142. löggjafarþing — 5. fundur
 13. júní 2013.
aðgerðir vegna skuldavanda heimila á Íslandi, fyrri umræða.
stjtill., 9. mál. — Þskj. 9.

[14:06]
forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Í kjölfar hruns fjármálakerfisins á Íslandi haustið 2008 hækkuðu verðtryggðar skuldir og eignaverð lækkaði, meðal annars vegna áhrifa af gjaldþroti fjármálafyrirtækja og áhættusækni þeirra í aðdraganda hrunsins. Mikill meiri hluti íslenskra heimila fjármagnar kaup á íbúðarhúsnæði með verðtryggðum lánum. Fjárfesting í húsnæði er algengasta sparnaðarform íslenskra fjölskyldna og hefur almennt verið litið á íbúðarhúsnæði sem eignamyndun yfir lengri tíma. Að sama skapi fer umtalsverður hluti ráðstöfunartekna í húsnæðiskostnað.

Við ákvörðun um fjárfestingu í íbúðarhúsnæði leggja heimili landsins ákveðnar forsendur til grundvallar, forsendur sem snúa einkum að áætluðum ráðstöfunartekjum, fjármagnskostnaði, áætlaðri eignamyndun o.s.frv. Í aðdraganda og í kjölfar falls bankanna brustu þessar forsendur að miklu leyti með lamandi áhrifum á heimilin.

Við aðgerðir eins og þær sem boðaðar eru í þingsályktunartillögunni er mikilvægt að horfa til margra þátta sem geta valdið óvissu og áhættu. Mikilvægast er að þeir séu uppi á borðinu og litið sé til þeirra við mat á áhrifum og þeir vegnir saman við jákvæð áhrif sem breytingar koma til með að skila.

Nokkrir af þeim þáttum sem nauðsynlegt er að horfa til við útfærslu og framkvæmd tillagna um skuldaleiðréttingu eru:

Kostnaður við aðkomu ríkissjóðs.

Peningamagn í umferð og áhrif á verðbólgu.

Áhrif á skipulag fjármálakerfisins og kostnað þess við framkvæmd tillagnanna.

Einnig verður að horfa til jákvæðra áhrifa á hagkerfið, til að mynda aukinna gæða í lánasöfnum fjármálastofnana, minni umsýslu fjármálastofnana vegna færri vanskilamála o.s.frv. Einnig mun kerfisbreyting úr verðtryggðum lánum yfir í óverðtryggð hafa í för með sér að vaxtastig í landinu verður stöðugra þar sem breytingar á vöxtum munu hafa skjótvirkari áhrif. Slík breyting hefur jákvæð áhrif á hagkerfið í heild. Með þessu móti verður hagstjórn skilvirkari. Þekkt er að verðtrygging viðheldur verðbólgu.

Virðulegi forseti. Eins og fyrr segir eru aðgerðirnar tíu. Ég mun nú gera stuttlega grein fyrir hverri þeirra:

1. Sérfræðingahópur útfæri mismunandi leiðir til að ná fram höfuðstólslækkun verðtryggðra húsnæðislána og geri tillögur þar að lútandi.

Tillögurnar verði tilbúnar í nóvember og eiga að miða að því að leiðrétta þann forsendubrest sem varð með aukinni verðbólgu árin 2007–2010 í kjölfar falls fjármálakerfisins. Breyting á vísitölunni hafði umtalsverð áhrif á stöðu húsnæðisskulda. Einnig er markmiðið að hvetja lántakendur til að umbreyta lánum sínum í óverðtryggð lán gegn leiðréttingu á höfuðstól, þó að það sé ekki endilega skylda að þetta haldist í hendur.

Gert er ráð fyrir að eftirfarandi forsendur muni meðal annars liggja til grundvallar vinnu sérfræðingahópsins:

Um er að ræða almennar aðgerðir sem gagnast öllum heimilum sem urðu fyrir forsendubresti.

Um sé að ræða leiðréttingu á forsendubresti.

Koma þarf upp skýrum hvötum lántakenda til að breyta fjármögnun í óverðtryggð lán.

Leiðrétting sé sú sama hvort sem lán hafi verið í skilum allan tímann eða ekki.

Kostir og gallar metnir við að setja þak á þá fjárhæð leiðréttingar sem hvert heimili getur notið til að stuðla að jafnræði í framkvæmd.

Metið verði hvort leiðrétting verði valkvæð að frumkvæði lántaka.

2. Gerð verði úttekt á kostum og göllum þess að stofna sérstakan leiðréttingarsjóð vegna húsnæðislána.

Ef bið verður á því að samningar náist við kröfuhafa þarf að skoða þann möguleika að setja á fót leiðréttingarsjóð vegna húsnæðislána til að aðgerðir í þágu lántaka komist til framkvæmda og til að tryggja gagnsæi og eftirlit með leiðréttingunum. Teymi sérfræðinga verði falið að leggja fram tillögur um útfærslu og fjármögnun sjóðsins og skili tillögum í nóvember.

3. Kannað verði hvernig gera megi eigendum yfirskuldsettra íbúða kleift að losna án gjaldþrots undan eftirstöðvum sem veðið sjálft stendur ekki undir.

Í þeim tilvikum þar sem fólk býr í eigin yfirskuldsettu húsnæði og hefur sannarlega ekki getu til að standa undir húsnæðisskuldbindingum sínum þarf að leita leiða til að losa það undan kröfum sem veðið sjálft stendur ekki undir. Í slíkum tilvikum er gjaldþrot mögulegt en réttaráhrif þess eru mun víðtækari og meira íþyngjandi fyrir skuldarann en gert er ráð fyrir með þessari leið.

4. Skipuð verði verkefnisstjórn um framtíðarskipan húsnæðismála.

Verkefnisstjórn verði falið að koma með tillögur að framtíðarstefnu í húsnæðismálum. Þá verði henni falið að koma með tillögur að nýju húsnæðislánakerfi, meðal annars með það í huga að tryggja virkan leigumarkað og skilvirk félagsleg úrræði fyrir þá sem slíkt þurfa. Meðal annars verði skoðaðar fyrirmyndir frá Norðurlöndunum. Verkefnisstjórnin skal skila tillögum í upphafi árs 2014.

5. Lögfest verði flýtimeðferð dómsmála sem tengjast skuldavanda heimilanna og varða ágreining um lögmæti þess að binda fjárskuldbindingu við gengi erlendra gjaldmiðla eða vísitölu.

Innanríkisráðherra hefur þegar lagt fram frumvarp þar sem lagt er til að sett verði tímabundið ákvæði til bráðabirgða í lög nr. 91/1991, um meðferð einkamála, þar sem skýrt er tekið fram að dómara verði heimilt að taka mál þar sem ágreiningur lýtur að lögmæti þess að binda fjárskuldbindingu við gengi erlendra gjaldmiðla eða vísitölu til skjótrar meðferðar.

Í þeirri heimild felst að slík mál skuli strax tekin til meðferðar og allir frestir í máli eiga að vera eins stuttir og mögulegt er með tilliti til aðstæðna sem og að dómur í slíku máli liggi fyrir eins fljótt og auðið er.

6. Sett verði á fót nefnd um afnám verðtryggingar af neytendalánum.

Ljóst er að langtímahagsmunum lántaka er betur borgið til lengri tíma með því að umbreyta lánum í óverðtryggð lán. Auk þess eru hagfræðileg rök sem lúta að peningamálastjórn í landinu þess efnis að skilvirkara sé að hafa áhrif á einkaneyslu í kerfi þar sem óverðtryggð lán eru stór hluti útgjalda heimilanna. Það er betra fyrir hagstjórn ef fjármagnskostnaður er greiddur jafnóðum í stað núverandi fyrirkomulags þar sem fjármagnskostnaði er velt inn í framtíðina.

Koma þarf til móts við aukna greiðslubyrði í kjölfar þess að áfallnir vextir af lánum verða greiddir jafnóðum. Þar sem greiðslubyrði óverðtryggðra lána er hærri til að byrja með en af verðtryggðum lánum mun þessi aðgerð hafa takmörkuð áhrif til þenslu og verðbólgu.

Verkefni nefndarinnar sem skilar tillögum fyrir lok árs 2013 verður að útfæra afnám verðtryggingar nýrra neytendalána. Nefndin meti áhrif þessara breytinga í víðum skilningi og geri tillögur til þess að lágmarka neikvæð áhrif. Að sjálfsögðu er það líka hlutverk nefndarinnar að gera ráðstafanir þannig að kostirnir nýtist til fulls fyrir heimilin og hagkerfið í heild.

7. Kannað verði hvernig eignalausum einstaklingum verði gert kleift að greiða kostnað vegna gjaldþrotaskipta á búi sínu.

Með þessari aðgerð komi ríkið sérstaklega til móts við þá einstaklinga sem í ljósi fjárhagsstöðu sinnar geta ekki farið fram á gjaldþrotaskipti sjálfir vegna hárrar greiðslu tryggingar fyrir skiptakostnaði. Þetta gæti gerst með þeim hætti að ríkissjóður ábyrgist tryggingu og þar með greiðslu skiptakostnaðar í slíkum tilvikum.

8. Sérfræðingahópur meti möguleika á því að leggja gjald á fjármálafyrirtæki vegna mikilla tafa á endurútreikningi lána.

Um er að ræða úrræði í þágu skuldara til þess að styrkja stöðu þeirra gagnvart fjármálafyrirtækjum sem sjá um endurútreikning lána þeirra. Um leið ætti sektarmöguleikinn að vera hvetjandi fyrir fjármálafyrirtækin til að hraða slíkum útreikningum.

9. Stimpilgjöld af lánsskjölum verði endurskoðuð og stefnt að afnámi stimpilgjalda vegna kaupa einstaklinga á húsnæði til eigin nota.

Með afnámi stimpilgjalda dregur úr kostnaði heimila við lántöku og einnig mun sú aðgerð auka hreyfanleika viðskiptavina milli banka og stuðla þannig að aukinni samkeppni á fjármálamarkaði.

Í skýrslu nefndar um neytendavernd á fjármálamarkaði sem skilaði skýrslu sinni til forsætisráðherra í apríl 2013 kemur fram að stimpilgjöld í lánaviðskiptum sé kostnaðarliður fyrir íslenska neytendur sem sé sjaldgæfur í þeim löndum sem við berum okkur saman við. Jafnframt kemur fram að stimpilgjöld voru afnumin í Finnlandi árið 1998 og er það talið hafa aukið vilja viðskiptavina til að skipta um lánveitanda og þar með hreyfanleika þeirra.

10. Hagstofa Íslands fái skýrar heimildir til að afla upplýsinga frá fjármálafyrirtækjum um fjárhagsstöðu heimila og fyrirtækja.

Í frumvarpi sem lagt verður fram nú á sumarþingi verði lagðar til breytingar á lögum um Hagstofu Íslands og opinbera hagskýrslugerð, nr. 163/2007, til að Hagstofa Íslands fái skýrar heimildir til að afla upplýsinga frá fjármálafyrirtækjum um fjárhagsstöðu heimila og fyrirtækja í þeim tilgangi að vinna reglulega tölfræði um það efni og birta ársfjórðungslega. Slíkar upplýsingar munu stuðla að því að stjórnvöld átti sig betur á áhrifum fyrirhugaðra aðgerða.

Gert er ráð fyrir að ráðherranefnd um úrlausnir í skuldamálum heimilanna hafi eftirlit með verkefninu í heild en einstakir ráðherrar sem eiga sæti í henni beri ábyrgð á tilteknum aðgerðum og ríkisstjórnin sem heild muni vinna að framgangi þessara mála. Við vinnuna verði lögð áhersla á að leita eftir víðtækari sátt um þær leiðir sem farnar verða til að ná þeim markmiðum að taka á skuldavanda íslenskra heimila. Það er von mín að uppbyggilegar umræður um þetta brýna mál muni fara fram hér á Alþingi, bæði núna og þegar einstök mál sem tengjast aðgerðaáætluninni koma til kasta þingsins.

Virðulegi forseti. Ég legg til að við lok þessarar umræðu verði þingsályktuninni vísað til efnahags- og viðskiptanefndar og síðari umr.



[14:17]
Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir greinargerðina.

Framsóknarflokkurinn fékk til þess skýrt umboð frá kjósendum að ráðast í almennar aðgerðir í skuldamálum og afnema verðtryggingu á neytendalánum. Sem þingflokksformaður Samfylkingarinnar hef ég lýst því yfir að frumvörpum á sumarþingi sem lúta að þessu verði greidd hér leið. Þó að við hefðum gjarnan viljað sjá fleiri slík frumvörp en ekki bara þingsályktunartillögu þá endurspeglar það samkomulag sem er um að klára þá þingsályktunartillögu og umræðuna hér í dag þann góða vilja sem málið mætir í þinginu.

Ég vil hins vegar nota tækifærið og spyrja hæstv. forsætisráðherra um tvennt:

Í fyrsta lagi. Er samkomulag um það milli Framsóknar og Sjálfstæðisflokksins að banna verðtryggingu neytendalána með lögum? Er það skýrt?

Í öðru lagi. Þegar í þingsályktunartillögunni er talað um að leiðrétta það áfall sem skuldarar verðtryggðra íslenskra lána urðu fyrir í hruninu upp að ákveðnu þaki, er þá verið að tala um að leiðrétta alla verðbólgu umfram verðbólgumarkmið Seðlabankans? Eiga skuldararnir von á því að þeim verði bætt allt höggið umfram verðbólgumarkmið Seðlabankans upp að einhverju ákveðnu þaki?

Þetta bið ég forsætisráðherra um að upplýsa til þess að skýra sem mest og eyða óvissu um það við hverju fólk má búast í því efni. Er ekki örugglega samkomulag um að verðtryggingin verði bönnuð með lögum og á ekki að leiðrétta allt verðbólguskotið upp að ákveðnu þaki?



[14:19]
forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Helga Hjörvar fyrir jákvæð viðbrögð og uppbyggileg og treysti því að það gangi eftir sem hv. þingmaður nefndi, að þessi tillaga fái skjótan framgang hér í þinginu, en jafnframt þær tillögur og frumvörp sem á henni byggjast.

Varðandi spurningar hv. þingmanns liggur fyrir samkomulag milli stjórnarflokkanna um þá þætti sem lýst er í tillögunni, þar með talið um þá vinnu sem í hönd fer og hefst nú við afnám verðtryggingarinnar. Ég hef útskýrt það alloft í umræðu um þau mál, bæði fyrir kosningar og eftir, að vinna sérfræðingahóps um afnám verðtryggingarinnar felist ekki hvað síst í því að þau tækifæri sem skapast við afnám verðtryggingar nýtist sem best. Þar af leiðandi hlýtur sá hópur að fá svigrúm til þess að haga tillögum sínum um afnám verðtryggingarinnar á þann hátt að svigrúmið, tækifærin sem afnám verðtryggingar muni skapa, nýtist sem best.

Hvað varðar hins vegar upphæð leiðréttingar er það rétt sem hv. þingmaður nefnir að oft hefur verið litið til verðbólgumarkmiðs Seðlabankans, með vikmörkum að sjálfsögðu, sem viðmiðunar. Jafnframt hafa menn litið til meðaltalsverðbólgu árin á undan til þess að finna grunninn, finna það sem telja má eðlilegar væntingar neytenda þegar lán eru tekin, eðlilegar væntingar um verðbólgu.

Það verður að sjálfsögðu líka á verksviði þeirrar nefndar sem útfærir aðgerðirnar svoleiðis að ég treysti því að hv. þingmaður muni, eins og hann gat um í upphafi andsvars síns, gefa þeirri vinnu sem lýst er í þingsályktunartillögunni svigrúm svoleiðis að hún nái öll fram að ganga og gangi greiðlega fyrir sig.



[14:21]
Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Til að taka af öll tvímæli skil ég svar hæstv. forsætisráðherra þannig að það sé já, og já. Já, það sé samkomulag um að banna verðtryggingu neytendalána með lögum, og já, það eigi að leiðrétta upp að ákveðnu þaki alla verðbólguna umfram verðbólgumarkmiðið, auk vikmarka eins og forsætisráðherrann sagði. Ég bið hæstv. forsætisráðherra um að leiðrétta það ef svarið var ekki einmitt já við báðum spurningunum. Þeim svörum fagna ég. Það eyðir ákveðinni óvissu.

Ég spyr forsætisráðherra í framhaldi hvers vegna ekki er gengið lengra í beinum aðgerðum, af því að þetta er í sjálfu sér bara viljayfirlýsing um nefndarvinnu sem er góðra gjalda vert.

Hér hefur til dæmis í fjórgang verið lagt fram á Alþingi frumvarp Lilju Mósesdóttur, síðast sem mál 23 á þingskjali 23 í vetur, um lyklafrumvarpið svokallaða. Báðir ríkisstjórnarflokkarnir hafa lýst því yfir í kosningabaráttunni að þeir vilji að þetta málefni nái fram að ganga. Hvað er því til fyrirstöðu fyrir ríkisstjórnarflokkana að endurflytja einfaldlega það frumvarp sem hefur fjórum sinnum komið fram af hálfu þess ágæta þingmanns sem lagði mikið til þessara mála, Lilju Mósesdóttur, í vetur? Er ekki sjálfsagt að gera þetta strax og láta það verða að veruleika en láta það ekki bíða fram í nóvember, af því að knýjandi er vandi þeirra sem þurfa á lyklafrumvarpinu að halda?

Hitt er kannski spurningin: Ef fyrirsjáanleg er mjög mikil leiðrétting á skuldum heimila, er þá ekki tilefni til þess a.m.k. að hugleiða það hvort hægja þurfi eitthvað á eða stöðva, eins og við gerðum tímabundið á síðasta kjörtímabili, aðfarir að fólki, uppboð og annað slíkt ef fólk sem er í fjárhagserfiðleikum núna á von á því eftir hálft ár eða ár að fá verulega úrlausn sinna mála? Væri ekki synd ef farið væri í harkalegar aðgerðir gagnvart því í millitíðinni? Ætlar forsætisráðherra að grípa til einhverra beinna aðgerða til að stoppa það (Forseti hringir.) að gengið sé að fólki þar til það er búið að fá þessa leiðréttingu sína?



[14:23]
forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður áréttaði hér mat sitt á því hvað ég hefði sagt og það er svo sem gagnlegt því að það hefur hent helst til oft að undanförnu, sérstaklega eftir kosningar en líka að töluverðu leyti fyrir kosningar, að menn hafi túlkað það sem hefur verið sagt um þessi mál hver á sinn hátt. Hv. þm. Helgi Hjörvar er búinn að útskýra sinn skilning og mun væntanlega, eins og mér heyrðist á hv. þingmanni, beita sér fyrir því að sú verði niðurstaðan. Hann mun væntanlega tala fyrir því að nefnd um afnám verðtryggingar, ef ég skildi hv. þingmann rétt, leggi það til að verðtrygging neytendalána verði bönnuð strax frá þeim degi þegar hún skilar niðurstöðu.

Ég ítreka það sem ég sagði áðan að svigrúm nefndarinnar hlýtur að verða til þess að nýta sem best afnám verðtryggingar fyrir heimilin og hagkerfið í heild og hún skili þá niðurstöðu sem er til þess fallin.

Ég hef tekið eftir mati hv. þingmanns á því hver væri æskilegasta niðurstaðan. Hann birtir þá niðurstöðu nú eftir kosningar. Það er ekkert að því að menn skipti um skoðun á milli kosninga, en það er ánægjulegt að hann skuli vera orðinn mjög afdráttarlaus hvað þessi mál varðar.

Hvað varðar hins vegar fyrirspurn hv. þingmanns um það hvort ekki sé rétt að afgreiða strax tillögu, sem hv. þingmaður minnir á að hafi verið lögð fram fjórum sinnum á Alþingi af fyrrverandi þingmanni, Lilju Mósesdóttur, þá hljómar það óneitanlega svolítið sérkennilega þegar hv. þingmaður er nýkominn úr stjórnarmeirihluta sem gerði ekkert með tillögu sem var lögð fram fjórum sinnum, eins og hv. þingmaður nefndi, að hann skuli ætlast til þess að hún sé lögð fram á fyrsta degi nýrrar ríkisstjórnar. Sú tillaga sem hv. þingmaður vísaði til, eins og aðrar tillögur sem varða stöðu skuldamála heimilanna, þarf að haldast í hendur við heildarlausn þessa vanda. Það er nálgunin sem lagt er upp með með þessari þingsályktunartillögu, að hún feli í sér (Forseti hringir.) heildarlausn og þá verði litið til allra þátta, m.a. þeirra þátta sem hv. þingmaður spurði um.



[14:26]
Guðmundur Steingrímsson (Bf) (andsvar):

Herra forseti. Sem meðlimur í efnahags- og viðskiptanefnd hlakka ég til að fara í saumana á þessari tillögu og mun skila vönduðu áliti mínu og Bjartrar framtíðar á henni að lokinni nefndarvinnu. Ég ætla því að láta nægja að þessu sinni að spyrja hæstv. forsætisráðherra einfaldlega nokkurra spurninga.

Það vekur athygli mína að hér er mjög lítið um beinar aðgerðir. Skuldamálin voru einhver stærstu mál síðasta kjörtímabils, fjölmargt um þau rætt, mjög margar skýrslur skrifaðar og margir starfshópar störfuðu að þeim málum, m.a., að mig minnir, nokkrir starfshópar um skuldaniðurfellingu. Seðlabankinn gerði sérstaka úttekt á þeirri hugmynd. Það var nefnd um verðtryggingu sem þáverandi hv. þm. Eygló Harðardóttir veitti forstöðu. Það voru skrifaðar vandaðar skýrslur um verðtryggingu. Lyklafrumvarpið var lagt fram fjórum sinnum og fékk náttúrlega umfjöllun hér í nefndum eins og önnur frumvörp.

Framsóknarflokkurinn og ríkisstjórnin hafa nokkuð skýrt umboð til aðgerða í skuldamálum. Í ljósi þess að búið er að skrifa mikið af úttektum, fara mikið í saumana á þessum málum og fjallað mikið um þau í kosningabaráttunni, af hverju er ekki meira um beinar aðgerðir að ræða í tillögunni? Eru þær ekki mótaðar?

Í öðru lagi. Stendur til að nýta alla þá vinnu og alla þá niðurstöðu, t.d. greiningu Seðlabankans á áhrifum skuldaniðurfellingar, í þeirri vinnu sem fyrir höndum er?



[14:28]
forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þm. Guðmundur Steingrímsson verður að virða nýrri ríkisstjórn það til vorkunnar að hún getur ekki í ljósi reynslunnar leyft sér að taka þá vinnu sem síðasta ríkisstjórn lét vinna, úttektir á stöðu skuldamála heimilanna, og byggt tillögur sínar á þeirri vinnu, þótt ekki væri nema í ljósi reynslunnar, í ljósi þess að í fjögur ár hefur hér verið horft upp á það að sú vinna sem hv. þingmaður vísar til skilaði stundum engu og stundum jafnvel verri niðurstöðu en ef ekkert hefði verið gert. (Gripið fram í.) Hv. þingmaður verður því að sýna því skilning að ný ríkisstjórn (Gripið fram í.) vilji kynna sér stöðu mála og útfæra tillögur út frá því. Hann verður jafnframt að sýna þá sanngirni að minnast þess að í umræðu um þau mál hafa þau alltaf verið tengd öðrum málum, til að mynda uppgjöri á þrotabúi gömlu bankanna. Það eru engin ný tíðindi í því.

Hv. þingmaður hlýtur líka að skilja að ný ríkisstjórn vilji læra af mistökum fyrri ríkisstjórnar og setja ekki lög sem ekki standast skoðun, vilji vanda til verks og setja eingöngu lög sem munu standast fyrir dómstólum og standast hvað varðar sanngirni.

Að öðru leyti vil ég bara hvetja hv. þingmann til þess að taka undir með hv. þm. Helga Hjörvar sem lýsti því yfir áðan að hann mundi ekki standa í vegi fyrir framgangi þessara mál heldur þvert á móti vinna að því að þau næðu sem hraðast og best fram að ganga.



[14:30]
Guðmundur Steingrímsson (Bf) (andsvar):

Herra forseti. Það hvarflar ekki annað að mér eða þingmönnum Bjartrar framtíðar en að fjalla um þessi mál af sanngirni og yfirvegun, en mér finnst stórar spurningar tengdar því öllu saman.

Ég velti fyrir mér hvað hæstv. forsætisráðherra á við þegar hann talar um skýrslur síðasta kjörtímabils. Ég var meðal annars að vísa í nokkuð margar niðurstöður nefndar um verðtryggingu sem þingmaður í hans flokki veitti forstöðu. Ég er að vitna í úttekt Seðlabankans sem starfar ekki á vegum ríkisstjórnarinnar heldur átti að vera og var hlutlaus úttekt á lánamarkaðnum og leiddi meðal annars í ljós að þeir sem einkum mundu njóta skuldaniðurfellingar, mjög dýrrar skuldaniðurfellingar, er fólk með miklar eignir. Það eru áhöld um hvort þessi aðgerð mundi leysa vanda fólks sem til dæmis á í greiðsluerfiðleikum. Þetta er bara niðurstaða af talnalegri greiningu Seðlabankans þannig að það má spyrja hæstv. forsætisráðherra hvort hann vonist til að hans greining leiði til einhverrar annarrar niðurstöðu. Maður veltir því fyrir sér hvort það veganesti sem er fyrir hendi í margs konar vinnu, sem hefur farið fram í þessum málum muni nýtast í framhaldinu.

