142. löggjafarþing — 19. fundur
 2. júlí 2013.
Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu, frh. 3. umræðu.
stjfrv., 11. mál (val stjórnarmanna). — Þskj. 11, brtt. 53, 54 og 58.

[22:23]
Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Við erum í áframhaldandi 3. umr. um frumvarp til laga um breytingu á lögum um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu. Fyrst ber að geta þess að fyrir liggja, frá meiri hluta hv. allsherjar- og menntamálanefndar, nokkrar breytingartillögur við frumvarpið. Í fyrsta lagi er þar um að ræða breytingartillögu sem mætir þeirri gagnrýni sem verið hafði uppi á frumvarpið að því er varðar aðkomu starfsmanna Ríkisútvarpsins að stjórn þess. Þar er sem sagt gert ráð fyrir því að Starfsmannasamtök Ríkisútvarpsins tilnefni einn mann og annan til vara með málfrelsi og tillögurétt en ekki atkvæðisrétt í stjórn Ríkisútvarpsins. Ég tel að þessi breyting sé til bóta. Hún er í samræmi við þau viðhorf sem við höfum haft uppi hvað þennan þátt málsins varðar.

Í öðru lagi er gerð tillaga um að fjölga í stjórn útvarpsins frá því frumvarpi sem menntamálaráðherra lagði hér fram, úr sjö í níu. Ég hef skilið það þannig að það væri gert í því augnamiði að koma til móts við þá gagnrýni að breiddin í stjórn Ríkisútvarpsins væri ekki nægilega mikil og er góðra gjalda vert að það sé gert. Ég vonast þá að sjálfsögðu til að það verði tryggt, verði þetta frumvarp að lögum, við það kjör sem færi þá fram hér á hv. Alþingi að það þýði raunverulega aukna pólitíska breidd í stjórn Ríkisútvarpsins. Eins og frumvarpið er lagt upp er gert ráð fyrir því að allir stjórnarmenn séu kjörnir hér á Alþingi.

Við höfum hins vegar gagnrýnt það fyrirkomulag sérstaklega og teljum að það frumvarp sem var samþykkt á vorþingi fyrir kosningar, um breytingar um lögum um Ríkisútvarpið, þar sem gert var ráð fyrir annars konar fyrirkomulagi, þar sem ráðherra skipaði formann en síðan mundi sérstök valnefnd gera tillögu um fulltrúa í stjórn Ríkisútvarpsins, og að þessari valnefnd stæði í fyrsta lagi allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis, með fulltrúa í valnefndinni til að tryggja tengingu inn í pólitíkina sem við töldum að ætti að vera til staðar — við höfum alls ekki sagt að hún ætti ekki að vera til staðar. Í öðru lagi samtök listamanna til að tryggja faglega tengingu inn í menningar- og listageirann og í þriðja lagið háskólasamfélagið til að tryggja tengingu inn í akademíska umfjöllun um fjölmiðlamál. Við hörmum að sjálfsögðu að til standi að breyta því fyrirkomulagi sem var samþykkt hér í vor og þar af leiðandi styðjum við ekki málið eins og kemur fram í nefndaráliti sem við stöndum að og gerð var grein fyrir í ítarlegu máli við 2. umr. málsins af hv. þm. Svandísi Svavarsdóttur sem var framsögumaður minni hlutans í málinu.

Ég fagna því að sjá einn hv. þingmann Framsóknarflokksins hér í sal og annan á forsetastóli við þessa umræðu. Ég hafði reyndar vissu fyrir því, fyrir ekki löngu, að allmargir þingmenn Framsóknarflokksins væru hér í húsinu í kvöld. Ástæða þess að ég nefni þetta er að ég hefði gjarnan viljað eiga orðastað við framsóknarmenn um þetta frumvarp alveg sérstaklega. Það helgast af því að Framsóknarflokkurinn stóð að þeim breytingum sem gerðar voru á lögunum um Ríkisútvarpið hér í vor. Bæði var það að fulltrúi Framsóknarflokksins þá í allsherjar- og menntamálanefnd þingsins stóð að nefndaráliti frá meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar á 141. þingi. Það var þáverandi hv. þm. Siv Friðleifsdóttir sem skrifaði undir það álit og Framsóknarflokkurinn studdi það frumvarp þáverandi ríkisstjórnar í atkvæðagreiðslu. Enn eru á þingi og í núverandi þingflokki Framsóknarflokksins nokkrir þingmenn sem tóku þátt í þeirri atkvæðagreiðslu og studdu málið.

Ég nefni hv. þm. Ásmund Einar Daðason sem mér þykir nú eiginlega miður, virðulegur forseti, að sé ekki hér í þingsalnum. Ég hafði gert mér vonir um að hann yrði hér í þingsal og tæki þátt í umræðunni um þetta mál. Ég vil einnig nefna hæstv. utanríkisráðherra, Gunnar Braga Sveinsson, sem var hér í umræðum um málið, tók þátt í atkvæðagreiðslunni og studdi frumvarpið. Sömuleiðis hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Sigurð Inga Jóhannsson, sem einnig studdi málið og greiddi atkvæði með því. En auk þess voru hér þingmenn á síðasta löggjafarþingi Sigfús Karlsson, fyrir Framsóknarflokkinn, Siv Friðleifsdóttir, sem ég hef áður nefnt, og Birkir Jón Jónsson — þau tóku þátt í atkvæðagreiðslum um þetta mál og studdu það; Birkir Jón Jónsson var varaformaður Framsóknarflokksins til skamms tíma.

Það er bagalegt að fá ekki skýringar á því frá þingmönnum Framsóknarflokksins, í þessari umræðu um Ríkisútvarpið, hvað veldur sinnaskiptum flokksins í málinu. Hvað veldur því að Framsóknarflokkurinn hefur nú á fáum vikum snúið algjörlega við blaðinu að því er varðar afstöðu sína til þess fyrirkomulags við stjórn Ríkisútvarpsins sem við ræðum hér í 3. umr.? Við erum, virðulegur forseti, komin í 3. umr. um þetta mál og enn hefur enginn þingmaður Framsóknarflokksins tekið til máls. Ég fletti því upp á vef Alþingis hvernig væri háttað ræðum framsóknarmanna í þessu máli á þessu þingi og þá kemur í ljós að einn hv. framsóknarmaður kemur fram á ræðulistanum og það er hv. þm. Þorsteinn Sæmundsson, sem nú var að stíga úr forsetastóli. Og hvað var það sem hann hafði að segja um málið í 1. umr.? Jú, hann var þá á forsetastóli og las útbýtingu þingskjala. Það er það eina sem við höfum heyrt frá Framsóknarflokknum. (Gripið fram í: Gerði það vel. ) — Já, hann hefur sjálfsagt gert það mjög vel en ég er ekki viss um að menn hafi orðið mikið betur að sér um afstöðu Framsóknarflokksins til þess frumvarps sem hér er til umfjöllunar.

Ég kalla eftir því, nú við þessa síðustu umræðu um málið, að framsóknarmenn komi hingað í salinn, fleiri en hv. þm. Willum Þór Þórsson, sem ég þakka fyrir að er hér og hlustar á þessa ræðu. Þá er ég einkum og sér í lagi að hugsa um þá þingmenn sem voru hér á síðasta kjörtímabili í þingflokknum, og hæstv. forseta, og studdu þá þær breytingar sem lagðar voru til á lögunum um Ríkisútvarpið og höfðu verið lengi í undirbúningi — það hafði verið vandað mjög til undirbúnings þess frumvarps og það unnið í prýðilega góðri sátt.

Reyndar var það þannig, ef maður lítur nú á Sjálfstæðisflokkinn, að flestir þingmenn hans sátu hjá í atkvæðagreiðslunni um málið. Þar með talið hæstv. núverandi mennta- og menningarmálaráðherra. Nokkrir þeirra greiddu atkvæði gegn frumvarpinu en flestir í þingflokki Sjálfstæðisflokksins völdu að sitja hjá í málinu. Höfðu sem sagt ekki það sterka sannfæringu gegn því fyrirkomulagi sem þá var lagt til að þeir sæju ástæðu til að greiða atkvæði gegn frumvarpinu heldur sátu hjá. Ég minnist þess ekki að í aðdraganda kosninganna í vor, nýlega eftir að frumvarpið hafði orðið að lögum, að frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins, til að mynda hæstv. núverandi mennta- og menningarmálaráðherra, hefði gert það að sérstöku umtalsefni í kosningabaráttunni að þessum lögum þyrfti að breyta hið fyrsta og hafa hraðar hendur og helst á sumarþingi eins og okkur er boðið upp á í þessu máli nú.

Virðulegur forseti. Þetta harma ég og enn og aftur kalla ég eftir því að einhverjir þingmenn Framsóknarflokksins komi hér upp í þessa umræðu og láti þetta mál ekki fara fram hjá sér. Láti málið ekki einhvern veginn renna sér úr greipum án þess að hafa að minnsta kosti flutt eins og eina eða tvær ræður og gert grein fyrir afstöðu Framsóknarflokksins og af hverju Framsóknarflokkurinn skiptir nú algjörlega um skoðun og gengst inn á þá línu sem hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra leggur hér til.

Ég vil síðan aðeins víkja nokkrum orðum að umfjöllun og gagnrýni sem hefur komið fram úr röðum sjálfstæðismanna á það fyrirkomulag sem var samþykkt í lögunum í vor. Hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra sagði meðal annars hér í þingræðu að hann hefði viljað hafa þessa pólitísku tengingu algjörlega skýra og ábyrgðina og þess vegna ætti að velja allt útvarpsráðið hér á Alþingi. Hann lét jafnvel að því skína að þegar honum hefðu borist tilnefningar frá tilnefningaraðilum samkvæmt gildandi lögum hefði hann tekið ákvörðun um að flytja þetta frumvarp. Nú er ég ekki alveg viss um að það hafi verið nákvæmlega í þeirri röð en alla vega féllu þessi orð.

Ég rek síðan augun í að einn hv. þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sem nú er genginn í salinn, hv. þm. Brynjar Níelsson, skrifar grein á bloggsíðu sína í dag undir heitinu: Fagmennska ef það er rétta fólkið. Þar segir hann, með leyfi forseta:

„Nokkrir stjórnarandstöðuþingmenn eru með böggum hildar yfir því að ríkisstjórnin ætli að herða á pólitísku valdi yfir Ríkisútvarpinu.“ — Staðfestir það sem sagt að herða eigi pólitískt vald yfir Ríkisútvarpinu. — „Þetta er sama fólkið og tilnefndi í stjórn Ríkisútvarpsins fólk úr innsta kjarna sinna flokka þegar það fór með völdin. Á sama tíma tilnefndi Sjálfstæðisflokkurinn fagmann úr lista- og menningargeiranum sem enginn kannast við að hafa séð í Valhöll.“

Í þessu sambandi vil ég geta þess að Vinstri hreyfingin — grænt framboð tilnefndi reyndan fjölmiðlamann til setu í stjórn Ríkisútvarpsins sem ekki kom úr innsta kjarna flokksins svo að það sé líka sagt og því haldið til haga. (Gripið fram í.) Áfram segir í greininni, með leyfi forseta:

„Svo var lögunum breytt í tíð síðustu stjórnar til að fá hina „ópólitísku“ Kolbrúnu Halldórsdóttur í stjórn Ríkisútvarpsins. Hafi einhver áhuga á að festa Ríkisútvarpið í pólitíska fjötra eru það núverandi stjórnarandstöðuflokkar.“

Virðulegur forseti. Ég tel að hv. þm. Brynjar Níelsson veitist hér með ómaklegum hætti að fyrrverandi þingmanni, Kolbrúnu Halldórsdóttur, sem er forseti Bandalags íslenskra listamanna, átti langan feril sem listamaður áður en hún tók sæti á Alþingi og hefur algjörlega hætt afskiptum af stjórnmálum eftir að hún lét af störfum sem þingmaður og tók við áðurnefndu embætti og er valin af hópi listamanna til að taka sæti í stjórn Ríkisútvarpsins eftir gildandi lögum.

Virðulegur forseti. Ég verð að mótmæla harðlega þeim orðum sem hv. þingmaður lætur frá sér fara í grein sinn á bloggsíðunni 2. júlí 2013 kl. 09.36. Mér finnst þetta ómaklegt og mér finnst að þingmaðurinn ætti að biðja þingmanninn fyrrverandi, Kolbrúnu Halldórsdóttur, afsökunar á þessu.

Virðulegur forseti. Ég sé ekki að það fjölgi mikið framsóknarmönnum í þessum sal — kannski einn sem hefur bæst í salinn frá því áðan. Ég ítreka að mér finnst það sjálfsögð kurteisi að svona stór og myndarlegur þingflokkur, eins og Framsóknarflokkurinn er orðinn eftir síðustu kosningar, láti svo lítið að koma og gera grein fyrir afstöðu sinni í þessu máli, gera grein fyrir þeim sinnaskiptum sem orðið hafa á afstöðu flokksins frá því fyrir nokkrum vikum þegar hann studdi þær breytingar sem voru gerðar á stjórnarfyrirkomulagi Ríkisútvarpsins og á lögunum um Ríkisútvarpið frá því í mars síðastliðnum og fram að þeim tíma að hann tekur nú sæti í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum og tekur þátt í að gera þær breytingar sem hér eru lagðar til.



