142. löggjafarþing — 12. fundur
 25. júní 2013.
ráðstafanir í ríkisfjármálum, frh. 2. umræðu.
stjfrv., 1. mál (virðisaukaskattur á ferðaþjónustu). — Þskj. 1, nál. 32, 33, 34 og 35.

ATKVÆÐAGREIÐSLA

[14:48]

[14:42]
Pétur H. Blöndal (S) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Við tökum til baka þá breytingu sem gerð var í vor að bæta við nýju virðisaukaskattsþrepi, 14%, til viðbótar við þau fjögur sem voru til staðar áður. Þau fjögur eru 25,5%, 7%, 0% með endurgreiðslum og enginn virðisaukaskattur þar sem innskattur er ekki til frádráttar. Ég fagna því að einfalda eigi skattkerfið aftur og styð þessa tillögu og mun greiða henni atkvæði mitt.

Auk þess sem þetta mun auka samkeppnishæfni ferðaþjónustunnar og hugsanlega auka ferðamannastraum til Íslands umfram það sem ella væri mun þetta koma landsbyggðinni sérstaklega til góða en hún stefnir á að reyna að auka ferðaþjónustu á veturna.



[14:43]
Svandís Svavarsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Við greiðum atkvæði um frumvarp til laga um breytingu á lögum um ráðstafanir í ríkisfjármálum. Um er að ræða verulegt tekjutap fyrir ríkissjóð. Með þessu máli, að viðbættum öðrum málum sem ríkisstjórnin er hér með, erum við að tala um að ríkissjóður sé að afsala sér tekjum sem nemur um 10 milljörðum króna á þessu ári og næsta — með stórlækkuðum veiðigjöldum, og hér eru tvö mál sem leiða til þess að tekjur ríkissjóðs fara niður um 12 milljarða á þessu ári og því næsta.

Hér er verið að ræða um atvinnugrein, ferðaþjónustu, í miklum vexti, fjölda erlendra ferðamanna sem hefur tvöfaldast á tíu árum — samkeppnisstaða greinarinnar er sterk. Með vísan til þessara sjónarmiða og annarra þeirra sem fram koma í nefndaráliti 1. minni hluta leggst þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs gegn frumvarpinu.



[14:44]
Guðmundur Steingrímsson (Bf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Stundum getur verið skynsamlegt að lækka skatta til að auka umsvif og stækka kökuna. En hér erum við að tala um atvinnugrein þar sem umsvif eru mikil og uppgangur er mjög mikill, væntanlegur.

7% virðisaukaskattur, vegna uppgjörs á inn- og útskatti, skilar nánast engu í ríkissjóð. 14% skattur, það er áætlað að hann skili um 500 milljónum á þessu ári, 1,5 milljörðum á því næsta. Fyrr á þessum þingfundi hefur verið talað dálítið um bága stöðu ríkissjóðs og nauðsyn aga í ríkisfjármálum. Ég sé þau sjónarmið ekki liggja til grundvallar frumvarpinu. Hér erum við einfaldlega að afsala okkur tekjum að ástæðulausu og ég þori að veðja að við verðum ekki sátt við að hafa gert það þegar við ræðum ýmsar upphæðir, ýmiss konar skort á fjármunum í fjárlögum næsta árs.



[14:45]
iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það er mjög mikilvægt að draga úr flækjustiginu og draga þessa skattlagningu til baka. Við gagnrýndum það mikið, þáverandi stjórnarandstaða, þegar ríkisstjórnin ákvað að setja stefnumótun um skattlagningu á ferðaþjónustuna á í fjárlagafrumvarpinu án samráðs við greinina sem búin var að selja afurð sína ár fram í tímann. Svona á maður ekki að vinna að stefnumótun, svona á maður ekki að vinna að breytingum í skattkerfinu og þess vegna fagna ég því mjög að þetta sé dregið til baka.

Það er mikið talað hér um tekjutap af þessu. Ég leyfi mér að efast um að það flækjustig sem enn eitt skattþrepið, eins og hv. þm. Pétur H. Blöndal fór vel yfir hér áðan, hefði í raun skilað sér í auknum tekjum, ég held að allar slíkar áætlanir séu gróflega ofáætlaðar og að á endanum muni einfalt og gagnsætt skattkerfi skila meiri tekjum inn í ríkissjóð.



[14:46]
Jón Þór Ólafsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Já, við píratar erum náttúrlega hlynnt gegnsæi í skattkerfinu. Rökin fyrir þessu hafa verið þau að einfalda þurfi skattkerfið, ekki megi vera of mörg skattþrep og svo að með því að vera með hærra skattþrep þá auki það svarta atvinnustarfsemi. En þetta kemur núna á þeim tíma þegar fjárlagagat er.

Við erum mjög hlynnt því að skattar séu lækkaðir og þeir gerðir einfaldir en það verður þá að koma eitthvað annað á móti. Einu rökin sem héldu vatni þangað til ég fór að skoða það voru að samkeppnishæfni væri í ferðaþjónustunni, sem The World Economic Forum bendir á að sé mjög gott. Við erum í 16. sæti af 140 ríkjum í heiminum.

Ég sé ekki rökin þarna nema að á móti komi einhver skattur sem á sama tíma eykur þá skilvirkni og gegnsæi skattkerfisins og það er eitthvað sem við ættum að skoða. Gerum þetta samhliða.



 1. gr. samþ. með 22:13 atkv. og sögðu

  já:  ÁsmD,  ÁsF,  EKG,  ElH,  ELA,  FSigurj,  HarB,  HE,  IllG,  JónG,  KÞJ,  LínS,  PJP,  PHB,  REÁ,  RR,  SÁA,  SigrM,  VigH,  VilÁ,  ÞorS,  ÞórE.
nei:  BirgJ,  BVG,  BjÓ,  BP,  EdH,  GuðbH,  GStein,  HHG,  JÞÓ,  PVB,  RBB,  SII,  SSv.
28 þm. (ÁPÁ,  BÁ,  BjG,  BjarnB,  BN,  EyH,  GBS,  HBK,  HHj,  HöskÞ,  JMS,  KG,  KJak,  KaJúl,  KLM,  LRM,  OH,  ÓP,  RM,  SDG,  SIJ,  SilG,  UBK,  VBj,  ValG,  VilB,  WÞÞ,  ÖS) fjarstaddir.

 2. gr. samþ. með 21:13 atkv. og sögðu

  já:  ÁsmD,  ÁsF,  EKG,  ElH,  ELA,  FSigurj,  HE,  IllG,  JónG,  KÞJ,  LínS,  PJP,  PHB,  REÁ,  RR,  SÁA,  SigrM,  VigH,  VilÁ,  ÞorS,  ÞórE.
nei:  BirgJ,  BVG,  BjÓ,  BP,  EdH,  GuðbH,  GStein,  HHG,  JÞÓ,  PVB,  RBB,  SII,  SSv.
29 þm. (ÁPÁ,  BÁ,  BjG,  BjarnB,  BN,  EyH,  GBS,  HBK,  HarB,  HHj,  HöskÞ,  JMS,  KG,  KJak,  KaJúl,  KLM,  LRM,  OH,  ÓP,  RM,  SDG,  SIJ,  SilG,  UBK,  VBj,  ValG,  VilB,  WÞÞ,  ÖS) fjarstaddir.

Fyrirsögn samþ. án atkvgr.

Frumvarpið gengur til 3. umr.