasti við. Núna getum við klárað það. Mér finnst það vera skylda okkar hér inni að klára þetta ferli og bera virðingu fyrir þjóðaratkvæðagreiðslunni sem fór fram 20. október og reyna að leiða þetta mál til lykta.

Sú tillaga sem við ræðum hér, stjórnarskrárbreytingin sem var gerð í lok síðasta þings og við munum vonandi staðfesta á þessu þingi og þar með öðlast hún gildi, snýst einungis um að gera þessu þingi auðveldara að fara í stjórnarskrárbreytingar. Hún opnar glugga. Þetta er bara viðbót við breytingarákvæðið sem fyrir er í stjórnarskránni. Hún opnar möguleika á því að við getum haldið áfram á þessu þingi með fyrirliggjandi stjórnarskrárdrög, með allar þær góðu athugasemdir sem eru fyrir hendi við þau drög, haldið áfram vinnunni og farið með niðurstöðuna í bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu.

Það er að mörgu leyti miklu betra að mínu mati að fara með svona yfirgripsmiklar stjórnarskrárbreytingar, svo ekki sé talað um heildarendurskoðun, jafnvel heila stjórnarskrá, í bindandi þjóðaratkvæði. Mér finnst það miklu betri niðurstaða fyrir stjórnarskrárbreytingar en gert er ráð fyrir í núverandi stjórnarskrá.

Mér finnst það hafa komið í ljós í raun og veru í vinnunni á síðasta kjörtímabili að það fyrirkomulag að tvö þing þurfi til breytinga og alltaf þurfi að boða til alþingiskosninga þegar breyta þarf stjórnarskrá hentar ekki heildarendurskoðun eins og við vorum að glíma við á síðasta þingi. Stjórnarskráin var bitbein í aðdraganda kosninga. Það er óheppilegt. Alþingiskosningarnar sem fóru fram 27. apríl sköpuðu óeðlilega pressu á málið.

Núna getum við haldið áfram endurskoðuninni án þess að skapa þá pressu. Við getum farið með málið í þjóðaratkvæðagreiðslu þegar við erum búin að ná sátt í þingsal með tveimur þriðju hluta þingmanna. Þetta er miklu betri leið að mínu viti fyrir heildarendurskoðun á stjórnarskrá.

Ég skora eindregið á þingheim að staðfesta frumvarpið og fara svo í það í sameiningu í þingsal að skilgreina hvernig við ætlum að hafa ferlið áfram. Okkur ber skylda til að taka þennan bolta og ljúka málinu sem því miður tókst ekki að klára á síðasta þingi. Ég skora á þingheim að gera það.



[16:25]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Við erum að ræða mjög stórt mál. Það var samþykkt á síðasta þingi, undir lok þess að sjálfsögðu því að í 79. gr. stjórnarskrárinnar segir að rjúfa skuli þing um leið og búið er að samþykkja stjórnarskrárbreytingu.

Það sem ég vildi spyrja hv. þingmann um er um þessa furðulegu stöðu. Þetta frumvarp er nánast sama frumvarp og ég flutti, nema þröskuldurinn er 40% í staðinn fyrir 50% hjá mér, og breytingin er til bráðabirgða, bara í eitt kjörtímabil. Og hún er auk þess til viðbótar við 79. gr.

Þá kemur upp merkileg staða. Segjum að einhver vilji flytja frumvarp um breytingu á stjórnarskránni. Hann er ekkert svo viss um að þjóðin vilji það. Þá velur hann 79. gr. óbreytta og leggur frumvarpið fram undir lok þings, það verður síðasta málið og hann fær það samþykkt. Þá greiðir þjóðin ekki atkvæði um það þannig samkvæmt 79. gr. Ef hann treystir hins vegar ekki þinginu til að samþykkja tillögu sína vísar hann henni til þjóðarinnar í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Er þetta ekki furðuleg niðurstaða þess að hafa tvo möguleika á því að breyta stjórnarskránni, þó að annar sé til bráðabirgða og við hliðina á hinu ákvæðinu?



