142. löggjafarþing — 5. fundur
 13. júní 2013.
störf þingsins.

[10:32]
Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ríkisstjórnin hefur tilkynnt að auðlegðarskattur á 5 þúsund ríkustu heimilin í landinu verði ekki framlengdur á næsta ári, en hann gefur tæpa 10 milljarða í tekjur í ár. Í gær dreifði svo Framsóknarflokkurinn frumvarpi um lækkun veiðigjalds um 4–6 milljarða á næsta ári. Þetta verður ekki skýrara. Útgerðarmenn og efnafólk fær peninga strax en skuldug heimili eru sett í nefnd. Það er til nóg af peningum en ríkisstjórnin situr samt á fundum og ræðir um niðurskurð á mikilvægri velferðarþjónustu.

RÚV færir okkur fréttir af því að í gær hafi ríkisstjórnin setið á fundi og rætt um hvort við höfum efni á tannlækningum fyrir börn og þeim samningum sem gerðir hafa verið þar að lútandi. Þetta er vond forgangsröðun, virðulegur forseti.

En við eigum ekki hér á þinginu bara að gagnrýna. Ég hef fagnað yfirlýsingu ríkisstjórnarflokkanna um að leiðrétta eigi skerðingar á öldruðum og öryrkjum frá árinu 2009 sem allir stjórnmálaflokkar á Alþingi lofuðu í kosningunum. En hvar er frumvarpið þar að lútandi? Ég kalla eftir því að stjórnarliðar segi okkur af hverju það er ekki fram komið af því að þetta er stutt sumarþing og það er mál sem þarfnast mikillar umfjöllunar.

Við í Samfylkingunni höfum þegar lagt fram frumvarp um þetta efni og mér hefði þótt fara betur á því að hér kæmi fyrst fram frumvarp um að bæta kjör aldraðra og öryrkja og leiðrétta skerðingar á þeim aftur til ársins 2009 áður en frumvörp um lækkun á sköttum á útgerðarmenn og yfirlýsingar um afnám skatta á eignafólk kæmu fram. En Framsóknarflokkurinn flýgur sem hann er fiðraður til.



[10:34]
Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Í gær var dreift nýju frumvarpi hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um veiðigjald en ef það verður að lögum munu tekjur ríkissjóðs dragast saman um 3,2 milljarða á þessu ári, 6,4 milljarða á næsta ári. Á sama tíma gefur Hafrannsóknastofnun út skýrslu um ástand fiskstofna og veiðiráðgjöf fyrir næsta fiskveiðiár þar sem ráðgjöfin er hækkuð sem nemur auknum útflutningsverðmætum upp á 15–16 milljarða kr.

Þá er það mat nýrrar ríkisstjórnar að rétt sé að lækka sérstaka veiðigjaldið sem tekið er af arði sjávarútvegsfyrirtækja. Á sama tíma og allt þetta gerist ákveða formenn stjórnarflokkanna að halda blaðamannafund þar sem þeir kynna horfur í ríkisfjármálum, sem þeir telja slæmar, og benda á síðustu ríkisstjórn sem sökudólg alls þess sem illa kann að fara í ríkisfjármálum.

Mér þykir æðiholur hljómur í slíkum málflutningi þegar fyrsta verk nýrrar ríkisstjórnar er að draga úr tekjum um 8 milljarða kr. á ársgrundvelli ef við lítum bæði til frumvarpsins um veiðigjaldið og framlagðs frumvarps um virðisaukaskatt á ferðaþjónustu og enn hefur ekki verið lagt fyrir þingið hvað eigi að gera í staðinn.

