142. löggjafarþing — 27. fundur
 12. september 2013.
Evrópumál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[11:07]
Forseti (Einar K. Guðfinnsson):

Á grundvelli 2. mgr. 86. gr. þingskapa er samkomulag um að umræðan standi yfir í um tvær klukkustundir og er umræðutímanum skipt milli þingflokka eftir reglum þingskapa.



[11:08]
utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég hef óskað eftir því að flytja Alþingi munnlega skýrslu um stöðu aðildarumsóknar Íslands að Evrópusambandinu. Mér finnst mikilvægt að gera Alþingi sérstaka grein fyrir þeim skrefum sem ríkisstjórnin hefur stigið á undanförnum vikum í krafti nýrrar stefnumörkunar í þessu máli. Utanríkismálanefnd hefur verið upplýst sérstaklega á fundum yfir sumartímann. Það er hins vegar eðlilegt að gefa einnig tækifæri til umræðu um þetta í þingsal.

Virðulegi forseti. Ríkisstjórnin er með jákvæða og metnaðarfulla sýn í Evrópumálum. Við viljum hafa samstarf við ESB sem öflugast. Við viljum að Ísland sé sýnilegt í því samstarfi á jafningjagrundvelli og leggi sinn málstað sterkt að mörkum í mótun þeirra reglna sem við yfirtökum frá Evrópusambandinu. Á minni vakt verða samskiptin við ESB meðal helstu atriða í forgrunni. Fyrst af öllu er mikilvægt að halda því til haga að samskipti Íslands við ESB standa traustum fótum, enda hefur okkur á liðnum árum og áratugum lánast að byggja varanlega umgjörð um farsælt samstarf á nánast öllum sviðum og ber EES-samstarfið þar hæst. Við viljum gera okkur enn frekar gildandi og sýnileg í því samstarfi sem við eigum við ESB, útvíkka það enn frekar og færa inn á ný svið.

Þannig hef ég einsett mér að efla og treysta þessi samskipti sem mest þótt aðildarviðræður hafi verið settar í hlé. Þennan vilja okkar til frekara samstarfs hef ég rætt við félaga mína innan Evrópusambandsins, m.a. tekið upp við stækkunarstjórann og aðra þá sem ég hef hitt. Það er í þágu hagsmuna Íslands og Evrópusambandsins að byggja frekar ofan á þær styrku stoðir sem nú þegar eru til staðar. Þannig, eins og ávallt, er ég viss um að gera megi betur og láta rödd Íslands hljóma enn hærra í þessu samstarfi. Munum við kappkosta að greina tækifærin og nýta enn frekar til hagsbóta íslenskum hagsmunum.

Virðulegi forseti. Ég vil að við stundum sterka og sýnilega hagsmunagæslu innan EES og í tengslum við aðra þá samninga sem við höfum gert við Evrópusambandið. Það kallar á mannafla og viðveru í Brussel. Tillögur í þessa veru eru á teikniborðinu frá minni hendi. Þá reynir á þann vilja sem þingið sjálft hefur sýnt í þessa veru, samanber þingsályktun frá fyrra vori. En ég horfi einnig til þess að styrkja tvíhliða samstarf og samskipti við Evrópusambandið. Tengsl okkar við sambandið bjóða upp á eflingu slíks samstarfs á sviðum sem eru utan EES. Hef ég til dæmis þegar nefnt það við stækkunarstjórann að ég sjái fyrir mér aukið samstarf á sviði sjávarútvegs, landbúnaðar, orkumála, friðargæslu, þróunarsamvinnu og norðurslóða svo einstök brýn mál séu nefnd. Hvar sem við komum finnum við fyrir miklum áhuga á tvíhliða samstarfi við Ísland og í því felast mikilvæg tækifæri.

Nú langar mig að víkja að upphafi aðildarferlisins. Frá því í byrjun hefur margt verið gagnrýnt. Ekki var einhugur innan þáverandi ríkisstjórnar um aðildarumsókn og var sú óeining upphafið að vandræðaganginum. Að sækja um aðild var ekki lítil ákvörðun. Þarna var um gríðarstóra ákvörðun að ræða af Íslands hálfu og var hún tekin án þeirrar samstöðu og sannfæringar sem hefði þurft að vera til staðar. Það sannaðist einnig þegar leið á hve veikur grundvöllurinn var, orkan fór í samninga milli og innan stjórnarflokkanna fremur en efnislegar samningaviðræður við Evrópusambandið.

Af því leiddi að við lok kjörtímabils höfðu ekki enn hafist samningar um mörg lykilatriði í ferlinu. Mér er til efs að á þessum grunni hefði verið hægt að leiða til lykta stærstu hagsmunamálin í ferlinu. Hagsmunirnir voru einfaldlega of stórir miðað við málatilbúnað og umgjörðin var vanbúin. Vissulega er rétt að það náðist að opna flesta kaflana, og sumir þeirra vörðuðu mikilvæg atriði. Einnig náðist að loka mörgum köflum. Þegar grannt er skoðað eru lokuðu kaflarnir hins vegar meira og minna mál þar sem þegar var til staðar djúpt samstarf við Evrópusambandið og því fyrir fram vitað að tiltölulega einfalt yrði að klára. Það verður ekki heldur horft fram hjá því að Evrópusambandið notaði síðan þetta ferli til að reyna að knýja fram samninga í öðru óskyldu máli — makríl. Slíkt högg er langt fyrir neðan beltisstað og veit ég að þeirri skoðun deilum við fyrrverandi utanríkisráðherra, hv. þm. Össur Skarphéðinsson.

Virðulegi forseti. Lagt var upp í þessa vegferð á miklum óvissutímum hér á landi, staða okkar var ekki sterk. Það reyndust ekki bara óvissutímar hér á landi, heldur ekki síður innan Evrópusambandsins. Sambandið hefur háð snarpan bardaga við efnahagskrísu sem það virðist sem betur fer vera að komast út úr hægum skrefum. Óvissa hefur ríkt um framtíð evrunnar — lifir hún eða lifir hún ekki? Ísland hefur hagsmuni af stöðugri og efnahagslega sterkri Evrópu og við fögnum við því mjög ef evran og Evrópusambandið koma standandi í báða fætur út úr erfiðleikunum. Á hinn bóginn benda ýmis viðbrögð við efnahagskreppunni til þess að Evrópusambandið muni dýpka sitt samstarf sem kallar á meira framsal valds frá aðildarríkjunum til Brussel. Saga samrunans í Evrópu á síðustu áratugum kennir okkur einmitt það að efnahagskrísur hvers konar sem upp hafa komið með reglulegu millibili hafa nokkrum missirum síðar valdið ófyrirséðum samruna á kostnað lýðræðisins. Það er gegn ríkjandi viðhorfum hér á landi og hjá sumum aðildarríkjum Evrópusambandsins.

Enn virðist nokkuð í land með að traustri lendingu sé náð með framtíð evrunnar. Undir slíkum kringumstæðum er ábyrgðarlaust að halda áfram ferlinu.

Virðulegi forseti. Afstaða beggja stjórnarflokkanna er skýr. Flokkarnir leggjast gegn aðild að Evrópusambandinu. Landsfundir beggja flokka samþykktu að ef halda ætti ferlinu áfram yrði það eingöngu gert að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu. Fólk getur treyst því að ekki verður haldið áfram viðræðum nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu. Þess vegna á ekki að koma á óvart að flokkarnir hafi ákveðið að gera hlé á viðræðunum. Á sama tíma var tekin ákvörðun um að fá sérfræðiúttekt á stöðu viðræðnanna og þróun mála innan Evrópusambandsins. Þetta síðarnefnda er ekki síst mikilvægt í ljósi þess að vísbendingar eru um enn sterkari samrunaþróun innan sambandsins og áfram óvissu í efnahagsmálum.

Allar aðgerðir ríkisstjórnarinnar hafa verið í samræmi við þessa skýrt mörkuðu stefnu sem hlaut brautargengi í kosningunum í vor. Við höfum gengið ákveðið til verks. Mitt fyrsta verk á erlendri grundu var að funda með stækkunarstjóra ESB í byrjun júní og stuttu síðar fundaði forsætisráðherra með forseta leiðtogaráðs Evrópusambandsins og forseta framkvæmdastjórnarinnar. Svo má geta þess að í síðustu viku átti ég óformlegt samtal við stækkunarstjórann á fundi utanríkisráðherra Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna.

Við höfum í þessum samtölum skýrt fyrir gagnaðilum okkar í ESB að viðræður hafi verið settar í raunverulegt hlé, það beri að taka þessa ákvörðun alvarlega. Við höfum nú leyst upp samninganefnd og -hópa og ekki verða fleiri ríkjaráðstefnur haldnar. ESB hefur ákveðið að ekki verði um frekari nýja IPA-styrki að ræða o.s.frv. Engar skemmdir hafa verið unnar á einu eða neinu, aðildarumsókn hefur ekki verið afturkölluð, engu hefur verið slitið. Þannig hefur verið staðið að þessu máli öllu í góðri sátt við gagnaðila okkar enda bera viðbrögð Evrópusambandsins ekki merki annars en að sambandið hafi fullan skilning á ákvörðun okkar um hlé á aðildarferlinu.

Virðulegi forseti. Af þessu má ráða að ríkisstjórnin hefur í störfum sínum fylgt ákveðið eftir stefnumiði sínu. Það er í samræmi við ályktanir flokkanna sem unnu afgerandi kosningasigur í vor. Jafnframt standa yfir viðræður við óháða háskólastofnun, nánar tiltekið Hagfræðistofnun Háskóla Íslands, um gerð þeirrar úttektar sem boðuð var. Hagfræðistofnun mun án efa leita fanga víða, innan lands sem utan, við vinnslu skýrslu sinnar. Sú úttekt verður svo tekin til umræðu í þinginu og kynnt fyrir þjóðinni. Ekki er tímabært að velta fyrir sér framhaldi aðildarferlisins fyrr en skýrslan hefur verið gerð en málefnaleg og rökföst umræða mun án efa eiga sér stað innan þingsins um efni hennar og hlakka ég mjög til þess.

Virðulegi forseti. Að lokum þetta. Ég virði sjónarmið þeirra sem telja að hag Íslands kunni að vera betur borgið innan ESB. Ríkisstjórnin er einfaldlega ekki sammála þeim og þar skilur á milli. Ég tel að í svo viðamiklu máli sem þessu sé alger forsenda að stuðningurinn sé almennur og samtakamátturinn sterkur. Á það hefur frá upphafi skort. Það þarf drjúgan stuðning þings og þjóðar áður en lagt er af stað í viðræður um aðild að ríkjabandalagi sem kallar á ákveðnar grundvallarbreytingar á stjórnskipan okkar. Núverandi ríkisstjórn styður ekki aðild og sterkar vísbendingar eru um að þjóðin sé sama sinnis.

Virðulegi forseti. Ríkisstjórnin er einhuga í þessu máli. Hlé hefur verið gert á ferlinu, engu hefur verið slitið og við viljum efla samskipti og treysta sambandið við Evrópusambandið án þess að til aðildar að bandalaginu komi.



[11:18]
Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Ég held að hæstv. utanríkisráðherra hljóti að hafa slegið Íslandsmet í þessari fyrstu stefnuræðu sinni um utanríkismál því að honum tókst í einni ræðu að fara gegn eigin yfirlýsingum, storka fullveldi Alþingis og líka að fara gegn stefnu ríkisstjórnarinnar. Meginboðskapurinn í ræðu hæstv. utanríkisráðherra var að hann hefði tekið ákvörðun án þess að ræða það sérstaklega við Alþingi um að slá af samningahópana og aðalsamninganefndina sem tengjast umsóknarferli Íslands gagnvart aðild að Evrópusambandinu.

Það er næsti bær við að slíta umsókninni og það er ekki stefna ríkisstjórnarinnar, það er allt annað en hún gaf fólkinu lögmætar væntingar um. Ég geri mér alveg grein fyrir hinum pólitíska veruleika málsins, en orð skulu standa. Forustumenn í stjórnmálum verða að standa við það sem þeir lýsa yfir. Það vill svo til, herra forseti, að í stefnusáttmála ríkisstjórnarinnar segir algjörlega skýrt að gera eigi hlé á viðræðunum og fara eigi í þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort viðræðunum verði haldið áfram. Þetta er stefna ríkisstjórnarinnar, margítrekuð og staðfest, meðal annars af þeim manni sem situr hérna, hæstv. forsætisráðherra, sem ég hef hingað til ekki reynt að öðru en því að vera mann orða sinna. Hæstv. forsætisráðherra sagði það algjörlega hreint út að honum væri slétt sama hvort þjóðaratkvæðagreiðslan yrði á fyrri hluta eða seinni hluta kjörtímabilsins. Hann gaf sterklega í skyn að hún yrði á kjörtímabilinu. Hann talaði aldrei um að hún yrði síðar á öldinni. Menn verða að standa við það sem þeir segja.

Hins vegar kemur mér ekki á óvart miðað við sumarleiðangra hæstv. utanríkisráðherra að hann komi með þennan boðskap hingað í dag. Hann hefur eytt öllu sumrinu í að reyna að brjóta og bramla í kringum umsóknarferlið bersýnilega í þeim tilgangi að ónýta það. Hæstv. ráðherra hefur lýst því yfir, sem ég tel að sé í trássi við stefnu ríkisstjórnarinnar, að þjóðaratkvæðagreiðsla verði ekki á hans vakt.

Hvað hefur hann fengið út úr þessum lautarferðum sínum í sumar? Það er tvennt. Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur sent skriflega yfirlýsingu til íslensks fjölmiðils um það að hún líti enn á Ísland sem umsóknarríki. Reyndar hefur íslenska ríkisstjórnin staðfest það líka. Það sem honum hefur síðan tekist er að hann hefur talað frá Íslandi IPA-styrkina upp á 3,8 milljarða. Það er það sem liggur eftir sumarið hjá hæstv. utanríkisráðherra.

Að vísu ætti ég að vera sístur í þeirra hópi sem er að kvarta undan honum. Ég mundi miklu frekar segja að hæstv. utanríkisráðherra sé frá mínum bæjardyrum séð starfsmaður sumarsins. Honum hefur tekist að gera íslensku þjóðinni svo bylt við í þessu máli að við höfum séð að stuðningur við að halda áfram viðræðunum hefur snaraukist. Það hefur snarfækkað í hópi þeirra sem vilja slíta þeim. Ég ætla svo að hlífa þeim ágætu herramönnum sem sitja hér á bekknum við að rifja það upp hvaða áhrif það hafði ásamt öðru á fylgi Framsóknarflokksins í sumar.

Það sem mér finnst verst við vinnubrögð hæstv. ráðherra er hversu óhrein þau eru. Ég er þeirrar skoðunar að menn eigi að tala skýrt. Ræða þín á að vera já, já eða nei, nei. Menn eiga að segja skýrt hvað þeir vilja. Hæstv. utanríkisráðherra segir eitt í Brussel og annað í Reykjavík. Það er alveg rétt sem hæstv. ráðherra sagði, hann fór til Brussel. Hann sagði algjörlega skýrt þar hver stefna ríkisstjórnarinnar væri. Hann sagði: Að setja viðræðurnar í hlé, fresta þeim og taka ákvörðun um framhaldið í þjóðaratkvæðagreiðslu. Hann talaði svo bert um það þar að fyrsta spurning stækkunarstjórans og fyrsta spurning framkvæmdastjórnarinnar í Brussel var: Hvenær verður þjóðaratkvæðagreiðslan?

