142. löggjafarþing — 19. fundur
 2. júlí 2013.
veiðigjöld, frh. 2. umræðu.
stjfrv., 15. mál (innheimta veiðigjalda, sérstakt veiðigjald o.fl.). — Þskj. 15, nál. 52 og 59, brtt. 60.

[19:33]
Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég kem hér í seinni ræðu mína í 2. umr. um veiðileyfagjöldin. Í fyrri ræðu minni rakti ég söguna og vakti athygli á því að deilurnar sem eru um sjávarútveginn og einkum auðlindagjöld og greiðslur fyrir afnot af þessari sameiginlegu þjóðareign okkar hafa staðið í raun allt frá því að kvótakerfið kom á. Síðan hafa verið stofnaðar margar nefndir, m.a. auðlindanefndin í kringum 2000, síðan tvíhöfðanefnd og ég kann nú ekki nöfnin öll. Ég var búinn að fara yfir það. Síðasta nefndin sem starfaði var starfshópur um endurskoðun á lögum um stjórn fiskveiða. Ég ætla aðeins að styðjast við gögn úr skýrslu þessa starfshóps um endurskoðun á lögum um stjórn fiskveiða, ýmis álitamál, greiningar, skýrslur og valkosti við breytingar á stjórn fiskveiða. Hún er frá september 2010.

Tónninn sem þá var sleginn enn einu sinni var um að leita sátta. Tónninn sem var sleginn núna þegar ný ríkisstjórn byrjaði var líka að það ætti að auka sátt, samheldni og samvinnu í íslensku þjóðfélagi. Það er full ástæða til að taka undir mikilvægi þess að við reynum að stilla strengi og ná saman en þá verður að vera ljóst við hverja sáttin á að vera og milli hverra.

Þess vegna var mjög skrýtið að sjá þessa breytingu á veiðileyfagjöldum. Það eru gerðar töluverðar breytingar en fyrst og fremst er þar dregið verulega úr álagningu veiðileyfagjalda með þessu frumvarpi sem ríkisstjórnin flytur sem eitt af sínum forgangsmálum. Þetta er þeim mun illskiljanlegra þegar maður hugsar til hugmynda um að ná sátt vegna þess að það hefur líka komið í ljós í framhaldinu að þjóðin er ekki tilbúin að gefa neinn afslátt af því að þjóðareignin skili af sér beinum arði eða greiðslum, auðlindarentu eða auðlindagjaldi til samfélagslegra nota. Það hefur orðið til þess að 35 þús. einstaklingar eða þar um kring hafa skrifað undir og skorað á Alþingi fyrst og fremst að hætta við áformin um lækkun á veiðileyfagjaldinu. Til vara er svo bent á að ef Alþingi samþykkir samt þessar breytingar grípi forsetinn inn í og setji málið í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Ég segi að þetta sé þeim mun merkilegra vegna þess að það urðu töluverðar umræður um veiðileyfagjaldið í fyrravor, á síðasta þingi, þar sem menn voru að ræða hvað væru eðlilegar upphæðir og hvernig ætti að skipta þessu. Þar kom að lokum að menn sættust á nokkurn veginn hvaða upphæð ætti að vera á bak við þá lagasetningu. Nú er hins vegar hopað frá því og gefinn afsláttur strax á þessu ári um 3,2 milljarða, á ársgrundvelli 6,4. Það er erfitt að sjá hvernig það á að leiða til þess að hér aukist sátt um sjávarútveginn, eins mikilvægt og það er að slík sátt náist. Ég hef ítrekað sagt, allt frá því að ég var í þessum starfshópi, og þar áður raunar, að aðalatvinnugreinin okkar, stærsta útflutningsgreinin, ein mikilvægasta atvinnugreinin, á ekki að búa við það að stöðugt sé tekist á um starfsumhverfi hennar, það þarf að finna leiðir til að koma þessu í eðlilegt umhverfi til langs tíma þar sem menn geta vitað að hvaða leikreglum þeir ganga, hvaða lögmál gilda í sambandi við þennan atvinnurekstur eins og allan annan í landinu, bæði hvað varðar gjaldtöku og skattlagningu.

Allt frá því að kvótakerfið var sett hefur verið rætt um auðlindagjöld eða auðlindarentu. Síðasta ríkisstjórn barðist fyrir því að hér yrði gjaldtaka, það yrði sett skýrt ákvæði inn í stjórnarskrá til að taka endanlega af allan vafa um að sjávarauðlindirnar væru þjóðareign og ættu að nýtast sem slíkar, að það ætti að koma til gjald og menn gætu fengið afnotarétt til tilgreinds tíma að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Það ætti líka að gæta jafnræðis í sambandi við úthlutun á þessum auðlindum.

Það var í rauninni niðurstaða í þessum starfshópi á sínum tíma að mæla með tiltekinni leið. Af hverju? Vegna þess að allir væru sáttir við þá leið sem forgangsleið? Nei, vegna þess að menn vildu slá af til að gera tilraun til að ná sátt.

Árið 2000 var líka tekist á um tvær meginleiðir, hvort fara ætti fyrningarleið eða taka upp veiðigjald. Mér er sagt af þeim sem þá unnu að málum að deilan hefði verið býsna hörð og hefði í sjálfu sér getað fallið á hvorn veginn sem var á þeim tíma, en niðurstaðan varð engu að síður eftir töluvert mikla vinnu að taka upp veiðileyfagjald og fyrningarleiðin var sett til hliðar.

Þessi álitamál komu aftur upp í starfshópnum þar sem meðal annars Samfylkingin lagði fram hugmyndir um svokallaða tilboðsleið þar sem var lögð fram hugmyndin um að gjaldtaka í sjávarútvegi færi í gegnum markaði og menn kölluðu inn ákveðinn hluta af veiðiheimildum á hverju ári og seldu til baka réttinn til að nýta auðlindina í tilgreindan tíma og einhver ákveðinn hluti væri á markaði. Það var talað um 5–8% á hverju ári og þeir sem vildu viðhalda sínum aflaheimildum yrðu þá að borga gjald í gegnum þennan markað, tilboðsmarkað, og þar með væri búið að ákveða gjaldtökuna sem sjávarútvegurinn treysti sér til þess að greiða á hverjum tíma. Væri þá miðað við samtímaafkomu vegna þess að þá byðu menn væntanlega í miðað við getu og hagkvæmni viðkomandi útgerðar.

Það sjónarmið að fara þessa leið varð undir í hópnum og þá settu menn sér að skoða hvað væri næstbest. Þá kom upp á borðið þessi samningaleið sem var um það að gera samninga til tilgreinds tíma. Það var ekki samkomulag um tímalengdina og það var ágreiningur um hversu langt tímabilið ætti að vera, en menn töluðu um allt frá tíu árum og upp í 40 ár sem Landssamband íslenskra útvegsmanna vildi fá og vitnaði þar í aðra auðlindanýtingu.

Það var sem sagt ekki ágreiningur um það á þessum tíma. Menn voru á því að við skyldum prófa að fara þessa leið, en þá yrði auðvitað skipt þannig að hluti væri í samningum og hluti í öðrum úthlutunum. Þar var þá rætt um byggðaívilnanir, línuívilnun o.s.frv., ýmis úrræði sem þjónuðu byggðatengdum aðstæðum. Þar var líka rætt um að skerpa það að þeim heimildum sem ekki væru nýttar, þeim heimildum sem féllu til ríkisins á hverjum tíma, yrði úthlutað að nýju í gegnum opinberan markað, ekki í gegnum útgerðina.

Þarna var í raunveruleikanum gerð alvarleg tilraun til þess að ná sáttum. Þeirri tilraun er ekki lokið því að ný ríkisstjórn hefur vitnað í greinargerð starfshópsins og vill byggja framhaldið á niðurstöðunum frá því. Ég tel að það sé í sjálfu sér góður grundvöllur en þá verða menn líka að vera tilbúnir að fylgja meginatriðunum í þeim tillögum og sætta sjónarmið en ekki að tala sig í sundur. Ég tel að ríkisstjórnin hafi með þessu veiðileyfagjaldafrumvarpi stigið skref í ranga átt, í átt sem verði til þess að minnka sáttina í samfélaginu. Það er miður vegna þess að sjávarútvegurinn þarf á öðru að halda.

Það er enn þá merkilegra að skoða þetta hjá hæstv. ríkisstjórn með tilliti til þess sem er að gerast þessa dagana þegar menn eru að tapa verulegum tekjum og sjá fyrir sér útgjaldaaukningu á ýmsum sviðum, hafa metnað til þess að gera ákveðna hluti en hafa ekki fjármagn til þess. Þegar menn byrja á því, miðað við næstu 18 mánuðina, að lækka tekjustofna ríkisins um allt að 12 milljarða verður gatið sem því nemur stærra. Það er auðvitað full ástæða til að hafa áhyggjur af því hvernig menn ætla að standa við loforðin um að búa betur að lífeyrisþegum. Fyrsta skrefið varð afar lítið, miklu minna en maður átti von á miðað við gefin loforð. Menn eru þegar farnir að kveinka sér undan jafnlaunaátaki sem er til þess að eyða kynbundnum launamun sem hefur verið einn af veikustu hlekkjunum í jafnréttisbaráttu okkar. Við vitum öll að það þarf að gefa til baka og bæta fjármagni inn á heilbrigðisstofnanir, inn í löggæsluna o.s.frv. og þá spyr maður sig: Höfum við efni á þessu? Var þetta hópurinn sem þurfti að hjálpa, var þetta hópurinn sem hefur verið í mestum vanda? Við vitum hver afkoman hefur verið á undanförnum árum með gengisbreytingunni sem varð við hrunið.

Það er svolítið forvitnilegt að skoða frá þessari svokölluðu sáttanefnd bókanir frá einstökum flokkum. Meðal annars er bókun frá þáverandi fulltrúa Framsóknarflokksins, núverandi hæstv. ráðherra Gunnari Braga Sveinssyni. Í þeirri bókun er talað um að á einfaldan hátt megi skipta deilum um auðlindina í þrennt og svo er bein tilvitnun, með leyfi forseta:

„1. Hverjir mega nýta auðlindina. 2. Hvernig það er gert. 3. Hversu mikið á að nýta. Deilurnar eru vitanlega flóknari en þetta eru meginlínurnar.“

Svo kemur kafli, með leyfi hæstv. forseta:

„Sú nefnd er nú lýkur störfum hefur reynt að finna leiðir til að jafna þessar deilur og hefur tekist að leggja fram hugmyndir sem nýtast munu til að ná sátt um stærstu deilumálin.“

Svo er kafli um að fyrningarleiðinni hafi verið hafnað og menn hafi horft til samningaleiðarinnar og sæst á að reyna þá leið sem líklegustu leið til sátta.

Svo kemur áfram bein tilvitnun í bókun fulltrúa Framsóknarflokksins, hæstv. núverandi ráðherra Gunnars Braga Sveinssonar:

„Meginatriði samningaleiðarinnar felast því í samningi við rétthafa um afnotarétt af auðlindinni. Þá gerir samningaleiðin jafnframt ráð fyrir að með skýrari hætti sé kveðið á um að auðlindin er sameign þjóðarinnar og tel ég rétt að í stjórnarskrá eigi að setja skýrt ákvæði um þjóðareign.“

Þetta er sérstaklega tekið fram í bókun hæstv. núverandi ráðherra Gunnars Braga Sveinssonar. Við deilum þessari skoðun og það er mjög mikilvægt að við komum auðlindaákvæði inn í stjórnarskrá, högum þannig vinnunni núna að við fáum heimild til þess að ganga til breytinga á stjórnarskrá á þessu kjörtímabili og þetta verði eitt af forgangsmálunum enda ætti ekki að vera um það pólitískur ágreiningur miðað við þessa bókun.

Hv. þingmaður tekur enn fremur fram að hann styðji þá hugmynd að innan aflamarkskerfisins verði tveir pottar, annars vegar innan samningaleiðarinnar og hins vegar byggðakvótar, línuívilnun og fleira í þeim dúr.

Það má sem sagt segja að niðurstaðan hjá hæstv. ráðherra, þáverandi hv. þingmanni í starfshópnum, feli í sér þau þrjú meginatriði sem hann telur upp. Það fyrsta er að það eigi að koma ákvæði um þjóðareign á auðlindum inn í stjórnarskrána, í öðru lagi að það eigi að fara samningaleið um úthlutun nýtingarréttarins og hámarka afrakstur greinarinnar svo hún geti sjálf fjárfest o.s.frv. Í þriðja lagi eiga að gilda svipaðar reglur um auðlindir Íslands, hvort sem um er að ræða sjó, land eða vatn. Hugmyndir sem hafa verið uppi og eru kannski ástæðan fyrir því að meðal annars sá sem hér stendur féllst á að skoða þessa samningaleið til enda eru að hún gæti á margan hátt samrýmst sambærilegum reglum í sambandi við nýtingu á vatni, hita og öðru slíku að svo miklu leyti sem þetta er sambærilegt. Margar af þessum auðlindum þjóðarinnar eru auðvitað eðlisólíkar.

Ég held að við séum öll sammála. Að minnsta kosti tala menn eins og þeir vilji taka afgjald og nýta auðlindina í þágu þjóðar og þess vegna skil ég ekki af hverju menn heykjast á því í þessu frumvarpi.

Meginatriðin eru kannski þau að þegar við horfum yfir þetta sumarþing, það sem við erum búin að vera að gera undanfarnar vikur, allt frá því að fyrstu málin komu inn, höfum við séð forgangsröð sem ég átti ekki von á, forgangsröð sem felst í að lækka skatta á ákveðnum aðilum, útgerðinni í þessu tilfelli og síðan á ferðaþjónustunni sem er okkar meginvaxtargrein og þá eingöngu í gegnum gjald sem átti að leggja fyrst og fremst á erlenda ferðamenn sem nýttu hér gistiaðstöðu.

Á sama tíma kveinka menn sér undan því að standa við loforðin á öðrum sviðum, hvort sem er varðandi skuldavandann, þar sem megnið af því er farið í nefnd, beinu aðgerðirnar sem voru þrjár af tíu, þar er þegar farið í gegn ákvæði um að hraða í gegnum dómskerfið afgreiðslu ágreiningsmála varðandi lánamálin. Ákvæði um heimildir til Hagstofu til að safna upplýsingum um skuldavandann virðist vera að daga uppi, ekki vegna þess að stjórnarandstaðan berjist gegn því eða þvælist á neinn hátt fyrir heldur einfaldlega vegna þess að umsagnir og umræður innan stjórnarflokkanna hafa leitt til þess að þetta mál er ekki jafn einfalt og hæstv. forsætisráðherra gerði ráð fyrir þegar hann lagði frumvarpið fram. Nú hef ég svo sem ekki séð endanlega niðurstöðuna, sit þó í hv. allsherjar- og menntamálanefnd, en það er margt sem bendir til að þetta mál fari ekki í gegn.

Við stöndum sem sagt frammi fyrir því að ljúka kannski þinginu í þessari viku þar sem fleiri spurningar hafa vaknað en svarað hefur verið. Ofan í þetta fáum við svo skýrslu, áfellisdóm yfir fyrrverandi stjórnvöldum fyrst og fremst varðandi stjórn Íbúðalánasjóðs, um mál sem verður rætt í þinginu á morgun og þá verður byrjað að kryfja með hvaða hætti við getum dregið lærdóm af því. Þar eru einmitt gagnrýnd mjög pólitísk afskipti og áhrif í stjórnkerfinu sem er svo eitt af málunum sem við erum að glíma við og kemur hér á dagskrá á eftir þessu máli, stjórn Ríkisútvarpsins. Þar er fullkomlega óskiljanlegt að stjórnarflokkarnir skuli reyna að fara í þá vegferð að auka völd síns flokks, pólitísk völd í stjórn á Ríkisútvarpinu, fjölmiðli í eigu almennings.

Þetta byrjar ekki vel en við skulum vona að fall sé fararheill hvað þetta varðar, að menn finni fjölina sína og komi samfélaginu áfram, ekki veitir af, og þá eflist sáttin og samstaðan. En það verður ekki gert með þeim hætti sem hér hefur verið sýnt og alls ekki með svipuðum hætti og notaður er hér varðandi veiðileyfagjaldið. Við viljum ekki fá aftur gömlu fyrirgreiðslupólitíkina þar sem menn hafa bókstaflega ávinning af því að ganga í ákveðna stjórnmálaflokka til að koma sínum málum fram. Það eru ekki stjórnmál sem við viljum hafa, það eru stjórnmál fortíðarinnar og ég ætla að vona að við drögum þann lærdóm að vera eins fagleg og mögulegt er og draga úr flokkspólitísku valdi, hvort sem er í ákvarðanatöku í tengslum við sjávarútveg, íbúðalánin eða stjórn Ríkisútvarpsins.



[19:51]
Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil í seinni ræðu minni um lækkun veiðigjalda koma inn á áhyggjur sjómanna af veiðigjöldum yfir höfuð. Það hefur mikið verið talað um það í þeirra röðum að veiðigjöldin komi í veg fyrir eðlilegar kjarabætur og hækkun launa og geti dregið úr því að þeir nái kjarasamningum þar sem höfðað sé til þess að útgerðirnar þurfi að greiða það há veiðigjöld að þær eigi erfiðara með að greiða sjómönnum sínum laun og gera við þá kjarasamninga.

Á þeim forsendum hafa samtök sjómanna lýst því yfir að þau séu á móti auðlindagjöldum, ekki samt öll samtök sjómanna en það hefur komið fram í umsögnum þeirra. Mér finnst sorglegt að því sé stillt þannig upp að sjómenn horfi á þetta með þeim gleraugum að það komi í veg fyrir eðlilegar launahækkanir og gerð kjarasamninga en sjái það ekki í stóra samhenginu þar sem um er að ræða auðlindarentu til þjóðarinnar sem nýtist öllum þjóðfélagsþegnum, þar á meðal sjómannastéttinni. En svona hefur því verið stillt upp gagnvart sjómönnum og eins og ég kom að í fyrri ræðu minni hefur sjómönnum verið beitt fyrir útgerðina í þeim tilgangi að berjast gegn breytingum á fiskveiðistjórnarkerfinu og veiðigjöldum og ég tel það vera mjög af hinu vonda að sjómenn séu hafðir í forsvari á röngum forsendum í þeirri baráttu.

