142. löggjafarþing — 23. fundur
 4. júlí 2013.
Seðlabanki Íslands, 3. umræða.
stjfrv., 20. mál (varúðarreglur, aðgangur að upplýsingum o.fl.). — Þskj. 20, brtt. 68 og 74, till. til rökst. dagskrár 80.

[22:17]
Jón Þór Ólafsson (P) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Þetta frumvarp, ef það nær fram að ganga, mun mögulega opna heimildir Seðlabankans til að vinna með víðfeðmar upplýsingar um einstaklinga og mögulega ganga gegn friðhelgi einkalífsins. Þetta er, með leyfi forseta, það sem Persónuvernd hefur um málið að segja:

„Þrátt fyrir að athugasemdir með frumvarpinu beri ekki annað með sér en að ætlunin sé að afla almennra upplýsinga um stöðu fjármálafyrirtækja telur Persónuvernd að afmarka þurfi ákvæði 4. gr. frumvarpsins nánar þar sem núverandi orðalag hennar gæti ella falið í sér opnar heimildir til að vinna með víðfeðmar upplýsingar um einstaklinga. Þá telur stofnunin rétt að umrætt ákvæði verði takmarkað við upplýsingar um lausafjárstöðu og gjaldeyrisjöfnuð.“

Persónuvernd leggur því til breytingu á b-lið 4. gr. frumvarpsins og það er breytingartillaga okkar pírata við þessa grein. En við leggjum núna til að þetta mál verði tekið af dagskrá og unnið betur. (Forseti hringir.) Við leggjum til við forseta að hann taki málið af dagskrá og þetta verði unnið betur í haust.



[22:19]
Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Þar sem forseti hefur greinilega ekki orðið við bón okkar pírata um að taka málið af dagskrá á þessum þingfundi og unnið verði betur í því á haustdögum þegar verður svokallaður stubbur, þing mun hefjast 10. september, leggjum við til vara fram tillögu til rökstuddrar dagskrár um að málinu verði vísað frá. Þá væri hægt að taka það aftur upp í haust og vinna það betur, í ljósi athugasemda Persónuverndar um að frumvarpið gæti opnað á heimildir til að vinna með víðfeðmar upplýsingar um einstaklinga. Það er möguleiki á því með þessu frumvarpi, verði það að lögum, að friðhelgi einkalífsins verði brotin. Meðan það er vafi ætti friðhelgi einkalífsins sem varin er í stjórnarskrá, sem við öll erum eiðsvarin til þess að halda, að njóta vafans.

Fyrsta tillaga okkar er því að málinu verði bara vísað frá. Hún gengur víst lengst þannig að hún kemur fyrst til álita og verður greitt atkvæði um hana líklega áður en greidd verða atkvæði um frumvarpið sjálft.

Svo erum við með breytingartillögu við lagafrumvarpið til vara. Sú breytingartillaga er samhljóða tillögum Persónuverndar, en ég las upp úr umsögn hennar áðan. Tillagan hljómar svo, með leyfi forseta:

„B-liður 4. gr. orðist svo: Við 1. mgr. bætast tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Framangreindum lögaðilum er skylt, að viðlögðum viðurlögum skv. 37. gr., að láta Seðlabankanum í té allar upplýsingar og gögn sem eru bankanum nauðsynleg í tengslum við eftirlit og athuganir á lausafjárstöðu og gjaldeyrisjöfnuði. Lagaákvæði um þagnarskyldu takmarka ekki skyldu til þess að veita upplýsingar og aðgang að gögnum samkvæmt þessu ákvæði.“

Það sem bætist við frumvarpið eins og það liggur fyrir hér með tillögu Persónuverndar eru orðin „framangreindum lögaðilum“. Í frumvarpinu er ekkert nefnt um framangreinda lögaðila og b-liður 4. gr. væri þannig óbreyttur, með leyfi forseta:

