142. löggjafarþing — 13. fundur
 25. júní 2013.
þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu, fyrri umræða.
þáltill. ÖS o.fl., 8. mál. — Þskj. 8.

[18:26]
Flm. (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Ég mæli, að vísu vonum seinna, fyrir þingsályktunartillögu sem ég flyt ásamt öllum þingmönnum Samfylkingarinnar. Meginefni hennar felur í sér að fram verði haldið viðræðum um aðild Íslands að Evrópusambandinu með þjóðaratkvæðagreiðslu samhliða sveitarstjórnarkosningum á næsta ári. Jafnframt felur þessi tillaga í sér að þær úttektir sem framkvæmdarvaldið hefur boðað að verði gerðar bæði á stöðu viðræðna og sömuleiðis stöðunni innan Evrópusambandsins verði gerðar í samvinnu þings og þjóðar.

Ég vil samt taka það fram að eftir að ég lagði fram þessa tillögu fyrir hönd Samfylkingarinnar hefur hæstv. forsætisráðherra talað skýrt um það með hvaða hætti hann hyggst láta vinna þessar úttektir, m.a. með aðkomu erlendra sérfræðinga og eingöngu af sérfræðingum þannig að tryggt er að engin sérstök pólitísk gleraugu verði notuð til þess að skoða þetta mál. Ég lýsi því hér yfir að ég er sáttur við þessa aðferðafræði hæstv. ráðherra og nefni það sérstaklega vegna þess að hann nefndi þetta úr ræðustól Alþingis eftir að við lögðum fram tillöguna. Hægt er að skoða þá þennan part tillögunnar með það fyrir augum líka. Í þessari tillögu er sömuleiðis gert ráð fyrir því að þessum úttektum verði lokið fyrir 1. desember. Margt mælir með því að auðvelt verði að gera það eins og ég kem síðar að í ræðu minni. Þetta er hins vegar nauðsynlegt til að hægt verði að ljúka afgreiðslu málsins, þ.e. umræðum um þessar úttektir á Alþingi, kynna þær fyrir þjóðinni og sömuleiðis virða þann lögbundna þriggja mánaða frest sem verður að vera frá samþykkt þingmáls um þjóðaratkvæðagreiðslu og þangað til hún er háð.

Tilefni þessarar tillögu er öllum kunnugt. Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar kemur algjörlega skýrt fram að það á að gera hlé á viðræðunum, og við það hefur ríkisstjórnin nú þegar staðið, en þar kemur líka fram að það eigi að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um framhaldið. Ekkert hefur verið slegið í gadda um það. Nú kemur vitaskuld engum á óvart að Samfylkingin telur að þessi stefna sé í sjálfu sér ekki farsæl fyrir framtíð og hagsmuni Íslands. Við teljum óráð að gera hlé á viðræðunum. Við erum þeirrar skoðunar að það sé langfarsælast fyrir framtíð og hagsmuni Íslands að halda viðræðunum áfram, nota þann skriðþunga sem hefur verið á þeim til að ljúka þeim, taka allan þann tíma sem þarf til þess að ná góðum samningi og leggja síðan fullbúinn og endanlegan samning fyrir íslensku þjóðina.

Það er reyndar athyglisvert að það kom skýrt fram í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra í upphafi sumarþings að allir þeir flokkar sem skipa stjórnarandstöðuna í dag eru sama sinnis. Þá er líka rétt að rifja það upp að núna vermir ráðherrabekki mætur fulltrúi Sjálfstæðisflokksins sem á sínum tíma eyddi töluverðu þreki sínu í að skrifa gagnmerkar greinar til að tjá þjóðinni þá skoðun sína að það væri í samræmi við grundvallarsjónarmið Sjálfstæðisflokksins að þjóðin fengi að kjósa um aðildarsamning. Það liggur því alveg ljóst fyrir að margir hefðu getað hugsað sér það.

Við þingmenn sem erum andstæðrar skoðunar við stefnu ríkisstjórnarinnar teljum að sú ákvörðun að gera hlé með fullkominni óvissu um framhaldið sé ekki í þágu íslenskra hagsmuna. Við teljum það sóun á tíma, mannskap og fjármunum sem er búið að eyða í aðildarferlið og það skapi þar að auki mikla óvissu um framtíðarstefnu Íslands að hafa hlutina hangandi í lausu lofti. Það skapar til dæmis sérstaklega mikla óvissu varðandi gjaldmiðilsmálin til framtíðar og þau eru vitaskuld nátengd aðildarumsókninni eins og hæstv. forsætisráðherra skrifaði sérstaklega inn í þann texta sem hann flutti hér sem stefnuræðu. Við þurfum að komast út úr þessari stöðu sem einkennist af óvissu og áttavillu. Ég tel því að það sé farsælast fyrir Ísland að fá hreinar línur. Þess vegna er þessi þingsályktunartillaga lögð fram, til þess að fá hreinar línur. Hún felur það í sér að þjóðin fái sjálf að kjósa hvort hún vill hætta eða halda áfram viðræðunum samhliða sveitarstjórnarkosningum.