Ég vil, með leyfi forseta, vitna í grein Indriða H. Þorlákssonar sem hann skrifar þar sem hann fjallar um sjómannslaun í tengslum við veiðigjöldin og segir:

„Laun sjómanna eru í kjarasamningum yfirleitt ákveðin á grundvelli hlutaskiptareglu, þ.e. sjómenn fá í laun ákveðið hlutfall af söluverðmæti aflans. Veiðigjöldin hafa engin áhrif á það verð sem fæst fyrir afla á markaði og þar af leiðandi ekki á laun sjómanna. Laun sjómanna hafa hækkað með lægra gengi og hækkandi fiskverði. Því hefur verið haldið fram að veiðigjöldin hvetji útgerðir til að reyna að lækka laun sjómanna. Óskir þess efnis voru uppi löngu fyrir tilkomu núverandi veiðigjalda. Ólíklegt er að þau ýti undir þær m.a. af því að ávinningur útgerða af lækkun launahlutfallsins er minni en áður því launakostnaður kemur til frádráttar áður en veiðigjöldin eru reiknuð. Lækkun launanna hækkar veiðigjöldin sem dregur úr ávinningi útgerðarinnar af lækkuninni.“

Þetta er ekki flóknara en svo að í raun og veru er það sjómönnum í hag eða útgerðinni, hún greiðir minna í veiðigjöld ef hún hækkar laun sjómanna sinna sem ætti að vera hvati til að hækka laun sjómanna ef þeir vilja síður að stærri hluti rentunnar renni í ríkissjóð.

Svona áróður síast inn og undir, ég segi fölskum forsendum er honum haldið á lofti alveg eins og áróðrinum um að veiðigjöld séu landsbyggðarskattur, verið sé að draga fé úr byggðum landsins og færa fjármuni yfir á höfuðborgarsvæðið. Ég tel þetta vera hráskinnaleik sem menn eiga ekki að stunda í þeim tilgangi að berjast gegn veiðigjöldum og breyttu fiskveiðistjórnarkerfi.

Það hefur líka verið sagt að margar útgerðir séu svo illa staddar út af tilkomu veiðigjaldanna að þær muni ekki geta risið undir þeim og fari á hausinn. Ég hef reynt á fundum atvinnuveganefndar að kalla fram hjá endurskoðunarfyrirtækjum rökstuðning fyrir því og fá fram hvort veruleikinn sé sá að útgerðir séu komnar í þá stöðu, eins stutt og það er frá því að veiðigjöldin komu til, að það valdi því að fyrirtækin stefni í gjaldþrot. Ég fékk ekki neinn rökstuðning fyrir því yfir höfuð. Það var einungis nefnt sem dæmi umfjöllun, sem reyndar allir þekkja úr blöðunum, um stórt útgerðarfélag sem hefði hótað að segja upp 40 sjómönnum vegna tilkomu veiðigjalda, en það útgerðarfélag er reyndar skuldlaust og fannst mér það ekki besta dæmið um að veiðigjöldin væru að setja sjávarútvegsfyrirtæki á hliðina, það hlyti að vera eitthvað annað sem ræki menn til þess að segja upp tugum sjómanna, 40 sjómönnum, þó að yfirskinið væri að veiðigjöldin væru að reka menn til þess.

Það hefur líka komið fram að mörg sjávarútvegsfyrirtæki voru mjög illa stödd fyrir hrun og skuldsett og þar voru líka lítil og meðalstór fyrirtæki sem menn hafa haft að yfirskini að þessi lækkun veiðigjalda eigi að bjarga. En mörg þeirra fyrirtækja voru komin í ógöngur vegna allt annarra hluta en snerti rekstur þeirra beint í sjálfu sér, ekki vegna kvótakaupa eða fjárfestingar í greininni sjálfri heldur höfðu mörg hver farið óvarlega í fjárfestingum í óskyldum rekstri. Veiðigjöldin og auðlindarentan sem slík getur aldrei miðast við fyrirtæki sem eru komin í þá stöðu frekar en almenn skattlagning getur miðast við illa rekin fyrirtæki. Það verður auðvitað hver og einn að bera ábyrgð á fyrirtæki sínu alveg eins og hann ber ábyrgð á sér og heimilisrekstri sínum. Það gengur ekki að hafa veiðigjöld að skálkaskjóli og kenna þeim um þó að vissulega sé sú staða alltaf ömurleg þegar fyrirtæki sjá ekki fram úr að geta rétt sig af.

Útgerðarfyrirtæki landsins hafa í gegnum tíðina haft meiri aðgang að almannafé en kannski fyrirtæki í öðrum rekstri. Ég held að útgerðarfyrirtæki hafi oftar en ekki náð eyrum stjórnmálamanna og fengið fyrirgreiðslu. Stundum hefur það verið lenging í hengingaról og ef til vill ekki neinum greiði gerður með því, en ég held að margir atvinnurekendur í öðrum greinum hafi verið svolítið ósáttir, kannski oftar en ekki, við að þegar basl er í útgerðinni hafa menn oft náð eyrum ýmissa aðila í stjórnkerfinu, svo sem Byggðastofnunar, sem hafa komið inn með aðstoð sem hefur jafnvel ekki alltaf átt rétt á sér þótt hún hafi oft átt rétt á sér. Það hlýtur að vera krafa á þá sem eru í rekstri að reka fyrirtæki sín vel og ef menn fá fyrirgreiðslu og aðstoð umfram það sem hinum almenna borgara býðst verður að rökstyðja með góðum hætti að eitthvert jafnræði sé á ferð en ekki að duttlungar hverju sinni í stjórnkerfinu eða í fjármálakerfinu ráði þar för.

Það er líka það sem fólki finnst núna þegar stórútgerðirnar í landinu hafa eins mikinn hagnað og liggur fyrir, og hefur ekkert verið deilt um það, og hafa jafnvel fengið mikið afskrifað í bankakerfinu, að þær geti þá ekki staðið undir eðlilegri auðlindarentu sem renni til samfélagsins en því fólki sem notar kannski síðustu krónurnar í útborgun hvers mánaðar til þess að greiða af húsnæðislánum sínum, bílalánum og eðlilegri framfærslu, sem reynir að standa skil á skuldum sínum, bjóðist ekki nein niðurskrift meðan það hefur einhverja greiðslugetu. Það er nú svo.

Ég vil nefna að mér finnst að atvinnuveganefnd eigi að taka upp þær tillögur sem minni hluti atvinnuveganefndar lagði fram og koma fram í nefndaráliti okkar og breytingartillögum. Það eru góðar tillögur sem ég held að menn ættu að geta sameinast um ef þeir meina eitthvað með því að þeir vilji koma til móts við lítil og meðalstór fyrirtæki. Ég hef alltaf talað fyrir því að við þurfum að gera það og ég batt vonir við að veiðigjaldsnefndin sem var að störfum og er að störfum mundi gera góða úttekt á því hvernig staða þessara minni og meðalstóru fyrirtækja væri og koma með tillögur til úrbóta. Það var vilji okkar sem studdum síðustu ríkisstjórn að tekið yrði á akkúrat þeim hluta útgerðarinnar sem félli undir það. Tillögur okkar mæta vel þeim sjónarmiðum og ég teldi vera góðan brag á því að atvinnuveganefnd sammæltist um að rétta fram sáttarhönd og styðja tillögur okkar sem eru líka á hógværu nótunum varðandi lægri tekjur ríkissjóðs. Það mundi kosta rúmar 300 milljónir að hækka þetta frítekjumark en mundi skipta þá sem þar eiga í hlut miklu máli.

Ég tel að hæstv. sjávarútvegsráðherra ætti að huga að þeim hópi sem á í hlut og hvort þetta séu ekki alvöruaðgerðir ef menn meina eitthvað með því að þeir vilji hag þessara fyrirtækja sem bestan, vitandi það að oft eru það lítil og meðalstór fyrirtæki sem halda uppi atvinnu í smærri byggðarlögum og skipta sköpum fyrir byggð þar, að þau geti haldið áfram að skapa vinnu og fólk geti áfram búið í sjávarbyggðum, það fólk sem vill búa þar og byggja sig upp þar. Það er auðveldara fyrir einstaklinga að fjárfesta í minni útgerðum og enginn möguleiki á að fara út í einhverja stórútgerð í þessum byggðarlögum sem standa mörg hver veik eftir þær afleiðingar sem kvótakerfið hefur haft smátt og smátt, brotið niður mörg minni samfélög. Mörg þeirra hafa getað byggt sig upp á öðrum forsendum meðfram því sem var aðalatvinnuvegurinn, sjávarútvegur, sem betur fer og þannig á það líka að vera. En útgerð, fiskvinnsla, sjósókn, þetta er auðvitað undirstaða þess að byggðirnar eigi tilverurétt og hafi möguleika á að spjara sig.

Mig undrar því líka þessi mikla neikvæðni núverandi stjórnvalda gagnvart strandveiðum, sem hafa verið mikil og góð viðbót við þá flóru sem fyrir er. Þær eru vissulega ekki á ársgrundvelli en þær hafa verið mikil viðbót fyrir þær byggðir sem hafa verið með smærri útgerðir, ekki átt kvóta til þess að róa á ársgrundvelli, getað haft viðurværi af því yfir veturinn en farið inn í strandveiðikerfið um sumarið og þannig skapað sér atvinnu á ársgrundvelli. Þetta þekki ég í minni heimabyggð á Vestfjörðum og víðar og veit að það hefur skipt miklu máli. Ég held að það eigi eftir að heyrast hljóð úr horni ef þessi hægri ríkisstjórn ætlar að fara að reyna að brjóta niður strandveiðikerfið sem þó komst á á síðasta kjörtímabili, ef þeir hafa uppi sama áróður og þeir voru með á síðasta kjörtímabili, að þetta væri leikaraskapur og fyrir einhverja aðra, enginn alvöruatvinnuvegur og bara fyrir þá sem væru að leika sér og hefðu ekkert með sjávarútveg að gera.

Annað hefur nú komið í ljós og ég vil í lok ræðu minnar biðla til hæstv. ríkisstjórnar að sýna af sér röggsemi og draga þessar lækkanir til baka, efla strandveiðar og taka svo upp það frumvarp sem síðasta ríkisstjórn lagði fram á vordögum um breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu (Forseti hringir.) og afgreiða það.



[20:11]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Það eru nokkur atriði sem mig langar að fara betur yfir sem mér vannst ekki tími til að gera í fyrri ræðu minni við þessa umræðu. Reyndar verð ég nú að viðurkenna að mér finnst svolítið tómlegt hér í salnum, mér finnst svolítill skortur á aðstandendum málsins. Hæstv. ráðherra hefur ekki sést í þessari umræðu í allan dag, það best ég veit, og formaður nefndarinnar er hér ekki heldur. Ég ætla svo sem ekki að elta ólar við að biðja um viðveru þeirra, en maður veltir því fyrir sér hvort þetta sé til marks um að þetta frumvarp sé einhvern veginn orðið svolítið munaðarlaust, það vilji kannski bara eiginlega enginn kannast beinlínis við það.

Ég hef það svolítið á tilfinningunni að tvær grímur séu að renna á einn og einn stjórnarliða, eða ég eiginlega vona það því að ég hefði talið að stjórnarliðar gerðu nú rétt í því að velta því aðeins fyrir sér hvort þeir væru vissir um að þeir væru þarna á réttri braut. Það er ástæðulaust að ýkja upp ágreining um mál ef þess er ekki nein þörf. Ég er ekkert viss um að það hefði vakið mikla úlfúð ef stjórnarfrumvarpið hefði komið þannig fram að einhver minni háttar eða talsverð fínstilling hefði átt sér stað á veiðigjöldunum. Segjum að það hefði þess vegna leitt til einhvers minni háttar tekjutaps frá því sem veiðigjöldin hefðu gefið óbreytt á þessu fjárlagaári — það lá jú fyrir samkomulag um að ekki yrðu teknir í heildartekjur, nettó, í veiðigjöld meira en 13,8 milljarðar kr. á því fiskveiðiári sem er að líða. Yrði innheimtan meiri yrði því skilað með afslætti á fyrsta gjalddaga næsta fiskveiðiárs, af því að auðvitað var ekki hægt að áætla það nákvæmlega fyrir fram á síðastliðnu sumri hver heildartekjuöflunin yrði og það ræðst auðvitað dálítið af aflamagninu á hverjum tíma; þær tegundir sem ekki eru endanlega kvótasettar, eins og loðna, fyrr en á vetrarvertíð o.s.frv.

Auðvitað má segja að ef kvótinn vex sé eðlilegt að tekjurnar vaxi, en svona var nú frá þessu gengið. Og eins og fram kemur í hinni margrómuðu kostnaðarumsögn fjármálaráðuneytisins höfðu menn svo gert ráð fyrir nokkuð meiri tekjum á fiskveiðiárinu 2013/2014, sem bera auðvitað uppi tekjur fjárlagaársins 2014, en þannig háttar til að fyrstu þrír mánuðir nýs fiskveiðiárs falla inn á hvert fjárlagaár og þar af leiðandi er ekki endilega fullt samræmi á milli tólf mánaða innheimtunnar á fiskveiðiárinu og tólf mánaða innheimtunnar á fjárlagaárinu.

Það er alveg ljóst að með þessum ráðstöfunum vantar verulega upp á að tekjur fjárlagaársins muni skila sér, áætlað að þar vanti 3,2 milljarða upp á. Það er dálítið athyglisvert í ljósi þess að núverandi stjórnarflokkar, þáverandi stjórnarandstöðuflokkar, stóðu einmitt í lok júnímánaðar 2012 að því, þó að þeir að sjálfsögðu samþykktu ekki frumvarp um veiðigjöld, að Alþingi fékk frið til að ljúka málinu á grundvelli þess að við teygðum okkur mjög til móts við þá og lækkuðum gjöldin umfram það sem endurskoðun og skoðun í nefnd hafði leitt til að yrði gert og allir voru sammála um að gera, vissar breytingar sem leiddu af ítarlegri skoðun málsins í nefndinni.

Þessu hnoði, eftir langvinnt málþóf hér vorið og fyrstu sumardagana 2012, lauk þannig að þáverandi stjórnarandstöðuflokkar létu það gott heita að veiðigjaldafrumvarpið gekk í gegn, gegn því líka að stóra frumvarpinu var frestað með tilteknum hætti. Þá töldu menn sig alla vega geta lifað með þessu, að tekjur af fiskveiðigjöldum yrðu 13,8 milljarðar á fiskveiðiárinu 2012/2013, og síðan nokkru meiri á fiskveiðiárinu 2013/2014 og út frá því er gengið í ríkisfjármálaáætluninni núna.

Ef frumvarpið gengi út á það, eða breytingartillögur meiri hlutans eftir athugun á málinu, að reyna að verja þessar tekjur svona að mestu leyti, þá hefði maður þó alla vega talið að það væri til marks um að viðkomandi aðilar væru með nokkra meðvitund um að það hlýtur að hafa eitthvert vægi í þessu að ríkið er þarna að verða af miklum tekjum. Jú, jú, menn geta að sjálfsögðu farið hér í ræðuhöldin um að þetta sé óþarflega mikið og fullmikið. En hver telur sig ekki vera að borga óþarflega mikla skatta og greiða óþarflega mikið? Ætli það séu nú ekki fleiri en sjávarútvegurinn á Íslandi sem þægju alveg að það væri aðeins létt af þeim gjöldum, því að auðvitað hefur þurft að gera miklar ráðstafanir til þess að afla ríkinu tekna á þessum erfiða tíma til þess einfaldlega að koma í veg fyrir að ríkissjóður Íslands fari á hausinn. Það er nú bara þannig að hefði það ekki verið gert væri ríkissjóður Íslands um það bil kominn á hausinn núna. Það er algerlega ljóst að ef hallinn á ríkissjóði væri af stærðargráðunni sem hann var 2008–2009, jafnvel 2010, mældur í um 100 milljörðum eða 100–200 milljörðum, væri skuldastaðan að verða um það bil ósjálfbær og óviðráðanleg núna. Það er bara svona hratt sem þetta gerist. Þetta ættu hv. þingmenn að sjá, meðal annars af því að núna fara tæpir 90 milljarðar kr. í greiðslu vaxta af skuldum ríkisins. Við höfum kannski 20 milljarða í vaxtatekjur á móti þannig að fjármagnsliðirnir eru óhagstæðir hjá ríkinu um um það bil 70 milljarða kr. og það tekur rosalega í.

Þess vegna verða menn að horfa á þetta í hinu stóra samhengi. Það var ekki út í loftið að menn fóru í þær aðgerðir sem farið var í og báru meðal annars niður hjá aðilum eins og sjávarútveginum í ljósi hans góðu afkomu eins og ferðaþjónustunni sem menn töldu að gæti þá aðeins greitt meira í virðisaukaskatt eins og auðugasta fólkið á Íslandi, eins og tekjuhæsta fólkið á Íslandi, eins og þeir sem hafa miklar fjármagnstekjur o.s.frv., því að einhvers staðar frá verða þessar tekjur að koma.

Hér sé ég að formaður nefndarinnar er kominn og það gleður mig mjög að hann skuli ætla að vakta þetta barn sitt hér svo að það sé ekki munaðarlaust, frumvarpið, eins og ég var farinn að hafa nokkrar áhyggjur af.

Hér er bara svo langur vegur á milli, þetta er svo mikið að það kemur mér mjög á óvart og ég hef ekki sannfærst enn. Þrátt fyrir það að velviljaðir þingmenn hafi verið að sýna mér reikninga úti í þingsalnum hef ég ekki sannfærst enn um að þarna sé einfaldlega rétt stillt af. Ég hef það alls ekki, því að ég á eftir að sjá betri gögn fyrir því að ég kaupi að það sé réttlætanlegt að hlutdeild botnfisksveiðanna í heild, veiða og vinnslu, í sérstöku veiðigjaldi sé ekki nema sjötti partur eða fimmti partur af því sem uppsjávarveiðarnar eiga þó að greiða.

Tekjuáhrifin af þessu, eins og fram hefur komið, eru 3,2 milljarðar í aukinn halla ríkissjóðs á þessu ári. Ja, ekki hefur heyrst af neinum viðbrögðum af hálfu hæstv. ríkisstjórnar til að afla tekna eða draga úr útgjöldum þar á móti, og um 6,4 milljarðar á næsta ári. Það sem við höfum á borðum okkar í þessari mynd ríkisfjármálanna — og ég vona að mér fyrirgefist, hæstv. forseti, þó að ég fari aðeins yfir í það samhengi mála, því að þetta er nú einn af stóru þáttunum í þessu frumvarpi — eru þá þessi tvö frumvörp, annað lögfest og hitt hér til 2. umr., sem afsalar ríkinu talsverðum tekjum á þessu ári og hinu næsta.