[16:27]
Guðmundur Steingrímsson (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Nei, mér finnst þetta ekkert sérstaklega flókið. Þarna er verið að leggja til tímabundið ákvæði til viðbótar við breytingarákvæðið sem fyrir er þannig að ef þetta er samþykkt verða á þessu kjörtímabili að vera fyrir hendi tvær leiðir, báðar lýðræðislegar, til þess að breyta stjórnarskránni. Það getur vel verið að niðurstaða þingsins verði að hugsanlega muni þessi endurskoðun, áframhald hennar, taka allt kjörtímabilið og farið verði í breytinguna eftir hefðbundnum leiðum, en ég mæli með hinni. Við erum komin það langt á veg með endurskoðun á stjórnarskránni. Við erum nýkomin úr mikilli umræðu um hana undir lok síðasta kjörtímabils. Ég held við verðum að halda dampi í þessu. Það eru komnar mjög miklar og góðar athugasemdir við stjórnarskrárdrögin sem ég held að við ættum að mæta núna í vinnunni. Ég held að það sé betra fyrir heildarendurskoðun eins og þá sem er fyrirliggjandi að við ljúkum henni með bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu og sátt hérna í þinginu. Mér finnst það ekkert sérstaklega flókið þótt hin leiðin sé líka fyrir hendi.



[16:29]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka svarið svo langt sem það nær. Ég er ekki alveg sammála því að báðar leiðirnar séu lýðræðislegar vegna þess að önnur er þingræðisleg, þ.e. að þingið og eftirfarandi þing geti breytt stjórnarskrá. Þar greiðir þjóðin í rauninni aldrei atkvæði um stjórnarskrána sína. Aldrei. Þegar þjóðin kýs þing er það ekki til þess að breyta stjórnarskrá heldur til þess að velja stjórnendur fyrir landið fyrir næsta kjörtímabil. Þá er verið að hugsa um efnahagslífið og menningarmál og allt slíkt, en síst af öllu stjórnarskrána.

Þessi tillaga hér, og sú tillaga sem ég flutti á síðasta þingi, gengur út á að þjóðin greiði atkvæði um stjórnarskrána sína eða breytingar á henni. Það tel ég vera lýðræðislegt en ekki hitt. Það sem ég geri athugasemd við er í fyrsta lagi að það skuli bara gilda í eitt kjörtímabil og í öðru lagi að það skuli vera tveir möguleikar. Ég er nærri viss um að ef hún væri varanleg mundi maður nota hana til að gera breytingar á stjórnarskránni hægt og rólega, bita fyrir bita en ekki allar í einu, laga það sem menn eru sammála um að gera og svo framvegis, því að það þarf ansi mikinn samþykkisþröskuld. Menn þurfa að vera sammála, hérna þurfa t.d. 40% kjósenda að vera sammála.

Sú leið sem hefur verið hingað til, þar þurfa menn ekkert að vera sammála. Það er bara meiri hluti Alþingis og meiri hluti næsta þings sem þarf að samþykkja það. Það er því verulega mikill munur á þessu. En vegna þess að þetta er tímabundið og vegna þess að þröskuldurinn var lækkaður, úr 50 niður í 40 frá minni tillögu, er ég ekki alveg sáttur við þessa tillögu. Ég þarf að hugleiða það í viðkomandi nefnd sem fær þetta til umsagnar hvort ég styð hana eða ekki.



[16:31]
Guðmundur Steingrímsson (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það hvernig best er að breyta stjórnarskrá finnst mér mjög mikilvæg umræða og hana þarf einmitt að taka í tengslum við fyrirliggjandi drög að nýrri stjórnarskrá því í þeim er gert ráð fyrir að einungis verði hægt að breyta stjórnarskránni með þjóðaratkvæðagreiðslu á ákveðinn hátt. Mér finnst greinin þar sett fram á þannig máta að rík ástæða sé til að gagnrýna það. Ég held að þar sé t.d. ekki samþykkisþröskuldur svo dæmi sé tekið.

