143. löggjafarþing — 4. fundur
 4. október 2013.
fjárlög 2014, frh. 1. umræðu.
stjfrv., 1. mál. — Þskj. 1.

[13:31]
heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Meginmarkmið ríkisstjórnar er að skila fjárlagafrumvarpi sem gerir ráð fyrir hallalausum ríkissjóði, að hætta skuldasöfnun og ná niður halla ríkissjóðs. Um það markmið held ég að við getum öll verið sammála, okkur greinir hins vegar á um leiðir til að ná þessu, eins og eðlilegt er þegar mikið er undir og í hlut á flókinn rekstur og starfsemi eins og sú sem ríkissjóður hefur með höndum.

Til að ná þessu markmiði var ákveðið að að hluta til yrði beitt 1,5% hagræðingarkröfu á alla málaflokka og er ég hér mættur til að gera grein fyrir heilbrigðishluta fjárlagafrumvarpsins fyrir árið 2014, þeim áherslum sem þar er að finna, hvernig við mætum þeim áherslum sem mótaðar hafa verið við það meginverkefni okkar að koma ríkissjóði út úr hallarekstri.

Ef við horfum til fjárlagafrumvarpsins eins og það birtist okkur liggur fyrir að fjárlög ársins 2013 gerðu ráð fyrir 127,3 milljarða útgjöldum til heilbrigðismála. Fjárlagafrumvarpið, eins og það liggur fyrir hér á þinginu, gerir ráð fyrir að heildarútgjöldin séu um 132,8 milljarðar og hlutdeild heilbrigðismála í heildarútgjöldum A-hluta ríkissjóðs hefur vaxið úr því að vera 21,8% í fjárlögum ársins 2013 í rúm 22% samkvæmt fjárlagafrumvarpinu.

Þegar farið er yfir frumvarpið eins og það liggur fyrir má sjá að þær viðbætur sem koma inn í fjárlagagrunninn fyrir árið 2013 eru á þann veg að bundin útgjöld aukast um 4,7 milljarða, sem er hrein viðbót við fjárlög þessa árs. Til viðbótar þeim 4,7 milljörðum má síðan nefna að launa- og verðlagsuppfærslur eru 3,2 milljarðar þannig að hrein útgjaldaaukning frá fjárlögum ársins 2013 til heilbrigðismála eru tæpir 8 milljarðar kr.

Á móti þeim útgjaldaauka eru síðan samdráttar- eða aðhaldskröfur sem gerðar eru í heilbrigðismálunum upp á 1,6 milljarða í ýmsum verkefnum. Stærsti hluti þess sem þar er inni eru rúmar 200 millj. kr. í því sem mikið hefur verið rætt um sem aðhaldskröfu, í legugjöldum á sjúkrastofnanir, en einnig er þar að finna niðurfelldar tímabundnar heimildir upp á 880 millj. kr. Þegar þetta er lagt saman eru útgjöld til heilbrigðismála frá fjárlögum ársins 2013 að aukast um 4,3% í heildina og til viðbótar vil ég enn fremur nefna, sérstaklega í tengslum við umræðu um Landspítala – háskólasjúkrahús, að ég hef gefið út yfirlýsingu varðandi tæki og búnað, að því er unnið, og ég geri ráð fyrir því að birta slíka áætlun fyrir 2. umr. En ég vil líka minna þingmenn á þá breytingu sem verður á starfsumhverfi Landspítalans við það að færa út úr umönnun eða umsýslu Landspítalans 40 til 45 hjúkrunarrými sem mikil samstaða hefur verið um að gera. Það léttir óneitanlega á þyngdinni í þjónustu sem Landspítalanum hefur verið gert að sinna, og hefur sinnt því mjög vel.

Helstu verkefnin sem unnið verður að á næsta ári eru endurskipulagning og styrking heilsugæslunnar. Ég kem væntanlega nánar að því í svörum hér á eftir við fyrirspurnum. Við höfum líka sett af stað vinnu við að endurskoða greiðsluþátttöku sjúkratryggðra í heilbrigðiskerfinu og það er verkefni sem ég bind mjög miklar vonir við.

Þó að okkur greini á um margt þá er sumt mikilvægara en annað af því sem veldur deilum okkar á milli, sumt af því sem við erum að karpa um öðru hvoru er léttvægt og skiptir litlu máli til framtíðar. En við erum þó öll sammála um eitt, þ.e. að við viljum tryggja öfluga og góða heilbrigðisþjónustu. Við viljum öll hér í þessum sal sækja fram. Ég hef engan áhuga á öðru en að vinna með þeim sem þannig vilja leggja til hlutanna. Ég held að lausnin felist ekki í því að benda hvert á annað og ásaka fyrri ráðherra eða ríkisstjórnir. Lausnin á þessu sameiginlega verkefni okkar felst miklu frekar í því að við stöndum saman um þau fyrirheit sem við höfum öll gefið íslenskri þjóð um að heilbrigðiskerfið verði á komandi árum öflugt og öfundsvert. Miðað við umræðuna sem staðið hefur alllengi, ekki eingöngu á þessu ári, tel ég að við höfum tækifæri til að sýna það og sanna að við ætlum okkur að standa við þau stóru orð sem við öll höfum látið falla í þeim efnum.



[13:38]
Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Í fjárlagafrumvarpinu er því miður mikil stöðnun og niðurskurður í heilbrigðiskerfinu. Það er sorglegt að stjórnvöld kjósi ekki að snúa vörn í sókn í uppbyggingu nýs Landspítala. Hvert ætla stjórnvöld að stefna með því gífurlega óhagræði sem það er að reka spítalann á 17 stöðum í 100 byggingum sem kostar um 3 milljarða á ári? Hver er framtíðarsýnin þegar augljóst er að Landspítalinn, eins og hann er í dag, stendur í vegi fyrir framförum og hagræðingu og æ erfiðara er að halda í heilbrigðisstarfsfólk við þær slæmu aðstæður sem kemur niður á þjónustu spítalans og öllum aðbúnaði sjúklinga? Ég spyr: Hver er stefnan með nýjan Landspítala?

Komugjöld eru hækkuð verulega og legugjöldum á sjúkrahúsum komið á. Þær tekjur verða ekki settar inn í heilbrigðiskerfið aftur til þess að bæta þjónustu eða auka hana heldur nýttar til að lækka ríkisútgjöld. Af hverju er hækkunum á komugjaldi á heilsugæslu ekki varið til að efla heilsugæsluna? Í frumvarpinu er talað um endurskipulagningu á heilsugæslu á höfuðborgarsvæðinu á grundvelli fyrirliggjandi tillagna um fjölbreytt rekstrarform sem vísar til þess að verið sé að gæla við einkarekstur. Er það stefna heilbrigðisráðherra að einkavæða heilsugæsluna á höfuðborgarsvæðinu? Á að bjóða út rekstur heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu? Í frumvarpinu er talað um að sameina stofnanir, bjóða út sérfræðiþjónustu og taka upp þjónustustýringu og blandaða fjármögnun með framleiðnihvötum. Hvað þýðir það, framleiðnihvötum?

Er verið að skoða það módel sem er í gangi á Akureyri þar sem sveitarfélag annast heilsugæsluna fyrir ríkið og getur sameinað heilsugæslu og félagsþjónustu til mikils hagræðis fyrir íbúa, sem er til fyrirmyndar? Fyrirætlanir eru í frumvarpinu um sameiningu á níu heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni, Vestfjörðum, Norðurlandi og Suðurlandi. Ég spyr: Er farin af stað vinna og samráð við heimamenn á viðkomandi svæðum? Þýðir sú sameining bætta þjónustu eða er verið að skerða hana? Og hvernig kemur sparnaður upp á 160 milljónir til við slíka endurskipulagningu? Á hvaða póstum liggur sá sparnaður? Hvað veldur því að endurskipulagningu á sjúkrahúsinu í Stykkishólmi er sleginn út af borðinu? Þar hafa heimamenn og bæjarstjórnin unnið með heilbrigðisyfirvöldum að því að styrkja grundvöll sjúkrahússins með því að færa inn hjúkrunar- og dvalarrými og ná fram samlegðaráhrifum en það er skorið niður um 70 milljónir. Það sama á við um sjúkrahúsið á Selfossi þar sem skorið er niður um 100 milljónir til að ljúka við uppbyggingu og viðhald á sjúkrahúsinu.



[13:41]
heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Hér var víða komið við. Fyrst er til að taka að þær 170 milljónir sem skornar hafa verið niður, eins og hv. þingmaður nefndi, fengust ekki yfirfærðar sem geymdar fjárheimildir yfir á árið 2013 en engu að síður er ég þeirrar skoðunar að það séu verkefni sem þurfi að bíða. Ég tel önnur verkefni brýnni í íslenskri heilbrigðisþjónustu en þau að hefja byggingu tveggja stofnana sem ég tel að séu byggðar miðað við skipulag á heilbrigðisþjónustu sem við erum að horfa upp á molna í höndunum á okkur smátt og smátt. Við verðum að mæta þeim ógnum sem steðja sérstaklega að heilsugæslunni víða um land. Liður í því er meðal annars þau áform sem ég er að tala um varðandi sameiningu heilbrigðisstofnana. Af því að spurt er hvort það hafi verið kynnt viðkomandi sveitarstjórnum eins og lög gera ráð fyrir þá hefur það verið gert. Þeim hefur öllum verið skrifað bréf, öllum viðkomandi sveitarstjórnum og einnig Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Það var kallað eftir viðbrögðum við áformunum og þau viðbrögð eru að skila sér inn.

Varðandi málefni heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins sem hv. þingmaður gerði hér að umtalsefni er ætlunin ekki sú að einkavæða alla þá starfsemi. Það liggur fyrir í úttektum sem gerðar hafa verið, m.a. af Boston Consulting Group sem unnar voru fyrir síðasta hæstv. velferðarráðherra á árinu 2011–2012, að afköstin í heilsugæslunni eru gríðarlega breytileg milli stöðva, allt upp í það að vera 40% afkastamunur. Við höfum módel í heilsugæslunni sem ástæða er til að skoða betur hvort geti gagnast á öðrum stöðum í heilsugæslunni til að tryggja betri gæði og meiri framleiðni. Það verður gert en ekki með þeim hætti að einkavæða alla þjónustuna. Ég er ekki að tala um það heldur miklu fremur að draga lærdóm af því módeli sem meðal annars hefur verið rekið með afburðagóðum árangri í Salastöðinni (Forseti hringir.) í Kópavogi. (Gripið fram í.)



[13:43]
Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Það kom fram í máli hæstv. ráðherra að ekki væri meiningin að einkavæða alla heilsugæslu í Reykjavík en hann talaði eins og það væri inni í myndinni að gera það að hluta. Mér finnst það mikið áhyggjuefni ef þróunin er að fara eigi út í aukin útboð og rekstur sem við höfum ekki haft hér á landi að undanteknum tveimur einkareknum heilsugæslum á höfuðborgarsvæðinu sem ég tel alveg nægjanlegt.

Varðandi sameiningu stofnana á landsbyggðinni tel ég það eitthvað sem við megum skoða. Auðvitað er mikilvægt að það sé í góðu samráði við heimamenn og að þjónustan sé ekki skert þótt reynt sé að hagræða en fyrst og fremst þarf að vera góð samvinna við heimamenn. Ég tel mjög alvarlegt þegar heimamenn hafa í samvinnu við stjórnvöld reynt að hagræða og ná fram samlegðaráhrifum, líkt og í Stykkishólmi eins og ég nefndi áðan, að sú vinna sé öll brotin niður. Mér finnst það mjög alvarlegt þegar menn hafa sýnt fram á að þarna sé hægt að byggja upp á öðrum grunni og á hagstæðari hátt þjónustu sem sjúkrahúsið hefur boðið upp á í gegnum tíðina og samnýta hvað varðar að koma þar inn hjúkrunarrýmum og dvalarrýmum. Mér finnst illa farið með þá miklu vinnu sem þarna er á ferðinni og hæstv. ráðherra svaraði því ekki hver stefnan er varðandi Landspítalann. Hver er stefnan varðandi framtíðarsýn hjá Landspítalanum miðað við að Landspítalinn eyðir óheyrilegum fjármunum í viðhald á stofnunum og húsnæði úti um allan bæ?



[13:45]
heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Fyrst er það spurningin sem mér auðnaðist því miður ekki tími til að svara en þær voru æðimargar í fyrirspurn hv. þingmanns. Hvað varðar Landspítalann hefur ekkert verið vikið enn þá á neinn ákveðin hátt frá þeirri stefnu sem mörkuð var, að áformað væri að hefja byggingar á nýju rannsóknarbyggingunni 2016, í fyrsta lagi. Ég er með áform uppi í fjárlagafrumvarpinu um að halda verkinu lifandi og taka fyrsta skrefið í einni af þremur byggingunum sem ætlað var að fara í. Verkefnið er enn lifandi.

Varðandi heilsugæsluna og sameiningu heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni vil ég taka fram að ætlunin með þeim áformum sem unnið hefur verið með í ráðuneytinu í langan tíma er ekki sú að loka einstökum þjónustusvæðum úti á landi. Þvert á móti á að reyna að styrkja þjónustuna sem þar er fyrir hendi með því að fækka og draga saman í yfirstjórn stofnana og eiga meiri möguleika á að nýta þá fjármuni og styrkja faglega þætti í rekstri stofnananna.

Hvað varðar það sem þrástagað er á um einkavæðingaráráttu þess sem hér stendur í heilbrigðiskerfinu þá hef ég margítrekað að það stendur ekkert til að einkavæða íslenska heilbrigðisþjónustu meðan ég gegni þessu embætti. Það eru hins vegar skýr skil á milli einkavæðingar og einkarekstrar. Einkarekstur í heilbrigðisþjónustu hefur gengið mætavel og ég nefni Salastöðina sem dæmi þar sem ríkið er með samning við einstaklinga. Það er skilgreint hvaða vinnu þeir eiga að skila, hvaða árangri þeir eiga að skila og hvernig eftirliti með þjónustunni skuli háttað. Það hefur gengið afspyrnuvel og er til fyrirmyndar hvernig sú vinna hefur verið unnin.



[13:47]
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Herra forseti. Það eru þrjár spurningar sem ég tel brýnar og vil leggja fyrir ráðherra í þessari umræðu. Sú fyrsta varðar byggingu nýs sjúkrahúss. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir fjármunum, 100 millj. kr., til hönnunar á sjúkrahóteli og síðan framkvæmdum þar á næstu árum. Það er viðleitni til að halda verkefninu lifandi en hvergi er að sjá að í gangi séu áætlanir um hvernig tryggja á nútímahúsnæði fyrir rekstur Landspítalans í framtíðinni. Ráðherra sagði áðan að ekki hefði verið áætlað að fara í byggingu meðferðarkjarna fyrr en 2016. Það er rétt, fram að þeim tíma átti að vinna að hönnun á þeim kjarna.

Því spyr ég ráðherra: Er í gangi vinna á hans vegum varðandi áætlun um hvernig tryggja eigi að við sjáum í land varðandi nýjan Landspítala og framtíð hans fyrir lok þessa kjörtímabils? Liggur fyrir hvernig það á að vera? Þetta eru mikilvægar spurningar fyrir Landspítalann og alla þá starfsemi sem þar er.

Önnur spurning varðar fjárframlög til bæði LSH og FSA. Jafnlaunaátakið verður fjármagnað með niðurskurði á fjármunum til tækjakaupa og legugjöldum sjúklinga. Það hefur aldrei tíðkast að launabreytingar væru látnar skerða aðra starfsemi.

Ég spyr, af því að tækjakaupaáætlunin er innan við ársgömul, hún var unnin af forstjórum þessara spítala vegna brýnnar nauðsynjar: Hvað hefur breyst í millitíðinni og hvað áætlar ráðherra að muni þá vera hægt að leggja af fjármunum í tækjakaup? Verið er að taka út 650 millj. kr. Hvað megum við búast við mörgum milljónum í nýju tækjakaupaáætluninni?

Þriðja spurningin varðar fjárheimildir annars vegar sjúkratrygginga og hins vegar Landspítala. Í frumvarpinu kemur fram að verið er að bæta sjúkratryggingum upp magnaukningu á yfirstandandi ári. Ekki er krafist niðurskurðar þar. En magnaukningar sem til hafa komið á Landspítalanum eða aukning, aukin þörf fyrir fjármuni sem valdið hefur hallarekstri, ekki vegna óráðsíu heldur vegna mjög þröngrar stöðu sjúkrahússins, verður ekki bætt. Þess vegna er um raunniðurskurð að ræða þegar litið er til hallans.

Því spyr ég ráðherra: Af hverju eru sérgreinalæknarnir hjá sjúkratryggingum meðhöndlaðir með öðrum hætti en opinber sjúkrahús landsins?



[13:51]
heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég spyr: Hvers vegna þurfum við að ræða málið þessum hætti? Eins og hv. þingmaður, fyrrverandi formaður fjárlaganefndar, veit þá liggur fyrir, meðal annars í skýrslum Ríkisendurskoðunar, það álit að fjárlög fyrir Sjúkratryggingar Íslands eru áætlanir vegna þess að þær byggja á lögum. Fjárlög fyrir Landspítala og sjúkrahúsarekstur eða stofnanarekstur byggja á áætlunum viðkomandi stofnana. Það gildir bara tvennt ólíkt í þessum efnum og uppbótin til sjúkratrygginga stafar ekki af sérgreinalæknum. Stærsti hlutinn stafar af lyfjakostnaði, svokölluðum S-merktum lyfjum.

Sömuleiðis varðandi jafnlaunaátakið, við eigum ekki að þurfa að ræða það með þeim hætti að því sé mætt með því að skera niður tækjakaup og með legugjaldi. Það tvennt dugar ekki einu sinni fyrir þeim útgjöldum. Það eru bara himinn og haf á milli, ætli jafnlaunaátakið kosti ekki ríkissjóð rétt rúmlega 1,5 milljarða á næsta ári, á meðan hitt tvennt er um 800 milljónir. Það liggur fyrir að ég vil endurskoða þær áætlanir sem voru í gangi fyrir sjúkrahúsin og ég tel ekkert óeðlilegt við það, ekki síst í ljósi þess að fjárveitingin til tækjabúnaðar á sjúkrastofnunum á árinu 2013 var tímabundin. Ég vil vinna það með öðrum hætti.

Varðandi byggingu Landspítalans. Að sjálfsögðu munu liggja fyrir áætlanir lok þessa kjörtímabils um það með hvaða hætti farið verður í þetta. Ég tel sjálfur ekkert óeðlilegt að ég taki mér tíma til þess að meta með hvaða hætti ráðist verður í þetta stóra byggingu, ekki síst á þeim tímum þegar við erum að reyna að kappkosta að ná því sameiginlega markmiði okkar að ná hallalausum rekstri ríkissjóðs. Ég er í ágætu sambandi við byggingarnefnd nýja Landspítalans (Forseti hringir.) og á við hana hið besta og mætasta samstarf.



[13:53]
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Herra forseti. Varðandi nýja Landspítalann er vert að minna hæstv. ráðherra á að fyrir kosningar var pólitísk samstaða um að byggja nýjan spítala. Aðeins Framsóknarflokkurinn var á móti og það er kostnaðurinn af þessu ríkisstjórnarsamstarfi fyrir Sjálfstæðisflokkinn að nýju sjúkrahúsi er fórnað þrátt fyrir áherslur flokksins á heilbrigðismál í kosningabaráttunni. Ég er ekki að spyrja um hvort áætlanir verði gerðar fyrir lok kjörtímabilsins heldur hvort verið sé að vinna að áætlun núna, hvort ráðherra sé að setja í gang vinnu um hvernig sé með sem skjótustum hætti hægt að gera áætlanir um uppbyggingu. Það eru mjög mikilvæg skilaboð inn á Landspítalann að verið sé að taka þetta mál föstum tökum.

Varðandi sjúkratryggingar þá eru líka heimildir til þess að setja þar inn takmarkanir. Fram kemur í frumvarpinu að stefnt er að markmiðum um lækkun útgjalda með aukinni greiðsluþátttöku, það er náttúrlega inntakið í því. Það er mjög óheppilegt að á öllum sviðum er augljóslega verið að auka greiðsluþátttöku fólks og það áður en vinnu nefndarinnar, sem Pétur Blöndal stýrir, er lokið. Það er óheppilegt því að það þarf að skoða það allt í heildrænu samhengi en með öðrum takmarkandi aðgerðum.

Ráðherra hefur reglugerðarheimild til þess að stýra aðgengi að þessari þjónustu og það er ekkert sem segir að við séum skuldbundin til þess að að dæla endalaust fé úr ríkiskassanum inn í sérgreinalækningar ef það er takmarkað, þannig að mér finnst það ekki vera svar. Ég tel þá að ráðherra verði að svara því hvernig hann (Forseti hringir.) hyggist beita þeim tækjum sem hann hefur til þess að draga úr útgjöldum til sjúkratrygginga.



[13:55]
heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég hef ekki í hyggju að draga endilega úr útgjöldum til sjúkratrygginga almennings á Íslandi. Ég hef hins vegar mjög mikinn áhuga, eins og ég tel að sé þverpólitísk samstaða um á Alþingi, að breyta og setja lög um greiðsluþátttöku sjúklinga í íslensku heilbrigðiskerfi og dreifa og jafna þeim byrðum sem af því leiða á sem flestar herðar. Það er ekki eðlilegt að við séum að karpa til dæmis með þeim hætti sem við höfum gert á síðustu dögum um gjaldtöku sjúklinga þegar við fáum síðan fréttir af því að einn einstaklingur, krabbameinssjúklingur í göngudeildarþjónustu, lendir í því að vera búinn að borga yfir 600 þús. kr., eins og Morgunblaðið flutti fréttir af í morgun. Það er eitthvað að í kerfinu öllu og það tekur tíma að breyta því.

Varðandi byggingaráformin um Landspítalann er ég einn af þeim sem studdu lagasetninguna í vor vegna þess að ég er þeirrar skoðunar að endurbyggja þurfi að stóran hluta af því húsnæði sem Landspítalinn er í. En í lögunum sem samþykkt voru var gert ráð fyrir þremur byggingum; meðferðarkjarnanum, bílastæðahúsi og sjúklingahóteli. Það var engin forgangsröðun á þeim verkum, á hvaða verki ætti að byrja, en miðað við efnahag ríkissjóðs tók ég þá ákvörðun að setja fyrst af öllu sjúklingahótelið í farveg. Ég held að það sé heldur ekki vanþörf á því, meðal annars í ljósi þeirrar breytingar sem er að verða á íslenskri heilbrigðisþjónustu þar sem sérhæfingin er alltaf að þjappast á færri staði og fólk af landsbyggðinni, sem þarf að sækja sér þá sérhæfðu þjónustu sem meðal annars er boðið upp á á Landspítala, lendir óumdeilanlega sýknt og heilagt í þvælingi á milli húsa. Það á í vandræðum með að koma sér fyrir til þess að geta átt sem greiðastan aðgang að þeirri sérhæfðu meðferð sem það þarf að njóta. Ég tel því fullt tilefni til þess að rökstyðja þessa áherslu með þeim hætti.



[13:58]
Elsa Lára Arnardóttir (F):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir að gera góða grein fyrir fjárlagafrumvarpinu, þeim hluta sem snýr að ráðuneyti hans. Mér finnst ekki öfundsvert að leggjast í þá vinnu fjárlagafrumvarps sem snýr að heilbrigðismálum. Heilbrigðisþjónusta um allt land hefur verið skorin inn að beini í mörg ár og að mínu mati hefur ekki verið forgangsraðað á réttan hátt. Núna er kominn tími til að snúa þeirri þróun til betri vegar.

Í því frumvarpi sem hér um ræðir og snýr að heilbrigðisráðuneytinu er ýmislegt jákvætt að finna og ég ætla að byrja á því að nefna nokkur þeirra atriða. Í fyrsta lagi munu hæstv. fjármálaráðherra og hæstv. heilbrigðisráðherra vinna að gerð nýrrar tækjakaupaáætlunar fyrir Landspítala og Sjúkrahúsið á Akureyri til ársins 2017. Er það algjörlega í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar, en þar er lögð áhersla á viðhald og endurbætur á núverandi húsa- og tækjakosti Landspítalans. Áætlunin verður unnin í samráði við starfsfólk þessara stofnana. Mér finnst nauðsynlegt að farið verði sem allra fyrst í vinnu við að skoða hvaða fjármagn þarf til tækjakaupa og endurbóta á næstu árum og mikilvægt er að horfa til framtíðar. Ástandið eins og það hefur verið undanfarin ár gengur bara alls ekki lengur.

Mig langar í þessu samhengi að spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra hvenær hann eigi von á að tækjakaupaáætlunin verði tilbúin og hvenær Landspítalinn og Sjúkrahúsið á Akureyri eigi von á auknu fjármagni til tækjakaupa og endurbóta.

Í öðru lagi mun fjárveiting til öldrunarmála hækka um 835 millj. kr. að raungildi. Þar af er um 350 millj. kr. framlag til reksturs 40 hjúkrunarrýma á Vífilsstöðum. Með þessu ætti að létta verulega álagi af lyflækningasviði Landspítalans þar sem mikið hefur reynt á undanfarið. Auk þessa verði 1.500 millj. kr. varið í auknar launagreiðslur heilbrigðisstofnana og 350 millj. kr. fara í niðurgreiðslu tannlækninga barna á grundvelli samnings við tannlækna.

Í frumvarpinu er einnig að sjá nokkra hluti sem ég hef talsverðar áhyggjur af, en það er niðurskurður og sameining heilbrigðis- og sjúkrastofnana úti á landi. Ég bið hæstv. heilbrigðisráðherra að standa vörð um þessar stofnanir því að þjónusta tengd heilbrigðismálum er einn af þeim stóru þáttum sem fólk lítur til þegar það velur sér búsetu úti á landi með tilliti til öryggis og lífsgæða. Ég vil spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra hvernig hann ætli að standa vörð um þessar stofnanir úti á landi þannig að íbúar landsbyggðarinnar þurfi ekki sífellt að sækja þjónustu um langan veg. Ég vil einnig velta þeirri spurningu upp við hæstv. heilbrigðisráðherra hvort honum finnist ekki ráð að efla sjúkrahús í nágrenni Reykjavíkur til að létta álagið á Landspítalanum.

Að lokum kemst ég ekki hjá því að minnast á umtalað og umdeilt legugjald. Mér finnst ekki rétt að taka gjald af fárveiku fólki sem neyðist til að leggjast inn á spítala en gæta verður jafnræðis. Þeir sem leggjast inn á göngudeildir, t.d. krabbameinssjúklingar í meðferð, (Forseti hringir.) þurfa að greiða háan kostnað þar sem þeir liggja ekki inni yfir nótt. (Forseti hringir.) Ég bind miklar vonir við vinnu að nýju greiðsluþátttökukerfi sem unnið er að í þeirri von að fundin verði sanngjörn lausn á þessum málum.



[14:01]
heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Fyrst varðandi sameiningu heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni vil ég taka fram að þau áform eru ekki sett fram til að veikja stoðir heilbrigðisþjónustunnar á Íslandi eða heilsugæslunnar. Þvert á móti hefur þessi tillaga legið lengi fyrir sem ein af mörgum sem viðleitni í þá átt að styrkja þennan grunn heilbrigðisþjónustunnar á Íslandi.

Ég skil vel ótta manna við þessi áform. Ég bendi hins vegar á mjög góða reynslu sem við höfum fengið af álíka sameiningu, en ekki á jafn viðkvæmu sviði. Það var sameining skattumdæma landsins í eitt sem var unnin á síðasta kjörtímabili. Hún gafst mjög vel og við fáum mjög góða þjónustu á þeim grunni. Þetta gengur út á það sama, þ.e. að við ætlum að reyna að sameina starfsemi til að styrkja þá vinnu sem stofnunum er ætlað að skila. Ég legg áherslu á að á meðan ég gegni starfi heilbrigðisráðherra hef ég ekki hug á því að draga úr gæðum þeirrar heilsugæslu sem veitt er úti um land, svo að það sé sagt alveg skýrt.

Varðandi tækja- og búnaðarkaup til sjúkrastofnana vonast ég eftir því að geta lokið þeirri vinnu um miðjan nóvember í síðasta lagi sem tekur til þessara fjögurra ára. Ég vil að við afgreiðslu slíkrar áætlunar verði hún fest í sessi til lengri tíma en eins árs. Ég tel að svo sérhæfðar stofnanir sem Landspítali og Sjúkrahúsið á Akureyri eru verði að geta gert áætlanir um tækjakaup til lengri tíma en eins árs. Og þó að það hafi legið fyrir góður vilji og annað voru tryggingarnar ekki betri en þetta. Þetta er tímabundin fjárveiting sem þarf að endurnýja á ári hverju.



[14:03]
Elsa Lára Arnardóttir (F):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir þau svör sem ég fékk. Ég fagna því að sameining heilbrigðisstofnana muni ekki hafa áhrif á þá þjónustu sem hefur verið veitt og það er mjög gott að hugsunin sé sú að styrkja starfsemi þeirra og það góða starf sem þar er unnið. Ég fagna því jafnframt að litið sé til framtíðar í tækjakosti heilbrigðisstofnana, það er alltaf gott að líta til framtíðar en ekki taka stuttan tíma í einu.

Mig langar samt að fá svar við því hvort hægt sé og hugsanlegt að nýta sjúkrastofnanir í nágrenni Reykjavíkur — Akranes, Keflavík, Selfoss t.d. — í þeim tilvikum þar sem ekki er um bráðatilvik að ræða, í því skyni að reyna að létta álagi af Landspítalanum.

Ég vil ítreka að mér finnst mjög mikilvægt að koma á sanngjörnu greiðsluþátttökukerfi. Ég er persónulega ekki mjög hrifin af þessu legugjaldi en mér finnst samt sem áður að við verðum að gæta jafnræðis þar sem við horfum á sjúklinga greiða tugi þúsunda fyrir meðferðir á göngudeildum.



[14:05]
heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég biðst afsökunar á að hafa ekki náð að ljúka svörum við öllum spurningum. Varðandi þá spurningu hvort hægt sé að dreifa álagi af Landspítalanum út á nálægðarsjúkrahúsin er það örugglega gerlegt, alla vega á borði. Ég veit ekki hvernig við stöndum í því faglega miðað við þá stöðu sem uppi er í mönnun þeirra fagstétta sem við erum glíma við um þessar mundir, ekki bara á Landspítalanum heldur mjög víða.

Ég hef sjálfur þá sýn að við eigum frekar að byrja á heilsugæslunni sjálfri og reyna að draga úr álagi bæði hjá sérgreinalæknum eða sérfræðingum og sjúkrahúsunum, byrja fyrst af öllu í heilsugæslunni sem á að vera brjóstvörn heilbrigðisþjónustunnar í landinu. Þannig má minnka bæði álag á þessar sérhæfðu sjúkrameðferðir og einfaldlega draga úr kostnaði vegna þess að heilsugæslan er ódýrasta og besta forvörnin sem við eigum áður en fólk lendir inn í sérhæfðum úrræðum.

Ég vil segja það eitt varðandi þær áherslur sem ég hef heyrt víða um að færa starfsemi af Landspítalanum út á kragasjúkrahúsin eða önnur sjúkrahús eða hvort það sé hægt, að færin til þess fjárhagslega eru ekki ýkjastór eða mikil eins og þingmenn hafa séð á því frumvarpi sem hér liggur fyrir. Þetta er því einhver framtíðarmúsík sem ég er tilbúinn til að skoða og ræða með þingmönnum og þeim stofnunum sem hér um ræðir. Það er ekki gert ráð fyrir því að þannig verði unnið í frumvarpinu eins og það liggur fyrir en er vissulega hugmynd sem vert er að skoða.



[14:07]
Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Herra forseti. Verkefnið sem hæstv. ráðherra stendur frammi fyrir er gríðarlega mikilvægt og aðkallandi. Ég er sammála ýmsu í breiðu línunum og held að margir séu það. Það þarf að byggja upp góðan spítala, það þarf að byggja upp almenna heilsugæslu, það þarf að fjölga hjúkrunarrýmum til að minnka álagið á spítalann og það þarf líka að efla forvarnir og lýðheilsu. Þannig þarf að fara inn í heilbrigðismálin með það að markmiði að ná fram hagræðingu og betri nýtingu á starfskröftum og tíma og fé til að bæta þjónustuna en ekki bara til að ná hallalausum ríkisfjárlögum. Við megum aldrei gleyma þessu markmiði, við ætlum væntanlega að reyna að bæta þjónustuna.

Mig langar að freista þess að sjá aðeins betur á spilin hvað hæstv. heilbrigðisráðherra hyggst fyrir þó svo að ég geti tekið undir megináherslurnar. Hæstv. heilbrigðisráðherra hefur talað um nauðsyn þess að byggja upp heilsugæsluna. Mig langar að spyrja: Hvernig er verklagið í þeirri vinnu? Hvenær má vænta þess að einhverjum tillögum verði skilað? Hvað er haft að leiðarljósi í þeirri tillögugerð? Á t.d. að efla heilsugæslu með aðkomu fleiri fagstétta í heilbrigðisþjónustu? Ég mundi fagna því ef það væri gert.

Ég tel mjög skynsamlegt að skoða ólík rekstrarform, ég hef fullkominn skilning á því. Greinarmunurinn á einkavæðingu og einkarekstri er alveg lifandi í mínum huga þannig að ég hef ekkert út á þær áherslur að setja. Spurningin er bara þessi: Hvar stendur þessi vinna, hver eru markmið hennar og hvenær verða kynntar einhverjar niðurstöður?

Ég fagna því að verkefnið að byggja nýjan landspítala og endurbyggja Landspítalann, því að þetta snýst líka um viðhald á húsum sem eru fyrirliggjandi, er lifandi. Ég hyggst hanga svolítið á þeirri yfirlýsingu, það er lifandi sem sagt. Mig langar að heyra meira. Mega t.d. læknar á lyflækningasviði vænta þess að starfsemi þeirra, sem er núna á þremur stöðum, verði sameinuð undir einu þaki í bráð? Ef ekki er hægt að svara því skýrt, hvenær er þá hægt að svara því skýrt? Hvaða forsendur þurfa að liggja fyrir?

Síðan með hjúkrunarrými, það er mikið fagnaðarefni að byggja eigi upp hjúkrunarrými á Vífilsstaðaspítala, það léttir álaginu af t.d. lyflækningasviði. Hvað með St. Jósefsspítala, eru einhver ámóta áform um hann?

Mig langar líka að heyra hvort ráðherrann hafi einhver áform í lýðheilsu- og forvarnamálum á kjörtímabilinu.



[14:10]
heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka þetta málefnalega innlegg frá hv. þingmanni. Ég vil lýsa því yfir að mér þótti mjög vænt um að heyra það sjónarmið sem hv. þingmaður dró upp í umræðunni í gær um gjaldtöku af sjúklingum í íslensku heilbrigðiskerfi. Ég held að full þörf sé á að ræða það eins og þar var gert.

Varðandi þær áherslur í heilsugæslunni sem unnið er eftir er unnið í ráðuneytinu á þeim grunni sem liggur fyrir þar. Það var unnin mjög góð vinna af hálfu þáverandi heilbrigðisráðherra árið 2011 í ýmsum efnum, m.a. með fyrirtækinu Boston Consulting Group sem var og hét ráðgjafarhópur sem skilaði ráðherra tillögum, hv. þm. Guðbjarti Hannessyni, í desember 2012. Þær liggja til grundvallar. Til eru ótal skýrslur og tillögur og ég ætla að nefna þær hér í fljótu máli þannig að hv. þingmaður geti kynnt sér þær því að þær eru allar til.

Þetta er samanburður á rekstri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins frá árinu 2008 og í Salahverfinu í Kópavogi, álit nefndar um málefni Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins frá því í desember 2008, kölluð Guðjónsskýrslan, það er allt til. Og álit nefndar um málefni Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og heilsuvakt á höfuðborgarsvæðinu, greining á heilbrigðisþjónustu utan dagvinnu o.s.frv. Það er til fullt af efni, tillögum sem þurfa bara að koma til framkvæmda.

Áherslan í þeim efnum núna, ef við tökum fyrst forvarnirnar var sett af stað verkefni sem laut að hreyfiseðlum, draga úr ofþyngd, minnka sykursýki 2, draga úr lyfjakostnaði. Ég hef gefið fyrirmæli um að verkefnið skuli innleitt í alla heilsugæslu á landinu sem fyrsta stig. Bara fjárhagslegur ávinningur af því að spara 10% í þeim hópi sjúklinga sparar lyfjaútgjöld upp á 750 millj. kr. á einu ári.

Af mörgu er að taka og ég heyri að hv. þingmaður hefur mikinn áhuga á málaflokknum. Ég hef það líka en ég kemst því miður ekki (Forseti hringir.) yfir allt fyrr en í síðara svari.



[14:12]
Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Herra forseti. Formið hér er mjög knappt og spurningarnar eru stórar. Eftir stendur spurningin um hvenær má vænta skýrari svara með spítalann, t.d. sameiningu lyflækningasviðs undir einu þaki. Eins með St. Jósefsspítala, hvort það séu einhver áform með hann. Svo langar mig að bæta við fleiri spurningum sem eru ekki síður stórar þannig að við gætum eflaust haldið áfram fram eftir degi. Ég fagna því, og þess mætti sjá stað víðar í ríkisrekstrinum, að verið sé að byggja á vinnu sem hefur farið fram, mjög yfirgripsmikilli vinnu. Það mundi ég gjarnan vilja sjá á öðrum sviðum líka, eins og í atvinnumálum svo dæmi sé tekið.

Það sem mig langar að spyrja um er annars vegar varðandi S-merktu lyfin sem er náttúrlega gríðarlega stór útgjaldaliður í ríkisrekstrinum. Það voru hugmyndir hér einu sinni, reyndar frá ráðherra sem var og er í sama flokki og hæstv. ráðherra núna, um að fara í innkaup á S-merktum lyfjum sameiginlega með Norðurlöndum. Ég held að það megi fullyrða að Norðurlöndin fá betri kjör í innkaupum á S-merktum lyfjum. Það voru einhverjir lagalegir annmarkar á þeirri hugmynd á sínum tíma en mig langar að vita hvort það standi til.

Svo langar mig hins vegar að spyrja einnar almennrar spurningar sem út af fyrir sig þarf ekkert langt mál í að svara. Það er gríðarleg fjárþörf í heilbrigðismálum og það er eitt af því sem hæstv. ráðherra glímir við. Það á að lækka skatt, 0,8% af tekjuskatti, sem skilar í raun og veru ekki svo miklum peningum til meðallaunamannsins. Væri ekki skynsamlegra að nota þá 5 milljarða til þess að bæta heilsugæsluna, spítalann og heilbrigðismálin?



[14:15]
heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég heyri að hv. þm. Guðbjartur Hannesson, fyrrverandi ráðherra þessa málaflokks, svarar þessu snöggt og skilmerkilega játandi. Ég er ekki á sama máli. Ég skil alveg sjónarmið hv. þingmanns.

Varðandi þær spurningar sem upp á mig standa um S-merktu lyfin, ég ætla að byrja á þeim. Það er rétt, sem hv. þingmaður nefnir hér, að farið var að kanna þennan möguleika á árinu 2008, ef ég man rétt. Ég er búinn að taka þann þráð upp og er að láta kanna þá möguleika sem við eigum í samstarfi við Noreg eða Danmörku í þá veru að fá að ganga með þessum nágrönnum okkar inn í lyfjaútboð. Ég tel tvímælalaust mikla kosti í því. Við erum líka að skoða aðra þætti á sviði lyfjamála. Ég vil taka fram að kostnaður ríkissjóðs vegna almennra lyfja er að lækka, m.a. vegna aðgerða sem gripið hefur verið til fyrr á árum þannig að við erum að ná ákveðnum árangri í þessum efnum.

Stóra spurningin lýtur að Landspítala – háskólasjúkrahúsi, ég hef ekki enn svarað henni. Það verkefni er enn lifandi í mínum huga og ég staðfesti það enn og aftur. Við þurfum með einhverjum hætti að halda því gangandi. Það sem verið er að vinna í þessu er í ágætu samstarfi mínu og núverandi nýs forstjóra Landspítala – háskólasjúkrahúss, við höfum átt viðræður um þennan þátt. Páll Matthíasson er að móta áætlun í þessum efnum, hvernig við getum búið starfsemina á Landspítalanum undir þær áherslur sem hv. þingmaður gerir hér að umtalsefni. Við erum að vinna með málið innan spítalans með það fyrir augum að búa starfsemina þar undir það að geta tekið breytingum. Við erum að nýta þann tíma sem óneitanlega kemur í þetta framkvæmdahlé til að búa okkur undir annan og nýjan veruleika. Hvernig það stendur nákvæmlega get ég ekki sagt á þessum tímapunkti, við erum að stíga fyrstu skrefin í þeim efnum.



[14:17]
Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Við viljum öll geta greitt ákveðið mánaðargjald, sama hvort það er í formi skatta eða tryggingagjalds, og verið örugg þegar við veikjumst, þegar við erum hvað berskjölduðust. Við getum verið hægra megin við götuna með lága skatta og greiðum þá sjálf fyrir alhliða sjúkratryggingu eða við getum verið vinstra megin við götuna með háa skatta sem greiða þá alfarið fyrir heilbrigðisþjónustuna okkar. En að velja það versta vinstra og hægra megin götunnar setur sjúklinga út á miðja götu með því að rukka bæði háa skatta og há sjúkragjöld. Þetta er lífshættulegt.

Hlutfall lágtekjufólks sem þurfti að neita sér um nauðsynlega læknisþjónustu fyrir tveimur árum var samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands tæp 7%. Og hundruð þúsunda fyrir krabbameinssjúklinga eru há gjöld. 1.200 kr. gistináttagjald á spítölum er stór biti fyrir suma. Landsmenn hafa nú þegar greitt í formi hárra skatta fyrir lágmarksheilbrigðistryggingu frá hinu opinbera. Það er ómannúðlegt og pólitískt óskynsamlegt að svipta landsmenn því grundvallaröryggi sem landsmenn hafa þegar greitt fyrir.

Mannúðleg hægri stefna brúar ekki fjárhagslegt gat á bökum sjúklinganna. Mannúðleg hægri stefna endurskipuleggur velferðarkerfið og sparar þannig þegar fram í sækir með aukinni skilvirkni. Mannúðleg hægri stefna getur gert góða hluti í efnahagsþrengingum.



[14:19]
heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Varðandi það sem hv. þingmaður gerði hér að umtalsefni, þann þátt heilbrigðismála sem lýtur að því að efnaminna fólk neiti sér um heilbrigðisþjónustu, sendi ég af því tilefni fyrirspurn til landlæknis um þennan þátt af þeirri einföldu ástæðu að ég vildi fá nánari upplýsingar um það hvaða þjónusta það væri sem þessi hópur neitaði sér um. Ég vildi líka fá að vita hvers vegna, af hvaða ástæðum, vegna þess að það liggur ekki fyrir nein bein greining á því hvaða þjónusta þetta er.

Þetta er á sumum sviðum tannlæknaþjónustu en ég tel nauðsynlegt fyrir umræðuna, eins og landlæknir sjálfur hefur raunar bent á opinberlega, að það þurfi að greina þetta nánar þannig að við getum þá reynt að nálgast vandamálið og greiða úr þeim misbresti sem við ráðum við ef það er á okkar færi. Sumir hafa sínar ástæður fyrir því að nota ekki heilbrigðisþjónustu sem eðlilegt getur talist en aðrir hafa hreinlega ekki efni á því eða ekki færi til þess, annaðhvort vegna fjárhags eða fjarlægðar frá þeirri þjónustu sem verið er að veita. Það liggur fyrir að þeir sem oftast fresta læknisheimsóknum eru aðallega ungir að árum í fullri vinnu og hafa stundum átt við fjárhagslega erfiðleika að etja. Svo eru þess líka dæmi að fólk á hreinlega erfitt með að fá leyfi eða fjarvistir frá vinnu til að komast til læknis.

Það sem ég vil leggja áherslu á er að það eru margvíslegar ástæður fyrir því að fólk neitar sér um heilbrigðisþjónustu eða tekur hana ekki. Einnig þurfum við, og ég vil ítreka það, að fá að vita betur á hvaða sviðum heilbrigðisþjónustunnar þetta kemur fram.



[14:21]
Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Já, já, það má rýna í þessar tölur en staðreyndin er sú að það er til fólk sem neitar sér um læknisþjónustu og það er þetta hægri/vinstri-hringl, það er alltaf verið að hringla með landsmenn. Það eru háir skattar og fólki er lofað að það verði hugsað um það, það er lágmark að það sé hugsað um heilbrigði þess þegar það er hvað veikast, það sé ekki verið að leggja á það óþarfar áhyggjur með því að taka greiðslur sem skipta máli fyrir suma. Þetta er staðan.

Svo kemur hægri stjórn og þá er hringlað með þetta og sagt: Nei, nú þurfum við að hækka gjöldin á sjúklinga þegar þeir eru hvað veikastir. Þetta er hringl. Það mundi enginn láta bjóða sér svona hringl á frjálsum markaði. Á frjálsum markaði mundu menn gera fasta samninga og samningar þyrftu að standa, ekki eitthvert hringl eftir kosningar. Það er þetta sem ég held að fólk sé gríðarlega óánægt með. Ég hef tekið eftir því hjá hægri mönnum að þeir eru mjög óánægðir með að það sé verið að hækka gjöld á sjúklinga. Þetta er grundvallaratriði sem meðal annars hægri menn vilja ekki sjá.

Hægri menn kunna að auka skilvirkni. Þetta er mikið til fólk sem kemur úr viðskiptalífinu og hefur lært vel að auka skilvirkni. Það eiga þeir að gera, einbeita sér að því sem þeir eru sterkir í, auka skilvirkni í kerfinu og lækka kostnað til lengri tíma, ekki loka þessu fjárlagagati á bökum sjúklinga með því að rukka þá meira.

Spurningin er hvort það sé óhagganleg stefna ríkisstjórnarinnar að stoppa í fjárlagagatið með aukinni greiðsluþátttöku sjúklinga.



[14:23]
heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil fyrst af öllu þakka hv. þingmanni hólið í garð hægri manna fyrir hagstjórnarþekkingu þeirra og getu. Það er sjálfsagt að þakka það sem vel er sagt. Ég tek eftir því að þingheimur allur fagnar þessu óskaplega, þar á meðal fyrrverandi fjármálaráðherra þarna úti undir horni.

Hv. þingmaður nefndi að það ætti ekki að leggja greiðslur á fólk ef það væri fársjúkt. Það er örugglega vilji flestra að komast hjá því en ég vil þá minna hv. þingmann á það að veruleikinn er allur annar. Við erum nú til dæmis með þá stöðu uppi að ef menn mæta fársjúkir eða slasaðir á slysadeild er komugjald 5.600 kr. Við erum með göngudeildarþjónustu sem kostar á bilinu 3–31 þús. kr. Á slysadeild Landspítalans og göngudeildum innheimtum við á þessu ári 612 millj. kr. Við vitum að kostnaðurinn sem þar er innheimtur bitnar með ýmsum hætti á einstaklingum. Við vitum líka að víða er verið að leggja á ný gjöld.

Markmið mitt er að þeirri vinnu sem hófst á árinu 2007, leidd af Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur og Pétri H. Blöndal, verði lokið og að við stöndum þá uppi með nýtt greiðsluþátttökukerfi sjúklinga á Íslandi sem ég tel mjög brýnt að komi fram. Ég veit að það er mjög mikill vilji til þess meðal allra þingmanna að svo verði og ég vonast til þess að okkur auðnist að ljúka því verki. Ég held að það verði til hagsbóta fyrir alla.



[14:26]
Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Ég fagna hugmyndum um sameiningu sjúkrastofnana á landsbyggðinni ef markmiðið er að styrkja faglegan þátt starfseminnar. Ég held að það sé gríðarlega mikilvægt að við gerum það, þá væntanlega á kostað stjórnunarþáttarins. Við þurfum að tryggja grunnþjónustuna á landsbyggðinni, það er áríðandi að hún sé tryggð, og að heilsugæslan, nærþjónustan, verði einnig tryggð, það er gríðarlega mikilvægt, og að við séum að senda þau skilaboð út í samfélagið að við séum ekki að fækka starfsfólki við þessa þjónustu. Það er líka mikilvægt og ég spyr hæstv. ráðherra að því hvort það sá þá ekki hugmyndin með sameiningunni að rótera sérfræðingum, læknum og hjúkrunarfólki, á milli stofnana til þess að auka þjónustuna á landsbyggðinni og gefa fólki tækifæri til að njóta sem mestu af þeirri þjónustu sem er í boði í heimabyggð.

Ég tek undir það sem hér hefur komið fram og minni á forvarnir og lýðheilsu, sem er mikilvægt atriði í heilbrigðisþjónustunni, sambærilegt því sem heilsustofnunin í Hveragerði og álíka stofnanir standa fyrir. Það er gríðarlega merkilegt starf og mikilvægt að standa að forvörnum og lýðheilsu.

Í rauninni er forgangsröðun dauðans alvara. Í þessu ákalli um aukna fjármuni til heilbrigðisþjónustunnar og fatlaðra og menntunar og löggæslu — ef við meinum eitthvað með því verðum við auðvitað að leggja kalt mat á það sem fyrir hendi er. Við þurfum þá að velja á milli þess að vera með öflugan Landspítala eða veikari utanríkisþjónustu. Við þurfum að velja um öflugri sjúkrahús á landsbyggðinni eða menningarstarfsemi sem ég er reyndar mikill talsmaður fyrir en við þurfum að velja þar á milli, þurfum að hafa þor í það. Og við þurfum kannski að velja á milli þess hvort við ætlum að hafa öfluga heilsugæslu eða Ríkisútvarp sem kostar 4 milljarða. Við þurfum að hafa þor til þess að velja um heimaþjónustu eða Fiskistofu. Ég væri ekki í neinum vafa um hvað ég mundi velja í þeim efnum. (ÖS: Fiskistofu?) [Hlátur í þingsal.] Við þurfum að efla grunnþjónustuna, (Gripið fram í: Heyr, heyr!) það er málið. Þá held ég að gæluverkefni eins og fæðingarorlof og skógrækt og Sinfóníuhljómsveitin verði að bíða.

Við þurfum að hafa þor til að stjórna, ég held að þetta snúist um það.



[14:28]
heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Það er þetta með Fiskistofu sem ég heyrði að fyrrverandi utanríkisráðherra kallaði hér fram í og mat það sem svo að hv. þm. Ásmundur Friðriksson tæki hana fram fyrir. Ég held að það sé ekki rétt.

Hv. þingmaður nefndi sameiningu heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni sem er mikið rætt, eðlilega. Það er viðkvæmt þegar er verið að róta og hreyfa við svo viðkvæmum grunnstofnunum heima í héraði, eðlilega.

Ég ítreka enn og aftur: Mat mitt er það að skipulag heilbrigðisþjónustunnar, uppbygging hennar, eins og við höfum horft á hana, stenst ekki þær kröfur sem það fólk sem er að mennta sig á þessum sviðum gerir í dag til þeirra starfsaðstæðna sem það vill hafa í heilbrigðisþjónustunni og kýs sér sem starfsvettvang. Við verðum að mæta þessum áskorunum.

Við sjáum birtingarmynd þessara breytinga í Vestmannaeyjum, að hluta til á öðrum stöðum á landinu sem ég ætla ekki að nefna, en Vestmannaeyjar hafa verið mikið í fréttum. Svar okkar hlýtur að vera það að reyna með einhverjum hætti að skipuleggja starfið í grunnþjónustunni þannig að við getum látið sérfræðinga og sérþekkingu flæða á milli svæða og staða, það er óhjákvæmilegt. Ég hef sagt það opinberlega að það fer enginn til mennta í 12–15 ár til þess að bíða á einhverjum stað til að fá að framkvæma hugsanlega eina aðgerð í faginu á ári. Viðkomandi einstaklingur vill nýta þá fjárfestingu sem hann hefur lagt í og stunda sín læknisverk sem oftast á hverjum (Forseti hringir.) einasta degi. Við verðum einhvern veginn að búa til slíkt umhverfi.



[14:31]
Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Ég treysti engum betur en hæstv. heilbrigðisráðherra að taka til og koma sjúkrahúsmálum í Vestmannaeyjum í lag. Þau eru mér ofarlega í huga. Við þurfum líka að átta okkur á því hvaða öryggisstig þarf að vera úti í eyju þar sem búa 5 þús. manns við atvinnulíf sem er áhættusækið og kallar á öfluga þjónustu. Ég treysti því að á næstu vikum verði gengið frá því.

Ég vildi líka ræða sjúkraflutninga af þessu tilefni. Það virðist stundum gleymast að kostnaður við sjúkraflutninga bætist við þegar við skerum niður á stofnunum í kringum landið og flytja þarf sjúklinga á milli landshluta til að sækja þjónustuna á höfuðborgarsvæðið. Á Suðurnesjum hafa sveitarfélögin greitt með sjúkraflutningunum um það bil 500 milljónir á undanförnum átta til tíu árum.

Það þarf að samræma það hvernig sjúkraflutningar eru framkvæmdir og eiga um það samstarf við sveitarfélögin, við brunavarnir á svæðunum og sjúkraflutningamenn og björgunarsveitir. Ég held að það sé mjög mikilvægt að við gerum það. Ég hygg að með því mætti ná fram hagræðingu og sparnaði, efla jafnvel slökkvilið víða með því. Það var gert á Suðurnesjum. Ég held að við þurfum að hafa svolítið svipaðar línur í sjúkraflutningum hringinn í kringum landið. Það er naumt skammtað í sjúkraflutninga eins og annað og þess vegna er mikilvægt að við veljum hvort við viljum alvörusjúkraflutninga eða fangelsi á Hólmsheiði — það er dauðans alvara — eða almennilega sjúkraflutninga eða rekstur Matvælastofnunar og Umhverfisstofnunar. Við þurfum að hugsa þetta mjög vel, málið snýst um þetta. (Gripið fram í.) Við þurfum auðvitað að hafa þor í það eða viljum við eyða peningunum í ný dýraverndunarlög sem kosta okkur 125 milljónir? Ég velti því fyrir mér. Ég er ekki í neinum vafa um hvað ég mundi velja.



[14:33]
heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég heyri að hv. þingmaður er öflugur bandamaður heilbrigðisþjónustunnar (ÖS: Og dýraverndar.) og dýraverndar, eins og hér er bent á, og það erum við að sjálfsögðu öll. Hann nefnir ýmsar leiðir til þess sem ég kýs að kalla áskorun til þingsins um að skoða breytingar á forgangsröð og skoða hvort við getum veitt fjármuni til einhverra verkefna með öðrum hætti en við höfum verið að gera. Það tel ég bara sjálfsagt og eðlilegt að þingið hafi fullt frjálsræði í slíku. Það hefur alltaf legið fyrir. Nú fer fjárlagafrumvarpið til þingsins og þá hefst vinna þess við það.