Virðisaukaskattur í gistingu kostar í lægri tekjur 535 milljónir á þessu ári, veiðigjöldin 3,2 milljarða, og síðan er það mat fjármálaráðuneytisins að breytingar á almannatryggingalögum þýði útgjöld upp á um 850 milljónir á þessu ári. Það er, eins og ég fór hér áður yfir, tæplega 4,6 milljarða aukinn halli ríkissjóðs á árinu 2013 vegna beinna aðgerða ríkisstjórnarinnar sjálfrar. Það kemur inn í vaxtakostnað næsta árs vegna þess að ríkið er rekið með halla og þetta þýðir aukna skuldasöfnun, aukna lántöku ríkisins á þessu ári. Engar töfrakúnstir í því, það eru engir útlendir kröfuhafar, held ég, sem ætla að borga þetta. Nei, það eru bara skattgreiðendur framtíðarinnar og velferðarþjónustan sem verður sem þessu nemur verr sett vegna þess að viðbótarskuldir lenda á ríkissjóði sem taka á sig vexti strax á síðustu mánuðum þessa árs og að fullu á næsta ári.

Staðan er enn alvarlegri á næsta ári og miðað við það sem við höfum þar í höndunum er með þessum tveimur frumvörpum sem afsala ríkissjóði tekna, og þá frumvarpinu með breytingu á almannatryggingalögum, samtals verið að auka vanda ríkissjóðs um 12,5 milljarða kr. á fjárlagaárinu 2014. Nú hefur sömuleiðis komið fram, og formaður Sjálfstæðisflokksins, hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra, hefur talað nokkuð skýrt, að ég held, í þeim efnum, að auðlegðarskattur falli niður um áramótin. Það er að vísu alveg rétt að hann var lagður á tímabundið eins og hann var upphaflega lagður á og síðan framlengdur tímabundið og það þarf að gera þá einföldu ráðstöfun í lögum að framlengja gildistíma hans. Þar fara, ja, hvað eigum við að segja, 8 milljarðar plús fyrir borð, 8 milljarðar plús sem um það bil 3.500 ríkustu fjölskyldurnar á Íslandi fá þá í lægri skatta.

Þá er gatið komið í 20 milljarða plús og er þó engan veginn víst að allt sé talið því að í lista með stefnuræðu forsætisráðherra, sem birtist hér í byrjun þings, voru boðuð fleiri frumvörp sem ekki var hægt að ráða annað af efnislýsingunni en væru líka ávísun á frekara tekjutap ríkisins, önnur frumvörp í skattamálum sem síðan hafa að vísu ekki komið fram — ríkisstjórnin hefur greinilega hætt við að leggja þau hér fram frá því að stefnuræðan var samin. Þar var talað um jafnvel að fella niður orkuskattinn, lækka bensíngjöld eða annað í þeim dúr. Við höfum því enga tryggingu fyrir því, við sem ekki höfum aðgang að öðrum upplýsingum en þessum, að þarna sé allt talið.

Ég verð að segja eins og er að manni bregður mjög í brún ef menn ætla að leggja upp með þessum hætti því að maður hefur nú staðið í því að reyna að koma saman einhverjum svona pökkum nokkrum sinnum þar sem reynt er að minnka gjána, brúa bilið og taka bæði niður útgjöld og að afla tekna. Oftast hefur það kostað býsna sársaukafullar og þjáningarfullar aðgerðir á báðar hliðar sem ekki hafa allar mælst vel fyrir og manni hefur kannski ekki verið beinlínis þakkað fyrir allt, alla vega ekki í fylgi ef út í það væri farið. En eitthvað varð að gera.

Eru hv. þingmenn vissir um að það verði svo bara eins og að veifa hendi að skutla einhverju upp í þetta 20 milljarða gat sem ríkisstjórnin er þá sjálf að búa til og setja fyrir framan sig á leiðinni, því að væntanlega ætlar hún sér eitthvert líf, að minnsta kosti að lifa af að koma fram fjárlagafrumvarpi næsta haust, þó að hún sé að vísu þegar búin að gefast upp á því að gera það á réttum tíma að sögn. Ég er svo sem ekkert hissa á því kannski úr því að menn eru að undirbúa það að koma því saman með þessum hætti. Ætli það létti nú róðurinn að stilla af frumvarpið, sem ég bind nú enn vonir við að menn hafi döngun í sér til að gera þannig að það verði án halla á fjárlagaárinu 2014, þegar menn byrja á því að búa sér til svona 20 milljarða gat hið minnsta?

Þetta er líka að byrja á algerlega öfugum enda. Ég hefði frekar viljað að ríkisstjórnin hefði dregið það í mánuð í viðbót, eða hvað það var, að boða þetta þing og komið undirbúin til leiks. Fyrsta málið sem hefði átt að koma hér á borð þingmanna á nýju kjörtímabili var endurskoðuð ríkisfjármálaáætlun til meðallangs tíma. Ég skil alveg að menn hefðu þurft einhvern tíma til að setja hana saman en það er á þeim grunni sem allt hitt hefði átt að byggja. Þá gátu menn í framhaldinu farið að velta því fyrir sér: Hvaða ráðrúm höfum við á því að afsala ríkissjóði tekna eða taka á hann ný útgjöld, þó þannig að við förum ekki út af sporinu?

Það hefur kostað miklar fórnir — og þá er ég ekki að tala um hinar pólitísku fórnir því að þær eru nú léttar í maga, skítt með það — hjá almenningi í þessu landi, það hefur kostað byrðar. Það hefur kostað það að þrengt hefur verið að rekstri opinberra stofnana, það hefur kostað það að fólk hefur þurft að hlaupa hraðar víðar og bagsað við að reka sínar stofnanir, sína starfsemi og veita þjónustu, með minni fjármuni milli handanna og menn hafa gert það af mikilli þegnskyldu almennt séð, vegna þess að menn höfðu skilning á nauðsyn þess að takast á við þetta, að minnsta kosti lengi vel framan af árinu eftir hrun, auðvitað í von um að svo færu betri tímar í hönd og það væri hægt að fara að búa betur að þessari starfsemi aftur.

Þess vegna á það eftir að verða svo sárgrætilegt ef menn glutra að einhverju leyti niður þeim árangri sem við höfum þó náð. Sleppum því að rífast um hvort hann er mikill eða lítill. Hann er alla vega talsverður, held ég. Flestir, alla vega utan landsteinanna, telja að það sé talsverður árangur að hafa náð halla ríkissjóðs niður úr 14,6% af vergri landsframleiðslu 2008 — látum það nú vera, það var mikið vegna bókfærðra tapa og einskiptiskostnaðar, en hallinn var um 9% af vergri landsframleiðslu 2009 og það var nánast allt rekstrarhalli og var þó útkoma ársins ívið betri en áætlanir höfðu gert ráð fyrir, meðal annars vegna þess að við gerðum mjög hagstæð viðskipti um kaup á krónum heim frá Lúxemborg, svonefndan Avens Deal, og hann lagaði afkomuna á því ári.

Hægt og bítandi hefur þessi halli náðst niður þannig að núna erum við með fjárlög í gildi, hvort sem þau halda að öllu leyti eða ekki, þar sem hallinn er 3,5 milljarðar, 0,2% af landsframleiðslu. Segjum að í því sé einhver sveifla upp á 10–12 milljarða, ef við slyppum með innan við 1% halla á fjárlögum þessa árs, svona á bilinu 0,5–0,8% af vergri landsframleiðslu eða eitthvað svoleiðis, auðvitað væri það alveg stórkostlegt séð í ljósi þess hvaðan við erum að koma.

Það verður alveg óskaplega sorglegt ef menn fara þarna út af sporinu. Ég segi því af mikilli einlægni að mér finnst það dálítið merkilegt að menn skuli ekki vilja staldra við og skoða þessa hluti betur. Það var hægt að gera það með ýmsum öðrum hætti en þeim að rjúka inn í veiðigjöldin með þessu móti. Í sjálfu sér hefði ekkert vandamál verið að ákvarða þau og stilla þau svo af innan fiskveiðiársins ef út í það hefði verið farið eða að ákveða með einföldum hætti að víkja ákvæðum til hliðar og leggja á fyrsta gjalddaga hvernig sem það nú var. Þá hefðu menn verið komnir aftur fyrir það að vera búnir að koma saman fjárlögum og hefðu vitað hvar þeir standa að þessu leyti.

Auðvitað er það ekki bara vandi ríkissjóðs sem hægt er að horfa til í svona löguðu, að sjálfsögðu ekki, það verður líka að horfa á stöðu greiðandans, sjávarútvegsins, og hvað hann ræður við. Það verður líka að hafa vægi að gjaldtakan þar sé viðráðanleg. Það er ég sannfærður um að hún er og það þarf ekki að lækka sérstaka veiðigjaldið á botnfiskinn, í öllu falli ekki nándar nærri svona mikið. Ég leyfi mér að halda því fram að sjávarútvegurinn gæti vel borið það að uppistöðu til. Það yrði enginn héraðsbrestur þó að gjaldið yrði um það bil óbreytt enda væru þá á móti rýmkuð talsvert stærðarmörkin í frítekjumarkinu og með því að leyfa skuldafrádrættinum að haldast inni kemur það mjög til móts við þau fyrirtæki sem almennt eru skuldug vegna fjárfestinga í veiðiheimildum á undanförnum árum.

Hverjir ættu þá að vera eftir sem ættu að ráða mjög illa við þessa gjaldtöku? Ég held að þeir þyrftu þá að líta eitthvað á sinn rekstur. Auðvitað vitum við að það eru enn þá fyrirtæki sem eru löskuð. Það hafa verið að koma í fréttir menn sem telja að veiðigjaldið sé alveg að drepa þá. En það vill svo til, af því að maður þekkir sjávarútveginn svolítið innan frá — ég hef svelgt í mig afkomutölur hans um langt árabil — að maður veit að sum fyrirtækin voru stórlöskuð og nánast ógjaldfær strax 2008, jafnvel 2007. Þau hafa haft þetta af vegna þess hvað aðstæðurnar hafa verið geysilega góðar. Á þá að stilla veiðigjaldið af miðað við afkomu þeirra, er það? Hvernig verða nú skattarnir og hvernig verður þetta nú almennt hjá okkur ef við leitum uppi þann sem allra minnst getur greitt og látum það ráða för í skattlagningu af þessu tagi?

Að síðustu, virðulegi forseti, eins og fleiri hafa komið hér inn á, hefur maður auðvitað áhyggjur af því hvernig ríkisstjórnin leggur af stað í sjávarútvegsmálum. Það hefur verið tekist mikið á um þessi mál. Við vorum komin hálfa leið með þessar breytingar með því að reyna þó að landa sátt um það að hætta að rífast um það hver ætti þessa auðlind, og að rétturinn sem menn hefðu væri nýtingarréttur en ekki eignarréttur og að menn greiddu eitthvert eðlilegt gjald fyrir.

Ég óttast mjög að nú förum við á fullu í hina áttina, að gjáin milli þjóðarinnar og þá ríkisstjórnarinnar og sjávarútvegsins, þ.e. sérstaklega stórútgerðanna og þeirra hagsmunasamtaka, breikki á nýjan leik. Mér sýnast skilaboðin frá þjóðinni vera nokkuð skýr í þessum efnum; 80% þjóðarinnar að lágmarki vilja ákvæði um sameign á auðlindinni í stjórnarskrá, 70% í skoðanakönnun eru andvíg þessari lækkun veiðigjaldsins. Hátt í 35 þúsund manns hafa skorað á þingið að endurskoða þessa ákvörðun og fara ekki í þessa miklu lækkun. En hér ætlar ríkisstjórnin og aðstandendur hennar að setja undir sig hausinn og troða málinu algerlega óbreyttu í gegn. Mér finnst það afar sorglegt, dapurlegt, og óskynsamlegt (Forseti hringir.) fyrir þeirra hönd, þó ekki væri nú nema að slaka eitthvað örlítið á þessu, frú forseti, og draga eitthvað úr þessari lækkun, (Forseti hringir.) það hefði þó verið meðvitundarvottur.



[20:32]
Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Þetta hefur að mörgu leyti verið áhugaverð umræða sem hefur átt sér stað um hið svokallaða veiðigjaldafrumvarp. Að mörgu leyti hefur umræðan þó verið dæmigerð fyrir umræðu um sjávarútvegsmál almennt, sem að mínu viti er kannski það alvarlegasta við vandamál sjávarútvegsins og okkar þegar kemur að þeim mikla málaflokki, það er hvernig við þurfum að haga umræðunni, hversu ómálefnaleg hún er og hvernig vísvitandi, eða af þekkingarleysi, rangfærslum er haldið fram. Ég kom inn á í ræðu minni um málið þegar það var rætt við 1. umr. að við alþingismenn yrðum að breyta svolítið um umræðuhefð og nálgun okkar á að reyna að ná almennri sátt um þennan mikilvæga málaflokk. Ég held mig enn við það. Ég held að það sé fátt mikilvægara en að við sameinumst um það.

Okkur getur greint á um ýmis atriði málefnalega og margar ágætar röksemdafærslur hafa farið fram í þessari umræðu þar sem menn greinir hreinlega á um hvernig skuli haldið á málum. En að við skulum þurfa að sitja undir því, þingmenn, að vera vændir um að vera að gæta hagsmuna einhverra sérstakra aðila, að verið sé að tortryggja nefndarstörf hv. atvinnuveganefndar, verið að gefa í skyn að ekki séu haldnir opnir fundir vegna þess að menn hafi eitthvað að fela og séu handbendi einhverra sem eiga aflaheimildir í landinu, við skulum reyna að koma okkur út úr því fari í umræðunni.

Við skulum reyna að taka þetta málefnalega vegna þess að það hlýtur að vera sameiginlegt markmið okkar allra á þessu kjörtímabili að leiða þennan ágreining í jörð. Þetta eru flókin mál. Þau eru það í eðli sínu. Það er ekki hægt að ætlast til þess að almenningur í landinu sé til dæmis mjög vel inni í öllum þeim fjölmörgu þáttum sem koma að sjávarútvegsmálum. Best er kannski að vitna í því sambandi til þess ágæta fólks, þeirra hv. þingmanna, sem hafa verið að taka sæti á Alþingi í fyrsta skipti á þessu vori og sitja í hv. atvinnuveganefnd. Þar er fólk sem hefur ekki verið sérstaklega inni í sjávarútvegi, en er samt búið að sitja núna um 18 fundi sem nefndin hefur haldið um þetta mál og önnur og það á fullt í fangi með að átta sig á heildarmyndinni og segir sjálft að það sé engan veginn búið að ná landi í því að ná utan um þennan stóra málaflokk. Hvernig á þá almenningur að geta áttað sig á þessu á meðan fjölmiðlar fjalla um það eins og raun ber vitni þar sem aðalumræðuefnið í málinu núna, alla vega hjá ákveðnum fréttastofum, hefur verið undirskriftasöfnun og skoðanakönnun?

Ég áréttaði þetta við einn fréttamanninn sem hringdi í mig einmitt út af þeim atriðum. Ég sagði við hann: Geturðu nefnt mér eina frétt sem þú hefur flutt um málið efnislega, um hvað það fjallar, til að skýra það út fyrir þjóðinni? Nei, hann taldi þó að fréttastofan hefði gert það í byrjun í einhverri útfærslu. En dag eftir dag, fréttatíma eftir fréttatíma, var fyrsta frétt sú að undirskriftasöfnun væri í gangi. Um hvað fjallaði sú undirskriftasöfnun og hvernig getum við farið eftir henni, þeirri beiðni til Alþingis um að samþykkja ekki þessar breytingar á lögunum? Hvað vill fólk að við samþykkjum? Óbreytt lög? Eða hærra veiðigjald? Það kemur ekkert fram. Svo á forsetinn mögulega að taka þetta til umfjöllunar og einhverjir vilja að hann sendi það í þjóðaratkvæðagreiðslu. Og hvað þá? Samkvæmt lögum verður að halda þjóðaratkvæðagreiðslu innan ákveðins tíma, það eru ákveðin tímamörk á því. Það verður væntanlega komið fram á haust þegar við gætum raunhæft séð sett hana í gang, alla vega vel á seinni part sumars. Hvað ef þessi lög yrðu felld úr gildi? Þá er álagning sérstaks veiðigjalds út úr myndinni. Er það það sem þjóðin vill? Nei, alveg örugglega ekki og ekkert okkar.

Það vantar alveg að menn komi sér upp úr þessu fari. Ég frábið mér að umræðan verði eins og hún hefur verið hjá sumum hv. þingmönnum, eins og raun ber vitni, þar sem verið er að reyna að sá fræjum tortryggni gagnvart okkur sem störfum í hv. atvinnuveganefnd. Það getur ekki verið að við viljum hafa það þannig.

Ég fékk beiðni sem formaður nefndarinnar um að halda alla fundi nefndarinnar opna. Ég benti viðkomandi hv. þingmanni á að um það giltu ákveðnar reglur. Hvernig væri það ef við færum að halda alla fundi, nefndarfundi, opna? Er það það sem hv. þingmenn vilja? Nei, alveg örugglega ekki. Þetta er allt sett fram í einhverri sýndarmennsku, allt til að reyna að slá einhverjar pólitískar keilur.

Svo hefur verið komið fram með það að ákveðnir hv. þingmenn í nefndinni hafi svo mikilla hagsmuna að gæta að þeir séu ófærir um að fjalla um málið. Hvert erum við komin ef við ætlum að fara að meta hæfi þingmanna í hverju einasta máli til að fjalla um það? Hvernig mun því til dæmis komið við þegar fjallað er um skuldamál heimila? Verður þá ekki að fara að leggja á borðið allar upplýsingar um skuldamál okkar þingmanna, ekki bara eignatengsl og slíkt sem við gerum grein fyrir núna og tengsl okkar við möguleg fyrirtæki eða hvað við eigum eða félagasamtök? Menn verða aðeins að hugsa áður en þeir varpa.

Það lá alveg fyrir þegar þessi ríkisstjórn tók til starfa í hvaða vegferð hún færi í veiðigjaldamálum. Það lá alveg fyrir í stefnuskrá beggja þessara flokka og fór ekki dult í umræðunni fyrir kosningar að við ætluðum okkur að lækka veiðigjöld vegna þess að við teljum þau hafa verið of há, a.m.k. á flestöll fyrirtæki í greininni.

Það blasir við hverjum sem vill skoða þetta faglega að það var vitlaust gefið. Af hverju var það? Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon nefndi það fyrr í umræðunni í dag að þessu hefði verið breytt í meðförum þingsins, þ.e. að það hefði verið lækkað á uppsjávarfyrirtækin. Af hverju var það gert? Af hverju var það gert þegar það mátti blasa við? Afleiðingarnar eru auðvitað augljósar þegar við skoðum það sem er áhugaverður listi þótt í sjálfu sér sé það enginn mælikvarði að skoða álagið eftir kjördæmum í landinu, hvernig skatthlutfall af EBIDTU kom niður eftir kjördæmum í landinu.

