143. löggjafarþing — 5. fundur
 8. október 2013.
stimpilgjald, 1. umræða.
stjfrv., 4. mál (heildarlög). — Þskj. 4.

[18:46]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um stimpilgjald. Í því er lagt til að gildandi lög um stimpilgjald verði felld brott í heild og að í þeirra stað taki gildi ný heildarlög um stimpilgjald. Gjaldskyldan samkvæmt frumvarpinu nær einungis til þeirra skjala er varða eigendaskipti á fasteignum hér á landi og skipum yfir 5 brúttótonnum sem skrásett eru hér á landi, sem er mikil einföldun frá gildandi lögum.

Þetta hefur í för með sér að ekki verður lengur skylt að greiða stimpilgjald af lánsskjölum, þar með talið skilmálabreytingum, eða af hlutabréfum og stofnfé. Þá mun einnig falla brott skylda til að greiða stimpilgjald af kaupmálum, vátryggingarsamningum, aðfarar- og kyrrsetningargerðum, leigusamningum um jarðir og lóðir, heimildarskjölum um veiðiréttindi og af öðrum skjölum sem leggja ítök, skyldur og kvaðir á annarra eign.

Í frumvarpinu er lagt til að stimpilgjaldið miðist almennt við kaupverð fasteigna og skipa og að gjaldhlutfallið verði 0,8% þegar rétthafi er einstaklingur en 1,6% þegar rétthafi er lögaðili.

Þá er lagt til í frumvarpinu að einungis sýslumenn innheimti gjaldið og að þeir gefi út kvittun til staðfestingar greiðslunni. Þar með mun bæði ástimplun með stimpilmerkjavél og stimpilmerki á stimpilskyld skjöl heyra sögunni til. Jafnframt er lagt til að ráðherra geti falið tilteknu embætti sýslumanns innheimtu stimpilgjalds í þeim tilgangi að tryggja samræmda innheimtu á landsvísu.

Segja má að tilefni frumvarps að nýjum stimpilgjaldalögum sé í grundvallaratriðum tvíþætt. Í fyrsta lagi er löngu tímabært að endurskoða gildandi lög um stimpilgjald í heild sinni í takt við breytt viðskiptaumhverfi og viðurkennd samkeppnissjónarmið. Gildandi lög kveða á um stimplun fjölmargra skjala með úreltum hætti, auk þess sem innheimtan er óhefðbundin, dreifð á nokkra aðila og ekki nægilega samræmd. Þá eru lögin torskilin og að mörgu leyti úrelt og gætir jafnvel nokkurrar réttaróvissu varðandi viss atriði gildandi laga sem brýnt er að laga.

Í öðru lagi skuldbundu íslensk stjórnvöld sig til þess að endurskoða lög um stimpilgjald í aðdraganda ákvarðana Eftirlitsstofnunar EFTA um ríkisstyrki til Íslandsbanka, Arion banka og Landsbanka. Beindust athugasemdir ESA einkum að töku stimpilgjalda vegna skilmálabreytinga á fasteigna- og bílalánum einstaklinga sem stofnunin taldi samkeppnishamlandi. Við þessum athugasemdum hefur þegar verið brugðist með lagabreytingum en skuldbinding íslenska ríkisins náði engu að síður til heildarendurskoðunar á lögum um stimpilgjald.

Þann 15. apríl 2013 var formlega gengið frá skipun starfshóps sem falin var heildarendurskoðun á lögum um stimpilgjald og átti hann að ljúka störfum 1. nóvember 2013. Var starfi hópsins stýrt af fulltrúa ráðuneytisins en auk hans sátu í hópnum fulltrúar frá Fjársýslu ríkisins, sýslumanninum í Reykjavík, Þjóðskrá Íslands og Samtökum fjármálafyrirtækja.

Þegar ég hóf störf sem fjármála- og efnahagsráðherra ákvað ég að endurskilgreina verkefni starfshópsins og hraða vinnu hans. Var það gert með nýju skipunarbréfi þar sem sama starfshópi var falið að kanna sérstaklega leiðir til að afnema stimpilgjald af lánsskjölum og að skila sínum niðurstöðum eigi síðar en 20. september 2013. Þær niðurstöður liggja nú fyrir ásamt frumvarpsdrögum og skýrslu þar sem varpað er ljósi á ýmsa vankanta á gildandi lögum og framkvæmd þeirra. Það frumvarp sem hér er kynnt byggist að verulegu leyti á tillögum starfshópsins.

Virðulegi forseti. Á undanförnum árum hafa orðið miklar breytingar á viðskiptaumhverfi almennt, eins og ég nefndi áðan, þar með talið á gerð og tegundum skjala. Rafræn skjöl eru orðin algeng í notkun en þau þekktust ekki við setningu gildandi laga. Meðal annars af þessum sökum er túlkun og framkvæmd laganna orðin óljósari en áður. Auk þess skortir á að framkvæmd þeirra sé nægilega samræmd á landsvísu, og eftirliti með innheimtu gjaldsins er ábótavant. Því verður að telja að brýna þörf beri til þess að endurskoða gildandi lög um stimpilgjald heildstætt.

Með frumvarpinu er lögð til mun einfaldari og gagnsærri gjaldtaka en nú er. Í því nær gjaldskyldan eingöngu til eigendaskipta á fasteignum hér á landi og skipum yfir stærðarmörkum sem ákveðin eru í frumvarpinu. Óbreytt er að eigendaskipti vegna arfs og búskipta eru undanþegin gjaldinu. Svipuð gjaldtaka og kveðið er á um í frumvarpinu tíðkast í helstu nágrannaríkjum vegna eigendaskipta á fasteignum. Í greinargerð með frumvarpinu er að finna fróðlega úttekt á því hvernig slíkri gjaldtöku er háttað, bæði á Norðurlöndum, Bretlandi og víðar. Það verður að telja að gjaldhlutfallið samkvæmt frumvarpinu sé hóflegt samanborið við nágrannaríkin, enda þótt það geti falið í sér hækkun í vissum tilfellum.

Við vinnslu frumvarpsins var miðað við að stimpilgjaldið skilaði sömu tekjum og áætlað hafði verið áður. Frumvarpið er því ekki tekjuöflunaraðgerð sem slíkt heldur er með því stefnt að einfaldara og gagnsærra kerfi en nú gildir sem skilar sömu tekjum í ríkissjóð.