Þegar hann kom heim talar hann með allt öðrum hætti. Þá segir hann það algjörlega skýrt að hún verði ekki á hans vakt. Með öðrum orðum, hann er að taka til baka þær lögmætu væntingar sem fólk hefur í krafti stefnusáttmála ríkisstjórnarinnar um að fá að taka ákvörðunina sjálft.

Það sem ég geri líka sterklega athugasemd við gagnvart vinnubrögðum hæstv. utanríkisráðherra er að forustumenn ríkisstjórnarinnar báðir tveir, formenn Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins, hafa lýst ákveðnu ferli sem átti að liggja til grundvallar því að næsta skref yrði stigið. Það var sérstaklega formaður Sjálfstæðisflokksins sem lýsti því þrisvar sinnum yfir í fjölmiðlum. Hann sagði algjörlega skýrt: Það á ekki að taka skref fyrr en úttektirnar tvær liggja fyrir og Alþingi búið að ræða þær, þá taka menn næstu ákvörðun.

Þetta brýtur hæstv. utanríkisráðherra. Hvað segja hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins við þessu? Hingað til hefur Sjálfstæðisflokkurinn verið flokkur sem ég hef getað treyst, sem þjóðin hefur getað treyst [Hlátur í þingsal.] meira að segja hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni. En ég held að það skipti ákaflega miklu máli að fram komi hver afstaða Sjálfstæðisflokksins er til þessa gernings.

Ég tók eftir því í ræðu hæstv. utanríkisráðherra að hann sagði ekki að þetta hefði verið staðfest í ríkisstjórninni. Ég hef hingað til litið svo á að orð hæstv. fjármálaráðherra séu merk og gild. Hæstv. fjármálaráðherra lýsti þessu ferli og miðað við það má draga í efa að hæstv. utanríkisráðherra hafi fullt umboð í þessu máli.

Ég geri mér algjörlega grein fyrir hver hinn pólitíski veruleiki málsins er. En menn þurfa að vinna hreinlega. Það eru ekki tvær vikur síðan sá ágæti hæstv. forseti þingsins, sem situr hér yfir aftan mig, sá sig tilknúinn vegna glæfralegra yfirlýsinga hæstv. utanríkisráðherra að gefa um það opinbera yfirlýsingu að menn yrðu að virða fullveldi þingsins. Og hvernig sem meiri hlutar og minni hlutar skiptast á Alþingi Íslendinga er það staðreynd að í þessu mesta utanríkispólitíska máli fyrr og síðar tók Alþingi stefnu. Stefnan var sú að ljúka ætti viðræðum og koma heim með samning og gefið var loforð til þjóðarinnar um að hún fengi að taka afstöðu til þess samnings. Þetta er enn þá hin formlega stefna Alþingis. Fullveldi Alþingis verður að virða. Þess vegna sagði hæstv. forseti: Það verður að leiða fram þingviljann í þessu máli.

Hvers vegna er það ekki gert? Við hvað eru framsóknarmenn hræddir? Getur verið að þeir séu hræddir við að fram komi að í hópi hins stjórnarflokksins sé alls ekki eining um þetta? Það er ekki hægt, herra forseti, að vaða með þessum hætti á skítugum skóm yfir Alþingi. Þegar menn standa andspænis því að gera þarf allt sem hægt er til að styrkja Alþingi og efla virðingu þess þá er þetta ekki leiðin til þess.

Þetta er það sem mér finnst vera verst í málinu. Hvað hefði þá verið eðlilegt miðað við stöðuna, miðað við hvernig skoðanir skiptast hér á Alþingi, miðað við eðlileg vinnubrögð siðaðra manna, miðað við eðlilegar stjórnskipulegar verkhefðir? Það hefði að sjálfsögðu verið að leggja fyrir þingið þingsályktunartillögu um formlega frestun en jafnframt að segja hvenær þjóðaratkvæðagreiðsla ætti að fara fram um framhald viðræðnanna. Þá hefði þingviljinn verið leiddur fram og virtur, fullveldi Alþingis verið virt og menn hefðu líka staðið við lögmætar væntingar sem tveir forustumenn ríkisstjórnarinnar gáfu þjóðinni.



[11:27]
Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Forseti. Ég fagna því tækifæri sem hæstv. utanríkisráðherra gefur okkur þingmönnum til að fjalla um Evrópumálin með þeirri munnlegu skýrslu sem hann hefur nú flutt. Tengsl Íslands við og staða innan Evrópu hefur löngum verið umræðuefni í íslenskum þjóðmálum og lengstum verið uppspretta harðra pólitískra deilna. Það er eðlilegt og skiljanlegt. Í öðrum Evrópulöndum hefur með sama hætti verið tekist á um tengslin við Evrópusambandið um kosti og galla og hagsmuni.

Um aðild Íslands að EFTA og EES-samningnum og Schengen var tekist á hér á landi og hið sama á einnig við um hugsanlega aðild að Evrópusambandinu. Í kjölfar efnahagshrunsins 2008 blossaði umræðan upp hér á landi um hugsanlegan ávinning af Evrópusambandsaðild og kannanir bentu til að verulegur hluti þjóðarinnar væri spenntur fyrir slíkri aðild eða vildi að minnsta kosti láta á málið reyna. Undir lok stjórnartíma Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar, í kringum áramótin 2008/2009, freistuðu forustumenn þeirra flokka að ná saman um að koma ESB-málinu í farveg þótt ekki entist stjórninni aldur til að fylgja því máli eftir.

Í kjölfar þingkosninga vorið 2009 varð að samkomulagi milli þáverandi stjórnarflokka Samfylkingar og Vinstri grænna að hefja viðræður við ESB um hugsanlega aðild Íslands, ef Alþingi væri því samþykkt, með það að markmiði að samningsniðurstaðan yrði borin undir þjóðina.

Vitaskuld hefði mátt efna til þjóðaratkvæðagreiðslu strax síðsumars 2009 og það var vissulega rætt, en varð ekki niðurstaðan, bæði vegna þess að kannanir sýndu afdráttarlausan stuðning við að efnt yrði til viðræðna og hins að margir forustumenn í hreyfingu ESB-andstæðinga töldu, líklega réttilega, að jáyrði þjóðarinnar við aðildarviðræðum gæti bundið hendur margra þegar kosið yrði um samningsniðurstöðu. Á þessi sjónarmið var hlustað, enda þótt þau hafi síðan breyst sem og staða málsins alls. Eftir ítarlega umfjöllun og vinnu við þingsályktunartillögu utanríkisráðherra um aðildarviðræður lagði meiri hluti utanríkismálanefndar til, sex af níu nefndarmönnum, að teknar yrðu upp viðræður um aðild Íslands en jafnframt var unninn ítarlegur vegvísir um verklag og meginhagsmuni sem stjórnvöld skyldu halda sig við.

Tillagan var þannig samþykkt sem ályktun Alþingis og send ríkisstjórninni sem síðan hófst handa við að framfylgja þeirri ályktun. Þar með ákvað Alþingi hvernig samninganefndir og -hópar væru skipaðir og hver aðkoma Alþingis væri að þeirri vinnu. Nú hefur ráðherra upplýst að hann hafi ákveðið að leysa þessa samningahópa frá störfum og víkur því í veigamiklum atriðum frá lögmætri samþykkt Alþingis án þess að leita samþykkis þess.

Hvað sem líður afstöðu þingmanna til aðildar að ESB verður að virða leikreglur þingræðisins og ég tel að færa megi fyrir því sterk rök að hæstv. utanríkisráðherra sé á þunnum ís hvað þetta áhrærir svo ekki sé fastar að orði kveðið.

Það er óþarfi að rekja hér í þessari umræðu þau efnisatriði sem utanríkismálanefnd setti fram eða þá vinnu sem unnin hefur verið. Við fáum væntanlega tækifæri til að fjalla ítarlegar um þau mál þegar utanríkisráðherra leggur fram skýrslu sína fyrir þingið sem hann hefur boðað í nóvember næstkomandi. Vonandi.

Ég vil þó ítreka að í stjórnarsáttmála fyrrverandi ríkisstjórnar sagði að flokkarnir væru sammála um að virða ólíkar áherslur hvors um sig gagnvart aðild að Evrópusambandinu og rétt þeirra til málflutnings og baráttu úti í samfélaginu í samræmi við afstöðu sína og hafa fyrirvara um samningsniðurstöðuna. Á þeim grundvelli og þeirra meginhagsmuna og verklags sem lýst var í nefndaráliti meiri hluta utanríkismálanefndar féllst meiri hluta þingmanna flokksins á að undirbúa málið þannig að það gæti komið til ákvörðunar þjóðarinnar á upplýstum og málefnalegum grundvelli.

Á síðasta landsfundi flokksins var áréttað að Íslandi væri best borgið utan ESB en að ljúka ætti aðildarviðræðum við sambandið og setja því ferli tímamörk, t.d. eitt ár. Enn fremur að þjóðin kysi síðan um niðurstöður aðildarviðræðnanna.

Það er einlæg sannfæring mín að spurningin um hugsanlega ESB-aðild verði ekki leidd til lykta nema með þjóðaratkvæðagreiðslu. Í því sambandi er það skoðun mín að þá skipti engu hvort gert verði hlé á viðræðunum nú eða aðildarumsókn dregin til baka. Málinu verður ekki ýtt út af umræðuborði þjóðarinnar með slíkum hætti. Það verður áfram deilumál og um það þrefað og tekist á uns þjóðin hefur fengið að ráða málinu til lykta.

Þess vegna er ég sannfærður um að affarasælast væri að ljúka aðildarviðræðum og bera samningsniðurstöðu undir þjóðina. Því fyrr, því betra að mínu mati þótt dagsetningar í því efni geti ekki orðið úrslitaatriði.

Vilji núverandi ríkisstjórn og þeir flokkar sem að henni standa ekki fylgja eftir samþykkt Alþingis frá 2009 er einboðið að Alþingi álykti um framhald málsins og þann farveg sem það yrði þá sett í. Eðlilegast væri að mínu viti að gera það í kjölfar þeirrar úttektar sem nú er í vinnslu af hálfu hæstv. utanríkisráðherra og deili ég þar væntanlega skoðun með hæstv. fjármálaráðherra, formanni Sjálfstæðisflokksins.

Ég sagði í upphafi máls míns að það væri fagnaðarefni að fá tækifæri til að ræða tengsl Íslands við Evrópu. Það er því miður allt of sjaldan sem við fáum ráðrúm hér á Alþingi til að ræða stöðu Íslands í alþjóðasamfélaginu, þar með talin tengslin við Evrópusambandið. Ég tel til að mynda að EES-samningurinn sem ég heyrði hæstv. utanríkisráðherra lýsa fjálglega og stuðningi við, ef ég skildi hann rétt, sé kominn í visst öngstræti. Þar er nú farið að reyna svo á þanþol stjórnarskrárinnar að ég tel einsýnt að öllu lengra verði ekki haldið með hann nema að breyttri stjórnarskrá.

Á næstu mánuðum og missirum munu koma til kasta Alþingis nýjar ákvarðanir sem fela í sér víðtækt framsal á fullveldi sem stjórnarskráin mun ekki þola. Nær engar umræður hafa farið fram um þau álitamál hér á Alþingi, en á síðustu missirum vakti ég þó nokkrum sinnum máls á þessari stöðu án mikilla viðbragða frá öðrum þingmönnum.

Það er sérstök ástæða til að fara þess á leit við hæstv. utanríkisráðherra að hann geri þinginu sérstaklega grein fyrir stöðu EES-málanna fljótlega á næsta löggjafarþingi.

Sú var tíðin, herra forseti, að skilin milli utanríkismála og innanríkismála voru skýr og lítið flæði þar á milli. Þeirri stöðu er ekki til að dreifa í sama mæli í dag. Téður EES-samningur er dæmi um það hvernig innanlandsmálefni og utanríkismál fléttast saman með innleiðingu á fjölmörgum ákvörðunum, reglum og tilskipunum Evrópusambandsins í íslenskan rétt. Í langflestum tilvikum gerist það nær umræðulaust hér í þinginu enda þótt í þeim felist oft viðurhlutamikið framsal á fullveldi. Hið sama má segja um ýmsa alþjóðasamninga á sviði mannréttindamála sem við innleiðum einnig í íslenskan rétt.

Pólitísk, félagsleg, efnahagsleg og menningarleg samskipti sem eiga sér stað í hnattvæddum heimi eru þess eðlis að um leið og fengist er við þau í samskiptum þjóða eru þau viðfangsefni í innanlandsstjórnmálum. Loftslagsbreytingar og hlýnun andrúmsloftsins, mengun, auðlindanýting á opnum hafsvæðum, vopnuð átök og hryðjuverk, vændi, mansal og fíkniefnasmygl, aukin misskipting milli ríkra þjóða og fátækra og fjöldi flóttamanna og hælisleitenda eru allt þættir sem eru í vaxandi mæli viðfangsefni stjórnvalda á heimavelli um leið og engum dylst að á þeim verður ekki tekið með árangursríkum hætti nema með stóraukinni samvinnu þjóða. Þetta eru ógnir sem virða engin landamæri.

Ísland má ekki og á ekki að einangra sig frá þessum alþjóðlega veruleika. Það má vel líta á umræðuna um hugsanlega aðild Íslands að Evrópusambandinu að hluta til í þessu ljósi, þ.e. hvar skipum við okkur í sveit og hvernig högum við tengslum okkar við önnur ríki og ríkjabandalög og fjölþjóðlegar stofnanir og hver er aðkoma Íslands að úrlausn mála sem eru alþjóðleg í eðli sínu? Þetta eru ekki mál sem hægt er að afgreiða með klisjum eða upphrópunum eða „af-því-bara“-svörum. Ísland er Evrópuríki og í gegnum aðildina að EES og Schengen höfum við tekið á okkur þjóðréttarlegar skuldbindingar og deilt fullveldi með öðrum aðildarþjóðum. Fælist minna eða meira framsal ríkisvalds með aðild að ESB en með aðildinni að EES og Schengen?

Hér í þessum sal hafa án efa flestir svör á reiðum höndum við spurningum af þessum toga, en á það við um þorra þjóðarinnar? Um það má ugglaust deila en í mínum huga skiptir mestu máli að álitamál af þessum toga séu krufin, bæði pólitískt og fræðilega, og fram fari opin, upplýst og djúpstæð umræða um málið í samfélaginu öllu. Það verður ekki gert með því að skella hurðum eða setja lok á umræðupottinn. Skiptir þá engu máli hvaða afstöðu menn hafa nú þegar eða kunna að mynda sér í kjölfar umræðu á þessu hitamáli í íslenskri pólitík.