Þannig var til dæmis gamla skatthlutfallið í Norðvesturkjördæmi um 27%, en færi niður í 16,7 samkvæmt þessu frumvarpi. Það var í Norðausturkjördæmi 16,5 á móti tæpum 27, færi þar niður í 14,6. Í Suðvesturkjördæmi var það 27,5%, fer niður í 15,8. Í Suðurkjördæmi var það 19,6 og fer niður í 16,7. Í Reykjavík var það 24,1% og fer niður í 17,3. Við erum sem sagt með um 15–17% álag eftir þetta sem áður var um 16%–27%.

Hlýtur það ekki að vera markmið okkar þingmanna að hvar sem menn eru í sveit settir og í hvaða útgerðarhólfum sem þeir eru ríki einhver jöfnuður í álagningu? Það var augljóslega vitlaust gefið. Við teygjum okkur í það að reyna að jafna þetta álag.

Þetta er auðvitað ákveðinn plástursaðgerð sem er í gangi hér. Það átta sig allir á því. Það fylgja því þær upplýsingar og þær yfirlýsingar okkar að á komandi hausti munum við leggja fram ný frumvörp um fiskveiðistjórnarkerfið. Það verkefni sem síðasta ríkisstjórn með öllum sínum stóru fyrirheitum hafði fjögur ár til að framkvæma. Fjögur ár. Og hverju skyldi hafa verið um að kenna að ekki tókst betur til en raun ber vitni? Það er nefnilega þannig, að mínu mati, að hjá fjölmörgum þingmönnum fyrrverandi ríkisstjórnarflokka voru mjög óraunhæfar hugmyndir á ferðinni. Það sýndi sig náttúrlega best í þeim umsögnum og þeirri umræðu sem varð um þær tillögur sem komu fram hér um fiskveiðistjórnarmálin. Menn komust ekkert áfram með þetta. Ástæðan var fyrst og fremst sú að það var svo mikill ágreiningur innan þessara flokka, milli þeirra og innan þeirra, það hafði ekkert með það að gera þótt við stæðum í lappirnar í stjórnarandstöðunni á þeim tíma. Auðvitað sáum við vitleysuna og vorum ekki tilbúin til að taka þátt í henni, en fyrst og fremst var það ágreiningurinn innan dyra hjá þeim.

Það var að mörgu leyti mjög fróðlegt að hlusta í gærkvöldi á ræðu hv. þm., formanns Samfylkingarinnar, Árna Páls Árnasonar, hvernig hann fór yfir það hvernig hann vildi sjá fiskveiðistjórnarkerfið í framtíðinni: Með opnu framsali, láta markaðinn ráða verði, veiðigjöldin ættu að taka mið af markaðsvirði aflaheimilda. Það var ekki minnst einu orði á einhverja fyrningarleið þótt hún hafi komið aðeins til umræðu í dag hjá fyrrverandi hæstv. utanríkisráðherra, Össuri Skarphéðinssyni, sem vildi fara að bursta rykið af þeirri leið. Þá var hann algerlega ósamstiga formanni sínum frá því í ræðu hans í gærkvöldi. Það er dæmigert, dæmigert fyrir það hvernig hefur verið haldið á þessum málum.

Ég sagði við hv. þm. Árna Pál Árnason í dag að það hefði verið gaman að hlusta á þessu ræðu hans og spurði hann hvort hann teldi ekki að við værum alveg á réttri leið í þessu frumvarpi, að lækka veiðigjöldin, vegna þess að hann taldi að markaðurinn, að verð á aflaheimildum á markaði, ætti að ráða ferð. Er það ekki þannig í dag að það eru allar aflaheimildir á markaði? Það er allt til sölu. Menn mega selja og menn mega kaupa aflaheimildir. Hvernig hefur verðþróunin verið á þeim markaði? Þær hafa aldrei verið lægri, alla vega í fjöldamörg ár, en þær eru í dag, fóru í þorskinum niður í um 1.400 kr. fyrir kílóið fyrr í vetur, það hefur aðeins lyft sér aftur núna, voru á sama tíma í fyrra 1.800– 2.000 kr. Er þá ekki einmitt ástæða til þess að lækka gjöldin ef markaðurinn á að endurspegla þetta?

Minni hlutinn í hv. atvinnuveganefnd hefur lagt fram breytingartillögu við þetta mál sem hér hefur verið rætt um að sé mikilvæg og í raun mjög góð bót á þessu máli. Þetta hefur svo sem verið skoðað og stenst ekki skoðun frekar en svo margt annað sem hefur verið sett fram. Því hefur verið haldið fram í þessari umræðu að ekkert sé einfaldara en að smella fingrum og veiðigjaldsnefndin fái þau gögn sem hún þarf að vinna með og hægt sé að klára málið. Samt sem áður vitum við að strax við setningu laganna í júní 2012 gerði Hagstofan athugasemdir við málið, það miklar að gerðar voru breytingar á lögunum hér áður en þau voru afgreidd í þinginu þar sem sett voru inn ákvæði um að þær skyldur sem var verið að leggja á herðar Hagstofunni yrðu ekki umfram þau lög sem um hana gilda. Þeir töldu sem sagt að frumvarpið eins og það lá fyrir gengi það langt að brotin yrðu lög sem gilda um Hagstofuna og brotnir yrðu þeir samningar og þau lög sem við höfum undirgengist á alþjóðavettvangi varðandi Hagstofuna. Þessu var því breytt strax í júní 2012 við setningu laganna.

Þá strax hafa menn í ráðuneytinu og víðar auðvitað gert sér grein fyrir því að málið var kannski flóknara en það sýndist. Þetta hefur síðan verið allan síðasta vetur til umræðu og úrlausnar í ráðuneytinu. Það endaði með því að settur var á laggirnar svokallaður tæknihópur þegar komið var fram í mars. Sá tæknihópur, sem var skipaður fulltrúum frá ráðuneytinu, Hagstofunni, Fiskistofu og ríkisskattstjóra, fór yfir þetta mál en náði ekki að leysa það þannig að þáverandi hæstv. atvinnuvegaráðherra, Steingrímur J. Sigfússon, gæti bara komið með lausn á þessu inn í þingið svo að veiðigjaldsnefndin fengi þau gögn sem hún þurfti til þess að sinna skyldum sínum samkvæmt lögum. Það gekk ekki.

Nú er talað um að núverandi stjórnvöld sem eru að koma að málinu eftir þetta eigi bara að smella fingrum og gera þetta og lögð er fram breytingartillaga sem gengur ekki upp. 1. liður í breytingartillögu minni hlutans gengur ekki upp. Hagstofa Íslands er tölfræðistofnun en ekki skattstofa og það er grundvallaratriði, það verða stjórnvöld að virða segir í bréfi sem ég hef í höndum, með leyfi virðulegs forseta:

„Lögin um Hagstofu Íslands gera ekki ráð fyrir því að hún taki þátt í álagningu skatta enda ekki um tölfræðigerð að ræða. Hagstofan telur því að þátttaka í álagningu veiðigjalds stríði gegn þeim lögum sem um starfsemina gilda, gegn lögum sem gilda um evrópska hagsýslugerð, gegn verklagsreglum um evrópska hagsýslugerð og samþykktum Sameinuðu þjóðanna um opinbera hagsýslugerð.“

Þetta er staðan og það vita hv. þingmenn úr atvinnuveganefnd vegna þess að það kom skýrt og greinilega fram hjá fulltrúum Hagstofunnar þegar þeir mættu til okkar. Við værum að brjóta alþjóðasamninga og alþjóðalög sem við höfum undirgengist. Málið er flóknara en það sýnist, enda hefði verið búið að leysa það ef það væri svona einfalt.

Við höfum í meðförum nefndarinnar reynt, og það er auðvitað það sem kemur upphaflega frá ráðuneytinu og frá hæstv. ráðherra, atvinnuvegaráðherra, að nálgast það að sníða þá vankanta sem eru augljóslega á núgildandi lögum. Við erum að plástra málið til eins árs, reyna að laga það til þannig að hér megi vera meiri sátt um málið heldur en verið hefur, að það komi jafnar niður á útgerðarformum. Það er augljóst að við erum að ná miklu meiri jöfnuði í þessari álagningu milli uppsjávar- og bolfisksfyrirtækja.

Það hafa verið nefndar leiðir, að það mætti gera þetta með öðrum hætti, t.d. með því að hækka enn frekar gólfið, afsláttargólfið. Það er alltaf spurning hversu langt á að ganga í þeim efnum, hversu langt á að ganga í að hafa ákveðið frítekjumark. Á ekki að vera einhver hvati hjá fyrirtækjum til þess að efla starfsemi sína, stækka, hagræða? Út á það hefur þetta gengið hjá okkur í öll þessi ár, að menn hafi náð ákveðinni hagræðingu. Við erum nýbúin í nokkuð víðtækri sátt í atvinnuveganefnd og í þinginu að afgreiða lög um stækkun á þeim bátum sem eru í krókaaflamarkskerfinu af því að við teljum að það muni styðja við það útgerðarform, þeir nái að þróa sig, haldast í samkeppninni við önnur útgerðarform, útgerðirnar nái að eflast byggðunum til heilla.

Þessu er nákvæmlega eins farið. Ef við hækkum gólfið svona mikið förum við að draga úr, taka frá ákveðinn hvata til þess að byggja sig upp, ganga lengra sem ég held að sé mjög mikilvægt. Ef við höldum honum ekki lifandi fer þessu að hnigna hjá okkur.

Þá hefur verið bent á að stóru fyrirtækin í bolfisksveiðum hagnist mikið á þessu, þau séu að fá svo stóran tékka í þessu. Staðreyndin er sú að það er bara verið að jafna álögurnar á þau í samanburði við stóru fyrirtækin, stærstu útgerðarfyrirtæki landsins sem hæstv. ríkisstjórn ákvað að hygla, fyrrverandi ríkisstjórn, sem meirihlutaflokkarnir á síðasta kjörtímabili ákváðu að hygla alveg sérstaklega, hvort sem það var óviljandi eða viljandi. Ég ætla ekki að dæma um það.

Það er bara staðan. Það er verið að rétta hlut þeirra. Við erum með öðrum orðum að auka álögur á stærstu fyrirtækin í landinu og við erum að draga úr álögum á lítil og meðalstór fyrirtæki víðast hvar, sem eru oftast burðarásar í sínum samfélögum.

Ég hef fengið mikið af gagnrýni undanfarna daga frá fulltrúum þeirra sveitarfélaga þar sem uppsjávarfyrirtækin eru hvað sterkust, Vestmannaeyjum og fyrir austan. Það hefur verið bent á að verið sé að taka mikið fjármagn út úr þessum sveitarfélögum. Vissulega er skattheimtan þannig, hvernig sem henni er hagað, að hún tekur fjármagn til ríkisins frá fólkinu sem og fyrirtækjunum sem starfa þar og fólkinu sem býr í þessum sveitarfélögum.

Ég er alveg viss um að mörg sveitarfélög víða á landinu væru tilbúin til að taka við atvinnustarfseminni sem er á þessum stöðum þótt það þyrfti að greiða þessi gjöld og fá allt annað sem fylgir. Það verður auðvitað þannig að þar sem sjávarútvegur er öflugastur, þar sem stærstu fyrirtækin starfa þar verður hæsta hlutfallið greitt. Þannig er það í þessu eins og það liggur fyrir hjá okkur núna að ef við tökum uppsjávarfyrirtækin í Vestmannaeyjum, Hornafirði og í Fjarðabyggð og leggjum við það Samherja og Granda erum við sennilega að tala um fyrirtæki sem greiða upp undir 75% af öllu veiðileyfagjaldi í landinu. Hvað eru þetta, 10 fyrirtæki?

Hvað segir það okkur? Það segir okkur það sem hefur verið nokkuð vitnað til í þessari umræðu og var gert að fyrstu frétt í Ríkisútvarpinu held ég, fjölmiðli allra landsmanna, að Jón Steinsson hagfræðingur, starfandi í Bandaríkjunum, hélt því fram að við gætum hækkað veiðileyfagjaldið í 50 milljarða af sjávarútveginum, það væri ekkert mál og við gætum notað það til þess að lækka aðra skatta á aðrar greinar og á almenning í landinu til að auka umsvif. Ég er Jóni sammála.

Ég held að við getum hækkað veiðileyfagjaldið og hirt út úr sjávarútveginum í formi aukinnar skattheimtu viðbótarskatt, upp undir 50 milljarða, 40–50 milljarða. En þá verðum við líka bara með 12 sjávarútvegsfyrirtæki í landinu. Það er ekkert flókið. Þá verðum við með þessar stóru hagkvæmu einingar og hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar eru stöðugt að væna okkur um að vera að draga taum þeirra og gagnrýna okkur síðan mest núna, þessi fyrirtæki. Þetta væri hægt með því að fara þá leið. Er það það sem við viljum? Nei, við höfum nefnilega, og megum ekki gleyma því í þessari umræðu, náð þeim árangri að vera með í senn kerfi sem tekur mikið tillit til fjölbreytni í útgerðarformum, öflugt smábátaútgerðarkerfi sem hefur verið að eflast mikið, gerði það kannski sérstaklega í stjórnartíð framsóknarmanna og sjálfstæðismanna þar sem var fært mikið magn af aflaheimildum frá stóru fyrirtækjunum, stórútgerðunum yfir í þetta smábátakerfi. Við höfum kerfi sem tekur mjög tillit til félagslegra þátta, byggðasjónarmiða, mjög mikið. Við erum öll sammála um að við viljum hafa þann þátt öflugan.

Ekkert okkar vill fara leið Jóns Steinssonar. En það hentar kannski einhverjum í pólitískri umræðu og slíku að slá um sig með svona tölum án þess að það fylgi því hvað um er að ræða. Því verðum við að fara að breyta, virðulegi forseti. Við verðum að fara að breyta því.

Í nefndarstörfunum reyndum við að mæta kröfum minnihlutamanna um það sem þeir óskuðu eftir, bæði í heimsóknum og skýrslugerð sem og öðru, sem var vissulega breyting frá þeirri meðhöndlun sem við fengum hjá hv. sömu þingmönnum í þeirri nefnd núna á vordögum þegar var verið að fjalla um fiskveiðistjórnarfrumvarpið þar. Mér fannst þetta sjálfsagt og það er eðlilegt. Þetta er málefni sem við eigum að reyna að gefa okkur tíma til að vinna að, en við erum auðvitað í ákveðinni tímaþröng á sumarþingi. Það ber að viðurkenna. Það er bara þannig. Þess vegna verðum við auðvitað að reyna að hraða vinnu.

Ég er þakklátur nefndarmönnum í atvinnuveganefnd fyrir það hvað þeir hafa tekið vel í að leggja á sig mikla vinnu og mæta á fundi utan reglulegs fundartíma nefndarinnar. Það hefur ekki verið skortur á því hjá nefndarmönnum að mæta þótt það sé í hádegishléum eða fyrr á morgnana eða vera eitthvað lengur fram eftir ef þurft hefur á að halda.

Við fengum skýrslu frá Stefáni B. Gunnlaugssyni sem áður hefur fjallað um þetta mál. Hann vann ásamt Daða Má Kristóferssyni mikla skýrslu fyrir okkur á síðasta kjörtímabili um þessi fiskveiðistjórnarmál sem þeir gagnrýndu mjög á þeim tíma. Það var ekki alveg samræmi í umfjölluninni núna hjá Stefáni miðað við það sem kom fram í skýrslu þeirra. Ég spurði hann að því á fundi nefndarinnar hverju sætti. Hann sagði að þá hefðu þeir verið tveir en hann væri einn núna og gerði hann lítið úr því. Grundvallaratriðið, ef við tökum það saman í örfáar línur eða örfá orð sem hann hafði um þetta að segja þá telur hann að við séum komin ansi langt í álagningu á uppsjávarfiskinn. Þótt hann segi vissulega að þau muni ráða við þetta vegna góðrar stöðu akkúrat núna telur hann að við séum komin fullhátt þar. Hann telur að við getum lagt meira á bolfisksfyrirtækin. Hann heldur því fram að við séum að lækka veiðigjöldin of mikið. Það má vel vera að það þurfi að skoða eitthvað betur, en aðalatriðið var að hann sagði: Þetta er miklu betra mál en það sem við höfum unnið með áður. Það var niðurstaða hans. Ef þetta er afgreitt óbreytt er verið að afgreiða miklu betri niðurstöðu, miklu betri lausn en þau lög sem gilda um þetta mál.

Það er auðvitað mjög mikilvægt. Okkur getur greint á um einstök atriði og ég hef fengið ábendingar og gagnrýni á skýrslu Stefáns. Það ber að virða það við hann að hann hafði ekki mikinn tíma og hafði síðan í framhaldinu kannski ekki tíma til þess að svara þeim ábendingum eða þeirri umræðu sem einhverjir vildu hafa í framhaldinu því að hann var hreinlega kominn í frí. Það ber auðvitað að virða þegar fólk er í svona störfum að það er ekki alltaf tilbúið til þess að raska tíma sínum eins og það hefur skipulagt hann. Ég hef ekkert við það að athuga.

Aðalatriðið fyrir mig í þeirri skýrslu er að það getur vel verið að það megi laga á þessu einhverja agnúa hér og þar, eitthvað sem menn greinir á um, einhverjar mismunandi skoðanir á málum, en grundvallarniðurstaðan er sú er að við erum með miklu betra mál í höndunum samkvæmt niðurstöðu hans og reyndar frá fleirum sem höfðu áður fjallað um þessi mál og hafa gefið okkur umsagnir sínar.

Virðulegi forseti. Nefndin mun taka þetta mál til umfjöllunar milli 2. og 3. umr. og ég útiloka ekkert að í ljósi umræðunnar og þeirra ábendinga sem nefndinni hafa verið að berast verði mögulega gerðar einhverjar breytingar á málinu. Ég held að það sé þó ekki þess eðlis að það megi vænta einhverra stórkostlegra breytinga. Ég held að við höfum, eins og segir í nefndarálitinu, hitt nokkuð naglann á höfuðið í þessari útfærslu. Hún er betri en það sem við höfum. Hún er jafnari. Hún er að deilast með jafnari hætti á fyrirtækin í landinu. Hún er hugsuð til skamms tíma. Öll þessi vinna og vinnan sem við fórum í á síðasta kjörtímabili verður okkur gott veganesti (Forseti hringir.) í sumar og haust til að undirbúa nýtt þingmál um fiskveiðistjórnarmálið.