Við útreikning tekna af gjaldinu var miðað við sömu forsendur og undanfarin ár enda þótt frumvarpið miði almennt við gjaldtöku af kaupverði í fasteignaviðskiptum en ekki fasteignamatsverði. Eftir að frumvarpið kom fram hafa komið fram nokkrar ábendingar um þetta atriði og eftir nánari skoðun tel ég að það gæti verið til einföldunar í framkvæmd, a.m.k. enn um sinn, að miða gjaldtökuna áfram við fasteignamatsverð í fasteignaviðskiptum líkt og gildandi lög kveða á um. Það var reyndar tillaga starfshópsins og þá yrði kaupverðið ekki lagt til grundvallar eins og lagt er til í frumvarpinu. Ég mundi vilja leggja það til við hv. efnahags- og viðskiptanefnd að hún taki þetta atriði til sérstakrar skoðunar. Það er ekki augljóst hvor leiðin er hentugri í framkvæmd en þetta er meðal þeirra atriða sem ég tel að hljóti að koma til sérstakrar skoðunar. Verði þessu breytt væri um afar einfalda breytingu á 2. mgr. 4. gr. frumvarpsins að ræða.

Í þessu samhengi er um leið mikilvægt að leggja mat á það hvor gjaldstofninn væri líklegri til að skila auknum tekjum og haldi menn fast við það markmið, sem hér er lagt upp með, að frumvarpið verði í sjálfu sér hlutlaust hvað varðar tekjuöflun fyrir ríkið miðað við gildandi lög kann eftir atvikum að vera ástæða til að skoða þá prósentu í leiðinni. Þetta legg ég til að verði sérstaklega skoðað í nefndinni.

Eins og augljóst má vera er mikil réttarbót fólgin í því að stimpilgjaldið er fellt að lánsskjölum. Það opnar fyrir endurfjármögnun lána þegar einstaklingur eða fjölskylda leitar eftir betri kjörum með því að fá lán á lægri vöxtum hjá sömu fjármálastofnun eða eftir atvikum hjá annarri fjármálastofnun. Sá gerningur sem slíkur væri stimpilgjaldsskyldur í dag og þegar við berum saman við áhrifin af þessu frumvarpi er augljóst að frumvarpið hefur áhrif til lækkunar. Það eru ekki bara fólgin í þessu samkeppnisaukandi áhrif heldur hefur þetta beint með fjárhagslega hagsmuni heimilanna að gera. Á hinn bóginn er rétt að hafa í huga að þegar fjölskylda kaupir eign án þess að hún hyggist þinglýsa lánsskjölum í leiðinni er stimpilgjaldið á því sem stimpilgjaldsskylt er að hækka. Í slíku tilfelli eykst gjaldtakan. Slíkt gæti átt við þegar eign er keypt og lán sem þegar hefur verið þinglýst á eignina eru yfirtekin eða ef keypt er eign þar sem kaupin eru að fullu fjármögnuð með eiginfjárframlagi. Þá er ekki um nein lánsskjöl að ræða en stimpilgjald vegna afsalsins eða kaupsamningsins er þá hærra miðað við það sem gilt hefur fram til þessa, enda hlaut það að vera þegar gjaldið er fellt niður af lánsskjölum og ýmsum öðrum gerningum að það sé einhvers staðar annars staðar að hækka.

Heilt yfir tel ég að í frumvarpinu felist mikil réttarbót, mikil lagahreinsun. Ég tiltek sérstaklega þetta sem snýr að lánsskjölunum að þeim atriðum sem í raun eru orðin úrelt í framkvæmdinni vegna breytinga sem hafa orðið með auknum rafrænum viðskiptum. Eins og sjá má í greinargerð með frumvarpinu innheimtast illa ýmsar tekjur af sumum skjalanna. Ég nefni sem dæmi hlutabréfin og stofnbréf ýmiss konar skila tiltölulega litlum tekjum miðað við hvað gjaldstofninn ætti að vera stór. Það sýnir að í framkvæmd er erfitt að innheimta gjaldið þótt lögin eigi að vera nokkuð skýr. Af þeirri ástæðu er þessi breyting lögð til. Það munu menn einnig sjá, þegar greinargerðin er lesin með frumvarpinu, að þetta gjald er mjög breytilegt frá einum stað til annars, þ.e. milli landa. Sums staðar er stimpilgjaldið á afsöl og kaupsamninga látið hækka eftir því sem viðskiptin snúast um verðmætari eign. Sums staðar hafa tekjur viðkomandi einnig áhrif en hægt er að segja það sem nokkuð almenna reglu að gjaldið er alls staðar hærra en lagt er upp með hér.

Ég legg til að málið gangi til hv. efnahags- og viðskiptanefndar að lokinni þessari umræðu og til 2. umr.



[18:57]
Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það hljómar nú nokkuð nýtt að fjármálaráðherra komi hér og mæli fyrir frumvarpi sem hann hefur nýlega lagt fram og telji ástæðu til að skoða það í nefndinni sérstaklega hvort ekki eigi að nota annað skattandlag en lagt er til í sjálfu frumvarpinu, þ.e. að byggja á fasteignamatinu en ekki markaðsverðmæti eins og gert er ráð fyrir í frumvarpinu, og vekur ákveðnar áhyggjur af því að málið hafi ekki haft nægilegan meðgöngutíma og ekki sé nægilega vandað til undirbúnings þess. En ég átta mig nú satt að segja ekki alveg á því hvernig þetta mál snýr vegna þess að mig minnir að þingflokkur Sjálfstæðisflokksins hafi hér fyrir nokkrum mánuðum flutt frumvarp um að aflétta öllum stimpilgjöldum af viðskiptum með íbúðarhúsnæði. Kannski misminnir mig um þetta — og ég hélt raunar að það hefði verið kosningaloforð Sjálfstæðisflokksins að aflétta stimpilgjöldum af öllum viðskiptum með íbúðarhúsnæði.

En mér sýnist að í þessu frumvarpi sé sannarlega verið að halda áfram stimpilgjöldum á íbúðarhúsnæði. Við höfðum auðvitað fallið frá stimpilgjöldum á skilmálabreytingar en mér sýnist til dæmis að fólk sem er að kaupa sína fyrstu íbúð muni þurfa að greiða full stimpilgjöld af þeim kaupum sem ég hélt að væri svona kannski forgangshópur að létta þessum miklu gjöldum af frekar en af hlutabréfunum og viðskiptum með atvinnuhúsnæði og annað slíkt. Ég bið bara hæstv. fjármálaráðherra um að leiðrétta mig ef ég man þetta vitlaust, ég hef ekki flett þessu sérstaklega upp. En var þetta ekki svona hugsað? Var Sjálfstæðisflokkurinn ekki að gefa það út hér í þingsölum bara fyrir örfáum mánuðum og í kosningunum sjálfum að þessum gjöldum yrði létt af íbúðarkaupendum og hvers vegna er eftirfylgnin þá svona rýr?