Einn hv. þingmaður Sjálfstæðisflokks lagði til að hætta við framkvæmdir við Náttúruminjasafn. Kannski er fyrirhugað að lækka Kvikmyndasjóð, kannski er fyrirhugað að lækka Rannsóknarsjóð og Tækniþróunarsjóð sem eru jú fjármagnaðir með sérstaka veiðigjaldinu. Kannski eru það Norðfjarðargöng. Í það minnsta er ljóst að ef þessi frumvörp ná fram að ganga er sú mikla fjárfesting sem hefur verið lögð í fjölbreytta atvinnuuppbyggingu í mikilli hættu. Þetta sýnir líka mjög skýrt forgangsröðun ríkisstjórnarinnar sem er að draga úr tekjum ríkissjóðs, passa upp á stórútgerðina, en ekkert kemur fram hvar eigi að afla tekna á móti eða hvort eigi að fara að ráðast í niðurskurð á velferðarkerfi eða draga úr fjárfestingum í fjölbreyttri atvinnuuppbyggingu. Önnur mál bíða á meðan.



[10:36]
Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Á síðasta kjörtímabili voru gerðar breytingar á lögum um Stjórnarráð Íslands og breytingarnar sættu mikilli gagnrýni stjórnarandstöðunnar og var mikið talað á Alþingi um það. Það var einnig lögð fram tillaga til þingsályktunar um breytta skipan ráðuneyta og hún var mikið gagnrýnd og ekki síður mikið rædd og taldi minni hluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, með leyfi forseta, „þessa snöggsoðnu málsmeðferð með öllu óviðunandi“.

Nú bregður svo við að talsverðar breytingar eru gerðar á ráðuneytisskipan og það er gert, að því er mér skilst, samþykkt eða farið yfir það á fyrsta fundi hæstv. ríkisstjórnar og það án þess að svo mikið sem kynna þær á Alþingi, án þess að þær séu bornar undir Alþingi.

Við hv. þm. Birgir Ármannsson áttum alllöng samtöl um þetta á síðasta þingi og mig langaði þess vegna til að spyrja hann hvernig honum litist á þær breytingar sem hafa nú verið gerðar og málsmeðferðina í því sambandi. Hvað finnst honum um að breytingarnar hafi ekki verið bornar undir þingið, hvað þá kynntar? Og telur hv. þingmaður, sem er kunnáttumaður um umhverfismál, viðunandi fyrirkomulag að það málefni sé í fóstri hjá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra?

Jafnframt dettur mér í hug að spyrja hv. þingmann, af því að maðurinn er löglærður, hvort það standist 4. gr. stjórnarráðslaga, þar sem stendur, með leyfi forseta, „að eðlislík stjórnarmálefni heyri undir sama ráðuneyti“, að flytja Árnastofnun og eitthvað sem kallað er þjóðmenningu úr menntamálaráðuneytinu í forsætisráðuneytið. Er það þá bara erlend menning sem heyrir undir menntamálaráðuneytið héðan í frá?



[10:38]
Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Eins og hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur er kunnugt um er ég hrifnastur af því fyrirkomulagi Stjórnarráðsins sem var ákveðið 1969 þannig að þær breytingar sem voru gerðar á síðasta kjörtímabili voru mér lítt að skapi. Þar var hins vegar opnað fyrir heimild til ákveðinna breytinga sem ný ríkisstjórn nýtir sér. Breytingarnar sem hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir beitti sér fyrir á síðasta þingi gera að verkum að ný ríkisstjórn getur gert þær breytingar sem hún hefur þegar boðað en þær eru hins vegar fullkomlega minni háttar miðað við þær breytingar sem staðið var að á síðasta kjörtímabili.

Ég verð að segja að að því leyti sem breytingar hafa verið boðaðar á skipan málefna í Stjórnarráðinu styð ég þær vegna þess að ég held að þær fari í meginatriðum aðeins til baka frá því sem breytt var fyrir kosningar. Það er verið að bakka með margt af því sem þar var ákveðið sem ég var á móti og því get ég mjög vel fellt mig við þær breytingar sem nú liggja fyrir.

Ég hefði reyndar viljað ganga lengra, taka til baka fleiri af þeim breytingum sem síðasta ríkisstjórn ákvað í þessum efnum, en um það hefur ekki verið samkomulag innan flokka eða milli flokka þannig að það verður ekki. Mín persónulega skoðun í þessum efnum hefur ekki náð fram að ganga en ef ég hannaði þetta eftir eigin höfði mundi ég fara töluvert lengra aftur í tímann til að finna fyrirmyndina frekar en gert hefur verið.