Forseti. Ég er sannfærður um það að við Íslendingar eigum að eiga góð og náin samskipti við aðrar þjóðir, þar með talið frændþjóðir okkar í Evrópu, og þau samskipti á að þróa áfram og efla. En ég hef persónulega ekki sannfæringu fyrir því að Evrópusambandið sé eini eða besti vettvangurinn í því sambandi. Og ég hef vaxandi efasemdir um að EES-samningurinn geti gengið í óbreyttri mynd til frambúðar. En mér virðist málið í höndum núverandi ríkisstjórnar vera í ákveðinni pattstöðu, að hún viti ekki hvert hún hyggst halda og þá er að mínu viti rétt og skynsamlegt að fá leiðsögn þjóðarinnar um framhald málsins. Þess vegna á að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu og fá fram vilja þjóðarinnar til málsins. Því hlýt ég að beina þessum spurningum til hæstv. utanríkisráðherra í lok máls míns:

Hyggst ráðherrann eða ríkisstjórnin leggja fyrir þingið einhverja tillögu um framhald málsins eða um næstu skref og þá hvenær? Treystir ráðherrann sér til að fela þjóðinni að ákveða hvernig haldið verður á þessu þýðingarmikla máli í framhaldinu?



[11:37]
Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka þessa umræðu eins og aðrir sem hafa tekið til máls og þakka sérstaklega fulltrúum stjórnarandstöðunnar úr utanríkismálanefnd sem hér hafa talað fyrir ágætar ræður, hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni fyrir málefnalega og góða ræðu þó að ég sé ekki sammála öllu sem þar kom fram og hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni fyrir líflega ræðu sem var ekki endilega nákvæm í öllum þeim atriðum sem mestu máli skipti og hann gerði mest úr. Þar vildi ég sérstaklega nefna að tilvitnanir hans til stefnu flokka og yfirlýsinga ríkisstjórnarinnar voru býsna ónákvæmar. (Gripið fram í.) Þess vegna ætla ég að lesa upp þá texta sem hann vísaði til þannig að þeir komi réttir í þingtíðindi en ekki í þeirri útgáfu sem hv. þingmaður hafði uppi í máli sínu.

Í landsfundarályktun Sjálfstæðisflokks segir um það mál sem hér er til umræðu, með leyfi forseta:

„Landsfundur telur að hagsmunum Íslands sé betur borgið með því að standa fyrir utan Evrópusambandið.

Áréttað er að aðildarviðræðum við ESB verði hætt og þær ekki teknar upp aftur nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu.“

Í ályktun flokksþings Framsóknarflokksins í vetur er með sama hætti áréttað að flokkurinn telji að betra sé að standa utan ESB og segir um aðildarviðræður:

„Ekki verður haldið lengra í aðildarviðræðum við Evrópusambandið nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu.“

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar sem sérstaklega var vitnað til er byggt á þessu orðalagi flokksþinganna tveggja og sagt:

„Gert verður hlé á aðildarviðræðum Íslands við Evrópusambandið og úttekt gerð á stöðu viðræðnanna og þróun mála innan sambandsins. Úttektin verður lögð fyrir Alþingi til umfjöllunar og kynnt fyrir þjóðinni. Ekki verður haldið lengra í aðildarviðræðum við Evrópusambandið nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu.“

Þarna er getið um nokkra mismunandi liði. Hvar erum við stödd? Við erum stödd á þeim stað að búið er að stöðva viðræður, gera hlé eins og menn vilja orða það af því að viðræðunum hefur réttilega ekki verið slitið. Það hefur verið gert hlé eins og talað var um. Það eiga sér ekki stað viðræður við Evrópusambandið á þessari stundu um aðild Íslands. Pólitískum og tæknilegum viðræðum hefur verið hætt eins og segir í stjórnarsáttmálanum og eins og gert var ráð fyrir í landsfundarsamþykktum flokkanna.

Utanríkisráðherra boðar hér í ræðu sinni að hann vinni að gerð samnings við háskólastofnun um gerð þeirrar skýrslu sem líka er talað um í stjórnarsáttmálanum. Þegar sú skýrsla kemur fram þá liggur fyrir samkvæmt stjórnarsáttmálanum að málið komi til umfjöllunar og umræðu á Alþingi. Þá blasa náttúrlega við nokkrir mismunandi kostir. Ég veit að í þessum sal eru talsmenn mismunandi kosta í því sambandi.

Einn kosturinn er sá að gera eins og sumir hafa rætt í þessari umræðu, að leggja fyrir Alþingi þingsályktunartillögu sem nemi úr gildi þingsályktunartillöguna frá 16. júlí 2009. Það er hægt. Í kjölfarið væri eðlilegt að senda Evrópusambandinu bréf um það að Ísland segði sig formlega frá viðræðunum. Það er formlegt skref sem unnt væri að stíga eftir umfjöllun Alþingis. Sá möguleiki er líka fyrir hendi að láta nægja í þingsályktunartillögu af slíku tagi að segja að Alþingi styðji þá ákvörðun ríkisstjórnarinnar að gera hlé á viðræðum. Það er líka hægt að gera það þannig. Þá lýsti, eftir umfjöllun Alþingis og eftir þá skýrslugerð sem nú hefur verið boðuð, Alþingi stuðningi sínum við þá aðgerð sem þegar hefur átt sér stað. Bara til að nefna það hér þá tel ég að það sé í fullu valdi utanríkisráðherra stjórnskipulega séð að gera hlé, leysa samningahópa upp, færa menn til annarra starfa innan ráðuneytis o.s.frv. Ég held að enginn geti efast um það að ráðherra hefur slíka stjórnskipulega heimild.

Þriðji möguleikinn sem blasir við eftir skýrslugerð og umfjöllun Alþingis væri sá sem ég veit að sumir í þessum sal vilja, að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald málsins.

Þeir valkostir sem ég nefndi eru á borðinu. Það hefur ekki verið tekin formleg ákvörðun um neinn þeirra, ekki um þjóðaratkvæðagreiðslu, ekki um að slíta viðræðum, ekki um neinn þessara kosta. Ríkisstjórnin hefur boðað leið og farveg fyrir málið að þessu marki, að þeim punkti að við hér í þinginu tökum afstöðu til mismunandi kosta að þessu leyti. Við erum búin að stíga skrefið sem talað var um, að gera hlé á viðræðum. Þeim var hætt de facto þó að enn sé um að ræða formlega stöðu Íslands sem aðildarríkis.

Í annan stað er í pípunum sú skýrslugerð sem ráðherra hefur boðað og ég held að allir sem hafa komið að málinu á borði ríkisstjórnarflokkanna leggi mikið upp úr og bindi miklar vonir við að verði greinargóð og geti orðið góður grundvöllur umræðu og ákvarðanatöku á næstu stigum máls. Þegar skýrslan liggur fyrir og þegar umræða á grundvelli hennar hefur farið fram í þinginu verður ljóst hvernig við tökum lokaskrefið í þessu ferli, hvort það verður gert með því að slíta viðræðum, staðfesta hlé, þá til lengri tíma en nokkurra mánaða, eða með því að boða til þjóðaratkvæðagreiðslu. Það eru þeir kostir sem eru í stöðunni.

Ég vil hins vegar segja það sem mína persónulegu skoðun að hvað sem líður öllum þessum einstöku liðum í ferlinu og tæknilegum atriðum í þessu sambandi þá held ég að okkur megi öllum vera ljós sá pólitíski veruleiki sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson benti á í ræðu sinni hér í upphafi. Auðvitað er staðan sú að það er fráleitt að ætlast til þess af ríkisstjórn og þingmeirihluta sem vill ekki inn í ESB að slíkur meiri hluti í þinginu og slík ríkisstjórn klári aðildarviðræður. Nógu erfitt var það fyrir síðustu ríkisstjórn sem gekk til þess verks klofin. Hluti hennar vildi inn í ESB, hluti hennar vildi það alls ekki. Hluti hennar var einhvers staðar mitt á milli, vildi viðræður en ekki aðild. Það er sjónarmið. En það var nógu erfitt fyrir þá ríkisstjórn að tryggja þann pólitíska bakgrunn og þann pólitíska stuðning við viðræður að þær skiluðu einhverju áleiðis. Eins og hæstv. utanríkisráðherra rakti í ræðu sinni gerðist það á þeim tíma frá 2009–2013 að samningum var lokið um kafla sem allir gengu út frá í upphafi að yrðu afgreiddir nánast með undirskrift og pennastriki, kafla sem við erum hvort sem er aðilar að af því að við erum í EES. Það var á þeim þremur árum sem liðu frá því að formlegar samningaviðræður byrjuðu og þangað til þeim var hætt nú í sumar að hluti þeirra kafla, sem alltaf hefur verið sagt að við værum hvort sem er aðilar að, sem aðilar að EES, var kláraður en ekki allir. Svo talar Vinstri hreyfingin – grænt framboð um það að á einu ári eigi að klára erfiðu kaflana þegar það tók þrjú ár að klára hluta léttu kaflanna.

Í sjávarútvegsmálum og landbúnaðarmálum eru ekki byrjaðar neinar viðræður. Á sviði landbúnaðarmála eru menn búnir að skiptast á einhverjum stefnuplöggum en það eru engar viðræður byrjaðar. Ekkert er að gerast í sjávarútvegsmálunum. Þetta eru punktarnir sem allir vissu frá upphafi að yrðu erfiðu punktarnir. Ég get ekki skilið annað en Vinstri hreyfingin – grænt framboð hafi með þeirri landsfundarályktun sem hv. þm. Árni Þór Sigurðsson vitnaði í eingöngu verið að ná sér í tímabundna fjarvistarsönnun fram yfir kosningar með orðalaginu. En ég held auðvitað að þeim sem setið hafa í þessum málum af hálfu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hafi verið ljóst að miðað við gang viðræðnanna frá 2009–2013 væri algerlega óraunhæft hvort sem er að klára viðræðurnar á einu ári. Þetta var bara leikaraskapur, hæstv. forseti.

Ég ætla ekki að fara lengra í þessu efni, hæstv. forseti. Ég hef gert grein fyrir því hvernig ég sé þetta mál fyrir mér. Ég held að í samræmi við orðalag stefnuyfirlýsingar ríkisstjórnarinnar sé hægt að leiða málið í góðan farveg. Ég veit ekki hvort við náum samstöðu hér í þinginu en ég held að við ættum hins vegar ekki að þurfa að karpa um smáatriði eða fara í hártoganir um orðalag þegar við stöndum frammi fyrir þessu verkefni eins og það liggur fyrir samkvæmt stjórnarsáttmálanum.



[11:47]
Forseti (Einar K. Guðfinnsson):

Forseti vill taka það fram að hann gerir ekki athugasemdir við það þó að hv. þingmenn fari fram úr ræðutíma sínum. Hann dregst þá frá ræðutíma þeirra annarra hv. þingmanna sem tala úr sama stjórnmálaflokki.



[11:47]
Óttarr Proppé (Bf):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. utanríkisráðherra kærlega fyrir þessa umræðu sem ég tel að sé mjög mikilvæg, ekki síst eftir þær fréttir sem hafa borist okkur og það sem gerst hefur í sumar. Oft hafa yfirlýsingar og fréttir verið dálítið misvísandi og óljóst hver staðan er. Þó vil ég taka fram að ég fagna sérstaklega yfirlýsingu hæstv. utanríkisráðherra frá því fyrr í haust um að viðræðum hafi ekki verið slitið og viðræðum verði ekki slitið án aðkomu Alþingis.

Það er kannski dálítið skrýtið að koma hingað í þennan sal tiltölulega beint af götunni og hlusta á ágætar umræður hv. þingmanna hér á undan sem hafa langt líf, skulum við segja, í þessari umræðu og tala tæknilega um afstöðu hver annars í fortíð og nútíð og þingið. Það fær mann til að hugsa um það í raun og veru af hverju Ísland lagði inn umsókn um aðild að Evrópusambandinu til að byrja með. Aðild Íslands að Evrópusambandinu hefur verið hitamál sem hefur verið, eigum við að segja stóra rifrildið eða eitt af stóru rifrildunum í íslenskum landsmálum áratugum saman. Eftir hrunið árið 2009 tók þingið vissulega ákvörðun um að leggja inn umsókn og mér finnst dálítið skrýtið að hv. þingmenn í þingsal skuli rífast um hver ákvörðun þingsins hafi verið. Ég held að hún hljóti að hafa verið skýr.

Hæstv. utanríkisráðherra kom aðeins inn á það í skýrslu sinni að á þeim tíma voru miklir óvissutímar á Íslandi og staða okkar var ekki sterk. Ég spurði sjálfan mig hvort hann skilgreindi þá nútímann sem tímavissu, þ.e. að ekki væri lengur óvissa á Íslandi og staða okkar væri orðin sterk. Eins spurði ég mig að því hvort Evrópusambandið hefði verið einhvers konar jóker í spilinu eða einhvers konar fiff bara vegna þess að Ísland lifði óvissutíma. Er ekki Evrópusambandið einmitt samráðsvettvangur til að takast á við þá óvissu sem alltaf er í heiminum, sem alltaf er í stjórnmálunum og í viðskiptaheiminum, í efnahagsheiminum?

Ég hef oft gantast við vini mína úr Framsóknarflokknum, sérstaklega á ferðum í Brussel, með að það sé dálítið skýrt að Evrópusambandið sé kannski stærsta samvinnufélag í heimi. Evrópusambandið er í sjálfu sér ekkert annað en samráðsvettvangur sjálfstæðra ríkja.

Mig langar aðeins til að rifja upp orð Angelu Merkel Þýskalandskanslara. Það er kannski ekki vinsælt að vitna í útlendinga en ég held að frú Merkel sé sjaldan kölluð stjórnmálalegur galgopi. Hún minntist nýlega á þá staðreynd að Evrópubúar væru 7–8% mannkyns. Í Evrópu væri hins vegar upp undir fjórðungur efnahagsumsvifa heimsins og 50% af velferðarútgjöldum heimsins. Evrópa er velferðarmannréttindaheimsálfa þar sem lagt er upp úr samfélagi sem er nákvæmlega samhljóma því samfélagi sem við erum að horfa á hér á Íslandi. Þess vegna höfum við í Bjartri framtíð verið jákvæð til inngöngu Íslands í Evrópusambandið. Við höfum talið að við eigum heima í Evrópu, við séum komin frá Evrópu. Við höfum alltaf lagt ríka áherslu á að það eigi að klára viðræðurnar, komast að því hver staða Íslands er innan Evrópusambandsins og leggja síðan niðurstöðurnar fyrir þjóðina. Ég verð að spyrja mig, og hef spurt mig dálítið í sumar í þeirri óvissu sem hefur vissulega ríkt um stöðuna, hvort við værum að slíta viðræðunum eða ekki, hvort við værum að slíta viðræðuhópunum eða ekki, hvort slit á viðræðuhópunum væru merki um slit á viðræðunum o.s.frv. Í sumar hef ég velt fyrir mér af hverju í ósköpunum við viljum loka hurðinni og slíta viðræðum. Ég hef starfað mest allt líf mitt í viðskiptalífinu og ég hef aldrei upplifað að það hafi talist góður „bisness“ að neita sér um möguleika.