En kannski hef ég bara misskilið þetta í grundvallaratriðum af því að ef þetta er svona þá skil ég nú ekki að hæstv. fjármálaráðherra geti mælt fyrir málinu (Forseti hringir.) kinnroðalaust.



[19:00]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst varðandi það andlag sem hér kemur til gjaldtöku af fannst mér rétt að deila því með þinginu að frá því að málið var lagt fram höfum við fengið ábendingar í ráðuneytinu. Ég hefði svo sem alveg getað látið það eiga sig og látið málið standa. Sömu ábendingar frá sömu aðilum hefðu þá væntanlega komið upp í nefndinni, en mér fannst sjálfsagt að láta þess getið að mér finnst þetta vera ákveðið álitamál. Við tökum af skarið með frumvarpinu en þetta er ekki þess háttar atriði að önnur hvor aðferðin sé rétt og hin röng. Þetta er ákveðið matsatriði.

Varðandi áherslur okkar í Sjálfstæðisflokknum þá höfum við lagt áherslu á að lækka stimpilgjöldin af fasteignaviðskiptum og í frumvarpinu er stigið mjög mikilvægt skref sem felur í sér að menn geta endurfjármagnað lán á húsnæði án þess að ríkið taki sérstakt gjald í tilefni af því. Það er rétt sem hv. þingmaður segir að eftir lifa stimpilgjöldin af afsölum og kaupsamningum. Í tengslum við fjárlagafrumvarpið koma síðan fram aðrar áherslur nýrrar ríkisstjórnar og Sjálfstæðisflokksins þar með og ég hef aldrei skorast undan því að viðurkenna að þegar allt er samantekið birtist ákveðin forgangsröðun hjá okkur. Eftir sem áður verður stimpilgjaldið enn um sinn ákveðinn þröskuldur í fasteignaviðskiptum, það mun hafa ákveðin áhrif á verðmyndun á fasteignamarkaði en ekki samt meiri en svo að við teljumst vera með mjög hóflegt stimpilgjald af afsölum og kaupsamningum þegar borið er saman við aðrar þjóðir.



[19:02]
Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er hárrétt hjá hæstv. fjármálaráðherra, hér birtist skýr forgangsröðun. Hér er gjöldunum létt af hlutabréfaviðskiptum. (Gripið fram í.) En þeim er haldið áfram á þeim sem eru að kaupa sér íbúðarhúsnæði og það er bara í hrópandi mótsögn við það sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið að segja hér og flutti þingmál um bara fyrir örfáum mánuðum síðan, um að létta alfarið stimpilgjöldum af viðskiptum með íbúðarhúsnæði. Ég get haft samúð með þeim sjónarmiðum ráðherrans að hann sé í þeirri stöðu að hann þurfi að skila frumvarpi þar sem tekjur af einu eru hækkaðar til móts við lækkun á einhverju öðru. En þá hefði ég átt von á að þeim væri létt af þeim sem ættu viðskipti með íbúðarhúsnæði og einkanlega þeim sem eru að kaupa íbúð í fyrsta sinn. Það var auðvitað hópurinn sem menn vísuðu til í réttlætisumræðu hér fyrir kosningar að bæri mjög þung gjöld, ungt fólk sem er að stofna nýtt heimili og fær þessa gríðarlega háu reikninga sem í stimpilgjaldinu felast.

En það er rétt að þetta auðveldar fyrir endurfjármögnun og Seðlabankinn hefur nú í dag gefið út rit sitt um fjármálastöðugleika. Maður hlýtur að spyrja: Hefur það verið metið í fjármála- og efnahagsráðuneytinu hvaða áhrif þessi breyting mun hafa á fjárhag Íbúðalánasjóðs? Er talið að það muni leiða til þess að þar verði farið í uppgreiðslu lána hjá viðskiptavinum í stórum stíl þegar gjöld af slíkri endurfjármögnun leggjast af? Hvaða áhrif hefur það á fjárhagsstöðu Íbúðalánasjóðs? Mun það baka honum mikið tjón? Hversu mikið tjón er það þá sem skattgreiðendur mundu þurfa að taka á sig á þeim enda málsins?



[19:04]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst varðandi þá sem eiga nú sín fyrstu fasteignaviðskipti þá voru lánsskjöl vegna slíkra viðskipta undanþegin stimpilgjaldi. Það hefur þess vegna mjög takmörkuð áhrif fyrir þann hóp að fella þau almennt niður. Hins vegar vil ég segja varðandi Íbúðalánasjóð að áhrifin hafa ekki verið metin sérstaklega fyrir Íbúðalánasjóð og maður spyr sig hvort þetta gjald eitt og sér muni valda aukinni uppgreiðslukröfu hjá sjóðnum. Það ræðst nú væntanlega fyrst og fremst af almennum viðskiptakjörum og síðan því hvort viðkomandi hefur yfir höfuð uppgreiðsluheimild hjá sjóðnum. Svo hefur sjóðurinn verið með sérstaka gjaldtöku yfir ákveðið tímabil á útgefnum bréfum þegar óskað er eftir uppgreiðslu skuldar, þannig að það hefur ekki verið sérstaklega metið. En að því marki sem slík áhrif kynnu að vera neikvæð fyrir sjóðinn þá mundu þau vegast á við hið almenna markmið laganna að auka samkeppni með lán á fasteignamarkaði. Það markmið eitt og sér með lagasetningunni tel ég vera gríðarlega mikilvægt.



[19:05]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir frumvarpið. Þetta er mikið framfaraskref. Mig langar til að koma inn á viss tæknileg atriði eins og til dæmis það hvenær gildistaka frumvarpsins er. Það er ljóst að ef það á að taka gildi um áramót stöðvast allar lántökur. Menn munu fresta öllum lántökum þar til gjaldið lækkar og það yrði mjög hamlandi fyrir markaðinn. Hins vegar kann að vera að menn flýti öllum eignaskiptum til að losna við hækkun gjaldsins. Það er því dálítið varasamt að hafa þetta svona langt fram í tímann og spurning hvort hv. nefnd þurfi ekki að skoða það að láta gildistökuna vera eitthvað fyrr.