[22:38]
Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Ríkisútvarpið er ein af mikilvægustu stofnunum samfélagsins og hefur sérstöku hlutverki að gegna varðandi lýðræðishlutverkið, þ.e. að flytja óháða fréttaumfjöllun, miðla íslenskri menningu af fjölbreytilegu tagi og hafa forustu á sviði innlendrar dagskrárgerðar. Þetta hlutverk hefur alltaf verið fyrir hendi en lýðræðishlutverk Ríkisútvarpsins er enn þýðingarmeira nú fyrir íslenskt samfélag eftir allt það sem á undan er gengið í þjóðfélaginu.

Margir telja að tilveruréttur ríkisfjölmiðla í framtíðinni muni byggjast á því að þeir tryggi almenningi hlutlæga og áreiðanlega fjölmiðlaþjónustu. Þetta á sérstaklega við þegar framboð misáreiðanlegra upplýsinga á netinu eykst sífellt. Skilin milli hlutdrægra upplýsinga og frétta verða óljósari þar sem upplýsingar og fréttir eru beinlínis taldar vera verslunarvara.

Sú tillaga sem er í núgildandi lögum um valnefnd sem síðan skipar fulltrúa í stjórnina er til mikilla bóta fyrir lýðræðið. Hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra hefur talað um að eðlilegt sé að Alþingi skipi stjórnina til að tryggja gegnsæi. Ég spyr mig: Las ráðherrann ekki rannsóknarskýrslu Alþingis? Í þeirri miklu skýrslu var samþjöppun valds og spillingar dregin fram í dagsljósið og meðal annars rakið að hið pólitíska vald og einræði væri hluti af því að kerfið brást.

Það kemur einnig fram í 8. bindi rannsóknarskýrslunnar þar sem fjallað er um íslenska fjölmiðla fyrir hrun og segir þar, með leyfi forseta:

„Öflugir sjálfstæðir fjölmiðlar skapa þannig forsendur fyrir upplýsta almenna umræðu sem er grundvallaratriði í lýðræðisríki. Meginkrafan sem gera verður til fjölmiðla varðar faglega framsetningu frétta, hlutlægni þeirra og sanngirni.“

Í því frumvarpi sem samþykkt var hér ekki fyrir alls löngu er sú skylda lögð á herðar Ríkisútvarpinu að það sjái til þess að útsendingar þess nái til allra landsmanna án tillits til búsetu og efnahags og er það eini fjölmiðillinn sem býr við þá kvöð. Þá er kveðið á um að dagskrárefni þess skuli vera fjölbreytt og að stjórn Ríkisútvarpsins móti dagskrárstefnu til lengri tíma. Í því felst að hún taki í stórum dráttum afstöðu til þess hvernig eigi að koma til móts við þarfir og óskir notenda um fjölbreytt og gott efnisframboð án þess að hafa afskipti af einstökum dagskrárliðum.

Við vitum að einhæft framboð í fjölmiðlum verður til þess að hætta er á að þeir missi gildi sitt og sérstöðu og nái ekki til fjöldans.

Við samningu núgildandi laga var miðað við þá grundvallarforsendu að hverju lýðræðissamfélagi sé nauðsynlegt að reka fjölmiðil sem á engan hátt þarf að gæta neinna annarra hagsmuna en þeirra að stuðla að upplýstri umræðu af hlutlægni.

Þau lög sem voru sett á vordögum eru til þess fallin að efla lýðræðislega starfshætti RÚV. Þar er tónninn gefinn um þá forsendu að opinbert félag sem á að gegna veigamiklu hlutverki við að efla og viðhalda lýðræðinu í landinu verði þar af leiðandi að starfa með lýðræðislegum hætti. Með því verður dreifing ábyrgðar og samráð um dagskrána með aðkomu starfsmanna og notenda eðlilegt.

Ef við tryggjum ekki sjálfstæði Ríkisútvarpsins erum við um leið að koma í veg fyrir getu þess til að sinna hlutverki sínu sem fjölmiðlaþjónusta í almannaþágu, fjölmiðlaþjónusta sem á að vera fær um að veita stjórnvöldum á hverjum tíma nauðsynlegt aðhald, vera vettvangur skoðanaskipta og vera í aðstöðu til að geta sett á dagskrá málefni sem stjórnvöldum eða öðrum aðilum gæti mislíkað. Eitt helsta markmið frumvarpsins sem samþykkt var í vor var að styrkja stöðu Ríkisútvarpsins gagnvart hinu pólitíska valdi.

Vel var vandað til verka er varðar þá tillögu sem hér á að reyna að breyta. Starfshópur skilaði, eftir góða yfirlegu, tillögu að fyrirkomulagi við val á stjórn Ríkisútvarpsins. Þar er gert ráð fyrir að ráðherra menningarmála tilnefni einn fulltrúa sem verði formaður stjórnar. Starfsmannasamtök Ríkisútvarpsins tilnefni einn fulltrúa í stjórn en aðrir stjórnarmenn, fimm að tölu, verði tilnefndir af svokallaðri valnefnd sem er skipuð fulltrúum Alþingis, Bandalags íslenskra listamanna og Samstarfsnefnd háskólastigsins.

Það er ekki eins og hið pólitíska vald sé án algerra afskipta. Hér virðast menn hins vegar vilja hafa hina pólitísku krumlu, þessa bláu hönd, allsráðandi (Gripið fram í.) og telja sig mun hæfari til að stýra þessari mikilvægu stofnun. Ég tel það ekki forgangsatriði, hv. þm. Birgir Ármannsson, að Sjálfstæðisflokkurinn eða Framsóknarflokkurinn hafi meirihlutavald í RÚV. Það er mín skoðun. (BÁ: Hvað er …?) Ég bið hv. þingmann að fara í pontu og ræða við mig þannig. (Gripið fram í: Hvernig er reglan núna?)

Þetta er enn eitt dæmið um afturhvarf til fortíðar af hálfu núverandi hægri stjórnar, við ætlum að hafa töglin og hagldirnar í samfélaginu hvar sem því verður viðkomið, sú er meiningin. Svo talar fólk um samvinnu og samráð. Ég get ekki séð að því sé fyrir að fara í því mikla forgangsmáli sem hér er á ferðinni hjá hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra.

Virðulegi forseti. Samsetning valnefndarinnar er ekki út í bláinn. Hlutverk hennar samkvæmt frumvarpinu tryggir að til stjórnarsetu veljist fólk sem hefur fullnægjandi þekkingu á þeim sviðum sem varða rekstur og starfsemi Ríkisútvarpsins og ekki síst meginmarkmiðum þess. Við erum ekki ein um slíkt fyrirkomulag og getum meðal annars horft til nágranna okkar sem bentu á að mjög mikilvægt væri að í stjórn almannaþjónustumiðils sæti góð samsetning af fólki þar sem ekki væri einhæf reynsla undir, heldur kæmi saman ólík þekking og hæfni sem mundi nýtast til þess að skipa stjórn eins og best yrði á kosið.

Allar umsagnir sem allsherjar- og menntamálanefnd bárust voru neikvæðar nema ein — og það má velta því fyrir sér hvers vegna útvarpsstjóra þyki í lagi að starfsmenn hans hafi ekki aðkomu að stjórn. Í umsögn Starfsmannasamtaka Ríkisútvarpsins segir, með leyfi forseta:

„Með setningu laga nr. 23/2013, um stjórn Ríkisútvarpsins og skipan hennar, var það talið til bóta að fulltrúi starfsmanna fengi sæti í stjórn, til að fylgjast með og hafa áhrif á ákvarðanir sem snerta starfsmenn fyrirtækisins. Með þeirri tillögu sem nú liggur fyrir er ljóst að þessum endurbótum verður snúið við. Það harmar stjórn Starfsmannasamtakanna og bendir enn fremur á að nú þegar er búið að kjósa fulltrúa starfsmanna í stjórn Ríkisútvarpsins, samkvæmt gildandi lögum.“

Fagleg sjónarmið og rök virðast skipta litlu hjá hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra. Mér finnst og ég tel það skipta miklu máli í nútímaþjóðfélagi að starfsmenn sitji í stjórninni, jafnvel þótt þeir hafi þar ekki atkvæðisrétt, sem ég tel reyndar ekki heppilegt, en hafi þar málfrelsi og tillögurétt sem er afar mikilvægt og eiginlega með ólíkindum að starfsfólki RÚV sé boðið upp á þessa vitleysu.

Stjórn Bandalags íslenskra listamanna gagnrýnir einnig frumvarpið og þar segir, með leyfi forseta:

„Það að skipa pólitíska stjórn með slíkt hlutverk er fáheyrt og brýtur í bága við öll meginsjónarmið í nágrannalöndum okkar, þar sem áhersla er lögð á eldvegg milli hins pólitíska valds og dagskrárvalds ríkisfjölmiðils. Það sjónarmið, hins vegar, að efla dagskrárlegt vald stofnunarinnar er komið til af þeirri þörf að stofnunin standi sterk faglega og að stjórn hennar sé komin undir hæfum einstaklingum á fjölbreytilegum sviðum menningar, en ekki bara einum útvarpsstjóra.“

Það skýrir kannski viðhorf útvarpsstjóra. Ekki veit ég það.

Framlagning þessa frumvarps nú er enn merkilegra í ljósi þess að við atkvæðagreiðslu um frumvarpið í vor, eins og hér var rakið áðan, greiddu 35 atkvæði með samþykkt þess og einungis fjórir voru á móti. Sú breyting sem hér er verið að leggja til stefnir í hættu því lýðræðislega, menningarlega og samfélagslega hlutverki sem Ríkisútvarpinu er ætlað.

Virðulegi forseti. Við eigum að draga lærdóm af því sem kom fram í rannsóknarskýrslu Alþingis og, með leyfi forseta, kemur þar fram:

„Leita verður leiða til að efla sjálfstæða og hlutlæga fjölmiðlun með því að styrkja bæði fagleg og fjárhagsleg skilyrði fjölmiðlunar.“

Ég tel að með því frumvarpi sem var samþykkt í vor höfum við stigið stór skref og tekið á þeirri niðurstöðu og þeim athugasemdum sem lagðar voru til í skýrslunni. Því treysti ég því að í áframhaldi þessa máls snúi ríkisstjórnin af þessari braut, finni hjá sér einhvern annan tilgang en þessi pólitísku yfirráð. Mér finnst þetta ekki vera neitt annað og það hefur komið fram í umræðunni. Það hefur líka komið fram í gagnrýni og athugasemdum.

Það er líka afar áhugavert að velta því fyrir sér hversu mikið fyrrverandi þingmaður Vinstri grænna er dreginn inn í þetta og ég velti því fyrir mér ef einhver annar hefði verið formaður Bandalags íslenskra listamanna hvort umræðan hefði verið með öðrum hætti, þ.e. að þá hefði verið horft til faglegra sjónarmiða og þekkingar þeirrar sem þar er rætt um frekar en hvar hún stóð í pólitík.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta í þessari umræðu en vona, eins og ég segi, að ríkisstjórnin beri gæfu til að snúa af þessari leið sem hér er lögð til.



[22:49]
Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Ég ætla í örstuttu máli að gera grein fyrir því að þó að ég sé harðlega andsnúinn þessu frumvarpi hæstv. ríkisstjórnar hefur það eigi að síður í einu veigalitlu atriði breyst til batnaðar. Það varðar stöðu starfsmanna. Ég átti orðastað við hv. þm. Vilhjálm Árnason fyrr í þessari umræðu og einnig við hæstv. menntamálaráðherra. Ég sagði mjög skýrt að það yrði alla vega til að lægja öldur í kringum frumvarpið ef hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins drægjust á að ræða millum umræðna hvort unnt væri að gera hlut starfsmanna örlítið veigameiri. Hv. þm. Vilhjálmur Árnason tók vel í það og saman tel ég að við höfum haft áhrif á hæstv. menntamálaráðherra sem í þeirri umræðu féllst á að það yrði tekið aftur til umræðu í nefndinni. Það var gert og fyrir liggur þá að minnsta kosti sú breytingartillaga frá meiri hluta ríkisstjórnarinnar að starfsmenn fái áheyrnaraðild. Það skiptir máli. Það breytir ekki afstöðu minni til frumvarpsins en ég vil alla vega þakka fyrir að menn hafi að minnsta kosti hlustað á rökin sem fyrir því voru færð. Ég tel að það sé snöggtum til bóta að starfsmennirnir hafi þau áhrif og að það veiti tilvonandi stjórn Ríkisútvarpsins ákveðið aðhald.

Hins vegar verð ég líka að segja, og hryggja hv. þm. Árna Þór Sigurðsson, að ég er honum ósammála þegar hann ræðst harkalega á þá þingmenn Framsóknarflokksins sem þó sitja undir þessari umræðu. Nota bene, þeir eru allir nýir. Það er ekki hægt að áfellast þá fyrir það að Framsóknarflokkurinn hefur algjörlega skipt um skoðun í þessu máli. Hins vegar er hægt að áfellast aðra þingmenn Framsóknarflokksins sem á sínum tíma fetuðu ekki einu sinni þá slóð sem núverandi hæstv. menntamálaráðherra gerði, hann sat hjá eins og kunnugt er. Framsóknarflokkurinn studdi málið. Ég held að það séu einn eða tveir núverandi ráðherrar í hæstv. ríkisstjórn sem studdu málið og einn þeirra flutti málið á sínum tíma, muni ég rétt. Framsóknarflokkurinn skuldar því skýringu á viðsnúningnum og þá er ég að tala um gamla Framsóknarflokkinn. Mér finnst það heldur óviðeigandi, jafnvel óviðkunnanlegt, að hv. þingmenn Framsóknarflokksins láti þessa umræðu að öllu leyti fram hjá sér fara án þess að skýra sinnaskiptin.