Það er lýðræði, fólkið á auðvitað sjálft að fá að kveða upp sinn dóm og velja hvaða framtíð það velur fyrir sig og Ísland. Í þessum efnum voru loforð stjórnarflokkanna algjörlega kristaltær. Það kom fram að sönnu, eins og ríkisstjórnin hefur þegar staðið við, að það ætti að gera hlé á viðræðunum og að því leytinu er ekki hægt að brigsla hæstv. ríkisstjórn um að hafa komið aftan að neinum. Hún sagði hins vegar líka algjörlega skýrt að það ætti að halda þjóðaratkvæði um framhaldið. Það kemur til dæmis skýrt fram í stefnuskrá Framsóknarflokksins og þetta var eitt af því sem var slegið í gadda í ályktun landsfundar Sjálfstæðisflokksins. Það sama var líka uppi í ályktun landsfundar Framsóknarflokksins sem og í stefnuskrá Sjálfstæðisflokksins. Þar var reyndar gengið lengra, það var sagt að það ætti að hafa þjóðaratkvæðagreiðslu á þessu kjörtímabili.

Formaður Sjálfstæðisflokksins talaði enn skýrar þegar hann hóf kosningabaráttu síns flokks 23. mars síðastliðinn. Þá taldi hann eðlilegt að þjóðaratkvæðagreiðslan yrði haldin fyrri part kjörtímabilsins. Formaður Framsóknarflokksins, sem hefur lýst sjálfum sér sem frekar „líbó“ náunga, stóð undir því hvað þetta varðar og hann hefur margsinnis sagt að tímasetningin sé ekkert stórt mál fyrir sig og sinn flokk og hún megi þess vegna verða fyrr en seinna. Í þessari stöðu liggur fyrir að allir stjórnmálaflokkar sem sæti eiga á Alþingi hafa lýst því yfir að þeir vilji að það verði haldin þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðnanna. Þá er spurningin einungis: Hvenær nákvæmlega?

Þá held ég að það væri hollt að skoða þá tillögu sem ég hef hér lagt fram fyrir hönd Samfylkingarinnar út frá þeim áformum sem leiðtogar stjórnarflokkanna hafa lagt fram um framvindu málsins. Eins og við munum sögðu þeir báðir við lyktir blaðamannafundar á Laugarvatni að fylgt yrði ákveðnu ferli. Það ætti að byggjast á tvenns konar úttektum, annars vegar á stöðu viðræðnanna og hins vegar á stöðunni í Evrópusambandinu, bæði hinni efnahagslegu og þó ekki síður þeim breytingum sem hafa orðið á Evrópusambandinu eftir að við sóttum um aðild og sömuleiðis þeim sem hafa verið kynntar. Margar þeirra hafa farið sérstaklega fyrir brjóstið á ýmsum forustumönnum ríkisstjórnarinnar.

Ég tel sjálfur að það skipti ekki máli vegna þess að það verður einn af þeim hlutum sem liggja algjörlega fyrir og eru á tæru þegar við mundum ganga til þjóðaratkvæðagreiðslu um samninginn í fyllingu tímans. Báðir formennirnir sögðu að í kjölfar þessara úttekta, sem ég eftir orðanna hljóðan tel að séu þá tvenns konar, ætti að taka málið til umræðu á Alþingi Íslendinga. Hæstv. fjármálaráðherra hefur talað með þeim hætti að hann virðist gera ráð fyrir því að þessari forvinnu verði lokið í haust vegna þess að hann sagði fyrir nokkrum dögum, um síðustu helgi held ég, í viðtali að þetta mál yrði tekið til umræðu á Alþingi í haust.

Formaður Sjálfstæðisflokksins virðist því ganga út frá því að úttektunum verði lokið í haust og þá sé hægt að taka niðurstöður þeirra hér til umræðu og taka í framhaldi af því ákvörðun um framhaldið. Ég tel þetta sjálfur fyllilega raunhæfa nálgun hjá hæstv. fjármálaráðherra. Öll gögn málsins liggja fyrir og það þarf ekki að fara í mikla rannsóknarvinnu til að ljúka þessum úttektum. Við vitum hvaða breytingar hafa orðið á innri gerð Evrópusambandsins eftir að umsóknin fór af stað. Við vitum hvaða breytingar eru fyrirhugaðar og það er athyglisvert, herra forseti, að þær sem mest hafa farið fyrir brjóstið á forustumönnum núverandi stjórnarflokka eru breytingar sem við munum þurfa að taka upp vegna aðildar okkar að Evrópska efnahagssvæðinu, hvort sem við göngum í Evrópusambandið eða ekki. Að því er þær varðar er valið í reynd um það að ganga úr EES eða taka þær upp. Svo einfalt er það mál.