[10:41]
Elín Hirst (S):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Björt Ólafsdóttir, 6. þm. Reykv. n., hóf jómfrúrræðu sína á Alþingi í gær með orðunum, með leyfi forseta: „Af djúpri auðmýkt.“

Þetta þótti mér vel mælt hjá þingmanninum því að í þessu orði, auðmýkt, felst mikill styrkleiki sem er m.a. sá að setja velferð annarra framar eigin völdum og vegsauka. Auðmýkt er einhver besta leiðin til að öðlast virðingu.

Virðulegi forseti. Mig langar í fyrstu ræðu minni á hinu háa Alþingi að fjalla um málþing sem ég sótti í fyrradag, sem var haldið af grasrótarsamtökunum Göngum saman, Krafti og Samhjálp kvenna í samvinnu við læknadeild Háskóla Íslands.

Í síðustu viku hefur verið mikið rætt um erfðir og brjóstakrabbamein í kjölfar frétta af leikkonunni Angelinu Jolie. Í sumum fjölskyldum liggur mikil áhætta á þessum erfiða sjúkdómi vegna stökkbreytinga í svokölluðum BRCA-genum. Á Íslandi er einstök staða uppi hvað varðar erfðaupplýsingar um þessi meingen sem tengjast rannsóknum Íslenskrar erfðagreiningar og fleiri vísindamanna. Ég er þeirrar skoðunar að okkur beri skylda til að nýta þær upplýsingar og láta einstaklinga sem bera slík meingen vita af því — þ.e. ef þeir vilja það — til að gera megi ráðstafanir til að lengja líf þeirra og auka lífsgæði. Ég mun beita mér fyrir þessu á þingi.

Þessi mál þarf að skoða vel og undirbúa og leiða til lykta ýmsar siðferðilegar spurningar sem vakna og hvernig best verður að þessu staðið að öllu leyti. Líklegt er að nýting erfðaupplýsinga í heilbrigðisþjónustu muni aukast mjög á næstu missirum og að mál af þessum toga komi inn á borð okkar alþingismanna áður en langt um líður.



[10:43]
Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég ætla að ræða þau tíðindi sem berast utan úr heimi. Í nútímalýðræðisríki eins og Rússlandi er ákveðið að banna með lögum samkynhneigð og að banna með lögum guðlast og umræður um trúmál. Rússland hefur viljað kalla sig nútímalýðræðisríki og slíkar samþykktir eins og komu fram í fréttum í gær eru með ólíkindum og hljóta að vekja okkur í lýðræðisríki eins og Ísland er til umhugsunar um það á hvern hátt við förum með þetta dýrmæta vald sem við höfum í lýðræðisríkjum.

Sömu sögu er að segja um Grikkland. Þaðan berast þær fréttir að stjórnvöld hafi lokað ríkisútvarpinu ERT og hyggist opna það að nýju eða stofna nýtt útvarp í haust. Maður veltir fyrir sér hverra hagsmuna er verið að gæta. Sagt er að innan þeirrar stofnunar ríki spilling, en hverra er að upplýsa hinn almenna íbúa Grikklands um það sem þar fer fram?

Mér finnst þróunin í þessum tveimur löndum eins og hún birtist okkur í fjölmiðlum alvarleg og mér finnst að ríki eins og Ísland, lýðveldið Ísland, eigi að láta sig skipta þessi mál. Við hér, alþingismenn sem njótum þeirra forréttinda að vera kjörin, að vera kjörnir fulltrúar þjóðarinnar, þurfum líka að halda á lofti því dýrmæta eggi sem lýðræðið er og fara vel með það í umræðu og taka afstöðu til mála af því tagi (Forseti hringir.) sem ég hef hér nefnt.



