143. löggjafarþing — 7. fundur
 10. október 2013.
bráðaaðgerðir til að efla leigumarkað á Íslandi, fyrri umræða.
þáltill. ÁPÁ o.fl., 5. mál. — Þskj. 5.

[11:18]
Flm. (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir tillögu til þingsályktunar um bráðaaðgerðir til að efla leigumarkað á Íslandi, sem með mér flytja aðrir þingmenn Samfylkingarinnar.

Þessi tillaga er efnislega samhljóða tillögu sem flutt var hér á hauststubbnum í septembermánuði og var þá send út til umsagnar á vegum velferðarnefndar. Hún er nú endurflutt óbreytt en í greinargerð höfum við tekið tillit til nokkurra athugasemda og ég ætla í framsöguræðu minni að beina sjónum einkanlega að þeim þáttum.

Í tillögunni er gert ráð fyrir sex aðgerðum þar sem Alþingi feli ríkisstjórninni að grípa til aðgerða til að auka eins hratt og kostur er framboð leiguhúsnæðis til að bregðast við því alvarlega ástandi sem upp er komið á húsnæðismarkaði.

Í fyrsta lagi verði fjármála- og efnahagsráðherra og velferðarráðherra falið að leggja fyrir Alþingi strax nú á haustþingi frumvarp til laga um nýjar húsnæðisbætur sem taki mið af fjölskyldustærð og tekjum og tryggi sambærilegan stuðning við leigjendur og eigendur.

Það er ljóst af umsögnum umsagnaraðila að þetta mál er gríðarlega mikilvægt og þolir ekki bið. Það er nauðsynleg forsenda frekari uppbyggingar leigumarkaðar að almennar húsnæðisbætur verði til og aðstöðumunurinn milli leigjenda og eigenda verði jafnaður. Það kemur fram í umsögnum fjöldamargra umsagnaraðila að þetta atriði er algjört lykilatriði til að hægt sé að stíga ný skref á leigumarkaði. Það er athyglisvert að það er sama hvort það eru aðilar vinnumarkaðarins sem fjalla um málið eða lífeyrissjóðirnir eða sveitarfélögin, alltaf horfa menn til þess að þetta hljóti að vera lykilatriði. Ég held að við komumst ekkert undan því að stíga þetta skref til fulls ef okkur er einhver alvara með að breyta aðstæðum á leigumarkaði og auka framboð á leiguhúsnæði til langframa.

Í annan stað er í tillögunni gert ráð fyrir að ríkið gangist fyrir samkomulagi við sveitarfélögin og aðila vinnumarkaðarins um veitingu stofnstyrkja til leigufélaga sem skuldbindi sig til langtímareksturs á leiguhúsnæði. Þessir stofnstyrkir gætu numið allt að 20% af byggingarkostnaði nýrra leiguíbúða. Ríki og sveitarfélög geti veitt fyrirgreiðslu í formi lóða á kostnaðarverði eða annarrar eftirgjafar opinberra gjalda, sem hluta af stofnstyrk. Styrkveiting yrði háð því að leigufélag lyti ýmiss konar skilmálum, svo sem um langtímaútleigu, takmarkanir á arðgreiðslum, bann við sölu einstakra íbúða sem styrkveiting taki til og að fyrst um sinn fari tiltekið hlutfall íbúða til fólks með tekjur undir tilteknum tekju- og eignamörkum.

Um þennan þátt tillögunnar er að segja að umsagnaraðilar voru jákvæðir gagnvart þessum þætti en höfðu uppi ýmsar athugasemdir. Það er sérstaklega vert að geta þess að af hálfu lífeyrissjóðanna voru nokkrar efasemdir vegna þess að þarna er vikið að takmörkunum á arðgreiðslum. Ég tel að í umsögninni gæti ákveðins misskilnings af hálfu Landssamtaka lífeyrissjóða því að í takmörkunum á arðgreiðslum felst ekki bann við arðgreiðslum heldur að þær lúti ákveðnum hámörkum — ekki sé hægt að tæma félögin, ekki sé hægt að borga óeðlilegan arð út. En það er alveg ljóst að ef lífeyrissjóðir eiga að geta rekið leigufélög til langframa verða þeir að geta greitt sér eðlilegan arð út úr félögunum og þar af leiðandi verða þeir að geta rekið leigufélag í arðsemisskyni.

Ég held hins vegar að eðli lífeyrissjóðanna og samfélagslegt hlutverk þeirra valdi því að það eigi að vera auðvelt að ná samkomulagi um einhvers konar umgjörð um slíkar arðgreiðslur í leigufélögum sem lífeyrissjóðir mundu reka. Ég held þess vegna að hægt sé að ná þarna saman um umgjörð. Hitt er líka alveg ljóst af umsögn Landssamtaka lífeyrissjóða að þeir telja mjög mikilvægt að af hinu almenna kerfi nýrra húsnæðisbóta verði til þess að það verði raunverulegur möguleiki fyrir lífeyrissjóðina að fara inn á þennan markað og bjóða upp á leiguhúsnæði til langtíma.

Í þriðja lagi er gert ráð fyrir því í tillögunni að fjármála- og efnahagsráðherra bjóði ónýttar lóðir ríkisins fram til byggingar leiguíbúða til leigufélaga.

Við sjáum núna frumkvæði af hálfu Reykjavíkurborgar í þessa veru þar sem horft er mjög til skipulagsmála og spurt hvar séu ónýttar, lítt nýttar lóðir sem hægt væri að nýta til uppbyggingar leiguhúsnæðis. Það er í sjálfu sér hægt að fá ákveðna fyrirmynd þar. Meðal þeirra lóða sem bent hefur verið á af hálfu borgaryfirvalda að gæti verið hægt að nýta betur er lóð Ríkisútvarpsins sem ríkið á, en er allt of, allt of stór miðað við þá starfsemi sem þar er og mjög auðvelt að finna möguleika þar fyrir frekari uppbyggingu leiguhúsnæðis. Það er því með þessum hætti sem við erum að horfa til þess að fjármála- og efnahagsráðherra skoði einfaldlega eignasafn ríkisins og endurmeti fullkomlega frá grunni hvar eru lóðir sem við getum mögulega séð af. Getum við minnkað einhverjar lóðir sem ríkið á og afhent borginni aftur til endurúthlutunar eða öðrum sveitarfélögum til þess að greiða fyrir uppbyggingu á leiguhúsnæði?

Í fjórða lagi er gert ráð fyrir að félags- og húsnæðismálaráðherra setji Íbúðalánasjóði skilyrði um að sjóðnum verði gert að koma íbúðum í útleigu, eða selja þær til leigufélaga, svo fljótt sem verða má eftir að sjóðurinn eignast þær.

Nú mun það vera svo og hefur komið í ljós í umfjöllunum um tillöguna að á sjötta hundrað íbúða, ef ég man rétt, hafi þegar verið felldar inn í nýtt leigufélag Íbúðalánasjóðs. Engu að síður er það þannig að víða um land heyrir maður athugasemdir í þessa veru og áhyggjur af því að of mikið sé um húsnæði í eigu Íbúðalánasjóðs sem gangi mjög hægt og illa að fá til útleigu. Þetta skiptir máli sérstaklega víða um land þar sem eina húsnæðið sem er mögulega til útleigu er í eigu Íbúðalánasjóðs í dag. Ég tel þess vegna að full ástæða sé til að hafa vakandi auga með þeim þætti.

Í fimmta lagi er gert ráð fyrir að umhverfis- og auðlindaráðherra verði falið að gangast fyrir endurmati á byggingarreglugerð til að greiða fyrir byggingu minni íbúða til útleigu.

Komið hefur fram í umræðu um tillöguna á haustþingi að umhverfis- og auðlindaráðherra hefur þegar hafist handa við þetta verkefni og það er fagnaðarefni. Það þarf auðvitað að horfa á hina nýju byggingarreglugerð gagnrýnum augum, skoða hvort þar sé of langt gengið í því að gera kröfur um rými. Það er ýmislegt sem bendir til þess að eftir síðustu breytingar á byggingarreglugerð sé orðið illmögulegt að byggja litlar íbúðir sem er mikilvægt að sé val um að byggja. Ég fagna því að umhverfis- og auðlindaráðherra skuli þegar hafa hafist handa um þetta verkefni.

Í sjötta lagi gerum við ráð fyrir að fjármála- og efnahagsráðherra leggi fyrir Alþingi lagafrumvarp sem undanþiggi tekjur vegna útleigu einnar íbúðar fjármagnstekjuskatti. Einnig verði tryggt að slíkar tekjur skerði ekki bætur almannatrygginga. Skilyrði verði að leigan sé til almennrar húsaleigu til a.m.k. tólf mánaða.