Hvorki þeir né hæstv. núverandi menntamálaráðherra létu þetta mál sig nokkru varða í aðdraganda kosninganna. Um þetta var ekki kosið. Eigi að síður verð ég að segja að það er nauðsynlegt að heill stjórnmálaflokkur, sem svo skyndilega breytir um afstöðu í máli sem hefur alltaf varðað hann mjög mikið skýri breytinguna. Framsóknarflokkurinn hefur alltaf tekið sig mjög sterklega að Ríkisútvarpinu og stundum staðið vörð um hagsmuni þess. Í því ljósi er eðlilegt að flokkurinn sé krafinn skýringa. Ef ég væri í sporum jafn harðvítugs baráttumanns og andstæðings þessa frumvarps og hv. þm. Árni Þór Sigurðsson er mundi ég krefjast þess að þessari umræðu yrði ekki slotað öðruvísi en að þeir kæmu hingað og gerðu grein fyrir máli sínu.

Hv. þingmaður leitaði ýmissa skýringa á því af hverju Framsóknarflokkurinn taki ekki til máls. Ég held að skýringin liggi algjörlega í augum uppi. Framsóknarflokkurinn skammast sín í þessu máli. Ástæðan fyrir því er sú sem ég nefndi hér áðan að Framsóknarflokkurinn hefur alltaf verið í röðum hollvina Ríkisútvarpsins. Hann hefur viljað halda því sem öflugum ríkismiðli, hann hefur algjörlega andæft þeim skoðunum sem hafa heyrst, ekki síst hjá hinum nýrri armi Sjálfstæðisflokksins, að Ríkisútvarpið ætti hugsanlega að leggja niður. Mér hefur stundum virst að hv. þm. Brynjar Níelsson til dæmis sé skuggalega nærri þeirri skoðun og ef ég hef rangt fyrir mér þá er ég viss um að hann leiðréttir mig hérna.

Ástæðan fyrir því að þetta er niðurstaðan millum stjórnarflokkanna er auðvitað hrossakaup. Þegar við horfum yfir sögu Sjálfstæðisflokksins — og þetta veit ég að hv. þm. og þingflokksformaður Ragnheiður Ríkharðsdóttir kannast vel við — þá hefur það alltaf verið úrslitakrafa hjá Sjálfstæðisflokknum í öllum stjórnarmyndunum, og ég hef myndað stjórn með Sjálfstæðisflokknum, að komast yfir menntamálaráðuneytið. Ástæðan er ekki síst sú að þeir hafa jafnan talið það mjög mikilvægt til þess að geta haft sem mest tök á Ríkisútvarpinu. Þannig er saga Sjálfstæðisflokksins. Það er hægt að fara yfir hana, þó að ég ætli ekki að gera það í þessari ræðu og sýna fram á það, með því að vísa í söguleg dæmi, hvernig Sjálfstæðisflokkurinn hefur ráðið sitt eigið fólk í lykilstöður, jafnvel undirbúið það vel og stundum jafnvel flæmt fólk vegna skoðana sinna frá Ríkisútvarpinu. (Gripið fram í.) — Jóhann heiti ég Hauksson.

Dæmin eru því miður til staðar. Ef við skoðum sögu lýðveldisins okkar hefur Sjálfstæðisflokkurinn verið í 51 af 69 árum í ríkisstjórn og hann hefur alltaf lagt allt kapp á að komast í menntamálaráðuneytið til að ná pólitískum tökum á Ríkisútvarpinu. Það er akkúrat það sem er að gerast hér núna. Það vill svo til að í þessum þingsal situr nú einn af hinum nýju þingmönnum Sjálfstæðisflokksins sem er ærlegri en margir aðrir í þeim röðum. Hann hefur farið giska langt með að segja þetta hreint út. Hv. þm. Brynjar Níelsson hefur skrifað og sagt nokkuð skýrt að því betra sé Ríkisútvarpið sem færri vinstri menn séu þar starfandi. Hann segir það upphátt sem forusta Sjálfstæðisflokksins hvíslar sín á milli.

Þetta eru hrossakaupin. Sjálfstæðisflokkurinn, við myndun þessarar ríkisstjórnar augljóslega eins og svo oft áður, lagðist á þessa sveifina og hefur fengið Framsóknarflokkinn til að fallast á þessa skipan mála þó að ekki séu liðnir nema röskir þrír mánuðir frá því að Framsóknarflokkurinn fylgdi allt öðru viðhorfi og allt annarri stefnu. Það var kannski fyrst og fremst þetta sem ég vildi bæta við, fyrir utan að segja að þakka ber það sem hefur batnað, að ég væri ánægður með það tillit sem tekið er til starfsmanna. Ef hv. þm. Árni Þór Sigurðsson er eftir alla sína þátttöku í pólitík svo grænn að hann skilji ekki að þetta er málið, þetta er ástæðan, þá er ég hissa á hv. þingmanni. Ef þetta er rangt hjá mér þá veit ég að hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins, ef þeir treysta sér til að mótmæla þessum fullyrðingum mínum, koma hingað og hafna þeim. Ef þeir gera það ekki tel ég að sú þögn sé í reynd yfirlýsing um samþykki á mínu máli. Kemur það svo mönnum eins og hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni eða öðrum í þessum sal á óvart að Framsóknarflokkurinn láti kúga sig í þessu máli? Nei.

Ef við horfum yfir sögu þessa sumarþings og þeirra mála sem hæstv. ríkisstjórn hefur lagt fram blasir það við í hverju málinu á fætur öðru að Framsóknarflokkurinn hefur verið beygður. Framsóknarflokkurinn fór til dæmis ekki fram með nokkru offorsi í veiðigjaldsmálinu sem við höfum rætt hér í nokkra daga. Það er að vísu svo að hingað kom í pontu einn af þingmönnum Framsóknarflokksins og játaði það ærlega að hann liti svo á að hann væri hér staddur sem fulltrúi útgerðarmanna, en ef maður skoðar stefnu Framsóknarflokksins í kosningabaráttunni þá kom þetta hvergi fram. Ef maður rýnir til dæmis ályktanir landsfundar Framsóknarflokksins þá er hvergi að sjá neitt í þeim sem bendir til þess að það sé eitthvert kappsmál hjá Framsóknarflokknum að reyna að lækka veiðigjaldið. En það var kappsmál hjá einum flokki. Það var einn flokkur sem sagði þetta aftur og aftur í kosningabaráttunni, sem í sumum kjördæmum setti lækkun veiðigjalds á oddinn. Það var Sjálfstæðisflokkurinn.

Við getum líka borið saman yfirlýsingar hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra hér á dögunum rétt eftir myndun ríkisstjórnarinnar og efndir þeirra. Hún gaf ansi skýr loforð um hvers eðlis þau frumvörp yrðu sem hún hygðist leggja fram til að taka aftur þær skerðingar sem fyrri ríkisstjórn var nauðbeygð til að ráðast í beint bak efnahagshruninu. Nú, við vissum það og áttum um það orðastað, ég og hv. þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, af hverju það frumvarp kom svo seint fram. Ástæðan var sú ein að Sjálfstæðisflokkurinn lagðist gegn frumvarpinu eins og hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra vildi leggja það fram á sínum tíma. Það var það sem dvaldi orminn langa töluvert lengi í þingflokksherbergi Sjálfstæðisflokksins. Þegar upp var staðið og frumvarpið kom fram kom í ljós að í því fólst minna en helmingurinn sem þurfti til að efna þau loforð sem hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra hafði lagt fram.

Ég styð eigi að síður það frumvarp og finnst það jákvætt, það er þó skref. En loforðið var öðruvísi. Við þekkjum líka hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra af störfum hennar hér í þinginu. Við vitum alveg hversu einörð hún er í því og hversu mikill styrkur er í hennar huga á bak við yfirlýsingar hennar um að bæta kjör aldraðra og öryrkja. En það varð ekki af fullum efndum, sem aftur undirstrikar þá niðurstöðu sem ég lyfti hér áðan að forusta Framsóknarflokksins hafi einfaldlega ekki nægilega styrk hné þegar hún stendur andspænis Sjálfstæðisflokknum. Það er að koma fram munstur hér í hverju málinu á fætur öðru. Hæstv. fjármálaráðherra, formanni Sjálfstæðisflokksins, sem nú er nánast genginn í salinn, tekst einfaldlega að svínbeygja Framsóknarflokkinn í hverju málinu á fætur öðru. Og hvað er það sem Framsóknarflokkurinn fær í staðinn? Jú, hann fær að leggja fram tillögu um sitt helsta kosningamál, skuldaniðurfærslu, þar sem hæstv. fjármálaráðherra leyfir hæstv. forsætisráðherra allra náðarsamlegast að setja á fót nokkrar nefndir. Og hæstv. fjármálaráðherra ætlar svo af sinni miklu miskunn og mildi að leyfa sérfræðingum sínum að skoða þar ákveðnar niðurstöður. En við vitum það hins vegar að hinir ungu Tyrkir — eða við skulum frekar segja með tilliti til aldurs viðkomandi, hinir nýju Tyrkir þingflokks Sjálfstæðismanna, eins og hv. þm. Brynjar Níelsson, hv. þm. Vilhjálmur Bjarnason og nokkrir aðrir, hafa lagst algjörlega þvert gegn þeirri niðurstöðu sem hæstv. forsætisráðherra hefur sagt að hann vilji fá út úr málunum.

Frú forseti. Því segi ég það að skýringin á því að Framsóknarflokkurinn treystir sér ekki til að koma hingað í ræðustólinn og verja það að hann hefur algjörlega skipt um skoðun er sú að hann hefur látið pína sig til hrossakaupa um öll mál nema eitt og það var þingsályktunartillaga hæstv. forsætisráðherra þar sem honum er skammtað ákaflega naumt úr hnefa. Það sem hann fær í staðinn fyrir þetta, að leggjast á hnén fyrir forustu Sjálfstæðisflokksins, er að fá sín mál skoðuð í nokkrum nefndum. Það er ástæðan fyrir skoðanaskiptum Framsóknar í því máli sem við ræðum.

Frú forseti. Ég ætla ekki að hafa þessa ræðu lengri, ég tel að hún sé nú þegar orðin fulllöng fyrir eyru og hlustir hv. þingmanna Framsóknarflokksins. En ég vil taka undir áskorun hv. þm. Árna Þórs Sigurðssonar til þeirra þingmanna Framsóknarflokksins sem hér voru á dögum fyrir kosningar að þeir komi og geri hreint fyrir sínum dyrum. Að þeir geri að minnsta kosti tilraun til að færa einhvers konar vísi að málefnalegum rökum fyrir þeim sinnaskiptum sem hafa orðið á afstöðu þeirra og eru snöggtum dýpri en þau sem Sál varð fyrir þegar hann var leiftri lostinn á leiðinni til Damaskus forðum.



[23:03]
Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Össur Skarphéðinsson vék nokkrum orðum að mér og ræðu minni áðan og ég tel nauðsynlegt að bregðast aðeins við því sem hv. þingmaður sagði. Ég var að gagnrýna að Framsóknarflokkurinn hefði ekki komið og gert grein fyrir sinnaskiptum sínum í málinu og vék einhverjum orðum að þeim hv. þingmönnum Framsóknarflokksins sem voru í salnum sem eru nýir þingmenn. Nú þætti mér gott að hv. þm. Össur Skarphéðinsson hlýddi á mál mitt þannig að hann hefði tækifæri til þess að bregðast við þar sem ég er í andsvari við hv. þingmann. Ég vék nokkrum orðum að Framsóknarflokknum og þeim sem voru í salnum sem voru allt nýir þingmenn og hv. þm. Össur Skarphéðinsson sagði að það ætti að krefja gamla Framsóknarflokkinn svara. Ég lít ekki svo á að Framsóknarflokkurinn á þessu kjörtímabili sé einhver annar en sá sem var hér á síðasta kjörtímabili. Það er ekkert gamli Framsóknarflokkurinn sem var hér á síðasta kjörtímabili, það er að sjálfsögðu sami Framsóknarflokkurinn og hann á að svara fyrir þessi skoðanaskipti sín.

Síðan spurði hv. þingmaður hvort ég gerði mér ekki grein fyrir því að það væri pólitík hjá Sjálfstæðisflokknum að vilja yfirráð yfir Ríkisútvarpinu. Jú, að sjálfsögðu geri ég mér grein fyrir því og hv. þingmaður sagði að það hefði verið markmið hjá Sjálfstæðisflokknum í hverri ríkisstjórn sem hann færi í að fá menntamálaráðuneytið. Það er örugglega alveg rétt en það undrar mig þá að hv. þm. Össur Skarphéðinsson sem í tvígang hefur myndað ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum, 1991 og 2007, skyldi láta Sjálfstæðisflokknum eftir menntamálaráðuneytið þegar hann vissi svo glöggt hver tilgangur þeirra væri með að ná yfirráðum yfir því ráðuneyti.