[10:45]
Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Mig langar að vekja máls undir þessum lið á því að nú á laugardaginn hefur verið boðað til mótmælafundar á Austurvelli til þess að berjast fyrir breyttu skipulagi við Ingólfstorg og Nasa undir heitinu: Björgum Ingólfstorgi og Nasa. Það hafa nú hátt á annan tug þúsunda manna skrifað undir yfirlýsingu þar sem borgaryfirvöld eru hvött til þess að hlusta á þau sjónarmið sem hafa komið fram í athugasemdum við fyrirhugað skipulag þar sem áhersla er lögð á að koma í veg fyrir að gömlu timburhúsunum við Ingólfstorg verði ógnað með nýbyggingum, að vinna að því að tónlistarsalurinn Nasa verði friðaður og varðveittur vegna sögu sinnar og innréttinga, að koma í veg fyrir byggingu risahótels sem teygir sig yfir í Landssímahúsið með tilheyrandi viðbyggingum við Kirkjustræti og Fógetagarð og tryggja að svæðið hér í miðborginni, Austurvöllur og Fógetagarðurinn, verði opin svæði í þágu borgarbúa og þeirra sem sækja borgina heim í stað þess að fylla það með byggingum.

Ég tel að þetta sé mikilvægt mál sem varðar Alþingi líka. Ég vek athygli á því að forseti Alþingis og forsætisnefnd Alþingis hafa gert mjög alvarlegar athugasemdir við umrætt skipulag þar sem þau telja að skipulagsáformin þrengi mjög að Alþingi og stefni öryggi þess í hættu.

Í stefnuyfirlýsingu nýrrar ríkisstjórnar er sérstaklega fjallað um húsavernd og manngert umhverfi borga og bæja þar sem lögð er áhersla á að framkvæmdir styrki heildarmynd svæða sem nýtur verndar til samræmis við upprunaleg einkenni og auka þannig menningarlegan styrk þess og aðdráttarafl, eins og segir í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Ég tel að þetta sé mikilvægt mál og vil nota þetta tækifæri til þess að hvetja ríkisstjórnina undir forsæti forsætisráðherra og Alþingi og forseta Alþingis til að beita sér af fullum þunga í þessu máli og styðja við þann málflutning sem hafinn er (Forseti hringir.) meðal annars á þeim mótmælafundi (Forseti hringir.) sem boðaður hefur verið á laugardag.



[10:48]
Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Hæstv. ráðherrar, forsvarsmenn hægri stjórnarinnar, héldu blaðamannafund í gær og fylgdu þar úr hlaði óljósum yfirlýsingum sínum hér í þinginu um að vandi ríkissjóðs væri erfiðari en þeir héldu. Þau gögn sem upplýsingar til blaðamanna byggðu á hefur hv. fjárlaganefnd ekki fengið að sjá. Þó var haldinn fundur í nefndinni stuttu áður en blaðamannafundurinn var haldinn. Það er nauðsynlegt að hv. þingmenn fái svo mikilvægar upplýsingar í hendur sem fyrst og að þeim sé gert kleift að sinna mikilvægu eftirlitshlutverki sínu. Því hef ég óskað eftir því að haldinn verði fundur í nefndinni sem allra fyrst og eigi síðar en í fyrramálið svo að nefndarmönnum sé gert kleift að taka þátt í þessari mikilvægu og alvarlegu umræðu og um leið gert kleift að sinna eftirlitshlutverki sínu.

Hæstv. ráðherrar boða að vegna bágrar stöðu ríkissjóðs þurfi að hætta við ýmis fyrirhuguð útgjöld og nefna þar sérstaklega tannlækningar barna og stuðning við skuldug heimili með lánsveð. Þrátt fyrir þá staðreynd að hækkun virðisaukaskatts á þá sem kaupa hótelþjónustu hækki heildarferðakostnað erlendra ferðamanna hingað til lands aðeins um 1% og þrátt fyrir gífurlega fjölgun þeirra er gerð tillaga um að fella niður tekjur af komu þeirra upp á vel á annan milljarð og á mesta gróðaskeiði íslenskrar útgerðar er gerð tillaga um að lækka veiðigjaldið um enn fleiri milljarða.