[21:02]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Þetta var athyglisverð ræða hjá formanni nefndarinnar, hafi hann hugsað sér að ljúka umræðunni á sáttanótum með þessum hætti. Hann kom ekki hér upp til að þakka mönnum fyrir þátttöku í umræðunni. Hann kom ekki hér upp til að svara spurningum sem hafa komið upp í umræðunni sjálfri. Nei, hann kom hér upp til að ónotast yfir því hve stjórnarandstaðan væri ómálefnaleg og vitlaus, hafði um það þau orð að þekkingarleysi og rangfærslur hefðu verið mjög einkennandi í umræðunni um málið. Þekkingarleysi og rangfærslur, það er munur að geta sett sig svona í dómarasætið yfir málflutningi annarra þingmanna.

Hann kvartaði að sjálfsögðu undan fjölmiðlum sem sinntu ekki hlutverki sínu, að þeir væru uppteknir af skoðanakönnunum og undirskriftasöfnun, flyttu sem sagt ekki nægjanlega vel línu stjórnarmeirihlutans væntanlega. Síðan var veist að nafngreindum fræðimönnum fyrir þeirra afstöðu til mála. Ég leyfi mér að draga í efa að þetta hafi verið trúverðug eða sanngjörn meðferð á áliti Stefáns Gunnlaugssonar, sem hér var flutt af formanni nefndarinnar, þaðan af síður þau orð sem hann lét falla um Jón Steinsson. Ég held ég neyðist því til að biðja um orðið, forseti, að afloknum þessum andsvörum og svara þessu aðeins betur.

Varðandi Hagstofuna væri ég gjarnan til í að sjá þetta bréf. Ég hugsa að ég fari og biðji um fund með hagstofustjóra til að fara yfir þetta, því sé þetta svona, að það sé brot á lögum og Evrópureglum og reglum Sameinuðu þjóðanna og út og suður, að Hagstofan eða gögn á hennar vegum séu notuð í nokkurn skapaðan hlut nema hagsýslugerð hennar sjálfrar, er ég hræddur um að við séum í miklum vanda. Hvað ætli megi segja um álagningu gamla veiðigjaldsins til dæmis og margt fleira? Ég áskil mér því rétt til að fara betur yfir það, auk þess sem það er þá hægt að leysa með öðrum hætti.

Ég held að síðustu að hv. þingmaður ætti að varast að taka til orða með þeim hætti, (Forseti hringir.) sem hann gerði, að ekki sé hægt að ætlast til þess að almenningur í landinu sé mjög vel inni í þessum málum.



[21:05]
Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Jón Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er ekki af neinu yfirlæti sem ég talaði um ákveðið þekkingarleysi og hvernig ég gagnrýndi fjölmiðla. Þetta eru bara staðreyndir. Það er ekkert öðruvísi. Ég er ekkert að líta niður til almennings eða gera lítið úr skoðunum fólks. Ég hef sagt það ítrekað í viðtölum, vegna þeirra undirskriftasafnana sem eru í gangi, að þetta séu sterk skilaboð. Við sáum ástæðu til þess að kalla á fund nefndarinnar þá sem standa að þessari undirskriftasöfnun, ekki eins og sumir hv. þingmenn héldu til að setja á þá einhvern þrýsting, heldur til þess að upplýsa og vera upplýst, ekkert öðruvísi. Ég vona að hv. þingmenn, meðal annars þingmenn Vinstri grænna, geti vitnað um það hvernig sú umræða var.

Það er aftur á móti gagnrýnisvert að í svona stóru máli skuli ekki vera meiri efnisleg umræða þar sem skipst er á skoðunum og upplýst er um hvað málin snúast, að aðalumræðan í fjölmiðlum skuli snúast um skoðanakannanir og undirskriftasöfnun en ekkert um efni máls. Það er gagnrýnisvert og verður úr að bæta, það er ekkert öðruvísi.

Ég er ekkert að veitast að fræðimönnum. Var ég að veitast að Stefáni Gunnlaugssyni? Var ég að veitast að Jóni Steinssyni? Bíddu, það er hægt að snúa út úr öllu og hafa umræðuhefðina á þessum nótum í þessu mikilvæga máli. Það er það sem allt of margir hv. þingmenn kjósa. Ég var fyrst og fremst að fara yfir það sem þeir hafa sagt. Ég var að vitna í orð þeirra og ég var að gagnrýna sumt af því sem þeir (Forseti hringir.) segja eins og það þegar Jón Steinsson segir að leikandi létt sé hægt að hafa 50 milljarða út úr íslenskum (Forseti hringir.) sjávarútvegi. Ég sagðist vera sammála honum, en hann bara gleymir að segja hvernig hann ætli að gera það.



[21:07]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég minnist þess ekki að ég hafi notað orðin „að veitast að“, en við skulum bara lesa okkar ræður þegar þær verða komnar hér vélritaðar. Það talar svo fyrir sig sjálft.

Hv. þingmaður kvartar mjög undan fjölmiðlum. Það er mjög til siðs. Það er athyglisvert að þessi ríkisstjórn og aðstandendur hennar hafa ekki náð að lifa tvo mánuði og þeir eru grátandi yfir því hvað þeir fái ósanngjarna meðferð í fjölmiðlum. Þetta eru kannski loftárásir eins og það var orðað í blöðum á dögunum. Já, jæja já, er það svona bara, er þolið, úthaldið, ekki meira en þetta?

Ef maður horfir til baka síðustu fjögur árin, bæði hvað varðar fjölmiðla og orðbragð stjórnarandstöðu, ætli það sé nú mikið sem ríkisstjórnin hafi þurft að þola? Ég held að hv. þingmaður þurfi líka aðeins, ef ég má bara leyfa mér að segja það sem mína meiningu, að minna sjálfan sig á það, klípa sjálfan sig í handlegginn og muna eftir því, að hann er orðinn formaður í þingnefnd, talar fyrir meiri hlutanum, en notar hér tækifærið við það sem var ætlað að yrðu lok þessarar umræðu til að rífa málflutninginn í allar áttir með að mínu mati fullkomlega ómaklegri einkunnagjöf, til dæmis um málflutning annarra þingmanna. Hv. þingmaður viðhafði orðin þekkingarleysi og rangfærslur um málflutning þingmanna í þessari umræðu. Það sneri ekki að fjölmiðlum. Ég skrifaði þetta niður um leið og þingmaðurinn sagði það, ónafngreint að vísu. Það var sem sagt einkunnagjöf sem einhver okkar sem hafa tekið þátt í þessari umræðu fengu frá hv. þm. Jóni Gunnarssyni, að annars vegar einkenndist málflutningur okkar af þekkingarleysi og hins vegar væri þar mikið um rangfærslur.

Ég gengst við hvorugu svo að það sé bara sagt hér, gengst við hvorugu, en er auðvitað alltaf tilbúinn í uppbyggilegar og málefnalegar umræður við hv. þingmann ef það er í boði af hans hálfu.



[21:09]
Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Jón Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er dapurt að við skulum þurfa að ræða þetta með þessum hætti. Auðvitað klippir hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon þetta út úr ræðu minni og út úr samhengi við það sem ég sagði. Ég sagði að fluttar hefðu verið margar málefnalegar ræður í þessari umræðu. Ég tók það sérstaklega fram, að fram hefðu komið margar áhugaverðar tillögur fyrir framtíðina. Ég tók þetta alveg sérstaklega fram, en ég gagnrýndi það líka að margar af þessum ræðum væru fluttar af því sem ég kallaði vanþekkingu, hvort sem hún er vísvitandi eða í pólitískum tilgangi.

Við getum nefnt hér dæmi um þessa 100 milljarða EBIDTU sem á að vera af sjávarútvegi, hefur komið hér ítrekað fram í umræðunni, 100 milljarðar í EBIDTU í íslenskum sjávarútvegi 2011, þegar talan nær lagi er 75 milljarðar og það vita væntanlega flestir. 10 milljarða kr. tékki til kvótagreifanna, er þetta rétt og er þetta málefnalegt? Nei, það vita allir betur. Það er þetta sem ég á við.

Það er svo auðvelt að slá ryki í augu fólks. Annaðhvort er þetta gert af þekkingarleysi eða þetta er vísvitandi gert í pólitískum tilgangi. Dæmin eru fjölmörg eins og ræðurnar sanna. Það er þetta sem ég er að vitna til.

Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon getur svo reynt að slíta þetta úr samhengi og skammað mig fyrir að ég skuli gera lítið úr almenningi, fjölmiðlum og þingmönnum. Þetta er ekki meint þannig. Þetta er meint sem málefnaleg gagnrýni sem er rökstudd, meðal annars með því sem ég fer hér yfir. Dæmin (Forseti hringir.) tala fyrir sig. Það hljóta allir að vera sammála um fjölmiðlaumræðuna um þetta mál. (Forseti hringir.) Ég er ekkert að kikna undan henni, alls ekki. (Gripið fram í.)



[21:11]
Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir að mér fannst þetta svolítið sérstök lokaorð hv. formanns atvinnuveganefndar um þessa umræðu. Ég gat ekki annað en tekið til mín þá gagnrýni sem hann setti fram þegar hann talaði um að hér væri verið að reyna að slá pólitískar keilur og annað því um líkt, það væri verið að saka þingmenn um að þeir væru ófærir um að fjalla um málefni í nefndum, væna menn um að ganga erinda einhverra.

Ég stend við það sem ég sagði hér í ræðu þegar ég talaði meðal annars um opna fundi sem hann nefndi líka. Ég geri mér alveg grein fyrir því að það gilda reglur um opna fundi, en í þessu máli hefði ég hins vegar talið að einhverjir af þeim fundum sem haldnir voru hefðu þurft að vera opnir almenningi. Ég tel að það hefði verið æskilegt í ljósi þess hvernig umræðan úti í samfélaginu er. Hv. þingmanni virðist svo umhugað um að skýra út fyrir fólki hvað í raun og veru er um að vera, um hvað málið snýst. Það virðist ekki hafa tekist að koma því til skila til almennings í landinu. Hvernig eigum við að túlka þessa undirskriftasöfnun, umræðuna á samfélagsmiðlunum og annað því um líkt?

Ég fagna hins vegar þegar þingmaðurinn talar um breytta umræðuhefð og ræðutaktík. Ekki fyrir svo löngu, og eiginlega fyrir bara allt of stuttu, man ég þegar hv. formaður atvinnuveganefndar kallaði mig og samflokksmenn mína kommúnista með látum úr pontu. Það þótti í lagi. Það er að sjálfsögðu til hins betra ef hv. þingmaður ætlar að leggja sitt (Forseti hringir.) af mörkum til að umræðuhefðin batni. Til er ég.



[21:14]
Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Jón Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þm. Bjarkey Gunnarsdóttir kannast við það að hafa gagnrýnt hagsmunatengsl þingmanna og sagt að þeir væru ekki hæfir til að fjalla um mál. Ég bið hv. þingmann að hugleiða hvernig færi fyrir okkur ef við ættum að leita eftir því í öllum málum sem þingið fjallar um. Það er útilokað og það vita allir, enda hefur alveg sérstaklega verið fjallað um þetta mál. Auðvitað eru þingmenn margir hverjir meðal annars kosnir á þing vegna hagsmunatengsla. Ég er til dæmis alveg viss um að fjöldi fólks úr Slysavarnafélaginu Landsbjörg studdi mig í kosningum inn á þing. Ég var hér framsögumaður að máli sem færði þeim samtökum 250 milljónir í endurbætur á björgunarbátum á síðasta þingi.

Hefði ég getað fjallað um þetta mál? Við getum endalaust farið í þennan leik.

Varðandi opna fundi hélt nefndin opinn fund. Að sjálfsögðu urðum við við þeirri beiðni að halda opinn fund fyrir fréttamenn, en það er fráleit hugmynd að allir nefndarfundir ættu að vera opnir. Ég man reyndar ekki eftir því að einn einasti nefndarfundur hafi verið opinn þegar við fjölluðum um þessi stóru mál á sínum tíma og voru þau þó stærri að umfangi og með meiri áhrifum en það sem við erum að leggja hér fram núna sem viðgerð á máli til eins árs. Við fengum ekki einu sinni þá málsmeðferð að geta leitað eftir utanaðkomandi áliti í fyrravor. Við fengum ekki að kalla fyrir okkur gesti á fund o.s.frv. Það er lengi hægt að telja.

Ég tel að við eigum að reyna að vanda okkur í þessu máli eins og öðrum en við getum ekki haft alla nefndarfundi opna um (Forseti hringir.) það sem okkur finnst vera mikilvæg mál á hverjum tíma.



[21:16]
Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta var útúrsnúningur hjá hv. þingmanni um hagsmunatengslin. Þau komu fram hjá þingmanni hér í gærkvöldi þannig að þetta eru ekki einungis mín orð um að ákveðin tengsl séu í gangi.

Það að bera saman tengsl fólks sem er í eigin atvinnurekstri sem hefur gríðarlegra hagsmuna að gæta eða landssamtaka eins og Landsbjargar finnst mér ekki alveg við hæfi, en það endurspeglar kannski ólíka sýn okkar á pólitík og lífið og tilveruna.

Hv. þingmanni verður mjög tíðrætt um málefnalegan rétt. Hvað er málefnalegur réttur? Er það það sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur fram að færa? Allt sem virðist vera sagt eða hafa verið gert af hálfu fyrri ríkisstjórnar er ómögulegt. Er þetta sýnin á málin eða er þetta trúin á hvað er rétt?

Þetta er spurning um að greina einstök atriði eða pólitíska sýn yfirleitt. Þar á milli held ég að sé, því miður þingsins vegna, svolítið langt bil.

Hv. þingmaður talaði sjálfur áðan um að fyrri ríkisstjórn hefði verið að hygla. Ef umræðuhefðin á að batna er betra að allir gæti orða sinna, það er ekki einungis hægt að krefjast þess af okkur í stjórnarandstöðunni.

Ég held að það sé útúrsnúningur að það sé eingöngu mín skoðun eða það sem ég hafi sagt um hagsmunatengslin. Það er ekki rétt, það er ekki eingöngu þannig. Það veit (Forseti hringir.) hv. þingmaður.



[21:18]
Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Jón Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það hefur verið reynt í þessu máli, ekki eingöngu af hv. þingmanni sem var hér í síðustu ræðu, heldur af öðrum að gera málið tortryggilegt. Það hefur loðað svolítið við umræðu okkar um sjávarútvegsmál, það að gera málin tortryggileg og koma oft fram með upplýsingar sem standast ekki skoðun. Ég nefndi dæmi um það áðan.

Við fengum beiðni frá hv. þingmönnum í minni hlutanum í atvinnuveganefnd þar sem þeir óskuðu eftir gestum á fundi nefndarinnar. Þeir óskuðu eftir því að Hörður Unnsteinsson kæmi til að ræða framlög útgerðarfélaga til stjórnmálaflokka og hugsanleg hagsmunatengsl; formaður, gjaldkeri og framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins til að ræða fjárframlög útgerðarfyrirtækja til flokksins og þingmanna hans og hugsanlega hagsmunaárekstra við afgreiðslu málsins; formaður, gjaldkeri og framkvæmdastjóri Framsóknarflokksins til að ræða fjárframlög útgerðarfyrirtækja til flokksins, þingmanna hans og hugsanlega hagsmunaárekstra við afgreiðslu málsins.

Hvað er verið að gefa í skyn hér? Hvernig ætlum við að haga störfum í þinginu ef við ætlum til dæmis í hv. atvinnuveganefnd í hverju einasta máli, hvort sem það á við um ferðaþjónustuna, iðnfyrirtæki eða landbúnað, að kalla til stjórnmálaflokka? Stjórnmálaflokkar fá fjárframlög frá fyrirtækjum í öllum greinum atvinnulífsins, Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn sennilega í meira mæli en aðrir flokkar. Hvernig ætlum við að hafa umfjöllun um þessi mál? Um þetta gilda alveg skýrar reglur. Þær eru meira að segja miklu þrengri og takmarkaðri hér en við eigum að venjast á Norðurlöndunum eða um Evrópu um hvað fyrirtæki geta stýrt (Forseti hringir.) stjórnmálamönnum eða stjórnmálaflokkum. Það eru miklu þrengri reglur. Ef (Forseti hringir.) menn telja að verið sé að brjóta þær með einum eða öðrum hætti á það ekki heima á vettvangi atvinnuveganefndar.



[21:21]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Það væri nú gaman að fara yfir sögu lagasetningar um fjármál stjórnmálaflokka og hvernig á því stóð að Íslendingar settu slík lög eiginlega síðastir allra vestrænna lýðræðisþjóða. Það var vegna þess að það var flokkur sem stóð alltaf á móti því. Við fengum svo kannski aðeins að sjá framan í það, í aðdraganda kosninganna 2009, hvers vegna mönnum var það tregt í Sjálfstæðisflokknum að setja lög sem skyldu upplýsa um og setja takmörk á framlög fyrirtækja til slíkra hreyfinga, þegar ofurstyrkirnir frægu komust á dagskrá. Það er ekkert að því. Menn eiga að hafa uppburði í sér til að ræða það, að sjálfsögðu ekki á persónulegum nótum eða af einhverri rætni. Auðvitað þarf að gæta hagsmunatengsla og að þau blandist ekki um of inn í stjórnmálin.

Ætli það sé ekki einn af meginlærdómum rannsóknarskýrslu Alþingis, þau skaðlegu tengsl og hvernig þræðirnir krossuðust í gamla helmingaskiptasamfélaginu á Íslandi þar sem viðskiptalíf og pólitík rann á köflum saman í eitt. Við þyrftum kannski að fara til Tyrklands og læra af þeim vísa manni Kemal Atatürk sem lagði grunn að nútíma Tyrklandi. Og hvernig gerði hann það? Meðal annars með því að í því landi skyldi aldrei blanda saman trúmálum og stjórnmálum. Við þurfum kannski ekki eins að hafa áhyggjur af því hér, en kannski ættum við að hafa það stjórnmál og viðskipti og læra það af hruninu að blanda því aldrei aftur saman.

Varðandi það að almenningur sé ekki nógu vel að sér um þessi mál og þess vegna sé hann auðplataður, sem mér fannst liggja í loftinu í máli hv. þingmanns, ginnkeyptur fyrir því að skrifa undir undirskriftalista eða eitthvað því um líkt, er ég algjörlega ósammála því. Ég held að að uppistöðu til sé almenningur á Íslandi sér vel meðvitaður um mikilvægi sjávarútvegsins nátengdur honum. Öll erum við meira og minna annaðhvort sjómenn eða bændur að ætterni og uppruna, ekki langt aftur, og almenningur er með vissa hluti algerlega á hreinu. Það sýna allar mælingar og allar umræður, öll greinaskrif. Yfirgnæfandi meiri hluti þjóðarinnar vill að gengið sé frá því í eitt skipti fyrir öll að fiskimiðin séu sameign okkar, tilheyri okkur öllum sameiginlega. Það er þjóðin með á hreinu að þannig eigi það að vera. Hin sjónarmiðin eru sem betur fer í svo grenjandi minni hluta að það þarf varla að tala um þau, þótt auðvitað sé einn og einn einkaréttarsinni enn að reyna að malda í móinn.