Í ljósi þessa og miðað við það hvernig forustumenn ríkisstjórnarinnar hafa talað um tímasetningu á lokum þessara tveggja úttekta sem þarf að gera til þess að hægt sé að taka næsta skref fellur einfaldlega sú dagsetning sem ég legg til með þessari þingsályktunartillögu giska vel að þeim áformum sem ríkisstjórnin hefur sjálf kynnt. Tímalínan er þá þannig að ríkisstjórnin hefði nægan tíma til þess að ljúka úttektunum og leggja fram þingmál og fá það samþykkt eftir viðeigandi umræðu á hinu háa Alþingi og sömuleiðis til þess að virða hinn lögbundna þriggja mánaða frest sem þarf að líða á milli samþykktar málsins og atkvæðagreiðslunnar sjálfrar.

Ef menn nálgast þessa tillögu hlutlægt og hlutlaust, vega hana á grundvelli þarfa okkar allra tel ég að allir ættu að geta samþykkt hana. Ég tel að það mundi hjálpa til að fá þær hreinu línur sem ég tel að þurfi í þessi mál með því að fallast á að við höldum þjóðaratkvæðagreiðslu samhliða sveitarstjórnarkosningunum á næsta ári. Það eru ýmis rök sem hægt er að tína til fyrir því að það sé farsælt að nota sveitarstjórnarkosningarnar til þess að halda þjóðaratkvæði umfram ýmsar aðrar dagsetningar sem þó má segja að komi líka til greina.

Það að hafa þetta samhliða slíkum kosningum tryggir góða þátttöku og niðurstaðan ætti þar með að sýna með nokkuð óyggjandi hætti vilja þjóðarinnar til þess hvort hún vill halda áfram viðræðunum eða hætta við þær. Fyrir utan þátttökurökin eru líka sérstök fjárhagsleg sparnaðarrök sem hægt er að nota til þess að mæla með þessu. Eins og menn vita kostar töluvert mikla peninga að halda þjóðaratkvæðagreiðslu. Það er ekki langt síðan við gengum í gegnum eina slíka, þjóðaratkvæðagreiðslu um stjórnarskrá, og ef ég man rétt þurfti ríkið að gera ráð fyrir í fjárlögum 200 millj. kr. til að klára hana. Þessa upphæð væri að stóru marki hægt að spara með því að nota kosningar til sveitarstjórna.

Það er hægt að nota margvísleg önnur rök líka til þess að hafa þjóðaratkvæðagreiðsluna með fyrra fallinu. Ég hef þegar rakið óvissuna sem hlýst af því að bíða án þess að tímasetja framhaldið og ég ætla ekki að fara frekar út í það, en ég held sem sagt að það skipti alveg töluvert miklu máli að fá botn í það hvaða leið íslenska þjóðin ætlar að feta varðandi gjaldmiðilsmálin í framtíðinni. Þá má ekki gleyma því að gjaldmiðlaskýrsla Seðlabankans sem kom út sumarið 2011 sló algjörlega í gadda að bara tvær leiðir kæmu til greina varðandi gjaldmiðil Íslands í framtíðinni, annars vegar að halda áfram með krónuna — og þá rifja ég upp að hæstv. fjármálaráðherra trúði fyrir nokkrum vikum, rétt eftir að hann hafði sest í sinn nýja stól, erlendri fréttastofu fyrir því að krónan yrði alltaf háð einhvers konar annmörkum eða höftum — og hins vegar að taka upp evruna á réttum tíma eins og Seðlabankinn sagði.

Ég tel þess vegna að á meðan það er ekki ljóst að íslenska þjóðin vilji feta þann veg sem felst í framhaldi viðræðnanna verði þessi mál alltaf í óvissu. Sú óvissa kemur niður á heimilunum, fyrirtækjunum, atvinnulífinu og Evrópusambandinu. Ég tel til dæmis að hún komi sérstaklega illa niður á þeim fyrirtækjum sem við horfum mest til varðandi sköpun starfa og verðmæta í framtíðinni, sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum. Þau fyrirtæki hafa sagt hvert um annað þvert að þau þurfi stöðugra efnahagsumhverfi með stærra og öflugra myntsvæði. Ég óttast, herra forseti, að ef við fáum ekki hreinar línur í þetta muni þessi fyrirtæki greiða atkvæði með fótunum. Þau munu fara. (Gripið fram í.)