Varðandi sjúkraflutningana sem hv. þingmaður gerði hér að umtalsefni er það gríðarlega mikilvæg þjónusta. Hún hefur því miður verið samningslaus á höfuðborgarsvæðinu frá árinu 2011. Það hefur staðið í stappi á milli ríkisins og sveitarfélaganna á svæðinu og stendur raunar enn, við erum ekki búin að ljúka þeim samningum. Þar takast á ólíkar skoðanir og ólík viðhorf. Það er í mínum huga mjög brýnt að reyna að koma málinu úr þeim farvegi en ekki augljóst hvernig á að gera það. Ég hef hallast að því að litið verði á þessa þjónustu þannig að reynt verði að greina hana með einhverjum hætti á höfuðborgarsvæðinu, þar sem ég tel færi til þess að sundurliða þessa flutninga og breyta kröfunum til mismunandi gerðar af sjúkraflutningum og bjóða jafnvel einhvern hluta þeirra út, einföldustu flutningana, þ.e. flutning á einstaklingi frá einni stofnun til annarrar. Þetta er verkefni sem enn er unnið að og því miður ekki komin lausn á.



[14:35]
Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Við í fyrri ríkisstjórn vorum hætt að skera niður í heilbrigðismálum fyrir ári, við tókum ákvörðun um það í fjárlögum að fara ekki í frekari niðurskurð í þessum málaflokki. Það var einfaldlega komið nóg og við ákváðum að fara að bæta í.

Ég gef ágætum félaga mínum, hæstv. heilbrigðisráðherra, sem ég treysti til allra góðra verka, þetta góða ráð: Ekki byrja aftur. Það var nóg komið og ég heiti stuðningi mínum og Samfylkingarinnar við ráðherrann, við fjárlaganefnd og Alþingi við að draga til baka boðaðan niðurskurð í fjárlagafrumvarpinu og bæta við þannig að við getum byggt þar upp og bætt það sem helst liggur á að bæta. Enn eru 350 milljónir í niðurskurð á heilbrigðisstofnunum um land allt og heilsugæslu og það er einfaldlega ekki hægt að bjóða upp á það. Þá tala ég að fenginni reynslu og þekkingu á því sem þar er verið að gera.

Mér finnst engu að síður mikilvægt að benda á ýmislegt sem komið hefur fram hjá hæstv. ráðherra og fleirum sem hér eru: Þjóðin vill gott heilbrigðiskerfi, sambærilegt því sem gerist best í nágrannalöndunum. Þjóðin vill að heilbrigðisþjónustan sé rekin á ábyrgð ríkisins og í þágu allra og að ekki verði hér tvöfalt kerfi. Þjóðin vill að þjónustan sé óháð efnahag og veitt eins nærri þeim sem þurfa að nota hana og hægt er. Þjóðin vill að við gerum okkur öll grein fyrir því að forsenda góðrar heilbrigðisþjónustu er vel menntað og þjálfað heilbrigðisstarfsfólk sem þarf að búa við góð kjör. Við erum sammála um það, og höfum verið til skamms tíma, að taka þurfi upp þjónustustýringu í heilsugæslunni. Það er heldur ekki ágreiningur um að við verðum að vinna að jöfnun í sambandi við gjaldtöku eins og komið hefur fram í umræðunni. Ekki er hægt að bjóða upp á þá mismunun sem þar er. Þar vil ég segja við hæstv. ráðherra: Leyfum Pétursnefndinni að ljúka störfum áður en við förum að setja tölur í fjárlagafrumvarpið um frekari gjöld eða tekjur hvað þetta varðar.

Þetta er ekkert auðvelt verkefni og við vissum það. Þess vegna er mikilvægt að við vöndum okkur. En ekki verður komist hjá því að bæta í á sumum stöðum. Nú er það Landspítalinn sem sérstaklega hefur verið rætt um, þar þarf að skapa framtíðarsýn. Nokkur skref hafa verið stigin sem eru mikilvæg, t.d. það að opna hjúkrunardeild á Vífilsstöðum. Verið er að bæta áfram við það sem við gerðum, við bættum um 800 milljónum í S-merktu lyfin, það er bætt við áfram. Gefin hefur verið yfirlýsing um að peningar verði settir í tækjakaup og við treystum á að svo verði. Við treystum á að það verði ekki þannig að menn þurfi að mæta viðbótarkostnaði vegna jafnlaunaátaks — ekki vegna þess að það sé beint samhengi þar á milli — með frekari niðurskurði annars staðar. Það þarf að tryggja að stofnunin geti byggt sig upp áfram.

Mig langar að spyrja ráðherra (Forseti hringir.) um þessa þætti, hvort hann sé ekki sammála mér um þessa (Forseti hringir.) greiningu, bæði á viðhorfum þjóðarinnar og (Forseti hringir.) hvað sé brýnast á næstu dögum.



[14:39]
heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni yfirlýsingu um að hann heiti heilbrigðismálum allan þann stuðning sem hann geti veitt til að styrkja kerfið og berja í þá bresti sem þar er að finna. Það er gott að vita til þess stuðnings.

Ég er í grundvallaratriðum sammála greiningu hv. þingmanns á þeim viðfangsefnum sem taka þarf á í þessum efnum. Þó skilur örlítið á milli áherslna okkar að því leytinu til að ég tel færi — og geri raunar ráð fyrir því að hv. þingmaður hafi sömu sýn til þess, mér þótti það samt ekki nægilegt skýrt — á að endurskipuleggja heilsugæsluna hér á höfuðborgarsvæðinu í takti við niðurstöður Boston Consulting Group og tillagna ráðgjafarhópsins án þess að skerða þjónustu. Breytingar á rekstrarformi — fyrir liggur úttekt frá árinu 2008 sem sýnir að besta niðurstaða rekstrar í heilsugæslu á höfuðborgarsvæðinu er á einni stöð og ef árangur þeirrar stöðvar í rekstri yrði heimfærður yfir á allar hinar 16 sparaði það um 330 milljónir á árinu 2008, fjármuni sem við hefðum getað nýtt til að styrkja heilsugæsluna. Ég spyr: Eigum við ekki að vinna að því? Ég vil gera það.

Ég treysti á liðsinni hv. þingmanns við að gera það mögulegt, vegna þess að full þörf er fyrir slíkan ábata til að styrkja stöðuna annars staðar í heilbrigðisþjónustunni. Þetta er spurningin um leiðirnar að markmiðinu. Þetta er vandmeðfarið. Það tekur tíma, en ég er þegar byrjaður að undirbúa þetta.



[14:41]
Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég deili þeirri skoðun með hæstv. heilbrigðisráðherra að að sjálfsögðu eigum við sífellt að spá í endurskipulagningu, þar með talið á heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu. Það sem er gagnrýnisvert og erfitt eftir það sem á undan er gengið, eftir þá erfiðu tíma sem við erum búin að fara í gegnum í framhaldi af því hruni sem varð þegar við lentum í með ríkissjóð 200 milljarða halla fyrir aðeins fimm árum síðan, er að mér finnst óeðlilegt að setja tölurnar fyrst. Mér finnst það vond skilaboð eftir það sem á undan er gengið að setja tölu á eitthvað þegar ekki er búið að vinna vinnuna varðandi hvernig skuli ná þessu fram. Sama gildir um sameiningu heilbrigðisstofnana, sem ég styð auðvitað að verði skoðuð áfram, en þá þarf að liggja fyrir að menn vinni það eftir þeim handbókum sem til eru um það og síðan setja menn töluna á eftir á.

Af því að við ræddum fyrr í umræðunni um einstaka stofnanir, Vestmannaeyjar voru nefndar og væri örugglega hægt að nefna fleiri staði, ætla ég að taka dæmi um það sem ekki má gerast þegar við skiptum um ríkisstjórnir. Þess vegna hef ég margoft sagt að hver og einn heilbrigðisráðherra á ekki að reyna að reisa sér minnisvarða, hann á að geta lifað kosningar þar sem heilbrigðismál þurfa að lifa ráðherra, eins og ég orðaði það.

Farið var í gríðarlega mikla vinnu í ýmsum stofnunum varðandi það hvernig ætti að hagræða þar. Nefni ég þá Heilbrigðisstofnun Vesturlands þar sem er samkomulag um að leggja niður heila deild, þar verður 125 milljarða sparnaður. Ég orðaði það nokkurn veginn þannig að ég hefði samið um að önnur höndin yrði tekin af þessari stofnun en að nú komi nýr ráðherra og taki hina. Það má ekki gerast. Þarna vantar ekki lækna. Þarna vantar ekki starfsfólk, þá er ég að tala um sjúkradeildina á Heilbrigðisstofnun Vesturlands.

Það eru svona hlutir sem ekki mega gerast. Ég heiti liðsinni í því að við vinnum þetta sameiginlega vegna þess að ef á heildina er litið er ekki mikill ágreiningur um heilbrigðismál. Við erum í erfiðri stöðu. Við erum búin að fara í gegnum bölvað tímabil. Við erum búin að vera í blóðugum niðurskurði þvert á það sem við hefðum viljað og enn þá er ástandið erfitt. En það er algjörlega ljóst að þjóðin og Alþingi vill að þarna sé forgangsraðað. Ég held að við verðum (Forseti hringir.) að standa saman að því og treysta á að við munum gera það.



[14:43]
heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Það er hárrétt sem hv. þingmaður segir um að við eigum ekki að vinna að heilbrigðismálum með þeim hætti að menn séu að reisa sér minnisvarða, frá því er langur vegur. Sem betur fer höfum við notið þeirrar gæfu að vera ekki með þá stöðu uppi í alllangan tíma.

Ég hef lýst því yfir hér að ég er að reyna að nýta sem mest af þeim tillögum og þeirri vinnu sem unnin hefur verið á undanförnum árum sem er á margan hátt mjög góð. Af einhverjum ástæðum sem óþarfi er að fjölyrða um hafa þær tillögur ekki komist lengra en bara í þá vinnu og komið fram. Nú tel ég að í stað þess að setja af stað nýjan vinnuhóp undir forustu nýs ráðherra o.s.frv. taki ég bara allan þann kraft sem lagður hefur verið í þetta á fyrri árum og reyni að framkvæmda þetta og koma því sem ég vissulega met best til framkvæmda. Eðli málsins samkvæmt er sumt mjög umdeilt, skiptar skoðanir um það. Það reynir á hvernig þessu er komið fram o.s.frv. Ég hef ekki samvisku til þess að ganga nær þeim stofnunum um landið sem hvað verst hafa farið út úr hremmingum síðustu ára á sviði heilbrigðisþjónustu og tel að þess þurfi ekki.

Varðandi það sem hv. þingmaður nefnir hérna um það að ákveða ekki töluna fyrst heldur bíða þar til vinnunni er lokið – við þurfum líka að setja okkur einhver markmið varðandi þá vinnu sem fram undan er, hvernig hún kemur til með að leysast. Ég get alveg viðurkennt það að til stóð að þessari vinnu lyki fyrr en í stefnir, því miður. Það fer oft þannig með mannanna verk af ýmsum ástæðum. En ég hef fullan skilning á því sjónarmiði sem hv. þingmaður setur fram. Ég kalla hins vegar eftir því að menn einhendi sér eða stilli sig saman um það að standa vörð um þetta verkefni, að við ætlum okkur að setja þetta heildstæða greiðsluþátttökukerfi á laggirnar. (Forseti hringir.) Þá greiðir það m.a. úr vandamálum sem þessum.



[14:46]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég hygg að það sé ekki ofmælt að hæstv. heilbrigðisráðherra hafi tekið við erfiðu verkefni. Þetta er mikilvægur en um leið viðkvæmur og vandasamur málaflokkur. Vaxandi þungi á þjónustu og lýðfræðilegar breytingar hafa í för með sér að við getum ekki reiknað með neinu öðru en að kröfurnar eða kostnaðurinn á þessu sviði muni vaxa á komandi árum. Þetta er ekki séríslenskt fyrirbæri. Þetta glíma menn við víða um lönd. Meira að segja í hinum olíuríka Noregi sem maður skyldi nú ætla að hefði aura til að kippa málum í liðinn hafa heilbrigðisráðherrar ekki allir kembt hærurnar. Þar eru stanslausar kröfur uppi um að gera betur í þessum viðkvæma málaflokki. Ég óska hæstv. heilbrigðisráðherra alls góðs í því.

Ég ætla reyndar að byrja á því að hrósa honum. Það gladdi mig þegar tiltölulega snöfurmannlega var tekið á þeirri stöðu sem upp var komin og er auðvitað uppi á lyflækningadeild Landspítalans. Ég sé ekki betur en þar hafi verið skynsamlega að verki staðið að koma upp hjúkrunarrýmum á Vífilsstaðaspítala og létta þar með á Landspítalanum sjálfum og því fylgir sérstök fjárveiting ef ég veit rétt.

Ég hlýt að nefna byggingaráformin. Það er huggun harmi gegn að hér er sagt að þeim sé haldið lifandi, en vonandi er það ekki bara í öndunarvél. Ég held að það þýði ekki annað en horfast í augu við að það verður að taka stefnu í þessum málum og má ekki dragast. Það er stórkostlega skaðlegt að nokkur óvissa sé uppi um þetta og ástandið mun ekkert gera annað en versna ef við förum ekki að koma þessum málum í farveg af svo mörgum ástæðum. Ég held að ekki sé hægt að takast á við málefni Landspítalans, rekstrarleg og fagleg og hvað varðar mönnun, aðskilið frá þessu. Þannig hef ég a.m.k. upplifað það undanfarin missiri af starfsfólki sem þarna er. Það hefur lifað, mér liggur við að segja, í voninni um að þetta væri að koma, það hefur haldið mönnum dálítið gangandi. Látum þá von ekki slökkna.

Ég vil nefna rafræna sjúkraskrá og spyrja hæstv. ráðherra hvort hann hafi náð að kynna sér það, tekið afstöðu til þess máls. Það er hliðstætt Landspítalanum. Ég viðurkenni vissulega að við höfum ekki komist langt áfram með það, en þar er samt hagræðingar- og þjónustuframfaramál á ferðinni sem er blóðugt að við getum ekki komið áfram.

Loks nefni ég sameiningu heilbrigðisstofnana. Ég ætla ekkert að sækja vatnið yfir lækinn. Ég spyr um hvernig hæstv. ráðherra sjái þetta fyrir sér á Norðurlandi. Hvenær og hvernig verður Sjúkrahúsið á Akureyri með eða ekki með í þeirri sameiningu? Verður Heilsugæslustöðin á Akureyri með eða ekki með í þeirri sameiningu? Verði hún með, hvað verður þá um samning ríkisins við Akureyrarbæ um þá fyrirmyndarþjónustu sem þar hefur verið veitt?

Loks vara ég við hugmyndum um að sparnaður muni skila sér strax á næsta ári og það sé hægt að taka hann inn í fjárlög næsta árs. (Forseti hringir.) Er ekki augljóst mál að biðlaun og annað því um líkt mun þýða að þetta skilar litlu fyrsta árið sem þetta kemur til framkvæmda?



[14:49]
heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Fyrst af öllu þakka ég hrósið. Ég vænti þess að við munum áfram eiga gott samstarf um brýn verkefni sem upp kunna að koma. Það er örugglega rétt að heilbrigðisráðherrar kemba ekki hærurnar mjög víða. En erfitt verkefni – ég kunni alltaf best við mig á sjónum þegar móttakan var full af fiski, þá var mest að gera og mestu verðmætin. Þannig háttar til að heilbrigðiskerfið heldur manni þokkalega vel gangandi enn þann dag í dag. En það er rétt að þunginn er vaxandi og kostnaður.

Ég ætla að segja þetta um Landspítalann. Ég er sammála Kára Stefánssyni, en við áttum ágætissamtal í Kastljósi í gær. Fyrst af öllu ber okkur sem stjórnmálamönnum og fagmönnum sem starfa á Landspítalanum að koma starfseminni á Landspítalanum í það horf sem við viljum hafa hana. Þegar við erum farin að sjá fram á að höndla þann veruleika sem þar er við að glíma getum við sett áform um þessa stóru byggingu á fulla ferð. Þeim áherslum er ég sammála. Þannig hef ég horft á þetta og ég gerði grein fyrir því þegar við afgreiddum frumvarpið í fyrravor að ég hafði alltaf og hef alltaf haft fyrirvara á því hvernig við getum fjármagnað þessa þætti.

Varðandi rafrænu sjúkraskrána. Já, ég hef kynnt mér málið lítillega, ég hef ekki sökkt mér ofan í það en ég þekki það þokkalega vel samt sem áður. Stærsta fyrirstaðan þarna er enn þá að mínu mati mismunandi afstaða í heilbrigðiskerfinu til verkefnisins. Ég ætla ekkert að fara mikið dýpra í það, en landlæknisembættinu var falið þetta verkefni og það akta ekki allir þá reglusetningu af hálfu ráðuneytisins. Því þarf að kippa í liðinn áður en við getum haldið þessu verkefni áfram sem metið er að kosti á bilinu 7–12 milljarðar kr., það hleypur á einhverjum slíkum stærðum.

Ég ætla að koma að (Forseti hringir.) síðari spurningunum í síðara svari mínu.



[14:51]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég skal ekki bombardera hæstv. ráðherra með nýjum spurningum eins og sumir hafa gert hér því ég hef fullan skilning á þessu erfiða hlutverki að eiga að svara ósköpum öllum á tveimur eða þremur mínútum.

Ég vil segja um byggingaráformin á Landspítalanum, með fullri virðingu fyrir Kára Stefánssyni eða hverjum öðrum, að það er eðlilegt að menn segi: Við verðum fyrst að koma starfseminni sem þar er í lag og í horf, svo getum við farið að láta okkur dreyma um einhverjar byggingar. Margir undrast á því að menn séu að tala um nýja steinsteypu þegar við erum í miklum erfiðleikum með að reka starfsemina (Gripið fram í.) eins og hún er. Já, en þá kemur að því.

Ég sannfærðist um það fyrir tveimur, þremur árum, eftir talsverða yfirlegu, að þetta er ekki svona. Þetta er algerlega óaðskiljanlegt vegna þess að það þýðir ekkert að fara að reyna að kaupa einhver ný tæki. Ef þau komast inn í spítalann, inn í húsnæði sem liggur undir skemmdum, er jafnvel heilsuspillandi, og þú færð ekki ungt fagmenntað fólk til að vinna við þær aðstæður — það er ekki hægt að aðskilja þetta svona. Þetta er þannig starfsemi að henni verður við fátt annað samjafnað hvað það varðar að nútímatækni og tæki og eftir atvikum fagfólk – hún gerir bara kröfur til þess að vissir hlutir séu boðlegir og í lagi. Ég held að við munum ekkert manna Landspítalann og búa hann út í mörg ár í viðbót öðruvísi en að lausn fáist á húsnæðismálunum.

Varðandi rafrænu sjúkraskrána er alveg rétt að þar hafa verið hindranir í vegi og kannski eru ekki allir jafn sannfærðir um ágæti hennar, en ég gerðist nokkuð sannfærður um að í því væru fólgnir gríðarlegir möguleikar að byggja hana upp. Það er fjárfesting, það er rétt, en hún hefur líka alveg gríðarlega kosti í för með sér, sem og það að nýta betur en við höfum verið að gera möguleika hinnar rafrænu tækni á ýmsum sviðum, fjarvinnslu t.d. og fjargreiningu í myndgreiningu og annað því um líkt. Við erum því miður ekki nálægt því að nýta okkur alla þá kosti sem mögulegir (Forseti hringir.) eru í nútímanum á grundvelli slíkrar tækni.



[14:54]
heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Fyrst ætla ég að svara þeim spurningum sem upp á mig standa enn þá frá fyrirspurn hv. þingmanns, og snúa að sameiningu heilbrigðisstofnana.

Sjúkrahúsið á Akureyri er ekki með í þessum áformum, um það gilda sérstök lög. Ég hyggst vinna að sameiningunni á grundvelli gildandi laga án þess að fara til breytinga með þau.

Samningarnir sem um ræðir eru tveir við sveitarfélög, annars vegar við Heilsugæsluna á Akureyri og hins vegar á Höfn í Hornafirði. Ég hef einfaldlega gert ráð fyrir því að ný heilbrigðisstofnun taki yfir slíka samninga sem reynslusveitarfélögin eða sveitarfélögin hafa haft með höndum.

Fyrir liggur áhugi sveitarfélaga víðar um land til samninga um ákveðna hluta grunnþjónustunnar. Það er sjálfsagt að skoða það, þó ekki fyrr en þessari vinnu lýkur. Við munum vinna á grunni fyrri sameininga og draga lærdóm af þeim athugasemdum sem m.a. hafa komið frá Ríkisendurskoðun um hvað betur mátti fara við sameininguna á Heilbrigðisstofnun Austurlands og síðan sameiningu Heilbrigðisstofnunar Vesturlands sem í mínum huga hefur lukkast mjög vel. Það er mjög góð vinna sem unnin er þar.

Nei, ég er ekki að segja að Kári Stefánsson sé algildur spekingur í þessum efnum þótt hann sé draumspakur og minnugur á góðan kveðskap. Ég er þeirrar skoðunar að spítalinn sé allt annað og meira en bara steypa. Hann er fólkið sem vinnur þarna. Ég er hins vegar sammála þeim áherslum sem eru uppi og eins og ég skynja ástandið innan Landspítalans að þetta er ekki allt saman spurning um fjármuni. Þetta er líka spurning um stjórnun og samskipti milli ólíkra sviða. Að því er unnið og ég bind mjög miklar vonir við að Páll Matthíasson, nýráðinn forstjóri Landspítalans, muni vinna mjög mikið og gott starf með sínu ágæta starfsfólki og öllum sem á spítalanum eru. Það á ekkert nema gott skilið fyrir sitt góða starf. Ég held að það verði seint ítrekað hversu mikil verðmæti (Forseti hringir.) búa innan vébanda þessarar stofnunar. Okkur ber að standa vörð um þau og eins og ég skynja umræðuna viljum við það öll.



[14:56]
Elín Hirst (S):

Virðulegur forseti. Það er afar nauðsynlegt fyrir okkur þingmenn sem förum með skattfé almennings og berum ábyrgð á að því sé vel varið að vera opin fyrir öllum leiðum við rekstur hins opinbera sem geta gagnast vel.

Í því sambandi langar mig að tala um rekstrarfyrirkomulag á heilsugæslustöðinni í Salahverfi í Kópavogi. Salastöðin er mjög afkastamikil og hefur jafnframt gott aðgengi og veitir góða þjónustu. Það er sú einkunn sem landlæknisembættið gefur stöðinni í úttekt sinni árið 2009. Viðhorfskönnun sýnir einnig að ánægja sjúklinga þar með þjónustuna er mikil.

Í lok síðustu aldar fóru stjórnvöld víða um Vesturlönd að skoða þessa leið sem ég vil kalla útvistun ríkisins á rekstri heilbrigðisþjónustu til heilbrigðisstarfsfólks. Hlutverk hins opinbera er áfram að sjá til þess að fólk fái viðeigandi heilbrigðisþjónustu og hafa eftirlit með því en ekki endilega líka að reka þjónustuna. Salastöðin er einfaldlega til fyrirmyndar og vonandi verður þetta fyrirkomulag tekið upp á öðrum stöðum til að auka afköst og fá meira fyrir peningana sem lagðir eru í heilbrigðiskerfið, fyrst og fremst til hagsbóta fyrir sjúklingana.

Annað mikilvægt mál er þjónustustýring í heilsugæslunni. Núverandi hæstv. heilbrigðisráðherra hefur tekið ákvörðun um að hrinda af stað vinnu sem miðar að því að stýra flæði sjúklinga milli heilsugæslusérfræðinga og sjúkrahúsa sem taki mið af þjónustuþörf. Þar gegnir heilsugæslan einmitt lykilhlutverki. Einnig verður tekin upp sameiginleg símavakt fyrir alla heilsugæsluna í landinu, ekki ósvipað og Neyðarlínan er hugsuð, þannig að hægt sé að stýra því betur hvert fólk leitar við þær aðstæður sem upp koma hjá því.

Það er ekki síst mikilvægt fyrir þá sjúklinga sem eiga við langvinna sjúkdóma að stríða að þjónusta til þeirra sem er veitt á svo mörgum þjónustustigum, þ.e. í heilsugæslunni, á stofnunum, meðal sjálfstætt starfandi sérfræðilækna og á göngudeildum sjúkrahúsanna, sé alveg skýr, þ.e. hvert þeir eiga að leita. Eins og staðan er í dag gerist það því miður allt of oft að fólk leitar ekki á réttu staðina eftir þjónustunni. Þessu þarf að koma í lag. Það er óásættanlegt að sjúklingar notist við mjög dýr úrræði, t.d. á göngudeildum sjúkrahúsanna eða hjá sérfræðilæknum, þegar heilsugæslan gæti leyst vandamál viðkomandi sjúklings.

Mig langar að spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra: Hver verða næstu skref í þjónustustýringu? Eru áform um breytt rekstrarfyrirkomulag í heilsugæslunni?



[14:59]
heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Næsta skref varðandi þjónustustýringuna sem maður sér fullnustað er þessi gagnvirka vefsíða sem við munum setja upp í tengslum við og jafnhliða þessu verkefni sem snýr að einum samræmdum vaktsíma fyrir alla heilsugæsluna í landinu allan sólarhringinn. Það mun leiða til þess að notendur heilbrigðisþjónustu munu fá samband við heilbrigðisstarfsmenn sem eru sérmenntaðir í því að leiðbeina fólki rétta leið í þessu kerfi og stýra því hvar það ber niður ef það þarf að eiga frekari viðskipti við íslenska heilbrigðisþjónustu. Í framhaldinu munum við síðan í tengslum við þetta verkefni reyna að búa til verkferla fyrir þessa stýringu sjúklinga á milli þessara þriggja „starfsstöðva“ frá heilsugæslu til sérfræðinga og sjúkrahúsa. Þetta eru næstu áfangar í þessum efnum.

Varðandi sameiningu og breytingar í heilsugæslunni erum við að reka á höfuðborgarsvæðinu 17 stöðvar, þ.e. ríkið greiðir fyrir þær. Við erum með yfirstjórnendur og millistjórnendur á hverri einustu stöð. Hvað er því til fyrirstöðu fyrir notendur heilsugæslunnar í höfuðborginni að ein sameiginleg yfirstjórn sé yfir þrem eða fjórum stöðvum? Af hverju þarf endilega að vera stjórnendalag í hverri einustu heilsugæslustöð? Þetta eru þættir sem við eigum skilyrðislaust að skoða. Ég er að efna til undirbúnings á því.

Ég nefndi hér úttektina frá árinu 2008, samanburðinn við Salastöðvarmódelið. Það eru vissulega stöðvar á höfuðborgarsvæðinu sem vinna með álíka afköstum og gæðum.



[15:02]
Elín Hirst (S):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. heilbrigðisráðherra kærlega fyrir svörin og hvet til þess að við veltum við hverjum steini í rekstri ríkisins til að peningar skattgreiðenda nýtist sem allra best og að sjúklingarnir fái þá allra bestu þjónustu sem mögulegt er og allir skattgreiðendur fyrir framlag sitt.

Hvað snertir kostnaðarþátttöku sjúklinga í heilbrigðisþjónustu hefur hún aukist hægt og bítandi með hverju árinu. Það má spyrja sig hvar komið sé að þolmörkunum.

Ég heyrði af sjúklingi á göngudeild á dögunum sem þurfti að borga 31 þús. kr. fyrir heimsókn á spítalann þann daginn. Þegar kallað er á sjúkrabíl, yfirleitt til að flytja mjög veikt fólk á sjúkrahús eða bráðamóttöku, kemur reikningurinn í pósti eftir nokkra daga og er upp á nokkrar þúsundir króna. Ég fór til sérfræðilæknis á dögunum og greiddi hátt í 10 þús. kr. fyrir vitjunina, auk blóðprufu. Þetta eru engar smáfjárhæðir.

Ég verð að viðurkenna að mér brá nokkuð í brún þegar ég heyrði að í fjárlagafrumvarpinu væri áætlað að leggja á 1.200 kr. gjald fyrir hvern sólarhring á sjúkrahúsi. Þegar maður skoðar þessi gjaldtökumál í samhengi er lítið réttlæti í því að þeir sem fara á göngudeild spítalanna beri svo mikinn kostnað, oft mjög alvarlega veikt fólk, en að þeir sem eru lagðir inn fái allt frítt.



[15:03]
heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni innleggið. Það sem hún gerir að umtalsefni er sá tónn sem hefur komið mikið fram í umræðunni, ekki bara í dag heldur líka síðustu daga. Hann hefur verið viðvarandi og lýtur að kostnaði sjúklinga í heilbrigðisþjónustunni. Þátttaka sjúklinga er um það bil 19,6%, sú hin sama og var árið 1998. Hún lækkaði aðeins á árunum 2000–2007/2008 og hefur svo verið að fara í sitt gamla horf aftur, um 19,6%. Við erum þar hærri en næstu nágrannar okkar, þó svo að þetta sé dálítið breytilegt eftir löndum.

Mesti vandinn sem mér finnst heilbrigðiskerfið vera að glíma við og er í umræðunni er fjármögnunarvandinn við það verkefni að veita Íslendingum heilbrigðisþjónustu. Þá held ég að það sé orðið æ nauðsynlegra og brýnna núna að stokka upp þetta kerfi með það í huga að reyna að jafna þessum birgðum ef við ætlum á annað borð að taka gjald af sjúklingum fyrir heilbrigðisþjónustu. Ég tel raunar ekkert annað fært. Jafnvel í þeim tengslum gætum við þurft að horfa til þess að taka upp einhvers konar sjúkratryggingagjald sem var síðast þegar ég vissi til umræðu einhvern tímann upp úr 1990. Í mínum huga er allt orðið undir í þessum efnum þegar við erum að leita ráða og grípa til aðgerða til þess að styrkja innviði þeirrar þjónustu sem ég kýs að segja (Forseti hringir.) að sé með mestu eftirspurnina eftir bótum í þeirri umræðu sem á sér stað þessa dagana.



[15:06]
utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegi forseti. Ísland tekur þátt í alþjóðasamstarfi sem fullvalda þjóð og gætir íslenskra hagsmuna, bæði einstaklinga og lögaðila. Fullveldinu fylgja þannig bæði réttindi og skyldur og til utanríkismála leggjum við um 2% ríkisútgjalda á hverju ári. Það er lægra hlutfall en á Norðurlöndunum, sem við viljum helst bera okkur saman við, en það skýrist fyrst og fremst af því að þrátt fyrir ítrekaðan vilja Alþingis og stjórnvalda eigum við enn nokkuð langt í land með að ná viðmiðum alþjóðasamfélagsins um framlög til þróunarmála. Þannig verður framlag okkar til þróunarmála vel á fjórða hundrað milljónum króna lægra núna en samþykkt Alþingis gerði ráð fyrir. Það er vegna þeirrar ráðdeildarsemi sem boðuð er í frumvarpinu að hægt er á aukningu í málaflokknum.

Stór hluti ríkisútgjalda til utanríkismála er framlög okkar til alþjóðastofnana. Stærstur hluti þeirra er samningsbundinn og í flestum tilvikum taka framlögin mið af stærð aðildarríkja. Eðli málsins samkvæmt eru talsverðar sveiflur í þeim framlögum milli ára, m.a. vegna gengissveiflna.

Þegar framlögum til þróunarsamvinnu og alþjóðastofnana er sleppt stendur eftir að tæpt 1% ríkisútgjalda rennur til hinnar eiginlegu utanríkisþjónustu. Frá hruni hefur verið hagrætt til hins ýtrasta í þeirri starfsemi. Sendiskrifstofum var lokað og útsendu starfsfólki fækkað verulega í öðrum. Ráðist var í verulega hagræðingu í húsnæðismálum sem stendur enn yfir og umtalsverðum fjárhæðum skilað í ríkissjóð með eignasölu. Starfsemi utanríkisþjónustu er í eðli sínu gjaldeyriskrefjandi og því fullkomlega eðlilegt að ýtrustu leiða sé leitað til hagræðingar. Verður það haft áfram að leiðarljósi og 1,5% hagræðing boðuð í fyrirliggjandi frumvarpi. Gert er ráð fyrir að sendiráðin taki á sig stærra hlutfall af þeirri hagræðingu en annað í utanríkisþjónustunni. Vil ég í því samhengi leggja áherslu á að markmið okkar með rekstri utanríkisþjónustu er að gæta hagsmuna lands og þjóðar á alþjóðavettvangi. Eðli málsins samkvæmt útheimtir það talsverða fjármuni. Leggur það því þeim mun ríkari ábyrgð á okkur að ráðstafa þeim fjármunum með ýtrustu ráðdeildarsemi.

Við gætum hagsmuna íslenskra borgara erlendis. Á hverjum einstökum degi má reikna með því að tugir þúsunda séu erlendis í skemmri eða lengri dvöl. Utanríkisþjónustan hefur milligöngu um þjónustu íslenskra stjórnvalda við þessa Íslendinga. Flest eru málin einföld afgreiðslumál, milliganga um útgáfu skilríkja og vottorða, ýmiss konar lögvottanir vegna samskipta við erlend yfirvöld og miðlun margs háttar upplýsinga og minni háttar fyrirgreiðslna. Daglega fáumst við þó við stærri og flóknari aðstoðarmál og rekum sólarhringsvakt í ráðuneytinu til að bregðast við óvæntum neyðaratvikum. Þótt sum málanna rati í fjölmiðla eru þó flest þeirra rekin, eðli málsins samkvæmt, fjarri kastljósi þeirra. Það kemur ekki af sjálfu sér fyrir litla þjóð að gæta með þessum hætti réttinda borgara sinna á erlendri grundu en ég fullyrði að okkur hefur með útsjónarsemi og ráðdeild tekist það vel. Allt byggir þetta á starfsliði sendiskrifstofa okkar að ógleymdu neti um það bil 250 ólaunaðra kjörræðismanna sem eru tilbúnir að vaða eld og brennistein fyrir Íslendinga í vanda erlendis.

Í utanríkisráðuneytinu gætum við líka hagsmuna viðskiptalífsins. Fyrir fámenna þjóð sem býr á eyju í Norður-Atlantshafi felast miklir hagsmunir í greiðum milliríkjaviðskiptum. Utanríkisþjónustan vakir sífellt yfir því að tryggja óhindruð viðskipti milli landa. Hún hefur gert ótal milliríkjasamninga á því sviði og með góðu tengslaneti er hægt að bregðast skjótt við ef eitthvað bjátar á.

Utanríkisþjónustan stendur líka vörð um orðspor Íslands. Haustið 2008 vorum við minnt á hversu mikilvægt það er að orðsporið sé í lagi. Okkar fólk í utanríkisþjónustunni vinnur stöðugt að því að bæta orðspor landsins. Við viljum gefa þá ímynd að á Íslandi búi dugleg, gestrisin og vel menntuð þjóð sem vilji hlúa að einstakri náttúru landsins. Það er mikilvægt í ljósi þess að við öflum gjaldeyris með því að nýta náttúruna, fiskinn í sjónum, orkuna í fallvötnunum og jarðhita og svo höfum við tekjur af ferðamönnum sem hingað koma til að njóta fegurðar náttúrunnar.

Ekki verður minnst á orðspor án þess að minna á líka að það er lögvarið hlutverk utanríkisþjónustunnar að standa vörð um íslenska menningu erlendis. Það gerum við að sjálfsögðu í góðu samstarfi við mennta- og menningarmálaráðuneytið, kynningarmiðstöðvar íslenskra lista og aðra aðila sem láta sig málefnið varða.

Ísland tekur að öðru leyti virkan þátt í alþjóðasamstarfi. Við nýtum svæðisbundið samstarf til að gæta ýmiss konar grundvallarhagsmuna í okkar nærumhverfi. Þátttaka okkar í starfi Norðurskautsráðsins og svæðisbundin fiskveiðistjórn varðar grundvallarhagsmuni okkar.

Auðlindamálin eru kjarnaatriði í okkar utanríkisstefnu og verða stöðugt samtvinnaðri umhverfismálunum. Við beitum rödd okkar til að tala fyrir gildum okkar á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og fjölmargra annarra alþjóðastofnana, berjumst fyrir viðskiptahagsmunum okkar innan ramma OECD, Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar, EFTA og EES og tryggjum öryggi okkar með virkri þátttöku í milliríkjasamstarfi á vettvangi Atlantshafsbandalagsins, ÖSE og Alþjóðakjarnorkumálastofnunarinnar.

Hér er einungis minnst á brot af því víðtæka og margslungna alþjóðasamstarfi sem Ísland á aðgang að en hér gildir sem oft áður að svo uppsker hver sem hann sáir.



[15:11]
Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir skörulega tölu og yfirlit yfir starfsemi ráðuneytisins. Kannski þakka ég honum helst fyrir að hafa farið fögrum orðum um þá ítarlegu ráðdeild sem beitt var í ráðuneytinu undir minni forustu í kjölfar hrunsins.

Það er hárrétt sem hæstv. ráðherra segir að utanríkisþjónustan eins og aðrar deildir ríkisins þarf alltaf að gæta ráðdeildar. Hins vegar er það svo að því fé sem er varið í gegnum utanríkisþjónustuna er vel varið. Utanríkisþjónustan hefur til dæmis á síðustu árum undir síðustu ríkisstjórn tekist að koma í veg fyrir harðar refsiaðgerðir gegn Íslandi á tveimur sviðum, bæði í upphafi þess kjörtímabils út af Icesave og síðan út af makrílveiðum. Það hefur meðal annars átt sinn þátt í því að Íslendingar hafa getað notið þeirrar nýju auðlindar. Það þurfa menn að hafa í huga þegar þeir eru stundum, eins og hefur borið á undir öðrum liðum í dag, að býsnast yfir þeim peningum sem þangað fara.

Ég saknaði þess í ræðu hæstv. ráðherra að hann lyfti því sem eru hans kjörlendur í utanríkisþjónustunni í dag. Hæstv. ráðherra hefur klárlega sýnt á þau spil sem hann vill ekki leika með, en mér fannst vanta í yfirferðinni og í fjárlagafrumvarpinu hvað það er sem hæstv. ráðherra hefur einsett sér að leggja áherslu á. Hæstv. ráðherra talaði í upphafi með mikilli áherslu á norðurslóðir. Mig langar að biðja hæstv. ráðherra að fara aðeins yfir þau mál vegna þess að í fjárlagafrumvarpinu er ekki að finna aukna áherslu á þann málaflokk sem ég tel þó að við báðir deilum kappi og jafnvel ástríðu á.

Það sem veldur mér auðvitað sárustu vonbrigðum er að heyra það í máli ráðherra og lesa það í fjárlagafrumvarpinu að verið að víkja frá þeirri áætlun sem Alþingi samþykkti einróma varðandi þróunarsamvinnu. Það var fyrsta áætlunin sem var lögð hér fram. Hún var samþykkt með þeim hætti að sá sem nú gegnir stöðu hæstv. utanríkisráðherra ásamt öðrum fulltrúum stjórnmálaflokkanna í utanríkismálanefnd framhlóð þá áætlun, þ.e. hann tók þátt í því að gefa í umfram það sem ég á sínum tíma taldi ráðlegt. Gott og vel. Ég fagna því auðvitað. Það leiddi til þess að á þessu ári eða á næsta ári hefði átt að verja til þróunarsamvinnu 0,28% af vergum þjóðartekjum, þ.e. 0,26. Það er hægt að færa rök að því að munurinn sé 385–425 milljónir. Það finnst mér ákaflega slæmt.

Ég er í stjórnmálum meðal annars til þess að reka þau erindi að leiðrétta félagslegt ranglæti og láta af höndum rakna fyrir hönd ríkrar þjóðar til þeirra sem eru fátækir og búa við verri lífsgæði heldur en ættu ella. (Forseti hringir.) Mér þætti vænt um að hlýða á hjá hæstv. ráðherra hvernig hann réttlætir þetta. (Forseti hringir.)



[15:15]
utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrrverandi ráðherra og virðulegum alþingismanni fyrir ágæta ræðu.

Auðvitað er alveg ljóst og enginn er að reyna að fela það að verið er að draga tímabundið úr framlögum til þróunarmála í fjárlagafrumvarpinu. Ef hv. þingmaður rifjar það upp man hann væntanlega að sá er hér stendur sem ráðherra hafði ákveðnar efasemdir um að rétt væri að auka svona mikið við þegar málið var afgreitt, en taldi engu að síður rétt að standa að þeirri afgreiðslu. Það hefur svo vitanlega komið í ljós að það er fullbratt miðað við þær aðstæður sem ríkissjóður býr við í dag. Þess vegna höldum við sömu prósentutölu og við vorum með, sem þýðir reyndar krónutöluaukningu, en erum í sjálfu sér ekki að hverfa frá áætluninni. Ég vil þó segja að ég held að full ástæða sé til að endurskoða áætlunina á einhverjum tímapunkti út frá þeirri stöðu sem hefur birst okkur varðandi stöðu ríkissjóðs.

Hv. þingmaðurinn spyr um norðurslóðir og áherslur þar. Það er alveg ljóst að utanríkisþjónustan starfar eftir áherslum ríkisstjórnar á hverjum tíma og ég verð að segja að það er mjög ánægjulegt að sjá hvernig utanríkisþjónustan hefur brugðist við breyttum áherslum þar. Nú erum við að sjálfsögðu að færa áhersluna yfir á þessa málaflokka. Ég get ekki séð að það þurfi og taldi í rauninni ekki ástæðu til þess að vera með sérstakar óskir um breytt framlag vegna norðurskautsmála eða einhvers annars en er í frumvarpinu nú þegar. En til að gleðja hv. þingmann og aðra munum við og höfum fylgt eftir þeirri ákvörðun sem Alþingi tók varðandi það að opna ræðismannsskrifstofu í Nuuk og verður það gert 7. nóvember. Í því felst ákveðin yfirlýsing um að fylgja eftir þeim áformum og styrkir það sem þessi ríkisstjórn hefur sett fram og ætlar að vinna að.



[15:17]
Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Það er ekki lúxus fyrir ríka þjóð að láta af höndum rakna þannig að ég er algjörlega andstæður því sjónarmiði hæstv. ráðherra. Ég tek það líka fram að mig rekur ekki minni til þess að hæstv. ráðherra hafi sem almennur þingmaður hér slegið einhverja varnagla gagnvart þessu, það var að vísu einn þingmaður í hans flokki sem svo gerði. Núverandi hæstv. fjármálaráðherra kom hér og lauk sérstöku lofsorði á áætlunina og sagðist telja að hún væri raunhæf. Ég tel að það sé yfirlýsing um vantraust á efnahagsstefnu þessarar ríkisstjórnar ef hæstv. ráðherra er að gera því skóna að það þurfi að breyta áætluninni á næstu árum. Þá er hann náttúrlega að gera ráð fyrir því að hér sigli allt í kaldakol. Ég hef þrátt fyrir allt þá trú á ríkisstjórninni og Íslandi að svo verði alls ekki.

Varðandi norðurslóðir er það þannig að lítil þjóð þarf að tala hátt. Við höfum sérstaka legu landsins með okkur, en við þurfum líka að taka frumkvæði til þess að láta að okkur kveða í málaflokknum. Það gerðum við á síðustu fjórum árum. Okkur tókst það meðal annars vegna þess að við fengum, ekki mikið en svolitla aukningu á fjármunum til málaflokksins. Hæstv. ráðherra, ef hann ætlar að gera í blóðið sitt sem ráðherra norðurslóða verður að gera miklu betur á því sviði. Það er ekki nóg að hafa sendimenn sem tala á pöllum, við þurfum líka að vinna heimavinnu, geta tekið þátt í samstarfi. Það er mín ráðlegging til hans.

Tvær spurningar að lokum:

Hvernig ætlar hæstv. ráðherra að verja þeim 45 millj. kr. sem eiga að fara í að huga betur að Evrópusamstarfi í samræmi við ályktunina sem var samþykkt hér? Ég vildi gjarnan fá útskýringu á því.

Í öðru lagi: Hvernig mun niðurskurður gagnvart Þýðingarmiðstöðinni koma fram gagnvart þeim þremur verkefnum sem eru á landsbyggðinni, þ.e. tveimur útibúum og einu verkefni öðru?

Síðasta spurningin að lokum:

Eru einhverjar viðræður í gangi núna varðandi breytingar á IPA-styrkjum sem áður var búið að samþykkja eftir för hæstv. ráðherra til Brussel?



[15:19]
utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegi forseti. Það hafa ekki komið fram neinar ástæður eða neitt sem gerir ráð fyrir breytingum varðandi IPA-styrkina sem búið var að ganga frá.

Þýðingarmiðstöðin — þegar breytt er um áherslur og verkefnin minnka þarf óhjákvæmilega að fækka þar störfum, fækka fólki. Það mun líka koma niður á stöðvunum úti á landi með einhverjum hætti, en mun þó verða þannig að áfram verður unnið við þýðingar á þeim stöðum þar sem það verk er unnið úti á landi í dag.

Varðandi 45 milljónirnar hef ég reyndar viljað fá meiri fjármögnun þar svo ég lýsi því yfir hér, en 45 milljónir ætlum við að nota til þess að fjölga eða bæta við starfsemina í Brussel til að vakta betur og fylgjast enn betur með samningnum um Evrópska efnahagssvæðið svo að við séum fyrr í stakk búin til að gera athugasemdir eða hvað sem við viljum gera og hafa áhrif á og annað slíkt. Þannig er nú það.

Ég vil vegna orða hv. þingmanns benda á að það hlýtur að skipta máli þegar við erum að gera fjárlög fyrir þetta ár hvernig skilið var við ríkissjóð á árinu eða frá síðustu ríkisstjórn. Það er það sem hefur þau áhrif að við þurfum að lækka framlög til þróunarmála. Það er ekki einhver illkvittin ríkisstjórn sem ákveður að gera það út í loftið. Það er vegna þess að það er minna til skiptanna.

Svo vil ég líka segja við hv. þingmann að kannski mætti gera minna af því að tala hátt og tala meira af viti þegar menn eru að tala.



[15:21]
Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir yfirferð hans á málaflokknum, en að þessu sinni fjallaði hann um utanríkismál. Ég vil segja það sem ég hef sagt áður í umræðum um fjárveitingar til utanríkismála að ég er í hópi þeirra sem telja mjög mikilvægt að halda uppi öflugri utanríkisþjónustu og málsvörn og hagsmunagæslu fyrir Ísland á alþjóðavettvangi, hvort sem það er gagnvart einstökum ríkjum, alþjóðastofnunum eða öðrum, bæði fyrir hönd ríkisins og íslenskra aðila, einstaklinga og lögaðila eins og ráðherrann gat um.

Ég tel líka að utanríkisþjónusta Íslands hafi í raun og veru náð miklum árangri þrátt fyrir að hún sé fámenn í sjálfu sér, eins og hér hefur komið fram, bæði hjá hæstv. ráðherra og hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni. Ég sé ekki ofsjónum yfir þeim tæplega 2% af útgjöldum ríkissjóðs sem fara í málaflokkinn þótt menn geti alltaf deilt um einstaka forgangsröðun, verkefni og annað slíkt.

Það sem ég er kannski hvað ósáttastur við og ætti ekki að koma hæstv. ráðherra á óvart eru framlögin til þróunarsamvinnu Íslands. Við samþykktum í vor þingsályktun um áætlun um alþjóðlega þróunarsamvinnu fyrir árin 2013–2016, hún var samþykkt einróma. Það er að vísu rétt sem hæstv. ráðherra sagði að fyrirvarar voru við nefndarálit utanríkismálanefndar í vor af hálfu fulltrúa Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, þannig að því sé haldið til haga. Þeir lutu að fjármögnun málaflokksins þannig að í raun og veru gat maður gert því skóna þá þegar að ef þessir flokkar kæmust í ríkisstjórn yrði hugsanlega eitthvað dregið úr þessu þó ég hefði vonað í lengstu lög að svo yrði ekki.

Af því tilefni vil ég spyrja hæstv. ráðherra, sumt kom nú kannski fram í máli hans, hvað hann hugsar sér í þessu, hvort hann hugsar sér að koma með nýja tillögu til þingsályktunar um endurskoðun á þeirri þróunaráætlun sem er í gildi — því hún er í gildi. Hún er þingsályktun og hefur gildi sem slík að mínu viti þó að hún sé þingsályktun. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort hann muni koma með nýja og endurskoðaða áætlun.

Ég vil líka spyrja hvort hann hyggist falla frá þeim markmiðum sem þróunaráætlunin byggir á, þ.e. að við eigum að fara upp í 0,7% eins og viðmið Sameinuðu þjóðanna gera ráð fyrir á tilteknu árabili, til 2019 ef ég man rétt. Hyggst hann halda sig við þau megináform í samþykkt Alþingis frá því í vor?



[15:24]
utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég tek undir með hv. þingmanni að það er auðvitað ekki nógu gott að þurfa að minnka framlögin eða skera niður með þessum hætti. En ég held að þetta sé sú leið sem við neyðumst til að fara í ljósi þess hvernig staðan er. Ég er sammála markmiðunum í þeirri áætlun sem Alþingi samþykkti. Ég tel að við eigum að stefna að þeim. Hvort við gerum það innan þess tímaramma sem var samþykktur eða hvort við þurfum að lengja í honum er umræða sem við þurfum að taka.

Já, ég hef í hyggju og tel mig í raun neyddan til þess, verð að gera það, að koma inn með endurskoðun á áætluninni. Ég held að mikilvægt sé að Alþingi fari í gegnum þá umræðu hvort Alþingi sé til í að fara þá leið. Ég sé það þannig fyrir mér að teygt yrði á þessu. Markmiðin yrðu þau sömu, en reynt að ná þeim á lengri tíma.

Ég veit ekki hvenær slík endurskoðun kæmi hér inn, en þetta er eitt af því sem ég held að blasi við að þurfi að gera, ég held að allir hljóti að sjá það, nú þegar ríkisstjórnin er búin að víkja frá þeirri áætlun út af efnahagsástæðum, út af þeim fyrirvörum sem menn gerðu náttúrlega vegna þess að okkur grunaði að búið væri ekki alveg jafn gott og menn héldu. Ég held því að það sé eðlilegt að hér verði tekin umræða um að endurskoða áætlunina.



[15:26]
Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra sérstaklega fyrir þessa yfirlýsingu um markmið í þróunarsamvinnu, að hann sé sammála þeim markmiðum sem sett hafa verið. Ég vonast því til þess að þegar hér kemur inn þingsályktunartillaga um endurskoðaða áætlun verði þeim markmiðum alla vega haldið og menn reyni að gera eins vel og hægt er í því og halda þeim ramma sem þar hefur verið settur. Jafnvel þótt ríkisstjórnin telji sig tilneydda til þess að breyta hlutfallstölum eitthvað á milli ára vonast ég til að menn haldi sig við meginmarkmiðin.

Ég ætla að spyrja ráðherrann út í tvennt úr fjárlagafrumvarpinu. Á bls. 304 í umfjöllun um skuldbindandi samninga er vísað til skuldbindandi samninga og vakið máls á því að margir samningar komi til endurnýjunar á næsta ári. Margir slíkir samningar varði þróunarsamvinnu og gera megi ráð fyrir að heildarkostnaður vegna þeirra fylgi þróun á framlögum Íslands til þróunarmála og þeir geti hækkað á árinu, næsta ári, vegna þessa. Vil ég spyrja hæstv. ráðherra: Veit hann eitthvað hversu mikið þeir kunna að hækka og hvaða áhrif það hefur á heildarjöfnuð ríkisfjármálanna og hvenær það skýrist?

Svo vil ég einnig nefna sérstakt 45 millj. kr. framlag til Evrópusamstarfs sem byggir á þingsályktun frá því í vor sem var samþykkt hér einnig einróma. Ráðherrann gat þess að það væri m.a. til þess að styrkja sendiráðið í Brussel. Þá er rétt að rifja upp að efni þeirrar ályktunar laut ekki síður að því að styrkja hið þinglega Evrópusamstarf ef svo má segja. Það var gert ráð fyrir því í þeirri ályktun að gefa þingflokkum og þingnefndum aukin tækifæri til þess að fylgjast með gangi (Forseti hringir.) Evrópumála, EES-mála. Ég hefði því talið að hluti af viðbótarfjárveitingunni ætti að fara til þess (Forseti hringir.) og vil inna hæstv. ráðherra eftir því hvort það sé ekki hugsunin.



[15:28]
utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegi forseti. Þessar 45 milljónir eru fyrst og fremst hugsaðar til að komast sem næst því sem var hér fyrir nokkrum árum þegar öll eða flest fagráðuneytin voru með sérfræðinga í Brussel sem fylgdust með EES-samningnum og gættu hagsmuna okkar. Það er ekki hugmyndin að þessir fjármunir komi að því að styrkja þingið einhvern veginn. Ég held hins vegar og hv. þingmaður veit mína skoðun á því að Alþingi þyrfti að vera miklu sterkara þegar kemur að erlendum samskiptum og t.d. að vakta einmitt hagsmunagæslu er varðar EES-samninginn. Ég held að það sé mjög mikilvægt að menn hugi að því. En mér fannst ekki svigrúm til að fara fram á, í gegnum fjárlög utanríkisráðuneytisins núna, fjárheimildir til að fara þá leið.

Varðandi þá samninga sem hv. þingmaður spurði um er einfaldlega ekki hægt að setja tölu á það, en að sjálfsögðu þarf þetta allt að rúmast innan þeirra fjárveitinga sem við fáum á hverjum tíma til þróunarsamvinnu.



[15:30]
Birgir Ármannsson (S):

Herra forseti. Ég ætla að þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir það yfirlit sem hann gaf hér í upphafi umræðunnar um megináherslur sem birtast í fjárlagafrumvarpinu um utanríkismál. Það vekur auðvitað athygli að í frumvarpinu er ekki um að ræða mjög róttækar breytingar hvað þennan málaflokk varðar frá því sem verið hefur og auðvitað er rétt eins og kemur fram í máli hæstv. ráðherra að margir af þeim útgjaldaliðum sem þarna er að finna eru bundnir annaðhvort í samningum eða vegna aðildar okkar að alþjóðasamningum. Það er því ekki endilega svo auðvelt að hreyfa allar hinar stóru stærðir.

