142. löggjafarþing — 26. fundur
 11. september 2013.
Hagstofa Íslands, 2. umræða.
stjfrv., 14. mál (upplýsingar um fjárhagsmálefni). — Þskj. 14, nál. 107 og 109, brtt. 108.

[16:42]
Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Líneik Anna Sævarsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 163/2007, um Hagstofu Íslands og opinbera hagskýrslugerð, með síðari breytingum (tölfræðilegar upplýsingar um skuldir heimila og fyrirtækja).

Nefndin hefur rætt frumvarpið á allmörgum fundum, fengið til sín yfir 30 gesti og fyrir liggja umsagnir frá 18 aðilum.

Nefndin fjallaði á fundum sínum um þær breytingar sem frumvarpið felur í sér og varða heimildir Hagstofu til að safna saman upplýsingum um einstaklinga og lögaðila. Fyrir nefndinni komu fram sjónarmið um fjölmörg álitaefni sem frumvarpið felur í sér, m.a. varðandi stjórnarskrárvarin réttindi um friðhelgi einkalífs, hversu víðfeðma söfnun persónuupplýsinga það felur í sér, hverju hafi verið ætlað að ná fram með því og hvers vegna og hvort meðalhófs sé gætt við útfærsluna, þ.e. hvort unnt hefði verið að fara einfaldari og viðurhlutaminni leið til að ná fram því markmiði sem að er stefnt. Þá var einnig rætt hvort upplýsingarnar mundu í reynd nýtast stjórnvöldum til stefnumótunar um viðbrögð við skuldavanda heimilanna og við mat á árangri þeirra úrlausna. Einnig fjallaði nefndin sérstaklega um þá almannahagsmuni sem í húfi eru svo að vel takist til við framkvæmdina auk öryggisþáttarins sem tengist meðferð gagnanna.

Þegar nefndin hafði farið yfir öll álitaefni málsins var niðurstaða meiri hluta að leggja fram breytingartillögu við frumvarpið þar sem komið er til móts við þau álitaefni sem fram komu, og fyrir liggur ítarlegt nefndarálit meiri hlutans þar sem gerð er grein fyrir því hvernig einstökum athugasemdum er mætt. Nefndarálitið er kaflaskipt og þar er fjallað um söfnun persónuupplýsinga, friðhelgi einkalífs, almannahagsmuni, tengsl við vinnu sérfræðingahóps um skuldavanda heimilanna, tímanlegar upplýsingar, meðalhóf, alþjóðavettvang, vinnslu persónuupplýsinga, öryggi gagna, varðveislu og flutning gagna, eyðingu gagna og eftirlit við úrvinnslu, þagnarskyldu og tímaramma.

Meiri hluti nefndarinnar taldi mikilvægt að afmarka markmið betur og er það gert í breytingartillögunni. Efnahagsmál, ríkisfjármál og fjárhagsstaða heimila og fyrirtækja geta talist til málefna þar sem mikilvægir almannahagsmunir eru í húfi. Íslensk heimili eru meðal þeirra skuldsettustu í heiminum og því er ljóst að knýjandi þörf er fyrir gagnasöfnun af þessu tagi.

Bent hefur verið á að mikið af þeim gögnum sem hér er ætlunin að afla séu tiltæk á Hagstofunni en í þau gögn vantar m.a. upplýsingar um grunnforsendur lána og greiðslubyrði auk þess sem þau eru ekki tiltæk fyrr en eftir álagningu skatta næsta ár á eftir. Telur meiri hluti nefndarinnar ljóst að markmið frumvarpsins næðust ekki með viðaminni upplýsingasöfnun svo sem úrtaki eða vali um þátttöku. Hins vegar er mikilvægt að afmarka hvaðan upplýsinga er aflað og hvaða upplýsinga er aflað. Upplýsingavinnsla af þessu tagi er víða framkvæmd í löndunum í kringum okkur þó að breytilegt sé hver fari með þá vinnslu.

Þá er meiri hluti nefndarinnar sammála því að mikilvægt sé að tryggja örugga söfnun, flutning og varðveislu gagna og að gögnum verði eytt að vinnslu lokinni.

Þá ætla ég að fara yfir breytingartillöguna. Upphaflega frumvarpið er í sex greinum. Með breytingartillögunni er lagt til að 1.–4. gr. og 6. gr. falli brott, en þess í stað verði meginefni þeirra greina sett fram í bráðabirgðaákvæði.

Hins vegar stendur 5. gr. óbreytt en hún hljóðar svo:

„Á eftir 2. málsl. 1. mgr. 10. gr. laganna kemur nýr málsliður sem orðast svo: Óheimilt er að afhenda þær öðrum stjórnvöldum, ákvæði annarra laga um aðgang stjórnvalda að gögnum víkja fyrir þessu ákvæði og þær lúta ekki aðgangi samkvæmt upplýsingalögum.“

Með þessari viðbót við eldri lög um Hagstofu Íslands er tekinn af allur vafi um að Hagstofunni er aldrei heimilt að afhenda öðrum gögn sem snerta tilgreinda einstaklinga eða lögaðila.

Þá er í breytingartillögunni lagt til að á eftir 11. gr. laganna um Hagstofu Íslands komi ný grein, 11. gr. a, svohljóðandi:

„Brjóti starfsmenn Hagstofu Íslands gegn þagnarskylduákvæðum 10. og 11. gr. fer um refsiábyrgð samkvæmt ákvæðum almennra hegningarlaga um brot í opinberu starfi. Þegar um er að ræða upplýsingar sem falla undir 58. gr. laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, varðar brot sektum eða fangelsi allt að tveimur árum nema þyngri refsing liggi við broti samkvæmt sérlögum eða öðrum lögum.“

Með þessari grein er tryggt að sömu reglur gilda um þagnarskyldu varðandi trúnaðargögn hjá Hagstofunni og hjá fjármálastofnunum og öðrum er sýsla með slík gögn.

Loks er í breytingartillögunni lagt til að við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða þar sem meginefni frumvarpsins er sett fram. Það hljóðar svo:

„Stjórnvöldum er heimilt að greina skulda-, greiðslu- og eiginfjárstöðu heimila og lögaðila með það að markmiði að stuðla að því að ákvarðanir um úrræði í þágu skuldugra heimila og lögaðila byggist á traustum grunni. Í því skyni er Hagstofu Íslands veitt heimild til að afla upplýsinga og vinna úr þeim samkvæmt ákvæði þessu í þeim tilgangi að vinna tölfræðiskýrslur sem nýtast til að fylgjast með framgangi og meta áhrif aðgerða stjórnvalda og annarra á hag heimila og lögaðila. Tölfræðiskýrslurnar skulu byggjast á gagnasöfnun sem tekur til lána sem eru útistandandi frá 1. janúar 2012 til 31. desember 2017. Þó er einnig heimilt að afla upplýsinga um lán sem hafa verið greidd upp eða hefur verið breytt vegna úrræða í þágu skuldara allt frá 31. desember 2006.

Hagstofu Íslands er heimilt að kalla eftir upplýsingum frá Íbúðalánasjóði, fjármálafyrirtækjum, þ.m.t. þeim sem stýrt er af skilanefnd, slitastjórn eða bráðabirgðastjórn samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, lífeyrissjóðum, Lánasjóði íslenskra námsmanna og öðrum fyrirtækjum og opinberum aðilum, sem stunda lánastarfsemi í atvinnuskyni eða samkvæmt lögum, um lánveitingar þeirra til einstaklinga og lögaðila. Undir slíka upplýsingagjöf falla einvörðungu upplýsingar um grunnforsendur láns, þ.e. hver sé lántaki, stöðu láns, skilmála, upphafs- og lokagjalddaga, fjölda afborgana, vaxtakjör, tegund lántöku, afborganir og innáborganir, verðbætur og áfallna vexti, greiðslueiginleika, veð og tryggingar að því er varðar lán til húsnæðiskaupa, vanskil og úrræði í þágu skuldara sem tengjast láninu, auk upplýsinga um uppgreiðslu. Hagstofu Íslands er heimilt að tengja upplýsingar sem fengnar eru á grundvelli þessarar málsgreinar við upplýsingar sem hún hefur aflað frá öðrum opinberum aðilum, sbr. 9. gr. Á grundvelli upplýsinga samkvæmt þessari málsgrein er Hagstofu Íslands heimilt að gefa með reglulegu millibili út tölfræðiskýrslur um fjárhag heimila og lögaðila. Hagstofa Íslands skal tryggja að upplýsingaöflun, samtenging og úrvinnsla gangi ekki lengra en þörf krefur til að þjóna markmiðum skv. 1. mgr. og tryggja að ekki verði unnt að rekja upplýsingar í birtum skýrslum eða rannsóknum til einstaklinga, heimila eða lögaðila.

Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. 58. gr. laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, og önnur lagaákvæði um þagnarskyldu er lögaðilum skv. 2. mgr. skylt að afhenda Hagstofu Íslands umbeðnar upplýsingar. Afhending upplýsinga skal vera án endurgjalds.

Tryggja skal að fyllsta öryggis sé gætt við sendingu og meðferð upplýsinga sem Hagstofa Íslands aflar á grundvelli 2. mgr. Setja skal öryggisstefnu, framkvæma áhættumat og gera aðrar öryggisráðstafanir til samræmis við 11.–13. gr. laga nr. 77/ 2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, og reglur sem settar hafa verið á þeim grundvelli.

Hagstofa Íslands skal eyða gögnum sem hægt er að rekja til einstaklinga, heimila eða lögaðila einu og hálfu ári eftir fyrstu útgáfu á niðurstöðum hvers tímabils og eigi síðar en í árslok 2018. Persónuvernd skal hafa eftirlit með eyðingu gagnanna.

Ákvæði þetta fellur úr gildi 31. desember 2018.“

Í bráðabirgðaákvæðinu er markmið frumvarpsins sett skýrt fram, verkefnið afmarkað í tíma, skilgreint hvaðan upplýsinga er aflað og hvaða upplýsinga er aflað og að upplýsingarnar verði nýttar til að gefa út tölfræðiskýrslur. Þá er mælt fyrir um öryggi við meðferð ganga, m.a. með vísan í lög og reglur um persónuvernd og Persónuvernd falið eftirlit með eyðingu gagnanna.

Með því að setja meginefni frumvarpsins fram í bráðabirgðaákvæði þar sem verkefnið er betur afmarkað er tekinn af allur vafi um að hér sé um tímabundna heimild að ræða sem nær yfir afmarkað verkefni sem mun ljúka með eyðingu allra persónulegra upplýsinga sem safnað er vegna rannsóknarinnar.

Meiri hluti nefndarinnar bendir á að það eru brýnir hagsmunir almennings að tölfræðilegar upplýsingar um skuldir heimila og fyrirtækja liggi fyrir þegar verið er að ráðstafa almannafé til þess að mæta skulda- eða greiðsluvanda einstakra hópa. Vinnan sem frumvarpið mælir fyrir um er brýn fyrir heimilin í landinu. Með frumvarpinu er Hagstofu Íslands, sem nýtur trausts við tölfræðilega úrvinnslu gagna, falið verkefnið og skýrt er kveðið á um öryggi við meðferð gagna og að gögnunum sé eytt að vinnslu lokinni.

Ég vil þakka nefndinni fyrir góða vinnu í þessu máli þar sem allir lögðust á eitt við að skýra álitaefnin. Að öllu framansögðu virtu leggur meiri hluti allsherjar- og menntamálanefndar til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem gert hefur verið grein fyrir og lagðar eru til í sérstöku þingskjali.

Undir þetta nefndarálit skrifar sú sem hér stendur og hv. þm. Jóhanna María Sigmundsdóttir, hv. þm. Vilhjálmur Árnason, hv. þm. Elsa Lára Arnardóttir og hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir.