Þetta eru ekki síst rökin fyrir því að við eigum að reyna að fá hreinar línur í þetta mál með fyrra fallinu. Þessi tillaga gengur út á það að við notum sveitarstjórnarkosningarnar á næsta ári og ég held að það væri farsælt fyrir þingið. Miðað við þær röksemdir sem ég hef lagt fram ættum við að geta fallist á það hvort sem við erum með eða á móti aðild.



[18:41]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég fagna því framtaki að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu. Við píratar erum almennt mjög lýðræðissinnaðir og mjög hlynntir þjóðaratkvæðagreiðslum, sérstaklega af því að búið er að lofa þeim trekk í trekk í kosningabaráttu. En það eru ein skilaboð sem mér finnst mjög mikilvægt að allir hv. þingmenn taki til sín, þau eru þessi: Í hvert sinn sem þjóðin er spurð álits og það er í andstöðu við það sem ríkisstjórn hefur ákveðið þá fara stjórnmálamenn jafnan út í það að skamma hver annan fyrir að vera ekki sammála þjóðinni.

Það er enginn flokkur á þingi núna sem hefur tilkall til meira en helmings þjóðarinnar og engin ríkisstjórn hefur stuðning 100% þjóðarinnar. Það var aldrei þannig og verður sennilega aldrei þannig, vonandi ekki.

Þegar við meðhöndlum eitthvað jafn heilagt, þori ég að segja, og sjálfsákvörðunarrétt þjóðarinnar þá ættum við að bera meiri virðingu fyrir þeim rétti en að nota hann sem pólitískt bitbein. Ef svo ólíklega vill til að þetta verði samþykkt af þessu þingi ætla ég að biðja hv. þingmenn um að sýna þjóðinni virðingu þegar hún gengur til atkvæðagreiðslu, að sætta sig við niðurstöðuna og reyna að líta á þjóðaratkvæðagreiðslu sem eitthvað jákvætt í framtíðinni, eitthvað sem stjórnmálamenn eiga ekki að forðast. Það er nefnilega einn steinninn í götu beins lýðræðis á Íslandi að stjórnmálamenn hugsa með sér, svolítið með réttu að verði haldin hér þjóðaratkvæðagreiðsla um eitthvað sem þeir standa með eða gegn andstætt þjóðinni séu þeir í reynd að leggja sinn pólitíska feril að veði eða í það minnsta að hætta á ofboðslega harða gagnrýni. Sú gagnrýni er gagnslaus.

Sjálfsákvörðunarréttur þjóðarinnar er hennar og bara hennar. Hann er ekki gjöf okkar til þjóðarinnar heldur réttur hennar.



[18:44]
Flm. (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir prýðisgóða ræðu sem ég var að öllu leyti sammála nema einu. Hv. þingmaður sagði í ræðu sinni, orðaði það með þessum hætti: Ef svo ólíklega vill til að þessi tillaga verði samþykkt. Ég er honum algjörlega ósammála um að það sé ólíklegt. Eins og ég rakti í ræðu minni eru mörg rök með því að hafa þjóðaratkvæðagreiðsluna samhliða sveitarstjórnarkosningunum, en ég rakti það líka fyrir hv. þingmann, sem hann þekkir auðvitað jafn vel og ég að í reynd, í þeirri stöðu sem er komin upp, hafa allir stjórnmálaflokkar sagt að þeir vilji hafa þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald viðræðna.

Formaður Sjálfstæðisflokksins hefur sagt að það eigi að vera á fyrri hluta kjörtímabilsins og hæstv. forsætisráðherra hefur sjálfur sagt að honum sé eiginlega giska sama hvenær það eigi að verða, hann hefur margítrekað það við fjölmiðlamenn. Ég deili því ekki þeirri trú eða vantrú hv. þingmanns á þingheimi. Ég held satt að segja að það sé í þágu allra að við fáum hreinar línur í þetta mál. Hvað er þá betra en að gera það með hætti sem líklegastur er til þess að leiða fram hvað mest afgerandi niðurstöðu? Það er samhliða öðrum kosningum eins og sveitarstjórnarkosningum sem við vitum að er jafnan mikil þátttaka í.

Ég held að það sé besta aðferðin til að leiða fram mjög skýran og yfirgnæfandi vilja og ég held að allir mundu hlíta þeirri niðurstöðu ef hún yrði á annan veg en ég kysi, þá mundi ég vakna hundfúll daginn eftir en þá yrði bara næsta mál á dagskrá. Ég held að það sé þarft að fá þessar línur á hreint. Er ekki hv. þingmaður sammála mér um það?



[18:46]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Hv. þm. Össur Skarphéðinsson er mjög sannfærandi eins og venjulega og ég kýs að vera sammála honum. Ég biðst afsökunar á því að hafa vænt ríkisstjórnina um einhver óheilindi í þessum efnum.



