142. löggjafarþing — 28. fundur
 16. september 2013.
skuldaleiðrétting fyrir heimilin.

[15:46]
Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Við áhugafólk um nýtt heimsmet í skuldaleiðréttingum höfum talsvert spurt að því eftir kosningar hvenær væri að vænta efnda á þeim kosningaloforðum sem gefin voru í skuldamálunum. Hæstv. forsætisráðherra svaraði því fyrir sitt leyti hér á sumarþinginu að þess væri að vænta í nóvember þegar kæmu tillögur um aðgerðir frá starfshópum sem skipaðir hafa verið. Og hann hefur lýst því opinberlega að þetta séu ekki nefndir heldur starfshópar vegna þess að búið sé að taka ákvörðunina og verkefni þeirra sé að útfæra aðferðir við framkvæmdina. Ég hef þess vegna skilið það þannig að von sé á ákvörðunum í skuldamálunum í nóvember eða kannski desember eftir einhverja umfjöllun eða a.m.k. væri að vænta ákvarðana í skuldamálum á yfirstandandi ári, á árinu 2013.

Þá ber svo við að í umfjöllun um frumvarpið um Hagstofuna, sem er á dagskrá síðar í dag, kemur fram að upplýsinga um skuldastöðu einstaklinga sé ekki að vænta fyrr en í mars. Þegar við spyrjum hvort ekki eigi að nota þær upplýsingar til að taka ákvarðanir þá svara einstaka stjórnarliðar okkur því til að þó að niðurstöður þessara starfshópa eigi að liggja fyrir í nóvember þá verði ákvarðanir ekki teknar fyrr en hugsanlega eftir marsmánuð, þ.e. í apríl, maí eða síðar. Þá verði hægt að nota upplýsingarnar þegar ákvarðanirnar verða teknar.

Hæstv. forsætisráðherra hefur talað mjög skýrt í þessum efnum, því vil ég spyrja hvort ég hafi misskilið þetta eitthvað, hvort ekki sé að vænta ákvarðana á þessu ári, hvort það sé þannig að menn ætli ekki að taka ákvarðanir í þessum málum fyrr en í apríl/maí eða síðar. Og ef ákvarðana eða tillagna er ekki vænta á haustþinginu frá ríkisstjórninni er þeirra þá að vænta á vorþinginu 2014 eða haustþinginu 2014 eða jafnvel síðar, því að auðvitað getur þessi upplýsingaöflun dregist, sérstaklega ef hún fer fyrir dómstóla. En sannarlega þeim mun fyrr, þeim mun betra, hæstv. forsætisráðherra.



[15:48]
forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Mér heyrist hv. þingmaður vera nokkurn veginn með þetta á hreinu þó að ég geti auðvitað ekki frekar en hv. þingmaður sagt til um hvenær þingið lýkur störfum. Ég geri ráð fyrir að þingið muni vilja hafa eitt og annað um þessi mál að segja þegar sérfræðihóparnir skila af sér niðurstöðum sínum og leiðbeiningum.

Hvað varðar hins vegar frumvarpið um Hagstofuna hefur þegar verið bent á að mikilvægt sé að þetta tæki sé til staðar til þess að menn geti þá fylgst með því að þær aðgerðir sem ráðist er í séu framkvæmdar í samræmi við það sem menn ætla sér og hafi tilætluð áhrif. Nú efast ég ekki um að hv. þm. Helgi Hjörvar mun styðja þessar aðgerðir en ég hef hins vegar grun um að einhverjir gætu séð sér leik á borði í því að gagnrýna þær á ýmsum forsendum. Þá er mikilvægt að ríkisvaldið sé með allar upplýsingar til að geta fylgt þessu eftir og sýnt fram á að þetta sé allt framkvæmt á réttan hátt. Þegar koma upp álitamál, þegar einhver heldur því fram að ekki sé verið að gera hlutina eins og til stóð þá verði til staðar upplýsingar til að sýna fram á að verið sé að gera þetta eins og til stóð.

Það er hins vegar mjög sérkennilegt að hlusta á þessa umræðu alla um frumvarpið sem síðasta ríkisstjórn afgreiddi á ríkisstjórnarfundi en reyndar ekki sem frumvarp. Menn töldu sig ekki einu sinni þurfa að taka þetta mál fyrir þingið vegna þess að það væri svo smávægilegt. Það var afgreitt í ríkisstjórn, sett var fjárveiting í þetta og þá gekk málið miklu lengra en nú þegar nefndin er búin að fara yfir það og lagfæra. Ekki nóg með það, heldur var rökstuðningur síðustu ríkisstjórnar í raun sá sami og sá rökstuðningur sem nú hefur komið fram. Það að ætla að leggjast gegn þessu máli núna, öll sú umræða af hálfu stjórnarandstöðunnar eða mikill hluti hennar sem við höfum horft upp á hér að undanförnu er mjög sérkennilegur í ljósi þess að það var síðasta ríkisstjórn sem taldi sig geta tekið þetta mál fram hjá þinginu því að það væri það smávægilegt að ekki þyrfti einu sinni að ræða það hér.



[15:50]
Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Án þess að ég ætli í efnislega umfjöllun um hagstofumálið undir þessum dagskrárlið er rétt að halda því til haga við hæstv. forsætisráðherra að áhyggjur manna snúa að því hvort málið standist stjórnarskrá lýðveldisins og ég held að það séu eðlilegar áhyggjur að hafa í löggjafarsamkundunni sjálfri.

Ég skil svar hæstv. forsætisráðherra á þann veg, og bið hann að staðfesta það, að þó hann svari ekki fyrir þingið og hvenær þingið tekur sína ákvörðun þá standi það að vænta megi tillagna ríkisstjórnarinnar um nýtt heimsmet í skuldaleiðréttingum í nóvember nk. þegar starfshóparnir hafa útfært aðgerðir sem ákveðið hefur verið að fara í. Ef það er eitthvað seinna, þó það sé ekki nema í desember, þá bið ég hæstv. forsætisráðherra að taka það fram, að ekki sé talað um ef tillagna er ekki að vænta fyrr en á vorþinginu. Við vitum það öll í þessum sal að þúsundir og jafnvel tugþúsundir manna bíða úti í samfélaginu býsna óþreyjufullir og margir í erfiðri stöðu. Það skiptir máli að þeir viti hvaða tímasetningar gilda í þessum stóru og mikilvægu málum.



[15:51]
forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegi forseti. Tillögur ríkisstjórnarinnar liggja fyrir í stjórnarsáttmála. Vinna sérfræðihópanna er við að útfæra framkvæmd þeirra tillagna og ég ætla rétt að vona að menn geti framkvæmt mjög hratt og vel í samræmi við útfærslur sérfærðihópanna og að hv. þingmenn muni ekki standa í vegi fyrir því, hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar.

Ég geri ráð fyrir því að hv. þm. Helgi Hjörvar verði stuðningsmaður þessa máls og muni aðstoða okkar við að það fari sem hraðast hér í gegn. Ef hv. þingmaður getur haft áhrif á félaga sína í stjórnarandstöðunni í þá veru mun það gagnast mjög og flýta því að þessi mál komist öll í framkvæmd.