Ég tek undir það sem fram hefur komið í umræðunni hjá öðrum hv. þingmönnum að mikilvægt er fyrir litla þjóð, sjálfstæða þjóð, að halda uppi öflugri hagsmunagæslu og öflugri starfsemi á sviði utanríkismála. Þátttaka okkar í alþjóðlegu samstarfi er gríðarlega mikilvæg fyrir okkur. Ég er þeirrar skoðunar að í ljósi þess að sú stefnubreyting hefur átt sér stað að núverandi ríkisstjórn og núverandi stjórnarmeirihluti eru ekki á leiðinni inn í Evrópusambandið kalli það jafnvel á enn þá öflugri hagsmunagæslu á ýmsum öðrum sviðum, bæði á vettvangi annarra stofnana sem um er að ræða, við þurfum að eiga mikil samskipti við Evrópusambandið engu að síður og leggja rækt við önnur alþjóðasamtök sem við tökum þátt í, og við þurfum líka að leggja áherslu á tvíhliða samskipti við önnur ríki, þar á meðal ríki Evrópu sem eru að sjálfsögðu gríðarlega mikilvæg viðskiptalönd.

Ég dreg því ekki í efa að mikilvægt er fyrir okkur að halda uppi öflugri þjónustu á því sviði. Ég velti því hins vegar fyrir mér og vildi gera það að spurningu minni til hæstv. ráðherra hvort á þeim tíma sem hann hefur verið í forustu í ráðuneytinu hafi farið fram stefnumörkunarvinna um hvar áherslurnar eigi að liggja því að auðvitað, eins og aðrir hafa nefnt í þessari umræðu, snýst málið ekki bara um það hversu miklum fjármunum er varið í starfsemi af þessu tagi heldur hvernig þeim er varið. Í opinberri umræðu verður að sjálfsögðu alltaf spurt að því hvort verið sé að nýta þá fjármuni sem fara til utanríkismála með sem bestum, markvissustum og skynsamlegustum hætti.

Ég held, án þess að ég sé að gagnrýna einstakar ákvarðanir í fyrri tíð hvað þetta varðar, að það sé gríðarlega mikilvægt fyrir okkur að vera með stöðuga endurskoðun á því sviði til að fara yfir hvernig við verjum peningunum best, þannig að þeir nýtist (Forseti hringir.) sem best í þeim tilgangi sem við rekum utanríkisþjónustu.



[15:33]
utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna.

Ég er algjörlega sammála. Það er mjög mikilvægt að við veltum því fyrir okkur á hverjum tíma hvernig við getum sem best nýtt þá fjármuni sem við setjum í utanríkismálaflokkinn og ég verð að segja að það er mjög hollt að gera. Það er akkúrat það sem við erum að gera í ráðuneytinu núna, að velta því fyrir okkur hvernig við gerum þetta best. Það er vinna í gangi við stefnumörkun, hvernig við ætlum að nota þá krafta sem utanríkisþjónustan býr yfir. Við ætlum að opna aðeins meira dyr ráðuneytisins, þ.e. við ætlum að segja meira frá því hvað er að gerast og við hvað er verið að vinna þannig að fólk átti sig betur á því hvers konar starfsemi fer fram þar. Við munum skoða skipulag ráðuneytisins, hvort það er nógu skilvirkt, skipuritið og allt það dótarí. Við munum og erum að komin af stað með starfshóp eða vinnuhóp sem mun leita út fyrir ráðuneytið eftir aðstoð eða þátttakendum til þess að endurskoða utanríkisviðskiptaþjónustuna. Við erum að undirbúa stefnumörkun varðandi norðurslóðir sem ég hyggst svo flytja hér í þinginu, vonandi sem skýrslu. Það er mikið að gerast einmitt í þeirri stefnumörkun sem hv. þingmaður spyr um.

Það er þó eitt sem mig langar að nefna. Það er að sjálfsögðu ein mjög stór breyting í þessu fjárlagafrumvarpi frá því sem var í frumvörpum síðustu þriggja, fjögurra ára, það er ekki einn einasti aur settur í það sem kallast Evrópuviðræður. Við erum einfaldlega að skera niður þarna og nota fjármuni í annað. Það hefur auðvitað ákveðnar afleiðingar að breyta um slíka stefnu. Starfsfólki ráðuneytisins fækkar sem er sárt hjá Þýðingarmiðstöðinni, gott starfsfólk sem þarf að hverfa til annarra verkefna, en það er hluti af því að bæði þurftum við að hagræða vegna breyttra áherslna og eins hreinlega vegna kröfu um hagræðingu.



[15:35]
Óttarr Proppé (Bf):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka kærlega fyrir þessa umræðu.

Ísland er smáríki og við búum vissulega á eyju sem á ekki landamæri að öðrum löndum, en það breytir ekki þeirri staðreynd að handan við hafið er hinn stóri heimur sem við byggjum í raun og veru mjög mikið af okkar tilveru á að eiga við góð samskipti og gæfuleg.

Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir yfirferðina áðan og áherslu hans á mikilvægi utanríkisþjónustunnar og mikilvægi þeirra starfa sem þar eru unnin. Það kom ágætlega fram hjá hæstv. ráðherra að það eru í sjálfu sér ekki mjög miklar breytingar sýnilegar í fjárlagafrumvarpinu en samt vitum við að það eru ansi miklar breytingar í verkefnum núna þegar við höfum gert hlé á aðildarviðræðum við Evrópusambandið. Það væri gaman að heyra ráðherra útlista aðeins betur þetta breytta vinnulag, yfirferð á skipuriti og dótaríi, eins og hann orðaði það áðan, þegar kemur að því hvernig við munum verja og vinna með hagsmuni Íslands gagnvart Evrópu sem vissulega, eins og kom fram í ræðu hv. þm. Birgis Ármannssonar hér á undan, eru enn þá okkar helstu viðskiptalönd og helstu samskiptalönd. Þótt ákvörðun hafi verið tekin um að setjast ekki við borðið eins og sagt er, alla vega ekki að sinni, breytir það ekki því að borðið er þarna enn þá og það skiptir enn þá meira máli að við gætum hagsmuna okkar utan borðs, ef svo má að orði komast.

Ég vildi einnig taka til þess að framlög til alþjóðastofnana eru nokkuð svipuð og lítið breytt á milli ára og ég fagna því. Ég held að mjög mikilvægt sé að við höldum áfram að gæta hagsmuna okkar og taka þátt í alþjóðastarfi á fjölbreyttum vettvangi. En af því að gert er ráð fyrir hækkun á lið sem kallast mannréttindamál þar sem til stendur að fara í ráðstefnuhald og annað slíkt væri gaman að heyra hæstv. ráðherra lýsa helstu áherslum í mannréttindamálum og hvort það hafi orðið einhver breyting þar á.



[15:38]
utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Jú, Ísland er smáríki og við þurfum að gæta hagsmuna okkar og að sjálfsögðu er verið að gera það á hverjum degi. Það er ágætt að rifja það upp að búið er að taka mikið niður, ég ætla að leyfa mér að orða það þannig, skera mikið niður í utanríkisþjónustunni undanfarin ár. Frá 2006 hefur útsendu starfsfólki fækkað um 25% sem er þó nokkuð mikið. Það er búið að loka þremur sendiráðum o.s.frv. En um leið og við tölum um að við þurfum að efla okkur út á við og gæta hagsmuna okkar þurfum við að sjálfsögðu að horfa til þess að því fylgir kostnaður. Ég veit að hv. þingmaður var ekki að gagnrýna það.

Þær 45 milljónir sem hafa verið nefndar hér eru ætlaðar til þess að reyna að styrkja okkur gagnvart EES-samningnum og þeirri vinnu allri saman. Við eigum hins vegar í mjög góðu samstarfi vil ég meina og samtali við fulltrúa Evrópusambandsins og við einstök Evrópuríki. Ég nefni Þýskaland, Frakkland og Danmörku. Samskiptin eru mjög góð. Kannski er gott dæmi um áhuga á Íslandi einmitt verkefnið sem Bremenhöfn er að sýna á Norðausturlandi; hvað sem mönnum finnst um verkefnið sýnir það að áhugi er á Íslandi þó að sett hafi verið hlé á aðildarviðræðurnar.

Vettvangur okkar í alþjóðasamstarfi og sérstaklega þegar kemur að Sameinuðu þjóðunum og öðru slíku hefur að miklu leyti verið mannréttindi og svo að nýta að sjálfsögðu sérkunnáttu okkar þegar kemur að jarðhita og slíku. Ég sé fyrir mér að við munum nota þessa fjármuni, og það er tilgangurinn, til þess að gera rödd okkar enn þá sterkari þegar við ræðum jafnréttismál og þegar við ræðum um réttindi svokallaðra minnihlutahópa. Þegar við höldum merkjum okkar á lofti og gerum okkur gildandi kostar það að sjálfsögðu peninga. Ég sé fyrir mér að við munum eflast á þessu sviði, að gæta mannréttinda (Forseti hringir.) eins og við höfum gert, setja meira púður í það.



[15:40]
Óttarr Proppé (Bf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra kærlega fyrir svörin. Ég er sammála honum um að það skiptir miklu máli að við eflum okkur og eflum starf okkar út á við og að það sé stór hluti starfssviðs utanríkisþjónustunnar og ráðuneytisins.

Ég vildi samt með spurningu minni til ráðherrans hér áðan spyrja líka um breytingar á starfseminni inn á við, þ.e. í ráðuneytinu, hvernig við eflum ráðuneytið og þekkingu okkar til þess einmitt að gera okkur gildandi þannig að rödd okkar, sérstaklega þegar kemur að mannréttindum, verði sterkari og við getum aukið í raun og veru getu okkar til þess að koma rödd okkar á framfæri. Það skiptir miklu máli fyrir okkur, ekki bara að gæta hagsmuna þegar þeir koma upp og þar sem þeir koma upp heldur einnig að vera gildandi hluti í alþjóðasamfélaginu. Það væri gaman að fá að sjá aðeins á þau spil.

Ég tek undir með hv. þingmönnum sem minntust á það hérna áðan að mjög erfitt er að horfa fram á að minna fjármagn verði veitt til alþjóðastarfs. Ég fagna því samt að sjá að við höldum sjó og rúmlega það, t.d. í framlögum okkar til reksturs alþjóðlegra skóla Sameinuðu þjóðanna. Það væri gaman að heyra hvort hæstv. ráðherra hefur einhverja framtíðarsýn þegar kemur að þeim líka.



[15:43]
utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegi forseti. Markmiðið þegar við tölum um að breyta starfsemi inn á við þá er hugmyndin að sjálfsögðu sú að nýta þá krafta sem þar eru í önnur verkefni. Miðað við þá stefnu sem var á síðasta kjörtímabili voru miklir kraftar settir í aðildarviðræðurnar við Evrópusambandið sem er ekkert óeðlilegt. Nú beinum við kröftunum í aðrar áttir. Það kallar á að við skoðum aðeins hvernig skipulagið innan húss er. Það er það sem við erum að gera.

Rödd okkar þegar kemur að mannréttindum er mjög sterk og eftir því er tekið á alþjóðavettvangi þegar við tölum um mannréttindi. Stærri ríki eru kannski að einbeita sér að öðrum málum. Þess vegna höfum við lagt mikla áherslu á þetta. Það má ekki skilja eftir málaflokkinn mannréttindi eða jafnrétti.

Ég vil líka benda á að hluti af því að gera betur á þessu sviði byggir á þingsályktunartillögu sem hér hefur verið nefnd um að enduropna skrifstofu okkar í Strassborg. Við erum eina ríkið af 47 sem ekki er með fasta viðveru þar. Það hefur vakið athygli þar og svo sem þeirra þingmanna sem hafa farið þangað út að ekki er nógu vel að því staðið. Þingið í Strassborg er mjög mikilvægt þegar kemur að mannréttindum og slíku.

Mig langar að nefna, af því að hv. þingmaður spyr um skóla Sameinuðu þjóðanna, að þar held ég að við séum með tæki sem er jafnvel vanmetið. Við erum að gera mjög gott með því að þjálfa einstaklinga frá vanþróuðum löndum eða svokölluðum þróunarlöndum. Við skilum þeim frá okkur með betri og meiri þekkingu. Það er eftir þessu tekið. Mig minnir að um 2.500 manns hafi farið í gegnum þessa skóla, ég ætla að hafa smáfyrirvara á því. Það er mjög mikilvægt (Forseti hringir.) að við nýtum okkur þetta bæði til þess að hjálpa öðrum og eins til þess að halda því á lofti hverju við erum góð í.



[15:45]
Frosti Sigurjónsson (F):

Virðulegi forseti. Í fjárlagafrumvarpinu koma fram áform um stofnun aðalræðisskrifstofu Íslands í Nuuk á Grænlandi. Því ber að fagna. Tækifæri til samstarfs milli Íslendinga og nágranna okkar Grænlendinga liggja víða. Aukið samstarf milli þjóðanna mun án efa skapa mikinn og gagnkvæman ávinning fyrir bæði ríkin. Fróðlegt væri að heyra aðeins frá hæstv. utanríkisráðherra hver framtíðarsýn hans er um samstarf Íslands og Grænlands á næstunni.

Svo vekur einnig athygli að útgjöld til alþjóðastofnana verða 2,9 milljarðar í þessu frumvarpi sem er hækkun um 20% frá fjárlögum fyrra árs, aðallega vegna EFTA að því er virðist. Það vekur upp spurningar sem hæstv. utanríkisráðherra getur kannski varpað ljósi á. Er vitað hvernig þessar alþjóðastofnanir taka ákvarðanir sínar um aukin útgjöld aðildarríkja? Getur Ísland neitað að samþykkja slíkar hækkanir? Var hugsanlega gerð tilraun af hálfu Íslands til að sporna við hækkununum? Er ekki hætt við því að þessi útgjöld til alþjóðastofnana, sem margar eru mikilvægar, muni einfaldlega halda áfram að hækka frá ári til árs nema spyrnt sé við fótum?



[15:46]
utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegi forseti. Grænlendingar eru að sjálfsögðu nágrannar okkar og þátttakendur í vestnorræna starfinu með okkur og í norðurskautsstarfinu, í gegnum Dani að einhverju leyti. Hins vegar er alveg ljóst að það er mikill áhugi á þessari norðvestlægu línu allri saman. Þar þurfum við einfaldlega að taka höndum saman með vinum okkar og gera betur þegar kemur að viðskiptum og hagsmunagæslu sem lýtur að svæðinu í kringum Ísland og Grænland. Ég held því að það séu mikil tækifæri þarna þegar kemur að menningu, menntun, viðskiptum og öðru slíku.

Varðandi framlögin sem hv. þingmaður nefnir réttilega að hækki mjög mikið er það þannig að skuldbindingar Íslands og annarra EES/EFTA-ríkja ná yfir fimm ára tímabil og eiginlegar greiðslur hvert ár eru breytilegar innan þess tímabils og fara eftir gangi verkefna. Það skýrir þær sveiflur sem eru í greiðslunum. Í fjárlagafrumvarpinu er réttilega gert ráð fyrir 1,4 milljörðum sem er hækkun upp á tæpar 750 milljónir og það er einfaldlega vegna þess að nú er komið að því að bæta þarf í þennan sjóð. Árið 2012 lækkuðu framlög í sjóðinn um 920 milljónir en þá var hann einfaldlega þannig staddur.

Við fáum lítið við þetta ráðið. Á meðan við erum þátttakendur í þessu, á meðan við erum aðilar að þessum sjóðum höfum við lítið um það að segja nema að því leyti að við getum barist fyrir einhvers konar breytingum á fyrirkomulagi eða eitthvað svoleiðis. En eins og þetta er í dag er það ákveðið með formúlu sem er fyrir fram mótuð. Það var ekki gerð tilraun til að sporna við því. Við töldum einfaldlega að engar forsendur væru til þess, þ.e. að við hefðum í sjálfu sér ekkert um það að segja miðað við samkomulagið sem er í gildi um sjóðinn. En það er ágætt að nefna að (Forseti hringir.) eðlilega bera stærri ríki meiri kostnað og Norðmenn eru þar að sjálfsögðu langsamlega stærstir.



[15:49]
Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Ég þarf í sjálfu sér ekki að bæta miklu við það sem ég nefndi í fyrri ræðu minni um þetta mál. Ég ætla aðeins að koma aftur inn á þingsályktunina sem var samþykkt í vor um aukin áhrif Íslands á stefnumótun á vettvangi Evrópusamstarfsins og þá sérstöku fjárveitingu sem sett er í það vegna þess að við stóðum báðir að nefndaráliti um það mál, ég og hæstv. utanríkisráðherra. Þar er fjallað um að mikilvægt sé að nýta þau tækifæri sem þar eru bæði fyrir stjórnsýsluna og fyrir ráðuneytið, sem sagt framkvæmdarvaldið, og einstakar stofnanir en einnig fyrir Alþingi og stjórnmálamenn.

Lögð er á það áhersla í 1. tölulið í nefndaráliti að auka tengsl stjórnmálamanna Íslands og ríkja ESB og það gildi jafnt um samstarf á vettvangi ríkisstjórnar og Alþingis. Þess vegna vil ég sérstaklega brýna hæstv. ráðherra og ekki síður fjárlaganefnd þegar hún fjallar um þetta mál, vegna þess að hér er í salnum hv. formaður fjárlaganefndar sem var einn af flutningsmönnum þeirrar tillögu sem ég er að vísa til, að þess verði gætt að Alþingi ekki síður en framkvæmdarvaldið eigi möguleika á að sinna því starfi sem til þess friðar heyrir á grundvelli þingsályktunarinnar. Það var sannarlega ekki meiningin að það yrði bara framkvæmdarvaldið sem ætti að njóta þess eða ætti að fá möguleika til aukins samstarfs. Ég vil því í fyrsta lagi brýna bæði hæstv. ráðherra og hv. fjárlaganefnd í þessu efni.

Í öðru lagi aftur að þróunarsamvinnunni. Nú liggur fyrir í þessari tillögu sem hér er og kemur til umfjöllunar í fjárlaganefnd að miða við 0,26% af vergum þjóðartekjum en ekki 0,28%. Ég vil inna hæstv. ráðherra eftir því hvernig það birtist í áætluninni; hvort gert sé ráð fyrir að það verði sömu hlutföll innbyrðis á milli einstakra verkefna og eru í gildandi áætlun, þ.e. að sú lækkun, eða eigum við að segja skortur á hækkun, sem verður verði hlutfallsleg milli einstakra liða eða hvort einhverjir einstakir liðir detti út. Mér þætti miður ef svo væri.



[15:52]
utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegi forseti. Varðandi þingsályktunina og hvernig við getum styrkt okkur í Evrópusamstarfi er mjög mikilvægt að bæði framkvæmdarvaldið og löggjafarvaldið hafi þau tæki og tól sem þessir aðilar þurfa til að sinna sínu starfi.

Það er mjög mikilvægt að mínu mati, sem er þessa stundina framkvæmdarvaldsmegin, að fá meiri fjármuni til að sinna þessu betur. En ég skil á sama tíma og er að sjálfsögðu sammála því sem hv. þingmaður sagði að Alþingi þarf að hafa kosti á styrkja sig einnig þegar kemur að þessu.

Varðandi skiptinguna á liðnum um þróunaraðstoðina ætla ég að hafa smáfyrirvara á því en ég sé ekki annað en að þetta verði jafnt á alla liði. Ég ætla að leyfa mér að hafa smáfyrirvara á því vegna þess að það er kannski ekki búið að útfæra það alveg „grundigt“.



[15:53]
Vilhjálmur Bjarnason (S):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir skýrslu sína á grundvelli fjárlaga og fjárveitinga til utanríkismála á komandi ári. Ég vil kannski líka undirstrika það sem áður hefur verið sagt að í fyrsta lagi er dýrt að vera maður og í öðru lagi er dýrt að vera fullvalda þjóð. Það þarf að halda uppi hagsmunagæslu víða um lönd og eins og staðan birtist í fjárlagafrumvarpinu er gert ráð fyrir 23 sendiráðum, útsendum aðalræðismönnum og fastanefndum. Ég velti fyrir mér, sem er náttúrlega grundvallaratriði, mati á staðsetningu hverju sinni, hvort það fari fram reglulega.

Í þessum sal eru til dæmis fluttar hjartnæmar ræður um þá gífurlegu möguleika sem eru í íslenskum landbúnaði og kornrækt. Það eru nokkur ár síðan utanríkisráðuneytið lokaði skrifstofu sinni, sendiráði í Róm þar sem Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna hefur aðsetur. Við umræður í þingheimi hvarflar þetta að mér. Ég tel að fara þurfi fram mat á þessum staðsetningum og þá á grundvelli þeirra stjórnmálatengsla sem við höfum haft og viljum rækta, menningartengsla, viðskiptatengsla og síðast en ekki síst á grundvelli þeirra alþjóðastofnana sem við erum aðilar að.

Ég vil hins vegar segja að rekstur sendiráðanna eins og hann kemur fram í fjárlagatillögum virðist vera á bilinu 120–165 milljónir, Brussel sker sig úr með 247 milljónir. Það eru í sjálfu sér ekki háar tölur en ber þó að gæta að hverri krónu og í þeim umræðum sem hafa farið fram í dag liggur náttúrlega í augum uppi að okkar stóru vandamál eru í heilbrigðisþjónustu og menntamálum. En engu að síður held ég að þetta mat þurfi að fara fram reglulega.

Ég hef dálitlar áhyggjur af Þýðingarmiðstöðinni. Ég met það ekki svo að aðildarumsókn að Evrópusambandinu hafi þar grundvallarþýðingu, við erum áfram í verulegu samstarfi. Íslandsstofa sem er okkar heimasendiráð, það lækkar. Ég tel að það verði að gæta að því, ef við ætlum að komast héðan út verðum við að nota Íslandsstofu. Síðast en ekki síst sakna ég þess að ekki er nokkur skapaður hlutur um norðurhjaramál í þeim kafla sem hér er (Forseti hringir.) og þá er spurning: Eru kannski rekin tvö utanríkisráðuneyti, annað í embætti forseta og hitt í embætti hæstv. utanríkisráðherra?



[15:56]
utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir góða ræðu. Til að svara síðustu spurningunni er vitanlega algjörlega ljóst að það er ríkisstjórnin sem mótar utanríkisstefnuna og rekur hana en hins vegar, eins og ég hef áður sagt, hefur forseti Íslands fullt leyfi til að tjá sínar skoðanir og þess háttar en hann hvorki mótar né ræður utanríkisstefnunni.

Það er hárrétt að það kostar að vera fullvalda þjóð og það að reka utanríkisþjónustu er hluti af því að vera fullvalda þjóð, að gæta hagsmuna, að vinna fyrir borgarana, að tala okkar máli á alþjóðavettvangi o.s.frv.

Þannig er að flest eða öll sendiráð sem Ísland rekur eru rekin samkvæmt gagnkvæmum samningum við önnur ríki. Það er alveg hægt að fara í gegnum þá umræðu hvort það borgi sig að vera í slíku eða ekki. Ég fullyrði að þau sendiráð sem eru rekin á Íslandi skila mun meiru inn í samfélagið en við kostum til sendiráða okkar erlendis. Síðan rekum við líka fastanefndir og ræðisskrifstofur og það er til að sinna hlutum eins og hjá alþjóðastofnunum og þess háttar. Við erum aðilar að mjög mörgum alþjóðastofnunum sem okkur ber skylda til að sinna og taka þátt í og það kostar það að við þurfum í flestum tilfellum að vera með fólk á staðnum. Við gætum hins vegar sinnt því betur ef við hefðum meiri fjármuni til þess en við þurfum að sníða okkur stakk eftir vexti.

Það er vert að hafa í huga, eins og ég nefndi áðan, að frá 2009 var þremur sendiráðum lokað, þar á meðal í Róm eins og hv. þingmaður nefndi. Ég held að það væri mjög æskilegt fyrir okkur, og vonandi getum við það einhvern tíma, að opna þar aftur einmitt út af þeim alþjóðastofnunum sem hv. þingmaður nefndi.



[15:59]Útbýting:

[16:00]
iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir fjárlagatillögum þeirra málaflokka sem ég sem iðnaðar- og viðskiptaráðherra ber ábyrgð á. Þar undir falla meðal annars orkumálin, nýsköpun og atvinnuþróun, viðskipta- og ferðamál, og í heildina litið eru útgjöld þessara málaflokka í kringum 7,7 milljarðar. Þess ber þó að geta að til viðbótar kemur sameiginlegur kostnaður við rekstur atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins. Eins og mönnum er kunnugt eru þar tveir ráðherrar og þessi sameiginlegi kostnaður, sem er eitthvað í kringum 700 milljónir, deilist á milli okkar tveggja. Heildargjöld málaflokkanna sem slíkra eru í kringum 7,7 milljarðar.

Í þessum málaflokkum var lögð til 1,5% hagræðingarkrafa eins og annars staðar í ríkisrekstrinum. Hún nemur í kringum 136 millj. kr. og náði þar með þeim markmiðum sem ríkisstjórnin setti sér. Til viðbótar voru felldir niður fjármunir vegna þess að talsvert af þeim málaflokkum sem undir þetta ráðuneyti heyra var í svokallaðri fjárfestingaráætlun síðustu ríkisstjórnar sem við í þáverandi stjórnarandstöðu gagnrýndum harðlega á sínum tíma fyrir að vera ófjármögnuð. Það hefur komið á daginn að ekki reyndist innstæða fyrir henni jafnvel þótt menn geti verið sammála um að þar hafi mörg ágætisverkefni verið á ferð. Það markmið sem þessi ríkisstjórn leggur á, að loka fjárlagagatinu, samrýmist ekki þeirri stefnu að ávísa út í framtíðina þeim verkefnum sem ekki reyndist stöndug fjármögnun fyrir.

Við vinnslu þessara fjárlaga lagði ég áherslu á að verja tvennt, uppbyggingu atvinnu og nýsköpunarmálin. Þegar horft er á fjárlagatillögurnar legg ég til að menn beri saman árin 2012 og 2014 vegna þess að það gefur miklu betri mynd af því sem raunverulega er að gerast. Fjárfestingaráætlunin og öll sú innspýting var byggð á sandi og þess vegna er miklu réttari samanburður að fara í stöðuna og skoða hvernig hún var áður en sú áætlun var lögð fram.

Þá vil ég fara aðeins yfir málaflokkana. Í nýsköpunarmálunum lagði ég áherslu á að verja framlög til Tækniþróunarsjóðs og þau voru aukin miðað við árið 2012, framlög til sjóðsins voru hærri. Sú 500 millj. kr. innspýting sem fjárfestingaráætlunin tók til var skorin niður um 265 milljónir þannig að núna er tæpur milljarður í sjóðnum sem er aukning frá því sem var árið 2012 þegar hann var í kringum 700 milljónir.

Endurgreiðslur og skattaívilnanir vegna rannsókna og þróunar standa, það er enginn niðurskurður á þessu ári í því nema sem nemur 1,5% hagræðingarkröfunni. Ef ég held mig við nýsköpunina erum við að vinna að nýjum aðgerðum innan ríkisstjórnarinnar, í fjármálaráðuneytinu er verið að huga að skattafslætti vegna hlutabréfakaupa, það er unnið að því að auka fjárfestingarheimildir lífeyrissjóða í óskráðum félögum, og brýnasta verkefnið í þessu er að huga að því hvernig hægt sé að auka áhættufé. Nærtækast er að skoða aðkomu til dæmis lífeyrissjóða að Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins.

Annar vaxtarsproti í íslensku samfélagi sem að mínu ráðuneyti snýr er kvikmyndaiðnaðurinn, endurgreiðslurnar vegna kvikmyndagerðarinnar eru óbreyttar á milli ára og hafa ekki tekið niðurskurði.

Aðeins að ferðamálunum. Tímabundna markaðsátakið Ísland allt árið, Inspired by Iceland, átti að renna út á þessu ári, það var tímabundið átak til þriggja ára. Ég lagði til að það héldi áfram með lækkuðum fjárveitingum. Það verða 200 milljónir af ríkisfé í stað 300 milljóna áður og sambærilegt framlag frá fyrirtækjunum á móti eins og verið hefur. Enn fremur vil ég geta þess að markaðsátakinu í Norður-Ameríku, Iceland Naturally, verður haldið áfram til þriggja ára.

Framlög til Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða eru hærri en hið nefnda ár 2012, við erum að vinna að gjaldtökumálum í ferðamennskunni í heild og málefni sjóðsins þarf að skoða í samhengi við þá vinnu.

Það eru fjölmörg önnur mál sem mig langaði að nefna og ég treysti því að þingmenn komi hingað og gefi mér tækifæri til að svara spurningum sem verða vonandi um þau atriði sem ég komst ekki yfir í framsögunni.



[16:06]
Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Þetta verður kannski ekki mjög auðvelt vegna þess að hæstv. ráðherrann. gengur út frá einhverju allt öðru en við gerum og segir að fjárfestingaráætlun sem samþykkt var á síðasta þingi hafi verið byggð á sandi og ekki hafi verið til fjármagn fyrir henni og þess vegna ætli hún bara að sleppa því og bera saman 2012 og 2014. En það er náttúrlega ekki ráðherranum að kenna vegna þess að þetta plagg hérna er óskiljanlegt, og ekki bara í ár, uppsetningin er — (Gripið fram í.)þessari bók hérna — frekar óskiljanleg. Ég fagna því að það mun vera ætlunin og verið sé vinna að því að reyna að setja þetta betur upp.

Ég er sem sagt ekki sammála hæstv. ráðherranum um að fjárfestingaráætlunin hafi verið byggð á sandi og undrast því að hæstv. ráðherra sem hefur mikinn áhuga á því að byggja hér upp atvinnu skuli ekki hafa lagt meiri áherslu á það en raun ber vitni að nota fé sem gæti komið frá atvinnuvegum í landinu sem hafa efni á því til að veita inn í nýjar veikar atvinnugreinar. Ég held að enn sé í gildi setning sem var skrifuð í smásögu fyrir meira en 100 árum um að peningar séu afl þess sem gera skal.

Því miður er þess ekki að finna stað í tillögunum hér um nýjar atvinnugreinar sem þarf að veita fé til til að hjálpa af stað. Ég vil líka nefna í því sambandi að í orði er talað um að styrkja lítil og meðalstór fyrirtæki, síðan eru skorin niður fjárframlög sem gætu orðið til þess að hjálpa slíkum fyrirtækjum og svo er til dæmis tryggingagjaldið lækkað mun minna en ég geri ráð fyrir að fólk hafi átt von á frá hæstv. fjármálaráðherra úr Sjálfstæðisflokknum.

Virðulegi forseti. Mig langar til að spyrja um markaðsátak um landbúnaðarafurðir í Norður-Ameríku því að það er algjörlega óskiljanlegt sem stendur á bls. 332 að á liðnum Markaðssetning Íslands í Norður-Ameríku sé annars vegar gert ráð fyrir að það falli niður 70,6 milljónir og svo kemur tveimur línum seinna að hins vegar sé gert ráð fyrir að veitt verði 70,6 millj. kr. tímabundið framlag í þrjú ár til markaðssetningar í Norður-Ameríku. (Forseti hringir.)

Er það þá til annars fyrirtækis en hefur verið hingað til? Þetta er mér óskiljanlegt.



[16:09]
iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegi forseti. Fyrst út af síðustu spurningu þingmannsins þá kannski skrifast það á það að þetta er ruglingsleg bók. Það sem þarna er um að ræða er Iceland Naturally-verkefnið sem ég ræddi í framsögu minni. Það átti að falla niður, þetta er tímabundið átak og þess vegna segir að fjárveiting falli niður. Síðan kemur annars staðar sú ákvörðun sem var tekin um að framlengja það og þá kemur sama upphæðin inn. Þannig er fyrirkomulagið.

Það sem er verið að gera þarna er að halda áfram sama átakinu sem er uppbyggt þannig að fjölmörg fyrirtæki leggja fram mótframlag. Það eru fyrirtæki á sviði sjávarútvegs, það er vatnsfyrirtæki í matvælageiranum, það eru alls konar fyrirtæki sem eru í átakinu með ríkinu og einbeita sér að markaðssókn í Norður-Ameríku. Það er óbreytt frá því sem verið hefur.

Af því að hv. þingmanni fannst ég ekki vera sanngjörn þegar ég fór að bera saman árin 2012 og 2014 vil ég ítreka það sem við sögðum hér á sínum tíma að þetta snýst ekkert um viljann til að færa fjármuni frá atvinnulífinu inn í aðra geira, þetta snýst ekkert um það. Auðvitað stendur atvinnulífið undir þeirri verðmætasköpun sem við erum með í landinu. Fjárfestingaráætlun fyrrverandi ríkisstjórnarinnar var byggð á sandi. Ég er með ræðu hér sem ég get flutt aftur, sem ég flutti 30. nóvember í fyrra við umræðu um fjárlög en þar gerði ég grein fyrir þeim fyrirvara sem ríkisstjórnin sjálf setti við þetta. Ég ætla að fá að lesa hann, með leyfi virðulegs forseta.

Fyrirvarinn við alla þessa áætlun var svona í fjárlagafrumvarpinu síðastliðið ár:

„Þar sem þessi tekjuöflun felur í sér nokkra óvissu, svo sem um afkomu sjávarútvegsfyrirtækja og fjármálafyrirtækja, er gert ráð fyrir að framlögin geti tekið breytingum við endurskoðun fyrir fjárlög hvers árs.“

Svo bæti ég við:

„Þetta þýðir með öðrum orðum: Við ætlum núna að vera […] eins og jólasveinninn. Við ætlum að gefa í skóinn út um allt, en svo verða það bara Grýla og Leppalúði sem taka við eftir kosningar sem munu þurfa að taka nammið úr skónum og passa upp á að þetta verði ekki að veruleika.“

Því miður rættust þau orð og ég stend því hér (Forseti hringir.) eins og Grýla og Leppalúði og verð að taka nammið úr skónum.



[16:12]
Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég tel nú nauðsynlegt að minna á það enn einu sinni að hæstv. ríkisstjórn hefur ákveðið að afsala sér ákveðnum tekjum úr ríkissjóði sem var búið að ákveða hér á þingi og hefði verið hægt að nota í þessi verkefni.

Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra að því sem hún kom inn á í framsögu sinni, að unnið væri með nýjar áherslur í ráðuneytinu, áhættusjóði, færa á milli eitthvað, ég náði því ekki alveg nákvæmlega — einhverja afslætti, skattafslætti og annað þar fram eftir götunum, sem má vel vera að sé að hið besta mál og ég get vel trúað því. Þá langar mig til að spyrja, vegna þess að við erum svolítið óörugg um það hérna í þessum sal núna: Er verið að vinna að þessu núna á milli umræðna í þinginu? Við skiljum ekki almennilega hvort þetta er fjárlagafrumvarp sem ríkisstjórnin stendur öll á bak við og ætlar að vinna að eða hvort það sé ætlunin að breyta frumvarpinu mjög mikið í þinginu. Manni hefur heyrst það, ekki síst á formanni fjárlaganefndar að til standi að breyta mjög miklu í frumvarpinu og kannski meiru en yfirleitt hefur verið raunin. Fólk er svolítið óöruggt með hvaða plagg sé eiginlega í þessari óskiljanlegu bók. En bókin er ekki ríkisstjórninni að kenna.



[16:14]
iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegur forseti. Það sem ég sagði í framsögu minni lýtur kannski fyrst og síðast að því að bæta stöðu sprota- og nýsköpunarfyrirtækja almennt og er ekki eitthvað sem tengist þessu fjárlagafrumvarpi að öðru leyti en því að ég vildi greina frá þessu.

Eftir að hafa kynnt mér þessa grein, nýsköpunarstarfsemina, vel í sumar hef ég komist að raun um að það eru hlutir í hinu opinbera stoðkerfi sem virka og svo eru aðrir hlutir sem virka ekki. Þess vegna lagði ég meðal annars áherslu á það að ekki yrði allt fjármagnið í fjárfestingaráætluninni margumræddu til Tækniþróunarsjóðs skorið niður heldur mundum við auka í. Þess vegna er um helmingur af þessum 500 milljónum lagður í sjóðinn.

Annað sem ég vildi standa vörð um eru skattaívilnanir vegna rannsókna og þróunar vegna þess að sú aðferð virkar og fyrirtækin eru ánægð með hana. Þetta kemur inn á góðum tíma og hjálpar fyrirtækjum í þeirra vexti.

Síðan er greinilegt vandamál á ferð. Það er skortur á fjármagni, áhættufjármagni í sprota- og nýsköpunargeirann. Núna erum við að leita leiða til þess. Þetta eru reyndar hugmyndir sem ég veit að voru skoðaðar á síðasta kjörtímabili, fengu ágætisviðtökur en náðu af einhverjum ástæðum ekki fram að ganga, en ég veit að þeim var vel tekið. Ein var að athuga til að mynda hvernig við getum fengið lífeyrissjóðina, sem eru með mikið fjármagn á milli handanna sem þeir eru að leita að fjárfestingartækifærum fyrir, eða greitt fyrir að þeir geti komið að þessari starfsemi og lagt fé til nýsköpunar og fjárfest í litlum fyrirtækjum sem eru að fara af stað. Það er verið að vinna að því hvort rýmka þurfi heimildir þeirra eða hvort hægt sé með einhverjum hætti að taka fjármagn í gegnum þann sjóð sem ríkið á hlutdeild í, sem er Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins.



[16:16]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Það er gott að geta átt orðastað við þann ráðherra í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu sem fer með iðnaðarmál, orkumál, ferðamál, nýsköpun o.fl. Ég ætla að halda mig aðallega við þann geira.

Ég spyr í fyrsta lagi: Hvernig samrýmist það mat manna á þörf fyrir uppbyggingu og fjárfestingu í innviðum ferðaþjónustunnar að skera Framkvæmdasjóð ferðamannastaða niður við trog, þó að vísu séu settar inn 150 millj. kr. þangað aftur? Er það ekki í svo hrópandi mótsögn við alla umræðu sem verið hefur hér í landi undanfarin missiri og stóraukna fjölgun ferðamanna, ört vaxandi fjölgun, að bakka nú út úr því uppbyggingarátaki sem þó var hafið? Hvernig útskýrir ráðherra ferðamála þetta? Hvernig er það réttlætanlegt miðað við áhyggjur manna af því að átroðningur og álagið sé svo mikið að við séum að fara þar alveg fram af brúninni?

Í öðru lagi varðandi Tækniþróunarsjóð finnst mér þyngra en tárum taki að þar skuli menn ætla að draga úr og lækka framlög í hann um 265 millj. kr. En ráðherra talar eins og það sé sérstakt örlæti að skilja tæpan helming eftir af því sem bætt var í sjóðinn í fyrra. Ég hef þó öllu meiri áhyggjur af því sem kemur fram í greinargerð fjárlagafrumvarpsins en þar segir nefnilega og eiginlega hrósa menn sér af því að framlögin séu þó ekki felld niður að fullu fyrr en 2016. Er það stefna ríkisstjórnarinnar að draga úr þessum framlögum jafnt og þétt næstu þrjú árin þannig að Tækniþróunarsjóður verði árið 2016 kominn niður í það svartasta lágmark sem menn neyddust til að fara með hann í í botni kreppunnar? Er það metnaðurinn?

Í þriðja lagi talar hæstv. ráðherra um að stuðningur við nýsköpunarfyrirtæki, endurgreiðsla rannsóknar- og þróunarkostnaðar hafi gefist vel. Já, við komum því á á botni kreppunnar 2010, en nú ætlar núverandi ríkisstjórn að draga úr þeim stuðningi. Það á að lækka endurgreiðsluhlutfallið úr 20% í 15%. Þetta er metnaðarleysi. Höfum við ekki efni á því að fjárfesta í þessari nýsköpun? Er ekki ánægjulegt að útgjöldin aukist vegna þess að það er ávísun á að nýsköpunar-, rannsóknar- og þróunarstarfið er kraftmeira? Þar er verið að byggja upp og fjárfesta inn í framtíðina.

Ég spyr um markaðsátak í ferðaþjónustu. Við komum því líka á á botni kreppunnar 2010 og settum 300 millj. kr. í það á móti greininni að hefja sókn í ferðaþjónustu og færðum það svo yfir í að sækja fram á veturna. Nú er dregið úr, 100 millj. kr. niður og sagt: Ríkið tekur 1/3 og greinin 2/3. Er búið að semja um það við greinina? Eru þeir til í þessi býtti?

Hæstv. ráðherra var að tala um samanburð við 2012. Eigum við að tala um samanburð við 2010 eins og ástandið var þá? Þá lögðum við samt af stað með þessa hluti eins og markaðsátak í ferðaþjónustu og lög um endurgreiðslu rannsóknar- og þróunarkostnaðar.

Ef hæstv. ráðherra hefði tíma væri fimmta atriðið metnaðurinn í sambandi við niðurgreiðslu húshitunarkostnaðar á köldum svæðum. Hvernig fer það í hæstv. ráðherra að draga úr því um 75 millj. kr.?



[16:20]
iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegi forseti. Það er spurt að mörgu og ég ætla að vinda mér í þetta. Ferðamál og fjölsóttir ferðamannastaðir. Það er alveg rétt að þetta hefur verið mikið í umræðunni og þess vegna vil ég benda hv. þingmanni á að það er einmitt það sem er verið að gera. Við erum að koma með tillögur núna sem verða útfærðar og komnar í frumvarpsform eftir áramótin, strax að loknu jólahléi, þar sem gjaldtökumál, uppbygging á fjölsóttum ferðamannastöðum og dreifing álagsins eru tekin sérstaklega til skoðunar.

Ég bendi á, burt séð frá aukningunni sem var í margnefndri fjárfestingaráætlun, sem var byggð á sandi eins og ég hef sagt, fjármögnunin var byggð á sandi, voru árið 2012 40 millj. kr. til uppbyggingar. Við bættum núna í miðað við það, ef við tökum fjárfestingaráætlunina út fyrir sviga — sem ég vil gera vegna þess að hún er og var alla tíð algjörlega óraunhæf. Þá erum við að horfa á að við erum með tæpar 220 millj. kr. til þessara mála. Auðvitað gætum við beðið um mun meira, en þetta tel ég vera vel rýmilegt miðað við hvernig úthlutanir standa í sjóðnum.

Varðandi Tækniþróunarsjóð var það mér mjög mikið metnaðarmál að halda einmitt við hann og styðja við hann. Þess vegna varð úr að bætt var við hann frá því sem var fyrir fjárfestingaráætlun einmitt vegna þess að hann er að virka.

Aðeins um markaðsátakið í ferðaþjónustunni. Það er verkefni sem hefði átt að renna út, það var bara til þriggja ára, síðasta ríkisstjórn bjó þannig um hnútana. Við tókum þá ákvörðun að framlengja markaðsátakið. Við tókum það hins vegar niður í samræmi við þá stefnu sem við höfum um hagræðingu í ríkisrekstri. Varðandi spurninguna um það sem kemur fram í greinargerðinni vil ég leiðrétta það og fór yfir það áðan. Skiptingin er ekki 1/3 og 2/3, það verður króna á móti krónu og átakið verður þá 400 millj. kr. í heildina.



[16:22]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Já, þar með er verið að draga úr þessu um 1/3 og metnaðurinn er ekki meiri en sá. Ég tel að það sé rangt vegna þess að það hefur þegar sýnt sig að sóknin inn á vetrarmánuðina og slaka tímann sem hefur verið í gangi undanfarin tvö ár hefur skilað miklum árangri.

Frú forseti. Við erum að ræða þessi mál í 24. viku sumars og við nálgumst 19. sunnudag eftir trinitatis. Það eru bara þó nokkrir mánuðir síðan ný ríkisstjórn kom til valda. Ég verð að segja alveg eins og er að þessi endalausa tugga um að vegna þess að fyrri ríkisstjórn lagði einhverja hluti til þá skipti það engu máli, þá þurfi núverandi ríkisstjórn enga afstöðu að taka til þess hvort eitthvað sé gott eða vont. Nei, við bara sláum það af út af því að þetta var hjá fyrri ríkisstjórn og af því að þetta var í fjárfestingaráætlun frá fyrri ríkisstjórn. Þá getum við með góðri samvisku skorið niður stuðning við nýsköpun og þróun, uppbyggingu á ferðamannastöðum, Rannsóknasjóð og Tækniþróunarsjóð. Við erum alveg saklaus af því, við berum enga ábyrgð af því að þetta voru einhver áform fyrri ríkisstjórnar.

Er það svona sem menn nálgast ábyrgð sína, pólitíska ábyrgð sína og líta á völdin þegar þeir hafa tekið við þeim og eru orðnir að ríkisstjórn og meiri hluta á Alþingi, sem ber auðvitað pólitíska ábyrgð á hinni efnislegu niðurstöðu sem verður í fjárlagafrumvarpi hvers tíma? Það er engin afsökun, það er ekkert skjól í svona löguðu. Ef menn telja verkefnin góð og og þörf eiga þau ekki að gjalda þess að hafa verið í fjárfestingaráætlun fyrri ríkisstjórnar. Og vel að merkja, það er núverandi ríkisstjórn sem að stærstum hluta hefur kippt fótunum undan með því að t.d. stórlækka sérstök veiðigjöld, sem voru sérstaklega eyrnamerkt að ganga inn í þessi mál.

Auðvitað eru aðrar leiðir til. Hvað hefðu aðilar vinnumarkaðarins sagt ef ríkisstjórnin hefði komið til þeirra og sagt: Nú er atvinnuleysið að lækka, eru menn til í það að við tökum 0,2% af tryggingagjaldinu og setjum það í þessa uppbyggingu, þessa fjárfestingu og nýsköpun? Það lækkar þá að vísu minna. En það gerir ríkisstjórnin ekki. Án þess að tala við aðila vinnumarkaðarins hirðir hún yfir í ríkissjóð 1,38% af tryggingagjaldi.



[16:24]
iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég held að hv. þingmaður hafi ekki verið að hlusta vegna þess að það var einmitt ekki öllu hent út bara af því að seinasta ríkisstjórn kom með það. Það sem við erum að gera er að falla ekki í sömu gryfjuna og síðasta hæstv. ríkisstjórn með því að byggja okkar fjárlagafrumvarp á sandi.

Það þýðir ekkert að halda fram sömu gömlu tuggunni um að sérstök veiðigjöld hefðu átt að fjármagna þetta. Hv. þingmaður setti sjálfur löggjöf sem stóðst ekki og við þurftum að lagfæra hana í byrjun sumar. Það er því fullkomið ábyrgðarleysi að halda því fram að þetta hafi verið eitthvað sem hægt var að byggja á. Enda var settur sá fyrirvari sem ég las upp áðan, ríkisstjórnin trúði því ekki sjálf að þessi fjármögnun mundi skila sér.

Ætlaði fyrrverandi ríkisstjórn einhvern tíma að selja bankana? Nei, ég held ekki. Það átti líka að vera grundvöllurinn að fjárfestingaráætluninni. Fyrir nú utan það að það hefði þá kannski verið skynsamlegri ráðstöfun að byrja á því að lækka vaxtakostnað, greiða niður skuldir og koma ríkissjóði í jafnvægi (Gripið fram í.) áður en byrjað væri að eyða fjármunum í verkefni sem ekki var til peningur fyrir. Með því að greiða niður skuldir ríkissjóðs getum við lækkað útgjöldin, t.d. 30 milljarða kr. vaxtaútgjöld. Það eru útgjöld sem fara varanlega og þannig getum við byggt upp.

En einmitt vegna þess að þarna voru hlutir sem eru verðmætir, þá var þeim haldið. Ég get algjörlega tekið undir að Tækniþróunarsjóður, skattaívilnanirnar, afslátturinn, virkar. Þess vegna var passað upp á að viðhalda því og bætt í frá því sem var áður en fjárfestingaráætlunin tók við. Jú, það er lækkað miðað við fjárfestingaráætlun. En það er ekki þannig eins og þingmaðurinn segir að við höfum hent þessu öllu út. Við stóðum vörð um margt og við forgangsröðuðum. Þannig tókum við afstöðu til þess hverju við vildum hlúa að og hvað mætti bíða.



[16:27]
Frosti Sigurjónsson (F):

Virðulegi forseti. Það er ljóst að svigrúm Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins til fjárfestinga er takmarkað og ríkissjóður vart í færum til að leggja honum til aukið fjármagn í nánustu framtíð. Það gæti hins vegar vel hentað lífeyrissjóðum að eignast nýsköpunarsjóð, sjóð sem er í góðum rekstri og hefur á að skipa hæfu starfsfólki. Ríkissjóði veitir sannarlega ekki af þeim milljörðum sem sala á sjóðnum gæti skilað.

Lífeyrissjóðir þurfa ár hvert að fjárfesta fyrir um það bil 130 milljarða og væri eðlilegt að 1–2 milljarðar færu í nýsköpunar- og vaxtarfyrirtæki. Það mundi efla nýsköpun í landinu til muna, skapa fleiri vel launuð störf, auka hagsæld þjóðarinnar og bæta ávöxtun lífeyrissjóðanna.

Því vil ég spyrja hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra hvort hún telji það ekki geta komið til álita að skoða sölu á Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins til lífeyrissjóðanna.



[16:28]
iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa fyrirspurn. Eins og ég vék aðeins að áðan í umræðum við hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur er þetta einmitt eitt af því sem við erum að líta til, þ.e. með hvaða hætti við getum rýmkað heimildir lífeyrissjóðanna til þess að koma frekar að fjárfestingum, sérstaklega í þessum geira, nýsköpunarfyrirtækjum, litlum og meðalstórum fyrirtækjum í sprotastarfsemi sem eiga erfitt uppdráttar við að sækja sér fjármagn, eins og hv. þingmaður þekkir af eigin raun og mun betur en ég, þetta umhverfi.

Hvað varðar spurningu hans um það hvort til greina kæmi að selja lífeyrissjóðunum Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins finnst mér ekki að við ættum að útiloka það.

Ég vil fyrst og síðast hafa augun á markinu. Markmiðið er að auka fjármagn til fjárfestinga og gera Nýsköpunarsjóð öflugri. Hvort við gerum það með því að selja hann, með því að hleypa lífeyrissjóðunum einhvern veginn inn í hann, stofna sjóð til hliðar eða enn öðruvísi er ég alveg hjartanlega sammála hv. þingmanni um að þarna liggi mikil tækifæri. Ég get sagt hér að við erum að vinna að þessu hörðum höndum. Ég get meira að segja upplýst hann um það að seinasti fundurinn sem ég átti áður en ég kom niður í þing var einmitt þessu málefni tengt þannig að vonandi getum við unnið þetta í sameiningu og náð því sameiginlega markmiði að auka fjármagn til fjárfestinga.



[16:30]
Björt Ólafsdóttir (Bf):

Frú forseti. Ég kem klyfjuð í ræðustól. Eins og hjá hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur dugir þessi bók mér ekkert svakalega vel, hún segir mér ekki nógu mikið. Ég er búin að tala um það áður í dag að það hefði verið gott að hafa samanburð en svo fékk ég hjá þessari góðu stofnun sem Alþingi er, starfsmönnum hennar, samanburð og það hefur verið mjög gagnlegt að fletta í gegnum hann hérna í dag.

Hvað varðar málefni hæstv. ráðherra er ég búin að rýna ofan í þetta bókhald. Þetta eru bara tölur á blaði, debet og kredit, en það er hérna tvennt sem mig langar aðeins að spyrja um. Annað varðar lið sem ber númerið 04-528, Iðja og iðnaður, framlög. Á síðasta ári voru í fjárlögunum rúmar 206 milljónir. Með þessu frumvarpi er þetta hækkað um tæp 136%, þessi framlög eru komin upp í 486,7 milljónir. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvað þetta sé. Mér skilst, svo ég hjálpi hæstv. ráðherra aðeins, að þetta séu ívilnanirnar á Bakka og mig langar þá til að heyra aðeins hvað nákvæmlega felist í þeim. Erum við svo að tala um meiri fjárútlát þarna á næsta ári?

Hér hefur verið debatt um hvað hefði orðið ef fjárfestingaráætlun hefði náð fram að ganga og svo hvað er núna. Fólk er svolítið að bera saman epli og appelsínur auðvitað í því hvað eigi að telja eðlilegast. Við í Bjartri framtíð leggjum mikla áherslu á nýsköpun og að styrkja og hlúa að henni. Við hefðum viljað láta gera miklu betur, en samkvæmt því sem þið eruð að reikna út hérna eru samt, eftir ykkar bókhaldi, minni niðurfærslur en til dæmis í rannsóknum í sjávarútvegi sem mér þykir mjög miður.



[16:33]
iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegi forseti. Fyrst þessi liður, Iðja og iðnaður. Það er rétt hjá hv. þingmanni með aukninguna. Þetta er, hvað á ég að segja, ekki safnliður en svona liður sem inniheldur ólíka liði. Ástæða þess að þetta hækkar eru einmitt framkvæmdirnar við Bakka, lög sem voru samþykkt á Alþingi í fyrravor. Þessi fjárveiting er til komin vegna undirbúningsvinnu sem þurfti að fara í í sumar. Það voru framlög vegna rannsókna vegna hafnargerðar og vegalagningar. Þessir fjármunir fóru í það og, já, það eru frekari fjárútlát ætluð vegna þessarar framkvæmdar. Mig minnir að heildarívilnunarpakkinn sé í kringum 3 milljarðar sem samþykktur var með sérlögunum um Bakka. Jarðgöng, vegtengingar, hafnir og skattalækkanir voru í þeim lögum.

En aðeins varðandi nýsköpunina vil ég fullvissa hv. þingmann um að við deilum áhuga á nýsköpun og eflingu hennar. Þegar fyrsta krafan í þessu fjárlagafrumvarpi var að fjárfestingaráætlunin færi út, hún var ófjármögnuð eins og margítrekað hefur verið, voru ákveðin atriði sem ég lagði sérstaka áherslu á að yrði bæði viðhaldið og styrkt. Tækniþróunarsjóðurinn og skattaívilnanirnar til nýsköpunarfyrirtækja voru slík atriði sem ég lagði áherslu á að við mundum halda og viðhalda. Eins og fram kom í umræðum hér áðan erum við að leita leiða til þess að auka við tækifæri til að efla áhættufjármögnun eða styrkja þá sjóði sem lána og (Forseti hringir.) fjárfesta í nýsköpunarfyrirtækjum. Hv. þingmaður getur verið fullviss um að við erum saman í þessari baráttu.



[16:36]
Björt Ólafsdóttir (Bf):

Ég þakka kærlega fyrir svörin. Það er annað sem mig langaði að minnast á hérna. Ég tek líka eftir því, eins og kom fram í máli hæstv. ráðherra, að það er ekki verið að færa niður endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi. Hins vegar er skorið niður hjá Kvikmyndasjóði Íslands um 40%. Ég veit að það er á borði menntamálaráðherra en þetta tvennt helst í hendur, þessi iðnaður á Íslandi, þ.e. hvernig við höfum þá atvinnugrein hér, okkar upplegg með Kvikmyndasjóðnum, og svo hvernig við getum þjónustað þau erlendu fyrirtæki sem vilja koma til Íslands og nýta hér starfskrafta og auðvitað náttúru og annað til að taka hér upp kvikmyndir. Mér finnst mikilvægt að benda á að þetta tvennt helst mikið vel í hendur og þetta misræmi hjálpar ekki til. Það hefði átt að passa upp á Kvikmyndasjóðinn líka.