[11:54]
Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Þetta eru ákaflega athyglisverð umræða. Ég verð að viðurkenna, alveg eins og eftir fund í utanríkismálanefnd um þessi mál, að ég er ekki alveg með það á hreinu hvert við erum að fara með þetta mál.

Ég ætla því að leggja til og vitna í þingsályktunartillögu sem var lögð fram á sumardögum af hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni sem er eins og hér hljómar, með leyfi forseta:

„Tillaga til þingsályktunar um þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að undirbúa þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu sem fram fari samhliða sveitarstjórnarkosningum vorið 2014.

Jafnframt ályktar Alþingi að þær úttektir sem framkvæmdarvaldið hefur boðað á stöðu samninga og þróun innan Evrópusambandsins skuli unnar í samvinnu þings og ríkisstjórnar. Heimilt skal að kveðja til vinnunnar bæði erlenda og innlenda sérfræðinga. Niðurstöður úttektanna liggi fyrir 1. desember 2013 og verði þá þegar lagðar fram til umræðu á Alþingi og kynntar þjóðinni sameiginlega af Alþingi og ríkisstjórn til undirbúnings þjóðaratkvæðagreiðslu við sveitarstjórnarkosningarnar 2014.“

Forseti. Mér finnst þetta lausn á þessu vandamáli, þessum óskýrleika. Ég skora á formann utanríkismálanefndar að afgreiða þingsályktunartillöguna úr nefnd svo að við getum greitt um hana atkvæði áður en við förum heim í næstu viku. Þá er þetta mál komið í þannig ferli að við virðum þann yfirgnæfandi vilja þjóðarinnar að fá að hafa um það þjóðaratkvæðagreiðslu og halda þessu ferli áfram.

Ég verð að viðurkenna að mér finnst mjög skringilegt að leysa upp samninganefndirnar því að það var fullkomið samráð og ánægja með þessa hópa í þá veru að þeir stæðu vörð um hagsmuni Íslands og stæðu sig vel í þessum samningagerðum. Það var þverpólitísk samstaða um þessa hópa. Þarna finnst mér hæstv. utanríkismálaráðherra hafa farið fullbratt. Mér finnst óþægilegt að ekki sé haft meiri samvinna við þingið um það hvernig við ætlum að haga verkferlum í kringum þetta mál því að ef við þurfum að byrja upp á nýtt, ef þjóðin ákveður að hún vilji halda áfram og ef hæstv. ríkisstjórn ætlar að virða þjóð sína og leyfa henni að kjósa um þetta þá er mjög skringilegt að fara kannski að kalla aftur til eitthvert annað fólk í þessar nefndir. Nú þegar hefur skapast ákveðin þekking og reynsla í þessum samningahópum og í raun og veru hefur ekkert verið umdeilt við þeirra störf. Það hefur verið almenn ánægja hjá öllum flokkum með þeirra störf. Það hefur komið fram í nefndarstörfum sem m.a. núverandi hæstv. ráðherra tók þátt í. Aldrei heyrði ég miklar deilur eða illindi um þessa hópa nema einstöku sinnum varð smáæsingur í kringum einhver búnaðarþing eða eitthvað slíkt. Til dæmis var almennt séð ánægja með störf aðalnefndarinnar.

Síðan hefur líka komið fram í öllu þessu ferli og mikið gengið á — væntanlega hefur verið mikið fjör hjá hæstv. utanríkisráðherra í kringum allar þessar ákvarðanir sem hann hefur sennilega fullt umboð til — að þetta er ekki í anda þess sem núverandi hæstv. ráðherra talaði um þegar hann var ekki ráðherra, þegar hann var óbreyttur þingmaður. Þá kallaði hann eftir nákvæmlega því sem hann er ekki að gefa þinginu í dag, þ.e. samvinnu og meiri aðkomu að málinu og að meira væri hlustað á þingmenn.

Síðast en ekki síst, og það er kannski alvarlegast í þessu ferli, hefur verið ákveðið að hunsa vilja þingsins. Þingið ályktaði og fól fyrrverandi ríkisstjórn og núverandi að gera ákveðna hluti. Ríkisstjórnin getur ekki snúið því við nema bera það undir þingið. Það liggur mikið undir. Og þó svo að það hafi komið fram minnisblað úr utanríkisráðuneytinu um hvernig framkvæmdarvaldið ætlaði sér að túlka niðurstöður þingsályktana þá er ekki einróma samþykkt um það, hvorki inni á þingi né úti í samfélaginu. Það þýðir einfaldlega að þótt allir í þinginu segi já við þingsályktunartillögu sé hægt að hunsa þingsályktunina ef hún er ekki samkvæmt einhverju lögformlegu „bla bla“. Ætlar hæstv. núverandi utanríkisráðherra til dæmis að segja við okkur hér í þinginu að hann ætli ekki að virða þingsályktun um það hvernig við ætlum að bregðast við skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, hvernig við ætlum að laga til í íslensku samfélagi? Ætlar hæstv. ráðherra ekki að virða þá þingsályktun þrátt fyrir að gjörvallt Alþingi segði já við henni?

Ég held að besta leiðin út úr þeim vandræðum sem eru út af því að enginn veit hvert er verið að fara með þetta mál sé einfaldlega sú að formaður hv. utanríkismálanefndar hleypi þingsályktunartillögu hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar í gegnum sumarþingið þannig að enginn vafi verði lengur og við getum annaðhvort haldið áfram í þessu ferli eða ekki, en fyrst og fremst eigum við að leyfa þjóðinni að taka þessa ákvörðun.

Hæstv. ráðherra utanríkismála, Gunnar Bragi Sveinsson, sagði jafnan á síðasta þingi, ásamt mörgum öðrum, að það væri rétt að þjóðin fengi að taka ákvörðun um hvort við ætluðum að vera í þessum aðildarviðræðum eða ekki. Hvað hefur breyst?



[12:02]
Frosti Sigurjónsson (F):

Virðulegi forseti. Í ræðu sinni vék utanríkisráðherra örlítið að því hve veikur pólitískur grundvöllur aðildarumsóknar hefði verið og ég tek heils hugar undir það. Fráfarandi ríkisstjórn var klofin í afstöðu sinni til aðildar og meiri hluti þingmanna var í raun andvígur aðild. Það kom mér satt að segja á óvart að Evrópusambandið skyldi taka góða og gilda aðildarumsókn sem byggði á svo lýðræðislega veiku umboði.

En hvað með afstöðu kjósenda? Eru þeir hlynntir aðild? Á tímabilinu frá ágúst 2006 til febrúar 2013 vann Capacent Gallup reglubundið skoðanakannanir fyrir Samtök iðnaðarins þar sem könnuð var afstaða almennings til ESB-aðildar. Með leyfi forseta:

„Á þessu sjö ára tímabili óx hlutfall þeirra sem eru andvígir aðild jafnt og þétt úr 33% í 56% á sama tíma og hlutfall aðildarsinna lækkaði úr 46% í 25%. Óákveðnum fækkaði úr 21% í 17%. Þeir sem kváðust mjög andvígir aðild voru árið 2013 orðnir 36% svarenda, eða þrefalt fleiri en þeir sem kváðust mjög hlynntir aðild.“

Í þrjú ár hafa aðrar viðhorfskannanir líka sýnt að meiri hluti kjósenda er andvígur aðild að Evrópusambandinu. Niðurstöður alþingiskosninganna styðja enn fremur við þessa niðurstöðu. Sá flokkur sem talaði eindregnast fyrir ESB-aðild fékk aðeins 13% atkvæða en flokkar sem töluðu eindregið gegn aðild hlutu 62% atkvæða.

Það er ljóst að meiri hluti þingmanna er nú andvígur aðild. Báðir stjórnarflokkarnir eru mjög andvígir aðild og flestir landsmenn eru það líka. Ég tel því nokkuð sjálfgefið að gera hlé á aðildarferlinu og að mínu mati væri heiðarlegast gagnvart ESB að afturkalla umsóknina formlega. Það ber að sjálfsögðu að virða sjónarmið þeirra sem eru hlynntir aðild, en reglur lýðræðisins ber einnig að virða. Minni hlutinn getur ekki átt lýðræðislegt tilkall til þess að staðið sé í kostnaðarsömu aðlögunarferli að ríkjabandalagi sem meiri hluti landsmanna vill ekki inngöngu í.

En hvers vegna hefur andstaða við aðild farið vaxandi? Er eitthvað sem bendir til að sú afstaða geti breyst í bráð?

Aðildarumsóknin var lögð fram í júlí árið 2009 í kjölfar mikils efnahagsáfalls. Því var haldið fram að aðild gæti klárast á 18 mánuðum og að hún mundi leysa efnahagsvanda þjóðarinnar. Það er ljóst að ESB-aðild reyndist ekki það skjól fyrir efnahagsáföllum sem menn ætluðu. Hvert aðildarríkið á fætur öðru hefur lent í vandræðum. Á Írlandi var skuldum fallinna banka velt yfir á heimilin í landinu. Ekki höfðu Írar neitt val um það.

Þrátt fyrir að bæði Grikkland og Kýpur væru með evruna brast þar á fjármagnsflótti. Setja þurfti fjármagnshöft á Kýpur. ESB hefur sett afar ströng skilyrði fyrir efnahagslegri aðstoð til aðildarríkja í vanda og niðurskurður hefur bitnað mjög harkalega á fátækum fjölskyldum. Atvinnuleysi í Grikklandi er nú 28%, hagkerfið hefur skroppið saman um fjórðung og þar er skortur á nauðsynlegustu lyfjum.

Vandi Kýpur er einnig mikill, þar krafðist ESB þess að lífeyrissjóðir og gaslindir í þjóðareigu væru settar að veði fyrir efnahagsaðstoð.

Þessi harka ESB gegn eigin aðildarríkjum í vanda hlýtur að vekja spurningar um það hvernig Íslandi hefði farnast sem aðildarríki í hruninu. Hefðum við þá getað varist því að skuldum fallinna banka yrði velt á heimilin? Hversu miklar kröfur hefði ESB gert um niðurskurð, sölu þjóðareigna eða veðsetningu í auðlindum þjóðarinnar? Hversu mikið af makrílkvóta hefði Brussel skammtað Íslandi? Hefði íslensk ferðaþjónusta vaxið eins og raun ber vitni ef hér væri evra? Hversu mikið væri atvinnuleysið? Svari hver fyrir sig.

Það mun líklega seint gleymast að fyrir EFTA-dómstólnum beitti Evrópusambandið sér sérstaklega fyrir því að íslenskir skattgreiðendur öxluðu skuldir einkarekinna fjármálafyrirtækja. Sem betur fer tapaði Evrópusambandið því máli.

Nú ríkir mikil óvissa um hvernig Evrópusambandið muni þróast á næstu árum. Rætt er um að einhver aðildarríki gætu þurft að yfirgefa myntbandalagið. Í Bretlandi verður þjóðaratkvæðagreiðsla haldin árið 2017 um hugsanlega útgöngu úr sambandinu. Leiðtogar aðildarríkja virðast alls ekki einhuga um hvort stefnt skuli að meiri eða minni miðstýringu.

Undir þessum kringumstæðum gæti fullbúinn aðildarsamningur harla lítið sagt um það hvernig aðild mun líta út eftir nokkur ár. Sambandið sjálft gæti verið gjörbreytt frá því sem nú er. Það hlýtur að vera grundvallarforsenda aðildarferlis að meiri hluti þjóðar og þings hafi vilja til aðildar. Það hlýtur líka að vera forsenda ákvörðunar um aðild að hægt sé að vita með einhverri vissu á hvaða leið sambandið er. Um þetta allt ríkir nú mikil óvissa.

Í ljósi þessara kringumstæðna er sú ákvörðun ríkisstjórnar að gera hlé á aðlögunarferlinu bæði lýðræðisleg og skynsamleg.



[12:07]
Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Framganga ríkisstjórnarinnar í málum er varða aðild Íslands að Evrópusambandinu er ámælisverð. Hún er það vegna þess að ríkisstjórnin göslast áfram með utanríkisráðherrann í broddi fylkingar með það að markmiði að reyna að koma málum svo fyrir að aðildarferlið stöðvist án þess að hafa til þess umboð þingsins. Og hún forðast að koma inn í þingið og æskja skýrs umboðs.

Utanríkisráðherra hefur gengið fram með lögfræðiálit, hann er vopnaður lögfræðiáliti, til að reyna að finna því stað að hann sé ekki bundinn af ályktun Alþingis. Það lögfræðiálit verður götóttara og götóttara eftir því sem meira er lesið í því. Forsendurnar sem menn gefa sér í álitinu eru rangar. Allt byggir það á tilvitnun í einn danskan fræðimann. Hins vegar eru höfundar álitsins svo óheppnir að hafa sést yfir það að sá sami fræðimaður skrifaði sérstaka grein um sérstöðu utanríkismála í þessu samhengi og komst að þeirri niðurstöðu að þingheimur í Danmörku hafi alltaf stjórnað gerðum ríkisstjórnar í utanríkismálum.

Það er þingræðisvenja á Íslandi og hana ber að virða. Öll stór skref í utanríkismálum þjóðarinnar hafa alla 20. öld og allt fram á þennan dag stafað frá Alþingi Íslendinga, hvort sem það er þingsályktunartillaga Tryggva Þórhallssonar 1931 um að Ísland æski upptöku í Þjóðabandalagið, þingsályktunin um aðild að Sameinuðu þjóðunum 1946, aðildin að NATO 1948, aðildin að EFTA 1970 og svo aðildin að ESB 2009. Það er ekki rétt að þetta séu þingsályktanir í skilningi 21. gr. stjórnarskrárinnar, þetta eru þvert á móti þingsályktanir sem veita umboð til samninga og síðan í kjölfarið, eftir að samningur liggur fyrir, er sá samningur lagður fyrir þingið og staðfestur með þingsályktun í samræmi við 21. gr. stjórnarskrárinnar.

Virðulegi forseti. Sú ákvörðun sem hæstv. utanríkisráðherra kynnti í morgun hefur ekki verið tekin að undangengnu samráði við utanríkismálanefnd. Hann sagðist á fundi með utanríkismálanefnd nýverið vera að hugleiða það, en 24. gr. þingskapalaga um samráð við utanríkismálanefnd hefur ekki verið virt. Maður spyr líka: Hvar er ákvörðun ríkisstjórnarinnar? Hvar er hin formlega afgreiðsla ríkisstjórnarinnar á þessu máli? Verður þá að vitna til nýgengins landsdóms sem gerir ríkar kröfur um að ríkisstjórnin komi að umfjöllun um meiri háttar mál, því að væntanlega er upplausn samninganefndarinnar meiri háttar utanríkismál.

Virðulegi forseti. Ríkisstjórnin leggur til úttekt á stöðu aðildarviðræðna og stöðu Evrópusambandsins. Það finnst mér í sjálfu sér skynsamleg hugmynd. Ég held að það gæti verið okkur mjög gott að fara yfir málið af yfirvegun hér á Alþingi í vetur. En það verður þá þeim mun óskiljanlegra að ríkisstjórnin taki skref eins og það að leysa upp samninganefnd án þess að hafa séð niðurstöðu þeirrar úttektar. Tilgangur úttektarinnar verður veigaminni og grafið er undan þinglegu forræði á sviði utanríkismála sem íslensk stjórnskipun og íslenskt þingræði hvílir á.

