142. löggjafarþing — 30. fundur
 18. september 2013.
rekstur Landhelgisgæslunnar.

[15:30]
Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Fjölmiðlar sögðu frá því í morgun að varðskipið Þór hefði einungis verið á sjó í 80 daga af þeim 260 sem liðnir eru af árinu, en á síðasta ári hefði varðskipið verið samtals 125 daga á sjó. Skipið var þó ekki í rekstri þrjá mánuði á því ári vegna vélarviðgerðar í Noregi.

Það er óþarfi að rekja það hvað Landhelgisgæslan gegnir mikilvægu hlutverki í samfélagi okkar, m.a. björgunarverkefnum og er varðskipið Þór sérstaklega til þess búið að sinna stærri björgunarverkunum og viðbúnaði sem minni skipin hafa ekki tök á að sinna. Þess vegna er það mikið áhyggjuefni ef varðskipið Þór, sem byggt var fyrir 5 milljarða kr. og kom svo að lokum til landsins með nokkrum herkjum og var, eins og ég sagði, síðan í vélarviðgerð eftir að það kom til landsins, getur ekki nýst sem skyldi í þeim mikilvægu og brýnu verkefnum sem það á að sinna. Í frétt fjölmiðla í morgun er haft eftir forsvarsmönnum Landhelgisgæslunnar að kostnaður við flugdeild Gæslunnar hafi farið vaxandi undanfarin ár og þess vegna hafi þurft að skera niður í rekstri skipaflotans.

Mig langar að inna hæstv. fjármálaráðherra eftir því hvernig hann lítur á rekstrarumhverfi Landhelgisgæslunnar í þessu samhengi og hvort ekki sé að hans mati mikilvægt að tryggja Landhelgisgæslunni fjármuni til að halda úti bæði þyrlusveit og skipaflotanum, ekki síst í ljósi þess öryggishlutverks sem Landhelgisgæslan gegnir. Er við því að búast að boðaður niðurskurður upp á 1,5% verði látinn bitna á Landhelgisgæslunni?

Það eru spurningar mínar til hæstv. fjármálaráðherra.



[15:32]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Það er þannig að í samþykktum fjárlögum fyrir árið 2013 var einfaldlega ekki gert ráð fyrir því að Landhelgisgæslan hefði meira svigrúm en birtist í þessum tölum til að halda varðskipinu úti. Við erum alveg sammála um það, hygg ég, ég og hv. þingmaður, að Landhelgisgæslan gegnir gríðarlega miklu öryggishlutverki og reyndar mjög víðtæku hlutverki í hinni stóru landhelgi okkar og tölurnar eru ákveðinn mælikvarði á það hvert við erum komin í niðurskurðinum. Það er auðvitað á fleiri sviðum sem við erum farin að sjá að ekki verður lengra gengið í því að gæta aðhalds. Fyrir komandi ár verður þess gætt að Landhelgisgæslan fái í það minnsta sambærilegt fjármagn og hún hefur haft en svigrúmið er afskaplega takmarkað til að fara að auka til einstakra stofnana. Í þessum fyrirspurnatíma rétt áðan var til dæmis verið að spyrjast fyrir um hvað hægt væri að gera á heilbrigðissviðinu og við munum þurfa að forgangsraða þegar við komumst aftur í stöðu til að bæta í framlögin.

Í víðara samhengi er það svo um Landhelgisgæsluna að segja að það er sorglegt að vera að leigja þyrlur á því háa verði sem greitt er í leigugjald fyrir þær og dapurlegt fyrir okkur að hafa ekki verið í stöðu til að fjárfesta frekar í þyrlunum til að spara fjármuni til lengri tíma. En staðan er einfaldlega þannig að þegar menn hafa ekki úr neinu að spila þá getur verið erfitt að komast ekki á útsölu en menn fara ekki á útsölu ef þeir eru með tóma vasa.



[15:34]
Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Já, það er dýrt að vera fátækur, ekki sælt eins og segir í kvæðinu heldur dýrt, það er alveg rétt.

Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svör hans en ég bendi samt á það sem hefur komið fram í fréttum a.m.k., að kostnaður við þyrlusveit Landhelgisgæslunnar hafi aukist vegna aukinna útkalla. Það eru auðvitað þáttur sem ekki er hægt að sjá alveg fyrir og við horfumst auðvitað í augu við það. Ef tilefni til útkalla í þyrlusveitinni verða fleiri en gert er ráð fyrir þá sjáum við hvað er að gerast, þá er því mætt með því að skera niður útgjöld til reksturs skipanna. Ég hef áhyggjur af þessari stöðu. Við höfum áður tekið hér á þingi umræðu um öryggismál sjómanna og ég held að flestir séu sammála um að það er mjög mikilvægt að huga að þeim og láta ekki þau lenda undir niðurskurðarhnífnum. Ég ítreka þau sjónarmið mín við hæstv. ráðherra (Forseti hringir.) að það er mjög mikilvægt að tryggja rekstur skipa Landhelgisgæslunnar. Það er líka dýrt að láta þau vera bundin við bryggju.



[15:36]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Landhelgisgæslan hefur á þessum úthaldsdögum einblínt á það að geta sem best tryggt öryggi sjómanna hér heima fyrir. Það er engum blöðum um það að fletta að miðað við þá fjármuni sem úr er að spila hefur Landhelgisgæslan haldið mjög vel á þessum málum, einmitt þannig að öryggisins sé gætt eins og kostur er. Við getum síðan talað okkur hás um það hversu miklu betur við viljum gera í þessum málaflokki. Þessi umræða fór meðal annars fram þegar fjárlög voru samþykkt fyrir yfirstandandi ár um fjárveitingar til Landhelgisgæslunnar og afleiðingar af því að ekki væri meira svigrúm eins og við erum hér að ræða um. Þetta er hluti af miklu stærri umræðu.

Ein besta leiðin til að geta gert betur er sú að fá aftur líf í hagkerfið. Í augnablikinu er fjárfesting allt of lítil. Það er meginverkefnið og þá munum við geta gert betur þarna.