„Við 1. mgr. bætast tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Skylt er, að viðlögðum viðurlögum skv. 37. gr., að láta Seðlabankanum í té allar upplýsingar og gögn sem bankinn telur nauðsynleg. Lagaákvæði um þagnarskyldu takmarka ekki skyldu til þess að veita upplýsingar og aðgang að gögnum. “

Þarna segir að skylt sé að viðlögðum viðurlögum að láta Seðlabankanum í té allar upplýsingar og gögn sem bankinn telur nauðsynleg til þess að ná fram tilgangi laganna. Tilgangur laganna er mjög góður. Hann er að veita Seðlabankanum auknar heimildir m.a. til upplýsingasöfnunar til að tryggja fjármálastöðugleika á Íslandi. Það er mjög gott. Það er mjög göfugt markmið. Það er góður tilgangur. En tilgangurinn má ekki helga meðalið. Það má ekki vera þannig að í góðum tilgangi og í góðum ásetningi vörðum við veginn að því að brjóta friðhelgi einkalífs fólks. Það er það sem við stöndum frammi fyrir núna. Verði frumvarpið samþykkt óbreytt er möguleiki á því, samkvæmt Persónuvernd, að þessar heimildir séu það víðar að við gefum Seðlabankanum heimild til að ganga það langt að hann brjóti friðhelgi einkalífs fólks. Það er möguleiki.

Önnur breytingartillagan okkar er því að fara að tillögum Persónuverndar og breyta b-lið 4. gr. á þann hátt að við bætist þau atriði sem Persónuvernd telur nauðsynleg til þess að skjóta loku fyrir að frumvarpið gefi svo opnar heimildir til að vinna með víðfeðmar upplýsingar um einstaklinga að það brjóti gegn friðhelgi einkalífsins.

Til vara við þetta, að við förum að tillögum Persónuverndar um b-lið 4. gr., erum við með breytingartillögu sem segir einfaldlega að b-liður 4. gr. falli brott. Þá væri hægt að taka það upp seinna. Það væri hægt að klára þessi lög en taka upp þetta atriði seinna. Ég veit að þetta er hryggjarstykkið í lögunum, en það væri hægt að taka það seinna og þegar búið væri að afgreiða þetta væri hægt að taka litla breytingartillögu og hafa til hliðsjónar og tryggja bæði persónuvernd og tilgang laganna; að Seðlabankinn geti kallað eftir upplýsingum til að tryggja fjármálastöðugleika. Það væri hægt að gera það í haust og fyrir því eru fordæmi á þessu þingi. Í nefndaráliti meiri hluta velferðarnefndar með breytingartillögu um frumvarp til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar segir, með leyfi forseta:

„Meiri hlutinn telur ljóst að stofnunin þurfi á auknum heimildum að halda en í ljósi þeirra athugasemda sem fram hafa komið við meðferð málsins telur meiri hlutinn að vinna við ný ákvæði um eftirlitsheimildir þurfi aukinn tíma og leggur því til að 2. gr. frumvarpsins verði felld brott …“

Þetta er það sem við erum að kalla eftir. Við köllum eftir lengri tíma við að vinna þetta þannig að við getum fengið Persónuvernd aftur til fundar við efnahags- og viðskiptanefnd í haust og getum tryggt að við náum fram báðum þessum markmiðum, að Seðlabankinn fái þær upplýsingar sem hann þarf til að tryggja fjármálastöðugleika og að við verndum friðhelgi einkalífsins.

Hvað höfum við gert til að reyna að vekja athygli á þessu máli og reyna að sannfæra þingmenn um að greiða ekki atkvæði á þann veg að farið gætu í gegn lög sem brjóta friðhelgi einkalífsins? Við byrjum á að kalla eftir því með athugasemdum við fundarstjórn forseta að hann vísi málinu fram á haustþing. Hann getur enn þá gert það og þá tökum við það bara upp á haustþingi. Það er ekkert að því að fresta þessu. Eða kannski er það ekki rétt að ekkert sé að því af því að það þýðir að Seðlabankinn hefur ekki þessar heimildir strax til að ná fram markmiði sínu. Það er rétt. Það frestast, en við vinnum á móti að við fáum í gegn lög sem er sátt um af fagaðilum, m.a. Persónuvernd, að brjóti ekki friðhelgi einkalífsins.