Mér finnst margar áleitnar spurningar þessu tengdar, eins og t.d. verðtryggingunni. Það liggur fyrir að meðan við búum í verðbólguþjóðfélagi — ég get alveg fallist á að verðtryggingin ýti á vissan hátt undir verðbólgu, en hún er ekki eini orsakaþátturinn. Þannig að mig langar að spyrja hæstv. forsætisráðherra: Er það ekki áhyggjuefni, ef til dæmis á að afnema verðtryggð lán, að greiðslubyrði af óverðtryggðum lánum er mun meiri eins og efnahagslífið er? Verður það ekki svolítið erfið aðgerð?

Svo langar mig líka að spyrja (Forseti hringir.) þeirrar stóru spurningar hvort farið verði í þessar aðgerðir allar algjörlega óháð því hvort takist að fjármagna þær með samningum við kröfuhafa?



[14:32]
forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mörgum þeirra spurninga sem hv. þingmaður spurði er svarað í greinargerð og tillögunum sjálfum. Raunar gerði ég það líka að nokkru leyti í ræðu minni áðan. Ég mun reyna að fara yfir það aftur eftir því sem tími vinnst til.

Fyrst varðandi þær nefndir sem hv. þingmaður nefndi sérstaklega, nefnd um verðtryggingu og svo mat Seðlabankans eða þau álit sem hv. þingmaður nefndi. Verðtryggingarnefnd, sú sem hæstv. ráðherra Eygló Harðardóttir veitti forustu, skilaði niðurstöðu sem bar það með sér að í nefndinni var fólk með mjög ólíka sýn á verðtrygginguna. Fyrir vikið skilaði hún í rauninni fyrst og fremst yfirliti yfir ólíkt mat hvað varðar verðtryggingu. Það er ekki tilgangurinn með þeirri nefnd sem falið verður að vinna að afnámi verðtryggingarinnar.

Hvað varðar hins vegar mat Seðlabankans sem hv. þingmaður vísar til er ég algjörlega ósammála því mati, eins og var töluvert rætt þegar það mat var birt og í kosningabaráttunni.

Hv. þingmaður nefndi sérstaklega í fyrra andsvari að ríkisstjórnin hefði skýrt umboð — skýrt umboð — til að ráðast í þær aðgerðir sem hún hefði talað fyrir fyrir kosningar. Þess vegna, einmitt vegna þess að ríkisstjórnin hefði svo skýrt umboð, vildi hv. þingmaður sjá tillögur í samræmi við það. Það umboð er til þess að ráðast í aðgerðir sem eru mjög ólíkar að mati Seðlabankans. Það getur því ekki farið saman, það sem hv. þingmaður sagði um skýrt umboð til að ráðast í aðgerðir sem þessir stjórnarflokkar hafa talað fyrir og mat Seðlabankans sem fór í allt aðra átt. Við munum að sjálfsögðu beita okkur fyrir stefnu okkar en ekki stefnu fyrrverandi ríkisstjórnar í skuldamálum heimilanna. Það á við um mat Seðlabankans og allt annað mat sem unnið var í tíð þeirrar ríkisstjórnar.

Hvað varðar greiðslubyrðina er því svarað í greinargerð sem og (Forseti hringir.) öðrum athugasemdum eða spurningum hv. þingmanns.



[14:34]
Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að við getum rætt þessa tillögu til þingsályktunar sem lögð er fram af hæstv. forsætisráðherra. Við höfum lengi beðið eftir því að fá að sjá á spil ríkisstjórnarinnar um efndir á stórum og digrum skuldaloforðum í aðdraganda þingkosninga og gott að fá að sjá það útspil sem frá ríkisstjórninni kemur.

Ég ætla samt að segja í byrjun að mér finnst ekki mjög skýrt kveðið að orði í tillögunni og erfitt er að átta sig á sumum tillögunum. Ég verð þess vegna að segja í framhaldi af andsvörum hæstv. forsætisráðherra áðan að mér þykir forsætisráðherra líka helst til hvefsinn þegar spurt er út í skilning á einstökum þáttum tillögunnar. Það er óljóst orðað og slegið nokkuð úr og í, ég ætla að fara betur yfir það í máli mínu, og ekki er óeðlilegt að þingið óski eftir að fá skýr svör við til dæmis því eins og hér var verið að ganga á eftir áðan: Er það þannig að Sjálfstæðisflokkurinn sé kominn að þeirri niðurstöðu að banna eigi verðtryggingu með lögum? Það hefur hingað til ekki verið afstaða Sjálfstæðisflokksins og það er mikilvægt að okkur sé sagt það og þjóðin á rétt á því. Það skiptir máli að þessi grundvallaratriði komi skýrt fram í umræðu í þinginu. Ef menn ætla að virða þingið verður líka að koma hreint fram og segja hlutina eins og þeir eru.

Hér hefur í fyrsta lagi nokkuð verið rætt um að maður hefði kannski viljað sjá meiri beinharðar aðgerðir. Hæstv. forsætisráðherra segir að ríkisstjórnin þurfi tíma til að útfæra þær og víst er um það. En því verður ekki á móti mælt að sérstaklega Framsóknarflokkurinn háði kosningabaráttu á grundvelli ákveðinna loforða, skýrra loforða, þar sem ekki var rúm fyrir nokkurn efa. Hæstv. forsætisráðherra sagði það skýrt aftur og aftur: Það er hægt að leiðrétta forsendubrestinn, ég veit að það er hægt, ég mun gera það. Frambjóðendur Framsóknarflokksins lofuðu því að það yrði gert strax í sumar. Það er út af því sem við biðjum um skýr svör og við rekum á eftir þeim og viljum fá þau strax.

Þegar maður sér síðan tímasetningarnar í þessu þar sem lagðar eru upp tvær nefndir dettur mér nú í hug gamansaga af einum búskussa fyrir vestan. Það var þannig að hann var alltaf heylaus á hverju vori og búpeningurinn kom illa undan vetri og menn furðuðu sig mikið á því, því að hann bjó á góðri jörð. Svo kemur gestur í heimsókn til hans í byrjun september og það er ekki byrjað að slá, öll grös fallin, allar slægjur gular. Gesturinn segir: Bíddu, það er byrjun september og þú ert ekki byrjaður að heyja. Þá horfir karlinn á gestinn og segir: Nei, október hefur löngum reynst mér drjúgur heyskaparmánuður.

Ekki þarf að hafa mörg orð um það að ekki er mikil næring í heyi sem slegið er í október. En mér sýnist á þessari tillögu að ríkisstjórnin ætli nóvember að verða að drjúgum heyskaparmánuði, heyskaparmánuðurinn er nóvember. Ekki er lagt upp með að efna á nokkurn hátt skýr fyrirheit frambjóðenda um að skuldalækkun kæmi til framkvæmda og leiðréttingar í sumar. Það er beinlínis sagt: Við ætlum að fara í heyskap í nóvember. Svo skulum við sjá hversu næringarríkt það fóður verður sem þá verður í boði.

Um almennar athugasemdir við þingsályktunartillöguna vil ég segja þetta: Þar kemur fram sú afstaða stjórnarflokkanna sem er grundvallarstefnumörkun og breyting á viðhorfum þeirra beggja, sérstaklega Sjálfstæðisflokksins, að leiðrétta eigi verðbólguskot. Með öðrum orðum, að hjá þjóð sem hefur búið við meiri meðaltalsverðbólgu en nokkur önnur vestræn þjóð í áratugi sé verðbólguskot orðið að náttúruhamförum sem þjóðin beri ábyrgð á að bæta fórnarlömbum. Það er gríðarlega alvarleg og mikil ákvörðun og mikil tímamótaákvörðun í hagstjórn á Íslandi. Við höfum lifað við þá verðbólgu og talið var að við yrðum einhvern veginn að bögglast í gegnum byrðarnar af henni saman.

Nú er það sem sagt þannig að verðbólguskot er orðið náttúruhamfarir samkvæmt þessari skilgreiningu. En jafnframt er boðað að tryggja þurfi jafnræði og skilvirkni úrræða og, eins og hæstv. forsætisráðherra sagði áðan í andsvari, að allar aðgerðir þyrftu að standast stjórnarskrá og vera þar af leiðandi í samræmi við almenn jafnræðissjónarmið.

Þá blasir við að spyrja þriggja spurninga. Í fyrsta lagi. Hvað með hið raunverulega stærsta tjón sem nú hefur verið leitt í ljós í mörgum greiningum að er miklu meira en tjón fasteignaeigenda, og það er tjón leigjenda sem hafa greitt verðtryggða leigu frá hruni? Fyrir liggur og einfalt er að færa á það sönnur að tjón þeirra er meira, forsendubrestur þeirra er meiri af því að þeir hafa ekki fengið að njóta hækkunar eigna á móti. Hvernig á að fara með það? Ég sakna þess að ekki sé minnst einu orði á leigjendur. Það hlýtur að vera grundvallarkrafa að þeir sem hafa borgað verðtryggða leigu séu nefndir þarna með.

Annað varðar námsmenn. Hvað með hækkun verðtryggðra námslána? Ef viðmiðið er verðbólguskot, tjón vegna verðbólguskots, þá er tjón allra þessara aðila sem bera verðbólguskotið jafngilt, ef menn meina eitthvað með orðum um jafnræði. Það leiðir auðvitað hugann að fyrri verðbólguskotum. Ef þessi stefna er búin til, hvenær fyrnist tjón vegna verðbólguskota? Hvað með verðbólguskotið upp úr aldamótum? Hvað með fyrri verðbólguskot? Hvað með fyrri misgengistímabil upp úr 1990, upp úr 1980? Hvað um fólkið sem glataði öllu sínu í óðaverðbólgu 1983 o.s.frv.? Með því að viðurkenna tjón vegna verðbólguskots í verðbólgulandi eru menn auðvitað að búa til fjölmargar spurningar um jafnræði sem ekki er svarað á nokkurn hátt hér.

Enn eitt vildi ég nefna vegna þess hvernig málin eru lögð upp. Þetta á greinilega að vera ríkisstjórnar- og sérfræðingaverkefni. Það er breyting frá því sem áður hefur verið. Hæstv. forsætisráðherra talaði áðan af nokkru steigurlæti gagnvart verkum fyrri ríkisstjórnar í skuldamálum. Frá því að við komum fram með fyrsta málið varðandi skuldir heimilanna höfðum við þverpólitíska samstöðu að leiðarljósi; í allsherjarnefnd þegar ég var formaður allsherjarnefndar og við komum að fyrstu greiðsluaðlögunarlögunum fyrir kosningarnar 2009, þegar ég kom sem félagsmálaráðherra með lög sem heimiluðu í fyrsta sinn afskriftir skulda einstaklinga og fyrirtækja haustið 2009. Þá bjuggum við meira að segja til þverpólitíska nefnd. Hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir — af því að hún situr hér yfir framan mig vil ég nefna það — var fulltrúi Sjálfstæðisflokksins í þeirri nefnd og sú nefnd starfaði missirum saman. Ég vil sérstaklega hrósa hv. þingmanni fyrir að hún var alltaf svo uppbyggileg og vann svo vel í öllum þessum málum og við náðum þverpólitískri samstöðu um öll þessi lykilskref. Við náðum að þjappa okkur mjög vel saman um skilning á helstu viðfangsefnum skuldamála.

Ég sakna slíkra vinnubragða hér. Það er hvergi nefnd þverpólitísk samstaða. Stjórnarandstaðan á ekki að koma að þessu á nokkurn hátt og það er grundvallarbreyting frá því sem áður hefur verið. Og af því að nefnd var verðtryggingarnefnd hæstv. núverandi ráðherra, Eyglóar Harðardóttur, þá er það einmitt enn eitt dæmið um samvinnuna sem við vorum að reyna að hafa, að gefa stjórnarandstöðuþingmanni færi á því að leiða stefnumarkandi vinnu að þessu leyti.

Í þessum dæmum felst auðvitað ákveðin hvatning til nýrrar ríkisstjórnar um að tileinka sér þau opnu vinnubrögð sem við tileinkuðum okkur í umfjöllun um skuldir heimilanna á síðasta kjörtímabili.

Kemur þá að einstökum þáttum tillögunnar sem ég vildi fjalla sérstaklega um. Það eru vissulega mörg atriði af þeim tíu liðum sem mér þykja skynsamleg, en mér finnst skrýtið að menn hafi ekki skýrt frumvarp í einu einasta þeirra því að búið er að vinna mikla grunnvinnu og ætti að vera hægt að vinna það hratt.

Ég tek hér sérstaklega til hvað varðar verkefnisstjórn um framtíðarskipan húsnæðismála í fjórða liðnum. Ég tel alveg ljóst að það er mikilvægt verkefni og endurskipulagning húsnæðismarkaðarins. Búið er að vinna gríðarlega vinnu í því efni á undanförnum árum og hún mun vonandi nýtast þeirri verkefnisstjórn. Þetta er verkefni sem skiptir máli og á að leiða til lykta í þverpólitísku samstarfi.

Annað sem ég tek undir er atriði sem mér hefur lengi hugnast vel, það sem hér er nefnt um að tryggja eignalausum einstaklingum leið til að komast undan skuldum þannig að þeir þurfi ekki að greiða kostnað af eigin gjaldþroti. Það er eðlilegt að nýta allar leiðir, jafnt svipur sem hvata á fjármálafyrirtæki til þess að hraða endurútreikningi lána og vinnslu skuldaúrræða. Þegar ég var efnahags- og viðskiptaráðherra gerðum við einmitt mikið í því að setja inn hvata hvað það varðaði að láta það kosta bankana mjög mikið að vinna ekki í skuldamálum. Við stóðum gegn öllum hugmyndum um að hægt væri að túlka vanskil þeirra hóflegri, með öðrum orðum að þeir gætu komist hjá kostnaði sem fylgdi því að gera lítið í skuldamálum. Þeim mun meira sem þeir gerðu í skuldaúrvinnslu og því meira og hraðar sem þeir afskrifuðu, þeim mun meira nutu þeir.

Að sjálfsögðu er eðlilegt að afnema stimpilgjöld. Ég velti því hins vegar upp, eins og kom fram í hádegisfréttum, að forstjóri Persónuverndar gerði athugasemdir við frumvarp forsætisráðherra um heimildir Hagstofunnar vegna fjárhagsstöðu einstaklinga. Það er auðvitað sjónarmið hversu langt beri að ganga í því að safna persónugreinanlegum upplýsingum um skuldir fólks. En stóru atriðin eru fyrsti þátturinn þar sem sagt er að sérfræðingahópur eigi að útfæra mismunandi leiðir til að ná fram höfuðstólslækkun verðtryggðra húsnæðislána og gera tillögur þar að lútandi.

Nú verða hv. þingmenn að fyrirgefa mér þó að ég fari hér í nokkra textarýni því að þetta er það eina sem við fáum frá ríkisstjórninni. Hæstv. forsætisráðherra skýrði ekki mikið einstaka þætti í máli sínu áðan. Ég vona að hann hjálpi mér, ef hann kemur í andsvar á eftir, að skilja þættina. En eins og ég les þetta, og nú er ég bara að vinna út frá einfaldri textarýni því að þetta er mjög knosaður texti og óljós, er talað um almennar aðgerðir sem gagnist öllum heimilum sem urðu fyrir forsendubresti. Þá spyr ég aftur: Leigjendum, námsmönnum? Hvað er að verða fyrir forsendubresti?

Talað er um skýra hvata lántakenda til að breyta fjármögnun í óverðtryggð lán, og síðan er fjallað í löngu máli í umfjöllun um fyrsta liðinn um nákvæmlega þann þátt. En svo sagði forsætisráðherra áðan að það sé þó ekki skylda. Ókei. Af hverju er þá verið að fókusera svona mikið á umbreytingu í óverðtryggð lán þegar verið er að tala um leiðréttingu á forsendubresti? Af hverju er verið að rugla því tvennu saman ef það er ekki skylda? Það sem ég les út úr þessu er að verið sé viljandi að hræra saman ólíkum hlutum til þess að segja á endanum: Niðurstaða sérfræðingahópsins er að hér sé leiðrétting á forsendubrestinum og hún felst í umbreytingu yfir í óverðtryggð lán og núvirðingu lánanna og engu öðru. Hér segir líka jafnframt að metinn verði fýsileiki þess að lækka höfuðstól lána með skattafslætti. Útfærsla gæti orðið þannig að lántakendum verði gert kleift að greiða inn á höfuðstól lána og njóta skattafsláttar í staðinn. Halló, halló, þetta er tillaga Sjálfstæðisflokksins frá því í síðustu kosningabaráttu. (Forsrh.: Og okkar.) Hún er um að menn greiði inn á lánin og fái skattafslátt á móti, þeir sem hafi fjármuni til að lækka lánin sín njóti þess og þeir fái viðbótargreiðslur. Þeir sem ekki hafa efni á að borga inn á lánin sín og lækka þau þannig sitja uppi með forsendubrestinn. Bíddu, það er ekki að leiðrétta forsendubrest, hæstv. forsætisráðherra. Það er að mismuna fólki á grundvelli efnahags. Bara þeir sem eiga handbært fé til að greiða inn á lánin sín munu njóta einhvers en ekki hinir. Það er ekki jafnræði. Mér þykir það, meira að segja að ýja að þeirri leið, vera staðfesting á því að menn eru þegar komnir burt frá jafnræðinu.

Virðulegi forseti. Síðan segir í lokin á þessum fyrsta lið að samhliða skoðun á þeim leiðum sem færar eru til að leiðrétta forsendubrestinn þurfi að skoða aðrar leiðir sem geta verið færar til að nýta það svigrúm sem að öllum líkindum myndast samhliða uppgjöri þrotabúa gömlu bankanna til að koma til móts við lántakendur. Halló, halló, aftur. Samhliða skoðun á þeim leiðum sem færar eru til að leiðrétta forsendubrestinn — það er eitt sem á að gera, leiðir til að leiðrétta forsendubrestinn — þá á að skoða aðrar leiðir sem geta verið færar til að nýta svigrúmið sem að öllum líkindum myndast samhliða uppgjöri þrotabúanna. Annað var sagt við okkur í kosningabaráttunni. (Gripið fram í: Nei.) Þá átti leiðréttingin ekkert að kosta vegna þess að nýta ætti svigrúmið úr uppgjöri þrotabúanna. En hér eiga að vera til tvær mögulegar leiðir, önnur sem felur í sér að nýta svigrúmið úr uppgjöri þrotabúa gömlu bankanna og svo einhver önnur. Hver er hún? Hver á að borga þá leiðréttingu á forsendubresti?

Þetta er svo óskýrt orðað að það er ekki boðlegt, það getur enginn skilið hvað hér er átt við. Er verið að finna leiðir til að leiðrétta forsendubrest með einhverju utanaðkomandi fé? Segið það þá, þá verður að segja það að koma eigi nýtt fé úr þrotabúum gömlu bankanna, það sé grundvallarforsenda. Og um hvað á þá leiðréttingin að snúast? Er það umbreyting í óverðtryggð lán, með öðrum orðum höfuðstólslækkun, eins og bankarnir auglýstu fyrir nokkrum missirum þar sem menn gátu fengið höfuðstólslækkun með því að fara yfir í óverðtryggð lán, af því að núvirðingin lækkaði höfuðstólinn en afborganirnar hækkuðu? Eða er eitthvað annað í spilunum?

Hér er bara verið að tala með almennu blaðri og lofti um ekki neitt. Það er ekkert í þessu efnislegt sem hönd á festir. Það er ekki sæmandi ríkisstjórn sem situr í krafti þess að hafa lofað mönnum handföstum aðgerðum í skuldalækkun núna í sumar. Það er ekkert í þessu.

Virðulegi forseti. Síðan horfir maður á aðra þætti og ég staðnæmist við þriðja þáttinn, um að kannað verði hvernig gera megi eigendum yfirskuldsettra íbúða kleift að losna án gjaldþrots undan eftirstöðvum sem veðið sjálft stendur ekki undir. Ég hef skilið þetta þannig eins og bæði Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur sögðu í kosningabaráttu að þeir vildu setja lyklalög þannig að fólk gæti losnað undan eignunum sínum. En hér er þetta orðað á mjög undarlegan hátt. Það er eins og menn átti sig ekki alveg á umgjörðinni sem búið er að skapa með greiðsluaðlögunarlöggjöfinni annars vegar og 110%-leiðinni hins vegar. Það er í boði í dag, 110%-leiðin sem gerir fólki kleift að fá skuldir lækkaðar niður að verðmæti eignar og halda henni. Síðan er hægt að útfæra þá leið betur. Við lögðum það til í kosningabaráttunni að leggja þyrfti meira fé í að útfæra hana betur til að tryggja jafnræði milli einstakra lánastofnana. Sú leið hefur sem sagt verið prófuð. (ELA: Ekki gefið góða raun.) Ja, hún gerir fólki kleift að komast niður að verðmæti eignarinnar og halda eigninni. (Gripið fram í.)

Hér er verið að tala um að gera fólki kleift að losna undan því sem er umfram verðmæti eignarinnar og tapa eigninni, tapa henni, skila henni. Það er hægt í greiðsluaðlögun í dag. Það er líka hægt í greiðsluaðlögun að halda eigninni og losna við kröfur umfram. Ég átta mig því ekki alveg á hvað er verið að útfæra hér. Það er búið að útfæra leiðir til þess að losna undan kröfum sem veðið stendur ekki undir. Sú leið er til og heitir greiðsluaðlögun í dag. Hvað vilja menn nákvæmlega gera við það? Hverju vilja menn breyta þar? Vilja menn setja það sem almenna reglu að fólk fái ekki að halda eignum og fá kröfur lækkaðar niður að verðmæti eins og er hægt í 110%-leiðinni? Er það markmið að menn þurfi alltaf að skila eigninni til að losna undan viðbótarkröfum? Ég átta mig ekki á hver nýlundan á að vera í ljósi þess hvað liggur nú þegar fyrir.

Síðan eru það tímamót, sem kemur fram í sjötta liðnum, að settur verði á fót sérfræðingahópur um afnám verðtryggingar af neytendalánum. Auðvitað er almenningur búinn að velja, almenningur er hættur að taka verðtryggð lán. Það er afleiðing af misgenginu og fólk er skelft eftir upplifun síðustu ára. En það eru tímamót að Sjálfstæðisflokkurinn skrifi upp á það í stjórnarsáttmála að banna þetta með lögum. Eins og hæstv. forsætisráðherra skýrði hér áðan liggur fyrir afstaða beggja stjórnarflokkanna um að það skuli banna þetta með lögum og verkefnið er allt annað, eins og hann sagði, en það hefði verið í sérfræðingahópi hv. þáverandi þm. Eyglóar Harðardóttur. Ekki umræða um kosti og galla verðtryggingar heldur þvert á móti eigi þessi sérfræðingahópur að afnema hana. Og það liggur þá fyrir að Sjálfstæðisflokkurinn styður Framsóknarflokkinn núna í því að banna verðtryggingu á neytendalán.



[14:55]
forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Eins og gerist oft þegar hv. þm. Árni Páll Árnason fer yfir hlutina þá vinnst ekki tími til að leiðrétta allar rangfærslurnar sem fram koma í máli hv. þingmanns. Ég veit að virðulegur forseti sýnir þessu skilning. Ég mun reyna að bæta úr þessu hér í lokin þegar ég held aðra ræðu til að fara yfir ýmsar mistúlkanir sem þegar hafa komið í ljós.

Ræða hv. þingmanns virtist nánast eingöngu byggjast á því að reyna eftir fremsta megni að snúa út úr þeim liðum sem raktir eru í þingsályktunartillögunni lið fyrir lið. Mér þótti það skjóta nokkuð skökku við í ljósi þess að hv. þingmaður er nýbúinn að lýsa því yfir að hann ætlaði ekki að standa í vegi fyrir því að sú stefna sem framsóknarmenn boðuðu í kosningunum í skuldamálum heimilanna næði fram að ganga, að úrslit kosninganna hefðu sýnt að ríkisstjórnin ætti að fá tækifæri til að hrinda þeim í framkvæmd.

Ég geri hins vegar sérstaka athugasemd við það, og það er ástæðan fyrir því að ég bað um andsvar, að hv. þingmaður haldi áfram að skálda upp hvað núverandi hv. þingmenn Framsóknarflokksins hafi sagt í aðdraganda kosninga og jafnvel eftir kosningar. Það gengur ekki að hv. þm. Árni Páll Árnason haldi enn áfram, eftir að búið er að leiðrétta hann nokkrum sinnum, að fullyrða að framsóknarmenn hafi boðað að það yrðu sendar út einhverjar ávísanir eða fólk fengi peninga borgaða strax í sumar vegna skuldaleiðréttingaraðgerða.

Það hefur legið fyrir frá upphafi að þetta héldist í hendur við annað, tengdist öðrum málum og óhjákvæmilegt væri að vinna þetta samhliða þeim. Enda var það síðasta vígi hv. þingmanns í kosningabaráttunni, þegar var búið að fallast á forsendur framsóknarmanna að öðru leyti, að segja: Já, en gallinn er þó sá að þetta tekur of langan tíma.