Annað var það ekki.



[16:37]
iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegur forseti. Það er rétt hjá hv. þingmanni, það er óbreytt framlag og óbreytt fyrirkomulag á þeim lið sem snertir endurgreiðslur við kostnað við kvikmyndagerð. Það er eitt af þessum verkefnum sem lögð var áhersla á að viðhalda. Þetta er einfalt reikningsdæmi. Við fáum tekjur af þeirri starfsemi sem kemur hingað til lands mikið til vegna þessara endurgreiðslna. Það er partur af menginu, auðvitað viljum við meina að íslensk náttúra, sérstaða okkar og allt þetta komi þessum kvikmyndum hingað en þetta er klárlega liður í því að draga hingað til lands stór verkefni sem veita fjöldamörgum aðilum atvinnu, skila miklu í þjónustutekjum og skattgreiðslum að öðru leyti. Þetta er klárt reikningsdæmi sem hefur verið sýnt fram á að skili hreint og beint hagnaði í ríkissjóð.

Varðandi Kvikmyndasjóðinn er líka rétt að hann er á forræði annars ráðherra en þar vil ég þó benda á að ef mig ekki misminnir er eins farið og um Tækniþróunarsjóð. Ef við tökum fjárfestingaráætlunina og þá innspýtingu — sem ég ítreka og endurtek að var tekin að láni, við vorum skuldsett fyrir þeim framlögum og síðasta ríkisstjórn tók lán fyrir þeirri innspýtingu og skildi okkur eftir með reikninginn — út fyrir sviga er verið að styrkja og viðhalda Kvikmyndasjóði frá því sem var áður en sú innspýting kom. Með öðrum orðum er aukið við miðað við árið 2012 sem er miklu réttari samanburður vegna þeirrar gagnrýni og annmarka sem á fjárfestingaráætluninni voru.



[16:40]
Jón Þór Ólafsson (P):

Frú forseti. Aukin áhersla á sprota- og nýsköpun er mjög ánægjuleg fyrir allt atvinnulífið. Peter Drucker, faðir nútímastjórnunar, benti á að hlutverk fyrirtækja væri að afla viðskiptavina og halda í þá en að meginverkefni þeirra væru nýsköpun og markaðssetning.

Internet-hagkerfið býður upp á gríðarleg tækifæri til þess að stuðla að skjótari og sjálfbærari vexti. Á síðasta kjörtímabili skapaði internetið 20% af hagvexti þróaðra hagkerfa, hvorki meira né minna. Af þeim vexti voru 75% í hefðbundnum iðnaði og gætti hans mest hjá litlum og meðalstórum fyrirtækjum. (Gripið fram í.) Þetta eru tölur úr McKinsey-skýrslunni um internetið frá 2011. Á þessu kjörtímabili mun helmingur mannkyns verða nettengdur og hagkerfi internetsins nærri tvöfaldast. Þar eru gríðarleg tækifæri. Þessar tölur koma frá skýrslu The Boston Consulting Group um internetið.

Netvænt lagaumhverfi er það sem fjárfestar í tæknigeiranum eru að bíða eftir. Við höfum talað við fjölmarga um það. Aukin erlend fjárfesting þýðir vöxt fyrirtækja, fleiri, fjölbreyttari og betur launuð störf og aukið innstreymi gjaldeyris sem auðveldar síðan að sjálfsögðu gjaldeyrishöft.

Lítil og meðalstór fyrirtæki sem nýta sér internetið — þetta eru líka tölur úr McKinsey skýrslunni — vaxa tvöfalt hraðar, skapa tvöfalt fleiri ný störf og hafa tvöfalt hærri útflutningstekjur. Úr skýrslu frá Viðskiptaráði frá 2009 kemur fram að lítil og meðalstór fyrirtæki á Íslandi hafa 2/3 alls starfsfólks í vinnu og skapa í kringum 60% af heildarverðmæti hagkerfisins, einhvers staðar í kringum það. Það er því til mikils að vinna.

Sem bónus kemur fram í skýrslu International Chamber of Commerce, með leyfi forseta:

„Internetið og önnur upplýsingatækni spila lykilhlutverk í uppbyggingu sjálfbærs græns hagkerfis.“

Fram kemur að internetið og önnur upplýsingatækni dragi úr heildarorkunotkun, það spari orku með betri nýtingu hennar og dragi úr útblæstri koltvísýrings.

Það sem mig langar því að vita er hvernig fjárlagafrumvarpið stuðlar að því að Íslendingar geti nýtt þau gríðarlegu tækifæri til atvinnu, hagvaxtar og útflutningstekna sem internetið býður upp á.



[16:43]
iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og þann áhuga sem hann hefur sýnt þessu máli. Ég get upplýst hér að bæði á nefndarfundi og að lokinni umræðu um stefnuræðuna kom hv. þingmaður að máli við mig og kynnti mér þessa skýrslu. Ég verð að játa að ég hafði ekki séð hana en er mjög forvitin að sjá hvernig við getum vonandi í sameiningu stuðlað að því að bæta okkur á þessu sviði.

Ég get eiginlega ekki svarað spurningunni: Hvernig mun fjárlagafrumvarpið tryggja að þessi leið verði farin hér? Ég vil bara nota tækifærið, misnota aðstöðu mína hér og spyrja þingmanninn: Hvaða tillögur hefur hann til þess að leggja fram þannig að við getum tryggt það? Við höfum öll skilyrði hér til þess að geta nýtt okkur internetið betur, erum nú þegar framarlega á því sviði þegar við skoðum alþjóðlega mælikvarða. Í viðskiptalífinu og til þess að stofna fyrirtæki, vera með atvinnustarfsemi og greiða fyrir henni á netinu er ágætt að hugsa stefnumótun í þeim efnum eins og annars staðar. Ég óska hér með eftir því að hv. þingmaður komi með okkur í þann leiðangur og að við fáum að nýta krafta hans til að gera enn þá betur í þessu. Ég er opin fyrir öllum hugmyndum.



[16:44]
Jón Þór Ólafsson (P):

Frú forseti. Þetta gleður mig mikið, ég þakka kærlega fyrir og hlakka mikið til að starfa með ráðherranum.

Ég ætla að reyna að svara spurningunni um hvað hægt sé að gera. Í McKinsey-skýrslunni er talað um fjóra þætti sem þurfa að vera til staðar til að skapa vistkerfi fyrir internetið. Einn þeirra er að vera aðgengi að góðum mannauði og við náum því ekki í þessum málaflokki sem við erum að ræða hér. Þá kemur menntakerfið til skjalanna, það þarf að bjóða upp á nám í forritun og það þarf að gera erlendum aðilum sem hafa sérþekkingu á sínu sviði auðveldara að koma til Íslands. Framkvæmdastjóri CCP sagði að það væri auðveldara að flytja inn kóralla í fiskabúrið í fyrirtækinu en að flytja inn starfsmann sem er með sérþekkingu á sviði sem mundi nýtast þar.

Svo þarf að laga fjárfestingarumhverfið. Það er verið að vinna í því og við vonum bara að það gangi sem best, þar er aðalakkillesarhællinn. Það þarf að tryggja innviðina, að tengingarnar séu góðar, og það þarf að tryggja að hér sé gott viðskiptaumhverfi. Það er kannski hægt er að gera í þessum málaflokki, að bæta þar í.

Á samráðsvettvangi um aukna hagsæld á Íslandi kemur fram að þeim markmiðum verður ekki náð nema með því að nýta helstu sóknarfærin sem bjóðast í alþjóðlega geiranum, þ.e. þau fyrirtæki sem geta farið úr landi ef þau svo kjósa. Þau eru ekki háð orkuauðlindum eða einhverju slíku á Íslandi. Við sjáum að þau fyrirtæki geta auðveldlega farið úr landi og það er kannski ekki endilega slæmt þegar upp er staðið að þau fari úr landi því að þau skapa mikilvæg tengsl og sérþekkingu sem getur flætt til Íslands, m.a. aðgengi að fjármagni erlendis. Við höfum séð það.

Þá þurfum við á sama tíma að vera með öflugt umhverfi fyrir sprota- og nýsköpunarfyrirtæki til að vaxa á Íslandi og taka við boltanum frá þeim aðilum sem fara af landi brott.



[16:47]
iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég held að við hv. þingmaður eigum alveg að geta unnið vel saman að þessu áfram. Það er margt þarna sem rímar vel við það sem við erum þegar farin að huga að í ráðuneytinu. Ég held að það að gera það auðveldara að flytja erlenda sérfræðinga hingað til lands sé gríðarlega mikilvægt. Það kom meðal annars fram í tillögum hinnar svokölluðu Fjárfestingarvaktar sem sett var á laggirnar á síðasta kjörtímabili og skilaði tillögum til mín í sumar. Þær miða allar að því að bæta hér fjárfestingarumhverfið og við munum fara í að endurskoða lögin um erlendar fjárfestingar og ívilnanalöggjöfina.

Eitt af þeim atriðum sem þeir nefndu sérstaklega var að athuga með þá löggjöf sem snertir einmitt það að geta flutt hingað hámenntað fólk sem sérfræðinga án þess að það þurfi að gerast ríkisborgarar til þess að auðvelda því að fá atvinnuleyfi og vinna í fyrirtækjum eins og því fyrirtæki sem hv. þingmaður nefndi. Þetta er þegar komið í vinnslu, ég get glatt hv. þingmann með því.

Við erum líka vakin og sofin yfir því að laga fjárfestingarumhverfið og varðandi innviðina kemur vonandi bráðum annar fjarskiptakapall frá Bandaríkjunum til Skotlands sem hefur viðkomu hér. Emerald-fyrirtækið er að undirbúa það og vona ég svo sannarlega að það verði að veruleika. Það getur líka dregið hingað til lands fleiri fyrirtæki, t.d. í gagnaversiðnaðinum sem tengist þessu og er nátengdur internetinu.

Ég held að við þurfum bara að setjast yfir þetta, skoða þetta í þaula og finna út hvernig við getum sem best bætt þetta umhverfi og að lokum einmitt það sem var talað um í sambandi við mannauðinn, skoða hvernig þetta rímar saman við þá áherslu sem við höfum í menntamálum.



[16:49]
Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Í fjárlagafrumvarpinu og stefnu ríkisstjórnarinnar birtist mikill metnaður fyrir hönd atvinnulífsins þrátt fyrir erfiðar aðstæður. Það er raunhæfur metnaður, það er metnaður sem byggir á raunhæfum aðgerðum til að bregðast við við mjög erfiðar aðstæður. Þær hugmyndir sem var farið með í gegnum þingið í svokallaðri fjárfestingaráætlun voru ekki byggðar á raunhæfum væntingum. Það sést náttúrlega best á afkomu ríkissjóðs á þessu ári að engin innstæða er fyrir slíku. Það er mjög mikilvægt þegar stjórnvöld marka stefnu og senda út skilaboð í þessum málaflokki að ekki sé verið að búa til falskar vonir, falskar væntingar. Ég tel að það sem þessi ríkisstjórn lætur frá sér fara, bæði með stefnuyfirlýsingu sinni og nú í fjárlagafrumvarpinu, byggi á einhverju sem er raunhæft.

Tækifæri okkar eru gríðarlega mikil í öllum samanburði þegar kemur að iðnaðaruppbyggingu á fjölbreyttum grunni. Starfsemin hefur aukist mikið í iðnaði hér. Íslensk iðnfyrirtæki eru farin að vinna á alþjóðavettvangi, ekki bara í kringum sjávarútveg heldur einnig í tengslum við ál og nú jafnvel olíuiðnað og jarðvarma. Ég kom í fyrirtæki suður í Hafnarfirði þar sem var verið að búa til stýrikerfi fyrir stórar jarðvarmaveitur í Afríku. Þetta byggist auðvitað allt á þeirri grunnatvinnugrein okkar sem orkufrekur iðnaður er, eins og í kringum álverin og í kringum sjávarútveginn.

Það töpuðust því miður mikil tækifæri á síðasta kjörtímabili þegar kom að þessum málaflokki. Stefna stjórnvalda var þannig að ekki var verið að horfa til þess að efla okkur á þessum vettvangi og því er mjög mikilvægt að núna sé spýtt í af einhverri alvöru. Það er mikilvægt að fá niðurstöðu í stór mál eins og Helguvík og setja síðan aukinn kraft í uppbyggingu í orkufrekum iðnaði og auka þar með fjölbreytnina í íslensku atvinnulífi ásamt því að styðja við, eins og hefur verið farið vel yfir, nýsköpun og sprotafyrirtæki til að byggja hér upp fjölbreyttara atvinnulíf. Hvatinn og keyrslan í kringum það kemur oft í gegnum þessar grunnatvinnugreinar okkar, þaðan getur fjármagn og verkþekking og annað flætt til þess að byggja upp ný fyrirtæki.

Við erum með öfluga ferðaþjónustu. Við höfum séð ánægjulega uppbyggingu þar á síðustu árum. Fjárfestingar eru að aukast mikið. Við sjáum hvað er að gerast núna í kringum Hörpu. Framkvæmdasjóður ferðamannastaða hefur verið dálítið til umfjöllunar. Þar er verið að innleiða nýtt innheimtukerfi sem mun (Forseti hringir.) styrkja okkur enn frekar á þessum vettvangi. Ég tel reyndar að þegar kemur að úthlutun úr þeim sjóði eigum við líka að líta til öryggismála varðandi ferðamenn. Við höfum öll orðið vör við það með vaxandi ferðamannastraumi að tryggja þarf öryggi ferðamanna sem koma til Íslands.



[16:52]
iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Það kemur kannski ekki á óvart að það er ákveðinn samhljómur í skoðunum okkar enda erum við í sama þingflokki.

Það sem ég vildi segja og leggja áherslu á hér, sérstaklega af því að fyrrverandi hæstv. umhverfisráðherra situr í salnum, við höfum nú ekki verið sammála þó að það hafi gerst reyndar um daginn að við vorum sammála um ákveðið mál, að það er markmið mitt að stuðla að því að við séum ekki sífellt að etja atvinnugreinum saman og skipa mönnum og fyrirtækjum í einhverja flokka; þessi er í nýsköpun, hann er góður, þessi er í skapandi greinum, hann er góður, þessi er í einhverri iðnaðarstarfsemi sem fylgir meiri óþrifnaður og þá hlýtur hann að vera eitthvað vondur. Mér finnst það þreytandi og ég vil fyrir alla muni biðja okkur um að víkja af þeirri leið.

Eins og fram kom fram í orðaskiptum okkar hv. þm. Jóns Þórs Ólafssonar fer þetta saman. Þingmaðurinn lagði áherslu á að við þyrftum að auka hér og benda á tækifæri sem felast í því að auka aðkomu internetsins í atvinnulífinu. Hvað er það þá sem við þurfum að bæta? Þá þurfum við að bæta og laga menntakerfið að þeim þörfum, við þurfum að bæta innviði, við þurfum að gera hluti sem við þurfum að gera fyrir atvinnulífið í heild. Nýsköpun fer vel með orkunýtingu og þar verður gríðarlega mikil nýsköpun einmitt við það að þurfa að leysa vandamál. Maður sér það t.d. á uppbyggingu orkunýtingar í Svartsengi. Þegar menn fóru þar af stað af mikilli framsýni fyrir einhverjum áratugum þurftu þeir að leysa vandamál sem upp komu og öðluðust þannig þekkingu sem verið er að nýta í frekari uppbyggingu annars staðar.

Þannig held ég að við náum árangri og þannig held ég að við náum að efla og (Forseti hringir.) nýta þau tækifæri sem eru hérna úti um allt.



[16:55]
mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Heildargjöld mennta- og menningarmálaráðuneytisins árið 2014 eru áætluð rúmlega 76 milljarðar kr. á rekstrargrunni. Frá dragast sértekjur að fjárhæð 9,4 milljarðar kr. en þær nema 12,4% af heildargjöldum ráðuneytisins. Gjöld umfram tekjur eru um 66,7 milljarðar kr. og af þeirri fjárhæð eru um 64 milljarðar kr. fjármagnaðir með beinu framlagi úr ríkissjóði og 2,4 milljarðar kr. innheimtir af ríkistekjum. Í frumvarpinu dragast útgjöld mennta- og menningarmálaráðuneytisins saman um liðlega 3,5 milljarða kr. á föstu verðlagi fjárlaga 2013, en þegar einnig er tekið tillit til áhrif á almennum verðlags- og gengisbreytingum lækka útgjöldin um 2 milljarða kr. á milli ára eða sem svarar til 2,9%

Fjárveitingar til verkefna mennta- og menningarmálaráðuneytisins markast af því að gert er ráð fyrir aðhaldsráðstöfunum í frumvarpinu í samræmi við áform um að bæta afkomu ríkissjóðs en einnig er um að ræða að fallið er frá nýlegum framlögum til verkefna sem ýmist eru ekki hafin eða eru komin stutt á veg. Þar er einkum um að ræða verkefni í svonefndri fjárfestingaráætlun í fjárlögum ársins 2013 sem áttu að byggjast á sérstakri tekjuöflun sem mun ekki ganga eftir.

Helstu framlögin af þessum toga eru framkvæmdir við Hús íslenskra fræða og verknámshús Fjölbrautaskóla Suðurlands sem er slegið á frest um sinn. Enn fremur mun fyrirhuguð hækkun á framlögum Kvikmyndasjóðs og ýmissa minni sjóða á sviði menningar og lista ganga til baka. Sama gildir að hluta til um framlög til Rannsóknasjóðs. Í þessu samhengi skal þó nefnt að lögð er til 70 millj. kr. hækkun til Kvikmyndasjóðs í samræmi við gildandi samkomulag um stefnumörkun fyrir íslenska kvikmyndagerð.

Útfærsla ráðuneytisins á almennri aðhaldskröfu er með nokkuð misjöfnum hætti eftir málaflokkum. Rauði þráðurinn er þó sá að reynt er af fremsta megni að standa vörð um lögbundin verkefni, grunnstarfsemi og lykilstofnanir. Á háskólastigi er gert ráð fyrir að draga úr beinum framlögum til kennslu og rannsókna í háskólum en aukinni innheimtu ríkistekna. Háskólastigið stendur frammi fyrir miklum áskorunum, innan mennta- og menningarmálaráðuneytisins hefur farið fram ítarleg greining á fjárhagsstöðu háskóla og hefur sú vinna kallað á forgangsröðun á mörgum sviðum ásamt umtalsverðum niðurskurði, m.a. til háskóla- og vísindamála.

Að frumkvæði ráðuneytisins hefur einnig verið unnið mikið starf að endurskoðun á áherslum og skipulagi háskólakerfisins auk þess sem vísinda- og tækniráð hefur ályktað um þessi mál. Ráðuneytið hefur beitt sér fyrir auknu samstarfi háskólanna um námsframboð og rekstrarþætti en þótt ýmsu hafi verið komið til leiðar má gera ráð fyrir að erfitt verði að halda rekstri skólanna óbreyttum. Unnið er að úrlausn þessa verkefnis í góðu samráði við háskólana og má gera ráð fyrir að fyrirkomulag reksturs einstakra skóla taki nokkrum breytingum á fjárlagaárinu 2014.

Þrátt fyrir aðhaldskröfu verður staðið við 300 millj. kr. hækkun á framlagi í aldarafmælissjóð Háskóla Íslands í samræmi við ákvörðun ríkisstjórnar Íslands og Alþingis. Sú hækkun er einnig í samræmi við stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar.

Í frumvarpinu er lagt til að fallið verði frá 465 millj. kr. af áformaðri 750 millj. kr. hækkun framlaga til rannsóknasjóða á málefnasviði ráðuneytisins. Þannig er fallið frá nýju 200 millj. kr. framlagi sem veitt var í markáætlun á sviði vísinda og tækni, og sömuleiðis 265 millj. kr. af 550 millj. kr. hækkun framlags til Rannsóknasjóðs. Bæði framlögin voru veitt samkvæmt svonefndri fjárfestingaráætlun í fjárlögum ársins 2013. Í tilviki Rannsóknasjóðs og Tækniþróunarsjóðs eru framlögin þó ekki felld niður að fullu vegna áherslna stjórnvalda á stuðning við rannsóknir og þróun. Með þessu móti verður eftir sem áður 285 millj. kr. hækkun á framlagi í sjóðinn.

Rekstur framhaldsskóla hefur verið þungur undanfarin ár vegna aðhaldsaðgerða. Ljóst er að ekki verður lengra haldið án breytinga á skipulagi námsframboðs og þjónustu framhaldsskóla. Gert er ráð fyrir að ráðist verði að nokkru í slíkar breytingar haustið 2014. Hagræðingu á framhaldsskólastigi er annars mætt þannig að gert er ráð fyrir að dregið verði úr tímabundnum framlögum. Árétta verður að áfram verður greitt fyrir þá nemendur sem skráðir hafa verið í framhaldsskóla undir átakinu Nám er vinnandi vegur.

Breytingar á fjárveitingum til einstakra framhaldsskóla skýrast að mestu leyti af breytingum á nemendafjölda, breytingum á húsnæðisframlagi í nokkrum tilvikum og sérverkefnum. Þannig hefur tekist að mestu að tryggja óbreytt framlag til reksturs stofnananna.

Við skiptingu hagræðingarkröfu til menningar-, íþrótta- og æskulýðsmála var leitast við að hlífa lögbundinni starfsemi og grunnstarfsemi. Hér er fylgt sömu stefnu og í fjárlagafrumvörpum síðustu ára til að verja eftir mætti þá undirstöðu sem byggð hefur verið upp og þarf að vera til staðar þegar betur árar í ríkisfjármálum. Einkum er lögð áhersla á að standa vörð um helstu menningarstofnanir og grunnstarfsemi almennt.

Fram undan er þátttaka íslenskra íþróttamanna og -kvenna á stórmótum erlendis á næstu árum og auk þess er undirbúningur smáþjóðaleikanna sem haldnir verða hér á landi 2016 þegar kominn á skrið. Í því ljósi eru framlög í Afrekssjóð hækkuð auk þess sem inn kemur sérstakt framlag til undirbúnings smáþjóðaleikunum.

Virðulegi forseti. Mér er það ljóst að til ýmissa góðra mála verður minna fé til taks á næsta ári en ýmsir bjuggust við. Á það einkum við um smærri sjóði á sviði skapandi lista og greina. Vonandi kemur til þess á næstu árum að úr rætist í samræmi við batnandi stöðu þjóðarbúsins.

Virðulegi forseti. Ég hlakka til að fá hér tækifæri til að svara spurningum hv. alþingismanna um málaflokkinn.



[17:01]
Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég velti því fyrir mér þegar ég les fjárlagafrumvarpið og hlusta á ræðu hæstv. ráðherra menntamála hvort horft sé til framtíðar í frumvarpinu. Ég velti því fyrir mér þegar menntun er annars vegar hvaða áhrif þær tilraunir sem gerðar hafa verið um breytingar á lánasjóðnum hafa, hvaða áhrif þær munu hafa og hverjir eigi aðgang að námi. Ég hef líka velt fyrir mér háskólastiginu og ýmsum rannsóknarstyrkjum. Ég ætla í þessari fyrri atlögu að einbeita mér að þeirri vinnu sem unnin var af fjölda fólks úr breiðum hópi á síðasta kjörtímabili varðandi skapandi greinar, nýjar atvinnugreinar sem ekki eru bundnar kvótum eða takmörkunum með sama hætti og hefðbundnar atvinnugreinar eins og í landbúnaði og sjávarútvegi og einnig með áherslu á tækni- og iðngreinar.

Tæp þrjú ár eru síðan það kom út tímamótaskýrsla um hagræn áhrif skapandi greina, skýrsla sem kynnt var þjóðinni, og það var í desember 2010. Þar var leitt í ljós í fyrsta sinn að skapandi greinar eru einn af undirstöðuatvinnuvegum þjóðarinnar með veltu, að því er skýrslan sagði, árið 2009 upp á allt að 189 milljarða kr. Þar af var framlag ríkis og sveitarfélaga aðeins 12,5% eða tæplega 24 milljarðar kr. Skýrslan vakti mikla athygli á þeim tíma og forustufólk allra stjórnmálaflokka brást við með jákvæðum hætti. Hugtakið skapandi greinar ruddi sér til rúms í stjórnmálaumræðunni og hér á hinu háa Alþingi hafa allir stjórnmálaflokkar viljað sjá ljósið, lofað listirnar og menninguna fyrir hið óáþreifanlega sérstaka gildi sem hún ber með sér, en einnig séð hinn efnahagslega ávinning sem listir sem rót skapandi greina eru. Þarna er auðvitað lögð áhersla á að vera ekki að flokka atvinnugreinar sem góðar eða slæmar eftir því hvort þær eru listgreinar, álframleiðsla eða sjávarútvegur.

Í framhaldinu komu fram skýrslur, það kom svokölluð 1. des.-skýrsla um afrakstur sameiginlegs átaks forustufólks í skapandi greinum og stjórnvalda. Í kjölfar hennar hófst umfangsmikið samstarf atvinnugreinarinnar og stjórnvalda við að greina tækifæri og ræða hvaða möguleikar væru til sóknar á þeim sviðum. Um var að ræða annars vegar stuðning við þróun og sköpun nýrra hugmynda og hins vegar stuðning við hinn endann á virðiskeðjunni þar sem frumkvöðlar með þegar tilbúin hugverk voru að koma sínum vörum á markað.

Í það voru lagðir umtalsverðir peningar og spurningin er hvernig hæstv. menntamálaráðherra sér fyrir sér að unnið verði áfram að þeim málum nú þegar þau hafa verið valin með þeim rökum að þau séu ný og þar af leiðandi verði þeim bara hent. Hvernig ætlar hann að tryggja að greinarnar fái framgang bæði í menntakerfinu og í okkar nýja umhverfi sem framtíðargreinar?

Ég byrjaði á því að spyrja: Er horft til framtíðar? Ég sé ekki á þeim málum sem hér koma fram að það sé gert af hálfu hæstv. (Forseti hringir.) menntamálaráðherra þannig að ég bíð spenntur eftir að heyra hvernig hann sér að menn vinni úr þeim málum til framtíðar.



[17:05]
mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Þegar spurt er hvort horft sé til framtíðar með þeim fjárlögum sem hér eru lögð fram, hvort sem um er að ræða menntamál eða aðra málaflokka, er það gert þannig að hér er lagt fram frumvarp sem stöðvar skuldasöfnun sem staðið hefur óslitið undanfarin ár. Að hluta til átti sú skuldasöfnun sér skýringar en hún hefur gengið of langt og var orðin þjóðhagsleg vá. (Gripið fram í.) Það felst heilmikil framtíðarsýn í því að stöðva þá þróun, virðulegi forseti. Þjóð sem greiðir allt að því 80 milljarða á ári í vexti verður að stöðva skuldasöfnunina, það er auðvitað hin stóra framtíðarsýn, einnig sú að létta álögum af almenningi. Þó að það séu ekki stórar fjárhæðir nú voru stigin fyrstu skrefin þar og það eru skref í átt til framtíðar.

Hvað varðar skapandi greinar er það allt rétt sem hv. þingmaður segir um mikilvægi þessara greina. Því var þó stillt upp þannig í þinginu af hálfu fyrri ríkisstjórnar að það var tengt beint við svokallaða fjárfestingaráætlun og fjármögnun hennar. Það var skattur á sjávarútveginn sem allir þeir sem skoðuðu það mál sáu að gat aldrei gengið upp og mundi ekki skila þeim fjármunum sem lagt var upp með að ná inn.

Einnig sjá menn að við þurfum að takast á við það ástand að það stefndi í tugmilljarða halla á ríkissjóði vegna allra þeirra loforða sem gefin höfðu verið. Framtíðarsýnin í fjárlagafrumvarpinu er nokkuð ólík því sem verið hefur áður, þ.e. að ná föstu landi undir fætur. Þar með eflist verðmætasköpun í landinu og þar með aukast tekjur ríkissjóðs og þar með höfum við frekari tækifæri til að stuðla að nýsköpun og fleiri vaxtarbroddum. En það varð að stöðva skuldasöfnunina, annars hefði verið hér vá fyrir dyrum. Þess vegna skipti það máli, virðulegi forseti. Hér var Lánasjóður íslenskra námsmanna sérstaklega nefndur enn og aftur. Það er rétt að taka það fram að þar var lagt upp með að sama námsframvindukrafa væri gerð nú eins og verið hafði hér árum og áratugum saman, 75%. Hún er sú sama og gildir almennt á Norðurlöndum. Það var ekki með nokkrum hætti, eins og látið var liggja að hér, að verið væri að vega að stöðu námsmanna með slíku.



[17:07]
Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Það er að svo mörgu leyti skemmtilegt að heyra þessa ræðu endurflutta af hæstv. ráðherra í dag, að stöðva þurfi skuldasöfnun. Sá tónn heyrðist ekki þegar við vorum að reyna að bjarga þessari þjóð eftir að kominn var 200 milljarða halli á ríkissjóð í upphafi síðasta kjörtímabils.

Það sem vekur athygli mína er að hæstv. ráðherra og ráðherrar almennt í dag hafa enga trú á því sem þeir töluðu um fyrir kosningar þegar þeir ætluðu að stækka kökuna. Þeir ætluðu að breikka tekjustofna. Ég spurði nákvæmlega um slíka þætti en nú ætlar hæstv. ráðherra að skera það niður og svo fáum við tækifæri einhvern tíma seinna til þess að stækka kökuna. Menn hafa ekki mikla trú á því sem þeir höfðu sjálfir talað um.

Talað er um að lækka álögur á einstaklingum. Það kann að vera að það nýtist þeim sem eru í skapandi störfum en til þess að horfa til framtíðar var byrjað að endurgreiða rannsóknar- og þróunarkostnað hjá nýsköpunarfyrirtækjum, sem var auðvitað gert til þess að örva atvinnulífið í þessum greinum vegna þess að þar var auðveldast að sækja vöxtinn. Hvað er gert í þessum fjárlögum? Það er lækkað um fjórðung, farið úr 20% í 15%. Hvaða skilaboð er verið að gefa með því? Eru það skilaboð um að nú eigi að auka eingöngu í sjávarútvegi, landbúnaði, ferðaþjónustu og áliðnaði? Ég held að það sé rangt val og ég held að það skipti mjög miklu máli að menn a.m.k. hafi trú á því sem þeir hafi sjálfir lagt fram og reyni að breikka grunninn fyrir góða afkomu íslenska ríkisins.

Varðandi lánasjóðinn höfum við vonandi tækifæri — ég hef óskað eftir því að fundað verði um það sérstaklega í allsherjar- og menntamálanefnd vegna þess að nú höfum við tíma. Ráðherra var rekinn til baka með lækkun sína sem hann ákvað að gera þrátt fyrir viðvörun fyrrverandi menntamálaráðherra um að ólöglegt væri að gera það með þeim hætti. Ég get fært fyrir því mikil rök að sú breyting sem gerð var á lánasjóðnum bitnar á ákveðnum hópum.



[17:09]
mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Það getur bara vel verið svo að okkur greini á, mig og hv. þingmann, um það hvaðan helst sé að vænta hagvaxtar í hagkerfinu og hvaða forsendur þurfi að vera fyrir því að hagvöxtur nái sér á strik. Ég er þeirrar skoðunar að það sé lykilatriði að skuldasöfnunin sé stöðvuð. Hún er efnahagsleg ógn við land okkar og það þarf að grípa þar í taumana með mun markvissari hætti en gert var í þeim fjárlögum sem lagt var upp með fyrir þetta ár og ljóst er í hvað stefndi ef staðið yrði við öll þau loforð sem gefin voru þar.

Ég vil líka benda á og það er sjálfsagt að halda því til haga að t.d. framlög til kvikmyndagerðar verða samkvæmt þeim samningi sem fyrrverandi ríkisstjórn gerði um hækkanir til þess málaflokks, við þann samning verður staðið. Framlagið verður hækkað um 70 milljónir eins og til stóð. Það er þá rétt að horfa á þróunina miðað við árið 2012 og sjá hvernig þessum sjóði miðar við það að við erum að auka framlögin þar inn til þess að efla kvikmyndagerð í landinu, til þess að skjóta undir hana styrkari stoðum.

Sama á t.d. við um Rannsóknasjóðinn. Það er ekki svo að allt það framlag sem lofað hafði verið til hans á grundvelli þess gjalds sem leggja átti á sjávarútveginn sem allir vissu að mundi ekki skila sér — meira að segja þeir sem lögðu það til áttuðu sig á því að það væri galli í því máli og það mundi aldrei skila tekjunum — verði fellt niður. Í því máli sem snýr að Rannsóknasjóðnum var samt sem áður ákveðið að standa við stóran hluta af þeirri hækkun sem lagt var af stað með vegna þess að það er samkomulag um og er fullur skilningur á því að mikil sóknarfæri felast í þeim sjóðum. Þess vegna viljum við efla þá, þess vegna hafa þeir verið efldir þó að þeir verði ekki efldir jafnmikið og lofað var í svokallaðri fjárfestingaráætlun.

Ég vil þá segja varðandi lokaorð hv. þingmanns varðandi lánasjóðinn að ég hlakka mjög til þeirrar umræðu í þeirri nefnd sem hv. þingmaður nefndi þar sem við getum þá farið vel í gegnum það mál allt saman. Ég held að það skipti máli.



[17:11]
Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég varð vör við það á síðasta kjörtímabili að núverandi hæstv. ráðherrar, sem þá voru hv. þingmenn í stjórnarandstöðu, trúðu mjög á mátt endurtekningarinnar. Ég sé að sú trú hefur ekki breyst því að við höfum hlustað hér á sömu ræðuna hjá hverjum einasta ráðherra. Á degi sem ætlaður er til að ræða sýn og stefnu í ólíkum málaflokkum eru þau svör sem við fáum ávallt þau sömu; að skuldasöfnun fyrri ríkisstjórnar sé málið og að hér sé stefnt að hallalausum fjárlögum. Ekki er rifjað upp að síðasta ríkisstjórn tók við ríkissjóði með 200 milljarða halla og gríðarlegt verk var unnið í því að taka á honum og ekki orð um það að núverandi ríkisstjórn hafi valið það sjálf og ákveðið að afsala almenningi þeim tekjum sem ráðist var í að byrja á strax á sumarþingi og haldið áfram með í þessum fjárlögum.

En ég ætla þó að gera tilraun til þess að spyrja hæstv. ráðherra nokkurra „konkret“ spurninga. Það kom ekki fram í máli hans en kemur þó fram í fjárlagafrumvarpinu að sú aukning sem þó verður í Rannsóknasjóð, sem er auðvitað miklu minni en áætluð var, 265 milljónum minni fyrir utan að 200 milljónir til markáætlunar, eru slegnar af. Í fjárlagafrumvarpinu kemur fram að ætlunin er að öll þessi aukning verði dregin til baka á næstu þremur árum. Miðað við langtímasýn og framtíðarstefnu ríkisstjórnarinnar er ekki áætlað að hafa neinn afgang hér 2013–2016 þannig að ekki eru ætlaðir neinir fjármunir til uppbyggingar.

Því vil ég spyrja hæstv. ráðherra: Hvað finnst ráðherra um að farið verði með Rannsóknasjóð til baka á þá krónutölu sem hann var í hruninu og að verðlagi að sjálfsögðu áratugi aftur í tímann? Er hann sáttur við að það sé 11% úthlutunarhlutfall úr samkeppnissjóðum eins og var áður en þessi aukning kom til í Rannsóknasjóð?

Spurning númer tvö snýr að hækkun og skrásetningargjöldum í Háskóla Íslands og aðra opinbera háskóla. Þau voru hækkuð hér, ekki í síðustu fjárlögum heldur þarsíðustu fjárlögum. Rökstuðningurinn á bak við þá hækkun er að gjöldin eigi að sjálfsögðu að snúast um raunverulegan kostnað, þau eru byggð upp á ákveðnum þáttum. Sú hækkun sem þá var ákveðin upp í 60 þús. kr. byggði á verðlagsforsendum á þeim þáttum sem gjöldunum er ætlað að greiða. Byggir þessi hækkun upp í 75 þús. kr. á þeim verðlagsforsendum? Getur ráðherra hæstv. svarað því?

Þriðja spurning: Í fylgiritinu með fjárlögum kemur fram að stefnt skuli að breytingum á rekstrarformum háskóla. Mig langar að inna hæstv. ráðherra eftir því hvaða ákvarðanir hafi verið teknar um breytingar á rekstrarformum háskóla.

Í fjórða lagi langar mig að spyrja hæstv. ráðherra hvernig nákvæmlega hann hyggist innleiða breytingar á fyrirkomulagi framhaldsskóla í samræmi við lögin frá 2008 ef öll framlög til innleiðingar nýrrar menntastefnu og nýrra námskráa eru slegin af og núlluð út í þessu fjárlagafrumvarpi. Hvernig nákvæmlega á að innleiða breytingar? Er afturhvarf frá þeim lögum sem flokkssystir hæstv. ráðherra, hæstv. fyrrverandi menntamálaráðherra, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, boðaði þegar hún lagði upp með fjölbreytni í framhaldsskólum og fjölgun á námsbrautum til þess að mæta þörfum einstakra nemenda?

Ég vona að hæstv. ráðherra ráði við að svara þessum örfáu spurningum.



[17:15]
mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessar spurningar, þær eru afmarkaðar og greinargóðar. Ég hlífi þá þingmanninum við ræðu um ríkisfjármálin almennt úr því að um það var beðið. Varðandi langtímaþróunina er settur upp þessi ferill í fjárlögunum, þ.e. að öllu öðru óbreyttu munu framlögin þróast svona þannig að áhrif fjárfestingaráætlunarinnar eru sköluð niður með þessum hætti. Það breytir því ekki að það er þá sjálfstæð ákvörðun sem taka þarf í framhaldinu hvernig staðið verður að mögulegri aukningu til þessara sjóða. Þarna er einungis verið að leggja upp hvernig þessi sérstaka fjárveiting verður sköluð niður. Ég er auðvitað þeirrar skoðunar að þetta eigi að auka á næsta ári, ég tel það mjög mikilvægt.

Varðandi innritunargjöldin í háskóla er rétt að greina frá því að ég kallaði eftir því við rektora hinna opinberu háskóla að fá frá þeim mat sérstaklega um hver þessi kostnaður yrði. Ég lét það reyndar fylgja að ég mundi fallast á þá niðurstöðu sem kæmi frá háskólunum. Ég tel rétt að það sé þeirra að ákveða þetta, að það sé þeirra mat sem gildir. Það liggur fyrir með bréfi sem ég fékk sent frá háskólarektorunum þar sem kemur fram að samkvæmt tölum frá Háskóla Íslands mætti reikna með því að talan þar væri u.þ.b. 75 þús. kr. og Háskólinn á Akureyri einhvers staðar í kringum 80 þús. kr. Niðurstaðan er því sú að leggja til 75 þús. kr. innritunargjald. Því fylgdi síðan rökstuðningur frá skólunum um kostnaðinn. Ég tel enn og aftur rétt að ráðherrar grípi ekki þarna inn í, ég tel rétt að háskólarnir hafi fullt forræði yfir þessu máli.

Ég svara hinum spurningunum í næstu ræðu minni, virðulegi forseti.



[17:17]
Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra þessi svör. Við munum að sjálfsögðu kynna okkur þau gögn sem háskólar landsins hafa sent hæstv. ráðherra um þessa hækkun á skrásetningargjöldum.

Mig langar að bæta því við hvort hæstv. ráðherra hyggist þá ekki beita sér fyrir því að samkeppnissjóðir á sviði vísinda verði efldir. Hann svaraði reyndar ekki þeirri spurningu minni hvort hann teldi 11% úthlutunarhlutfall ásættanlegt. Ég ætla að leyfa mér að svara þeirri spurningu sjálf. Það er alveg ljóst að eins og staðan var orðin í samkeppnissjóðum með 11% úthlutunarhlutfall er verið að hafna afskaplega mörgum góðum verkefnum sem eru verðmætaskapandi fyrir samfélagið, sem eru atvinnuskapandi fyrir samfélagið. Eðlilegt úthlutunarhlutfall úr svona sjóðum er 20–25% og ég gæti trúað því að ef hæstv. ráðherra mundi nú rýna í þá aukningu sem varð hér á þessum sjóði þá mundi hún líklega duga til þess að ná einmitt í neðri mörkin á slíku úthlutunarhlutfalli.

Mig langar til að bæta við einni spurningu og hæstv. ráðherra mun svo væntanlega svara þeim ákvörðunum sem teknar hafa verið um rekstrarform háskóla og hvernig nákvæmlega eigi að innleiða nýja menntastefnu. Mig langar að bæta við einni spurningu í ljósi þess að sú aukning sem sett var í verkefnasjóði skapandi greina er núlluð út í fjárlagafrumvarpinu og þar með talið er þá núllað út framlag í nýjan myndlistarsjóð, lögbundinn, sem samþykktur var hér á þingi samhljóða: Hvernig ætlar hæstv. ráðherra að sjá til þess að lögum í landinu verði fylgt og myndlistarsjóður verði fær um að úthluta?

Ég vil líka spyrja hæstv. ráðherra um afstöðu hans til hönnunarsjóðs sem nú nýlega var úthlutað úr, en eins og hæstv. ráðherra er kunnugt og væntanlega fleiri hv. þingmönnum eru opinber framlög til hönnunar hvað lægst þegar við skoðum framlög til hinna skapandi greina. Þar er gríðarlegur vaxtarsproti og við sjáum að þau framlög sem eru sett í hinn listræna þátt skila sér margfalt til baka því að það er grunnurinn sem þarf til að halda áfram, til að fara út í framleiðslu á íslenskri hönnun sem við dásömum nú gjarnan í þessum sal. Hvernig sér hæstv. ráðherra fyrir sér sína aðkomu að málefnum hönnunar til að efla hér hönnun?



[17:19]
mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Þar sem áréttað var og athugasemdir gerðar um innritunargjöldin er rétt að halda því til haga að sé litið til innritunargjaldanna árið 2005 og þau síðan verðbætt til dagsins í dag ættu þau að standa í 78.501 kr., en tillagan er 75 þús. kr. og er hún fengin frá háskólanum sjálfum.

Hvað varðar breytt rekstrarfyrirkomulag háskólanna hef ég sagt það opinberlega oftar en einu sinni og oftar en tvisvar að ég tel að það sé fullmikið í lagt fyrir 320 þús. manna samfélag að halda úti sjö háskólum. Það er töluverð vinna að skoða það. Það tilheyrir líka spurningunni um rekstrarformið, hvaða rekstrarform er heppilegt fyrir þá skóla sem eiga að vera hér starfandi er farið verður í einhvers konar sameiningar eða aukna samvinnu þeirra skóla sem fyrir eru. Meira get ég ekki sagt um það í bili, virðulegi forseti.

Hvað varðar innleiðingu breytinga í framhaldsskólana er alveg hárrétt að það þýðir auðvitað að ef minni fjármunir eru til verksins hægist á því. Þá verð ég líka að segja, virðulegi forseti, að það sem er reynt að gera með þessu frumvarpi er að verja grundvallarstarfsemina, verja starfsemina sjálfa. Þess vegna eru framlög til framhaldsskólanna ekki lækkuð. Þetta er í fyrsta sinn síðan 2007 sem framlög til framhaldsskólanna eru ekki lækkuð. Auðvitað breytast þau milli skóla vegna breytinga á nemendafjölda og slíku, en heildartalan fyrir framhaldsskólana var ekki skert núna. Það er í fyrsta sinn síðan 2007 og það er mjög ánægjulegt. Það gerir það að verkum að ýmis önnur verkefni sæta um leið líka niðurskurði.

Hvað varðar myndlistarsjóðinn er það alveg rétt sem hv. þingmaður benti á að hann er á núlli. Það eru lög um þennan sjóð. Sjóðurinn er áfram til samkvæmt lögum þó að ekki sé útdeilt úr honum. Það er ekki í honum fjármagn en sjóðurinn sjálfur er til, um það fjalla lögin. Það er það sem skiptir máli þar.

Hvað varðar hönnunarþáttinn er það alveg rétt að það sama gildir og um hina sjóðina – þeir fara á núll núna. Ég hafði það sem lokaorð í ræðu minni hér áðan að auðvitað vænti ég þess að þegar hagur þjóðarinnar fer að eflast myndist fyrir okkur tækifæri til þess að bæta þar í og það verði sem fyrst.



[17:22]
Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Hér ræðum við frumvarp til fjárlaga sem lagt var fram síðastliðinn þriðjudag. Eins og við er að búast sýnist sitt hverjum enda ómögulegt að gera öllum til hæfis jafnvel þótt við hefðum úr mun meiri fjármunum að spila en raunin er. Lykilatriði er að ná þeim mikilvæga áfanga að stöðva skuldasöfnun ríkissjóðs en halda jafnframt úti mikilvægri grunnþjónustu um land allt.

Umræðan um fjárlögin hefur að mörgu leyti vakið furðu mína, þ.e. hve upphrópunarkennd hún er. Það markast nokkuð af framsetningu þar sem erfitt er að nálgast samanburð aftur í tímann eða öðlast yfirsýn. Ég er því mjög ánægð með að hæstv. fjármálaráðherra kynnti í gær að unnið væri að frumvarpi um opinber fjármál með það að markmiði að tryggja vandaðan undirbúning stefnumörkunar í opinberum fjármálum og aukinn aga og festu. Slík vinna verður vonandi grundvöllur fyrir hnitmiðaðri umræðu um ríkisfjármál og efnislegri umræðu um heildarframlög til málaflokka.

Hér ræðum við sérstaklega þann hluta fjárlaga sem heyrir undir mennta- og menningarmálaráðuneyti. Það er vissulega margt sem vekur athygli og langar mig að koma inn á nokkur atriði og óska eftir skýringum frá hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra.

Fjármagn sem ætlað var til verkefnisins Nám er vinnandi vegur hefur nú verið skorið niður um 400 milljónir. Er það mat hæstv. ráðherra að ekki sé lengur þörf á úrræðinu eða er þessi leið að fullu nýtt og kannski kominn tími til að huga að öðrum verkefnum?

Dregið er úr framkvæmdum við framhaldsskóla. Þótt það sé ekki góður kostur er það samt mun betra en að herða enn að rekstri skólanna. Mig langar þess vegna að spyrja sérstaklega um framkvæmdir við Fjölbrautaskóla Suðurlands sem ekki er á fjárlögum. Höfum við hætt við það verkefni eða verður því frestað?

Hjá háskólunum vekur það sérstaka athygli að framlög til háskólanna á Bifröst og á Hólum eru skert verulega. Hver er ástæðan fyrir því?

Gert er ráð fyrir að útgjöld til ýmissa íþróttamála hækki. Þar vekur athygli mína 15 millj. kr. hækkun til ferðasjóðs Íþróttasambands Íslands. Þessi hækkun er gríðarlega mikilvæg fyrir íþróttafélög sem þurfa að ferðast langar leiðir vegna æfinga og keppni. Hversu mikil er þessi hækkun hlutfallslega og hver verður heildarupphæðin í ferðasjóðnum?

Framlag til jöfnunar námskostnaðar lækkar að því er mér virðist. Á því virðist vera rökrétt skýring sem er þó erfitt að átta sig á út frá þeim gögnum sem ég hef undir höndum. Mig langar því að biðja hæstv. ráðherra að skýra það mál frekar.



[17:25]
mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Fyrst hvað varðar Nám er vinnandi vegur þá er rétt að vekja athygli á ákveðinni staðreynd: Nemendaþróunin sem hér er um að ræða eða fjöldi nemenda sem um ræðir er inni í þessum átökum. Annars vegar eru nemendur sem hafa gert námssamning við VMST. Þróunin þar hefur verið sú að haustið 2011 var um að ræða 496 nemendur. Haustið 2013 níu. Það hefur orðin veruleg breyting þar á. Hins vegar hvað varðar nemendur á aldrinum 18–24 ára var skapað svigrúm til að mæta umframársnemendum. Þegar við skoðum þá þróun var hún þannig að þeir skólar sem tóku við þessum hópum, sem voru eingöngu fjölbrautaskólar með mikið starfsnám, sýndu á árinu 2012 samkvæmt áfangalistum 516 umframnemendur. Núna á vorönn 2013 voru þeir komnir niður í 145. Það er rétt að hafa þessa tölfræði í huga þegar við ræðum verkefnið Nám er vinnandi vegur, þ.e. þessar breytingar, annars vegar úr 496 nemendum niður í níu og hins vegar úr 516 niður í 145.

Ég lagði mikinn metnað í það að þurfa ekki að skera niður rekstur framhaldsskólanna. Það var grundvallaratriði. Þetta er í fyrsta sinn síðan 2007 sem það er ekki gert.

Virðulegi forseti. Hvað varðar Fjölbrautaskólann á Suðurlandi er hér um að ræða frestun. Það er ekki verið að slá verkefnið af, það er verið að fresta því.

Hvað varðar Hóla er staðan sú að Hólar fá það framlag sem þeim ber samkvæmt því reiknilíkani sem gildir um dreifingu fjármuna á milli háskólanna. Það falla niður tímabundin framlög eins og vera ber þannig að framlagið er bara í samræmi við reiknilíkanið.



[17:27]
Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra greinargóðar skýringar en vænti þó svara við spurningunum sem eftir standa og langar að bæta við einni spurningu.

Aðgengi að háskólum í fjarnámi er gríðarlega mikilvægt og ekki síst í ljósi þess að samkvæmt gögnum frá Hagstofu Íslands hafa 40,9% íbúa á aldrinum 25–64 ára á höfuðborgarsvæðinu lokið háskólanámi en einungis 24,7% íbúa utan höfuðborgarsvæðisins. Mig langar að spyrja hver staðan er varðandi framlög til fjarkennslu fræðsluaðila sem bjóða aðgengi að námi á háskólastigi.

Fjárlögin eru niðurstaða vinnu sem mest hefur farið fram innan ráðuneyta undir forustu ráðherra og þeirra vinna byggir að sjálfsögðu á stjórnarsáttmálanum. Stjórnarflokkarnir hafa samþykkt að leggja fjárlögin fram og nú liggur fyrir nokkurra vikna vinna þingsins við að fara yfir fjárlögin og draga fram veikleika og styrkleika. Við þá vinnu finnst mér brýnt að skoða sérstaklega heildaráhrif fjárlaganna, þar á meðal áhrif á íbúa eftir landshlutum. Ég vil taka það sérstaklega fram að margt af því sem komið hefur fram í umræðu um fjárlögin síðustu daga og talið hefur bitna á landsbyggðinni sérstaklega er ekki þannig þegar nánar er skoðað. Flest hagsmunamál í fjárlögunum eru sameiginleg landsbyggð og höfuðborgarsvæði.



[17:29]
mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Varðandi ferðasjóðinn. Upphæðin nam 70 milljónum, verður 85 milljónir, sem jafngildir hækkun um liðlega 21%. Þetta er mjög ánægjuleg hækkun. Þetta skiptir máli fyrir íþróttafélögin, einkum og sér í lagi úti á landi.

Hvað varðar aðgengi til fjarnáms þá er ekki um að ræða neina lækkun á þeim fjárframlögum umfram aðhaldskröfuna sem gerð hefur verið. Það má alveg ljóst vera að mikil sóknarfæri eru fyrir okkur á næstu árum að auka þessa þjónustu. Sérstaklega skiptir það máli fyrir hinar dreifðu byggðir að geta notið þessa sem best.

Ég vona að ég sé að grípa þau atriði sem hv. þingmaður hafði … (LínS: … jöfnun námskostnaðar.) — jöfnun námskostnaðar, það var það sem mig vantaði, virðulegi forseti. Þar var engin breyting á í sjálfu sér nema bara aðhaldskrafan, ef ég man rétt. Það kann að vera að það sé svolítið erfitt að lesa þetta út úr fjárlagafrumvarpinu sjálfu en ég held að það sé annars vegar hagræðingarkrafan og hins vegar verðlagsbæturnar sem koma á móti. Það þýðir lækkun upp á 8,8 milljónir sem aðhaldskrafan var, svo koma verðbæturnar þar á móti. Ég held að það ætti að svara fyrirspurninni.



[17:30]
Páll Valur Björnsson (Bf):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér um menntamálin í fjárlagafrumvarpinu. Ég verð að segja að mér finnst það frekar sorglegt, allt það sem hér hefur verið lagt fram. Það er svolítið sjokk að sjá hversu hart er gengið fram í niðurskurði og ekki síst í menntamálum. Ég hef alltaf verið þeirrar trúar og maður hefur hlustað á þetta í gegnum tíðina hjá stjórnmálamönnum, ekki bara á Íslandi heldur alls staðar, að ef það er kreppa verja menn menntakerfið og heilbrigðiskerfið fram í rauðan dauðann.

Ég hef líka tekið eftir því á undanförnum árum að það er alltaf niðurskurður til menntamála, nánast endalaust verið að skera niður. Maður veltir því fyrir sér hvernig sé fyrir fólk að vinna í svona starfsumhverfi þar sem er endalaust skorið niður. Það þarf ekki annað en að lesa fjölmiðla undanfarna daga til að sjá að það eru nánast allir í sjokki.

Mig langar að lesa smáblogg sem ég las á netinu, það er frá því daginn fyrir kosningar, með leyfi forseta:

„Auðlind skapar auðlind. Við skulum muna að verðmæti auðlinda okkar byggir fyrst og síðast á þekkingu okkar og vísindum. Með aukinni þekkingu finnum við nýjar og betri leiðir til að nýta auðlindirnar og þess vegna skiptir öllu máli á næstu árum og áratugum hvernig okkur gengur að efla vísindi og menntun í landinu. Jafnframt er það svo að verðmæti auðlinda okkar munu vaxa jafnt og þétt vegna þeirrar starfsemi sem tengist auðlindanýtingunni. Dæmi um þetta er til dæmis allur sá iðnaður sem sprottið hefur upp í kringum sjávarútveginn, fjöldi iðnfyrirtækja hefur náð að þróa vörur á innanlandsmarkaði sem hægt er að flytja út á alþjóðlegan markað. Það er því mikilvægt að horfa til þess að auðlindir geta skapað samkeppnisforskot fyrir margs konar afleiddan iðnað á alþjóðlegum mörkuðum. Sérþekking sem fæst á heimamarkaði verður að verðmætri útflutningsvöru ef rétt er haldið á málum.