Ég geri ráð fyrir því að samkeppni milli banka muni aukast mikið, þetta muni velta upp spurningu um lántökugjöldin sem lítið hefur verið rætt um. Menn líta nánast á það sem náttúrulögmál þegar þeir taka lán að það eigi að borga einhvern heljarinnar pening fyrir lántökuna. Ég hugsa að ekki löngu eftir að lögin hafa tekið gildi muni lántökugjaldið verða mikið til umræðu og jafnvel verða lækkað hjá einhverjum út af samkeppninni.

Varðandi Íbúðalánasjóð er heimild til að leggja á uppgreiðslugjald hjá Íbúðalánasjóði og ég tel einsýnt að það þurfi að beita því þegar lántakan verður svona lipur. Nú, ég held að það sé ekki fleira og ég held að þetta frumvarp verði mjög gott — nema nafnið. Ég er mjög óhress með þetta nafn því að stimplun þýðir að verið er að stimpla eitthvert skjal. Einu sinni voru til stimpilvélar þar sem menn sneru þessu endalaust og var ógurleg vinna. Nú er þetta allt orðið rafrænt. Ég vil endilega að hv. nefnd taki sér leyfi til að finna eitthvert annað nafn á þetta en stimpilgjald. Fyrir utan að þetta er ekki gjald, þetta er skattur. Ég skora á hv. nefnd að skoða það.



[19:08]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir ágætisábendingar, t.d. varðandi gildistökuna. Það er sjálfsagt að nefndin hugi að því hvort það geti haft einhver neikvæð áhrif að gildistakan sé aðeins fram í tímann en á móti koma sjónarmið um nauðsynlegan aðdraganda og undirbúning fyrir þá sem munu innheimta gjaldið.

Varðandi nafnið á gjaldinu kom það til umræðu í ráðuneytinu hvort ástæða væri til að breyta því en þar sem eðli gjaldsins tekur ekki miklum breytingum þegar þessi skjöl sem eftir standa eiga í hlut þótti ekki ástæða til þess að stíga það skref. En að sjálfsögðu hefur nefndin frjálsar hendur með það eins og öll önnur atriði frumvarpsins.



[19:09]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka fyrir svörin. Það er erfiðara að koma með nýtt kerfi, það er erfiðara að leggja á nýja skatta, en að hætta við skatta — það á að vera mjög auðvelt. Það á að vera mjög auðvelt í framkvæmd að segja bara: Nú hættið þið að innheimta þetta. Það hlýtur að geta gerst með nánast dags fyrirvara. Ég legg því til að nefndin skoði það að flýta vinnslunni.



[19:09]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Um þetta erum við hv. þingmaður algjörlega sammála. Það á að vera viðurhlutaminna að fella skatta niður en að kynna til sögunnar nýja eða hækkun á þeim sem fyrir eru.

Ég vil koma einu að undir lokin, af því að ég hef heyrt af því í umræðunni að menn skilji það svo að verið sé að hygla einhverjum varðandi hlutabréf á kostnað þeirra sem eiga t.d. í fyrstu fasteignaviðskiptum. Um það er að segja að gjaldið hækkar nokkuð hressilega á lögaðila upp í 1,6% en það eru lögaðilarnir sem hefðu borið gjaldskylduna af hlutabréfunum. Stimpilgjald átti að greiðast vegna útgefinna hlutabréfa og stofnbréfa en eftir að hlutabréf voru í auknum mæli gefin út rafrænt þá reyndist innheimtan á þessu eitthvað flóknari. Þegar saman er tekið er ég nokkuð viss um að með þessu hærra stimpilgjaldi muni lögaðilarnir þegar upp er staðið ekki fá mikla lækkun með þessum breytingum.



[19:11]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að hafa mjög langt mál um þetta frumvarp enda dagur að kveldi kominn og búin að eiga sér stað hér nokkuð upplýsandi skoðanaskipti í andsvörum um málið. Þetta er heilmikil tiltekt á því lagafyrirkomulagi sem verið hefur og til mikillar einföldunar, það er í öllu falli ljóst og hlýtur að teljast frekar kostur en hitt. Það má sömuleiðis færa þessu frumvarpi það til málsbóta að þetta er þáttur sem menn hafa oft bent á í sambandi við samkeppni um fjármálaþjónustu, að þetta liðki fyrir henni, að auðvelda fólki að færa sig með sín viðskipti, greiða upp lán og taka önnur ný og hvað það nú er. Þannig að það er ýmislegt jákvætt við þetta.

Varðandi álitamálið um gjaldstofninn, hvort það eigi að vera eignayfirfærsluverðið í viðskiptunum eða fasteignamat, þá finnst mér nú að hið eiginlega verðgildi sé eðlilegri skattstofn. Vissulega er þægilegt að fletta upp fasteignamatinu, það er einfalt, en hitt er eðlilegra skattandlag að mínu mati þannig að ég hefði haft tilhneigingu til að hafa ákvæðin eins og þau eru sett fram í frumvarpinu nema manni verði sýnt fram á að verulegt hagræði sé að hinu.

En það er alveg ljóst að með því markmiði að viðhalda tekjum ríkisins upp á 4,3 milljarða, eða hvað það nú er, þá verður hér ákveðin tilfærsla og hún verður í einhverjum mæli yfir á þá einstaklinga sem kaupa fasteign. Það kemur þarna ívið hærri þröskuldur með hærri prósentu og í þeim tilvikum að menn séu ekki að gefa út ný lánsskjöl samhliða fasteignakaupunum, annaðhvort með því að þeir yfirtaki lán að mestu leyti eða staðgreiði kaupverðið einhvern veginn, þá verður þetta hærra en kostnaðurinn hefur verið. Sömuleiðis verður einhver tilfærsla í gjöldum lögaðilanna. Þetta leggst ekki endilega á þá sömu þó að lögaðilar í heild sinni leggi áfram sitt af mörkum í þessu tilviki.

Það kemur reyndar hér fram að þetta er um 900 millj. kr. hækkun á einstaklingana í skilningi þeirra fasteignaviðskipta eða veltunnar á fasteignamarkaðinum eins og hún er. Hvað þeir sjálfir, eða einhverjir aðrir, sleppa við á móti er svo sjálfsagt erfiðara að reikna út. En það væri engu að síður ástæða til að fara yfir það. Ég held að í umfjöllun nefndarinnar hljóti að vera mikilvægt að kalla til aðila á fasteignamarkaðinum og velta fyrir sér hvaða áhrif þetta mögulega getur haft þar.