[23:05]
Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hér er nú hugsanlega að skapast vík á milli vina. Ef það á að ásaka mig fyrir að hafa átt einhvern þátt í því að hafa myndað ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum árið 1991 þá frábið ég mér þess. Hv. þingmaður á að vita það ef hann hefur stúderað söguna að það voru þrír þingmenn í þeim þingflokki, allir nýir, allir með einlægni og heiðarleika í hjarta sem fylgdu sannfæringu sinni og það fóru þrjár hendur á loft í nei-i í þingflokki Alþýðuflokksins þegar lögð var fram tillaga um myndun þeirrar ríkisstjórnar. Ég átti eina þeirra handa. Að öðru leyti tel ég að hv. þingmaður hafi í ræðum sínum horft fullþröngt nær sér og flokki sínum. Það er alveg rétt að einn af hv. þingmönnum Sjálfstæðisflokksins hefur opinberlega orðað það, að minnsta kosti á prenti, að lítil þörf væri á því að fá forseta Bandalags íslenskra listamanna í valnefndina og sá hv. þingmaður kemur nú í gættina. Ég held ekki að það sé ástæðan fyrir þessu frumvarpi heldur að hin almenna ástæða sé sú, ekki að losna við fyrrverandi þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur úr nefndinni heldur að ná hreðjatökum á stjórn Ríkisútvarpsins. Gera það einfaldlega með þessu samkomulagi við Framsóknarflokkinn sem er augljóst, mun að sjálfsögðu skipa fulltrúa sem eru leiðitamir forustu flokkanna beggja. Það var tilgangurinn og ekkert annað.

Að öðru leyti gangast allir menn við syndum sínum, að minnsta kosti þegar þeir eru komnir á minn þingaldur, og ég skal fúslega taka á mig ábyrgðina að hafa samið um ríkisstjórn við Sjálfstæðisflokkinn ásamt þáverandi formanni Samfylkingarinnar árið 2007. Hinu neita ég alfarið.



[23:07]
Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég fagna frá innstu hjartans rótum þessari yfirlýsingu hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar varðandi ríkisstjórnarmyndunina 1991 og tek mjög gott og gilt það sem hann segir í því efni og dreg það að sjálfsögðu ekki í efa. Að því er varðar hvort verið er að líta of þröngu sjónarhorni á þetta mál séð frá mínum flokki tel ég það alls ekki vera. Ég tel reyndar, og get verið sammála þingmanninum í því, að það sé sjálfsagt ekki það sem vakir einkum og sér í lagi fyrir Sjálfstæðisflokknum að hv. fyrrverandi þingmaður, Kolbrún Halldórsdóttir, er formaður Bandalags íslenskra listamanna. Ég held að þetta sé aðeins djúpstæðara en svo hjá Sjálfstæðisflokknum. Ég vakti máls á því sem hv. þm. Brynjar Níelsson skrifaði í grein sinni vegna þess að mér fannst það vera ómakleg aðför að þeim hv. fyrrverandi þingmanni og vildi gera athugasemd við það. Ég hvatti hv. þm. Brynjar Níelsson til þess að biðjast afsökunar á þeim ummælum sínum og ég vona að hann geri það í ræðu í þessu máli.



[23:08]
Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að hv. þm. Árni Þór Sigurðsson þurfi ekki að hafa miklar áhyggjur af hv. þingfélaga sínum og þingbróður, Brynjari Níelssyni. Mér sýnist að Sjálfstæðisflokkurinn sé búinn að taka hann sömu tökum og Framsóknarflokkurinn hæstv. sjávarútvegs-, landbúnaðar- og umhverfisráðherra. Það er búið að líma fyrir munninn á þeim ágæta manni. Hann er hættur að tjá sig með þeim skýra og skelegga hætti sem ég og fleiri höfðum gaman af.

En það má þó segja um hv. þm. Brynjar Níelsson að þegar hann á annað borð treystir sér til að fara gegn forustu flokksins og segja það sem í hjarta hans býr er hann miklu ærlegri en forustan sjálf. Hv. þingmaður segir hreint út að hann telji að Ríkisútvarpið batni eftir því sem vinstri mönnum fækki þar. Það vill svo til að ég er þveröfugrar skoðunar. Hann þorir að segja þetta. Sjálfstæðisflokkurinn upp til hópa hugsar það og hvíslar því sín á milli. Þetta er ærlegt viðhorf, en það er rangt og það er ómálefnalegt, ég er á móti því. Ég segi það hins vegar, frú forseti, að margur útvarpsmaðurinn sem er fullhallur að sumra smekk undir Sjálfstæðisflokkinn skilar eigi að síður fínu starfi og ég treysti öllum mönnum til góðra verka á meðan þeir eru ráðnir á faglegum forsendum.

Ég var að reyna að sýna hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni fram á, sem mér finnst fullglámskyggn á fortíðina og jafnvel of auðtrúa á stundum, með dæmum að Sjálfstæðisflokkurinn bæði hrekur úr starfi fjölmiðlamenn sem honum finnast óþægir í taumi og reynir að koma í veg fyrir að slíkt fólk nái fótfestu þar, eins og sagan sýnir, með því að ráða menn sem, eins og var orðað hér í fyrri umræðu, eru í lagi. Og hverjir eru í lagi? Jú, menn eru í lagi ef þeir hafa flokksskírteini frá Sjálfstæðisflokknum og fullkomnir ef þeir hafa líka unnið í Valhöll. Þetta sýnir sagan.



[23:10]
Brynjar Níelsson (S):

Hæstv. forseti. Ég varð auðvitað að koma í ræðustól vegna þess að menn beindu mjög mikið orðum að mér og kannski mest til umræðu og þess sem ég sagði þar, sem skipti að vísu engu máli í umræðunni á sínum tíma. Aðalatriðið í umræðunni er, og ég fjallaði um það í ræðu minni um þetta frumvarp fyrir nokkrum dögum, að ég tel hugmyndir um að Alþingi komi sem minnst að eða pólitíkin komi sem minnst að Ríkisútvarpinu vera í andstöðu við grundvallarreglur um ábyrgð. Hverjir bera ábyrgð á stofnunum? Það eru auðvitað eigendur og þeir sem bera ábyrgð samkvæmt stjórnarskránni. Um það var ég að fjalla. Ég lét að vísu flakka í leiðinni, í aukasetningu, af því að ræðumenn stjórnarandstöðuflokkanna voru sífellt að ýja að því að Sjálfstæðisflokkurinn væri hér að reyna að koma mönnum sínum að, að ég teldi að auðvitað væri betra að ekki væru of margir vinstri menn í RÚV. Það á svo sem við um allar stofnanir og samfélagið í heild sinni, að ekki séu of margir vinstri menn þar, ráði miklu. Þetta er bara skoðun manna okkar og það þarf ekkert að fela hana, enda sagðist hv. þm. Össur Skarphéðinsson vera á fullkomlega öndverðum meiði og þá má túlka það þannig að hann vilji helst hafa sem fæsta hægri menn. (Gripið fram í.)

Umræðan á auðvitað að snúast um hvaða fyrirkomulag á að vera á ríkisfyrirtækjum og stofnunum. Þetta snýst um það. Hér hefur öll umræðan þvælst út í það að Sjálfstæðisflokkurinn ætli að fara að setja flokksgæðinga sína inn. Hvaða ástæðu höfum við til þess að ætla það? Hvernig var þetta síðast þegar skipað var eftir gildandi lögum? Hvern tilnefndi Sjálfstæðisflokkurinn? Var það flokksgæðingur? Nei, það var fagmaður. En hverja tilnefndu stjórnarandstöðuflokkarnir, sem núna eru í stjórnarandstöðu? (Gripið fram í.) Það var Björg Eva Erlendsdóttir, ritstjóri málgagns VG sem hv. þm. Árni Þór Sigurðsson taldi vera nánast ótengda flokknum og hinn stjórnarandstöðuflokkurinn, Samfylkingin, var það ekki Margrét Frímannsdóttir, fyrrverandi formaður flokksins? (Gripið fram í: Nei. ) Eða einhvern tíma. (Gripið fram í: Ekki í Samfylkingunni.)Jæja forvera, og var í Samfylkingunni. Um hvað eru menn að tala hér? Um að Sjálfstæðisflokkurinn sé að koma flokksgæðingum sínum inn?

Þetta eru allt einhver öfugmæli. Það skiptir menntamálaráðherra auðvitað máli, það skiptir Alþingi máli að það veljist gott fólk til að stjórna RÚV. Fólk sem hefur þekkingu og reynslu, ekki einhverjir flokksgæðingar. Það er engu meiri trygging fyrir því að svo verði fari tilnefningar eitthvað út í bæ, ef aðrir sjá um þetta, vegna þess að auðvitað er það ráðherra og Alþingi sem á endanum bera ábyrgð á þessu, ekki Bandalag íslenskra listamanna. Það mun aldrei bera ábyrgð á einu né neinu í þessu. Þetta er grundvallaratriðið. Þess vegna vil ég sjálfur að þeir sem bera ábyrgð samkvæmt stjórnarskránni á stofnunum ríkisins ráði og skipi í stjórnir. Þetta er grundvallaratriðið en öll umræðan snýst um að hér eigi að fara að troða einhverjum flokksgæðingum Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks í stjórn RÚV. Það hefur aldrei staðið til og við höfum enga ástæðu til þess að ætla það, að minnsta kosti ekki miðað við síðustu skipun. Ég hefði miklu meiri áhyggjur af stjórnarandstöðuflokkunum í því.

Svo veltir maður fyrir sér: Af hverju Bandalag íslenskra listamanna? Af hverju ekki Íþróttasamband Íslands? Íþróttir eru sennilega vinsælasta efnið. Af hverju ekki Landsbjörg? Er ekki RÚV svo mikið öryggistæki? Eða Blaðamannafélagið? Ég er fullur tortryggni gagnvart þessu fyrirkomulagi. Hver var forseti og er forseti Bandalags íslenskra listamanna? Er það ekki Kolbrún Halldórsdóttir, fyrrverandi þingmaður flokksins? Af hverju erum við í Sjálfstæðisflokknum alltaf sökudólgarnir? Samsæriskenningarnar eru alltaf um okkur. Ég get alveg búið til svona samsæriskenningar.

Ég get sagt hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni að ég hef ekki talið það forgangsverkefni eða sérstakt áhugamál mitt að leggja niður RÚV. Hins vegar verður að taka umræðu um stofnunina, þetta fyrirtæki eins og öll önnur sem kosta skattborgarana marga milljarða á hverju ári. Það er auðvitað ekkert sjálfgefið að 320 þús. manna þjóð eyði 4–5 milljörðum í að halda uppi ríkisútvarpi. Stór hluti af þjónustunni er það sem aðrir sinna og hafa sinnt með ágætum. Við hljótum að geta tekið umræðuna án þess að hún fari alltaf í þessar skotgrafir um að Sjálfstæðisflokkurinn sé í einhverjum pólitískum skotgröfum, Sjálfstæðisflokkurinn sé að reyna að knésetja RÚV, Sjálfstæðisflokkurinn vilji hafa yfirráð yfir RÚV. Ég hef aldrei upplifað að Sjálfstæðisflokkurinn hafi yfirráð yfir RÚV og ég hef heldur aldrei upplifað að fréttaflutningur eða dagskrárgerð sé sérstaklega til hagsbóta fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Ég hef aldrei upplifað það og hef enga ástæðu til að ætla að Sjálfstæðisflokkurinn fari að beita sér með þeim hætti hér eftir frekar en áður.

Af því að hv. þm. Árni Þór Sigurðsson taldi rétt að ég bæði Kolbrúnu Halldórsdóttur afsökunar þá var ég var ekki að veitast að Kolbrúnu Halldórsdóttur í þessum pistli, ég var að veitast að stjórnarandstöðuflokkunum. (ÖS: Þú getur beðið þá afsökunar.) Nei, ég ætla ekki að gera það. Ég sé enga ástæðu til þess. Ég er bara að benda á að pólitíkin getur alveg verið jafn mikil og fagmennskan minni, eða ekki meiri, þó að einhverjir aðilar úti í bæ fari að tilnefna í stjórn RÚV. Ég hef ekkert, enga ábyrgð eða garantí fyrir því að svo verði ekki. Ég vil ítreka að það er mikilvægt í mínum huga að þeir sem eiga og bera ábyrgðina skipi í stjórnina. Ef ég ætla að fara að víkja frá því verð ég að hafa góða tryggingu fyrir því að það sé örugglega fagmennska en ekki pólitík sem ráði en ég hef enga tilfinningu fyrir því í fyrirkomulaginu sem núna er.