[18:46]
Haraldur Einarsson (F):

Hæstv. forseti. Af hverju er verið að pressa svo á ESB-ferlið? Ég velti fyrir mér í hvaða leik stjórnarminnihlutinn er núna.

Ég legg talsvert fram af spurningum í ræðu minni en þær eru mestmegnis vangaveltur og þær spurningar sem ég legg fram í lokin eru þær spurningar sem ég vil fá svör við.

Ég spyr sjálfan mig af hverju fyrrverandi utanríkisráðherra, hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni, er svo í mun að klára þetta mál að það geti ekki beðið fram á haustþing. Ég viðurkenni að ég er enginn snillingur í málum sem tengjast Evrópusambandinu en þykist vita að margt gott er þar og annað sem hentar Íslandi og Íslendingum illa.

Ég hef örlítið litið á þetta mál og ætla að byrja á árinu 2009. Miðað við undanfarna daga þreytist fólk hér í salnum ekki á að tala um fortíðina. Mér finnst samt persónulega leiðinlegt að tala um fortíðina því að við breytum henni ekki, en ég ætla að gera undantekningu núna því að ég held að fortíðin gæti varðað framtíðina.

Fyrrverandi utanríkisráðherra lagði fram tillögu til þingsályktunar um aðildarumsókn að Evrópusambandinu á 137. löggjafarþingi árið 2009. Í þingsályktunartillögunni stendur, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að leggja inn umsókn um aðild að Evrópusambandinu og að loknum viðræðum við sambandið verði haldin þjóðaratkvæðagreiðsla um væntanlegan aðildarsamning.“

Þetta er allt fínt, en það var það sem ríkisstjórn þess tíma var kosin út á. Ísland sótti um aðild og var vel tekið ytra. Ég hef aldrei fengið að sjá neinn samning á þessum fjórum árum. Þá spyr ég: Er samningur á leiðinni? Ég held ekki, alla vega ekki úr þessu. En hvað er þetta þá? Gríðarlega tímafrekt samningaferli eða mjög flóknar aðildarviðræður? Hvernig get ég ekki verið búinn að sjá neinn samning sem Íslendingur ef búið er að innleiða hluta af reglunum en samt ekki búið að opna nokkra kafla, svo sem um byggðamál, sjávarútveg og landbúnað? Líklega eru þá engir samningar á leiðinni. En ef verið er að vinna þetta mál svona, innleiða allt nema kannski síðustu hluta af reglum sambandsins og kjósa um örlítinn hluta, því að búið er að innleiða hitt, er þá framvinda verkefnisins ekki eins og lagt var af stað með í upphafi, miðað við þingsályktunartillöguna?

Ég er ekki að segja að reglur Evrópusambandsins séu slæmar, þvert á móti, mig langar bara að fá skýrari sýn á hvað við erum að fara út í. Ef þetta eru hvorki samningaviðræður né aðildarviðræður og hvað þá að verið sé að kíkja í pakkann — því að miðað við framgöngu málsins er pakkinn reglur Evrópusambandsins og þær eru öllum aðgengilegar — þá spyr ég: Hvað er þetta þá? Þetta virðist vera aðlögunarferli, mjög líkt aðildarferli en mjög ólík orð.

Baldur Þórhallsson, varaþingmaður Samfylkingarinnar í Reykjavíkurkjördæmi norður á síðasta kjörtímabili, er prófessor við stjórnmáladeild HÍ og gaf út bókina: Iceland and European Integration: On the Edge. Í stærðfræði þýðir „integration“ heildun eða tegrun en í þessu samhengi þýðir „integration“ samþætting eða aðlögun. Annaðhvort er Evrópusambandið að samþætta sig við Ísland eða Íslendingar að aðlagast Evrópu. Miðað við samheitaorðabókina á Snöru þýðir það það sama; samþætting eða aðlögun.

Ég fór á vef utanríkisráðuneytisins og fann margar fréttir í tíð fyrrverandi utanríkisráðherra, hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar, og til að vera alveg viss las ég greinarnar einnig á ensku. Þar fer ekki á milli mála að verið er að fjalla um aðlögun Íslands að Evrópusambandinu.

Til að gefa dæmi vitna ég beint í orð þáverandi utanríkisráðherra í einni frétt, með leyfi forseta:

„I particularly appreciate …“

(Forseti (EKG): Ég vil vekja athygli hv. þingmanns á því að íslenska er þingmálið og hv. þingmaður hefur ekki heimild til þess að vitna með beinum hætti í enskan texta, getur hins vegar reynt að snara þessu með óbeinum hætti í máli sínu.)

