142. löggjafarþing — 17. fundur
 1. júlí 2013.
verðtryggð námslán.
fsp. SII, 13. mál. — Þskj. 13.

[12:16]
Fyrirspyrjandi (Sigríður Ingibjörg Ingadóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar segir m.a., með leyfi forseta:

„Ríkisstjórnin mun með markvissum aðgerðum taka á skuldavanda íslenskra heimila sem er til kominn vegna hinnar ófyrirsjáanlegu höfuðstólshækkunar verðtryggðra lána sem leiddi af hruni fjármálakerfisins. Grunnviðmiðið er að ná fram leiðréttingu vegna verðbólguskots áranna 2007–2010 en í því augnamiði má beita bæði beinni niðurfærslu höfuðstóls og skattalegum aðgerðum. Um verður að ræða almenna aðgerð óháð lántökutíma með áherslu á jafnræði.“

Í stefnuyfirlýsingunni er mikil áhersla lögð á jafnræði niðurfellingar skulda. Í nýsamþykktri þingsályktun um skuldamál heimila er fjallað sérstaklega um forsendubrest vegna verðbólgu á árunum 2007–2010. Námslán eru hluti af skuldum heimilanna. Þau eru verðtryggð og hækkuðu gríðarlega á árunum 2007–2010. Í árslok 2006 voru námslán 76 milljarðar en voru árið 2010 um 129 milljarðar kr. Skuldir vegna námslána jukust því um 70% á fjórum árum eða um 53 milljarða. Námslán hafa hækkað gríðarlega og langt umfram kaupmátt. Það hefur þau áhrif að þeir sem tóku námslán eru mun lengur að greiða slík lán til baka en gera mátti ráð fyrir.

Taka má dæmi af láni grunnskólakennara með eitt barn og meistaragráðu. Lán kennarans hefur hækkað um 60% frá árinu 2005 þegar námi lauk þrátt fyrir afborganir í sjö ár. Telja má fullvíst að kennaranum endist ekki ævin til að greiða lánið til baka. Hefði verðlag verið stöðugt frá því að kennarinn hóf nám hefði honum að líkindum tekist að greiða lánið á starfsævi sinni við um það bil 70 ára eða 71 árs aldur. Til að upprunalegu forsendur um endurgreiðslu standist þurfa laun grunnskólakennarans að hækka um 50% frá árinu 2013.

Ég spyr því hæstv. menntamálaráðherra: Mun menntamálaráðherra á haustþingi leggja fram frumvarp um niðurfærslu höfuðstóls verðtryggðra lána, t.d. um 20%? Mun menntamálaráðherra leggja fram frumvarp um afnám verðtryggingar á nýjum námslánum í samræmi við aðrar hugmyndir hæstv. ríkisstjórnar um afnám verðtryggingar? Mun menntamálaráðherra leggja fram frumvarp um að námslán sem í dag eru verðtryggð verði færð yfir í óverðtryggð lán eins og fyrirætlun ríkisstjórnarinnar um önnur lán, verðtryggð lán bendir til?



[12:19]
mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrirspyrjanda, hv. þm. Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur, fyrir fyrirspurnina. Ég vil segja í upphafi að ég hef ekki í hyggju að leggja fram frumvarp á haustþingi um þau mál sem spurt er um í fyrirspurn hv. þingmanns. Það hefur verið lögð fram tillaga til þingsályktunar á Alþingi um aðgerðir gegn skuldavanda heimilanna á Íslandi.

Ég geri ráð fyrir því að mál er varða höfuðstólshækkun námslána og verðtryggingu slíkra lána muni koma til skoðunar þegar annars vegar niðurstaða sérfræðingahóps sem leiðir til þess að leiðrétta höfuðstólshækkun verðtryggðra húsnæðislána liggur fyrir og hins vegar niðurstaða sérfræðingahóps um afnám verðtryggingar á neytendalánum.

Það er gert ráð fyrir að sérfræðingahópur sem fjallar um leiðir til að ná fram höfuðstólslækkun verðtryggðra húsnæðislána skili tillögu sinni í nóvember 2013 og að sérfræðingahópurinn sem fjallar um afnám verðtryggingar á neytendalánum skili niðurstöðu sinni í árslok 2013.

Í framhaldi af niðurstöðu sérfræðinganefndanna mun ég fela stjórn lánasjóðsins að fara yfir málið.



[12:21]
Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Ég ætla að blanda mér aðeins í umræðuna og gera stutta athugasemd sem heimilt er samkvæmt þingsköpum.

Það kemur mér satt að segja á óvart að hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra skuli í raun og veru ætla að kasta því máli sem hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir hefur gert að umtalsefni inn í framtíðina með þeim hætti sem hann gerir í svari sínu. Auðvitað urðu það mikil vonbrigði fyrir marga, kom okkur í núverandi stjórnarandstöðu kannski ekki mikið á óvart en það urðu örugglega vonbrigði fyrir marga úti í samfélaginu að í þeirri þingsályktunartillögu sem lögð var fyrir þingið, þar sem ríkisstjórnin fór fram á að þingið fæli ríkisstjórninni að undirbúa alls konar aðgerðir í þágu heimilanna, skuli ekki vera tekið á því máli sem hér er vakið máls á.

