142. löggjafarþing — 5. fundur
 13. júní 2013.
Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu, frh. 1. umræðu.
stjfrv., 11. mál (val stjórnarmanna). — Þskj. 11.

[17:56]
Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að kanna við hæstv. forseta hvort hæstv. menntamála- og menningarmálaráðherra sé til staðar í húsinu og hyggist taka þátt í umræðunni eða a.m.k. fylgjast með henni og jafnvel svara fyrirspurnum ef einhverjar slíkar skyldu nú hrjóta hér af vörum þingmanna. Er hæstv. ráðherra í húsinu?

(Forseti (EKG): Hæstv. ráðherra er í húsinu og ætti að hafa aðstöðu til að fylgjast með umræðunni.)

Ég þakka hæstv. forseta fyrir þau svör.

Hér er sem sagt til umræðu frumvarp til laga um breytingu á lögum um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu, breyting á lögum nr. 23/2013, sem samþykkt voru nú skömmu fyrir kosningar.

Frumvarp það sem var til umfjöllunar á síðasta þingi og hafði svo sem verið til umfjöllunar í þinginu nokkuð lengi var samþykkt í góðu samkomulagi stjórnmálaflokkanna á Alþingi. Það studdu það allir flokkar utan Sjálfstæðisflokks. Þrír eða fjórir þingmenn Sjálfstæðisflokksins greiddu atkvæði gegn málinu en flestir sátu hjá við afgreiðslu málsins, þar á meðal hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra, þannig að ekki var það nú á forgangslista hæstv. núverandi mennta- og menningarmálaráðherra að þetta yrði hans fyrsta mál á nýju kjörtímabili ef hann hefði aðstöðu til þess og kæmist í þetta hlutverk.

Þessi lög eru sem sagt ný af nálinni. Þau hlutu góðan stuðning í þinginu og voru meira að segja svo góð og umdeild, þótt þau séu á fjölmiðlasviði, að þau hlutu staðfestingu forseta lýðveldisins. (Gripið fram í: Óvanalegt um fjölmiðlalög.) Það er óvenjulegt um fjölmiðlalög, það mætti kannski segja það. Hver veit nema þetta frumvarp, ef að lögum verður, hljóti sömu örlög og ýmis fyrri á þessu málasviði þegar þar að kemur, ef þar að kemur? En látum það liggja milli hluta.

Hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra taldi það a.m.k. ekki sérstaklega brýnt fyrir kosningar í vor að gera breytingar á þessum lögum, ekki kom neitt slíkt fram af hans hálfu. En hæstv. ráðherra sagði hér í umræðu fyrr í dag: „Þegar ég sá hvaða fólk hafði verið tilnefnt …“ Og nú er spurningin: Var það þess vegna sem hæstv. menntamálaráðherra lagði fram frumvarpið, þ.e. þegar hann sá hvaða fólk var tilnefnt í valnefnd? Sá hann þá tilefni til þess að koma fram með frumvarp um að breyta lögunum á skipan Ríkisútvarpsins? Var það þess vegna? Honum var a.m.k. mjög tíðrætt um fulltrúa Bandalags íslenskra listamanna í valnefndinni, fyrrverandi hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur. Það var eins og það væri alveg sérstök ástæða fyrir því að hæstv. ráðherra hefði flutt þetta frumvarp nú.

Það kemur mér líka á óvart að Framsóknarflokkurinn, sem studdi málið á þingi í vor, skuli hafa ljáð máls á því að þetta færi inn í þingið sem stjórnarfrumvarp strax á fyrstu dögum sumarþings sem maður hefði gert ráð fyrir að ætti að vera lagt undir brýnustu mál stjórnarflokkanna að afloknum kosningum. Ég hefði haldið að það væru brýnustu kosningaloforð þeirra að því er varðar hagsmuni heimilanna sem kæmu til umfjöllunar á sumarþingi.

Þess vegna verð ég að segja að ég er mjög undrandi á því að Framsóknarflokkurinn skuli hafa ljáð máls á því. En við eigum enn eftir að heyra sjónarmið framsóknarmanna almennt í þessu máli í umræðunni og væntanlega í þingnefnd þegar það kemur þangað hvort þeir hafa algerlega snúið við blaðinu hvað þetta áhrærir eða hvort það verður einhver fyrirstaða á þeim vettvangi fyrir því að málið hljóti brautargengi eins og það er lagt fyrir þingið.

