142. löggjafarþing — 5. fundur
 13. júní 2013.
sérstök umræða.

kaltjón og harðindi á Norður- og Austurlandi.

[11:04]
Haraldur Benediktsson (S):

Herra forseti. Kunnara er en frá þurfi að segja að tíðarfar til búskapar víða um land hefur verið erfitt undanfarna mánuði. Óvenjumiklir þurrkar voru víða síðastliðið sumar. Það þýddi verulega minni uppskeru af túnum. Ofan í það kom mikill óveðurshvellur snemma í september sem olli miklum búfjárskaða og verulegu tjóni á mannvirkjum. Kom það fram í fréttum og var rætt hér á hinu háa Alþingi. Áföll í fyrrasumar og haust þýddu einnig að bændur þurftu að taka búpening sinn fyrr á gjöf en venja er. Sumir áttu ekki nóg fóður og brugðust við með því að fækka á fóðrum og draga saman búskap, aðrir hafa þurft að kaupa hey og leggja í mikinn kostnað við flutninga landshluta á milli.

Nú er komið í ljós að kalskemmdir á túnum eru óvenjumiklar á Norður- og Austurlandi, gróflega sagt frá Ströndum og austur á Fljótsdalshérað. Við höfum í raun og veru ekki séð slíkt tjón í áratugi hér á landi. Ástandið nú er nánast dæmalaust. Kaltjón þýðir aðeins eitt, að ekki er hægt að búast við uppskeru nema ráðist sé í að endurrækta tún. Á endurræktuðum túnum á þessu sumri verður vart um fulla uppskeru að ræða.

Ég og hv. þm. Einar K. Guðfinnsson heimsóttum fyrir skömmu bændur í Skagafirði ásamt ráðunautum á svæðinu og áttum samtal við bændur, skoðuðum tún og sáum þá miklu eyðileggingu sem þar hafði orðið. Á einu litlu svæði í því héraði sáum við að endurrækta þyrfti um 100 hektara og lágmarksendurræktunarkostnaðar á hvern hektara er 150–200 þús. kr. Inni í því er ekki uppskerutap og kostnaður vegna fóðurkaupa.

Mér er kunnugt um að hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur heimsótt bændur og kynnt sér ástand mála. Vil ég þakka ráðherranum fyrir viðbrögð hans.

Ég vil líka minna á að stöðug óveður og snjóar hafa skapað ýmsan aukakostnað fyrir bændur, til dæmis vegna snjómoksturs og annarra erfiðleika vegna ófærðar og óveðurs, að ekki sé talað um girðingar en tjón af þeim er vart komið í ljós þar sem víðast hvar hefur enn ekki verið hægt að hefja viðhald á þeim.

Ein birtingarmynd til viðbótar sem rétt er að nefna er að í einhverjum tilfellum hefur ekki verið hægt að setja út lambfé vegna snjóalaga. Annars staðar kemst það ekki í úthaga af sömu ástæðu. Því er ljóst að á nokkrum bæjum verður ekki hægt að setja út mjólkurkýr eða aðra nautgripi á beit fyrr en líður á sumarið, því að ekki er uppskera á nýræktun fyrr en á líður.

Þurrt sumar og lítil hey eru vart vandamál eitt og sér. Það er í sjálfu sér ekki vandamál að vetur leggist snemma yfir. Bændur vita að íslensk náttúra getur farið óblíðum höndum um þá. Hins vegar er óvenjulegt að þegar allt þetta leggst saman, ásamt því að tún koma stórskemmd undan vetri og gjafatími er einstaklega langur til viðbótar, hafa nú bæst við flóð í ám og aurskriður sem einnig hafa valdið skaða í einhverjum tilfellum.

Eftir að hafa verið á vettvangi og tekið þátt í að vinna úr vanda þeirra sveita sem illa fóru í afleiðingum eldgosa í Eyjafjallajökli og Grímsvötnum hef ég þá sýn á ástandið núna að það er verulega stærra og snertir miklu fleiri bændur en áhrif eldgosanna á sínum tíma.

Því vil ég spyrja hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hvort fyrir liggi heildarúttekt á umfangi tjóns bænda af völdum kals og annarra skaða sem orðið hafa í vetur. Kemur til greina að settar verði sérreglur til að mæta óbeinum áföllum sem stafa af vetrarhörkum, svo sem vegna fóðurkaupa eða annarra sambærilegra þátta? Hvenær verður svars að vænta hvort og á hvern hátt stjórnvöld hyggjast koma til aðstoðar?