Ísland býr við undarlegar aðstæður. Við erum land í höftum, hagvöxtur er lítill og okkur gengur illa að fjölga verðmætum störfum. Fram undan eru kjarasamningar þar sem innlegg hæstv. fjármálaráðherra er að biðja menn að stilla kröfum í hóf þegar menn hafa horft fram á hrikalega kjaraskerðingu sem afleiðingu af veikburða gjaldmiðli. Staða þjóðarinnar í alþjóðlegum samanburði er grafalvarleg.

Launakjör og kaupmáttur þjóðarinnar í samanburði við nágrannalönd er þannig að það þarf að fara alla leið í austurhluta Evrópu til ríkja sem nýverið hafa gengið til liðs við Evrópusambandið til þess að finna hliðstæður í kaupmætti. Við þessar aðstæður er það gríðarlegt alvörumál að loka leiðum íslenskrar þjóðar til aukinnar verðmætasköpunar og betri kjara og að koma í veg fyrir að við getum byggt velsæld okkar á traustari grunni.

Ég vil þess vegna undirstrika mikilvægi þess að við tökum alvöruumræðu um aðild að Evrópusambandinu. Við erum að flytja störf úr landi vegna þess að EES-samningurinn dugar okkur ekki lengur. Við erum í sjálfheldu gjaldeyrishafta og það er brýnt að íslensk þjóð meti þessa stöðu af fullri yfirvegun í vetur.



[12:12]
Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir skýrslu sína. Nokkrir hv. þingmenn hafa gert það að umtalsefni að síðasta ríkisstjórn hafi verið klofin í afstöðu sinni til Evrópusambandsins og það er vissulega rétt. Mér finnst mikilvægt að fram komi í upphafi míns máls að Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur verið andvíg því og er andvíg því að Ísland gangi í Evrópusambandið og byggir það meðal annars á þeim forsendum að Evrópusambandið stjórnist í allt of ríkum mæli af hægri stefnu og markaðshagsmunum. Það má til sanns vegar færa, miðað við þau viðbrögð sem Evrópusambandið hefur sýnt í þeirri fjármálakreppu sem þar ríður yfir, að þar tel ég, eins og ég benti á í ræðu minni í fyrradag, að allt of harðri hægri stefnu hafi verið fylgt eins og til að mynda hjá Olli Rehn sem hefur boðað niðurskurð sem ég þykist því miður sjá líka í stefnu núverandi ríkisstjórnar.

Ég var hins vegar ein af þeim sem studdu þessa umsókn á þeirri forsendu að þetta mál hefur verið stórpólitískt í umræðum hér á landi undanfarna áratugi. Allt frá því að Ísland varð aðili að EES-samningnum hefur þetta mál verið ofarlega á baugi í pólitískri umræðu. Þau rök sem mér hafa fundist skipta mestu þar eru lýðræðisrökin, þ.e. að eðlilegt sé að þjóðin komi að ákvörðun um mál af þessari stærðargráðu, mál sem hefur ólíka fleti, mál sem ekki er hægt að draga upp svart/hvíta mynd af. Miðað við þær nágrannaþjóðir sem við störfum með daglega, hvort sem er á Norðurlöndum eða annars staðar í Evrópu, er eðlilegt að þjóðin fái tækifæri til að taka afstöðu í þessu máli.

Í þessari umræðu hefur líka verið rætt um pólitískan veruleika og það er ljóst að sú ríkisstjórn sem nú situr, og þeir flokkar sem hana skipa, er andvíg aðild. Það er eðlilegt að ríkisstjórnin endurskoði þá ákvörðun sem tekin var á þinginu 2009. En ég geri miklar athugasemdir við þá framgöngu að sú ákvörðun sé þá ekki borin undir þingið, að breyta afstöðunni. Hæstv. utanríkisráðherra ræddi það hér og lýsti þeim vilja sínum að eiga samráð við Alþingi, og nefndi sérstaklega hv. utanríkismálanefnd Alþingis.

Ég tel að önnur sjónarmið hljóti að ráða þegar hæstv. utanríkisráðherra teflir fram lögfræðiáliti. Nú vitum við öll að lögfræði er ekki vísindagrein sem getur gefið einhlít svör, það vitum við að sjálfsögðu. Það er alveg ljóst að gera má ýmsar lagalegar athugasemdir við það lögfræðiálit sem hæstv. utanríkisráðherra lagði fram. Til að mynda er erfitt að setja allar þingsályktanir undir sama hatt. Til eru þingsályktanir þar sem Alþingi samþykkir að stefnt skuli að tilteknum markmiðum. Ef þær ályktanir komast aldrei til framkvæmda er spurning hvert gildi þeirra sé. En í þessu tilviki, þar sem um er að ræða, eins og hér hefur verið nefnt, í fyrsta lagi meiri háttar utanríkismál, í öðru lagi þingsályktun sem hefur beinlínis í för með sér athöfn af hálfu framkvæmdarvalds og stendur yfir í framkvæmd, hlýtur það að teljast undarleg lögfræði — þó að hv. þingmenn hafi haldið öðru fram og telji þetta stjórnskipulag fullkomlega eðlilegt — að þingið komi þá ekki að því að hverfa frá þeirri framkvæmd sem þegar er hafin. Ég tel það beinlínis varhugavert stjórnskipulega að telja ályktanir Alþingis ekki skuldbindandi fyrir ríkisstjórn þó að það hafi ólíkar lögfylgjur þegar við ræðum annars vegar um gildi laga og hins vegar um gildi þingsályktana í afleiðingum fyrir ráðherra.

Ef við setjum nú lögfræðina til hliðar og horfum bara á pólitíkina, hvernig við viljum þróa samskipti framkvæmdarvalds og löggjafarvalds — lögfræðina er hægt að rökræða endalaust, en ég hefði talið að ég og hæstv. utanríkisráðherra værum sammála um að vilja styrkja löggjafarvaldið. Ég man eftir hæstv. utanríkisráðherra sem hv. þingmanni þar sem hann var einatt þeirrar skoðunar í sínum málflutningi hér. Ég er sammála þeim málflutningi og þess vegna finnst mér það pólitískt stórkostlega athugavert að ekki sé tekin ákvörðun um að þessi breytta stefna nýrrar ríkisstjórnar sé borin undir Alþingi með einhverjum þeim hætti sem hv. þm. Birgir Ármannsson fór yfir hér í upphafi. Mér finnst það satt að segja sjúskað að við séum ekki með þennan feril í lagi, mér finnst það.

Ég er sammála hæstv. forseta, Einari Kristni Guðfinnssyni, þegar hann ræddi í tengslum við þetta mál um fullveldi Alþingis. Það er mjög mikilvægt að Alþingi fái eðlileg tækifæri — ekki bara í einhverri örumræðu eins og við eigum hér þar sem ekki er verið að ræða neina tillögu — til að þinglegur vilji birtist þannig að framkvæmdarvaldið geti þá fylgt þeirri stefnu. Þó að ríkisstjórnin sitji í umboði tveggja flokka sem eru í meiri hluta á Alþingi hefur ekki farið fram umræða og ekki hefur farið fram atkvæðagreiðsla um þessa breyttu stefnu. Mér finnst þetta ekki gott. Mér finnst þetta, eins og ég sagði áðan, sjúskað.

Að lokum langar mig að nefna að fyrir kosningar ræddu fulltrúar stjórnarflokkanna talsvert um aðkomu þjóðarinnar. Þó að þar hafi verið blæbrigðamunur á — hæstv. fjármálaráðherra, formaður Sjálfstæðisflokksins ræddi um þjóðaratkvæðagreiðslu á fyrri hluta kjörtímabils og hæstv. forsætisráðherra, formaður Framsóknarflokksins, nefndi engar tímasetningar í því en sagði fremur að ekki yrði haldið áfram nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu — teldi ég eðlilegt, og það hefur raunar verið skoðun mín sem ég byggi á þeim lýðræðisrökum sem ég nefndi í upphafi máls míns, að ríkisstjórn og Alþingi tækju þá ákvörðun að leita leiðsagnar þjóðarinnar, að lögð yrði vinna í að ná sátt um það hvernig leita skyldi þeirrar leiðsagnar. Það þarf ekki að gerast með einni spurningu, já eða nei. Við getum haft þá atkvæðagreiðslu ítarlegri þannig að Alþingi fái sem skýrasta leiðsögn.

Ég mundi hvetja til þess og ég þykist skynja það hjá hæstv. utanríkisráðherra að hann hafi fullan vilja, þrátt fyrir það sem á undan er gengið, til að vinna vel með þinginu að þessu máli. Þá hefði ég talið mjög mikilvægt að reyna að ná sátt um það hvernig staðið verði að vinnu við þessi mál. Ég tel mikilvægt að þjóðin komi að málum. En fyrst og fremst er það mjög mikilvægt að Alþingi komi að þeim nýju ákvörðunum sem teknar eru því að ríkisstjórn og framkvæmdarvald situr jú alltaf í umboði Alþingis.



[12:20]
Vilhjálmur Bjarnason (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla að byrja á að lýsa vonbrigðum mínum með ákveðinn hluta stjórnarsáttmálans þó að ég sé aðili að öðrum þeirra flokka sem sitja í stjórn. Það er nefnilega þannig að Sjálfstæðisflokkurinn er stór og þar eru skoðanir skiptar. Þingfélagi minn, hv. þm. Birgir Ármannsson, las upp úr landsfundarsamþykkt þar sem aðild að Evrópusambandinu var hafnað. En skoðanir í flokknum eru skiptar, meiri hluti og minni hluti, og ég er í minni hluta þar.

Ég tel að sú leið sem hér hefur verið farin, sem ég átta mig ekki almennilega á og er nú kölluð frestun á aðildarferli, sé ekki í samræmi við það þingræði sem ég tel að eigi að ríkja hér á landi. Ég fletti upp í stjórnskipunarfræðum í riti dr. Gunnars G. Schrams, og ætla, með leyfi forseta, að lesa örstutt úr því, það sem sagt er um þingsályktanir:

„Þingsályktanir eru samþykktir Alþingis. Til þeirra þarf ekki atbeina forseta. Þær fela fyrst og fremst í sér yfirlýsingar Alþingis en geta skipt máli sem réttarheimild.“

Síðan vísar prófessorinn og fyrrverandi hv. þingmaður, til nokkurra þingsályktunartillagna eins og ályktana um meðferð konungsvalds frá 1940, ályktana Alþingis um frestun alþingiskosninga frá 1941 og aftur um kosningu ríkisstjóra á sama ári.

Ég tel rétt að sú leið hefði verið farin að þingið hefði tekið þessa ákvörðun því að ríkisstjórnin situr þó alltént í skjóli þingsins. Hún hefur ekki sjálfstætt vald, hún framfylgir samþykktum Alþingis og Alþingi tók ákvörðun árið 2009, ef ég man rétt. Að vísu voru skoðanir skiptar en eftir að hafa kynnt mér nefndarálit meiri og minni hluta finnst mér þessar skoðanir merkilega líkar. Í álitunum kemur fram mismunandi áhersla á hagsmunagæslu, sem ég held að allir hafi reiknað með, en eftir að hafa kynnt mér fleiri samþykktir að alþjóðastofnunum, eins og aðild Íslands að Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og Alþjóðabankanum — þær voru samþykktar hér umræðulaust árið 1944. Aðildin að EFTA er ekki samþykkt með atkvæðum stjórnarþingmanna einna heldur fjögurra þingmanna stjórnarandstöðu. Einn flokkur var á móti, annar flokkur sat hjá. Ég spurði einn þingmann úr þeim flokki um þá atkvæðagreiðslu og hann sagði: Ég man ekki hvernig ég greiddi atkvæði en ég man að ég var dreginn út í einhverja vitleysu sem ég skammast mín alltaf fyrir. Og það var hjáseta.

Ég held að enginn efist um að aðild Íslands að þeim alþjóðasamtökum sem við höfum tekið þátt í, þ.e. Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og Alþjóðabankanum, Sameinuðu þjóðunum, NATO, EFTA og EES, hafi haft víðtæk áhrif hér á landi í áttina fram á við. Ég er þeirrar skoðunar að sá samningur sem gerður var 1991, 1992, og kallast samningur um Evrópskt efnahagssvæði, EES, sé bráðabirgðaaðgerð byggð á undirbúningi fyrir allt aðrar þjóðir, þ.e. Austurríki, Finnland og Svíþjóð, en vegna hruns Sovétríkjanna breyttust aðstæður í Evrópu. Ég tel að þessi samningur, sem er orðinn 20 ára gamall, þarfnist endurskoðunar af ýmsum ástæðum. Hér hafa verið nefnd ýmis fullveldisákvæði, stjónarskrárákvæði, og það er nú þannig að til þess að vera sjálfstæð þjóð þarf stundum að taka ákvarðanir sem fela í sér ákveðið fullveldisafsal til að vera með öðrum þjóðum. Það er engin uppgjöf. Fullkomið sjálfstæði án samskipta við aðrar þjóðir er ekki til lengur.

Ég segi líka að ýmsar þær atvinnugreinar sem menn hafa mestar áhyggjur af, eins og sjávarútvegur og landbúnaður, séu í býsna undarlegri stöðu. Sjávarútvegurinn er í þeirri undarlegu stöðu að hann nýtur allra réttinda innan Evrópusambandsins og íslenskir aðilar eiga meira að segja aðild að flestum veiðiheimildum Evrópusambandsins, alla vega þýskum veiðiheimildum. Landbúnaður á Íslandi er í erfiðri stöðu, í svona sjálfstýrðri erfiðri stöðu, þar sem enginn vill takast á við vandann eins og fram kom í máli hv. þm. Jóhönnu Maríu Sigmundsdóttur fyrr í morgun. Ég tel að full þörf sé á að takast á við þann vanda, meðal annars í þessu aðildarferli.

Varðandi myntina er það nú þannig að hægt er að kjósa um mynt. Eitt prósent íslenskra fyrirtækja hefur kosið sér aðra mynt en íslenska krónu. 300 íslensk fyrirtæki af 30.000 hafa valið sér að aðra mynt. Samkvæmt lauslegri athugun minni er að sama skapi ekki um að ræða 1% af veltu íslenskra fyrirtækja heldur 30% af veltu íslenskra fyrirtækja. Þetta eru fyrst og fremst sjávarútvegsfyrirtæki, orkufyrirtæki, flutningafyrirtæki, fyrirtæki sem starfa á alþjóðlegum mörkuðum þar sem starfrækslumyntin er talin tekjuhlutinn.

Ég tel að ýmislegt gerist hægt og bítandi, eins og í landbúnaði, hnignun landbúnaðarins. Íslensk fyrirtæki munu velja sér aðra mynt en við, alþýðan, sitjum eftir með íslenska krónu sem verður notuð lausbeisluð til að fella gengið eftir þörfum. Mér geðjast ekki að því að hér verði láglaunaland með gengisfellingum og að árangur í ferðaþjónustu þakki menn lágu gengi.

