142. löggjafarþing — 28. fundur
 16. september 2013.
fjárhagsstaða háskólanna.

[15:39]
Sigrún Gunnarsdóttir (Bf):

Herra forseti. Ég vil beina athyglinni að fjárhagslegri stöðu háskóla hér á landi. Háskólamenntun og rannsóknir eru grundvöllur atvinnusköpunar og velferðar samfélagsins. Undanfarin ár hafa orðið stórstígar framfarir í rannsóknum og sköpun þekkingar í háskólum hér. Á sama tíma hefur aðsókn að háskólanámi stóraukist en fjárframlög minnkað umtalsvert. Svo dæmi sé tekið af Háskóla Íslands hefur fjöldi nemenda aukist um 20% undanfarin fimm ár. Fjárframlög til skólans hafa á sama tíma minnkað um 20%. Fjárlög duga ekki til að standa undir kennslu og rekstri. Álag á starfsfólk og nemendur hefur aukist verulega. Kjör stundakennara eru óviðunandi og þar þarf að gera grundvallarbreytingu til að tryggja áframhaldandi framlag stundakennara.

Niðurskurður í fjárveitingum til háskóla getur ógnað mikilvægum vaxtarbroddum framtíðar og möguleikum okkar til að tryggja þekkingu, þjálfun og fagmennsku starfsstétta. Jafnframt getur niðurskurður haft neikvæð áhrif á tækifæri til samstarfs, rannsókna, tekju- og styrkjaöflunar erlendis. Nú þegar hafa háskólar hér á landi misst mjög hæft starfsfólk vegna óhóflegs álags, bágra launakjara og ófullnægjandi starfsaðstöðu.

Ég vil spyrja hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra hvaða áætlanir liggi fyrir á næsta kjörtímabili til að tryggja opinberu háskólunum fullnægjandi rekstrarfé til þess að sá grunnur sem hefur verið lagður undanfarna áratugi veikist ekki.



[15:41]
mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Með yðar leyfi vil ég byrja svar mitt á því að óska hv. fyrirspyrjanda til hamingju með að hafa undirritað eiðstafinn og býð hana velkomna hingað. En hvað varðar fyrirspurnina um stöðu háskólanna er það alveg hárrétt sem fyrirspyrjandi vekur hér máls á, að staða þeirra er einfaldlega ekki nógu góð. Ég held að það skipti engu máli hvar í flokki menn standa hvað það mál varðar, við vitum að þegar við berum saman fjárhagsstöðu háskólanna og háskólastigsins hér við það sem gerist til dæmis í OECD-löndunum, alveg sérstaklega annars staðar á Norðurlöndunum, þá sjáum við að háskólastigið hér stendur ekki nógu vel og það stendur veikt í fjárhagslegum skilningi.

Þó skal sagt að það er reyndar alveg ótrúlegt hve háskólunum hefur tekist að vinna góða vinnu á Íslandi og hvað þeir hafa náð miklum árangri til dæmis í rannsóknarstarfi á alþjóðlegum vettvangi þrátt fyrir að þeim sé svona þröngur stakkur skorinn. Við erum í sömu stöðu varðandi þessi mál eins og til dæmis heilbrigðiskerfið; allt markast það nú af stöðunni í ríkisfjármálum og staðan í ríkisfjármálum er auðvitað erfiðari en menn ætluðu og við því er verið að bregðast. Þess vegna er almenn niðurskurðarkrafa á alla málaflokka, hvort heldur sem um er að ræða heilbrigðismál, menntamál, félagsmál eða aðra málaflokka sem ríkið ber meginábyrgð á.

En hvað varðar framtíðina er rétt að geta þess að ég hef til dæmis fundað með rektor Háskóla Íslands, af því að sérstaklega var spurt um opinberu háskólana, um hvernig við getum hagað stefnumótun hér til næstu ára og með hvaða hætti slík stefnumótunarvinna eigi að eiga sér stað til þess að samræma alla krafta og leggja grunn að framfarasókn fyrir opinberu háskólana. Ég tel reyndar að það eigi að gilda um alla háskóla. Ég held að það sé réttast að tala um háskólakerfið í heild sinni en úr því að sérstaklega var spurt um opinberu háskólana þá svara ég þessu til.



[15:44]
Sigrún Gunnarsdóttir (Bf):

Ég þakka hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra svarið. Ég vil sérstaklega vekja aftur athygli á brothættri stöðu háskólanna varðandi rannsóknir og styrki og samstarf við erlenda aðila, eins og hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra nefndi réttilega. Ég vil taka fram að vel hefur gengið með rannsóknir og styrkjafé og frá árinu 2008 hefur Háskóla Íslands tekist að þrefalda erlendar tekjur vegna rannsókna og rannsóknarsamstarfs við erlenda aðila. Það eru 1,4 milljarðar á ári. Þar er um að ræða mjög mikilvæga tekjulind og viðkvæmt fyrirbæri sem þolir varla meira en orðið er.



[15:44]
mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég tel að það sé enginn ágreiningur á milli mín og hv. fyrirspyrjanda um þetta mál, þ.e. um mikilvægi háskólastarfsins, rannsóknarstarfsins og þess að háskólar hér á Íslandi eigi í nánu og góðu samstarfi við háskólastofnanir erlendis. Um nokkuð langa hríð hefur verið unnið jafnt og þétt að því að bæta við fjármuni til rannsókna. Samkeppnissjóðirnir eru þar með taldir. Það er því kannski rétt að horfa á kerfið í heild, þ.e. rannsóknarsjóðina og háskólana, en aðalatriðið er að ég held að það sé mjög góður samhljómur þvert á alla flokka um mikilvægi þessa máls. Þegar horft er nú til framtíðar þá reynum við að gera allt sem við getum á næstu árum til að auka fjármagn til þessarar starfsemi.

Virðulegi forseti. Það breytir ekki því, og það er auðvitað hið sorglega í málinu, að staða ríkisfjármála er eins og hún er. Hún er verri en við ætluðum og það þarf auðvitað að leysa það mál vegna þess að annars verðum við ekki fær um að byggja upp eitt eða neitt hér, hvorki í menntamálum, heilbrigðismálum (Forseti hringir.) né velferðarmálum. Þannig er staðan, virðulegi forseti.