Nokkir umsagnaraðilar gerðu þessa hugmynd að umtalsefni og vildu jafnvel að skilyrt yrði að leigan yrði til lengri tíma en tólf mánaða. Það er að mínu viti þess vegna mjög mikilvægt að hafa í huga hvaða markmiði við erum að reyna að ná með þessari breytingu. Við viljum gera það auðveldara fyrir fólk sem á eina íbúð að leigja hana út frá sér til almennrar íbúðar, ekki til ferðamanna. Við vitum auðvitað að það er mikil hagnaðarvon sem felst í því að leigja til ferðamanna á besta stað á höfuðborgarsvæðinu. Við vitum líka að framboð á íbúðum til almennrar útleigu hefur minnkað mikið. Þetta er til dæmis orðið mikið vandamál meðal stúdenta sem eru núna oft að leigja til átta til níu mánaða og eru svo á götunni á sumrin þegar íbúðirnar eru ekki lengur til reiðu til almennrar útleigu.

Við erum ekki að gera ráð fyrir því með þessari breytingu eða þessari hugmynd að það verði einstaklingar sem bjóði upp á íbúðir sem verði leigðar til margra ára í senn. Auðvitað munu sérhæfð leigufélög þurfa að koma inn á markaðinn og bjóða langtímaleigu. En við viljum gera það arðsamara fyrir fólk sem á eina íbúð að leigja hana út frá sér til almennrar búsetu, að það velji þann kost frekar en að leigja til ferðamanna. Og það er sérstaklega tekið þarna til að tekjur af útleigu einnar íbúðar ættu ekki að skerða bætur almannatrygginga. Það er hugsað gagnvart eldri borgurum sem búa kannski þannig að þeir geta búið til eða eiga í húsnæðinu litla íbúð sem þeir gætu leigt út frá sér.

Þetta er fyrst og fremst hugsað til þess að vinna gegn þeirri þróun sem hefur verið á undanförnum árum í að íbúðum til almennrar útleigu er að fækka og fleiri og fleiri eru að fara inn á þennan markað fyrir ferðamenn. Ég hef ekkert á móti því að við gerum vel við ferðamenn en við verðum líka að tryggja ákveðið magn íbúða og það skiptir máli að gera það strax og sem fyrst meira aðlaðandi að leigja til almennrar búsetu. Þessi tillaga hér er hugsuð til að minnka aðeins bilið sem er á milli arðsins af því að leigja til ferðamanna í dag og því sem felst í því að leigja til almennrar búsetu þannig að fólk beri aðeins meira úr býtum ef það kýs að leigja íbúðina sína til almennrar búsetu.

Virðulegi forseti. Ég vil í ljósi aðstæðna allra leggja til að málinu verði vísað til hv. velferðarnefndar og ég vil líka í ljósi þeirrar samstöðu sem hefur verið um meginmarkmið þessarar tillögu óska eftir því að við náum saman þvert á flokka um afgreiðslu hennar í einu formi eða öðru á næstu vikum. Í umræðum um tillöguna í september var henni almennt tekið með jákvæðum hætti og það var líka ljóst að af hálfu þingmanna stjórnarmeirihlutans var henni vel tekið og hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra tók vel í tillöguna.

Ég vil þess vegna leggja til að við ásetjum okkur að reyna að nýta þá stöðu sem uppi er, við höfum fengið góðar umsagnir umsagnaraðila, þær liggja fyrir þannig að ekki þarf að senda tillöguna svo breytta til umsagna. Það ætti að vera hægt að vinna í henni frekar hratt í velferðarnefnd og nýta lagið núna því að við erum stödd í upphafi þings og ekki mörg mál sem liggja fyrir í nefndinni þannig að tillaga mín væri sú að við mundum reyna að ná saman um niðurstöðuna. Við þingmenn Samfylkingarinnar erum fullkomlega tilbúnir til að ræða síðan við stjórnarmeirihlutann um breytingar á málinu ef menn vilja gera einhverjar breytingar til að ná betri samstöðu um það, en ég held að það væri góður bragur á því, líka í ljósi ítrekaðra yfirlýsinga meiri hlutans um breytt vinnubrögð og að menn vilji vinna saman þvert á flokka, að reyna að vinna þetta þjóðþrifamál áfram í góðri samstöðu nú í upphafi þings.



[11:31]
félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Árna Páli Árnasyni og þingflokki Samfylkingarinnar fyrir þessa tillögu. Ég lít svo á að tillagan sé raunar framlag þingflokksins í þá vinnu sem er í gangi núna um mótun framtíðarskipanar húsnæðismála á Íslandi.

Eins og hv. þingmaður fór í gegnum í ræðu sinni eru ákveðnir þættir þarna undir sem þegar er búið að setja af stað vinnu í. Hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra hefur þegar sett af stað vinnu varðandi endurskoðun á byggingarreglugerð. Ég hef hvatt hann til þess að aukinn sveigjanleiki verði í byggingarreglugerð þannig að hægt sé að tryggja fólki með mismunandi tekjur og sem býr við mismunandi aðstæður í lífi sínu val og öryggi í húsnæðismálum.

Það sama hef ég síðan sjálf gert varðandi þann þátt sem snýr að Íbúðalánasjóði. Nánast frá því að ég tók sæti sem ráðherra og gekk inn í velferðarráðuneytið hef ég verið að þrýsta á Íbúðalánasjóð að koma þeim eignum sem sjóðurinn á annaðhvort í leigu eða í sölu. Sjóðurinn hefur lagt sig fram um að gera það og meðal annars hefur verið tekin ákvörðun um að setja ákveðið fjármagn í að lagfæra þær íbúðir sem voru komnar í gegnum fullnustu en eru í þess háttar ástandi að hvorki er hægt að leigja þær né selja. Það er verkefnið núna hjá sjóðnum að tryggja að hægt sé að koma íbúðum í leigu eins fljótt og hægt er.

Á móti kemur náttúrlega alltaf sú krafa, ekki bara héðan frá Alþingi heldur líka frá alþjóðlegum stofnunum á grundvelli samninga við ESA um að við séum ekki með útleigu hjá Íbúðalánasjóði að skaða markaðsaðstæður á einstökum svæðum og þar sem Íbúðalánasjóður á mjög stóran hluta af því húsnæði sem er til staðar á ákveðnum svæðum vegna erfiðra aðstæðna þar.

Þetta er eitthvað sem ég hef lagt mjög mikla áherslu á og hef komið mjög skýrt á framfæri. Það er raunar ánægjulegt að geta líka vísað til þess að hér eru fleiri sem styðja við það verkefni að tryggja að svo verði.

Síðan veit ég og hef tekið það upp við hæstv. fjármálaráðherra að áhugi er á því að skoða skattlagningu á leigutekjum. Ég vil hins vegar nefna að í tengslum við breytingar á almannatryggingakerfinu hefur áherslan verið, og var við heildarendurskoðunina, að reyna að einfalda kerfið. Hér er hins vegar verið að leggja til ákveðna breytingu þar sem menn mundu raunar stíga skrefið í hina áttina og fara að undanskilja skilgreindar tekjur frá skatti og ætti í raun ekki að skerða þær greiðslur sem ellilífeyrisþegar væru að fá frá almannatryggingum.

Það hefur verið mjög áhugavert fyrir mig að lesa nýlega skýrslu sem var unnin í Svíþjóð í fyrra um hvað sé hægt að gera til að byggja enn frekar upp leigumarkaðinn þar. Svíar hafa staðið frammi fyrir kannski sambærilegu vandamáli og við, þrátt fyrir að vera með mun hærra hlutfall á leiguíbúðum. Á ákveðnum þéttbýlissvæðum, Stokkhólmi og Gautaborg, er mikill skortur á leiguhúsnæði og mikil eftirspurn og þeir hafa verið að skoða hvernig hægt sé að losa um regluverkið. Þeir hafa sérstaklega velt fyrir sér fyrirkomulaginu í Þýskalandi. Þar væri mjög algengt að menn, alla vega þeir sem byggðu sitt eigið húsnæði væru með eina litla íbúð sem þeir leigðu út til að fjármagna kaupin á eign og síðan væri sérstakur rammi utan um það sem sneri að skattkerfinu.

Ég hef heyrt frá hæstv. fjármálaráðherra að þetta sé eitthvað sem hann sé tilbúinn að skoða. Ég hef svo sem nefnt það líka að hann er almennt tilbúinn að skoða allt sem snýr að lækkun skatta þannig að hann undanskilur þetta ekki.

Síðan verð ég að segja um hugmyndirnar um stofnstyrkina og þær athugasemdir sem komu m.a. frá lífeyrissjóðunum að þetta er kannski grundvallarástæðan fyrir því að ég tel að það sé svo mikilvægt að þessar hugmyndir fari frekar sem framlag, þá í gegnum fulltrúa þingflokks Samfylkingarinnar sem á þar sæti, inn í vinnu samvinnuhóps um framtíðarskipan húsnæðismála frekar en að Alþingi álykti sérstaklega um þetta núna, þó að það gæti verið tímabært síðar. Þarna komum við að því sem er grundvallaratriði varðandi húsnæðiskerfið okkar: Hvernig viljum við hátta fjármögnun á kerfinu? Talað hefur verið um að lífeyrissjóðirnir ættu að koma beint að því að stofna og reka leigufélög. Ég hef fundið í samtölum mínum við lífeyrissjóðina að þó að menn hafi verið að skoða þetta og hafi látið kanna arðsemi og ávöxtun af þess háttar verkefni hafa þeir verið hikandi við að verða rekstraraðilar að einhverju leyti að leigufélögum. Þeir hafa talið að það væri meira í anda stefnu lífeyrissjóðanna að fjármagna slík verkefni.

