142. löggjafarþing — 26. fundur
 11. september 2013.
aukið skatteftirlit.

[15:25]
Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Það hefur verið nokkur umræða í vikunni um eftirlitsiðnað og kostnað við hann. Hv. þm. Framsóknarflokksins, Karl Garðarsson, hefur meðal annars rætt efnið á samfélagsmiðli og vakið athygli á því að sumar eftirlitsstofnanir hafa vissulega í för með sér kostnað en eru til þess að tryggja ríkissjóði tekjur. Hann vekur athygli á því að hann hafi tekið skatteftirlit upp hér á sumarþinginu og lagt áherslu á það við fjármálaráðherra að verulega auknu fjármagni yrði varið til skatteftirlits. Hann virtist ekki vera þeirrar skoðunar, segir hv. þingmaður síðan og á þá væntanlega við hæstv. fjármálaráðherra. Ég vildi af því tilefni inna hæstv. fjármálaráðherra eftir því hvort það geti verið rétt að fjármálaráðherra telji það ekki vera mikilvægt forgangsverkefni að verja auknu fé í bætt skatteftirlit eins og við höfum verið að gera á undanförnum árum. Og hvort við megum ekki eiga von á því á komandi vetri að skatteftirlitið verði eflt því að ég held að víðtæk samstaða sé um það í samfélaginu að það sé sannarlega mikilvægt verkefni og sannarlega borgi það sig fyrir ríkissjóð vegna þess að margsinnis hefur verið sýnt fram á að hver króna sem varið er í skatteftirlit skilar sér margfalt í auknum skatttekjum í ríkissjóð. En auðvitað líka í sanngjarnara samfélagi og eðlilegri samkeppnisaðstæðum fyrir venjuleg fyrirtæki og fólkið í landinu.

Mér hefur þótt það til fyrirmyndar hvernig hv. þm. Karl Garðarsson hefur tekið þessi mál upp hér á fyrstu dögum þings á nýju kjörtímabili og vona svo sannarlega að ekki sé ágreiningur á milli stjórnarflokkanna um það hvort efla eigi skatteftirlit. Það getur varla verið svo að það séu þingmenn Framsóknarflokksins einir sem hafi áhuga á því að efla skatteftirlit og hæstv. fjármálaráðherra sé á móti því að efla skatteftirlitið í landinu. Eða hvað, hæstv. fjármálaráðherra?



[15:27]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Á þinginu í sumar tók ég fram að í fjármálaráðuneytinu yrði ekki gerð sama hagræðingarkrafa gagnvart eftirlitsaðilum líkt og skatteftirlitinu eins og víða væri annars staðar í stofnunum sem heyra undir ráðuneytið. Með því er ég fyrir mitt leyti meðal annars að taka undir mikilvægi þess að skatteftirlit í landinu sé skilvirkt.

Ég get hins vegar ekki tekið undir þau orð hv. þingmanns að hver króna sem við verjum til viðbótar í skatteftirlit muni alltaf skila sér, ef ég skildi hann rétt, margfalt til baka. Einhvern tíma hljótum við að vera komin á ytri mörkin í þeim efnum. Ég held líka að við eigum að nálgast þessa umræðu kannski ekki út frá því hvort við eigum endalaust að auka við skatteftirlit heldur að horfa á þetta aðeins í breiðara samhengi og spyrja okkur hvernig við getum tryggt skilvirka skattframkvæmd, hvernig við getum hagað skattareglum þannig að það lágmarki líkurnar á undanskotum. Við erum síðan öll sammála um að huga þarf að samkeppnisstöðu fyrirtækjanna í landinu og einstaklinga reyndar líka, tryggja það þannig að í framkvæmd komist menn ekki auðveldlega með að skjóta sér undan skattskyldum. Ég vil segja fyrir mitt leyti að það sem ég hef séð til skatteftirlits í landinu undanfarin ár virðist hafa verið að skila góðum árangri eins og hv. þingmaður kom inn á. Það þýðir hins vegar ekki að við eigum alltaf að halda endalaust áfram í að bæta fjármunum þangað.

Við eigum einnig að horfa til fleiri kerfisbreytinga sem við getum gripið til. Skatteftirlit birtist ekki bara í því sem gerist hjá ríkisskattstjóra, það birtist líka víða annars staðar; í því hvernig við förum með rannsókn mála, hversu langan tíma slík mál taka, hversu skýr eru fordæmin sem fyrir liggja í dómskerfinu, hversu fljótt er svarað beiðnum (Forseti hringir.) um bindandi álit o.s.frv. (Forseti hringir.) Skattkerfið í heild sinni verður að svara slíkum spurningum.



[15:29]
Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Svör hæstv. fjármálaráðherra valda mér nokkrum vonbrigðum, ég átti ekki von á því að fjármálaráðherra staðfesti það héðan úr ræðustól að hann teldi ekki að það ætti að auka og efla skatteftirlit frá því sem nú er og að hæstv. ráðherrann tali um það að menn geti þar verið komnir að ytri mörkum. Er það rétt skilið að hæstv. fjármálaráðherra telji að við séum komin að ytri mörkum í skatteftirliti?

Er það ekki hafið yfir allan vafa að skattundanskot eru veruleg og að aukið eftirlit mun klárlega skila auknum skatttekjum í ríkissjóð í miklu meiri mæli en kostað er til? Hefur hæstv. fjármálaráðherra kannski hugsað sér að draga úr skatteftirliti frá því sem nú er? Telur hann að við séum komin of langt í því efni eða hvernig á að skilja hæstv. fjármálaráðherra í þessum efnum?



[15:30]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég hélt að það væri ekki hægt að snúa út úr þeim orðum sem ég hafði hér áðan að ég gerði ekki sömu hagræðingarkröfu á ríkisskattstjóra, sem fer með skatteftirlit, eins og aðrar stofnanir. Í því felst ákveðin stefnumörkun og með því er tekið undir það að skatteftirlit í landinu skipti verulega miklu máli.

Ég trúi því hins vegar ekki að fyrir hverja krónu sem við mundum í framtíðinni bæta í skatteftirlit fengjum við ávallt margfalt fleiri krónur til baka. Einhvers staðar hljóta ytri mörkin að vera. Eða hvers vegna eigum við þá ekki bara endalaust að auka við skatteftirlit í landinu til að stórgræða á því þegar upp er staðið? Hvers vegna ekki að setja 10 milljarða til að græða 100? Slík röksemdafærsla gengur ekki upp.

Það eru engin áform uppi um að draga úr skatteftirliti. Ég hef hins vegar áhuga á því að skoða þessi mál í breiðara samhengi og skoða hvað við getum gert í skattframkvæmdinni, þar með talið í lagasetningunni, til þess að lágmarka undanskot, tryggja betra jafnræði (Forseti hringir.) og hámarka tekjur ríkisins.