[14:57]
Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil í fullri vinsemd segja við hæstv. forsætisráðherra, því að við erum að hefja nýtt kjörtímabil, að það er ekki til fyrirmyndar sá plagsiður hans að hefja öll andsvör við mig með því að saka menn um bull og þvætting o.s.frv. Ég ætla bara að segja þetta í fullri vinsemd af því að mér finnst að hann eigi að vera maður meiri sæva og sanda en þetta. Hann á alveg að geta rætt efnislega við mig og komið með efnislegar athugasemdir um það sem ég segi án þess að vera stöðugt með svona persónuleg hnjóðsyrði. Ég forðast þau í hans garð og mun halda því áfram.

Eins og hæstv. forsætisráðherra sagði hér áðan þá hef ég margoft sagt að við munum ekki standa gegn því að framsóknarmenn komi málum sínum fram á þessu sumarþingi og standi við loforð sín. Það hef ég margsagt og við það stend ég og við samfylkingarmenn. Ég stend ekki gegn neinu þó að ég standi hér og reifi ágalla á því sem hér er lagt fram.

Virðulegi forseti. Hæstv. forsætisráðherra verður að átta sig á því að þegar ég segi að við munum ekki standa gegn því að framsóknarmenn framfylgi og komi því fram sem þeir hafa lofað þá er þetta ekki það sem þeir hafa lofað. Þetta er bara ekki það sem þeir hafa lofað og það er ekkert óeðlilegt við það að við bendum á (Forseti hringir.) í umræðum í þinginu að það sé ekki verið að efna það sem var lofað.



[14:59]
forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það var líka bara í fullri vinsemd að ég reyndi einu sinni sem oftar að benda hv. þingmanni á að það væri ekki gagnlegt fyrir uppbyggilega rökræðu að halda fram tómri vitleysu. Það væri t.d. miklu skynsamlegra varðandi þessa umræðu ef hv. þingmaður eyddi ekki löngum tíma í að fullyrða að framsóknarmenn hefðu haldið ýmsu fram sem þeir héldu ekki fram.

Ef hv. þingmaður færi til dæmis bara yfir þessa tillögu og mæti kosti hennar og galla í stað þess að skálda jafnóðum upp hvað stendur í henni væri það miklu uppbyggilegri og gagnlegri umræða ef hv. þingmanni er alvara með það að hann vilji raunverulega sjá framgang þessa máls.

Það lá fyrir í kosningabaráttunni og eftir kosningar fyrir hvað framsóknarmenn stæðu í skuldamálum heimilanna og sú tillaga sem hér er kynnt er fullkomlega í samræmi við það.



[15:00]
Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ítreka það sem ég sagði áðan, ég held að okkur færi betur að gefa mönnum ekki einkunnir með almennum gífuryrðum eins og „vitleysa“ og „bull“ og „leiðrétta bull og þvætting“ heldur svöruðum gagnrýni efnislega.

Ég get alveg talið upp þau tilvik þar sem frambjóðendur Framsóknarflokksins lofuðu aðgerðum strax. Hvað þýðir það þegar forsætisráðherrann núverandi, formaður Framsóknarflokksins, horfir í augu þjóðarinnar kvöldið fyrir kjördag í sjónvarpsauglýsingu og segir: Þetta er hægt, ég veit það. Ég veit að þetta er mögulegt. Við getum gert þetta? (Forsrh.: Enda er …) Bíddu, hér er ekki verið að gera neitt sem menn vita hvernig á að gera. Það á að setja á fót nefndir til að finna út úr því hvernig á að gera þetta. Það eru fyrstu brigðin, hæstv. forsætisráðherra. (Gripið fram í.)



[15:01]
Þorsteinn Sæmundsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það veldur mér vonbrigðum að hv. þm. Árni Páll Árnason skuli gera lítið úr stökkbreytingu húsnæðislána með því að kalla þau verðbólguskot. Það kann að vera að það sé þess vegna sem hann sagði eftir kosningar að hann og flokkur hans hefðu beðið afhroð vegna þess að þeir hefðu ekki skilið hvað brann á þjóðinni. Líklega er það þess vegna. Það er kannski líka þess vegna sem hann og hans ágæti flokkur hreyfðu hvorki legg né lið fyrir heimilin í landinu meðan tækifæri var til.

Mismunurinn er kannski sá (Gripið fram í.) að meðan hv. þingmaður hlustaði ekki á þjóðina gerðum við framsóknarmenn það. Og við hlustuðum ekki bara á þjóðina, við höfðum kjark til að koma fram með alvörutillögur að því hvernig hægt væri að leysa úr vanda þessara heimila. Við erum ekki eins og búskussinn, nágranni hv. þingmanns, við ætlum að nota sumarið til að heyja að okkur upplýsingum, við ætlum að nota sumarið til að gaumgæfa þær reglur sem farið verður eftir þegar til aðgerða kemur. Við ætlum að vanda okkur, við ætlum að gera þetta rétt. Við ætlum að láta þær aðgerðir sem við ætlum að fara út í standast og við ætlum að gera hlutina einu sinni vegna þess að við ætlum ekki að láta þennan fortíðarvanda heimilanna verða framtíðarvanda þeirra. Við ætlum að leysa þessi vandamál sem best við getum í eitt skipti fyrir öll.



[15:02]
Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta var ekki svo mikið andsvar sem önnur ræða. Hv. þingmaður getur ekki komið hér og reynt að hnýta því í mig eða Samfylkinguna að við tölum niður skuldavanda heimilanna. Þegar ég tók við sem félagsmálaráðherra var bannað að afskrifa skuldir á fólk í þessu landi. Það var arfleifð ríkisstjórnarsetu Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks og ég þigg ekki lexíur frá framsóknarmönnum um það hvernig eigi að fara að því að búa til réttláta umgjörð fyrir skuldug heimili.

Ég ætla líka að segja það hér að orðalagið sem hv. þingmaður hnýtti í mig fyrir, orðið verðbólguskot, er fengið út tillögu hans eigin forsætisráðherra. Þetta er ekki mitt orðalag, þetta stendur í stjórnarsáttmálanum og þetta stendur líka hér í þessari tillögu. Ég hef hnotið um þetta orðalag, mér finnst þetta mjög skrýtið. Ég hef þvert á móti talað um þennan fordæmalausa vanda aftur og aftur, hin stökkbreyttu lán, og það er fullkomlega ósanngjarnt að fólk sitji uppi með þau. Þess vegna vorum við í kosningabaráttunni með ýmsar hugmyndir um hvernig taka ætti á þeim vanda.

Við viljum hins vegar ekki skapa almenna væntingu um það, eins og framsóknarmenn eru að gera hér í dag, að öll verðbólguskot verði alltaf bætt. Orðið verðbólguskot er frá framsóknar- og sjálfstæðismönnum komið, orðalagið „að leiðrétta verðbólguskot“ er að finna í stjórnarsáttmálanum sjálfum og hv. þingmaður á að spara sér digurmæli í minn garð vegna þeirra orða og beina þeim að sínum eigin forsætisráðherra.



[15:04]
Þorsteinn Sæmundsson (F) (andsvar):

Það er fullkomin ástæða til þess að hnykkja á því sem ég sagði áðan, að engar tillögur komu fram í kosningabaráttunni af hálfu flokks hv. þingmanns. Það er full ástæða til þess að hnykkja á því hverjir það voru sem hófu þennan málflutning, hverjir það voru sem börðust fyrir honum, hverjir það voru sem lögðu fram tillögu eftir tillögu. Menn reyndu allar aðferðir í bókinni til að tala þessar tillögur okkar niður í kosningabaráttunni. Ég vona að menn finni nú hjá sér þörf og getu og vilja til að taka á með okkur til að gera þessar raunhæfu og réttlátu tillögur og nauðsynlegu tillögur og aðgerðir að raunveruleika.



[15:05]
Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Alveg hárrétt hjá hv. þingmanni. Ég er tilbúinn að hjálpa framsóknarmönnum að koma aðgerðum í framkvæmd, standa ekki í vegi þess, en það er líka skylda okkar í stjórnarandstöðunni að vekja athygli á því að hér er engar aðgerðir að finna. Hér er að finna yfirlit yfir nefndir. Það sem meira er er að ríkisstjórninni finnst hún þurfa, vegna þess að hún hefur ekki úr neinu að spila og getur ekki fundið eitt einasta mál sem raunverulega breytir einhverju núna strax sem hún hefur vald á, að koma með þessa þingsályktunartillögu sem er þannig að ég er hræddur um að það hefði heyrst hljóð úr horni á síðasta kjörtímabili ef okkur hefði dottið í hug að koma með svona minnislista inn á hið háa Alþingi, ef okkur hefði dottið í hug að koma hingað inn með tillögu til þingsályktunar sem fæli ekki í sér annað en: Vinsamlegast minnið ráðherra á að vinna vinnuna sína. Drottinn minn dýri, ég get rétt ímyndað mér hvað hefði heyrst ef við hefðum komið inn með svona bull á síðasta þingi.



[15:06]
Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta var athyglisverð ræða hjá hv. þingmanni. Mig langar að byrja á því að þakka honum sömuleiðis fyrir ágætissamstarf í upphafi síðasta kjörtímabils við að reyna í sameiningu að finna lausnir á þessu stóra verkefni, þ.e. stöðu heimilanna eftir hrun.

Í þeirri vinnu sem átti sér stað í upphafi áttaði ég mig fljótt á því að það væri öllum til hagsbóta að reyna að vinna málið sem mest í sameiningu vegna þess að það er þverpólitískt í eðli sínu, varðar okkur öll, alla Íslendinga, og framtíð þjóðarinnar. Þess vegna lagði ég á það mikla áherslu að menn mundu setjast saman yfir verkefnið. Á síðasta kjörtímabili var viðleitni í þá átt upp að ákveðnu marki. Auðvitað verður maður að skilja það að ríkisstjórn á hverjum tíma leggur áherslur og ég veit að hv. þingmaður skilur það.

Ég vil benda hv. þingmanni á að í þessu plaggi kemur fram að leita á leiða til að hafa samráð við þá aðila sem málið varðar. Þetta kemur meðal annars fram á bls. 2 eftir tölulið 10 og jafnframt á bls. 3 þar sem segir, með leyfi forseta:

„Við vinnuna verður lögð áhersla á að leita eftir víðtækri sátt um þær leiðir sem farnar verða til að ná því markmiði að leysa skuldavanda íslenskra heimila.“

Ég skil þetta svo að áfram verði sá skilningur vonandi uppi hjá öllum flokkum að þetta sé sameiginlegt verkefni okkar. Ég vonast svo sannarlega eftir, þó að það hafi verið svolítill æsingur hér í umræðunni, að sá skilningur sé fyrir hendi hjá Samfylkingunni þar sem hv. þingmaður leiðir málin.

Mig langar jafnframt að spyrja hv. þingmann út í lið 10 þar sem hann minntist ekkert á þá upplýsingaleið sem þar er lögð til vegna þess að orðalagið ætti hv. þingmaður að kannast við frá því að hann var með þetta verkefni í fanginu og við stóðum í því að reyna að afla upplýsinga um hver staðan (Forseti hringir.) væri raunverulega.



[15:09]
Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni athugasemdina. Ég hef séð þau tilvik sem hún vísar í í þingsályktunartillögunni um að leita skuli almennrar samstöðu. Mér þykir það reyndar dálítið loðið orðalag ef hugsunin var að hafa þverpólitíska samstöðu, þá held ég að menn hefðu alveg mátt splæsa á það svona eins og einu orði, en tek viljann fyrir verkið og skal ekki að órannsökuðu máli staðhæfa að stjórnarmeirihlutinn hyggist ekki tala við stjórnarandstöðuna um vinnu á þessu sviði.

Menn geta haft ólík viðhorf til einstakra lausna en þverpólitískt samstarf er mjög mikilvægt. Við náðum þverpólitískri samstöðu allra flokka hér nema Hreyfingarinnar um lögin haustið 2009 og aftur um allan lagapakkann stóra vorið 2010. Þá lágum við til dæmis líka yfir því hvort skynsamlegt væri að samþykkja lyklafrumvarp og komumst að þeirri niðurstöðu að svo væri ekki. Þetta var allt gert í mikilli samvinnu og samtali og opnu samráði. Ég man eftir því sem ráðherra að hafa oft mætt á nefndarfundi og rætt við nefndina um þetta og einstakir nefndarmenn komu á minn fund með sín sjónarmið og við ræddum saman.

Í grunninn hefði ég talið að skuldamál heimilanna væri þannig verkefni að við yrðum að vinna saman um það og ættum ekki að fara í pólitískan keiluslag um það, við ættum að reyna að ná samstöðu um það.

Ég vil enn og aftur hrósa hv. þm. Unni Brá Konráðsdóttur fyrir hvernig hún hélt á þessum málum fyrir hönd síns flokks á síðasta kjörtímabili. Það var algjörlega til fyrirmyndar. Það er alveg ljóst að við erum til í samtal en við gefum auðvitað ekki öðrum flokkum óútfylltan tékka til þess að gera það sem þeir vilja. Í því felst ekki samráð, samráð felst í að við sitjum saman og ræðum okkur til sameiginlegrar niðurstöðu.



[15:11]
Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hlakka til að sjá hvernig það samráð mun virka og þá sérstaklega af hálfu Samfylkingarinnar vegna þess að mér finnst hafa legið í orðum hv. þingmanna Samfylkingarinnar að þeir sjái það þannig fyrir sér að þar sem Framsóknarflokkurinn hafi unnið stórsigur í kosningunum eigi hann að fá að framfylgja stefnu sinni hér og að þingmenn Samfylkingarinnar hafi lýst því yfir, að því er mig minnir, að þeir hafi áhuga á því að hleypa öllum slíkum málum hratt og vel í gegnum þingið. Ég sé því ekki alveg jafnvægið þarna á milli.

Ég ætlaði að spyrja hv. þingmann aðeins betur út í 10. lið, þ.e. heimildirnar til þess að afla upplýsinga varðandi raunverulega stöðu, vegna þess að við rákum okkur á það á síðasta kjörtímabili að þessar upplýsingar voru ekki fyrir hendi. Þær voru hér og þar í kerfinu og enginn var með yfirsýn. Þegar á að taka stórar ákvarðanir er varða mikla fjármuni er betra að vera með það á hreinu hver staðan er.

Af því að hv. þingmaður sagði hér að engin mál væru komin fram langar mig bara að benda honum á að þegar hefur verið lagt mál fram af hæstv. innanríkisráðherra varðandi (Forseti hringir.) flýtimeðferð dómstóla sem við höfum þegar tekið til við að vinna í allsherjar- og menntamálanefnd.



[15:12]
Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst varðandi það sem hv. þingmaður spurði um, hver þýðing fyrirheits okkar væri um að greiða málum leið, þá þýðir það það að við teljum Framsóknarflokkinn skulda þjóðinni aðgerðir. Við erum til í að hjálpa Framsóknarflokknum að koma þeim málum í gegnum þingið, ekki með því að greiða þeim atkvæði en við munum ekki efna hér til málþófs eða stöðva þau. Ef framsóknarmenn koma með þau á þessu sumarþingi skulda þeir þjóðinni þau á þessu sumarþingi og við munum greiða því leið að þeir geti afgreitt þau en við munum auðvitað koma fram með efasemdir okkar og tjá þær hér og vinna þær en við munum ekki stöðva málin eða bregða fyrir þau fæti.

Út af því sem hv. þingmaður segir síðan um upplýsingaöflunina þá er það allt hárrétt, það er mjög mikilvægt að fá alvöruupplýsingar. Þegar við vorum að glíma við þetta á síðasta kjörtímabili sagði einn hv. þingmaður og þáverandi ráðherra, Svandís Svavarsdóttir, einu sinni að henni þættu endalaus samtöl okkar um skuldavanda heimilanna minna á að vera gangandi í þoku með plástur í örvæntingarfullri leit að sári í þeirri veiku von að plásturinn mundi passa sárinu þegar maður loksins fyndi það. (Forseti hringir.) Þannig má þetta ekki verða áfram. Þess vegna lagði ég í tvígang fram frumvörp (Forseti hringir.) um upplýsingasöfnun um skuldir heimilanna sem þingið treysti sér því miður ekki til að afgreiða og það (Forseti hringir.) er mikið áhyggjuefni.



[15:14]
Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér tillögu til þingsályktunar um aðgerðir vegna skuldavanda heimila á Íslandi. Það eru auðvitað nokkur þáttaskil og hátíð í bæ hefði ég haldið þegar komið er að því að menn lyfti lokinu af leyndardómnum um það hvernig kosningaloforðin verða efnd.

Það er gaman í kosningabaráttu. Það er eftirminnilegt að hitta fólk og ræða við það um stöðu þess, vinna í því að reyna að sannfæra fólk um það að atkvæði greitt mínum flokki sé góð og skynsamleg ráðstöfun, að við séum traustsins verð og höfum gert vel og munum halda áfram að gera vel.

Það var svolítið snúið í aðdraganda síðustu kosninga þegar um var að ræða samkeppni við flokk, og ég vil sérstaklega nefna Framsóknarflokkinn í því efni, sem gekk býsna langt í því að segja: Annaðhvort stendur þú með Framsóknarflokknum eða gegn heimilunum. Þannig var umræðan og þetta var umræðan í anddyrum stórmarkaðanna og úti á torgunum og valkostirnir voru þessir: Annaðhvort stendur þú með Framsóknarflokknum eða þú stendur gegn heimilunum í landinu. Ef einhver velti vöngum og sagði: Ég veit það ekki, á ég að fara að kjósa Framsóknarflokkinn?, þá var viðkvæðið stundum: Bíddu, stendur þú ekki með heimilunum? Ég er nú ekki fædd í gær en ég man ekki eftir umræðu í aðdraganda kosninga sem hefur verið nákvæmlega svona sérkennilega stemmd og sérkennilega stillt.

Það er svo erfitt að rökræða þegar um er að ræða svona fullyrðingar. Ég held hins vegar að frambjóðendur Framsóknarflokksins hafi verið mjög sannfærðir og ég upplifði mikinn kraft og mjög mikla gleði í þeirra hópi. Það er gaman í kosningabaráttu og sérstaklega gaman í kosningabaráttu þegar vindurinn er í seglin og þegar maður finnur að málflutningurinn fær góð viðbrögð, fólk hefur trú á því sem maður er að segja og maður finnur fyrir erindinu, finnur fyrir því að maður á erindi við kjósendur, finnur fyrir því að maður býr yfir trúverðugleika og eflist líka í þeirri trú að maður eigi virkilega erindi í stjórn landsins.

Þjóðin kaus og hún kaus þessar vonir að mjög mörgu leyti. Hún kaus það sem var býsna skýrt fyrir kosningar, hún kaus að það þyrfti engar nefndir, það þyrfti ekki nefndir og þyrfti ekki starfshópa, þetta væri hægt að fara í. Það átti að reiða hátt til höggs og það átti að láta hrægammana finna fyrir því. Einhverjir töluðu um sleggjur og önnur amboð komu líka til tals. Það átti ekkert að gefa eftir. Nú erum við hér að ræða tillögu til þingsályktunar þar sem eru taldar upp nefndir og starfshópar af ýmsu tagi sem eiga að skoða eitt og annað, allt fer í nefnd og allt fer í starfshópa.

Það þurfti ekki að fara með lækkun veiðileyfagjaldsins í nefnd. Það þurfti ekki að fara með lækkun á virðisaukaskatti á ferðaþjónustuna í nefnd. Það þurfti ekki að fara með breytingar á stjórn Ríkisútvarpsins í starfshóp, samráð við listamenn, starfsfólk RÚV. Það þurfti ekki því að þar voru aðgerðir, þar voru skýrar aðgerðir. Þær voru hins vegar ekki til umræðu í kosningabaráttunni sérstaklega. Þær voru ekki á bæklingunum í anddyri stórmarkaðanna: Lækkum veiðileyfagjaldið því að annaðhvort stendur þú með Framsókn eða gegn útgerðinni. Það var enginn sem sagði það. Loforðin voru nefnilega svo hástemmd að það er skylda okkar sem erum í stjórnarandstöðu, í minni hluta í þinginu, að standa þá vakt í þessari umræðu í þingsal að staðið verði við þau loforð. Það er nefnilega enginn annar sem getur staðið við loforðin en nákvæmlega þessi ríkisstjórn, það er enginn annar sem getur gert það.

Það er aumt þegar þessi sama ríkisstjórn rökstyður sig með því að halda ítrekaða blaðamannafundi um það að hér sé allt miklu verr statt en það leit út fyrir að gera í aðdraganda kosninga og gera því jafnvel skóna með dramatísku augnaráði að einhverju hafi verið haldið leyndu, þess vegna sé staðan miklu verri. En sama dag eru svo lögð fram frumvörp þar sem enn er þrengt að hinum aðþrengda ríkissjóði, þessi aumingja ríkissjóður sem líður miklu verr en nokkur vissi, aumingja, aumingja ríkissjóður. Það koma tillögur um að gefa honum enn þá minna að borða frá þeim sömu sem hafa svo miklar áhyggjur af heilsufarinu, frá sömu mönnunum og tala um það á blaðamannafundinum, auðvitað í Þjóðmenningarhúsinu, að sjálfsögðu. Allir þeir tónar sem er verið að slá hér, átta nefnda áætlun hæstv. forsætisráðherra, starfshópur, úttekt, könnun, verkefnastjórn, starfshópur, könnun, starfshópur, könnun. Sjónir þjóðarinnar eru á efndum kosningaloforðanna og þær eru ekki í þessu plaggi, þær eru bara ekki í þessu plaggi.

Ýmislegt hefur verið rætt í umræðunni í dag og auðvitað er margt efnislegt sem væri hægt að staldra við hér. En af því að hæstv. forsætisráðherra talaði um það í stefnuræðunni — þegar hann kom sér út úr langa kaflanum um breytt vinnubrögð, samstarf, samvinnu, skynsemi, ég veit ekki hvort hann nefndi virðingu, ég held það jafnvel, en ég er einhvern veginn búin að gleyma því hvort hann nefndi virðingu af því að það hefur ekki verið það sem hefur svifið sérstaklega hér yfir vötnunum — en samstarf við stjórnarandstöðuna í þessu stóra máli hefur ekki verið á dagskrá. Það hefur ekki verið til umræðu og það er ekki í þessari sérkennilegu þingsályktunartillögu, sem er tillaga þar sem ríkisstjórnin er að biðja þingið um að biðja sig um að setja á fót átta nefndir eða biðja þingið um að biðja sig um að efna kosningaloforðin. Þetta er í öllu falli mjög undarlegt, það er eiginlega alveg sama hvernig maður lítur á það.

Hvað af þessum aðgerðum hefur áhrif á stöðu íslenskra heimila strax? Hvað af þessum aðgerðum hefur áhrif á stöðu íslenskra heimila fyrir áramót? Hvað af þessum aðgerðum hefur áhrif á stöðu íslenskra heimila innan árs, fyrir áramótin 2014–2015 o.s.frv.? Sérfræðingahópurinn sem á að útfæra mismunandi leiðir til að ná fram höfuðstólslækkun verðtryggðra húsnæðislána og gera tillögur þar að lútandi á að skila í nóvember 2013. Hann á að skila í nóvember 2013, hann á að skila tillögum sínum svo seint á árinu að það er ljóst að ekki verður úr framkvæmdum á næsta fjárlagaári vegna þess að við erum komin það langt í fjárlagavinnunni þegar nefndin skilar af sér í nóvember. Ég er að velta fyrir mér, virðulegur forseti, tímalínunni í hugum þeirra sem töluðu um efndir og engar nefndir. Ég velti satt að segja líka fyrir mér hér í þessum þingsal, vegna þess að ég fann fyrir gleði ungra framsóknarmanna sem voru að dreifa bæklingum en ég fann líka fyrir efasemdum sjálfstæðismanna bæði í aðdraganda kosninganna og líka eftir þær, er það svo að það að vaða í að lækka veiðileyfagjaldið með slíku offorsi, og það þarf engar nefndir í það, er það það sem Sjálfstæðisflokkurinn telur duga á móti því að Framsóknarflokkurinn komi fram með þá framkomu gagnvart þjóðinni að skila auðu í skuldavandamálum? Er það svo?

Ég vil líka nefna það sem áður hefur komið fram í umræðunni að þegar verið er að ræða forsendubrest og flókna stöðu heimilanna í landinu er mikilvægt að halda því til haga að við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði höfum aldrei gert lítið úr þeim vanda. Það er hins vegar líka ljóst að sá vandi á sér mjög langa sögu. Íslenska efnahagshrunið var náttúrlega erfiðasta höggið sem íslenskt samfélag hefur nokkurn tíma orðið fyrir. Það voru því miður ekki bara þeir sem skulduðu húsnæðislán sem urðu fyrir höggi heldur miklu, miklu fleiri. Leigjendur og námsmenn urðu líka fyrir höggi, en það sem var kannski alvarlegasta höggið var höggið á íslenskt velferðarkerfi, á íslenskt menntakerfi, á samfélagið, á fullveldið þar sem raunverulegur möguleiki var á því að Ísland yrði gjaldþrota. Það var stærsta aðgerðin fyrir íslensk heimili sem þáverandi ríkisstjórn fór í, að standa vörð um Ísland.