[23:19]
Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Brynjar Níelsson hefur það þó fram yfir Framsóknarflokkinn að hann þorir að koma og skýra mál sitt. Það hefur Framsóknarflokkurinn, að minnsta kosti þeir hv. þingmenn sem stóðu að fyrri ákvörðun og hafa algjörlega skipt um skoðun, ekki lagt í. Þegar hv. þm. Brynjar Níelsson segir að engin dæmi séu um að Sjálfstæðisflokkurinn hafi verið að hringla í starfsmönnum Ríkisútvarpsins, ef hann er að halda því fram að Sjálfstæðisflokkurinn hafi aldrei drepið fingri þar á menn eða reynt að koma mönnum þaðan út þá þekkir hann ekki sögu síns flokks. Það hafa þegar verið nefnd dæmi um það hér í þessum umræðum þannig að ég vísa því algjörlega á bug.

Það er akkúrat þetta viðhorf sem ég óttast sem kom algjörlega berlega og af fullkominni hreinskilni fram hjá hv. þingmanni. Hann sagði mjög skýrt að Ríkisútvarpið væri því betra sem þar væru færri vinstri menn. Hvað þýðir það ef allir þeir sem koma að skipan í stjórn Ríkisútvarpsins og þeir fulltrúar sem verða þar að lokum eru sömu skoðunar? Það þýðir einfaldlega að mjög líklegt er að reynt verði að láta þetta viðhorf hafa áhrif á starfsmannaráðningar. Þannig var það í fortíðinni og það sem við óttumst, að minnsta kosti ég sem hér stend, að geti gerst er að það taki sig upp aftur.

Síðan, án þess að ég ætli að fara að draga nafngreinda einstaklinga inn í þessa umræðu, vil ég segja að sá ágæti einstaklingur sem hv. þingmaður nefndi til sögunnar sem dæmi um einhvern sérstakan botnlanga úr VG hefur það umfram marga aðra að vera þaulreyndur fjölmiðlamaður, viðurkennd sem slíkur og ég minnist þess ekki að menn hafi nokkurn tímann borið fram neinar ásakanir um að (Forseti hringir.) pólitískar skoðanir hafi haft áhrif á störf viðkomandi. (Forseti hringir.) Frú forseti. (Forseti hringir.) Ég vil svo gjarnan koma hér á eftir til þess að svara hver munurinn sé á Íþróttasambandinu og Bandalagi íslenskra listamanna sem stjórnanda á Ríkisútvarpinu.



[23:22]
Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er ekkert að halda því fram að fulltrúar stjórnarandstöðuflokkanna í RÚV séu ekki fagmenn eða séu í einhverri pólitík. Ég mótmæli því hins vegar að Sjálfstæðisflokkurinn sé eitthvað í slíku eða hafi verið. Ég veit ekki til þess og þekki náttúrlega ekki sögu RÚV langt aftur en ég hef enga ástæðu til þess að ætla að tilnefningar sjálfstæðismanna séu ófaglegri eða pólitískari en tilnefningar stjórnarandstöðuflokkanna. Umræðan fer alltaf í þann farveg og ég nenni varla að ræða málið lengur í þeim farvegi en ítreka það prinsippatriði að þeir sem eiga og bera ábyrgð skipi stjórnina og reyni að gera það eins vel og þeir geta. Það er mikilvægt fyrir þá sömu aðila sem bera ábyrgðina að vel takist til í því. Flóknara er það ekki.



[23:23]
Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður segir, sem er örugglega rétt hjá honum, að hann þekki ekki sögu Sjálfstæðisflokksins langt aftur í tímann. Ef hann skortir einhverjar upplýsingar um hana er honum algjörlega velkomið að koma til mín. Ég þekki hana. En hv. þingmaður þarf ekkert að þekkja söguna mjög langt aftur í tímann. Einn af þeim mönnum sem hann hefur borið virðingu fyrir og dáð sem hugmyndaríkan einstakling innan vébanda Sjálfstæðisflokksins skrifaði grein upp úr áramótum sem birtist á vefmiðli. Þar var það einfaldlega sagt blákalt að Sjálfstæðisflokkurinn væri sennilega á leið í ríkisstjórn og hann þyrfti að skoða hverjum ætti að koma fyrir og út úr ríkisgeiranum. Sá ágæti maður er reyndasti fjölmiðlamaður Sjálfstæðisflokksins, Styrmir Gunnarsson. Hann skrifaði þetta svona. Þetta er viðhorfið.

Frú forseti. Mér þykir allt benda til þess að ég þurfi að taka ræðu hér um muninn á Íþróttasambandinu og Bandalagi íslenskra listamanna.



[23:24]
Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil benda hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni á að Styrmir Gunnarsson er ekki á mínum vegum og ég hafði aldrei starfað í Sjálfstæðisflokknum áður en ég fór í framboð og þekki ekki sjónarmið hans og hef raunverulega engan áhuga á þeim. Ég er bara að benda á þessi atriði, við erum að taka ákvörðun um hvað skal gera og ég er einfaldlega að benda á sjónarmið mín í málinu. Ég ætla ekki að taka ábyrgð á Styrmi Gunnarssyni, ekki á Davíð Oddssyni eða neinum sem eru á sálinni á ykkur meira og minna allt árið. Þeir eru ekki á mínum vegum, ég tek ekki ábyrgð á þeim. Ég er bara að segja mína skoðun. Hún er þessi. Ég færi rök fyrir henni og ég hef enga ástæðu til þess að ætla að Sjálfstæðisflokkurinn fari að standa (Forseti hringir.) í einhverju pólitísku makki og afskiptum af málefnum RÚV.



[23:26]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er tvennt sem mig langar til að gera athugasemdir við eða undrast í málflutningi hv. þm. Brynjars Níelssonar. Það fyrra sem kom fram varðar ábyrgð eða ábyrgðarleysi stjórnarmanna eftir því hvort þeir eru tilnefndir af eiganda viðkomandi opinbers fyrirtækis eða faglega tilnefndir, t.d. af samtökum. Ég undrast að heyra hæstaréttarlögmanninn taka svona til orða, eða í hverju liggur munurinn á ábyrgð stjórnarmanns í hlutafélagi eða opinberu hlutafélagi að lögum út frá því hvort hann er tilnefndur af þessum eða hinum? Er það ekki þannig að stjórnarmenn í hlutafélögum bera ábyrgð? Þeir hafa skyldur og lögin ramma það af óháð því hver tilnefndi þá og óháð því hverjir eru í sjálfu sér eigendur að viðkomandi stofnun eða fyrirtæki.

Hv. þingmaður tók beinlínis þannig til orða að ef í stjórn Ríkisútvarpsins sæti fulltrúi tilnefndur af Bandalagi íslenskra listamanna mundi hann aldrei bera ábyrgð á einu eða neinu. Ég held að hv. þingmaður sé þarna aðeins að gleyma tilteknum lögum sem heita lög um hlutafélög því að þau gilda um Ríkisútvarpið að því marki sem það er þá ekki sérstakt sem opinbert hlutafélag. Í öðru lagi finnst manni auðvitað óviðurkvæmilegt að heyra hv. þingmann tala aftur og aftur með þessum hætti, t.d. um formann Bandalags íslenskra listamanna sem er þarna á þess vegum og nafngreina hana og draga fram að hún eigi sér í fyrri störfum pólitískan feril að baki.

Það skýrir auðvitað margt sem kom fram í svari hv. þingmanns við andsvari að hann er nýr í Sjálfstæðisflokknum, hann þekkir ekki sögu flokksins, hann er bláeygur og veit ekkert um það hvernig Sjálfstæðisflokkurinn hefur umgengist þessa hluti á liðnum tímum. Frægar eru náttúrlega sögurnar, bæði af mannaráðningum þarna inn og af öðrum sem voru hraktir þaðan út. Eru menn búnir að gleyma Hrafni Gunnlaugssyni, Jóhanni Haukssyni? En (Forseti hringir.) hv. þingmaður þarf ekki aftur í söguna. Glænýtt dæmi um það hvernig Sjálfstæðisflokkurinn stendur að málum er skipan (Forseti hringir.) menntamálaráðherra í stjórn LÍN.



[23:28]
Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er ekki viss um að fulltrúar VG ættu að tala mikið um mannaráðningar eins og þeir hafa hagað sér hér undanfarin ár. Ég er ekki viss um að það sé við hæfi í sjálfu sér en það er önnur umræða.

Varðandi ábyrgð. Auðvitað er mér alveg kunnugt um að þeir sem eru skipaðir í stjórn bera ábyrgð samkvæmt hlutafélagalögum. Hins vegar ber ráðherra ábyrgð á málaflokknum. Það breytir engu í þessu. Ráðherra ber ábyrgð. Sá sem tilnefnir í stjórnina, Bandalag íslenskra listamanna, ber enga ábyrgð. Það er þetta sem ég er að finna að. Bandalag íslenskra listamanna er algjörlega ábyrgðarlaust. Af hverju á Bandalag íslenskra listamanna, eða einhver önnur samtök, að tilnefna menn í stjórn eða valnefnd til að skipa stjórn. Af hverju? Því hefur enginn getað svarað. (Gripið fram í.) Ég er ekkert að tala illa um formann Bandalags íslenskra listamanna. Ég er að tala illa um stjórnarandstöðuflokkana vegna þess að þeir láta þetta líta út eins og það sé allt ægilega faglegt og ópólitískt. Það er auðvitað ekkert ópólitískt. Það er ekkert ópólitískt við fyrrverandi þingmenn VG eða annarra flokka. Það er bein tenging þó að þeir hafi látið af störfum.

Það er heldur ekkert ópólitískt við það þótt menn telji Björgu Evu Erlendsdóttur mjög mikinn fagmann, (Forseti hringir.) sem ég efast ekkert um. Hún er samt framkvæmdastjóri fyrir norræna vinstri græna (Forseti hringir.) eða vinstri flokkana og hún var ritstjóri málgagns vinstri grænna. (Gripið fram í.)



[23:30]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er nú í mikið lagt að fara í rökræður við hv. þingmann og hæstaréttarlögmanninn um ábyrgð en það er auðvitað rétt að ráðherra fer með þennan málaflokk og ber yfirábyrgð á honum sem slíkum. Við berum að sjálfsögðu öll ábyrgð hér sem þingmenn og fjárstjórnarvald og eftirlitsaðili með framkvæmdarvaldinu á þinginu þegar um opinber málefni er að ræða, en sú ábyrgð ryður ekki ábyrgð stjórnarmanna í hlutafélögum eða opinberum hlutafélögum á grundvelli hlutafélagalaga, ráðherraábyrgðin fer ekki þangað niður. Það má ekki heldur. Það er ekki þannig sem mér finnst glitta í í þessari hugsun að ráðherrann þurfi að geta farið niður í stjórnina á grundvelli handvaldra manna til þess að hafa áhrif á það sem á að ráðast á þeim vettvangi, eða er hv. þingmaður þeirrar skoðunar að ábyrgðin eigi að ganga þangað? Á ráðherrann að kalla stjórnarmenn á teppið og segja þeim fyrir verkum? Þá er ég harkalega ósammála (Forseti hringir.) hv. þingmanni og held að hann sé kominn út í mýri.



[23:31]
Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég var ekki að tala um að ráðherra ætti að kalla menn á teppið. Ég er að tala um, alveg eins og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon segir, að ábyrgðin sem nefnd var yfirábyrgðin eða aðalábyrgðin er á ráðherra. Ef ég ber ábyrgð sem ráðherra vil ég ráða því hverjir stjórna í mínu umboði eða hverjir stjórna því fyrirtæki sem ég ber ábyrgð á. Það er eðlilegt. Þannig gerir stjórnarskráin ráð fyrir því og þannig á það að vera. En að fara að koma þeim hlutum yfir á hvort sem það heitir Bandalag íslenskra listamanna eða eitthvað annað, einhver félagsskapur úti í bæ eins og ég nefndi áður, sem hefur enga ábyrgð þótt stjórnarmenn sem slíkir beri ábyrgð á störfum sínum í stjórninni, það er þetta sem ég er að tala um. Það á ekki að vefjast fyrir nokkrum. Þannig er þetta (Forseti hringir.) og var í öllum stofnunum ríkisins og á að vera áfram.



[23:33]
Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hlýt að koma hér upp vegna ræðu hv. þingmanns út af tvennu. Hann telur sig ekki vera að veitast með nokkru móti að forseta Bandalags íslenskra listamanna, konu sem sat vissulega einu sinni á þingi fyrir Vinstri hreyfinguna – grænt framboð en hefur svo farið að sinna öðrum málum og ekki komið að flokksstarfi síðan hún fór af þingi fyrir fjórum árum. Hún veitir forstöðu fjögur þúsund manna frjálsum félagasamtökum sem koma Vinstri hreyfingunni – grænu framboði ekkert sérstaklega við. Hv. þingmaður skrifaði pistil á vefmiðilinn Pressuna þar sem hann segir, með leyfi forseta, að lögunum hafi verið breytt í tíð síðustu stjórnar til að fá hina „ópólitísku“, innan gæsalappa hjá hv. þingmanni, Kolbrúnu Halldórsdóttur í stjórn Ríkisútvarpsins. Kolbrún Halldórsdóttir situr ekki í stjórn Ríkisútvarpsins heldur er hún tilnefnd sem kvenfulltrúi Bandalags íslenskra listamanna, það er líka tilnefndur karlmaður, í valnefnd þar sem ætlunin er að valnefnd með fulltrúum frá Bandalagi íslenskra listamanna og Samstarfsnefnd háskólastigsins, fyrir utan fulltrúa þingsins sem hefur margoft komið fram, komi sér saman um fimm manns í stjórn.