Þjóðin er held ég líka með það á hreinu að á þeim tímum sem mikill umframgróði myndast, mikil renta í greininni, sem sprettur af því að tilteknir aðilar fá aðgang að henni, að þessari takmörkuðu verðmætu auðlind, eigi hún tilkall til þess að fá í sinn hlut að minnsta kosti drjúgan hlut þeirrar rentu. Ég held að þjóðin sé líka með ýmsa fleiri hluti á hreinu, þeir sem fylgst hafa með umræðum um þjóðmál og sjávarútvegsmál síðastliðin 20 til 30 ár. Ætli það sé nú ekki í þjóðarvitundinni nokkuð sterkt að það sé ekki gott fyrirkomulag að einstaklingar hagnist um milljarða króna á því að komast í þá aðstöðu að mega sækja fisk úr sjónum og geti, ef svo ber undir, labbað út úr greininni með þá milljarða? Þeir hagnast gríðarlega persónulega á því einu að þeir eru handhafar aðgöngumiðans að auðlindinni. Það eru ekki sjómennirnir á skipunum þeirra, það er ekki fiskverkafólkið í landi og það eru ekki byggðarlögin sem njóta þess þegar slíkur gróði er tekinn út úr greininni, nei, heldur eru það einstaklingarnir sem eru prókúruhafar á fyrirtækjunum. Þetta veit þjóðin. Þetta hefur hún horft upp á og henni finnst þetta ekki réttlátt.

Ég held að það séu líka býsna djúp ör víða í þjóðarsálinni vegna þess að menn hafa heyrt fréttirnar frá Raufarhöfn, fréttirnar frá Hrísey, fréttirnar frá Breiðdalsvík, fréttirnar frá Flateyri, fréttirnar frá Þingeyri og þannig mætti áfram telja og listinn er langur. Þau eru víða sárin á landsbyggðinni sem þetta kerfi hefur leitt af sér þó að ég sé ekki að segja með því að allt hefði getað haldist óbreytt að öllu leyti í skipulagi sjávarútvegsins frá því sem var fyrir 20 eða 30 árum, það er ég ekki að segja. En það má kannski eitthvað á milli vera hvernig þetta kerfi hefur skipt örlögum með íbúum mismunandi sjávarbyggða. Menn tala mikið um forsendubrest í sambandi við húsnæðislán núna á Íslandi, en gæti það hafa verið forsendubrestur á Raufarhöfn þegar kvótinn fór í burtu á einni nóttu og íbúðarhúsin urðu verðlaus með öllu? Með öllu. Þá var ekki spurt um skuldirnar sem á þeim hvíldu. Nei, það var spurningin hvort þú gætir fengið einhvern til að taka við lyklinum að stóru einbýlishúsi og ekki væri verra ef hann vildi borga milljón fyrir það. Það var svona um það bil þannig sem fólk var sett með sínar eignir á staðnum.

Varðandi fjölmiðlana verður fróðlegt að fylgjast með því hvort þetta heldur áfram hjá hæstv. ríkisstjórn og baklandi hennar hér á þingi. Ég ætla að segja það alveg hreint og umbúðalaust, virðulegur forseti, mér finnst glitta í tilhneigingar til þess að nú eigi að temja fjölmiðlana aftur. Nú eigi að tala þannig til þeirra, skrifa þannig greinar í Morgunblaðið, svona til stuðnings leiðurunum, að fjölmiðlarnir hrökklist í sjálfsritskoðun, þeir fáu sem enn þá þora að hafa einhverjar sjálfstæðar meiningar í þessum efnum. Er eitthvað að því fréttamati fjölmiðla að þeim þyki það athyglisvert að upp undir 35 þúsund manns hafi skrifað undir áskorun til Alþingis og í framhaldinu til forsetans ef svo ber undir? Eru það ekki fréttir? Má ekki flytja þær? Til hvers gera fjölmiðlar skoðanakannanir um afstöðu til stærri mála? Er það ekki til þess að birta þær — hv. þm. Jón Gunnarsson, herra forseti? Halda menn að fjölmiðlar kaupi skoðanakannanir til að birta þær ekki? Nei, það er vegna þess að þeir telja það fréttnæmt hver viðhorf eru til mála af þessu tagi. Það er þeirra hlutverk.

Hv. þingmaður telur að þetta sé allt saman á misskilningi byggt, meðal annars undirskriftasöfnunin, vegna þess að þetta frumvarp verði að fara í gegn því að annars verði engin veiðigjöld. Þetta var nú einn sónninn sem hér var rekinn upp. Gott og vel ef menn telja að leggja þurfi veiðigjöldin á með bráðabirgðaákvæðum í krónutölum á þorskígildiskíló á þessu ári, en það er ótengt því hver upphæð veiðigjaldanna er, bara einfaldlega með öllu. Þannig að það eru ekki rök fyrir þessari efnislegu niðurstöðu málsins, alls ekki.

Varðandi þjóðaratkvæðagreiðslu er það nú þannig, eins og ég geri ráð fyrir að hv. þingmaður viti, að þó svo forseti synji lögum staðfestingar öðlast þau engu að síður gildi. Þannig að þetta yrðu gildandi lög um veiðigjöld einhvern tímann fram á vetur, fram að þjóðaratkvæðagreiðslunni sem yrði einhvern tímann. Færi svo að þau stæðust ekki, þjóðin vildi þau ekki, bregðast menn ósköp einfaldlega við því. Það þýðir ekki að ekki verði hægt að leggja veiðigjald á á næsta fiskveiðiári. Það yrði kannski eitthvað seinna sem niðurstaða yrði komin í það. Það er algerlega á hreinu. (Gripið fram í: En þú hefur … til þess.) — Að sjálfsögðu geturðu gert það. Þú getur gert það til dæmis á landaðan afla frá og með því að þú setur þau lög eða hvernig sem þú vilt. Það er nú ekki þannig að hægt sé að nota þá hótun að þar með verði engin veiðigjöld. (Gripið fram í.) Það er betra að hv. þingmaður snúi út úr í ræðum frekar en að reyna að gera það í frammíköllum ef ég leyfi mér að hafa skoðun á því, virðulegur forseti.

Svo koma inn á milli þessar dásamlegu setningar hjá hv. þm. Jóni Gunnarssyni, um nauðsyn þess að ná sátt, inn í ræðurnar, þar sem talað er um þekkingarleysi og rangfærslur, ómögulega fjölmiðla, fræðimenn sem séu úti í mýri og þjóðina sem sé ekki mjög vel að sér í þessum efnum, mikilvægi þess að ná sátt. Gæti verið að það þurfi tvo til? Gæti það hugsast að það þurfi tvo til til að ná sátt í þessu máli, þ.e. að sjávarútvegurinn og þeir sem tala máli hans með þeim hætti sem hv. þm. Jón Gunnarsson iðulega gerir þurfi líka aðeins að líta í eigin barm? Á sáttin að felast í því að yfirgnæfandi meiri hluti þjóðarinnar láti af skoðunum sínum í þessum efnum og sérhagsmunagæslumenn, sérstaklega stórútgerðanna í landinu, sem búnar eru að koma sér best fyrir í þessu kerfi, nái sínu fram? Á sáttin að felast í því?

Gæti ekki verið að þeir sem hafa í allt of miklum mæli af mikilli hörku gætt hagsmuna sinna í kerfinu, og hafa komið sér þar best fyrir, þurfi að átta sig á því að þrátt fyrir að þeir geri margt vel og reki myndarleg fyrirtæki eru þeir ekki ríki í ríkinu? Það er almannaviljinn og það er lýðræðið í landinu sem á að leiða svona mál til lykta en ekki peningar, ekki hræðsluáróður, ekki tugmilljóna eða hundruð milljóna auglýsingaherferðir; aðferðir af því tagi sem voru prófaðar hér vorið og sumarið 2012 þegar átti að brjóta Alþingi á bak aftur með því að binda flotann eiga ekki að ráða niðurstöðum (Forseti hringir.) mála af þessu tagi. Sáttin mun aldrei byggja á slíkum aðferðum.



[21:31]
Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Eitthvað hef ég komið við kaunin á mönnum. Sjálfstæðismönnum er tregt að breyta, var sagt, og setja þær reglur sem takmörkuðu mjög framlög fyrirtækja og einstaklinga til stjórnmálaflokka. Ég veit ekki betur en að Sjálfstæðisflokkurinn hafi tekið þátt í þeirri vinnu og Kjartan Gunnarsson, þáverandi framkvæmdastjóri flokksins, hafi einmitt átt þátt í þeim tillögum sem þá komu fram og við höfum unnið eftir síðan.

Það er mikið gert úr því hjá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni að ég sé að gera lítið úr almenningi og þingmönnum. Það er bara til þess að snúa út úr orðum mínum, það er ekkert öðruvísi. Auðvitað er ég ekkert að gera lítið úr fólki enda hef ég sagt, m.a. hér áðan og ég hef sagt það í viðtölum varðandi þá undirskriftasöfnun sem er í gangi, að í henni felist sterk skilaboð frá þeim 35 þús. einstaklingum sem hafa skrifað undir. Þau skilaboð ber alþingismönnum að taka alvarlega. En ég segi og ég stend við það, og þetta á við um alþingismenn, fjölmiðlamenn og almenning, að almennt séð getum við sagt að þessi málaflokkur sé mjög flókinn og það sé erfitt að setja sig inn í hann í smáatriðum. Það stendur eftir og þá er erfitt fyrir fólk að gera sér grein fyrir öllum þeim atriðum. Ég vitnaði til þess áðan að það fólk sem situr í nefndinni og er nýtt á fullt í fangi með að ná utan um það. Er ég eitthvað að gera lítið úr fólki? Nei, ég veit þetta bara af þeim fjölmörgu sem ég tala við. Skilaboðin frá fólki eru alveg skýr og ég misskil þau ekki neitt, ég tek þau alvarlega. Ég er alveg sammála því að það á að innheimta hér veiðigjöld. Hver eiga þau að vera? Þau þurfa auðvitað að vera þannig að greinin beri þau, geti vaxið og dafnað.

Þá komum við að þessu sem gjarnan er orðað svo að fólk sé á móti því að einstaklingar hagnist gríðarlega, taki milljarða út úr greininni, fari með þá burtu og hagnist alveg óskaplega. Er þetta hin almenna mynd í íslenskum sjávarútvegi sem er verið að draga upp, að þetta séu allt saman einhverjir kvótagreifar sem fari með milljarða út úr greininni? Er ekki obbinn af þessu bara vinnandi fólk sem rekur hér lítil og meðalstór fyrirtæki um allt land og hv. þingmenn þekkja vel, fólk sem hefur bara ansi mikið fyrir lífinu? Þetta gengur upp og niður á milli ára og innan ársins, er það ekki?

Auðvitað vitum við að þegar framsalið var sett á á sínum tíma seldu sig margir út úr greininni. Það var markmiðið með því þegar framsalið var sett á og er viðurkennt af sérfræðingum og hagfræðingum í dag að hafi verið eitt brýnasta skrefið að taka í fiskveiðistjórnarmálum. Sjálfstæðisflokkurinn greiddi reyndar atkvæði gegn því máli á þingi. Það mál var afgreitt út í stjórnartíð Framsóknarflokks, Alþýðuflokks og Alþýðubandalags. Það voru önnur ákvæði í því frumvarpi sem Sjálfstæðisflokkurinn gat ekki sætt sig. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon er kannski eini þingmaðurinn hér sem afgreiddi framsalið sem varð til þess að einhverjir einstaklingar ákváðu að selja. Framsalið fékk einhvern verðmiða og sumir ákváðu að fara út úr greininni með allt of mikla peninga. Okkur láðist að grípa til einhverra aðgerða á þeim tíma. Ég álasa ekki neinum, en við breytum þessu ekki aftur í tímann. Ég er ekki að segja að ég hafi séð fyrir að þetta hefði kannski mátt gera með einhverjum öðrum hætti gegnum skattkerfið. Þetta var gert svona. Afleiðingarnar liggja fyrir. Markmiðið var alveg ljóst. Byggðaáhrifin lágu alveg fyrir. Við ætluðum að fækka skipum. Við fækkuðum þeim frá 1991 á næstu 10, 12 árum úr 2.520, ef ég man rétt niður, í 1.150 skip, eitthvað svoleiðis. Sjómönnum fækkaði líka.

En við höfum líka byggt upp hagkvæmasta sjávarútveg í heimi sem þó er með mjög mikla félagslega stoð innbyggða. Við erum enn að bregðast við. Síðast afgreiddum við í síðustu viku lög frá Alþingi þar sem við úthlutuðum svokölluðum byggðastofnunarbyggðakvóta upp á 1.800 tonn til að hjálpa byggðarlögum. Við erum öll samstiga í því og sammála um að við þurfum að standa vaktina í þeim efnum. Það er ekkert öðruvísi.

Þetta um að einstaklingar hagnist gríðarlega — hagnast menn gríðarlega almennt í dag? Það var mikið gert úr því þegar Grandi borgaði háa arðgreiðslu fyrr á þessu ári. Það kom til umræðu í þingsal. Ég man ekki hver þessi upphæð var. (LRM: 1.700.) Hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir man það, 1.700 milljónir. En veit hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir hversu mikil ávöxtun það var á eigið fé eigendanna í því fyrirtæki, hversu mikla ársávöxtun þeir fengu eða hafa tekið út úr fyrirtækinu í arðgreiðslur á síðustu árum? Hversu mikla ávöxtun fá þeir á það fé sem þeir hafa lagt í fyrirtækið? Getur hv. þingmaður sagt mér það yfir salinn? (LRM: Þingsköp leyfa það ekki.) Þingsköp leyfa það ekki, hún segir það, en hún mátti nefna 1.700 milljónirnar. Það var allt í lagi, þingsköp leyfðu henni það. (Gripið fram í.) En ég get sagt henni það, og öðrum: Það eru 4%. Er það mikið? (LRM: Er það ekki bara ágætt?) Er það bara ekki ágætt, já? Sættir hv. þingmaður og aðrir sig við það þegar þeir leggja peninga í banka eða kaupa ríkisskuldabréf sem er áhættulaus fjárfesting að fá 4% ávöxtun á áhættufjárfestingu? (LRM: Það er ekkert annað í boði.) Það er ekkert annað í boði, segir hv. þm. Lilja Rafney. Þetta er sagt af miklu innsæi og þekkingu um rekstur almennt.

Vandamálið er að ef sú ávöxtunarkrafa væri þak fjárfesti fólk ekki í atvinnulífi á Íslandi. Á hverju þurfum við mest að halda í dag sem þjóð? Við þurfum á aukinni fjárfestingu að halda í atvinnulífinu. Það er það sem við erum öll sammála um og allir erlendir sérfræðingar sem fjalla um okkar mál. En þá finnst hv. þm. Lilju Rafneyju Magnúsdóttur bara gott að það sé þak á 4% ávöxtun á það eigið fé sem menn setja í það og það sé líklegt til árangurs. Það er þessi umræða sem ég er að vitna í þegar ég er að tala um að við verðum að passa okkur.

Er almennt svona mikill hagnaður í sjávarútvegi? Já, hjá nokkrum fyrirtækjum sem ég skildi áðan af hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni að við sjálfstæðismenn vildum standa alveg sérstaklega vörð um, stóru sjávarútvegsfyrirtækjunum. En hver er staðreyndin í málinu? Ég fór aðeins yfir hana í fyrri ræðu minni, virðulegi forseti. Við erum núna að draga úr álögum í þessu frumvarpi á þessi litlu, meðalstóru og nokkur stór fyrirtæki í bolfiski, en við erum að auka álögurnar gríðarlega á stóru fyrirtækin, stærstu fyrirtækin í greininni sem við eigum að slá alveg sérstaka skjaldborg um, er það ekki, framsóknarmenn og sjálfstæðismenn? Við erum að leggja á þau stórauknar álögur. Við teljum okkur vera að leiðrétta þann mismun sem liggur í þeim lögum sem nú gilda.

Ég fór áðan yfir skiptinguna á milli kjördæma. Einhverjir hafa sagt í mín eyru að það sé engin tilviljun að sum kjördæmi hafi verið svona miklu lægri en önnur í því. Ég læt mér ekki detta í hug að það hafi verið einhver tengsl þar á milli. En það er að minnsta kosti búið að ná einhverjum jöfnuði.

Það þarf tvo til að ná sátt. Það var eiginlega kvatt með því að segja að sjávarútvegurinn og þeir sem tala máli hans séu sérhagsmunagæslumenn stórútgerðanna. Þetta er sá söngur sem ómar eflaust áfram, tekst ekki að eyða þrátt fyrir að hann standist enga skoðun. Eru það ekki Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur sem eiga stærstan þátt í því hversu öflug smábátaútgerð er í landinu? Eru það ekki Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur sem núna eru að stíga stórt framfaraskref fyrir þá grein til að geta staðist samkeppni, eflt sig (Forseti hringir.) og dafnað í framtíðinni? Það er allt á kostnað (Forseti hringir.) þess sem kallað er „stórútgerðin“ í landinu.



[21:41]
Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. formaður atvinnuveganefndar hefur í auðmýkt sinni rétt fram sáttarhönd og auðveldað vinnu í nefndinni og lagt mat sitt á ræður manna í þessari umræðu. Það væri gaman fyrir mig sem 1. varaformann nefndarinnar að vita hvaða einkunn ég fengi að mati hans í ræðu minni þar sem hann er að gefa umsagnir um af hversu mikilli þekkingu ræðurnar hafa verið fluttar og um hversu litla þekkingu á sjávarútvegsmálum almenningur í landinu hefur. Það hefur verið dálítið viðloðandi umræðuna að hræða fólk frá umræðunni um sjávarútvegsmál með því að þau séu svo flókin og ekki fyrir hvern sem er að setja sig inn í málin og reynt að gera lítið úr fólki þegar það tekur þátt í þeirra umræðu. Þetta er auðvitað ákveðin aðferð til þess að hræða fólk frá lýðræðislegri þátttöku í stjórnmálum almennt og er mjög varasamt að tala þannig til fólks þegar það tekur þátt í umræðum um málefni sem skipta okkur öll máli, að hræða það með því að í gangi sé vanþekking og fáfræði og málin séu svo flókin.