Ég vil í meginatriðum vísa efnislega í þá umfjöllun sem hv. þm. Katrín Jakobsdóttir fór yfir í ræðu sinni fyrr í umræðunni þar sem hún rakti mjög vel aðdraganda og tilurð þessa frumvarps, hvaða sjónarmið hefðu verið uppi varðandi breytingar á stjórn Ríkisútvarpsins og hvaða sjónarmið það hefðu verið að reyna að draga fleiri að, ekki endilega til að skilja algerlega á milli stjórnmálasjónarmiða og svokallaðra faglegra sjónarmiða heldur að tryggja breiðari aðkomu að stjórn Ríkisútvarpsins m.a. úr menningargeiranum og úr háskólasamfélaginu.

Þau orð sem hæstv. ráðherra lét falla í umræðunni í morgun um að hætt væri við því að ráðherra menntamála gæti beitt áhrifum sínum í háskólum, á háskólasamfélagið til þess að hafa áhrif á það hverjir yrðu valdir í valnefnd finnast mér lýsa mjög sérstöku viðhorfi hæstv. ráðherra til háskólanna og lítils trausts á því að þeir starfi sjálfstætt og láti ekki segja sér fyrir verkum. Mér finnst það vera lítilsvirðing við háskólastigið að tala með þessum hætti. Að sjálfsögðu getur háskólastigið tilnefnt fulltrúa sína þarna á sínum faglegu forsendum, sjálfstæðum og óháðum forsendum. Ég tel að ráðherrann sé á villigötum hvað þetta snertir.

Hér er sem sagt verið að leggja til að fara aftur í gamalt far og kjósa alla stjórnarmenn í Ríkisútvarpinu á Alþingi. Ráðherrann hefur fært þau rök fyrir því að það sé mikilvægt að það sé milliliðalaust pólitískt umboð sem stjórn Ríkisútvarpsins hefur frá kjörnum fulltrúum á Alþingi þannig að þeir sem kjósa þessa fulltrúa geti staðið til svara gagnvart kjósendum, verði einhver mistök í starfi.

Gott og vel. Það er auðvitað ákveðið sjónarmið, en það kemur samt sem áður ekki í veg fyrir að stjórn Ríkisútvarpsins sé skipuð á breiðari grundvelli en hinum pólitískt kjörna vettvangi Alþingis einum saman. Það kemur ekki í veg fyrir að fleiri geti komið þar að til þess að breidd sé í þeim viðhorfum og sjónarmiðum sem koma saman í stjórn Ríkisútvarpsins. Það tel ég einmitt að lögin sem enn eru í gildi geri, því að þau tryggja í fyrsta lagi hæstv. menntamálaráðherra tengingu með því að hann skipar formanninn. Þau tryggja að einhver tenging er við Alþingi með því að allsherjar- og menntamálanefnd tilnefni fulltrúa í valnefndina, þrjá fulltrúa að ég hygg, og síðan á það sem sagt breiðari aðkomu með því að Bandalag listamanna og háskólasamfélagið tilnefni inn í valnefnd.

Nú er ekki sjálfgefið að valnefndin velji fólk úr sínum innstu röðum, það er enginn áskilnaður um slíkt í lögunum. Það er að vísu ekki óeðlilegt að listamaður komi inn í stjórnina sem sé nefndur af valnefndinni, eða þá fólk úr háskólasamfélaginu, það er ekki áskilnaður um það. Að sjálfsögðu getur valnefndin litið mjög breitt yfir það svið og valið einstaklinga sem hún telur að hafi góða þekkingu á fjölmiðlum almennt, á rekstri, á menningarmálum, því að þetta er auðvitað ein af okkar mikilvægustu menningarstofnunum.

Ég tel því að það fyrirkomulag sem sett var með lögunum í vor hafi náð að fanga þessi ólíku sjónarmið og ólíka nálgun á málið með ágætlega góðum hætti án þess að gengið sé á það sem hæstv. ráðherra talaði um, að væri einhver pólitísk ábyrgð á stjórn Ríkisútvarpsins.