Í anda sáttastjórnmála hv. ríkisstjórnar, þeirrar sem hv. þingmaður styður væntanlega, er valnefndin til að koma sér saman um fimm aðila í stjórn sem ráðherra átti líka að skipa formann í, af því að hv. þingmanni er svo umhugað um ábyrgðina. Mér finnst dálítið sérkennilegt eftir að hafa lesið þessi skrif þar sem er auðvitað farið rangt með og því haldið fram að Kolbrún Halldórsdóttir hafi verið sett í stjórn Ríkisútvarpsins að hv. þingmaður hefur ekki leitast við að leiðrétta það í máli sínu og leitast ekki við að leiðrétta það í þeirri ræðu sem hann kemur upp í. Mér finnst það ábyrgðarhluti hjá hv. þingmanni (Forseti hringir.) að hann komi hér upp og svari fyrir það hvort hann telji sig hafa farið rétt með í þessari grein og í ræðu sinni (Forseti hringir.) og útskýri það ef svo er ekki.



[23:35]
Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er búinn að leiðrétta það við Kolbrúnu Halldórsdóttur sjálfa, þau mistök að segja að hún hafi verið í stjórn í staðinn fyrir valnefnd. Það er bara formsatriði (KJak: Þetta eru bara staðreyndir málsins.) Já, já, en þetta er ekki það sem umræðan eða pistillinn snerist um. Hann snerist um að samtök sem eru ábyrgðarlaus í sjálfu sér stjórni því hverjir verði skipaðir í stjórn. Ég verð að viðurkenna að ég tel að það væri í andstöðu við íslensku stjórnarskrána. Ég tel óeðlilegt í alla staði að verið sé að framselja vald með þessum hætti til félagasamtaka, hvaða nafni sem þau nefnast, þótt það hefði verið Íþróttasamband Íslands, Blaðamannafélagið eða Landsbjörg, mér er alveg sama. (Gripið fram í.) Ja, kannski ætti að skoða það aðeins betur. Ég er bara að segja að ég hef ekki mikinn húmor fyrir því að verið sé að færa vald með þessum hætti vegna þess að ábyrgðin verður þá óljósari og erfiðara fyrir þann sem ber auðvitað ábyrgð á endanum, ráðherrann, að bera hana ef hann hefur ekkert eða lítið um það að segja hverjir stjórna þessari stofnun eða fyrirtæki.



[23:36]
Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef ekki mikinn húmor fyrir því að farið sé rangt með staðreyndir eins og hv. þingmaður gerir í pistlinum sem ég vitnaði til áðan, sem er fjórar málsgreinar og þar af þrjár sem snúast um pólitíska skipan í stjórn Ríkisútvarpsins. Það er mjög jákvætt að hv. þingmaður hafi leiðrétt misskilning sinn við Kolbrúnu Halldórsdóttur en mér fyndist eðlilegt að hv. þingmaður leiðrétti misskilning sinn á opinberum vettvangi, til að mynda með því að breyta pistlinum sínum, en það er gott að hann hafi gert það nú þegar í þingræðu.

Svo vil ég líka segja, og nota þá tækifærið, að mér finnst mjög merkilegt að sá skilningur sé uppi hjá hv. þingmanni að um Ríkisútvarpið, sem er almannaútvarp okkar, gildi endilega sömu reglur og viðmiðun og almennt gerist um ríkisstofnanir í ljósi þess að það er almannafjölmiðill og mjög mikilvægt með öllum lögum og reglum að sjálfstæði hans sé óháð hinu pólitíska valdi, þótt hv. þingmaður telji raunar að sjálfstæðismenn skipi ekki (Forseti hringir.) sína flokksmenn eins og honum þykir væntanlega ný skipan stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna sanna.



[23:38]
Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er ekkert að tala um Lánasjóð íslenskra námsmanna. Ég er að tala um hvernig var skipað hér í stjórn RÚV síðast. Eigum við að rifja það upp, hv. þm. Katrín Jakobsdóttir, hvernig skipunin fór fram þar? Ég var að tala um það áðan og þó eru þeir sem skipaðir voru í stjórn RÚV af stjórnarandstöðuflokkunum núna miklu tengdari flokknum en nokkurn tímann þeir sem hæstv. menntamálaráðherra skipaði í stjórn LÍN, ef við eigum að fara að velta því fyrir okkur.

Í pistlinum er ein villa, að vísu tók hv. þm. Árni Þór sömu villuna upp í ræðunni fyrr í kvöld, og hún snýr að því Kolbrún hafi verið tilnefnd í stjórn en hún var tilnefnd í valnefndina. Þetta var einfaldur misskilningur sem hins vegar skiptir engu máli í þessari umræðu. Umræðan snýst um annað. Hún snýst um fyrirkomulagið, hvernig það á að vera. (Forseti hringir.) Af því að þetta er almannafélag og þá eigi að fela einhverjum allt öðrum en stjórnvöldum, sem bera ábyrgðina, (Forseti hringir.) að skipa í stjórnina er bara öfugsnúið. Það skiptir engu máli þótt þetta sé almannaútvarp, það verður hvorki ópólitískara (Forseti hringir.) né faglegra við það.



[23:39]
Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa langt mál í þessari ræðu við 3. umr. um þetta frumvarp. Þó hlýt ég að koma hingað upp — eftir þau tækifæri sem gefist hafa við 1., 2. og 3. umr. þessa frumvarps, um breytta tilhögun við það hvernig valið er í stjórn Ríkisútvarpsins — í 3. umr. og lýsa undrun minni yfir því að ekkert hafi heyrst frá hv. þingmönnum Framsóknarflokksins sem þó eru nokkrir í þessum sal. Þeir hafa enn ekki kosið að tjá sig í málinu, hafa enn ekki skýrt mál sitt. Auðvitað er ekki við hina nýju þingmenn þess ágæta flokks að sakast. En hæstv. utanríkisráðherra Gunnar Bragi Sveinsson, hæstv. félagsmálaráðherra Eygló Harðardóttir, sem sat í allsherjar- og menntamálanefnd síðasta þings, og hv. þm. Ásmund Einar Daðason — þau sátu hér öll á síðasta þingi ásamt fleiri þingmönnum Framsóknarflokksins og greiddu atkvæði með frumvarpinu sem varð að lögum fyrir fjórum mánuðum.

Ég hlýt að undrast það að þessir hv. þingmenn og hæstv. ráðherrar komi ekki hingað upp og útskýri sinnaskiptin. Hv. þingmenn sem þá voru, sem héldu ræður þegar við ræddum heildarlögin um Ríkisútvarpið, ræddu nauðsyn þess að endurskoða fyrirkomulagið. Talsmönnum Framsóknarflokksins varð tíðrætt um það í málinu, það man ég vel því að ég sat hér allar umræður um frumvarpið og hlustaði vel og fylgdist með. Það var markmið mitt og það var markmið þeirra sem stýrðu þá hv. allsherjar- og menntamálanefnd að reyna að ná sátt um málið.

Það var þess vegna sem miklar breytingar voru gerðar við vinnslu á málinu. Bæði þegar það var lagt hér fyrst fram, ekki á síðasta þingi heldur þarsíðasta, og svo aftur á því síðasta. Þær breytingar miðuðust meðal annars við að koma til móts við sjónarmið hv. þingmanna Framsóknarflokksins sem höfðu mikinn áhuga á því, svo að ég vitni til þeirra umræðna sem urðu á þinginu, að styrkja sjálfstæði Ríkisútvarpsins. Ég hlustaði á fyrrverandi þingmenn Siv Friðleifsdóttur og Eygló Harðardóttur, sem nú er hæstv. ráðherra, ræða nauðsyn þess að tryggja sjálfstæði Ríkisútvarpsins, meðal annars með því að tryggja hinn sjálfstæða tekjustofn, útvarpsgjaldið, sem samþykkt var í frumvarpinu, og líka með því að endurskoða allt þetta fyrirkomulag og færa Ríkisútvarpið fjær hinu pólitíska valdi.

Nú kann að vera að hv. þingmenn Framsóknarflokksins, sem hér sátu á síðasta þingi, hafi skipt algjörlega um skoðun og það kann að vera að þeir hv. þingmenn Framsóknarflokksins sem eru nýir á þingi hafi tekið afstöðu og séu ósammála þeirri afstöðu sem þingmenn flokksins tóku á síðasta þingi. En mér er það með öllu óskiljanlegt að sá flokkur sem veitir ríkisstjórninni forstöðu, sá flokkur sem leiðir ríkisstjórnina, sá flokkur sem vann hvað stærstan kosningasigur í síðustu kosningum — að enginn fulltrúi þess flokks hafi komið upp í umræðum um grundvallarbreytingar á því hvernig valið er í stjórn Ríkisútvarpsins. Ekki er tekið tillit til þess að þegar síðustu lög voru samþykkt fyrir fjórum mánuðum var um heildarendurskoðun að ræða og hlutverki stjórnar var breytt. Eins og ítrekað hefur komið fram í umræðum miðaðist hlutverk stjórnar í gömlu löggjöfinni um RÚV við meiri háttar rekstrarlegar ákvarðanir eins og það var orðað þá.

Þetta hlutverk var endurskoðað enda þótti það óskýrt og hlutverk stjórnar og ábyrgð þótti óskýr og því var farið í að endurskilgreina hlutverk stjórnar. Þannig að nú má segja að stjórn Ríkisútvarpsins fari með ábyrgð sem er líkari því sem tíðkast í opinberum hlutafélögum, fari bara með eðlilega ábyrgð stjórnar. Sú ábyrgð á ekki eingöngu við um meiri háttar rekstrarlegar ákvarðanir heldur til að mynda mótun dagskrárstefnu og annað. Hluti af því að útvíkka starfssvið stjórnar var að breyta skipan hennar. Hér hefur umræðan því miður farið út í þær ógöngur að menn hafa verið að benda á pólitískar tengingar, fólk sem kemur inn í valnefnd, eins og gerðist áðan, í gegnum heildarsamtök listamanna, sem mér finnst ósmekklegt.

Mér finnst það mjög ósmekkleg tenging þegar búið er að útskýra það margoft í umræðunni að hugsunin á bak við þessa breytingu var að stjórn Ríkisútvarpsins væri skipuð á breiðari grunni, að þar hefði Alþingi mjög mikilvægu hlutverki að gegna, þar hefði hæstv. menntamálaráðherra hlutverki að gegna, þar hefðu starfsmenn hlutverki að gegna og sótt væri til þeirra sem hvað best þekkja annars vegar menningarumhverfið á Íslandi og hins vegar til þeirra sem best eru bærir til að meta lýðræðishlutverkið, sem við getum kallað svo. Því að menningarhlutverkið og lýðræðishlutverk Ríkisútvarpsins eru þau tvö hlutverk sem skýrast eru afmörkuð í lögunum um Ríkisútvarpið. Þess vegna er fráleitt þegar hv. þingmenn á borð við hv. þm. Brynjar Níelsson, sem hér talaði á undan, spyr af hverju ekki bara þessi samtök eða hin þegar margoft er búið að rökstyðja það hér í ræðum, ekki bara við þessa umræðu heldur líka þegar heildarlögin voru samþykkt, af hverju nákvæmlega þessir aðilar urðu fyrir valinu til að koma að valnefnd, ekki stjórn heldur valnefnd, sem átti að velja saman fimm einstaklinga sem færðu þar fram ólíkt hæfi, ólíka eiginleika, til að mynda sem besta stjórn fyrir almannaþjónustumiðilinn sem við viljum væntanlega að fái sem mestan veg.

Þetta er sú umræða sem við höfum átt hér. Þingmenn minnar hreyfingar hafa talað nokkuð, þingmenn Samfylkingar hafa talað nokkuð, þingmenn Sjálfstæðisflokks hafa talað nokkuð, í þessu máli og það er ekkert skrýtið, skoðanir eru ólíkar. En ég spyr: Af hverju heyrum við ekkert frá þingmönnum Framsóknarflokksins og af hverju fáum við ekki skýringar á þessari breyttu afstöðu? Á almenningur í landinu ekki rétt á því að vita af hverju hæstv. ráðherrar hafa skipt um skoðun og hv. þingmenn? Af hverju hinir nýju þingmenn Framsóknarflokksins hafa ekki sömu skoðun og þingflokkur Framsóknarflokksins hafði á síðasta kjörtímabili? Ætlar Framsóknarflokkurinn ekkert að útskýra afstöðu sína í þessu máli sem kemur líklega til afgreiðslu á morgun?

Mér finnst það ábyrgðarhluti hjá virðulegum forseta þingsins að þetta mál gangi hér fram og að ítrekað hafi verið kallað eftir afstöðu annars stjórnarflokksins í málinu, útskýringum — ja, nema hv. þingmenn Framsóknarflokksins ætli ekki að styðja málið, ég kann ekki að útskýra það — á þessari breyttu afstöðu. Mér finnst það mjög merkilegt að enginn hv. þingmaður Framsóknarflokksins hafi treyst sér til að koma hingað upp og útskýra afstöðubreytinguna. Ég velti því fyrir mér hvort það sé af því að hún sé á veikum grunni byggð því að hægt er að draga af þessu nokkrar ályktanir. Það er auðvitað hægt að draga þá ályktun, af því að við höfum ekkert heyrt frá flokknum, að hann styðji ekki málið en þó skrifar hann undir nefndarálit sem virðist benda til þess að hann styðji það.