Ef jafnræðisreglan á að vera í heiðri höfð þá verða námsmenn að vera í þessum hópi og þess vegna er ekki um annað að ræða en að brýna hæstv. ráðherra og spyrja hvort hann muni í öllu falli ekki beita sér fyrir því að mál þeirra verði tekin sömu tökum og önnur mál sem varða leiðréttingu á verðtryggðum lánum.



[12:22]
Fyrirspyrjandi (Sigríður Ingibjörg Ingadóttir) (Sf):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra og hv. þingmanni fyrir umræðurnar. Ég þakka svörin frá hæstv. ráðherra en ég harma það að hann sé ekki afdráttarlausari í því að sama gildi um verðtryggð námslán heimilanna og húsnæðislán heimilanna. Í ljósi jafnræðis er fráleitt að ráðherrann gangi ekki fram fyrir skjöldu til að verja umbjóðendur sína eða þá sem eru með námslán og heyra undir ráðuneyti hans til að tryggja að engin mismunun verði þar á ferðinni en dálítið óljós skilaboð hafa komið varðandi námslánin og hlaupið í og úr. Það er mikilvægt að þetta liggi fyrir.

Fjöldi stétta er með margra ára háskólanám að baki en með meðaltekjur, til dæmis hjúkrunarfræðingar og kennarar. Svo ber líka að líta til þess að námslán vegna skólagjalda á Íslandi hófust á þessari öld og það er því fjöldi íslenskra heimila sem greiðir niður rekstur háskóla með tekjum sínum út starfsævina. Ég vil vinsamlegast benda ráðherra á að það verður aldrei fallist á að hægt verði að færa niður sum verðtryggð lán og önnur ekki.

Ég er ánægð með að hann ætlar að ræða við stjórn lánasjóðsins varðandi útfærslur á þessu og tel að hann eigi að gera það nú þegar sé ríkisstjórninni í raun og veru alvara með fyrirætlunum sínum gagnvart skuldugum heimilum. Ég hvet hæstv. ráðherra til að hafa fullt samráð við hagsmunasamtök sem að þessu máli koma varðandi slíka niðurfærslu.



[12:24]
mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Það var rétt sem hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir nefndi áðan, eða kom fram í máli hennar öllu heldur, að hér er ekki um að ræða námsmenn. Hér er um að ræða þá sem hafa nú þegar tekið námslán sem tóku þessum breytingum á þeim verðbólgutíma sem verið er að vísa til, og verið er að skoða slík lán. Aftur á móti nefndi hv. þingmaður eitt í fyrirspurn sinni, sem ég hef kannski ekki gert alveg nægilega grein fyrir, þ.e. spurningin um hvort breyta eigi námslánum sem nú eru verðtryggð í óverðtryggð lán. Ég vildi kannski nefna það sérstaklega vegna þess að það er ekki alveg sjálfgefið að það henti öllum að gera slíkt. Það að breyta yfir í óverðtryggð lán hangir þá á því að lítil verðbólga sé og menn haldi henni í skefjum (Gripið fram í.) — það sem ég er að nefna er bara það að almennt er ég ekki viss um að það borgi sig að setja einhver lög sem algerlega loki á slíkt, það er bara mín skoðun og ég gerði mjög vel grein fyrir henni fyrir kosningar og er enn þeirrar skoðunar að það gæti verið óskynsamlegt að banna mönnum slíkt.

Það sem skiptir mestu máli í þessari umræðu er að fyrir liggur þingsályktunartillaga um hvernig skuli staðið að þeim málum. Það er undir forustu hæstv. forsætisráðherra. Ég tel að skynsamlegt sé og eðlilegt að þetta fljóti allt saman þannig að niðurstöður þeirrar vinnu liggi þá fyrir. Ég tel að þessi fyrirspurn sé ágætlega til þess fallin að vekja athygli á einmitt þessum lánum. (Gripið fram í: Þú er þá ósammála stefnunni.) Hér er kallað fram í að ég sé ósammála stefnunni. Nei, það er langt í frá. Ég er mjög sammála því að grípa þurfi til aðgerða og ég er sammála því verklagi sem lagt er upp með, þ.e. að skipa sérfræðinefndir til að tryggja að þetta verði einmitt heildræn og heildstæð nálgun til að taka á vandanum öllum í heild en ekki í einhverjum bitum. Þess vegna svara ég með þessum hætti. Ég tel að þessi lán eins og önnur sem um er verið að fjalla eigi að fara saman í þessari vinnu, menn eigi ekki að taka og rífa það úr einhverju samhengi.