Menntun er grundvöllur nýtingar. Mikilvægasta efnahagsmál þjóðarinnar er því í raun menntakerfið okkar. Með því að fjárfesta í menntun og vísindum mun okkur auðnast að auka verðmæti auðlinda okkar jafnt og þétt og þannig tryggja þjóðinni lífskjör sambærileg við það sem best þekkist. Því miður hefur ekki verið mikið rætt um menntamál í þessari kosningabaráttu, önnur mál hafa tekið allt sviðið. En það er sama hvaða flokkar mynda næstu ríkisstjórn, menntamál þurfa að vera í forgrunni stjórnarstefnunnar. Menntamál eru nefnilega atvinnumál og menntamál snúast um lífskjör þjóðarinnar til framtíðar. Við eigum því að hætta að tala um hvað við eyðum í menntun þjóðarinnar og tala heldur um fjárfestingu okkar í menntun.“

Ég er alveg fullkomlega sammála þessu bloggi. Þetta blogg skrifaði hæstv. menntamálaráðherra daginn fyrir kosningar. Maður sem skrifar svona og verður síðan menntamálaráðherra hlýtur að verja menntakerfið með öllu sem hann getur — öllu — og skera ekki niður þar sem komið er inn að beini.

Þetta er sorglegt. Ég skil samt vel þá stöðu sem ríkisstjórnin er í. Þetta er ekkert auðvelt. Ég öfunda ekki hæstv. menntamálaráðherra að þurfa að taka á þessum málum. En við eigum, það er skylda okkar, að verja menntakerfið algjörlega. Ég held að það sé kominn tími til þess að fara að stoppa niðurskurð þar þótt illa ári og hallarekstur sé mikill.

Ég spyr hæstv. menntamálaráðherra: Er hann ekki sammála mér í því?



[17:34]
mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla að byrja að taka undir þau ummæli sem hv. þingmaður vitnaði í, þ.e. mín eigin. Skoðun mín hefur í engu breyst hvað þetta varðar. Ég er jafn sannfærður um það sem hv. þingmaður vitnaði í eins og daginn sem ég skrifaði þetta. Meðal annars er það þess vegna sem ég lagði mikla vinnu í að tryggja t.d. að ekki yrði haldið áfram að skera niður hjá framhaldsskólum, í rekstri þeirra. Þetta er fyrsta árið frá því 2007 þar sem reksturinn er ekki skorinn niður. Enn og aftur, vitanlega breytist framlagið til einstakra skóla vegna nemendaþróunar, fjárfestinga og annars slíks, en þetta er staðreyndin. Það er verið að stöðva þessa þróun og segja hingað og ekki lengra, við skerum ekki meira niður í framhaldsskólunum.

Hvað varðar háskólana er alveg rétt að sett er niðurskurðarkrafa á þá. Þeir geta reyndar núna að fullu innheimt kostnað við innritun og þurfa þá náttúrlega ekki að nota fjármuni ríkisins til þeirra hluta eins og áður var. Þannig að mér telst svo til hvað varðar Háskóla Íslands að niðurskurðarkrafan á hann verði í kringum 0,5% í staðinn fyrir 1,5% sem annars hefði verið.

Aðalatriðið í því sem ég hef lagt upp með er að verja kjarnann, að verja starfsemina, neita mér um ýmislegt þar sem er spennandi og skemmtilegt en nýtt, geyma mér það og vonast til að ráðast í það á næstu árum þegar hagur ríkissjóðs vænkast. Það er mín stefna í þessu, að ganga ekki lengra í niðurskurðinum.

Ég bendi á, virðulegi forseti, að dæmi eru um það á nýliðnum árum að þegar litið var á krónutöluna í niðurskurði í rekstri framhaldsskólanna og síðan krónutöluna til nýrra verkefna á sama ári í sömu fjárlögum var það svipuð tala. Með öðrum orðum, það er verið að grafa innan úr kerfinu og bæta síðan utan á það. Það er ég ekki að gera. Ég er að reyna að verja kjarnann, reyna að verja það sem mestu máli skiptir, neita mér um hið nýja. Það er ekki skemmtilegt, virðulegi forseti. Það er vel hægt að lesa svona greinar eins og hér var gert. Ég kveinka mér (Forseti hringir.) ekki undan því af því ég er jafn sammála þeim orðum og ég var þegar ég ritaði þau.



[17:36]
Páll Valur Björnsson (Bf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. menntamálaráðherra fyrir þetta svar. Nú er ég nýr þingmaður eins og margoft hefur komið fram og að lesa fjárlögin er náttúrlega næstum því eins og að lesa kínversku þegar maður er svona óvanur því. Það sem slær mann er að í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er talað um að leggja eigi gríðarlega áherslu á skapandi greinar og menntamál, hafa samráð við hagsmunaaðila í öllu sem viðkemur því að efla menntun og taka ákvarðanir í menntamálum. Það virðist bara ekkert hafa verið gert.

Menn berja sér á brjóst í ræðum á hátíðarstundum og hvenær sem er og segjast ætla að gera hitt og þetta en meina svo allt annað. Það sem er kannski enn þá grátlegra við þetta frumvarp er að niðurskurður í menntakerfinu var aldrei nefndur í kosningabaráttunni og ekki heldur í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Í stefnuræðu hæstv. forsætisráðherra lagði hann mikla áherslu á menntun sem lykilatriði í að rífa allar þjóðir upp þegar kreppur eru.

Ég hef líka sagt eins og ég sagði áðan að ég skil vel að það þarf að ná niður hallarekstrinum til að hægt sé að byggja upp, en við höfum nóg önnur tækifæri til þess. Eins og var nefnt fyrr í dag með tekjuskattslækkunina sem á að skila 5 milljörðum — ég er alveg viss um að almenningur mundi vera tilbúinn að sleppa þeirri tekjuskattslækkun sem er náttúrlega nánast engin hvernig sem á hana er litið.

Þetta er bara 1. umr. um fjárlagafrumvarpið. Ég veit að það tekur alltaf miklum breytingum. Ég treysti því að við náum að minnka þetta rothögg eða það kjaftshögg sem mennta- og menningarmál fá í frumvarpinu, því þannig er það. Ég mun leggja mitt af mörkum til þess, ekki spurning.



[17:38]
mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Úr því að hv. þingmaður lýsti tilfinningum sínum svo að það að lesa fjárlögin væri eins og að lesa kínversku er rétt að vekja athygli á því, og það er ágætt, að við bætum við 3 millj. kr. til Árnastofnunar til að hægt sé að halda úti kennslu í erlendum tungumálum og þá kínversku, þannig að það gaf mér ágætt tækifæri til að minnast á það.

Það er reyndar líka rétt að nefna að við setjum 300 millj. kr. í aldarafmælissjóð Háskóla Íslands eins og fyrirhugað hafði verið og staðið er við það. Enn og aftur, ef við horfum til ársins 2012 aukum við verulega og myndarlega framlagið til Rannsóknasjóðs. Við stöndum við fyrirhugaða hækkun sem var ákveðin varðandi Kvikmyndasjóð og þar eru settar þær 70 milljónir sem lofað var í því samkomulagi sem var á milli stjórnvalda og kvikmyndagerðarinnar.

Aðalatriðið er, virðulegi forseti, og það er það sem skiptir verulegu máli, og þess vegna skil ég ekki alveg hvers vegna hv. þingmaður kýs að leggja þetta upp sem rothögg á menntakerfið, að núna í fyrsta sinn, enn og aftur, frá því 2007 er niðurskurðurinn í framhaldsskólunum, í rekstri þeirra, stöðvaður. Ég veit, virðulegi forseti, og vísa til orða hv. þingmanns sjálfs að honum finnst eins og hann sé að lesa kínversku þegar hann les fjárlögin, en ef hann gefur sér góðan tíma og fer í gegnum framhaldsskólaliðinn þá blasir þetta við. Þá blasir auðvitað við sú stefnumótandi breyting sem orðin er.

Það þýðir, virðulegi forseti, líka að við höfum þurft að neita okkur um ýmis þau verkefni sem spennandi eru og nauðsynleg og geta horft til framfara í landinu. Það er vissulega svo. Ég vonast til að hægt verði að ráðast í þau á næstu árum. En það skiptir máli að snúa við þeirri þróun sem ég lýsti áðan hvað varðar sérstaklega framhaldsskólann. Þar var búið að skera niður, inn að beini. Ég veit að það var ekki gert vegna þess að fyrrverandi ráðherra eða ríkisstjórn langaði til þess. En það varð að gera, það var verið að reyna að ná tökum á rekstri. Núna er þetta svona.

Ég bendi á, virðulegi forseti, þegar um er að ræða fjármuni til þessa og hv. þingmaður nefndi hér einn skatt, að núna var þó lagður á þessi bankaskattur (Forseti hringir.) og hann hleypur á mjög háum fjárhæðum sem skiptir verulega miklu máli fyrir okkur til að komast réttum megin við núllið.



[17:40]
Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Ég fór á áhugavert pallborð í kosningabaráttunni þar sem stjórn Vísindafélags Íslendinga og Félags prófessora við opinbera háskóla spurði stjórnmálaflokkana út í meðal annars þessa nýju skýrslu sem hún lét gera og kom út í desember 2012 um nýja sýn – breytingar á vísinda- og nýsköpunarkerfinu. Þar kemur svo réttilega fram, með leyfi forseta:

„Mannauður er ein mikilvægasta auðlind Íslendinga. Aukin verðmætasköpun til framtíðar mun byggjast á því að þessi auðlind sé virkjuð með markvissum hætti.“

Þá er spurningin: Er heildstæð sýn á bak við þennan niðurskurð sem á að fara í í menntakerfinu þar sem vegnir eru og metnir kostir og gallar og horft til framtíðar í þessum málum þannig að það sé ekki verið að pissa í skóinn sinn, ekki verið að spara sér eitthvað núna sem skaðar meira til framtíðar. Er sú sýn aðgengileg fyrir almenning þannig að við getum þá skilið hvers vegna verið er að skera niður hér en ekki þar og hvernig þetta spilar allt saman til þess að bæta menntun Íslendinga, bæta mannauð á Íslandi sem skapar okkur tækifæri, verðmæti og velmegun?

Svo langar mig, fyrst ég hef þennan tíma, að benda á verkefnið code.org sem er verkefni vestan hafs um að forritun sé kennd á öllum grunnskólastigum. Verkefnið er stutt af stofnendum stærstu tæknifyrirtækja heims, Bill Gates, Mark Zuckerberg o.fl. Er þetta ekki eitthvað sem hægt er að setja svolítið í forgrunn? Það er nákvæmlega þarna sem verðmætasköpun er hvað gríðarlegust og ég held að stysta háskólanám á Ísland sé í tölvunarfræði. Menn eru gripnir af fyrsta eða öðru ári beint inn í atvinnulífið að skapa verðmæti þannig að þetta er kannski eitthvað til að hugsa um.

Ég nota svo hina ræðuna í önnur atriði sem ég á eftir.



[17:43]
mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegur forseti. Hvað varðar framtíðarsýn ítreka ég að þegar horft er til ýmissa málaflokka, t.d. á menningarsviðinu og listasviðinu, er rétt að hafa sem viðmiðunarár árið 2012. Í það minnsta tel ég málefnaleg rök fyrir því. Það má ljóst vera að sú mikla innspýting sem varð 2013, átti að vera 2014, átti sér grundvöll í veiðileyfagjaldinu sem lá fyrir að mundi ekki, þó að lagt yrði á í óbreyttri mynd, skila þeim tekjum sem ætlast var til. Þegar menn horfa til baka til ársins 2012 og þeirrar þróunar sem við erum þá með sjá menn að það er verið að bæta í frá því ári og sums staðar allverulega. Það er bara ekki staðið við þau loforð og þær væntingar sem var búið að gefa.

Hvað varðar sýnina á þá stöðu sem er uppi núna hef ég lýst henni þannig áður að hún sé um að reyna að verja eftir mætti kjarnastarfsemina. Ég hef bent sérstaklega á framhaldsskólann en sama gildir líka með aðra þætti. Þess vegna hef ég frekar viljað slá nýjum verkefnum á frest.

Hvað varðar heildarsýnina á skólakerfið hef ég á undanförnum vikum og mánuðum reifað hugmyndir um breytingar í grundvallaratriðum hvað varðar framhaldsskólann, styttingu náms til stúdentsprófs, og hef bent á að við erum eina þjóðin innan OECD sem er með 14 ára námsferil fram að stúdentsprófi og tel rétt að endurskoða það. Ég hef líka reifað hugmyndir og lagt ákveðnar línur hvað varðar þróun háskólastarfsins, þá skoðun mína að það gangi ekki fyrir okkur og sé ekki eðlilegt að vera með sjö sjálfstætt starfandi háskóla hjá 320 þús. manna þjóð. Þetta ásamt mörgu öðru myndar grunninn að þessari framtíðarsýn sem hv. þingmaður var að kalla eftir. Ég held að við séum síðan öll sammála um mikilvægi þessa málaflokks. Það er spurningin hvernig við komumst í gegnum þennan skafl núna og vonandi síðan erum við að horfa fram til tíma (Forseti hringir.) sem skilar okkur meiri tekjum og við getum haldið áfram að byggja upp.



[17:45]
Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Ég ætla að nota þetta tækifæri til að kalla eftir upplýsingum um hvar hún sé aðgengileg. Ég mundi endilega vilja sjá þessa framtíðarsýn á blaði, sjá hana einhvers staðar — eða í tölvunni náttúrlega, ef hún væri á tölvutæku formi væri það enn þá betra og ef það væri gert gagnvirkt væri það enn þá betra, en að fá að sjá þessa framtíðarsýn og hvernig þessir hlutir eru vegnir og metnir. Ég held að það skipti fólk gríðarlegu máli að sjá þá. Ef fólk sér það skilur það hvað er í gangi, hvað er verið að fara, hverju að fórna og hvað við fáum í staðinn.

Ein hugmynd inn í þetta sem gæti sparað okkur gríðarlega mikið er þessi bylting sem á sér núna stað í menntun í heiminum í dag, svokallað MOOC, þ.e. „Massive Open Online Courses“, sem er það að fólk getur skráð sig hjá meðal annars stærstu háskólum heims, MIT, Harvard o.fl., skráð sig í námskeið á netinu og tekið þau á netinu. Háskólar úti um allan heim eru byrjaðir að veita einingar fyrir þá sem klára slík námskeið. Þarna getur fólk setið heima hjá sér eða í vinnunni, eins og á malbikinu hjá mér, og aflað sér menntunar sem er síðan verðmætaskapandi í framtíðinni.

Það væri áhugavert að heyra hvort þetta rúmast innan þessarar stefnu.



[17:47]
mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég hlakka til að eiga orðastað áfram við þingmanninn um þessi mál. Hann er hér að lýsa breytingum sem ég er sammála honum um að munu gerbylta menntakerfinu. Fram undan eru á næstu árum og sennilega áratugum þannig breytingar að í stað þess að við notum nýja tækni inn í menntakerfið munum við byggja menntakerfið á nýrri tækni. Á því er grundvallarmunur. Hann felst meðal annars í því sem hv. þingmaður lýsti áðan og hér sjáum við einungis fyrstu skrefin.

Þetta mun hafa veruleg áhrif á námsframboð. Það mun hafa áhrif á það hvernig við kostum menntakerfið og á hvað við leggjum áherslu. Þetta hefur áhrif á það hvernig við menntum kennaranemana okkar, þá sem eiga að fara að kenna börnunum á öllum skólastigum, hvernig við nýtum þá best tæknina og hvernig við byggjum skólakerfið upp á nýrri tækni. Þetta er mjög spennandi umræðuefni og mjög spennandi framtíð sem við okkur blasir. Hún er alþjóðleg í eðli sínu. Ég veit til þess nú þegar að nemendur við háskólana hér eru um leið að fylgja eftir sambærilegum kúrsum við bestu háskóla í heimi þar sem verið er að kenna sömu atriðin og eru þess vegna að nýta sér ókeypis námsframboð þar. Enn og aftur, þetta er grundvallarbreyting.

Hvað varðar aðgengi að framtíðarsýninni kemur hv. þingmaður hér með ágætar ábendingar. Ég skal játa að ég er kannski svolítið gamaldags með það að ég hef reynt að tjá mig bara sem mest á fundum og reyni að fara sem víðast, hitta sem flesta til að ræða mína sýn, en það er kannski alveg komið að því að taka þetta betur saman. Ég get sagt hv. þingmanni að innan míns ráðuneytis hefur á undanförnum vikum verið unnið að hvítbók sem er þá einhvers konar rit sem hægt er að leggja til grundvallar frekari samræðu um nauðsynlegar breytingar á menntakerfi okkar.

Ég minntist áðan til dæmis á þá staðreynd að við Íslendingar, einir þjóða í OECD, tökum 14 ár í að undirbúa okkar krakka fyrir háskólanám. Það eitt og sér (Forseti hringir.) ætti að vekja marga til umhugsunar.



[17:49]
Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að fagna nýja fyrirkomulaginu á umræðu um fjárlögin. Það er afskaplega gott fyrirkomulag og mér sýnist það vera mjög málefnalegt, það verður miklu málefnalegra og menn fá svar frá viðkomandi ráðherra beint í æð.

Mér finnst mjög mikilvægt með frumvarpið að afgangnum, hálfum milljarði, sé haldið í meðförum þingsins vegna þess að við erum að borga 85 milljarða í vexti, eins og bent hefur verið á, og það er ekki nóg að halda fjárlögin heldur verður ríkisreikningurinn að vera í samræmi við fjárlögin. Undanfarin ár, 2009–2011, gerðist það ekki. Það vantaði 101 milljarð, ríkisreikningur var þeim mun hærri eða hallinn meiri en í fjárlögum og fjáraukalögum. Nú er ég ekkert að draga úr því að fyrri ríkisstjórn hafi átt við mjög ramman reip að draga og hún hafi þurft að lyfta grettistaki. Ég tel reyndar að hún hafi farið rangt að, í staðinn fyrir að reyna að skatta þjóðina út úr kreppunni átti hún að reyna að stækka stofnana. Hún gerði það ekki.

Mig langar til að spyrja út í menntamálin. Ég tel að þegar það er kreppa eigi menn að fjárfesta í menntun. Það er leiðin út úr kreppunni, að fjárfesta í menntun. Mér sýnist hæstv. ráðherra einmitt vera á þeirri línu, hann vill ekki skera niður. Hann hefur líka sagt að hann vilji stytta nám og ég er mjög hrifinn af því. Það eru 4.400 manns í árgangi, að minnsta kosti 4.000 manns í hverjum árgangi í framhaldsskólunum. Ef við reiknum kostnaðinn á hvern nemanda eru það 4–5 milljarðar sem hægt væri að spara með því að stytta námið. Fjöldi fólks, allir þeir kennarar sem sumir hverjir vinna alveg frábært starf í skólunum, það væri hægt að gera vel við þá og veita þeim viðurkenningu fyrir gott starf.

Það sem mig langar til að spyrja er um RÚV. Þar á að auka kostnaðinn. Ég spyr: Er ekki eðlilegt að sama krafa sé gerð til RÚV og til dæmis til Landspítalans? Hægt væri að spara eins og einn milljarð þar og setja hann þá í Landspítalann og það breytti ekki fjárlögunum. Mig langar til að spyrja að því.

Svo er það eilífðardæmið sem Harpan er. Þarf ekki að fara að horfast í augu við þann vanda? Þarf ekki að fara að sýna þjóðinni að við eigum að borga þarna? Ég sem Reykvíkingur og skattgreiðandi í ríkinu borga báðum megin. Þarf ekki að fara að sýna að það dæmi kostar óhemju mikið og færa það til bókar? Það eru 670 milljarðar á ári núna og það er ekkert að verða búið.

Ég hvet hæstv. ráðherra til að standa að því að stytta námið vegna þess að ég held ekki að Íslendingar séu það heimskir að þeir þurfi að vera einu ári lengur að læra það sama og erlendar þjóðir.



[17:52]
mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Fyrst hvað varðar Ríkisútvarpið. Það er í sjálfu sér svolítið skiljanlegt að hér hafi myndast ákveðinn misskilningur um fjárhagsstöðu stofnunarinnar hvað varðar næsta ár. Þannig er að af þeim 715 milljónum sem stóð til að Ríkisútvarpið ætti að fá fær stofnunin einungis 215. Það er meðal annars til að koma til móts við það að gerðar eru breytingar á möguleikum Ríkisútvarpsins til að afla sér tekna á auglýsingamarkaði þannig að, og þar liggur undir mat stofnunarinnar sjálfrar, tekjumöguleikar hennar skerðast sem samsvarar um 395 milljónum. Sé horft til þess er um að ræða umtalsverðan niðurskurð til stofnunarinnar, þ.e. það eru umtalsvert minni fjármunir sem stofnunin hefur á milli handanna á næsta ári en á þessu. Það er því í sjálfu sér gerð mun ríkari aðhaldskrafa á Ríkisútvarpið en flestar aðrar stofnanir.

Nú kann að vera að menn hafi mismunandi skoðanir á því hversu heppilegt það er. Sumum finnst það of mikið, öðrum finnst það of lítið, en sú er staðan. Þess vegna er það rangt sem hefur komið fram í fjölmiðlum. En enn og aftur er skiljanlegt þegar menn hafa einungis texta fjárlagafrumvarpsins til að styðja sig við að þeir komist að þeirri niðurstöðu að um sé að ræða hækkun. Það er öfugt eða snýr nákvæmlega hinsegin, þ.e. um er að ræða skerðingu.

Hvað varðar framhaldsskólann og styttingu náms erum við sammála um það, ég og hv. þingmaður. Enn og aftur tel ég að færa þurfti alveg sérstök rök fyrir því ef Ísland á að halda áfram að hafa 14 ára nám fram að stúdentsprófi, eitt OECD-ríkjanna. Það er líka mjög áhugavert að fylgjast með og skoða tölur um það hversu lengi íslenskir námsmenn á framhaldsskólastiginu eru að klára það nám sem er sett fyrir og bera það til dæmis saman við önnur Norðurlönd og (Forseti hringir.) OECD. Því miður er staðan ekki okkur í vil, það verður að segjast eins og er. Þar er virkilega svigrúm til þess að bæta stöðu mála.



[17:55]
Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og hvet hann til þess að standa að því að stytta nám til stúdentsprófs. Ég er einnig mjög hlynntur þeim breytingum sem hann hugðist gera á úthlutunarreglum LÍN, að við gerum sömu kröfur til okkar fólks og gerðar eru í Skandinavíu. Ég skil ekki að það þurfi að gera minni kröfur til íslenskra ungmenna í sambandi við nám en annars staðar. Ég trúi því ekki að þess þurfi, rétt eins og með allt of langt nám.

Síðan langar mig að spyrja hæstv. ráðherra um brottfall úr skóla. Brottfall úr skóla er mikið mein, það brýtur niður fólk, það brýtur niður þá nemendur sem lenda í því og það er ekki bara í framhaldsskólanum. Kennarar í grunnskóla segja mér að þeir sjái strax hverjir muni flosna upp úr framhaldsskóla þannig að þetta er miklu lengra ferli. Ég skora á hæstv. ráðherra að vinna hart að því að koma í veg fyrir brottfall, í fyrsta lagi vegna þess að það kostar helling. Það hefur verið sköpuð aðstaða fyrir mann til að læra sem kostar helling, milljón á ári. Í öðru lagi er það hið sálfræðilega niðurbrot á viðkomandi einstaklingi sem ég held að sé mjög mikilvægt að koma í veg fyrir.

Ég skora því á hæstv. ráðherra að gera hvort tveggja. Ég held ég sé ekki með fleiri spurningar í bili nema um Hörpuna, hvort ekki þurfi að fara að horfast í augu við þann vanda og segja þjóðinni: Heyrðu, þetta kostar 700–800 milljónir á ári í 35 ár, reyndar eru ekki nema 30 ár eftir, þetta er bara kostnaður og hann er svo og svo margir tugir milljarða.



[17:57]
mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Hvað varðar kostnaðinn við Hörpuna get ég alveg verið sammála hv. þingmanni að nauðsynlegt sé að leiða fram allan þann kostnað sem þar er um að ræða. Það gildir um það mál eins og öll önnur mál þar sem ríki og sveitarfélög fara með skattfjármuni. Það er þó rétt að hafa í huga varðandi kostnaðinn að deilan er óleyst milli ríkisins og Reykjavíkurborgar hvað varðar fasteignagjöld, en ég er þeirrar skoðunar að auðvitað sé fráleitt að greidd séu full fasteignagjöld af þeirri byggingu.

Hvað varðar námið og styttingu þess svo og breytingar á námsfyrirkomulagi, og fyrst um háskólann af því að hann var nefndur hér, hlýtur að vera til umhugsunar fyrir okkur sú niðurstaða OECD að meðalaldur þeirra sem ljúka háskólanámi á Íslandi, BA- og BS-gráðu, sé 30,6 ár á meðan meðaltalið fyrir OECD-löndin er 26 ár. Það hlýtur að vera verulegt umhugsunarefni, virðulegi forseti.

Já, ég er mjög sammála hv. þingmanni að eðlilegt sé að gera sömu kröfu hér á landi um námsframvindu í háskólanámi og er gerð almennt á öllum Norðurlöndunum og var reyndar gerð hér þar til fyrir örfáum árum síðan. Ég held að það sé skynsamlegt og rétt tilhögun. Það er rétt að nefna sérstaklega af því að rætt var um það áður að ástæðan fyrir því að ekki var hægt að framkvæma það að þessu sinni var sú niðurstaða héraðsdóms að það hefði þurft að vera búið að ganga frá þeim breytingum fyrir 1. júní sem var auðvitað óframkvæmanlegt. Eftir stóðu tillögur fyrri stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna um fleiri hundraða milljóna króna hækkun á námslánum sem var algjörlega útilokað og vonlaust að hægt væri að standa við. Í því var fólginn einhver alger misskilningur á stöðu ríkisfjármála. Má segja að það hefði verið skynsamlegt og betra að það hefðu komið fyrr frá þeirri stjórn tillögur um stöðu lánasjóðsins sem hægt hefði verið að byggja á því að ekki var hægt að byggja á (Forseti hringir.) þeim tillögum.



[17:59]
Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Þetta er fróðleg og skemmtileg umræða. Ég er að velta því fyrir mér hvar ég vegi í meðaltalinu, hafandi tekið meistaragráðu á sextugsaldri á sínum tíma.

Ég ætla að fagna því sem hæstv. ráðherra hefur vakið athygli á og kemur fram í fjárlagafrumvarpinu að hann ætlar að láta vinna hvítbók þar sem fram kemur stefna ráðherra í ýmsum málaflokkum. Ég ætla að hvetja hann til þess í framhaldinu af umræðunni áðan að taka þar inn skapandi greinar. Ég kalla eftir því hvaða stefnu hæstv. ráðherra hefur í þeim greinum vegna þess að það skiptir miklu máli.

Mig langar að nefna nokkur atriði í viðbót við það sem kom fyrr í umræðunni. Í fyrsta lagi hafa verið í gangi viðamikil vinnumarkaðsúrræði fyrir ungt fólk og við erum nýbúin að fá staðfestingu á því í skýrslu að þau hafi virkað mjög vel. Hæstv. ráðherra nefndi Nám er vinnandi vegur og benti á að þeim hefði fækkað mjög sem þyrftu á því að halda. Mig langar að heyra frá hæstv. ráðherra hvað hann telur hafa valdið. Er búið að metta markaðinn, er búið að leysa þessi mál? Er ástandið orðið svona miklu betra að ekki þurfi að hafa áhyggjur af þessu eða er fólk ekki lengur að nýta sér þetta?

Mig langar líka að spyrja um tvö verkefni sem eru tilraunaverkefni sem sett voru af stað í Norðvesturkjördæmi og í Breiðholtinu til að auka menntastig í landinu. Staðreyndin er sú að það er óvenjuhátt hlutfall þeirra sem aðeins hafa lokið grunnskólaprófi á vinnumarkaði á Íslandi. Þess vegna tóku aðilar vinnumarkaðarins sig saman um að setja í gang verkefni um það hvernig hægt væri að ná til fólks og endurmennta það og auka menntastigið á vinnumarkaði. Hver er staðan á því verkefni og hvernig sér ráðherrann fyrir sér framhaldið á því?

Í þriðja lagi erum við búin að nefna það að í stefnumótun um æskulýðsfélög skipti mjög miklu máli að efla þriðja geirann. Mér heyrðist hæstv. ráðherra nefna að það yrði að mæta afgangi af því að það væri ekki grunnþjónusta. Mig langar að heyra aðeins betur um það.

Varðandi háskólana er búið að ræða örlítið um Háskólann á Hólum. Þegar skilið var við þetta í síðustu fjárlögum voru settar inn aukafjárveitingar bæði á Bifröst og Hóla og síðan átti að meta stöðu þessara skóla. Það hefur að vísu verið gert oft áður. Ég hef miklar áhyggjur af þessum skólum og ég held að það sé rangt hjá hæstv. ráðherra, varðandi háskóla, að telja fjölda heldur eigi eftir sem áður að tala um gæði, eftirspurn og kostnað og það eigi að reyna að koma þessum skólum í rétt horf.

Er til dæmis tekið á fortíðarvandanum sem kom upp þegar skólarnir voru færðir — þá er ég að tala um Hóla og Hvanneyri — frá atvinnuvegaráðuneyti yfir til menntamálaráðuneytis? Þá voru skuldirnar allar skildar eftir. Árlega er talað um að þessir skólar séu illa reknir en þeir eru í raunveruleikanum (Forseti hringir.) með fortíðarvanda sem aldrei hefur verið hreinsaður upp.

Í síðasta lagi: Hvar sér þess stað í frumvarpi til fjárlaga að (Forseti hringir.) efla eigi iðn- og tæknigreinar?



[18:02]
Forseti (Steingrímur J. Sigfússon):

Forseti verður að biðja menn að halda sig vel við tímamörk þar sem umræðan hefur teygst nokkuð á langinn.



[18:02]
mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég biðst afsökunar, ég náði ekki alveg að svara fyrstu spurningunni sem snýr að því að vissulega hefur orðið fækkun á þeim nemendum sem þurfa á þeim úrræðum að halda sem átakið Nám er vinnandi vegur beindist einkum og sér í lagi að. Á því eru sennilega nokkuð margar skýringar. Atvinnustigið hefur smám saman verið að batna þannig að ákveðinn kúfur er búinn að fara í gegnum kerfið eins og ég lýsti hér áðan. Þess vegna er það svo að þegar við stöndum frammi fyrir þessum fjárlögum núna höfum við lagt höfuðáherslu á að hætt verði að skera niður rekstur framhaldsskólanna, að þeir verði varðir þannig að það verði sama staða og var í fyrra þó að hún hafi auðvitað ekki verið allt of góð. Ég veit að fyrrverandi hæstv. menntamálaráðherra er mér örugglega sammála um að vel hefði mátt bæta í þann málaflokk í fyrra rétt eins og ég hefði gjarnan viljað geta bætt í þennan málaflokk núna, en þetta er staðan. En í það minnsta erum við ekki að skera niður í framhaldsskólann og það er í fyrsta sinn síðan 2007 sem sú staða er uppi.

Hvað varðar þau verkefni sem nefnd voru varðandi Breiðholtið og Norðvesturlandið þá eru þessi verkefni í gangi núna, skipuð var stjórn sem er yfir þessu verkefni. Fyrir skömmu var sérstaklega fjallað um Breiðholtsverkefnið þar sem því var lýst hvernig það mundi ganga fyrir sig, þannig að ég held og vona að þessi verkefni séu í ágætum farvegi.

Hvað varðar æskulýðsstarfsemina vísa ég sérstaklega til þess að við erum að efla og auka framlög til íþróttamála, sem er auðvitað stór hluti af æskulýðsstarfseminni almennt. Ég mundi því segja að á heildina litið sé þeim málaflokki ágætlega fyrir komið.

Hvað varðar Hóla, virðulegi forseti, og við eigum örugglega eftir að ræða það mál meira þegar ég á aðeins meira en sjö sekúndur eftir af ræðutíma mínum, er auðvitað alveg rétt sem hv. þingmaður benti á að þar er heilmikill fortíðarvandi en það hefur líka verið unnið mjög mikið á þeim vanda og heilmikið gert. (Forseti hringir.) Spurningarnar eru enn og aftur um gæði, um námsframboð í landinu o.s.frv. Það er það sem ég hef verið að benda á og ég tel að þar séu tækifæri fyrir okkur (Forseti hringir.) til þess að nýta betur þá fjármuni sem við höfum úr að spila.



[18:05]
Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég held að ekki sé ástæða til að lengja umræðuna á þessu stigi en mig langar aðeins að heyra svarið varðandi iðn- og tæknigreinar, hvar þess sér stað í frumvarpinu hvernig eigi að efla þær, vegna þess að það er eitt af því sem er í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar.

Í því samhengi má nefna það sem kom fram fyrr í umræðunni að slegið er af verknámshús sem átti að byggja á Selfossi. Það hefur komið fram að sveitarfélögin á því svæði höfðu safnað til þess að eiga mótframlagið í þá byggingu. Það eru ákveðnir skólar í landinu sem hafa sinnt iðn- og tæknigreinum betur en aðrir skólar og ég held að það sé mjög mikilvægt að hlúð sé vel að þeim skólum og þess gætt að ekki sé farið í ódýrari lausnir með því að vera eingöngu með bóknámsskóla í hinum dreifðu byggðum landsins og þannig valið fyrir hönd viðkomandi svæða. Við höfum stundum haft áhyggjur af þessu, t.d. á Vesturlandi þar sem er Menntaskóli Borgarfjarðar og síðan skóli á Snæfellsnesinu þar sem ekki er mögulegt að bjóða upp á iðn- og tæknigreinar, ekki í nægjanlegu magni. Í heildina vitum við auðvitað að við erum aftarlega á merinni hvað þessar greinar varðar og það hlýtur að koma fram í hvítbókinni.



[18:06]
mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Það er rétt sem hv. þingmaður bendir á að enn þá er mikið starf óunnið hjá okkur varðandi iðnnámið. Fjöldi nemenda, þ.e. hlutfall þess árgangs sem fer í iðnnám er enn of lágt. Ég held að það sé augljóst að við þurfum að gera betur þar. Sumt af því snýr að peningum og hversu mikla fjármuni við getum sett í málið, en það eru líka spurningar hér um skipulagsatriði.

Það mun koma á næstunni fram skýrsla frá OECD sem var unnin í tíð fyrri ráðherra fyrri ríkisstjórnar sem m.a. tekur á ýmsum skipulagsmálum. Þar er tækifæri fyrir okkur til að bæta þessa stöðu og auðvelda nemum þetta nám. Ég held að það skipti líka miklu hvernig við stöndum að námsráðgjöfinni þegar krakkar fara úr grunnskólunum og í framhaldsskólann. Eins líka hvað tekur við þegar framhaldsskólastiginu er lokið hvað varðar iðnnámið, hvaða möguleikar standa þá opnir fyrir nemendur. Allt eru þetta mikilvæg atriði sem rétt er að horfa til.

Ég verð að segja eins og er varðandi hinar skapandi greinar sem hv. þingmaður nefndi og tengingu þeirra við þá hvítbók sem ég er nú að láta skrifa að ég held ég muni kannski ekki breyta akkúrat vinnutilhögun þar, en það er ágæt hugmynd að fara vel í gegnum þá stefnumótun sem fyrir liggur og þau gögn sem fyrir liggja. Þá væri kominn fyrir næstu fjögur árin einhvers konar pappír sem tæki þessa hluti saman af minni hálfu, ég held að það sé alveg ógalin hugmynd og þakka hv. þingmanni þá ábendingu.

Ég hef lagt áherslu á það í þessari umræðu að þó að við höfum þurft að skera niður nokkuð hvað þessa þætti varðar er auðvitað samt sem áður heilmikil starfsemi áfram í gangi. Þó að sjóðirnir sem eru tiltölulega nýlegir verði ekki til staðar núna á næsta ári þá heldur t.d. áfram starfsemi miðstöðvanna. (Forseti hringir.) Það er síðan einlægur vilji minn að þegar úr rætist hjá okkur munum við geta látið þetta vaxa og dafna.



[18:09]
Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég hélt að ég fengi bara tvö tækifæri í þessari umræðu og talaði því sérstaklega hratt í þeim en sem betur fer fékk ég önnur tvö þannig að ég get þá fylgt eftir þeim spurningum sem ég var með til hæstv. ráðherra hér áðan.

Í fyrsta lagi langar mig að nefna það — því að ég átta mig ekki alveg á því hvernig hæstv. ráðherra hyggst halda áfram stefnumótun um framhaldsskólann. Það er rétt, sem hæstv. ráðherra segir, að rekstri framhaldsskólanna sem slíkra er hlíft að einhverju leyti enda búið að skera þar verulega niður. Ég held raunar að allir hv. þingmenn sem tóku til máls í þessari sömu umræðu í fyrra hafi verið sammála um að þar mætti ekki ganga lengra þannig að ég tek undir með hæstv. ráðherra með það.

Rekstur framhaldsskóla kann hins vegar að verða fyrir áhrifum af þeirri skerðingu sem farið er í hvað varðar Nám er vinnandi vegur. Það er alveg hárrétt hjá hæstv. ráðherra þegar hann sagði hér áðan að atvinnustig í landinu og aðstæður hafa gert að verkum að nemendum hefur fækkað í átakinu Nám er vinnandi vegur, og mér finnst það bara jákvætt ef við horfum á það þannig. En aðrir liðir falla burtu og ég nefni þá sérstaklega þróunarsjóðinn til að efla starfstengt nám upp á 300 milljónir, og ég nefni svo aftur þessa liði, námskrárgerðina og framkvæmd nýrrar skólastefnu. Hvernig sér hæstv. ráðherra það fyrir sér að þeim breytingum sem hann hefur rætt hér í löngu máli, styttingu framhaldsskólans, verði hrundið í framkvæmd ef ekkert fé er til þróunar í skólastarfi?

Í öðru lagi langar mig að spyrja hæstv. ráðherra, af því að hann ræðir hér um styttingu framhaldsskólans, hvernig hann sjái fyrir sér að það fari fram ef ekki er ætlunin að fylgja þeirri hugmyndafræði að gefa skólunum faglegt frelsi til að þróa námsbrautir sem geta verið mislangar. Hugsunin á bak við það var sú, eins og hæstv. ráðherra er kunnugt um, að mæta þörfum ólíkra nemenda. Hæstv. ráðherra nefndi hér skýrslu OECD. Eitt af því sem þar kemur fram er að auka þarf fjölbreytni í námsframboði. Og ef við erum sammála um það að til þess að stytta námstíma til stúdentsprófs séum við í raun að tala um að draga úr brottfalli þá hlýtur sú fjölbreytni að vera lykilatriði. Hvernig eigum við að gera það ef búið er að þurrka út þá fjármuni sem voru ætlaðir í það? Eða á hæstv. ráðherra við eitthvað annað þegar hann ræðir um styttingu náms til stúdentsprófs? Er hæstv. ráðherra að tala um að setja hámark á einingafjölda til að taka til stúdentsprófs? Það væri mjög áhugavert því að þá fyrst, ef við vitum hvað átt er við með því, er hægt að taka afstöðu til þessara tillagna. Ef ætlunin er að fresta þessu, eins og hæstv. ráðherra kom hér að áðan, þá spyr ég: Er þá hugmyndum hans ekki frestað í senn?

Mig langar líka aðeins að spyrja út í háskólamálin því að hæstv. ráðherra sagði hér áðan að hann teldi mikilvægt að fara betur með þá fjármuni sem eru til staðar í kerfinu. En svo ég vitni aftur í OECD eru framlög hér til háskólastigsins með því lægsta sem þar gerist. Við erum þar langt á eftir Norðurlöndum ef við miðum við framlög per nemanda (Forseti hringir.) og við erum komin þar undir meðaltal og vorum raunar komin fyrir kreppu. Hvernig nákvæmlega (Forseti hringir.) sér hæstv. ráðherra fyrir sér að hægt sé að fara betur með þá fjármuni?



[18:12]
mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Þetta eru spurningar sem hver og ein fyrir sig gæti kallað á dálítið lengra svar en ég hef hér samanlagt til umráða fyrir þær allar.

Í fyrsta lagi varðandi niðurskurð til framhaldsskólanna, það er ekki svo að rekstrinum sé hlíft að einhverju leyti heldur er honum hlíft, þ.e. framlagið til framhaldsskólanna er ekki skorið niður á þessu ári og er það í fyrsta sinn síðan 2007 sem sú staða er uppi. Breytingar verða auðvitað hjá einstaka skóla vegna breytinga á nemendafjölda og öðru slíku sem reiknilíkanið margfræga kallar fram, en það er ekki gerð aðhaldskrafa. Það er ekki þannig að þeim sé að einhverju leyti hlíft, þeim er hlíft hvað það varðar. (Gripið fram í.)

Þá kemur að átakinu Nám er vinnandi vegur. Ég fór yfir það hér áðan að þær breytingar sem hafa orðið eru mjög miklar á þeim nemendafjölda sem er í þessu úrræði, breytingarnar hlaupa á hundruðum nemenda. Þegar að því kemur að taka ákvarðanir um hvar við skerum niður, hvar niðurskurðurinn kemur þá verðum við auðvitað að horfa til þess hvar mesta þörfin er og hún er inni í framhaldsskólunum sjálfum og rekstri þeirra. Hvar er þá tækifæri til þess að spara? Það er þarna. Það eru enn töluverðir peningar frá fyrri árum undir þessum lið sem ekki er búið að nýta og að sjálfsögðu hljótum við þá að horfa til þess hvar þörfin er mest, hvar eldarnir brenna heitast, og það er í rekstri framhaldsskólanna sjálfra. Þess vegna er ánægjulegt að við þurfum ekki að skera niður áfram hvað það varðar.

Hvað varðar innleiðinguna þá eru á safnliðum ráðuneytisins, þegar saman er tekið, nokkrir fjármunir sem hægt verður að nota til þessa. Það eru ekki miklir fjármunir, það er víst alveg ábyggilegt, og verður að fara mjög vel með. Ég mun síðar vera tilbúinn að taka langar umræður um mikilvægi þess að stytta nám til stúdentsprófs og hvers vegna við Íslendingar einir þjóða tökum 14 ár til grunnskólagöngu þegar allar aðrar þjóðir OECD eru annaðhvort með 12 eða 13. Það þarf að færa, finnst mér alla vega, nokkuð sterk rök fyrir því af hverju við ein eigum að vera með það fyrirkomulag, hvers vegna það eigi að vera. (Forseti hringir.)

Hvað varðar háskólana (Forseti hringir.) þá tel ég að það sé einmitt vegna þess að okkur vantar (Forseti hringir.) fjármuni þar inn. Því er nauðsynlegt að halda áfram þeirri vinnu sem m.a. (Forseti hringir.) var hafin af hálfu hv. þingmanns (Forseti hringir.) þegar viðkomandi var hæstv. ráðherra, sem fólst í samstarfsnetinu sem lagði grunn að því að (Forseti hringir.) haldið yrði áfram að (Forseti hringir.) sameina skólana.



[18:14]
Forseti (Steingrímur J. Sigfússon):

Forseti minnir á ræðutíma. Við höfum ekki ráð á því að fara fram úr í hvert sinn í tveggja og þriggja mínútna ræðum.



[18:15]
Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Eins og kom mjög skýrt fram í máli mínu hefur niðurskurður á þeim liðum sem heyra undir Nám er vinnandi vegur væntanlega áhrif á framhaldsskólana. Það er það sem ég var að benda á þó að hæstv. ráðherra kysi að túlka það öðruvísi. Þá benti ég til að mynda ekki á þann hluta verkefnisins sem snýr að fjölda nemenda í verkefni heldur nefndi ég þróunarsjóð til að efla starfstengt nám og námskrárgerðina og framkvæmd nýrrar skólastefnu þar sem fjármunirnir eru sem framhaldsskólarnir hafa haft úr að spila í þróunarstarfi sínu. Þó að rekstri framhaldsskólanna sé hlíft getur hæstv. ráðherra ekki neitað því að þessar miklu niðurfellingar á fjármunum sem allar snúast um þróunarstarf í framhaldsskólum, sem er stór hluti skólastarfs, hljóta að hafa einhver áhrif á skólastarf.

Ég mun áfram bíða spennt eftir hugmyndum hæstv. ráðherra því ég spurði hér nokkuð skýrra spurninga um stefnu hans í málefnum framhaldsskólans, þ.e. hvort það væri rétt skilið hjá mér að til þess að stytta nám til stúdentsprófs teldi hæstv. ráðherra mikilvægt að sporna við brottfalli og hvort hann væri sammála þeirri greiningu OECD sem hann vitnaði sjálfur til áðan um það að fjölbreytt námsframboð væri einn af þeim þáttum sem skipti máli til að koma til móts við þarfir einstakra nemenda til að sporna gegn brottfalli og þar með stytta námstímann til stúdentsprófs eða hvort hæstv. ráðherra hefði eitthvað annað í huga. Ég bíð enn eftir svörum við því.

Hvað varðar háskólamálin þurfum við líklega, eins og hæstv. ráðherra segir, talsvert lengri tíma til að fara yfir þessi mál. Ég held einmitt að það þurfi að velta fyrir sér hvernig við getum aukið framlög til nemenda á háskólastigi. Ég tel að við höfum í raun og veru fengið mikið fyrir lítið. Ég er sammála hæstv. ráðherra að við eigum ekkert að vera feimin við að horfa á samstarf og sameiningar háskóla í þeim efnum en við hljótum að horfa til þess til að efla faglega hluta starfsins. Ég veit í sjálfu sér ekki hversu mikilli hagræðingu sameiningar mundu skila á þessum tímapunkti. Mér er það til efs. Ég tel hins vegar að samstarf og sameiningar (Forseti hringir.) geti skilað auknum faglegum gæðum. Það er (Forseti hringir.) auðvitað stórmál í allri háskólapólitík.



[18:17]
mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Fyrst hvað varðar Nám er vinnandi vegur geri ég mér alveg grein fyrir því að það væri mjög æskilegt að hafa meiri fjármuni til þróunarstarfs og ýmissa annarra slíkra verkefna. En enn og aftur, það er mikilvægast að verja grundvallarstarfsemina. Ég benti á það hér áðan að þegar menn skoða undanfarin ár blasir við sú mynd að eitt fjárlagaárið, þegar horft er til þeirra fjármuna sem voru teknir vegna niðurskurðar í framhaldsskólum og síðan þeirra fjármuna sem fara í ný verkefni, þá standast þessar tölur sæmilega vel á. Það er það sem ég geri athugasemd við. Ég tel að það sé betra að verja grunninn, reksturinn sjálfan, og við verðum að fara aðeins hægar í gegnum ný verkefni, þróunarverkefni og annað slíkt. Það er ekki hægt að halda áfram með meiri niðurskurð. (Gripið fram í.)

Síðan er rétt að horfa á það að allt skólastarfið í landinu hangir saman, hvort sem við erum að tala um háskólann, framhaldsskólann, grunnskólann eða leikskólastigið. Það þarf auðvitað að ræða þetta í samfellu. En breytingar á einstökum skólastigum eins og í framhaldsskólunum hljóta fyrst og síðast að horfa til þess hvernig við nýtum sem best tíma þeirra ungmenna sem þar stunda nám. Það er grundvallaratriðið. Hvernig undirbúum við þau best, t.d. fyrir áframhaldandi nám hvort sem er í háskólum eða einhvers staðar annars staðar? Það er auðvitað lykilhugtakið að horfa á nemendurna sjálfa, ekki kerfið.

Ég tel hvað varðar háskólana að við höfum tækifæri til að efla þá faglega. Ég held að það sé alveg rétt sem hv. þingmaður segir hér, auðvitað er grundvallaratriðið síðan hinn faglegi þáttur málsins, þ.e. öflugir háskólar sem veita framúrskarandi góða menntun. Það sem ég hef verið að horfa á og hef verið að ræða hér að undanförnu er einmitt hvort við getum ekki náð betri árangri. Mér er það til efs að skynsamlegt sé að vera með sjö sjálfstæða háskóla. Ég tel að þau skref sem voru stigin varðandi háskólanetið, sem voru fyrstu skref í áttina að því að auka samstarf þeirra og gera sameiningu slíkra skóla mögulega, (Forseti hringir.) hafi verið rétt skref. Það þarf að halda áfram með þá vinnu sem hafin var af hálfu (Forseti hringir.) fyrrverandi hæstv. ráðherra.



[18:19]
Willum Þór Þórsson (F):

Virðulegi forseti. Við ræðum útgjaldaáætlun til mennta- og menningarmála. Áður en ég fæ að beina spurningum um þann málaflokk til hæstv. ráðherra mennta- og menningarmála langar mig aðeins að koma almennt inn á fjárlagafrumvarpið sem hæstv. fjármálaráðherra lagði hér fram vegna þess að það hefur verið gagnrýnt fyrir að fela ekki í sér stefnu. Ég furða mig á þeim málflutningi vegna þess að um er að ræða mjög hófstillta stefnu og hún tengist nákvæmlega þeirri stöðu sem við erum í með hagkerfið. Staðreyndin er sú, og við þurfum að halda því til haga, að hið hefðbundna líkan hagfræðinnar að lækka skatta duglega og auka um leið ríkisútgjöld og reka ríkissjóð með halla á hreinlega ekki við. Svigrúmið er einfaldlega ekki nægjanlegt vegna skuldsetningar ríkissjóðs.

Hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra hefur lagt fram útgjaldaáætlun sem er undir þessari almennu hagræðingarkröfu, hófstilltri sem er mjög mikilvægt, 1,5%, og eðlilega hefur verið rætt mikið um framhaldsskólana og háskólana, enda standa þeir fyrir 70% af þeim útgjaldalið. Í niðurskurði menntakerfisins undanfarin ár er augljóst að starfsfólk og stjórnendur og kennarar framhaldsskólanna hafa staðið sig afar vel þegar kemur að hagræðingu og ekki síst í lausnum sem snúa meðal annars að hugvitsamlegum kennsluaðferðum. Niðurskurður undanfarinna ára til framhaldsskólanna hefur leitt af sér færri kennslustundir til skiptanna fyrir kennara og í raun afhjúpað þá staðreynd að kennarar þar hafa setið eftir í launum og standa samanburðarhópum sínum langt að baki.

Mig langar að beina spurningu til hæstv. ráðherra. Hann hefur talað um að ekki hafi verið skorið niður í framhaldsskólum en formaður Skólameistarafélags Íslands hefur talað um niðurskurð upp á að meðaltali 4%. Hver er skýringin á þeim mismun?



[18:22]
mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Skýringin felst sennilega í því að þegar horft er á framhaldsskólaliðinn í fjárlögunum og síðan tekin þau framlög sem voru til lækkunar, m.a. vegna þess sem við höfum rætt hér, Nám er vinnandi vegur, og eins sú ákvörðun að fresta framkvæmdum við Fjölbrautaskóla Suðurlands, kemur sú tala út en þegar horft er til reksturs framhaldsskólanna blasir við önnur mynd. Þá er ekki verið að lækka framlagið til rekstursins sem er lykilatriði og enn og aftur er þetta í fyrsta sinn síðan 2007 sem sú staða er uppi.

Virðulegi forseti. Ég mundi líka vilja nefna eitt af því að við vorum að ræða starfsnám sem er svo mikilvægt. Það er rétt að halda því til haga hvað varðar þróunarsjóð fyrir starfsnámið að þannig var lagt upp með hann að hann var til tveggja ára, þ.e. 300 milljónir á ári í tvö ár. Samkvæmt því fyrirkomulagi sem lagt var upp með af hálfu fyrri ríkisstjórnar átti þess ekki að sjá stað í fjárlögum ársins 2014. Sú stefna lá fyrir. Það er því í engu breyting frá því sem áður var ákveðið að ekki yrðu settir fjármunir til sjóðsins á þessu ári, það er í samræmi við þá stefnu fyrri ríkisstjórnar að það yrði til tveggja ára, 300 milljónir á ári hvort ár fyrir sig, 600 milljónir samanlagt.

Ég vil segja, úr því að hv. þingmaðurinn var að tala almennt um fjárlögin, að það er rétt þegar við horfum á stöðuna sem er uppi að fagna því að við erum að leggja fram fjárlög sem eru réttu megin við núllið. Ég held að sama hvar í flokki menn standa hljóti það að vera fagnaðarefni. Menn geta síðan deilt um hvernig sú staða er komin upp eða hvað þurfti að gera til þess að hægt væri að gera svo en staðan er þessi og það er fagnaðarefni. Það er mjög alvarlegt mál fyrir okkur Íslendinga hversu háar vaxtagreiðslur hvíla á okkur og hversu viðkvæm við erum fyrir því ef vextir hækka hér á næstu árum, hvað það mundi þýða fyrir stöðu ríkissjóðs.



[18:24]
Willum Þór Þórsson (F):

Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir greinargóð svör og bæta við spurningum. Sú fyrsta snýr að RÚV. Það er ljóst miðað við forsendur sem við höfum rætt að meira afgerandi útgjaldaauki getur ekki átt sér stað til einstakra málaflokka nema með afgerandi niðurskurði á öðru sviði.

Í frumvarpinu segir meðal annars að ekki sé gerð sama hagræðingarkrafa til RÚV líkt og á við um aðrar stofnanir ráðuneytisins og vil ég spyrja hæstv. ráðherra hvers vegna svo sé.

Svo vil ég snúa mér að íþróttunum en ég mun seint þreytast á að benda á mikilvægi íþrótta þegar kemur að uppeldi og forvarnamálum. Því er það gleðilegt að sjá aukinn rekstrarstyrk til ÍSÍ og að bætt sé í ferðasjóð. Að lokum langar mig að koma inn á starf Íþróttasambands fatlaðra þar sem frábært starf hefur verið unnið og við munum öll eftir því augnabliki þegar Jón Margeir Sverrisson vann afrek sitt á Ólympíuleikunum í London 2012. Mig langar því að spyrja hæstv. ráðherra hvort fyrirhugað sé að styrkja sérstaklega þátttöku okkar á vetrarólympíuleikum fatlaðra 2014.

Af því að ég á hér tíma ætla ég að bæta við einni spurningu. Kvikmyndagerð hefur borið á góma og ég vil fá að nota orð kvikmyndaleikstjórans Friðriks Þórs Friðrikssonar þegar hann spurði hreinlega, og beini ég spurningunni til hæstv. ráðherra, hvers vegna verið væri að skjóta mjólkurkúna.



[18:27]
mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Hvað varðar Ríkisútvarpið fór ég yfir það í svari áðan og vil helst ekki eyða of miklum tíma í að endurtaka það. Staðan er sú að þrátt fyrir þann texta sem er í frumvarpi til fjárlaga, sem er nokkuð villandi ef menn þekkja ekki bakgrunn málsins, er í raun og veru gerð ríkari niðurskurðarkrafa til Ríkisútvarpsins en flestra annarra stofnana. Ekki mesta, en það er gerð nokkuð rík krafa vegna þess að Ríkisútvarpinu er einungis að hluta, samkvæmt þeirra eigin mati, bætt upp það tekjutap sem stofnunin verður fyrir af því að hún þarf að draga úr auglýsingum og skerðast möguleikar hennar á aukinni tekjumyndun vegna þess.