Afsakið, herra forseti. Ég er líka með þetta á íslensku, en þetta skiptir máli því að ég held að enskan sé þýdd vitlaust yfir á íslensku, alla vega kemur það fram þarna að þar er „integration“ aðlögun, já, það er eins og verið sé að fara ranglega með orðið af ensku. Fyrir þá sem eru ekki sannfærðir er mjög gott að líta í orðabókina á Google og leita að orðinu aðlögun.

Ég er ekki að tala um að vera sammála eða ósammála, hv. þingmaður, ég er einungis að reyna að upplýsa í umræðunni, sérstaklega þar sem ég fann fyrir ólíkum skoðunum á þessu í kosningabaráttunni. Mér finnst rétt að þetta komi fram gagnvart kjósendum og þjóðinni.

Ég spyr: Telur hv. þm. Össur Skarphéðinsson miðað við framgöngu málsins að gerð hafi verið mistök í þýðingu og skilaboðum orðsins „integration“ yfir á íslensku eða hafa kjósendum vísvitandi verið gefin röng skilaboð? Ég tek fram að ég er ekki að kenna neinum um, hvorki þáverandi stjórn, fjölmiðlum, þýðendum né neinum öðrum.



[18:53]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Haraldur Einarsson spyr: Af hverju að kjósa um þetta núna eða ákveða þetta núna? Ástæðan er sú — ég man þegar fjölmiðlalög voru samþykkt á Alþingi sem var síðan hafnað af forseta lýðveldisins. Það hafði ekki gerst áður þannig að það ætti að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu en það gerðist svolítið merkilegt við þann gjörning, skyndilega fór fólk að taka þátt í umræðunni sem hafði aldrei áður tekið þátt í henni. Það er vegna þess að þegar þjóðin skynjar að hún hefur raunverulegt vald fer hún kannski stundum að hugsa til þess að hún ætti að nýta það á skynsaman hátt. Eins og það er núna, þar sem völdin liggja yfirleitt hjá einhvers konar fulltrúum, er nóg fyrir marga, jafnvel flesta, að bölva þeim í stað þess að láta þjóðina sjálfa ráða þessu þannig að hún hafi fullt tækifæri og fullt erindi til að ræða það með hliðsjón af því að það verði þjóðaratkvæðagreiðsla og þá geti niðurstaðan orðið sem lýðræðislegust.

Hv. þingmaður spyr einnig hvort samningar séu á leiðinni. Nei, ekki í augnablikinu, en það er vegna þess að búið er að stöðva samningaviðræðurnar og um að gera að kjósa sem fyrst um það hvort við eigum ekki að halda þeim áfram. Síðast en ekki síst nefnir hv. þingmaður það aftur þegar verið er að innleiða ýmislegt frá Evrópu. Það er óhjákvæmileg afleiðing af því að vera í EES og við erum ekkert að fara út úr EES jafnvel þótt við sleppum því að kjósa um þetta.



[18:54]
Haraldur Einarsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Allt sem ég er að reyna að draga upp hérna er hvort kjósendur fái að kjósa þá á réttum forsendum. Hvort þeir séu að kjósa um einhvern aðildarsamning eða aðlögunarferli. Það er bara það sem ég er að velta fyrir mér, hvort við séum að kjósa um einhvern stóran samning eða kjósa um einhvern lítinn hluta af því að það er búið að innleiða allt hitt. Ég er bara að reyna að opna umræðuna.



[18:55]
Flm. (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef einungis eina spurningu til hv. þingmanns núna og svo mun ég freista þess að svara ýmsum spurningum hv. þingmanns í stuttri ræðu hér á eftir.

Hv. þingmaður spurði mig í sinni ágætu ræðu: Af hverju að leggja þessa þingsályktunartillögu fram núna, hvers vegna ekki að bíða með hana fram á haust? Ég skildi það svo að þetta væri ein af spurningum hv. þingmanns og þá langar mig til þess að spyrja á móti: Ef það yrði beðið með þessa tillögu fram á haust mundi hann frekar samþykkja hana þá?



[18:56]
Haraldur Einarsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það hefur hvergi komið fram hvort ég styð þetta eða sé á móti því og það breytir ekki afstöðu minni, þ.e. hvort ég styð málið eða ekki, hvort þetta er lagt fram núna eða á haustþingi. Ég tel bara að það sé annað brýnna en að ræða þetta núna þannig að afstaða mín er óbreytt.