Herra forseti. Ég vil skora á hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að taka málefni þetta föstum tökum. Það myndaðist sterk og góð samstaða um viðbrögð vegna eldgosa og vegna afleiðinga septemberóveðursins síðastliðið haust á hinu háa Alþingi. Fyrrverandi ríkisstjórn vann þar gott starf og samstaða myndaðist líka um að vinna úr eftirmálum eldgosa á sínum tíma.

Það skiptir miklu máli að við tökum þennan vanda alvarlega og til umræðu. Þess vegna óskaði ég eftir þessari sérstöku umræðu. Ég vil leggja áherslu á við ráðherrann að hann lýsi sem fyrst skýrt yfir hvort hann hyggst beita sér fyrir því að þetta tjón verði að einhverju leyti bætt og með því verði vanda bænda mætt. Það er gríðarlega mikilvægt fyrir bændur sem hafa orðið fyrir tjóni og byggðirnar sem byggja á landbúnaði á þessum áhrifasvæðum nú.



[11:09]
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Haraldi Benediktssyni fyrir að taka þessa umræðu upp hér á þinginu. Það er rétt, sem kom fram hjá hv. þingmanni, að ráðherra fór í skoðunarferð um Fljót, Svarfaðardal og Eyjafjörðinn að öðru leyti og Fnjóskadal, Aðaldal, Reykjadal og Kinn og svæði í Suður-Þingeyjarsýslum en komst hvorki á norðausturhornið né á Austurland.

Varðandi fyrirspurnina, hvort fyrir liggi heildarúttekt, þá hefur Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins metið tjón af völdum kals. Helstu niðurstöðurnar eru þær að í Ísafjarðardjúpi og á Ströndum eru verstu svæðin við Steingrímsfjörð og norðanvert Djúp. Í Húnavatnssýslum er kal víða til ódrýginda, en aðeins á fáum bæjum er tjónið stórfellt. Í Skagafirði eru verstu svæðin Hjaltadalur, Óslandshlíð og út eftir Sléttuhlíð, Viðvíkursveit og Hegranes. Í Eyjafirði eru verstu svæðin í Hörgárdal og Öxnadal og halda má því fram að Suður-Þingeyjarsýsla sé meira og minna undirlögð í tjóni. Í Norður-Þingeyjarsýslu eru verstu svæðin í Þistilfirði, Öxarfirði og Kelduhverfi og eins er kal á Austurlandi mjög útbreitt í Vopnafirði, Jökuldal, Jökulsárhlíð, Hróarstungu, Fellum, Eiðaþinghá og Hjaltastaðaþinghá.

Í yfirliti sem Ráðgjafarmiðstöðin sendi virðast skemmdir hektarar vera yfir 5.210 og á um 269 bæjum, þar af á 100 bæjum í Norður-Þingeyjarsýslu og 60 bæjum á Austurlandi — í Suður-Þingeyjarsýslu eru þetta um 1.900 hektarar og á Austurlandi 1.300 en heldur minna á öðrum svæðum.

Rétt er að halda því til haga að þetta er mat ráðunautanna á hverju svæði. Enn er verið að heimsækja bændur og skoða tún og til að setja þetta í samhengi við það hvað kostar að endurrækta einn hektara, er það að lágmarki 100 þúsund við bestu aðstæður fyrir utan áburðarkostnað. Kostnaðurinn við endurræktun á öllum þessum hekturum er því að lágmarki um 520 milljónir. Ekki liggur fyrir á sama hátt mat á öðru tjóni. Heykaup, minnkandi fóðurbætisgjöf, olíukostnaður vegna snjómoksturs, vinnuþáttar o.s.frv.

Hitt er jafn víst að óhugsandi er að bæta allt þetta tjón, til þess eru engir fjármunir og eðli landbúskapar er að auki þannig að allir sem þekkja til atvinnuvegarins vita að stundum árar vel og stundum verr. Sum ár eru hagfelld og önnur óhagfelld og bændur eru vanir að kljást við þessi verkefni.