[16:53]
Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ítarlega yfirferð á nefndaráliti í þessu máli. Mig langar að inna hv. þingmann eftir því er varðar umsögn Persónuverndar um þetta mál. Í umsögn Persónuverndar segir m.a., með leyfi forseta:

„Með vísan til framangreinds lýsir Persónuvernd, í ljósi 71. gr. stjórnarskrárinnar og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, yfir áhyggjum af þeirri víðtæku vinnslu persónuupplýsinga sem ráðgerð er í frumvarpi þessu. Persónuvernd hefur efasemdir um nauðsyn þess að komið sé á fót opinberum gagnagrunni með jafn víðtækum persónuupplýsingum og hér um ræðir til þess að grípa megi til aðgerða til að greiða úr fjárhagsvanda fjölskyldna og einstaklinga.“

Það sem sagt liggur fyrir í umsögninni að Persónuvernd telur að sú útfærsla sem valin er í þessu frumvarpi fari í bága við bæði stjórnarskrá og mannréttindasáttmála Evrópu.

Það má skilja á ræðu hv. þingmanns og nefndaráliti meiri hlutans að komið sé til móts við þessi sjónarmið og þessa gagnrýni með því að takmarka gildistímann við fjögur ár. Þá hljóta menn að velta upp einni spurningu og ég vil inna hv. þingmann eftir skoðun hans á því: Er sem sagt í lagi að fara í bága við stjórnarskrá og mannréttindasáttmála Evrópu ef það er bara til tiltekins tíma, í þessu tilfelli fjögurra ára? Er það sem sagt í lagi? Var verið að koma til móts við upphaflega annmarka á frumvarpinu sem átti að gilda um alla eilífð með því að takmarka tímann sem á að fara í bága við stjórnarskrána og mannréttindasáttmála Evrópu við fjögur ár? Ég vil inna hv. þingmann eftir því hvort það sé viðhorf meiri hlutans sem skrifar undir þetta nefndarálit að það sé í lagi þegar um takmarkaðan tíma er að ræða.



[16:55]
Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Líneik Anna Sævarsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Spurt er hvernig komið sé til móts við sjónarmið Persónuverndar. Í nefndaráliti meiri hluta segir:

„Meiri hlutinn leitaði álits Persónuverndar á þeim breytingum sem hann leggur til að gerðar verði á frumvarpinu. Í umsögn Persónuverndar segir: ,,Í umræddri tillögu að breytingu á frumvarpinu er nánar fjallað um hvernig öryggis verði gætt við vinnslu umræddra upplýsinga, auk þess sem varðveislutími er afmarkaður, mælt fyrir um eyðingu og skýrar tilgreint hjá hverjum upplýsinga um útlán verði aflað og hvaða upplýsinga.“ Að þessu leyti hefur að mati meiri hlutans verið komið til móts við athugasemdir Persónuverndar.“



[16:56]
Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég tel þetta frá mínum bæjardyrum séð alls ekki fullnægjandi vegna þess að athugasemd Persónuverndar, hvað sem líður meðferð upplýsinganna, eyðingu þeirra og öðru slíku, lýtur að grundvallarþáttum sem er hvort lagaheimildin sem hér er lögð til samrýmist 71. gr. stjórnarskrárinnar eða fari í bága við hana eða 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Það er niðurstaða Persónuverndar að umrætt frumvarp, eins og það er, fari í bága við þessa grundvallarþætti í stjórnskipan okkar.

Þá er að mínu viti lausnin á því ekki sú að setja einhverjar reglur um það hvernig á að meðhöndla upplýsingarnar, hvernig á að eyða þeim og hver á að gera það o.s.frv. Það er bara ekki svar við þessari gagnrýni Persónuverndar. Það er ekki hægt að svara henni öðruvísi en að taka á því sem Persónuvernd er að segja, þ.e. því er varðar stjórnarskrána og mannréttindasáttmála Evrópu. (Forseti hringir.) Það er ekki gert í nefndaráliti meiri hlutans og ekki í breytingartillögum hans.



[16:57]
Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Líneik Anna Sævarsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það sem málið snýst um er hvort hagsmunir almennings séu meiri af því að þessi gagnasöfnun fari fram og að markmið hennar sé skýrt eða af persónuvernd. Það er mat meiri hluta nefndarinnar að þörfin fyrir þessar upplýsingar hafi verið rökstudd eins og fram kemur í breytingartillögunni þannig að það sé skýrt að knýjandi almannahagsmunir séu fyrir því að þessi upplýsingasöfnun fari fram og á þeim rökstuðningi byggjum við okkar álit.



[16:58]
Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir framsöguna. Þegar hefur komið fram í andsvari hv. þm. Árna Þórs Sigurðssonar kjarni þeirra álitamála sem upp hafa komið í umræðunni í hv. allsherjar- og menntamálanefnd.

Spurningin er nefnilega þessi: Er ljóst að markmiðið náist ekki með vægari hætti? Hv. þingmaður fullyrðir að svo sé, að ljóst sé að markmið frumvarpsins náist ekki með vægari hætti, þ.e. með úrtaksaðferðinni, en það er ekki rökstutt í nefndarálitinu.

Ég vil líka nefna í því sambandi, virðulegur forseti, að Persónuvernd fjallaði um málið á þremur tímapunktum. Í fyrsta lagi þegar upphaflegt frumvarp lá fyrir, síðan með breytingum og loks nú á lokametrunum þegar síðasta útgáfa frumvarpsins lá fyrir.

Þá segir Persónuvernd, með leyfi forseta:

„Fyrrgreind umsögn Persónuverndar, dags. 25. júní 2013, byggist m.a. á því að óljóst sé hvers vegna umrædd upplýsingaöflun sé nauðsynleg til að ná markmiðum frumvarpsins. Persónuvernd telur þá forsendu enn eiga við og áréttar því fyrri umsögn hvað það varðar.“

Það er að segja, það skortir á rökstuðning fyrir nauðsyn þessarar upplýsingasöfnunar, sem af ákvæðum frumvarpsins er ljóst að er mjög víðtæk, óþarflega víðtæk miðað við markmiðin, og þess vegna hefur ekki með fullnægjandi hætti verið dregið fram og rökstutt að almannahagsmunir séu nægilega ríkir til þess að farið sé í svo viðamikla upplýsingasöfnun sem hér er lögð til. Breytingar við vinnslu nefndarinnar undanfarnar virkur og daga hafa ekki dugað til þess að koma til móts við sjónarmið Persónuverndar. Það liggur fyrir í umsögn stofnunarinnar sjálfrar.



[17:01]
Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Líneik Anna Sævarsdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Frekari rökstuðning fyrir breytingartillögunni er að finna í nefndaráliti meiri hlutans. Þar segir m.a., með leyfi forseta:

„Nýta á tölfræðiskýrslur sem Hagstofunni er falið að afla og vinna með til að meta áhrif aðgerða stjórnvalda og annarra breytinga á hag heimila og fyrirtækja. Það er mat meiri hlutans að einsýnt sé að þessar úrlausnir varði meðferð almannafjár og því nauðsynlegt að þær byggist á traustum grunni og vönduðum upplýsingum. Efnahagsmál, ríkisfjármál og fjárhagsstaða heimila og fyrirtækja geta talist til málefna þar sem mikilvægir almannahagsmunir eru í húfi.“



[17:01]
Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Spurningunni er ósvarað. Það er ekki ljóst að markmiðið náist ekki með vægari hætti, þ.e. með úrtaksaðferðinni. Það dugar ekki að nota orð eins og „einsýnt“ eða eitthvað slíkt í nefndaráliti til að víkja slíkum vangaveltum til hliðar. Enn þá er vakandi sú spurning að unnt væri að ná sömu markmiðum með vægari hætti, þ.e. með úrtaki, og að ekki sé nauðsynlegt að fara svo bratt sem hér er lagt til inn á friðhelgi einkalífsins og persónuverndarsjónarmið, sem er hluti af grunnlöggjöf samfélagsins, af stjórnarskrá Íslands. Það er því ekki eitthvað sem maður gerir að gamni sínu að fara á svig við þau sjónarmið. Ég lýsi því enn eftir röksemdum fyrir því að úrtaksaðferðin dugi ekki til að ná sömu markmiðum og að úrtaksaðferðin teljist vandaðar upplýsingar.



[17:02]
Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Líneik Anna Sævarsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Svo ég vitni aftur í nefndarálit:

„Fyrir nefndinni voru einnig þau sjónarmið reifuð hvort ekki væri hægt að ganga skemur í öflun upplýsinga með því að velja úrtak úr gögnunum. Meiri hlutinn bendir á að þrátt fyrir að farin yrði sú leið að velja úrtak þyrfti engu síður að afla þeirra heimilda sem frumvarpið felur í sér. Jafnframt kom það fram við meðferð frumvarpsins í nefndinni að ef ætti að fara þá leið að velja úrtak yrði það að vera mjög stórt, eða um 30.000 heimili eða um 70.000 manns, til þess að niðurstöðurnar yrðu marktækar. Meiri hlutinn telur að með því að velja úrtak aukist hætta á því að upplýsingarnar verði persónugreinanlegar.“



[17:03]
Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. framsögumanni fyrir greinargerðina fyrir málinu. Þetta er málefni sem er ástæða til að hafa fullan skilning á og við reyndum oft að fást við á síðasta kjörtímabili, það þyrfti betri upplýsingar til þess að ráðast í aðgerðir í skuldamálunum, en persónuverndarsjónarmið og hættan á því að brjóta gegn stjórnarskrá lýðveldisins kom kannski helst í veg fyrir að þar yrði farið lengra en gert var.

Þess vegna verður að spyrja, eins og framsögumaðurinn gerir, um almannahagsmuni sem hér eru annars vegar. Það kom mér á óvart við umfjöllun í nefndinni þar sem ég sat einn fund, að þar kom fram að nefnd ríkisstjórnarinnar um aðgerðir í skuldamálum ætli að leggja fram tillögur um aðgerðir nú í nóvember án þess að hafa þessar upplýsingar á borðinu. Það virðist eiga að taka ákvörðun um aðgerðirnar án þess að hafa þær upplýsingar þannig að þetta sé eftiráupplýsingasöfnun. Þá spyr maður sig: Eru þessir ríku almannahagsmunir fyrir hendi ef ekki á að nota þessar upplýsingar til að taka sjálfar ákvarðanirnar í nóvember?

Hins vegar, um þann rökstuðning sem hv. þingmaður vísar til varðandi úrtakið, þá nota Norðmenn úrtök til að afla slíkra upplýsinga. Meiri hlutinn vísar til þess að jú, það þyrfti að vera stórt úrtak, 30 þúsund manns og það þyrfti lagaheimildir. En það eru engin önnur sjónarmið sem koma fram sem neinu skipta. Þess vegna virðist vera algjörlega augljóst að með stóru úrtaki, 30 þúsund heimila úrtaki, væri vissulega hægt að ná í meginatriðum sömu markmiðum, væru veittar lagaheimildir til þess. Þá er augljóslega skemur gengið á friðhelgi einkalífs og persónuvernd en gert er ráð fyrir í þessu frumvarpi þar sem gert er ráð fyrir því að safna öllum upplýsingum um alla.

Þá spyr maður sig hvort ekki sé augljóst á málinu eins og það er hér búið að það gangi of langt á réttindi þau sem einstaklingum eru tryggð í mannréttindasáttmála Evrópu og í stjórnarskrá íslenska lýðveldisins. (Forseti hringir.) Við þurfum að gæta að virðingu þingsins, því aldrei setur hana niður eins og þegar (Forseti hringir.) þingið gengur gegn stjórnarskrá lýðveldisins.



[17:06]
Forseti (Silja Dögg Gunnarsdóttir):

Forseti minnir hv. þingmenn á að nota viðeigandi ávarpsorð í ræðum sínum.



[17:06]
Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Líneik Anna Sævarsdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mig langar að rifja upp það sem hv. þm. Helgi Hjörvar kom inn á hér að í kjölfar efnahagshrunsins 2008 beindist athygli stjórnvalda m.a. að skuldavanda heimilanna. Á 138. löggjafarþingi 2009–2010 og á 139. löggjafarþingi 2010–2011 voru lögð fram frumvörp efnahags- og viðskiptaráðherra til laga um rannsókn á fjárhagsstöðu skuldugra heimila. Þau frumvörp hlutu ekki brautargengi.