Þess vegna er svo brýnt að vinnu verði lokið og tillögur komi til Alþingis um það hvernig við viljum hafa heildarrammann um fjármögnun á húsnæði á Íslandi. Við höfum verið mjög upptekin að mínu mati á undanförnum árum og jafnvel áratugum af þeim þætti sem snýr að ríkinu, við köllum það lög um húsnæðismál og eru lög sem varða Íbúðalánasjóð. Á sama tíma höfum við alls ekki hugað jafn mikið að lagaramma fyrir aðra sem lána til kaupa eða byggingar á húsnæði. Ég tel að við þurfum að sameinast um að setja skýran lagaramma utan um alla þá sem hafa í hyggju að fjármagna húsnæði, óháð því hvort um er að ræða séreign eða leigufélög.

Það er líka mjög mikilvægt að skoða rammann sem snýr að alþjóðlegum skuldbindingum okkar gagnvart ESA og það er eitt af því sem ég hef hvatt og mun hvetja samvinnuhóp um framtíðarskipan húsnæðismála til að gera. Ég veit að eitt sem Reykjavíkurborg hefur verið að láta skoða fyrir sig sérstaklega er hvernig hið opinbera geti stutt beint við þessa tegund af starfsemi, við leigufélög, án þess að líta megi á það sem beinan ríkisstuðning eða stuðning frá hinu opinbera. Þá hafa menn bent á leigufélög sem ekki eru rekin í hagnaðarskyni en það gæti þá líka skaðað samkeppnisstöðu annarra á markaðnum.

Síðan er náttúrlega stóra málið í þessu: Hvernig ætlum við að ná niður kostnaði við fjármagnið, hvernig gerum við það? Það er talað um að við getum fundið leiðir til þess að ná niður kostnaði við lóðir þannig að sveitarfélög tryggi nægilegt framboð á lóðum og það sé ákvörðun sveitarfélaga hvort þau rukki fyrir lóðir eða ekki, fyrir utan þann kostnað sem þau bera af lóðunum. Við getum gripið til aðgerða til að ná niður kostnaði við bygginguna sjálfa og þar á meðal skiptir náttúrlega byggingarreglugerðin verulega miklu máli. En það er líka annað sem hæstv. fjármálaráðherra hefur áhuga á að skoða og það eru vörugjöldin almennt, þau gjöld sem við leggjum á innfluttar vörur. Þau geta skipt máli líka því að mikið af því hráefni sem við notum til byggingar húsnæðis er innflutt.

Síðan er það enn og aftur fjármagnskostnaðurinn. Þar hafa menn bent á að t.d. ávöxtunarkrafan á það fjármagn sem er til staðar á Íslandi, sem eru peningarnir sem við erum með í lífeyrissjóðunum okkar, getur skipt verulega miklu máli við ákvarðanir um þau kjör sem bjóðast, því að það eru lífeyrissjóðirnir sem fyrst og fremst fjármagna húsnæði á Íslandi.

Mér finnst þetta vera mjög áhugaverðar tillögur og ég vil gjarnan að þær fari inn í þá vinnu sem er þegar farin af stað. Þá mun mikill fjöldi sem kemur að þeirri vinnu geta tekið afstöðu til þess hvort rétt sé að fara þessa leið og í framhaldinu kæmu þá útfærslur. Við getum verið sammála um grunnleiðina en við getum síðan haft skiptar skoðanir á því hvernig við nákvæmlega nálgumst markmiðið sjálft.

Ég þakka kærlega fyrir þetta og líka að finna þann samhug sem er innan Alþingis um að við þurfum að gera breytingar á húsnæðiskerfi okkar.



[11:40]
Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Fyrst vil ég þakka hæstv. félagsmálaráðherra fyrir að koma hingað og taka þátt í umræðunni um þá þingsályktunartillögu sem Samfylkingin hefur flutt um bráðaaðgerðir til að efla leigumarkað á Íslandi, svo og jákvæðar undirtektir hennar við tillögunni eins og kom fram í lok ræðu hæstv. ráðherra þar sem hún þakkar fyrir hana og leggur til að hún fari inn í þá vinnu sem er í gangi um húsnæðiskerfið.

Í mínu stutta andsvari langar mig til að spyrja hæstv. félagsmálaráðherra út í það sem hér er fjallað um í 4. tölulið, þ.e. Íbúðalánasjóð sem hefur eignast mikinn fjölda íbúða á undanförnum árum. Sett hefur verið á fót leigufélag sem á um sjötta hundrað valinna eigna á vegum sjóðsins.

Fyrri spurning mín er hvernig þetta leigufélag „funkerar“ og hvað sé búið að leigja mikið út og hvernig það gangi.

Hitt atriðið sem mig langar að spyrja út í er sá mikli fjöldi íbúða sem Íbúðalánasjóður á og ætlar að selja. Eins og kemur fram í greinargerð okkar er mikil gagnrýni út um allt land á það hve hægt gengur hjá Íbúðalánasjóði að setja íbúðir í sölu. Ég mun koma með dæmi um það hér á eftir í ræðu. Það var til dæmis mikið gagnrýnt á Akranesi að þar væru íbúðir ekki settar í sölu og um það hefur verið talað lengi. Svo gerist það núna held ég bara í þessari viku að allt í einu kemur stór auglýsing með miklum fjölda eigna þar sem auglýst er til sölu. Spurning mín til hæstv. félagsmálaráðherra er sú, vegna þess að þörfin er svo brýn bæði hvað varðar leiguíbúðir og söluíbúðir, hvort þetta gangi ekki nógu hratt fyrir sig hjá Íbúðalánasjóði.



[11:43]
félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hvað varðar leigufélagið Klett hefur ekki enn þá verið gengið frá formlegri stofnun efnahagsreiknings þess. Það er verkefni sem er núna á lokametrunum. Samkvæmt ályktun Alþingis þarf að setja reglugerð um samþykktir Kletts og stjórnun og hún er sem sagt núna á lokametrunum. Það var einmitt sérstaklega mikil áhersla lögð á það í meðferð allsherjarnefndar þegar þessar breytingar voru gerðar á lögum um Íbúðalánasjóð að Klettur yrði eins óháður Íbúðalánasjóði og hægt væri.

Það hefur líka verið til skoðunar varðandi fjármögnun og uppsetningu efnahagsreiknings Kletts hvernig hægt sé að koma því fyrir innan þess ramma sem ESA hefur sett varðandi lánveitingar til leigufélaga sem ekki eru rekin í hagnaðarskyni. Eins og oft vill vera telur maður að eitthvað eigi að vera klippt og skorið en svo kemur ýmislegt upp á í ferlinu.

Ég get líka sagt að ég tel að við hefðum getað gert betur við það að koma eignum sem Íbúðalánasjóður hefur verið að fullnusta aftur í útleigu eða sölu. Þess vegna hefur það verið viðvarandi verkefni hjá mér og starfsfólki velferðarráðuneytisins að koma því á framfæri og ég veit að forstjóri Íbúðalánasjóðs hefur tekið það mjög alvarlega að tryggja að svo verði. Það hefur verið áhersluefni líka hjá mér gagnvart nýjum stjórnarformanni Íbúðalánasjóðs að það sé forgangsmál að tryggja þetta.

Eins og kemur fram í fjárlagafrumvarpinu er gert ráð fyrir að kostnaður fyrir ríkið verði 1,5 milljarðar í fjárauka núna og fjárlögum næsta árs vegna kostnaðar fyrir Íbúðalánasjóð að fullnusta þessar eignir. (Forseti hringir.) Þess vegna er mjög brýnt að sjóðurinn fái tekjur á móti.



[11:45]
Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka félagsmálaráðherra fyrir þetta svar þó svo að ég verði líka að játa að mér brá mjög að heyra að fasteigna- eða leigufélagið sem hefur þetta ágæta nafn Klettur — og á sennilega að vera eins og klettur í hafinu á leiguíbúðamarkaði, vel til fundið nafn — er ekki enn þá farið að starfa. Það vantar enn þá efnahagsreikning og reglugerð enn þá á lokametrunum eins og hæstv. ráðherra segir.

Nú beinist þessi gagnrýni ekki eingöngu að núverandi hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra heldur að kerfinu í heild, hinu opinbera kerfi. Mikið óskaplega finnst mér þetta ganga hægt. Ég er sæmilega óþolinmóður en ekki mjög, en miðað við þá þörf sem er og vöntun er með ólíkindum hvað þetta tekur langan tíma. Eins og ég sagði áðan ætla ég að ræða á eftir dæmi sem ég hef um eignir Íbúðalánasjóðs sem mér finnst mjög undarlegt hvernig farið er með. Og dæmið frá Akranesi sem ég sagði frá áðan, að eignirnar skuli loksins núna að vera að koma í sölu.