Hvað varðar Íþróttasamband fatlaðra er rétt að hafa í huga að á árinu 2013 fóru 5 milljónir alveg sérstaklega inn á þann lið til undirbúnings fyrir Ólympíuleikana á næsta ári. Sú fjárhæð, þær 5 milljónir halda sér í þessu frumvarpi þannig að samanlagt verður búið að bæta við til Íþróttasambands fatlaðra 10 milljónum vegna þessa, 5 milljónir í fyrra og svo aftur 5 milljónir núna verði frumvarpið að lögum.

Virðulegi forseti. Hvað varðar kvikmyndirnar tel ég að alveg nauðsynlegt sé að hafa í huga og skoða í samhengi málsins að þegar horft er til ársins 2012 og undanfarinna ára — ef við sleppum árinu í ár og þeirri aukningu sem átti sér stað vegna hinnar svokölluðu fjárfestingaráætlunar sem var fjármögnuð með veiðileyfagjaldinu sem við vissum og vitum að hefði aldrei skilað þeim fjármunum sem þeim var ætlað að skila þótt það hefði verið lagt á óbreytt — er það svo að verið er að auka jafnt og þétt þetta framlag. Meðal annars verður að sjálfsögðu staðið við það samkomulag sem fyrri ríkisstjórn gerði um 70 millj. kr. hækkun til Kvikmyndasjóðsins þannig að áfram sé hægt að efla hér kvikmyndastarfið og kvikmyndagerð.

Virðulegur forseti. Ég tel fráleitt að leggja út af þessu svona, eins og hér var nefnt, að það væri gjörsamlega verið ganga af greininni dauðri, ég held að það sé langur vegur frá því.



[18:29]
innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Hér eru til umræðu fjárlög næsta árs og ég vil gera grein fyrir þeim þætti í því frumvarpi sem snýr að innanríkisráðuneytinu. Í raun má segja að öll þau mikilvægu verkefni sem ráðuneytið hefur á sínum höndum sameinist í tveimur orðum: öryggi almennings. Það er því markviss stefna okkar að auka öryggi almennings á öllum sviðum og það mætti sannarlega halda hér nokkuð langa tölu um það; um öfluga löggæslu, öfluga strandgæslu, örugga og trausta vegi, örugg fjarskipti, réttláta málsmeðferð, mannréttindi o.s.frv.

Forgangsröðun verkefna innanríkisráðuneytisins ber þess öll merki að þar er forgangsraðað í þágu öryggis almennings. Útfærsla ráðuneytisins á aðhaldsaðgerðum er skýr. Þannig var ekki farið í flatan niðurskurð heldur farið yfir hvert einasta verkefni og forgangsraðað mjög ákveðið í þágu þess sem mestu skiptir. Á flest verkefni var hins vegar gerð um 0,75% aðhaldskrafa en sum verkefni eru þó undanskilin þar sem ekki er um að ræða eiginlega rekstrarliði. Þar má nefna Jöfnunarsjóð sveitarfélaga, markaðar tekjur Vegagerðarinnar, kostnað vegna meðlaga, gjafsóknar, sanngirnisbóta vegna misgjörða á vistheimilum o.fl.

Nær allar hækkanir eða útgjaldaaukningar koma því til vegna launa eða verðlagshækkana. Í frumvarpinu er því ekki gert ráð fyrir raunaukningu á næsta ári. Ráðuneytinu var hins vegar gert að hagræða um 600 millj. kr. en þar munar mestu um hagræðingu í rekstri vegna sameiningar samgöngustofnana, tilfærsluframlög vegna samnings um almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu, auk þess sem stofnkostnaður á framlögum til upplýsingasamfélagsins lækkar, svo að dæmi séu tekin. Loks má nefna að gert er ráð fyrir því að verkefni talsmanns neytenda sameinist Neytendastofu strax á næsta ári.

Hæstv. forseti. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar kemur fram það markmið að efla almenna löggæslu í landinu og líkt og þingmenn þekkja svo vel byggir sú stefnuyfirlýsing og sú áætlun að mestu á vinnu þverpólitískrar nefndar frá síðasta kjörtímabili og í fjárlagafrumvarpinu er í samræmi við þessa skýru stefnu ríkisstjórnarinnar gert ráð fyrir rúmlega 500 millj. kr. framlagi til eflingar löggæslu hér á landi.

Hæstv. forseti. Ég vil leggja áherslu á að það er gert með því að forgangsraða innan þeirra málaflokka sem heyra undir innanríkisráðuneytið sem þýðir um leið að innan ákveðinna þátta er hagrætt meira en nefnt var hér að framan. Ég held og veit að við getum öll verið sammála um mikilvægi þessa verkefnis. Ég mun á næstu dögum skipa nefnd þingmanna, undir forustu hv. þm. Vilhjálms Árnasonar, sem fær það hlutverk að gera tillögur að ráðstöfun þessa fjármagns á milli embætta, verkefna og landsvæða.

Eins og ég hef áður greint frá hér úr þessum ræðustóli þá höfum við í sumar í innanríkisráðuneytinu unnið að því að greina störf lögreglunnar, fá skýra sýn á öryggis- og þjónustustig, mannaflaþörf og fleira þannig að hægt sé að greina rekstrargrundvöll lögreglustofnana. Það má lesa úr þeim tölum sem fram koma í fjárlagafrumvarpinu að þarna liggur okkar áhersla. Fyrir utan það að veita fjármagn til að efla löggæslu er einnig gert ráð fyrir framlagi til að sporna við skipulagðri glæpastarfsemi, auknu framlagi til rannsóknar á kynferðisbrotum og þá sérstaklega gagnvart börnum þar sem bætt er við tæplega 100 millj. kr. Þá eru framlög til opinberrar réttaraðstoðar aukin um 150 millj. kr. og kemur það fyrst og fremst til vegna rýmkaðra reglna um gjafsóknir sem samþykktar voru á síðasta þingi. Auk þess munum við halda áfram með byggingu nýs fangelsis eins og gert hafði verið ráð fyrir en fjárheimildir fyrir fangelsið hafa hins vegar þegar verið lækkaðar fyrir árið í ár.

Það má einnig minna á að í frumvarpinu er veittur stofnkostnaður fyrir um 850 millj. kr. vegna vegtengingar við nýtt athafnasvæði á Bakka við Húsavík og tæpar 350 millj. kr. til stækkunar Húsavíkurhafnar. Þá hækkar framlag vegna Norðfjarðarganga um 670 millj. kr. Til viðbótar við það sem hér hefur komið fram má nefna að í fjárlagafrumvarpinu er gert ráð fyrir framlagi til Landhelgisgæslunnar sem ætlað er að tryggja veru lækna um borð í þyrlum Gæslunnar. Það er mjög mikilvægt að við tryggjum öryggi, fyrst og fremst þeirra sem reiða sig á þjónustu þyrlusveitar Gæslunnar en ekki síður öryggi þyrlusveitarinnar sjálfrar. Þar tel ég hlutverk lækna í þyrlusveitinni vega þungt.

Virðulegur forseti. Hér hefur verið stiklað á stóru um fjárheimildir innanríkisráðuneytisins í fjárlögum næsta árs. Ég vil að endingu nefna að ýmis stór verkefni eru í farvatninu innan ráðuneytisins sem munu tryggja enn fleiri tækifæri til góðs reksturs á næstu árum. Frumvarp til laga um fækkun sýslumanna og lögreglustjóra er dæmi um slíkar umbætur auk þess sem til skoðunar er betri nýting fjármuna er tengjast þjónustu við hælisleitendur þar sem málsmeðferð verður flýtt, sem getur leitt af sér minni kostnað, en einnig betri þjónustu við þá sem eiga rétt á pólitísku hæli.

Að auki vil ég nefna nauðsyn þess að hv. Alþingi ræði með opnum huga um aðkomu annarra en ríkisvaldsins að kostnaði vegna uppbyggingar innviða, líkt og í vegagerð og samgöngum. Þar eigum við að líta til góðrar reynslu annarra þjóða og setja þá meginreglu að hægt sé að ganga til slíks samstarfs við einkaaðila og fjárfesta þegar til staðar er val um aðra kosti í samgöngum.

Hæstv. forseti. Ég vil að lokum óska eftir góðri samvinnu við þingmenn við að tryggja öryggi almennings í landinu. Ég hlakka til að taka þátt í umræðunni og verð hér til svara um einstaka liði er lúta að málefnum ráðuneytisins.



[18:34]
Forseti (Steingrímur J. Sigfússon):

Forseti leyfir sér að þakka hæstv. innanríkisráðherra fyrir að leifa af ræðutímanum. Allmargir ræðumenn hafa haft áhyggjur af því að þeir fullnýttu ekki ræðutíma sinn. Forseti vekur athygli á því að það er ekki skylda. [Hlátur í þingsal.]



[18:35]
Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég vona að þessu hafi ekki verið sérstaklega beint til mín vegna þess að ég gaf 40 sekúndur síðast og vona heldur ekki að það hafi verið einhver áhyggjutónn yfir því að ég kæmi aftur og aftur. Þingmenn Samfylkingarinnar eru á sveitarstjórnarfundum akkúrat í augnablikinu þannig að ég kem hingað upp oftar en ella. Að þessu sinni er ég þó í þeim málaflokki sem heyrir undir hv. allsherjar- og menntamálanefnd sem ég á sæti í.

Ég óska nýjum ráðherra innilega til hamingju bæði sem þingmanni og sem ráðherra með starfið og ánægjulegt að heyra að hæstv. ráðherra setur öryggi almennings sem meginmarkmið.

Það er auðvitað margt að ræða sem er undir þessu ráðuneyti. Það er ástæða til þess að fagna því að það sést í frumvarpinu að átakinu sem sett var í gang til að tryggja úrræði fyrir þolendur kynferðisbrota, einkum barna, er haldið áfram. Því ber líka að fagna að hæstv. ráðherra tryggir áfram tímabundið framlag til löggæslu 200 millj. kr., að það sé gert varanlegt og við það bætt 300 millj. kr. til að sinna löggæslumálum betur. Í því samhengi vil ég líka fagna því að hæstv. ráðherra hefur ákveðið að þverpólitísk samstaða skuli vera um hvernig eigi að vinna verkið áfram. Að vísu liggur fyrir góð skýrsla sem var þverpólitísk samstaða um sem náði til þess hver fjárveitingaþörfin væri í löggæslu til framtíðar litið.

Eitt af því sem mig langar einmitt að heyra er hvort sú nefnd þingmanna sem hæstv. ráðherra hyggst skipa fái einhver fyrirmæli um hvert verkefnið eigi að vera, m.a. hvort sinna eigi sérstaklega landsbyggðinni sem mér finnst að mörgu leyti eðlilegt miðað við það hvernig skorið hefur verið niður þar á undanförnum árum.

Varðandi annað mál sem mig langar eiginlega fyrst og fremst að fjalla um, mál sem innanríkisráðuneytið hefur unnið mikið með en heyrir að vísu formlega undir forsætisráðuneytið en stýrinetið hefur verið hjá innanríkisráðuneytinu, þ.e. sóknaráætlun landshluta. Þetta víðtæka samstarfsverkefni, þar sem öll sveitarfélög í gegnum landshlutasamtök hafa unnið gríðarlega mikið að því að forgangsraða verkefnum í sínum landshluta, hefur sem sagt verið í gangi og þróast á síðastliðnum árum. Menningarsamningarnir voru felldir þarna undir. Hugmyndin á bak við þetta er auðvitað aukið lýðræði, aukið nærlýðræði, aukinn réttur sveitarfélaga til að taka ákvarðanir í sínum málum og forgangsraða. Þarna eru meðal annars undir almenningssamgöngur hjá mörgum af þessum sveitarfélögum. Ég hef áhyggjur af því að framlög til þessa hafa verið lækkuð gríðarlega og verkefnið nánast tekið út af fjárlögum, þ.e. ekki bætt neitt við eins og gert var ráð fyrir.

Mig langar að heyra hver afstaða hæstv. ráðherra er til vinnunnar varðandi sóknaráætlun landshluta, sem fyrrverandi sveitarstjórnarmaður líka, og hvort hugmyndin sé að henda þessari vinnu eða hvernig menn sjá fyrir sér að þetta muni þróast á næstu (Forseti hringir.) vikum og mánuðum.



[18:38]
innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni og tek undir mjög margt sem kom fram í máli hans. Varðandi það sem nefnt er um þá þverpólitísku nefnd sem verður skipuð til þess að halda utan um átakið, sem hv. þingmaður fór hárrétt með hvernig stendur til að halda á, þá fær sú nefnd ekki önnur tilmæli en þau að vinna í samræmi við þá áætlun sem gerð var hjá þeirri nefnd sem skilaði af sér í mars síðastliðnum. Þar var að vísu gert ráð fyrir aðeins hærri upphæðum en markmiðið er að vinna í samræmi við það. Þar var gert ráð fyrir fimm ára átaki sem við sjáum fyrir okkur að verði unnið eftir.

Forgangsröðunin er hins vegar alveg skýr. Hún hefur komið fram í máli mínu áður og verður skýr í erindisbréfi þessa hóps. Það stendur til að byrja á því að vinna að fjölgun lögreglumanna á landsbyggðinni. Það er fyrsta verkefnið sem verður sett á laggirnar og er að okkar mati það mikilvægasta og brýnasta nákvæmlega núna. Það er því fyrsta skrefið.

Varðandi stýrinetið og það sem nefnt er um sóknaráætlun landshluta þá tek ég undir það með hv. þingmanni að afar margt þar var vel gert. Það er mjög mikilvægt að mínu mati, fyrir hönd sveitarfélaganna sérstaklega, að sú vinna haldi áfram og ekki verði einhver þáttaskil einungis vegna þess eða vegna þess að skipt var um ríkisstjórn. Ég get upplýst þingið um það betur síðar. Það eru hins vegar í skoðun ákveðnar breytingar á fyrirkomulagi þessa verkefnis, að betur verði tekið utan um það sem hv. þingmaður nefndi um einstaka verkefni sem fellur þar undir. Það gæti því haft í för með sér ákveðna breytingu á fyrirkomulagi verkefnisins. Það er ein af ástæðunum fyrir því að þess sér ekki eins skýran stað og ætla mætti í fjárlögum, þ.e. sá þáttur er lýtur að málefnum innanríkisráðuneytisins. Ég veit ekki betur en að það verði kynnt í næstu eða þarnæstu viku og ég skal með ánægju upplýsa þingmanninn um það þegar það liggur betur fyrir.



[18:40]
Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég fagna því sem hæstv. ráðherra nefndi í svari sínu varðandi fjölgun lögreglumanna á landsbyggðinni og að fylgt verði þeirri skýrslu sem samkomulag náðist um. Ég held að það sé mjög mikilvægt í allri svona vinnu að þegar menn setja af stað viðamikla hópa til þess að þróa og koma með tillögur þá sé þeim fylgt þó að það verði ráðherraskipti og reynt að vinna út frá þeim. Ég fagna líka þeirri afstöðu að vinnu verði haldið áfram við sóknaráætlanir þó að ég vilji hafa allan fyrirvara á því. Við verðum að gæta að því að hugmyndafræðinni á bak við það að færa vald heim í hérað verði fylgt. Þess vegna er mikilvægt að sjá með hvaða hætti það þróast.

Mig langar aðeins til að bæta við spurningum. Þær eru tvær, annars vegar: Hvernig sér hæstv. ráðherra fyrir sér þjónustuna við smærri vegi? Það kemur þarna inn í fjárlögin stórt verkefni á Húsavík og það verður til þess að skorið er niður í smærri vegamálum. Við könnumst aðeins við þetta. Áður var það þannig, að vísu vegna þensluáhrifa, að menn drógu úr vegaframkvæmdum á Vestfjörðum vegna stórframkvæmda á Austurlandi. Þetta má náttúrlega ekki gerast þannig. Mig langar aðeins að heyra afstöðu hæstv. ráðherra til þessa verkefnis.



[18:41]
innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Varðandi það sem nefnt var fyrst um lögreglumálin og það sem lýtur að eflingu þar vil ég bæta því við vegna spurninga hv. þingmanns að því miður kemur inn í þetta eins og hv. þingmaður þekkir jafn vel og ég — og það verður þá að leysa það — ákveðin fjárhagsstaða hjá einstökum lögregluembættum um landið sem er þannig að ætla má að eitthvað af þessu fjármagni þurfi að nýta til að tryggja að rekstur þeirra embætta gangi betur upp.

Varðandi sóknaráætlunina ítreka ég bara það sem ég sagði áðan og tek undir það með hv. þingmanni hversu mikilvægt er að nýta það sem var gert í því verkefni, sem er að færa valdið meira heim í hérað.

Varðandi það sem nefnt er um vegamálin þá er það rétt sem kemur fram hjá hv. þingmanni að gert er ráð fyrir lækkun á framlagi til framkvæmda af hálfu Vegagerðarinnar. Viðmiðið hefur verið — þrátt fyrir að það sé ekki búið að taka endanlegar ákvarðanir nákvæmlega um það — að standa við samgönguáætlun og tryggja að hún haldi. Það gæti því miður komið niður á smærri verkefnum með einhverjum hætti. Við munum fara yfir það núna og samgönguráð er í þeirri vinnu. Ég get því miður ekki á þessu stigi tjáð mig um einstaka verkefni. Við munum reyna að gæta þess að það komi sem minnst niður á smærri verkefnum og að við náum eins og ég segi að halda samgönguáætlun. Svo er það auðvitað eins og hv. þingmaður þekkir og er því miður staðan að viðhald á vegum víða um land er ekki í samræmi við það sem við vildum helst sjá þannig að við munum reyna að forgangsraða því svo að það komi ekki niður á öðru. Ég get ekki á þessum tímapunkti, áður en samgönguráðherra hefur fengið tækifæri til þess að fara yfir það, tjáð mig nákvæmlega um einstaka verkefni sem koma inn á það sem hv. þingmaður nefndi.



[18:43]
Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Mig langar til að byrja á því að vekja athygli þingmanna á því að í fjárlagafrumvarpinu er farið aðeins yfir tilraunaverkefni sem hófst 2010 í kynjaðri fjárlagagerð og snýr að Héðinsfjarðargöngum og áhrifum þeirra á íbúa í sveitarfélaginu. Þar eru afar áhugaverðar niðurstöður sem ég hvet þingmenn til að kynna sér.

En hér hafa farið fram fínar umræður um þennan málaflokk sem innanríkisráðherra hefur með höndum. Hann er afar viðamikill og mér finnst ánægjulegt að sjá hversu vel hæstv. ráðherra hefur staðið vaktina fyrir sinn málaflokk og margt er svo sem komið fram í hennar svörum nú þegar sem ég hafði velt fyrir mér. Auðvitað gleðst maður yfir þessum 500 milljónum sem settar verða til þess að efla löggæsluna, það er í anda þess sem var rætt í vor þegar við ræddum skýrslu um löggæsluna og hvaða úrbóta væri þar þörf. Það er líka ánægjulegt að heyra af fjölgun lögreglumanna, að áherslan sé fyrst á landsbyggðina þar sem við vitum að þeir eru oft einir á ferð.

Mér finnst líka gott að sjá þessar 220 milljónir sem settar eru í aukaframlag til málefnis hælisleitenda og þessarar opinberu réttaraðstoðar og tek undir framlag, þótt það sé tímabundið, til að fylgja eftir tillögum samráðshópsins um úrræði fyrir þolendur kynferðisafbrota.

Eins og ráðherra fór yfir á að draga úr fjárveitingum vegna almennra framkvæmda Vegagerðarinnar. Þetta er stór upphæð, 750 millj. kr., og eins og hún kom hér inn á veit ég að það eru meira að segja einstök verkefni í mínu kjördæmi.

Ég vil aðeins velta upp hérna út af mörkuðu tekjunum að hér er rúmur milljarður sem á að færast inn á tekjuhlið ríkissjóðs. Er það stefna núverandi ríkisstjórnar að skerða framkvæmdafé eða þessar mörkuðu tekjur til Vegagerðarinnar á næstu árum til að greiða niður það sem hér er kallað fyrir fram veittar markaðar tekjur? Það hefur ekki verið undanfarin ár þannig að mig langar að vita hvort það er það sem stefnt er að. Sá mikli niðurskurður sem er í almennri vegagerð er áhyggjuefni, það er búið að skera niður undanfarin ár þannig að ansi margar framkvæmdir eru undir. Þó að ráðherra hafi talað um að hún gæti ekki upplýst akkúrat núna væri ágætt að fá að vita á næstu dögum hvaða verkefni eru þar undir, þ.e. sem ekki verða framkvæmd vegna skerðingar.



[18:47]
innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir góð orð um margt sem kemur fram í þessu frumvarpi og tek undir það með hv. þingmanni að þar er mjög margt mjög vel gert. Margt af því er, eins og hv. þingmaður kom inn á, framhald á verkefnum sem voru komin á stað sem við töldum mikilvægan og góðan, eins og nefnt er gagnvart kynferðisofbeldi gagnvart börnum, varðandi aðra hluti er lúta að sóknaráætlun, varðandi löggæsluna. Það var farið í 200 millj. kr. aukaframlag á síðasta ári til að tryggja að hægt væri að fara í ákveðna eflingu þar þannig að við viljum halda því áfram.

Hér verður mönnum eðlilega tíðrætt um ákveðnar breytingar á fjármagni til Vegagerðarinnar. Hins vegar kemur inn kemur ákveðin viðbót í gegnum verkefni í tengslum við Bakka. Ég vil halda því til haga að þar er ákveðin aukning á verkefnum eins og ég fór yfir áðan. Það er ekki afstaða þessarar ríkisstjórnar að gera breytingar á því sem hv. þingmaður fór hér yfir varðandi markaðar tekjur Vegagerðarinnar. Það hefur ekki verið tekin nein slík afstaða eða ákvörðun og varðandi framkvæmdirnar ítreka ég það sem ég sagði áðan, það stendur til og er alveg skýrt að við munum leggja okkur öll fram, og við teljum að við getum það, til að standa við þá samgönguáætlun sem er í gildi. Við treystum okkur til þess að reyna að tryggja það að við vinnum þetta þannig að ekki verði af því mikill skaði, en þó verður að segjast eins og er að miðað við það sem liggur fyrir núna gætum við þurft að ýta á undan okkur einhverjum af smærri framkvæmdum.

Það er stór vinnufundur í næstu viku hjá samgönguráði þar sem farið verður yfir þessi verkefni og stöðuna og áður en það liggur fyrir vil ég ekki fella dóma um einstaka verkefni. Ég get hins vegar fullvissað hv. þingmann um að ég mun fara yfir það vandlega þegar því starfi lýkur.



[18:49]
Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ástæða þess að ég spyr um þessar mörkuðu tekjur er auðvitað að okkur getur greint á um það hvort það eigi að veita aukið fé til þess að greiða niður uppsafnaðar, ja, það sem sumir kalla skuldir Vegagerðarinnar, þarna eru rúmar 1.200 milljónir, eða hvort það eigi að gera þetta svona. Þetta lítur út eins og endurgreiðsla sé byrjuð að eiga sér stað og ég get ekki tekið undir að þetta sé endilega besti tíminn til að byrja slíka vinnu. Það er auðvitað mín skoðun.

Ég ætla að bæta hérna aðeins við af því að samhliða þessu aukna fjármagni sem er núna lagt til handa lögreglunni og sýslumannsembættunum veltir maður fyrir sér með þennan uppsafnaða vanda þessara stofnana hvort búið sé að kortleggja og hvort til séu einhverjar skriflegar áætlanir til þess að leysa það, hversu langan tíma það taki og hversu mikla fjármuni þurfi til þess. Hvenær er gert ráð fyrir því að fækka sýslumannsembættum og lögregluumdæmum? Þetta kemur auðvitað mikið við mörg sveitarfélaganna. Hæstv. ráðherra talaði um að hún væri með frumvarp í smíðum þannig að mig langar að vita hvort það er eitthvað sem kemur þá til framkvæmda strax á næsta ári eða þarnæsta.

Síðan hef ég miklar áhyggjur af því að það eigi að fella niður 76 millj. kr. framlag vegna innanlandsflugs á ríkisstyrktum óarðbærum leiðum. Í samgönguáætlun er innanlandsflugið skilgreint sem mikilvægur hluti af almenningssamgöngum. Við erum að tala um afskekktar byggðir þar sem við vitum öll að flugið skiptir gríðarlega miklu máli til að treysta byggð og tryggja þjónustu við fólk og fyrirtæki. Ég spyr því hvort hæstv. innanríkisráðherra hyggist gera einhverjar breytingar þar á.

Einnig velti ég fyrir mér 3 millj. kr. niðurskurði í fjarskiptasjóði. Við vitum að háhraðatengingar og annað slíkt skipta miklu máli fyrir íbúa hinna dreifðu byggða. Veit ráðherrann um framkvæmdir sem þurfa að eiga sér stað til þess að íbúar geti búið við viðunandi ástand?



[18:51]
innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Varðandi það sem hv. þingmaður nefnir um uppsafnaðan rekstrarvanda einstakra embætta, já, þá er búið að kortleggja þá stöðu í innanríkisráðuneytinu. Það var gert einnig í þessari skýrslu sem er svo títt nefnd hér í hinni þverpólitísku góðu vinnu um lögreglumálin á síðasta kjörtímabili. Það er rekstrarteymi sem vinnur í innanríkisráðuneytinu og hefur unnið með þessum aðilum sem eru í forsvari fyrir umrædd embætti. Sá vandi er talsverður og ég tel að hann verði ekki leystur á einu ári heldur þurfi að taka það í áföngum og vinna að því með lögreglustjórum á hverjum stað að við tryggjum að við komumst einhvern veginn á ákveðinn endapunkt í því og getum byrjað að byggja upp. Sá vandi er til staðar en við teljum að með þessari viðbót sem nú fæst náum við að vinna á þeim vanda með einhverjum hætti en einnig, eins og ég sagði áðan, að fjölga lögreglumönnum á landsbyggðinni sem við teljum brýnasta verkefnið.

Varðandi fækkun sýslumanna og lögreglustjóra, já, það frumvarp er í vinnslu og miðað er við að það verði lagt fram í haust. Ég get sagt það án þess að fara í einhver smáatriði hvað varðar þau frumvörp, sem eru tvö, að það stendur til að vinna þau út frá landshlutum þannig að það verði gert í sem bestri samvinnu og sátt við þá vinnu sem þegar var hafin í innanríkisráðuneytinu á síðasta kjörtímabili. Það er ekki ólíkt því uppleggi.

Varðandi framlag til innanlandsflugs er einnig rétt að gert er ráð fyrir lækkun á því framlagi. Ég get deilt þeim áhyggjum sem hv. þingmaður hefur af því, ég hef áhyggjur af því og það þarf að fara vel yfir það. Samhliða því er vinna hafin í innanríkisráðuneytinu sem lýtur að fjárhagsgrunni Isavia sem lýtur að skoðun á því hvort það er nákvæmlega rétt skipt í því sambandi. Við horfum til nágrannalanda okkar, sérstaklega Noregs. Varðandi fjarskiptasjóðinn er þessi lækkun sem hv. þingmaður nefnir ekki talin hafa áhrif á þá uppbyggingu og þau verkefni sem eru í gangi víða um land og tengjast því.



[18:53]
Þorsteinn Sæmundsson (F):

Hæstv. forseti. Þakka ber sérstaklega auknar fjárheimildir til löggæslumála sem koma fram í fjárlagafrumvarpinu. Það hefur satt að segja valdið töluverðum áhyggjum undanfarin ár hversu mjög hefur verið þrengt að starfsemi lögreglunnar hvort sem er fjárhagslega eða faglega. Það á við um fækkun í lögregluliðum, það á við um tregðu til að veita lögreglu forvirkar rannsóknarheimildir og mjög vantar á að útbúnaður lögreglunnar sé í samræmi við breyttan og harðari heim afbrota.

Einnig má nefna í þessu samhengi vaxandi ásókn erlendra glæpaflokka til Íslands og þess vegna ber að fagna því sérstaklega að vandi lögreglunnar á Suðurnesjum er loksins viðurkenndur en það embætti bjó lengi við fjárþurrð út af því að sá ytri vöxtur sem var við það embætti árum saman var ekki viðurkenndur. Ég gleðst mjög yfir því að þar er tekið á. En grunnurinn í starfi lögreglunnar hlýtur þó alltaf að verða og mun alltaf verða almannaþjónusta; að sjá til þess að borgarar þessa lands geti farið ferða sinna öruggir, verið óhræddir um heimili sín og eignir og vitað af börnum sínum öruggum.

Mig langar einnig að gera fangelsismál aðeins að umtalsefni. Það er ljóst að nýtt fangelsi verður ekki tekið í notkun næstu tvö til þrjú ár eða þar um bil en byggingarkostnaðurinn er allmikill eða um 40 milljónir á hvern klefa og byggingin leysir ekki uppsafnaðan vanda í afplánunarbiðröðinni sem við eigum við að etja. Mig fýsir því að spyrja hæstv. ráðherra hvort uppi séu hugmyndir eða ætlanir um að beita til dæmis ökklaböndum í refsiskyni, hvort til greina komi að auka afplánun með samfélagsþjónustu þar sem það á við og eftir atvikum hvort íhugað hafi verið að innrétta bráðabirgðahúsnæði til að leysa brýnasta vandann? Þá hugsa ég sérstaklega til húsnæðis sem er til á gamla „varnarsvæðinu“ á Keflavíkurflugvelli. Þar eru að vísu sex fangaklefar til þegar en svæðið er vel girt og þar er gnótt af ónýttu húsnæði sem ríkið er með rekstur á og gæti komið að gagni.

Mig langar líka að spyrja, í framhaldi af því sem ég sagði í upphafi máls míns, hvort hæstv. ráðherra hefur í hyggju að auka forvirkar rannsóknarheimildir til lögreglu.



[18:56]
innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni spurningarnar. Til þess að svara fyrst varðandi auknar forvirkar rannsóknarheimildir til lögreglunnar þá eru ekki áform um auknar heimildir til slíks, alla vega ekki á komandi þingi. Ég hef ekki boðað frumvarp um það. Varðandi lögregluembættið á Suðurnesjum þá tek ég undir með hv. þingmanni þar. Þar hefur verið unnið mjög gott starf. Embættið hefur verið afar vel rekið á undanförnum árum en hefur þó verið að draga á eftir sér hala af gömlum syndum, ef við getum orðað það þannig, og við viljum leggja okkur öll fram um að tryggja að sanngirni sé gætt í úthlutun fjármagns á því svæði sérstaklega.

Svo komum við að fangelsinu á Hólmsheiði. Eftir mikla yfirlegu, eins og ég hef áður sagt hér úr þessum ræðustóli, á milli innanríkisráðuneytisins og fjármálaráðuneytisins í sumar er það algjörlega mín skoðun — og ég get upplýst það hér að ég hafði, áður en ég kom að því verkefni með þessum hætti, ákveðnar efasemdir en hef þær ekki lengur. Ég tel mjög brýnt að reisa fangelsi á Hólmsheiði. Ég er ekki sammála því þegar talað er um að kostnaður á hvern klefa — þó að það hljómi eins og það sé há tala þá er hún til samanburðar helmingi lægri en á við um þá klefa sem reistir eru í nágrannalöndum okkar og eru hugsaðir til vistunar fyrir fangelsi af þessum toga, sem er gæsluvarðhaldsfangelsi.

Varðandi ökklabönd og samfélagsþjónustu þá er þannig haldið á því, eins og ég upplýsti í svari til þingsins fyrr í sumar, að það er talið að við séum að gera eins vel og mögulega er hægt í því. Og varðandi það að innrétta bráðabirgðahúsnæði þá hafa ýmsir hlutir verið skoðaðir í því. Það er fyrirliggjandi og til skýrsla um alls kyns útfærslur sem voru skoðaðar. Niðurstaðan af þeirri skoðun var alfarið sú að það væri dýrara að reisa gæsluvarðhaldsfangelsi í bráðabirgðahúsnæði en að reisa það nýtt. Það lýtur að kostnaði vegna tæknilausna. Það lýtur að kostnaði vegna starfsmanna. Þrátt fyrir að sá kostnaður sem hlýst af því að reisa nýtt fangelsi geti við fyrstu sýn virst meiri en eðlilegt getur talist þá er það álit mitt, við yfirferð og nákvæma skoðun, að svo sé ekki og að það sé verkefni sem við verðum að ráðast í.



[18:58]
Þorsteinn Sæmundsson (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Ég ætla að ítreka það að ég tel mjög brýnt að athuga þessar tvær fyrri ráðstafanir sem ég ræddi, þ.e. ökklabönd og samfélagsþjónustu, til að vinna á þessum langa lista.

Mig langar líka aðeins að gera málefni hælisleitenda að umræðuefni. Ég sé að fjárframlög stórhækka. Það bíða mjög margir hælisleitendur hér á Íslandi eftir úrlausn sinna mála, bæði er það ómannúðlegt og einnig dýrt fyrir ríkissjóð. Hæstv. ráðherra gat um að í undirbúningi væri vinna til að leysa þennan vanda hraðar en gert hefur verið. Þar sem ég veit að Norðmenn hafa glímt við holskeflu af hælisleitendum undanfarin ár og hafa verið með mjög ákveðnar verklagsreglur í þeim efnum langar mig til að vita hvort horft hafi verið þangað og einnig hvort hæstv. ráðherra hyggist beita þeim paragröffum í Dyflinnar-samningnum sem fyrir hendi eru á ákveðnari hátt en gert hefur verið undanfarin ár til að vísa hælisleitendum aftur til fyrsta lands sem kallað er.



[19:00]
innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Já, það stendur til að gera ákveðnar breytingar er lúta að málefnum hælisleitenda á Íslandi. Til upplýsingar fyrir þingið þá er kostnaður ríkissjóðs á yfirstandandi ári vegna þessara mála 555 milljónir. Þegar talað er um aukningu í því frumvarpi sem nú liggur fyrir þá miðast það því ekki við þá aukningu sem sannarlega hefur orðið í málaflokknum. Innanríkisráðherrar, bæði sú sem hér stendur og sá sem á undan var, hafa ítrekað þurft að fara til ríkisstjórnar til að óska eftir auknu framlagi.

Við höfum leitað til Noregs og ég fór og hitti norska dómsmálaráðherrann, afar mæta konu, sem fór yfir það með mér mjög nákvæmlega hvernig Norðmenn hafa verið að taka á málinu. Það er athyglisvert að það er alveg sama við hvern maður ræðir, þ.e. í þeim löndum sem eru talin standa sig hvað best í þessum málaflokki, að þá vísa allir til Noregs. Það er vegna þess að Norðmönnum hefur tekist að sinna mjög vel þeim sem þurfa á pólitísku hæli að halda og eiga rétt á þeirri aðstoð og þeim réttindum sem það felur í sér. Þeir hafa gert það með ákveðnum verklagsreglum sem er svokölluð 48 klukkustunda regla sem lýtur að því að viðkomandi fær svar innan þess tíma um hvort hægt sé að vinna frekar með umsóknina eða hvort svarið sé nei.

Við erum að skoða þessa hröðu málsmeðferð og hraðari málsmeðferð með Útlendingastofnun en einnig höfum við rætt málið við Mannréttindaskrifstofuna, við Rauða krossinn og fleiri aðila sem að því koma. Við teljum að hægt sé að ná betri árangri í málaflokknum, sinna betur þeim sem þurfa á aðstoð okkar að halda og einnig að ná betri hagræðingu og betri nýtingu fjármagns, sem er auðvitað verkefnið.

Ég á von á því að geta kynnt þetta verkefni betur á næstu vikum. Það lítur út fyrir að við þurfum ákveðnar lagabreytingar til þess að innleiða þessar verklagsreglur og frumvarp þess efnis verður lagt fram hér á þinginu í haust.



[19:02]
Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Ég er ánægður að heyra af áherslum hæstv. innanríkisráðherra í umferðaröryggismálum og öryggismálum almennt, ég deili þeirri sýn hæstv. ráðherra á málaflokkinn að það eigi að vera grundvallaratriði í ákvarðanatöku í samgöngum hvernig við getum aukið umferðaröryggi.

En mig langar til að forvitnast um tvö atriði í frumvarpinu hjá hæstv. ráðherra. Í fyrsta lagi er gerð tillaga um að 250 millj. kr. verði varið til að finna viðunandi lausn í samgöngum á milli Landeyjahafnar og Vestmannaeyja, hvort sem sú lausn felst í því að leigja tímabundið ferju eða fara í útboð, hönnun og smíði á nýrri ferju. Nú stóð ég í þeirri trú sem fyrrverandi þingmaður Suðurkjördæmis að í raun og veru væri enginn valkostur annar en að taka í notkun og smíða nýja ferju fyrir árið 2015. Mig langar til að spyrja hvernig þetta mál standi og hvaða skýringar eru á því að menn virðast enn þá vera að velta fyrir sér hver séu réttu næstu skrefin í þessum efnum.

Svo langar mig til þess að spyrja um annað lítið mál sem ég hef spurt um áður og verið vændur um hér í þinginu að sofa ekki á nóttunni yfir en það er nú ekki þannig. Ég er hins vegar mikill áhugamaður um gerð göngubrúar yfir Markarfljót. Hér er gert ráð fyrir því að niður falli 45 millj. kr. tímabundið framlag sem samþykkt var á síðasta ári vegna gerðar göngubrúar yfir Markarfljót. Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra um stöðu þessa máls, hvort ákveðið hafi verið að falla frá þessari fyrirætlan eða hvernig þeir fjármunir sem samþykktir hafa verið í verkið hafi verið nýttir og hvar málið sé statt.

Þetta er ekki stórt mál og ekki háar fjárhæðir sem þarna um ræðir en getur skipt miklu máli fyrir hagsmunaaðila á svæðinu, þá er ég að tala um rekstraraðila í Húsadal, Ferðafélag Íslands í Langadal og Útivist sem hafa sameinast í félagi sem heitir Vinir Þórsmerkur, ásamt með sveitarstjórnarmönnum og hagsmunaaðilum í Rangárþingi eystra þar sem þetta skiptir miklu máli. Ódýrt og lítið mál sem getur haft mjög virðisaukandi áhrif í för með sér vegna þess að brúin tengir saman svæði. Ég minni líka á það út frá öryggisvinklinum að fólk hefur lokast inni í Þórsmörk tvisvar sinnum á síðustu þremur árum í náttúruhamförum og með brúnni fæst mikilvæg flóttaleið fyrir tiltölulega litla fjármuni.



[19:06]
innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Varðandi það sem hv. þingmaður nefnir um textann í frumvarpinu og tengist lausnum á flutningi á milli lands og Eyja þá stendur ekki til neitt annað en að fara í útboð á ferjunni á komandi ári. Fjármagnið sem er sett þar inn er miðað við að farið verði í útboð. Hins vegar hefur verið í skoðun hvort hægt sé að bæta samgöngur við eyjarnar tímabundið með einhverjum hætti, m.a. til að fá siglingareynslu af ferju sem væri grynnri en Herjólfur. Þess vegna er þetta orðað með þeim hætti sem hv. þingmaður tók greinilega eftir og las upp. Það var vilji okkar að halda ákveðinni sveigju í því hvernig Eyjamenn vildu nálgast málið en það er engin breyting á því að farið verður í útboð á næsta ári.

Það er alveg rétt sem hv. þingmaður kemur inn á að þetta hefur tafist en engin áform eru um að breyta því. Uppi hafa verið eins og ég geri ráð fyrir að hv. þingmaður þekki mjög vel ákveðnar umræður um að farsælt væri að fá siglingareynslu af ferju sem risti grynnra en Herjólfur gerir. Þannig að við höfum verið að skoða ákveðna þætti er tengjast því.

Varðandi gerð göngubrúar yfir Markarfljót er það þannig, og ég get farið betur yfir það síðar eða afhent hv. þingmanni það skriflega, að þær áætlanir sem voru í gangi varðandi kostnað á því verki virðast ekki í samræmi við það hver kostnaðurinn er. Það er í raun og veru því miður þannig að menn hafa þurft að setja verkefnið á ís og skoða verður það aftur með hliðsjón af því að það er talið kostnaðarsamara en áætlanir gerðu upphaflega ráð fyrir.



[19:07]
Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Ég vil hvetja hæstv. ráðherra til að skoða málið betur varðandi göngubrú yfir Markarfljót vegna þess að auðvitað höfðu menn uppi ákveðnar hugmyndir í þinginu á síðasta kjörtímabili þegar það mál kom til umfjöllunar. Ég man ekki nákvæmlega hverjar kostnaðartölurnar voru en það kom fram mjög skýr vilji í þinginu, hérna var samþykkt þingsályktun sem mjög ríflegur meiri hluti þingmanna var á. Ég held að menn hljóti að geta sniðið stakkinn svolítið eftir vexti í þessum efnum. Það hljóta að vera til ótal útfærslur af svona göngubrúm. Þær þurfa ekki að kosta hundruð milljóna eða miklu meira en einhverja nokkra tugi.

Þarna er dæmi um verkefni sem getur skapað störf, skapað tækifæri, búið til nýjar gönguleiðir, nýjar flóttaleiðir og á ekki að kosta of mikinn pening. Ég held að það væru mikil vonbrigði úr því sem komið er ef menn mundu út frá einhverjum fyrir fram gefnum forsendum, sem ég þekki reyndar ekki alveg til hlítar, ákveða að ótækt væri að ráðast í þetta verkefni. Það er mikilvægt og ég veit til þess að sveitarstjórnarmenn í Rangárþingi eystra horfa mjög miklum vonaraugum til þess að þetta geti orðið, einnig rekstraraðilar í ferðaþjónustu í Fljótshlíðinni og fyrirtæki sem bjóða upp á ýmiss konar afþreyingu á svæðinu.



[19:10]
innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég þarf ekki að lengja þetta. Ég skal sjá til þess að farið verði betur yfir málið og halda hv. þingmanni upplýstum um það og ég mun koma því áleiðis. Það er engin sérstök afstaða sem felst í því heldur felst bara í þessum útreikningum að þeir stóðust ekki miðað við þær áætlanir sem til staðar voru, en ég skal með ánægju sjá til þess að það verði yfirfarið enn og aftur.



[19:10]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. innanríkisráðherra fyrir góð svör í kvöld, þar kom ýmislegt mjög fróðlegt og gagnlegt fram. Vegna þess að nokkuð mikið hefur verið kvartað hérna í dag þá langar mig að fagna því sérstaklega að fjárheimildir til lögreglunnar séu auknar, meðal annars vegna þess að ég óttast að fjársvelt lögregla sé líklegri til þess að grípa til harkalegri aðgerða en þörf er á en ef meira væri af lögreglumönnum, launin hærri og starfsskilyrði almennt betri. Þess vegna fagna ég því alveg sérstaklega.

En mig langar að spyrja hæstv. ráðherra um hælisleitendur. Eins og sagt var áðan þá hafa farið 555 millj. kr. í hælisleitendur á yfirstandandi ári. Það er ansi há upphæð. En ég velti fyrir mér þar sem í Útlendingastofnun, sem meðhöndlar slík mál, er greinileg og viðvarandi mannekla, hvort til greina komi að auka fjárútlát til Útlendingastofnunar til þess að minnka málafjöldann sjálfan, hvort það væri ekki ágætisfjárfesting. Jafnvel þótt verkefnahópur hafi tekið til starfa á sínum tíma til að endurskipuleggja málefni hælisleitenda virðist fókusinn þar vera á málsmeðferðartíma, sem er frábært, þ.e. að skýra og einfalda verklagsreglur, veita mannúðlegri meðferð fyrir hælisleitendur og nýta fjármuni betur. Það er allt gott og blessað og þarft og frábært og ég hlakka til að sjá hvað verður úr því, en einhvern veginn sýnist mér frekar augljóst að ef við settum til dæmis 100 milljónir aukalega í Útlendingastofnun hlyti það að leysa heilmikinn vanda fyrir marga hælisleitendur sem mundi þá spara peninga á móti.

Ég velti fyrir mér hvort sá möguleiki hafi sérstaklega verið skoðaður að auka framlag til Útlendingastofnunar. Það hefur heldur ekki hækkað mikið í áranna rás. Það hækkar aðeins núna, það var 193,7 millj. kr. en er núna 198,3 millj. kr. Og vegna þess að við lifum alltaf í alþjóðlegri heimi hefði ég haldið að það sé alveg kominn tími til að bæta aðeins við hjá Útlendingastofnun almennt, burt séð frá hælisleitendum. Það er reyndar ekki umræðuefni hér og nú því að hérna ætlum við að jú að spara peninga, en þess vegna sting ég samt upp á þessu við þetta tilefni, þ.e. vegna þess að mér sýnist þarna vera tækifæri til þess að spara mjög mikinn kostnað fyrir mjög lítinn pening. Ég velti fyrir mér afstöðu hæstv. ráðherra til þess.



[19:13]
innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég tek undir áherslur hv. þingmanns í þessum málum. Ég get jafnframt upplýst hv. þingmann varðandi það sem nefnt er hér um að fjölga starfsfólki hjá Útlendingastofnun, að það var gert. Það hefur sem sagt verið reynt að fjölga starfsfólki bæði núna í sumar og einnig á síðasta kjörtímabili og það skilaði árangri. Það var sem sagt þannig. Til eru um það dæmi og farið var í athugun á því að fjölgun starfsfólks í Útlendingastofnun í þessum verkefnum þýddi hraðari málsmeðferð og minni kostnað. Það er algjör fylgni þar á milli.

Hins vegar er niðurstaðan af yfirlegu okkar yfir þessu máli sú að það eitt og sér nægi ekki. Verklagsreglurnar verða að breytast og þeir sem að málaflokknum starfa verða að hafa ríkari og skýrari heimildir til að vinna á þann veg sem ég fór yfir hér áðan, þannig að hægt sé að svara innan 48 klukkustunda. En það er alveg hárrétt, eins og kom fram hjá hv. þingmanni, að þetta á ekki bara við um þau mál er lúta að hælisleitendum. Málsmeðferðin tekur of langan tíma, er of kostnaðarsöm og lýtur það meðal annars að því að við höfum ekki nægan hóp af fólki til að vinna að málum en einnig virðist regluverkið vera þannig að það tekur of langan tíma að vinna að þeim.

Það var mjög athyglisvert að fara til Noregs og hitta þá aðila sem verið hafa að vinna að breytingum þar. Þeir eru með svipaða löggjöf og við og fóru í ákveðnar breytingar sem sýndu að að jafnaði tók það norsk stjórnvöld 383 daga að afgreiða umsókn hælisleitanda. Þegar það var greint hvernig sú vinna var framlögð, eða hvernig var unnið að málefnum hælisleitandans, þá fóru 2,5 vinnudagar í að vinna raunverulega að hans málum, hinn tíminn fór í bið. Við viljum reyna að læra af þessari reynslu og tryggja að við forgangsröðum betur og nýtum fjármagnið sem við höfum betur.



[19:16]
félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Samkvæmt fjárlagafrumvarpi næsta árs munu útgjöld velferðarráðuneytisins sem snúa að félags- og húsnæðismálum verða rúmir 119 milljarðar kr. Aukningin milli ára nemur tæpum 12 milljörðum kr. sem svarar um 10,8%. Mest munar þar um aukna fjármuni inn í almannatryggingakerfið og Íbúðalánasjóð og á þeim grunni er gert ráð fyrir því í fjárlögunum að ná jafnvægi í ríkisrekstrinum, skila hallalausum rekstri á næsta ári á sama tíma og við stöndum vörð um velferðina og heimilin í landinu.

Það er mikilvægt að hafa í huga að hlutur bótagreiðslna er tæp 92% af öllum útgjöldum til félags- og húsnæðismála og því augljóst að aukningin inn í bótakerfið upp á 11,2% vegur hér þungt. Lífeyrisþegar munu nú fá nauðsynlega leiðréttingu sinna mála þegar tekjuskerðingarhlutfall hjá öryrkjum og ellilífeyrisþegum lækkar úr 45% í 38,5%. Þar er verið að koma verulega til móts við þá hópa og leiðrétta skerðingar frá 2009. Í krónum talið aukast greiðslur til málaflokksins um 8,5 milljarða kr.

Með þeirri breytingu er verið að stíga stærsta skrefið að því marki að skila lífeyrisþegum þeim skerðingum sem þeir hafa mátt sæta frá árinu 2009. Fyrsta skrefið hefur þegar verið tekið í sumar þegar afnumdar voru skerðingar á grunnlífeyri elli- og örorkulífeyrisþega vegna lífeyristekna og með hækkun frítekjumarks vegna atvinnutekna ellilífeyrisþega úr 40 þús. kr. á mánuði í um 110 þús. kr. Samhliða því var líka tekin ákvörðun um að framlengja frítekjumarkið vegna atvinnutekna öryrkja um eitt ár meðan unnið er að nýju og breyttu almannatryggingakerfi. Að mínu mati kemur stefna stjórnvalda í félagslegum velferðarmálum því glöggt fram í fjárlagafrumvarpi ársins 2014. Áherslan er á fólk, fjölskyldur, heimili og börn og afkomu og velferð.

Eins og ég sagði áðan verða fjármunirnir í almannatryggingakerfið auknir um 11,2%. Aukið fé verður veitt til málefna barna og hækka framlögin um 16,9% samkvæmt frumvarpinu eða sem nemur 177 millj. kr. Fénu verður varið í úrræði fyrir þolendur kynferðisbrota, barnaverndarmál, úrræði fyrir fanga yngri en 18 ára og í forvarnir og meðferðarúrræði. Að hluta til eru það verkefni til að fylgja eftir lögfestingu Alþingis á barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.

Ég vil líka nefna hækkun hámarksgreiðslna í fæðingarorlofi um 20 þús. kr. á mánuði þannig að með því og öðrum hækkunum á síðasta rúma ári sem er staðinn vörður um hafa hámarksgreiðslur í fæðingarorlofi hækkað um 23% þegar Alþingi verður búið að samþykkja breytinguna, ef Alþingi hyggst gera það. Markmiðið með þessu er að fjölga þeim sem vilja nýta rétt sinn til fæðingarorlofs en því miður er enn töluverður fjöldi karla sem gerir það ekki. Ég vonast til að breytingin muni vinna að því að ná ætluðum tilgangi laganna um að tryggja barni samvistir við báða foreldra og samræma fjölskyldu- og atvinnulíf með því að jafna ábyrgð foreldra á uppeldi barna sinna og styðja þannig við jafnrétti kynjanna.

Eins og ég nefndi í upphafi er verulegum fjármunum varið til Íbúðalánasjóðs sem fær samkvæmt frumvarpinu 4,5 milljarða á næsta ári til að mæta rekstrartapi og til að annast umsýslu með húsnæði í eigu sjóðsins. Það er auðvitað ekki gott að sjóðurinn skuli vera svo fjarri því að vera sjálfbær en við verðum að styrkja innviði hans og því er þetta aukna framlag óhjákvæmilegt.

Þá lá líka alltaf fyrir að í fjárlagafrumvarpi næsta árs yrði reynt að skera niður kostnað eftir því sem væri mögulegt. Vandinn í slíkum aðgerðum er að forgangsraða sem best og hefur verið reynt að gera það eins og kostur er í þágu fólks, heimila og velferðar. Í hagræðingaraðgerðunum munar miklu um 299 millj. kr. samdrátt í rekstrarumfangi umboðsmanns skuldara. Það eru þó í sjálfu sér ekki slæm tíðindi því að verulega er farið að draga úr álagi hjá umboðsmanni eins og reiknað var með og því eðlilegt að stofnunin dragi saman seglin eftir því sem dregur úr þörf fyrir þjónustu hennar.

Útgjöld til vinnumála dragast líka saman um tæpar 1.340 millj. kr. Tekið skal fram að atvinnuleysisbætur hækka um 3% í samræmi við almennar verðlagsforsendur og er þannig staðinn vörður um atvinnuleysisbæturnar sjálfar en það fækkar hins vegar stöðugt fólki á atvinnuleysisskrá, störfum fjölgar og það dregur úr atvinnuleysi, sem er raunar með því minnsta sem þekkist á Vesturlöndum. Samkvæmt Eurostat, hagstofu Evrópusambandsins, eru aðeins fjögur lönd í hinum vestræna heimi með minna atvinnuleysi en Ísland. Samhliða því minnkar þörf fyrir vinnumarkaðsaðgerðir og því er lagt til að dregið sé saman í útgjöldum til þeirra enda er þeim alltaf ætlað að vera tímabundin úrræði.

Virðulegi forseti. Það er einkar ánægjulegt að horfa til þeirra þátta að í fjárlagafrumvarpinu er ríkisstjórnin að leggja fram áætlun þar sem er staðinn vörður um velferðina, öryggisnet samfélagsins, jafnframt því sem tekin eru skref til þess að tryggja velferðina til framtíðar því að grunnur hennar verður ætíð hagvöxtur. Vöxtur og vinna verða forsenda velferðarinnar.



[19:21]
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Herra forseti. Ég þakka ráðherra fyrir yfirferðina yfir þennan stóra og mikilvæga málaflokk sem félags- og húsnæðismálin eru. Það var ánægjulegt þegar nýr ráðherra tók við og ákvað að nefna sig ráðherra húsnæðismála, enda munu húsnæðismál verða mikið á dagskrá á næstunni.

Ráðherrar og þingmenn í ríkisstjórnarflokkunum hafa verið mjög sáttir við að hér væri lagt fram frumvarp þar sem skilað væri afgangi. Það vekur upp ýmsar athugasemdir sem ég hef við veikleikann í því en það sem er eðlilegt að ræða í því samhengi er að stórkarlaleg loforð um skuldaniðurfellingu hjá heimilum og stuðning við heimili út af húsnæðismálum, þeirra sér ekki stað í fjárlagafrumvarpinu. Því verður að huga að bótakerfum í húsnæðismálum þegar talað er um að byggja eigi upp öflugan leigumarkað sem sé raunverulegur valkostur fyrir fjölskyldur.

Þar koma til húsaleigubætur sem eru mun lægri en vaxtabæturnar að því leyti að mjög margar fjölskyldur njóta vaxtabóta ef þær kaupa sér húsnæði og valkosturinn að leigja verður ekki til staðar því að þá kemur ekki opinber stuðningur. Nú kann að vera að ráðherra sé að bíða eftir vinnu hópa sem eru að störfum en þá velti ég fyrir mér hvort það sé ekki meiningin að leggja til aukin framlög í húsnæðisstuðning við heimili á næsta ári og það hljóti þá að koma fram í fjáraukalögum því að vaxtabæturnar eru ekki að hækka, þó að þær heyri ekki undir þennan ráðherra, þrátt fyrir loforð Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks um að koma til móts við heimili í gegnum skattkerfið ef þau falla ekki undir skuldaniðurfellingarhugmyndirnar.

Varðandi Íbúðalánasjóð er ég með spurningar um hann. Hér er talað um sérstakt árlegt framlag upp á 4,5 milljarða og það er að hluta til fram komið vegna IFS greiningar. Þar segir að útborgun framlagsins sé að hluta eða í heild skilyrt með því að viðhlítandi endurmat liggi fyrir. Þá velti ég fyrir mér: Hvenær er von á þessu viðhlítandi endurmati?