Hv. þingmaður spurði hvort til greina kæmi að setja sérreglur til að mæta þessum óbeinu áföllum. Allir sem hafa sett sig inn í málin hafa mikla samúð með bændum í þeim miklu erfiðleikum sem þeir hafa staðið frammi fyrir í því árferði sem ríkt hefur um norðan- og austanvert landið nú í vetur, en hann settist óvenjusnemma að með illviðrisskotinu í september eins og við munum og í sumum sveitum hefur ríkt því sem næst stöðug vetrarveðrátta síðan með undantekningu á síðustu viku.

Annars staðar hefur brugðið til betri veðráttu á milli, en hvarvetna hefur veturinn þó orðið erfiður og langur með tilheyrandi kaltjóni í framhaldinu. Ríkissjóður mun koma að þessum málum, en ég bið þingheim að gera sér ljóst að þær aðgerðir allar verða að taka mið af þeirri stöðu ríkissjóðs sem við stöndum frammi fyrir, auk þess sem aðgerðirnar verða að nýtast sem allra best í framhaldinu og fela í sér sem mestan heildarávinning. Í því sambandi hljóta mest að verða skoðaðar leiðir sem fela í sér hvata til endurræktunar túna. Þannig mun tvennt ávinnast; vanda bænda vegna árferðisins verður mætt og ræktunarmenning efld til framtíðar.

Varðandi þriðju spurningu hv. þm. Haraldar Benediktssonar, hvort og hvenær sé að vænta upplýsinga um hvernig stjórnvöld komi til aðstoðar, er rétt að segja að áður en við göngum til þessara verka að þessu leytinu þarf umfang tjónsins að liggja fyrir. Ég minni á almennar reglur Bjargráðasjóðs varðandi greiðslur kalbóta í þessu sambandi. Eins vil ég ítreka þau atriði sem talin voru upp hér fyrr.

Ég tek þó fram að stjórnvöld vilja hraða þessu eins og verða má enda er starfshópur í gangi, og hefur verið í ráðuneytinu um nokkurn tíma út af þessum aðstæðum, að skoða með hvaða hætti hægt er að bregðast við. Ég minni jafnframt enn á að þröng staða ríkissjóðs hefur áhrif í þessum málum eins og öllum öðrum þar sem fjárútgjöld koma til umræðu.

Í heimsókn minni upplifði ég þann þrótt sem er í bændum á svæðinu, þann kraft sem hefur til dæmis sýnt sig í því, eins og hv. þingmaður nefndi, að einstaka bændur hafa tekið upp 100 hektara nú þegar, velt við, sáð í og eru tilbúnir að takast á við þann vanda sem fyrir liggur án þess að nokkurn tímann hafi legið fyrir loforð um fjárstuðning. Menn eru tilbúnir að takast á við þetta. Ég tel það mikilvægt að við sem þjóð, sem við höfum ávallt gert, stöndum á bak við þá sem verða fyrir náttúruhamförum.



[11:14]
Kristján L. Möller (Sf):

Virðulegi forseti. Það er sannarlega þörf á að taka til umræðu þær náttúruhamfarir sem hafa átt sér stað. Ég gerði það sjálfur gagnvart bændum í september síðastliðnum eftir hið mikla óveður sem gekk yfir þar sem mikill fjárskaði varð og mikið tjón á girðingum og öðru. Nú bætist við mikið kal, eitt versta kal í túnum sem við höfum frétt af hin síðustu ár.

Síðasta ríkisstjórn brást ákaflega vel og fljótt við. Í raun og veru betur en í þessari umræðu sem komin er núna þar sem spurt er hvað ríkisstjórnin ætli að gera. Þá komu fram hjá hæstv. ráðherra skýr skilaboð til bænda, sem voru ákaflega mikilvæg, um að ríkisvaldið með Bjargráðasjóð og fjárframlögum úr ríkissjóði — vegna þess að sjóðurinn hefur ekki nægjanlegt fé til að standa undir þessu — það komu strax fram skýr skilaboð um að vel yrði staðið við bakið á bændum hvað þetta varðar. Nú finnst mér hins vegar kveða við svolítið annan tón hjá hæstv. ráðherra. Komin eru aðvörunarorð um slæma stöðu ríkissjóðs o.s.frv. Þetta eru ekki þau skilaboð sem bændur þurfa að fá núna. Bændur þurfa að fá klár skilaboð, eins þeir fengu frá síðustu ríkisstjórn eftir óveðrið sem geisaði í september, um að brugðist verði við þeim miklu náttúruhamförum, í raun og veru, sem koma í framhaldi af miklum snjóalögum og hörðum vetri og komið til móts við bændur.