Í nefndaráliti um frumvarpið segir, með leyfi forseta:

„Umsagnaraðilar hafa gagnrýnt að í frumvarpinu sé gert ráð fyrir að fá Seðlabanka Íslands auknar heimildir til að afla upplýsinga. Virðast sumir þeirra telja að heimildirnar séu annars vegar of rúmar og hins vegar ekki nægilega ítarlega útfærðar.“

Þar segir einnig, með leyfi forseta:

„Þannig beri að skilja þá viðbót sem felst í a-lið 4. gr. frumvarpsins á þann veg að ætlunin sé að heimila að Seðlabanka Íslands að afla upplýsinga vegna hlutverks síns við að stuðla að fjármálastöðugleika.“ — Þetta er það sem ég hef nefnt.

Áfram segir í álitinu:

„Í erindi til nefndarinnar kom það mat fram að 29. gr. laganna, að teknu tilliti til 4. gr. frumvarpsins, beindist að mun þrengri hópi en samsvarandi eftirlitsheimildir Fjármálaeftirlitsins og ríkisskattstjóra. Skilningur nefndarinnar er að 4. gr. frumvarpsins feli ekki í sér heimild til að afla upplýsinga hjá einstaklingum og lögaðilum almennt heldur aðeins þeim sem eru í viðskiptum við Seðlabanka Íslands …“

Þetta er skilningurinn, skilningur nefndarinnar. Mér var tjáð að nefndarálitið væri nógu sterkt, að það þyrfti ekki að taka þetta fram í lögunum sjálfum, í lagatextanum sjálfum, og nefndarálitið mundi þar af leiðandi tryggja þetta.

Við höfum farið yfir þetta með okkar lögfræðingi og það kemur hér fram að skilningur nefndarinnar sé sá, svo ég fari aftur yfir þetta, með leyfi forseta, „að 4. gr. frumvarpsins feli ekki í sér heimildir til að afla upplýsinga hjá einstaklingum og lögaðilum almennt“ — hjá þeim — „heldur aðeins þeim sem eru í viðskiptum við Seðlabanka Íslands.“

Þetta orð „hjá“ í textanum er mjög skýrt dæmi um að þetta hefur greinilega ekki verið hugsað nógu langt. Má þá afla upplýsinga um einstaklinga og lögaðila? Það er sagt að ekki megi ekki afla upplýsinga hjá þeim, en það má afla upplýsinga hjá þeim aðilum sem eru í viðskiptum hjá Seðlabanka Íslands. En má afla upplýsinga hjá þeim um einstaklinga og lögaðila? Nú verða lögfróðari menn en ég að skýra það út. Þarna mundi ég segja að væri stór vafi. Þetta eina orð. Meðan vafi er til staðar skulum við láta friðhelgi einkalífsins njóta hans.



[22:30]
Frsm. efh.- og viðskn. (Ragnheiður Ríkharðsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Öll nefndin stóð að nefndaráliti efnahags- og viðskiptanefndar og hv. þm. Jón Þór Ólafsson er áheyrnarfulltrúi í nefndinni fyrir þingflokk Pírata. Nefndin hefur í tvígang fundað með fulltrúum Pírata um nefndarálitið og áhyggjur þeirra af því að hér sé verið að fela Seðlabankanum of ítarlegar heimildir til þess að afla upplýsinga um einstaklinga. Nefndarálitið er að sjálfsögðu lögskýringargagn með þeim lögum sem hér verða hugsanlega samþykkt.