Í ágætri úttekt frá upplýsingaþjónustu Alþingis um forsendur, skuldir og vísitölur segir, með leyfi forseta:

„Ljóst er að mörg heimili eru í vandræðum með lán sín og jafnvel í vanskilum en ástæður þess eru ekki einvörðungu utanaðkomandi, þ.e. verðtrygging, gengistrygging eða bankahrun. Vandamálið var til staðar áður en verð- og gengistryggingar fóru að gera mönnum lífið leitt en bankahrunið með tilheyrandi afleiðingum gerði stöðuna erfiðari.“

Og síðar:

„Greining á því af hverju heimilin lenda í þessum vandræðum liggur hins vegar ekki fyrir en eins og áður hefur komið fram er skuldinni gjarnan skellt á utanaðkomandi aðstæður eða einhvers konar „ránskjaravísitölu““, sem er orð sem hefur gjarnan verið notað í gegnum tíðina um verðtrygginguna og vísitöluna.

Það sem segir þarna er að þótt gengið sé vasklega fram, eins og framsóknarmenn hafa haft fyrirheit um, er spurningin sú hvort tryggt sé að jafnræðis verði gætt aftur í tímann gagnvart þeim sem hafa áður lent í skakkaföllum af völdum verðtryggingar og verðbólgu. Þetta er óþægilegur veruleiki kynslóðanna á Íslandi, hverrar á fætur annarrar, að lenda í því að vera meira og minna í vinnu hjá bankakerfinu alla sína ævi við að greiða fyrir húsnæðislán. Það er í raun og veru allt of mikil skuldsetning almennt á Íslandi í húsnæðiskerfinu, enda vil ég sérstaklega fagna þeim aðgerðapunkti sem er nefndur hér um húsnæðisstefnu og bendi á góða vinnu sem getur legið þar til grundvallar og vænti þess að hæstv. ríkisstjórn nýti þar þá vinnu sem er fyrir hendi. Þetta mál verður ekki rofið úr því samhengi að ræða um húsnæðismál og húsnæðismenninguna, liggur mér við að segja, á Íslandi sem er séreignarstefnan sem hefur að svo ótrúlega mörgu leyti bundið okkur öll á klafa mikillar skuldsetningar, eiginlega ævina á enda.

Hæstv. forsætisráðherra er tíðrætt um samstarf og samvinnu og meira að segja talar hann gjarnan um sanngirni. Af því að ég á minn bakgrunn í málvísindum hef ég gaman af orðum og orðfæri og því hvernig fólk beitir þeim. Orðfærið sanngirni notar hæstv. forsætisráðherra bara þegar það á við að honum finnst hann hafa orðið fyrir svo mikilli ósanngirni, og iðulega er það þá í leiðindaandsvörum eða einhverju slíku. Ég bið hann um að prófa að snúa orðinu í hina áttina af því að ég held að það sé sniðug æfing að gera fyrir alla, þetta með gullnu regluna, að beita góðum siðum bæði á aðra og sjálfan sig. Ég held að það væri til bóta.

Virðulegur forseti. Ég hef farið yfir þessar tillögur og skoðað þær og það hvert þeim er vísað, þ.e. hver ber ábyrgð á hverri tillögu um sig. Ég sé ekki betur en að það séu í meginatriðum þrjú ráðuneyti sem fara með þau mál, þ.e. forsætisráðuneytið, velferðarráðuneytið, þ.e. félags- og húsnæðismálaráðherra og svo innanríkisráðuneytið. Það eru tvö atriði sem eru á könnu fjármála- og efnahagsráðherra, tvö atriði af tíu, þannig að um flest þeirra atriða gildir að þau eru á hendi hinna ráðuneytanna. Ég tel og vil í fullri vinsemd gera það að tillögu minni að málinu verði vísað til velferðarnefndar til umfjöllunar og úrvinnslu þar sem það eru miklu fleiri atriði í þingsályktunartillögunni sem eiga heima þar en beinlínis í efnahags- og viðskiptanefnd, því að þar eru í raun og veru fá atriði sem hafa einhverja tilvísun beint þar inn. Ég held að velferðarnefndin sé betri vettvangur til þess að fjalla um málið og getur auðvitað gert það í góðu samstarfi við aðrar nefndir þingsins. Auk þess tel ég að góður bragur væri á því í anda samvinnu og ungmennafélagsandans að nefnd sem er stýrt af þingmanni úr stjórnarandstöðunni haldi utan um framvindu málsins til að tryggja greiðari framgang þess í gegnum þingið.

Virðulegur forseti. Þetta er stóra málið um efndir ríkisstjórnarinnar og hún er með því að leggja málið fram með þessum hætti að kaupa sér tíma, það er það sem hún er að gera. Hún er að kaupa sér tíma af því að hún er ekki tilbúin með málin, hún er ekki tilbúin með málin sem voru einföld fyrir kosningar en eru flóknari núna. Það eru tvö frumvörp komin af þessum lista og það er flýtimeðferðin, sem við erum með til umfjöllunar í allsherjar- og menntamálanefnd, og svo eitt annað mál sem er gagnasöfnun Hagstofunnar. Hvorugt af þeim tveimur málum hefur beinlínis afgerandi áhrif á skuldug heimili í landinu. Ég held raunar að ef maður þræðir sig niður þennan lista sé það ekki svo að um kúvendingar fyrir heimilin í landinu sé að ræða, a.m.k. ekki, virðulegur forseti, á næstu missirum. En við munum hér eftir sem hingað til standa okkar vakt í því að gæta þeirra hagsmuna að ný og bjartsýn ríkisstjórn fái til þess færi að leggja fram sínar efndir þar sem um var að ræða slík tímamót að mér sýnist um að ræða Íslandsmet í kosningaloforðum.



[15:33]
forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er óneitanlega sérkennilegt að heyra stjórnarandstæðinga koma hér upp hvern á fætur öðrum til þess að lýsa því yfir að það sé algjört hneyksli að menn séu ekki búnir að framkvæma hlutina strax á fyrstu dögum í ríkisstjórn, hluti sem þeim entust ekki fjögur ár til að byrja á af nokkru viti.

Jæja, gott og vel, það er vísað í kosningabaráttuna og yfirlýsingar þar. Og hverjar voru þær yfirlýsingar? Það var beinlínis uppleggið í stefnu framsóknarmanna fyrir kosningar að leggja til ákveðna meginhugsun og halda því svo opnu að vinna úr henni með öðrum í framhaldinu, það var uppleggið. Við vorum gagnrýnd fyrir það í kosningabaráttunni.

Nú leyfa menn sér að koma hér og fullyrða að menn hafi sagt að það væri bara allt tilbúið, það ætti bara að hrinda öllu í framkvæmd strax á fyrstu dögum í sumar. Það var aldrei sagt. Þvert á móti, við vorum gagnrýnd fyrir að vilja vinna hlutina almennilega, vilja leita til sérfræðinga, vilja hafa samráð, vegna þess að við vorum brennd af reynslunni af því að hafa komið með útfærða tillögu, nákvæma tillögu um 20% leiðréttingu á sínum tíma, stóra tækifærið sem var til þess. Það varð til þess að þáverandi stjórnarflokkar létu umræðuna alla snúast um annars vegar smáatriðin í útfærslunni og hins vegar hvaðan útfærslan kæmi. Hún kom frá Framsóknarflokknum og þess vegna var ekki hægt að fallast á hana.

Þess vegna fórum við aðra leið núna. Við sögðum: Getum við ekki verið sammála um meginhugsunina, meginmarkmiðið og unnið svo saman að því? Þannig fórum við í síðustu kosningar. Það er það umboð sem stjórnarandstæðingar tala svo mikið um að ríkisstjórnin hafi núna, það umboð er byggt á einmitt því að við höfum lýst meginmarkmiðinu og ætlum svo að vinna það áfram með m.a. stjórnarandstöðunni, sem ég hélt reyndar að ætlaði að taka því fagnandi að fá tækifæri til að hleypa þessum málum hér áfram en virðist enn þá vera svo svekkt yfir niðurstöðum kosninganna (Forseti hringir.) að hún fær sig ekki til þess.



[15:35]
Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Kjarni málsins er þessi: Framsóknarflokkurinn verður að bera ábyrgð á kosningaloforðum sínum, hann verður að gera það sjálfur, það gerir það enginn fyrir hann. Skilaboðin eru þau að Framsóknarflokkurinn verður þá núna að segja þjóðinni að hún verði að bíða. Framsóknarflokkurinn verður að gera það sjálfur, horfa í augun á þjóðinni og segja: Ágæta þjóð, hafðu biðlund með okkur af því að við þurfum að útfæra þetta. Gerið þið það þá. Segið bara, virðulegur forseti, hversu lengi.



[15:36]
forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er aum pólitík að gera andstæðingunum eða fulltrúum annarra flokka stöðugt upp skoðanir og ráðast svo á hinar ímynduðu skoðanir andstæðingsins í stað þess að ræða hlutina bara eins og þeir eru. (Gripið fram í.) Það er því miður aðferð sem núverandi stjórnarandstöðuflokkar hafa beitt alllengi og virðast ætla að beita áfram þrátt fyrir allt talið um ný vinnubrögð í pólitík.

Í kosningabaráttunni hröktust andstæðingar framsóknarmanna úr einu víginu í annað. Fyrst var því haldið fram að framsóknarmenn hefðu ekki sýnt fram á hvernig hægt væri að fjármagna úrbætur í skuldamálum heimilanna. Á endanum urðu menn að viðurkenna að búið væri að sýna fram á að hægt væri að fjármagna þetta. Búið var að sýna fram á að hægt væri að gera þetta. En hvert var síðasta vígið, það vígi sem menn héldu sig í alveg fram á kjördag? Jú, það var að ekki væri hægt að gera þetta strax, það tæki tíma og að framsóknarmenn hefðu ekki útfært hlutina heldur bara lýst markmiðunum og ætluðu síðan með hjálp sérfræðinga að útfæra hlutina.

Svo koma menn nánast daginn eftir kosningar og eru þá algjörlega búnir að endurskilgreina það sem framsóknarmenn sögðu í kosningabaráttunni og snúa algjörlega við því sem þeir sögu sjálfir í kosningabaráttunni. Nú er þetta allt í einu á hvolfi. Nú er fullyrt að framsóknarmenn hafi boðað það í kosningabaráttunni að farið yrði í aðgerðir strax, þeir væru búnir að útfæra þetta allt saman, ætluðu ekki að hlusta á neina, þyrftu enga sérfræðinga, þyrftu ekki að hlusta á neina vegna þess að þeir væru með þetta allt á hreinu sjálfir.

Hvort á það að vera? Ætla menn að gagnrýna Framsóknarflokkinn fyrir að vera með tillögur sem þarfnast útfærslu eða ætla þeir að gagnrýna Framsóknarflokkinn fyrir að vinna hlutina nú almennilega og undirbúa lagasetningu þannig að hún standist? Það er nú reyndar eitt af því sem ég hefði haldið (Forseti hringir.) að núverandi stjórnarandstaða hefði lært af reynslu sinni í ríkisstjórn, að það er mikilvægt að vanda til lagasetningar.



[15:38]
Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hæstv. forsætisráðherra er nú dálítið kominn í hringi, finnst mér, því að hér er talað um að vinna hlutina almennilega. Látum það standa „að vinna hlutina almennilega“ og vísa ég þá enn og aftur í þau frumvörp sem hæstv. ríkisstjórn hefur lagt fram án samráðs við nokkurn þann sem hefur með málið að gera. Þá þarf ekki að vinna hlutina almennilega, þá liggur á.

Er svo sanngjarnt, hæstv. forseti, að forsætisráðherra segi að fyrri ríkisstjórn hafi ekkert gert? Hvernig í ósköpunum er hægt að eiga eðlileg orðaskipti við menn sem tala á þessum grunni? (Gripið fram í: Allt gott fyrir fjórum árum.) Stórkostleg staða sem komið var að.

En ég vil árétta að það sem framsóknarmenn skulda þjóðinni þá — látum þá að því liggja að við séum hér að sauma að Framsóknarflokknum með einhverri meinbægni með því halda því fram að allt hafi átt að gerast strax en það hafi í raun aldrei verið þannig og að Framsóknarflokkurinn hafi alltaf sagt að þetta þyrfti tíma og útfærslur og allt það. Ég held bara, virðulegur forseti, að þjóðin hafi upplifað það dálítið þannig í aðdraganda kosninga að þetta ætti bara að koma strax. Þá vil ég beina því til hæstv. forsætisráðherra að hafa í sér döngun til þess að horfa framan í þjóð sína og segja henni hversu lengi hún þurfi að bíða. (Gripið fram í.)



[15:39]
Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Við stöndum nú í þeim sporum að fyrir okkur liggur nýtt kjörtímabil, fjögur ár full af tækifærum og möguleikum til að gera góða hluti og rétta hluti fyrir íslenska þjóð. Ég vona svo sannarlega að allir sem sitja á Alþingi Íslendinga séu fullir af eldmóð og ætli sér í þetta verkefni af heilum hug.

Mig langar, herra forseti, að hvetja hv. þingmenn, sama í hvaða flokki þeir eru, til að reyna af fremsta megni að beita sér fyrir því að þannig skulum við vinna í þinginu. Við skulum að minnsta kosti reyna það til að byrja með. Ég vona svo sannarlega að varðandi þetta mál, skuldavanda heimilanna og lausn á því stóra, sameiginlega verkefni okkar, takist okkur að vinna saman í þinginu.

Ég benti á í andsvari mínu hvar í þessu plaggi sem hér er til umræðu er talað um að viðhafa eigi samstarf og samráð. Mig langar til að hvetja hv. þingmenn til að lesa það vel og rækilega og hvet þá til þess að gefast nú ekki upp á því að trúa því að það standi til áður en á það reynir. Ég er svolítið uggandi yfir því hvernig umræðan hefur þróast í þingsal í dag, en ég ætla bara að vera bjartsýn og vonast til þess að við náum árangri.

Herra forseti. Hér liggur fyrir tillaga til þingsályktunar í tíu liðum sem segir okkur með hvaða hætti ríkisstjórnarflokkarnir ætla sér að vinna að þessu stóra verkefni. Ég veit að hv. þingmenn hafa kynnt sér stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarflokkanna þar sem er lögð mikil áhersla á að koma til móts við þann vanda sem íslensk heimili hafa glímt við frá hruni. Við leggjum jafnframt mikla áherslu á efnahagsmálin og þarna er að finna stóran kafla um að ábyrg efnahagsstjórn sé forsenda velferðar. Þetta mun allt saman þurfa að spila og stilla saman. Við ætlum okkur að bæta vinnubrögð og vanda okkur við það sem gert er. Ég vonast til þess að stjórnarandstaðan verði með öflugt aðhald og bendi okkur á hvað betur megi fara.

Mig langar að tæpa á nokkrum atriðum varðandi þau verkefni sem sett eru fram í aðgerðaáætluninni og þá í fyrsta lagi 4. lið. Þar er talað um að skipuð verði verkefnisstjórn um framtíðarskipan húsnæðismála. Þetta er gríðarstórt verkefni og var rætt hér oft á síðasta kjörtímabili. Við ætlum okkur að skipa verkefnisstjórn um framtíðarskipan húsnæðismála og það er gríðarlega mikilvægt að það liggi fyrir hið fyrsta hvernig við sjáum fyrir okkur þróun húsnæðismála á Íslandi, vegna þess að við hljótum öll að gera okkur ljóst að hér þarf að fara í grundvallarbreytingar.

Það dugir auðvitað ekki að halda því fram að að sú einfalda aðgerð að færa öll húsnæðislán úr því að vera verðtryggð yfir í að vera óverðtryggð leysi allan vanda. Það er auðvitað ekki hægt að halda því fram, sérstaklega ekki með tilliti til þess hvernig markaðurinn er einmitt núna. Við hljótum öll að átta okkur á því, ef við sýnum fulla sanngirni þegar við horfum á verkefnið, að við þurfum að horfa á þetta í heild.

Við þurfum jafnframt að tryggja að ungt fólk og fólk sem er að kaupa sína fyrstu fasteign hafi möguleika á því og úrræði til þess að leggja fram fyrstu útborgun. Og við þurfum að tryggja að það séu hvatar í kerfinu til sparnaðar, vegna þess að sparnaður er það sem við þurfum að leggja höfuðáherslu á á þessu kjörtímabili. Það er fátt brýnna en að fólk átti sig á því og við öll sem hér erum að það að leggja til hliðar og eiga fyrir hlutum, sérstaklega útborgun í stærstu einstöku fjárfestingu hvers heimilis, þ.e. fasteigninni sjálfri, er gríðarlega mikilvægt.

Ég hlakka til að sjá hvernig þessar tillögur sem á að leggja fram í upphafi árs 2014 munu líta út. Og ég hlakka til samráðs við alla þá sem að málinu koma, þar á meðal stjórnarandstöðunnar.

Við áttum á síðasta kjörtímabili nokkrum sinnum orðastað um Íbúðalánasjóð og framtíð sjóðsins. Við vorum auðvitað ekki öll sammála um það hvernig við sæjum fyrir okkur sjóðinn, en ég held að við hljótum öll að gera okkur grein fyrir því að þar þurfa að verða breytingar á.

Herra forseti. Mig langar í annan stað að minnast aðeins á 10. lið, sem fjallar um það að Hagstofa Íslands fái skýrar heimildir til að afla upplýsinga um fjárhagsstöðu heimila og fyrirtækja. Það frumvarp kemur fram á þinginu í sumar og ég vonast til að við náum að klára það.

Á síðasta kjörtímabili, allt frá því að við hófumst handa við að reyna að finna lausnir á vanda heimilanna, rákum við okkur á að enginn var sammála um það í hverju vandinn væri fólginn. Upplýsingarnar voru mjög misvísandi um það hvort um væri að ræða umfangsmikinn vanda, mikinn vanda eða lítinn. Það var algjörlega ljóst frá mínum bæjardyrum séð að það yrði að setja á fót einhvern vettvang, einhvern einn aðila til að halda utan um þetta og hafa opinberar tölur um hvað ætti að horfa á þegar maður væri að reyna að finna út hvar væri best að grípa inn í af hálfu ríkisvaldsins.

Lögð voru fram frumvörp á þinginu, bæði af þáverandi hæstv. ráðherra Árna Páli Árnasyni, sem nú er hv. þingmaður, og frá hv. þm. Pétri H. Blöndal. Þau mál fóru ekki í gegnum þingið. Það er miður. Þess vegna fagna ég því sérstaklega að til standi að gera hér bragarbót. Ég er ekki bara að hugsa um að við fáum fram upplýsingar til þess að nota núna, heldur er ég að hugsa til framtíðar. Ég vil ekki að þingmenn þurfi aftur að lenda í því einhvern tímann seinna á Íslandi að hafa ekki nauðsynlegar upplýsingar í höndunum þegar á þarf að halda.

Ég fagna þessu því sérstaklega og vona að við náum að koma málinu vel og örugglega í gegnum þingið. Það er mjög mikilvægt upp á framtíðina að gera.

Mig langar líka aðeins að minnast á lið nr. 9, um stimpilgjöldin. Stimpilgjöldin voru einmitt mjög til umræðu á síðasta kjörtímabili. Hér stendur til að flýta vinnu um þau, skipuð hefur verið nefnd og starfshópur til að fara yfir það hvernig hægt er að afnema þau eða breyta þeim umtalsvert. Ég fagna því að þeirri vinnu verði hraðað og hér er lagt til að leggja fram frumvarp um þetta í þinginu strax í haust. Þetta er mikilvægt fyrir þá sem eru að fjárfesta í íbúð og kemur til með að hvetja og aðstoða fólk við að fjárfesta í eigin fasteign.

Flestar aðrar tillögur hafa orðið tilefni til skoðanaskipta hér í dag, en mig langaði til að minnast sérstaklega á þessar sem ég hef nefnt hér þar sem þær voru ekki ræddar. Ég vona svo sannarlega, herra forseti, að okkur beri gæfa til að vinna hratt og vel en örugglega og í samvinnu allra sem þurfa að koma að þessum stóru úrlausnarmálum, vegna þess að við vitum öll hér inni að vandi heimilanna var stærsta málið í aðdraganda kosninga.

Ég verð að segja að fram hafa komið tiltölulega misvísandi yfirlýsingar í þessum stól um hvað menn vilji gera, í fyrsta lagi hvort menn vilji bara hreint og beint að kosningaloforð einstakra tiltekinna stjórnmálaflokka verði lögð fram í frumvarpsformi strax á fyrstu dögum þingsins og reynt að keyra þau þannig í gegn eða í annan stað að við setjumst saman yfir verkefnið og reynum að finna réttu lausnina. Ég tel í ljósi reynslunnar á síðasta kjörtímabili að síðarnefnda leiðin sé betri. Auðvitað kemur hugmyndin og áherslan frá ríkisstjórnarflokkunum, en við ætlum okkur að vinna þetta saman. Það er besta leiðin. Ég tel að almenningur í landinu og allir þeir sem á okkur hlusta trúi og treysti því að við ætlum okkur að vinna þannig. Ég vona það svo sannarlega.

Síðan langar mig að hvetja fólk til að vera svolítið jákvætt. Það er allt í lagi að vera hreinskilinn og gagnrýninn og allt það, en eigum við ekki að einsetja okkur að vera svolítið jákvæð og trúa því að við getum og ætlum að gera góða hluti og taka á þessu stóra verkefni? Ég trúi því. Ég trúi á okkur öll hér og að við getum ráðið við þetta verkefni. Ég hvet okkur öll, sama hvar í flokki við erum, til að vinna af fullum krafti að því að leysa það stóra verkefni sem okkur hefur verið trúað fyrir.



[15:49]
Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Björt framtíð mun ekki standa í vegi fyrir því að þessi þingsályktunartillaga muni ná fram að ganga. Mér finnst sjálfsagt að skoða allar leiðir núna sem miða að því að rétta hlut heimilanna. Ég upplifi þetta kannski fyrst og fremst sem áframhaldandi vinnu. Það er náttúrlega ekki rétt að ekkert hafi verið gert. Það hefur heilmargt verið gert, en það þarf að gera betur.

Ég ætla ekki að telja upp alla þessa punkta, margt þarna er ágætt. Mér finnst t.d. mjög mikilvægt að vera með einhverja tímabundna aðgerð til að gera fólki kleift að losna úr yfirskuldsettum fasteignum. Það er ekki þannig að greiðsluaðlögun bjargi öllum, vegna þess að til þess að komast í greiðsluaðlögun þarf að uppfylla ákveðin skilyrði.

Ég set auðvitað spurningarmerki við það að banna verðtryggingu eða afnema verðtryggingu. Það verður fróðlegt að sjá hvað kemur úr þeim sérfræðingahópi. Í upphafi ætlaði ég að vera gagnrýnin á að stofna ætti enn einn hópinn, en þetta er mjög flókið mál og mikilvægt að það sé skoðað vel.

Ég er sammála því að verðtryggingin sé ekki góð. Hún er kannski bara til komin vegna verðbólgu í þjóðfélaginu. Ég velti fyrir mér hvort það sé mögulegt að afnema bara verðtryggingu á lánum en ekki af sparnaði um leið. Hvað verður um fermingarsparnað dóttur minnar, svo dæmi sé tekið?

Stimpilgjaldið hefur verið nefnt hér og það er mjög mikilvægt að afnema það þó ekki væri nema til að auka hreyfanleika á markaði, auka samkeppnina, gera neytendum kleift að skipta um banka. Þetta er mál sem ég veit að hagsmunasamtök neytenda hafa barist fyrir árum saman, ef ekki í áratugi. En það er með þetta eins og margt annað að það þurfti allsherjarhrun til að málefni heimilanna færu almennilega upp á borð.

Við tökum bara undir þetta og munum að öllum líkindum samþykkja þessa þingsályktunartillögu. Það er rétt að fara vel yfir þetta og ana ekki að neinu. Það sem mér finnst kannski flóknast í þessu fyrir utan verðtrygginguna er skuldaleiðréttingin og hvernig á að fara í hana með sanngjörnum hætti, það er mjög snúið mál, t.d. hvort við ætlum að nýta sameiginlegt skattfé og hvort því sé best varið með þessu móti. En ég ætla ekki að gagnrýna það núna. Við skulum bara ræða það þegar tillögurnar og frumvörpin liggja fyrir.



[15:52]
Elsa Lára Arnardóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir góðar móttökur sem ég hef fengið hér á nýjum vinnustað og ég vona að þetta kjörtímabil verði okkur öllum gott og við í sameiningu, óháð flokkum, getum unnið vel saman því þannig náum við bestum árangri.

Nú hefur verið lögð fram þingsályktunartillaga sem fjallar um að Alþingi feli ríkisstjórninni að fylgja eftir aðgerðaáætlunum í tíu liðum til að taka á skuldavanda heimilanna. Ég fagna mjög þessari tillögu því hún tekur á mörgum mikilvægum málum sem koma að því ferli að leiðrétta þann forsendubrest sem íslensk heimili urðu fyrir við efnahagshrunið haustið 2008.

Undanfarin ár hafa verið heimilunum mjög erfið. Verðtryggð íbúðalán heimilanna hafa stökkbreyst þannig að þeir sem áttu talsverðan hluta í eignum sínum hafa glatað þeim hluta. Það er ekkert sanngjarnt við það. Ýmsir hafa haldið því fram að þeir sem séu í greiðsluerfiðleikum vegna íbúðalána séu hópur fólks sem fór óvarlega í kaupum á eignum. Það er ekkert hægt að alhæfa um það vegna þess að núna erum við að horfa upp á stóran hóp fólks sem lagði talsvert eigið fé í húsnæði og eignir. Þeir einstaklingar og þær fjölskyldur, fjölskyldurnar í landinu okkar, hafa glatað þeim eignarhluta og meira til. Sparnaður fólks er horfinn og það er ekkert sanngjarnt við það. Við þessu ástandi þarf að bregðast. Heimilin í landinu þurfa á því að halda.