Virðulegur forseti. Er einhver hissa á því að fólki finnist líklegt að hægri stjórnin ætli að svíkja kosningaloforð sín, sem voru fyrir heimilin og fyrir fólkið í landinu, þegar aðgerðir sem lagðar eru fram eru fyrir LÍÚ og fyrir erlenda ferðamenn, en hætta á við aðgerðir sem eru fyrir heimilin og börnin í landinu.



[10:50]
Willum Þór Þórsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka fyrir hlýjar móttökur og árnaðaróskir í mínu starfi. Síðar í dag, á þessum fimmta fundi sumarþings, verður lögð fram tillaga til ályktunar þingsins um aðgerðir vegna skuldavanda heimila. Við felum ríkisstjórninni að framfylgja aðgerðaáætlun sem hún leggur til. Í umræðunni hér á þingi undanfarna daga hefur stjórnarandstaðan lýst eftir aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar. Hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa í umræðu um hin ýmsu mál sem hafa verið á dagskrá þingsins hingað til spurt eftir því máli. Óþreyjan er skiljanleg hjá okkur öllum.

Það er ekki ætlan mín að ræða ályktunina efnislega enda málið á dagskrá þingsins í dag. Ég vil frekar leggja áherslu á að málið er viðamikið, það er fjölþætt en um leið viðkvæmt og vandasamt. Það kallar á ítarlega áætlun. Það má sjá af þeirri aðgerðaáætlun sem birtist okkur í nokkrum liðum, misumfangsmiklir eða flóknir eftir atvikum.

Í þeim stefnumótunarfræðum sem ég þekki til er ígrunduð, ábyrgðarvædd og tímasett áætlun forsenda þess að stefna gangi eftir, að við getum öll tekið þátt í því að komast á leiðarenda hvar í flokki sem við erum. Þjóðin á það skilið, heimilin eiga það skilið.

Ég vil svo að lokum þakka gagnlega og gjöfula umræðu á fyrstu dögum þingsins.



[10:52]
Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Ég vil taka undir með hv. þm. Oddnýju G. Harðardóttur um stöðu ríkissjóðs. Í gær héldu hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra blaðamannafund og fóru í gegnum stöðu ríkissjóðs. Ég tel mjög mikilsvert að nýir þingmenn átti sig á því hversu mikilvægt er að gætt sé aga í ríkisfjármálum. Við höfum séð hjá Grikkjum hvernig fer fyrir þeim sem ekki horfast í augu við vandann

Mér finnst vanta stóra hluti inn í stöðu ríkissjóðs til viðbótar við það sem nefnt var á blaðamannafundinum í gær. Þar vantar til dæmis 61 milljarð inn í A-deild LSR, Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, en sú deild átti að standa undir sér. Inn í B-deildina vantar um 400 milljarða. Svo vantar mikla fjármuni inn í Íbúðalánasjóð. Hann á að vera með 5% eigið fé en er langt í frá með 5% eigið fé. Það voru settir í hann 13 milljarðar síðastliðið vor og það var ekki bókfært sem gjöld þó að það væri ætlað til þess að bæta upp laka stöðu sjóðsins. Þannig að ég hugsa að það vanti einhverja tugi milljarða inn í Íbúðalánasjóð.

Síðan eru ýmis smá dæmi eins og Sparisjóður Keflavíkur og fleira sem ég hygg að séu enn þá óuppgerð, en það kom fram í svari sem ég fékk í vor frá fjármálaráðherra að á árunum 2009–2011 sýndi ríkisreikningur 101 milljarð í útgjöld ríkissjóðs umfram heimildir í fjárlögum og fjáraukalögum. 101 milljarð vantaði inn í ríkissjóð umfram heimildir. Það finnst mér vera agaleysi og við þurfum að taka á því.



[10:54]
Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég fagna því að hv. þm. Oddný G. Harðardóttir hafi mikinn áhuga á því að upplýsingar berist til allra þingmanna, það er vel. Það hefði betur verið meiri áhersla lögð á það á síðasta kjörtímabili þegar við sátum með ríkisstjórn sem ætlaði sér að fara með Icesave-samningana óséða í gegnum Alþingi.