Ég velti því fyrir mér hvað veldur. Eru hv. þingmenn Framsóknarflokksins kannski ekkert sérstaklega ánægðir með málið en ætla að láta sig hafa það að styðja mál samstarfsflokksins eftir að hafa lagt í það margra mánaða vinnu á síðasta þingi að liggja yfir lögunum um Ríkisútvarpið þannig að hlutverk þess væri sem best skilgreint, þannig að hlutverk stjórnar væri sem best skilgreint og þannig að lýðræðis- og menningarhlutverkið væri sem best skilgreint. Hv. þingmenn Framsóknarflokksins tóku fullan þátt í þeirri vinnu. Þeir byggðu afstöðu sína á ígrunduðu máli og gerðu ígrundaða grein fyrir henni og mér er það óskiljanlegt af hverju við fáum ekki að heyra ástæðuna fyrir þessari afstöðubreytingu, hvort það er hreinlega vegna þess að hv. þingmenn Framsóknarflokksins treysta sér ekki til að útskýra að þeir séu bara að fylgja samstarfsflokknum að máli eða hvort einhverjar aðrar ástæður eru fyrir stefnubreytingunni sem þeir vilja ekki koma hér upp og gera grein fyrir.

Mér þykir það sérstaklega sérkennilegt í tilviki hæstv. ráðherra og hv. þingmanna sem hér sátu — af því að nú horfi ég á tvo nýja þingmenn Framsóknarflokksins sem kannski eru ekki alveg inni í þeirri umræðu sem þar átti sér stað — í tilviki hv. þingmanna sem tóku þátt í umræðu um málið fyrir örfáum mánuðum. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu meira en mér finnst það ábyrgðarhluti hjá hæstv. forseta að ítrekað hafi verið kallað eftir afstöðu hv. þingmanna eins flokks, við 1., 2. og 3. umr., og aldrei komið svör.

Virðulegi forseti. Mér finnst það ábyrgðarhluti.



[23:49]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ég verð nú að taka undir lokaorð síðasta ræðumanns. Það er alveg stórkostlegt ef Framsóknarflokkurinn ætlar ekki að hafa sig í að halda eina einustu ræðu í umræðum um þetta frumvarp. Gefist hafa þrjú tækifæri til þess í þremur umræðum um málið og það verður örugglega einhver snubbóttasta framsaga fyrir afstöðu stjórnmálaflokks í þingsögunni að það eina sem er á blaði af hálfu Framsóknarflokksins er útbýting þingskjals sem var tilkynnt af forseta af forsetastóli; í því tilviki sat framsóknarmaður í stólnum. Það hefði nú verið alveg lágmark að áður en þessari umræðu lyki hefði Framsóknarflokkurinn komið og gert einhverja grein fyrir viðhorfum sínum til málsins eins og hér hefur ítrekað verið óskað eftir að gert sé.

Það er afar sérkennilegt að við skulum vera hér undir miðnætti að ræða þetta mikla forgangsmál ríkisstjórnarinnar sem að sjálfsögðu hefði einfaldlega átt að fresta afgreiðslu á þegar kom í ljós hversu umdeilt það er og tilgangslaust og algerlega ástæðulaust að standa í þessu stappi núna rétt eftir að lög um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu, voru afgreidd í tiltölulega breiðri samstöðu; andstaðan alla vega ekki umtalsverð því að þeir sem ekki studdu málið beinlínis, og það gerðu þingmenn fjögurra þingflokka af fimm, sátu þá að uppistöðu til hjá.

Breytingartillögur meiri hlutans bera það með sér að það hefur runnið upp fyrir mönnum að frumvarpið var vanhugsað. Það er að sjálfsögðu til bóta að stjórnarmeirihlutinn ætlar að heykjast á því að hunsa starfsmenn Ríkisútvarpsins og taka aftur inn fulltrúa þeirra með málfrelsi og tillögurétt. Það má kannski segja að það sé líka viðleitni í þá átt að fjölga í stjórn úr sjö í níu og breikka þannig aðeins grunninn sem undir henni er. Það breytir ekki hinu að verið er að hverfa frá hinu, sem varð niðurstaðan eftir gríðarlega mikið undirbúningsstarf og endurtekna umfjöllun um málið hér á Alþingi, að hverfa frá pólitískri skipan stjórnarinnar á grundvelli styrkleikahlutfalls hér á Alþingi og búa um þetta með faglegum hætti, þar sem valnefnd veldi fólk á grundvelli skilgreindra hæfniskrafna o.s.frv.

Það sem auðvitað hefði þurft að ná góðri umræðu um — og það eru ærin tilefni orðin á þeim vikum sem liðnar eru frá stjórnarskiptunum, og jafnvel aftur fyrir það, í vissa hluti sem sagðir voru í kosningabaráttunni — er viðhorf til fjölmiðla í landinu, þar sem hefur verið að glitta í að undanförnu afturhvarf til fyrri tíma í þeim efnum, að reyna að hafa stjórn á fjölmiðlunum, temja þá, láta þá hlýða. Loftárásargreinin, sem ég hef að vísu ekki lesið alla, bara séð svona útdrátt úr, hún er mjög merkilegt innlegg í þetta mál. Forsætisráðherra, búinn að vera nokkrar vikur á valdastóli, kvartar og kveinar, meðal annars undan því að fjölmiðlar fari ekki nógu mjúkum höndum um stjórnina á hveitibrauðsdögunum. Það sé ekki bara rauði dregillinn og klappað á öllum vígstöðvum. Fjölmiðlar leyfi sér að flytja fréttir sem stundum séu jafnvel óþægilegar fyrir hina nýju ríkisstjórn. Nú, auðvitað er leiðsögnin ofan úr Hádegismóum enda birtist greinin að sjálfsögðu í Morgunblaðinu.

Ég nefni einnig viðhorf sem komu fram í umræðum fyrr í kvöld frá hv. þm. Jóni Gunnarssyni, um það hve fjölmiðlar hefðu verið ómálefnalegir og ósanngjarnir í umfjöllun um veiðigjaldafrumvarp ríkisstjórnarinnar — þeir hefðu verið uppteknir af skoðanakönnunum um málið og undirskriftasöfnun, sagt af slíku fréttir sem hv. þingmanni fannst greinilega algerlega ástæðulaust. Eða framlag hv. þm. Brynjars Níelssonar inn í þessa umræðu, bæði í pistlum og héðan úr ræðustól á Alþingi. Fleira mætti nefna til.

Erum við virkilega stödd á vegamótum á nýjan leik þar sem menn vilja fara ár eða áratugi aftur í tímann í þessum efnum, að það þurfi að vera hægt að hafa stjórn á fjölmiðlunum, temja þá? Og Framsókn beygir sig í duftið, snýr við blaðinu frá því fyrir nokkrum mánuðum og þorir ekki að taka til máls í umræðu um málið. Það er ekki mikil reisn yfir því.

Það sem þarna er á ferðinni er augljóst. Að fara að troða þessu litla máli hér inn á þetta stutta vorþing. Þetta er kreddumál. Þetta er hluti af kreddum Sjálfstæðisflokksins. Kannski eru þetta að einhverju leyti svona vöðvahnyklingar, nú vilji hann sýna að hann er kominn, mættur, bláa höndin er þarna einhvers staðar stutt undan valdinu og aðeins minna á sig. Bíðið þið bara, sjáið þið til. Við erum komnir með völdin. Konsertmeistarinn slær taktinn ofan úr Hádegismóum.

Auðvitað þekkjum við alveg þessi viðhorf. Hv. þm. Össur Skarphéðinsson minnti á söguna í þessum efnum. Við höfum fylgst með ályktunum á landsfundum Sjálfstæðisflokksins þar sem það er mjög í tísku, sérstaklega hjá ungliðum, að setja hornin í Ríkisútvarpið. Ef ekki bara leggja það alveg niður eins og nú er greinilega farið að ræða í kreðsum flokksins, þá að minnsta kosti svona vængstífa það með því að selja Rás 2 og eitthvað svoleiðis, það hefur mjög verið tískan á þeim bæ.

Virðulegur forseti. Það væri alveg tilefni til, ef færi gæfist, að fara í dálitla prinsippumræðu um það hvert við erum að stefna. Um er að ræða verulegt fráhvarf frá viðleitninni á síðasta kjörtímabili þar sem mikið var lagt í vinnu við að reyna að skapa sem breiðasta samstöðu um umgjörð fjölmiðlunar, bæði fjölmiðlalögin sjálf og síðan sérstök lög og ný lög um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu, sem hér eru undir núna. Það er ekki lagt af stað með þeim hætti af hálfu núverandi ríkisstjórnar svo að vægt sé þá til orða tekið, satt best að segja.

Herra forseti. Ég ætla ekkert að lengja umræður af minni hálfu mjög mikið um þetta mál. Það er, held ég, orðið fullreynt að Framsóknarflokkurinn ætlar að þegja sig í gegnum þessa umræðu. Það eru skilaboð í því fólgin, mjög mikil skilaboð. Kannski er það eiginlega besta ræða Framsóknarflokksins, sem ekki var flutt, þ.e. það undirstrikar skömm Framsóknarflokksins að þeir leggja ekki í umræðuna, þeir skammast sín upp fyrir haus út af því að hafa beygt sig í duftið fyrir Sjálfstæðisflokknum í þessu máli. Gengið undir kredduna og fallist á að menntamálaráðherra flytti þetta mikla forgangsmál sitt, mennta- og menningarmálaráðherra þjóðarinnar, því að ekki var það ráðuneyti nú höggvið upp, nema bara þetta sem var reytt af því yfir í forsætisráðuneytið. Hann hefur ekkert þarfara og brýnna við Alþingi að segja á þessu fyrsta þingi en þetta frumvarp. Það er forgangsverkefni Sjálfstæðisflokksins í mennta- og menningarmálum þjóðarinnar, að koma aftur pólitískri stjórn yfir Ríkisútvarpið. Það er afar athyglisvert og það er líka mjög athyglisvert að Framsóknarflokkurinn skuli láta þetta yfir sig ganga.

Kannski er það upphafið að því sem í vændum er í fleiri tilvikum. Jafnvel er að byrja að skapast hér munstur eins og hv. þm. Össur Skarphéðinsson sagði, að við séum að sjá þetta í fleiri tilvikum. Framsóknarflokkurinn hefur þá greinilega borgað dýru verði forsætisráðherrastólinn, að það er hin táknræna og symbólska forusta Framsóknar fyrir ríkisstjórninni, sem Framsókn fékk, en Sjálfstæðisflokkurinn hefur völdin þegar á herðir og keyrir hér inn sín kreddumál, lækkar skatta á góðvinum sínum, tekur til hendinni gagnvart Ríkisútvarpinu o.s.frv. En stóra kosningaloforð Framsóknarflokksins, það er sett í nefnd. Móðir allra kosningaloforða í íslenskri stjórnmálasögu, það er bara sett í nefnd.



[23:58]
Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Ég hef beðið svolítið eftir því að þetta mál kæmi á dagskrá vegna þess að mig langaði til að lýsa skoðunum mínum á því. Mig langar að gera það svona:

Það urðu nokkuð merkileg vatnaskil í stjórnmálum, ekki bara í Bandaríkjunum heldur á heimsvísu, ef maður skoðar kosningabaráttuna sem fór fram í Bandaríkjunum síðasta haust. Þá var í fyrsta skipti í sögunni stjórnmálaflokkur, demókratar, sem einbeitti sér öðruvísi en áður að yngsta aldurshópnum í kosningabaráttu sinni. Það voru ekki gerðar sjónvarpsauglýsingar sem beindust sérstaklega að aldurshópnum undir 30 ára vegna þess að í fyrsta skipti í mjög langan tíma er kominn kjósendahópur sem á að meiri hluta til ekki sjónvarp og fylgist allt öðruvísi með fréttum, efni ljósvakamiðla en gert hefur verið síðustu áratugi.

Það endurspeglar auðvitað sömu þróun og hefur átt sér stað hér á landi. Ungt fólk horfir í auknum mæli á sjónvarpsefni á þeim tíma sem hentar því, horfir á fréttir sem vinir þeirra og kunningjar benda þeim á og safnast ekki saman á sjónvarpsfréttatíma eins og þjóðin gerði áður fyrr. Niðurhal efnis er auðvitað eitthvað sem allir þekkja. Efni er hlaðið niður í vaxandi mæli og hefur dreift sér mikið undanfarið. Fólk safnar sjónvarpsefni ólöglega á flakkara og það er þróun sem framleiðendum kvikmynda og sjónvarpsefnis hefur ekki tekist að mæta nógu vel, nema kannski núna þegar fyrirbæri á borð við Netflix eru orðin útbreidd, ekki bara á Ameríkumarkaði heldur líka á Evrópumarkaði og á Íslandi, þó með krókaleiðum.

Af hverju er ég að tala um þetta? Vegna þess að það kemur auðvitað til með að hafa varanleg og afgerandi áhrif á fjölmiðlaumhverfi, ekki bara Íslendinga heldur heimsins alls. Fyrir hinar hefðbundnu áskriftarstöðvar, eins og við sjáum t.d. með Stöð 2 og Skjá 1, verður samkeppnin mjög erfið. Hún verður öðruvísi en áður var og úrvalið og framboðið af sjónvarpsefni fyrir allan almenning kemur til með að breytast mikið í kjölfar þeirrar þróunar sem við höfum í sjálfu sér ekki séð fyrir endann á.