Ég vil spyrja hv. formann atvinnuveganefndar hvernig hann sjái fyrir sér hægt sé að mæta því mikla tekjutapi sem fylgir þessari lækkun á veiðigjaldi, hvort það séu einhverjar tillögur og hvernig hann sjái fyrir sér að ríkissjóður geti mætt því mikla tekjutapi sem blasir við.



[21:44]
Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Jón Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er nú meira hvernig þetta þarf að þróast í svona umræðu þegar hún er tekin af hreinskilni. Nú heitir þetta orðið að ég sé að gera mjög lítið úr almenningi og þekkingu hans á sjávarútvegi. Ég var einmitt að gagnrýna hvernig fjölmiðlaumfjöllun um málið hefur verið. Í tengslum við það er náttúrlega ekki líklegt að fólk sé almennt nægilega vel inni í þeim málum, þetta eru flókin mál, það vitum við. Ég er ekkert að gera lítið úr fólki. Ég tek skilaboð þess alvarlega. En þessi mál þurfa miklu ítarlegri og vandaðri umfjöllun í fjölmiðlum til þess að fólk fái þær upplýsingar sem það þarf að fá til þess að mynda sér skoðun. Ég tel að fjölmiðlar hafi brugðist í því í aðdraganda þessa máls og oft áður og að það sé ekki fyrir hvern sem er að taka þátt í umræðunni. Það er bara alls ekki þannig. Ég tek þátt í þessari umræðu við fjölda fólks á hverjum tíma. Þetta er til dæmis í mínu kjördæmi og á þeim fundum sem ég sæki oft þar eitt heitasta málið. Ég þarf að taka mjög gagnrýna umræðu um stefnu mína og margt sem ég stend fyrir í þeim málum við kjósendur mína og við kjósendur Sjálfstæðisflokksins, skiptast á skoðunum. Það er allt í góðu lagi. Ég tek fullt nótis af því sem fólk er að segja mér. Við skulum hætta þessum útúrsnúningum.

Varðandi það hvernig eigi að afla tekna fyrir ríkissjóð er það einfaldlega þannig að við sem myndum núverandi ríkisstjórn trúum því að með því að efla atvinnulífið, með því að draga úr álögum á atvinnulífið, (Forseti hringir.) með því að draga úr álögum á almenning náist fram öflugra atvinnulíf. (Forseti hringir.) Ég trúi því til að mynda að ef við förum þá leið að hafa veiðigjöldin (Forseti hringir.) skynsamlega há muni fjárfesting í greininni eflast og við fá það margfalt til baka sem samfélag.



[21:46]
Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér fannst þetta ekki vera neitt svar hjá hv. þingmanni um hvernig á að mæta þessu mikla tekjutapi ríkissjóðs. Það hafa ekki verið veiðigjöld sem neinu nemur undanfarin ár og ekki hefur það ýtt undir fjárfestingar í greininni. Það hefur ekki verið fjárfest mikið í sjávarútvegi undanfarin 10–15 ár eins og flotinn sýnir. Hver er skýringin á því? Hvert skyldi það fjármagn sem hefur komið inn í greinina hafa farið? Skyldi það hafa farið í óskyldan rekstur, áhættufjárfestingar í hlutabréfum og annan óskyldan rekstur? Skyldi það vera? Mér þætti gaman að heyra viðhorf hv. þingmanns til þess, út af hverju það er.

Gæti hv. þingmaður hugsað sér til að upplýsa fáfróða alþýðuna um sjávarútvegsmál að beita sér fyrir því að fara um landið og halda opna fundi um málin og ræða þau, auðlindarentuna og hvernig hún er byggð upp, hvernig sjávarútvegurinn hagnast í dag og hvernig það getur verið sveiflukennt og auðlindarentan eigi að fylgja því? Hv. formaður atvinnuveganefndar var ekki tilbúinn til að hafa opna fundi sem ég held að hefðu getað upplýst umræðuna meira. Ég spyr hv. þingmann hvort hann telji rétt að hagsmunatengsl flokkanna varðandi sjávarútveginn fari til Ríkisendurskoðunar og fari inn í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, hvort það sé eitthvað sem þarf að skoða betur?



[21:48]
Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Jón Gunnarsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Sjávarútvegurinn hefur ekki fjárfest neitt í tíu ár — það er náttúrlega ekki alveg rétt, en það er alveg rétt að það var ekki mikil fjárfesting fyrir 2007 í íslenskum sjávarútvegi af því það gekk ekkert vel. Það gekk ekkert vel í íslenskum sjávarútvegi þá, gekk bara illa. Krónan var þannig skráð að það voru miklir erfiðleikar, menn höfðu lítið svigrúm. Það var meira að segja orðið þannig að það tókst varla að manna orðið flotann, fiskiskipin, nema með útlendingum. Fólk vildi ekki fara á sjó af því að launin voru svo lág. Þannig var nú staðan. Svo kom hrunið, hið svokallaða hrun, og krónan veiktist og staðan styrktist. Aflabrögð voru góð. Markaðsverð voru mjög góð. Makríllinn kom sem himnasending. (LRM: Góð ríkisstjórn.)Góðar loðnuvertíðir tvö ár í röð, hafði bara ekkert með þá ríkisstjórn að gera, ekki neitt. (Gripið fram í: Jú, makríll.) Makríllinn var alveg sérstaklega þeirri ríkisstjórn að þakka, geri ég ráð fyrir.

Hvað gerðu menn? Þeir borguðu upp skuldir af því óvissan var svo mikil að þeir fóru ekki í þær nauðsynlegu fjárfestingar sem bíða okkar. Þær munu fara af stað núna.

Þetta á sér allt sínar skýringar. (LRM: Óvissan var …) Var þá fjárfest mikið í óskyldum rekstri? Hv. þm. (LRM: Það vita …) Lilja Rafney Magnúsdóttir veit það vel og það hefur komið ítrekað fram á fundum atvinnuveganefndar að það eru algjör smáatriði sem fyrirtæki í íslenskum sjávarútvegi á heildina litið voru að fjárfesta út fyrir geirann. Það er bara þannig. Það er hægt að telja þau fyrirtæki á fingrum annarrar handar og við skulum ekki láta umræðuna og önnur fyrirtæki líða fyrir það.

Hvort ég sé tilbúinn að fara á opna fundi um allt land, já, að sjálfsögðu. (Forseti hringir.) Ég geri ráð fyrir því, þegar við leggjum fram nýtt frumvarp, (Forseti hringir.) förum yfir okkar hugmyndir, munum við fara og kynna það um allt land (Forseti hringir.) og reyna að vinna því brautargengi.



[21:51]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Varðandi lagasetningu um fjármál og fjárreiður stjórnmálaflokka og samtaka og frambjóðenda er það rétt hjá hv. þm. Jóni Gunnarssyni að Kjartan Gunnarsson kom að þeirri vinnu þegar Sjálfstæðisflokkurinn sneri loksins við blaðinu og féllst á að fara þyrfti í slíka lagasetningu. Það er alveg rétt, hann á heiður skilið fyrir sitt starf. Ég var í því með honum og þekki vel til þess. Það væri áhugavert að vita meira um þau sinnaskipti sem urðu, en ég veit líka hitt af langri glímu að árum saman höfðum við barist fyrir því, forustumenn annarra flokka og þingmenn hér á þingi, að slík löggjöf yrði sett á Alþingi en það strandaði alltaf á Sjálfstæðisflokknum þangað til hann tók þessum sinnaskiptum.

Ég hef látið mér detta í hug að það hafi verið vegna þess að ábyrgir menn hafi séð að þetta gat ekki haldið áfram eins og það hafði gengið. Það var kannski ekki það sem menn höfðu mestar áhyggjur af þegar þarna var komið, hinir stóru styrkir sem gengu til sumra flokka, heldur sáu menn hversu baneitrað það var þegar einstaklingarnir sjálfir í prófkjörum, og ekki síður í sveitarstjórnarframboðum og kosningum en til Alþingis, voru orðnir allt of nálægt fyrirtækjum sem voru að veita þeim styrki, kannski verktakafyrirtækjum sem biðu eftir verkefnum hjá viðkomandi sveitarfélagi o.s.frv.

Á fundum í þessari nefnd ræddum við auðvitað ýmislegt sem engum leið vel með, sem viðgengist hafði. Það var ekki bara bundið við Sjálfstæðisflokkinn, það er alveg rétt. Menn urðu að lokum sammála um að það væri miklu heilbrigðara að styðja lýðræðið með framlögum frá hinu opinbera og draga úr því að stjórnmálaflokkar yrðu að gera út á styrki frá einkaaðilum.

Þegar ég var að rifja upp hvað hefði stimplast inn í þjóðarsálina á umliðnum árum — og það byggi ég á hundruðum funda og óteljandi samtölum við fólk um þessi mál á langri tíð — nefndi ég það að eitt af því sem mjög oft er nefnt, og var nefnt á þessum árum, það hefur dregið úr því núna vissulega, var að það særði réttlætiskennd fólks að sjá að einstaklingar, einkaaðilar, gætu auðgast um milljarða á milljarða ofan af því, ekki að hafa rekið ágæt fyrirtæki sem þeir áttu að fá endurgjald fyrir ef þeir seldu, heldur að hafa þennan aðgang að fiskimiðunum og að hann væri andlag gróðans. Það sem gerist er auðvitað það, maður er ekki bara að selja rekstur og fyrirtækin, skip eða hús heldur fyrst og fremst að selja aðganginn að miðunum. Það finnst mönnum ekki eiga að vera almennt uppspretta einkabundins gróða.

Var ég þar með að segja að þetta ætti við um alla í sjávarútvegi? Nei, það var ég ekki að gera. Það er ómaklegt að leggja þannig út af orðum manns. Ég er nefnilega alveg sammála því að að uppistöðu til er obbinn af þeim sem starfa í sjávarútvegi harðduglegt og heiðarlegt fólk og er ekkert að gera annað en vinna hörðum höndum að því að sinna sínum rekstri og færa björg í bú. Þannig er það og þannig hefur það verið og þannig verður það vonandi áfram. Það breytir ekki hinu að við eigum að þora að ræða um þessa hluti og ræða bæði kosti og löst á hlutunum.

Það eru ágallar við þetta fyrirkomulag sem hafa leitt til þess ósættis sem hér hefur verið. Það er alveg á hreinu. Þetta er eitt af því sem hefur sært réttlætiskennd þjóðarinnar og valdið þeim ágreiningi sem uppi er.

Númer tvö mætti nefna leigubraskið, þegar það komst í sínar hæstu hæðir. Þegar allt of rúmar reglur voru í gildi um það að menn gátu að uppistöðu til látið aðra hafa fyrir því að sækja aflann sem þeim hafði verið úthlutað rétturinn til og haft af því verulegar tekjur, fénýtt þennan rétt þannig ár eftir ár, veitt kannski helminginn annað hvert ár eins og þetta var hér á árabili. Auðvitað var algerlega galið að bjóða upp á það að kerfið gæti búið til óðalseigendur og leiguliða sem strituðu hörðum höndum og hinir hirtu arðinn af. Þannig hlutir urðu til þess að um þetta kerfi varð mikið ósætti. Ég hef oft sagt það við vini mína í röðum útgerðarmanna að ég held að þar hafi menn gert gríðarleg mistök í sinni harðskeyttu hagsmunagæslu að hafa ekki löngu fyrr tekið þátt í því með stjórnvöldum að taka fyrir vissa hluti í þessu kerfi sem hefur marga kosti þannig að frekar skapaðist sátt um það. Það er orðið framorðið í þeim efnum að reyna að lenda þessu og það verður ekki gert með innleggi af því tagi sem ríkisstjórnin leggur hér af stað með, það þarf meira til. Þetta fer í öfuga átt.

Við förum í sundur með þessum hætti, óttast ég, og ég held að viðbrögðin bendi til þess, þegar í raun og veru að mínu mati var ekkert langt í land að hægt væri að lenda þessu með ásættanlegum hætti. Efniviðurinn í lausn er að mínu mati til staðar í aðalatriðum. Það er úrvinnsla á því sem þarf. Það þarf samkomulags- og sáttavilja úr báðum áttum milli þeirra sem lengst vilja ganga í að umbylta þessu kerfi og hinna sem vilja bara verja sína hagsmuni í því eins og það er. Það eru auðvitað fyrst og fremst þeir sem hafa komið sér best fyrir í kerfinu sem eðlilega vilja helst engar breytingar af því að það hentar þeirra hagsmunum. En það má ekki eitt ráða för.

Auðvitað voru fleiri ágallar á þessu sem reyndust sjávarútveginum sjálfum ekki vel. Reyndist það sjávarútveginum vel að kvótaverðið skrúfaðist upp í þær brjálæðislegu hæðir sem það gerði? Og greinin skuldsetti sig og skuldsetti vegna hinna sem löbbuðu burtu og baksaði við að borga þær skuldir niður. Þegar kílóið var komið í 4 þús. kr. eða hvað þetta nú var. Geðveiki. Engin framlegð gat staðið undir því, jafnvel ekki afkastamesti sjávarútvegur í heimi að borga það niður á einhverjum eðlilegum afskriftatíma, jafnvel þótt við tækjum minnsta jaðarkostnað við að sækja þær veiðiheimildir. Það hafa útreikningar sýnt. Þetta var orðið að vitleysu og féll saman við útrásarvitleysisbóluárin.

Varðandi burði greinarinnar til að greiða veiðigjöld er hægt að nota ýmsa mælikvarða til að skoða það. Vissulega eru það meðaltalsmælikvarðar, en við sjáum til dæmis að hvað eiginfjárstöðu snertir og skuldastöðu er sjávarútvegurinn orðinn verulega sterkur á alla venjulega mælikvarða. Stór hluti fyrirtækjanna er að verða skuldlaus. Eiginfjársveiflan, eins og ég fór yfir á síðustu fjórum til fimm árum, er 250 milljarðar í plús, úr neikvæðri stöðu upp á 60 milljarða í jákvæða stöðu upp á í nágrenni við 200 milljarða núna. Það munar nú um það. Framlegðin er liðlega 80 milljarðar, erum við ekki sammála um það? Við skulum ekkert vera að deila um tölur. (Gripið fram í.) — Hvernig færðu það út? Ég nota gögn Hagstofunnar til dæmis. Ég nálgast þetta nú frekar með því að taka (Gripið fram í.) um það bil 80 milljarða. Ég veit ekki hvort hv. þingmaður vill draga frá þeirri framlegðartölu hluti eins og tekjur af seldum veiðiheimildum eða hvernig hann lækkar hana þarna niður. (Forseti hringir.) Segjum þá bara 75 og tökum 13 milljarða í veiðigjöld. Samt er eftir 62 milljarða fjármunamyndun í grein sem veltir 250 milljörðum. (Gripið fram í.)Það er samt eftir fjármunamyndun, við erum að tala um EBIDTU hér, hv. þingmaður, sem er nú bara bærilegt.

Ef við lítum á þetta í sögulegu samhengi er þetta samt einhver mesta framlegð sem íslenskur sjávarútvegur hefur nokkurn tímann í sögu sinni búið við eftir veiðigjöld af þessari stærð. Það er þannig. Hvernig lifði hann þá af sum hin árin? Það er alveg rétt, það voru ekki góð ár hjá sjávarútveginum frekar en í annarri útflutnings- og samkeppnisstarfsemi þegar mesta ruglið var hér í gangi í hagstjórn í landinu á þensluárunum eftir 2003/2004.

Þegar kemur að þessu tali um að ríkisstjórnin sé sérstaklega að hugsa um litlu og meðalstóru fyrirtækin af mikilli umhyggjusemi sinni fyrir þeim — það vefst nú held ég samt fyrir mönnum að útskýra hvers vegna þarf þessa gríðarlegu lækkun á sérstökum veiðigjöldum hjá fyrirtækjum eins og Brimi, Fisk, Þorbirninum, Ögurvík, Stálskipi, Ramma, Vísi. Eru þetta lítil eða meðalstór fyrirtæki? Er víst að framlegðin þar eða afkoma þeirra bjóði ekki upp á að þau greiði eitthvað aðeins meira en stjórnvöld ætla sér að leggja til hér?

Það er þannig að botnfiskurinn eða bolfiskurinn með þessu, og afslátturinn sem gengur að mestum hluta til hans, verður kominn mjög neðarlega í greiðslu sérstaks veiðigjalds, nettó, á næsta fiskveiðiári. Ætli það verði ekki innan við 3 kr. á kíló þegar upp verður staðið? Ef við drögum frá áætlaðri brúttógreiðslu 1.800 milljónir vegna skuldaafsláttar og á fimmta hundrað milljónir vegna frímarks, stendur ekki mikið eftir. Vissulega kemur það ekki öllum fyrirtækjum í sama mæli til góða, en nettó verður greinin nánast orðin laus við sérstakt veiðigjald, botnfiskshlutinn. Það er rausnarlega gert, finnst mér, hjá hæstv. ríkisstjórn.

Ég gæti líka rætt dálítið um fjárfestingar í sjávarútvegi (Forseti hringir.) en hef ekki tíma til þess í þessari ræðu, herra forseti.



[22:01]
Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni verður tíðrætt um þann mikla hagnað sem orðið hefur í sjávarútvegi og það hvað fólki sveið að sjá menn fara með milljarða út úr greininni. Af hverju var þetta og að hverju var stefnt þegar hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon og félagar hans hér á þingi samþykktu framsalið á sínum tíma? Það var talið að það væri helsti hagræðingarhvatinn í kerfinu að fara þá leið. Þetta er alveg hárrétt sem hv. þingmaður segir, virðulegi forseti, það er þetta sem fólki sveið. En hverjir eru það sem keyptu? Hv. þingmaður kom nefnilega inn á það líka. Auðvitað var það orðin algjör geggjun hvert gjaldið á aflaheimildum var komið. Því miður. Ég er algjörlega sammála því. Þetta var farið alveg úr böndunum.

Eftir á að hyggja hefði maður viljað segja að það hefði verið skynsamlegt að grípa inn í þetta með einhvers konar skattlagningu á þau fyrirtæki sem voru að selja sig út úr greininni þegar þetta var komið í þessar verðhæðir. Það hefði verið ákveðin sanngirni í því. Þá hefði hluti af því söluverðmæti orðið eftir hjá þjóðinni. Það hefði örugglega verið til þess fallið að skapa meiri sátt, en við spólum ekki til baka í þessu og við refsum ekki þeim sem keyptu og þeim sem hagræddu.