Það eru margir búnir að fá nóg. Margt af þessu fólki mundi gjarnan vilja minnka við sig húsnæði en hefur ekki möguleika á því. Það hefur ekki möguleika á því af því að lánin á húsnæði þess eru orðin talsvert hærri en markaðsvirði eignarinnar. Þessir einstaklingar hafa ekki efni á því að selja eignirnar og taka á sig eftirstöðvar skulda. Það er bara ekki hægt. Þeir eru fastir í eignum sínum og það gengur ekki upp. Það er ekkert sanngjarnt við það. Alls ekki neitt. Þess vegna er mjög ánægjulegt að sjá 3. lið aðgerðaáætlunarinnar sem fjallar um hvernig gera megi eigendum yfirskuldsettra íbúða kleift að losna án gjaldþrots undan eftirstöðvum sem veðið sjálft stendur ekki undir.

Við framsóknarmenn og -konur höfum beðið lengi eftir þessum degi. Við höfum lagt fram margar tillögur á liðnu kjörtímabili, m.a. um 20% leiðina sem var lögð fram árið 2009, þjóðarsátt árið 2010 og plan B árið 2011. Loksins er komið að framgöngu mála með heimilin í forgrunni.

Þess vegna fagna ég því að sjá þessa aðgerðaáætlun lagða fram. Ég hef fulla trú á því að sú vinna sem fram fer í kringum hana muni skila sér í bættum hag fyrir heimilin í landinu.

Fyrsti liður aðgerðaáætlunarinnar fjallar um að settur verði á stofn hópur sem útfæri mismunandi leiðir til að ná fram höfuðstólslækkun verðtryggðra húsnæðislána og geri tillögur þar að lútandi. Það er ekkert nema gott um það að segja að skoðaðar séu mismunandi leiðir að því hvernig fara eigi að því að lækka höfuðstólinn og hvaða leið komi íslenskum heimilum best.

Ég get ekki sagt annað en að ég sé mjög ánægð með aðgerðaáætlunina í heild sinni. Hún tekur á mörgum þáttum sem munu hafa jákvæð áhrif á stöðu íslenskra heimila.

Ég geri mér grein fyrir því að þessi vinna mun taka tíma. Ég skil vel að þeir einstaklingar og þau heimili sem bíða eftir niðurstöðu mála séu óþolinmóðir. En við í Framsóknarflokknum viljum vinna málið vel og tryggja réttmæti þeirra aðgerða sem við ætlum að fara í.

Það hefur komið fram á ýmsum stöðum og ýmsir fjallað um það að u.þ.b. 50% heimila í landinu séu tæknilega gjaldþrota. Það gengur ekki upp. Sú staða hefur neikvæð áhrif á efnahagskerfið og við því þarf að bregðast. Það er gert með því að hrinda þessari aðgerðaáætlun í framkvæmd.

Það er mjög ánægjulegt að sjá áherslumál okkar framsóknarmanna komin fram í þessari áætlun. Ég trúi ekki öðru en að allir þingmenn óháð flokkum geti verið sammála um að koma tillögunni í gegn svo hægt sé að vinna að málefnum heimilanna.

Mig langar í lokin að vitna í Vilhjálm Birgisson, verkalýðsleiðtoga á Akranesi, með leyfi forseta, en hann skrifaði bloggfærslu sem ber titilinn „Ég á mér drauma“:

„Ég vil að sá miskunnarlausi forsendubrestur sem heimilin urðu fyrir og bera ekki nokkra ábyrgð á verði leiðréttur. En ég vil taka fram að heimili og alþýða þessa lands eru ekki að biðja um neina ölmusu heldur sanngjarna og réttláta leiðréttingu á þeim skelfilega forsendubresti sem reið yfir íslensk heimili.“

Þarna erum við Villi algjörlega sammála. Ég mun beita mér fyrir þessu máli í þingstörfum mínum.



[15:58]
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Eftir kosningarnar 2007 blésu núverandi stjórnarflokkar í eitthvert mesta bóluhagkerfi sem hagsaga vesturlanda hefur að geyma. Eignaverð hækkaði stórlega, ekki síst íbúðaverð. — Herra forseti, það er dálítill kliður hérna úr hliðarherbergjum, ef fólk gæti hamið sig.

Eignaverð hækkaði stórlega, ekki síst íbúðaverð, og skuldir einstaklinga hækkuðu ár frá ári. Þegar bólan síðan sprakk blasti við gríðarlegur skuldavandi. Síðasta ríkisstjórn lagði mesta áherslu á að hjálpa fólki í greiðsluvanda auk almennra aðgerða á borð við hækkaðar vaxtabætur og hina svokölluðu 110%-leið.

Núverandi ríkisstjórn nálgast vandann með öðrum hætti. Ráðast á í almenna leiðréttingu verðtryggðra húsnæðisskulda vegna forsendubrests, sem er annað orð yfir verðbólgubálið sem gengishrun íslensku krónunnar á árinu 2008 skapaði. Frá hruni hefur krafa um leiðréttingu af þessu tagi verið hávær sem eðlilegt er. Vandinn hefur alltaf verið sá gríðarlegi kostnaður sem fylgir leiðréttingu af þessu tagi. Í svari við fyrirspurn minni til skriflegs svars árið 2010 taldi efnahags- og viðskiptaráðherra að kostnaðurinn yrði um 230 milljarðar við 20% niðurfærslu. Þetta var á árinu 2010. Óhugsandi er að ríkissjóður geti staðið undir auknum skuldum af þessari stærðargráðu. Í kosningabaráttunni taldi Framsóknarflokkurinn lítið mál að nálgast þetta fé og jafnvel gott betur. Sumir frambjóðendur flokksins lofuðu jafnvel leiðréttingu strax í sumar.

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar eru tvær leiðir um leiðréttingu boðaðar. Leið A sækir fjármuni til kröfuhafa gömlu bankanna, sem Framsóknarflokkurinn kallaði í sinni kosningabaráttu hrægammasjóði, en í leið B, sem er sótt í smiðju hægri grænna, er talað um sérstakan leiðréttingarsjóð húsnæðisskulda. Skilja má stefnuyfirlýsingu stjórnarflokkanna og þá þingsályktunartillögu sem hér er til umræðu á þann veg að þessar leiðir séu út af fyrir sig jafn góðar til að ná settu markmiði, en ríkisstjórnin vilji einungis fara leið B ef leið A dregst á langinn. Þetta þarf augljóslega að fá nánari umfjöllun í meðferð þingsins.

Í fyrsta lagi má spyrja: Ef leið B, leiðréttingarsjóðurinn frá hægri grænum, er jafn góð leið til að ná settu marki, hvers vegna er stefnan ekki sett á þá leið frá upphafi? Samkvæmt þingsályktunartillögu hæstv. forsætisráðherra á leið B að vera tilbúin í nóvember.

Í öðru lagi má spyrja um tímann sem ríkisstjórnin telur ásættanlegan til að fara leið A. Er ekki augljóst mál að það tekur mun lengri tíma að fara þá leið? Hvað er eðlilegt að bíða lengi eftir samningum við kröfuhafa? Og þá skal tekið fram að það hlýtur að vera hægt að fara leið B og nota síðan fjármunina sem fást í samningum við kröfuhafa, og menn telja sig fullvissa um að geta náð í og hafa margoft lýst því yfir, til þess að greiða síðan inn í leiðréttingarsjóðinn þegar þeir fjármunir fást.

Í kosningabaráttunni töluðu framsóknarmenn um að heimilin í landinu væru í umsátri skulda sem létta þyrfti af þeim. Án þess að ég vilji hvetja til óðagots er mikilvægt að hraða þeim aðgerðum eins og mögulegt er. Löng bið skapar óvissu um kjör fólks og getur haft slæm áhrif á fasteignamarkaðinn og lánamarkaðinn og því miður er áhrifanna nú þegar farið að gæta. Það gerir fólki erfiðara að selja eignir og jafnframt að kaupa. Mér virðist sem hæstv. forsætisráðherra vanmeti þá óvissu sem bið eftir aðgerðum ríkisstjórnarinnar hefur óhjákvæmilega í för með sér.

Það vekur hins vegar athygli að báðar leiðirnar til leiðréttingar voru lítt útfærðar í aðdraganda kosninganna og eru enn þá óljósar. Hæstv. forsætisráðherra hefur ekki enn útskýrt fyrir þjóðinni hvernig flytja má stórfé frá kröfuhöfum til skuldara eða stofna leiðréttingarsjóð íbúðalána án þess að það hafi áhrif á peningamagn í umferð og þar með verðbólgu og endi þá með því að hækka enn frekar verðtryggðu skuldirnar okkar.

Þegar litið er yfir tillögur hæstv. forsætisráðherra mætti ráða að verðtrygging lána sé helsti sökudólgurinn að þeim vanda sem við er að etja. Orsaka vandans er þó að leita víðar. Of mikil skuldsetning, eignabóla og síðar hrun krónunnar eru meginorsakir þess vanda sem við er að etja. Á Bretlandseyjum er engin verðtrygging en þar má ætla að allt að 600 þús. heimili búi við neikvætt eigið fé. Í Bandaríkjunum eru um 25% allra húsnæðislána hærri en verðmæti þeirra fasteigna sem þau hvíla á. Þetta eru sláandi tölur sex árum eftir að húsnæðisblaðran í Bandaríkjunum sprakk.

Einfaldasta og besta leiðin til að losna við verðtrygginguna er að ganga í Evrópusambandið og taka upp evru. Í kjölfarið fylgir stöðugur gjaldmiðill og minni fjármagnskostnaður fyrir heimilin í landinu. Afnám verðtryggingar mun ein og sér ekki vernda heimilin fyrir fjárhagslegum skakkaföllum vegna gengisfellinga og verðbólgu.

Samfylkingin vill vinna að afnámi verðtryggingar. Okkar stefna er sú að besta og ábyrgasta leiðin til að afnema verðtryggingu sé að gera það í samhengi við aðild að ESB og upptöku evru. En stefnubreyting nýrrar ríkisstjórnar um aðildarviðræður við Evrópusambandið veldur því að leið Samfylkingarinnar til afnáms verðtryggingar er augljóslega ekki fær næstu árin og nauðsynlegt er að leita annarra leiða.

Framsóknarflokkurinn lofaði afdráttarlaust fyrir síðustu kosningar að verðtrygging yrði afnumin með öllu. Þessu lofaði Framsóknarflokkurinn með auglýsingum og pósti inn á hvert heimili. Í tillögum hæstv. forsætisráðherra segir, með leyfi forseta, að markmiðið sé „að hvetja lántakendur til að umbreyta lánum sínum í óverðtryggð lán gegn leiðréttingu á höfuðstól“.

Það er því ljóst að staða verðtryggingarinnar á lánamarkaði er í uppnámi og mikilvægt að bregðast við af festu. Þrátt fyrir þessa stöðu er óvíst með öllu hvenær ríkisstjórnin hyggst leggja fram lagafrumvarp um bann við verðtryggingu neytendalána. Gert er ráð fyrir sérstakri nefnd sérfræðinga til að kanna þetta mál og dunda sér við það fram að áramótum.

Þetta er einni nefndinni of mikið, herra forseti, og þetta er of langur tími til undirbúnings. Hvað hefur Framsóknarflokkurinn verið að gera síðustu missirin? Var þetta ekki mikilvægasta kosningamálið hans? Það er ekkert flókið við það að banna verðtryggð neytendalán og ófært með öllu að draga það fram á næsta ár. Slíkt veldur óvissu á fjármálamarkaði og getur haft áhrif á fasteignamarkað. Það er að mínu viti ekki forsvaranlegt að heimila ný verðtryggð lán á sama tíma og leitað er allra leiða til að koma verðtryggðum lánum yfir í óverðtryggð. Því miður hljómar þessi nefndarskipun hæstv. forsætisráðherra sem fyrsta skrefið í leið Framsóknarflokksins til að svíkja eða útvatna sitt stærsta loforð. Það er ekkert erfitt að banna verðtryggingu, það þarf enga nefnd til að vinna að því mánuðum saman. En það er erfitt að halda vaxtastiginu lágu og vissulega tilefni til að skipa nefnd sérfræðinga um það mál.

Það skyldi þó ekki vera, virðulegur forseti, að ótti hæstv. forsætisráðherra við vaxtastigið í landinu sé hin raunverulega ástæða fyrir því að verðtrygging er ekki bönnuð nú þegar. Ef ríkisstjórnin væri í raun áhugasöm að koma til móts við heimilin og eyða óvissu á lánamarkaði mundi hún banna verðtryggingu strax. Það er mjög einfalt að útbúa frumvarp þess efnis og samþykkja strax á sumarþingi ef flokkurinn vill í raun og veru efna þetta kosningaloforð sitt. En af hverju … (Forseti hringir.) Herra forseti. Ég skrái mig þá aftur á mælendaskrá.



[16:09]
Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mig langaði einfaldlega að spyrja hv. þm. Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur þeirrar spurningar hvort hún sé fylgjandi valfrelsi í lánamálum þannig að verðtrygging verði ekki hin almenna regla en engu að síður, kjósi einstaklingar að taka verðtryggð lán en ekki óverðtryggð lán, sé þeim það heimilt.



[16:09]
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Já, það er auðvelt að svara því. Ég fór yfir það í ræðu minni að leið Samfylkingarinnar til að afnema verðtryggingu væri upptaka gjaldmiðils sem tryggði efnahagslegan stöðugleika sem ógnaði ekki fjárhag heimila. En við erum í þessum sal að ræða tillögur ríkisstjórnar þar sem leiðandi flokkurinn, Framsóknarflokkur, hefur lofað fólki því að verðtrygging verði afnumin.

Við erum því miður ekki að ræða þá leið sem síðasta ríkisstjórn markaði, sem var skynsamleg og ábyrg leið til að komast út úr óstöðugleikanum, heldur tillögur núverandi ríkisstjórnar sem hv. þingmaður styður að því er ég trúi. Það virðist vera mikið misræmi á milli stjórnarflokkanna í afstöðu þeirra til verðtryggingar. Er þá ekkert að marka það sem stendur í stjórnarsáttmálanum um að afnema eigi verðtryggingu? Er ekkert að marka kosningaloforð flokks hæstv. forsætisráðherra sem sagðist ætla að afnema verðtryggingu? Það er mjög alvarlegt í lýðræðisþjóðfélagi að komast til valda og hlaupa strax frá stærsta kosningaloforði sínu.



[16:11]
Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég spurði þingmanninn einfaldrar spurningar. Ég spurði þingmanninn hvort hún væri hlynnt valfrelsi í lánamálum, að einstaklingar á Íslandi hefðu það val að geta tekið verðtryggð lán og/eða óverðtryggð lán. Ekki hvort við ættum að skipta um gjaldmiðil vegna þess að við erum ekki að fara að gera það í náinni framtíð, þó að við getum tekið þá umræðu síðar, báðar tvær. Ég spurði þingmanninn bara einfaldrar spurningar: Er hún hlynnt því að það sé valfrelsi í lánamálum þannig að fólk geti tekið verðtryggt lán, óski það þess, eða óverðtryggð lán?

Ég ætla ekki að blanda mér í það hver eru kosningaloforð annarra flokka en flokksins míns. En ég spyr þingmanninn þessara einföldu spurningar og bið hann um svar við því. Svarið að best sé að taka upp annan gjaldmiðil, á ekki við. Þetta er einföld spurning: Er þingmaðurinn hlynnt valfrelsi hvað óverðtryggð lán og verðtryggð lán varðar, að það sé neytenda að velja?



[16:13]
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er ekki nema von að þingmaðurinn spyrji. Og valfrelsi — hún brigslar mér um að það sé kjánaskapur að benda á að ég vilji taka upp nýjan gjaldmiðil. (Gripið fram í.) Eru verðtryggð lán tíðkuð til neytenda almennt í þeim ríkjum þar sem er alvörugjaldmiðill?

Valfrelsi lýtur að því, þetta snýst ekki um val um verðtryggingu eða ekki verðtryggingu. Þetta lýtur að því … (Gripið fram í.) Já, spurningin er miklu dýpri og flóknari en svo. Spurningin lýtur að því hvort fólk vilji búa í landi þar sem það býr við efnahagslegan stöðugleika, þar sem það getur gert áætlanir fram í tímann.

Hv. þingmaður, herra forseti, hefur valið að styðja ríkisstjórn sem býður ekki upp á slíkan valkost. Það væri nær að hv. þingmaður svaraði því hvað hún telji um það.



[16:14]
Páll Valur Björnsson (Bf):

Hæstv. forseti. Mig langar í tilefni þess að ég stend í pontu Alþingis í fyrsta skipti að óska hæstv. forsætisráðherra og ríkisstjórn hans innilega til hamingju og árna ég henni alls góðs í störfum hennar á komandi tímum. Eins óska ég öllum kjörnum þingmönnum til hamingju með kjörið og vænti ég mikils af samstarfi okkar allra á þingi. Ég vil einnig þakka þær hlýju móttökur sem ég hef fengið hér, bæði frá þingmönnum og ekki síst því frábæra starfsfólki sem starfar á Alþingi. Það er með mikilli tilhlökkun sem ég tek til starfa, tilhlökkun sem stafar af því góða viðmóti sem ég hef fengið frá öllum og fær mig til þess að trúa að hér sé gott að starfa. Ég fer ekki í neinar grafgötur með það að ég er einnig nokkuð kvíðinn og helgast sá kvíði einkum af því að þetta starf er í mínum augum gífurlega viðamikið og krefjandi. Sú sannfæring mín hefur verið staðfest á fyrstu dögum mínum sem þingmaður. Það er alveg ljóst að enginn verður óbarinn biskup í þessu starfi frekar en öðru.

Hæstv. forseti. Það frumvarp sem er lagt til grundvallar þessari umræðu er góðra gjalda vert. Það er gleðilegt að komin sé fram aðgerðaáætlun um hvernig koma á til móts við skuldavanda heimilanna. Hún hefur vakið upp umræður og spurningar sem mörgum finnst ósvarað og kom hv. þm. og formaður Bjartrar framtíðar, Guðmundur Steingrímsson, inn á þær í andsvari í dag. Ég ætla ekkert að fara meira yfir þær en tel víst að svör fáist við þeim spurningum í þeirri umræðu sem fer fram hér og svo á seinni stigum umræðna um málið.

Hæstv. forseti. Það hefur komið fram hjá öllum stjórnmálaflokkum og hæstv. forsætisráðherra nefndi það margoft í stefnuræðu sinni að allir flokkar muni greiða götu stjórnarinnar í að ná tökum á skuldavandanum. Það er einnig svo hjá okkur í Bjartri framtíð. Ég get heitið því að ég mun leggja mig allan fram við að farsælar niðurstöður fáist í þeim mikla vanda.

Hér tala menn mikið um stjórn og stjórnarandstöðu. Mér hugnast það tal ekkert vel þar sem ég lít ekki á mig sem sérstakan andstæðing þessarar stjórnar, en ég viðurkenni fúslega að ég er ekkert sérstaklega mikill aðdáandi hennar heldur. Meiri hluti og minni hluti er eitthvað sem mér hugnast betur þegar við erum að starfa á vettvangi eins og þessum.

Það hefur að mínum dómi gætt fullmikillar óþolinmæði hjá þingmönnum um aðgerðir stjórnarinnar. Ég tel að ekkert sé að því að gefa henni svolítinn tíma til þess að ná markmiðum sínum. Þessi forgangsröðun á málum hennar hefur reyndar komið mér spánskt fyrir sjónir og ég er viss um að margir kjósendur eru sammála því að þau mál sem fyrst hafa verið lögð fram á þinginu eru ekki þau mál sem menn reiknuðu með. Stjórnin verður líka að taka því að hún sé spurð sjálfsagðra spurninga og benda ekki alltaf á síðustu ríkisstjórn. Mér finnst svolítið hvimleitt að alltaf sé verið að benda á hana. Fyrstu dagarnir voru bara eins og var síðast, þetta var málþóf fannst mér og hundleiðinlegt. Það er alltaf verið að benda á annan. Það er þessi ríkisstjórn sem er núna við völd og hún verður að svara spurningunum. Hún á ekkert að skammast sín fyrir það þótt ekki sé allt klappað og klárt. Hún á að viðurkenna það undanbragðalaust og halda áfram.

Hæstv. forseti. Það sem ég hef og mun hafa að leiðarljósi í mínum störfum sem þingmaður er almannaheill, en um það snúast stjórnmálin og ekkert annað. Starfslýsing stjórnmálamannsins er einfaldlega farsæld þjóðar. Við öll sem erum kosin inn á hið háa Alþingi skuldum þjóðinni að standa saman.

Það er þyngra en tárum taki að hlusta á umræðuna úti í þjóðfélaginu um stjórnmálamenn og ekki síst þá sem starfa sem þingmenn. Það er okkar að breyta því viðhorfi og það gerum við með því að sýna hvert öðru auðmýkt, virðingu og umburðarlyndi. Þannig aukum við traust sem er frumskilyrði mannlegra samskipta. Traustið heldur samfélagi manna saman og um leið og það dvínar fer að halla undan fæti. Það höfum við séð hér á þessu landi.

Hæstv. forseti. Það er einlæg von mín að við sem komum til með að starfa á komandi missirum berum gæfu til þess að efla samstarfsandann og breyta stjórnmálamenningunni sem var dæmd ónýt í hinni góðu rannsóknarskýrslu Alþingis, sem allt of margir virðast hreinlega hafa gleymt.

Það eina sem við þurfum er vilji því að eins og hinn mikli meistari Muhammad Ali sagði, með leyfi forseta:

„Meistarar verða ekki til í leikfimisalnum. Meistarar verða til úr því sem býr dýpst í þeim sjálfum, ástríðum, draumi og hugsjón. Þeir þurfa bæði að hafa leikni og vilja, en viljinn verður að vera sterkari en leiknin.“

Hæstv. forseti. Ég vil að lokum segja aftur og beina orðum mínum til okkar allra að við skuldum almenningi í landinu að starfa saman af heilindum. Ef við gerum það og breytum hugarfari, viðhorfum og samskiptum, er ég þess fullviss að við tryggjum okkur sjálfum og ekki síst börnum okkar, barnabörnum og öllum þeim ófæddu einstaklingum sem eiga eftir að búa á þessu stórkostlega landi bjarta framtíð.

Við hæstv. forsætisráðherra og ríkisstjórn hans vil ég segja: Takið orð míns fallega samstarfsmanns og hv. þingmanns, Óttars Proppés, til eftirbreytni og vinnið að hætti íkornans sem er lúsiðinn og útsjónarsamur, en ekki að hætti bjarnarins sem æðir áfram og engu eirir. Ekki síst í ljósi þess að þeir birnir sem á fjörur okkar Íslendinga skolar, blessaðir ísbirnirnir, eru undantekningarlaust aflífaðir.



[16:20]
Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér tillögu til þingsályktunar um aðgerðir vegna skuldavanda heimila á Íslandi, mál sem við höfum beðið eftir með mikilli eftirvæntingu. Í upphafi langar mig að nota þetta tækifæri til að óska enn og aftur ríkisstjórninni velgengni og velfarnaðar í störfum sínum, en hún var einmitt kosin til þess að vinna að þessum málum sérstaklega og við höfum boðist til og lýst því yfir að við munum reyna að vinna að framgangi þeirra mála eftir því sem við mögulega getum.

Það felur ekki í sér að við ræðum ekki málin, veitum aðhald, setjum fram gagnrýni, spyrjum spurninga og leitum skýringa, m.a. á því sem sagt var í kosningabaráttunni — og ég ætla að játa það hreinskilnislega að ég dáðist að Framsóknarflokknum fyrir það, ég var sjálfur farinn að trúa því rétt fyrir kosningar að Framsóknarflokkurinn hefði útfærðar tillögur. Ég trúði því einlæglega að ég fengi hér á sumarþinginu útfærðar tillögur í skuldamálum heimilanna. En svo koma menn hingað og tala þannig til okkar hinna, sem hér höfum verið undanfarin ár, eins og ekkert hafi verið gert.

Hér hefur ekkert verið gert. Við höfum ekki sinnt þessu máli neitt. Enginn hefur notið aðstoðar. Þetta segir hæstv. forsætisráðherra í upphafi þings, í umræðu um skuldavanda heimilanna, um leið og hann leggur fram þingsályktunartillögu þar sem hann ákveður að setja mál í ákveðinn farveg. Hann býður okkur enn fremur upp á að þetta verði þingsályktunartillaga sem þýðir að umræðutíminn í þinginu er takmarkaður. Það þýðir að ég fæ að tala hér í 10 mínútur og síðan 5 mínútur og þá búið. Þá er aðkomu minni að málinu lokið. Hvergi í þessum tillögum kemur fram að þingið eigi að fara að fjalla um þetta nema þegar inn koma sérstök mál eins og þegar eru komin inn í einhverjum tilfellum, og það er hið besta mál. En hvar er aðkoma okkar að því að vinna þetta plagg þannig að spurningarnar sem fara út svari væntingum okkar og þeirra í samfélaginu, sem eru þrátt fyrir allt 49%, sem kusu ekki þá ríkisstjórn sem hér er.

