142. löggjafarþing — 5. fundur
 13. júní 2013.
um fundarstjórn.

viðvera forsætisráðherra í umræðu.

[17:51]
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Herra forseti. Búin er að eiga sér stað umræða um grundvallarmál ríkisstjórnarinnar, kosningamálið sem Framsóknarflokkurinn vann sigur á. Forsætisráðherra hefur nú verið mismikið við hér í salnum. Hér hefur þingmaður eftir þingmann spurt hæstv. forsætisráðherra spurninga út í þá þingsályktunartillögu sem nú á að fara til vinnslu í þinginu og hæstv. ráðherra lætur ekki svo lítið að koma hingað í lokaræðu og svara hv. þingmönnum. Þetta er stórkostlegt hagsmunamál fyrir íslenskan almenning en ekki síður fyrir ríkissjóð og ýmislegt annað sem við eigum nú að bera ábyrgð á í þessu þingi. Mér finnst það mjög slæm nýlunda að hæstv. forsætisráðherra láti ekki svo lítið í þessu burðarmáli flokks hans og ríkisstjórnarinnar að koma hingað í lokaræðu og svara spurningum þingmanna.



[17:52]
Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég tek undir umkvörtunarefni hv. þm. Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur vegna þess að fyrr í dag heyrðum við nokkrir þingmenn hæstv. forsætisráðherra segja í andsvari að hann mundi svara nánar ákveðnum spurningum í lokaræðu sinni. Það voru fleiri en ég sem heyrðu það og þess vegna gerði ég ekki kröfu um það þegar ég flutti mál mitt áðan þar sem ég var með beinar spurningar til hæstv. forsætisráðherra að hann kæmi hingað, heldur bara að spurningunni yrði komið á framfæri við hann þannig að hann hefði hana þá með í þessari boðuðu lokaræðu.

Ég geri við það alvarlegar athugasemdir vegna þess að ég vil ekki þurfa að taka upp á því sem mér hefur þótt plagsiður að láta alltaf kalla menn til og þeir sitji í sæti við hliðina á mér undir ræðum mínum. En ef þetta er lenskan, að menn standi ekki við það sem þeir boða þá hljótum við þingmenn að þurfa að hafa það í huga.



[17:53]
Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegi forseti. Auðvitað hefur maður saknað ýmissa ráðherra við umræðuna í dag og er athyglisvert að formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármálaráðherra skuli ekki taka þátt í umræðunni í jafn gríðarlega miklu útgjaldamáli og hér er á ferðinni. Það er eins og þetta sé einhvern veginn einkamál Framsóknarflokksins í þingsalnum.

Það er rétt sem fram kemur hjá síðasta ræðumanni, hv. þm. Katrínu Júlíusdóttur, að ég heyrði hæstv. forsætisráðherra greina frá því í ræðustóli að hann mundi koma hér í lok umræðunnar og bregðast við því sem fram hefði komið. Þegar ég var inntur eftir því af þingmönnum mínum hvort hann væri ekki viðstaddur umræðuna eða yrði til svara í ræðum þeirra þá upplýsti ég þá um að hann mundi koma hingað í lok umræðunnar og bregðast við því sem til hans væri beint. Ég verð að segja að það er miður að þetta fari svona af stað, að orð hæstv. forsætisráðherra um að hann muni svara þingmönnum með þessum hætti haldi ekki í stærsta máli ríkisstjórnarinnar á fyrstu dögum þingsins. Þetta mætti sannarlega vera betra.



[17:54]
Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég tek undir þær athugasemdir sem hér hafa komið fram og ég held að það sé ofmælt að segja að umræðu sé lokið þegar svona er. Hér eru margar spurningar sem enn þá eru opnar og ekki hefur verið svarað. Ég tek undir þann skilning sem komið hefur fram að hæstv. forsætisráðherra ætlaði og kvaðst mundu svara spurningum og fara yfir álitamál í lok þessarar mikilvægu umræðu. Mér finnst það ekki góðs viti hvað varðar samskipti forsætisráðherra við þingið þau andsvör og samskipti sem áttu sér stað í upphafi umræðunnar og svo það að hæstv. ráðherra skuli hunsa umræðuna með því móti sem verið er að gera hér þegar hann talar um samstarf og sanngirni í hinu orðinu.