[18:56]
Flm. (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Ég vil þakka þeim hv. þingmönnum sem hafa tekið þátt í umræðum um þessa þingsályktunartillögu. Ég hef þegar lýst aðdáun minni á annarri þeirra ræðna sem hér voru fluttar í dag. Mér þótti ræða hv. þingmanns sem talaði áðan vera alveg prýðileg. Ég var ósammála mörgu sem hv. þingmaður sagði og því miður get ég ekki svarað þeim spurningum sem hann varpaði til mín um hvort misfarist hefði í þýðingum. Ég taldi þó að hv. þingmaður væri að vísa beint í samtal sem ég hefði átt á ensku og þá þykir mér í hæsta máta ólíklegt að það hafi misfarist í þýðingu vegna þess að ég fór yfirleitt yfir þýðingarnar sjálfur og vissi gjörla hvað ég sagði á enskri tungu í þeim viðtölum sem ég veitti oft og tíðum.

Hinn möguleikinn sem hv. þingmaður varpaði fram var hvort vísvitandi væri verið að koma röngum skilaboðum á framfæri, svo er ekki. Það er algerlega ljóst. Í fyrsta lagi kæmi það alltaf eins og búmerang í hausinn á manni sjálfum ef maður reyndi í svona stóru og viðamiklu máli að fara fram með einhverjar misvísandi staðreyndavillur, reyna að blekkja. Það gengur ekki. Það er bara ekki hægt í fjölmiðlasamfélagi þegar um er að ræða svona stórt og flókið mál. Sá möguleiki er algerlega frá.

Í öðru lagi gerðum við okkur jafnan far um að hafa allt sem opnast. Ég held að enginn utanríkisráðherra í sögunni hafi haft jafn marga fundi með hv. utanríkismálanefnd og ég á þessum tíma. Satt að segja var ég alltaf boðinn og búinn til að skoppa á þeirra fund af hvaða tilefni sem var. Stundum voru þau ærin, stundum ansi smá. Alltaf kom ég þó og var heiður að því og þótti gaman að vera þar.

Við settum jafnframt alla skapaða hluti á netið um leið. Það eina sem var hægt að finna að hjá okkur varðandi það var í upphafi máls. Eins og hv. þingmaður man fólust fyrstu skref umsóknarinnar í því að svara frá Evrópusambandinu 2.800 spurningum. Við gerðum það og settum spurningarnar á netið á enskri tungu í upphafi. Síðan var því breytt eins og hv. þingmaður veit og allt var þýtt og sett á íslensku.

Til að leiðrétta örlítinn misskilning sem mér fannst örla á hjá hv. þingmanni um það hvaða kaflar væru opnir og hverjir ekki þá var staðan þegar kom að kosningum þannig að af 33 köflum sem um þarf að semja var einungis í fjórum köflum ekki búið að klára samningsafstöðu; í köflunum um, eins og hv. þingmaður veit, sjó og land, og tveimur köflum sem höfðu að geyma ákvæði sem tengdust sjávarútvegi, m.a. varðandi heimild til stofnunar fyrirtækja hér á landi og varðandi fjárfestingar. Þegar kosningum sleppti voru þessir fjórir kaflar algerlega óopnaðir en við vorum búin að klára samningsafstöðuna í 29, tveimur köflum var skilað til Evrópusambandsins án þess að það hefði verið hægt að opna þá og 16 kaflar voru undir í samningaviðræðum þegar kom að kosningum og 11 voru frá.

Þetta er líka ein af röksemdunum fyrir því að halda áfram. Við erum komin ansi langt. Það er búið að eyða í þetta miklum mannafla, miklum fjármunum, miklum tíma og vitaskuld gufar það ekki upp. Það liggur ákveðinn árangur eftir, töluvert mikill. Fyrir utan það sem ég nefndi hérna tel ég kannski ekki síst að ávinningarnir séu fólgnir í því að okkur tókst mjög að skerpa skilning Evrópusambandsins á sérstöðu Íslands.

Þá nefni ég í fyrsta lagi að þegar Evrópusambandið gerði skýrslu um Ísland og hæfni þess til að verða aðili að Evrópusambandinu var fjallað sérstaklega um sjávarútveg. Það var mjög merkilegt að í þeim kafla sem fjallaði um Ísland og sjávarútveg kom það algerlega skýrt fram af hálfu Evrópusambandsins að ef Ísland í fyllingu tímans yrði meðlimur í Evrópusambandinu mundi það leiða til marktækra breytinga á sameiginlegu sjávarútvegsstefnunni. Þetta þýðir það sem sagt að Evrópusambandið er að fallast á að til að Ísland geti gengið inn verði að semja um sjó.

Þetta nefni ég sérstaklega vegna þess að það var ekki síst úr flokki hv. þingmanns sem því var haldið fram að í sjó væri um ekkert að semja. Minni ég líka á, af því að það stendur okkur miklu nær í tíma og hv. þingmaður var þá sestur á þing, að hingað kom helsti samningamaður Dana í sjávarútvegsmálum, Ole Poulsen, og hélt hér fyrirlestur á dögunum. Það var viðtal við hann síðast í fyrradag í Speglinum í Ríkisútvarpinu. Það kom algerlega skýrt fram hjá honum að hann teldi, miðað við sína reynslu, að ekki yrði erfitt fyrir Ísland að semja sig á sjávarútvegssviðinu inn í Evrópusambandið. Ég er algerlega þeirrar skoðunar líka. Ég tel að það yrði ekki erfitt.

