143. löggjafarþing — 5. fundur
 8. október 2013.
framlagning lyklafrumvarps.

[13:59]
Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Núna um helgina eða undanfarna daga hafa borist fréttir af því að unnið sé að samningu nýs lyklafrumvarps undir forustu hæstv. húsnæðis- og félagsmálaráðherra og hæstv. innanríkisráðherra. Lyklafrumvarpið svokallaða var lagt fjórum sinnum fyrir Alþingi á síðasta kjörtímabili og ég minnist þess þegar ég var í allsherjarnefnd, á fyrri hluta þess kjörtímabils, að þá var mikið rætt hvort slík lagasetning gæti verið afturvirk.

Björgvin G. Sigurðsson, þáverandi hv. þingmaður, sem var formaður allsherjarnefndar síðari hluta kjörtímabilsins hafði fullan áhuga og vilja til að afgreiða málið úr nefndinni og fékk fjölda gesta til viðræðu en spurningin um afturvirknina var alltaf yfirvofandi. Björgvin fékk Sigurð Líndal, prófessor emeritus, á fund nefndarinnar til að fjalla sérstaklega um þetta álitaefni. Sigurður kvað engan vafa á því að afturvirkt frumvarp stæðist ekki eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar og þar með endaði í raun vinna Björgvins með frumvarpið í nefndinni.

Nú mun sem sagt verða unnið að gerð nýs lyklafrumvarps. Mig langar að spyrja hæstv. innanríkisráðherra um tvennt: Annars vegar hvort gert sé ráð fyrir að það verði afturvirkt þannig að þeir sem eru núna í kröggum geti skilað inn lyklum sínum og frumvarpið gagnist þeim. Hins vegar langar mig að spyrja um tímasetningar. Hvenær er gert ráð fyrir að frumvarpið varði lagt fyrir Alþingi? Það er alveg ljóst að fólk hefur tekið eftir þessu í fréttum og spyr hvort frumvarpið verði afgreitt fyrir jól.



[14:01]
innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni spurningarnar. Þær snúa að vinnu sem hefur verið í gangi á milli innanríkisráðuneytisins og velferðarráðuneytisins og lýtur að því að útfæra þær tillögur er fram koma í tillögu hæstv. forsætisráðherra sem flutt var hér á sumarþingi og samþykkt.

Það er hárrétt sem kemur fram í máli hv. þingmanns að við höfum verið að skoða ákveðnar útfærslur á frumvarpi sem á mannamáli hefur verið kallað lyklafrumvarpið en getur auðvitað falið í sér útfærslur sem ekki eru allar nákvæmlega eins.

Ég þekki ágætlega rökin sem hv. þingmaður fer með og það er hárrétt að flestir þeir lögmenn sem innanríkisráðuneytið hefur leitað til og þeir sem hafa helst verið í ráðgefandi hlutverki þar telja mjög erfitt að flytja slíkt frumvarp sem felur í sér afturvirkni. Það er talið stangast á við ákveðna hluti og flækir málið. Við erum hins vegar ekki komin að lokaniðurstöðu hvað þetta varðar, ég og hæstv. félagsmálaráðherra, en munum afhenda sérstakri ráðherranefnd um skuldamál heimilanna niðurstöðu okkar í næstu eða þarnæstu viku. Þangað til get ég ekki tjáð mig frekar um inntak þess frumvarps sem hv. þingmaður vísar til.



[14:02]
Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Herra forseti. Ég þakka þessi greinargóðu svör. Ég vil bara leggja áherslu á þetta.

Það gleður mig að heyra að kannski séu tvær vikur í það að þessi hópur geti skilað af sér vegna þess að það er auðheyrt að fólk hefur hlustað eftir þessu. Ég þekki dæmi þess að sagt var við ungt fólk að fram kæmi lyklafrumvarp alveg á næstu vikum þannig að nú skyldi það bara anda rólega.

Ef svokallað lyklafrumvarp kemur fram og virkar ekki fyrir fólk sem núna er í kröggum þá þarf það að koma fram fyrr en seinna. Það er bara það sem ég er að segja þannig að fólk haldi ekki áfram að vera í óvissu, hún er búin að vera nógu lengi.



[14:03]
innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég tek undir það með hv. þingmanni að óvissunni þarf að fara að eyða. Ég minni hins vegar á að þessi óvissa er ekki fjögurra mánaða gömul, ætli hún sé ekki um það bil fimm ára gömul. (Gripið fram í.) Við erum algerlega sammála um það að óvissan hefur verið allt of lengi gagnvart þessum hópi og málið þarf að leysa.

Þegar ég talaði um að við mundum ljúka þessari vinnu á næstu tveimur vikum átti ég við vinnuna sem var falin í þeirri þingsályktunartillögu sem hér stendur og tillögu hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra. Þessar tillögur okkar verða afhentar ráðherrahópnum sem ég vék einnig að og tillögurnar koma síðan í heild sinni fram síðar eins og þinginu hefur ítrekað verið gerð grein fyrir.