Ég ætla að minna þingheim á orð sem þáverandi forsætisráðherra lét hafa eftir sér árið 1969 eða 1970. Þáverandi forsætisráðherra, dr. Bjarni Benediktsson, sagði að efnahagslegir erfiðleikar áranna þar á undan hefðu átt ríkan hlut til hvatningar — þ.e. til aðildar að EFTA.

Ég tel að ríkisstjórnin hefði átt að fara þá leið að leggja fyrir Alþingi þingsályktunartillögu um að snúa við fyrri þingsályktun. Ég geri mér grein fyrir því hver niðurstaðan hefði orðið en því miður var önnur leið farin og ég er ekki sammála henni.



[12:29]
Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Herra forseti. Hæstv. utanríkisráðherra, þakka þér fyrir greinargerð þína. Afstaða okkar í Bjartri framtíð er að ljúka eigi viðræðunum og leggja samninginn í dóm þjóðarinnar. Við teljum að það eigi alltaf að taka afstöðu út frá bestu vitneskju. Við getum ekki tekið afstöðu í þessu máli út frá getgátum um það hvernig samningurinn muni hugsanlega líta út.

Mér finnst margt í umræðunni um Evrópusambandið skrýtið og mér finnst merkilegt hversu langt er gengið í að ala á ótta; Evrópusambandið er gert tortryggilegt með ýmsum ráðum og jafnvel kennt um allt sem miður fer í álfunni. Mér finnst ein fullyrðing lýsa þessum hræðsluáróðri hvað best og hún er: „Sjáið bara Grikkland“, eða „sjáið bara Spán og Portúgal.“

En síðan hvenær fórum við að bera okkur saman við Grikkland eða lönd Suður-Evrópu? Við eigum það vissulega sameiginlegt með þessum löndum að við kusum yfir okkur stjórnvöld sem stóðu sig illa og það leiddi til efnahagshörmunga, en það hefur ekkert með Evrópusambandið að gera. Þjóðir Evrópu bera algerlega ábyrgð á eigin stjórnvöldum. Mér er því eiginlega fyrirmunað að skilja af hverju alltaf er verið að blanda Grikklandi inn í Evrópusambandsumræðuna á Íslandi. Væri ekki nær að við segðum þá: „Sjáið bara Svíþjóð, sjáið bara Finnland, sjáið bara Danmörku og sjáið bara Austurríki, Þýskaland, Holland, Belgíu, Lúxemborg“?

Fullt af löndum í Evrópu vegnar vel og öðrum vegnar verr. Þannig er það bara. Evrópusambandið er aldeilis ekki gallalaust en ræðum þá raunverulegu ókostina sem fylgja því að ganga í Evrópusambandið því að þeir eru alveg fyrir hendi. Okkar hlutverk er í rauninni bara að meta hvort kostirnir séu fleiri en gallarnir. Þetta með „Sjáið bara Grikkland“ eru ekki boðleg rök.

Eins og ég sagði er það afstaða okkar í Bjartri framtíð að klára eigi aðildarviðræðurnar og við teljum það mikil mistök að okkar frábæra samninganefnd hafi verið leyst frá störfum.

Ríkisstjórnarflokkarnir lofuðu þjóðinni þjóðaratkvæðagreiðslu um það hvort halda ætti viðræðum áfram. Nú virðist allt í einu lítill áhugi á því. Það vantaði þó ekki áköll allt síðasta kjörtímabil um að þjóðin fengi að segja sitt. Þá þótti Sjálfstæðisflokknum og Framsóknarflokknum mjög mikilvægt að hlustað væri á þjóðina í þessu máli, það væri lýðræðislegt. Hvað breyttist?



[12:32]
Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Stefna Pírata í þessu máli er skýr, að ljúka skuli aðildarviðræðum og setja samninginn í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Mig langar að segja ykkur að í aðdraganda kosninga áttum við píratar fund með aðalsamningamanni Íslands við Evrópusambandið. Þar var útlistað fyrir okkur að verið væri að opna ákveðna pakka, semja um þá, breyta lögum á Íslandi til þess annars vegar að aðlaga lög á Íslandi við samninginn sem við nú þegar erum aðilar að, um Evrópska efnahagssvæðið, en hins vegar væri líka verið að aðlaga lög Íslands að lögum Evrópusambandsins. Þetta er því aðlögunarferli, ekki bara samninga- og aðildarviðræðuferli.

Þetta er nokkuð sem kæmi í ljós og fólk mundi þurfa að meta stöðuna hvað það varðar í aðdraganda þjóðaratkvæðagreiðslu um að halda aðildarviðræðunum áfram. Það væri hreinlegast að fara í þá umræðu og kanna málið. Vill þjóðin halda áfram að breyta lögum Íslands í átt til laga Evrópusambandsins þegar kemur að atriðum sem eru ekki innan EES-sáttmálans?

Stefna Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins í þessu máli er náttúrlega að ganga ekki þarna inn. Maður skilur að þeir vilji ekki halda áfram með ferli þar sem íslensk löggjöf er aðlöguð löggjöf Evrópusambandsins. Svo spyr maður sig: Hvað segir í þingsályktuninni um aðildarumsókn að Evrópusambandinu sem Alþingi samþykkti 16. júlí 2009?

Ef ég les það, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að leggja inn umsókn um aðild Íslands að ESB og að loknum viðræðum við sambandið verði haldin þjóðaratkvæðagreiðsla um væntanlegan aðildarsamning. Við undirbúning viðræðna og skipulag þeirra skal ríkisstjórnin fylgja þeim sjónarmiðum um verklag og meginhagsmuni sem fram koma í áliti meiri hluta utanríkismálanefndar.“

Þá er spurning: Það að gera hlé á samningnum, er það brot á sjónarmiðum um verklag og meginhagsmuni eins og hefur verið nefnt hérna og fram kemur í áliti meiri hluta utanríkismálanefndar? Það að gera hlé á aðildarviðræðum um einhvern óákveðinn tíma, er það brot á þingsályktuninni? Er verið að brjóta gegn þingsályktuninni að ganga gegn henni? Við getum athugað það.

Svo kemur fram í nefndaráliti meiri hluta frá 2009, með leyfi forseta:

„Skipulag viðræðna og hlutverk framkvæmdarvaldsins.

Meðal þeirra gagna sem nefndin hefur kynnt sér eru upplýsingar um skipulag aðildarviðræðna nokkurra þjóða sem áður hafa gengið í gegnum þær, svo og skipulag viðræðna Króata við ESB undanfarið þótt þeim viðræðum hafi nú verið frestað um óákveðinn tíma.“

Þetta er eitt af því sem var miðað við. Ég spyr því að ég veit ekki, hvort verið sé að brjóta gegn þingsályktuninni frá júlí 2009, um að Alþingi álykti að fara skuli í þessa aðildarviðræður við Evrópusambandið, með því að fresta viðræðum um óákveðinn tíma. Fróðari menn verða að fræða mig um það.

Það væri náttúrlega hreinast og beinast að samþykkja þingsályktunartillögu herra Össurar Skarphéðinssonar frá því í sumar um þetta mál, hvort aðildarviðræðunum skuli haldið áfram, og setja það í þjóðaratkvæðagreiðslu. Það eru önnur atriði nefnd þar sem stjórnarflokkarnir eru kannski ekki hrifnir af og þeir gætu þá lagt fram sína eigin þingsályktunartillögu eða bara sagt að þeir ætli að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu samfara sveitarstjórnarkosningum á næsta ári, eins og þeir hafa sagt, þ.e. að þeir muni ekki halda ferlinu áfram nema slík þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram. Þá yrði aðildarviðræðunum mögulega haldið áfram. Við vitum það fyrst ef þetta verður sett í þjóðaratkvæðagreiðslu hvort viðræðunum skuli haldið áfram. Meiri hluti þjóðarinnar er með því, þannig að í vor mundi meiri hluti þjóðarinnar eflaust segja: Já, við skulum halda þessu ferli áfram, við skulum klára það, við skulum kjósa um það. Og þegar síðan yrði kosið um fyrirliggjandi aðildarsamning mundum við líka vita, eins og staðan er núna, að meiri hluti þjóðarinnar væri á móti. Þetta væri því mjög heillavænlegt ferli, þá gætum við fengið þetta mál út af borðinu. Þjóðin mun mjög líklega segja nei við þessu og sérstaklega ef efnahagsáform ríkisstjórnarinnar standa, ef þeim tekst að koma samfélaginu á koppinn og láta hjól atvinnulífsins snúast. Evrópa er ekkert að fara að gera það á næstunni. Ef þeim tekst að gera það á Íslandi, segja píratar á Evrópuþinginu mér að engin þjóð hafi gengið inn í Evrópusambandið þegar uppsveifla hefur verið í efnahagslífinu. Ef ríkisstjórnin treystir sér til þess að koma uppgangi efnahagslífsins í gang þá ætti hún að treysta sér til að setja þetta í þjóðaratkvæðagreiðslu, klára dæmið og þá getum við hætt að ræða þetta næstu tíu árin.



[12:38]
Forseti (Steingrímur J. Sigfússon):

Forseti vill minna hv. þingmann á að nota þau ávarpsorð sem eiga við hér í salnum, ávarpa þingmenn sem hv. þingmenn og ráðherra sem hæstv. ráðherra.



[12:39]
Silja Dögg Gunnarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Tækifæri okkar Íslendinga eru á mörgum sviðum. Við erum rík þjóð, rík af auðlindum sem mikil þörf verður fyrir í framtíðinni. Við eigum nóg af hreinu vatni, grænni orku, hugsanlega olíu og síðast en ekki síst erum við mjög framarlega í matvælaframleiðslu. Lega landsins er eftirsóknarverð fyrir Norður-Íshafssiglingar. Þar liggja gríðarleg tækifæri í framtíðinni sem við Íslendingar þurfum að vera vel vakandi yfir.

Þar sem við erum fámenn þjóð og rík af auðlindum tel ég hag okkar betur borgið utan ESB en innan þess. Afstaða núverandi stjórnarflokka er skýr eins og hv. þm. Birgir Ármannsson gerði góða grein fyrir áðan. Á landsfundum sínum fyrr á þessu ári ályktuðu stjórnarflokkarnir að hag Íslands væri betur borgað utan ESB en innan þess. Í stjórnarsáttmálanum kemur skýrt fram að hlé verði gert á aðildarferlinu og það þarf ekkert að „afsaka það neitt“. Hléið er gert í góðri sátt við ráðamenn innan ESB. Þar er fullur skilningur á afstöðu okkar Íslendinga.

Næsta skrefið er að fá sérfræðiúttekt um stöðu viðræðnanna og stöðu mála innan ESB. Óháð stofnun mun gera þessa úttekt, eins og fram kom í máli hæstv. utanríkisráðherra Gunnars Braga Sveinssonar og verður úttektin væntanlega gerð af Hagfræðistofnun Háskóla Íslands. Þegar sú úttekt liggur fyrir verður hún kynnt fyrir þjóðinni allri og rædd á Alþingi. Þetta þykir mér sanngjörn og skynsamleg leið.

Stjórnarandstaðan hefur gagnrýnt þessa aðferðafræði harðlega, jafnvel reynt að halda því fram að hæstv. utanríkisráðherra hafi nánast upp á sitt einsdæmi slitið viðræðunum við ESB. Það er ekki rétt og þeir ágætu samstarfsmenn mínir sem hafa haldið þessu fram vita auðvitað betur. Viðræðunum hefur ekki verið slitið. Öll vinnan sem unnin hefur verið í kringum þetta ferli er og verður til. Ekkert hefur verið eyðilagt eða afturkallað og engu slitið.

Stjórnarandstaðan hefur einnig gagnrýnt harðlega að utanríkisráðherra fylgi ekki þingsályktunartillögu Alþingis frá 2009 um aðildarviðræður við ESB. Hæstv. utanríkisráðherra lét vinna lögfræðilegt álit um gildi þingsályktunartillagna. Niðurstaða álitsins var skýr, með leyfi forseta, um að „þingsályktanir sem ekki byggjast á sérstakri heimild í lögum eða stjórnarskrá bindi stjórnvöld ekki umfram það sem af þingræðisvenjunni leiðir“.

Það segir sig líka eiginlega sjálft að ef þingsályktanir væru algerlega bindandi gætu ríkisstjórnir á hverjum tíma dælt út þingsályktunartillögum, bundið þar með næstu ríkisstjórn og ákveðið þannig stefnu næstu ríkisstjórnar.

Núverandi þingmeirihluti fékk umboð frá kjósendum nú í vor til að stýra landinu. Fólkið í landinu kaus ríkisstjórnaflokkana út á stefnu þeirra, alls ekki út af stefnu síðustu ríkisstjórnar, það er alveg ljóst.

Ég vil einnig nefna að hæstv. utanríkisráðherra hefur upplýst utanríkismálanefnd reglulega um gang mála varðandi ESB og önnur utanríkismál. Hann hefur tekið saman greinargóð gögn fyrir nefndina og mætt á fundi hennar þegar þess hefur verið óskað og svarað spurningum nefndarmanna skilmerkilega. Þannig hefur samvinna og samstarf utanríkismálanefndar og hæstv. ráðherra verið mjög gott.

Það að hefja aðildarumsókn að Evrópusambandinu er stór ákvörðun. Hagsmunir þjóðarinnar eru stórkostlega miklir. Öll framtíðin er lögð að veði. Slíkar ákvarðanir verður að byggja á sterkum grunni. Síðasta ríkisstjórn var alls ekki einhuga um að Íslendingar ættu að sækja um aðild að ESB. Það mætti meira að segja fullyrða að fullkomin óeining hefði ríkt á milli þáverandi stjórnarflokka. Þingmeirihlutinn sem náðist um þessa ákvörðun byggðist á pólitískum hrossakaupum.

Einhugur verður að ríkja, ekki bara á milli stjórnarflokka þegar svo stórar ákvarðanir eru teknar, heldur verður einnig að vera eining milli þings og þjóðar.

Aðildarferlið kostar mikla peninga. Nú spyr ég: Viljum við, á tímum þar sem grunnþjónusta okkar á undir högg að sækja, svo sem löggæsla og heilbrigðisþjónusta, eyða milljónum í aðildarumsókn að ESB? Mitt svar er: Nei, það vil ég ekki.

„Ég vil bara fá að kíkja í pakkann svo ég geti myndað mér skoðun.“ — Þessi setning heyrist oft og þá á fólk við að það vilji klára aðildarviðræðurnar við ESB áður en gengið verður til þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild. Ég skil þessa afstöðu í sjálfu sér, en ESB lítur ekki svona á málið. Evrópusambandið lítur þannig á að þegar ríki sækja um aðild og aðildarviðræður hefjast ætli ríkin sér að ganga í sambandið með kostum þess og göllum. Það er ekkert til sem heitir að „kíkja í pakkann“. Slíkur pakki er líka ansi dýr, eins og ég hef þegar bent á, og við (Forseti hringir.) höfum ekki efni á honum.