Um mitt ár 2011 var settur á stofn vinnuhópur Hagstofu Íslands, Seðlabanka Íslands, Fjármálaeftirlitsins og efnahags- og viðskiptaráðuneytis til að huga að því hvernig að þeim málum skyldi staðið. Lagði vinnuhópurinn fram tillögu um að Hagstofunni yrði falið það verkefni að safna og vinna tölfræði um skuldir heimila og fyrirtækja. Með samþykkt ríkisstjórnarinnar í október 2011 og með varanlegri fjárveitingu til Hagstofu Íslands var stofnuninni falið að vinna reglulega nýja tölfræði um fjárhagsstöðu heimila og fyrirtækja og birta ársfjórðungslega. Þá var ekki þörf á neinum sérstökum reglum um hvernig það yrði gert.



[17:08]
Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég beindi tveimur spurningum til hv. þingmanns og hvorugri var svarað eða reynt að svara.

Það er alveg rétt að um þetta voru flutt mál á síðasta kjörtímabili enda tók ég sérstaklega fram að við í Samfylkingunni höfum fullan skilning á mikilvægi þess að afla upplýsinga til að taka ákvarðanir um aðgerðir í málefnum skuldugra heimila. En það sem skýtur skökku við er að það virðist eiga að gera tillögur um aðgerðirnar núna í nóvember en að þær upplýsingar sem hér er verið að afla lagaheimilda fyrir munu ekki liggja fyrir fyrr en í vor. Þess vegna virðist upplýsinganna ekkert þörf til að taka ákvarðanir um aðgerðir. Maður spyr því um almannahagsmunina í þessu og maður spyr líka um af hverju er ekki farið í úrtaksaðferðina sem meiri hlutinn virðist vera að lýsa yfir að muni skila, ef í úrtakinu eru 30 þúsund heimili, álíka góðum árangri.

Að síðustu hlýt ég þá að spyrja hv. framsögumann: Hefur Persónuvernd lagt blessun sína yfir málið með þeim breytingum sem meiri hlutinn hefur gert? Liggur fyrir að stjórn Persónuverndar telji ekki að hér sé óhæfilega langt gengið í því að skerða persónufrelsi? Það er vandamálið sem við höfum alltaf verið að fást við.



[17:09]
Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Líneik Anna Sævarsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rétt að tillögur sérfræðingahóps eiga að liggja fyrir í nóvember og tillögur annars hóps í desember. En hv. þingmaður benti réttilega á að ákvarðanir eru ekki teknar endilega um leið og tillögur liggja fyrir. Með tillögur þarf að vinna og fljótlega á nýju ári koma fyrstu tölur frá Hagstofunni, verði þetta frumvarp að lögum. Þá er hægt að byggja ákvarðanir á þeim upplýsingum, þeirri tölfræði sem þar kemur fram ásamt því að fylgjast með áhrifum þeirra ákvarðana sem teknar verða.

Af hverju ekki úrtak? Ég rakti það að hluta áðan en svo er ýmislegt sem bendir til að það yrði íþyngjandi, það yrði meira íþyngjandi fyrir fjármálastofnanir og einstaklinga ef úrtaksaðferðin yrði valin. Þá yrði hugsanlega að senda út spurningalista og ýmislegt annað (Forseti hringir.) bendir til þess.

Varðandi afstöðu Persónuverndar vísa ég til þess (Forseti hringir.) sem ég las upp hér áðan.



[17:10]
Frsm. minni hluta allsh.- og menntmn. (Helgi Hrafn Gunnarsson) (P):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir minnihlutaáliti hv. allsherjar- og menntamálanefndar. Ég vil byrja á að þakka hið góða samstarf í nefndinni. Samstarfið var mjög gott og þótt við höfum endað á því að vera ekki á sömu línu voru öll samskipti með afbrigðum prýðileg og allt starf mjög faglega unnið, þökk sé hv. þm. Unni Brá Konráðsdóttur.

Það voru veigamikil atriði sem við gátum ekki komið okkur saman um þótt mikið hafi verið lagt í að taka tillit til margra athugasemda sem komu fram og þau hafi verið löguð. Til þess að því sé haldið til haga ætla ég að renna yfir minnihlutaálitið eins og það kemur fyrir.

Minni hlutinn telur mikilvægt að stjórnvöld á hverjum tíma geti byggt ákvarðanir sínar á vönduðum upplýsingum og réttum forsendum, en umrætt frumvarp er lagt fram með það að markmiði. Því hefur minni hlutinn tekið fullan þátt í að betrumbæta frumvarpið og lagt áherslu á að ná sem víðtækastri sátt. Þær breytingar sem meiri hlutinn hefur lagt fram eru ekki fullnægjandi að mati minni hlutans og telur hann sér ekki fært að styðja frumvarpið óbreytt. Minni hlutinn hefur lýst sig reiðubúinn til þess að starfa með meiri hlutanum og öðrum aðilum við að búa til frumvarp sem uppfyllir markmið um vandaðar upplýsingar en gætir jafnframt með fullnægjandi hætti að persónuvernd og mannréttindum. Minni hlutinn telur hægt að ná sátt um slíkt frumvarp og leggja fram á haustþingi. Verulegir annmarkar þess frumvarps sem hér liggur fyrir og á þeim breytingartillögum sem lagðar hafa verið fram gera hins vegar minni hlutanum ókleift að styðja frumvarpið óbreytt.

Þegar kemur að samræmi við stjórnarskrá lentum við í þeim vandræðum að hér er óneitanlega verið að fara fram yfir heimildir ríkisins samkvæmt 71. gr. stjórnarskrárinnar, sem kveður á um friðhelgi einkalífsins. Undantekningar á því ákvæði er eingöngu hægt að gera ef til staðar eru tiltekin skilyrði. Það þurfa að vera nauðsynlegar aðgerðir, það þarf að vera nákvæm skilgreining á aðgerðunum, tilgangur þeirra þarf að vera skýr — og með skýrum meina ég mjög skýr, hann er ekki skýr hér, vissulega ekki mjög skýr — og gæta þarf meðalhófs, þ.e. sýna þarf fram á að vægari aðgerðir séu ekki til staðar.

Vægari aðgerðir gætu verið mögulegar en við vitum það ekki vegna þess að frumvarpið var mjög greinilega unnið í miklum flýti. Ef maður ber saman upprunalegt frumvarp og hina ágætu breytingartillögu sést að frumvarpið var unnið í miklum flýti og ekki tekið nægilegt tillit til þessara sjónarmiða frá upphafi. Það gerir það að verkum að okkur í hv. allsherjar- og menntamálanefnd hefur ekki tekist að ræða neinar aðrar útfærslur sem gætu verið vægari en þessi. Við höfum bókstaflega ekki haft tímann vegna þess að núna liggur á að koma frumvarpinu í gegn á þessum svokallaða stubbi á sumarþingi í stað þess að taka málið upp á haustþingi þegar við gætum öll unnið saman að frumvarpi sem hugsanlega þyrfti ekki að ganga svona á friðhelgi einkalífsins, því að það eru til leiðir. Mig langar að nefna eina hugmynd varðandi úrtakið. Í vinnu nefndarinnar var úrtakið vissulega rætt af og til og því er haldið fram hér að það hafi verri áhrif hvað varðar friðhelgi einkalífsins.

Virðulegi forseti. Nú í dag eru starfræktar vefsíður á vegum ríkisins sem leyfa auðkenningu yfir netið. Fólk getur skráð sig inn á vefsíðu og getur tilgreint þar ýmsa hluti, t.d. lögheimili eða trúfélag sem það vill tilheyra o.s.frv. Rafrænt samþykki er eitthvað sem við getum gert í dag, það er einn möguleiki. Við ræddum þann möguleika aldrei ítarlega á fundum hv. allsherjar- og menntamálanefndar, einfaldlega vegna þess að ekki var tími til þess. Ef við hefðum tíma, ef við værum að gera þetta á haustþingi er ég sannfærður um að allir flokkar gætu sammælst um aðferðir sem bæði virka og eru lausar við vankanta varðandi friðhelgi einkalífsins og meðalhóf.

Mig langar að lesa aðeins meira upp úr minnihlutaálitinu, með leyfi forseta, um samræmi við stjórnarskrá:

„Minni hlutinn telur ótvírætt og óumdeilt að með frumvarpinu sé gengið inn á stjórnarskrárvarin réttindi til friðhelgi einkalífs, samanber ákvæði stjórnarskrár, ákvæði mannréttindasáttmála Evrópu og umsagnir þeirra sérfræðinga og gesta sem hafa komið fyrir nefndina.

Minni hlutinn áréttar sérstaklega það sem fram kom í umsögn Persónuverndar en þar segir m.a.: „Þær persónuupplýsingar sem frumvarpið fjallar um falla ótvírætt undir friðhelgi einkalífs einstaklinga […] og umrædd vinnsla felur þannig í sér afskipti af þeim réttindum. Verði umrætt frumvarp að lögum mun verða til persónugreinanlegur gagnagrunnur hjá stjórnvöldum með ítarlegum fjárhagsupplýsingum um landsmenn alla sem unnið verður með a.m.k. næstu fjögur árin.“ Síðar í umsögn Persónuverndar segir: „Með vísan til framangreinds lýsir Persónuvernd, í ljósi 71. gr. stjórnarskrárinnar og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, yfir áhyggjum af þeirri víðtæku vinnslu persónuupplýsinga sem ráðgerð er í frumvarpi þessu.““

Það sem mig langar að vekja athygli á er að enginn raunverulegur efnislegur ágreiningur er um að farið er inn á friðhelgi einkalífsins, svo mikið er víst. Eina spurningin sem við eigum að svara þegar kemur að frumvarpinu er: Höfum við réttmætar ástæður til þess? Minni hlutinn telur að svo sé ekki. Meðalhófinu er ekki fullnægt, málsmeðferðin er of hröð, við vinnum þetta of hratt, við vöndum okkur ekki nóg, við höfum ekki skoðað aðra kosti og markmið frumvarpsins er því miður einfaldlega ekki skýrt enn.

Það heyrði til undantekninga að maður spyrði tvo aðila á fundum hv. allsherjar- og menntamálanefndar um tilgang frumvarpsins vegna þess að með svo víðtækri upplýsingasöfnun er hægt að ímynda sér ýmsa og marga kosti. Spyrði maður einn aðila fékk maður jafnvel önnur svör. Það kom auðvitað mest á óvart þegar okkur var sagt af hv. nefnd um lækkun höfuðstóls á húsnæðislánum að þau ætluðu ekki að nota þessar upplýsingar. Það kom okkur — jafnvel mér — svolítið í opna skjöldu.

Mig langar að lesa meira upp úr nefndarálitinu, virðulegi forseti, um markmið frumvarpsins:

„Til að takmarka megi mannréttindi þurfa rökin fyrir því að vera veigamikil og tilgangurinn brýnn. Frumvarpið virðist hafa tvíþættan tilgang. Annars vegar að eiga við meint neyðarástand sem réttlæti þá jafnróttækar aðgerðir og mælt er fyrir um í frumvarpinu og hins vegar að greiða fyrir almennri hagskýrslugerð til aðstoðar við umsýslu á almannafé. Nokkuð er á reiki hvort upplýsingasöfnunin eigi að nýtast við ákvörðunartöku varðandi úrbætur í skuldamálum heimila og fyrirtækja eða við að leggja mat á árangur slíkra aðgerða, nema hvort tveggja sé.

Af umsögnum sem nefndinni bárust og að áliti margra gesta sem komu á fundi nefndarinnar, er ljóst að miklar efasemdir eru uppi um hvort þessi óljósu markmið frumvarpsins teljast nægilega veigamikil rök til að ganga inn á friðhelgi einkalífs með þeim hætti sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu.