En það er önnur saga og auðvitað er auðvelt að slengja slíku fram í ræðustól Alþingis. Annað er að draga það fram við samningaborðið. Þetta tel ég eigi að síður vísa til þess að þeir gera sér grein fyrir því að það þarf að semja og það liggur fyrir. Það er því rangt sem sagt var að ekkert væri um að semja.

Í öðru lagi er sérstaða Íslands í sjávarútvegsmálum svo rík. Ég gæti farið með margar röksemdir sem ég rakti fyrir þeim herrum og löfðum sem ég hitti í Evrópusambandinu. Eitt skiptir langmestu máli. Það er sú staðreynd að Ísland á ekki sameiginlega efnahagslögsögu með Evrópusambandinu. Það er algerlega öndvert við Noreg og gerir okkar stöðu allt aðra en Noregs.

Í þriðja lagi vildi ég nefna til marks um þann skilning sem við náðum upp á sérstöðu Íslands að þegar þáverandi forusturíki Evrópusambandsins sendi sínum eigin samningahópi bréf þar sem áréttuð var sérstaða Íslands varðandi landbúnaðinn og byggðamál gaf það skýr fyrirmæli um að í samningunum af hálfu Evrópusambandsins yrði að taka tillit til þeirrar sérstöðu. Þetta er fordómalaust. Okkur tókst ekki að finna nein fordæmi í þá veru í öðrum samskiptum Evrópusambandsins við aðrar þjóðir. Þetta hafði aldrei gerst áður.

Nær í tíma er svo að á líðandi vetri komu tvær mjög mikilvægar yfirlýsingar frá Evrópusambandinu. Annars vegar lýsti stækkunarstjórinn mjög jákvæðu viðhorfi, sem var breyting, gagnvart kröfum Íslands um bann við innflutningi á lifandi dýrum. Það var það sem hér hafði mest verið deilt um á Alþingi Íslendinga.

Hin var svo yfirlýsing viðskiptastjórans, Karel de Gucht. Hann gaf út opinbera yfirlýsingu eftir fund með mér núna síðla vetrar að það væri algerlega klárt að ef Ísland yrði aðili að Evrópusambandinu yrði forræði og eignarhald á orkuauðlindum öldungis með sama hætti og áður. Allt skiptir þetta mjög miklu máli.

Að síðustu vil ég nefna eitt sérstaklega og leiðrétta þar með eða mótmæla ákveðinni staðhæfingu hjá hv. þingmanni, sem sagði að þetta væri aðlögunarferli. Þá spyr ég hv. þingmann: Hvar hefur sú aðlögun átt sér stað? Mergur málsins er nefnilega þessi: Það sem okkur tókst sem engu ríki öðru hefur tekist í samningaviðræðunum við Evrópusambandið var að ná því fram að við þyrftum ekki að aðlaga okkur með því að breyta reglum, breyta lögum eða stofnunum fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu. Það væri einungis eftir að þjóðin hefði goldið sitt jáyrði í þjóðaratkvæðagreiðslu við aðild sem slíkar breytingar hæfust, þegar í gadda væri slegið að þjóðin hefði sagt já, þá átti að gera það frá þjóðaratkvæðagreiðsludeginum og fram að fullgildingardegi eða innan ákveðinna annarra tímafresta sem um semdist í einstökum málaflokkum.

Það er röng staðhæfing, sem er náttúrlega margendurtekin af þeim sem eru andstæðir Evrópusambandinu, að hér hafi verið einhver sérstök aðlögun í gangi. Það er ekki. Það breytir ekki hinu að við erum nánast á hverjum einasta degi að aðlaga okkur að Evrópusambandinu en það er ekki vegna aðildarsamninganna. Það er vegna aðildar okkar að EES.

Hv. þingmaður á eftir að taka þátt í atkvæðagreiðslum hundruðum sinnum meðan hann situr á þingi, bara á þessu kjörtímabili sem er nýhafið, þar sem við munum með góðu eða illu samþykkja breytingar sem koma beint frá Brussel og við höfum engin áhrif á. Af því að hv. þingmaður er hluti af stjórnarliði mun hann ekki einu sinni geta leyft sér þann munað að sitja hjá.

Það að ganga í Evrópusambandið mundi að minnsta kosti gefa okkur vald til að hafa einhver áhrif, gefa okkur stöðu til að hafa einhver áhrif. Það höfum við ekki í dag.



Till. gengur til síðari umr. 

Till. gengur til utanrmn.