Framtíð Evrópusambandsins er lituð af óvissu. Evran er ekki traustur gjaldmiðill. Traustari en krónan, segja sumir, en ég læt það liggja á milli hluta. Það er ekki hægt að fullyrða neitt um það eins og staðan er núna. Evrópusambandið á við risavaxin vandamál að etja. (Forseti hringir.) Evrópusambandið leysir ekki öll okkar vandamál. Við verðum að leysa okkar vandamál sjálf og það ætlar þessi ríkisstjórn að gera.

Framtíð Íslands felst í samvinnu, (Forseti hringir.) samvinnu Íslendinga og annarra þjóða, þjóða beggja vegna Atlantshafsins.



[12:45]
Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Já, það ber að þakka þessa umræðu hér í dag. Við vitum þá alla vega hvernig málin standa því að það hefur ekki verið á hreinu í allt sumar hvernig sambandi okkar við Evrópusambandið er háttað. Svo virðist sem hæstv. utanríkisráðherra hafi í kaffi- eða kokteilboðum sagt mönnum það að nú værum við hætt í þessum aðildarviðræðum, að sinni a.m.k. Stundum hefur manni skilist það líka að búið væri að slíta viðræðunum.

Forseti þingsins gaf mjög sköruglega yfirlýsingu um það þegar það var rætt hér fyrr í haust. Nú virðist svo vera að þetta mikilvæga mál, sem nú snýst sem sagt um að leggja niður samninganefndirnar, ekki slíta viðræðunum, hafi ekki verið rætt í ríkisstjórn, alla vega hefur það verið staðfest hér í dag að þetta mál sem hlýtur að kallast mikilsvert utanríkismál hefur ekki verið rætt í utanríkismálanefnd, sem mér finnst mjög alvarlegt. Vissulega hefur hæstv. utanríkisráðherra lýst því þar, skilst mér, að hann væri að hugsa hitt og þetta en ekki sagt hvað hann ætlaði sér.

Virðulegi forseti. Það er ekki einkamál ráðherra hvernig þeir haga sér. Það er ekki einkamál hvernig utanríkisráðherra hagar samskiptum okkar við Noreg, Þýskaland, Evrópusambandið, Sameinuðu þjóðirnar eða NATO. Það er ekki einkamál ráðherra og þó að hann hafi vissulega mikið að segja og skipti miklu máli þá er það Alþingi Íslendinga sem ákveður hvernig við högum samstarfi okkar við erlendar þjóðir. Það skiptir máli.

Virðulegi forseti. Það eru svo sem ekki ný tíðindi að ég telji að hagsmunum okkar, hagsmunum íslenskrar þjóðar sé best borgið í náinni samvinnu við Evrópusambandið. Það eru heldur ekki ný tíðindi að ég telji það rétt fólksins í landinu að greiða atkvæði um aðild að Evrópusambandinu þegar samningaviðræðum, sem Alþingi ákvað að efna til, er lokið. Það er að mínu mati algjörlega út í hött sem sumir helstu andstæðingar þess að við æskjum aðildar að Evrópusambandinu, segja, að við eigum að greiða atkvæði um það áður en samningum er lokið hvort við viljum aðild að Evrópusambandinu eða ekki. Það er algjörlega út í hött. Við hljótum eins og alltaf hefur verið lagt upp með að greiða atkvæði um aðild að Evrópusambandinu þegar við sjáum samninginn. Það er ekki að kíkja í pakkann vegna þess að enginn gengur endanlega til samninga fyrr en hann eða hún veit hvernig samningurinn lítur út.

Ég var þó fegin að heyra það í orðræðu hæstv. utanríkisráðherra, og orðin sem hann notaði, að ekkert hefði verið skemmt — það væri bara búið að fresta þessu, ekkert hefði verið skemmt. Ég þakka mínum sæla fyrir það. Hv. þm. Silja Dögg Gunnarsdóttir sagði líka: Ekkert hefur verið eyðilagt. Við skulum þá þakka það að ekkert af þeirri miklu og góðu vinnu sem embættismenn íslenskra ríkisins hafa unnið í samningaviðræðum við Evrópusambandið hefur verið eyðilagt. Ég þakka það kærlega.

Í umræðum hér á þriðjudaginn og í flestum viðtölum við forustumenn þjóðarinnar hefur komið fram að erfiðasta úrlausnarefnið séu gjaldeyrishöftin og fjármagnshöftin. Trúa þeir því að við, 320 þús. manna þjóð, getum haldið uppi sjálfstæðum gjaldmiðli? Sýnir saga krónunnar að við getum það? Höfum við, 320 þús. manna þjóð, þann aga sem til þarf að halda uppi sjálfstæðum gjaldmiðli? Er það ekki mikið ábyrgðarhlutverk þegar við erum að vinna okkur upp úr þeim erfiðu efnahagsörðugleikum sem við höfum átt í (Forseti hringir.) að slá á frest, að loka á þann möguleika að við getum tekið upp almennilega mynt?



[12:50]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. ráðherra og hv. þingmönnum fyrir ágæta og málefnalega umræðu. Ég fagna því að við ræðum um aðild Íslands að ríkjabandalagi eins og Evrópusambandinu. Mér finnst að við höfum rætt það allt of lítið. Við eigum að ræða það miklu meira vegna þess að við eigum enn eftir að taka grunnumræðuna. Það er svo furðulegt að við erum, held ég, eina þjóðin í Evrópu — ég hygg að engar aðrar þjóðir hafi sótt um aðild að Evrópusambandinu en þær sem eru í Evrópu … [Hlátur í þingsal.] — Ja, hv. þingmenn hlæja. Menn deila nú um það hvar Tyrkir eru, en látum það liggja á milli hluta. En við fórum hins vegar þá leið að sækja um aðild að Evrópusambandinu, og nú er ég bara að vísa í ræður. Tökum bara dæmi frá þessum degi, ræður nokkurra hv. þingmanna, t.d. forustumanna VG sem sóttu um að fara í ESB en vilja ekki fara í ESB. Það er bara ekki hægt, það hefur engin þjóð gert. (Gripið fram í.)

Síðan tók að vísu síðasta ríkisstjórn sig til, af því að menn gleyma því, og ákvað bara að hætta því að semja um að fara í ESB. Ég man ekki eftir því að það hafi nein þingsályktunartillaga verið lögð hér fram eða að gerður hafi verið nokkur skapaður hlutur. Ég held að þeir aðilar sem þannig stóðu að málum séu reiðastir núna yfir framgangi hæstv. utanríkisráðherra. Þetta er alveg séríslenskur veruleiki.

Þær þjóðir sem við berum okkur saman við og hafa sótt um aðild að Evrópusambandinu hafa allar tekið umræðu um hvort það sé gott fyrir viðkomnadi þjóð að vera í Evrópusambandinu. Þær hafa gert úttektir og skrifað skýrslur og bækur. Reyndar er þetta allt saman til hér á Íslandi; Stefán Már Stefánsson er einn færasti Evrópusérfræðingurinn okkar en einhverra hluta vegna er hann aldrei kallaður til viðtals við fjölmiðla þegar við tölum um Evrópumál eða mjög sjaldan. Ýmsir aðrir hafa skrifað lærðar greinar, heilar bækur þar sem þeir fara nákvæmlega yfir það hvað felst í því að vera í Evrópusambandinu. Auðvitað er til aragrúi af erlendum ekki bara fræðiritum heldur úttektum og einhver mundi nú segja: Væri ekki gott að byrja á því að ræða þetta? Síðan mundu þeir aðilar sem vilja að Ísland sæki um aðild að Evrópusambandinu og leggja í það milljarða, færa rök fyrir því hvers vegna við ættum að ganga í Evrópusambandið; út af þessu og þessu og þessu. Nei, nei, það gerist ekki á Íslandi. Þar koma menn í fullri alvöru fram og segja að við séum að sækja um aðild að Evrópusambandinu, ekki aðeins að við séum að leggja út í milljarða kostnað þess vegna, sem íslenskir skattgreiðendur greiða auðvitað, heldur af því að við viljum, höfum það alveg á hreinu, að þjóðirnar í ESB, í því ríkjabandalagi, séu vinaþjóðir okkar. Við eigum að hafa gott samstarf við þær, eins gott og mögulegt er. Við höfum farið fram á að þessir aðilar eyði milljörðum og mikilli vinnu í aðildarviðræðurnar og við erum bara að kanna hvað er í gangi. Allt liggur fyrir. Það liggur allt saman fyrir; úttektir, skýrslur, bækur, íslenskar, erlendar. Ég held að við ættum að byrja á því að ræða það hvað felst í því að vera í Evrópusambandinu. (ÁPÁ: Kom ekkert út úr samningaviðræðunum um árið?) Nú kallar hv. þm. Árni Páll Árnason eitthvað sem ég veit ekki hvernig tengist málinu, en hann talaði um Noreg. Ég skal segja hvað gerðist í Noregi. (Gripið fram í.) Og hann er orðinn svo taugaveiklaður að hann ætlar ekki að leyfa mér að komast að til að svara frammíkalli hans varðandi Noreg.

Í Noregi var það þannig að þeir hafa tvisvar sótt um aðild að Evrópusambandinu til þess að fara í Evrópusambandið. Það var stór meiri hluti fyrir því á þingi að fara í Evrópusambandið. Það var stór meiri hluti fyrir því hjá allra helstu hagsmunaaðilum, reyndar fjölmiðlum líka. Ef þú talar við Norðmenn um það hvort þeir mundu sækja um aðild að Evrópusambandinu þá segja þeir að þeir mundu aldrei sækja um aðild að Evrópusambandinu nema það væri búinn að vera ríflegur meiri hluti fyrir því í mjög langan tíma áður en sótt væri um aðild að bandalaginu.

Ein af skrýtnu birtingarmyndunum í þessu er umræðan um IPA-styrkina. Hér er hæstv. ríkisstjórn ásökuð um að hafa orðið þess valdandi að við höfum misst af einhverjum peningum sem komið hafa af himnum ofan út af einhverri framgöngu. Ég vil núna lesa úr skýrslu samninganefndar fyrrverandi ríkisstjórnar um aðildarviðræður Íslands og ESB. Þar er farið nákvæmlega yfir þessa blessuðu IPA-styrki. Með leyfi forseta ætla ég að lesa upp úr skýrslunni. Þar segir:

„Áherslur í IPA-stuðningi við Ísland á árunum 2011–2013 eru skilgreindar í rammaáætlun sem var birt í aprílmánuði árið 2011. Stuðningurinn skiptist í tvo meginflokka, annars vegar styrkingu stjórnsýslu á Íslandi og hins vegar undirbúning fyrir þátttöku í uppbyggingarsjóðum sambandsins. Ástæðan er sú að aðild að ESB kallar á margvíslega styrkingu stjórnsýslunnar og fyrir liggur að til að Ísland geti tekið þátt í stefnum og verkefnum Evrópusambandsins, t.d. byggðastefnu ESB, þarf að byggja upp þekkingu á starfsháttum og stofnanaumhverfi sambandsins svo árangur náist sem fyrst eftir aðild.“

Svo tala menn bara eins og það sé bara heppni að við höfum dottið inn á einhverja IPA-styrki en vegna framgöngu nýrrar ríkisstjórnar missum við þá. Við fáum þessa styrki til að undirbúa okkur undir aðild, ekki fyrir neitt annað. Það er fullkomlega óskiljanlegt að þessi óskiljanlega stefna Vinstri grænna birtist með þeim hætti að þeir sækja um í ESB, vilja ekki fara inn en taka samt við IPA-styrkjum. Þeir fara í verkefni til að undirbúa okkur undir aðild að ríkjabandalagi sem þeir vilja ekki fara inn í. Svo koma þeir og gagnrýna það að við tökum ekki aðildarstyrkina og höldum okkur við verkefnin, flokkurinn sem hefur sagt það skýrt að hann vill ekki vera í ESB. Reynið að útskýra það fyrir einhverjum hvernig það gengur upp. Ég held að það sé kominn tími til að við ræðum hvað felst í því að vera í ESB og ég held að það sé líka kominn tími til að þeir aðilar sem vilja að íslenskt stjórnkerfi sé heltekið og við eyðum beint og óbeint hundruðum milljóna og milljörðum í aðildarviðræður útskýri fyrir okkur hví við skyldum fara í ESB, því að það er grundvallarspurningin. Sérstaklega hlýtur það að snúa að Vinstri hreyfingunni – grænu framboði þó svo að það væri nú ágætt að heyra Samfylkinguna tala öðruvísi en í slagorðum um það.

Af því að mér finnst þessi IPA-styrkjaumræða svolítið skrýtin vildi ég vekja athygli á því að ef menn fara á Evrópuvefinn, upplýsingaveitu um Evrópusambandið og Evrópumál, er þar t.d. tekið fram hvað það kostar fyrir Ísland að vera í Evrópusambandinu, menn tala oft um að við högnumst mikið á því. Ég held að það sé rétt núna þegar við tökum við gríðarlega erfiðu búi vegna þess að allar þær áætlanir sem lagt var af stað með af síðustu ríkisstjórn hafa ekki gengið eftir og fjárlagahallinn er gríðarlegur, að við horfumst í augu við kostnaðinn. Miðað við þær úttektir sem gerðar voru af íslenskum aðilum var kostnaðurinn frá 5 milljörðum upp í 17 milljarða nettó, ekki brúttó heldur nettó. Hér er ég að vísa í Hagfræðistofnun HÍ, Deloitte & Touche, (Gripið fram í.) Evrópunefnd forsætisráðherra og utanríkisráðuneytið 2010. Ef menn hafa aðgang að tölvu og internetinu, sem ég efast um að hv. þingmenn (Forseti hringir.) Samfylkingarinnar hafi, þá geta menn með tiltölulega auðveldum hætti fundið það. Ef þeir eru í vandræðum skal ég með glöðu geði koma þessum upplýsingum til þeirra.



[13:00]
Ásmundur Einar Daðason (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir skýrslu hæstv. utanríkisráðherra og þá umræðu sem verið hefur um hana í dag.

Ég vil byrja á að taka það fram að ég er mjög ánægður með í hvaða farvegi þetta mál er. Það liggur alveg ljóst fyrir að hæstv. utanríkisráðherra fylgir stefnu ríkisstjórnarinnar sem samþykkt var og stefnu Framsóknarflokksins mjög vel eftir. Ég vil segja að þau verkefni sem hæstv. utanríkisráðherra hefur verið að framkvæma eru fullkomlega innan ramma og innan stefnu ríkisstjórnarinnar, meðal annars það sem fréttist af í dag, þ.e. að leysa upp samninganefndirnar. Þetta er það sem felst í þessu raunverulega hléi. Hv. þm. Birgir Ármannsson, formaður utanríkismálanefndar, fór mjög vel yfir það í ræðu sinni áðan ásamt hæstv. ráðherra í hvaða farvegi málið er. Við bíðum skýrslu sem unnin verður um málið og hún kemur síðan til umræðu á Alþingi. Hv. þm. Birgir Ármannsson fór vel yfir þá valmöguleika sem eru þar í stöðunni.

Það hefur verið mjög sérstakt að fylgjast með umræðunni í dag, sérstaklega af hálfu stjórnarandstæðinga, til dæmis hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni. En þó var eitt sem kom reglulega fram í máli hv. þingmanns sem ég held að rétt sé að fara aðeins dýpra ofan í þegar hv. þingmaður talaði um hver sé hinn pólitíski veruleiki málsins. Hver er hinn pólitíski veruleiki þessa máls?