Varðandi Íbúðalánasjóð þá er svona tæpt hér í framhjáhlaupi á gríðarlega stóru máli sem er staðan þar og uppgreiðsluáhættan sem Íbúðalánasjóður býr við enn þann dag í dag, tiltölulega óvarinn vegna þeirra hrottalegu mistaka sem gerð voru í málefnum hans á árinu 2004, ef ég man rétt, þegar fjármögnun hans var breytt í þá veru að hann gat ekki greitt upp á móti því sem greitt var upp hjá honum. Auðvitað er þetta ekki stórmál í því stóra samhengi nema hvað þetta kann að hafa þarna einhver áhrif á og ýtir enn frekar á það að menn komist eitthvað áleiðis með að skoða hvernig á að takast á við málefni og vanda Íbúðalánasjóðs til framtíðar litið.

Virðulegur forseti. Ég sé eins og ég segi ekki ástæðu til að hafa um þetta mörg orð, ég á kost á því að skoða þetta mál í þingnefnd. Ég sé ýmsa kosti við það að taka til í þessu stimpilgjaldakerfi en ég er svona frekar íhaldssamur á köflum og sé enga ástæðu til að vera að breyta nafninu. Mér finnst það líka svona skemmtilegra að fjalla um frumvarp frá hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra, formanni Sjálfstæðisflokksins, sem framlengir og setur í nýjan lagabúning ákvæði um stimpilgjöld.



[19:15]
Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég vildi fá að segja nokkur orð til viðbótar því sem fram kom í andsvörum okkar hæstv. fjármálaráðherra áðan um þetta mál. Ég vil segja fyrst á jákvæðu nótunum að auðvitað geta verið ákveðin tækifæri til að einfalda gjöld og skatta og það virðist sannarlega vera viðleitni til þess hér og sjálfsagt að endurskoða það fyrirkomulag sem verið hefur. Þó verð ég að játa að tillaga hv. þm. Péturs H. Blöndals um að skipta um nafn kemur hér eins og skrattinn úr sauðarleggnum. Það eru nú litlar efndir á loforði Sjálfstæðisflokksins um afnám stimpilgjalda á íbúðarhúsnæði ef þeir ætla bara að leggja niður nafnið en leggja á nýtt gjald í staðinn sem skili tekjunum.

Ég orðaði það aðeins áðan að mér þætti kannski umfjöllun hæstv. fjármálaráðherra um andlag skattsins benda til þess að frumvarpið hafi ekki verið nægilega vel undirbúið. Nú get ég út af fyrir sig sagt að það hafi verið málefnalegt af hálfu hæstv. fjármálaráðherra að vekja athygli á því að aðrir kostir gætu verið í boði sem gætu verið jafn gildir og það sem lagt væri til í frumvarpinu. Ég ætla ekki að elta ólar við það sérstaklega, en hitt verð ég að segja að sá þáttur málsins sem snýr að Íbúðalánasjóði sýnir ekki undirbúning að lagafrumvarpi um mikilvægan þátt á fjármálamarkaði með þeim hætti sem maður hlýtur að gera kröfu um til hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra. Einkum og sér í lagi eftir þær miklu hrakfarir sem við höfum farið í gegnum á fjármálamarkaði.

Ég verð að segja að ég ætlast til að þegar flutt er lagafrumvarp sem getur haft veruleg áhrif á hegðun lántakenda hjá Íbúðalánasjóði sem er í sérstakri gjörgæslu, gjaldþrota eftir lélegar ákvarðanir hér í þinginu, til meðferðar á daglöngum opnum fundum í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd vegna þess hversu illa hefur verið staðið að margvíslegum ákvörðunum sem snúa að sjóðnum, sé til þess vandað og hæstv. fjármálaráðherra komi ekki í þingið og segi okkur að ekki hafi verið sérstaklega metið hvaða áhrif það muni hafa á lánasafn Íbúðalánasjóðs að fallið verði frá stimpilgjöldum á lánsskjöl.

Þó má öllum vera ljóst að það er einkum tvennt sem gerir að verkum að þeir sem ekki eru undir sérstöku uppgreiðsluálagi í Íbúðalánasjóði hafa ekki leitað endurfjármögnunar. Það er annars vegar þessi þröskuldur og hins vegar hinn frægi nóvemberþröskuldur, þ.e. vonin um að vænta sé einhverra leiðréttinga á lánunum áður en menn ráðast í að flytja þau eitthvert annað þar sem hagstæðari lánskjör eru í boði. Það er algjörlega ljóst að það eru miklu hagstæðari lánskjör í boði alls staðar á fjármálamarkaði en í Íbúðalánasjóði. Allir viðskiptavinir Íbúðalánasjóðs, nema þeir sem eru með hið sérstaka uppgreiðsluálag, eiga betri kosta völ í bönkunum, bara á morgun.

Það eru ákveðnir þröskuldar sem koma í veg fyrir að fólk flytji sig. Það er lántökugjaldið, það var stimpilgjaldið og síðan vonin um að þessi lán verði leiðrétt eitthvað á næstu vikum. Það getur vel verið að niðurstaðan úr mati á áhrifunum yrði sú að það væru einvörðungu svo og svo mörg þúsund lántakendur og aðeins svo og svo mikill hluti af lánasafni Íbúðalánasjóðs sem gæti skipt um lánveitanda í kjölfar þessara breytinga, en maður ætlast til þess að matið á þeim áhrifum fari fram. Það er einfaldlega sá umbúnaður sem við þurfum að hafa um ákvarðanir á fjármálamarkaði.

Hitt verð ég síðan að segja aftur að eftir því sem ég öðlast betri innsýn í þennan málatilbúnað sé ég í honum mótsögn. Það var auðvitað stórt loforð á sínum tíma að Sjálfstæðisflokkurinn lofaði að afnema stimpilgjöld á viðskipti með íbúðarhúsnæði og kannski getur tekið tíma að uppfylla það en að það sé uppfyllt með því að stimpilgjöld á viðskipti með íbúðarhúsnæði séu hækkuð um 900 millj. kr. eða nærfellt heilan milljarð í einu af fyrstu málum formanns Sjálfstæðisflokksins í þinginu — ja, það er nú ekki bara að efna ekki kosningaloforðið heldur beinlínis að hækka þær álögur sem flokkurinn hefur lofað að lækka á landsmenn eða afnema með öllu. Það var raunar nýlega hér á þingi, trúlega á vorþinginu, sem þingflokkur Sjálfstæðisflokksins lagði gríðarlega áherslu á að samþykkt yrði strax að fella þessi gjöld niður á íbúðarhúsnæði.