Minni hlutinn bendir á í því sambandi að fram kom á fundum nefndarinnar að sérfræðingahópur sem vinnur tillögur um höfuðstólslækkun húsnæðislána getur byggt þær á upplýsingum frá skattyfirvöldum sem byggjast á framtölum. Minni hlutinn telur því einsýnt að sá rökstuðningur fyrir nauðsyn þessarar viðamiklu upplýsingasöfnunar sem frumvarpið felur í sér sé haldlítill.“

Næst langar mig aðeins að lesa um málsmeðferð, virðulegi forseti, með leyfi:

„Frumvarpið sem kom til umfjöllunar allsherjar- og menntamálanefndar var sjö greinar. Í meðförum nefndarinnar var ljóst að frumvarpið var ekki tækt í þeirri mynd sem það var lagt fram. Þrátt fyrir þá vinnu sem hefur farið fram á vettvangi nefndarinnar eru helstu vankantar upphaflegs frumvarps óleystir eins og að framan hefur verið rakið. Þá hefur ekki verið gengið úr skugga um hvort og hvernig frumvarpið samræmist ýmsum alþjóðlegum skuldbindingum og Evrópulöggjöf er lúta að vernd einstaklinga við vélræna vinnslu persónuupplýsinga og við vinnslu og frjálsa miðlun persónuupplýsinga. Að mikilvægi könnunar á þessu var sérstaklega vikið í umsögn Lögmannafélags Íslands um frumvarpið. […] Minni hlutinn lítur enn fremur svo á að engin ástæða sé til þess að hraða málinu á sumarþingi í ljósi þess að gögnin verða ekki nýtt fyrr en eftir að starfshópar um skuldavandann hafa lokið störfum og skilað sínum tillögum.“

Að lokum langar mig bara að lesa niðurlag álitsins, með leyfi, virðulegi forseti:

„Minni hlutinn áréttar þau sjónarmið sem hér hafa verið rakin og telur að enn séu gallar á málinu og ósamræmi enn í skýringum á tilgangi frumvarpsins. Sterkar efasemdir eru uppi um að frumvarpið standist stjórnarskrá og alþjóðlega mannréttindasáttmála. Minni hlutinn bendir á að frumvarpið krefst því mun vandaðri undirbúnings. Rökstuðningur fyrir nauðsyn þeirrar víðfeðmu upplýsingasöfnunar sem frumvarpið felur í sér er enn fyrir hendi að mati Persónuverndar og fleiri aðila. Upplýsingar í skattframtölum ættu að nægja við gerð tillagna um aðgerðir í þágu skuldugra heimila samkvæmt sérfræðihópi forsætisráðherra um höfuðstólslækkun verðtryggðra húsnæðislána.

Minni hlutinn bendir á að til þess að uppfylla kröfur um gæði lagasetningar og í samræmi við þær kröfur sem stjórnarskráin setur þarf að átta sig á til hvers á að nýta upplýsingarnar, hvert markmiðið er. Finna þarf út hvaða upplýsingar það eru sem raunverulega vantar og hvaða leiðir eru mögulegar til að ná því markmiði sem að er stefnt og velja vægustu mögulegu leiðina.

Minni hlutinn ályktar að skynsamlegast væri að allsherjar- og menntamálanefnd tæki málið aftur upp á haustþingi með reynsluna og réttindi borgaranna að leiðarljósi frá upphafi. Þannig telur minni hlutinn að megi búa til frumvarp sem nýtist stjórnvöldum við að meta áhrifin af aðgerðum sínum án þess að brjóta í bága við réttindi almennings til friðhelgi. Það eru minni hlutanum mikil vonbrigði að meiri hlutinn nýti ekki þá samstöðu sem náðist í nefndinni um meginmarkmið frumvarpsins til að ná sátt um útfærsluna.“

Meðalhófið er eitt af því stóra sem stendur eftir í þessu og ég vil benda á að þrátt fyrir meintar pólitískar línur eru fjórir af níu fulltrúum þjóðarinnar ekki sannfærðir um að meðalhófs sé gætt hér. Ég vil ítreka að sönnunarbyrðin hvílir á okkur, á Alþingi sjálfu. Áður en við samþykkjum frumvarpið þurfum við að sanna að við höfum staðið, að við getum og stöndum undir þeirri ábyrgð sem stjórnarskráin ætlast til af okkur.



[17:22]
Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Flutningsmaður þessa máls, hæstv. forsætisráðherra, hefur lýst því yfir að nú standi til að setja heimsmet í aðgerðum í þágu skuldugra heimila í landinu. Hann tekur þar nokkuð dýpra í árinni en hann gerði í kosningabaráttunni í vor og þótti þó mörgum æðimikið um, en látum það liggja á milli hluta.

Nú hefur hv. framsögumaður meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar upplýst í þessari umræðu, og það er nýtt fyrir mér sem ekki sit í þessari nefnd — kannski hefur það komið fram á vettvangi nefndarinnar en það er nýtt fyrir mér — að enda þótt einhver skýrsla frá starfshópi eigi að koma í nóvember eigi aðgerðir í þágu skuldugra heimila ekki að koma til framkvæmda fyrr en einhvern tíma í vor. Þess vegna sé mikilvægt að fá þessa vinnslu frá Hagstofunni þó að hún komi ekki fyrr en í vor.

Það eru nýjar fréttir. Það eru nýjar fréttir fyrir kjósendur Framsóknarflokksins og fólkið í landinu að ekki sé við því að búast að neinar tillögur um aðgerðir í þágu heimilanna komi fyrr en einhvern tíma með vorinu. Í sumar ræddum við það að setja ætti málið í nefnd fram á haust og þá var talað um nóvember. Nú er enn verið að seinka því. Ég tel að það sé eftirtektarvert og þyrfti að greina frá því í fjölmiðlum.

Ég vil spyrja hv. þingmann sem situr í þessari nefnd og er framsögumaður minni hlutans: Komu þessar upplýsingar fram við vinnslu málsins í allsherjar- og menntamálanefnd? Var allsherjar- og menntamálanefnd meðvituð um það alveg frá byrjun — og ef ekki frá byrjun hvenær þá — að ekki stæði til að neinar aðgerðir sem mæta átti með frumvarpinu kæmu til framkvæmda fyrr en með vorinu og þess vegna væri tímasetningin alveg í lagi, að Hagstofan hefði þá tíma fram á vor til þess að vinna þær upplýsingar sem hér er farið fram á að fá?



[17:24]
Frsm. minni hluta allsh.- og menntmn. (Helgi Hrafn Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að viðurkenna að ég hef ekki verið að pæla mjög mikið í því nákvæmlega hvernig háttvirtur Framsóknarflokkur og stjórnarflokkarnir almennt ætla að uppfylla kosningaloforð sín.

Það hefur legið fyrir nefndinni síðan við tókum aftur til starfa í haust að þessar upplýsingar yrðu ekki notaðar til þess að taka ákvarðanir heldur til þess að mæla áhrifin af ákvörðununum.

Hvað varðar desember er sú tímasetning ný fyrir mér, ég heyrði af henni held ég fyrir tveim, þremur dögum. Ég get bara sagt að það kemur mér ekki sérstaklega á óvart, með fullri virðingu fyrir hæstvirtum Framsóknarflokki.



[17:25]
Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Af því að forseti þingsins gengur hér í salinn þá veit ég ekki hvort það á að ávarpa Framsóknarflokkinn háttvirtan, hæstvirtan eða herra eða frú. [Hlátur í þingsal.] Frú maddama kannski, hefði einhvern tíma verið sagt, en það þarf nú að fá botn í þetta og forseti úrskurðar kannski um það á góðum degi.

Mér finnst það sem hér kemur fram vera mikilvægt innlegg. Ég spyr að því hvort nefndin muni fjalla frekar um málið á meðan það er í meðförum þingsins, t.d. þannig að það fari þá til nefndar á milli 2. og 3. umr., vegna þess að það er óhjákvæmilega innlegg í umræðuna. Til hvers á að nota þessar upplýsingar og á hvaða tímapunkti? Fyrir mér stangast hér aðeins á að það er verið að segja. Það var — það var sagt okkur, hefði einhver sagt — okkur var sagt hér í vor og sumar að tillögur um aðgerðir kæmu í nóvember. Nú er sagt að vinna Hagstofunnar fari fram einhvern tíma á vormissirinu þannig að það hangir ekki saman.

Mér finnst þetta undirstrika að ekki þarf þær upplýsingar frá Hagstofunni sem um er beðið í frumvarpinu til þess að klára verkefnið við að vinna að aðgerðum í þágu skuldsettra heimila nema sú tilgáta sé rétt að allar aðgerðir í þágu skuldsettra heimila eigi að bíða eftir vinnu Hagstofunnar sem ljúka á einhvern tíma með vorinu. Þá er alveg undir hælinn lagt miðað við starfsáætlun Alþingis hvort þær aðgerðir verða yfirleitt afgreiddar á næsta þingi eða kannski haustið 2014.



[17:27]
Frsm. minni hluta allsh.- og menntmn. (Helgi Hrafn Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get eiginlega bara talað fyrir mig í þessu efni en fyrir mér vakir fyrst og fremst að sannfæra hið háa Alþingi um að leggja þetta mál til hliðar í bili og taka það aftur upp á haustþingi og þá með betri undirbúningi hv. allsherjar- og menntamálanefndar.

Að því sögðu, ef þetta mál á að fara áfram þykir mér greinilegt að það er ekki tilbúið og nóg að tala um. Í því ljósi er alveg sjálfsagt að ræða það aftur og áfram í nefnd til að reyna að finna þá eitthvað til að gera það skárra. Persónulega hef ég enga trú á því.

Ég held að hvíla þurfi málið, við þurfum að byrja upp á nýtt og íhuga aðrar leiðir alveg frá grunni. Ég hef ekki trú á þessu frumvarpi.



[17:28]
Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Helga Hrafni Gunnarssyni, framsögumanni minnihlutaálitsins, fyrir ágætisyfirferð yfir afstöðu minni hlutans og jafnframt þakka ég fyrir gott samstarf í nefndinni. Þetta hefur verið áhugaverður og líflegur tími og við höfum að mínu mati farið í sameiningu ágætlega yfir málin og reynt að nálgast hvert annað eftir því sem hægt er.

Fram kom fram í máli þingmannsins og í álitinu að menn eru í rauninni sammála um að markmiðin eru ágæt í sjálfu sér, þ.e. að reyna að ná fram einhverjum upplýsingum til þess að stjórnvöld geti byggt á þeim þegar taka á ákvarðanir, en minni hlutinn hefur í raun ekki bent á betri leið. Við erum þar annars vegar með fulltrúa flokka sem áður sátu í ríkisstjórn og höfðu þá veitt fjármuni til Hagstofunnar til þess að fara í þetta verkefni án þess að lögum yrði breytt. Sú leið var ekki fær og þess vegna var byrjað að vinna að máli sem þessu í tíð fyrri ríkisstjórnar. Hins vegar erum við með röksemdir um að allar upplýsingar liggi nú þegar fyrir í skattframtölum. Þess vegna þurfi ekki að gera neitt frekar.

Engu að síður ræddum við hér allt síðasta kjörtímabil, sama úr hvaða flokki við komum, um að til þess að hægt væri að taka vel ígrundaðar ákvarðanir um meðferð á skattfé almennings og ívilnandi ákvarðanir varðandi skuldug heimili og fyrirtæki þyrfti upplýsingar. Um það voru allir sammála og um það eru enn allir sammála, held ég. Menn vilja taka upplýstar ákvarðanir. Mig langar að beina þeirri fyrirspurn til hv. þingmanns sem mælir fyrir nefndarálitinu: Hvaða leið er það nákvæmlega sem menn benda hér á?



[17:30]
Frsm. minni hluta allsh.- og menntmn. (Helgi Hrafn Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka spurninguna. Þetta er spurning sem við hefðum jafnvel átt að spyrja okkur að strax í vor þótt ég geri mér grein fyrir því að aðstæður hafi kannski ekki endilega leyft það. Það er alltaf hægt að leiðrétta mistök, er það ekki?

Hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir spyr hvað hafi ekki verið bent á. Ja, það er til dæmis sú leið að leita að upplýstu samþykki þeirra sem taka þátt í þessari gagnasöfnun. Eitt af vandamálunum við frumvarpið er það að markmiðið er í það minnsta tvíþætt, annars vegar það að afla upplýsinga um skuldara til að hjálpa þeim að leysa sín vandamál og hins vegar almennt til hagskýrslugerðar til að yfirvöld viti hvað þau eru að gera í stuttu máli. Bæði markmiðin eru mjög göfug en það eru mismunandi aðferðir sem samkvæmt stjórnarskrá er leyfilegt að fara. Ef við ætlum að leysa þann vanda að hagskýrslurnar okkar séu ekki nógu skýrar ættum við í raun ekki einu sinni að tala um persónugreinanleg gögn til að byrja með. Þau koma inn í málið þegar við förum að tala um skuldavanda heimilanna og þá neyð sem krefst þess að við söfnum umræddum upplýsingum. Hér eru því í raun tvö upplýsingasöfnunarmál í einum pakka.

Þegar kemur að skattframtölunum — ég hef það nú bara eftir nefndum um lækkun á höfuðstól húsnæðislána að skattframtölin nægi plús einhverjar upplýsingar aðrar sem þær hafi. Ég sel það ekki dýrara en ég keypti það en það er bara eitt dæmi um að við vitum ekki einu sinni nákvæmlega hvaða upplýsingar við viljum til að leysa nákvæmlega hvaða markmið — en ég hef það eftir þeirri nefnd.



[17:32]
Páll Valur Björnsson (Bf):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því eins og margir aðrir sem sitja í þessari nefnd að þakka það starf sem hefur farið fram í vor og svo núna eftir að við byrjuðum aftur. Þetta er búið að vera virkilega fróðlegt og gott. Það er gott samstarf og góður andi í nefndinni. Fyrir mig sem hef unnið í fiski nánast alla ævi er eins og að vera í háskóla að sitja í þessari nefnd. Það hefur verið gríðarlegur skóli að reyna að setja sig inn í mál, ekki síst út af því að þetta er mikill lagatæknilegur texti og mjög erfitt fyrir svo óreyndan mann eins og mig í þessum málum að setja mig inn í þau.

Það sem mér finnst aðalmálið í þessu er allur sá fjöldi sem kom til okkar og talaði við okkur. Ég spurði ekki mikið í þessari nefnd einfaldlega vegna þess að ég kunni það ekki almennilega. Ég hlustaði meira og ég reyndi að hlusta vel á það sem sagt var. Það kom mjög oft fram og eiginlega alltaf að þetta frumvarp bryti í bága við friðhelgi einkalífsins, það gengi gegn 71. gr. stjórnarskrárinnar og mannréttindasáttmálanum. Það er verið að ganga alla leið. Ég velti því fyrir mér: Er þetta það sem við viljum? Er það það sem við viljum nú, að ríkið geti haft allar upplýsingar um okkur, þær liggi á einhverjum einum stað, allar upplýsingar um mín fjármál eða fjármál allra á Íslandi? Það finnst mér óhugnanleg tilhugsun.

Ég get vel skilið að það þurfi að leita allra leiða til að bæta skuldastöðu heimila í landinu. Ég hef til dæmis margoft sagt það áður að ef ég hefði ekki verið að brölta í pólitík sjálfur hefði ég kosið Framsóknarflokkinn [Hlátur í þingsal.] vegna þess að það voru svo rosalega öflug loforð sem voru gefin. Ég hef sjálfur fundið það á eigin skinni hvað þessi stökkbreyttu lán hafa haft gríðarleg áhrif á minn fjárhag og mitt heimili. Ég vil leggja mig allan fram við að hjálpa ríkisstjórninni að leysa þennan vanda.

Það kom líka fram, eins og hefur komið fram hér áður, að meðal þeirra sem komu til okkar í nefndinni var þessi starfshópur um skuldavanda heimilanna. Þeir sögðu að þeir þyrftu ekkert á þessum upplýsingum að halda til að leiðrétta skuldir heimilanna. Það kom skýrt fram. Ég hélt í einfeldni minni að forsendan fyrir því að hægt væri að ráðast í þennan skuldavanda væru þessar upplýsingar, en þá kom bara í ljós að svo er ekki. Þá spyr maður sig: Til hvers þarf þetta?

Ég hef líka heyrt haft eftir ríkisskattstjóra að allar upplýsingar sem þessi nefnd þarf að hafa liggi fyrir. Þess vegna velti ég fyrir mér: Af hverju erum við að þessu?

Ég vil vitna í einn nefndarmann sem kom inn sem varamaður. Hann er lögfræðingur sem ég ber mikla virðingu fyrir, virtur í samfélaginu. Ég er ekki alltaf sammála honum en hann er virtur. Hann spurði Persónuvernd: Hvar endar þetta? Svarið var: Þetta endar hvergi. Við erum alltaf að ganga lengra og lengra inn á réttindi hvers og eins. Það er óhuggulegt.

Ég er tiltölulega nýr í stjórnmálum og á margt eftir ólært, það er alveg ljóst, en ég hef fylgst með því í gegnum tíðina að einn flokkur á Íslandi hefur alltaf varið persónurétt framar öllum öðrum. Við getum nefnt til dæmis skattskýrslurnar sem liggja fyrir augum allra. Flokksmenn hafa barist gegn því og þeir hafa barist fyrir eignarréttinum. Þetta er Sjálfstæðisflokkurinn. Ég mundi telja það stórpólitísk tíðindi ef sjálfstæðismenn samþykktu þetta frumvarp. Ég held að það hlytu að vera ein stærstu pólitísku tíðindi sem um getur í Íslandssögunni.

Ég tel, og það kemur fram í minnihlutaáliti okkar, að við getum komist að niðurstöðu um eitthvað vægara. Eins og ég hef margoft sagt er ég ekki lögfróður maður en meðalhófsreglan segir okkur að það má ekki fara þessa leið ef hægt er að beita vægari úrræðum. Ég er ekki alveg klár á því hver þau eru en ég held að hægt sé að komast að því hver þau eiga að vera með víðtækara starfi af því að þetta á ekki að nýtast í haust þegar tillögur eiga að liggja fyrir um skuldavanda heimilanna. Mér finnst þetta svona stórabróðurfrumvarp. Það er gengið alveg alla leið.

Það kom til dæmis líka fram hjá hagstofufólkinu sem kom fyrir nefndina að það ætti að nýta þessar upplýsingar — markmiðið er búið að vera svolítið á reiki — til að stjórnvöld gætu gripið inn í tímanlega og farið í aðgerðir ef stefndi í einhverja slæma átt. Þeir geta fylgst með öllum og ef hagkerfið fer eitthvað að titra eða efnahagurinn þá verður að grípa inn í. Það er nú eitt. Ég fylgdist með og las blöð allan síðasta áratug og á árunum fyrir hrun þá kom fram hver sérfræðingurinn á fætur öðrum, hagfræðingar, skammstafanir í útlöndum, sem vöruðu Íslendinga við því sem var að gerast hérna en það var ekkert hlustað á þá. Stjórnvöld tóku ekki mark á einni einustu aðvörun. Ég held að það sé kannski það sem við þurfum aðallega að gera á þessu þingi, að læra af þeirri reynslu sem við höfum upplifað á síðustu árum og taka mark á því fólki og þeim sem eru um allan heim að vara stjórnvöld við yfirvofandi hættu. Það er bara þannig.

Eins og ég segi þá get ég ekki samþykkt þetta frumvarp vegna þess að mér finnst það ganga allt of langt. Þrátt fyrir ágætisbreytingar sem voru gerðar á því til að mæta kröfum Persónuverndar þá er alltaf ljóst að þeir hjá Persónuvernd samþykkja þetta aldrei. Það kom líka fram. Sumir sögðu að þeir mundu aldrei samþykkja eitt eða neitt, þeir væru í eðli sínu á móti. Þeir eru náttúrlega á móti þessu vegna þess að það er verið að ganga alla leið. Það er verið að ganga algerlega á stjórnarskrárbundinn rétt okkar. Ég get því miður ekki greitt atkvæði með þessu, en ég er allur af vilja gerður að hjálpa núverandi stjórnvöldum að taka á skuldavanda heimilanna. Hvort það verður heimsmet eða eitthvað, það veit ég ekki. [Hlátur í þingsal.] Ég vona bara að við getum öll verið sammála um að þetta eru göfug markmið. Ég styð ríkisstjórnina heils hugar í því að takast á við þennan vanda og mun leggja mig allan fram um það þrátt fyrir að ég sé í stjórnarandstöðu. Ég lít samt ekki þannig á það, ég er minnihlutamaður. Ég styð öll góð mál. Skuldavandinn er mál okkar Íslendinga allra en ég held að þetta sé ekkert endilega til þess fallið að bæta eitthvað, þ.e. annað en það að þeir fá allar upplýsingar um okkur og það vil ég ekki.



[17:39]
Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér svokallað hagstofufrumvarp, frumvarp sem heimilar að afla upplýsinga um skuldir og stöðu heimila í landinu, einstaklinga og fyrirtækja. Hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson hefur talað fyrir minnihlutaáliti, sem ég skrifa undir, varðandi það mál.

Ég ætla í upphafi að þakka hv. allsherjar- og menntamálanefnd og þeim sem þar hafa stýrt málum, formanni og talsmanni nefndarinnar, hv. þm. Líneik Önnu Sævarsdóttur, fyrir að hafa í allri þessari vinnu með erfitt mál reynt að halda hópnum saman og reynt að leiða það til lykta á þann veg að nefndin í heild gæti staðið að málinu. Því miður náðist það ekki og því miður tókst ekki að fá samþykkt það álit minni hlutans að við gæfum okkur örlítið lengri tíma, reyndum að ljúka þessu máli í sátt, af því að við værum komin svo langt með það, og legðum það fyrir á haustþinginu. Það var sérstaklega sárt vegna þess — eins og ítrekað hefur komið fram í umræðunni, það kom fram í nefndinni — að þetta var ekki forsenda ákvarðana um það hvernig ganga ætti í lausn skuldavandans.

Ég held að það sé mikilvægt, hafandi verið í ríkisstjórn og hafandi tekið þátt í ótal tilraunum og ótal aðgerðum til að bregðast við því sem gerðist í hruninu, bæði þeim forsendubresti sem þar var og þeirri skuldaúrvinnslu sem fylgdi í kjölfarið, að fara aðeins yfir aðdraganda þessa máls. Það er rétt sem hér hefur komið fram, að fyrrverandi ríkisstjórn flutti í tvígang að minnsta kosti, á 138. og 139. þingi, tillögur um upplýsingasöfnun af svipuðum toga. Það fór til efnahags- og viðskiptanefndar á þeim tíma enda flutt af efnahags- og viðskiptaráðherrum. Það kom mjög fljótt í ljós að þær hugmyndir sem þar voru um upplýsingasöfnun voru allt of víðtækar. Þær mættu andstöðu. Í ljós kom að menn treystu sér ekki til að fara þá leið þannig að málið kom aldrei nema til 1. umr. í þinginu.

Mikið óskaplega hefði verið gaman að hafa allar upplýsingar um alla til að geta spilað á tölvuna og reynt að finna út nákvæmlega hvernig við hittum fyrir með einstökum aðgerðum. Og mikið óskaplega væri gaman ef loforðin og umræðan sem hefur átt sér stað, um hvernig leysa eigi málið, væri hnitmiðuð og hitti þá fyrir sem við þurfum helst að hitta fyrir. En nú erum við allt í einu komin með mál sem á að segja fyrir um aðgerðirnar. Það er í raun búið að segja — eða að minnsta kosti ef maður á að taka alveg mark á því, nú er það ekki alveg ljóst — að fara eigi í höfuðstólsleiðréttingu, það sé réttlætismál. Það er eingöngu það sem á að gera, það er forsendubresturinn. Það á að leiðrétta skuldir sem hækkuðu vegna verðtryggingar umfram það mark sem Seðlabankinn hafði.