Vegna þess að við tillöguflytjendur ætlum ekki, eins og ég skildi það, að útkljá það núna hvernig best væri að breyta stjórnarskrá ákváðum við að þetta yrði viðbót. Okkur fannst það hófsamara. Hin leiðin til að breyta stjórnarskránni er enn þá fyrirliggjandi. Þetta er einungis tímabundinn gluggi í ljósi aðstæðna, þ.e. við erum í endurskoðunarferli á stjórnarskránni allri. Eftir sem áður er spurningin um það hversu málum verði til frambúðar best fyrir komið opin. Ég mundi gjarnan vilja ræða þá spurningu við hv. þm. Pétur H. Blöndal í betra tómi. Ég hneigist til þess eins og hann, og hann virðist vera afdráttarlausari en ég treysti mér kannski til að vera á þessari stundu, að líta svo á að þjóðaratkvæðagreiðsla sé betri leið til að breyta stjórnarskrá og það ætti að vera framtíðarskipulagið.

Það hafa líka komið fram athugasemdir við það, t.d. eins og þegar þarf stundum að koma inn í stjórnarskrá ákveðnum réttindum minnihlutahópa, þá hefur reynsla utan úr heimi sýnt að stundum er það erfitt með allsherjaratkvæðagreiðslu. Í þeim tilvikum gæti þjóðaratkvæðagreiðsla ekki hentað. Þetta er spennandi umræða sem bíður endurskoðunarferlisins sem vonandi fer af stað aftur í þinginu hið fyrsta.



[16:33]
Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég er ein af þremur flutningsmönnum þess máls sem við flytjum nú öðru sinni til staðfestingar. Þessi tillaga var flutt á síðasta þingi og samþykkt í kjölfar þeirrar miklu vinnu sem þá hafði farið fram við samningu nýrrar stjórnarskrár.

Ég vil fyrst segja það hér að það sem mér finnst einn mesti ávinningurinn af þessari vinnu er sú umræða sem fór fram úti í samfélaginu um stjórnarskrá lýðveldisins Íslands. Umræðan var miklu meiri og dýpri en við höfum áður heyrt, á undanförnum árum mundi ég halda og jafnvel áratugum, og varð að mínu viti málinu til framdráttar því að það má segja að umræðan hafi ekki verið einskorðuð við þingsal heldur fór hún fram úti í samfélaginu og birtist ekki aðeins í umræðuþáttum fjölmiðla heldur líka á kaffistofum og vinnustöðum og um allt samfélagið. Ég held að sjaldan eða aldrei hafi almenningur á Íslandi, nema kannski við upphaf lýðveldistímans, verið meðvitaðri um bæði gildandi stjórnarskrá og þær breytingar sem lagðar voru til, sem var auðvitað stórkostlegur ávinningur í sjálfu sér.

Um þetta var talsvert rætt á síðasta þingi þar sem fram komu þau sjónarmið að í ljósi þess að Alþingi væri stjórnarskrárgjafinn, sá sem færi með það vald að breyta stjórnarskrá, ætti eingöngu að líta til þeirrar umræðu sem hefði farið fram á Alþingi en ekki í stjórnlagaráði eða á öðrum sviðum samfélagsins. Ég er algerlega ósammála því viðhorfi í ljósi þess að stjórnarskráin er stjórnarskrá þjóðarinnar allrar og það er mjög mikilvægt að þjóðin öll sé meðvituð um hvað hún vill hafa í stjórnarskrá og hvað stendur í stjórnarskrá og hvernig samfélag við viljum byggja.

Þessi vinna var mjög vel á veg komin. Ég tek undir með þeim sem hér hafa talað á undan mér, hv. flutningsmönnum. Það er mjög mikilvægt að við tökum upp þann þráð á nýjan leik og setjum okkur í raun og veru aðgerðaáætlun um það hvernig við ætlum að vinna áfram að endurskoðun stjórnarskrárinnar og samningu nýrrar stjórnarskrár. Það er gríðarleg vinna sem liggur þarna að baki og mikilvægt að þeirri vinnu verði haldið fram og sett niður eitthvert plan um hvernig eigi að gera það.

