142. löggjafarþing — 30. fundur
 18. september 2013.
friðlýsing Þjórsárvera.

[15:10]
Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Mig langar að beina fyrirspurn til hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra. Í viðtali við hæstv. ráðherra í Morgunblaðinu síðasta mánudag kemur fram að hann segist telja að almenn sátt sé um verndun Þjórsárvera. Eins og kunnugt er frestaði hæstv. ráðherra því að staðfesta friðlýsingu Þjórsárvera nú í sumar og var það gert allskyndilega, mér er meira að segja sagt að búið hafi verið að baka kökurnar fyrir friðlýsinguna þegar ákveðið var að fresta þeirri athöfn, hæstv. ráðherra getur kannski staðfest það hér á eftir.

Í ljósi þeirra orða hæstv. ráðherra — sem ég tek undir, ég tel að almenn sátt ríki um verndun þessa svæðis — langar mig að inna hann eftir því hvort ekki standi til að ljúka því friðlýsingarferli sem hafið var. Hæstv. ráðherra gaf jú þá skýringu að borist hefðu athugasemdir sem þyrfti að fara sérstaklega yfir. Mér hefur borist til eyrna að nú þegar sé búið að vinna úr þeim athugasemdum þannig að mig langar að inna hæstv. ráðherra eftir því hvort og þá hvenær standi til að ljúka því að staðfesta friðlýsingu Þjórsárvera.



[15:12]
umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta og áhugaverða fyrirspurn og gott tækifæri til að taka enn einu sinni einmitt þessa umræðu um Þjórsárverin. Til að koma því enn og aftur alveg á hreint, sé einhver í vafa um þann vilja sem sá sem hér stendur hefur gagnvart því, er engin spurning að ég tel, eins og kom fram í blaðaviðtalinu, almenna sátt ríkja og hef satt best að segja engan hitt sem er ekki sammála því að friðlýsa beri Þjórsárverin, alla vega ekki undir það síðasta, og ég mun stefna að því áfram.

Það er rétt að það komu fram athugasemdir á síðustu stundu og kökurnar höfðu verið bakaðar og pönnukökurnar einnig. Ég held að því hafi verið komið í frost og verið bjargað og það bíður bara þeirrar stundar þegar við köllum til þessarar samkomu og ég hlakka reyndar til þess.

Markmið þess sem hér stendur er að undirrita friðun Þjórsárvera en ég vil ekki gefa tímasetningu á það. Það er rétt sem kom fram hjá fyrirspyrjanda, það komu fram athugasemdir og þegar ég fór að skoða þær í framhaldinu — af því að það gafst ákaflega lítill tími til að yfirfæra það þegar þær komu fram, það stóð til að ganga frá þessari friðlýsingu dagana þar á eftir — kom í ljós að þær voru á ákveðnum rökum reistar. Það þarf að leysa úr þeim vanda sem þar kom upp og það er unnið að því núna í ráðuneytinu og ég vænti þess að því ljúki fyrr en seinna. Ég mun sjálfur eiga samtöl fljótlega við sveitarstjórnarmennina sem er á þessu svæði og reyna að finna þær lausnir sem hugsanlega þarf að leysa úr, í það minnsta koma málinu aftur á hreyfingu þannig að við getum gengið (Forseti hringir.) frá því að friðlýsa Þjórsárverin.



[15:14]
Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Ég hjó auðvitað eftir því að hann vildi ekki koma með neinar tímasetningar en fullvissaði okkur um að kökurnar væru allar komnar í frystikistuna. Við vitum að kökur geta verið ansi lengi í frysti þannig að það er engin vísbending og ég vil því inna hæstv. ráðherra aftur eftir því. Það kom fram í máli hans að vinna stæði yfir og að það ætti eftir að ræða við sveitarfélög. Til að ljúka þessari fyrirspurn vil ég spyrja hæstv. ráðherra hvort hann sjái í raun og veru nokkuð því til fyrirstöðu á þessu stigi máls að það geti gengið eftir í öllu falli bráðlega, að ljúka þessari friðlýsingu sem ég spurði um áðan.



[15:15]
umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég held að það megi alveg fullyrða að hægt sé að gera það bráðlega. Ástæðan fyrir því að ekki var hægt að klára það í sumar var að í ljós kom að ekki voru allir með það á hreinu hvar mörkin á friðlandinu lægju og ég vil standa faglega að málum, fá allt upp á borðið og finna þá lausn sem allir geta sætt sig við. Það er unnið að því og ég vænti þess að það taki frekar skemmri tíma en lengri þannig að við getum klárað málið og glaðst yfir því að eftir 40 ára baráttu sé hægt að friðlýsa Þjórsárverin.