Herra forseti. Núverandi ríkisstjórn leggur mikla áherslu á öflugt atvinnulíf vegna þess að það er undirstaða þess að hér verði vöxtur og velferð. Ríkisstjórnin mun kappkosta að skapa hér starfsumhverfi sem ýtir undir fjárfestingu og fjölgun starfa, ekki síst hjá litlum og meðalstórum fyrirtækjum. Þess vegna á það ekki að koma neinum á óvart að ríkisstjórnin leggi hér fram mál er varða virðisaukaskatt á ferðaþjónustu og starfsumhverfi sjávarútvegsins, sem er okkar grundvallaratvinnugrein. Þeir þingmenn sem tekið hafa þátt í umræðu um þessi mál vita og þekkja þau viðbrögð sem komu frá ferðaþjónustunni við þessari nýju skattlagningu fyrrverandi ríkisstjórnar og hækkun á virðisaukaskattinum gagnvart ferðaþjónustunni.

Það er ekki rétt að halda því fram að það sé skattur sem leggist á erlenda ferðamenn. Við þekkjum það vel að ferðaþjónustuaðilarnir voru búnir að gefa út verð til kaupenda sinna, búnir að selja ferðir sínar. Það er því algjörlega ljóst að sú skattahækkun lenti beint á litlum og meðalstórum íslenskum fyrirtækjum. Það er það sem skiptir máli í þessu máli og menn eiga ekki að vera hér með einhverja útúrsnúninga í aðrar áttir. Það er ekki sanngjarnt og ekki rétt (Gripið fram í.) og menn eiga að vita betur eftir að hafa starfað á Alþingi í fjögur ár og sérstaklega eftir að hafa verið fjármálaráðherra og lagt til þessa skattahækkun. (Gripið fram í: Rétt.)



[10:56]
Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það er hárrétt sem fram kom í máli hv. þm. Birgis Ármannssonar áðan um að ég studdi vissulega þær breytingar sem gerðar voru á Stjórnarráðinu á síðasta kjörtímabili og ég er enn þeirrar skoðunar að það hafi verið góðar breytingar. Ég er hins vegar ekki á því að maður eigi alltaf að gera allt sem maður má gera. Að einhver hafi heimild til að gera eitthvað segir ekki að hann eigi að gera það og að rétt sé að gera það. Ég hélt að við hv. þm. Birgir Ármannsson deildum þá þeirri skoðun að frelsi ætti almennt að vera sem mest en það jafngildir ekki því að maður eigi að gera allt sem maður má gera. Menn þurfa að velta því fyrir sér hvort rétt sé að gera það sem má gera.

Mér heyrðist það hins vegar á hv. þingmanni og það kom mér á óvart að til að menn gerðu ekki einhverja vitleysu þá þyrfti hún að vera bönnuð. Mér finnst það ólíkt hv. þm. Birgi Ármannssyni en ég heyrði ekki betur en hann væri þeirrar skoðunar.



[10:58]
Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég fagna því sem hv. þm. Árni Þór Sigurðsson kom inn á hér áðan. Á síðasta kjörtímabili sat ég í forsætisnefnd þingsins og forseti þingsins, Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, átti mörg og ítrekuð samtöl við borgaryfirvöld um það skipulag sem nú liggur fyrir á torfunni í kringum Alþingishúsið. Mörg bréf voru rituð til borgarstjórnar um að það þrengdi að Alþingi, þrengdi að þeirri víðáttu, ef við getum leyft okkur að kalla Austurvöll víðáttu, og að ósæmandi væri að fara í slíkar skipulagsbreytingar án samráðs og viðtals við Alþingi Íslendinga.

Sem fyrrverandi sveitarstjórnarmaður veit ég að skipulagsyfirvaldið er hjá Reykjavíkurborg. Hún hefur það og það tekur enginn af henni. En það virðingarleysi sem borgaryfirvöld hafa sýnt Alþingi Íslendinga með þessu skipulagi er með ólíkindum og öllu því sem hefur verið gert og beðið um að yrði gert á Alþingisreitnum hafa borgaryfirvöld staðið í vegi fyrir.

