143. löggjafarþing — 5. fundur
 8. október 2013.
staða bankakerfisins.

[13:32]
Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Nú þegar fimm ár eru liðin frá hruni íslenska fjármálakerfisins vildi ég nota tækifærið og inna hæstv. forsætisráðherra eftir nokkrum atriðum sem tengjast fjármálakerfi okkar og stöðu þess eftir fimm ár og þá kannski til að byrja með því sem mikið hefur verið rætt eftir hrunið og er staða innstæðnanna í viðskiptabönkum og sparisjóðum í landinu, hvort þær njóta ríkisábyrgðar og um viðhorf ráðherrans til þess og hvort áform eru uppi um einhverjar breytingar í tengslum við það atriði.

Sömuleiðis skylt þessu hefur mikið verið til umræðu og við mörg flutt þingmál ítrekað um nauðsyn þess að skilja á milli fjárfestingarbankastarfsemi og viðskiptabankastarfsemi, m.a. til að draga úr hættu skattgreiðenda í kerfinu. Ég vildi inna forsætisráðherra eftir sjónarmiðum hans gagnvart þessu og hvort hann telji nauðsynlegt að skilja á milli fjárfestingarbankastarfseminnar og viðskiptabankastarfseminnar eða hvort hann telji fullnægjandi að hafa fína múra á milli einhverja deilda þar eins og áttu að vera fyrir hrun.

Í þriðja lagi hefur nokkuð verið rætt um það að til álita komi á næstu missirum að selja hlut í viðskiptabönkunum úr eigu ríkisins og e.t.v. úr eigu kröfuhafa. Þá vildi ég spyrja hæstv. forsætisráðherra hvort hann telji nauðsynlegt áður en til þess kemur að settar verði skorður við því hvað einn aðili geti átt stóran hlut í banka í ljósi þess hversu illa fór fyrir okkur m.a. vegna þess að fáir aðilar og jafnvel einn var allsráðandi í heilu viðskiptabönkunum og viðskipti þeirra á milli leiddu til mikils ófarnaðar.

Loks vildi ég spyrja hæstv. forsætisráðherra um það sem hann boðaði í viðtali við Bloomberg í vor sem eru fjármagnshöftin og sú áætlun sem hann lofaði að mundi líta dagsins ljós í sumarlok. Ég vil spyrja ráðherrann hvers vegna hún sé ekki fram komin og hvort það sé ekki óheppilegt að valda óvissu um áætlanir stjórnvalda um afnám hafta og hvers vegna orð forsætisráðherrans um þetta hafi ekki verið efnd og hvort það sé einhver áherslumunur eða deilur innan stjórnarflokkanna um það með hvaða hætti eigi að haga þessari áætlun.



[13:34]
forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir ágætlega greinargóðar og skýrar spurningar. Fyrst varðandi stöðu innstæðna, hún er óbreytt en hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra hefur kynnt að til standi að skoða og endurmeta þá stöðu og taka ákvörðun um hvort ástæða sé til að gera þar breytingar á.

Hvað varðar fjárfestingarbanka og viðskiptabanka og möguleikana á því að skipta upp slíkri starfsemi þá held ég að ég hafi tjáð mig nokkrum sinnum um að ég sé mjög áhugasamur um það. Ég var mjög ósáttur við hvernig staðið var að stofnun nýju bankanna á sínum tíma, en þeir hafa verið stofnaðir og eru reknir á þann hátt sem þeir eru reknir nú. Það kann hins vegar að vera að með lagasetningu verði eitthvert svigrúm til að færa eða ýta þessum fjármálastofnunum meira í það horf sem hv. þingmaður spyr um, þ.e. gera þarna aukinn greinarmun á.

Í þriðja lagi varðandi skorður við því hversu stóran hlut ákveðnir aðilar geta eignast í bönkum, hvort ég sé hlynntur því að setja slíkar skorður, þá er svarið við því já.

Loks um áætlun um afnám hafta. Þarna vitnar hv. þingmaður enn og aftur í viðtal sem menn hafa mikið vitnað í og kannski leyft sér að snúa örlítið út úr, en ég sagði vissulega að ég vonaðist til þess að í haust hefðu menn betri mynd af því hvað væri fært við losun hafta og sú er raunin. Menn hafa betri mynd af því nú en áður og eru að fá af því allskýra mynd en eðli málsins samkvæmt — og ég veit að hv. þingmaður hefur mikinn skilning á því enda birtist það oft í orðum hans sem formanns efnahags- og skattanefndar — þá er ekki hægt að nefna ákveðna dagsetningu um það hvenær höft verði afnumin.



[13:36]
Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir svörin. Ég skil þau svo að staða innstæðna sé óbreytt og þær njóti enn ríkisábyrgðar en heyrist á hæstv. forsætisráðherra að hann telji vera of seint að skilja á milli fjárfestingarbankastarfsemi og viðskiptabankastarfsemi. Ég vil lýsa mig ósammála því. Ég tel að fjárfestingarbankastarfsemi sé enn tiltölulega lítil í þeim viðskiptabönkum sem hér eru og við eigum ekki að láta tækifærin fram hjá okkur fara heldur fara alla leið í því verkefni að skilja að fjárfestingarbankastarfsemina og viðskiptabankastarfsemina.

Það gleður mig að heyra að við erum sammála, ég og hæstv. forsætisráðherra, um að það verði að setja skorður við því hvað einn aðili geti átt mikið í viðskiptabanka. Ég hygg að í einu nágrannalanda okkar sé það viðmið um 10% og vildi spyrja hæstv. forsætisráðherra hvaða viðmið honum þyki eðlilegt í því sambandi.

Að lokum, erfitt er að nefna dagsetningu um hvenær eigi að afnema höft, en eigum við eða eigum við ekki von á áætlun nýrrar ríkisstjórnar um losun hafta eða verður gamla áætlunin bara látin gilda?



[13:38]
forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Fyrst varðandi spurninguna hvað sé eðlilegt hámarkshlutfall þegar kemur að eignarhlut í viðskiptabönkum þá ætla ég svo sem ekki að nefna eina ákveðna tölu en það er rétt í þessu eins og öðru að menn líti til reynslu, ekki hvað síst nágrannalandanna sem byggðu upp bankakerfi sitt eftir verulegar þrengingar, hálfgert hrun í upphafi tíunda áratugarins, svo það er ekkert óeðlilegt sem hv. þingmaður nefndi að líta til þeirra.

Hvað varðar áætlun um afnám hafta er eðli málsins samkvæmt, eins og ég veit að hv. þingmaður skilur vel, ekki hægt að útlista nákvæmlega með hvaða hætti höft verða afnumin. Hins vegar er vilji til að halda áfram starfsemi nefndar sem allir stjórnmálaflokkar á Alþingi áttu fulltrúa í. Sú nefnd var að vísu ekki upplýst á sínum tíma um gang mála en nú stendur til að gera breytingu þar á og halda þessari nefnd upplýstri um gang mála.