Það sem vekur áhyggjur er að 4. þingmál ríkisstjórnarinnar, sem er mjög gott frumvarp að því er mér virðist þótt það sé reyndar flókið fyrir þá sem eru ekki sérfræðingar í stimpilgjöldum, það frumvarp mun að öllum líkindum auka fjölda þeirra sem sjá hag í því að greiða upp lán hjá Íbúðalánasjóði. Þannig að þótt frumvarpið sé jákvætt fyrir (Forseti hringir.) lántakendur getur það haft áhrif á aukin útgjöld ríkisins vegna Íbúðalánasjóðs.



[19:25]
félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir ræðu hennar og spurningar.

Það hefur alltaf legið fyrir, og það hefur komið alveg skýrt fram í orðum forustumanna ríkisstjórnarinnar sem og stuðningsmanna hennar, að það stendur ekki til að láta ríkissjóð greiða fyrir skuldaleiðréttinguna. Það hefur margítrekað komið fram og er náttúrlega ástæðan fyrir því að það kemur ekki fram í reikningum ríkisins.

Varðandi bótakerfið þá fagna ég því að þingmaðurinn skuli koma inn á þann þátt. Ég tel að mjög mikilvægt sé að huga að breytingunum á húsnæðisbótum á þann máta að við skoðum málið meira heildstætt. Ég veit að það hljómar eins og einhver klisja en þær tillögur sem hafa komið fram hingað til hafa fyrst og fremst snúið að því hvernig við getum reynt að hækka húsaleigubæturnar og breytingarnar sem snúa að velferðarráðuneytinu meðan vinnan sem snýr að breytingum á vaxtabótakerfinu yfir í hinar sameiginlegu húsnæðisbætur virðist vera komin skemmra á veg hvað varðar tillögugerð. Ég tel að með skuldaleiðréttingunni muni skapast svigrúm til að jafna það út, sem ég veit að við hv. þingmaður erum sammála um að sé mjög mikilvægt, þannig að að mínu mati tengist það líka áformum ríkisstjórnarinnar um skuldaleiðréttinguna.

Vaxtabætur halda sér á milli ára hvað varðar upphæðir og reiknireglur. Hins vegar er gert ráð fyrir því að vegna þess að fólk mun hafa það betra og skuldir munu lækka verði kostnaðurinn ekki jafn mikill. Það hefur líka sýnt sig á þessu ári að fjárheimildir voru (Forseti hringir.) umfram það sem þurfti. Ég fæ kannski að koma að Íbúðalánasjóði í seinni ræðu.



[19:27]
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Herra forseti. Ég vil ræða húsnæðisbæturnar aðeins nánar því að mér fannst það svolítið óljóst hjá ráðherra. Þess sér hvergi stað í frumvarpinu að fyrir liggi vilji til þess að breyta húsnæðisstuðningskerfinu. Ég vona að annaðhvort hafi ég misst af því og það sé þarna eða þá að það standi til þrátt fyrir að koma ekki fram í fjárlagafrumvarpinu. Ég held að ég ítreki að ef hér á í raun og veru að verða valkostur um leiguhúsnæði, ef ráðherra er að meina það sem hún segir þegar hún talar um það, verður að breyta húsnæðisstuðningskerfinu. Það eru allir sammála um sem eitthvað hafa kafað ofan í þau mál.

Ef forsenda þess að það sé hægt er sú að búið sé að lækka skuldir heimilanna, þar fáist meira fé í gegnum vaxtabæturnar og þá sé hægt að gera það, erum við ekki að tala um neinar breytingar á kerfinu á næstunni að því er virðist því að það er mjög óljóst hvenær sú skuldaleiðrétting getur átt sér stað og við fáum mjög óljós svör um það. Flokkurinn minn, Samfylkingin, hefur lagt fram tillögur um bráðaaðgerðir þar sem húsnæðisstuðningskerfið er mjög mikilvægur þáttur og mér finnst það mjög bagalegt ef þessi mikli áhugi í húsnæðismálum er látinn sitja á hakanum á meðan reynt er að finna leið til að framkvæma hinar stórkarlalegu hugmyndir um skuldaleiðréttingar.



[19:29]
félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Eins og hv. þingmaður veit, enda situr hún í verkefnastjórn sem snýr að framtíðarskipan húsnæðismála, er þar verið að huga að framtíðarfyrirkomulagi Íbúðalánasjóðs. Vinnan er núna að fara á fullt og verið er að klára tilnefningar í samvinnuhópinn. Hann er grunnurinn að breytingunum sem við ætlum að gera. Ég tel að þar inni í hljóti að vera hugmynd um hvernig við ætlum síðan að gera breytinguna, þ.e. að breyta húsaleigubótum og vaxtabótum yfir í húsnæðisbætur, alveg til enda. Það voru allir sammála um sem voru í starfshópi sem hv. þingmaður stýrði á síðasta kjörtímabili varðandi húsnæðisstefnu. Ætlunin er að stefna að því, ég hef alla vega ekki skipt um skoðun hvað það varðar og ég heyri greinilega að hv. þingmaður hefur heldur ekki skipt um skoðun.

Þegar ég fór yfir stöðuna þegar ég kom að þessu máli í ráðuneytinu sá ég hins vegar að vinnan hafði fyrst og fremst snúið að húsaleigubótunum og samskiptum við sveitarfélögin. Breytingarnar sem snúa að vaxtabótunum og því að sameina þessi mál í eitt kerfi voru ekki komnar nándar nærri eins langt og breytingarnar sem sneru að húsnæðisbótunum. Eina ástæðan fyrir því að ég taldi mikilvægt að vera með fulltrúa frá fjármálaráðuneytinu í verkefnisstjórninni, í samvinnuhópnum, var að þetta væri einn af þeim þáttum sem hugað væri að.

Eins og hv. þingmaður benti á er mjög mikilvægt að skoða breytingarnar sem hæstv. fjármálaráðherra leggur til, eins og breytingar á stimpilgjöldunum. Allar breytingar sem ráðherra eins málaflokks gerir, t.d. jafn mikilvægs og fjármálaráðuneytisins, koma inn á húsnæðismálin. Það er líka ástæðan fyrir því að það er svo mikilvægt að hafa þetta þarna innan dyra og það er (Forseti hringir.) alveg rétt ábending að hafa þurfi áhrifin í huga. En við getum hins vegar ekki látið (Forseti hringir.) slæma stöðu Íbúðalánasjóðs stoppa okkur ítrekað við að mynda það kerfi í húsnæðismálunum (Forseti hringir.) sem við viljum hafa hér til framtíðar.



[19:31]
Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Hér er til umræðu þessi gríðarstóri og mikli málaflokkur ansi seint á deginum en samt sem áður afskaplega mikilvægt að við stöldrum við hann. Hér hefur verið fjallað um nokkrar hliðar málaflokksins en mig langar til að drepa á önnur atriði en þau sem hafa þegar verið til umræðu.

Hæstv. ráðherra hefur verið talsmaður jöfnuðar í pólitískri umræðu og ekki síst jafnréttis kynjanna og hefur látið til sín taka í þeirri umræðu allt frá því að ég sá til hennar fyrst í pólitík. Það er mikilvægt að eiga liðsmenn í þeim efnum og liðskonur.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra um tvennt: Annars vegar um þá stöðu að horfið hefur verið frá lengingu fæðingarorlofs úr níu mánuðum í tólf í áföngum, sem ég held að við hæstv. ráðherra þurfum ekki að reifa að er gríðarlega mikilvægt kynjajafnréttismál. Þarna er um að ræða afar langa vegferð árum saman og lýtur að jafnstöðu kvenna á vinnumarkaði. Það veldur mér mjög miklum vonbrigðum hvernig þessum málaflokki er fyrir komið í frumvarpinu og mundi gjarnan vilja heyra hæstv. ráðherra reifa afstöðu sína til nákvæmlega þessa máls.

Sú sem hér stendur hefur nýlega mælt fyrir tillögu, gerði það á sumarþingi, um að leikskólinn taki við þegar að afloknu fæðingarorlofi til að brúa þetta bil ef svo má að orði komast. Það bil birtist nú í dálítið nýju ljósi þegar áform ríkisstjórnarinnar eru með öðru móti en var í tíð fyrri ríkisstjórnar.

Mig langar líka að spyrja hæstv. ráðherra um kynjagleraugun á skattkerfisbreytingarnar. Hér er um að ræða tilteknar breytingar sem er lækkun á tekjuskatti um 0,8% á miðþrepinu en engin breyting á lægsta þrepi og áform hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra í þá veru að fækka skattþrepum niður í eitt. Það kom fram í upphaflegu umræðunni um fjárlagafrumvarpið í gær að til stæði að hverfa frá þrepaskattsskiptingu skattkerfisins. Ég vil hvetja hæstv. ráðherra og tel raunar að fjárlaganefndin þurfi að taka til sérstakrar skoðunar áhrif skattkerfisbreytinganna á mismunandi fjölskyldugerðir og ekki síst á stöðu kvenna í samfélaginu. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort hún og hennar embætti hafi komið að þessari hlið fjárlagagerðarinnar, þ.e. kynjajafnréttisvinklinum á skattkerfisbreytingunni.



[19:35]
félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurningarnar. Það var náttúrlega ekkert af því sem snýr að niðurskurði sem ég tel að nokkur ráðherra hafi verið sérstaklega sáttur við. Ég held að afstaða fyrri ráðherra sem sátu á síðasta kjörtímabili hafi verið nákvæmlega sú sama, það hafi ekki verið nein gleði þegar verið var að leggja til að skerða fæðingarorlofið, lækka þakið og gera ýmsar breytingar sem voru nauðsynlegar vegna erfiðrar stöðu ríkissjóðs.

Ég kannast líka við það að þegar fyrrverandi og reyndar núverandi formaður velferðarnefndar var að vinna þær breytingar sem voru gerðar á fæðingarorlofslögunum, bæði hækkun á þakinu og lengingin og skipuleggja þær, voru miklar vangaveltur uppi. Það má segja að ég hafi að vissu leyti fylgst með því þá svona til hliðar þótt ég hafi setið í nefndinni í stjórnarandstöðu. Núna fór ég sjálf í gegnum þessar vangaveltur upp á hvað það væri sem ég teldi best að gera.

Niðurstaðan varð sú að horfa á það hvernig við næðum markmiðum laganna sem koma mjög skýrt fram — og það mættu fjöldamörg önnur lög á Íslandi vera með svona skýra markmiðsgrein. Þau snúast um rétt barna til að njóta samvista við báða foreldra og síðan að tryggja jafnrétti á vinnumarkaði. Við höfum séð að karlar nýta sér síður rétt sinn þannig að við náum ekki markmiðum laganna með því að hafa þakið svona lágt. Maður gæti líka haft áhyggjur af því að það væri jafnvel verið að draga úr möguleikum á jafnrétti á vinnumarkaði ef við héldum áfram að vera með tiltölulega lágt þak en lengdum fæðingarorlofið. (Forseti hringir.) Niðurstaðan varð því sú að réttara væri að byrja að hækka þakið og ná skerðingum til baka áður en við færum í að bæta við réttindum.



[19:37]
Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin, en verð þó að segja að orðalagið í frumvarpinu sem slíku olli mér vonbrigðum. Þar segir bara fullum fetum að fallið sé frá lengingunni. Þar er ekki sá tónn sem kemur fram í svari hæstv. ráðherra sem snýst í raun og veru um það að í ljósi þeirrar stöðu sem upp er komin verði markmiðum laganna ekki náð öðruvísi en með þeim hætti sem hæstv. ráðherra fór yfir í sínu svari. Ég tel mjög veikt fyrir málaflokkinn og fyrir stöðu fæðingarorlofsins og þeirrar sýnar sem við öll deilum, held ég, að orða það þannig að fallið sé einfaldlega frá lengingu fæðingarorlofs. Það er dálítið varanlegt miðað við ýmislegt annað sem rætt hefur verið hér í dag þar sem menn eru að tala um að nema þurfi staðar og gefa sér lengri tíma vegna þess að svigrúmið í ríkissjóði sé ekki meira en svo og svo, þannig að ég vil kalla eftir breyttri áherslu.

Svo langar mig bara af því að ég hef hér nokkrar sekúndur í viðbót að nefna Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins sem fær ekki aukið framlag til sinna starfa heldur bara til að mæta launa- og verðlagshækkunum. Við vitum að vandi Greiningarstöðvarinnar er gríðarlega mikill og þessari stofnun er ætlað að sinna öllu landinu. Það má auk þess gera ráð fyrir aukinni þörf fyrir þjónustu hennar vegna þess að þjónusta á Akureyri mun breytast eins og hæstv. ráðherra þekkir. Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra hvort staða Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins sé viðunandi og hvort það séu virkilega engin áform um að koma til móts við þá stöðu sem þar er. Á ráðgjafarstöðinni eru gríðarlega langir biðlistar og allt of löng bið í raun og veru í tíma talið þegar um er að ræða erfiða stöðu á þeim heimilum og hjá þeim börnum þar sem þjónustunnar er þörf.



[19:39]
félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég tel mjög mikilvægt að við náum að taka skerðingarnar til baka og að við náum markmiðum laganna um fæðingarorlofið. Síðan getum við horft til nýrra réttinda foreldra í fæðingarorlofi. Það mun taka tíma og það er heilmikill kostnaður sem felst í því, eins og bara það að hækka þakið þó ekki sé nema um 20 þús. kr. á mánuði.

Hvað varðar hina spurninguna hér á undan um kynjagleraugun á skattkerfisbreytingunum þá er það náttúrlega fjármálaráðherra sem flytur tillögur um tekjuhlið frumvarpsins og þær endurspegla að sjálfsögðu hans áherslur, sem og áherslur ríkisstjórnarinnar. Ég hef talið mjög mikilvægt að þegar farið er í breytingar á jafn stórum kerfum og tekjuskattskerfinu, virðisaukaskattskerfinu, húsnæðismálum og fleiri málum verði unnið í mjög nánu samráði við aðila vinnumarkaðarins, sé það unnið í mjög nánu samráði við hina ólíku hagsmunaaðila og ég vonast til að það muni gerast. Það hefur svo sem komið fram frá t.d. verkalýðsfélögunum að þau vilja ekki að við fækkum þrepunum. Það hefur komið fram ágreiningur um þrepin, að menn fari of skarpt á milli þeirra og það þyrfti hugsanlega jafnvel fleiri þrep, en það er akkúrat öfugt við það sem hæstv. fjármálaráðherra hefur talað fyrir. Það þarf að vanda sig því þetta snertir allar fjölskyldur.

Varðandi Greiningarstöðina þá er þegar hafin vinna varðandi sameiningar á þremur þjónustustofnunum fyrir fatlað fólk. Ég hef lagt áherslu á að ég tel ekki að við séum að fara í þessa samninga á grundvelli þess að við ætlum að hagræða í rekstrinum heldur að við getum vonandi nýtt aukið svigrúm til að bæta þjónustuna við þá sem leita til þessara þriggja þjónustustofnana og ekki hvað síst hringinn í kringum landið því þær sinna allar öllum landsmönnum en ekki bara fólki á höfuðborgarsvæðinu.



[19:42]
Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Það er dálítið miður að þessi mikilvægi málaflokkur sé svona seint á dagskrá í þessari umræðu sem hefur verið mjög góð. Ég hef lofað þetta fyrirkomulag og geri það áfram. Umræðan verður miklu málefnalegri og ráðherrann er ætíð til svara.

Í fyrsta lagi vil ég nefna að það er mjög brýnt að Alþingi haldi í þann afgang sem er á fjárlagafrumvarpinu og í breytingum Alþingis, ef menn vilja gefa einhvers staðar eftir sé aflað tekna á móti eða skorið niður annars staðar, þannig að afgangurinn haldist. En svo kemur að því að menn sýni þann aga að fjárlögin og fjáraukalögin komi fram í ríkisreikningi með raunverulegum hætti en ekki eins og verið hefur undanfarin þrjú ár þar sem munaði 101 milljarði á ríkisreikningi og fjárlögum. Það segir mér að ekkert hafi verið að marka fjárlögin. Og áhrif fjárlaga eða ríkisreiknings eru nákvæmlega þau sömu. Halli á ríkissjóði þýðir náttúrlega bara verðbólgu. Við erum búin að glíma við mikla verðbólgu þrátt fyrir mikla stöðnun og hún kemur niður á sparifjáreigendum og alveg sérstaklega lántakendum þegar nafnverð íbúðalána hækkar.

En mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra, sem flutti hér mjög góða ræðu, um Íbúðalánasjóð og lækkun stimpilgjalda. Stimpilgjöld heyra reyndar ekki undir hennar ráðuneyti en lækkun þeirra kann að leiða til þess að menn muni greiða upp lán í Íbúðalánasjóði. Ég vil spyrja hvort ekki sé þá ráð að hækka eða nota yfirleitt uppgreiðslugjaldið sem ekkert hefur verið notað til að hamla á móti því að menn noti lækkun stimpilgjaldsins til að greiða upp lánin.

Svo vil ég spyrja hana um jafnlaunavottun sem ég átti þátt í á sínum tíma að koma á og er mjög stoltur af og tel vera stórt skref í þá átt að bæta jafnrétti kynjanna og jafnrétti fólks yfirleitt, hvort hennar sjái einhvers staðar stað eða hvort þess þurfi ekki lengur, það sé komið á góðan rekspöl.

Síðan vil ég spyrja hana um notendastýrða persónulega aðstoð sem voru gerðar tilraunir með, með um 50 millj. kr. framlagi minnir mig, hvort meiningin sé að halda því verkefni áfram eða hvort beðið verði með það. Ég ætla nú ekki að koma inn á starfsgetumatið, ég er að vinna með hæstv. ráðherra í því, en ég tel mjög brýnt að öryrkjar geti haldið tengslum við atvinnulífið. Ég hef ekki heyrt um einn einasta öryrkja sem ekki vill vinna.

Síðan er dálítið merkilegt að barnabætur, vaxtabætur og allar bætur lífeyrissjóðanna heyra bara ekkert undir félagsmálaráðherra. Það er spurning hvort ekki sé ástæða til að vinda bráðan bug að því að setja þessa liði alla undir félagsmálaráðuneytið.



[19:45]
félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég sá í morgun skiptingu á fjárlögunum á milli ráðuneyta og manni fannst alveg nóg um hvað velferðarráðuneytið gnæfði yfir hin ráðuneytin. Við höfum svo sem fengið ábendingar frá fjármálaráðuneytinu í gegnum tíðina að þeir hefðu áhuga á því að ákveðin stofnun sem heyrir undir félags- og húsnæðismálaráðherra og heitir Íbúðalánasjóður mundi fara á milli. Ég held að menn þurfi náttúrlega að vera tilbúnir til að skoða hvað það er sem hentar best þannig að við getum þjónað samfélaginu á sem bestan máta. Það hlýtur alltaf að vera grunnhugsun þegar kemur að fyrirkomulagi á einstökum þáttum í stjórnkerfinu.

Hvað varðar Íbúðalánasjóð og það sem hefur verið bent hér á, áhrifin af frumvarpi fjármálaráðherra um stimpilgjöldin, er þetta eitt af því sem ég tel mjög mikilvægt að Alþingi fari mjög vel yfir. Ég sagði líka í umræðu við hv. þm. Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur að það væri mjög mikilvægt að þegar við tækjum ákvarðanir um framtíðarfyrirkomulag yrðum við að geta tekið ákvarðanir um það fyrirkomulag sem við teljum að sé rétt, þannig að Íbúðalánasjóður stoppi okkur ekki stöðugt. Það er alveg skýrt í lögunum hvernig uppgreiðslugjaldið er, sem hv. þingmaður spurði hér um. Það hefur hins vegar verið ágreiningur um það. Íbúðalánasjóður hefur átt jafnvel í dómsmálum vegna uppgreiðslugjalds sem er þegar á lánum. Þetta er eitthvað sem hefur ekki verið rætt en það er alveg skýrt í lögum hvernig það ætti að vera.

Hvað starfsgetumatið varðar þá þekkir hv. þingmaður það ágætlega því að það er eitt af því sem ég tel að sé forgangsatriði í því að ljúka endurskoðun á almannatryggingakerfinu og hef lagt mikla áherslu á að það væri eitt af því fyrsta sem nefndin sem hann mun stýra muni skila af sér.

Það er ekki gert ráð fyrir neinum breytingum á NPA-verkefninu. Við þurfum að klára tilraunaverkefnið, við þurfum að fá niðurstöðurnar (Forseti hringir.) og ég legg mikla áherslu á að við nýtum þá fjármuni sem við höfum fengið í verkefnið þannig að við getum tekið næstu skref í að innleiða NPA á Íslandi.



[19:47]
Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Ég þakka fyrir ágæt svör og það var gott að heyra að NPA-verkefnið haldi áfram því það tel ég vera mjög mikilvægt. Ég undirstrikaði kannski ekki nægilega vel áðan að gott velferðarkerfi og skilvirkt byggir á öflugu atvinnulífi. Það er bara þannig. Þess vegna geta menn ekki einblínt bara á útgjöld til heilbrigðismála eða velferðarmála o.s.frv. nema að horfa jafnframt á þá sem borga, þ.e. skattgreiðendur og hinn vinnandi mann og atvinnulífið.

Mig langar að spyrja aftur um barnabæturnar, þær eru víða. Þær eru í skattkerfinu undir fjármálaráðherra. Þær eru hjá lífeyrissjóðunum sem borga barnabætur. Ég teldi eðlilegt að þetta væri allt fært á einn stað, þ.e. að kerfinu yrði breytt. Það mundi þá heyra undir félagsmálaráðherra því hvar á það annars vegar heima? Eins er með aðrar bætur lífeyrissjóðanna eins og ellilífeyri, makalífeyri og örorkulífeyri. Þetta tengist allt saman við almannatryggingar sem heyra undir félagsmálaráðuneytið. Ég mundi vilja sjá þetta allt á einum stað þannig að menn gætu samræmt kerfið.

En mest um vert er að gefa fólki, þeim sem eru öryrkjar, tækifæri til að vinna. Til þess þarf að breyta því örorkumati sem er í gildi í dag, sem því miður er mjög neikvætt. Örorkumatið lítur eingöngu á vangetu mannsins. Það segir við manninn: Þú getur ekki þetta og þú getur ekki hitt, í staðinn fyrir að líta hinum megin á hlutina og segja: Þú getur víst gert þetta og þú getur víst gert hitt. Það er einmitt það sem fólkið vill. Það vill taka þátt í atvinnulífinu eins og mögulegt er og eins og hver og einn mögulega getur.



[19:49]
félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Í fyrri ræðu spurði hv. þm. Pétur Blöndal um jafnlaunavottunina. Það er í fullum gangi vinna sem snýr að launajafnrétti og ég er mjög spennt fyrir þeirri vinnu sem snýr að jafnlaunavottuninni. Að okkar mati í velferðarráðuneytinu þarf hins vegar að gera ákveðna lagabreytingu til að hægt sé að fara í jafnlaunavottun. Ég vænti þess að frumvarp þess efnis komi fljótlega fyrir þingið og það fái hraða og góða afgreiðslu.

Ég hef líka lagt áherslu á, þegar kemur að því að prufukeyra jafnlaunavottunina, að velferðarráðuneytið verði fyrsta ráðuneytið sem fari í gegnum hana. Það skiptir máli að velferðarráðuneytið sem fer með jafnréttismálin sé til fyrirmyndar í launakjörum okkar starfsmanna.

Síðan geta ég bara tekið undir með hv. þingmanni um starfsgetuna. Við erum mjög sammála hvað þetta varðar enda ekki að ástæðulausu sem ég óska eftir því að hann taki að sér formennsku í nefnd sem lýkur við heildarendurskoðun á almannatryggingakerfinu. Að fara úr örorkumati yfir í starfsgetumat er mjög mikilvægt.

Ég hef líka lagt áherslu á og það kom fram í nýlegri skýrslu í framhaldi af fyrirspurn frá þingflokki Samfylkingarinnar um mikilvægi þess að fara í heildarendurskoðun á vinnumarkaðsmálum. Þar undir er meðal annars starfsendurhæfing og hvernig við viljum haga henni sem best. Það er mjög mikilvægt að þegar fólk veikist að við tryggjum að það njóti þess að geta fengið endurhæfingarlífeyri, geti farið í starfsendurhæfingu og við getum hjálpað því sem fyrst aftur inn á vinnumarkaðinn.

Það þarf líka að huga að því hvað gerist ef fólk fær ekki vinnu en hefur ákveðið starfsgetumat á grundvelli örorku sinnar.

Mér hafa líka fundist mjög áhugaverðar hugmyndir hv. þingmanns um barnatryggingar og ég held að það sé eitthvað sem ætti jafnvel að vera hægt að ná töluverðri samstöðu um innan þingsins því ég hef einmitt heyrt (Forseti hringir.) sambærilegar hugmyndir frá alla vega þingmönnum Samfylkingarinnar, ég get að vísu ekki alveg sagt að ég hafi heyrt (Forseti hringir.) … vinstri græna, en þetta er hins vegar eitthvað sem væri mjög mikilvægt að fara vel yfir.



[19:52]
Elsa Lára Arnardóttir (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra fyrir yfirferðina yfir þann stóra og mikilvæga málaflokk sem hér um ræðir. Það er margt jákvætt í frumvarpinu þrátt fyrir niðurskurðarkröfu í fjárlögum og ég ætla að nefna nokkur atriði sem ég er sérstaklega ánægð með.

Í fyrsta lagi er staðið við kosningaloforð framsóknarmanna um að draga til baka kjaraskerðingu aldraðra og öryrkja sem tók gildi 1. júlí 2009. Þar verður skerðingarhlutfall fært niður í 38,35% úr 45% og verður það eflaust mikil kjarabót fyrir aldraða og öryrkja. Í frumvarpinu er verið að auka greiðslur í málaflokknum um 8,5 milljarða. Auðvitað má alltaf gera betur og betur þarf að huga að grunnlífeyri þegar aukið svigrúm verður. Þarna er mikilvægt að örva atvinnulífið og tryggja auknar tekjur sem síðan skila sér enn frekar til uppbyggingar á grunnstoðum samfélagsins. En með þeirri aðgerð sem framkvæmd er nú eru skref stigin í rétta átt, í átt að réttlæti, því að aldraðir og öryrkjar hafa setið eftir í kjaraumbótum undanfarin ár og skerðingarnar sem framkvæmdar voru 2009 komu mjög illa við þessa hópa. Þar sem við náum ekki að gera allt sem okkur langar til sökum fjárhagslegrar stöðu ríkissjóðs langar mig að spyrja hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra hvenær hún telur að hægt verði að auka við grunnlífeyri lífeyrisþega.

Í öðru lagi munu útgjöld til barna aukast um tæp 17% en fjárveitingar aukast til Barnaverndarstofu til að fylgja eftir lögfestingu barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna er varðar vistun barna í fangelsum. Samkvæmt lögunum skulu fangar undir 18 ára aldri ekki vistaðir í fangelsum heldur á heimilum á vegum barnayfirvalda. Lögfestingin hefur það í för með sér að setja verður á fót heimili fyrir börn á aldrinum 16 til 18 ára sem sæta gæsluvarðhaldi eða afplána óskilorðsbundna dóma.

Einnig er lagt fram aukafjármagn til að tryggja skilvirk úrræði fyrir þolendur kynferðisafbrota og þá einkum börn en tillagan er sú að ráða tvo sérfræðinga til starfa árið 2013 og 2014 í Barnahús. Það er nefnilega mikilvægt að standa vörð um og hlúa að börnum í þjóðfélaginu okkar og bregðast sem fyrst við ef þau lenda í stöðu sem þarf að aðstoða þau í gegnum. Ef brugðist er við á réttan hátt getur það bjargað mörgum börnum frá erfiðleikum seinna á lífsleiðinni. Þegar maður hugsar um börn og erfiðleika sem geta fylgt þá hugsar maður sjálfkrafa um Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins. Þess vegna var ég mjög ánægð með svör hæstv. félagsmálaráðherra áðan þegar hún talaði um sameiningu í ákveðnum stofnunum. Ég hef fulla trú á því að sú sameining muni styrkja stofnanirnar sem verði þá til þess að biðlistar styttist.



[19:55]
félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hennar og spurningar. Það væri óskaplega gaman að geta sagt það sem fyrst en eins og hv. þingmaður kom inn á þá er forsendan að við getum aukið hagvöxt hér í landinu. Á grundvelli þess er að sjálfsögðu vinna. Við sjáum líka að mjög jákvæð teikn eru á lofti, atvinnuleysi hefur minnkað mjög mikið og gert er ráð fyrir að það minnki enn meira á næsta ári.

Atvinnuþátttaka hér er enn með því hæsta sem gerist þrátt fyrir að við höfum farið í gegnum þessa erfiðleika. Þetta er þá forsendan fyrir því að við sjáum auknar tekjur hjá ríkissjóði og getum deilt þeim peningum. Ég hef oft orðað það þannig að aldrei komi sá ráðherra í velferðarráðuneytið að hann gæti ekki nýtt meiri peninga. Ég er viss um að fyrrverandi velferðarráðherra getur tekið undir það með mér að við þurfum alltaf meiri peninga þegar það snýr að velferðarkerfinu. Það eru svo mörg mikilvæg verkefni sem við erum að sinna. Þetta er framfærsla fólks sem verið er að borga, það sem fólk lifir á í gegnum almannatryggingarnar. Ég vonast til þess að við getum haldið áfram að bæta kjör lífeyrisþega og ég efast ekki um að samstaða verður um það hér á þinginu þegar að því kemur.

Hvað Greiningar- og ráðgjafarstöðina varðar þá er verið að vísa frá umtalsverðum fjölda tilvísana til stöðvarinnar. Ég hef fundið það þegar við höfum átt fundi með starfsmönnum þar og þeim sem nýta þjónustu þessara þriggja þjónustustofnana að menn sjá heilmikil tækifæri í samlegð, við það að sameina þessar stofnanir. Við erum hins vegar að byrja fýsileikakönnun á því. Það mun taka ákveðinn tíma. Ef niðurstaðan af því verður jákvæð getum við vonandi stigið þessi skref og bætt þjónustuna við þennan mikilvæga notendahóp.



[19:57]
Elsa Lára Arnardóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra fyrir svörin, sem voru góð. Ég hef fulla trú á að okkur takist að auka hagvöxt og snúa málum til betri vegar þannig að við getum tryggt betur velferð og bætt grunnstoðir samfélagsins eins og við stefnum öll að, þannig að það komi okkur öllum til góða.

Ég er mjög bjartsýn á að góð niðurstaða fáist í málefnum Greiningarstöðvarinnar og þeirra stofnana sem verið er að kanna sameiningu á. Ástandið gengur ekki, að bíða þurfi marga mánuði eftir greiningu. Því fyrr sem við getum tekið á vandanum eða þeim málefnum sem vinna þarf með þeim mun betra er það fyrir þá einstaklinga sem þurfa á aðstoðinni að halda.

Það sýnir sig í þessu fjárlagafrumvarpi, sem snýr að velferðarráðuneytinu, að vörn undanfarinna ára er snúið upp í sókn í því sem snýr að málaflokki hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra. Ljóst er að nú er verið að forgangsraða í þágu heimila og velferðar.



[19:59]
Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Við ræðum fjárveitingar til velferðarmála hjá hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra og þær bera þess merki eins og hæstv. ráðherra hefur vakið athygli á að margt jákvætt sem hefur gerst. Það er hægt að lækka framlög til umboðsmanns skuldara og líka framlög til atvinnuleysistrygginga vegna þess að atvinnuleysi hefur minnkað.

Það ber líka að fagna því að fram kemur að tryggðir verða fjármunir til að halda áfram baráttunni gegn kynferðisbrotum, einkum gegn börnum. Það er að vísu fjárlagaliður sem kemur víða við ráðuneyti, m.a. við velferðarráðuneyti og félags- og húsnæðismálaráðuneytið.

Það sem mig langar að einbeita mér að í þessari umræðu er spurningin: Nær fjárlagafrumvarpið að skila til baka skerðingum öryrkja og ellilífeyrisþega? Í aðdraganda kosninga lofuðu stjórnarflokkarnir að draga til baka allar skerðingar á kjörum örorku- og ellilífeyrisþega. Sumir gengu reyndar svo langt að lofa leiðréttingum aftur í tímann en báðir flokkarnir lofuðu leiðréttingum strax. Að vísu hefur það hugtak öðlast nýjan skilning með þeirri túlkun hv. formanns fjárlaganefndar að strax sé teygjanlegt hugtak. Látum það liggja á milli hluta.

Samfylkingin vildi bæta kjör lífeyrisþega með nýju frumvarpi um almannatryggingar og sá sem hér stendur sem þá gegndi starfi velferðarráðherra flutti frumvarp um það eftir víðtækt samráð og breiða sátt sem þó skal tekið fram að náði ekki til öryrkja.

Ný ríkisstjórn hefur þegar gert þrennt til að leiðrétta kjör örorku- og ellilífeyrisþega. Í fyrsta lagi var í sumar frítekjumark á atvinnutekjum lífeyris hækkað hjá ellilífeyrisþegum úr 40 þús. kr. í rúmlega 110 þús. kr. til jafns við öryrkja. Þetta er ótímabundið í þeim lögum en enn þá er þó verið að framlengja hjá öryrkjunum eitt ár í senn. Við vildum breyta því en það komst ekki í gegn.

Í öðru lagi fellur niður um áramótin tímabundin hækkun á skerðingarhlutfalli tekjutryggingar lífeyrisþega og fer skerðingin úr 45% í 38,35%. Þetta var bráðabirgðaákvæði í lögum og átti að falla niður um áramót.

Í þriðja lagi hækka útgjöld lífeyristrygginga um 650 millj. kr. til samræmis við samkomulag ríkisstjórnarinnar, þ.e. fyrrverandi ríkisstjórnar og lífeyrissjóða frá 2010 ef ég man rétt. Stefnt er að því að frítekjumörk vegna lífeyristekna verði hækkuð til samræmis við örorku lífeyrisþega. Með því er hægt að fara í þessar 650 millj. kr. Spurningin er: Telur ráðherra sig hafa með þessu fjárlagafrumvarpi komið til móts við allar kröfur örorku- og ellilífeyrisþega varðandi skerðingar fyrri ríkisstjórnar og ef ekki, hvað er eftir?

Í öðru lagi: Hver er hækkun lífeyrisgreiðslna í fjárlögum? Mér sýnast 3% vera hér inni (Forseti hringir.) sem er neysluvísitalan. Hver er launavísitalan?

Í þriðja lagi: Hvert verður framhald vinnu á endurskoðun laga um almannatryggingar, hvaða tímamörk eru sett(Forseti hringir.) og er eitthvert fjármagn til í slíkar breytingar á árinu 2014?



[20:02]
félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Með þeim breytingum sem var farið í í sumar og með því að bráðabirgðaákvæði falli úr gildi nú um áramótin er búið að taka til baka meginþorra eða langstærstan hluta þeirrar skerðinga sem var farið í 1. júlí 2009. Það voru gerðar ákveðnar breytingar á skerðingum vegna fjármagnstekna þó að ekki hafi verið gerðar beinar breytingar á frítekjumarkinu þannig að það snýr raunar að þeim þætti. Það hefur verið til skoðunar hvernig best væri að útfæra það því að sú breyting var líka til einföldunar á kerfinu. Spurningin er hvað sé best að gera hvað það varðar.

Eins og hv. þm. Guðbjartur Hannesson þekkir ágætlega var eitt af því sem gert var í sumar að afnema skerðingu grunnlífeyris og elli- og örorkulífeyris vegna lífeyristekna og hækkun frítekjumarks vegna atvinnutekna ellilífeyrisþega þannig að þær eru þær sömu og hafa verið hjá þeim sem þiggja örorkubætur. Einnig var tekin ákvörðun um að framlengja frítekjumarkið vegna atvinnutekna hjá öryrkjum um eitt ár meðan unnið væri að því að ljúka heildarendurskoðun á almannatryggingakerfinu. Þar hefur verið lögð áhersla á að fara úr örorkumati yfir í starfsgetumat og ég tel að það verði forgangsatriði í vinnu nefndar við heildarendurskoðun á almannatryggingakerfinu.

Það sem gerist með þessu frumvarpi er að skerðingarhlutfall tekjutryggingarinnar mun breytast. Annað sem lagt er upp með og er nýtt snýr að breytingu á almannatryggingakerfinu og er það sem hefur verið kallað sveigjanleg starfslok. Síðan er það sem var aðalatriðið og kom fram í breytingum á frumvarpinu (Forseti hringir.) sem hv. þingmaður hefur verið 1. flutningsmaður sem er að ljúka því að einfalda kerfið.



[20:05]
Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Mig langar aðeins að ítreka spurningu mína um hvaða vísitala var notuð og fá svar við því einfaldlega vegna þess að ég hef ekki náð að fletta því upp. Var notuð vísitala neysluverðs, sem mér sýnist vera 3% hækkun á bótum, eða var notuð launavísitala? Ég spyr vegna þess að það hefur verið ágreiningsefni við öryrkja og ellilífeyrisþega með hvaða hætti hlutirnir hafa verið bættir. Við sátum undir gagnrýni um að við hefðum ekki fylgt þeirri reglu að alltaf skyldi taka hærri vísitöluna, þ.e. neysluverðsvísitölu eða launavísitölu eftir því hvor væri hærri á hverjum tíma. Þeir túlkuðu það þannig að fylgja ætti fjárlagafrumvarpinu.

Ég skal viðurkenna það hreinskilnislega og hef gert áður í þessum ræðustóli að miðað við það að við hefðum fylgt því allan tímann í gegnum hrunið og eftir það skuldum við enn þá 6,2% til þessara hópa sé litið til þess sem skert var. Það er því óbætt enn, öryrkjar og raunar fleiri segja að það sé yfir 20% en ég tel að þetta sé nokkuð nærri lagi.

Þá er spurningin: Sjá menn fyrir sér að reyna að bæta þetta? Það kom mér á óvart að svarið væri að menn teldu að allt hefði gengið til baka sem skert var. Í rauninni er það tvennt sem kemur til framkvæmda nú um áramótin nákvæmlega það sem var löngu búið að ákveða. Það hefur því ekkert bæst við eða breyst frá því sem áður var ákveðið nema það kom fyrr að sumrinu til varðandi tekjutengingar.

Þá langar mig að spyrja: Hvernig er útkoman á þessum breytingum hingað til hvað varðar þá sem eru með lægstu tekjurnar, sem lifa eingöngu á bótum og eru ekki með neinar lífeyristekjur eða atvinnutekjur? Er einhver breyting hjá þeim umfram vísitölu? Hvað líður þá því sem var auðvitað mikill veikleiki en styrkleiki gegnum hrunið að bæta við sérstakri framfærsluuppbót sem bjargaði þeim 5 þúsund sem voru með lægstu bæturnar? Þar var skerðing króna á móti krónu. Er einhver lagfæring á því eða áform um að breyta því? Það var inni í frumvarpinu um almannatryggingarnar og skiptir mjög miklu máli að það komist áfram(Forseti hringir.) og til þingsins.



[20:07]
félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Það er miðað við neysluverðsvísitölu. Launavísitalan er hærri. Eins og hv. þingmaður benti á var það heilmikið gagnrýnt. Ég hef sjálf í tengslum við mína baráttu gegn verðtryggingunni lagt áherslu á að það sé mjög mikilvægt að við íhugum líka hvernig við stöndum að breytingum á upphæðum í fjárlagafrumvarpinu sjálfu.

Það kemur fram frá Seðlabankanum núna þegar hann skilaði gögnum um verðbólguþróunina, í ljósi þess að bankinn hefur ekki haldið sig innan vikmarka, að stór hluti af þeirri verðbólgu sem við erum að fást við sé til kominn vegna hækkana hjá hinu opinbera og síðan hækkana á ýmiss konar þjónustu innan lands. Það er því að mínu mati mjög mikilvægt að þegar við tökum ákvarðanir um hækkanir byggist þær á skýrri ákvörðun um að við teljum rétt að gera það og við teljum að það sé rétt að bæta kjör lífeyrisþega. Það endurspeglast náttúrlega í þessari miklu hækkun, við erum að hækka útgjöld til almannatrygginga um tæplega 12% eða 11,2% og það er verulegt.

Það er rétt að þetta var bráðabirgðaákvæði og fellur úr gildi um áramótin. Við höfum líka bent á að þrátt fyrir að þetta væri bráðabirgðaákvæði virtist vera gert ráð fyrir því í langtímaáætlun fjármálaráðuneytisins að það yrði framlengt. Það kom einmitt fram í umræðu í sumar.

Ástæður fyrir því að líka er horft til þess að taka til baka þessar skerðingar eru tölur sem hafa komið fram á ársfundi Tryggingastofnunar. Það eru fyrst og fremst eldri borgarar sem hafa orðið fyrir langmestu skerðingunum. Meðalráðstöfunartekjur eldri borgara fóru úr því að vera 246 þús. kr. árið 2008 í 216 þús. kr. í upphafi árs 2013 meðan aftur á móti meðalráðstöfunartekjur öryrkja hafa vaxið úr 202 þús. kr. upp í 219 þús. kr. á sama tíma. Þarna er því um verulega skerðingu að ræða og það sem núverandi stjórnarflokkar lofuðu var að taka til baka þær skerðingar. Það er staðið við það í fjárlagafrumvarpinu.



[20:09]Útbýting:

[20:12]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi máls míns þakka fyrir ágætlega málefnalega umræðu sem farið hefur fram hér í allan dag og lýsa ánægju með það fyrirkomulag sem við höfum þróað á þinginu undanfarin ár að ráðherrar einstakra málaflokka geri grein fyrir áherslum sínum, svari andsvörum og taki þátt í umræðu um þau mál sem heyra undir viðkomandi ráðuneyti. Það má segja að með þessari breytingu séum við nú þegar byrjuð að feta okkur inn á þær slóðir sem ný lög um opinber fjármál boða, þ.e. það frumvarp til laga sem ég hyggst leggja fyrir þingið í haust og er núna búið að vera til kynningar í nokkra mánuð en samkvæmt því viljum við fá einstaka ráðherra nær framkvæmd fjárlaganna og undirbúningi að fjárlögum. Mér finnst umræðan hér í dag bera þess vitni að það er skynsamleg breyting og gott fyrirkomulag.

Að öðru leyti vil ég segja um umræðuna að í sjálfu sér komi fátt á óvart. Það er algerlega hefðbundið að menn takist á um hvar eigi að beita aðhaldsaðgerðum. Við höfum séð það hér í þingsalnum í dag að stjórnarandstæðingar sem margir hverjir tóku áður þátt í mjög miklum aðhaldsaðgerðum undanfarin ár, ár eftir ár, hafa nú mjög sterkar skoðanir á því þegar aðhaldi er beitt á jafnvel sömu sviðum og aðhaldi þurfti að beita á árunum 2009–2013. Það er í sjálfu sér ekkert við því að segja annað en það að því meginstefi í þessu fjárlagafrumvarpi að markmiðinu um hallalaus fjárlög átti ekki að fórna. Til þess þurfti að beita aðhaldsaðgerðum og tekjuaðgerðum ásamt með öðrum ráðstöfunum til þess að komast réttum megin við núllið.

Það hefur verið nefnt alloft í umræðunni síðan fjárlagafrumvarpið kom fram að ný ríkisstjórn hafi kastað frá sér tekjustofnum. Staðreyndin er þó sú að í þessu fjárlagafrumvarpi eru teknir inn með breikkun tekjustofna nýir 7 milljarðar umfram það sem ella hefði verið. Þeir 7 milljarðar eru umfram þá skatta sem nefndir eru til sögunnar til vitnis um að menn hafi kastað fyrir róða einhverjum möguleikum til þess að auka tekjur ríkisins. Þetta samhengi finnst mér mjög mikilvægt að sé haft í huga. Þar fyrir utan erum við hugmyndafræðilega ekki á sama staðnum þegar menn tala þannig að ríkið sé að kasta frá sér tekjum þegar hlutir eru ekki skattlagðir, ég tala nú ekki um þegar þeir eru sérstaklega hátt skattlagðir, að það heiti að kasta frá sér tekjum. Það finnst mér einfaldlega rangnefni. Sérstaklega finnst mér það eiga við um útgerðina.

Ég hef tekið eftir því að menn tala um að útgerðin njóti sérstakra forréttinda hjá þessari ríkisstjórn, en staðreynd málsins er sú að hún hefur líklega aldrei áður nema mögulega á árinu 2013 greitt hærri skatta og gjöld þegar saman er talið. Líklegra þykir mér að þegar upp er staðið verði árið 2014 það ár sem gjöldin verði hærri einfaldlega vegna þess að útgerðarfélög hafa verið að greiða niður skuldir undanfarin missiri og eru smám saman að brenna upp skattalegu tapi. Mér finnst því líklegt að á næsta ári muni útgerðin greiða hærri opinber gjöld en nokkru sinni fyrr.

Það er líka misskilningur sem hefur komið fram í umræðunni að breytingar sem ný ríkisstjórn gerði á sumarþinginu hafi verið sérstaklega til þess að ívilna stórútgerðinni. Þegar betur er að gáð sést að stærstu útgerðarfyrirtækin fengu á sig auknar álögur en minni fyrirtækin fengu minni álögur en áður var kveðið á um í lögunum. Ég vildi rétt minnast á þetta samhengi hlutanna varðandi tekjuhlið frumvarpsins.

Síðan finnst mér afar mikilvægt að hafa í huga að ástæðan fyrir því að ríkissjóður hefur verið rekinn með halla fram á þennan dag frá hruni er ekki sú að skattar hafi ekki verið hækkaðir nægjanlega. Ástæðan er heldur ekki sú að ekki hafi verið beitt nægjanlega miklum aðhaldsaðgerðum því að vissulega hefur miklum aðhaldsaðgerðum verið beitt undanfarin ár. Það má glögglega sjá af fjárlagafrumvarpi ársins 2013. Þar eru ágætissamantektir um það hvernig uppsafnaðar aðhaldsaðgerðir færast niður á málaflokka. Mjög miklu aðhaldi var beitt undanfarin ár. Nei, ástæðan er sú að hér hefur ekki verið sá vöxtur í hagkerfinu sem þurfti að vera. Okkur hefur ekki tekist að skapa að nýju þau störf sem töpuðust í hruninu. Það er meginástæðan. Það skiptir svo miklu máli að fá aftur fjárfestingu og eftirspurn í hagkerfið að það ræður algjörum úrslitum um það hvort við náum okkur aftur á strik og getum hafið niðurgreiðslu skulda og fengið alvöruviðspyrnu eða ekki.

Eitt lítið dæmi get ég nefnt í því samhengi. Á árinu 2013 breytast grunnforsendur eftir að fjárlög voru sett til lækkunar á hagvexti. Það hefur meðal annars í för með sér að nú er því spáð að virðisaukaskattstekjur verði um 5 milljörðum lægri á árinu 2013 en menn gerðu ráð fyrir þegar fjárlagafrumvarpið var afgreitt hér fyrir tæpu ári. Þó eru almennt þau reiknimódel sem notuð eru til þess að spá fyrir um tekjuhorfurnar orðin býsna vel þróuð og ágætlega nákvæm. Munurinn liggur aðallega í umsvifunum í hagkerfinu, hann liggur í því að fjárfesting er langt undir því sem að var stefnt og hann liggur í því að einkaneyslan er enn í talsvert miklum dvala.

Komið hefur verið inn á það að opinber fjárfesting, þ.e. fjárfesting ríkisins, eins og hún birtist í þessu fjárlagafrumvarpi sé áfram lág. Það er hægt að taka undir það. Hún er mjög lág einfaldlega vegna þess að við sáum ekki mikið svigrúm til þess að gefa í við þessar aðstæður. Við töldum rétt að leggja fyrst áherslu á það að loka fjárlagagatinu. En í því samhengi, í þeirri umræðu er líka mjög mikilvægt að hafa í huga að það er auðvitað atvinnuvegafjárfestingin sem við þurfum fyrst og fremst að fá í gang, fjárfesting frá atvinnulífinu, frá hinum hefðbundnu atvinnugreinum og nýjum atvinnugreinum. Þegar menn nefna nýjar atvinnugreinar er gjarnan klifað á því að í þessu frumvarpi fái hinar nýju skapandi greinar ekki nægilega mikinn stuðning. Ég segi þá á móti að stuðningurinn er vaxandi ef við horfum á meðaltal undanfarinna ára. Það er að nokkru dregið úr miðað við áformin eins og árinu 2013 var stillt upp, enda var sú innspýting sem kom inn í hina ýmsu sjóði til þess að styrkja rannsóknir, þróun, ég nefni Tækniþróunarsjóð, og græna hagkerfið og aðra slíka þætti, einfaldlega ekki nægilega vel fjármögnuð. Menn voru komnir aðeins fram úr sjálfum sér. Það stefnir þess vegna í 30 milljarða í halla á þessu ári sem ég geri ekki ráð fyrir að hafi verið sá grundvöllur fyrir þessa innspýtingu sem menn sáu fyrir sér að geta stuðst við. Þvert á móti kom þessi innspýting vegna þess að menn töldu sig vera að ná því sem næst jöfnuði.

Horfum síðan til heilbrigðismálanna sem eru í raun og veru á oddinum í umræðunni hér í dag og í gær. Ég tek eftir því í opinberri umræðu jafnframt. Menn segja, eftir að fjárlögin komu fram, á forsíðu eins blaðsins í dag að heilbrigðiskerfið sé á heljarþröm. Það má þá hafa verið komið í býsna slæma stöðu þegar ný ríkisstjórn tók við vegna þess að framlög t.d. til Landspítalans dragast ekkert saman frá því sem lagt var upp með árið 2013 í fjárlögum, þau dragast ekki saman, það er verið að bæta í miðað við fjárlög yfirstandandi árs.

Svo geta menn tekið umræðuna um það hvort eðlilegt sé að kyngja því bara að Landspítalinn sé nú þegar kominn fram úr fjárlögum og það sé þá bara hinn nýi veruleiki og við eigum að nota það sem einhvers konar núllpunkt og velta því fyrir okkur hverju við eigum að bæta þar ofan á. Varla væri það gott fordæmi fyrir aðrar ríkisstofnanir alls staðar annars staðar í kerfinu að þingið sendi út þau skilaboð að hafi menn ekki haldið sig innan fjárheimilda sé það bara sjálfsagt og eðlilegt að það verði hið nýja viðmið þegar menn taka saman fjárlög næsta árs. Nei, ég held nú síður. Ég held að við þurfum að staldra frekar við og spyrja okkur hvers vegna menn fóru fram úr. Hvaða liðir voru það? Voru það veikleikar í fjárlagagerðinni eða voru það veikleikar við framkvæmd fjárlaganna sem leiða til þessarar niðurstöðu? Það verður væntanlega verkefni fjárlaganefndar sem fær málið núna til meðferðar að fara ofan í þætti eins og þessa.

Að öðru leyti vil ég þó segja að það er einkum tvennt sem er nefnt hér varðandi heilbrigðismálin. Það eru málefni sem tengjast landsbyggðinni og því hvernig við höldum áfram úti góðri grunnþjónustu um allt land og svo málefni sem tengjast Landspítalanum.

Varðandi þjónustuna úti á landi hljótum við að geta verið sammála um það að við þurfum með einhverjum hætti að aðlaga okkur að þeirri staðreynd, þeim veruleika að við getum ekki haldið uppi sama þjónustustigi og við getum gert á háskólasjúkrahúsinu, Landspítalanum, um allt land. Við þurfum hins vegar að tryggja góða, öfluga grunnþjónustu eins og hægt er miðað við aðstæður og síðan þurfum við að veita okkar bestu þjónustu á ákveðnum kjörnum, þ.e. stærri sjúkrahúsum. Landspítalinn hlýtur í því samhengi að verða flaggskip okkar.

Varðandi Landspítalann sérstaklega er annars vegar hér mest rætt um tækjakaupin og hins vegar rekstrarframlagið. Auðvitað spilar síðan inn í þetta framtíð Landspítalans og möguleikarnir á því að klára áform um uppbyggingu á sjúkrahúsinu. Um þetta vil ég segja í fyrsta lagi varðandi tækjakaupin: Meginástæðan fyrir því að tækjakaupin rata ekki inn í fjárlögin að þessu sinni er sú að á síðasta þingi var ákveðið tímabundið framlag til eins árs. Það er varla hægt að halda því fram að það sé sérstök ákvörðun að láta það falla niður. Það kemur skýrt fram í skýringum frá fjárlaganefnd að þetta var tímabundið til eins árs. Í fjárlagafrumvarpi fyrir næsta ár kemur jafnframt fram að nú sé unnið að langtímaáætlun um þörfina fyrir tækjakaup og við vonumst til að geta skilað henni hingað inn á haustmánuðum þannig að hún komi til meðferðar meðan málið er í nefnd. Að öðru leyti þegar horft er á báða þessa liði, tækjakaupin og þörfina sem menn vilja meina að sé fyrir aukið framlag í rekstrarkostnaðinn, þá ættu fjárhæðirnar samantalið ekki að láta menn skjálfa á beinunum í samhengi við þann mikla halla sem er á yfirstandandi ári. Við erum hér að tala um og takast á um stærðir fyrir heilbrigðiskerfið, sem er nú að taka mest til sín í fjárlögum heilt yfir, sem eru einhvers staðar á bilinu 1–2 milljarðar sýnist mér þegar allt er samantekið.

Ef ágreiningurinn í heilbrigðismálum snýst um einhverja slíka fjárhæð þá erum við búin að komast býsna langt í þessari umræðu. Þá erum við búin að komast býsna langt svona almennt í fjárlagagerðinni með því að vera komin réttum megin við strikið og ágreiningurinn sem er uppistaðan að umræðunni í þinginu snýst um 1 eða 2 milljarða, eitthvað slíkt, þ.e. hvorum megin við núllið við lendum með þessum 1 eða 2 milljörðum.

Ég segi fyrir mitt leyti: Við eigum alls ekki að gefa eftir markmiðið um að vera réttum megin við núllið. Við getum rætt það hér hvort hægt sé að skapa svigrúm, hvort breyttar forsendur sem kunna að koma fram í nýrri þjóðhagsspá gefi einhverja viðspyrnu eða við sjáum tækifæri til þess að breyta forgangsröðun betur í þágu heilbrigðisþjónustunnar í vinnslu málsins hér á þinginu, en við eigum alls ekki að gefa eftir markmiðið um hallalaus fjárlög. Þetta bil sem mér sýnist að sé grundvöllurinn að umræðunni hér um heilbrigðismál hlýtur að vera brúanlegt ef menn á annað borð hafa einbeittan ásetning um að toga allir í sömu átt.