Ástæða þess að við lögðum fram þessa tillögu á sínum tíma og hún var samþykkt hér í þingsal var hins vegar sú að við töldum mikilvægt að umræðan færi ekki í stopp undir þinglok, eins og hv. þm. Árni Páll Árnason fór ágætlega yfir. Við höfum upplifað að umræða um stjórnarskrármál hefur orðið mjög fyrirferðarmikil undir þinglok. Nærtækast er að minnast ársins 2009 þar sem alllengi var rætt í þingsal um stjórnarskrárbreytingar án þess að niðurstaða næðist. Það er auðvitað ekki rétta andrúmsloftið að vinna að breytingum á stjórnarskrá undir tímapressu í þinglok.

Eitt af því sem kom líka fram í þeirri vinnu sem hér fór fram, á meðan heimsókn fulltrúa Feneyjanefndarinnar stóð og farið var yfir þau drög sem þá lágu fyrir — ég átti fund með fulltrúum Feneyjanefndarinnar þar sem sérstaklega var rætt um breytingarákvæðið, að það breytingarákvæði sem við höfum í gildandi stjórnarskrá gerði það hreinlega að verkum að sú staða gæti komið upp að það væri erfitt að breyta stjórnarskrá því að umræðan færi alltaf fram undir slíkri tímapressu.

Við ákváðum því að leggja til aðra leið þannig að það yrðu í raun og veru tvær leiðir í gildi. Hugsunin á bak við það, eins og kom fram hjá hv. þm. Guðmundi Steingrímssyni, var að hafa þá leið tímabundna til að hægt yrði að ljúka og ná sátt um hvaða breytingarákvæði við ætluðum hafa til frambúðar í stjórnarskránni. Hugsunin var sú í ljósi þess hve vinnan væri langt komin að unnt væri að ljúka henni á því kjörtímabili sem nú er að hefjast og því er þessi tímabundna leið lögð fram.

Hér hefur verið rætt um samþykkisþröskuldinn hjá þjóðinni. Það er ljóst að sumum þykir hann of lágur og öðrum þykir hann of hár. Við lögðum frumvarpið upphaflega fram með lægri samþykkisþröskuldi hjá þjóðinni en eftir vinnu í nefnd og heilmiklar umræður á þingi um það mál var fallist á að breyta því og hækka þennan þröskuld. Það gerum við og horfum til þess að það liggur auðvitað fyrir og setur mjög mikla pressu á þingið að ná mikilli sátt um þær breytingar sem verða gerðar. Hins vegar tel ég að hægt sé að tryggja slíka þátttöku í ljósi þess að hér er almennt góð kosningaþátttaka. Það er auðvitað líka hægt að tryggja hana með því að láta atkvæðagreiðslu um nýja stjórnarskrá fara fram samhliða öðrum almennum kosningum, hvort sem það eru sveitarstjórnarkosningar, forsetakosningar eða einhverjar aðrar kosningar á næstunni. Fyrst og fremst snýst þetta um það því að það þarf líka samþykki 2/3 þingmanna og það þýðir auðvitað að breytingarnar krefjast mikillar sáttar.

Ég tel í sjálfu sér ekki ástæðu til að fara neitt ítarlegar yfir málið í ljósi þess að aðrir hv. flutningsmenn hafa farið yfir það, en fyrst og fremst tel ég mikilvægt að vinnu við málið verði haldið áfram á þessu kjörtímabili og síðan verði tekin umræða um það hvernig við viljum sjá þetta breytingarákvæði verða í þeirri stjórnarskrá sem við hyggjumst hafa hér til framtíðar. Ég tel þetta frumvarp hins vegar gefa okkur færi á því að ljúka þeirri vinnu en ekki undir þeirri tímapressu sem við höfum áður séð og tel að við höfum alla möguleika á því á nýju þingi að ná sátt um breytingar á stjórnarskrá.



[16:39]
Jón Þór Ólafsson (P):

Frú forseti. Píratar eru eins og segir í grunnstefnunni okkar hlynntir beinu lýðræði í öllum formum sem bjóðast og hérna er verið að bjóða upp á eitt ákveðið form. Það er verið að bjóða upp á, eins og hv. þm. Árni Páll Árnason nefnir, að opnaður verði ákveðinn gluggi.

