142. löggjafarþing — 20. fundur
 3. júlí 2013.
Seðlabanki Íslands, frh. 2. umræðu.
stjfrv., 20. mál (varúðarreglur, aðgangur að upplýsingum o.fl.). — Þskj. 20, nál. 61.

ATKVÆÐAGREIÐSLA

[16:59]

[16:55]
Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Ég mælti í gær fyrir nefndaráliti efnahags- og viðskiptanefndar þar sem nefndin leggur einum rómi til að þetta frumvarp verði samþykkt óbreytt. Í ljósi þess að mér hefur borist til eyrna að óskað verði eftir því að málið fari inn á milli 2. og 3. umr. leyfi ég mér að lesa 2. mgr. 40. gr. laga, þar sem frumvarpið er óbreytt, en þar segir, með leyfi forseta:

„Breytist frumvarp við 2. umræðu skal nefnd fjalla um frumvarpið að nýju áður en 3. umræða hefst ef þingmaður eða ráðherra óskar þess.“

Þetta frumvarp hefur engum breytingum tekið frá því að það var lagt fram og við 2. umr. er það lagt hér fram óbreytt. Þess vegna tel ég að atkvæðagreiðslan standist ekki um það að málið fari aftur til nefndar.



[16:56]
Árni Páll Árnason (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég tel rétt að styðja að Seðlabankinn fái þær heimildir sem kveðið er á um í þessu frumvarpi. Um það var rík samstaða í nefndinni að engu að síður bíður nefndin eftir því að fram komi heildstætt frumvarp í haust um umgjörð um fjármálastöðugleika og um fjármálastöðugleikaráð sem er afskaplega mikilvægt. Við þurfum að ljúka því verki sem við höfum verið að vinna undanfarin ár um nýja umgjörð fjármálastöðugleika sem tryggir hinu pólitíska valdi fullnægjandi yfirsýn yfir hættu sem getur myndast hvað varðar fjármálastöðugleika, tryggir að eftirlitsstofnanir upplýsi hið pólitíska vald — og ekki bara ráðherrann einan heldur að ráðherrann geti síðan deilt þeim upplýsingum með stjórnarandstöðu til að koma í veg fyrir slys af þeim toga sem við þekkjum því miður allt of vel úr fortíðinni.



[16:57]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég styð þetta frumvarp eins og fram hefur komið í umræðum. Þetta er efnislega að stórum hluta til sambærilegt við frumvarp sem ég flutti sem efnahags- og viðskiptaráðherra en stjórnarandstaðan lagðist þá gegn.

Ég fagna sinnaskiptunum og fagna þverpólitískum vilja til að styrkja stöðu Seðlabankans í hinni erfiðu glímu við að undirbúa áframhaldandi aðgerðir á sviði afnáms gjaldeyrishafta. Ég vísa sérstaklega til ákvæða í nefndaráliti þar sem tekið er af skarið um að starf heldur áfram við að endurskoða fjármálalöggjöfina í heild sinni og undirbúa löggjöf um fjármálastöðugleika og tilkomu fjármálastöðugleikaráðs. Það er einn af þeim fyrirvörum sem ég set við stuðning við þetta mál að sú vinna haldi áfram og við fáum slík frumvörp inn á okkar borð hér á haustdögum.

Einnig legg ég áherslu á að þverpólitísk nefnd, samstarfsvettvangur allra stjórnmálaflokka um þetta mikilvæga verkefni haldi áfram störfum. Enginn hefur hreyft andmælum við því að svo verði þannig að það er einnig annar fyrirvari af minni hálfu að þetta er gert í trausti þess að samstarf stjórnmálaflokkanna á þessu sviði haldi áfram.