Þetta hefur valdið mér vonbrigðum og undrun. Það hefur líka valdið vonbrigðum að hlusta á það þegar menn koma hingað og segja: Nú er öllum ljóst að 20% niðurfærsla eftir hrun var fær leið. Ég stóð í því að reyna að finna þá leið verandi í félags- og tryggingamálanefnd á þeim tíma og seinna sem ráðherra. Ég gat aldrei fundið svar við því hvernig við ætluðum að færa niður skuldir Íbúðalánasjóðs, sem eru upp á 700 milljarða, um 20% á sama tíma og við vorum í vandræðum með að reka samfélag okkar og ná endum saman í ríkisbúskapnum. Það svar hef ég ekki enn fengið. Það voru rökin gegn því að sú leið væri farin.

Síðan kemur þessi hugmynd um að nýta peningana frá svokölluðum þrotabúum. Fín hugmynd, kom fram í sameiginlegri nefnd sem var skipuð til að fjalla um afnám gjaldeyrishafta, útfærð af Framsóknarflokknum. Þegar við vorum að bera upp á þá að við vildum fá betri skýringar var sagt: Þetta liggur allt fyrir. Hér liggur fyrir að þessar 10 tillögur skiptast í tvennt samkvæmt því sem sjálf tillagan segir, annars vegar beinar aðgerðir, hins vegar athuganir, að leita leiða, greina leiðir og kanna hvaða möguleikar eru.

Hvernig eru svo þessar 10 tillögur? Megintillagan er höfuðstólslækkun sem allir hafa viljað sjá, a.m.k. eru menn farnir að trúa því að það sé fær leið og muni verða. Hún er í athugunarflokknum, hana á að skoða. Það er meira að segja sett plan B og C. Þá fer maður allt í einu að efast: Bíddu, var þetta ekki meira tilbúið en þetta?

Í því felst ekki gagnrýni á að reyna eigi að fara þessa leið. Það er bara verið að kalla eftir efndunum. Það kann að vera ásættanlegt að þetta komi til eftir að fjárlög hafa verið samþykkt, því að þetta kemur inn sem tillögur til frekari skoðunar í nóvember — þá voru fjárlög í 3. umr. fyrir næsta ár.

Nú ætla ég að vona að það standist, sem sagt var í upphafi, að þetta væri hægt að gera án þess að það kæmi neitt við ríkissjóð, að hægt væri að afla peninganna einhvers staðar annars staðar. Við erum að tala um 200 milljarða, 200 til 300 milljarða, eftir því hvernig við reiknum þetta, eftir því hvort menn trúa þeim tölum sem nefndar hafa verið. Það fer eftir útfærslum líka. Það er heldur ekki útfært hér í smáatriðum.

Á sama tíma fáum við framan í okkur að við höfum verið með óráðsíu þar sem stefnir í að ríkissjóður, upp á 580 milljarða, fari fram úr um 4 til 6 milljarða, innan við eitt prósent. Þá erum við að tala um að standa við skuldbindingar sem við höfum bætt við eins og gjaldfrjálsar tannlækningar, að stíga fyrsta skrefið í því á þessu ári.

Á sama tíma fáum við inn tvö frumvörp sem munu rýra tekjur ríkissjóðs um nokkra milljarða, annars vegar um veiðileyfagjaldið og hins vegar um að afnema hærra gjald á ferðaþjónustuna, fara aftur til fyrra horfs í þeim efnum. Þá afsala menn sér tekjum upp á hálfan milljarð.

Er von að við spyrjum? Hvert eru menn að stefna? Hvað stendur til? Hvað á að fara að gera?

Ég sagði að fyrsta mál ætti að fara í athugun. Mál nr. 2 leiðréttingarsjóður, hann á að fara í athugun. Lyklafrumvarpið á að fara í athugun, en að vísu á að koma fram með frumvarp í september, svo að við gætum sanngirni. Framtíðarskipan húsnæðismála, það á að vinna áfram. Þar er búið að vinna gríðarlega mikla vinnu og verður mjög jákvætt að halda áfram þar. Þar er líka gríðarlega stórt álitamál sem er hlutverk Íbúðalánasjóðs, hvernig við fjármögnum hann til langs tíma. Þar mun koma í umræðuna uppgjör á því eða skýrsla um hvað gerðist með Íbúðalánasjóð. Hvernig stendur á því að hann stendur svona illa eftir þann tíma sem hann hefur verið rekinn og þær ákvarðanir sem teknar voru í kringum 2004 af þeim flokkum sem þá voru í stjórn?

Við erum síðan með punkt nr. 5 sem er flýtimeðferð sem er komin í frumvarpsformi. Þar spyrjum við: Hvernig mun það nýtast því fólki sem er í skuldavanda? Sú spurning er auðvitað þegar komin upp í nefndinni.

Síðan er það verðtryggingin, hvort banna eigi hana eður ei. Það var forvitnilegt að hlusta á forsætisráðherra, en hv. þm. Helgi Hjörvar túlkaði svar forsætisráðherra á þann veg að það væri tvöfalt já, þ.e. að afnema ætti og banna verðtryggingu og fara í beinar niðurfærslur. Forsætisráðherra gat ekki staðfest það. Hann sagði: Þingmaðurinn túlkar þetta svo. Það er gott að menn túlka okkar skoðun. Hann gat ekki sagt afdráttarlaust að þetta væri aðferðin. Er von að við spyrjum, a.m.k. fyrir hönd þeirra 49% sem ekki kusu þessa tvo flokka.

Auðvitað viljum við líka ræða, þegar menn eru að tala um afnám verðtryggingar, hvernig menn ætla að tryggja greiðslubyrðina, að hún verði ekki of há í byrjun. Það kemur fram hér í tillögunum að hægt sé að leysa það með því að taka hluta af greiðslu höfuðstóls og færa aftur fyrir, sem er bara svipuð aðferð og nú er notuð í verðtryggingunni. Þetta er aðferð sem er notuð víða erlendis. Eru menn að tala um það?

Hvenær og hvar eigum við að fá tækifæri til að ræða þetta sem minni hluti í þingsal? Hvenær eigum við að ræða þetta? Við erum ekki með aðila í nefndinni. Tíminn er takmarkaður hér. Hvar er sáttin og samráðið í kringum þetta? Hæstv. forsætisráðherra verður að sætta sig við að við spyrjum svona spurninga. Það er fullt af góðum hugmyndum hérna, fullt af góðum málum. Það er fullt af mikilvægum málum sem þarf að fjalla um. Það er fullt af málum sem við viljum taka þátt í að vinna áfram, afnám stimpilgjalda, bætt upplýsingagjöf.

Það er aðdáunarvert að hér er lögð fram mjög ítarleg og góð tillaga um að Hagstofu Íslands verði gert kleift að afla upplýsinga um skuldir fólks, safna þeim á einn stað. Þetta var gert einu sinni af Seðlabankanum. Síðan varð að henda þeim gögnum, vegna laga um persónuvernd mátti ekki halda þeim. Nú er verið að reyna að búa til lagaumhverfi þar sem þetta er hægt. Ég styð það heils hugar. En á sama tíma er ekki hægt að setja lög um að fá sambærilegar upplýsingar um útgerðarfyrirtæki og skattamál þar til þess að leggja veiðileyfagjaldið á. Hvar er trúverðugleikinn í þessu öllu saman?

Af nógu er að taka í sambandi við þessa umræðu. Ég stend við það, sem ég hef sagt, að við erum hér til að vinna að framgangi þessara mála. Við virðum niðurstöðu kosninga. Við viljum að þessi mál vinnist áfram. En við viljum að unnið sé í þeirri sátt sem talað hefur verið um, að kallað sé eftir þeim hugmyndum og möguleikum sem eru til staðar, að ekki verði reynt að halda þessu frá þinginu með þeim aðferðum (Forseti hringir.) sem hingað til hafa þó verið notaðar. Og við viljum að hægt sé að treysta á að menn svari því sem spurt er um.



[16:30]
Silja Dögg Gunnarsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Fyrr í dag var sérstök umræða um hamfarir á Norðurlandi vegna kals í túnum. Mér heyrist menn almennt vera nokkuð sammála um alvarleika málsins og að ríkisstjórninni beri að bregðast við og koma til móts við bændur. Við erum fámenn þjóð og eigum að standa saman þegar út af bregður. Samhjálp og samvinna er greypt í þjóðarsálina og því megum við ekki glata. Eiginhagsmunir og pólitískt kapphlaup eiga ekki að ráða för þegar um heildarhagsmuni þjóðarinnar er að ræða.

Nú hefur hæstv. forsætisráðherra lagt fram tillögu að þingsályktun um aðgerðir vegna skuldavanda heimilanna. Aðgerðaáætlun er í tíu liðum og kemur inn á mörg málefni. Ástæða þess að forsætisráðherra felur ríkisstjórninni að fylgja eftir þessari aðgerðaáætlun er ekki — ég endurtek: ekki — til að uppfylla kosningaloforð Framsóknarflokksins eins og nokkrir hv. þingmenn hafa kosið að túlka þessa útfærslu. Mér þykja slíkar upphrópanir á frekar lágu plani. Málið snýst um heill þjóðarinnar. Það snýst um að leiðrétta stökkbreytta höfuðstóla verðtryggðra húsnæðislána og til að tryggja stöðugleika og gagnsæi á húsnæðismarkaði til lengri tíma.

Ég vil vekja sérstaka athygli á þremur liðum í aðgerðaáætluninni, í fyrsta lagi að skipuð verði verkefnisstjórn um framtíðarskipan húsnæðismála. Tillögur nefndar eiga að liggja fyrir í upphafi árs 2014. Annað er að fá sérfræðingahóp til að meta möguleika á því að leggja gjald á fjármálafyrirtæki vegna tafa á endurútreikningi lána. Tillögur eiga að liggja fyrir í ágúst 2013. Þriðja atriðið er að stimpilgjöld af lánsskjölum verði endurskoðuð og stefnt að afnámi stimpilgjalda vegna kaupa einstaklinga á húsnæði til eigin nota. Það frumvarp á að leggja fram á haustþingi 2013. Ég fagna þessum tillögum einlæglega og vona að þær nái fram að ganga.

Í dag er veruleikinn sá að þeir sem vilja koma sér upp þaki yfir höfuðið eiga oft á tíðum bara val á milli nokkurra slæmra kosta: Leigja á okurverði á óstöðugum leigumarkaði, taka verðtryggð lán fyrir húsnæðiskaupum á okurvöxtum eða óverðtryggð lán. Óverðtryggð lán eru valmöguleiki en eru á háum vöxtum og verðbólgan hefur einnig rokkað upp og niður alla tíð eins og nokkrir hv. þingmenn hafa bent á í dag þannig að þau eru ekki fýsileg. Hvað skal gjöra? Hlaupa á veggi í öngstrætum einsleits húsnæðis- og bankakerfis eða ryðja veginn? Ryðja veginn, segi ég. Almenningur er búinn að fá nóg, nóg af kyrrstöðu og vonleysi og nóg af þingmönnum sem virðast ekki vera að vinna fyrir fólkið í landinu, heldur vera uppteknir við að hlusta á sjálfa sig og koma höggi á andstæðinginn. En hver er andstæðingurinn? Andstæðingurinn erum við sjálf, þjóðin.

Ég var stödd í Vík í Mýrdal fyrr í vetur og gisti þar á hótelinu. Það er nú ekki í frásögur færandi nema ég þurfti að komast í tölvu um kvöldið og fékk að nota tölvuna í afgreiðslunni enda var langt liðið á kvöldið og flestir gestir gengnir til náða nema ég og byggingavinnuflokkur sem var að vinna við stækkun hótelsins. Ég heyrði á tal hópsins og þar var rætt um þjóðmálin vítt og breitt. Ungum byggingaverkamanni varð að orði, og með leyfi forseta, vitna ég í orð hans: Mér er eiginlega alveg sama hvernig kerfið er. — Þar átti hann við heilbrigðiskerfið. Hann bætti síðan við: Það þarf bara að virka.

Það er einmitt mergur málsins. Við erum þjóðkjörnir fulltrúar og við eigum að láta kerfið virka.

Nokkrir úr stjórnarandstöðunni fóru mikinn eftir stefnuræðu hæstv. forsætisráðherra fyrr í vikunni. Þá var minn fyrsti þingdagur. Ég verð að viðurkenna að það kom á mig hvað heiftin virtist vera mikil gegn stefnu forsætisráðherra. Sama fólk og hefur talað mikið um að sýna samvinnu og að eiga samtal við þjóðina, sem var ansi vinsælt orðatiltæki fyrir kosningar.

Ein fræg fyrirsögn eftir stefnuræðuna var: Nefndir og engar efndir. Voðalega finnst mér súrt að fólk ætli sér að fara af stað í fyrirliggjandi stórverkefni með þessu hugarfari. Ættum við ekki að leyfa fólki að vinna vinnuna sína og leggja fram fullmótaðar tillögur á haustþingi? Ég held að fólk hljóti að vera sammála um að við verðum að vanda til verka þegar um svo stór og viðamikil mál er að ræða. Því borgar sig ekki að kasta til höndum og vera með óþarfa ýtni og æsing. Það er engum til gagns eða upphefðar.

Ég tel mig tala fyrir munn margra þegar ég biðla til stjórnarandstöðunnar um að styðja þetta mál. Leiðirnar sem hægt er að fara eru margar, en einhvers staðar verðum við að byrja til að höggva á hnútinn og leysa þjóðina úr skuldaklafanum sem er að kæfa okkur hægt og bítandi.

Ísland er land tækifæranna. Við viljum öll það sama, öryggi og hamingju. Gröfum stríðsaxirnar. Verum góð hvert við annað. Byggjum Ísland upp að nýju og höldum saman af stað inn í framtíð velmegunar og framfara.



[16:36]
Karl Garðarsson (F):

Virðulegi forseti. Umræðan um skuldavanda heimilanna hefur verið í sérkennilegu fari hér á þinginu undanfarna daga. Það hefur legið fyrir frá upphafi að hinar stóru aðgerðir sem nauðsynlegt er að ráðast í vegna skuldamála heimilanna verða ekki afgreiddar á sumarþingi. Á þessu stutta þingi yrðu afgreidd mál sem hægt væri að hrinda í framkvæmd með einföldum hætti. Stærri málin þyrftu meiri undirbúning, samráð við marga hagsmunaaðila og síðast en ekki síst vandaða umræðu hér í þinginu — takið eftir: vandaða umræðu.

Krafan um vandaða umræðu hefur ekki síst komið frá stjórnarandstöðunni sem lagt hefur áherslu á að mál verði ekki keyrð í gegn á stuttu sumarþingi. Samt sem áður hefur þessi sama stjórnarandstaða krafist þess að sjá endanleg frumvörp um skuldaleiðréttingu strax í dag og helst í gær.

Ný ríkisstjórn hefur setið í nokkrar vikur og af hverju eru frumvörpin ekki tilbúin? heyrist hér aftur og aftur. Stjórnarandstaðan sem hafði ekki dug í sér til að taka af alvöru á málefnum heimilanna þau ár sem hún hélt um stjórnartaumana kemur hér upp hvítþvegin eftir kosningar og heimtar efndir strax og ekkert skortir á frasana: Engar efndir, bara nefndir, er sá nýjasti. Það er síðan borið á borð fyrir landsmenn eins og hver önnur sannindi.

Finnst þingmönnum þetta virkilega boðlegt? Halda þingmenn virkilega að landsmenn sjái ekki í gegnum svona orðræðu? Heldur stjórnarandstaðan virkilega að þetta leiði til aukinna vinsælda? Halda menn virkilega að þetta sé málefnaleg umræða?

Það sem gert var fyrir heimilin á síðasta kjörtímabili kom frá Hæstarétti, ekki frá Alþingi. Öll kosningaloforð um skjaldborg heimilanna voru svikin. Hugtakið „norræn velferð“ fékk nýja merkingu í meðförum fyrrverandi stjórnarherra. Virðing landsmanna gagnvart löggjafarþinginu er nánast engin eftir langa eyðimerkurgöngu þingsins.

Hæstv. forsætisráðherra hefur lagt fram þingsályktunartillögu þar sem fyrirhugaðar aðgerðir varðandi skuldavanda heimilanna eru skilgreindar. Þetta er metnaðarfullt plagg í 10 liðum, plagg sem er í samræmi við kosningaloforð stjórnarflokkanna. Höfuðstólslækkun verðtryggðra húsnæðislána, kostir og gallar sérstaks leiðréttingarsjóðs, afnám verðtryggingar. Það eru nokkur atriði sem tekið er á í þessu plaggi.

Er ekki rétt að leyfa ríkisstjórninni að leggja fram frumvarp um þessi mál áður en farið er að gagnrýna? Gagnrýni á frumvörp sem eru ekki einu sinni komin fram telst seint málefnaleg og aldrei sanngjörn.



[16:40]
Willum Þór Þórsson (F):

Virðulegi forseti. Ég kom inn á það í ræðu um störf þingsins að um vandasamt og viðkvæmt mál væri að ræða. Það reyndi sannarlega fráfarandi ríkisstjórn þar sem hún stóð nær vandanum. Því er mikilvægt að leggja fram ábyrgðarvædda og tímasetta aðgerðaáætlun sem liggur nú fyrir og er til umræðu. Það er því vel hversu vel hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar taka í að vinna að þessari áætlun með okkur stjórnarflokkunum. Það er vissulega dýrmætt að leita í þann reynslubanka í gagnrýnni lýðræðislegri umræðu.

Ég vil síðan taka undir með fjölmörgum ræðumönnum, hv. þingmönnum úr öllum flokkum um mikilvægi þess að eiga jákvæð og uppbyggileg samskipti og að við vinnum saman að þessu máli. Þetta mál sem og öll önnur þarfnast slíkra vinnubragða.



[16:42]
Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég biðst velvirðingar á því að hafa ekki verið í salnum þegar ég var á mælendaskránni síðast en ræður voru nokkru knappari heldur en ég hafði ráðgert, enda vanur gömlum ræðuhundum hér í salnum og ekki þessu skorinorða fólki sem er komið á vettvang og ástæða til að bjóða enn og aftur velkomið.

Ég átti nokkur orðaskipti við hæstv. forsætisráðherra í upphafi umræðunnar um tvennt sem mér fannst nauðsynlegt að fá skýrt: Hvort það sé ekki öruggt að afnema eigi verðtryggingu og hvort ekki eigi örugglega að bæta verðtryggingarþátt lánanna sem var umfram verðbólgumarkmið Seðlabankans, þannig að alveg skýrt væri frá upphafi hvað það væri sem skuldarar gætu vænst að fá út úr þessum aðgerðum um leið og maður reyndi að hafa skilning á því að það tæki lengri tíma að vinna að þeim.

Ástæðan fyrir því að ég spurði um það tvennt er að á síðasta kjörtímabili var ég formaður efnahags- og viðskiptanefndar og talaði mjög eindregið fyrir því að við lærðum það af hruninu að hverfa frá séríslenskum lausnum í efnahagsmálum eins og verðtryggingu. Ég lét á það reyna í nefndinni að ná þverpólitísku samkomulagi um að fara í afnám verðtryggingar. Ég lagði þar fram áætlun í 10 liðum sem var vel tekið af fulltrúum úr ýmsum flokkum, en fulltrúar Sjálfstæðisflokksins voru hins vegar á þeim tímapunkti algerlega ófáanlegir til að banna verðtryggingu, afnema verðtryggingu út frá svipuðum sjónarmiðum og heyra mátti fyrr í ræðu hv. þm. Ragnheiðar Ríkharðsdóttur um valfrelsi. Valfrelsið er í sjálfu sér fyrir hendi. Fólk hefur valið sig frá verðtryggingunni og það hefur verið sett inn heimild fyrir Íbúðalánasjóð til að gefa út óverðtryggð bréf og þeir munu fara í þá útgáfu.

Í því væri ekkert nýtt og þess vegna er það fagnaðarefni að Framsóknarflokkurinn skuli hafa náð samkomulagi við Sjálfstæðisflokkinn um að afnema, banna verðtryggingu í landinu. Það var hið stóra loforð um verðtrygginguna sem gefið var í kosningunum, að hún yrði afnumin, og er mikilvægt að það standi vegna þess að Framsóknarflokkurinn fékk glæsilegt umboð til að fylgja því loforði sínu eftir að afnema verðtrygginguna, sem ég held að þjóni okkur sannarlega ekki hér hvaða gjaldmiðil svo sem við ætlum að hafa.

Í öðru lagi spurði ég hvort ekki væri öruggt að bæta ætti fólki þann verðbótaþátt lána sinna eftir hrun sem orsakaðist af verðbólgu umfram verðbólgumarkmið Seðlabankans. Það er leiðrétting á svokölluðum forsendubresti eins og talað hefur verið um. Hæstv. forsætisráðherra dró fram að það sem um væri að ræða væri það sem væri umfram vikmörk peningastefnunnar. Það eru þá 4% á ári, sú verðbólga sem væri umfram þar.

Ég fagna því að það er þá alveg skýrt að það er það sem á að bæta fólki eða leiðrétta hjá fólki, verðbótaþátturinn sem er umfram þessi 4%. Þá veit fólk hvað það er sem þingmenn stjórnarflokkanna hafa tekið sér fyrir hendur að gera og þarf ekki að velkjast í vafa um þær upphæðir sem það má eiga von á að verði í leiðréttingum. Það er þó ástæða til að halda því til haga að í tillögunni er gert ráð fyrir því að það geti orðið þak á leiðréttingunni. Ég held að það sé algerlega málefnalegt sjónarmið og ég fagna því í raun vegna þess að ég held að það væri ákaflega mikið óráð ef hér væru einfaldlega greiddar út úr ríkissjóði óendanlegar upphæðir til allra. Ég held að það væri ekkert óeðlilegt að miða við þak sem tæki annaðhvort mið af algengustu eða rúmaði mestallt íbúðarhúsnæði, venjulegt húsnæði sem venjulegt fólk eða barnafjölskyldur er að reisa sér, en næði ekki til þeirra sem eru með gríðarlega há lán eða gríðarlega dýrar eignir, segjum 100 millj. kr. lán eða 200 millj. kr. lán eða hvað menn vilja taka.

Ég hef haft djúpa sannfæringu fyrir því að í svona lagfæringu ætti að fara gagnvart þeim sem keyptu á bóluárunum frá ágúst 2004 og fram að hruninu í október 2008. Það fólk varð sannarlega fyrir þremur áföllum í senn, sannarlega fyrir forsendubresti og það hefur lengi verið eindregin sannfæring mín. Ég hef ítrekað flutt um það tillögur, þó að þær hafi ekki náð fram að ganga hjá meiri hlutanum hér á síðasta kjörtímabili, að þessi hópur þyrfti leiðréttingar við vegna þess að stjórnmálin komu inn á markaðinn í ágúst 2004 með algerlega óábyrgar aðgerðir, 90% húsnæðislán sem Framsóknarflokkurinn hafði í kosningunum áður lofað til að ná góðri kosningu. Þau var alger skyssa í efnahagsmálum sem á örskömmum tíma leiddi til þess að fyrir efnahagshrunið voru íslensk heimili orðin þau skuldsettustu í heimi vegna 90% lána Framsóknarflokksins, þau skuldsettustu í heimi vegna þess að hér var peningum dælt endalaust: Allt fyrir alla. Menn þurfa að læra af þeirri reynslu og gæta sín á því að fara ekki aftur í þá vegferð að gera allt fyrir alla.

Ég hef síðan sjálfur ekki haft sannfæringu fyrir því að það hafi endilega orðið forsendubrestur hjá öllum þeim sem keyptu fyrir þennan tíma. Ég hef átt erfitt með að sjá hann hjá einhverjum sem keypti sér eign, segjum árið 1997, og tók til þess verðtryggt lán. Þótt það kunni að hafa hækkað um kannski þriðjung frá því að það var tekið og sú fasteign var keypt þá er það þannig að laun í landinu hafa síðan margfaldast og fasteignaverð í landinu hefur síðan margfaldast. Ég hef aldrei haft sterka sannfæringu fyrir því að við sem vorum að kaupa til dæmis á þessum tíma höfum orðið fyrir einhverjum forsendubresti, þ.e. að við gætum gert tilkall til þess öll árin þegar laun hækkuðu meira en lánin, öll árin þegar fasteignaverðið hækkaði meira en lánin, við höldum þá bara þeim ávinningi, en svo þegar komu tvö ár þar sem þetta var á hinn veginn þá eigi að leiðrétta okkur það. Ef fyrir því eru sterk rök og fyrir því er komin lýðræðisleg niðurstaða í almennum alþingiskosningum þá er einboðið að það sé gert því að kjósendum var lofað því. Ég fagna því að forsætisráðherra hefur tekið af tvímæli um að leiðrétta eigi gagnvart verðtryggðum íbúðalánum þá fjárhæð í verðbótaþættinum sem var umfram verðbólgumarkmið Seðlabankans eftir hrun. Það eru auðvitað gríðarlega miklar fjárhæðir og ég treysti því að það nái einvörðungu til íbúðalána og kannski ástæða til að spyrja hv. þingmenn Framsóknarflokksins sem best til þess að þekkja. Mér hefur að minnsta kosti sjálfum aldrei fundist það koma til álita að einhverjir sem tóku 20 millj. kr. verðtryggt íslenskt lán til að kaupa hlutabréf eða taka einhverjar slíkar áhættur eða gera óskylda hluti því að koma sér upp heimili ættu að fara að fá einhverjar sérstakar endurgreiðslur úr ríkissjóði af þeim sökum.