Ég ítreka enn og aftur að öll nefndin stendur að álitinu. Ég ætla að fá að lesa nöfn nefndarmanna en þeir eru Frosti Sigurjónsson, Vilhjálmur Bjarnason, Ragnheiður Ríkharðsdóttir, Árni Páll Árnason, Róbert Marshall, Willum Þór Þórsson, Líneik Anna Sævarsdóttir og Edward H. Huijbens. Öll nefndin stendur að álitinu og það er skilningur nefndarinnar að nauðsynlegt sé að veita Seðlabankanum þessar heimildir. Það er líka skilningur nefndarinnar að 4. gr. frumvarpsins feli ekki í sér heimild til að afla upplýsinga hjá einstaklingum og lögaðilum almennt, heldur aðeins þeim sem eru í viðskiptum við Seðlabanka Íslands samkvæmt 6. gr., samanber 7. gr. laganna, fyrirtækjum í greiðslumiðlun og öðrum fyrirtækjum eða aðilum sem lúta opinberu eftirliti samkvæmt lögum um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.

Ég virði skoðanir Pírata og ég virði frelsi og friðhelgi einstaklinga, en ég tel að í þessu nefndaráliti sem er svo öflugur meiri hluti með sé þetta skýrt og þar hefur verið farið yfir þetta og skoðað. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem verið er að skoða mál af þessum toga. Ég tel að hér liggi fyrir frumvarp sem er hluti af því frumvarpi sem við treystum að áfram verði unnið með um fjármálastöðugleika og fjármálastöðugleikaráð. Þetta sé hluti af stærri heild.

Virðulegi forseti. Sem framsögumaður nefndarinnar, sem ég ítreka enn og aftur er einhuga að baki nefndarálitinu, legg ég til að frumvarpið verði samþykkt.



[22:32]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Nú undir lok þessarar umræðu vil ég þakka nefndinni fyrir hennar störf. Ég vil jafnframt þakka öðrum þeim sem hafa ekki í öllum atriðum verið sáttir við efnisatriði frumvarpsins eins og þau liggja fyrir þinginu fyrir að hafa tryggt málinu framgang á þessu tiltölulega stutta þingi sem við höldum hér að sumarlagi.

Eins og umræðan hefur borið með sér hafa ýmis álitamál verið rædd, ekki síst hvað varðar stjórnarskrárvarin réttindi, og hafa þau verið með í umræðunni allt frá 1. umr. málsins og á þeim verið tekið eða þau skoðuð sérstaklega í nefndarstarfinu.

Ég tel að það hafi verið nægilega vel gerð grein fyrir þeim sjónarmiðum sem taka þarf tillit til og lýsi ánægju minni með að málið stefni nú í að fást afgreitt á þinginu. Ég vísa til þess sem ég sagði strax í framsöguræðu minni sem var að það aukna eftirlit með lausafjárstöðu í kerfinu sem Seðlabankanum er gert kleift að stunda er mikilvægt, meðal annars vegna þeirra veikleika sem komu fram haustið 2008 eða í aðdraganda þess og ekki reyndist vera nægjanleg yfirsýn yfir hjá eftirlitsaðilum en ekki síður vegna þess að áform eru uppi um að afnema gjaldeyrishöft, við skulum segja á komandi missirum, næstu árum, eins fljótt og auðið er. Þá er gríðarlega mikilvægt að allar heimildir séu til staðar til að eyða óvissu og áhættu áður en ákvarðanir eru teknar.



[22:35]
Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þegar hæstv. fjármálaráðherra mælti fyrir þessu máli þakkaði ég honum fyrir að hafa augun á boltanum, þ.e. þeim mikilvægustu viðfangsefnum sem við Íslendingar eigum við að glíma um þessar mundir. Það að efla heimildir Seðlabankans í þessu efni er ákaflega brýnt. Ég þekki þau álitaefni sem eru uppi varðandi Persónuvernd sem fyrrverandi formaður efnahags- og viðskiptanefndar og við fjölluðum um þau á nefndarfundi í dag. Ég tel að um þau sé búið eins vel og kostur er og vil nota þetta tækifæri og fagna því að enn og aftur hefur tekist í þinginu góð samstaða þvert á flokka þar sem allir standa saman sem einn um að treysta heimildir Seðlabankans til að taka á sínum stóru viðfangsefnum.