Nú er spurningin: Hvað er glugginn opnaður mikið og hve hár er hann? Hvað gæti raunverulega komist í gegn?

Fyrst þurfa 2/3 hlutar þingsins að samþykkja einhverja breytingu og fyrst ekki náðist samstaða á síðasta þingi um mjög vel rætt ákvæði þá er spurning hvað þingið gæti raunverulega sameinast um þegar þarf 2/3 hluta þingsins. Þar á eftir þurfa 40% þjóðarinnar að samþykkja breytinguna. Segjum að það yrði 80% kosningaþátttaka, þá þyrfti helmingur að samþykkja breytinguna. Það er svolítið mikil þátttaka en þó gerleg. Þetta er það sem er í boði núna en við skulum ekki gleyma því sem gerðist á síðasta þingi. Þá var í boði endurskoðun stjórnarskrár sem skyldi byggð á, eins og þjóðin samþykkti í þjóðaratkvæðagreiðslunni með yfirgnæfandi meiri hluta, frumvarpi stjórnlagaráðs. Það var möguleiki að klára það á síðasta þingi þrátt fyrir hótanir um málþóf. Það þurfti bara níu þingmenn, samkvæmt þingsköpum, til að krefjast þess að stöðva umræðurnar og stytta þær þannig til að hægt væri að halda málinu áfram. Það er samhengið sem við höfum.

Við píratar erum að skoða núna að annars vegar er verið að opna glugga þó að hann sé mjög lítið opnaður og fátt komist í gegn, hann er hátt uppi á þessu húsi, en hins vegar er hann þröngur. Eigum við að skapa svoleiðis fordæmi? Það er spurningin sem við stöndum frammi fyrir.



[16:42]
Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum breytingar á stjórnarskrá í annað sinn eins og 79. gr. núgildandi stjórnarskrár gerir ráð fyrir, þ.e. að þær séu fyrst samþykktar á einu þingi og síðan aftur á öðru, og þess vegna bar nauðsyn til að leggja þetta mál fram núna til að fjalla um það og annaðhvort samþykkja það eða hafna því.

Mikil umræða fór fram á síðasta kjörtímabili um nýja stjórnarskrá. Mér fannst stundum eins og menn teldu að allur vandi atvinnulífs og heimila yrði leystur ef breytt yrði um stjórnarskrá. Hins vegar hafa aðrir haldið því fram að núgildandi stjórnarskrá hafi bara staðið ljómandi vel. Hún kom til dæmis í veg fyrir Icesave-óhamingjuna og hefur fleytt okkur í gegnum það hrun sem við urðum fyrir þannig að það er spurning hvort hún sé svo slæm að skipta þurfi um hana alla.

Í stjórnarskránni eru ákvæði sem eru dálítið undarleg, eins og ákvæðið um forsetann að hann gerir samninga við erlend ríki. Nú vita allir sem betur þekkja til að það er utanríkisráðherra og ríkisstjórn sem gera samninga við erlend ríki. Það er gert á grundvelli 13. gr. þar sem stendur í núgildandi stjórnarskrá að forsetinn framselji vald sitt til ráðherra sem er mjög merkilegt og ber keim af því að einhver kóngur úti í heimi, sennilega Danakóngur, hefur misst völdin en fengið að halda þeim gegn því að fela valdið til ráðherra, þ.e. hann var gerður valdalaus. Mér finnst að menn ættu að sameinast um að taka svona ákvæði út, sem eru bara mótsagnakennd. Ef einhver bláeygður les þetta kynni hann að halda að forsetinn væri mjög valdamikill en hann er það ekki (Gripið fram í.) þó að sumir telji það.

Það sem þetta frumvarp gerir ráð fyrir, og ég lagði áherslu á undir lok síðasta þings til að bjarga málum, er að breytingarákvæðinu verði breytt þannig að menn geti með liprari og einfaldari hætti breytt stjórnarskránni. Mér fannst alveg sérstaklega mikilvægt að þjóðin kæmi að því, þ.e. að þjóðin samþykkti eigin stjórnarskrá. Mér finnst eiginlega fráleitt að hún geri það ekki en þannig hefur það verið hingað til.

