143. löggjafarþing — 7. fundur
 10. október 2013.
samstarf við Færeyjar og Grænland vegna fækkunar kvenna á Vestur-Norðurlöndum, fyrri umræða.
þáltill. ÍVN, 39. mál. — Þskj. 39.

[13:42]
Frsm. ÍVN (Unnur Brá Konráðsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir þingsályktunartillögu þar sem gert er ráð fyrir því að samstarf Íslendinga, Færeyja og Grænlands verði um að gera samantekt um orsakir fækkunar kvenna á Vestur-Norðurlöndum. Við skorum hér með á ríkisstjórnina að efna til slíks samstarfs sem felst í því að gera samantekt yfir þær kannanir og rannsóknir sem lúta að orsökum þess að konum fækkar hlutfallslega meira en körlum meðal íbúa á Vestur-Norðurlöndum og að teknar verði saman niðurstöður slíkra rannsókna og kannana en einnig lagðar fram tillögur og stefnumörkun sem miðar að því að snúa þessari þróun við.

Tillagan felur ekki í sér að stjórnvöld eigi að fara út í nýjar rannsóknir. Það liggja fyrir talsverðar rannsóknir í nágrannalöndum okkar og horfum við þá aðallega til Norðurlandanna, en maður hefur rekið sig á það í samtölum við til dæmis þingmenn á þingi Sama í Noregi að menn hafa áhyggjur af því ástandi sem hér er lýst, þ.e. að konum virðist vera að fækka á þessum jaðarsvæðum.

Tillagan felur í einfaldleika sínum í sér að safna saman upplýsingum á einn stað þannig að við getum lært af þeim rannsóknum sem þegar liggja fyrir og stjórnvöld, og þá sérstaklega stjórnmálamenn og þeir sem hér sitja, geti áttað sig á því hvers vegna staðan er svona og síðan í kjölfarið reynt að finna út úr því hvort og hvernig er hægt að bregðast við. Þetta er því ekki ný rannsókn heldur samantekt og mikilvægasti hlutinn af því öllu er að draga saman tillögur um það hvernig megi snúa þróuninni við með vísan í reynslu annarra landa eða svæða, sem leggja má til grundvallar þessari stefnumörkun.

Það er ljóst að vandamálið er þekkt og helsta áskorunin í Færeyjum er fólksfækkun, einkum fækkun kvenna. Það sama má segja um Grænland, misjafnt þó eftir svæðum, en það er síst á Íslandi sem við þekkjum þá þróun. Engu að síður erum við skyld og svæðin eru lík að mörgu leyti, sérstaklega hinar dreifðari byggðir, þannig að þetta er mikilvægt verkefni sem ég vonast til að ríkisstjórnir landanna bregðist hratt og vel við og að þingsályktunartillagan muni bera árangur.

Herra forseti. Að lokum óska ég eftir því að tillögunni verði vísað til umfjöllunar í utanríkismálanefnd.



[13:45]
Vilhjálmur Bjarnason (S):

Virðulegi forseti. Ég fagna að mörgu leyti tillögu Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins. Ég athugaði tölur hér á Íslandi í vikunni og það kom mér svo sem ekkert á óvart að það eru mörg jaðarsvæði á Íslandi þar sem konum hefur fækkað en aftur fjölgað í kauptúnum og kaupstöðum á Suðvesturlandi. Þau áhrif hér sem hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir lýsti eru því fyrir hendi innan lands. Eins og ég sé það er þetta hluti af spekileka eða fólksflótta eða atgervisflótta, hvað sem við getum kallað þá þróun, og ég held að það byggist á því að atvinnutækifæri fyrir konur eru á ákveðnum svæðum. Það er hart að búa í landi þar sem atvinnutækifæri dreifast ójafnt þannig að mér þykir rétt að nefndin alla vega horfi til þess að athuga ástand innan lands líka.

Herra forseti. Ég lýk hér máli mínu.



[13:47]
Frsm. ÍVN (Unnur Brá Konráðsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni sem hefur blandað sér í umræðuna fyrir ábendinguna. Það er alveg ljóst að Ísland er líka hérna undir en engu að síður er vandinn alvarlegri í Færeyjum og Grænlandi og menn hafa miklar áhyggjur. Ástæðan fyrir því að það eru þessi þrjú lönd sem standa að ályktuninni er að við áttum okkur á því að við eigum þetta sameiginlega verkefni fyrir höndum, að átta okkur á orsökunum, sem við vitum svo sem, átta okkur á umfanginu og reyna svo að leiða fram einhverjar tillögur um það hvernig megi bæta úr.



Till. gengur til síðari umr. 

Till. gengur til utanrmn.