Það kann vel að vera að Íbúðalánasjóður hafi einhverjar málsbætur hvað þetta varðar aðrar en þær að kerfið sé þungt í vöfum. En aðalatriðið er að það eru liðin fimm ár frá hruni. Það hafa margir misst húsnæði sitt og margir eru á götunni og miklir erfiðleikar hjá mörgum. Þetta gengur ekki að hið opinbera kerfi sé jafn hægvirkt eins og hér er talað um. Hér verður að spýta í lófana og gefa í og ég treysti hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra vel til þess að ýta vel á eftir hvað þetta varðar, sama hvort það er að klára að koma Kletti á laggirnar og koma þessu öllu í gang eða gefa hraðar í með að selja þann fjölda íbúða sem Íbúðalánasjóður hefur eignast.



[11:47]
félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel að starfsmenn Íbúðalánasjóðs hafi verið að reyna að gera sitt besta við mjög erfiðar aðstæður. Sjóðurinn hefur þurft að fullnusta mjög margar eignir. Um 1.100 íbúðir eru í leigu hjá sjóðnum eins og er og af þeim er áætlað að 500–600 íbúðir fari inn í Klett.

Sem dæmi um þetta stóra verkefni sem sjóðurinn hefur verið að fást við, t.d. ef við nefnum Akranes þá skilst mér að tæpur helmingurinn af þeim íbúðum hafi raunar verið óíbúðarhæfur þegar sjóðurinn tók þær yfir. Það mundi fela í sér mikinn kostnað fyrir sjóðinn að fara í lagfæringar á öllu þessu húsnæði. Það hefur verið tekin ákvörðun um að lagfæra eins margar íbúðir og sjóðurinn treystir sér til, en þetta hefur hins vegar verið mjög stórt verkefni.

Skilaboðin frá ráðuneytinu og skilaboðin héðan frá Alþingi hafa hins vegar verið mjög skýr. Við teljum að það eigi að koma þessum íbúðum í leigu ef það er hægt. Ef sjóðurinn telur að ekki sé hægt að leigja þær, þá eigi að selja íbúðirnar. Þetta er lykilatriði því eins og ég benti á áðan í fyrra svari mínu er hér um að ræða gífurlegan kostnað fyrir sjóðinn, fyrir íslenska skattgreiðendur, ef verið er að fullnusta eignir og þær liggja síðan hjá sjóðnum án þess að skila honum tekjum.

Ég vonast til að þetta verði áfram sameiginlegt verkefni okkar. Ég hef reynt að ýta eftir því sem mest ég get að við ljúkum við þá vinnu að stofna Klett og síðan líka í framhaldinu að klára reglugerðina.



[11:49]
Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að taka undir að það er nauðsynlegt að efla leigumarkaðinn og mikilvægt að fólk hafi kost á því að leigja á viðráðanlegu verði.

Það sem mig langar hins vegar að gera hér að umtalsefni er byggingarreglugerðin og tala um endurskoðun á henni með tilliti til hönnunar á litlum hagkvæmum íbúðum. Ég tel afar mikilvægt að ekki verði slegið af kröfum um aðgengi við hönnun íbúða og vil minna á það að Ísland er aðili að samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks þar sem í 9. gr. er sérstaklega kveðið á um aðgengi fyrir alla. Hreyfihamlað fólk þarf ekkert síður á litlum íbúðum að halda en aðrir samfélagsþegnar, t.d. hjólastólanotendur, hreyfihamlaðir námsmenn, ungt hreyfihamlað fjölskyldufólk. Þetta fólk þarf líka að eiga kost á íbúðum á viðráðanlegum kjörum.

Það er hins vegar ekki nóg að það séu bara heimili fólks sem eru aðgengileg. Fatlað fólk er eins og aðrir þátttakendur í samfélaginu og til þess að geta verið fullgildur þátttakandi er nauðsynlegt að komast alls staðar um, geta til að mynda farið í heimsókn til ættingja eða vina. Það er bara stór hluti af því að vera manneskja og lifa lífinu. Ég held að við þurfum að fara mjög varlega í það ef við ætlum að gera íbúðir sem eiga að vera aðgengilegar fyrir fólk til að búa í en hafa svo annars konar íbúðir sem allir hinir eiga að búa í en hreyfihamlað fólk kemst ekki inn í.

Ég held að það skipti líka máli að hugsa til langs tíma. Það er ódýrara að hafa aðgengið í huga á byggingarstigi vegna þess að það er mun dýrara að breyta íbúðum eftir að þær hafa verið byggðar. Eins og við vitum öll er þjóðin að eldast og fólk þarf oft að nota meira af hjálpartækjum eftir því sem aldurinn hækkar. Þess vegna held ég að við megum ekki spara hér og nú í byggingarkostnaði í einhverju sem við þurfum svo að breyta eftir einhver ár vegna þess að þá þarf hreinlega fleira fólk aðgengilegar íbúðir.

Eins og ég segi vildi ég gera þetta atriði að umtalsefni en að öðru leyti líst mér mjög óskaplega vel á að farið verði í aðgerðir til að efla leigumarkaðinn á Íslandi.



[11:53]
félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka kærlega fyrir ræðuna og þær ábendingar sem koma fram í henni. Hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra er ekki hér en mér skilst að lögð hafi verið áhersla á það hvernig hægt sé að auka sveigjanleikann í núverandi byggingarreglugerð og hefur verið farið í vinnu við það að bera saman þá byggingarreglugerð sem er hér og annars staðar á Norðurlöndunum og þá sérstaklega í Danmörku. Við fyrstu niðurstöður hefur sýnt sig að það er meiri sveigjanleiki í því hvernig menn hafa sett upp byggingarreglugerðina þar, jafnvel líka að einhverju leyti í Noregi. Það er fyrst og fremst verið að huga að því.

Eitt af þeim verkefnum sem snýr að framtíðarskipulagi húsnæðismála verður að huga að því hvernig sé hægt að styðja betur við breytingar á því húsnæði sem fyrir er fyrir hreyfihamlaða og aldraða einstaklinga. Það þarf að koma því í betra form og huga að því bara almennt hvernig við ætlum að styðja við félagslegt húsnæði og greiða þann kostnað sem felst í því. Þetta eru allt þættir sem þarf að huga að.

Ég held að það sé líka mjög mikilvægt og ég hef einmitt mikinn áhuga á því að setja af stað sérstaka vinnu hvað að þessu snýr. Það er mjög mikil tækniþróun í gangi sem snýr að ýmsum hjálpartækjum fyrir bæði aldraða og þá sem fást við einhvers konar fötlun þannig að það sem við sjáum kannski fyrir okkur er að staðan eftir tíu ár geti orðið allt önnur miðað við það hve þróunin hefur verið hröð og gífurlega spennandi. Eitt af því sem ég hef áhuga á að setja af stað á vegum ráðuneytisins er hvernig við getum stutt betur við þróun og notkun velferðartækni sem að mínu mati opnar alveg nýja heima, nýjar víddir fyrir okkur á hinum ýmsu sviðum í mannlífinu.



[11:55]
Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra fyrir svör hennar. Það er gott að heyra að verið sé að huga að málefnum hreyfihamlaðra þegar verið er að skoða húsnæðismál í víðu samhengi.

Já, það er einhver mismunur í byggingarreglugerðum milli Norðurlandanna og auðvitað sjálfsagt að líta til þess hvernig hlutunum er háttað þar en ég tel engu að síður að við á Íslandi ættum bara að setja okkur það markmið að vera með þessi mál í góðu lagi og ekki endilega horfa til þess sem er kannski ekki eins vel gert og hægt væri heldur að setja okkur það markmið að búa þannig um hnútana að húsnæði henti öllum.



[11:57]
félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka kærlega fyrir þessa ábendingu. Það er einmitt það sem ég tel að sé svo mikilvægt þegar kemur að húsnæðismálunum að við séum að gæta að þeirri fjölbreytni sem er í íslensku samfélagi. Við þurfum að vinna innan þeirra verðmæta sem við sköpum í samfélagi okkar þannig að allir geti haft raunverulegt val, allir geti búið við raunverulegt öryggi.

Eitt af því sem hefði verið mjög áhugavert að ræða hér og við gerum það kannski við annað tækifæri er staða heimilislausra og sú staða að allt að því helmingur af þeim sem leita eftir aðstoð vegna húsnæðis eru innflytjendur. Þetta er svo fjölbreytt, þetta er svo margþætt og það er náttúrlega það sem er í raun verkefni okkar á Alþingi og hjá ríkisstjórninni — hvernig getum við hugað að samfélaginu sem heild þannig að við höfum það flestöll sem allra best?



[11:58]
Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Við ræðum tillögu til þingsályktunar um bráðaaðgerðir til að efla leigumarkað á Íslandi sem er tillaga og fyrsta mál alls þingflokks Samfylkingarinnar. Það segir okkur hvert áhersluatriði okkar er hvað það varðar að við skulum leggja þetta fram sem fyrsta og brýnasta mál okkar. Með leyfi forseta hljóðar tillagan svo:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að grípa til aðgerða til að auka eins hratt og kostur er framboð leiguhúsnæðis til að bregðast við því alvarlega ástandi sem komið er upp á húsnæðismarkaði.“

Greinin segir í raun og veru allt sem segja þarf. Það er neyðarástand á markaðnum og það er mikil ofþensla, getum við sagt, hvað það varðar að leiguverð er mjög hátt. Ég hygg að margir nýkjörnir alþingismenn sem hafa þurft að leita sér að húsnæði á höfuðborgarsvæðinu hafi heldur betur fundið fyrir því, ég þekki dæmi þess. Að leigja 220 fermetra íbúð á kannski 220–230 þús. kr., það segir sig sjálft að það getur ungt fólk ekki gert í dag og þarf ekki ungt fólk til. Það þarf ansi miklar atvinnutekjur til að eiga 230–240 þús. kr. eftir til að setja í leigu og það er mikilvægt atriði. Það er þetta neyðarástand, lítið framboð af leiguhúsnæði, sem þrýstir þessu upp.