Ég ítreka það sem ég sagði í fyrri ræðu minni að ég hef fullan skilning á þeirri þröngu stöðu sem hæstv. fjármálaráðherra er að vinna úr og að hann verði að gera breytingar á stimpilgjöldum þannig að það tapist ekki tekjur fyrir ríkissjóð. Ég hefði þá vænst þess að gjöldunum væri hallað þannig að það yki ekki skattheimtu af viðskiptum fólks með íbúðarhúsnæði. Því átti ég satt að segja aldrei von á, en ég held að ég skilji það rétt. Ef svo er bið ég hv. efnahags- og viðskiptanefnd sérstaklega að skoða það mál, ég fæ kannski sem varamaður í þeirri ágætu nefnd að koma eitthvað að umfjölluninni. Ef það er svo að frumvarpið leiði til þyngri byrða fyrir kaupendur að fyrstu íbúð en er nú að gildandi lögum held ég að þingmenn í efnahags- og viðskiptanefnd þurfi að skoða þann þátt sérstaklega.

Það kom fram hjá hæstv. fjármálaráðherra að stimpilgjöld af lánasamningum vegna fyrstu íbúðakaupa hafi verið undanþegin og það bendir til þess — og nú vil ég ekki fullyrða neitt fyrr en ég hef reiknað þetta nákvæmlega út og skoðað um þetta dæmi — að eftir þessa breytingu sé umtalsvert hærra stimpilgjald á þá sem eru að kaupa sína fyrstu íbúð en er að gildandi lögum. Þá spyr maður sig bara út í hvaða móa Sjálfstæðisflokkurinn sé eiginlega kominn með efndir á kosningaloforðum sínum, ef það er ekki bara verið að auka gjaldtöku um 900 millj. kr. á viðskiptum með íbúðarhúsnæði sem þeir lofuðu að afnema heldur að auka sérstaklega álögurnar á þá sem kaupa sína fyrstu eign.

Þá er orðið slíkt bil á milli orða og efnda að ég held að þingmenn í efnahags- og viðskiptanefnd þurfi sérstaklega að kanna hvort ekki megi gera lagfæringar á þessu frumvarpi og nýta þó um leið það jákvæða sem í því kann að vera og einkum það sem lítur að einföldun á þessari skattheimtu.



[19:23]
Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Það er áliðið dags og ég sé að farið er að draga af hæstv. fjármálaráðherra. Efalítið á hann eftir að hlaupa 18 km skokkhringinn sinn þannig að ég ætla ekki að tefja hann um of. Mig langar hins vegar að leggja mitt af mörkum til þess að skýra fyrir honum hans eigin orð eins og hefur stundum verið hlutskipti mitt hér á þessum degi.

Hæstv. ráðherra var spurður einfaldrar spurningar í dag af hv. þm. Helga Hjörvar. Hv. þm. Helgi Hjörvar spurði hann: Var það ekki kosningaloforð Sjálfstæðisflokksins að afnema stimpilgjöld? Því svaraði hæstv. fjármálaráðherra aldrei. Þess vegna ætla ég að rifja upp fyrir honum hans eigin kosningastefnu en í stefnu Sjálfstæðisflokksins kemur algjörlega skýrt fram að hann vilji afnema stimpilgjöld. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Stimpilgjöld afnumin – með því er staða lántaka styrkt og samkeppni á lánamarkaði aukin.“

Það er með öðrum orðum gersamlega í gadda slegið hvað Sjálfstæðisflokkurinn vill.

En hvar er nú djörfung og dugur hv. þingmanna Framsóknarflokksins? Þeir sitja hér þrír í salnum og hlusta á hæstv. ráðherra en það er eins og þeir heyri ekki orð hans. Tóku hv. þingmenn virkilega ekki eftir því þegar hæstv. ráðherra sagði hér seinni part umræðunnar að út af fyrir sig væri ljóst hver hefði verið stefna Sjálfstæðisflokksins en síðan sagði hann að við myndun ríkisstjórnarinnar hefðu orðið til aðrar áherslur. (Gripið fram í.) Hvað liggur í þessu? Það getur ekki verið annað en að hæstv. fjármálaráðherra sé að segja það alveg eins og hann sagði varðandi lækkun virðisaukaskatts á barnafötum fyrr í dag, að þá hafi líka komið aðrar áherslur — það er erfitt að draga aðra ályktun af þessu en þá eina að það hafi verið Framsóknarflokkurinn sem kom í veg fyrir þetta. Það er það sem liggur í orðum hæstv. fjármálaráðherra. Þegar ég spurði hann um barnafötin í dag þá sagði hann meira að segja að það væri af og frá en kom með efnislega sömu setningu og þessa: Við myndun ríkisstjórnarinnar varð samstaða um tiltekna niðurstöðu. Hvað ber að lesa úr því?

Þá hefur það gerst á þessum degi að hæstv. fjármálaráðherra hefur á einum eftirmiðdegi tekist að svíkja þrjú kosningaloforð, þ.e. í fyrsta lagi yfirlýsingu sína úr þessum ræðustól 6. júní um að til skoðunar væri að leggja fram í sumar frumvarp til að lækka virðisaukaskatt á barnafötum. Í öðru lagi sagði hann á sama degi í júní að hann hygðist líka beita sér fyrir því að lækka olíugjald. Og hvað er hann að gera hér í dag? Hann er að hækka það. Síðan er það þetta: Hann leggur fram frumvarp sem felur í sér að miðað við stefnu Sjálfstæðisflokksins þá eru þau hjón sem eru tekin sem sérstakt dæmi í greinargerð með frumvarpinu svikin um nákvæmlega 200 þús. kr. Stefna Sjálfstæðisflokksins var skýr: Afnema stimpilgjöld. En það kemur í ljós, af þessu dæmi sem er notað, að þá vantar 200 þús. kr. upp á það.

Hitt liggur svo ósvarað í þessari umræðu, sem hv. þm. Helgi Hjörvar benti á hér áðan, að samkvæmt þessu frumvarpi verður þetta þyngra og erfiðara fyrir ungt fólk sem er að kaupa íbúð í fyrsta skipti, álögurnar á það hækka. Þannig skildi ég líka þetta frumvarp alveg eins og hv. þm. Helgi Hjörvar og hæstv. fjármálaráðherra hefur ekki borið það til baka.