Það var líka þannig að í þessari miklu hagræðingu var stofnaður sérstakur úreldingarsjóður. Það var skattlagt sérstaklega í greininni til þess að borga fyrir þessa hagræðingu. Evrópusambandið er að setja tugi ef ekki hundruð milljarða í að borga fyrir skip sem er verið að úrelda þar með litlum árangri. Hér var það greinin sjálf sem greiddi fyrir þessa hagræðingu að eyða skipaflotanum, minnka skipaflotann og fækka skipum.

Þetta hljómar svolítið eins og sagan um litlu gulu hænuna. Það voru ekki margir tilbúnir á þessum tíma, þegar viðvarandi tap var á sjávarútvegi og þessir erfiðleikar voru, að baka brauðið, en það eru margir tilbúnir að borða það í dag. Ég held að það sé mikilvægt að við höfum þetta í huga. Ég er ekki að segja þar með að ekki sé eðlilegt að í góðri afkomu og á góðum árum sé borgað ríflegt veiðigjald og þjóðin fái sinn skerf af því, en það verður að vera þannig að greinin nái að dafna, að greinin nái að vaxa áfram, að greinin nái að þróa sig og efla sig. Þetta má ekki vera það íþyngjandi fyrir fyrirtæki sem þar eru.

Eiginfjárstaðan er að verða ágæt. Þess vegna, ef við höfum skattlagninguna tiltölulega hóflega, sanngjarna, sjáum við fjárfestingarþörfina sem er orðin uppbyggð. Það var talið að hún næmi allt að 60 milljörðum, uppsöfnuð fjárfestingarþörf. Það yrði alveg glæsilegt fyrir þjóðarbúið ef sú fjárfesting færi af stað. Við skulum bara vona að við náum víðtækari sátt með nýju frumvarpi á hausti komanda um fiskveiðistjórnarmálin hér almennt og að það verði til að efla þessa grein enn frekar.

Þá er komið inn á þetta með að hagnaðurinn hjá Brimi og Fisk og hvað þetta heitir — að við séum að lækka veiðigjöldin á þessi fyrirtæki. Ég kom inn á það áðan. Já, já, vissulega erum við að gera það, en við erum fyrst og fremst að jafna álagið á gjaldtöku á þessi fyrirtæki samanborið við stóru uppsjávarfyrirtækin sem einhverra hluta vegna sátu ekki við sama borð, sættu ekki sömu álögum hjá fyrri ríkisstjórn. Það eru stærstu fyrirtækin í sjávarútvegi á Íslandi. Við erum að hækka álögur á þau. Við erum að færa álögurnar á stærri fyrirtækin í bolfiski til jafns við þau þannig að menn sitji við sama borð. Það voru jafnaðarmenn sem fóru hina leiðina. Einhver sagði hér í gær að þeir vildu jöfnuð í öllum málum. Þetta hlýtur þá að vera í þeim anda. Það hlýtur í framtíðinni að vera markmið okkar að greinin sitji almennt við sama borð hvað svona skattlagningu varðar, að ekki sé verið að mismuna fyrirtækjum þar.

Það er alveg rétt að ef heildin er tekin, af því að afslátturinn mun koma meira inn á bolfisksfyrirtækin, mun afslátturinn verða til þess að veiðigjaldið þar mun lækka. Ég hef ekki reiknað þetta út eða séð þessar tölur. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon nefnir 3 kr., en það eru ekki stöndugu fyrirtækin í þeirri grein sem njóta þess, það eru fyrirtæki sem við viljum verja, fyrirtæki sem fóru illa út úr hruninu, eru núna í fjárhagslegri endurskipulagningu á síðasta ári og þessu ári og kannski fram á næsta ár. Það verður ekki fyrr en þá sem við sjáum í raun og veru hver staða þeirra fyrirtækja er. Þá eigum við auðvitað að færa gjaldtökuna á þau til jafns við alla aðra í greininni. En við höfum öll sameinast um að verja hagsmuni þeirra á meðan þau ganga í gegnum þá endurskipulagningu sem er þörf og verður að gera sig.



[22:07]
Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Því var fagnað hér sérstaklega í kvöld þegar hv. þm. Jón Gunnarsson, formaður atvinnuveganefndar, mætti til fundarins til að taka þátt í umræðum, menn héldu nú kannski til þess að svara helst spurningum sem hefðu komið fram í máli þeirra sem tekið hafa þátt í umræðunum. Þess í stað valdi hann að fara í langa ræðu, hefur lengri tíma sem framsögumaður nefndarálits, til að fjalla um málið og ekki síst til að veitast svolítið að andstæðingum sínum í stjórnmálum í þeirri umræðu sem átt hefur sér stað í þessu máli.

Það er stundum sagt að þegar komið er að lokum þinghalds hverju sinni — við vitum að það styttist í það — sé ekki góður svipur á því að stjórnarþingmenn sérstaklega séu að lengja þinghaldið mikið með miklum ræðum, og sumir mundu nú kalla það málþóf. Píratar höfðu upplýst það sérstaklega hér opinberlega að þeir ætluðu að stunda málþóf þangað til þeir vissu með vissu að forseti lýðveldisins yrði kominn til landsins. Nú lítur út fyrir það, herra forseti, að formaður atvinnuveganefndar ætli að viðhafa hér málþóf þar til hann er viss um að forseti lýðveldisins sé farinn úr landi. [Hlátur í þingsal.]



[22:09]
Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Jón Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta kom upp á fundi hv. atvinnuveganefndar, hjá fulltrúa Pírata þar, að þeir væru að velta þessu fyrir sér með forsetann, höfðu áhyggjur af því að forsetinn væri ekki á landinu og handhafar forsetavalds gætu þess vegna staðfest þessi lög. Ég sagði það þá og segi það enn og aftur nú að ég fylgist bara alls ekki með ferðum forsetans þannig að ég viti hvort hann er á landinu eða ekki. Enda skiptir það bara engu máli fyrir mig og ég er persónulega algjörlega tilbúinn að kvitta upp á það fyrir mína hönd að þessi lög verði ekki öðruvísi afgreidd en forsetinn veiti þeim þá meðhöndlun sem hann á að gera.

Virðulegi forseti. Mér þótti eitt ómaklegt í málflutningi hv. þm. Árna Þórs Sigurðssonar, að ég væri að veitast að stjórnarandstöðunni í málþófi. Hver er að veitast að hverjum? Eru þingmenn að veitast að okkur stjórnarþingmönnum, meiri hluta nefndarinnar, með þeim málflutningi sem ég hef farið hér yfir þegar verið er að ýja að þessum tengslum og hagsmunagæslu og allt þetta? Er verið að veitast að okkur?

Ég er bara að svara því sem hefur verið hér í umræðunni. Ég er að bara að biðja okkur um að láta af því. Ég veit að ekkert okkar trúir því að annarlegir hagsmunir ráði afstöðu okkar í þessu máli, fyrir utan það að það stenst enga skoðun, virðulegi forseti, að hagsmunir Sjálfstæðisflokksins (Forseti hringir.) og Framsóknarflokksins séu í tengslum við stórútgerðir (Forseti hringir.) í landinu. Við erum miklu frekar að ganga í þeirra (Forseti hringir.) sjóði, í þeirra garð, við erum að ganga að þeim þegar við erum að leggja þetta mál fram núna og höfum gert það (Forseti hringir.) í gegnum tíðina.



[22:12]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Það tæki meira en tíu mínútur að fara rækilega yfir sögu úreldingar- og framsalsmála í sjávarútveginum þó að það væri áhugavert í sjálfu sér. Ég held að öllum hafi verið ljóst um áratugaskiptin 1990/1991 að talsverðar breytingar þurftu að eiga sér stað í sjávarútveginum. Við vorum með of stóran fiskiskipastól. Sjávarútvegurinn hafði gengið í gegnum mjög erfið ár og úreldingarreglurnar, takmarkanir á stærð fiskiskipaflotans, skiluðu ekki þeim árangri sem sjáanlegt var að mundi úr þeirri áttinni laða fram nauðsynlegar breytingar með nægjanlegum hraða. Þess vegna var farið í ýmsar aðgerðir í þeim efnum.

Þetta gerðist í kjölfar þess að menn höfðu bæði þurft á árunum á undan að draga saman aflann og ekki síður hins að íslenskur sjávarútvegur var nánast gjaldþrota haustið 1988; hann var að stöðvast eins og önnur útflutningsstarfsemi í landinu. Það er nefnilega þannig, herra forseti, svo merkilegt sem það er, að það hefur komið í hlut undirritaðs oftar en einu sinni að taka við þrotabúum Sjálfstæðisflokksins og samstarfsmanna hans í ríkisstjórn. Ástandið var nú ekki björgulegt haustið 1988 þegar eitt stykki ríkisstjórn sprakk í loft upp af því að hún kom sér ekki saman um neinar ráðstafanir til að halda útflutningsstarfseminni í landinu gangandi.

Þegar staða sjávarútvegsins var kortlögð á mánuðunum þar á eftir kom í ljós að nánast þurfti að endurfjármagna frá grunni stærstan hluta sjávarútvegsins í landinu. Það var nú ekki betra en það ástandið eftir hina heimskulegu fastgengisstefnu sem keyrði sjávarútveginn áfram á föstu gengi í bullandi verðbólgu þangað til hann var búinn að þurrka upp allt eigið fé og stór hluti fyrirtækjanna var að fara á hliðina. Hvað var gert? Það var farið í viðamiklar aðgerðir til að endurfjármagna öll lífvænleg fyrirtæki, settir á fót tveir sjóðir, Hlutafjársjóður og Atvinnutryggingasjóður, sem lögðu fram hlutafé og lánuðu rekstrarlán inn í greinina og það tókst að bjarga henni. Að uppistöðu til tókst að fleyta fyrirtækjunum áfram. Þessi aðgerð tókst mjög vel. Hún tókst svo vel að þegar ríkið á árunum upp úr 1990, eða á bilinu svona 1992–1995, seldi hlut sinn úr Hlutafjársjóði fékk það yfirleitt fullt verð til baka og hagnaðist meira að segja í mörgum tilvikum. Þetta var að vísu kallað sjóðasukk af ríkisstjórninni sem tók við undir forustu Davíðs Oddssonar, þáverandi forsætisráðherra.

Ég nefni þetta hér vegna þess að menn verða líka að skoða þær breytingar sem þarna var verið að ráðast í í samhengi við þessa hluti, hver staða greinarinnar var. Það var ekkert um annað að ræða en að búa til svigrúm fyrir hana til að hagræða í rekstrinum og ná meiru út úr fjárfestingunum, minnka skipastólinn o.s.frv.

Það fer svo að ágerast þegar á líður tíunda áratuginn, herra forseti — það er alveg rétt, þá voru menn sofandi og andvaralausir gagnvart því að takast á við það, ef menn ekki vildu bara stöðva framsalið eða takmarka það hefði að sjálfsögðu átt með skattalegum aðferðum að reyna að gera þann viðbótargróða upptækan. Því var reyndar hreyft með ýmsum hætti á þessum árum.

Varðandi það að við höfum sérstaklega hyglað stóru uppsjávarfyrirtækjunum — og svo liggur við að hv. þingmaður sé að læða því að að kannski hafi landafræðin spilað aðeins inn í þetta og að um sum kjördæmi hafi meðvitað verið farið mýkri höndum en önnur. Þetta er nú dálítið gaman. Hvernig urðu tölurnar til í álagningu sérstaks veiðigjalds fyrir fiskveiðiárið 2012/2013? Var það ekki þannig að það var stjórnarandstaðan sem með málþófi stöðvaði framgang mála hér vikum saman og svo voru harðar samningaviðræður þar sem stjórnarandstaðan krafðist þess að veiðigjöldin yrðu lækkuð gegn því að hún léti þá af málþófi sínu og frumvarpið fengi að fara í gegn? Þannig var samið um þinglok rétt um 20. júní 2012, ætli ég muni það ekki? Þannig að það var nefnilega akkúrat ekki þannig. Ég var einmitt sérstaklega ósáttur við hversu veiðigjaldið á uppsjávarhlutann var pínt niður vegna þess að ég vissi vel að afkoman bauð upp á meiri greiðslur. (Gripið fram í.) — Já, já, það er trúlegt, en ætli ég megi nú ekki að minnsta kosti bera vitni sem einn af þátttakendunum. Við skulum þá kalla upp á dekk hina sem í þessu stóðu aðallega, t.d. þáverandi þingmann, Bjarna Benediktsson. Okkar áform stóðu til annarra hluta eins og kunnugt er.

Svo er rétt að hafa í huga að á þeim tíma lágu ekki fyrir opinber gögn um að afkomumunurinn væri jafn mikill og hann er orðinn nú, að sjálfsögðu ekki, vegna þess að það hefur dregið í sundur. Það er fyrst þegar við fáum grunninn og verðvísitölu sjávarútvegsins, afkomuna 2011 í uppsjávarveiðunum, og framreiknum hana með verðvísitölu uppsjávarveiða til dagsins í dag eða aprílloka að við sjáum hversu mikið hefur dregið þarna í sundur. Hann hefur ágerst mjög munurinn á þessu ári sem liðið er síðan þetta var. Á sama tíma hafa bolfisksverðin lækkað og verðvísitala þar farið niður. Það er því fullkomlega skiljanlegt að þarna breikki bilið mjög hratt. Það er alveg rétt, ég hef mörgum sinnum tekið undir það, að hreyfingin í frumvarpinu er að sjálfsögðu í rétta átt, að leggja meira á uppsjávarveiðarnar og minna á botnfiskinn, en fyrr má nú gagn gera.

Varðandi fjárfestingar í sjávarútvegi og goðsögnina og sönginn um það að það hafi allar fjárfestingar í íslenskum sjávarútvegi stöðvast vegna óvissunnar um fiskveiðistjórn — þetta var nú einn áróðurinn. Ég man ekki hvort það voru keyptar sérstaklega tugmilljarða auglýsingar fyrir þetta, en mikið var nú sungið um þetta. Hver ætli sé svona veruleikinn eða hvernig sé ég hann fyrir mér?

Hann er í fyrsta lagi sá að efnahagur sjávarútvegsfyrirtækjanna var að uppistöðu til í rúst við hrunið — við hrunið, hv. þm. Jón Gunnarsson, ekki svokallað hrun, það varð nefnilega hrun á Íslandi. Þau voru í engum færum til þess fyrstu mánuðina og missirin þar á eftir að fara að ráðast í stórar fjárfestingar, eðlilega ekki. Í öðru lagi var bankakerfið í landinu ekki starfhæft, það þurfti að koma því á fót og fjármagna það þannig að það gæti farið að sinna hlutverki sínu gagnvart viðskiptavinum sínum að þessu leyti.

Í þriðja lagi var það þannig að stjórnendur þessara fyrirtækja, brenndir af reynslunni, lögðu almennt mikla áherslu á að nota afkomubatann til að greiða niður skuldir. Skiljanlega, því sjávarútvegurinn var að meðaltali með neikvæðan höfuðstól. Menn gera nú ekki stórar kúnstir við slíkar aðstæður. Að breyttu breytanda var þetta þannig hjá stærstum hluta fyrirtækjanna að eina vitið var að greiða niður skuldir þegar afkoman fór batnandi. Það gerðu fyrirtækin eðlilega. En þar með byrjar auðvitað að byggjast upp fjárfestingargeta.

Ég fullyrði að þessi meinta óvissa sem menn veifuðu alltaf sem ástæðunni fyrir því að sjávarútvegurinn væri ekki farinn á blússandi ferð í fjárfestingum var áróður og ekkert annað en áróður, að minnsta kosti hvað árin 2009 og árin 2010 snertir. Þá voru það aðrar ástæður sem augljóslega voru þess valdandi að sjávarútvegsfyrirtækin, með mjög fáum undantekningum, voru ekki að fjárfesta. (Gripið fram í.) Þá fóru þau að fjárfesta, hv. þingmaður. Þá gerðist það nefnilega (Gripið fram í.) í þó nokkrum mæli. Það þýðir ekkert að segja draugasögur í björtu. Fyrstu vikurnar eftir að ég tók aftur við sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu, á öndverðu ári 2012, heimsótti ég til dæmis nokkur fyrirtæki, bæði norðan og sunnan heiða, og hvað voru menn að gera? Menn leiddu mig stoltir um húsin sín og sýndu mér nýju og fínu fiskvinnsluvélarnar sem þeir hefðu verið að kaupa. Ég horfði á stærsta lausfrysti Evrópu rísa í mínum heimabæ, á Þórshöfn, og um það bil sem hann kom í gagnið og nýju vinnslulínurnar lagðist nýja Heimaey þar að, hún var að vísu pöntuð löngu áður. Á Norðfirði voru miklar fjárfestingar, endurnýjun vinnslulínu hjá Vísi í Grindavík og ég held bara í öllum fiskvinnslustöðvum þess fyrirtækis o.s.frv. Sem betur fer fór að lifna yfir þessu strax á árinu 2011, en það voru engar forsendur til þess fyrr.

Ég tel því að það hafi verið stórkostlega ofnotað í þessari umræðu að óvissa um fyrirkomulag fiskveiðistjórnar eða veiðigjalda hafi verið úrslitaþátturinn. Það var hrunið. Það var ónýtur efnahagsreikningur stórs hluta fyrirtækjanna. Það var ástandið í bankakerfinu. Það var óvissa um skuldir margra þessara fyrirtækja meðan ekki var kominn botn í lögmæti lána eða að hvaða marki þau fengju úrlausn samkvæmt þeim skuldaniðurfellingarúrræðum sem bankarnir mótuðu á öndverðu ári 2010. Þessir hlutir voru ekki að skýrast fyrr en kom inn á árið 2011. Sumpart ekki einu sinni almennilega það, samanber lögmæti tiltekinna erlendra lána. Það er nú veruleikinn að mínu mati en ekki áróðurinn um hið gagnstæða varðandi þessar fjárfestingar.

Síðan er það alveg augljóst að það hefur byggst upp mjög mikil fjárfestingargeta með þessari hröðu niðurgreiðslu skulda og stórbættum efnahag fyrirtækjanna. Það er ánægjulegt. Við skulum vona að þess fari að sjást stað í kröftugri sókn greinarinnar. Ég hef að sjálfsögðu engar áhyggjur af því hér innan lands, að það muni gerast. Ef það væri eitthvað sem ég hefði áhyggjur af fyrir hönd íslensks sjávarútvegs núna væru það fyrst og fremst markaðsmálin og það hvernig okkur á eftir að reiða af í þeim efnum, hvernig efnahagsástandið þróast í heiminum og hvernig okkur gengur að mæta harðnandi samkeppni, til dæmis á bolfisksmörkuðunum, vegna aukinna veiða í Barentshafi o.s.frv.