Virðulegi forseti. Þegar maður les ræðurnar síðan í september get ég tekið undir það sem hæstv. núverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sagði, með leyfi forseta:

„Ég tek undir það að ríkisstjórnin standi eins vel við bakið á fólki þarna og gert var í eldgosunum undir Eyjafjöllum og í Vatnajökli.“

Virðulegi forseti. Ég vona að í seinni ræðu hæstv. ráðherra komi klár skilaboð til bænda og þeirra fólks um að staðið verði myndarlega við bakið á þeim vegna þessara náttúruhamfara, eins og síðasta ríkisstjórn gerði bæði varðandi eldgosin og óveðrið í september. (Forseti hringir.)



[11:16]
Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér kaltjón og harðindi sem bændur á norðanverðu landinu, Austfjörðum og á fleiri svæðum eins og Vestfjörðum hafa orðið fyrir. Það er ekkert óeðlilegt að bændur séu áhyggjufullir miðað við þá stöðu. Þessi vetur hefur auðvitað verið bændum mjög þungur í skauti, menn hafa þurft að halda fé á húsum langt fram á vor og á mörgum svæðum jafnvel þurft að kaupa hey fyrir háar fjárhæðir. Mér finnst ekkert óeðlilegt að menn reikni með að ríkisvaldið komi með einhverjum hætti að stuðningi við bændur vegna þess að bændur hafa fengið stuðning, þegar eldgosið var, eins og komið var inn á áðan, og þegar vond veður geisuðu á norðanverðu landinu síðastliðið haust. Mér finnst mjög eðlilegt að ríkisvaldið gefi bændum skýr skilaboð um að það sé tilbúið til að mæta þessu alvarlega tjóni með stuðningi.

Það er auðvitað líka eðlilegt að það liggi fyrir heildarmat á hve tjónið er mikið. Eins og ég skil það er verið að gera úttekt á því og við þurfum að bíða eftir henni Ég tel nauðsynlegt að atvinnuveganefnd fái að fylgjast með þróun þeirra mála og hæstv. ráðherra upplýsi okkur um slíkt og síðan komi í ljós hvað ríkisvaldið getur lagt af mörkum. Bjargráðasjóður er illa settur eins og komið hefur fram. Ég styð það heils hugar eins og ég gerði þegar fyrri ríkisstjórn kom myndarlega að stuðningi við bændur við svona erfiðar aðstæður og náttúruhamfarir, sem ég tel að þetta sé líka.



[11:19]
Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Forseti. Þingmenn. Ég tek undir áhyggjur hv. þm. Haraldar Benediktssonar sem hóf umræðuna. Ég átti samtal við formann sauðfjárbænda fyrr í vikunni og það er ekkert ofsögum sagt að ástandið er mjög alvarlegt, sérstaklega í Norðausturkjördæmi og víðar. Ég heyri svo sem ekkert annað en að hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hafi skilning á málinu og ég treysti því að hann gangi í það. Mér finnst alls ekkert óeðlilegt að líka sé horft í kostnað, sér í lagi þar sem Bjargráðasjóður er eiginlega tómur.

Ég velti fyrir mér hvort ekki sé tækifæri núna til að leggja niður til dæmis fóðursjóð. Það er kannski ekki mikill kostnaður af honum en það hefur lengi legið fyrir að leggja hann niður og margar skýrslur verið skrifaðar um ónauðsyn hans, þannig að ekki þarf að eyða peningum í fleiri skýrslur heldur nota peninginn frekar í að hjálpa bændum. Ég treysti því að hæstv. ráðherra gangi í málið og efast ekkert um að hann geri það. Takk fyrir.



[11:20]
Valgerður Gunnarsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Hér er til umræðu kaltjón og harðindi á Norður- og Austurlandi. Ég vil þakka hv. þm. Haraldi Benediktssyni fyrir að vekja máls á og fara yfir þá erfiðu stöðu sem bændur standa frammi fyrir. Eins og kom fram í máli hans bætist þessi mikli skaði á túnum ofan á mjög langan og snjóþungan vetur sem raunar hófst fyrir miðjan september í haust og olli þá miklum fjárskaða hjá bændum. Sem betur fer hefur það verið bætt að mestu og er vert að muna stuðning landsmanna í söfnunarátaki Landssambands sauðfjárbænda, Gengið til fjár. Þar söfnuðust yfir 40 millj. kr. til stuðnings bændum. Ég vil líka nefna þátt sýslumanns Þingeyinga, Svavars Pálssonar, og Maríu Svanþrúðar Jónsdóttur, ráðunauts hjá Búgarði á Húsavík, í aðgerðum og aðstoð við bændur í óveðrinu sem olli nefndum fjárskaða. Þau hlutu mikið lof fyrir sín vinnubrögð.