Ég verð að segja það fyrir mína parta, herra forseti, að ég tel að hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra sé á villigötum með málið og að þetta sé ekki brýnt mál og geti varla verið brýnasta málið sem ríkisstjórnin leggur inn í þingið á sumarþinginu, það bara getur ekki verið. Það kann að vera eitthvert metnaðarmál hæstv. ráðherra, en ég hlýt að velta því fyrir mér hvort þetta verði nú efst á forgangslistanum þegar ríkisstjórnin þarf að fara að gera það upp við sig hvað hún ætlar að fá afgreitt á þessu þingi og hvað ekki.

Þegar lögin eru í raun að taka nú gildi eða komast til framkvæmda með því að tilnefningaraðilar eru búnir sumir hverjir að tilnefna í valnefndina samkvæmt gildandi lögum hefði ég talið affarasælla fyrir hæstv. ráðherra að láta það ferli ganga í samræmi við lögin og fá þá reynslu á þetta fyrirkomulag og gefa því einhvern séns þannig að það væri hægt að segja eftir einhvern reynslutíma hvort fyrirkomulagið gefst vel eða illa. Það séu þá einhver slík rök ef hæstv. menntamálaráðherra mundi vilja gera breytingu á því á síðari stigum að hann geti vísað til þess að reynslan af fyrirkomulaginu sé ekki góð eða eitthvað þess háttar, í staðinn fyrir að ana fram á sumarþinginu með breytingar án þess að hafa látið á það reyna hvernig það fyrirkomulag sem góð samstaða var um — ég ítreka: góð samstaða var um hér í þinginu í vor, hefði átt að tryggja.

Málið er komið fram og mun væntanlega ganga til allsherjar- og menntamálanefndar. Ég tel mikilvægt að hv. allsherjar- og menntamálanefnd fari rækilega í saumana á þeim rökstuðningi sem liggur á bak við það að gera þessa breytingu áður en lögin koma raunverulega til framkvæmda, að hún óski umsagna væntanlega allra þeirra aðila sem veittu umsögn um fyrra frumvarpið þegar það var til umfjöllunar, að hún kalli til sín gesti og fái að heyra sjónarmið þeirra sem komu hér að málum, þeirra sem eiga bersýnilega að eiga rödd í umræðunni um Ríkisútvarpið þannig að farið verði vandlega yfir það. Ég geng út frá því að það verði ítarleg umræða um það þegar málið kemur úr nefnd, ef það kemur úr nefnd, sem mun væntanlega byggja að einhverju leyti á þeim viðhorfum og sjónarmiðum sem fram koma í umsögnum um málið.

Ég geld varhuga við því að málið sé keyrt áfram á sumarþinginu. Ég tel í raun engar efnislegar forsendur hafa komið fram. Ég tel að um málið hafi verið góð samstaða á síðasta þingi. Í raun vorum við í miðju ferli við að láta lögin koma til framkvæmda með skipan valnefnda og annað slíkt, þannig að mér finnast þetta ekki góð vinnubrögð. Ég hvet hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra til þess að íhuga og ígrunda þetta mál nú einnig miðað við þau viðhorf sem komið hafa fram í umræðunni á meðan málið er í vinnslu í þinginu.



[18:08]
mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel nauðsynlegt að bregðast við fullyrðingum hv. þm. Árna Þórs Sigurðssonar þar sem hv. þingmaður segir að ég hafi tekið þessa ákvörðun eftir að ég sá hverjir voru tilnefndir. Það er alrangt. Ég sagði það hvergi. Ég sagði einfaldlega að þegar ég settist yfir málið þegar ég kom í embætti hafi ég sannfærst um að það fyrirkomulag sem lagt var upp með væri ekki heppilegt og hefði umtalsverða galla og því hafi ég talið nauðsynlegt að bregðast við með því að leggja fram þetta frumvarp.

Ég veit ekki hvort hv. þingmaður trúir því sem ég ætla að segja núna. Ég ætla samt að segja honum það, virðulegi forseti. Ég áttaði mig á því kl. 11.06 í dag hverjir hefðu verið tilnefndir, það var nákvæmlega þá sem ég bað um að mér yrðu afhentar upplýsingar um tilnefningarnar. Ég hafði ekki fyrr áttað mig á því að upplýsingarnar væru komnar. Þær voru prentaðar út fyrir mig og ég sé það bara á tímasetningunni á blaðinu klukkan hvað það var, þess vegna get ég sagt nákvæmlega til um hvenær það var. Fyrr hafði ég ekki hugmynd um hverjir væru tilnefndir. Ég veit að það eru nú bara mín orð en ég er með þennan pappír hér.