[20:27]
Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Við erum að ljúka 1. umr. um fjárlög ársins 2014. Ég vil þakka fyrir umræðuna. Hún hefur verið málefnaleg, bæði í gær og í dag og fyrirkomulagið að taka fyrir málefni hvers ráðherra fyrir sig er mjög gott þótt dagurinn hafi orðið langur, kannski hefðum við átt að vera með þetta á tveimur dögum. Mörgum spurningum hefur verið svarað en um leið hafa náttúrlega vaknað enn fleiri spurningar. Það skiptir auðvitað mjög miklu máli að við fáum tækifæri til að ræða þær, bæði í fjárlaganefnd og svo tel ég líka mjög mikilvægt að fagnefndirnar fái að koma að málum í framhaldi af svona umræðum eins og í dag þannig að þær geti haft skoðanir á lausnum í einstaka málaflokkum.

Það stendur eftir eftir þessa umræðu, og raunar áður, þegar menn fara í það að segja hver ástæðan sé fyrir því að hlutirnir eru eins og þeir eru. Við höfum margítrekað að margt af því sem gerðist á síðastliðnum fjórum árum hefur alls ekki verið í samræmi við stefnu þeirra flokka sem þá voru við stjórn ríkisins, einfaldlega vegna þess að við urðum að gjöra svo vel að bregðast við halla sem þá var yfir 200 milljarðar. Við töpuðum ríkistekjum upp á um 20%. Verðbólgan var nær 20%. Ef maður skoðar það sem hefur gerst síðan þá erum við komin í allt aðra stöðu í dag þrátt fyrir að komið hafi upp meiri halli að mati nýrra stjórnvalda á þessu ári. Það hefur verið staðfest ítrekað í umræðunni, bæði í dag og í gær. Það er ánægjulegt að hlusta hér á félags- og húsnæðismálaráðherra sem segir að hún hafi getað lækkað framlögin til umboðsmanns skuldara vegna þess að minna álag er á þeirri stofnun. Það er hægt að lækka stórlega framlög til atvinnuleysistryggingasjóðs vegna þess að atvinnuástand er miklu betra en það var áður. Það var tekið fram að ekki þyrfti lengur að vera með Nám er vinnandi vegur uppi í menntamálaráðuneytinu vegna þess að fáir sæktu um, það væri ekki lengur sá hópur ungmenna sem væri að leita sér að vinnu. Þannig getur maður haldið áfram. Auðvitað eigum við að horfa á það.

Ágreiningurinn núna hefur verið um hvernig ráðstafað sé þegar svigrúm myndast. Hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra ræddi að við sem voru í fyrri ríkisstjórn höfum verið að benda á að nú getum við gert kröfur af því við erum komin út úr ríkisstjórn. Þegar við erum að tala um til dæmis heilbrigðismálin er það sagt í fullri einlægni, hæstv. ráðherra, að við hættum að skera niður fyrir ári síðan vegna þess að við sáum og vissum að það var komið nóg. Það er ein ástæðan. Ég hafði ekki hugmyndaflug eða hafði ekki búist við því að menn mundu fara af stað aftur jafnvel þótt erfiðleikarnir væru þó nokkrir.

Eitt af því sem við lágum alltaf undir ámæli fyrir var að okkur hefði ekki tekist að stækka kökuna. Það má alltaf deila um það hvort menn hafi skapað rétta umhverfið til þess að hjól atvinnulífsins færu í gang hér. Það eru þá ákveðin vonbrigði að hæstv. ríkisstjórn sem er að taka við núna gerir ekki ráð fyrir því í þessu fjárlagafrumvarpi. Hún hefur ekki trú á því að hjól atvinnulífsins snúist. Hún reiknar sér ekki tekjur þannig. Það er auðvitað mjög merkilegt. Það er enn þá merkilegra fyrir þær sakir að full ástæða væri til að skoða hvað veldur því að hagvöxtur á þessu ári verður miklu minni en reiknað var með. Kann það að vera rétt sem margir hafa sagt að ástæðan fyrir því að við svörum ekki stóru spurningunum varðandi ríkisfjármálin sé óvissa sem hafi bæst við það sem var hægt að kenna okkur um í gamalli ríkisstjórn? Að hér sé ástandið þannig að nú bíði allir eftir loforðum og fyrirheitum um stórkostlega niðurgreiðslu eða leiðréttingu á skuldum heimilanna? Ég spyr vegna þess að ég hef ekki svar. Hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra getur leitað svara við því vegna þess að það kemur auðvitað á óvart að okkur skuli ekki hafa miðað meira áfram. Það hefur ekkert breyst með nýrri ríkisstjórn.

Mér þótti ánægjulegt að heyra hjá hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra hér í lokin, það hefur raunar líka komið fram í allri umræðunni, að leiðréttingar sem þarf að gera til að bregðast við vandanum í heilbrigðiskerfinu, þá peninga eigum við að geta útvegað. Ég sagði í ræðu minn þegar við ræddum þann málaflokk, hafandi borið ábyrgð á verulegum niðurskurði þar á sínum tíma og eins og ég sagði áðan snúið við fyrir ári síðan og farið að bæta við — og í rauninni er það það sem hæstv. ráðherra var að tala um að ætti að leiðréttast núna, hækkanirnar sem komu árið 2013, þær væru að skila sér inn í árið 2014 — að það þyrfti meira til. Mér heyrist á fulltrúum allra flokka að menn séu tilbúnir að láta meiri peninga í þetta.

Ég vona að okkur takist að ná sátt um að draga til baka allar þær lækkanir eða skerðingar sem þarna voru settar plús að bæta inn þannig að við getum varið heilbrigðiskerfið og tryggt að það verði áfram í fremstu röð. Þetta er það sem við þurfum.

Við skulum ekki draga úr þeirri hugmynd og kröfu og það hafa allir talað í þá átt að það skipti mjög miklu máli við að ná hallalausum fjárlögum að breyta vöxtum í velferð.

Það er ekkert athugavert við það þegar stjórnarandstöðuflokkar rifja upp bæði kosningaloforð einstakra flokka eða stjórnarflokkanna og stefnuyfirlýsinguna, ég tala nú ekki um ræðu hæstv. forsætisráðherra, og bera það saman við fjárlögin 2014. Það er ekkert óeðlilegt að maður spyrji: Er búið að bæta öryrkjum og ellilífeyrisþegum upp það sem var lofað að bæta strax? Hefur því verið náð með þessum fjárlögum? Eru þeim tryggðar hækkanir í samræmi við það sem lög gera ráð fyrir, annaðhvort neysluvísitala eða launavísitala eftir því hvort er hærra? Mér heyrist svarið vera nei. Það eigum við auðvitað að halda áfram að ræða. Mér skilst að þar sé neysluvísitölu fylgt en launavísitalan sé hærri.

Þannig getum við haldið áfram. Við ræðum um tækni- og iðngreinar sem þarf að bæta. Við getum spurt þeirrar eðlilegu spurningar hvort fjárlagafrumvarpið geri ráð fyrir því. Bregst það við því?

Ég tók dæmi um einstaka stofnanir þar sem við vorum búin að ná samkomulagi um að of langt væri gengið, við mundum hætta fyrir ári síðan eins og ég sagði en nú kemur nýr ráðherra, sem kannski af einhverjum ástæðum þarf að ná niður samkvæmt fyrirskipun ríkisstjórnarinnar eða samráði, og sker svo aftur meira af viðkomandi stofnun. Við getum haldið svona áfram.

Ég ætla ekki að eyða tímanum hér. Það er komið fram á föstudagskvöld. Við fáum tækifæri til að fjalla betur um fjárlögin. Vonandi náum við samstöðu um að gera þar verulegar breytingar. Bíðum eftir því að fá álögur í heilbrigðiskerfinu, t.d. það hversu mikið einstaklingar borga þar. Það eru allir sammála um að það sé óréttlátt eins og það er í dag. Það er kominn sérstakur starfshópur sem er að reyna að vinna á því. Bíðum eftir því. Frestum öllum hugmyndum um sjúklingaskatt á meðan o.s.frv.

Ég þakka kærlega fyrir umræðuna. Eins og ég segi held ég að hún hafi verið málefnaleg. Ég hef í ræðum mínum vakið athygli á því að það er fullt af jákvæðum hlutum í fjárlagafrumvarpinu. Ég held að við eigum ekkert að vera að draga úr því. En ég bið hæstv. ráðherra og aðra þingmenn að virða það við okkur að við drögum fram spurningarnar. Það er okkar hlutverk í stjórnarandstöðunni að reyna að draga fram spurningarnar og álitamálin, leiða fram ólík sjónarmið og draga fram ástæður fyrir ýmsum hlutum. Af hverju hafa menn af sér tekjumöguleika á sama tíma og það gæti hugsanlega bjargað því sem við erum að glíma við? Er það bara vegna þess að maður hefur það prinsipp að það skipti máli? Því ef það er rétt, sem er kannski meginhugmyndaágreiningurinn, að það að lækka skatta hækki tekjur af hverju kemur það þá ekki fram í frumvarpinu?

Við skulum láta þetta duga í bili. Kærar þakkir fyrir daginn og ég vona að við náum að gera á frumvarpinu verulegar breytingar til bóta og ekki síst í heilbrigðiskerfinu.



[20:36]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Örstutt. Mér finnst mikilvægt að því sé haldið til haga vegna heilbrigðismálanna að hv. þingmaður hefur nefnt það nokkrum sinnum í umræðunni að hann hafi ekki órað fyrir að menn hefðu hugmyndaflug til þess að draga saman á velferðarsviðinu. En það er ekki verið að draga saman. Aukningin til velferðarmálanna undir velferðarráðuneytinu er 7% frá fjárlögum ársins 2013. Ef við horfum bara á tryggingamálin er aukningin 9%. Á bls. 375 í frumvarpinu kemur fram hvernig ný ríkisstjórn leiðir með ákvörðunum um mitt sumar 2013 til aukinna útgjalda á næsta ári. Síðan eru það sjúkrahúsin og sérstaða sjúkrahúsþjónustunnar á bls. 380. Þar sem kemur alveg skýrt fram að það er aukning á þessum fjárlögum borið saman við fjárlög gildandi fyrir árið 2013 upp á 3,8%. Það er ekki mikil hækkun, en að verulegum hluta til í launaliðnum.

Það er rétt sem fram hefur komið í umræðunni að þá er ekki tekið fram þar sem menn virðast ætla að fara fram úr í sjúkrahúsunum á árinu 2013, en það er hins vegar ekki rétt að verið sé að skera niður á þessum sviðum. Það er einfaldlega ekki rétt.

Síðan eru það tekjurnar. Hafi það farið fram hjá einhverjum þá er það grundvallarforsenda í þessu frumvarpi að með því að skilja eftir tekjur hjá heimilunum upp á 5 milljarða með því að lækka tekjuskattinn veitum við súrefni til heimilanna í landinu. Menn segja að þetta séu lágar fjárhæðir. Já, það er vegna þess að þær dreifast svo víða.

Í tryggingagjaldinu er alveg sama grunnhugsunin að baki. Þegar lækkanir á tryggingagjaldi eru komnar að fullu til framkvæmda er hugsunin sú, bara þannig að það sé alveg skýrt, að það gefi súrefni til atvinnulífsins til þess að standa (Forseti hringir.) undir kjarabótum og aukinni fjárfestingu.



[20:38]
Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er alveg rétt hjá hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra að hækkanir eru á ákveðnum liðun eins og almannatryggingum.

Ég hafði þann sið sem ráðherra að reikna mér aldrei til tekna þá fjölgun sem var á lífeyrisþegum eða þegar tekjur ellilífeyrisþega og öryrkja hrundu í kerfinu, sérstaklega ellilífeyrisþega, og þeir misstu út allar fjármagnstekjur — við bættum við allt að 10 milljörðum til að bæta þeim það upp. Það bætti ekki hag hvers og eins ellilífeyrisþega. (Gripið fram í: Jú.) Við erum gagnrýnd fyrir það, kerfið virkaði bara. Það sem verið er að gagnrýna okkur fyrir er að hafa ekki staðið við fyrirheit og loforð um að greiða til baka. Það verður að skila sér til hvers og eins en ekki í heildartölu vegna aukningar eða vegna þess að verið er að bæta inn.

Ég vakti athygli á því hér áðan í velferðarumræðunni að það sem verið er að gera í þessu fjárlagafrumvarpi var ákveðið fyrir fram. Þótt rétt sé að það hafi vantað inn í fjárlögin, það voru mistök hjá fjármálaráðuneytinu og var viðurkennt og staðfest þegar við lögðum fram frumvarpið um almannatryggingar, átti að draga til baka bráðabirgðaákvæði um skerðingar ef ekki væri komið nýtt almannatryggingafrumvarp. Hins vegar kom afnám víxlverkana, sem samþykkt var um 2010, til framkvæmda um áramót. Við skulum fagna því. Það er engin ástæða til að gera lítið úr því.

Sá hópur sem er bara með bætur situr svo eftir. Prósentan á þessum bótum er ekki í samræmi við regluna um að taka hærri vísitöluna hvað það varðar.

Varðandi tekjurnar geta menn deilt um þær. Ef þessir 5 milljarðar kr. skapa aukinn hagvöxt ætti þess að sjá stað í frumvarpinu. Sama er með tryggingagjaldið. Við höfum deilt þeirri skoðun að lækka þurfi tryggingagjaldið einmitt því að það leggst fyrst og fremst á þá sem eru með marga starfsmenn, en 0,1% er svo sem ekki stórt skref þar, það eru ákveðin skilaboð til þess að verja kosningaloforðin en ekkert annað.



[20:40]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er grundvallarmunur á því hvort við erum að ræða um heilbrigðismálin á þeirri forsendu að frumvarpið boði mikinn niðurskurð eða hvort ekki sé staðið við öll loforð um hækkanir. Það var við þetta sem ég vildi gera athugasemd í mínu fyrra andsvari. Ég tel að fjárlagafrumvarpið beri það með sér að ekki er um niðurskurð að ræða, hvorki í tryggingamálum né heilbrigðismálum. Því er hins vegar ekki haldið fram að í því séu mjög miklar hækkanir. Þá er vísað í hversu miklum járnum ríkisfjármálin eru og takmarkað svigrúm.

Við munum að sjálfsögðu vinna áfram með þessi verkefni og getum vonandi unnið þannig að við leysum úr því sem blasir við okkur sem mest aðkallandi vandinn án þess að fórna markmiðinu um hallalaus fjárlög. Ég vil alveg sérstaklega og hefði átt að gera það í minni fyrri ræðu þakka fyrir það að ég heyri menn ekki tala fyrir því að við eigum að fórna því markmiði, jafnvel þótt menn hafi ýmsar athugasemdir. Mér heyrist vera góður samhljómur í þinginu um að það sé komið gott af skuldasöfnuninni. Það skiptir gríðarlega miklu máli.

Varðandi tekjurnar held ég að við hv. þingmaður getum seint orðið sammála um þær. Ég tel mjög mikilvægt að hefja ferlið við að koma súrefni aftur til heimila og fyrirtækja. Það er rétt að 0,1% í tryggingagjaldi er ekki stórt skref, en það er boðað að haldið verði áfram síðar.



[20:42]
Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekkert að fjargviðrast um það hvort heildarútgjöldin hafi hækkað eða lækkað. Hækkunin í heilbrigðismálum er fyrst og fremst jafnlaunaátakið sem menn kveinkuðu sér svolítið undan en farið var í engu að síður. Venjan hefur verið sú að ef um er að ræða launabreytingar fara þær inn í grunninn, en það skapar ekki svigrúm til þess að lækka aðra þætti. Hins vegar voru dregnar til baka skerðingar á framlögum eða millifærslum á leigugjöldum á milli heilbrigðisstofnana og fasteigna ríkisins. Það er líka liður sem fer út og inn. Þegar menn svo bæta við, þótt það séu bara 10–15 milljónir á litla stofnun úti á landi vegna þess að til standi að ná einhverjum árangri vegna sameininga eða bara eins og á Akranesi þar sem gerð er krafa um 43,5 milljónir til þess að taka niður svið sem var búið að gera samkomulag um að menn létu í friði vegna þess að farið var í 125 milljóna niðurskurð þar á sínum tíma. Þetta finnst mér vont. Menn verða að standa við það sem sagt var og passa að þarna sé ekki höggvið aftur. Ég orðaði þetta þannig: Við vorum búin að gera samkomulag um að taka aðra höndina af en nú kemur nýr ráðherra og tekur hina. Þetta má auðvitað ekki gerast. Ég treysti á að þetta verði lagað. Það er sem sagt svona lagað hjá einstökum stofnunum.

Það hefur engan tilgang í sjálfu sér að lengja þetta. Ég þakka kærlega fyrir umræðuna. Ég heyri að hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra er tilbúinn að breyta frumvarpinu í samræmi við vilja þingsins. Við munum taka þátt í þeirri vinnu og óska eftir því að allt þingið verði haft í samráði varðandi þær breytingar.



[20:44]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég tek undir það sem ráðherra og síðasti ræðumaður komu báðir inn á að hér hefur staðið málefnaleg og ágæt umræða um fjárlög í tvo daga. Ég óskaði hæstv. ráðherra til hamingju með sitt fyrsta fjárlagafrumvarp í gær og ég gæti kannski óskað honum til hamingju með nýja stjórnarandstöðu líka. Ætli það hafi ekki einhver áhrif á það hvernig umræðan hefur farið fram í dag að komin er ný stjórnarandstaða. Ég man umræðurnar á köflum um fyrri fjárlög og hefði ég gjarnan viljað skipta, satt best að segja. Að geta átt málefnaleg skoðanaskipti og rökræðu við ábyrga og yfirvegaða stjórnarandstöðu, það er ekki það versta sem ein ríkisstjórn getur lent í.

Hæstv. ráðherra kom aðeins inn á vandamálin við að halda fjárlög og að á undangengnum árum — hv. þm. Pétur Blöndal nefndi hið sama og var búinn að leggja saman alveg ósköpin öll sem ríkisreikningur hafi orðið hærri en nam fjárlögum. Já, það er rétt. Það var erfitt að gera nákvæmar áætlanir og standa við þær í því ástandi sem var á Íslandi og ekki síst í ríkisfjármálunum eftir hrunið 2008. Hvað gera menn þegar rétt undir árslok verður að setja 33 milljarða króna inn í Íbúðalánasjóð og ríkisreikningsnefnd kemst að þeirri niðurstöðu nokkrum mánuðum síðar að það verði að afskrifa þá alla á einu bretti? Auðvitað verður ríkisreikningurinn í litlu samræmi við fjárlög þegar svoleiðis gerist, að ekki megi eignfæra eina einustu krónu af 33 milljörðum sem ríkið verður að láta frá sér til að bjarga sjóðnum. Þannig gætum við haldið áfram.

En veruleikinn er sá að hallinn á ríkissjóði var 14,6% af vergri landsframleiðslu 2008, tæp 10% 2009 og síðan fór hann niður, skref fyrir skref þangað til að nú að stjórnarliðar segja að það stefni í 31 milljarða halla. Ekki ætla þeir að láta okkur bera ábyrgð á hallanum sem þeir bjuggu til sjálfir í vor og ekki heldur hvorki í formi þess að afsala tekjum né ákveða útgjöld þó að góð væru inn í almannatryggingakerfið. Ég get fallist á að sennilega hefði stefnt í án þeirra hluta 22–25 milljarða halla, því miður. Það skýrist aðallega af tvennu: Minni hagvexti, það hefur dofnað yfir því öllu eftir því sem liðið hefur á árið, og því að eignasölutekjur munu ekki skila sér svo nemi 3–4 milljörðum. Það er stærsta einstaka skýringin. Hvað er þetta? Um 1,5% af vergri landsframleiðslu. Við erum þó komin þangað. Langbesta útkoma sem við höfum séð síðan 2007, af því að menn töluðu nú mikið um 2007 fyrr í dag. Það er þó það.

Í öðru lagi varðandi það að kasta frá sér tekjum. Ég kannast að vísu ekki við að hafa notað það orðalag en afsalað sér eða sleppt út tekjustofnum og það hefur ríkisstjórnin sannarlega þegar gert og ákveðið að halda áfram á þeirri braut. Það er að mínu mati hafið yfir vafa að sjávarútvegurinn gæti borið hærri veiðigjöld en ríkisstjórnin ætlar honum að gera. Já, það þarf að vanda hvernig þau eru lögð á og láta það dreifast og leggjast á með sem réttlátustum hætti en staða sjávarútvegsins hefur aldrei verið betri til að bera veiðigjöld og leggja af mörkum heldur en nú. Hann er að upplifa sitt lengsta og mesta góðærisskeið sennilega nokkru sinni ef við lítum yfir útveginn sem heild.

Framlegðin er yfir 80 milljarðar króna. Eiginfjárstaða sjávarútvegsins hefur batnað á hátt á þriðja hundrað milljarða frá 2008. Skuldirnar lækkað úr eitthvað um 550 niður í 350 milljarða og þannig gæti ég áfram talið. Hvernig eru fréttirnar? Þorskkvótinn að aukast þriðja árið í röð. Makrílkvótinn verður á mikilli uppleið, kolmunnakvótinn og staðan í ýsu er betri en við áttum von á, í gullkarfa mjög góð, karfa mjög góð o.s.frv. Það er einstakt góðæri að langmestu leyti hvað varðar lífríkið, hvað varðar gengið að sjálfsögðu og markaðirnir hafa þrátt fyrir allt haldið furðanlega þó að þeir séu ekki alveg eins góðir núna og þeir voru þegar þeir voru á toppnum. Þetta er svona.

Virðisaukaskattur á ferðaþjónustu sem ríkisstjórnin ákvað að standa ekki við að leggja á, vaxandi atvinnugrein í mikilli sókn og þar með vaxandi tekjustofn. Hann verður ekki til staðar á næsta ári, ekki þarnæsta, ekki þarnæsta, ekki þarnæsta og það munar um það inn í ríkisfjármálaáætlun til nokkurra ára. Auðlegðarskattur sem á að falla út bjargar hæstv. fjármálaráðherra núna, 9,4 milljarðar á næsta ári í kassann en núll á árinu 2015. Orkuskattar, þetta eru pólitískar ákvarðanir og það munar um það inn í ríkisfjármálaáætlunina sem verður jafn döpur og mögur á árunum sem í hönd fara vegna þess meðal annars að ríkisstjórnin hefur sleppt út svona miklu af traustum tekjustofnum.

Varðandi það að ríkisstjórnin telji sig ekki skuldbundna til að standa við fjárfestingaráætlun og það sé bara afsökun fyrir því að skera ýmislegt niður, dapurlegt sem það er þá er það ekki einu sinni þannig. Ríkisstjórnin er líka að skera niður hluti sem við á botni kreppunnar, t.d. 2010, ákváðum að ráðast í til þess að reyna að byggja einhvers staðar eitthvað upp. Dæmi: Markaðssóknin í ferðaþjónustunni. Dæmi: Endurgreiðsla á rannsóknar- og þróunarkostnaði hjá sprotafyrirtækjum. Þetta var ekki ákveðið rétt fyrir kosningar 2013 eða 2012. Nei, það kom inn 2010.

Við töldum skynsamlegt að gera það þá jafnvel þótt ríkisfjármálin væru í því hörmulega ástandi sem raun bar vitni vegna þess að einhvers staðar varð að sjá einhverja glætu og byggja eitthvað upp og það var augljóst mál að fyrir Ísland skipti öllu máli að koma af stað vexti í greinum sem gætu vaxið hratt, skapað störf og gjaldeyristekjur án þess að það þyrfti of mikla stofnfjárfestingu því þá peninga áttum við ekki til. Þess vegna fórum við í markaðsátak með ferðaþjónustunni Inspired by Iceland eftir gosið og síðan Ísland – allt árið og hefur það ekki skilað?

Auðvitað er ekki hægt að mæla nákvæmlega hve stóran þátt það á í sókninni en það á örugglega sinn þátt í henni og vöxtur ferðaþjónustunnar er sennilega mikilvægasta einstaka atriðið sem veldur því þó að við höfum verið að sækja fram og til dæmis er þjónustujöfnuðurinn betri en nokkru sinni fyrr meðal annars vegna hinna miklu tekna sem samgöngur og ferðaþjónusta færir okkur inn í landið í beinhörðum gjaldeyri. Þjónustujöfnuðurinn varð jákvæður á fyrsta ársfjórðungi þessa árs í fyrsta skipti í sögunni síðan mælingar hófust meðal annars vegna þess að umsvifin hafa aukist mikið yfir veturinn.

Það finnst mér mega hafa í huga. Það eru ekkert endilega rök og nógu góð rök að segja að af því að eitthvað var inni í fjárfestingaráætlun þá ætlum við ekkert að gera með það. Ef það er skynsamlegt, ef það miðar að því að ná fram vexti og störfum í nýsköpun og þróun, á þá ekki að reyna að ráðast í það? Erum við svo aum núna að við getum ekki einu sinni staðið við það sem við ákváðum 2010, að hafa 20% endurgreiðslu á rannsóknarkostnaði og setja 300 milljónir frá ríkinu í markaðssókn í ferðaþjónustu?

Varðandi stóru myndina tek ég undir að það er jákvætt að menn skuli reyna að ná hér hallalausum fjárlögum en það má deila um hvernig það er gert og það eru veikleikar í því, sem hefur komið fram í umræðunni. Nú þegar hafa menn nefnt tvo liði sem munu taka breytingum, væntanlega til umtalsverðrar hækkunar, við 2. umr. Það er boðuð ný áætlun um tækjakaup. Fínt, og vonandi verða það þá að minnsta kosti 650 milljónir sem koma inn aftur í tækjakaup á Landspítalanum og á Sjúkrahúsinu á Akureyri og það er boðað að 105 milljónir komi til Matvælastofnunar til að framkvæma ný lög um dýravelferð. Þá erum við komin í hátt yfir 700 milljónir króna, 755 milljónir, þá er afgangurinn búinn. Það þarf að vanda sig í þessu verki, ég tek undir það.

Mín langmestu vonbrigði og það sem ég hef mestar áhyggjur af eru ekki endilega þessi fjárlög því auðvitað verður að sauma þau einhvern veginn saman. Ég er langhryggastur í hjarta þegar ég horfi á ríkisfjármálaáætlunina til næstu ára. Að sjá það hér sett á blað af nýrri ríkisstjórn að við ætlum að hjakka í núllinu í þrjú ár. Með nánast engan afgang af ríkissjóði 2014, 2015 og núll 2016, því að það er innan skekkjumarka sem við eigum þá að vera yfir strikið.

Með öðrum orðum er það ekki ávísun á að við byrjum að greiða niður skuldir. Þær aukast ekki, það er gott, þær munu lækka eitthvað sem hlutfall af vaxandi landsframleiðslu en á nafnvirði munu þær standa í stað. Það er skítt. Það er enn þá verra að horfa til þess að þetta er ávísun á það líka að við getum hvergi bætt neitt í ef við eigum að vera á núllinu næstu þrjú árin. Þá verður ekkert hægt að gera í viðbót og með sömu rökum og ríkisstjórnin notar nú gagnvart því að skera niður fjárfestingaráætlun, stuðning við nýsköpun, rannsóknir, þróun og sprotagreinar, þá mun hún á næsta ári og þarnæsta ári segja: Nei, það er ekkert svigrúm.

Það er ávísun á kyrrstöðu og stöðnun og ég sætti mig ekki við það. Við verðum að rífa okkur út úr því fari og það er augljóst mál að eitt af því sem við getum gert í þeim efnum er að ýta kreddunum og pólitíkinni til hliðar og skoða raunsætt hvar við getum sótt einhverja viðbótarfjármuni inn í ríkissjóð, af því að það er erfitt að sjá að við spörum mikið meira útgjöld, til að geta látið eitthvað af þessu eftir okkur, að það sé einhver uppbyggingar- og sóknarblær, (Forseti hringir.) þótt ekki væri nema í litlu, á þessu hjá okkur næstu árin.



[20:54]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Þegar menn tala um að ný ríkisstjórn hafi afsalað sér tekjum og setja það í samhengi við hallann á yfirstandandi ári finnst mér að hv. þingmaður hafi svo sem tekið það vel saman, og betur en flestir aðrir, að það er hlutfallslega lítið af hallanum eins og hann virðist ætla að verða á yfirstandandi ári. Síðan er það umræðan um það hvað sjávarútvegurinn getur borið og hvar ytri mörkin séu í því. Við ættum að minnsta kosti að hugga okkur við það að hann er að borga meira, eins og ég rakti í fyrri ræðu minni, en nokkru sinni fyrr. Þá segja menn: Já, hann er nú í þeirri stöðu að geta borgað meira en áður. Já, og hann er að gera það.

En síðan er önnur athugasemd sem ég verð að koma á framfæri hér og hún er þessi: Menn telja greinilega að gangi menn ekki lengra í því að taka veiðigjöld þá hverfi peningarnir bara og gufi einhvers staðar upp. En það er sem betur fer ekki þannig. Þeir verða þá eftir í því að kaupa tæki og tól, að viðhalda samkeppnisstöðu greinarinnar, að tryggja besta búnað, að menn haldi áfram að fjárfesta í nýjum skipum, að menn haldi áfram að þróa aðferðir til að auka verðmæti sjávarfangs úr sjó og haldi þannig áfram að viðhalda því sem er í raun yfirburðastaða, að minnsta kosti mikið forskot sem við í augnablikinu höfum á aðrar þjóðir í því að viðhalda verðmætunum í afurðunum sem koma úr hafinu.

Þetta held ég að verði nú að takast með í reikninginn. Síðan er það varðandi veikleikana fram á við, ég er einfaldlega sammála hv. þingmanni um það að staðan fram á við er ekki nógu góð. En við höfum úr mörgu að spila. Við getum til dæmis farið í að létta á eignum sem ríkið hefur eignast í hruninu. Vonandi getum við orðið sammála um það, þegar fram líða stundir, (Forseti hringir.) hvernig standa eigi að því. Ekki síður verð ég að segja: (Forseti hringir.) Vonandi skapast góð skilyrði til að koma þeim eignum í verð.



[20:57]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það þarf alltaf að vega það og meta vel og vandlega hvort ríkið geri rétt í því að afsala sér eða selja þær eignir, losa þær eða láta þær skila af sér arði. Ef við tökum Landsvirkjun sem dæmi þá væri það um það bil það síðasta undir sólinni sem ég teldi að íslenska ríkið og þjóðin ætti að láta frá sér. Það er augljóst mál að þessi sameign okkar getur skilað vaxandi arði á komandi árum til eiganda síns, þjóðarinnar, ef við höldum rétt á spilunum. Hvers vegna ættum við þá að láta það frá okkur?

Varðandi sjávarútveginn þá veifa menn því hér mikið að hann borgi núna meiri skatta til ríkisins en áður. Það er rétt. Um 20 milljarða, hafa einhverjir sagt hér og ég dreg ekki úr því að það geti verið nærri lagi ef við tökum skattgreiðslur sjávarútvegsfyrirtækjanna. En hvers vegna er það? Jú, það er vegna þess að sjávarútvegurinn er loksins farinn að borga tekjuskatt. Stór hluti fyrirtækjanna er nú búinn að vinna upp allt uppsafnað tap, sum þeirra eru orðin skuldlaus og eru með þvílíka fantaafkomu að auðvitað borga þau tekjuskatt. Það er gott og ég er sammála því að sjávarútvegurinn þarf að vera sterkur og hann þarf að geta fjárfest og hann þarf að geta byggst upp.

En það fara ekki bara peningar í það. Það fara líka peningar í hæstu arðgreiðslur, einhverjar hæstu arðgreiðslur sem við höfum séð ganga ár eftir ár út úr einni atvinnugrein til eigenda sinna. Þær arðgreiðslur eru sprottnar af því að sjávarútvegurinn hefur þennan verðmæta aðgang að sameiginlegri auðlind sem er í óvenjulega góðu ástandi og gefur færi á mjög mikilli arðsemi eins og við sjáum á stóru fyrirtækjunum til dæmis sem hafa sterka stöðu í veiðiheimildum í uppsjávartegundum. Ég man ekki dæmi rekstrar sem skilar jafn vel af sér og til dæmis rekstur Síldarvinnslunnar í Neskaupstað þessi missirin. 7 milljarða hagnaður á þó ekki meiri veltu en þar er auðvitað fádæma góð afkoma, fádæma góð afkoma og það er í þetta sem við erum meðal annars að vísa. (Forseti hringir.) Ef við lítum yfir greinina í heild þá hefur hún mikla burði til að leggja líka af mörkum.



[20:59]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég sé í sjálfu sér ekki neitt að því að eigendur í sjávarútvegsfyrirtækjum, sem margir hverjir hafa tekið gríðarlega mikla áhættu með eigin fjárframlagi, greiði sér arð um þessar mundir eftir að hafa greitt skatta og öll gjöld, þar með talin veiðigjöld. Ég fagna því sérstaklega að afkoma í greininni er góð og ég veit að hv. þingmaður gerir það líka, ég heyri ekki annað. Ég veit að hann þekkir það alveg örugglega, og meira að segja miklu betur en ég, hversu miklir máttarstólpar fyrirtæki sem ganga svona vel eru heima í þeim byggðum þar sem þau starfa, bæði í atvinnulegu tilliti en síðan langt út fyrir þann beina starfsmannakjarna sem hefur beina framfærslu af því að starfa í viðkomandi félögum.

Ég vildi koma aðeins inn á fjárfestingaráætlunina sem alloft hefur borið á góma í umræðunni og taka það fram enn og aftur að meginástæðan fyrir því að dregið er úr ýmsum þeim áætlunum sem henni fylgja er sú að ríkissjóður er rekinn með halla. Það er afstaða sem ný ríkisstjórn tekur að setja sér; fyrst það markmið að eyða ekki um efni fram og forgangsraða síðan í kjölfarið. Það er staðreynd að suma hluti er mun erfiðara að hreyfa en aðra. Áform um að auka við framlög í ýmsa sjóði er til dæmis auðveldara að draga til baka en að fara að segja upp lögreglumönnum eða fækka á spítölum. Það gera menn ekki og það birtist ákveðin forgangsröðun í þessu.

Ég vek athygli á því að margir af þeim sjóðum sem nefndir eru í þessu sambandi — tökum til dæmis Tækniþróunarsjóð eða framlag til kvikmyndagerðar — eru þannig á næsta ári að þegar við notum ekki árið 2013 sem viðmið heldur árið 2012 (Forseti hringir.) eða meðaltal síðustu þriggja ára þá eru framlögin á næsta ári (Forseti hringir.) vaxandi.



[21:01]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Af því að við ræddum aðeins áðan framtíðina og nokkur næstu ár — sem við erum greinilega hjartanlega sammála um, ég og hæstv. fjármálaráðherra, að er okkur áhyggjuefni — vil ég spyrja hæstv. ráðherra: Er þess að vænta að fram komi sjálfstæð og ítarleg ríkisfjármálaáætlun í sjálfstæðri skýrslu? Nú veit ég að líta má á fyrra heftið, litla hefti fjárlagafrumvarpsins, sem vísi að slíku en það er ekki sett fram sem sjálfstæð áætlun og ekki með jafn ítarlegum rökstuðningi og textum og við reyndum að gera 2009, 2011 og 2012 — höfðum myndir af fallegum fjöllum í ónefndum kjördæmum framan á heftunum, Herðubreið og Keili. Hæstv. ráðherra gæti haft einhvern hólinn við Garðabæ sem mundi prýða ritið. Ég mundi fagna því og ég vonast til að svo verði því að það er gott að fá slíkt plagg með ítarlegum tölugögnum og öðru slíku.

Varðandi fjárfestingaráætlunina þá mundi ég að mörgu leyti alveg skilja og kaupa rök hæstv. ráðherra ef þetta hefðu verið útgjöld í rekstur eða eiginlega svona illa ígrunduð innspýting í útgjöld ríkisins bara á árinu fyrir kosningar, en það var ekki svoleiðis. Eftir vandlegan undirbúning, skýrslugerð og mikið samráð fæddist þessi fjárfestingaráætlun og þetta er, herra forseti, „fjárfestingaráætlun“. Og í hverju? Í rannsóknum, í þróun, í tækni, í nýsköpun, skapandi greinum og þeim sprotum sem við vonuðumst til að við værum að hjálpa af stað og mundu síðan hjálpa okkur á komandi árum í gegnum aukna verðmætasköpun og umsvif. Og það eru gríðarlegir möguleikar þarna. Tökum hönnun sem menn voru fyrir ekkert löngu kannski ekkert að flokka sem mikilvægan þátt í atvinnulífi og þróun. 45 milljóna sjóður í að hlúa að hönnun og koma henni betur (Forseti hringir.) á framfæri sem mikilvægum þætti nýsköpunar og þróunar — höfum við virkilega ekki efni á því að halda honum áfram?



[21:04]
Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Mig langar eins og aðrir hafa gert að byrja á því að þakka fyrir um margt mjög málefnalega umræðu sem verið hefur hér í dag. Ég held að það fyrirkomulag að ræða einstaka efnisflokka fjárlagafrumvarpsins með þessum hætti sé vel heppnað.

Mig langar aðeins í lokin að segja almennt um fjárlagafrumvarpið að ef maður ætti út frá samanburði á því frumvarpi sem nú liggur fyrir og frumvarpinu sem var lagt fram fyrir ári að ákveða hvort maður teldist til hægri eða vinstri í pólitík væri úr mjög vöndu að ráða vegna þess að það er í sjálfu sér ekki mikil breyting á milli ára. Ég er ekki að kvarta undan því enda væri skelfilegt ef hér væri öllu kerfinu kollsteypt á milli ára og yrði gjörbreyting á ríkisrekstrinum. Ef menn eiga að ákveða þetta út frá þeim afstöðumun sem hægri og vinstri menn hafa til skattheimtu, útdeilingar og nýtingar á þeim fjármunum er þetta þegar til stykkisins kemur 10–12 þús. kall á ári fyrir mann sem er með 400 þús. kr. í laun, ef ég hef skilið þetta rétt. Um það er þá allur slagurinn.

En ég vil líka segja eins og fram hefur komið og benda á að það er reyndar óvíst að sú tekjuskattslækkun sem hér er boðuð verði raunlækkun á skattbyrði þegar breyting á persónuafslætti og vaxtabótum hefur verið bætt við. En okkur er hér, hvort sem við teljumst til hægri eða vinstri eða miðjunnar í íslenskum stjórnmálum, sameiginlegur vandi á höndum því að ríkissjóður er mjög skuldsettur. Við slíkar aðstæður er brýnna en nokkru sinni fyrr að skoða öll útgjöld með gagnrýnu hugarfari og jafnframt að skoða alla tekjumöguleika gaumgæfilega.

Mig langar til þess að rifja upp nokkur efnisatriði sem við í Bjartri framtíð höfum lagt fram í þessa umræðu og gerðum meðal annars í bréfi sem við skrifuðum hinum svokallaða hagræðingarhópi fyrr í haust.

Hvert ár sem ríkissjóður eyðir um efni fram leiðir til stærri vanda fyrir þjóðina alla í framtíðinni. Björt framtíð er tilbúin til að styðja allar tillögur sem byggja á góðum rökum og upplýsingum og leiða til raunverulegs sparnaðar og betri nýtingar á fjármunum, hæfileikum, vinnu og tíma. Markmið okkar er að tryggja að borgurum landsins sé veitt sem best þjónusta og sem best skilyrði til lífsviðurværis, innan fjárhagsrammans.

Við leggjum áherslu á að horfa til lengri tíma bæði í tekjum og útgjöldum ríkisins þannig að stofnanir samfélagsins geti gert langtímaáætlanir en séu ekki háðar óvissu fjárlaga hvers árs. Ef sá rammi sem ríkið setur liggur fyrir geta allir gert nákvæmar áætlanir sem hugsanlega standast hvað varðar þá þjónustu sem vænta má en ekki síður hvaða skattarammi bíður.

Virðulegur forseti. Við höfum hvatt til róttækni. Við höfum hafnað flötum niðurskurði þar sem stofnunum er gert að hagræða einhvern veginn án þess að kafað sé dýpra í starfsemi þeirra, eðli og tilgang. Ég sakna þess að ekki sé meiri metnaður í þessum efnum í því frumvarpi sem við ræðum hér. Það þarf að skoða mjög vel tillögur ýmissa aðila, innlendra sem erlendra, um það hvernig bæta má nýtingu fjár í íslensku samfélagi og bent hefur verið á leiðir í heilbrigðiskerfinu og menntakerfinu. Við eigum að spyrja: Ef við ættum að gera hlutina frá grunni núna mundum við þá fara eins að? Mundum við reka menntakerfið með sama hætti? Heilbrigðiskerfið? Landbúnaðarkerfið?

Við getum lært meira af þeim sem gera hlutina vel. Aðrar þjóðir hafa náð langt í rafrænni stjórnsýslu, til að mynda Eistland með tilheyrandi sparnaði. Oft hefur verið bent á skólakerfið í Finnlandi sem góða fyrirmynd, bæði hvað varðar hagræði og góða þjónustu. Nýsjálendingar gjörbyltu landbúnaðarkerfi sínu og selja núna afurðir út um allan heim án ríkisstyrkja. Við þurfum að spyrja okkur hvað við getum gert betur.

Fjárþörfin í samfélaginu er gríðarleg. Það þarf að lækka skuldir ríkissjóðs og standa straum af vaxtakostnaði. Viðhaldsverkefni hrannast líka upp og starfsfólk er víða langþreytt. Þessar kringumstæður vinda upp á sig. Miklar skattalækkanir eða skuldaniðurfellingar með fé sem að öðrum kosti getur gagnast ríkissjóði í glímunni við þessi vandamál eru vafasamar. Það þarf að skoða vel fórnarkostnaðinn af öllum aðgerðum. Ef peningur er notaður í eitthvað eitt er ekki hægt að nota hann í annað.

Við tökum undir að skatta- og gjaldalækkanir geta í sumum tilvikum aukið efnahagsleg umsvif. Þær þurfa hins vegar að vera almennar og mega ekki beinast einungis að einstökum atvinnugreinum sem búa við góð skilyrði. Einnig mundi einfaldara skatta-, tolla- og gjaldaumhverfi leysa verulegan kraft úr læðingi. Opið markaðskerfi með óheftum viðskiptum við aðrar þjóðir væri jafnframt snilld.

Við hvetjum líka eindregið til þess að horft verði til aukinnar beinnar tekjuöflunar af auðlindum þjóðarinnar bæði til lands og sjávar. Arður af orkusölu til erlendra aðila er lítill og arður af sjávarútvegi í sameiginlega sjóði getur verið meiri. Þá er það líka skoðun Bjartrar framtíðar að arður ríkisins af fjármálastarfsemi, í gegnum opinbert eignarhald á fjármálastofnunum, sé best nýttur til að greiða niður skuldir ríkisins og til fjárfestinga í nýsköpun og stuðningi við atvinnugreinar, svo sem skapandi greinar og hugverka- og tækniiðnað, sem geta aukið tekjur umtalsvert til framtíðar.

Það var því von okkar að ríkisstjórnin héldi sig í grundvallaratriðum við áður samþykkta fjárfestingaráætlun. Raunin varð önnur.

Hagræðing er fólgin í því að gera hlutina betur, skila svipaðri þjónustu, helst betri, fyrir minni tilkostnað og minnka sóun. Það er stefna Bjartrar framtíðar að ríkisvaldið skuli ekki vera umfangsmikið en þjónusta þess á mikilvægum sviðum þeim mun betri. Til þess að ná því markmiði þarf að nútímavæða þjónustu ríkisins og stofnanir þess en ekki síður þarf að hugsa þjónustumynstur ríkisins upp á nýtt og skilgreina betur hvaða málaflokkum hið opinbera á að skipta sér af.

Uppbygging verkferla, breytt skipulag stofnana með áherslu á ábyrgð og skýra verkaskiptingu getur falið í sér kostnað í upphafi en hagræðingu til lengri tíma litið. Sameining stofnana ríkisins í færri en stærri rekstrareiningar sem bjóða upp á samræmda þjónustu um allt land er forsenda fyrir slíkri uppbyggingu. Notkun upplýsingatækni býður upp á mikil tækifæri til hagræðingar. Það er trú okkar að slík tækifæri sé mjög víða að finna í opinberum rekstri.

Með þessi sjónarmið að leiðarljósi er þingflokkur Bjartrar framtíðar meira en reiðubúinn til þess að leggja sitt af mörkum í þeirri miklu vinnu sem fram undan er í fjárlagavinnunni.

Ég vildi í lokaræðu minni í dag rifja upp þessi efnisatriði sem við í Bjartri framtíð lögðum áherslu á í upphafi starfs þingsins í haust, en ég vil líka segja þetta vegna þess að hingað í dag hafa komið í þennan ræðustól hæstv. ráðherrar sem talað hafa um ýmis verkefni sem þeir vildu gjarnan ráðast í en hafa ekki pening til þess að gera. Það er hins vegar þannig að hæstv. ríkisstjórn á sér enga afsökun fyrir því að hafa ekki í sumar útfært náttúrupassa sem hefði getað skilað að minnsta kosti milljarði í kassann. Það er ótrúverðugt að það hafi ekki verið hægt á þeim fjórum mánuðum sem liðnir eru frá því að ríkisstjórnin kom saman að útfæra þær hugmyndir.

Og ríkisstjórnin á enga afsökun fyrir því að ákveða að hætta við hækkun virðisaukaskatts á ferðaþjónustu, boðaða með góðum fyrirvara þannig að greinin hefði getað búið sig undir hana og gert ráð fyrir henni í verðskrám sínum.

Ríkisstjórnin á sér enga afsökun fyrir því að hafa ekki nýtt sumarið og undanfarna mánuði til að útfæra hið sérstaka veiðigjald svo að það gæti tekið mið af afkomu ólíkra sjávarútvegsfyrirtækja og þannig skilað aukalega frá því sem nú er milljörðum í ríkiskassann.

Þetta er spurning um pólitíska forgangsröðun og það er kannski það sem birtist einna helst í þessu fjárlagafrumvarpi. Það er ekki beinlínis í útgjöldunum eða í því til hvers peningarnir eru ætlaðir þar sem pólitíkin birtist. Hún birtist á tekjuhliðinni, í því hvernig fjármunanna er aflað.

Það er ótrúverðugt — og ég er ekki að saka hæstv. fjármálaráðherra um það hér í dag heldur bara almennt hvernig umræðan hefur spilað sig í dag — að tala um að það vanti peninga á sama tíma og að menn vilji gera hitt og gera þetta, á sama tíma og þeir gefa raunverulega frá sér möguleikana á því að auka tekjur ríkisins. Þegar kemur að því að stækka kökuna eins og sjálfstæðismönnum er svo gjarnt að tala um er afskaplega lítið að finna í þeim efnum í áherslunum sem birtast í fjárlagafrumvarpinu. Því miður vegna þess að við þurfum á því að halda að styrkja atvinnulífið og fjölga stoðum, fjölga sprotum og því miður erum við ekki að gera það hér.



[21:14]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni góða samantekt á áherslum Bjartrar framtíðar og get samsinnt honum um ýmislegt af því sem fram kom í máli hans eins og t.d. um mikilvægi þess að hér skjóti rótum fleiri atvinnugreinar. Björt framtíð hefur verið dugleg við að benda á að það sé mjög mikill akkur í því fyrir okkur Íslendinga ef hér nái að vaxa og dafna greinar sem hafa ekki neinar náttúrulegar takmarkanir á vextinum, eins og á við um mörg fyrirtæki sem starfa hér eingöngu á innlendum markaði.

Ég verð hins vegar að segja að mér finnst ég verða of mikið var við það í umræðunni að menn leggi áherslu á leiðir til þess að þvinga einhvern veginn fram á tekjuhliðinni frekari tekjur til að standa undir sameiginlegum verkefnum. Þá virðast menn ekki sjá neina aðra leið en annaðhvort að kynna til sögunnar nýja skatta eða hækka skattana sem fyrir eru.

Tölurnar bera það með sér að jafnvel þó að skattar hafi verið hækkaðir mjög mikið undanfarin ár, skattprósentur teknar upp, nýir skattar kynntir til sögunnar og þeir sem fyrir voru færðir upp í áður óþekktar hæðir, hafa skatttekjur sem hlutfall af landsframleiðslunni því miður ekki stigið í neinu samræmi við það. Það er af þeirri ástæðu sem við þreytumst ekki á að benda á hversu mikið við eigum undir því að kakan stækki eins og ég nefndi fyrr í kvöld. Ef umsvifin hefðu bara verið meiri á þessu ári hefðum við fengið 5 milljarða til viðbótar í virðisaukaskattstekjur á árinu 2013, 5 milljarða umfram það sem stefnir í. Það eru fyrst og fremst aðgerðir sem auka umsvifin sem munu skila sér á tekjuhlið ríkisfjármálanna.



[21:16]
Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég get tekið undir það með hæstv. fjármálaráðherra að auka þarf tekjurnar en ég er einfaldlega að benda á að það er ekki gert, ekki með þeim hætti sem t.d. mjög virt ráðgjafarfyrirtæki hafa bent okkur á. Með því að auka framleiðni í samfélaginu, með því að draga úr fákeppni, með því að fella niður viðskiptahindranir, auka alþjóðlega samkeppni og innflæði erlends fjármagns. Það er það sem kemur til með að styrkja atvinnulífið mest.

Ég veit að hæstv. fjármálaráðherra er mér hjartanlega sammála í þessum efnum. Því miður býður hinn pólitíski veruleiki sem hann býr í ekki upp á þann möguleika. Við vitum að við þurfum að auka samkeppni í samfélaginu, fjölga atvinnugreinum, hafa fleiri stoðir í atvinnulífi okkar.

Ég og hæstv. fjármálaráðherra urðum samferða á fund fylkisstjórnar Manitoba-ríkis síðastliðið haust og sáum þar sneiðmynd eða kökumynd af skiptingu atvinnustoðanna þar sem báru uppi hagvöxtinn. Fjölbreytt atvinnulíf sem getur jú vissulega verið dálítið leiðinlegt en það býr við mikinn stöðugleika og er traust. Það er akkúrat það umhverfi sem fyrirtæki og fjölskyldur þurfa einna helst á að halda til að vaxa og dafna og búa við öryggi. Það er það sem við eigum að róa að öllum árum. Því miður sakna ég þess að þeirrar róttækni sem við í Bjartri framtíð hvöttum til sjái ekki stað í áætlunum ríkisstjórnarinnar.



[21:18]
Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu en vildi gjarnan geta um eitt, ég ætla að vona að menn fyllist ekki allt of mikilli bjartsýni. Ríkissjóður skuldar um 1.500 milljarða og þar af 1 þús. milljarða innan lands. Verðbólga er í öllum myntum, verðbólga étur upp innstæður og sparnað og verðbólga étur upp skuldir líka. Ef ríkissjóði er skilað með raunverulegum hagnaði eða núlli eins og 0,5 milljarðar eru, það er nánast núll í veltu ríkissjóðs, rýrna í rauninni innlendar og erlendar skuldir vegna þess að ríkissjóður borgar alla vexti, það er hluti af gjöldunum.

Ef við gerum ráð fyrir því að 1 þús. milljarðar séu innan lands sem er með 4% verðbólgu ést sú skuld upp um 40 milljarða á ári. Í erlendu skuldunum er minni verðbólga. Í evrunni er 1% í dag, var 2% fyrir hálfu ári, og þar má reikna með því að 5–10 milljarðar étist upp. Afgangurinn er í rauninni 45 milljarðar en ég ætla að vona að menn fari ekki að eyða honum.



[21:20]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Ég kem hér undir lok umræðunnar eingöngu til að þakka fyrir þá tvo daga sem við höfum verið að ræða fjárlagafrumvarpið. Það er augljóst að það er tekist á um nokkur áhersluatriði og forgangsröðun alveg eins og vænta mátti. Ég vonast til þess að samstarf geti verið gott við fjárlaganefnd um vinnuna fram undan. Við eigum eftir að taka við reiðinnar býsn af umsögnum og fjárlagabeiðnum um að breyta hinum ýmsu liðum. Í því sambandi er ágætt fyrir þingmenn að velta því fyrir sér hvernig það leggst í þá að fara smám saman að leggja af þau vinnubrögð og taka upp vinnubrögð sem horfa meira á ramma og framlög til einstakra málefnasviða en ekki eyða öllum tímanum í einstaka liði. Slík er hugsunin í frumvarpinu til nýrra opinberra fjármála, að við ræðum stóru myndina í auknum mæli og ræðum minna einstaka liði. Það á allt eftir að koma í ljós hvernig þinginu kemur til með að ganga að venja sig við þau nýju vinnubrögð, það nýja verklag, ef til þess kemur. Eins og allir vita og ég hef áður sagt er það auðvitað sérstakt þingmál og önnur ákvörðun.

Ég lýsi sömuleiðis ánægju minni með það að ég heyri ekki nokkurn lýsa því sem sinni stefnu á þessu stigi málsins að það sé eðlilegt að örva fjárfestingu eða bæta í rekstur með því að fara með fjárlögin öfugu megin við núllið. Þess vegna vonast ég til þess sömuleiðis að okkur takist að sameinast um það markmið að stöðva skuldasöfnunina. Við höfum sameiginlega gríðarlega mikla hagsmuni af því. Eins og hv. þm. Pétur Blöndal kom inn á geta skuldirnar farið tiltölulega hratt lækkandi ef við höldum rétt á spilunum í framhaldinu. Við erum þegar öllu er á botninn hvolft ekki í ómögulegri stöðu. Ef spár ganga eftir fyrir árið 2014 erum við með skuldahlutfallið undir 80% af landsframleiðslu. Mjög mörg ríki mundu vilja vera komin nú þegar í þá stöðu. Mörg ríki innan Evrópusambandsins eru komin í mikinn greiðsluvanda og halla og sjá ekki fram á að vinda ofan af því. Við Íslendingar höfum enga ástæðu til að kvarta eitthvað sérstaklega þó að okkar bíði verkefni vegna þess að allt í kringum okkur eru menn að fást við miklu þyngri og erfiðari verkefni og miklu meiri niðurskurð en við horfum upp á hér.

Í því samhengi finnst mér sjálfsagt að halda því á lofti að mín skoðun er sú að við eigum ávallt að gera kröfu um veltutengt aðhald í fjárlögunum, á hverju einasta ári, sama hvort gengur vel eða illa, við eigum ávallt að gera þá kröfu að við finnum áfram og þróum leiðir, m.a. með nýrri tækni, til þess að auka framleiðnina í opinbera rekstrinum. Það er venjan í fjölmörgum öðrum þjóðþingum og það er nokkuð sem við eigum að tileinka okkur.

Að svo mæltu ítreka ég það sem fram kom í framsöguræðu minni, ég óska eftir því að málið gangi þá til 2. umr. og til fjárlaganefndar og geri mér grein fyrir því að eins og vanalega erum við rétt að stíga fyrstu skrefin. Ég óska nefndinni góðs gengis í störfum sínum.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til fjárln.