[16:58]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. 2. umr. átti sér stað í gær eftir miðnætti. Það var ekki með samþykki Pírata. Það var ekki kosið um afbrigði. Við píratar lítum svo á að sú umræða hafi í raun ekki farið fram og krefjumst þess að þetta fari aftur til nefndar til að ræða eitt smávægilegt atriði. Okkur langaði að gera þetta í mesta bróðurlyndi, systkinalyndi eða hvað maður segir nú til dags, en við viljum aðeins meiri umræðu um þetta. Það er ein setning í 4. gr. b sem okkur langaði að ræða betur, sérstaklega með hliðsjón af umsögn Persónuverndar og með hliðsjón af persónuverndarsjónarmiðum almennt. Það hefði alveg verið hægt að taka þá umræðu hér í dag en af einhverjum ástæðum var það ekki gert. Ég er mjög vonsvikinn yfir því. Við viljum endilega klára þetta mál í sem mestri sátt vegna þess að við teljum þetta að öllu leyti mjög fínt frumvarp. En við krefjumst þess að þetta fari aftur í nefnd.



 1. gr. samþ. með 52 shlj. atkv. og sögðu

  já:  ÁPÁ,  ÁÞS,  ÁsmD,  ÁsF,  BÁ,  BjG,  BjarnB,  BjÓ,  BSB,  BP,  BN,  ElH,  EyH,  FrH,  GuðbH,  GBS,  HarB,  HE,  HHG,  HHj,  HöskÞ,  IllG,  JMS,  JónG,  KG,  KJak,  KaJúl,  KÞJ,  KLM,  LRM,  LínS,  PVB,  PJP,  REÁ,  RR,  RM,  SDG,  SII,  SigrM,  SIJ,  SilG,  SJS,  SSv,  UBK,  ValG,  VigH,  VilB,  WÞÞ,  ÞM,  ÞorS,  ÞórE,  ÖJ.
2 þm. (BirgJ,  JÞÓ) greiddu ekki atkv.
9 þm. (EKG,  ELA,  GÞÞ,  HBK,  OH,  PHB,  VBj,  VilÁ,  ÖS) fjarstaddir.

 2.–3. gr. samþ. með 52 shlj. atkv. og sögðu

  já:  ÁPÁ,  ÁÞS,  ÁsmD,  ÁsF,  BÁ,  BjG,  BjarnB,  BjÓ,  BSB,  BP,  BN,  ElH,  EyH,  FrH,  GuðbH,  GBS,  HarB,  HE,  HHG,  HHj,  HöskÞ,  IllG,  JMS,  JónG,  KG,  KJak,  KaJúl,  KÞJ,  KLM,  LRM,  LínS,  PVB,  PJP,  REÁ,  RR,  RM,  SDG,  SII,  SigrM,  SIJ,  SilG,  SJS,  SSv,  UBK,  ValG,  VigH,  VilB,  WÞÞ,  ÞM,  ÞorS,  ÞórE,  ÖJ.
2 þm. (BirgJ,  JÞÓ) greiddu ekki atkv.
9 þm. (EKG,  ELA,  GÞÞ,  HBK,  OH,  PHB,  VBj,  VilÁ,  ÖS) fjarstaddir.

 4. gr. (a-liður) samþ. með 52 shlj. atkv. og sögðu

  já:  ÁPÁ,  ÁÞS,  ÁsmD,  ÁsF,  BÁ,  BjG,  BjarnB,  BjÓ,  BSB,  BP,  BN,  ElH,  EyH,  FrH,  GuðbH,  GBS,  HarB,  HE,  HHG,  HHj,  HöskÞ,  IllG,  JMS,  JónG,  KG,  KJak,  KaJúl,  KÞJ,  KLM,  LRM,  LínS,  PVB,  PJP,  REÁ,  RR,  RM,  SDG,  SII,  SigrM,  SIJ,  SilG,  SJS,  SSv,  UBK,  ValG,  VigH,  VilB,  WÞÞ,  ÞM,  ÞorS,  ÞórE,  ÖJ.
2 þm. (BirgJ,  JÞÓ) greiddu ekki atkv.
9 þm. (EKG,  ELA,  GÞÞ,  HBK,  OH,  PHB,  VBj,  VilÁ,  ÖS) fjarstaddir.