Nú ber að ný og önnur áföll hjá bændum. Kal í túnum er víða mjög mikið eins og fram hefur komið. Það hefur verið metið allt að 90%.

Ég átti samtal við bændur í Svarfaðardal og í Aðaldal og Jökuldal í gær. Í máli þeirra allra kemur fram að kal í túnum er á bilinu 30–90%. Misjafnt eftir svæðum, en jafnan mest í Þingeyjarsýslum.

Eins og fram hefur komið er kostnaður á hektara um 200 þús. kr. við að græða upp og bera á þessi tún aftur. Bændur sem eru með stór tún geta staðið frammi fyrir kostnaði sem liggur á bilinu 10–20 millj. kr. hjá hverjum bónda. (Forseti hringir.)

Virðulegi forseti. Þetta er ekkert annað en náttúruhamfarir. Ég tel að við þurfum á einhvern hátt að bregðast við.



[11:22]
Þórunn Egilsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að nota tækifærið og þakka góðar móttökur hér á nýjum vinnustað og óska okkur öllum velfarnaðar í störfum.

Það er rétt sem hér hefur komið fram að náttúran hefur ekki unnið vel með bændum undanfarna mánuði og fagna ég þessari umræðu um málefni þeirra og vil þakka hv. þm. Haraldi Benediktssyni fyrir að hefja máls á þessu og fara yfir stöðuna. Þetta er þörf umræða.

Við þingmenn Norðausturkjördæmis höfum orðið vitni að og þekkjum erfiða stöðu fjölmargra bænda í kjördæminu, en ég þekki kraftinn í bændum og veit að þeir takast á við þetta áfall líkt og öll önnur af æðruleysi, festu og dugnaði.

Það er mikilvægt að stjórnvöld grípi inn í líkt og þau hafa áður gert þegar náttúran tekur af mönnum völdin. Við Íslendingar erum vön að standa saman þegar svona stendur á og sýna samtakamátt okkar. Ég reikna ekki með neinni undantekningu núna.



[11:24]
Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. málshefjanda fyrir að taka upp þetta brýna mál. Á síðustu árum og áratugum hefur reynt verulega á viðbrögð við náttúruhamförum hér á landi. Snjóflóð á Vestfjörðum, jarðskjálftar á Suðurlandi, eldgos í Fimmvörðuhálsi, Eyjafjallajökli og Grímsvötnum og nú síðast mikið óveður á Norðurlandi sem kallað hefur á samheldni og skipulögð vinnubrögð opinberra aðila.

Reynslan sem til er orðin eftir öll þessi ósköp hefur kallað á að skoða til framtíðar hvernig og að hvaða marki eigi að veita fé úr sameiginlegum sjóðum landsmanna vegna tjóns á óvátryggðum eignum. Eins og við höfum bæði heyrt og séð er ljóst að bændur á stórum landsvæðum standa frammi fyrir miklum vandræðum vegna kals og kulda. Gömlu túnin eru víða mörg skemmd og heilu túnin kalin á einstökum bæjum. Stór hluti endurræktaðra túna er einnig dauður. Vinna við að laga þá ræktun sem hefur eyðilagst vegna ótíðarinnar er afar kostnaðarsöm eins og komið hefur fram. Þar fyrir utan er fyrirsjáanlegt að mikið tjón hefur orðið á girðingum og trjágróður er víða illa farinn.

Eins og kom fram hjá málshefjanda hafa margir bændur þurft að flytja hey um langan veg, m.a. vegna þurrka síðasta árs, og mun svo verða áfram. Ljóst er að það er töluverður baggi á bændum ofan á þetta ástand þar sem flutningskostnaður er afar mikill og dýr eins og við vitum. Hvað er hægt að gera?