Herra forseti. Þetta er nú skrýtið ferðalag. Slá sér upp á því í kosningum að það eigi að hjálpa fólki, koma síðan með afurð sem gerir því erfiðara fyrir, að minnsta kosti því fólki sem við töldum að við vildum helst hjálpa, og eftir liggur að það er allt saman Framsóknarflokknum að kenna. Ekki er hægt að skilja orð hæstv. fjármálaráðherra öðruvísi.



[19:28]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu. Hún hefur verið ágæt og vonandi upplýsandi um megináherslubreytingarnar sem felast í þessu nýja frumvarpi, heildarendurskoðun á lögum um stimpilgjöld.

Hv. þm. Össur Skarphéðinsson kom hér og gerði mér þann greiða að rifja upp áherslur okkar í kosningabardaganum frá því í vor þar sem við töluðum um að bæta stöðu lántakenda og auka samkeppni á lánamarkaði fyrir fasteignakaupendur, en það markmið næst einmitt með þessari breytingu, með því að stimpilgjöldin eru alfarið felld niður af lánsskjölunum. Það var aðalatriðið. En um sumt eru áhrifin af frumvarpinu ekki jákvæð. Ég taldi mig nú hafa farið yfir það nokkuð ítarlega í framsöguræðu minni að í sumum tilvikum leiðir breytingin til þess að fólk greiðir hærra gjald í tengslum við fasteignaviðskipti. En það mikilvæga atriði sem snýr að möguleikanum til þess að endurfjármagna lán og það markmið að auka samkeppni á lánamarkaðnum næst fram með þessari breytingu.

Mér fannst eiginlega bara gaman að því að hv. þingmanni skyldi takast öðru eða í þriðja sinn að snúa orðum mínum upp í það að það væri allt Framsókn að kenna að ekki væri gengið lengra að þessu sinni. Nei, það er nú ekki svo heldur felur þetta mál, ásamt öðrum frumvörpum sem ég hef verið að mæla fyrir í dag, í sér ákveðna forgangsröðun og ég ætla að taka ábyrgð á henni alveg óstuddur. Menn þurfa ekkert að velta fyrir sér hvort það hafi verið einhver átök á milli flokkanna um þessa forgangsröðun vegna þess að þau voru einfaldlega ekki í aðdraganda þess að frumvarpið var lagt fram og hafa ekkert verið. Það hefur verið góð samstaða um að forgangsraða í þágu þeirra sem sækja framfærslu sína að einhverju leyti til bótakerfisins. Það birtist í stórauknum útgjöldum almannatrygginga á næsta ári borið saman við þetta fjárlagaár.

Það var líka samstaða um að lækka tekjuskattinn til þeirra sem greiða tekjuskatt í milliþrepinu. Það eru um 80% þeirra sem hafa launatekjur sem greiða þann skatt og njóta góðs af því. Við vorum jafnframt sammála um að hefja lækkun tryggingagjaldsins. Það er sannarlega ekki mjög stórt skref en ég tel að það sé mikilvægt innlegg í það að hefja hér raunhæfar kjarabætur fyrir launþegana í landinu á þessum vetri og á árunum fram undan. Lægra tryggingagjald skapar svigrúm bæði til fjárfestinga og launahækkana. Um önnur atriði hefur bara verið góð samstaða milli flokkanna þannig að það er engin ástæða til þess að fara út í þá sálma að einhver ágreiningur sé á milli flokkanna sem leiði til þess að málið kemur svona fram. Eins og ég rakti í framsöguræðu minni og sjá má ágætlega á málinu sjálfu þá er það afurð frá nefnd sem skipuð hafði verið áður en kosið var í vor. Reyndar var henni komið á laggirnar nokkrum dögum áður en kosið var í vor. Í öllum meginatriðum er verið að fylgja ráðgjöf nefndarinnar og ég tel að mjög fróðlegar og gagnlegar upplýsingar sé að finna í skýrslu nefndarinnar sem ég hvet menn sem eru áhugasamir um þetta efni til að kynna sér, til dæmis hvernig gjaldtökunni er háttað annars staðar og hverju gjaldið hefur skilað á einstaka gjaldstofna og þar fram eftir götunum.

Gjaldið hækkar miklu meira á lögaðila en á einstaklinga í tilfelli kaupsamninga og afsala eins og sjá má á töflu í frumvarpinu. Svo er létt af stimpilgjaldi sem nemur um 2,5 milljörðum vegna skuldabréfa og stór hluti þess er vegna viðskipta einstaklinga. Í heildina munu breytingarnar þannig koma sér betur fyrir einstaklinga og fjölskyldur en lögaðilana.

En það er eins og alltaf þegar gerðar eru kerfisbreytingar eins og sú sem hér er gerð að það eru kostir og gallar við útfærsluna. Og þar sem við höfðum einsett okkur að frumvarpið ætti að verða nokkuð hlutlaust hvað varðar tekjuöflun fyrir ríkissjóð þá eru ekki allar breytingar í frumvarpinu þess eðlis að þær létti af þessu gjaldi heldur þvert á móti hækkar það í ákveðnum tilvikum. Það eru þó mikilvægustu tilvikin sem ég hef hér rakið sem verka í rétta átt. Ég þakka fyrir málefnalega umræðu.



[19:34]
Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir skýr svör. Þá liggur það alla vega fyrir að það var ekki Framsóknarflokkurinn sem kom í veg fyrir að stimpilgjöldum yrðu að öllu aflétt. Það finnst mér vera mikilvægt. Það var hægt að draga þá ályktun af orðum hæstv. ráðherra þegar hann sagði að aðrar áherslur hefðu orðið við myndun ríkisstjórnarinnar, það hefði verið fyrirstaða hjá samstarfsflokknum. Mér finnst gott að heyra að svo var ekki.