Ég vona að það sé hugmyndin og treysti því að þingmenn Framsóknarflokksins staðfesti að þannig sé vegna þess að hitt væri sannarlega algert óráð. Þingmenn verða að hafa í huga að þeir peningar sem fara í þessa leiðréttingu munu koma úr ríkissjóði og þeir verða til þannig að börnin okkar eru þeim mun skuldsettari þeim mun meiri sem leiðréttingarnar verða. Alveg sama hvernig við snúum þessu þá er það svo. Þess vegna þarf maður að hafa mjög sterka sannfæringu fyrir leiðréttingunni og fyrir því til hverra hún nær. Eins og ég segi, ég hef haft mjög sterka sannfæringu fyrir þessum hópi en tel sannarlega ekki að nein ástæða sé til að endurgreiða vegna annarra lána þeim sem tengjast íbúðarhúsnæði með því að auka sem því nemur skuldir ríkissjóðs og þar með komandi kynslóða. Það væri algerlega óábyrgt af okkar hálfu. Ég spyr líka hv. þingmenn Framsóknarflokksins hvaða þak þeir sjá fyrir sér að verði á þessum leiðréttingum í krónutölu, eru það 3 millj. kr., 5 millj. kr., 10 millj. kr. eða 50 millj. kr., bara svona einhverja nálgun, einhverja hugmynd um það á hvaða vegferð menn eru? Ég held að það væri líka hjálplegt í því að eyða óvissunni og láta fólkið þarna úti sem er í vanda vita hvers er að vænta.



[16:52]
Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Mig langar að byrja á því að ræða aðeins um það sem hv. þm. Silja Dögg Gunnarsdóttir sagði í pontu áðan þegar hún gerði því skóna að þingmenn stjórnarandstöðunnar væru hér meira og minna til að hlusta á sjálfa sig í pontu en ekki til að vinna fyrir þjóðina. Síðan talaði hún um að við skyldum vinna saman í sátt og vera góð hvert við annað. Mér fannst ekki sérlega vel að orði komist að halda því fram að ég sem stjórnarandstöðuþingkona í minni hluta, eins og ég get alveg fallist á að sé heppilegra komandi úr sveitarstjórn, sé hér til að hlusta sérstaklega á sjálfa mig tala en ekki til að vinna fyrir þjóð mína.

Ég er búin að vera, eins og aðrir, að lesa yfir þessa þingsályktunartillögu og kom aðeins inn á hana í ræðu í gær þar sem mér finnst hún heldur rýr og velti fyrir mér sem nefndarmaður í fjárlaganefnd að meiri hlutanum af því sem snýr að lækkun og leiðréttingu á skuldamálum heimilanna eigi ekki að skila fyrr en í nóvember. Þá verður fjárlagafrumvarpið væntanlega komið vel á veg og því er ekki óeðlilegt að við þingmenn stjórnarandstöðunnar spyrjum eðli málsins samkvæmt: Er gert ráð fyrir því í fjárlögum næsta árs samt sem áður að eitthvað af þessu komi til framkvæmda? Á það þá að koma í fjáraukalögum eða hvernig á að vinna þessa vinnu?

Hér eru jú, eins og hefur komið fram, starfshópar eða nefndir og í rauninni á ekkert að gerast á þessu sumarþingi eða á næstu vikum sem skiptir máli. Það að stjórnin fái tíma til að vinna vinnuna sína er ekki eitthvað sem ég er að tala fyrir að sé óeðlilegt, en eins og talað var í kosningabaráttunni þá er heldur ekki óeðlilegt að við krefjumst þess að fram komi einhverjar tillögur sem eru klárar. Það var talað þannig. Ég fór á fundi þar sem margítrekað var sagt að þetta væri ekkert mál og það væri hægt að leiðrétta og bjarga hlutunum tiltölulega fljótt.

Í athugasemdum við þingsályktunartillöguna kemur fram að nauðsynlegt sé að horfa til útfærslu og framkvæmdar tillagnanna um skuldaleiðréttingu, þar er m.a. talað um kostnað við aðkomu ríkissjóðs. Þetta hlýtur að lúta að starfi okkar í fjárlaganefnd. Í lið nr. 2 er talað um að gera úttekt á kostum og göllum og stofna leiðréttingarsjóð. Teymi fagaðila á að leggja fram tillögu um fjármögnun sjóðsins. Þarna er talað algerlega án þess að nokkuð búi að baki, þ.e. ekki virðast vera neinar hugmyndir um hvar þetta geti átt heima, hvar þessa peninga sé að finna. Á sama tíma koma forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar fram og tala um stóra gatið í ríkisfjármálunum og skera svo niður tekjurnar. Þá þykir manni þetta auðvitað svolítið sérstakt og því veltir maður því auðvitað fyrir sér. Allar þessar nefndir og á sama tíma er talað um að staðan sé miklu verri. Einhverjar hugmyndir hljóta bæði framsóknarmenn og sjálfstæðismenn að hafa haft í aðdraganda kosninga um það hvernig væri hægt að leysa þessi mál. Þetta eru góðra gjalda verðar hugmyndir, það er enginn að tala um annað.

Við gerð núgildandi fjárlaga, þ.e. fyrir árið 2013, var lagt upp með áherslur á bættan hag barna og fjölskyldna. Barnabætur voru stórhækkaðar og vaxta- og húsnæðisbætur. Við vinstri græn töluðum ævinlega um það í kosningabaráttunni áfram þyrfti að gæta aðhalds. Við lofuðum ekki stórkostlegri niðurfellingu á skuldum en við hlífðum velferðarþjónustunni á þessu ári og við töluðum um að ef það skapaðist borð fyrir báru mundum við svo sannarlega leggja fjármuni í innviði samfélagsins. Á meðan töluðu framsóknarmenn sérstaklega mikið um hrægammasjóði. Það virkaði á fólk eins og þar væri vont fólk sem hefði tekið af okkur Íslendingum fjármuni sem það ætti að skila til baka.

Varðandi fjármuni, verði þeir til einhvers staðar, hvort sem það er í vogunarsjóðum eða annars staðar, þá er vert að spyrja þessara spurninga fyrir komandi kynslóðir: Er þeim rétt varið eingöngu í skuldaniðurfellingu heimila eða á að greiða niður vexti ríkissjóðs? Við eigum að greiða marga milljarða í vexti á ári. Komandi kynslóðir græða á því að við greiðum niður skuldir ríkisins. Eigum við að taka sérstaklega þá sem tóku verðtryggð lán út fyrir sviga? Það deilir enginn um það að sannarlega eru einhverjir enn í vanda. Það er líka eitt af því sem hefur komið fram í umræðunni því að stjórnarandstaðan hefur verið gagnrýnd fyrir málflutning sinn eins og ekkert hafi verið gert á síðasta kjörtímabili fyrir þessar fjölskyldur, fyrir skuldsett heimili. Því get ég ekki verið sammála en hér hefur það ítrekað verið sagt að loksins séu einhverjir komnir til valda sem ætli að gera eitthvað fyrir fjölskyldurnar í landinu.

Mér finnst vert að skoða og spyrja spurninga. Talað hefur verið um að þrjár fjölskyldur á dag hafi misst húsnæði frá hruni, um það bil 5 þús. fjölskyldur. Ungur maður, Konráð Guðjónsson, sem er hagfræðingur í meistaranámi, hefur skrifað svolítið um skuldavanda heimilanna. Á vísir.is er, með leyfi forseta, grein eftir hann frá 12. júní þar sem hann vitnar í opinberar tölur og talar um að í „september 2008 voru 5.800 íbúðir, sem byrjað var á eða voru auðar, á höfuðborgarsvæðinu“ og hann spyr sig hversu margar þeirra hafi verið í eigu verktaka eða lögaðila og þannig komist í hendur fjármálastofnana. Hann segir að Íbúðalánasjóður hafi átt fyrir ári síðan 1.751 íbúð sem flestar urðu hans eign eftir hrun, 947 í eigu lögaðila og 804 í eigu einstaklinga. Af þeim eru nú 707 leigðar út. Þess vegna er ekki óeðlilegt að maður spyrji sig hversu margar fjölskyldur hafi í raun og veru misst heimili sitt. Það eru auðvitað gögn sem við þurfum að hafa í höndunum þegar við tökum ákvörðun um það hvernig og hverja þarf að aðstoða.

Þar sem forsendubresturinn hefur orðið meiri vegna verðlags og fasteignamarkaðurinn fer hækkandi má líka velta fyrir sér hvort það sé réttlátt að þeir sem fá hugsanlega niðurfellingu fái líka verðhækkun á húsnæði sínu af völdum þessa sama forsendubrests. Samkvæmt skýrslu Seðlabankans frá því 2012 um stöðu heimilanna eru 3/4 af þeim sem mundu fá 20% niðurfellingu ekki í vanda og 2/3 af þeim sem eru í vanda mundu áfram vera í vanda miðað við þá forsendu. Auðvitað kemur fram, eins og við í Vinstri grænum sögðum ítrekað í kosningabaráttunni svart á hvítu, að þeir efnuðustu mundu fá hæstu niðurfellinguna.

Ég held að fyrir komandi kynslóðir sé líka hægt að hugsa til þess að þetta sé ekki endilega eina lausnin. Það er alveg verðugt verkefni og ég held að allir hafi talað að einhverju leyti fyrir því að breyta kerfinu, þ.e. lánakerfinu, verðtryggingunni. Einhverjir hafa talað um að afnema verðtrygginguna, aðrir hafa talað um að það sé kostur að hafa bæði verðtryggð og óverðtryggð lán. Það er að mínu skapi alla vega, ég mundi vilja geta valið. Hins vegar höfum við rætt um að setja þak á verðtrygginguna, vextina, í því sambandi.

Það er að mörgu að hyggja þegar þessi mál eru rædd. Ég hélt satt að segja að Framsóknarflokkurinn sem talaði svona drýgindalega í kosningabaráttunni hefði virkilega verið kominn með einhverjar útfærðar hugmyndir. Ég veit um fólk sem trúði því líka, ég segi ekki daginn eftir kosningar en það átti sannarlega von á því á að það fengi að heyra af því á þessu sumarþingi að til stæði að leggja til sýnilegar framkvæmdir en ekki eitthvað sem enginn hefði í hendi.



[17:02]
Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Umræðan er nokkuð í stíl við það sem búast mátti við. Hingað komu hæstv. forsætisráðherra og fulltrúar ríkisstjórnar og kynntu okkur frábært tíu punkta plagg, aðgerðaáætlun, til að reisa við heimilin í landinu. Stjórnarandstaðan kemur fram eftir að hafa lesið plaggið og segir að það sé harla rýrt og ekki í samræmi við það sem menn hafi búist við, raunhæfum tillögum á þessu stigi en ekki nefndum og starfshópum. Þá kveðja þingmenn stjórnarmeirihlutans sér hljóðs og gagnrýna stjórnarandstöðuna fyrir ómálefnalega umræðu. Ég er búinn að heyra nokkra þingmenn stjórnarmeirihlutans koma hingað í pontu og kvarta yfir ómálefnalegri umræðu.

Ég verð að segja að það er ekkert ómálefnalegt við að benda á það þegar stjórnarflokkar nýkomnir inn í Stjórnarráðið á þeirri forsendu að þeir ætli að hrinda tilteknum hugmyndum í framkvæmd, þegar í ljós kemur að slíkar tillögur eru ekki til, þær eru bara loft, bara bóla, að á það sé bent. Það er málefnalegt vegna þess að það snýst um lýðræðið í landinu. Ef stjórnmálaflokkar ætla að vera trúverðugir verða þeir að rísa undir því að framkvæma eða reyna að framkvæma það sem þeir lofa. Hér erum við því miður einungis að sjá starfshópa og nefndir en engar raunverulegar framkvæmdir, nema í einu tilviki. Eitt mál er komið fram hér í þinginu og það er um flýtimeðferð í réttarkerfinu, það liggi mikið á að fá þetta samþykkt núna í vor vegna þess að það sé mikið hagsmunamál fyrir skuldugt fólk.

Nú vill svo til að það er réttarhlé, dómstólarnir verða ekki starfandi fyrr en í september, þannig að þetta eina mál sem er raunveruleg tillaga um úrbætur núna er líka bara orðin tóm fyrir utan það að flýtimeðferðarformúlan orkar nokkuð tvímælis. Í fyrsta lagi er það svo að vandinn í réttarkerfinu hvað varðar lánamálin liggur ekki eða öllu heldur rót hans liggur ekki í dómskerfinu heldur hjá fjármálafyrirtækjunum. Hún liggur þar. Fjármálafyrirtækin hafa her lögfræðinga á sínum snærum og þegar það síðan gerist eins og lagt er til eða kveðið er á um í greinargerð þingmálsins að dómstólar skuli hafa alla fresti sem allra stysta þá getur það verið hinum skulduga manni í óhag. Hann hefur ekki her lögfræðinga sér við hlið heldur iðulega einn lögfræðing, ef hann hefur yfirleitt kost á að greiða fyrir slíkt, og skammur frestur getur komið honum í koll. Ég nefni þetta sem dæmi. Þetta eru að sjálfsögðu hlutir sem hafa verið skoðaðir enda vorum við minnt á að þingmál af þessu tagi hafa áður komið fram. Þetta leysir í sjálfu sér ekki vandann.

En aðeins um málið í heild sinni. Ég vil taka undir með þeim sem óska eftir þverpólitísku samstarfi um þessi mál, ég vil gjarnan taka þátt í slíku og stuðla að framgangi góðra mála. Slíkt samstarf var ástundað á síðasta kjörtímabili. Ég minnist þess þegar við sátum dag eftir dag og kvöld eftir kvöld í þverpólitískum nefndum. Við sameinuðum nefndir jafnvel tímabundið um tiltekin úrlausnarefni, allsherjarnefnd, efnahags- og viðskiptanefnd og félagsmálanefnd. Það var ekki svo að ekkert væri aðhafst. Hér varð til embætti umboðsmanns skuldara. Ráðist var í úrræði á borð við greiðslujöfnun og skuldaaðlögun og gengið var í að ræða við fjármálastofnanir um niðurfærslu á lánum. Útkoman úr því var svokölluð 110%-leið. Við vorum mörg sem vildum fylgja áherslum Hagsmunasamtaka heimilanna og fara í niðurfærslu á skuldum. Það var nokkuð sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn lagði mjög strangt bann við, vildi það alls ekki, og það voru líka deildar meiningar um það í þinginu þverpólitískt, bæði innan stjórnarliðsins og í stjórnarandstöðunni.

Ég man eftir því að hv. þm. Helgi Hjörvar talaði fyrir því fyrir ekki svo ýkja löngu að það yrði skoðað hvort unnt væri að gera þetta hjá Íbúðalánasjóði, að við færum þá leið þar. Það er ekki svo að þessar umræður hafi ekki verið vakandi í þinginu og þverpólitískt, eða að menn hafi hugsað mjög flokkspólitískt um þessi efni. Menn hafa verið að reyna að leita leiða til að leysa hinn alvarlega skuldavanda og þegar upp er staðið hefði verið hyggilegt að mínum dómi — ég var allan tímann á þeirri skoðun — að fara niðurfærsluleiðina en þá hefði þurft að gera það í tengslum við neyðarlög. Þegar við efndum til mikilla funda í Þjóðmenningarhúsinu haustið 2010 með öllum fjármálastofnunum í landinu, lífeyrissjóðunum og pólitíkinni, fulltrúum allra stjórnmálaflokka, þá komumst við hvorki lönd né strönd með fjármálakerfið hvað þetta snerti, hvorki lífeyrissjóðina né bankakerfið.

Hvað gerðum við þá? Við fórum aðra leið. Við skattlögðum fjármálastofnanir til að fá inn fjármagn til að standa straum af sérstökum vaxtabótum. Þessar sérstöku vaxtabætur ásamt vaxtabótunum sjálfum námu á tímabili 18 milljörðum á ári. Lágtekjumaður var að fá 45% af öllum vaxtakostnaði sínum greiddan með þeim hætti. Auðvitað skipti þetta allt máli. Eða halda menn að við höfum setið aðgerðalaus? Því fer fjarri.

Við ræddum lyklafrumvarpið. Þar var ágreiningur uppi, ekki bara milli stjórnar og stjórnarandstöðu heldur innan þingliðsins alls. Við hlustuðum á sjónarmið Seðlabanka, við hlustuðum á sjónarmið annarra aðila og við vorum uppi með mismunandi hugmyndir hvað þetta snertir. Þegar menn óska eftir málefnalegri umræðu þá segi ég: Látið okkur öll njóta sannmælis líka og horfum af raunsæi til þess hvað hefur verið gert í þessum málum.

Við skipuðum ráðherranefnd til að ræða við lífeyrissjóðina um lánsveðin. Við náðum niðurstöðu sem við vorum ekkert sérstaklega sátt við vegna þess að við vorum gagnrýnin á lífeyrissjóðina hve íhaldssamir þeir voru í þessu efni. En við náðum að leysa það áður en kjörtímabilið var úti. Síðan eru aðrir þættir þarna sem á eftir að taka á. Það eru tilteknar fjármálastofnanir sem hafa ekki staðið sig sem skyldi og ekki einu sinni farið að þeim úrræðum sem fjármálastofnanir eða samtök þeirra náðu við ríkisstjórnina, til dæmis varðandi 110%-leiðina, ég nefni þar Dróma sérstaklega. Þar voru gerð mistök á sínum tíma með því að fela slitastjórn samskiptin við lántakendur. Hvergi er minnst á það í þessu plaggi. En síðan koma stjórnarþingmenn hingað upp og segjast vonast til þess að þetta þingmál nái fram að ganga, það sé gríðarlegt hagsmunamál. Hvað? Að sest verði yfir málið? Já. En við héldum að nú á vordögum og í byrjun sumars værum við að fá í hendur tillögur um hvernig ætti að taka á málinu. Það að ræða þetta og gagnrýna er málefnalegt. En það er ómálefnalegt ef menn horfa ekki til þess sem hér hefur verið gert á undanförnum fjórum árum. Látið þau sem að því stóðu njóta sannmælis.



[17:12]
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Herra forseti. Ég kem hér öðru sinni og átti eftir að ljúka fyrri ræðu minni, en áður en ég geri það vil ég koma örstutt inn á húsnæðismálin.

Í þingsályktunartillögunni er talað um að koma eigi með tillögur að framtíðarstefnu í húsnæðismálum. Það hvarflar satt best að segja að mér að ríkisstjórnin hafi fylgst jafn illa með í þeim málaflokki og ríkisfjármálunum á síðasta kjörtímabili. Það var mótuð húsnæðisstefna. Það var þverpólitísk vinna sem áttu aðild að Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur, auk Sambands íslenskra sveitarfélaga, annarra stjórnmálaflokka, Alþýðusambands Íslands, BSRB, BHM, Samtaka atvinnulífsins og svo mætti lengi telja. Þessi stefna liggur fyrir í skýrslu frá apríl 2011. Á grundvelli hennar hefur verið gríðarlega mikil vinna í gangi og skilað hefur verið tillögum um hvernig eigi að miðla upplýsingum um húsnæðismarkaðinn til að efla þann markað og gera öruggari, tillaga um nýjar húsnæðisbætur, tillaga um gerð húsnæðisáætlunar, tillaga um rekstrar- og skattumhverfi húsnæðisfélaga og tillögur um framtíðarhlutverk Íbúðalánasjóðs og lánveitingar hans. Þetta var unnið mjög breitt og mjög þvert því að húsnæðismál eru ekki eitthvað þar sem stefnunni er breytt frá einu kjörtímabili til annars.

Ég vona svo sannarlega að velferðarnefnd fái þessar tillögur til umfjöllunar. Þarna tel ég að verði að flétta inn í þá vinnu sem þegar hefur verið unnin því að það er tímafrekt að breyta húsnæðismarkaðnum. Það er alvörumálefni sem á að taka mið af þeirri merku vinnu sem fram hefur farið.

Ef einhver efast um orð mín, því að það virðist einkenni á hæstv. forsætisráðherra að hann telur okkur öll dylgja ef við erum ekki með honum í flokki, þá er Samband íslenskra sveitarfélaga búið að innleiða þessa stefnu í sína stefnu. Reykjavíkurborg er með stefnu í þessum anda og er þegar farin að vinna eftir henni. Þetta gengur út á húsnæðisöryggi, fjölbreyttari búsetuform með svipuðum stuðningi óháð því hvort fólk á eða leigir og félagslega samheldni og er stefna sem allir hljóta að geta fellt sig við. Satt best að segja, því að ég hef komið mikið nálægt þessum málum, liggur við að mér sárni að athyglin á því sem vel hefur verið gert sé svona lítil.

Nú ætla ég að ljúka fyrri ræðu minni, herra forseti. Þar var ég komin að því að ríkisstjórnin er búin að loka dyrunum á upptöku nýrrar myntar, hún gerði það bara í beinni útsendingu á blaðamannafundi klukkan fjögur í dag, en boðar samhliða afnám verðtryggingar. Þá spyr ég: Af hverju ekki að eyða óvissunni og gera þetta strax? Þannig er komið til móts við heimilin. Það er einfalt að útbúa frumvarp þess efnis og samþykkja strax á sumarþingi. Af hverju gerir hæstv. ríkisstjórn þetta ekki? Jú, því að þá kæmist hún ekki upp með þá óábyrgu stjórn ríkisfjármála sem nú er stunduð og felur í sér lækkun veiðigjalds á LÍÚ, afnám auðlegðarskatts á ríkustu fjölskyldur landsins og lækkun virðisaukaskatts á neyslu erlendra ferðamanna.

Hægri stjórn hæstv. forsætisráðherra Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar getur hrist fram úr erminni dýrar aðgerðir fyrir forréttindahópa í íslensku samfélagi en þegar kemur að heimilunum, almenningi í landinu, þá eru svörin: Við skulum sjá til í haust.



[17:17]
Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér þingsályktunartillögu um aðgerðir vegna skuldavanda heimilanna. Það er virðingarvert að vilja mæta þeim brýna vanda sem blasir við mörgum heimilum í landinu, ekki skal ég draga úr því. Síðasta ríkisstjórn glímdi við það verkefni allt síðasta kjörtímabil og náði þar miklum árangri svo eftir var tekið víða um heim. Það var talið afrek hversu vel stjórnvöld hefðu tekist á við þessar erfiðu aðstæður, að mæta skuldugum heimilum og verja velferðarkerfið, sem skiptir nú ekki litlu máli fyrir heimilin í landinu, því að þegar kemur að buddunni telja nefnilega allir þættir. Fjölskyldurnar í landinu búa við mjög fjölbreytilegar aðstæður. Sumir hafa sitt eigið húsnæði, aðrir leigja, svo það er með ýmsum hætti hvernig sá kostnaður fellur til.

Nú kemur ríkisstjórnin fram með aðgerðaáætlun og vísar þeirri vinnu inn í sumarið og langt fram á haust. Ég er nú ansi hrædd um að margir hafi trúað því að eitthvað kæmi tilbúið strax að loknum kosningum vegna þessara loforða þeirra flokka sem voru með dýra kosningavíxla. Þeir lofuðu mörgu, bæði skattalækkunum, afnámi verðtryggingar og lækkun höfuðstóls verðtryggðra lána. Það var trú margra að því yrði hrint í framkvæmd fljótlega að loknum kosningum miðað við tal manna fyrir kosningar.

Komið hefur fram í máli manna að síðasta ríkisstjórn hafi nú mest lítið gert í þeim málaflokki og hafi haft fjögur ár til þess að vinna að því úrlausnarefni eftir hrunið ásamt fjölmörgum öðrum þáttum sem menn stóðu frammi fyrir, jafnvel því að ríkissjóður yrðu settur af eða gjaldfærður niður, færi á hausinn og að við yrðum sett í Parísarklúbbinn. Það var allt í umræðunni í upphafi kjörtímabils hvað mundi verða um íslenskt þjóðarbú en sem betur fer tókst mönnum að vinna sig út úr þessum gífurlega vanda hægt og bítandi og verja erfiða stöðu margra heimila.

Þess vegna segi ég við þá flokka sem fengu umboð til þess að halda áfram að vinna að bættum hag heimilanna — ég segi: halda áfram að vinna að bættum hag heimilanna, því að ég held að það sé vilji allra þeirra þingmanna sem hér eru og sem kosnir hafa verið að vinna að bættum hag heimilanna. Ég get ekki ímyndað mér að neinn hér inni hafi neitt annað í huga en að vinna að bættum hag heimilanna. En þá eru það spurningar um leiðir og hvað er gerlegt. Þar fórum við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði ekki fram úr okkur því að við þekktum mætavel stöðu ríkissjóðs og það tel ég að allir flokkar sem áttu fulltrúa á Alþingi hefðu átt að gera og fara varlega í kosningaloforðum sínum.