Aðalatriðið er að þetta hefur ekkert að gera með það hverjir hafa verið skipaðir núna eða ekki. Það er bara spurningin um hvort maður telur að það valnefndarfyrirkomulag sem lagt er upp með þarna sé heppilegt eða ekki. Ég er ósammála því. Það hefur reyndar komið fram í umræðunni að tilgangurinn hafi ekki endilega verið sá að aftengja pólitíkina, að armslengdarsjónarmiðið hafi búið að baki, heldur var hugsunin meira sú að breikka samráðsvettvanginn um hvernig mynda skyldi stjórnina. Gott og vel. Ég ítreka það sem ég benti á áðan að þessi vettvangur með 63 þingmönnum sem vissulega skiptast í flokka og hver flokkur, einnig sá flokkur sem ég tilheyri, sem er með 19 þingmenn, þarf að setjast niður og taka afstöðu. Þetta fólk kemur alls staðar að af landinu og er með víðtæka reynslu, menntun og ólíkan bakgrunn. Ég held að þessi hópur, 63 þingmenn, geti tekið mjög upplýsta og góða ákvörðun. Ég held hann sé breiðari vettvangur en sá sem lagt er upp með í núgildandi lögum, virðulegi forseti.



[18:11]
Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef nú átt nokkuð gott og langt samstarf við hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra á Alþingi. Eins og hann veit er ég mjög sanngjarn maður. Ég hef tilhneigingu til þess að segja hið sama um hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra eins og hann á kyn til þannig að ég vil alveg trúa því sem hann segir hér um tímasetningarnar sem hann les upp úr síma sínum og er ekkert meira um það að segja. Ekki ætla ég að rengja það eitt augnablik. Ég segi bara að ég skráði niður hjá mér þessi orð: „… sá hvaða fólk var tilnefnt“. Ég mun kanna það þegar ræðan verður aðgengileg nákvæmlega í hvaða samhengi þau orð voru látin falla og hvor okkar hefur rétt fyrir sér. Ég ætla ekki að fara að kýta við hæstv. ráðherra um það. Ég ætla að láta hann njóta vafans í því efni, mér finnst það sanngjarnt.

Hitt er svo annað mál að við erum einfaldlega ósammála um það efni sem hæstv. ráðherra talar um, að hann telur mikilvægt að það séu bein pólitísk tengsl og að stjórn Ríkisútvarpsins sé algjörlega pólitískt tengd við Alþingi.

Eins og fram kom hjá hv. þm. Katrínu Jakobsdóttur var ekki hugsunin endilega sú að skilja algerlega að pólitíkina, það ætti að sjálfsögðu að vera einhver pólitísk tenging, en hugsunin var að breikka aðkomuna. Og það er það sem við erum í raun að halda fram sem sjónarmiði inn í umræðuna að hafi verið tilgangur laganna, það nái utan um ólík sjónarmið, m.a. það sjónarmið sem hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra er með, a.m.k. að hluta til, kannski ekki að fullu leyti en að hluta til.

Af því að það var breið samstaða um málið á þingi í vor teljum við ekki skynsamlegt eða tilefni til þess að fara að gera breytingu hvað þetta varðar.



[18:13]
mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil ítreka það sem ég hef áður sagt að ákvörðun mín um að leggja fram þetta frumvarp byggði á þeim efnislegu rökum sem ég hef rakið. Það gæti aldrei verið þannig að ég byggði ákvörðun mína á hvaða nöfn hafa síðan verið tilnefnd, það væri auðvitað alveg út í hött.

Ég hef líka sagt það hér í ræðu að ég treysti afskaplega vel þeim einstaklingum sem þarna hafa verið tilnefndir. Ég held t.d. að Kolbrún Halldórsdóttir, formaður Bandalags íslenskra listamanna, sé mjög vel hæf í þetta, jafn hæf hvort sem það er setið hér inni eða í Bandalagi íslenskra listamanna. Sama gildir um tilnefninguna sem kom frá háskólanum. Þetta er afskaplega hæft fólk. Það er ekki það sem ég hef áhyggjur af eða geri ágreining um, það er kerfið, fyrirkomulagið.