 4. gr. (b-liður) samþ. með 51 shlj. atkv. og sögðu

  já:  ÁPÁ,  ÁÞS,  ÁsmD,  ÁsF,  BÁ,  BjG,  BjarnB,  BjÓ,  BSB,  BP,  BN,  ElH,  EyH,  FrH,  GuðbH,  GBS,  HarB,  HE,  HHj,  HöskÞ,  IllG,  JMS,  JónG,  KG,  KJak,  KaJúl,  KÞJ,  KLM,  LRM,  LínS,  PVB,  PJP,  REÁ,  RR,  RM,  SDG,  SII,  SigrM,  SIJ,  SilG,  SJS,  SSv,  UBK,  ValG,  VigH,  VilB,  WÞÞ,  ÞM,  ÞorS,  ÞórE,  ÖJ.
3 þm. (BirgJ,  HHG,  JÞÓ) greiddu ekki atkv.
9 þm. (EKG,  ELA,  GÞÞ,  HBK,  OH,  PHB,  VBj,  VilÁ,  ÖS) fjarstaddir.

 5.–7. gr. samþ. með 53 shlj. atkv. og sögðu

  já:  ÁPÁ,  ÁÞS,  ÁsmD,  ÁsF,  BÁ,  BirgJ,  BjG,  BjarnB,  BjÓ,  BSB,  BP,  BN,  ElH,  EyH,  FrH,  GuðbH,  GBS,  HarB,  HE,  HHG,  HHj,  HöskÞ,  IllG,  JMS,  JónG,  KG,  KJak,  KaJúl,  KÞJ,  KLM,  LRM,  LínS,  PVB,  PJP,  REÁ,  RR,  RM,  SDG,  SII,  SigrM,  SIJ,  SilG,  SJS,  SSv,  UBK,  ValG,  VigH,  VilB,  WÞÞ,  ÞM,  ÞorS,  ÞórE,  ÖJ.
1 þm. (JÞÓ) greiddi ekki atkv.
9 þm. (EKG,  ELA,  GÞÞ,  HBK,  OH,  PHB,  VBj,  VilÁ,  ÖS) fjarstaddir.

Fyrirsögn samþ. án atkvgr.

Frumvarpið gengur til 3. umr. 

[17:02]
Árni Þór Sigurðsson (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir vísaði í þingsköp hér áðan um það hvort skylt væri að vísa málinu til nefndar ef þess væri óskað og rakti það að þar sem málið hefði ekki tekið neinum breytingum væri ekki skylt að gera það.

Ég vil taka fram af þessu tilefni að ég tel að málflutningur hv. þm. Helga Hrafns Gunnarssonar, um þetta atriði hér áðan, eigi mjög mikinn rétt á sér. Það var haldið áfram fundi í gærkvöldi, 2. umr. um þetta mál fór fram eftir miðnætti. Það var ekki sótt um leyfi fyrir lengri þingfundi í gær eins og þingsköp kváðu á um vegna þess að forseti leit væntanlega svo á að verið hefði samkomulag um það. Á þingflokksformannafundi seint í gærkvöldi kom fram að Píratar voru ekki sammála því að fundi yrði haldið áfram lengur en til miðnættis. Mér þykir það heldur smásálarlegt af stjórnarliðunum ef þeir ætla að hafna því að málið fari að minnsta kosti á stuttan fund í nefndinni.



[17:03]
Jón Þór Ólafsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Þetta var rætt á þingflokksformannafundum sem ég sat. Á öllum þeim fundum nefndi ég margoft að Píratar væru ekki aðilar að þeim samningi sem aðrir flokkar hefðu gert með sér um þinglok. Forseti hafði á einhverjum tímapunkti sagt: Ætlið þið nokkuð að láta greiða atkvæði um þetta? Ég á ekki að hafa tekið eftir því þó að ég hafi margsagt að ég væri ekki aðili að neinu samkomulagi. Ég á ekki að hafa tekið eftir því að hann hafi sagt þetta og þá túlkaði forseti það sem svo að þögn væri sama og samþykki. Það er mjög óeðlilegt á svona fundi eftir að hafa sagt mörgum sinnum að við værum ekki aðilar að þessum samningi. Ég vakti athygli á því að umræðan um þetta mál hófst eftir miðnætti, 16 mínútur yfir tólf í gær. Það hefði alveg verið hægt að halda þessum þingfundi áfram. Það átti bara að tryggja að samþykki hefði verið fyrir því. Hann taldi að það væri svo. Það var ekki svo. Þess vegna biðjum við um að fá málið aftur í nefnd.



