142. löggjafarþing — 30. fundur
 18. september 2013.
lög um fjárreiður ríkisins.

[15:23]
Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Spurning mín er til hæstv. fjármálaráðherra um lög um fjárreiður ríkisins og nokkuð oft boðaða endurskoðun þeirra laga. Ég skal viðurkenna að það tengist auðvitað áhuga mínum á nýbyggingu Landspítala og fjárfestingum lífeyrissjóða sem talið er vera um 150 milljarðar kr. á ári. Þeir hafa frekar fá tækifæri núna sérstaklega þegar gjaldeyrishöft eru og annað. Auðvitað vitum við öll að mjög brýnt er að bæta húsakost Landspítalans og ég tel að það eigi að gera með nýbyggingu. En samkvæmt núgildandi fjárreiðulögum bæri Landspítala og öðrum ríkisstofnunum í A-hluta ríkisreiknings að gjaldfæra byggingarkostnað á framkvæmdatíma, þ.e. ekki má færa byggingar til eignar og afskrifta á notkunartíma. Þetta þýðir að hugsanlega nýbyggingu Landspítalans upp á 50 milljarða þyrfti að fjármagna á byggingartíma með framlögum úr ríkissjóði og eins og sagt hefur verið held ég að þeir peningar séu ekki til á næstu árum.

En með margboðaðri endurskoðun fjárreiðulaga hefur verið rætt um að þeim yrði breytt þannig að ríkisstofnanir í A-hluta færi fullt rekstrar- og eignabókhald. Ef fasteignir Landspítalans, nýbyggingar, yrðu til dæmis settar í sérstakt fasteignafélag, við skulum segja bara Landspítalinn ohf., þá gæti Landspítalinn fengið bygginguna til afnota gegn leigugjaldi en byggingin yrði færð til eignar hjá fasteignafélaginu.

Virðulegi forseti. Ég tel þetta einu færu leiðina til að byggja nýjan Landspítala og bæta húsakost hans, að gera það á þennan hátt. Þess vegna er það spurning mín til hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra: Verður nýtt frumvarp um fjárreiður ríkisins lagt fram á næsta þingi og þá hvenær?



[15:25]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Nýtt frumvarp til laga um opinber fjármál er í lokafrágangi í fjármálaráðuneytinu og ég hyggst mæla fyrir því nú í haust. Hugsanlegt er að það komi inn sem eitt af okkar fyrstu málum. Þetta mál hefur verið í undirbúningi í langan tíma, lengst af í tíð fyrri ríkisstjórnar en það hefur verið unnið í góðu samstarfi við fjölmarga aðila innan stjórnsýslunnar, m.a. við fjárlaganefnd Alþingis, og verið sniðið af því það helsta sem menn hafa haft út á málið að setja þó að markmiðunum með setningu laganna hafi aldrei verið fórnað.

Varðandi það hvort lögin opni fyrir möguleika á því að fara í sérstaka fjármögnun á Landspítalanum tel ég að við verðum að nálgast málið út frá almennum viðmiðunum en kannski ekki einstökum verkefnum og í fyrsta lagi gera okkur í grein fyrir því að jafnvel þótt skuldsetning vegna byggingar Landspítalans kæmi ekki inn í A-hlutann eins og við þekkjum uppgjörið í dag breytir það engu um að ríkið mundi á endanum þurfa að standa undir afborgunum og greiðslu vegna framkvæmdarinnar. Ég tel að við þurfum að fara afar varlega í að taka stórframkvæmdir út fyrir sviga, út fyrir efnahag hjá ríkinu inn í einhver sérstök félög og blekkja okkur með því að þannig höfum við fundið upp einhverja peningavél, tímavél til þess að skauta yfir tímabil þar sem þröngt er í ári hjá okkur.

Það geta hins vegar vel verið góð rök fyrir því að setja á fót sérstök félög, t.d. þegar menn eru að leiða saman einkaframtak og opinbera aðila til þess að fjármagna einstaka framkvæmdir samkvæmt sérstöku fyrirkomulagi, en þá finnst mér ávallt að áhættan þurfi um leið að vera dreifð en ekki öll í fanginu á ríkinu.



[15:27]
Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Nú er það svo að ég get játað að ég er mjög ánægður með fyrri hluta svars hæstv. fjármálaráðherra, þ.e. að nýtt frumvarp sé að koma og verði eitt af fyrstu málunum á næsta þingi. Ég fagna því mjög vegna þess, eins og ég sagði í fyrri ræðu minni, að það hefur staðið lengi til. Ég sagði áðan að spurning mín væri vegna áhuga á byggingu nýs Landspítala og ég sagði einnig að ef við Íslendingar ætlum að byggja nýjan Landspítala, sem mjög mikil þörf er á, sæi ég ekki nokkra einustu leið aðra en að gera það á þann hátt að ríkissjóður afli sér lánsfé — beinast liggur við hjá lífeyrissjóðunum sem eru sneisafullir af peningum og vantar fjárfestingartækifæri — og að við gætum sameinast um það hér á Alþingi að þetta verði verkefni næstu fjögur, fimm ár. Það verði stóra verkefnið sem skapar atvinnu og eykur hagvöxt, það sem við erum að tala um að vanti í þjóðfélaginu, og okkur vantar sannarlega nýjan spítala. Við skulum hafa í huga að það kostar mikla fjármuni úr ríkissjóði ef við ætlum að halda áfram (Forseti hringir.) að klastra við eða lagfæra (Forseti hringir.) þann spítalann sem er í notkun núna (Forseti hringir.) og ég tel einfaldlega að við Íslendingar (Forseti hringir.) eigum það inni hjá okkur sjálfum að byggja nýjan (Forseti hringir.) spítala.



[15:28]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Við getum verið sammála, ég og hv. þingmaður, um að það er orðið mjög mikilvægt og brýnt verkefni að laga aðbúnað á Landspítalanum. Er engin önnur leið fær en að stofna slíkt félag og taka þetta út fyrir efnahag ríkisins? Jú, ég tel að fleiri leiðir séu færar. Í því sambandi getum við í fyrsta lagi horft til þess hvort ríkið búi hugsanlega yfir einhverjum eignum sem það getur selt, bæði til að greiða niður skuldir en líka til þess að ráðstafa í önnur brýn samfélagsleg verkefni eins og þetta. Í öðru lagi getum við með því að auka umsvifin í hagkerfinu vænst þess að innan skamms sé ríkissjóður kominn í betri færi til þess að fara í stærri framkvæmdir. Í þriðja lagi getum við horft til þess að við höfum í mjög mörg ár verið með risaverkefni í gangi í samgöngumálum, við erum nýbúin að setja 12 milljarða Norðfjarðargöng af stað og erum í stórum framkvæmdum (Forseti hringir.) víða annars staðar, og kannski kemur einhvern tímann að því að við spyrjum (Forseti hringir.) okkur hvort þeim fjármunum væri betur beint (Forseti hringir.) inn í heilbrigðiskerfið.