Þá verð ég bara að segja það enn og aftur, virðulegi forseti, þannig að það skiljist nú alveg örugglega: Ég tel hættu fólgna í því að vera með þetta valnefndarfyrirkomulag — það sé hætta sem geti myndast með að menn búi sér til falskt öryggi um að það séu t.d. ekki pólitísk afskipti af Ríkisútvarpinu. Ég rakti það í máli mínu.

Af því að því var nú velt upp hér í annað sinn að mönnum fyndist það undarlegt að ég hefði tekið það fram í ræðu minni að það væri t.d. hætta á því að einhver menntamálaráðherra reyndi að beita áhrifum sínum í þessu máli er það einmitt málið að ég held að það eigi vel að vera hægt að sjá fyrir sér þá stöðu, því miður. Við þekkjum báðir ég og hv. þingmaður hvernig pólitíkin getur gengið fyrir sig og hvernig harka getur hlaupið í mál. Það er ekkert útilokað að slíkt geti gerst. Það bara vill þannig til með akkúrat þessa tvo aðila, tilnefningaraðila, Bandalag íslenskra listamanna og Háskóla Íslands, að þeir eiga dálítið mikið undir samskiptum sínum við ráðherrann.

Ég er ekki að fullyrða að svona lagað mundi geta gerst, en ég er bara að segja að við eigum að hafa kerfið þannig að það sé gagnsætt og það sé yfir þennan vafa hafið með sem bestum hætti.

Svo vil ég nefna það varðandi þá sem sitja núna í stjórn útvarpsins, ég man bara eftir því að hjá okkur sjálfstæðismönnum var Magnús Geir Þórðarson leikhússtjóri, sem kemur einmitt úr þessum menningargeira, dæmi um val okkar hér, sem ég mundi segja (Forseti hringir.) að sýni bara það hvernig við höfum tekið á þessu hvað varðar t.d. menningarmálin. Hví skyldi Alþingi Íslendinga ekki geta staðið að því (Forseti hringir.) að skipa slíka nefnd? Okkur er nú treyst fyrir að setja lög í landinu sem fólk á að fara eftir. Hví (Forseti hringir.) skyldi okkur ekki vera treyst fyrir þessu verkefni?



[18:15]
Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Eins og ég segi er þetta sjónarmið og ég heyri hvað hæstv. ráðherra er að segja og hvernig hann rökstyður viðhorf sín í þessu efni. Ég er ekki fullkomlega sammála honum hvað þetta snertir og tel að það fyrirkomulag sé heppilegra sem valið var á þinginu í vor þar sem reynt er að ná utan um hvort tveggja. Það sjónarmið sem hæstv. ráðherra hefur hér uppi um að það sé eðlilegra að þingið kjósi þessa stjórn að öllu leyti og að þingið geti að sjálfsögðu leitað eftir fagfólki, ef svo má að orði komast eða fólki með sérstaka þekkingu á ákveðnum málefnum — auðvitað getur þingið gert það, við gerum það iðulega. Við erum að kjósa hér — að vísu er ekkert mjög mikið orðið um að kosið sé í stjórnir eða annað slíkt í þinginu, en einhverjar leifar eru eftir af því. Það var miklu meira um það áður. Hér var kosið í stjórnir fyrirtækja ríkisins, í bankaráð o.s.frv. og það var lagt af.

Þess vegna velti ég því upp í umræðunni í dag og ég fór í andsvar við hæstv. ráðherra um hvort þetta boðaði þá tíma að ríkisstjórnin mundi í vaxandi mæli koma með frumvörp á öðrum sviðum þar sem gert væri ráð fyrir því að Alþingi kysi stjórnir eða ráð eða nefndir til þess að fara með málefni einstakra stofnana eða fyrirtækja. Ráðherrann svaraði því reyndar í dag. Ég veit að hann hefur ekki tækifæri til að koma hér aftur þar sem andsvörum er lokið. Það verður fróðlegt að sjá hvernig það þróast og hver framtíðin verður í því efni.

Eins og ég segi munum við að sjálfsögðu taka þetta mál til gaumgæfilegrar skoðunar í hv. allsherjar- og menntamálanefnd og kalla eftir umsögnum og fá gesti til þess að ræða málið við og taka síðan frekari umræðu um málið við 2. umr.



[18:17]
Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Ég ætla að byrja á því að óska hæstv. ráðherra Illuga Gunnarssyni velfarnaðar og gæfu í starfi þannig að það reyni mikið á ráðherra á næstu árum.