Frú forseti. Það breytir ekki hinu að mér finnst það heldur aumt af hv. þingmönnum Framsóknarflokksins að berjast ekki fyrir því að afnema stimpilgjöldin að öllu. Þeir háðu kosningabaráttu sína að verulegu leyti fyrir fólk sem var í þrengingum vegna húsnæðiskaupa og yfirlýsingar þeirra voru algerlega skýrar. Hæstv. forsætisráðherra sagði hér á sumarþingi, með leyfi forseta:

„Einnig er miðað að því að afnema stimpilgjöld vegna húsnæðiskaupa einstaklinga til eigin nota og fella niður eða aðstoða við fjármögnun kostnaðar vegna gjaldþrotaskipta.“

Bara helmingurinn af þessu liggur eftir og það er útfært með þannig hætti að þeir, sem ég tel að allir hefðu viljað sjá hjálpað, unga fólkið sem er að hefja sína lífsgöngu saman, kemur verr út. Ég verð að segja, frú forseti, að ég er undrandi á því að þetta skuli vera niðurstaðan. Án þess að ég vilji halda því fram að þetta sé einhver handarbaksvinna af hálfu hinna ágætu starfsmanna fjármálaráðuneytisins eða hæstv. fjármálaráðherra þá verð ég samt að segja að umræðan um þetta tiltekna frumvarp bendir til þess að það hafi ekki verið hugsað til þrautar og þá kannski sérstaklega vegna þess að ég dreg það í efa að þetta hafi verið tilgangur hæstv. fjármálaráðherra sem er þó niðurstaðan.



[19:36]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil bregðast við þessum athugasemdum hv. þingmanns. Reyndar kem ég inn á það sem aðrir hafa nefnt hér. Í frumvarpinu eru rakin dæmi, á bls. 10 eins og frumvarpið hér í þinginu er prentað má sjá dæmi sem draga það skýrt fram að í tilfelli þeirra sem eru að kaupa fasteign í fyrsta skipti og viðkomandi tekur lán sem þinglýsa þarf vegna þeirra viðskipta þá lækkar viðskiptakostnaðurinn sem tengist stimpilgjaldinu verulega. Hér er tekið dæmi um fjölskyldu sem fjárfestir í eigin húsnæði, hún fjármagnar kaupin með eigin fé og 65% lántöku af kaupverði. Sé kaupverð eignarinnar 35 milljónir og lánsfjárhæðin 23 milljónir greiðir viðkomandi fjölskylda 140 þús. kr. í stimpilgjald af kaupsamningi og 345 þúsund í stimpilgjald af skuldabréfinu, samtals 485 þúsund miðað við gildandi reglur — 485 þúsund. Verði frumvarpið að lögum mun umrædd fjölskylda greiða 280 þús. kr. í stimpilgjald og viðskiptakostnaður hennar mun því lækka um 205 þúsund eða um 0,6% af kaupverði fasteignarinnar. Hefði viðkomandi fjölskylda ekki þurft að fjármagna kaupin með lánum hækkar viðskiptakostnaður hennar um 140 þús. kr. við breytinguna. Þetta er dæmi um það hvernig þetta lækkar en hins vegar, eins og komið hefur fram í umræðunni, hafa kaupendur að fyrstu íbúð verið undanþegnir stimpilgjaldi af lánsskjölunum. Í því tilfelli greiða þeir hærra gjald vegna afsalsins. Á móti kemur að til framtíðar eiga þeir íbúðarkaupendur möguleika á endurfjármögnun án stimpilgjalda.



[19:38]
Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ef ég væri ekki í pontu Alþingis mundi ég segja: Fjandinn hafi það, ekki var þetta það sem menn stefndu að í upphafi. Ég bara trúi því ekki að hæstv. fjármálaráðherra og þeir ágætu þingmenn Framsóknarflokksins sem hér sitja undir þessari umræðu hafi lagt upp í ferðalagið til þess að gera ungu fólki erfiðara fyrir. Þetta hljóta að vera mistök eins og önnur mistök sem hæstv. fjármálaráðherra hefur bent á sjálfur að kunni að hafa orðið við gerð þessa frumvarps. Þetta er eitthvað sem menn hljóta að skoða vel.

Það dæmi sem hæstv. fjármálaráðherra las hér algjörlega rétt upp, ég hafði farið með það í ræðu minni áður, breytir engu. Þó að þetta ágæta fólk sem er andlag þessa dæmis komi vegna frumvarpsins betur út sem nemur 200 þús. kr. þá liggur hitt fyrir að því var sagt af hæstv. fjármálaráðherra að ef hann kæmist til valda hefði hann stefnu sem mundi gera þeirra hlut 280 þús. kr. betri. Það er málið. Þetta er kosningaloforð. Það eru engar sérstakar skýringar á því af hverju það er brotið frekar heldur en hinu að á þessum degi liggur það eftir hæstv. fjármálaráðherra að honum hefur tekist á fimm klukkustundum á einum eftirmiðdegi að brjóta þrjú kosningaloforð Sjálfstæðisflokksins. Geri aðrir betur.



[19:40]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Mér fannst hv. þingmaður gera bara nokkuð vel þegar hann las upp úr kosningastefnu okkar sjálfstæðismanna fyrir síðustu kosningar og gerði grein fyrir því að markmiðið væri að lækka lántökukostnað — ekki satt? — með því að fella niður stimpilgjöld og auka samkeppni í fjármálaþjónustunni með breytingum á stimpilgjaldinu. Hvort tveggja er að takast með þessu frumvarpi. Eftir situr hins vegar að hv. þingmaður og einhverjir samstarfsmanna hans hafa áhyggjur af því að með því að lækka gjöldin af lánsskjölunum kunni fólki að verða gert of auðvelt að yfirgefa Íbúðalánasjóð og komast í betri kjör annars staðar. Það er vissulega göfugt markmið að festa menn í verri kjörum til þess að bregðast við þeirri stöðu sem Íbúðalánasjóður hefur komist í á grundvelli lagabreytinga sem ekki voru nægilega vel hugsaðar fyrir nokkrum árum síðan.

Er það virkilega það sem stendur upp úr eftir þennan málflutning að þingmenn Samfylkingarinnar hafi mestan áhuga á því að viðhalda stimpilgjaldinu á lánsskjölunum, kannski jafnvel að hækka það svo að við getum haldið þessu fólki alveg kirfilega föstu í viðskiptum hjá Íbúðalánasjóði vegna þess að menn hafa áhyggjur (Gripið fram í.) af framtíðarstöðu hans? Er það virkilega sýnin sem menn hafa á þetta mál? Er það virkilega það sem menn sjá fyrir sér að þeir geti best gert fyrir þá sem eiga hagsmuni af því að þessi breyting nái fram að ganga? Ég trúi því nú ekki. Ég held að annað hljóti að koma í ljós við vinnslu málsins í nefnd og í umræðum í þinginu.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til efh.- og viðskn.