[17:05]
Birgitta Jónsdóttir (P) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Ég veit ekki betur en gerðar séu undantekningar í svona málum eins og til dæmis þegar breytingar á stjórnarskrá sem ekki er hægt að breyta, ekki einum einasta punkti — var tekið fyrir í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Það er mjög mikilvægt atriði sem við teljum nauðsynlegt að ræða í þessum lögum. Við óttumst að þetta sé keyrt í gegnum þingið óeðlilega hratt án þess að þingmenn séu að fullu meðvitaðir um hvað þeir eru að samþykkja. Þetta er að mörgu leyti líkt Hagstofumálinu og ég hef áhyggjur af því, eins og ég segi, að þingmenn séu í hraði að samþykkja eitthvað sem gæti skert friðhelgi einkalífs Íslendinga.

Mér finnst líka mjög mikilvægt að fram komi að þetta er ekki óeðlileg krafa, sér í lagi þegar kemur í ljós að rætt var um þetta mál eftir miðnætti í gærkvöldi.



[17:06]
Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Í fyrsta lagi var þetta mál vel rætt í efnahags- og viðskiptanefnd. Margir gestir komu á fundi og vel var farið yfir málið. Þar að auki er nefndin einhuga um það nefndarálit sem að baki liggur. Þess vegna, af því að frumvarpið tekur ekki breytingum á milli 2. og 3. umr., var mér sem framsögumanni nefndarálits bent á þessa grein en að sjálfsögðu verðum við við ósk Pírata um að taka málið inn á milli 2. og 3. umr. til að skoða þá athugasemd sem þeir hafa komið með, svo að fyllstu sanngirni sé gætt. En ég lýsi því yfir að ég held að þetta mál hafi ekki verið rætt í neinum flýti og þingmenn hafi ekki verið að greiða atkvæði um eitthvað sem þeir vissu ekki hvað var því að meiri hluti þingmanna greiðir atkvæði með frumvarpinu eins og það liggur hér fyrir.



[17:07]
Helgi Hjörvar (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Þó að gardínurnar leyni okkur því þá er fallegur og sólríkur sumardagur hér fyrir utan og ég held að það sé alveg synd að eyða honum í að rífast um það hvort við getum skotið á nefndarfundi þegar fram kemur um það ósk frá einum starfsfélaga okkar. Ég þakka hv. þm. Ragnheiði Ríkharðsdóttur fyrir að verða einfaldlega við þessu. Þá er þetta óþarfa deilumál úr sögunni.



[17:07]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Ragnheiði Ríkharðsdóttur fyrir að taka málið aftur inn í nefnd. Ágreiningurinn er ekki mikill. Þetta er bara eitthvað sem við vildum ræða frekar vegna þess að við höfum áhyggjur. Við erum hlynnt frumvarpinu, við erum hlynnt tilganginum, okkur finnst bara að það megi orða þessa einu setningu aðeins betur. Það þarf ekki að taka neinn tíma. Við viljum bara að þetta sé gert rétt, ekki t.d. eftir miðnætti eins og gert var í gær. Það var óþarfi. Okkur finnst að það hefði alveg mátt ræða þetta hér í 2. umr.

Þetta fór vissulega í gegnum nefnd. Það er samhugur um lögin. Gott og vel en það er ástæða fyrir því að það er til 2. umr. Við vildum vera með í þeirri umræðu en okkur gafst ekki færi á því vegna þess að enn og aftur, við vorum ekki með í þeim samningi sem svo oft er talað um í þessu sambandi.



Frumvarpið gengur (eftir 2. umr.) til efh.- og viðskn.