En þar sem menn fóru geyst í kosningabaráttunni og lofuðu miklu og höfðu verið með miklar hugmyndir allt kjörtímabilið, finnst mér nú að menn hefðu átt að koma betur undirbúnir til leiks. Þeir höfðu líka þessi fjögur ár til að útfæra tillögur sínar, til að láta fara ofan í saumana á því hvað væri gerlegt og hvað ekki miðað við skuldastöðu ríkissjóðs og ekki byrja á því að leggja hér fram einhvern fermingarsáttmála um góðan vilja, sem segir í raun og veru ósköp lítið annað en það að fólk má búa við óvissu allt þetta ár um hvað verður. Mér finnst það ekki vera heiðarlegt gagnvart þeim kjósendum sem kusu þessa flokka. Þá hefðu menn átt að tala þannig í kosningabaráttunni að þeir, eins og þáverandi stjórnvöld, vildu halda áfram að vinna að þessum málum en hefðu enga töfrasprota til að kalla fram peninga sem ekki eru til. Þáverandi stjórnvöld vissu alveg að möguleiki væri fólginn í því að ná með einhverjum hætti fjármagni frá þeim vogunarsjóðum sem eru með fjármagn hér í gjaldeyrishöftum. Það vissu allir stjórnmálaflokkar að það var möguleiki í því fólginn. En menn vissu það jafn vel að ekkert væri í hendi varðandi hvenær það yrði og að menn yrðu bara að sýna þolinmæði og vinna úr því verkefni hægt og bítandi. Ef þar væru fjármunir sem hægt væri að nýta fyrir fólkið í landinu með einhverjum hætti þyrfti líka að ræða hvar sá stuðningur og hvar þeir fjármunir væru best nýttir. Það er auðvitað fjöldinn allur af góðum verkefnum sem væri hægt að setja fjármagn í. Þá yrðu menn að setjast niður við það erfiða verkefni eins og er hér á hverju ári varðandi fjárlögin við að deila út því fjármagni sem er til skiptanna og forgangsraða.

Mér hefur alltaf fundist að við ættum að byrja á því að aðstoða þá sem minnst mega sín og búa við erfiðar aðstæður. Þeir sem eru betur settir ráða frekar fram úr sínum málum. Ég vil forgangsraða í þágu þeirra sem verst eru settir, hvort sem er í málaflokki húsnæðismála, ellilífeyrisþega, öryrkja, barnafjölskyldna eða annarra hópa í landinu sem þurfa stuðning umfram aðra. Þannig vil ég að við sem þjóð styðjum hvert annað og forgangsröðum rétt í þessu þjóðfélagi.

Mér fannst það ekki vera rétt forgangsröðun í þessu samhengi þegar ríkisstjórnin byrjaði á því, án þess að hugsa sig um eða skipa nefnd eða starfshóp, að fella niður veiðigjöld fyrir háar fjárhæðir sem hefðu einmitt nýst þessum hópum sem ég vil forgangsraða til, að fella niður veiðigjöld af fyrirtækjum í landinu sem eru vel gjaldfær og vel megnug þess að standa undir því veiðigjaldi sem lagt var á, sem betur fer því að það er gott ef vel gengur, í sjávarútvegi sem annars staðar. Það er gott fyrir okkur öll.

Þess vegna segi ég: Við eigum að vera menn til þess að forgangsraða þeim fjármunum sem við höfum úr að spila með réttlátum hætti, ekki láta þá fara fremst sem hæst hafa heldur horfa til þess hverjir þurfa á aðstoð að halda.

Mér datt nú í hug eitt (Forseti hringir.) hér í lokin: „Þær eru margar nefndirnar en hvurnig er með efndirnar sem sumir lofuðu (Forseti hringir.) sumum?“



[17:27]
Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég hafði ætlað mér síðar í ræðu minni að koma með eina fyrirspurn til hæstv. forsætisráðherra en hann er ekki í salnum þannig að ég óska alla vega eftir því að henni verði komið til hans svo að hann geti svarað henni í lokaræðu sinni um þetta mál. Ég ætlast ekki til að sérstaklega verði á hann kallað, en að félagar hans sem sitja í salnum komi spurningunni áleiðis þannig að hann geti svarað henni í samantektarræðu sinni hér í lokin.

Virðulegi forseti. Það mál sem við ræðum hér, þ.e. skuldamál heimilanna, er eitt af því stærsta og erfiðasta sem ríkisstjórnin á fráfarandi kjörtímabili fékkst við. Nánast samhliða því að forða landinu frá þjóðargjaldþroti horfðum við upp á sívaxandi vanda heimilanna í landinu. Það var ekki bara skellurinn sem kom á heimilin sem voru með gengistryggð lán heldur hinar hratt vaxandi skuldir þeirra sem voru með verðtryggð lán.

Það var þröngt í búi og þess vegna var það sem þó var gert fyrir heimilin í landinu gert af miklum vanefnum. Það er ekki hægt af hv. þingmönnum sem hingað koma upp að heimta að allir séu málefnalegir í þessari umræðu en segja svo í næsta orði að fráfarandi ríkisstjórn hafi ekkert gert fyrir heimilin nema það sem dómstólar hafi skipað henni. Það er nefnilega alrangt, virðulegi forseti. Sú ríkisstjórn gerði gríðarlega margt fyrir heimilin en þó alls ekki nóg, ég er alveg sammála því. Við hefðum viljað gera miklu, miklu meira ef fjármunir hefðu verið til reiðu, ef við hefðum ekki líka verið í þeirri stöðu að koma okkur úr 18,6% verðbólgu, 18% stýrivöxtum, 1.500 punkta skuldatryggingarálagi, mínus á ríkiskassanum upp á 216 milljarða. Þannig var staðan hreinlega í upphafi síðasta kjörtímabils. Við það vorum við að fást og samhliða því að gera allt sem við gátum til að mæta skuldugum heimilum. Þess vegna fóru um 300 milljarðar til heimilanna á síðasta kjörtímabili, 200 milljarðar í gegnum fjármálastofnanir og 100 milljarðar beint úr ríkissjóði í gegnum vaxtabætur og barnabætur. Við vitum og ég hef sagt það áður að það var ekki nóg. Við vitum líka að hópar voru eftir sem þurfti að horfa sérstaklega til.

Í mjög góðri skýrslu frá nefnd undir forustu þáverandi hæstv. velferðarráðherra, Guðbjarts Hannessonar, um skuldamálin kom skýrt fram að það væru ákveðnir hópar sem þyrfti sérstaklega að huga að. Það var hópurinn sem keypti á versta tíma fyrir hrun, það var hópur sem var með lánsveð og líka þeir sem höfðu tekið lán hjá Íbúðalánasjóði sem ekki hafði haft burði til þess að ganga jafn langt og aðrar fjármálastofnanir til að mæta lántakendum sínum.

Virðulegi forseti. Í þessari stöðu má segja að þáverandi stjórnarandstaða sem nú er að miklu leyti komin í ríkisstjórn, eða a.m.k. tveir stærstu flokkarnir, hafi ekki gert okkur þessi mál auðveld vegna þess að hún horfðist aldrei í augu við þá stöðu sem ríkissjóður og þjóðarbúið var raunverulega í og efnahagslífið, heldur talaði hér og gerði kröfur og ýtti undir væntingar fólks eins og enginn væri morgundagurinn og allir væru fjármunirnir í ríkiskassanum. Stuðningurinn kom svo sannarlega ekki þaðan við þær erfiðu aðgerðir sem fráfarandi ríkisstjórn stóð í. Þess vegna er ekkert skrýtið að menn hefðu gríðarlegar væntingar til þeirra flokka sem gengu þannig fram, ekki bara í kosningabaráttunni heldur allt kjörtímabilið, eins og hér væru til reiðu fjármunir til að gera miklu, miklu meira fyrir heimilin í landinu en gert var. Þess vegna er eðlilegt að það séu væntingar og eðlilegt að gerð sé krafa um að menn komi tilbúnir til leiks á sumarþing þegar þeir hafa haft fjögur ár til að smíða þær tillögur eins og aðrir höfðu — fjögur ár.

Virðulegi forseti. Það var líka talað með þeim hætti í kosningabaráttunni og aðdraganda hennar eins og menn væru með þetta allt á hreinu. Peningarnir voru þarna til reiðu hjá hrægömmunum. Það átti að vera hægt að semja við bankana um að byrja að greiða þetta og lækka höfuðstólana strax í sumar. Svona töluðu menn. Það er því ekkert óeðlilegt þó að væntingarnar hafi verið miklar. Það er því ekkert óeðlilegt að það sem kemur fram í þessari tillögu sé gagnrýnt, að af tíu liðum séu fimm nefndir eða úttektir, helmingurinn. Tvívegis byrjar setning á „Kannað verði …“, þ.e. sjö atriði eru ýmist úttekt, nefnd eða eitthvað sem á að kanna. Þrjú atriði tryggja ágætlega að menn ætli að vinda sér í þau og eitt þeirra liggur hér fyrir frá innanríkisráðherra. Það er vel eins og ég hef áður sagt.

Virðulegi forseti. Hér á sem sagt að setja þetta stóra mál í enn eina nefndina. Mig langar líka að nefna dæmi um það hversu gleiðir menn voru og brattir í yfirlýsingum sínum í aðdraganda kosninga í þessum þingsal. Í 6. lið í þessari tillögu til þingsályktunar stendur að settur verði á fót sérfræðingahópur um afnám verðtryggingar af neytendalánum. Tillögur þessa hóps og tímasett áætlun á að liggja fyrir í lok árs 2013.

Hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir og Eygló Harðardóttir, þáverandi þingmaður og núverandi hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra, áttu í orðaskiptum hér í þinginu þann 15. mars síðastliðinn. Hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir gagnrýndi þáverandi hv. þm. Eygló Harðardóttur fyrir það að Framsóknarflokkurinn væri enn einu sinni að boða að setja verðtryggingarmálin í nefnd. Þá sagði, með leyfi forseta, núverandi hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra Eygló Harðardóttir:

„Í svari mínu við hv. þingmann nefndi ég ekki að skipa ætti einhverja nefnd. Ég talaði um nefndir sem skipaðar hafa verið og hafa skilað af sér tillögum, þær hafa lagt fram áætlun um að gera það. Tillögur okkar varðandi afnám verðtryggingarinnar ganga út á það að framkvæma það.“

Svo mörg voru þau orð, virðulegi forseti. Svona töluðu menn og þá er eðlilegt að væntingarnar séu miklar. Ef menn geta komið fram með jafn flókin og viðamikil mál og breytingar og lækkun á veiðigjaldi, eins og verið er að dreifa í þinginu, en geta ekki komið með mál hingað inn sem tengjast skuldavanda heimilanna þá hljóta menn að spyrja um forgangsröðun. Það er ekkert einfalt mál að gera breytingar á veiðigjaldinu þannig að það lækki tekjur ríkissjóðs á þessu ári um 3,2 milljarða. Það getur ekki verið mjög einfalt mál, menn hljóta að hafa hugsað það. Þá hljóta menn líka að hafa eytt í það tíma sem þeir hefðu getað eytt í að koma með tillögur um skuldavanda heimilanna.

Virðulegi forseti. Spurning mín til hæstv. forsætisráðherra snýr að því að einn hópur þurfi sérstakrar úrlausnar við, svokallaður lánsveðshópur. Framsóknarflokkurinn sat hjá þegar við afgreiddum mál á síðasta þingi um það að þessi hópur fengi sérstakar viðbótarvaxtabætur á þeirri forsendu að ekki væri nægjanlega langt gengið. Allt í lagi, það er afstaða út af fyrir sig. Hins vegar náðum við þó fyrir kosningar að klára langþráð samkomulag við lífeyrissjóðina um lánsveðin til að þessi hópur gæti fengið sambærilegar niðurfærslur og aðrir hópar í samfélaginu hafa fengið svo að hann sæti ekki lengur eftir. Þetta samkomulag náðist. Núna eru stjórnir lífeyrissjóðanna að samþykkja þetta að því er ég best veit hver á fætur annarri.

Því spyr ég: Þegar rætt var í gær af hálfu forustumanna þessarar ríkisstjórnar um að það þyrfti að endurskoða nýjar ákvarðanir sem fyrri ríkisstjórn hafði gert, átti það við um lánsveðin? Þau eru ekki í þessum aðgerðalista. Er það yfirsjón að lánsveðshópurinn sé ekki á listanum og efndir gagnvart honum eða er ekki ætlunin að gera neitt fyrir þann hóp?

Ég tel mjög mikilvægt að hæstv. forsætisráðherra svari þessari spurningu hér þannig að þessi hópur verði ekki áfram í óvissu.



[17:38]
Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Nú er ég að flytja mína seinni ræðu um þingsályktunartillögu sem gefur hverjum þingmanni tækifæri á að ræða málið í 15 mínútur. Málið fer síðan í nefnd og þá í afgreiðslu í þinginu. Við erum að tala um eitt stærsta mál nýrrar ríkisstjórnar, 10 liði, að vísu koma þeir síðan væntanlega aftur til umræðu einhvern tímann á næsta ári. En það sem skiptir auðvitað mjög miklu máli á þessu stigi er hvað fer inn í vinnuna. Það er það sem ég hef verið að kalla eftir.

Ég hef líka áhyggjur af því þegar ég heyri að ungir þingmenn hafa jafnvel étið það upp eftir formönnum sínum að ekkert hafi verið gert á síðasta ári. Ég velti því fyrir mér þegar við tökum t.d. röð af skýrslum, vinnu og öðru, hvort menn hafi virkilega ekkert kynnt það, hvort menn hafi ekkert lagt það fram, hvort menn hafi ekki fengið tækifæri til að skoða þetta á netinu bara eins og þegar við höfum verið að reyna að greina hver vandinn er.

Við höfum t.d. komist að því að einn sá hópur sem er í hvað mestum vanda í þessu samfélagi eru leigjendur. Það eru þeir sem eiga ekkert í húsnæði sínu. Hvar verður leiðréttingin fyrir þá þegar við ræðum um hag heimilanna? Við ræðum þá sem setið hafa fastir, sem úrræðin okkar dugðu ekki á, sem var lánsveðshópurinn eins og nefnt var af ræðumanninum hér á undan, hv. þm. Katrínu Júlíusdóttur. Við ræddum líka ábyrgðarmennina þar sem menn lánuðu eða lögðu ábyrgð inn hjá fólki og menn sitja fastir. Það er jafnvel verið að ganga að fullorðnu fólki og taka af því húsnæðið vegna þess hvernig lánafyrirkomulagið var. Þeir hópar hafa ekki möguleika í þessum tillögum eins og þær liggja fyrir hér. Eru þeir alveg utanveltu?

Ég get haldið áfram. Þeir sem seldu eignir skömmu fyrir hrun, eins og var í tísku, losuðu eignirnar sínar, fóru inn í búmannafélög, fóru inn hjá öldrunarstofnunum eins og Eir og öðru slíku og skuldbundu sig þar, eiga engan rétt. Eru þeir utan við þetta? Það eru engar leiðréttingar fyrir þann hóp. Þeir sem keyptu eignirnar fá væntanlega þá leiðréttingu. Það er fullt af slíkum spurningum.

Hvernig ætlum við að leiðrétta það? Ég sagði það á sínum tíma, af því nú erum við að tala um forsendubrest sem er alveg hárrétt að varð hér, hér kom 20% skellur: Hvað með þá sem búa úti á landi og hafa fengið slíka skelli? Hér er fullt af þingmönnum af þeim svæðum. Og ef farið er yfir á Vestfirðina þar sem búast má við því að miðað við nýbyggingarkostnað geti menn selt eignirnar á 20–30% af virði húsanna. Þeim hefur aldrei verið hjálpað. Meira að segja bara í kraganum í kringum Reykjavík, strax úti á Reykjanesi, Grindavík, Akranesi, Selfossi vitum við að þegar við kaupum hús, þ.e. látum byggja yfir okkur, þá seljum við húsið með 20% afföllum á næsta ári. Það er eins og bíll. Við vitum af því. Er það forsendubrestur?

Á sama tíma gerðist það í Reykjavík á árunum 2004–2007 að húsnæði hækkaði um 50% á þremur árum. Síðan lækkaði það aftur en það fór aldrei niður í það sem áður var. Er það forsendubrestur? Mér finnst að menn þurfi að ræða svona hreinskilnislega vegna þess að við erum að reyna að ná utan um þetta mál. Við erum öll sammála um að við verðum að gera það. Við verðum að ná utan um málið til að reyna að komast út úr þessum vanda og ná sátt hjá þjóðinni ef við ætlum að komast eitthvað áfram.

Hvað með þá sem eru námsmenn og safna skuldum? Hvað með þá úttekt sem unnin var í tengslum við 110%-leiðina hjá Íbúðalánasjóði þar sem kom í ljós að þeir sem verst voru settir hjá Íbúðalánasjóði voru með meiri greiðslubyrði vegna annarra lána en húsnæðislána? Þeir voru með að meðaltali 90 þús. kr. í afborganir af íbúðarhúsnæði, nú er ég að tala um ársgamlar tölur, en þeir voru með allt upp í 80–90 þús. kr. í afborganir af öðrum lánum. Þessum aðilum verður ekki hjálpað með einhverjum flötum niðurfærslum. Það verður að gera eitthvað annað ef þeir eiga ekki að tapa húsinu sínu.

Margir höfðu fært skuldbindingar yfir á húsin þegar þessi hækkun varð. Þá notuðu menn veðandlagið til þess að auka skuldir. Á að breyta eitthvað út frá því o.s.frv.? Það er fullt af svona spurningum sem hefði verið gaman að ræða og vinna þannig að það kæmi inn í vinnuna. Menn svöruðu því hér með okkur, ekki endilega í þingsal, en þá inni í nefndum, því að hér eru t.d. húsnæðismálin sem fara inn í velferðarnefnd: Við eigum enga aðkomu að þessu aftur. Valið var að setja málið í þannig farveg að það er eiginlega ekki nokkur leið að taka málið til ítarlegrar umræðu.

Það finnst mér miður, einkum vegna þess að þarna er um að ræða stærsta málið og líka vegna þess að á sama tíma og menn ætla að fara út í þessar breytingar kvarta þeir yfir því að þurfa að draga til baka eitthvað sem við lofuðum til að bæta hag heimilanna vegna þess að þeir eru búnir að ákveða að taka tekjurnar út úr ríkissjóði með því að lækka veiðileyfagjald og lækka álögur, (Forseti hringir.) og þar með væntanlega hverfa frá gjaldfrjálsum tannlækningum, lagfæringum á fæðingarorlofi, hækkun á barnabótum (Forseti hringir.) og fleiru sem er fyrir heimilin (Forseti hringir.) þó að það sé ekki í formi húss.



[17:43]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég vil byrja á að óska nýkjörnum forseta vorum til hamingju með embættið þar sem ég hef ekki haft færi á því fyrr. Sömuleiðis nýjum hv. þingmönnum sem hér eru allmargir að stíga sín fyrstu skref í þingstörfunum. Við væntum auðvitað góðs af öllu saman.

Mig langar að spyrja í fyrsta lagi forseta eða fá það staðfest: Er ekki rétt að hér sé á ferðinni stjórnartillaga sem flutt er af hæstv. forsætisráðherra? Er það rétt hjá ræðumanni?

(Forseti (EKG): Alveg hárrétt.)

Það er rétt hjá ræðumanni, gott er að vita það. Þarna sé ég meira að segja hæstv. forsætisráðherra, gleður það mig ákaflega, því að mér þóttu þunnskipaðir ráðherrabekkirnir hérna í þessu stóra máli ríkisstjórnarinnar. En það er gott að sjálfur höfuðpaurinn er mættur til að svara fyrir málið og gleður mig mjög.

Í fyrsta lagi langar mig aðeins að nefna formið á málinu ef hæstv. forsætisráðherra mætti við bindast og væri kannski tilbúinn til að útskýra aðeins — það eru einhver önnur brýnni mál hér í hliðarsal sem ég heyri að teppa forsætisráðherra.

Mig langar örlítið til að grennslast fyrir um hvort hér sé að vænta einhvers konar nýbreytni í undirbúningi ríkisstjórnar að málum almennt, að hún hyggist sækja sér sérstaklega og aukalega umboð til þingsins eða hvatningu frá þinginu til góðra verka og vænta megi þess að það verði þá gert í fleiri tilvikum.

Ég hef aðeins velt fyrir mér þingræðislegu eða stjórnskipulegu gildi þessarar þingsályktunartillögu, sérstaklega út frá innihaldi hennar, og hvaða tilgangi hún í aðalatriði þjóni öðrum en þeim að vera einhvers konar hvatning til ríkisstjórnarinnar. En þá hlýtur ríkisstjórnin að hugsa málið þannig að hún þurfi á þeirri hvatningu að halda frá þinginu til að koma þessum verkum af stað.

Þegar litið er á innihaldið er inngangsmálsgreinin um að fela ríkisstjórninni að fylgja eftir aðgerðaáætlun í tíu liðum, sem er svo neðangreint. Þar er fyrsti liðurinn sá að settur verði á fót sérfræðingahópur sem útfæri mismunandi leiðir til að ná fram höfuðstólslækkun verðtryggðra lána.

Ég velti fyrir mér, hvað er það opið umboð sem þessi sérfræðingahópur hefur? Ber að líta svo á að það sé engin leiðsögn frá loforðum eða binding við loforð stjórnarflokkanna? Ég hef misskilið kosningabaráttuna eitthvað úr því þetta er svona. Ég taldi mig alltaf vera að lenda í rökræðum um þessi mál að þetta væri klappað og klárt og fyrir lægi hvernig þetta yrði gert og það strax í sumar. Þetta hefur greinilega skolast eitthvað til í kosningabaráttunni úr því að fara þarf að setjast yfir þetta núna og útfæra mismunandi leiðir. Er það þá sem sagt út af borðinu að farið verði í 20% lækkun allra verðtryggðra neytendalána eða a.m.k. húsnæðislána í sumar upp á 240 milljarða eða svo? Hvenær gufaði það upp? Var það daginn eftir kjördag?

Í öðru lagi. Mun stjórnarandstaðan eiga aðild að þessu starfi, þessum ótal sérfræðingahópum, verkefnisstjórnum og aftur sérfræðingahópum sem hér á að fara að skipa? Er ríkisstjórnin að sækja umboð til þingsins í þeim skilningi að hún ætli að hafa allt þingið með sér í þeirri vinnu? Verður stjórnarandstaðan höfð með í ráðum í sambandi við mönnun þeirra nefnda, starfshópa og verkefnisstjórna og hvað þetta nú allt er?

Mér telst til að það séu fimm nefndir í þessu eða sérfræðingahópar og verkefnisstjórnir að meðtalinni sérstakri ráðherranefnd. Ég geri nú ekki ráð fyrir að stjórnarandstaðan fái sæti í henni, en í hinum kannski eða gæti bent á hæfa sérfræðinga til að vera með í þessu starfi, menn sem nytu sérstaks trúnaðar stjórnarandstöðunnar.

Það er talsvert af úttektum á kostum og göllum og að kannað verði og aftur að kannað verði, maður spyr auðvitað sömuleiðis um það hvernig að því verði staðið. Nú kann þetta að hafa að einhverju leyti komið fram í umræðunni en ég held að gagnlegt væri, herra forseti, ef forsætisráðherra, sem hlýtur að geta tekið til máls aftur í lok umræðunnar, færi aðeins yfir þetta fyrir okkur svona í lokin, dragi þetta saman. Mér býður svo í grun að hann kunni að hafa fengið spurningar af þessu tagi eða hliðstæðar í umræðunni fram að þessu.

Ég vil sömuleiðis taka undir spurningu sem fram kom um lánsveðssamkomulagið og hvort þess sé ekki að vænta að fullnægjandi lögheimilda verði leitað á Alþingi á þessu sumarþingi til að efna það samkomulag. Það er auðvitað mjög brýnt því að lífeyrissjóðirnir vilja hafa vissu fyrir því að stjórnvöld fái í sínar hendur fullar heimildir til að efna sinn hluta samkomulagsins. Það var boðað þegar það var undirritað og formenn þáverandi stjórnarandstöðuflokka voru upplýstir um það að væntingar manna stæðu til þess að í góðri samstöðu mundi þingið á vorþingi færa framkvæmdarvaldinu fullnægjandi heimildir til að halda áfram að vinna það samkomulag til enda þannig að hægt væri að hefjast handa um að auglýsa eftir umsóknum um niðurfærslu lána hjá lánsveðshópnum svo að hann gæti seint um síðir fengið sína útfærslu af 110%-leiðinni. Mér finnst ómögulegt annað en að við fáum um það skýr svör hvort ekki standi til að efna þetta samkomulag þannig að sá hópur verði ekki skilinn eftir. Það mun engin áhrif hafa að sjálfsögðu þó að það samkomulag gengi til enda og sína leið þótt síðan ætti sér stað í framhaldinu einhver frekari niðurfærsla lána, einfaldlega vegna þess að þetta gerir lánsveðshópinn jafn settan eða nær því að vera jafn settan við alla þá sem búnir eru að fá 110% leiðréttingu sinna mála. Það hlyti að einfalda málin frekar en hitt að hann væri kominn á sama stað.

Ég vildi gjarnan að hæstv. forsætisráðherra ræddi aðeins um þetta við okkur eða svaraði þeim spurningum ef hann vildi vera svo vænn að gera það. Ég ætla þá að láta öðrum eftir það sem er afgangs af ræðutíma mínum, forseti, og þakka kærlega fyrir gott hljóð í salnum.



[17:49]
Frosti Sigurjónsson (F):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Svandís Svavarsdóttir lýsti skoðun sinni í ræðu áðan að henni þætti rétt að vísa þingsályktunartillögu sem hér um ræðir til velferðarnefndar fremur en til efnahags- og viðskiptanefndar sem ég veiti forstöðu. Eftir að hafa rætt það mál aðeins höfum við komist að því samkomulagi að verði málinu vísað til efnahags- og viðskiptanefndar muni ég sjá til þess að leitað verði álits hjá velferðarnefnd.



Till. gengur til síðari umr. 

Till. gengur til efh.- og viðskn.