142. löggjafarþing — 16. fundur
 28. júní 2013.
jafnlaunaátak á heilbrigðisstofnunum.

[10:38]
Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Á kvenréttindadaginn 19. júní sl. var sérstök umræða hér í þinginu um kynbundinn launamun, sem því miður er einn af okkar viðvarandi veikleikum í jafnréttismálum. Allir stjórnarflokkar hafa lýst áhyggjum sínum af því og hvatt til þess að við gerum átak í því að leysa þetta mál, meðal annars hæstv. forsætisráðherra í umræðu og líka í aðdraganda kosninga ef ég man rétt.

Auk samstarfshóps og viljayfirlýsingar, sem ríki, sveitarfélög og aðilar vinnumarkaðarins skrifuðu undir í október sl., var gripið til margháttaðra aðgerða og er sú vinna enn í gangi. Hinn 21. janúar sl. var sett í gang jafnréttisátak á heilbrigðisstofnunum. Þar var í tengslum við gerð stofnanasamninga ákveðið að láta svokallaðar kvennastéttir á heilbrigðisstofnunum hafa forgang í byrjun. Fyrir lá að laun þessara stétta hefðu dregist aftur úr miðað við sambærilega hópa hjá ríkinu.

Í framhaldinu samþykkti ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur að opinberar heilbrigðisstofnanir fengju hækkun á launalið fjárlaga 2013 sem næmu 4,8% á launagreiðslur áðurnefndra kvennastétta frá 1. mars sl. Sú ráðstöfun var tilkynnt formlega til viðkomandi stofnana með ákveðinni fjárhæð á hverja stofnun. Í framhaldi af því hafa margar heilbrigðisstofnanir gert stofnanasamninga við einstakar stéttir en vinnan hefur verið í fullum gangi liðnar vikur.

Í sérstöku umræðunni 19. júní sl. kom fram hjá hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra um jafnlaunaátakið, með leyfi forseta:

„… en við styðjum viðleitnina og munum finna okkar leiðir til þess að hrinda þessum áformum í framkvæmd.“

Þetta hefur leitt til þess að blöðin hafa birt fyrirsagnir þar sem sagt er að ekki sé fjármagn til þessa verkefnis og fleira í þeim dúr. Í fréttum RÚV 20. júní sl. segir meðal annars frá tilkynningu frá framkvæmdastjórn Starfsgreinasambandsins undir fyrirsögninni: „Treysta Bjarna til að hækka laun kvenna.“

Með leyfi forseta stendur þar orðrétt:

„Málið var til umræðu á Alþingi í gær og greindi fjármálaráðherra þá frá því að ekki væru til fjármunir til þessa verkefnis en á sama tíma er verið að skerða tekjustofna ríkisins með lækkuðum álögum á einstakar atvinnugreinar. Þetta eru kaldar kveðjur til kvenna á sjálfan kvenréttindadaginn.“

Sjá má á ýmsum öðrum ábendingum og athugasemdum að óskýr yfirlýsing hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra vekur óvissu á heilbrigðisstofnunum og hjá þessum starfsstéttum sem margar hverjar eru í miðjum samningaviðræðum um stofnanasamning.

Ég leyfi mér því að spyrja hæstv. forsætisráðherra: Er það ekki öruggt að ríkisstjórn hæstv. forsætisráðherra muni standa við samþykktir fyrri ríkisstjórnar um jafnlaunaátak á heilbrigðisstofnunum og ljúka þessum fyrsta áfanga um leiðréttingu á kynbundnum launamun?

Í öðru lagi spyr ég: Er ekki öruggt að ríkisstjórnin standi við ákvörðun fyrrverandi ríkisstjórnar um tiltekið fjármagn til heilbrigðisstofnana til að stíga þessi fyrstu skref í gegnum stofnanasamninga?



[10:38]
forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður talar um óvissu og óróa í heilbrigðisstofnunum og ég læt ógert að rifja upp þann óróa sem varð til þess að menn fóru af stað við að reyna að endurskoða þessi mál. Eins og hv. þingmaður gat reyndar um hefur hæstv. fjármálaráðherra þegar lýst því yfir að hann styðji þá viðleitni sem hér er um að ræða og muni finna leið til að þau markmið nái fram að ganga.

Það er mjög mikilvægt að haga málum á þann veg að þau skili sér í raunverulegum kjarabótum hjá umræddum stéttum til langs tíma. Það gerist ekki öðruvísi en menn vinni þetta í samráði við aðila vinnumarkaðarins til að tryggja að þeir taki þátt í þessu og vinni með stjórnvöldum að því að ná þessum markmiðum.

Það er alveg ljóst að ýmsar stéttir þar sem konur eru í meiri hluta starfsmanna, og í sumum tilvikum í miklum meiri hluta, hafa um margt dregist aftur úr í launum og mikilvægt að leiðrétta það. Um þetta er ekki ágreiningur eins og hv. þingmaður nefndi reyndar hér í upphafi fyrirspurnar sinnar. Þetta snýst því fyrst og fremst um það hvernig menn tryggja að þessar úrbætur haldi til langs tíma, að þetta verði raunverulegar kjarabætur til langs tíma. Það gerum við best með því að vinna þessi mál áfram með aðilum vinnumarkaðarins.



[10:39]
Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka jákvæðar undirtektir hvað þetta varðar og þó að órói hafi skapast af ýmsum ástæðum þá er einmitt þeim mun frekar mikilvægt að róa landið og vera með skýrar yfirlýsingar. Ég tek undir með hæstv. forsætisráðherra að miklu máli skiptir að kjarabætur og lausnir á þeim vanda verði til langs tíma.

En það sem kannski skiptir mestu máli í dag er að þegar ákveðið var að setja ákveðið fjármagn inn á hverja heilbrigðisstofnun skiptir miklu máli að það fari inn í greiðsluáætlun viðkomandi stofnunar þannig að hún lendi ekki í skuldastöðu innan ársins. Mig langar að spyrja hæstv. forsætisráðherra hvort það hafi ekki verið tryggt að þeir fjármunir sem þar voru ákveðnir sem fyrsta skref — við þekkjum það hugtak ágætlega eftir umræðuna í gær — því verði fylgt eftir og fjármagnið fari til stofnunarinnar þannig að stofnanir lendi ekki vandræðum með rekstrarfé innan ársins. Síðan er það sameiginlegt verkefni að taka á í kjarasamningum um næstu skref.



[10:40]
forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég ítreka það sem ég sagði áðan um mikilvægi þess að menn standi saman um þessi markmið. Ný ríkisstjórn er núna að fara yfir ákvarðanir fyrri ríkisstjórnar, mun í sumu framfylgja því sem fyrri ríkisstjórn lagði upp með. En í sumu sjá menn ástæðu til að breyta þeim aðferðum sem síðasta ríkisstjórn studdist við til að ná jafnvel sömu markmiðum, þeim markmiðum sem menn eru sammála um.

Nú er hafin vinna við undirbúning og gerð fjárlaga næsta árs og að sjálfsögðu fara menn yfir þessa hluti eins og aðra. En ég ítreka það sem ég sagði áðan, það er einhugur um markmiðið og mikilvægi þess að bæta kjör þessara stétta. Spurningarnar snúast því bara um það hvernig menn tryggja það sem best og til langs tíma.