Frjálsu sjónvarpsstöðvarnar þurfa að mæta því og er mjög eftirtektarvert hvernig það hefur verið gert, t.d. á Stöð 2 þar sem ég vann í mjög langan tíma, með framleiðslu á innlendu efni. Það er afskaplega jákvæð þróun. Við sjáum það líka gerast í Danmörku þar sem mikið úrvalssjónvarpsefni er framleitt sem er meðal annars sýnt hér á landi. Það er ágætisdæmi um þann árangur sem hægt er að ná í sjónvarpsgerð. Danir eru farnir að framleiða sjónvarpsefni sem er ekki bara sýnt á innlendum markaði hjá þeim heldur um allan heim og hefur slegið í gegn um allan heim enda gert af metnaði og með framúrskarandi hætti.

Eina leiðin fyrir frjálsu sjónvarpsstöðvarnar til þess að mæta þessum breytta veruleika, netsjónvarpi, ólöglegu niðurhali er innlend dagskrárgerð. Það er auðvitað það sem ríkissjónvarpið og Ríkisútvarpið á að beita sér fyrir, að endurspegla íslenska menningu, spegla þann veruleika sem við búum í og bjóða íslenskum almenningi upp á, ekki bara varðveislu þjóðararfsins, íslenskrar þjóðmenningar heldur líka afþreyingu. Það þarf að geta boðið öllum almenningi upp á eitthvað sem stenst samanburð við það sem frjálsu stöðvarnar eru að reyna að selja í áskrift. Það er mikilvægt með tilliti til ólíkrar efnahagsstöðu, með tilliti til mismunandi aldurssamsetningar o.s.frv. Það er óhjákvæmilegt að hlutverk Ríkisútvarpsins sem stofnun í almannaþjónustu verði veigameira í ljósi þess að þjónusta frjálsu stöðvanna kemur til með að breytast.

Breytingin sem gerð var á stjórn Ríkisútvarpsins fyrir fjórum mánuðum var því ákaflega mikilvæg. Hún tók mið af þeim breytta veruleika sem blasir við í þeim efnum. Lagt var upp með að aukin áhersla væri lögð á faglega aðkomu stjórnar, það var ekki bara rekstrarlegi þátturinn eins og áður var. Það var ekki gert ráð fyrir pólitískt skipaðri stjórn heldur faglega valinni stjórn eða stjórn sem væri valin mun faglegar en áður hefur verið gert. Þess vegna studdi ég frumvarpið sem var lagt fram á síðasta þingi sem og margir aðrir þingmenn.

Á Ríkisútvarpinu starfar mikill fjöldi fagmanna og ég held að við séum öll sammála um að gríðarlega mikilvægt er að kraftar og þekking svona stofnunar fái notið sín sem best. Til þess að svo megi verða er auðvitað líka mjög mikilvægt að sjálfstæði stofnunarinnar sé tryggt, að ekki sé verið að búa til óþarfa spennu, pólitíska spennu í kringum stofnunina og þess vegna var breytingin mjög jákvæð. Við þekkjum mýmörg dæmi þess úr sögunni að skipun ólíkra einstaklinga, misumdeildra, í útvarpsráð með pólitískum hætti hefur skapað mikla úlfúð í kringum stofnunina. Það er henni einfaldlega ekki til framdráttar, ekki gott til framtíðar litið, þegar litið er til þeirra verkefna sem blasa við henni, þeirri ágætu og vönduðu stofnun. Það er einnig gríðarlega mikilvægt vegna þess að að mínu mati starfar núna á Ríkisútvarpinu ein fremsta ritstjórn landsins þegar kemur að öflun frétta og miðlun frétta.

Nýverið hefur breyttum veruleika í framleiðslu frétta verið mætt innan Ríkisútvarpsins með stofnun sérstakrar deildar nýmiðlunar, Ríkisútvarpið hefur gert sig gildandi á netinu á afgerandi hátt. Það er mjög jákvæð þróun sem þarna á sér stað og mjög mikilvægt að meta hana til hliðsjónar við þá þróun sem á sér stað á frjálsu miðlunum þar sem frjálsir miðlar eins og Fréttablaðið eru að draga saman, reyndir fréttamenn eru að hætta. Það sama er að gerast hjá Stöð 2. Morgunblaðið, sem hefur verið í fararbroddi íslenskra dagblaða í áratugi, var á öllum mínum uppvaxtarárum og öllum mínum blaðamennskuárum prentað í um það bil 55–60 þúsund eintökum, gríðarlegt stórveldi í íslenskri blaðamennsku, en er prentað núna, ef ég man rétt en það eru reyndar ábyggilega tveggja ára gamlar upplýsingar, í 28–29 þúsund eintökum. Það er ekki svipur hjá sjón frá því sem áður var enda er útbreiðsla þess og áhrif allt önnur en nokkurn tímann hefur verið.

Það er líka ákveðinn misskilningur sem býr að baki þessu afturhvarfi til fortíðar í frumvarpi menntamálaráðherra, að hægt sé að búa til einhvern veruleika sem við þekktum í kringum 1991 og þar í kring, vegna þess að það er ekki við fjölmiðlana að sakast ef einhver vill agnúast út í að 35 þúsund manns skrifi undir undirskriftalista. Það hefur orðið ekkert með fjölmiðlaumfjöllun að gera. Þær safnast ekki vegna umfjöllunar fjölmiðla. Við höfum séð í mjög mörgum undirskriftasöfnunum og samkomum mótmælenda að það er algerlega grundvallaratriði að sá atburður sem um ræðir hreyfi við fólki og þá getur allt gerst. Hér á Austurvelli geta safnast saman 10 þúsund manns með tveggja daga fyrirvara sem skipuleggja sig með samfélagsmiðlum. Það sama er að gerast um allan heim. Fyrir framan Stjórnarráðið, fimm dögum eftir að nýr forsætisráðherra tók við og ný ríkisstjórn, voru komin 2.500 manns eins og hendi væri veifað. Einfaldlega vegna þess að fólki var umhugað um framtíð umhverfismála á Íslandi.

Miðlun frétta og það hvernig fréttastofur hafa áhrif á samfélagið er allt annar veruleiki núna en áður var. Þess vegna vil ég lýsa þeirri skoðun að sú breyting sem hér er verið að gera er afturför. Breytingin sem var gerð fyrir fjórum mánuðum var mikilvæg. Hún var einmitt í anda þess lærdóms sem við eigum að draga af skýrslunni sem kom út um Íbúðalánasjóð í dag. Við eigum að láta af pólitískt skipuðum stjórnum. Við eigum að horfa til faglegrar hæfni stjórnarmanna, gera mikla kröfu til þekkingar og ráða fagmenn til þess að fara með mál opinberra stofnana og með traust almennings á Íslandi.

Sú breyting sem hér er verið að gera gengur þvert á niðurstöður þeirrar skýrslu, ég held að allir hljóti að vera sammála um það. Það þarf enginn að vera að býsnast yfir því úr sæti sínu í þingsal.

Ég vil segja að lokum að ég held að þetta sé ekki mikið gæfuspor hjá hæstv. ríkisstjórn. Ég óttast um framtíð Ríkisútvarpsins í ljósi þess sem þetta boðar, ekki vegna þess að ég haldi að í stjórn Ríkisútvarpsins muni raðast hópur einhverra rakinna illmenna. Ég held bara að stofnunin þurfi á því að halda að faglega sé skipað í stjórnina og það séu ekki pólitískt kjörnir fulltrúar sem velji einhverja flokksgæðinga til þess að fara þangað inn eins og verið hefur, því miður. Það er mjög mikilvægt hvernig Ríkisútvarpinu tekst að mæta nýjum veruleika fjölmiðla, ekki bara á Íslandi heldur í heiminum öllum. Það er mjög jákvætt að sjá hvernig það hefur verið gert og mjög sorglegt að verða vitni að því að menn eru í flýti og í ósætti að stíga mörg skref aftur á bak. Ég harma það.

Ég ítreka það sem ég hef sagt áður, á Ríkisútvarpinu starfar gríðarlegur fjöldi fagfólks. Það er mjög vandað lið sem skipar fréttastofu útvarps og sjónvarps, sem er sameiginleg núna, og mjög mikilvægt að vel sé farið með þetta mikilvæga fyrirbæri í íslensku samfélagi sem Ríkisútvarpið er. Ekki síst í ljósi þess að verið hefur ákveðinn spekileki, að mínu mati, á íslenskum fréttamiðlum að undanförnu. Reynslumeiri fréttamönnum hefur fækkað en sem betur fer er það þannig að á Ríkisútvarpinu er mikill fjöldi fagmanna og þrautreyndra fréttamanna sem hafa fengið gott rými til þess að stunda vandaða og öfluga fréttamennsku og rannsóknarvinnu, t.d. í Kastljósinu. Ég vil ítreka það sem ég hef sagt áður að fylgst verður með þróun mála í Ríkisútvarpinu, Það er ekki hægt að spóla tímann til baka til 1991 í þeim efnum og búa til einhverja ógnarstjórn sem kemur til með að hafa áhrif á efnistök og framsetningu frétta og dagskrárdeild Ríkisútvarpsins. Sá tími er liðinn að mögulegt sé fyrir pólitískan meiri hluta í landinu að hafa slík áhrif og þess vegna er sú breyting sem hér er verið að gera algjör tímaskekkja.



[00:12]
Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Mig langaði í lok umræðunnar um þetta mál, um RÚV, að koma örstutt upp til að fara aðeins yfir þau helstu atriði sem mikilvægt er að menn hafi í huga í atkvæðagreiðslu um þetta mál. Það er rétt að fram hafa komið breytingartillögur. Hin viðamesta felur í sér að inn kemur ákvæði um að Starfsmannasamtök Ríkisútvarpsins tilnefni mann í stjórnina. Mun hann hafa málfrelsi og tillögurétt en ekki atkvæðisrétt í stjórn RÚV. Þetta ákvæði eins og það liggur fyrir, þessi breytingartillaga, er í samræmi við 2. tölulið 2. mgr. 9. gr. laganna eins og þau eru nr. 23/2013. Að þessari breytingartillögu standa nefndarmenn úr allsherjar- og menntamálanefnd úr öllum flokkum utan Samfylkingar og Vinstri grænna. Gerð var grein fyrir þessari breytingartillögu við umræðuna og er svo sem ekki meiru við það að bæta.

Þá eru hér jafnframt tvær breytingartillögur sem fela í sér, og eru í raun um sama atriði, að í stað þess að sjö menn verði kjörnir í stjórnina verði þeir níu. Mig langar að taka fram hér að það er samkomulag um að það sé fjölgað en hlutföllin verði þó þau sömu þannig að stjórnarflokkarnir skipi fimm en stjórnarandstaðan fjóra. Þetta er hugsunin á bak við það ákvæði, að reyna að ná meiri breidd inn í stjórnina.

Aðeins varðandi efni málsins þá hefur þessi nýja skipan á því hvernig menn höfðu hugsað sér að búa til þessa stjórn auðvitað ekki komið til framkvæmda. Þannig að sú stjórn sem nú situr yfir RÚV er skipuð með hinum hefðbundna hætti. Það kom fram í umræðum í nefndinni og við gestakomur í nefndina að engar athugasemdir hafa verið gerðar við störf þeirrar stjórnar. Ekki hafa komið fram neinar athugasemdir um óviðurkvæmileg pólitísk afskipti eða sjónarmið þar inni, svo að því sé svarað.

Mig langar jafnframt að koma því á framfæri — af því að fullyrt var hér í umræðunni að enginn hefði haft neinar sérstakar athugasemdir við þetta lagaákvæði á síðasta þingi, varðandi breytingar á fyrirkomulagi um að búa til þessa valnefnd o.s.frv. — að það voru nokkrir þingmenn sem gerðu það hér í ræðustól, meðal annars sú sem hér stendur og fleiri þingmenn. Bara eftir minni: hv. þingmenn Birgir Ármannsson og Pétur H. Blöndal — við þremenningarnir greiddum öll atkvæði gegn þessum breytingum. En auðvitað var það þannig að frumvarpið um RÚV var viðamikið, stórt mál, tekið á mörgum atriðum og eflaust voru sjónarmið þeirra hv. þingmanna sem þar greiddu atkvæði ólík um það hvað hafi vegið þyngst. Sumir sátu hjá, aðrir greiddu atkvæði með án þess að vera sáttir við allar tillögur eins og fram kom í umræðunni um málið á þeim tíma. Svo urðu þeir sem hvorki gátu séð sér fært að greiða frumvarpinu atkvæði sitt né heldur að sitja hjá að segja nei til að fylgja sannfæringu sinni.

Hæstv. forseti. Mig langar að þakka hv. þingmönnum sem sátu í nefndinni og tóku þátt í umfjöllun málsins fyrir gott samstarf. Þó að við séum ekki sammála um allt þá eru umræðurnar málefnalegar og góðar. Jafnframt langar mig að þakka þeim hv. þingmönnum sem hér blönduðu sér í umræðuna um þetta mál.