Ég fagna því þeirri umræðu sem hv. þm. Árni Þór Sigurðsson hóf hér og skora á þingmenn að hafa skoðun á því hvaða skipulagsbreytingar eru í farvatninu á þessu svæði, hvaða áhrif þær hafa á ásýnd Alþingishússins og umhverfis þess, fyrir utan umferðaröngþveitið sem mun skapast með nýju hóteli sem er fyrirhugað að rísi í gamla símahúsinu. Það skiptir máli að þessu húsi hér sé sýnd virðing og því umhverfi sem Alþingi er að reyna að byggja upp á þessum stað. Ég skora á þingmenn að hafa skoðun á skipulagsbreytingum Reykjavíkurborgar á þessu svæði og að við tökum höndum saman um að koma í veg fyrir að þær nái fram að ganga.



[11:00]
Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég bað um orðið öðru sinni undir þessum dagskrárlið til að bregðast við ræðu hv. þm. Unnar Brár Konráðsdóttur þar sem hún dró með orðum sínum úr trúverðugleika þeirrar sem hér stendur. Það er rétt að ég var fjármálaráðherra á síðasta kjörtímabili, en ég var einnig ráðherra ferðamála um stundarsakir og þekki málið ákaflega vel.

Í meðförum þingsins og í meðförum ráðuneyta og að teknu tilliti til athugasemda hagsmunaaðila var tillögunni breytt þannig að virðisaukaskattshækkunin fór ekki í 25,5% heldur í 14% og einnig til að taka tillit til verðlagningar sumra hótel- og gistiheimila yfir sumartímann var gildistöku frestað til 1. september.

Einnig finnst mér undarleg sú athugasemd hv. þingmanns þegar henni finnst sjálfsagt að mikilvægum og alvarlegum upplýsingum sé haldið frá hv. fjárlaganefnd af því að einhvern tíma hafi verið gerð mistök (UBK: Hvenær sagði ég það?) á síðasta kjörtímabili. Ég hef ævinlega talað fyrir því að þingmenn fái upplýsingar og sá til þess þegar ég var framkvæmdarvaldsmegin og ég ætlast til þess af hægri stjórninni sem hefur nýlega tekið við völdum að hún upplýsi þingmenn og láti þá hafa gögn svo að þeir geti sinnt sínu mikilvæga starfi og ekki síst gögn sem fjárlaganefnd þarf að vinna með. Öðruvísi getur hún ekki rækt sitt lögbundna hlutverk.



[11:02]
Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að standa í miklum þrætum við minn ágæta kollega, hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur, en ég verð þó að segja að þær breytingar sem nú eru gerðar á verkaskiptingu ráðuneyta og sú breyting að fleiri en einn ráðherra fari með málefni sem heyra undir eitt ráðuneyti, eins og er í tilviki atvinnuvegaráðuneytis og í velferðarráðuneyti, er í fullu samræmi við þær breytingar sem hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir mælti mjög fyrir hér á síðasta tímabili. Ég verð hins vegar að segja að mín persónulega skoðun og ef ég ætti að ráða þessu einn yrði gengið töluvert lengra í þá átt að taka til baka þær breytingar sem gerðar voru á ráðuneytaskipan á síðasta kjörtímabili. (ÖS: Leggja niður umhverfisráðuneytið?) — Ekkert endilega. Fyrst rætt er um þetta á þessum forsendum eru önnur atriði sem ég teldi að væru framar í röðinni í sambandi við breytingar, en ég vil bara vekja athygli á því að það sem er verið að gera núna er algerlega minni háttar í samanburði við þær breytingar sem fóru í gegnum þingið á síðasta kjörtímabili og opnað var á miðað við þá breytingu á lögum um Stjórnarráð Íslands sem hér voru samþykktar gegn andmælum mínum og fleiri hv. þingmanna.