Staðreyndin er sú að við erum í dag með ríkisstjórn sem er mótfallin því að ganga í Evrópusambandið. Stjórnarandstaðan heldur því fram að við eigum að halda aðildarviðræðum áfram og það eigi síðan að útkljá málið í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þessi sama stjórnarandstaða sagði það ítrekað fyrir ekki svo löngu — reglulegir fundir voru í Samfylkingunni vegna þess að þá var ráðherra í ríkisstjórninni sem var mótfallinn Evrópusambandsaðild, var ekki tilbúinn til að taka þátt í aðlögunarferli, var ekki tilbúinn til að taka við IPA-styrkjum til aðlögunar. Og honum varð að víkja úr ríkisstjórn. Honum var vikið úr utanríkismálanefnd síðar. Þetta var þáverandi hv. þingmaður, Jón Bjarnason. En nú vill stjórnarandstaðan að skoðanabræður hans varðandi Evrópusambandsmálið, meðal annars frá utanríkismálanefnd, hæstv. utanríkisráðherra, hæstv. forsætisráðherra, hæstv. fjármálaráðherra og hæstv. iðnaðar- og nýsköpunarráðherra haldi áfram aðildarferlinu, Evrópusambandsandstæðingar, þegar þeir sjálfir á sínum tíma settu til hliðar einstakling sem deildi nákvæmlega sömu skoðunum.

Það blasir auðvitað við að ekki er mögulegt að halda áfram aðildarviðræðum við Evrópusambandið þegar við völd er ríkisstjórn, stjórnarflokkar sem vilja ekki ganga í Evrópusambandið. Á þessu áttuðu Samfylkingin og Vinstri grænir sig á þegar þeir voru hluti af ríkisstjórnarliðinu. Evrópuþingmenn átta sig á þessu, Evrópuþingmenn sem við ræddum við á sameiginlegum fundi sem haldinn var á Hótel Loftleiðum núna í sumar.

Það er algerlega skýrt að það verður að liggja fyrir pólitískur vilji vegna þess að ráðuneytin, undirstofnanirnar og annað þurfa að taka á sig gríðarlega stór verkefni sem snúa meðal annars að því að laga íslenskt regluverk að Evrópusambandinu. Þetta getur ekki gengið nema við séum með ríkisstjórn sem vill ganga í Evrópusambandið. Þess vegna er svo skrýtið að hlusta á fulltrúa stjórnarandstöðunnar tala í dag eins og það sé ekkert mál að halda þessu áfram þegar veruleikinn er auðvitað allur annar. Þessir einstaklingar áttuðu sig á því fyrir kosningar.

Það sem þarf að vera til staðar til að halda áfram aðildarviðræðum er skýr vilji íslenskra stjórnvalda til að ganga í Evrópusambandið og skýr vilji íslenskrar þjóðar til að ganga í Evrópusambandið.



[13:04]
Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Hæstv. utanríkisráðherra sagði í ræðu sinni að vísbendingar væru um að meiri hluti þjóðarinnar vildi ekki ganga í Evrópusambandið, og vitnaði til skoðanakannana. Reyndar mætti benda hæstv. ráðherra á að miðað við skoðanakannanir vill meiri hluti þjóðarinnar aðra ríkisstjórn en þá sem er nú er við völd, en við skulum ekki dvelja of mikið við það. Það er í raun ekki hægt að fara eftir skoðanakönnunum í þessum efnum. Það er hins vegar hægt að fara eftir bestu mögulegu og fáanlegu upplýsingum og bestu mögulegu og fáanlegu upplýsingarnar um kosti þess að ganga í Evrópusambandið fáum við með því að ljúka viðræðunum og leggja þann samning sem upp úr því kæmi í dóm þjóðarinnar. Þar hefur vægi mitt, sem er frekar á því að ganga í Evrópusambandið — vægi míns atkvæðis er alveg jafnmikið að afli og vægi atkvæðis hæstv. utanríkisráðherra og hvers annars Íslendings. Það er hreinlegasta leiðin til að leiða til lykta þá spurningu sem íslensk stjórnmál og íslenskt samfélag hefur glímt við í langan tíma og í raun og veru í allt of langan tíma.

Virðulegi forseti. Ég vann við það á árum áður sem fréttamaður að tala við stjórnmálamenn og reyna að knýja þá svara. Eins og hæstv. utanríkisráðherra veit og velflestir hér inni og flestir þeir sem fylgjast með þessari umræðu þá eru til mjög margar aðferðir til að svara ekki spurningum. Þær spurningar sem hér eru uppi á borðum, og sú spurning sem svífur yfir vötnum, er auðvitað eitthvað sem við eigum að leitast við að fá svör við. Það eru nokkrar aðferðir til að knýja stjórnmálamenn til svara. Það vita þeir sem hafa starfað sem fréttamenn. Ein ágæt aðferð við það er til dæmis að þrengja svið spurningarinnar og reyna að fá þann sem spurður er til að skilgreina ástandið. Ef viðræðunum hefur ekki verið slitið og samt á ekki að ganga inn í Evrópusambandið væri ágætt að fá að vita það hjá hæstv. utanríkisráðherra hvernig hann skilgreinir stöðu Íslands gagnvart Evrópusambandinu akkúrat núna.

Til að ég útskýri þetta þá hefur málflutningurinn hjá ríkisstjórninni verið býsna þversagnarkenndur á köflum í þessum efnum. Tökum sem dæmi IPA-styrkina sem komu til tals hér áðan. Þar segja talsmenn ríkisstjórnarinnar, hæstv. utanríkisráðherra og hæstv. forsætisráðherra, í aðra röndina að ekki standi til að Íslandi gangi í Evrópusambandið, en í hina röndina finnst þeim furðulegt að Evrópusambandið hafi dregið IPA-styrkina til baka vegna þess að Ísland sé enn þá með stöðu umsóknarríkis. Það sér hver maður að þetta stangast fullkomlega á og gengur ekki upp.

Ég vil í lok máls míns rifja upp hvaða ástæður mér finnast skipta máli í svarinu við spurningunni um hvort við eigum að ganga í Evrópusambandið eða ekki. Í fyrsta lagi erum við evrópsk menningarþjóð og eigum erindi í samstarfi með öðrum Evrópuþjóðum. Í öðru lagi tel ég að alvarlegasta framsal fullveldisins felist í óbreyttum EES-samningi, að mesti hugsanlegi lýðræðishalli sem við getum búið við sé fólginn í óbreyttu ástandi þar sem við tökum við löggjöf, tilskipunum, reglugerðum án aðkomu og innleiðum í íslensk lög. Í þriðja lagi hefur gjaldmiðill Evrópusambandsins, evran, ótvíræða kosti í för með sér umfram það að búa við óbreytt ástand í gjaldeyrismálum. Þetta eru þrjú atriði sem skipta mjög miklu máli.

Í fjórða lagi vil ég einfaldlega segja, og það er lykilatriði í mínum huga, að þau vandamál sem heimurinn glímir við, heimsbyggðin öll, hvort sem það er á vettvangi umhverfismála, friðar- og mannréttindamála, hvort sem það er á vettvangi fjármálaheimsins, hvort sem fjallað er um framleiðslu eða verslun — þá verða vandamál heimsbyggðarinnar ekki leyst á vettvangi þjóðríkisins. Þau verða einungis leyst í samstarfi fullvalda þjóða í samtökum á borð við Evrópusambandið. Þar eigum við fullt erindi og þar á rödd okkar að hljóma.



[13:09]
utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka þingmönnum Bjartrar framtíðar, Pírata, Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Vinstri grænna fyrir málefnalega umræðu. Það er mikilvægt mál sem við erum að ræða hér. Þetta er eitt af þeim málum sem Alþingi á mikið undir að haldið sé rétt á og með skipulegum hætti og um það ríki trúverðugleiki og traust á sama tíma og fylgt er skýrri stefnu. Ég vildi því nota síðustu mínútuna til að tæpa á nokkrum atriðum sem fram komu í máli þingmannanna þótt ég nái augljóslega ekki að fara yfir allt á svo stuttum tíma.

Hér var meðal annars spurt af hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni um næstu skref. Næstu skref eru augljóslega þau að fá þá skýrslu sem oft hefur verið nefnd til umræðu hér á Alþingi, vonandi í haust, eins og ég hef áður greint frá.

Allt frá upphafi aðildarferlisins hefur skort verulega á að þjóðin hafi verið spurð eins og við höfum talað um áður. Þjóðin stóð ekki að baki þeirri ákvörðun sem var tekin á Alþingi. Við vitum það. Því var meira að segja hafnað að leita álits þjóðarinnar og þar af leiðandi var það Alþingi sem tók þá ákvörðun að fara af stað í þessa vegferð. Ég tel því eðlilegt að málið komi aftur til Alþingis til umfjöllunar þegar umræddri skýrslu hefur verið skilað.

Við vitum að óraunhæfar væntingar voru gefnar af sumum um að viðræðum mundi ljúka fljótt og örugglega og að þjóðaratkvæðagreiðsla yrði haldin um samning við lok síðasta kjörtímabils, en við vitum hver staðan er núna. Við vitum líka að þinglegur styrkur meiri hlutans sem tók ákvörðun um að sækja um aðild að Evrópusambandinu var byggður á sandi, ætla ég að leyfa mér að segja, og lyktaði af pólitískum hrossakaupum milli meirihlutaflokka.

Hv. þm. Róbert Marshall spurði hér áðan um stöðu Íslands gagnvart Evrópusambandinu í dag. Staðan er einfaldlega sú að við eigum í mjög góðum tvíhliða viðræðum við Evrópusambandið og munum eiga áfram. Ég er sammála hv. þingmanni um að Ísland er að sjálfsögðu Evrópuþjóð. Við eigum menningarleg og söguleg tengsl við Evrópuríkin og munum að sjálfsögðu efla þau áfram. Ég ítreka það sem ég sagði hér áðan að núverandi ríkisstjórn talar fyrir þessari nálgun og er metnaðarfull gagnvart Evrópusambandinu. Ég veit að margir þingmenn eru því sammála að halda þannig á málum. Við skulum því leggjast saman á árarnar og styrkja hagsmunagæslu okkar líkt og lagt var til í góðri skýrslu um Evrópumál frá árinu 2007 sem var samþykkt sem þingsályktun sl. vor.

Við eigum að geta spilað úr sterkri stöðu í dag. Í dag þekkjum við Evrópusambandið og innviði þess mun betur en við gerðum áður. Ég vona líka að Evrópusambandið þekki okkur mun betur en áður. Þekkingin nýtist okkur óhjákvæmilega í því starfi sem fram undan er. Á þetta bæði við um EES-samninginn sem og þau fjölmörgu sóknarfæri sem við hyggjumst vinna með. Það má því segja að hið ötula starf stjórnsýslunnar fari ekki forgörðum heldur mun ríkisstjórnin nýta þá vinnu og krafta ötullega.

Ég vona að þingmenn geti verið mér sammála um það, hvar svo sem þeir standa í þessu máli, að með því að fela óháðri háskólastofnun áðurnefnda úttekt um stöðu Evrópusambandsins sé því atriði komið þannig fyrir að það sé hafið yfir pólitískt karp og verði jafnvel upphafi að rökföstu samtali. Það er mitt markmið með því að gera þetta á þennan hátt.

Þingmönnum sumum hverjum er nú orðið meira annt um að fela þjóðinni að skera úr um hvort aðildarviðræður skulu halda áfram en ekki og þeim er jafnvel meira annt um það en þeim var áður. Minnist ég þá þess og vil minna á það að þjóðin var ekki spurð þegar farið var af stað í þetta ferli, eins og ég sagði hér áðan.

Ég endurtek það sem ég hef áður sagt að stefnan er skýr þótt einhverjir þingmenn virðist ekki geta lesið stjórnarsáttmálann með réttum augum og kjósa að snúa út úr honum. Það verður ekki haldið áfram viðræðum án þess að þjóðin ákveði það og þjóðin getur treyst því að hún verði spurð áður en haldið verður áfram. Á sama tíma er ljóst að stefna beggja stjórnarflokkanna er skýr. Sú stefna sem samþykkt var á landsfundum þeirra er að hagsmunum Íslands sé betur komið fyrir utan Evrópusambandið.

Breytt stefnumörkun í aðildarferlinu hefur kallað á ýmsar ákvarðanir eins og þær sem snúa að IPA-styrkjum, ríkjaráðstefnum, samninganefnd, samningahópum o.s.frv. Það er ágætt að vekja athygli á því að Evrópusambandið hefur að sjálfsögðu sett sitt fólk í önnur verkefni. Það er ekkert athugavert við það.

Sumir þingmenn hafa gert mikið úr þessum ákvörðunum og talað um að núverandi ríkisstjórn sé að spilla einhverju. Það á auðvitað ekki við nein rök að styðjast. Það sem gert hefur verið er að framfylgja skýrri stefnu og, til að endurtaka það sem ég sagði í ræðu minni áðan, engar skemmdir hafa verið unnar á einu eða neinu, aðildarumsóknin hefur ekki verið afturkölluð, engu hefur verið slitið. Það verður ekki gert án þess að ræða það fyrst í þinginu. Ég endurtek: Það er sérstök ákvörðun sem kallar á umfjöllun í þinginu að slíta viðræðunum. Ég ítreka það.

Ég hef skýrt ítarlega mína afstöðu til IPA-styrkjanna. Við vildum greiða fyrir því að unnt yrði að mæta væntingum þeirra sem lagt höfðu mikið á sig til að skipuleggja metnaðarfull og gagnleg verkefni og koma þeim til framkvæmda með fjárhagslegum stuðningi frá IPA. Evrópusambandið gat ekki fallist á þetta og þannig endaði það. Við leggjum áherslu á að þau verkefni sem voru þegar byrjuð haldið áfram og fái að klárast.

Aðeins varðandi lagalegt gildi þingsályktana. Það skrýtna er að reynt hefur verið að gera mikið úr því að ný ríkisstjórn fylgi ekki stefnu fyrri ríkisstjórnar. Það birtist í því að gagnrýnt er að við fylgjum ekki ályktunum Alþingis um aðildarumsókn sem samþykkt var af fyrri meiri hluta. Sérstakt lagaálit sem unnið var að beiðni stjórnarandstöðunnar svarar því skýrt. Það er ekkert athugavert við hvernig ríkisstjórnin hefur haldið á málum. Álitið staðfestir það sem er viðtekið viðhorf fræðimanna, að þingræðisreglan ræður.

Virðulegi forseti. Það sem ég vil leggja áherslu á hér í lokin er einmitt það sem ég nefndi í upphafi. Þessi ríkisstjórn vil standa fyrir sterku sambandi við Evrópusambandið, að vísu á öðrum grunni en í tíð fyrri ríkisstjórnar. Við munum standa fyrir tillögugerð um að styrkja aðkomu okkar að EES-samningnum og öðrum samningum til að tala máli Íslands sterkari röddu en aðstæður hafa verið til að gera á undanförnum árum.