Á að gera eitthvað meira? Erum við þá að safna upplýsingum um hvort þessi aðgerð virkar eða ekki? Við fengum engin svör við þessu í nefndinni. En þetta var viðleitni sem við vorum með á sínum tíma. Það leiddi svo til þess — af því að það var hörð gagnrýni og andstaða, þetta fór ekki áfram í efnahags- og viðskiptanefnd og þingið var ekki tilbúið að afgreiða þetta — að farið var í ítarlega rannsókn sem var keyrð með vísindalegum hætti og það var Seðlabankinn sem fékk heimild til að gera slíka rannsókn gegn því að þeir söfnuðu gögnum, mætu stöðuna og eyddu síðan öllum gögnum strax aftur. Þetta var gert. Það kom ítarleg skýrsla um stöðuna á þeim tíma frá Seðlabankanum.

Þá komum við kannski að því sem hefur verið mesti vandinn í sambandi við úrlausnir á skuldavandanum. Hvernig voru viðbrögð stjórnmálamanna? Þau voru á þann veg að ekkert væri að marka það sem kæmi fram í þessari skýrslu. Það er umhugsunarefni í sjálfu sér ef við ætlum að fara að dæla inn upplýsingum, og jafnvel í pólitískum ágreiningi um það hverju er safnað eða hvernig það er gert, ef við höldum svo áfram að rífast um tölfræðina.

Það er hægt að leika sér með þetta. Við höfum verið með þessar skammstöfunarstofnanir út um allan heim sem hafa verið að gefa álit sitt á því hvað hefur verið gert, hvaða árangur hafi náðst og hvað hafi breyst, en svo er álit þeirra vefengt. Það er þó eitt atriði sem er svolítið forvitnilegt, bara til gamans: Hæstv. forsætisráðherra er þegar búinn að gefa eitt loforð sem hann getur staðið við. Það var gefið út fyrir margt löngu, af Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, að Ísland væri eina landið sem brugðist hefði við skuldavanda heimila af þeirri stærðargráðu sem þá hafði verið gert. Hæstv. forsætisráðherra er því að lofa því í dag að bæta það met. Það er enginn vandi að standa við loforð um að vera fremst í heiminum þegar við erum þegar komin jafn langt og fram kemur í þeirri úttekt, sem ég ætla svo sem ekkert að fullyrða að sé rétt, það er fullyrðing frá öðrum aðila.

Þegar menn fóru að skoða hvernig hægt væri að afla upplýsinga til að meta skuldastöðuna á hverjum tíma, hvernig hagur heimilanna væri og hvernig hann þróaðist, var auðvitað leitað mjög mikið í skattskýrslurnar. Fjármálaráðuneytið hefur aðgang að slíku og hægt var að vinna það með skattyfirvöldum og í gegnum fjármálaráðuneytið. Þær skýrslur komu fram. Gefnar voru út stöður í sambandi við það hverjar horfurnar væru og hvar raunverulegur vandi lægi. Þessu til viðbótar — þegar svokölluð 110%-leið sem var raunar 100%-leið á þeim tíma án þess að ég ætli að eyða tíma í að skýra það — vann Íbúðalánasjóður mjög ítarlega greiningu á því, þegar allir sóttu þar um úrræðið, hver væri vandi viðkomandi heimila. Það sem var forvitnilegt í því, og kom mér á óvart á þeim tíma, var að — og auðvitað verðum við alltaf að forðast að nota meðaltalstölur vegna þess að það segir ekkert um líðan hvers og eins — meðaltalsafborganir af íbúðalánum voru um 90 þús. kr. Við verðum að telja að flestir eigi að ráða við það, það þurfi að minnsta kosti ekki að henda fólki út úr því húsnæði og láta það fara í leiguhúsnæði. Enginn hafði efni á því þá, hvað þá í dag.

Það sem var forvitnilegra var að afborganir af öðrum skuldbindingum, öðrum lánum, voru jafnháar. Menn voru að borga allt upp í 180 þús. kr. í afborganir á mánuði og um það bil helmingurinn var ekki vegna íbúðalána heldur vegna bílalána, vegna skuldbindinga af kaupum á alla vega vöru og þjónustu, yfirdrætti og öðru slíku. Þá sá maður strax fyrir sér að það að lækka höfuðstólinn á lánum Íbúðalánasjóðs hefði ekki skilað sér beint til lausnar fyrir þennan hóp. Sá vandi yrði áfram óleystur.

Við höfum ekki enn fengið svör um það hvort úrvinnslan eða hagtölurnar, sem á að fara að safna, eða tölfræði, eigi að opna á að leysa þennan vanda líka. Þegar menn voru búnir að glíma við þessa tölfræði á sínum tíma var málið sett í þann farveg að Hagstofunni var falið — það kemur í ljós að hún hefur hvað víðtækastar heimildir til að safna gögnum — að halda utan um upplýsingar, reyna að safna þeim saman og vinna úr þeim. Þá kemur næsti þröskuldur. Þegar þeir fara að safna upplýsingum segja bankarnir: Nei, við megum ekki veita ykkur allar þessar upplýsingar, það er brot á bankaleynd, það þarf lagabreytingu til að fá þessar upplýsingar. Og það er rétt, sem komið hefur fram í umræðunni, að það þurfti að fara í lagabreytingu.

Síðan kemur frumvarp á vorþinginu sem eitt af þremur atriðum af þeim tíu sem eru í þingsályktunartillögunni sem átti að framkvæma strax. Það er um að fara í mjög víðtæka söfnun á upplýsingum um heimilin, safna því í einn gagnagrunn. Hægt er að orða það þannig án þess að eyða miklum tíma í það — það voru um sex eða átta greinar sem fóru þarna inn — að ég held að mjög mörgum, bæði í stjórnarliðinu og í stjórnarandstöðu, hafi blöskrað hversu víðtækt það var. Þess vegna var farið í breytingu á þessu. Þá kemur inn tillaga sem dregur þetta mjög saman og kemur núna á haustþinginu. Kannski voru það mistök að hafa ekki unnið það með stjórnarandstöðunni strax í sumar þannig að við gætum þá fengið lengri tíma til að fínpússa það. Þá kemur inn tillaga þar sem búið er að breyta þessu í tvær greinar. Önnur greinin er um það að þær tölur sem safnað verði verði eingöngu nýttar sem hagtölur, ekki sé heimilt að veita stjórnvöldum upplýsingar frekar um einstakar tölur eða upplýsingar úr þessum gagnabanka, og hins vegar bráðabirgðaákvæði sem kemur inn með nánari útlistun á hvaða gögnum eigi að safna og hjá hverjum megi safna. Það var hluti af gagnrýninni að menn sögðu: Ja, það er hægt að fara að safna — ef maður hefur gleymt að borga reikning frá sálfræðingum, læknum o.s.frv. þá ætti að fara að safna því líka. Menn drógu úr þessu og þéttu þetta saman en eftir sem áður var þetta gríðarlega víðtækt.

Það sem var forvitnilegt í þessu var að í millitíðinni hafði verið haft samráð við nýskipaðan hóp sem átti að leysa úr húsnæðisvandanum. Hann á að gera tillögur í nóvember um það hvernig eigi að bregðast við og leysa þennan höfuðstólsvanda. Út úr því kemur löng upptalning sem fer inn í þetta bráðabirgðaákvæði. Ég ætla að leyfa mér, með leyfi forseta, að lesa þetta upp. Í breytingartillögu frá meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar, sem kemur beint frá þessari nefnd, stendur — ég verð leiðréttur ef það er ekki rétt hjá mér:

„Undir slíka upplýsingagjöf falla einvörðungu upplýsingar um grunnforsendur láns, þ.e. hver sé lántaki, stöðu láns, skilmála, upphafs- og lokagjalddaga, fjölda afborgana, vaxtakjör, tegund lántöku, afborganir og innáborganir, verðbætur og áfallna vexti, greiðslueiginleika, veð og tryggingar að því er varðar lán til húsnæðiskaupa, vanskil og úrræði í þágu skuldara sem tengjast láninu, auk upplýsinga um uppgreiðslu.“

Síðan var skilgreint hvar ætti að fá upplýsingarnar — það var Íbúðalánasjóður og slitastjórnir voru nefndar, t.d. ef maður tæki lánastofnanir og alla þá sem væru að ástunda lánastarfsemi, og Lánasjóður íslenskra námsmanna var nefndur.

Það er ein megingagnrýni okkar á frumvarpið að markmiðið sé ekki nógu skýrt. Af hverju er verið að spyrja um Lánasjóð íslenskra námsmanna? Er það vegna þess að menn ætli að breyta höfuðstól hjá honum líka? Er það vegna þess að það geti hugsanlega haft áhrif á greiðslubyrði og þar af leiðandi greiðsluvanda viðkomandi einstaklinga? Við vitum það ekki. Það er það sem er svo erfitt í frumvarpinu. Hér, í þriðju útgáfunni, er búið að þrengja þetta niður í það að þetta verði nánar skilgreint, þetta sé tímabundið og síðan eigi að henda gögnunum svipað og í Seðlabankanum. Það er óþægilegt að vera að samþykkja hverju eigi að safna án þess að vita til hvers verið sé safna upplýsingunum, í hvaða tilgangi eigi að nota þær. Því er ekki svarað. Við gagnrýnum það meðal annars, stjórnarandstaðan, og höfum vakið athygli á því, og það hefur komið fram áður, að ef við ætlum að fara að leysa skuldavandann þurfi að taka á honum heildstætt út af þessu með greiðsluvandann, út af því að margir eru í vandræðum á leigumarkaðnum, skuldbindingar sem þeir hafa eru mjög dýrar — hvernig ætlum við að hjálpa þeim eða erum við bara að fara í höfuðstólsvandann? Ef við ætlum bara að fara í höfuðstólsvandann þá þurfum við lánasjóðinn ekki inn nema það eigi að leiðrétta hann líka. Þessi svör fengum við ekki enda er nefndin afar stutt komin. En við fengum að vita að það er ekki hugmyndin að byggja á þessari tölfræði við ákvörðunartöku í fyrstu lotu því að nefndin á að skila af sér í nóvember. Það kom mér líka mjög á óvart.

Það kom mér líka á óvart að þegar menn voru að tala um það að nefndin sem var að vinna á vegum hæstv. forsætisráðherra, forsætisráðuneytisins, vildi eiga samtal við Hagstofuna, geta spurt þá, látið þá skoða upplýsingar. Að vísu er tekið sérstaklega fram að allar slíkar upplýsingar sem kallað er eftir af hópnum verði gerðar opinberar en þá erum við allt í einu farin að nota Hagstofu í annað hlutverk en henni er ætlað samkvæmt lögum. Hagstofan hafði ekki gert sér grein fyrir því fyrr en á fundi með nefndinni að væntingar væru um slíkt.

Meiri hluti allsherjar- og menntamálanefndar tók sig að vísu til og breytti þessu ákvæði. Þá er spurningin: Verður þessi umræða eða ekki eða ætlum við bara að nota tölfræðina til að sjá hvaða áhrif verða til lengri tíma? Og þá kemur aðalspurningin sem búið er að reifa ágætlega hér og ég veit að verður gert betur af öðrum, þ.e. þarf þá svona viðamiklar upplýsingar til að fylgjast með þróuninni?

Við ræddum það í byrjun, það kom fram sem sjónarmið og var vitnað í erlenda aðila, að við ættum, svipað og við settum inn með félagsvísana, að fylgjast með hver þróun yrði í samfélaginu á öðrum mælikvörðum en bara hagtölum, hagvexti á peningalega hlutanum — að við ættum jafnvel að skoða umhverfismál. Við töluðum um félagsvísa til að skoða hvaða þróun væri í samfélaginu: Er fátækt að aukast? Erum við að búa betur að öldruðum? Erum við að búa betur að ungu fólki? Eru skólarnir okkar betri? Eru heilbrigðisstofnanirnar betri eða eru þær að versna? — að við reyndum að halda utan um slíkt. Þá kom fram sá spennandi hluti að við ættum að búa til tölfræði sem gæti svarað okkur um það hver þróunin væri í afkomu heimilanna. En það er stærra verkefni að gera það svo hóflega að við séum ekki bókstaflega með allt undir og getum átt á hættu að með nútímatækni kæmist einhver inn í slík gögn og gæti séð nánast allar skuldir einstaklinga og misnotað þær upplýsingar, vissulega er hætta á því.