Þar þekki ég líka dæmi sem ég hef kynnt mér þar sem þriggja herbergja íbúð var endurleigð sem leigð var uppi í háhverfum Kópavogs, langt úti á landi að mér finnst stundum. Þriggja herbergja íbúð á 200 þús. kr. og 100–120 manns sem allir gætu uppfyllt skilyrði til að leigja íbúðina sækja um. Þess vegna verðum við að viðurkenna, alveg sama hver á í hlut, hvaða flokkar, að við höfum ekki sinnt þeim þætti á Íslandi. Við erum alltaf með séreignarstefnu, allir eiga að eiga húsnæði og síðan höfum við gert ýmislegt til að þvælast fyrir, hið opinbera, og nefni ég þar byggingarreglugerðina, ég tala nú ekki um þá nýju sem sett var sem er mjög íþyngjandi fyrir það sem er mikilvægast á leigumarkaði: Að byggja litlar og meðalstórar íbúðir.

Ef par sem er að hefja sinn búskap og er kannski að fara í háskóla vill leigja sér 40–50 fermetra íbúð og lætur sér það duga þarf hún að vera til á markaðnum og þá er leigan lægri. Það þekkjum við frá fólki sem hefur framkvæmt þetta svona, t.d. við nám í Skandinavíu þar sem það er vel þekkt og byggingarreglugerðir eru settar þannig upp að hægt er að gera það á hagkvæman hátt, minni íbúðir, lægri kostnaður og þar af leiðandi lægra leiguverð. Þannig verðum við að gera þetta. Í stuttu andsvari mínu áðan við hæstv. ráðherra um leigufélagið Klett, með því fallega nafni sem á vafalaust að vera kletturinn á leiguíbúðamarkaðinum, vel til fundið orð og vonandi verður félagið klettur, lýsti ég óþreyju minni með að þetta skuli ekki vera komið á fulla ferð. Ég tek skýrt fram, og tek undir með hæstv. ráðherra, að ég trúi ekki öðru og er sammála því að starfsmenn Íbúðalánasjóðs hafi vafalaust gert sitt besta, en þeir hafa örugglega fengið íbúðir í eigu sjóðsins í ýmiss konar ásigkomulagi eins og íbúðir á Akranesi sem hæstv. ráðherra tók dæmi um.

Þegar ég nefni Íbúðalánasjóð hef ég líka tekið dæmi sem ég þekki þar sem byggingarverktakar hafa kvartað yfir því að illa gangi að semja við Íbúðalánasjóð um að kaupa íbúðir sem sjóðurinn á til að koma þeim í útleigu eða sölu. Best væri náttúrlega að selja þessar blokkir þannig að þær væru skilyrtar til leigu en það hefur ekki gengið saman. Það er vafalaust þannig að Íbúðalánasjóður vill fá ákveðið verð eða telur sig þurfa að fá ákveðið verð. Verktakinn vill greiða eitthvað minna og þar strandar og það er sárgrætilegt að horfa á það þegar þetta nær ekki saman. Maður getur horft á heila blokk eða heilu blokkirnar með tómum íbúðum sem útlistað hefur verið fyrir mér að Íbúðalánasjóður eigi og hefur verið að gera við ytra byrði hússins sem stóð undir skemmdum en verktakinn og Íbúðalánasjóður náðu ekki saman vegna þess að Íbúðalánasjóður hefur ekki viljað afskrifa eins mikið. Hvað gerist þá, virðulegi forseti? Það koma gröfur og tæki og taka grunn við hliðina og þar er byrjað að byggja jafnvel sams konar blokk. Er það þjóðhagslega hagkvæmt? Nei, segi ég. Alveg hiklaust ekki.

En aftur að þingsályktunartillögunni. Hún er sett fram í 6 liðum þar sem meðal annars er komið inn á nýja byggingarreglugerð og það ítrekað sem ég sagði áðan. Ég hlusta ekki á neitt um að ekki megi breyta byggingarreglugerð. Það verður ekki gert þannig að aðgengi fatlaðra verði eitthvað skert hvað það varðar en við þurfum að haga okkar byggingarreglugerð eftir því sem þarf og það þarf að greiða fyrir byggingu minni íbúða eins og lagt er til í tillögunni. Það erum við ekki að gera og ég var mjög gagnrýninn á þá byggingarreglugerð sem síðasti hæstv. umhverfisráðherra setti rétt fyrir kosningar, tók m.a. sem dæmi einangrun sem átti að setja þar í byrjun, og að því er mér skilst er Mannvirkjastofnun ótt og títt að breyta ýmsu í reglugerðinni og skilja hana jafnvel ekki sjálfir og þetta gengur ekki alveg nógu vel fyrir sig.

Ég ætla að koma að einu í viðbót sem snýr að verðmyndun leiguíbúða og það er lóðaverð sveitarfélaga. Virðulegi forseti. Ég er ekki alveg viss um og held að ég geti bara sagt að ég sé ekki sammála þeirri stefnu sem sum sveitarfélög hafa, að setja inn í lóðaverð byggingu leikskóla, grunnskóla og alls þess sem þarf í viðkomandi hverfi, að það fari ofan á lóðaverðið. Ég er alls ekki sammála því. Ég held að lóðaverðið eigi bara að standa undir því að brjóta landið til byggingar og leggja götu og koma á rafmagni og vatni og búið. Hitt eru samfélagsleg verkefni viðkomandi sveitarfélags. Göturnar sem ég bý við voru örugglega ekki verðlagðar þannig að þær hafi tekið þátt í byggingu skólahúsnæðis á viðkomandi svæðum. Það er einhver ný stefna hjá sveitarfélögunum, vafalaust í fjárhagserfiðleikum sínum, sem lyftir upp lóðaverði og gerir það að verkum að það er orðið eins hátt og raun ber vitni og er í raun og veru orðið allt of hátt miðað við byggingarkostnað. Þarna verða sveitarfélögin að koma til og lækka lóðaverð, lækka það mikið vegna þess að það á að vera eftirsóknarvert fyrir sveitarfélagið að úthluta ódýrum lóðum undir leiguíbúðir og fá þannig íbúa inn í sitt sveitarfélag. Um það er fjallað hérna þótt það sé ekki gert á alveg sama hátt og ég geri en þetta er mikilvægt atriði.

Síðan er talað um nýjar húsnæðisbætur sem taki mið af fjölskyldustærð og tekjum og tryggi sambærilegan stuðning við leigjendur og eigendur í 1. lið, það er mikilvægt atriði. Hér er fjallað um mjög mikilvægt atriði sem gerir það að verkum að eigandi íbúðar geti undanþegið tekjur vegna úthlutunar einnar íbúðar fjármagnstekjuskatti og það er spurning hvort ekki eigi að ganga lengra. Svo er einn þáttur sem fjallað er um í þessum lið sem er mjög mikilvægt að ræða og er um skort á leiguíbúðum sem þar af leiðandi hækkar verð á þeim fáu sem til eru. Það er það sem talað er um í 6. tölulið, þ.e. að stór hluti leiguíbúða á höfuðborgarsvæðinu er nú leigður ferðamönnum og kemur því ekki inn á leigumarkaðinn til langtímaleigu. Það þekkjum við sem höfum unnið til dæmis í atvinnuveganefnd á síðasta kjörtímabili þar sem ferðaþjónustuaðilar hafa komið og sýnt okkur, kastað upp á vegg mynd af einhverri heimasíðu þar sem kom fram að 545 íbúðir eða herbergi eru til leigu á höfuðborgarsvæðinu sem eru óskráð eða ósamþykkt og hafa ekki leyfi. Það er verkefni stjórnvalda að koma í veg fyrir þetta sem mundi þá auka íbúðamagn á leigumarkaði og þetta þarf allra helst að gera vegna þess að það er vonlaust að hafa þetta inni sem tifandi tímasprengju, að ferðamenn geti gist í ósamþykktu húsnæði. Hvað ætla menn að gera ef það verða slys á Íslandi, bruni eða eitthvað þess háttar og við missum ferðamenn í ósamþykktu húsnæði? Það getur eyðilagt markaðsátak sem við höfum staðið í undanfarin ár sem gefur okkur svo marga ferðamenn sem raun ber vitni og þjóðin þarf fleiri ferðamenn á komandi árum og meiri gjaldeyri. Það getur gert okkur erfitt hvað það varðar, virðulegi forseti.