Sú umræða sem er fyrir framan mig er mjög skrýtin en það hefur sínar ástæður. Ríkisútvarpið starfar sem fjölmiðill í einkaeigu, þ.e. í eigu eins aðila sem er ríkið og hann hefur sömu eiginleika og aðrir fjölmiðlar í einkaeigu. Þess vegna hafa menn verið að setja fjölmiðlalög víða um lönd til þess að takmarka völd og áhrif eigandans á fjölmiðilinn. Jafnframt er Ríkisútvarpið mjög verndað, fær 18.800 kr. í útvarpsgjald frá hverjum einasta Íslendingi og öllum fyrirtækjum, þar á meðal frá hestum sem hlutafélag er um og það þarf í raun ekki að óttast neitt. Eins og alltaf þegar menn búa við þannig stöðu er hætta á að þeir tréni og staðni. Fyrir mér er Ríkisútvarpið eins konar risaeðla aftan úr forneskju sem drepur alla samkeppni í kringum sig, enda er mjög lítil gróska utan Ríkisútvarpsins á fjölmiðlamarkaði vegna þess að samkeppnin er nánast útilokuð. Ég furða mig á þeim fjölmiðlum sem reyna að fara í samkeppni við ríkisútvarp sem nýtur slíkra styrkja og er auk þess með ríkið sem bakhjarl.

En, herra forseti, ég óttast eigi. Ég býst nefnilega við því og hef upplifað það að netið er vonin. Ég horfi miklu meira á þýskar sjónvarpsstöðvar en á íslenska sjónvarpsstöð og fæ allt aðra sýn á heiminn. Ég fylgist mjög mikið með og tíni upp fréttir héðan og þaðan og er ekkert háður því hvernig kaupin gerast á eyrinni hjá RÚV.

Ríkisútvarpið er ohf. Það segir mér að það er hlutafélag. Í hlutafélögum er það þannig að eigendur eða eigandi ræður stjórninni á hluthafafundi, en ekki hér, ekki samkvæmt þeim lögum sem samþykkt voru í vor. Samkvæmt þeim á einhver valnefnd að velja fyrir hluthafafundinn hverjir eiga að fara í stjórn. Það er náttúrlega alveg fáránlegt, fyrir utan það sem bent hefur verið á í umræðunni að það er spurning hvort hægt sé að taka þá ákvörðun frá ráðherra sem ber svo ábyrgð á gjörðum þeirrar stjórnar sem valnefndin kýs. Þarna er því farið mjög rangt að, finnst mér.

Ég var á móti frumvarpinu þegar það var lagt fram í vor, ég greiddi atkvæði gegn því, svo það sé á hreinu, einn af þessum fjórum, og er ánægður með það. Ég hefði talið að ef menn vildu leita að einhverjum fulltrúum almennings væri nú einn sjálfkjörinn sem alltaf talar um sig sem fulltrúa almennings, þ.e. ASÍ, eða SA eða Verslunarráðið eða Viðskiptaráðið eða hver sem er, þannig að það eru margir aðilar til kallaðir til að vera fulltrúar almennings.

Hvers vegna eru menn að vandræðast með fjölmiðlalög og eignarhald og annað slíkt? Það er vegna þess að menn telja að til hliðar við löggjafarvald, framkvæmdarvald og dómsvald, hinar þrjár meginstoðir valdsins, sé komið fjórða valdið, fjölmiðlar, og það er ekki hvað síst. Þess vegna hafa menn um allan heim miklar áhyggjur af eignarhaldi fjölmiðla og hvernig eigandi getur haft áhrif á ritstjórnarstefnu fjölmiðla jafnvel þó að hún sé tryggð með lögum.

Menn vita yfirleitt hver borgar saltið í grautinn þeirra. Háskólamenn vita hverjir standa að fjárveitingum. Háskólamenn vita hvern á að hafa góðan ef þeir ætla að fara í einhver verkefni, stækka skólann sinn eða eitthvað slíkt. Það á að hafa ríkisstjórnina góða og alveg sérstaklega fjármálaráðherrann. Ef svona valnefnd kemur upp þekki ég mannlegt eðli svo vel að menn mundu ekki fara að stuða ríkisstjórnina með því að fara að tilnefna eitthvert fólk sem er greinilega andsnúið ríkisstjórninni. Það er nú bara þannig. Þannig er mannlegt eðli.