Ég hef valið að rekja þessi vandamál vegna þess að það er það sem býr að baki áliti minni hlutans. Við þekkjum mjög vel þörfina fyrir að hafa góðar upplýsingar og vandaðar og geta tekið ákvarðanir á grundvelli þeirra. Það vantar okkur almennt í samfélaginu. Við þurfum að vinna það og við þurfum að gera það þannig að það geti orðið varanlegt og við getum haft það sem mælikvarða og við getum tryggt að það standist lög um persónuvernd og mannréttindaákvæði í Evrópusáttmálum og í heiminum. Um það snúast efasemdir okkar. Þess vegna báðum við um frest til að skoða málið betur, ekki til að bíða heldur til að vinna með nefndinni að frekari útfærslu þannig að við mættum svara betur athugasemdum sem koma frá Persónuvernd, sem koma frá Lögfræðingafélaginu, sem koma frá ýmsum aðilum.

Allir í nefndinni hafa skilning á því að við þurfum upplýsingar. Allir viðurkenna að við þurfum að geta byggt á einhverri tölfræði til að geta fylgst með þróuninni. En ég held að margir, og margir í stjórnarliðinu líka, hafi gert ráð fyrir að með því að safna svona ítarlegum upplýsingum væri hægt að ýta á enter-takkann, fylgjast með því og segja: Bíddu nú við, hvaða úrræði fæ ég þá? Það er ekki þannig og það er alveg skýrt tekið fram í frumvarpinu eins og það liggur fyrir að ekki er hægt að nota þetta í slíka beina útreikninga. Það verður algerlega óleyst og verður væntanlega gert með því að menn verði að sækja um þegar þar að kemur.

Þá koma upp ýmis álitamál sem eru líka fólgin í breytingartillögunni og því hverjir eru að safna upplýsingum. Beðið er um að fá að sjá öll úrræði sem skuldari hefur fengið. Er það ávísun upp á að nýi hópurinn, sem valdi að hafa þetta í textanum, ætli þá að draga það frá höfuðstólsleiðréttingunni? Hafi menn farið í 110%-leiðina, hafi menn farið í eitthvert annað úrræði, verður það dregið frá? Við höfum ekki séð svör og það er vont að búa til tölfræðigrunn ef maður hefur ekki hugmynd um hverju verið er að leita að. Það er kannski það sem þvælist mest fyrir okkur í augnablikinu varðandi þetta mál.

Við styðjum áform um að reyna að komast að sem bestri niðurstöðu. Við styðjum það líka að vilji kjósenda nái fram að ganga og að reynt verði að finna lausnir til að hjálpa fólki þannig að það sé ekki í skuldafjötrum, þannig að það geti lifað eðlilegu lífi, tekið þátt í lífinu, án þess að vera fast í fjötra skulda sem verðtryggingin hefur lagt á það. En við verðum að vanda okkur vegna þess að því hefur verið lofað að kostnaður falli ekki á ríkissjóð — guð láti gott á vita að það takist. Eftir sem áður verðum við að tryggja að samfélagið geti rekið sig áfram og að allir fái notið sín. Það má ekki fara þannig að við sleppum heilu hópunum sem verða þá áfram í vandræðum, hafandi notað allt svigrúm sem hugsanlega er hægt að skapa til að hjálpa þeim sem þurfa kannski minnst á því að halda.

Þetta er ástæðan fyrir minnihlutaáliti okkar og þeirri niðurstöðu sem þar kemur fram. Í fyrsta lagi teljum við þetta vera of víðtækt, að ekki þurfi þessar upplýsingar til að ná fram því sem við vildum. Við bjóðum fram aðstoð okkar og samstarf, sem hefur að mörgu leyti verið mjög gott. Við þurfum bara aðeins lengri tíma til að útfæra þetta betur þannig að það megi þjóna tilgangi sínum, skýra betur markmiðin, afmarka betur verkefnið. Ef við gefum okkur tíma í hálfan mánuð, þrjár vikur — það tefur ekki úrvinnsluna en kostar töluverða vinnu — getum við staðið uppi sem einn hópur á þinginu með tillögu sem stenst stjórnarskrá, persónuverndarákvæði og mannréttindaákvæði. Þá værum við að ná verulegum árangri. Ef það er eitthvað sem viðheldur þeim erfiðleikum sem við höfum átt við að etja þá er það það að við búum endalaust við það að menn vefengi niðurstöður og vefengi allar aðgerðir, togi okkur út og suður vegna þess að aðgerðirnar nái ekki til réttra aðila, leysi ekki málin o.s.frv. Það er kvíðvænlegur vetur ef við förum út í það. Þess vegna erum við að tala um að reyna að safna tölfræði en þá þurfum við líka að fókusera það betur og ná því markmiði með skárri hætti en hér er gert.

Ég sagði strax og þetta kom til nefndarinnar: Við munum gera allt til að hjálpa ykkur til að fá þessar upplýsingar vegna þess að við höfum ávallt verið að leita að þeim. Og það munum við líka gera. En ekki biðja okkur að gera það þannig að það gangi út yfir mannréttindi og persónuvernd. Þá er of langt gengið og sérstaklega ef í ljós kemur, eins og okkur sýnist, að ekki eigi einu sinni að nota þessar upplýsingar til að hjálpa fólki í fyrstu lotu heldur svona meira til að hafa þær í safninu ef við þurfum á þeim að halda síðar.



[18:00]
Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breytingu á lögum um Hagstofu Íslands. Hér hefur hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson mælt fyrir nefndaráliti minni hluta í því máli og hafa félagar mínir í minni hlutanum, hv. þingmenn Páll Valur Björnsson og Guðbjartur Hannesson, jafnframt farið yfir þær röksemdir sem fram koma í nefndaráliti minni hluta. Ég vil taka undir þau sjónarmið sem þar hafa komið fram í öllum meginatriðum og áréttað það sem fram hefur komið að það er ríkur skilningur hjá okkur sem ritum undir nefndarálit minni hluta á því að mikilvægt er að hafa yfir að ráða vönduðum upplýsingum og skýrum talnagögnum til þess að vega og meta ákvarðanir og aðgerðir stjórnvalda á hverjum tíma en ekki síður til þess að lesa í það hvernig samfélagið þróast á hverjum tíma.

En það er jafn mikilvægt að samstaða sé um tilurð, utanumhald og grundvöll slíkra upplýsinga. Við höfum, eins og hv. þm. Guðbjartur Hannesson rakti ágætlega áðan, langa sögu um ósætti um nálgunina hvað þetta varðar. Við vitum að óháð því hvort um er að ræða opinbera aðila eða hvaða aðilar það eru sem safna gögnum á hverjum tíma þá á eftir að túlka gögnin, það á eftir að túlka tölurnar. Ég vil í því samhengi vitna í umsögn Hagsmunasamtaka heimilanna sem kom um málið þegar það var í fyrri búningi, til þess að minna okkur aðeins á þessa stöðu.

Þar kemur fram, með leyfi forseta:

„Þrátt fyrir að vera hlynnt frumvarpinu geta HH [sic] ekki séð að með söfnun upplýsinga um heimilin frá fjármálafyrirtækjum verði varpað ljósi á mikið meira en meinta skuldastöðu þeirra eins og hún er tilgreind af lánveitendunum. Hins vegar þarf ekki síður, og er í raun enn mikilvægara, að aflað verði áreiðanlegra og marktækra upplýsinga um það hver sé raunveruleg skuldastaða heimila, lögum samkvæmt.“

Það er í raun viðfangsefnið sem við stöndum frammi fyrir eftir sem áður óháð því hverjar upplýsingarnar eru, óháð því hver tilurð þeirra og grundvöllur er. Þess vegna skiptir óendanlega miklu máli að hér sé að minnsta kosti þverpólitísk samstaða um það hvernig við nálgumst viðfangsefnið og að við sjáum glitta í slíka samstöðu, að við sjáum glitta í samstöðu um útfærsluna þegar við erum sammála um mikilvægið. Og þegar meiri hlutinn ákveður síðan að fara fram með málið í krafti meirihlutavalds hef ég enn þá meiri áhyggjur af því að þessi gögn muni síður nýtast.

Þá er ég ekki enn þá farin að tala um hin stóru prinsippmál sem hér hafa verið rædd og reifuð, þ.e. í fyrsta lagi samþýðanleika eða samræmi við stjórnarskrá. Það er ótvírætt og óumdeilt og hefur komið fram hjá öllum sem um málið fjalla í nefndinni, að gengið er á stjórnarskrárvarin réttindi til friðhelgi einkalífsins með frumvarpinu. Við vitum að tilgreind eru sjónarmið sem þurfa að liggja fyrir til þess að unnt sé að verja það að fara á svig við stjórnarskrá. Þar liggur ágreiningurinn; er meðalhóf virt? Eru vægari aðgerðir færar til þess að ná sama markmiði? Það er rétt sem komið hefur fram hjá hv. þm. Helga Hrafni Gunnarssyni og fleirum að við fengum ekki tíma til þess að ræða það. Það dugar ekki gagnvart stjórnarskrá að neyða okkur til þess að ganga lengra en nauðsynlegt er í tímapressu. Það er ekki verjandi gagnvart grunnlöggjöf samfélagsins og mannréttindaákvæðum og allra síst, virðulegi forseti, þegar það er ekki einu sinni svo að hér sé neyðarástand. Það er það ekki. Komið hefur fram ítrekað í umræðum í nefndinni að gögnin þurfa ekki að liggja fyrir til þess að nefnd um höfuðstólslækkun geti lokið störfum og skilað tillögum sínum í nóvember. Gögnin þurfa ekki að liggja fyrir.

Hins vegar er nokkur áherslumunur í því, bæði í nefndaráliti og í því sem sagt er, hvort gögnin þurfi að liggja fyrir þegar kemur að því að taka afstöðu til þessara tillagna. Hv. þm. Árni Þ. Sigurðsson benti á það í andsvari að það hefði komið fram í máli hv. þm. Líneikar Önnu Sævarsdóttur þegar hún fullyrti í ræðustól að þessi grunnur þyrfti að vera fyrir hendi til að taka afstöðu til tillagnanna, þ.e. áður en aðgerðunum yrði ýtt úr vör.

Virðulegi forseti. Um það greinir fólk á í umræðum og í nefndinni og mér finnst eiginlega ótrúlegt að við skulum enn þá, á þessum tímapunkti eftir að hafa verið að ræða svo ítarlega svona afdrifaríkt mál, sjá svo mismunandi áferð að því er varðar markmið málsins því að það er svo skýrt tekið fram alls staðar; Lögmannafélagið tekur það skýrt fram, einnig Mannréttindaskrifstofa og Persónuvernd og svo njótum við auðvitað leiðsagnar í lögum og stjórnarskrá, að þetta þarf að vera algjörlega klárt. Þetta þarf að liggja algjörlega fyrir, það gengur ekki að þetta sé óljóst.

Til að takmarka mannréttindi þurfa rökin að vera skýr og tilgangurinn þarf að vera brýnn og það þarf að vera skýrt samhengi á milli markmiðsins og gagnasöfnunarinnar. Það gengur ekki að segja: Við ætlum að vera með svona tiltölulega vítt markmið og síðan ætlum við að safna gögnum og svo kemur kannski í ljós að við getum notað þessi gögn enn þá meira en við áttuðum okkur á í byrjun. Það gengur ekki, ekki gagnvart því þegar við rökstyðjum ríka almannahagsmuni sem réttlæta það að gengið sé á mannréttindaákvæði og persónuverndarákvæði. Þannig er það sem betur fer. Þess vegna vekur það mér nokkrar áhyggjur að stjórnarmeirihlutinn virðist samt sem áður ætla að fara fram með málið í prinsippágreiningi. Það er ekki ágreiningur um að þetta er eitthvað sem er skynsamlegt og gott að gera og við erum svo nálægt því að ná saman um það.