[12:08]
Margrét Gauja Magnúsdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hjó eftir því í ræðu hv. þm. Kristjáns L. Möllers að hann velti fyrir sér þegar hann ræddi um lóðaverð því verði sem sveitarfélög setja á lóðir, hvort lóðaverð væri svona hátt hjá sveitarfélögunum í ljósi þess að byggingarkostnaður á grunnskólum og leikskólum og annarri grunnþjónustu væri inni í því verði, að það hafi verið sú leið sem farin hafi verið eftir hrun. Ég tel mig geta fullyrt að ekki hefur verið lögð gata hjá sveitarfélögunum eftir hrun. Það gerðist allt löngu fyrir hrun. Hér eru tóm hverfi sem ekki hefur verið byggt í og þar eru til sölu lóðir sem allar hafa verið lækkaðar í verði. Ég held að ég geti fullyrt það.

Það sem hefur aftur á móti gerst og gerðist ef til vill stuttu fyrir hrun áður en hverfin voru byggð var að olíuverð hækkaði mikið. Það fór út í verðlagið og í verðbætur til allra þeirra verktaka sem unnu á þessum lóðum. Lóðaverð hefur lækkað. Ég vil fá að skjóta því að að sum sveitarfélög leggja sig fram um að lækka lóðaverð og bjóða upp á fjölbreytta búsetu eins og fjölbýli og íbúðir og hafa sérmerktar, skilgreindar lóðir fyrir leiguíbúðir. Það gera þó ekki öll sveitarfélög og það er kannski eitthvað sem þarf að skoða frekar.



[12:10]
Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Margréti Gauju Magnúsdóttur fyrir innlegg hennar inn í þessa góðu umræðu í stuttu andsvari við mig. Í raun og veru skiptir það mig engu máli hvort þessi stefna hófst fyrir hrun eða eftir hrun. Það er alveg rétt að sveitarfélög í landinu eiga töluvert mikið af óbyggðum lóðum og nýbyggðum götum með ljósastaurum og rafmagni og öllu. Þar er góður lager af slíku og er sorglegt til þess að vita. Það er svona álíka og það sem var á ýmsum öðrum stöðum í hinu svokallaða góðæri, vitleysisgangurinn sem var í ofkeyrslu í þjóðfélaginu. Allir ætluðu að fá svo marga til sín en enginn hugði að því hvað þyrfti margar lóðir heldur var bara göslast áfram. Það sjáum við hér vítt og breitt á höfuðborgarsvæðinu og við sjáum það líka úti á landi, eins og t.d. á Austurlandi. Við sáum að í kringum álversuppbygginguna var byggt miklu meira en þörf var á og því hleypt af stað. Þetta eru enn ein hagstjórnarmistökin hjá okkur þar sem allt á að vera svo frjálst að það virðist ekki skipta neinu máli hver þörfin er. Ef þörfin er 100 íbúðir vegna atvinnuuppbyggingar þá skiptir það engu máli þó að 300–400 byggingar séu byggðar.

Ég ítreka það sem ég sagði áðan, virðulegi forseti; eitt af því sem þarf að kanna til að gera leiguíbúðamarkaðinn öflugri er hvort sveitarfélögin geti boðið fram miklu ódýrari lóðir og að það sé valkostur. Það var í fréttum ekki fyrir löngu, bara fyrir nokkrum dögum síðan, að efast var um að sveitarfélög ættu að leggja í þann kostnað sem ég gerði að umtalsefni við það að byggja upp ný hverfi og taka þá tillit til allrar þeirrar þjónustu sem þar er. Það eru ekki bara íbúarnir í því hverfi sem eiga að njóta hennar. Þeir njóta hennar að vísu sannarlega en það er annað opinbert húsnæði í sveitarfélaginu sem ekki hefur verið byggt á þann hátt sem ég gerði hér að umtalsefni. Því finnst mér jafnræðisregla stjórnarskrárinnar í raun og veru vera brotin hvað það varðar.



[12:12]
Margrét Gauja Magnúsdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þegar sveitarfélögin, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu, unnu í lóðum sínum hefði eflaust mátt hafa miklu meira samráð um skipulagsmál og úthlutun lóða. En engu að síður var búið að selja hverja einustu lóð. Fullt af fólki hafði hug á að koma sér þaki yfir höfuðið og síðan kom hrun. Þá lentu sveitarfélögin í því að lóðunum var skilað og fólk sat fast í íbúðum sínum. Sveitarfélögin notuðu ekki fé beint út úr sveitarsjóði til þess að vinna í lóðunum. Þau notuðu í það peninga sem fólk var búið að borga til að láta framkvæma á þessum lóðum, líka til að byggja skólana og leikskólana sem fylgja hverfunum.



[12:13]
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Árna Páli Árnasyni, formanni Samfylkingarinnar, fyrir að mæla fyrir þessu mikilvæga máli öðru sinni. Það fór til velferðarnefndar á sumarþingi og var sent út til umsagnar þannig að það ætti að vera hægt að vinna nokkuð hratt í því núna. Eins er ég ánægð með að heyra að hæstv. ráðherra félags- og húsnæðismála telji eðlilegt að þetta mál komi einnig inn í þá vinnu sem er skipulögð á hennar vegum.

Varðandi húsnæðismálin vil ég segja að þau eru grundvallarvelferðarmál fyrir fjölskyldur landsins og þau eru líka stórt efnahagsmál. Þess vegna er svo mikilvægt að vanda vel til verka. Þess vegna vann síðasta ríkisstjórn gríðarlega vinnu á sviði húsnæðismála sem náði til upplýsingamála, sem náði til húsnæðisáætlana sveitarfélaga, sem náði til tillagna um húsaleigubætur og svo mætti lengi telja. Ég verð því að segja að ég tel að ekki þurfi svo mikla yfirlegu til að geta farið í beinskeyttar aðgerðir. Eins og farið hefur verið yfir hér er alvarlegur húsnæðisskortur á höfuðborgarsvæðinu a.m.k. og í ýmsum sveitarfélögum, til að mynda Höfn í Hornafirði svo ég nefni eitt dæmi af landsbyggðinni.

Hv. þm. Margrét Gauja Magnúsdóttir benti á það í ræðu sinni að sveitarfélögin hefðu ekkert byggt á síðustu árum og það er algerlega satt og það eru að koma inn árgangar sem vantar húsnæði og eru í rándýru leiguhúsnæði, búa ekki við húsnæðisöryggi. Ég þekki úr mínu umhverfi allt of stóran hóp ungs fólks sem býr í mikilli óvissu. Við búum líka í samfélagi þar sem mikið af ungu fólki hefur ekki lokið starfsnámi eða framhaldsskólanámi og er að reyna að fóta sig í lífinu, fer vonandi síðar í einhvers konar sérhæft nám hvort sem það er til hugar eða handa. Þetta unga fólk fær mjög lágar tekjur í þeirri vinnu sem því stendur til boða og það á mjög erfitt með að fá húsnæði við hæfi. Þetta er alvarlegur velferðarvandi og við erum að bregðast þessu fólki.

Eins og líka hefur verið komið inn á er fjöldi fólks sem hefur ekki tekjur til að standa undir kaupum á húsnæði þrátt fyrir að vera jafnvel með háskólamenntun á vinnumarkaði. Fjármögnunin skiptir að sjálfsögðu mjög miklu máli. Ef við sköpum grundvöll fyrir fasteignafélög sem leigja út húsnæði, samfélagslega ábyrga aðila sem eru með félög sem hafa sæmilegt eigið fé — þá þurfa einhverjir að leggja það til hvort sem það eru opinberir aðila eða einhverjir aðrir sem koma að því — þá er ekkert vandamál að fjármagna slíkt húsnæði. Það er undir hinum pólitíska vilja stjórnvalda komið hverju sinni að sinna því velferðarmáli sem húsnæðismál eru, en það verður aldrei hægt að fjármagna fasteignafélög með lélegt eigið fé með viðunandi hætti. Sögu þeirra þekkjum við, hún er sorgarsaga, hún er kostnaður fyrir ríkissjóð núna vegna taps Íbúðalánasjóðs á veitingu lána til þessara aðila. Það sem við leggjum til er að sveitarfélögin og ríkið komi inn með myndarlegum hætti, horfist í augu við að það er verkefni stjórnvalda að tryggja húsnæðisöryggi og skapa aðstæður og rekstrargrundvöll fyrir alvörufasteignafélög, fasteignafélög sem eru rekin með samfélagsábyrgum sjónarmiðum. Þetta húsnæði á að vera eftirsótt og þarf að vera í nálægð við þjónustu og almenningssamgöngur. Við þurfum að breyta því hugarfari að úthluta á sæmilegu verði lóðum í jaðarbyggðum til leiguhúsnæðis. Það er ekki sæmandi fyrir nútímavelferðarsamfélag.

