143. löggjafarþing — 5. fundur
 8. október 2013.
efnahagsmál.

[13:39]
Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Mig langar að beina fyrirspurn til hæstv. forsætisráðherra og leiðtoga ríkisstjórnarinnar um stöðu efnahagsmála og um ríkisfjármálin og hvaða stefnu hæstv. ríkisstjórn mun taka í þeim efnum. Nýkomið fjárlagafrumvarp miðast við þjóðhagsspá Hagstofunnar frá því í sumar sem gerir ráð fyrir 2,7% hagvexti á árinu 2014 sem yrði knúinn áfram af auknum vexti einkaneyslu og fjárfestingar. Hagvöxtur hefur verið undir væntingum í ár eins og hæstv. forsætisráðherra er kunnugt þó að hann sé með því mesta sem gerist í Evrópu. Miðað við rit Seðlabanka Íslands, sem kom út í dag, um fjármálastöðugleika eru menn mjög varfærnir í hagvaxtarspám og benda á að hagvaxtarhorfur séu þar mjög háðar áformum um stóriðjufjárfestingu. Það er því ekkert ólíklegt að ný þjóðhagsspá sem kemur í nóvember geri ráð fyrir versnandi horfum og minni hagvexti ef við lesum í gegnum þetta rit.

Þegar hafa verið boðaðar ákveðnar útgjaldaaukningar og ég nefni bæði það sem hefur verið nefnt í tengslum við Matvælastofnun og líka yfirlýsingu frá hæstv. fjármálaráðherra og heilbrigðisráðherra um áætlun um tækjakaup fyrir Landspítala og Sjúkrahúsið á Akureyri en tillögur eiga að liggja fyrir fyrir 2. umr. Miðað við þessar hagvaxtarhorfur, miðað við þau útgjöld sem hafa verið boðuð — og ég veit að hæstv. forsætisráðherra hefur talað um nauðsyn þess að hefja sókn í eflingu innviða á borð við heilbrigðisþjónustuna — vil ég spyrja hæstv. ráðherra hvort hann sjái fyrir sér, til að ná markmiði um hallalaus fjárlög sem ríkisstjórnin hefur sett á oddinn, að það náist eða hvort við megum þá eiga von á tillögum um aukna tekjuöflun milli umræðna eða tillögum um aukinn niðurskurð. Mér finnst mikilvægt að hv. þingmenn velti þessu fyrir sér í ljósi þess hverjar horfurnar eru.



[13:41]
forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég tel svo sem ekki ástæðu til að gera ráð fyrir því að Seðlabankinn muni í nóvember spá minni hagvexti en spáð er nú. Og ef bankinn tekur með í reikninginn að hér er komin ný ríkisstjórn, sem mun ýta undir fjárfestingu og almenna velmegun og hagþróun í landinu, hlýtur hann að breyta hagvaxtarspá sinni til samræmis við það. En hvað sem því líður er rétt að við vinnu fjárlaganefndar taki menn mið af ólíkum aðstæðum. Þar getur að sjálfsögðu komi til greina, eins og alltaf er, að menn geri bæði breytingar hvað varðar tekjuöflun og útgjöld. Menn geta annaðhvort ákveðið að forgangsraða eitthvað upp á nýtt eins og iðulega er gert — menn hafa töluvert rætt málin í því sambandi. En til að viðhalda hallalausum fjárlögum, og ég geri ráð fyrir að þingið ætli að gera það, þyrfti þá að finna aðra staði þar sem hægt væri að spara eða finna nýja tekjusköpunarmöguleika. Þeir tekjumyndunarmöguleikar verða að sjálfsögðu líka að taka mið af því sem hv. þingmaður nefndi í upphafi, þ.e. mikilvægi þess að hagvöxtur komist af stað.

Eins og hv. þingmaður fór ágætlega yfir þá hefur það veruleg áhrif á hver niðurstaða fjárlaga verður, hver niðurstaða næsta árs verður, hvort tekst að koma hagvexti af stað. Það væri því skaðlegt að ráðast í aðgerðir sem væru til þess fallnar að hefta hagvöxt í landinu. Það mundi ekki skapa raunverulegar tekjur fyrir ríkið. Vissulega er vandi að ná hallalausum fjárlögum. Hæstv. fjármálaráðherra er búinn að útlista prýðilega hvernig hægt er að ná því markmiði. Þingið mun síðan meta hvort einhvers staðar megi hnika einhverju til og forgangsraða upp á nýtt en væntanlega mun það halda í það prinsipp að fjárlög verði hallalaus fyrir árið 2014.



[13:43]
Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Mig langar að nefna tvennt hér um leið og ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir svarið. Í fyrsta lagi er það rétt að fjárfesting hefur verið í sögulegu lágmarki og það er ekki síst vegna þess að fjárfesting hins opinbera hefur dregist mikið saman. Í fjárlagafrumvarpinu er gert ráð fyrir að fjárfestingaráætlun fyrri ríkisstjórnar sé nánast tekin út og vísað til ákvörðunar ríkisstjórnarinnar um að taka niður sérstakt veiðigjald. Ég hef áhyggjur af því, miðað við þetta og miðað við óvissu um þau stóriðjuáform sem hæstv. forsætisráðherra nefnir, sem ég tel raunar ekki skynsamlega fjárfestingu efnahagslega, að þessar horfur kunni að versna. Ég hefði frekar viljað sjá fjárfestingu aukast í fjölbreyttari atvinnugreinum.

Mig langar að spyrja hæstv. forsætisráðherra, út frá orðum hans, hvort hann sé mér ekki sammála um það sjónarmið að ekki verði gengið mikið lengra í því að skera niður innviðina. Nefni ég þá sérstaklega heilbrigðisþjónustuna, skólakerfið og hið félagslega kerfi, að það hljóti að verða leiðarljós Alþingis ef fara þarf í frekari niðurskurð milli umræðna, þ.e. ef menn vilja halda sig við þetta markmið; og ég spyr hæstv. forsætisráðherra hvort til greina komi að skila fjárlögum í halla.



[13:45]
forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Svo að ég byrji á síðustu spurningunni þá finnst mér það raunar ekki koma til greina, við þær aðstæður sem við erum í, að skila fjárlögum enn eina ferðina með halla. Það segi ég einfaldlega vegna þess að vaxtakostnaður ríkisins er þegar orðinn slíkur að það er farið að bitna á grunnstoðunum. Þeirri þróun þarf að snúa við. Ég er sammála því sem hv. þingmaður spurði um, að ekki verði lengra gengið í að skera niður í grunnþjónustunni, en til að við getum staðið vörð um hana til framtíðar og bætt þar í þarf að ná tökum á skuldavandanum og vaxtakostnaði ríkissjóðs. Það verður ekki gert nema með hallalausum fjárlögum.

Hvað varðar fjárfestingarstefnu fyrrverandi ríkisstjórnar þá voru gallarnir við hana einkum tveir. Í fyrsta lagi hafði hún ekki verið fjármögnuð, ekki hafði verið sýnt fram á fjármagn til framkvæmdanna. Uppi voru hugmyndir um að nýta arð úr bönkum eða jafnvel arð af sölu banka í slíkt en þá gleymdist að það fjármagn sem ríkið setti inn í bankana var tekið að láni og þurfti að endurgreiða. Hitt var að verkefnin voru ekki öll líkleg til að skila verulegum arði.