Þar eru gríðarlegir þjóðarhagsmunir undir og auðvitað ekki síður í því að efla bankann sem eftirlitsstofnun. Ég hvet ráðherrann til að halda áfram að efla þær eftirlitsstofnanir sem nú heyra fleiri en Seðlabankinn undir ráðherrann því að frá því að 1. umr. um þetta mál fór fram hefur komið fram skýrsla um Íbúðalánasjóð sem sýnir okkur að 270 milljarða reikningur varð á endanum fyrir það að við höfðum ekki nægilega gott eftirlit og aðhald með fjármálastarfsemi af hálfu hins opinbera. Það á að vera okkur enn sterkari áminning um skyldu okkar að vinna að málum sem þessum hratt og vel í þinginu, þó vanda allan málatilbúnað en standa saman um sameiginlega hagsmuni þjóðarinnar í einu og öllu.



[22:37]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég get tekið undir að það skiptir máli að náist þverpólitísk samstaða um stór og mikilvæg mál sem eru ekki í eðli sínu pólitísk. Varðandi eftirlitsstofnanirnar sem hér hafa komið til umræðu í þessu samhengi og víðara samhengi vegna annarra mála sem vísað er til tel ég að við munum áfram þurfa að taka það kerfi til skoðunar og velta því fyrir okkur hvort við höfum byggt upp það stofnanafyrirkomulag, stofnanastrúktúr sem best tryggir að upplýsingar flæði þangað sem þeirra er þörf og að yfirsýn sé á einum stað yfir hina kerfislægu áhættu.

Í því sambandi get ég ekki neitað því að það hefur orðið mér mikið umhugsunarefni að Seðlabankinn hefur ítrekað á undanförnum árum kallað eftir heimildum til að fá frekari upplýsingar á sama tíma og slíkar upplýsingar er hægt að sækja inn í Fjármálaeftirlitið. Þetta er þekkt umræða þar sem hnökrar hafa reynst vera á því að upplýsingar flæði síðan áfram innan stofnanastrúktúrsins. Þetta eru málefni sem hljóta að gefa okkur tilefni til að spyrja hvort enn þurfi að gera betur þannig að tregða innan kerfisins til að deila upplýsingum verði ekki til þess að hlutir falli milli stafs og hurðar.



[22:39]
Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Ég þakka hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra fyrir svarið og deili áhyggjum hans af upplýsingamiðlun á milli stofnana. Nú erum við hæstv. ráðherra til margra ára í þinginu áhugamenn um það að einfalda stjórnkerfi ríkisins og fækka opinberum stofnunum og sameina þær til að gera þær skilvirkari. Ég lýsi þeirri eindregnu skoðun minni eftir að hafa í fjögur ár haft forustu fyrir efnahags- og viðskiptanefnd í þinginu að sameining Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins er því sem næst einboðin. Við erum 330 þúsund manns í þessu landi og það er einfaldlega takmarkað hvað það er skynsamlegt fyrir okkur að byggja upp margar stofnanir.

Þetta eru þær tvær stofnanir sem eiga að hafa eftirlit með fjármálakerfinu. Þær voru áður eitt og ég held að það tryggði betur upplýsingaflæði á milli þeirra, árangur og skilvirkt eftirlit ef fyrirkomulagið væri einfaldað með því að sameina þær. Geti menn náð sama árangri með því að auka samstarfið skal ég ekki standa í vegi fyrir því. Ég fagna viðleitni ráðherrans til þess að íhuga þessi mál og gera úrbætur til að efla þær eftirlitsstofnanir sem skipta okkur svo miklu máli.