Þá langar mig að koma inn á orð hv. þm. Steinunnar Þóru Árnadóttur og þakka henni fyrir að taka upp umræðuna um aðgengi fyrir alla. Ég naut þess að hlusta meðal annars á hana tala um aðgengi fyrir alla á málþingi Öryrkjabandalagsins sem var haldið fyrr í þessum mánuði frekar en seint í síðasta mánuði. Það var ákaflega gagnlegt málþing þar sem farið var yfir mikilvægi þess að við hönnuðum ekki bara húsnæði heldur önnur mannvirki í samfélagi okkar með það í huga að hreyfihamlaðir ættu greiðan aðgang að eðlilegu lífi, en ekki bara þeir sem búa við líkamlega fötlun af einhverju tagi heldur líka aldraðir. Þjóðin er að eldast. Það mun verða meiri þörf á að hugsa um þessi mál. Svo vitum við það öll sem höfum ferðast um bæinn með kerru eða vagn að gott aðgengi auðveldar lífið ótrúlega mikið. Þetta málþing var sérlega mikilvægt. Þar komu fram mjög margar hliðar á mikilvægi aðgengis fyrir alla. Ég held að það væri aldrei hægt að gefa þann afslátt á byggingarreglugerð að það ynni gegn því að fatlaðir gætu verið fullir þátttakendur með reisn í samfélagi okkar. Forstjóri Mannvirkjastofnunar, Björn Karlsson, var þarna og talaði og það var mjög áhugavert að hlusta á hann. Hann benti á að það væri misskilningur í umræðunni um byggingarreglugerð og það væri mikils virði að fólk settist niður saman og fyndi lausnir ef þyrfti að gera einhverjar breytingar til að þær ynnu ekki gegn einum ákveðnum þjóðfélagshóp, enda yrði það hálfhlálegt ef við segðum að kröfur fyrir fatlað fólk væri sérstakt vandamál í húsnæðismálum á Íslandi. Við búum við mjög alvarlegan húsnæðisvanda og getum sagt að hann sé fyrst og fremst á ábyrgð stjórnvalda og væri ómaklegt að nota kröfuna um aðgengi fyrir alla sem einhverja afsökun.

Ég tek algerlega undir að það er full þörf á að skoða og endurmeta byggingarreglugerðina, enda er ég flutningsmaður á þessari tillögu. Byggingarkostnaður er mjög mikill á Íslandi og við eigum að leita allra leiða sem auðvelda okkur að efla íslenskan leigumarkað og við verðum að gera það af virðingu fyrir öllum samfélagshópum.

Ég læt máli mínu lokið.



[12:22]
Páll Jóhann Pálsson (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Árna Páli Árnasyni og hans flokki fyrir þessa tillögu. Ég get ekki annað en verið sammála tillögunni að langflestu leyti ef ekki öllu. Ég vil reyndar í sambandi við það sem hér hefur komið fram með Íbúðalánasjóð taka heils hugar undir það, það er með ólíkindum hvað gengur hægt að losa um eignir. Ég veit að verktakar og ekki síst einyrkjar víða úti á landi hafa reynt mikið til þess að kaupa íbúðir af Íbúðalánasjóði meðan atvinnuástandið hefur ekki verið gott, en það hefur gengið ótrúlega illa á undanförnum árum. Og ég hélt reyndar að þetta nýja fasteignafélag, Klettur, væri bara komið til starfa og farið að vinna á fullu, en mér heyrist nú að það sé að minnsta kosti alveg að gerast og fagna því.

Varðandi lóðaverð hjá sveitarfélögum og það sem fram hefur komið hér að mönnum finnist að það megi vera lægra, vil ég benda mönnum á að gatnagerðargjöld hjá sveitarfélögum reiknast á allar byggingar í þessum hverfum, þannig að ég held að það sé ákveðinn misskilningur á ferðinni. Þegar sveitarfélög reikna út gatnagerðargjöld eru þau reiknuð á allar byggingar í hverfunum og deilast niður á þau. Það eru að sjálfsögðu reiknuð full gatnagerðargjöld hjá þeim sveitarfélögum sem byggja leikskóla og önnur þjónustuhús.

Ég fagna þessari tillögu, en hér hafa þingmenn talað um ábyrgð stjórnvalda og nú var þessi stjórnmálaflokkur við stjórnvölinn síðustu fjögur ár. Ég velti fyrir mér: Af hverju var ekki búið að gera eitthvað í þessu? Af hverju létu þau ekki verkin tala? Ég fagna þessari tillögu núna. En hví í ósköpunum gerðu þau þetta ekki meðan þau réðu ríkjum?

Ég tek það fram að ég veit ekki annað, eins og hefur komið fram hjá hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra, en að verið sé að vinna í flestum þessum málum, þannig að það sé alveg á hreinu.



[12:25]
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Páli Jóhanni Pálssyni fyrir stuðninginn við tillöguna. Hann spyr af hverju flokkurinn var ekki búinn að gera eitthvað fyrr. Ég ætla að byrja á því að segja, herra forseti, að ég get vel skilið að hann spyrji þessarar spurningar. Þá finnst mér ekki síður mikilvægt að svara henni, því eins og ég fór yfir í ræðu minni var unnin gríðarleg vinna á síðasta kjörtímabili. Það voru mótaðar tillögur um nýtt húsnæðisbótakerfi og frumvarpsvinna var í gangi. Við vorum komin langt á veg með mjög mikið af þeirri vinnu. Það má heldur ekki gleymast að eftir hrunið — í fyrsta lagi var vandamálið fyrir hrun að húsnæðisverð var allt of hátt og það var gríðarleg húsnæðisbóla í landinu og verið var að reyna að leita leiða til að tryggja húsnæðisöryggi, en eftir hrun var mikið um rústabjörgun. Svo þegar aðeins var liðið á kjörtímabilið hófst mjög stefnumótandi vinna með aðkomu margra aðila. Við erum með samhljóma stefnu við Samband íslenskra sveitarfélaga. Það má segja að allir séu í startholunum að hefja vinnu í samræmi við þessar áætlanir.

Þess vegna hef ég verið svolítið hissa á að ráðherra setji ekki meira púður í að klára útfærslu þessara hugmynda í frumvarp í stað þess að hefja aftur stefnumótandi vinnu því hún liggur fyrir og það er mikil sátt um hana. En það tók líka tíma að vinna hana og ná henni fram því að það var litið til allra þátta sem vörðuðu húsnæðismál en ekki eingöngu horft á fjármögnunarþáttinn.



[12:27]
Páll Jóhann Pálsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, ég get alveg skilið þá rústabjörgun sem var og geri mér grein fyrir henni. Fyrstu tvö árin var sannarlega verið í rústabjörgun. En síðustu tvö ár hefði ég haldið að gera hefði mátt aðeins betur. Hvað um það. Við skulum ekkert vera að líta í baksýnisspegilinn. Nú tökum við bara höndum saman. Við erum sammála, heyrist mér, um þessi verkefni í megindráttum. Ég heyri ekki annað en að hvar sem fólk standi í pólitík sé það sammála um þau meginmarkmið sem við þurfum að vinna að.



[12:28]
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil segja við hv. þm. Pál Jóhann Pálsson að ég tek undir þetta að vissu leyti, mér finnst að við hefðum getað gert meira. Ég tel þó ekki að við hefðum getað náð mikið lengra en við náðum því við unnum sannarlega mikla vinnu sem var mjög mikilvæg. Þess vegna er ég svolítið hugsi yfir því að ráðherra sé ekki með frumvörp á þingmálaskránni sem lúta að þessu, af því að ég held að við séum öll sammála um að staðan í húsnæðismálum er óviðunandi. Við þurfum að gera eitthvað fyrr en seinna því það er ekki hægt að bjóða fólki upp á að búa við þessar aðstæður.

Svo get ég tekið undir með þingmanninum og við getum velt fyrir okkur hver hefði átt að gera hvað hvenær. Ég er svolítið sammála honum, án þess að vera það að öllu leyti. En aðalatriðið er að við bregðumst ekki því fólki sem núna býr við húsnæðisóöryggi.



[12:30]
Páll Jóhann Pálsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, við skulum bara hætta að líta í baksýnisspegilinn og ég tek undir það og skil það. Ég er alltaf að skilja það betur og betur og gera mér grein fyrir því hvað hið opinbera kerfi er seinvirkt. Það er alveg með ólíkindum. En ég held að það sé þá okkar að breyta því, að minnsta kosti í þeim málum sem við erum sammála um að breyta.



[12:30]
Flm. (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka góða og jákvæða umræðu og vil bregðast við nokkrum þeim þáttum sem nefndir hafa verið í umræðunni hingað til.

Ég þakka þátttöku stjórnarþingmanna hv. þm. Páls Jóhanns Pálssonar og hæstv. félags- húsnæðismálaráðherra Eyglóar Harðardóttur. Ég tel það mjög mikilvægt að við eigum uppbyggjandi samtal um þetta mál. Það er auðvitað hægt, eins og hv. þm. Páll Jóhann Pálsson rakti áðan, að velta því upp hvort lengra hefði verið hægt að komast á undanförnum árum. Að sumu leyti hefði verið hægt að komast lengra með einstök mál. Að sumu leyti byggir tillaga okkar núna á því að halda áfram þeirri vinnu sem við vorum byrjuð á, sérstaklega hvað varðar sameiginlegu húsnæðisbæturnar.