Ég held að flestir vilji að bændur fái aðstoð með einhverjum hætti, en Bjargráðasjóður er tómur eins og hér hefur komið fram að óbreyttu og önnur úrræði þurfa að koma til.

Virðulegur forseti. Skipaður var starfshópur af fyrrverandi forsætisráðherra sem skilaði skýrslu í desember með tillögum um fyrirkomulag bóta til tjónþola í kjölfar náttúruhamfara. Helsta niðurstaða nefndarinnar er að tjón af völdum náttúruhamfara verði fellt undir tryggingavernd af einhverju tagi og stofnaður verði sérstakur hamfarasjóður sem sinna á verkefnum varðandi forvarnir gegn náttúruvá og greiða bætur vegna náttúruhamfara sem ekki fást bættar úr vátryggingum. Lagt er til að aðilar að slíkum sjóði verði auk ríkissjóðs ýmsir veigamiklir hagsmunaaðilar og burðarásar í kjölfar náttúruhamfara, þar á meðal sveitarfélögin og Bændasamtök Íslands. (Forseti hringir.) Við Vinstri græn leggjum áherslu á að enginn þurfi að velkjast í vafa um að aðkomu og stuðning samfélagsins (Forseti hringir.) þegar tekist er á við atburði sem þessa. Því spyr ég hvort ráðherrann hyggist nýta sér vinnu starfshópsins og þá með hvaða hætti.



[11:26]
Kristján L. Möller (Sf):

Virðulegi forseti. Ég ætla aðeins að halda áfram þar sem ég lauk fyrri ræðu minni, sem var um fund atvinnuveganefndar út af óveðrinu í september, og rifja aðeins upp það sem þar kom fram.

Á þann fund komu fulltrúar Bjargráðasjóðs og þar kom fram að þáverandi ríkisstjórn hefði brugðist mjög myndarlega við vegna eldgosanna eins og fyrirspyrjandi, hv. þm. Haraldur Benediktsson, gat um — og vert er að hafa í huga að þáverandi ríkisstjórn hafði ekki alltaf mikið fé milli handanna og var að kljást við þann mikla fjárlagahalla sem við fengum í arf eftir hrunið. Fram kom að hvorki meira né minna en 190 millj. kr. var varið úr ríkissjóði til Bjargráðasjóðs árið 2010 og 80 millj. kr. árið 2011 vegna eldgosanna. Þar var komið til móts við bændur og tjón þeirra á þessum svæðum. Þá sagði ég í umræðunni um þetta mál, með leyfi forseta:

„Þess vegna hef ég aðeins eina spurningu til hæstv. ráðherra. Hún er sú hvort ríkisstjórnin muni ekki standa jafn vel að baki þeim aðilum sem orðið hafa fyrir búsifjum í þessum náttúruhamförum og gert var svo myndarlega, meðal annars með aukafjárveitingu úr Bjargráðasjóði, þegar eldgosin urðu hér 2010 og 2011.“

Virðulegi forseti. Vegna þess að ég og núverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sátum þennan fund ætla ég að endurnýta þessa spurningu mína og setja hana hér skýrt fram og óska eftir skýru svari. Það er nefnilega ákaflega mikilvægt að til bænda og þeirra fólks komi úr þessari umræðu skýr skilaboð um að ríkisvaldið muni gera allt sem í þess valdi stendur til að koma til móts við Bjargráðasjóð þannig að styðja megi við bændur vegna þessara náttúruhamfara eins og gert var svo myndarlega af síðustu hæstv. ríkisstjórn.



[11:28]
Björt Ólafsdóttir (Bf):

Herra forseti. Eins og komið hefur fram er mikið og almennt kal í túnum á Norður- og Austurlandi. Dæmi eru um að öll tún séu ónýt á stöku bæjum. Á mörgum stöðum er fé enn inni vegna snjóa eða leysinga og bændur þurfa enn að sinna vetrar- og vorverkum þótt nú sé kominn 13. júní.

Ég þekki það vel úr minni sveit að bændur eru harðduglegt fólk sem vinnur nótt og dag. Fæstir bera úr býtum í samræmi við þá miklu vinnu sem þeir leggja til og ljóst er að þeir hafa ekki úr digrum sjóðum að taka til að mæta þessum veðurhamförum. Ég vil því hvetja stjórnvöld til að skoða fljótt og vel hvernig hægt er að styðja við bændur í því erfiða árferði sem þeir glíma nú við.