Þess vegna er allt tal um óhæfi og annað slíkt, að háskólasamfélagið sé óháð og annað slíkt ekki rétt, það er ekki þannig á meðan það er greitt af ríkinu.

Ég held því að valnefndin muni hegða sér alveg nákvæmlega eins og Ríkisútvarpið sjálft. Um leið og stjórnarskipti verða vita menn hvernig þeir þurfa að breyta fréttaflutningnum, þeir vita það. Þeir vita nákvæmlega hver getur breytt lögunum um fjárveitingar, hver getur skorið niður, hver getur minnkað o.s.frv. og hver getur aukið. Það er ósköp mannlegt. Þess vegna eru menn alls staðar að ræða um fjölmiðlalög. Ríkisútvarpið hefur það einkenni að það er einn eigandi og það er einhver sem stýrir þeim eiganda. Það er forsætisráðherra og ríkisstjórn. Það getur vel verið að menn séu svo óskaplega skoðanalausir og sjálfstæðir að þeir geti unnið gegn því, en ég held að hið mannlega eðli komi nú yfirleitt alltaf í gegn.

Hvorki RÚV né HÍ eru því óháðir aðilar. Það er alltaf einhver sem borgar þeim mönnum laun sem þar starfa og sem getur stuðlað að auknum framgangi, auknum verkefnum, meiri umsvifum o.s.frv. eða öndvert.

Þess vegna hef ég talið að þetta fyrirkomulag, þessi fjölmiðill, RÚV, sé bara nákvæmlega eins og aðrir fjölmiðlar og hafi ekkert sérstakt að gera. Þess vegna er ég alltaf dálítið óhress með að hengja við heitið „fjölmiðill í almannaþágu“. Mér finnst það bara, ég veit ekki hvað ég á að segja um það. Ég mundi bara segja: Þetta er fjölmiðill í þágu menntamálaráðherra. Það væri ef til vill langskynsamlegast ef menn ætla að hafa eitthvert viðhengi.

Ég man þá tíð er hér voru Tíminn og Þjóðviljinn og Morgunblaðið og það var alveg kristaltært fyrir hvað þeir stóðu. Maður las Tímann með þeim gleraugum að þar væri allt saman grænt, framsóknar-eitthvað og maður las Þjóðviljann með þeim gleraugum að þar væri eitthvað rautt, vinstri sinnað eitthvað, ég vil ekki segja kommúnistar. Og maður las Morgunblaðið með þeim augum að það væri eitthvað blátt, atvinnurekendur og eitthvað slíkt. Menn vissu það. Ég hlusta alltaf á RÚV með þessum heyrnartækjum, grænum, rauðum, eftir því hver er í ríkisstjórn. Núna þarf ég allt í einu að fara að skipta um því að ég geri ráð fyrir því að núna sé RÚV orðið blátt eða blágrænt, fyrirgefið, herra forseti, það er blágrænt.

Þess vegna hef ég flutt nokkrum sinnum frumvörp um að selja RÚV, taka skrefið til fulls og selja það fyrirtæki. Það er ágætisfyrirtæki. Ég ætlaði meira að segja starfsmönnum að hafa forkaupsrétt á sérstaklega lágu verði á hlutabréfunum vegna þess að fyrirtækið er ekkert annað en starfsmennirnir. Ég er viss um að þegar RÚV hf. í einkaeigu — í eigu starfsmannanna til að byrja með, þeir geta svo selt það ef einhver vill kaupa — stendur sig vel mundu þeir geta plumað sig eins og aðrir fjölmiðlar í landinu. Ég ætla að minnka styrkina hægt og rólega til þeirra þannig að þeir mundu aðlagast. Við fengjum allt í einu heilmikið af grósku í fjölmiðlaflórunni. Ég ætlaði meira að segja að hafa sömu peningana. Ég ætlaði að bjóða það allt saman út, að útvarpsráð starfaði áfram en byði út fréttaflutning, öryggismál, barnaefni o.s.frv. Þá gætu allir boðið í það og allir farið að starfa. Þá yrði nú aldeilis fjör á Íslandi. En sú hugmynd fékk nú ekki brautargengi. Kannski kemur að því að risaeðlan fellur um koll og það þarf að gera eitthvað, hver veit?



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til allsh.- og menntmn.