Nú verð ég bara að vera alveg hreinskilinn; ef við komum ekki með lagabreytingar núna fyrir áramót og höldum áfram að hrinda því verkefni í framkvæmd verðum við á sama stað eftir ár, ekkert mun hafa breyst eftir ár, ekki neitt. Þess vegna setjum við það í forgang. Það er alveg ljóst að umsögn allra umsagnaraðila er grundvallaratriði. Húsnæðisbætur eru ekki sérmál Samfylkingarinnar. Þær eru afrakstur þessa samstarfs sem aðilar vinnumarkaðarins og sveitarfélögin komu að og eru hluti af heildstæðri stefnumótun sem allir flokkar komu að.

Ég vil því ekki að menn stilli því þannig upp þegar við rekum á eftir því eða minnum á það að við séum að reka erindi Samfylkingarinnar. Við erum bara að tala fyrir því sem orðið er sammæli meðal allra. Það er alveg ljóst af umsögnum umsagnaraðila að það verður að tryggja framgang þess máls, það verður að jafna aðstöðuna. Húsaleigubætur verða að vera þannig að þær séu greiddar venjulegum fjölskyldum ef kerfið á að geta gengið upp, ef hægt á að vera að byggja upp leigumarkað.

Ég tek undir með hv. þm. Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur, ég hef nokkrar áhyggjur af því hvernig hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra hagar vinnunni núna,. Ég óttast að málið festist í of mikilli bið. Ég hef t.d. tekið eftir því að bæði Samband íslenskra sveitarfélaga og Alþýðusamband Íslands hafa gert athugasemdir við hæstv. ráðherra um að þessir aðilar séu ekki hluti af verkefnastjórninni sem ráðherra er búinn að setja á fót. Það er mjög hættulegt vegna þess að við komumst ekki neitt í þessum málum nema að hafa sveitarfélögin og verkalýðshreyfinguna við borðið. Fyrir því höfum við 100 ára reynslu að við komumst ekkert í húsnæðismálum í landinu nema að allir séu saman að þessu leyti.

Ég vil bara hvetja hæstv. ráðherra, sem er því miður ekki lengur í salnum, til að endurskoða þetta og passa að sveitarfélögin og verkalýðshreyfingin séu með fulltrúa í innsta hring í stefnumótuninni.

Eins og ég skildi hæstv. ráðherra talaði hún fyrir því að þessi tillaga okkar yrði innlegg í frekari vinnu. Ég vil ganga lengra. Ég vil að þingið afgreiði tillöguna. Mér finnst að þingið eigi að tjá vilja sinn í þessu efni. Mér finnst ekki rétt að taka tillögu eins og þessa sem allir eru í grunninn sammála um og möndla hana sem innlegg inn í einhverja vinnu sem er á forræði eins ráðherra. Mér finnst eðlilegt að þingið tjái vilja sinn, komist að niðurstöðu, sé tilbúið til samninga um það. Mér finnst að þingið þurfi að tjá vilja sinn um að það vilji sjá húsnæðisbætur. Ég held við þurfum að samþykkja það því að annars óttast ég að við gerum ekkert og að eftir ár verðum í sömu stöðunni, höldum öll saman sömu ræðurnar og að ekkert hafi breyst.

Þess vegna hvet ég til þess að við tökumst á um það í nefndinni hvernig menn vilja orða þetta nákvæmlega þannig að það verði úr því þingsályktun sem veiti ráðherrunum betra umboð og betri grunn. Ég var alveg sammála hæstv. forsætisráðherra þegar hann kom hér í sumar og óskaði eftir þingsályktunartillögu um skuldamál heimilanna vegna þess að hann vildi fá stuðning og umboð þingsins. Ég tel að ríkisstjórninni væri með alveg sama hætti styrkur af því að fá skýrt umboð þingsins hvað þetta varðar.

Ég held líka að við verðum að horfast í augu við það og tala opinskátt um það þegar við komum að hugmyndum okkar um leigustyrki að ekki verður byggður upp húsnæðismarkaður á Íslandi við núverandi aðstæður sem þjónar hagsmunum allra nema með aðkomu ríkisins. Það mun kosta ríkið fé. Það er draumsýn að hægt sé að reka húsnæðiskerfi þar sem allir borga markaðskjör fyrir húsnæðið, það verður aldrei þannig. Við sjáum núna að kennarar flokkast til millitekjuhópa. Nýútskrifaður kennari er með röskar 300 þús. kr. á mánuði. Þá sjáum við vel að einstætt foreldri sem er kennari með tvö börn stendur ekki undir húsnæðiskostnaði. Hvert erum við þá komin? Samkvæmt nýlegu fjárlagafrumvarpi flokkast viðkomandi sem millitekjuhópur en hann ræður ekki við einfalt húsnæði. Það er viðvarandi vandamál sem ekki er hægt að loka augum fyrir.

Varðandi síðan umræðuna um algilda hönnun og endurskoðun á byggingarreglugerð þakka ég hv. þm. Steinunni Þóru Árnadóttur fyrir ábendingu hennar. Þegar við viljum endurskoða byggingarreglugerðina viljum við endurskoða hana út frá einhvers konar hagsmunamati. Það verður að vera einhvers konar hagsmunamat. Ég held að skipti miklu að við aukum veg algildrar hönnunar, en ég held við verðum líka að hugsa hvort við búum við þær aðstæður að við getum gert ríkari kröfur t.d. en önnur Norðurlönd í byggingarreglugerð. Þegar við horfum til þess að sárasti skorturinn núna er á litlum íbúðum, að það vantar litlar íbúðir, meðan á Norðurlöndunum er til gríðarlegur stokkur af litlum íbúðum, efast ég um að skynsamlegt sé að byrja á að banna byggingu lítilla íbúða. Það virðist í reynd vera niðurstaðan að eins og byggingarreglugerðin er núna sé bara bannað að byggja íbúðir eða ekki hægt að hanna íbúðir sem eru minni en 70 fermetrar. Það held ég að sé verulegt vandamál.

Það má líka nefna einangrunarkröfurnar, sem eru mjög skynsamlegar í löndum sem brenna kolum til að kynda hús, en það er alveg spurning hvort við verðum að ganga jafn hart fram í einangrun þegar við kyndum með heitu vatni. Það eru slíkir þættir sem ég tel að við þurfum að horfa á af fullri sanngirni. Í viðhorfskönnunum segist fólk helst vilja búa í gamla bænum þar sem ráðandi form byggðar er þriggja hæða hús. Með nýrri byggingarreglugerð er gerð krafa um lyftu í þriggja hæða húsi í öllum tilvikum. Þrýstingur verktaka verður óhjákvæmilega á að byggja fimm hæðir, sem skapar aftur vandamál í skipulagsmálum.

Mér finnst við verða að hugleiða eftirfarandi: Viljum við koma í veg fyrir að hægt sé að byggja borgarhverfi af þeirri gerð og samsetningu sem eru vinsælust meðal fólks í dag?

Það er líka athyglisvert að áður en nýja byggingarreglugerðin var sett bjuggum við í tvöfalt stærra húsnæði en Finnar. Mér finnst það umhugsunarefni hvort það sé forgangsverkefni að auka enn þann stærðarmun þegar byggingarkostnaður er alvarlegasta vandamálið sem við er að glíma.

Ég nefni líka bílastæðakröfurnar sem eru orðnar mjög íþyngjandi í byggingarreglugerð þar sem ungt fólk þarf að borga bílastæði í kjallara upp á 3, 4 milljónir til viðbótar við íbúðina o.s.frv.

Það eru allir þessir þættir sem ég held við þurfum að horfa á varðandi hvernig við getum búið umgjörð um byggingarreglugerðina þannig að hún samrýmist þörfum allra, líka uppsafnaðri þörf í landinu fyrir litlar íbúðir. Það hafa ekki verið byggðar litlar íbúðir í áratugi. Okkur vantar stokk af litlum íbúðum sem getur verið val fyrir fólk sem þarf á ódýru, litlu húsnæði að halda.

Varðandi síðan Íbúðalánasjóð og leigufélagið þar vil ég ítreka það sem hér hefur komið fram; auðvitað þarf þar að spýta í. Ég hef líka áhyggjur af því sem ég heyri vítt og breitt um landið að Íbúðalánasjóður sé kominn í þá stöðu núna að stöðva viðskipti með fasteignir. Maður heyrir það á Patreksfirði, Bíldudal, Höfn í Hornafirði, að sjóðurinn neiti að samþykkja kaupsamninga vegna þess að verðið sé hærra en menn hafi ákveðið að sé markaðsverð á viðkomandi stöðum. Það er orðið vandamál fyrir þessa staði á landsbyggðinni þegar atvinnulíf er að glæðast og eftirspurn eftir íbúðum að aukast. Það er auðvitað svolítið skrýtin staða sem lánasjóður í eigu ríkisins er kominn í ef hann er farinn að standa í vegi fyrir eðlilegri framþróun á íbúðamarkaði úti um land. Það þarf auðvitað agaða umgjörð utan um Íbúðalánasjóð að þessu leyti. Hann verður að gera sitt í þessum efnum.

Ég vil að síðustu ítreka ósk mína um að málinu verði vísað til velferðarnefndar og að við semjum okkur niður á niðurstöðu um þingsályktun um þetta málefni sem allir flokkar geta sætt sig við.



Till. gengur til síðari umr. 

Till. gengur til velfn.