[11:29]
Haraldur Benediktsson (S):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka fyrir þá umræðu sem hér hefur farið fram og þann samhug sem ég skynja í henni. Ég vil segja um svör ráðherrans almennt að sú samantekt sem hann fór yfir staðfesti fyrir mér að tjónið sé jafnvel umfangsmeira en ég hafði óttast og það hefur komið fram í máli fleiri ræðumanna að það er mikið og stórt. Eins og ég sagði í ræðu minni í upphafi er það ekki síst vegna þess að allir þessir þættir leggjast saman; minni uppskera í fyrra, óvenjulegt veðurfar í september og síðan þetta harða vor sem veldur svo löngum gjafatíma.

Ég vil með ákveðnum hætti taka undir með hv. þm. Kristjáni Möller um myndarlega aðkomu og góð störf fyrri ríkisstjórnar eins og ég sagði í framsögu minni áðan og góð viðbrögð við vanda bænda sem glímdu við afleiðingar eldgosa og septemberóveðursins. Við eigum þetta tæki sem er Bjargráðasjóður. Hann er, ef mig misminnir ekki, 100 ára að stofni til, en hann var stofnaður 1913 til að mæta almennum harðindum. Það er kúnstugt að enn 100 árum síðar eigi grunngildi sjóðsins enn þá algjörlega við.

Stundum hefur verið talað um að ríkissjóður hafi lagt fram peninga á myndarlegan hátt í Bjargráðasjóð. Það var í raun beinlínis gert ráð fyrir því við breytingu á lögum sjóðsins 2009 að kæmi til stóráfalla mundi ríkissjóður bregðast við með þeim hætti.

Ég vil í framhaldi af þeim miklu áföllum sem sjóðurinn hefur orðið fyrir á undanförnum árum líka taka upp umræður um það hvernig við komum í fastara horf fjármögnun sjóðsins til lengri tíma og með þátttöku atvinnuvegarins til að eiga þar fullkomna tryggingavernd.



[11:31]
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka mjög málefnalega umræðu. Það hefur komið skýrt fram að menn standa þétt saman, sama hvar í flokki þeir standa og sama hvaðan af landinu þeir koma, þegar náttúruhamfarir ganga yfir og valda okkur landsmönnum tjóni. Hafi ég ekki talað nógu skýrt áðan er það alveg klárt að núverandi ríkisstjórn mun koma að stuðningi við þetta verkefni. Þess vegna settum við í gang starfshóp fyrir allnokkru, þegar ljóst var að tjónið yrði verulegt, með Bændasamtökunum og fleirum innan ráðuneytisins til að finna út þær reglur sem við þyrftum að vinna eftir og átta okkur á stöðunni.

Það er líka rétt að við höfum verið að bíða eftir því að sjá hvert heildartjónið yrði. Það er rétt sem fram hefur komið og ég sagði frá í fyrri ræðu minni að það er mun umfangsmeira en menn óttuðust og kannski eru ekki öll kurl komin til grafar enn. Það var fyrst og fremst kaltjónið sem ég nefndi í ræðu minni.

Varðandi ágæta tillögu hv. þm. Brynhildar Pétursdóttur um að leggja niður fóðursjóð þá gerðum við það á síðasta þingi, að tillögu hæstv. forseta og þess sem hér stendur og ríkisstjórnin tók mjög greiðlega undir það. Þannig að hann er horfinn sögu. (KLM: Eins og margt frá …) Sama hvaðan gott kemur, hv. þm. Kristján L. Möller.

Varðandi framtíðarskipulagið sem hv. þm. Bjarkey Gunnarsdóttir kom inn á hefur nú þegar verið unnið áfram að því innan ráðuneytanna á grundvelli þeirrar vinnu sem lá fyrir. Ég hef líka rætt við ýmsa forsvarsmenn Bændasamtaka Íslands og fleiri um að það þurfi einmitt að fara í þann farveg. Það eru mjög margir sem horfa til þess. Ég spurði sjálfur margoft á síðasta þingi hæstv. forsætisráðherra hvort vinna væri ekki í gangi á einmitt þeim nótum sem hv. þingmaður lýsti. Ég horfi til þess að unnið verði áfram að þeim þætti þegar við erum búin að ljúka þessu verkefni. Það ætlum við að gera og munum horfa til þess núna á allra næstu dögum og vikum.