Ég vil líka nota tækifærið til að þakka forustu nefndarinnar, bæði hv. framsögumanni málsins og hv. formanni nefndarinnar, fyrir að halda afar vel á málinu og fyrir að leggja við hlustir og reyna að koma til móts við sjónarmið. Það var sérlega góður andi í nefndinni og ég held að við höfum öll fundið að við viljum vera samferða. Það var held ég alveg einlæg tilfinning okkar allra. Þess vegna finnst mér vont að það skuli vera fyrst og fremst einhvers konar ytri pólitísk áhrif eða ytri pólitískar ástæður sem gera það að verkum að við erum komin á þann stað þar sem við erum núna, að við erum með mál sem við vitum öll að gæti verið miklu betur útbúið, að það eru stórar pólitískar spurningar sem ekki hefur verið svarað, að hér er verið ótvírætt að ganga á svig við stjórnarskrá og að við skulum standa frammi fyrir því að stjórnarmeirihlutinn ætli samt sem áður að taka þessa áhættu.

Mér finnst það verulegt umhugsunar- og áhyggjuefni. Hvernig ætlar stjórnarmeirihlutinn að réttlæta svona róttækar aðgerðir sem ganga þetta langt? Aðgerðirnar eru í raun og veru ekki rökstuddar með fullnægjandi hætti í nefndarálitinu þar sem menn fullyrða eitt og annað, að könnun nái ekki sömu markmiðum og svo framvegis. Það er fullyrt án þess að farið sé ofan í saumana á því af hverju svo er ekki. Hér var til að mynda nefnt að það væri enn þá meiri hætta á rekjanleika upplýsinga ef tekið væri úrtak en ef allt væri vitað um alla. Það hljómar nú í mínum huga eins og þversögn, að það sé hættulegra að vita mikið um aðeins færri en að vita mikið um alla. Það er einhvern veginn eitthvað sem stenst illa að mínu mati.

Það voru efasemdir hjá mjög mörgum sem komu á fund nefndarinnar. Hér er Persónuvernd nefnd ítrekað. Ég held að það sé mikilvægt að halda til haga því sem fram kemur í umsögn Persónuverndar vegna þess að hún reyndist okkur vel í þessu máli. Hún er kannski akkúrat sá aðili sem á að vakta 71. gr. stjórnarskrárinnar og auðvitað 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu og með vísan til þess kemur fram í umsögn Persónuverndar strax í júní þegar frumvarpið lá fyrir í upprunalegri mynd, með leyfi forseta:

„Með vísan til framangreinds lýsir Persónuvernd, í ljósi 71. gr. stjórnarskrárinnar og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, yfir áhyggjum af þeirri víðtæku vinnslu persónuupplýsinga sem ráðgerð er í frumvarpi þessu. Persónuvernd hefur efasemdir um nauðsyn þess að komið sé á fót opinberum gagnagrunni með jafn víðtækum persónuupplýsingum og hér um ræðir til þess að grípa megi til aðgerða til að greiða úr fjárhagsvanda fjölskyldna og einstaklinga. Í frumvarpinu skortir útskýringar á því hvers vegna þörf er talin á svo viðurhlutamiklum afskiptum af friðhelgi einkalífs.“

Þetta var skrifað í júní. Síðan var farið í breytingar á málinu, eins og rakið var í framsögu framsögumanns og kemur fram í umsögn Persónuverndar í september, með leyfi forseta:

„Fyrrgreind umsögn Persónuverndar“, þ.e. sú sem var dags. 25. júní 2013, „byggist meðal annars á því að óljóst sé hvers vegna umrædd upplýsingaöflun sé nauðsynleg til að ná markmiðum frumvarpsins. Persónuvernd telur þá forsendu enn eiga við og áréttar því fyrri umsögn hvað það varðar.“

Þetta var nú í september. Síðan er gengið enn lengra í því að reyna að koma til móts við sjónarmið og nú á allra síðustu dögum eru þessi sjónarmið enn áréttuð af hendi Persónuverndar. Persónuvernd telur að eðlisbreytingar hafi engar orðið í málinu þrátt fyrir tæknilegar útfærslubreytingar á leiðinni, sem ég vil að komi fram að ég tel að hafi verið gerðar af góðum hug og hafi virkilega verið gerðar til þess að koma til móts við þessi sjónarmið.

Ég vil fara örfáum orðum yfir það sem fram kemur í nefndarálitinu um málsmeðferðina og samspilið við tímalínuna og það ytra umhverfi sem við erum í. Afgreiðsla þessa tiltekna máls er hluti af tíu punkta áætlun ríkisstjórnarinnar og hæstv. forsætisráðherra til hjálpar skuldsettum heimilum, þannig að það er pólitísk spenna í málinu. Það er pólitísk spenna undirliggjandi, menn þurfa að geta merkt í excel-skjalið sitt hvenær þeir eru búnir að þessu og hinu, þannig er það þó að síðan hafi komið fram við umræðuna og umfjöllunina að þetta mál eitt og sér sé kannski ekki það sem skilji á milli feigs og ófeigs í aðgerðum.

Það hefur líka komið fram í meðferð málsins þegar við ræðum það af einlægni í nefndinni að það er vilji til þess að nefndin sem heild komi að því að leysa málið með farsælum hætti. En svo virðist sem þessi pólitíska spenna sé það sem vegi þyngst í hagsmunamati meiri hlutans í því að taka ákvörðun um að ýta málinu í gegn þrátt fyrir eindreginn og margyfirlýstan vilja minni hlutans og stjórnarandstöðunnar í þá veru að komast að farsælli þverpólitískri og skynsamlegri niðurstöðu. Það veldur mér mjög miklum vonbrigðum. Það veldur mér ekki bara vonbrigðum vegna þess að þetta er mál sem er þess eðlis að það er mikilvægt fyrir okkur að vera samstiga í því. Þetta er viðfangsefni sem verið hefur til staðar allt frá hruni, þetta er viðfangsefni sem hlýtur að þurfa að byggja á ákveðnum sáttmála, ekki síst vegna þess að í áformum nýrrar ríkisstjórnar, í áferð og textum sem frá henni hafa komið, kemur ítrekað fram vilji til raunverulegs samráðs. Hæstv. forsætisráðherra talaði nú um það síðast í gær að mikilvægt væri að innstæða væri fyrir samráði, það væri ekki sýndarsamráð og að ekki væri verið að kalla menn til funda og svo væri ekkert meint með því og svo framvegis.

Einmitt þegar það er þannig og það er ekki partur af einhverjum pólitískum skollaleik heldur þegar raunverulegur vilji er til þess að taka málið aftur inn til nefndar og vinna það betur og blásið er á þann vilja finnst mér það ekki gefa góð fyrirheit um hvað fólk meinar í raun og veru með því að lýsa því yfir að það vilji samstarf.

Ég verð að ítreka það að ég finn ekki fyrir þessum tvískinnungi inni í nefndinni sjálfri heldur tel ég að þetta sé frekar hluti af ytri pólitískum aðstæðum málsins sem þrýsta því inn í þennan þrönga farveg sem ekki er farsæll, ekki fyrir þingið, ekki fyrir stjórnarskrána og ekki farsæll fyrir málið sem slíkt, hvorki þau talnagögn sem þarna munu liggja fyrir né það hvernig með þau verður farið. Við sjáum að í spilunum liggur að það verður ágreiningur um það hvernig þessi gögn verða túlkuð vegna þess hvernig þau koma til. Bara það eitt og sér finnst mér gera það að verkum að menn ættu að hika aðeins við að taka áhættu gagnvart hagsmunamati varðandi persónuverndarsjónarmið og mannréttindaákvæði.

Virðulegur forseti. Ég vil nefna það í lokin að ég óska eftir því að málið verði tekið inn til nefndar milli 2. og 3. umr. vegna þess að ég vil að við freistum þess að gera eina atlögu í viðbót. Ég vil að við nálgumst málið einu sinni enn þannig að við reynum að ná um það betri sátt. Ég er sannfærð um að það er hægt. Ég er ekki sannfærð um að hægt sé að gera það á mjög stuttum tíma, einhverjum klukkutímum, en ég er sannfærð um að það er hægt að gera það á einhverjum dögum eða fram að þeim tíma sem er fram að þingsetningu 1. október.

Ég lýsi vilja mínum og okkar í þingflokki VG til þess að taka þátt í slíkri vinnu og ég hef heyrt að félagar mínir í minni hluta allsherjar- og menntamálanefndar eru á sömu skoðun þó að þar kunni að vera áherslumunur á að því er varðar nálgunina við verkefnið, hvernig rétt sé að nálgast það. Enn er viljinn fyrir hendi og hann er raunverulegur. Mér finnst hann dýrmætur. Og vegna þess að við erum að tala um virðingu þingsins og reyna að ná árangri í störfum okkar þá er dýrmætt að skynja samstarfsvilja þegar hann er í raun fyrir hendi og nota hann. Við höfum stundum talað um að hér hafa verið gerðar rannsóknir og úttektir á virðingu þingsins og afstöðu almennings til þingsins og svo framvegis og þess hvernig við tölum hvert til annars og allt það og setja það í alls konar starfshópa og farvegi og nefndir.

Við getum talað hér tárvot á tyllidögum um hvað við gætum gert miklu betur og hvað þingið er stórkostlegt og allt það og svo förum við í sama farveginn aftur og aftur. En þarna er í raun um það að ræða að það er einlægur vilji til þess að taka vel utan um þetta mál og gera það svo að fullur sómi sé að. Ég tel einsýnt, virðulegi forseti, að það eigum við að gera. Við eigum að taka málið inn til nefndar milli 2. og 3. umr. og freista þess að kortleggja það. Við getum kortlagt það á mjög stuttum tíma, gert vinnuáætlun um það hvernig best sé að nálgast þetta mikilvæga og víðfeðma verkefni og ganga í verkið þingræðinu til sóma og okkur sjálfum til gleði.



[18:20]
Óttarr Proppé (Bf):

Virðulegi forseti. Ég tók til máls við 1. umr. um frumvarpið þegar það var lagt fram í fyrsta skiptið óbreytt og varaði sérstaklega við persónuverndarsjónarmiðum og ítrekaði við þingheim mikilvægi friðhelgi einkalífsins og friðhelgi einstaklinga.

Nú hefur komið fram breytingartillaga sem er vissulega til bóta en ég sé ekki að hún gangi nógu langt. Ég verð að taka undir með þeim þingmönnum, við verðum að segja minni hlutans, sem hafa talað hérna á undan mér að enn er í raun og veru óskýrt að tilgangur frumvarpsins sé nógu ríkur til þess að réttlæta þann vafa — sem við gefum því að við getum kallað það vafa en sem allir virðast nú vera sammála um — um að frumvarpið geti samræmst stjórnarskrá og mannréttindasáttmálanum.

Ég vil minna á að ákvæði um friðhelgi einkalífsins í stjórnarskrá og í mannréttindasáttmála Evrópu eru ekki sett þar inn léttvægt eða í gríni heldur eru þetta mikilvæg mannréttindi og þau eiga alltaf við. Þau eiga allir að virða og þau eiga alveg sérstaklega við þegar um stjórnvald er að ræða. Þess vegna vildi ég minna þingheim á að við erum vissulega stjórnvald og það ekkert smá stjórnvald, við erum löggjafinn í landinu, og það er okkar skylda að samþykkja ekki frumvörp eða tillögur sem brjóta í bága við stjórnarskrá og réttindi einstaklinga nema virkilega ríkir almannahagsmunir séu á ferðinni.

Ég vil meina að við séum komin á hálan ís. Breytingartillögurnar gera frumvarpið vissulega skárra en ég verð að taka undir með áliti minni hluta nefndarinnar að þær ganga ekki nógu langt. Mér finnst þær ekki breyta því að við erum á hálum ís og það að ferðast á hálum ís verður ekkert hættuminna þó svo að það sé gert með góðum ásetningi. Þess vegna vil ég taka undir með minni hluta nefndarinnar og óska þess, ef frumvarpið verður ekki lagt til hliðar, að unnið verði alla vega með það áfram.