Ég vildi hafa mjög háa þröskulda. Ég flutti frumvarp um að hafa þá 50%. Það var á grundvelli þess að um stjórnarskrá á að vera sátt. Menn eiga að vera sammála um það sem þar stendur. Það á ekki að kúga einn eða neinn til að lúta sinni stjórnarskrá. Þetta eiga að vera boðorðin tíu sem allir telja sjálfsögð.

Það frumvarp sem við ræðum hefur þann kost að það fer í þjóðaratkvæðagreiðslu. Það er 40% þröskuldur sem er nokkuð lágur að mínu mati en aðrir telja hann of háan, en ef allir eru sammála breytingunni er enginn vandi að fá fram 40% samþykki, þá þarf bara 41% að ganga til kosninga og 40% að samþykkja og málið er leyst. En það sem ég hef við þetta að athuga er hið valkvæða, að menn geti valið um hvort þeir láti núgildandi 79. gr. gilda eða nýja ákvæðið. Það finnst mér vera dálítið varasamt. Ég legg til að sú nefnd sem fær þetta til skoðunar skoði það vandlega, þó að ekki sé mikill tími til stefnu, hvort gæfulegt sé að hafa þetta ákvæði svona valkvætt og svo er það náttúrlega tímabundið. Nú kemur skemmtileg staða upp: Hvað gerist þegar menn nota þetta ákvæði til að breyta breytingarákvæðinu varanlega og taka hitt úr sambandi? Það er mjög athyglisverð umræða sem menn þyrftu að ræða, hvort hægt sé að nota tímabundið ákvæði til að gera það varanlegt, þ.e. að ákvæðið lifi í sjálfu sér, en það þarf náttúrlega samþykki.

Svo er annað. Ég gat um galla í núgildandi stjórnarskrá, þeir eru fjölmargir. Ég hef veifað þeim mest þingmanna í gegnum tíðina úr þessum ræðustól af því að ég les stjórnarskrána alltaf reglulega mér til dundurs. Í stjórnarskránni eru miklir gallar en það vantar líka í hana. Það er ekki orð um Hæstarétt í núgildandi stjórnarskrá. Hann er bara ekki til. Ég held að allir ættu að vera sammála um það að geta um Hæstarétt í stjórnarskránni. Það ætti að vera eitthvað sem allir hv. þingmenn ættu að geta verið sammála um og þjóðin líka þegar kemur að atkvæðagreiðslu. Það ætti ekki að vera mikill vandi að ná 40% þröskuldinum þar, fyrir utan að taka út þetta ákvæði um að forseti geri samninga við erlend ríki, um það geta allir verið sammála.

Það er heilmikið af málum sem ég held að þingið geti orðið sátt við og almennt allir. Við þurfum að leita að þeim samnefnara, byrja á því að finna hvað allir geta orðið sammála um og breyta svo stjórnarskránni þannig. Svo finnum við eitthvað meira sem við erum kannski minna sammála um og þannig fikrum við okkur fram eftir veginum svo að við séum alltaf sammála en kannski minna og minna sammála. Svo kemur að því að samstaðan brestur og við náum ekki þeim 40% sem krafist er og þá segir þjóðin hreinlega að hún sé ekki sammála. Það er í sjálfu sér ágætt.

Mér finnst að stjórnarskrá eigi að vera tregbreytanleg. Það á að vera mjög erfitt að breyta henni. Hún er grundvöllur allrar lagasetningar, dómstóla og framkvæmdarvalds. Hún er grundvöllur alls stjórnkerfisins og þess vegna á hún að vera tregbreytanleg. Hún á að vera eitthvað sem maður veit þegar maður vaknar á morgnana að verður í gildi að kvöldi, jafnvel að maður fæðist og veit að hún er í gildi alla ævi. Stjórnarskráin á að vera tregbreytanleg þannig að fólk viti: Þetta stendur í stjórnarskránni, það er þarna og er nokkurn veginn ævarandi.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til stjórnsk.- og eftirln.